Feeds:
Færslur
Athugasemdir

Archive for desember, 2006

Takk fyrir þau gömlu!

Read Full Post »

Gleðileg jól

Höfum eitt á hreinu. Jól eru ekki kristin hátíð. Orðið „jól“ hefur verið í málinu mun lengur en kristnin í þjóðinni, það er svo fornt að uppruni þess er í raun hulin ráðgáta. Heiðnir menn héldu hátíð í tilefni af vetrarsólstöðum og kölluðu hana „jól“.
Höfum annað á hreinu. Við vitum ekki hvenær ársins Jesús fæddist. Líkurnar á að það hafi verið 24. desember eru einn á móti 365. Hafi hann fæðst þennan dag er það hrein tilviljun. Auk þess fæddist Jesús löngu áður en tímatal okkar var búið til og afar óvísindalegt er að ætla að reikna einstakar dagsetningar aftur í tímann langt aftur fyrir upphaf þess.
Höfum loks á hreinu að Jesús, sá er fæddur var af Maríu þeirri sem kölluð er „Mey“ og píndur á dögum Pontíusar Pílatusar, var til. Til að trúa því að persónan Jesús Maríuson sé uppspuni frá rótum þarf mun meiri trúgirni en til þess að viðurkenna að hann hafi verið til, heimildirnar eru bara of sannfærandi. Hvað einstök æviatriði hans, ætterni í karllegg og sagnfræðilegan áreiðanleika hinna ýmsu frásagna Nýja testamentisins varðar, þá verða menn hins vegar að ákveða hver fyrir sig að trúa postullegu trúarjátningunni eða ekki – hún verður hvorki sönnuð né afsönnuð með þeim aðferðum sem við beitum hinn mælanlega raunveruleika. Í trúarsannfæringu felst nefnilega meðal annars fullvissa um að til sé sannleikur sem er dýpri og æðra eðlis en sannleikshugtak efnisheimsins. Þannig getur fjöldi manns til dæmis vitnað um áhrif bænarinnar á líf sitt þótt þau séu auðvitað ekki mælanleg með neinum þekktum aðferðum.
En þegar upp er staðið þá er ekkert skrýtið að kristið fólk skuli velja jólin til að fagna fæðingu frelsarans. Það er einfaldlega allt of gráupplagt, öll táknfræðin æpir beinlínis á það. Myrkur (fáfræðinnar, dauðans, mannvonskunnar, óttans og alls sem myrkrið getur táknað) tekur að hopa fyrir birtu (sannleikans, lífsins, kærleikans, friðarins og alls þess sem Jesús stendur fyrir).
Að þessu sögðu vil ég óska landsmönnum öllum árs, friðar og gleðilegra jóla. Ennfremur óska ég ykkur öllum til hamingju með birtuna í lífi ykkar, hvaðan sem hún er runnin.

(Bakþankar í Fréttablaðinu 24. 12. 2006)

Read Full Post »

Swiss Miss …

… er ekki svissneskt kakó heldur amerískt. Mér finnst það eiginlega hálfgert svindl. Það eyðileggur alveg fyrir mér fjallakofatengdan ævintýraljómann af því að neyta þess. En það hlaut eiginlega að vera. Ef það væri svissneskt héti það ekki Swiss Miss heldur líklega Schweizerisches Fräulein, sem hljómar auðvitað ekki næstum því eins girnilega.

Read Full Post »… og villimennskan er rétt að byrja!

Read Full Post »

Álverið í Straumsvík hyggst stækka verksmiðjuna úr 180.000 tonnum í 460.000 tonn. Losun á SO2, flúor og gróðurhúsalofttegundum mun aukast verulega. Orkuþörfin verður eins og þreföld raforkuþörf Reykjavíkur. Þynningarsvæði mengunarefna verður stærra en íbúðarbyggðin í Hafnarfirði.

(Smellið á myndina til að sjá hana stærri.)

Read Full Post »

>

Smellið á myndina til að sjá hana stærri .
Ef málefnið vekur áhuga ykkar kynnuð þið að eiga heima hér.

Read Full Post »

Mér hafa borist fyrirspurnir um hvað sé rétt heiti á þeirri þjónustu að selja fólki jólatré. Elías spyr hvort það eigi að vera eitt eða tvö S í „jólatrés(s)sala“ og Bára bætir um betur og segist hafa haldið að „jólatrjáasala“ væri hið eina rétta heiti á fyrirbærinu.
Segja má að það komi vel á vondan að ég skuli vera spurður um þetta atriði, því ekki er langt síðan það var mér einmitt sérstakt kappsmál að orðinu „jólatrés(s)sala“ væri útrýmt úr íslensku og í staðinn væri talað um „jólatrjáasölu“. Gekk þetta svo langt að árum saman beindi ég öllum mínum jólatrjáaviðskiptum að flugbjörgunarsveitinni – á málræktarlegum forsendum. Hún var eini söluaðili jólatrjáa sem auglýsti þessa fjáröflun sína sem „jólatrjáasölu“. Þess ber að geta að á þessum árum var ég eindregið fylgjandi svokallaðri „preskriftífri“ málfræði.
Síðan þá hef ég mildast talsvert í afstöðu minni og finnst núorðið frekar við hæfi að tala um „viðeigandi“ og „óviðeigandi“, „eðlilega“ og „óeðlilega“ eða jafnvel „viðurkennda“ málnotkun frekar en að setja sig í það dómarasæti að kalla meðferð annarra á móðurmáli sínu „rétta“ eða „ranga“, nema maður geti fært alveg sérstaklega góð rök fyrir því. Strangt til tekið talar maður aðeins „rangt“ mál þegar maður talar þannig að maður er annað hvort misskilinn eða ekki skilinn. Því setningar og orð hafa í sjálfu sér enga aðra merkingu en þá sem samkomulag ríkir um að þau hafi.
Auðvitað segir það sig sjálft að sá sem selur jólatré selur fleiri jólatré en eitt og því er eðlilegt að rætt sé um jólatrjáasölu. Að það geri orðið „jólatrés(s)sala“ rangt er hins vegar fráleitt. Fjölmörg dæmi eru í íslensku um samsett orð þar sem fyrri hlutinn er hafður í eintölu þótt merkingarlega sé augljóst að „réttara“ væri að hafa hann í fleirtölu. Dæmi um það gæti verið orðið „rækjusalat“. Auðvitað er ekki bara ein rækja í rækjusalati, en samt kannast ég hvorki við orðin „rækjasalat“ né „ræknasalat“. Það veldur einfaldlega engum misskilingi þótt fyrri hlutinn sé hafður í eintölu. Fyrir því eru eflaust fagurfræðilegar ástæður, ætli „rækjusalat“ þyki ekki fara betur í munni en „ræknasalat“.
En vilji maður tala um „jólatré(s)sölu“, hvort á maður þá að hafa hana með einu S-i eða tveim? Að mínu mati er hér einungis um smekksatriði að ræða. Færa má rök fyrir því að eðlilegra sé að hafa tvö S, að fyrri hlutinn sé orðið „jólatré“ í eignarfalli, þ. e. „jólatrés“ enda hér um „sölu jólatrés“ að ræða. Hins vegar er eingarfallssamsetning ekki algild regla í tungumálinu og fjölmörg dæmi til um stofnsamsetningar. Þá er fyrri hluti samsetts orð ekki eignarfallsmynd heldur stofn orðsins. Sem dæmi má nefna orðin „hestbak“ (en ekki „hestsbak“) og „húsþak“ (en ekki „hússþak“). Þar sem hér er um að ræða sölu á allmörgum jólatrjám en ekki einu jólatré má jafnvel færa gild rök fyrir því að hér sé stofnsamsetning betur við hæfi en eignarfalls, að „jólatré“ sé þá eins konar magnorð, líkt og þegar talað er um „fiskbúð“ (en hvorki „fisksbúð“, „fiskjarbúð“ né „fiskabúð“).
Það hvort fólk talar um jólatrjáasölu, jólatréssölu eða jólatrésölu lýsir því að mínu mati einungis íslenskusmekk þess – ekki íslenskukunnáttu. Sjálfur tel ég ennfremur aðrar og hættulegri ógnir steðja að móðurmálinu en þá hvert þessara þriggja orða fólk notar um þá göfugu iðju að selja fólki jólatré og að við, verndarar tungunnar, ættum frekar að beina sjónum okkar að þeim.

Read Full Post »

Older Posts »