Feeds:
Færslur
Athugasemdir

Archive for október, 2005

Nei, mig langar ekkert til agnúast út í það hvernig DV tekur á þjóðfélagsmálum og fjallar um þau, á Íslandi er töluvert meira en nóg til af siðprúðum kverúlöntum sem nenna því. Að kvarta yfir subbulegum efnistökum í DV er í mínum huga álíka gáfulegt og að kaupa sér Andrésblað og hneykslast á því að hann sé berrassaður. Ég hef nefnilega sjálfur stundum lúmskt gaman af subbulegum efnistökum og les DV auðvitað með þeim fyrirvara að ég sé með yfirlýstan senseisjonalisma í höndunum og tek því sem í blaðinu er þarafleiðandi sem slíku.
Þar sem þeir á Fréttablaðinu hafa fyrir allnokkru fengið þá snilldarhugmynd að bera blaðið ekki út til mín festi ég kaup á DV núna um helgina, svona til að hafa eitthvað að lesa annað en Tinna og verð að segja að ég varð sármóðgaður með það sem í blaðinu var.
Í fyrsta lagi er fyrirsögnin „Söru Birnu hlakkar til að sjá Sölku“ (bls. 43) ófyrirgefanleg. Ég kaupi DV til að lesa subbuleg efnistök, ekki subbulega íslensku. Hafi þessi fyrirsögn átt að þjóna þeim tilgangi að ganga fram af fólki eins og mér með því sem hún segir tókst það. Hún segir nefnilega: „Fólk getur fengið vinnu sem blaðamenn á DV án þess að kunna íslensku.“
Í öðru lagi er stór hluti blaðsins uppspuni frá rótum. Ég sá á forsíðu að í blaðinu er fjallað um það að Þórey Edda Elísdóttir, stangarstökkvarinn knái, kynþokkafulli og vinstri-græni, þarf ekki að hafa fjárhagsáhyggjur lengur. Þetta þóttu mér góðar fréttir. Verra þótti mér þó að helsta átórítetið um framtíðarhorfur Þóreyjar var spilastokkurinn hennar Ellýar Ármannsdóttur. Að stuttu viðtali við Þóreyju loknu eru birtar myndir af tarotspilum og út frá þeim endurtekið það helsta sem kom fram í viðtalinu; að hún sé meðvituð um líðan sína, að hún viti hver hún er í raun og veru, að henni er ráðlegast að halda fast í drauma sína og óskir um að allt fari eins og plön hennar segja til um, hún veit hvert hún ætlar sér í lífinu, jada jada jada … m. ö. o. útjaskaðar vitaskuldir á útjaskaðar vitaskuldir ofan. Svo kemur heil opna um fræga fólkið, Védís Hervör, Guðlaugur Þór, Þorgerður Katrín og Rúni Júl eru líka tarotuð og stjörnuspekjuð sundur og saman.
Hver er útkoman? Jú. Védís Hervör getur tjáð tilfinningaorku sína bæði jákvætt og neikvætt. (Hver getur það ekki?) Þorgerður Katrín er siðfáguð, aðlaðandi, félagslynd og fjölmargt annað sem hver maður getur sagt sér sjálfur án þess að skoða stjörnukortið hennar. Rúni Júl elskar konuna sína. (Þessi fullyrðing væri auðvitað mjög vafasöm ef tarotspilin hennar Ellýar styddu hana ekki.) Bergþór Pálsson er fullur af lífi og vilja til að skara fram úr. (Þetta varð mér að vísu ljóst um leið og ég hitti hann, en Ellý þurfti þess ekki einu sinni – bara að vita afmælisdaginn hans.)
Það sem ég er sárhneykslaður á er þetta: Fyrst það er á annað borð verið að segja manni eitthvað um fræga fólkið sem ekki þarf að rökstyðja með öðru en spilastokki og himintunglunum hlýtur að vera hægt að láta sér detta eitthvað í hug sem ekki er himinhrópandi augljóst án þessara hjálpartækja, eitthvað aðeins áhugaverðara en þetta: „Þegar þú (Guðlaugur Þór) ákveður að byrja á að takast á við veröldina eins og hún er en ekki eins og þú vilt að hún sé þá nærðu áttum svo sannarlega.“ (bls. 38) – Ef þessi fullyrðing á ekki við um einhvern af tegundinni maður, vinsamlegast látið mig vita.
Nei. Ég skal segja ykkur sannleikann um allt þetta fólk samkvæmt þeim fræðum, spekjum, stúdíum og dulargáfum sem ég hef lagt ríka stund á undanfarin ár og kynnt mér í þaula og eru jafnmarktæk og þessi þvættingur. Innbyrðis afstaða sviptivinda í Grafarvogi bendir einfaldlega til þess að Guðlaugur Þór sé ekkert annað en drykkfelldur ofstopamaður. Skjálftavirkni á Reykjanesi tekur ennfremur af öll tvímæli um að Védís Hervör er þungt haldin af brókarsótt á háu stigi. Mynstrið sem droparnir mynduðu á baðherbergisgólfinu þegar ég pissaði í morgun sýna svo ekki verður um villst að Þorgerður Katrín svíkur undan skatti og hvað Rúna Júl og frú varðar bera fæst orð minnsta ábyrgð ef marka má kapalinn sem ég lagði í tölvunni minni áðan.
Væri ekki skemmtilegra að lesa eitthvað svona? Af hverju er ekki eitthvað svona skrifað í DV fyrst það byggir á alveg jafnáreiðanlegum heimildum? Fyrst þeir á DV hafa ekkert þarfara við síður blaðsins að gera en að leggja þær undir bull, af hverju finna þeir sér þá ekki bullara sem hefur ímyndunarafl til að bulla eitthvað sem hver maður getur ekki sagt sér sjálfur, eitthvað sem ekki er bara ömurlega óintressant sóun á pappír og prentsvertu?

Read Full Post »

Ég geri ekki mikið af því að lesa fasteignaauglýsingar, en ég hef þó hnotið um það nokkrum sinnum undanfarna daga að fasteignasali hér í borg hefur hvað eftir annað auglýst til sölu eign við Laugarveg. Ég veit ekki með ykkur, en ekki dytti mér í hug að kaupa fasteign af fasteignasala sem getur ekki einu sinni stafsett heiti götunnar sem fasteignin er við, einkum og sér í lagi ef hún er við sjálfan Laugaveginn. Er ég stafsetningarnörd og málfarsfasisti eða ætti svona lið ekki að fá sér vinnu við eitthvað annað?

Read Full Post »

Ég er mikill aðdáandi Harry Potter bókanna. Ég er ekkert yfir það hafinn að viðurkenna að ég les þær sjálfum mér til mikillar ánægju og veigra mér ekki við að standa í biðröð í bókabúðum að næturþeli til að verða mér úti um nýjustu bókina í ritröðinni áður en hún selst upp. Þessar bækur eru einmitt gott dæmi um fyrirtaks barnaefni, en eitt helsta einkenni þess er einmitt að fullorðnir hafa gaman af því líka. Boðskapurinn er líka í anda allra góðra barnabóka: Dyggðir eins og hugrekki, réttsýni, staðfesta og sönn vinátta eru meira virði en skilyrðislaus hlýðni, undirgefni og virðing fyrir yfirvaldinu.
Illmennið í Harry Potter bókunum er Voldemort, en af honum stafar slík ógn að hann gengur alla jafna undir nafninu Hann-sem-ekki-má nefna. Voldemort er allt sem Harry er ekki. Valdagræðgi hans nær út yfir gröf og dauða, hann óttast ekkert eins mikið og einmitt dauðann og gleymskuna og til að ná sínu fram beitir hann kúgunum, ofbeldi og huglausum handbendum sem uppfylla allar hans óskir af ótta við reiði foringjans og afleiðingum þess að óhlýðnast honum, því þeim sem ekki makka rétt er jafnan refsað grimmilega. Sjálfstæð hugsun er dauðasök í þeim félagsskap.
Það er reyndar merkilegt að svona starfsaðferðir virðast einmitt einkenna leiðtoga sem ekki má nefna, en eins og alþjóð er orðið kunnugt hefur fráfarandi formaður Sjálfstæðisflokksins einmitt gengið undir nafninu Hann-sem-ekki-má-nefna á ritstjórnarskrifstofum Morgunblaðsins um allnokkra hríð.
Ég er viss um að Hann-sem-ekki-má-nefna hefur lesið Moggann í gær með blendnum tilfinningum. Þegar ég sá það fyrst fann ég fagnaðarbylgju fara um mig, því aukablöð á borð við það sem fylgdi honum í gær eru nefnilega yfirleitt ekki gefin út nema um dauða menn. En við lestur kom í ljós að hann er enn á lífi og sparkandi og ekkert skárri í skapinu, eins og sást best á skítafýlubombunni sem hann startaði landsþingi sinna manna með í gær.
Auðvitað er það þrúgandi kvöl að vera undir foringja af þessu tagi, að stjórnast af ótta við reiði að ofan, að vera viljalaust verkfæri geðvonsku og duttlunga leiðtogans. Þess vegna fagna fáir því meira en einmitt dyggustu fylgjendur hans þegar hann loksins hverfur af sjónarsviðinu. Þeir gefa jafnvel út heil aukablöð með lofrullu um hann strax og hann kveður … óþreyjan eftir því að losna undan ægivaldi hans er orðin slík að frelsinu verður að fagna strax. Það er ekki hægt að bíða þess að gröfin gleypi hann áður en skrifuð er minningargrein, öfugt við það sem gert er í þeim tilfellum þegar fólk elskaði leiðtogann og dáði en óttaðist hann ekki bara og skelfdist.
Nú verður gaman að sjá hvort Sjálfstæðismenn geti aftur um frjálst höfuð strokið og farið að hugsa sjálfstætt eða hvort ógnarvald Hans-sem-ekki-má-nefna nái út yfir pólitíska gröf og dauða, hvort íhaldið finni sér önnur pólitísk markmið en þau að klekkja á þeim sem feita fíflinu er persónulega í nöp við, hvort stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins einkennist á næstunni af almennum borgaralegum sjónarmiðum eða hvort hún verði áfram einvörðungu listi yfir það sem ekki þjónar undir hégómleika ónefnds einstaklings, persónulegur gremjulisti Hans-sem-ekki-má-nefna.

Read Full Post »

Forvarnalimra

Mislukkaðasta ljóð sem ég hef ort er að öllum líkindum Fornvarnalimra sem ég orti í fyrra eða hitteðfyrra. Það fattaði hana enginn. Mér var bent á það að markhópurinn skildi alls ekki málfarið. Til að geta gert eitthvað við hana langar mig því að leyfa netlesendum mínum að skoða hana og dæma, hún verður víst ekki – úr því sem komið er – vopnið sem læknar æskulýðinn af ólifnaðinum eins og upphaflegur tilgangur hennar var.

Forvarnalimra

Að reykja og drekka og dópa
er della og sport fyrir glópa
og ennfremur er
það ávallt hjá mér
í samkvæmum sannkallað faux-pas.

Read Full Post »

Ég var að hlusta á útvarpið í dag, nánar tiltekið á Helga Björns syngja með miklum ágætum eitthvað lag eftir Magnús Eiríksson. Í því kom fyrir setningin: „Hvenær verður allt eins og áður?“ eða eitthvað á þá leið. Fínt lag og tiltölulega aulahrollslaus texti eins og yfirleitt úr þeirri átt. En Magnús er alls ekki eina skáldið sem ort hefur eitthvað á þessa leið. Svo virðist vera að sú hugmynd að draga ánægjustundir lífsins eins mikið á langinn og kostur er sé eftirsóknarverð í hugum ótrúlegra margra. Ég vil leyfa mér að vera ósammála, ekki bara á forsendunum: „… ef það væru alltaf jólin …“ o. s. frv.
Það er eðli lífsins að það heldur áfram. Það líður og það sem leið er og verður liðið. Jafnvel mesti ánægjudagur lífsins yrði að „Groundhog Day“ kvalræði ef maður þyrfti að ganga í gegn um hann nokkurhundruð sinnum í röð. Ekki vildi ég að „allt yrði eins og áður“ jafnvel þótt þetta „áður“ vísaði til mestu gleðistunda lífs míns. Ef allt yrði aftur eins og það var þá … þá gæti ég ekki minnst þeirra stunda, hlýnað um hjartaræturnar og fyllst þakklæti fyrir að hafa fengið að upplifa þær.
Allt sem lifir tekur breytingum. Reyndar heldur það líka áfram að taka breytingum eftir að það deyr en þá er það dautt svo það nær ekki að verða vitni að þeim. Ef lífið væri alltaf eins og það var þegar það var best væri það ekki líf. Það væri ekki einu sinni dauði. Það væri einhvers konar steingervingur með meðvitund … örlög verri en dauðinn!

Kannski er ekki að marka mig og auðveldara fyrir mig en flesta að vera laus úr viðjum fortíðardýrkunarinnar, en ég bý við það að fortíð minni hefur verið mokað upp á vörubílspalla og dreift um byggðir landsins.
Ég var í sveit á hverju sumri fram að fermingu hjá afa mínum og ömmu á Stóru-Fellsöxl í Skilmannahreppi. Þar voru iðjagræn tún, kýr á beit, mjór malarvegur fram hjá bænum og urð og melar fyrir ofan bæinn alveg upp í fjall. Gömlu hjónin voru nítjándualdarfólk, fædd í torfbæjum löngu fyrir vélvæðingu sveitanna. Þau urðu vitni að meiri samfélagsbreytingum en nokkur önnur kynslóð Íslendinga. Á bænum var farið með rímur, kveðist á og afi minn kenndi mér ferskeytlur og undirstöðuatriði bragfræðinnar. Á haustin fór ég síðan heim í Vesturbæinn í Reykjavík. Ég ólst með öðrum orðum upp í skáldsögu eftir Ármann Kr. Einarsson. Nema Ármann hefði líklega ekki haft hugmyndaflug til að setja malagryfju í jaðarinn á heimatúninu.
Þegar ég var lítill var malargryfjan bara lítil hola þar sem skurðgröfur náðu öðru hverju í vörubíl og vörubíl af möl þegar einhvers staðar vantaði möl í nágrenninu. Einhvern tímann á unglingsárum mínum gerðist það hins vegar að ákveðið var að reisa járnblendiverksmiðju í landi næsta bæjar, Klafastaða. Hún gengur í dag undir nafninu Járnblendiverksmiðjan á Grundartanga. Þetta kostaði miklar vegaframkvæmdir, mikla möl.
Síðar var ákveðið að bora göng undir Hvalfjörðinn og leggja Hringveginn í gegn um þau, með þeim afleiðingum að nú liggur hann um túnin hans afa míns, þar sem áður var mjór malarvegur með þriggja stafa númeri (afleggjari af afleggjaranum út á Akranes). Í það þurfti líka mikla, mikla möl.
Gömlu hjónin brugðu búi, húsið lenti fljótlega í niðurníðslu og hefur nú verið rifið. Þegar maður ekur um Þjóðveg 1 undir Akrafjalli má sjá skrýtinn trjálund uppi í hlíðinni, litlu norðan við Fellsenda, lítinn reit með undarlega háum trjám. Þetta er garðurinn sem áður var við bæinn Stóru-Fellsöxl. Á ferðum mínum um landið renni ég stundum upp að gamla bæjarstæðinu og labba þar um, svona til að jarðtengja mig og muna hvaðan ég kem (einhvern veginn finnst mér það hjálpa mér að átta mig á því hver ég er að minna mig á það hvaðan ég er).
Stundum labba ég út fyrir jaðarinn á heimatúninu og skoða gömlu malarnámuna. Hún er horfin. Reyndar er allt horfið, melarnir og móarnir sem ég rak kýrnar um í gamla daga … horfið. Þarna er eitt gapandi tóm. Megninu af jörðinni hans afa míns hefur verið mokað burt, margir hektarar (að því er mér finnst) af æskuslóðum mínum eru horfnir, farnir – þar er nú laust loft og margir metrar niður á fast land sem er bara sandur og sviðin jörð eins langt og augað eygir. Landið þar sem ég steig bernskunnar spor er horfið og í staðinn er komið gat ofan í jörðina, margra metra djúpt og nokkrir hektarar að flatarmáli.
Ekki er einasta að landið sem ég rak kýrnar um sem ungur drengur sé horfið. Kýrnar eru horfnar, bærinn er horfinn, sveitabragurinn er horfinn, afi og amma eru horfin og ungi drengurinn er líka horfinn. Hann varð að manni og heimurinn varð að … þessu.
Það er erfitt að fyllast fortíðarþrá þegar fortíðin er svona gjörsamlega horfin … ekki bara í merkingunni liðin, dáin og grafin – heldur bókstaflega rifin niður, mokað upp á vörbílspalla og ekið burt.

Read Full Post »

Ég heyrði dálítið mjög skemmtilegt í fréttum í gær (nema það hafi verið í fyrradag). Svo virðist sem afkoma útflutningsfyrirtækja í sjávarútvegi sé óviðunandi. Það gladdi mig að heyra þetta. Ég hélt nefnilega að orðskrípin „ásættanlegt“ og „óásættanlegt“ væru alfarið búin að útrýma orðunum viðunandi og óviðunandi úr íslensku máli. Mér þótti gott að heyra þetta hljómfagra orð á öldum ljósvakans aftur, svolítið eins og að heimtan gamlan vin úr helju.

Read Full Post »

Mig langar að vekja athygli lesenda minna á tónleikum sem verða annað kvöld á Gauknum. Ég var beðinn að vera kynnir á þeim og gat auðvitað ekki skorast undan, málefnið er þess eðlis að aðeins hreinræktuð hrakmenni eru ekki reiðubúin til að leggja því lið. Maður verður stundum að minna sig á að það er forréttindi að geta gefið góðu málefni tíma sinn og vinnu. En hvað getur maður gert ef maður er ekki að kynna eða spila eða hafa sig á einhvern hátt í frammi? Svar: Mætt! – Auk þess eru tónlistaratriðin ekki af verri sortinni þannig að það er ekki einasta hægt að skemmta sér heldur gera gagn í leiðinni. Þessum málstað veitir ábyggilega ekki af hverri krónu. Fram koma: Ragnheiður Gröndal, Buff, Ske, Hera, Lokbrá, Hot Damn, Smack, Solid iv, Mínus, Dr. Spock og Ensími.

Read Full Post »

Older Posts »