Feeds:
Færslur
Athugasemdir

Archive for október, 2006

Fyrir nokkrum árum þýddi ég sjónvarpsþætti sem hétu Otrabörnin (PB&J Otter). Þættirnir fjölluðu um þrjú systkin sem bjuggu við Húrravatn (Lake Hoohaw) og ævintýri þeirra og vina þeirra. Þættirnir höfðu uppeldislegt gildi og í þeim var mikið sungið, tvö lög voru í hverjum þætti. Þættirnir voru 65 talsins þannig að auðvelt er að reikna það út að í þeim voru 130 sönglög sem ég þurfti að gera texta við. Sæmilegt það.
Þegar maður er á tímakaupi við að yrkja 130 söngtexta verður maður stundum að hugsa „þetta er fínt fyrir þennan pening“, rumpa þessu af og halda áfram með vinnuna. Ég hugsaði ennfremur á erfiðustu köflunum: „Ólafur Haukur myndi ekki hika við að senda þetta frá sér.“ En meðal þess ólýsanlega amböguhroða sem hann hefur látið frá sér fara má nefna: „Við steypumst beint úr lofti / eins og helekopti …“ Í öllum þessum 130 söngtextum gerði ég aldrei neitt svona skelfilega slæmt. Ólafur hefur að vísu þann status að hjá honum heitir þetta „persónulegur stíll“.
Þessum textum mínum er ég hins vegar búinn að steingleyma öllum með tölu, nema hluta af einum þeirra. Það er af því að ég er svo óánægður með hann. Hann er við lag sem á frummálinu hét: „Blowing Bubbles“. Í þeim þætti voru börnin að blása sápukúlur. Ég orti: „Blásum saman sápukúlur / upp um alla veggi og súlur.“ – sem auðvitað er mér alls ekki samboðið. En það er bara enginn hægðarleikur að finna rímorð við „sápukúlur“. Gallinn er bara að við Húrravatn er ekki ein einasta súla til að blása sápukúlur „upp um“. Þetta myndi ekki bögga Ólaf Hauk en er enn að naga mig.
Þess vegna langar mig að biðja alla vini mína og velunnara að temja sér að segja „upp um alla veggi og súlur“ hvenær sem færi gefst. Í þarsíðasta bloggi mínu kom ég þessum orðum lævíslega fyrir í textanum þannig að þið getið séð það sjálf að þetta er ekkert mjög erfitt ef maður reynir að gera sér far um það. Næst þegar þið ætlið að segja „út um allt“, eða „í stöflum“ eða „í massavís“ gætuð þið sagt „upp um alla veggi og súlur“.
Þannig er hægt að lauma þessu inn í málið og fyrir vikið hljómar það ekki eins afkáralega þegar sagnfræðingar framtíðarinnar fara að garfa í þessu. Þeir hugsa ekki: „Rosalega er þetta klúðursleg þýðing hjá honum,“ heldur: „Þarna hefur þýðandinn haganlega komið hinu þekkta orðasambandi „upp um alla veggi og súlur“ fyrir í textanum.“ Með þessu móti geta allir sem þykir vænt um mig lagst á eitt um að bjarga mannorði mínu gagnvart komandi kynslóðum og um leið auðgað daglegt talmál sitt.
Með fyrirfram þakklæti fyrir hjálpina.

Read Full Post »

Því eru lítil takmörk sett hvað mér drepleiðast rökræður núorðið, eins og ég hafði gaman af þeim þegar ég var yngri. Ég vil jafnvel taka svo djúpt í árinni að fullyrða að fátt sé einmitt betur til þess fallið að eyðileggja samræður en rök. Rök eru þurr og leiðinleg, fyrirsjáanleg og þarafleiðandi fullkomlega húmorslaus. Rökvillur eru fyndnar.
Rök eru legókubbar sálarinnar. Þroskaleikföng. Æfing í að hugsa skýrt fyrir stráka í Morfísleik sem halda að þau leysi lífsgátuna. Með þeim kryfja þeir heiminn eins og þeir skynja hann til að skilja hann betur. En maður vex upp úr þeim. Það býr enginn í húsi úr legókubbum.
Smám saman áttar maður sig á því að það sem skiptir raunverulegu máli, verðmætin sem mölur og ryð fá ekki grandað, byggir ekki á rökum. Ást og fegurð, hamingja og kærleikur – ekkert af þessu er niðurstaða gildrar rökleiðslu. Þetta eru tilfinningar sem eiga það til að þyrma yfir mann, algerlega upp úr þurru, án þess að hægt sé að henda nokkrar reiður á því hvaðan þær koma eða hvers vegna. Stundum eru þær hreinlega ópraktískar, en eru samt þess eðlis að ekki er hægt að leiða þær hjá sér.
Það er ekkert rökrétt við að eyða stórfé og tíma í að slá kúlur ofan í holur í jörðina eða að standa úti í á og veiða fisk sem maður sleppir og koma svo við í fiskbúð á leiðinni heim. Það er ekkert rökrétt við að hafa sérviskulegan smekk og úthella blóði, svita og tárum til að geta haft hlutina nákvæmlega eftir manns eigin höfði. Það er ekkert rökrétt við að fyllast hugarró við að lúta höfði og viðurkenna að sumt geti maður einfaldlega ekki vitað og ákveða í staðinn að treysta í blindni. Samt hafa meintar skynsemisverur staðið sig að þessu öllu og mörgu enn órökréttara og ekki bara sloppið klakklaust frá því heldur beinlínis fundist það auka lífsgæði þeirra. Dýrmætustu svið tilverunnar eru einfaldlega handan raka.
Rök eru gróf einföldun á tilverunni. Tilveran er ekki gerð úr hornréttum einingum sem smella saman á skipulegan hátt. Stundum ræður það eitt hvernig maður kýs að líta á hlutina, því hvort og hvernig þeir yfirhöfuð smella saman. Það er auðvitað þvert á öll rök.
Mesta rökvillan er þó auðvitað sú að ætla að færa rök fyrir því af hverju rök mega sín lítils.

Bakþankar í Fréttablaðinu 29. október 2006

Read Full Post »

Ég fór í Kolaportið í dag, en það er ár og dagur síðan ég lagði síðast leið mína á þann ágæta stað. Þar keypti ég karöflu undir matarolíu (500 kr.) og slatta af vínylplötum (100 kr. – 200 kr. stk.), m. a. hina ódauðlegu „Látum sem ekkert C“ með þeim Halla, Ladda og Gísla Rúnari. Það var bráðnauðsynlegt að fá eintak af henni í hús, því ég hef rekið mig á það að kynslóðamunurinn á heimilinu birtist einkum í því að þegar ég vitna í perlur eins og „Ó, Guðfinna“ eða „Tygg-igg-úmmí“ þá lítur mín heittelskaða á mig eins og ég sé endanlega búinn að missa vitið. Ég lék snilldina fyrir hana í dag svo nú veit hún að næst þegar ég segi: „Hvað heldurðu? – Ég held það. – Það held ég. “ … þá er ég að vitna í menningararfinn en ekki að steypa.
Hins vegar verð ég alltaf dapur alllengi eftir að hafa gengið um ganga Kolaportsins og virt fyrir mér varninginn, því fyrir utan mat og búsáhöld samanstendur hann mestanpart af bókum, kvikmyndum og hljómplötum. Þarna er þetta í kassavís upp um alla veggi og súlur á spottprís. Þarna svigna borð á borð ofan af bókmenntum á fimmtíukall, plötum á hundraðkall og DVD-diskum á litlu meira. Ég hef nefnilega verið að garfa við það sjálfur að semja tónlist, skrifa bækur og jafnvel að leika í kvikmyndum og ég get bara ekki varist ákveðinni tilgangsleysiskennd þegar ég sé allt magnið … allt flóðið af þessu sem þarna er í stöflum á stafla ofan.
Á bak við hverja bók eru ótal vinnustundir einstaklings, allur hans metnaður og stolt, blóð, sviti og tár … og svo týnist afurðin í hrúgum af öðru viðlíka og ókunnugt fólk gerir einhverjum prangara greiða með að kaupa þetta af honum á fimmtíukall. Á bak við hverja plötu er enn meiri vinna, svo ekki sé minnst á hverja kvikmynd.
Til hvers að legga sig fram við að pússa og slípa eitt sandkorn svo það verði fullkomið, nákvæmlega rétt, akkúrat eins og það verður best … til þess að það endi svo á ströndinni? Og þegar maður horfir yfir ströndina með litla, fullkomna sandkornið sitt í hendinni … er nema von að það þyrmi yfir mann? Til hvers er maður að þessu?

Read Full Post »

Sköpun mannsins

Alfaðir í Eden fann
apa, sem um greinar rann,
ætlaði að gera úr honum mann
sem elskaði guð og náungann.

Sat hann við með sveittar brár
sextán hundruð þúsund ár.
Apinn reyndist þrjózkur, þrár,
þykkjukaldur og hyggjuflár.

Að hálfu leyti api enn,
eðlin geymir tvenn og þrenn,
lítil von hann lagist senn.
Lengi er guð að skapa menn.

Örn Arnarson

Read Full Post »

Glöggir lesendur hafa tekið eftir því að Davíð Bullustampur lagði í síðustu viku fram tvær kenningar um eðli og tilurð heimsins hér á þessari síðu. Ásgrímur Sverrisson, vinur minn, hefur hins vegar bent mér á að sú fyrri, skóunarkenningin svokallaða, sé í raun aðeins tilbrigði við hans kenningu um eðli alls sem er. Ég veit ekki hvað sú kenning heitir réttu nafni en við skulum kalla hana Ásgrímsku, svona til að hafa eitthvað heiti á henni.
Ásgrímskan gengur nokkurn veginn út á að heimurinn sé ekki til heldur aðeins sá hluti hans sem maður (þ. e. Ásgrímur) sér hverju sinni. Þannig er hann í stöðugri sköpun og eyðingu eftir því hvernig maður (þ. e. Ásgrímur) fer í gegn um hann. Hann verður til jafnóðum eftir því sem eitthvað nýtt ber fyrir augu manns (þ. e. Ásgríms) um leið og hann eyðist að baki manns (þ. e. Ásgríms). Það að aðrir þræti fyrir að þeir leysist upp og hætti að vera til þegar maður (þ. e. Ásgrímur) hefur þá ekki fyrir augunum gerir ekki annað en að styðja kenninguna.
Ég get ekki þrætt fyrir réttmæti þessarar aðfinnslu Ásgríms og verð að beygja höfuðið í skömm og viðurkenna að skóunarkenningin er í raun aðeins daufur endurómur eða eftiröpun Ásgrímskunnar. Sjálfsagt er Ásgrímskan síðan aðeins tilbrigði við eða bergmál af enn annarri frumspekilegri hugmynd um eðli alls sem er. Það hlýtur eiginlega að vera – í ljósi öpunarkenningarinnar.
Sömuleiðis hefur Jimy Maack nefnilega réttilega bent á að óunarkenningin, sem ég lagði líka fram í síðustu viku, er í raun aðeins tilbrigði við eða eftiröpun af S. E. P. lögmálinu (E. M. V. (Ekki mitt vandamál)?) sem Douglas Adams kynnti í skáldsögunni Life, The Universe and Everything.
Ég hef því komist að því að það sé einfaldlega ekki hægt að gera eða hugsa neitt sem ekki hefur verið gert eða hugsað áður, að það að vera frumlegur sé í raun aðeins að vera sérlega ónákvæmur í öpun sinni af því sem áður hefur verið gert eða hugsað. Þetta gildir ekki bara um mannanna verk heldur er þetta náttúrulögmál sem gildir um allt sem maður sér. Öll sköpun eða þróun er í raun aðeins léleg öpun af lélegri öpun af lélegri öpun … og þannig endalaust. Heimurinn verður m. ö. o. til við síendurtekna öpun.
Sú staðreynd að þessi kenning er aðeins stef við athugun sem Andri Snær Magnason gerir í upphafi Draumalandsins gerir ekki annað en að renna stoðum undir hana.
Vonandi getum við þá núna hætt að vera alltaf ósammála og sífellt að þræta um það hvor hafi haft á fullkomlega réttu að standa, Darwin eða Móses, fylkt liði að baki öpunarkenningunni og gerst einaðir og einarðir öpunarsinnar.

Read Full Post »

Stundum finnst mér beinlínis sárt að sjá hvað það er augljóst að ég er í vitlausum bransa. Ég sá þetta til dæmis greinilega í morgun þegar ég flétti Séðu og heyrðu á kaffihúsi í Hafnarfirði. Fyrirsögnin: „Loksins bragðgott próteinduft“ gat einhvern veginn ekki annað en fangað athygli mína, ekki síst af því að undirfyrirsögnin var: „Fengu hugmyndina á Nordica Spa.“ Greinin var skreytt myndum af gleiðbrosandi vaxatrræktarmönnum í faðmlögum.
Ég sé þá félaga alveg fyrir mér á Nordica Spa pína eitthvað ógeðslegt próteinduft ofan í sig þegar annar segir: „Af hverju er ekki til bragðgott próteinduft?“ Og hinn segir: „Heyrðu! Þetta er brilljant hugmynd hjá þér! Af hverju skyldi engum hafa dottið þetta í hug áður?“ Ég er nefnilega alveg viss um að ef ég væri próteinduftæta hefði ég fengið þessa hugmynd langt á undan þeim, hrint henni í framkvæmd, orðið ríkur og frægur og hlegið alla leið í bankann.
En svona er maður nú sjálfhverfur. Ef ég væri týpan sem hefði próteinduftát að aðaláhugamáli er alveg óvíst að ég hefði verið sá fyrsti í þeim hópi til að hafa hugmyndaflug í að láta mér detta eitthvað jafnfáránlega langsótt í hug og bragðgott próteinduft – þótt mér finnist, núna þegar ég veit að það er til, einkennilegt að það skuli ekki hafa komið fram fyrr. Auk þess er fullljóst að jafnvel þótt mér hefði tekist að hugsa svona langt út fyrir rammann, sem slíkur lífsstíll virðist af þessu að dæma sníða sér, hefði ég sennilega ekki haft döngun í mér til að gera eitthvað í málinu, heldur afgreitt þetta eins og hvert annað draumórarugl sem aðeins gæti ræst í mínum trylltustu fantasíum.
Auðvitað er ekki hægt annað en að taka ofan af fyrir svona mönnum. Málið er nefnilega ekki hvað maður getur heldur hvað maður gerir – hve óskiljanlegt sem manni kann að virðast að enginn skuli hafa gert það áður.

Read Full Post »

Það sem snertir mann ekki og maður þarf ekki að hafa neinar áhyggjur af er í raun ekki til fyrir manni. Svo dæmi sé tekið þá efast ég um að ósónlagið hafi í raun verið til í huga alls þorra almennings fyrr en honum var kennt að óa við þynningu þess.

Heimurinn verður með öðrum orðum til við óun.
Fylgist spennt með í næstu viku þegar hinn gallharði óunarsinni Davíð Bullustampur leggur fram öpunarkenninguna.

Read Full Post »

Older Posts »