Eitt hafa þeir, sem náðu kjöri á stjórnlagaþingið sáluga, umfram Alþingismenn. Þeir hafa persónulegt umboð kjósenda sinna. Þeir voru kosnir sem einstaklingar og sætin eru þeirra. Þess vegna er auðvelt að bera virðingu fyrir stjórnlagaþingmönnum sem ekki hafa áhuga á að sitja í stjórnlagaráði og þiggja þannig umboð sitt frá Alþingi. Það var ekki það sem lagt var upp með.
Alþingismenn eru aftur á móti ekki kosnir á þing. Flokkar eru kosnir á þing. Alþingismenn þiggja sæti sín frá flokkunum sem fengu atkvæðin. Þingsætin ættu því að vera flokkanna en ekki einstaklinganna. Því miður hefur séreignarhyggja þingmanna gagnvart þingsætum sínum þó komið í veg fyrir að þeir geri sér grein fyrir þessu augljósa grundvallaratriði með oft afkáralegum afleiðingum. Ljótasta myndin, sem ég man eftir því að svik þingmanna af þessu tagi við kjósendur flokkanna, hafi tekið á sig var þegar Kristinn H. Gunnarsson, þá þingmaður Alþýðubandalagsins, sagði sig úr flokknum vegna persónulega óvinsælda og gekk til liðs við Framsóknarflokkinn. Þá stóðu allaballar á Vestfjörðum allt í einu frammi fyrir því að með atkvæði sínu höfðu þeir eflt ríkisstjórn Davíðs Oddssonar. Erfitt er að ímynda sér að það hafi vakað fyrir þeim á kjörstað.
Færðu inn athugasemd