Feeds:
Færslur
Athugasemdir

Archive for maí, 2011

Vor og hús

Það fer óneitanlega pínulítið í taugarnar á mér þegar Íslendingar dæsa og stynja af aðdáun á útlensku náttúrufari. „Sjáðu hvað vorar snemma!“ „Sjáðu kirsuberjatrén í blóma!“ „Finndu hvað það er orðið heitt strax í maí!“ Mér finnst það satt  best að segja ekkert merkileg uppgötvun að það sé hlýrra í veðri sunnar á hnettinum. Reyndar vil ég ganga lengra og segja að íslenskt vor sé mun undursamlegra fyrirbæri. Það er miklu stórfenglegri vitnisburður um sigur lífsins á dauðanum, sigur hins mjúka á hinu harða, þegar brothætt, íslensk grasnál byrjar að stingast upp úr miskunnarlausum freranum heldur en þegar hnausþykkur frumskógargróður dafnar í loftslagi þar sem varla er hægt að reka kústskaft í jörðu án þess að það laufgist. Lítill og aumur geldingahnappur vinnur miklu meira afrek með því að skjóta rótum í hrjóstruga, íslenska urð heldur en suðræn og litfögur lilja vinnur með því að blómstra við þau skilyrði sem jurtagróðri eru einmitt hve hagfelldust.

Það sama gildir um hús. Reykjavík er vissulega ósköp fátækleg og ómerkileg sé hún borin saman við miðaldabyggingar evrópskra menningarborga. En mér finnst það eiginlega líka segja sig sjálft að valdhafar hafi getað bruðlað og sóað miklu meira í íburðarmikil glæsihýsi þar sem milljónir manna í gjöfulu og frjósömu landi voru arðrændar og kúgaðar öldum saman heldur en hér á mörkum hins byggilega heims þar sem nokkur þúsund sálir hímdu við hungurmörk kynslóð fram af kynslóð og eina nýtilega byggingarefnið var jörðin undir fótunum á þeim.

Við ættum ekki að dást að konungshöllunum og dómkirkjunum sem reistar voru úr blóði og svita sveltandi alþýðu undir rassgatið á fólki sem aldrei þurfti sjálft að dýfa hendi í kalt vatn fyrir munaðinn og hóglífið sem það naut. Ég efast um að það hafi verið ömurlegra hlutskipti að veslast upp úr hungri og vosbúð í íslenskum afdal heldur en í skítugri, erlendri stórborg á tröppum gullbryddaðra glæsihalla, ég tala nú ekki um meintra guðshúsa. Í Reykjavík er ekki mannslíf á bak við hvern múrstein, ekki tár og þjáning nafnlauss forföður á bak við hverja ufsagrýlu eða lágmynd á húsgafli. Reykjavík geymir fáar byggingar reistar á valdníðslunni sem kúguð alþýðan sætti öld fram af öld. Glæsihýsin sem kóngurinn byggði úr blóði og svita, tárum og þjáningu forfeðra okkar eru allar í Kaupmannahöfn.

Bakþankar í Fréttablaðinu 28. 5. 2011.

Read Full Post »

Nýverið kallaði stjórnmálamaður annan stjórnmálamann fasistabelju. Ummælin vöktu af einhverjum ástæðum athygli. Ýmsum þótti sem þarna kvæði við nýjan tón í pólitískri umræðu rétt eins og góð og gegn níðyrði á borð við „gunga“, „drusla“ og „skítlegt eðli“ og ljót orðasull á borð við „afturhaldskommatittur“ hafi aldrei heyrst úr þessum ranni áður. Staðreyndin er auðvitað sú að fólk er löngu orðið vant því að íslenskir stjórnmálamenn tali eins og óvenju orðljót börn og er hætt að kippa sér upp við það. Verra er þó að fólk virðist vera orðið samdauna þessu og nánast farið að telja orðfæri af þessu tagi eðlilegt á vettvangi stjórnmálanna. Einkum er þetta slæmt vegna þess að það kemur í veg fyrir að sú áhugaverða mannfræðipæling sé tekin til umræðu hvort barnalegasta fólk á Íslandi veljist í pólitík eða hvort það sé pólitíkin sem geri heilbrigt fólk svona barnalegt.

Skv. Íslenskri orðabók er fasismi „þjóðernissinnuð stjórnmálastefna“ sem m.a. er „andstæð lýðræðisskipan“ og „með áherslu á forræði ríkisins og öflugs leiðtoga þess með miklu lögregluvaldi á öllum sviðum.“ Þetta er skemmtilegt vegna þess að þingmaðurinn, sem lét orðið falla, sagði einmitt á sínum tíma skilið við lýðræðislega grasrótarhreyfingu, sem hann var kjörinn á þing til að sitja fyrir, til að ganga til liðs við þá stjórnmálahreyfingu þar sem andstaðan er hve einörðust við að þjóðin fái sjálf að ráða fram úr helsta málefninu sem varðar framtíð hennar. Nýi flokkurinn er auk þess afar hlynntur forræði ríkisins á mörgum sviðum og auknu eftirliti, t.d. með fjölmiðlum og veraldarvefnum. Hér mætti því láta gamminn geysa um flísar og bjálka, grjót og glerhús, en ég ætla að láta það ógert.

Þess í stað langar mig að taka upp hanskann fyrir blessaðar kýrnar. Staðreyndin er nefnilega sú að erfitt er að benda á nokkra lífveru sem er lausari við fasískar tilhneigingar en blessuð kýrin. Göfugari og meinlausari rólyndisskepna er varla til. Kýr sletta úr klaufunum einu sinni á ári og þá af einskærum fögnuði yfir því að fá að njóta sólarblíðu og útiveru. Í minni sveit var tvennt sem stappaði nærri guðlasti að bölva; sólin og kýrnar.

Orðið lýsir því algerri vanþekkingu, bæði á fasisma og kúm. Þær eiga betra skilið, blessaðar skepnurnar, en að vera kenndar við fasisma, hvað þá að vera líkt við íslenskan stjórnmálamann.

Read Full Post »

Fyrir þá sem ekki hafa séð kvikmyndina Thor er rétt að taka fram strax í upphafi að þessi færsla inniheldur spillefni (e. spoilers).

Sl. föstudag fórum við feðgar í bíó og sáum kvikmyndina um þrumuguðinn Þór. Myndin er ekki góð, en eitt og annað hefur leitað á huga minn síðan ég sá hana. Einhver spurði mig hvort þessi mynd væri ekki nauðgun á norrænni goðafræði og varð mér í fyrstu fátt um svör. Eftir umhugsun hef ég komist að þeirri niðurstöðu að svarið er eiginlega bæði já og nei.

Ég hef gaman af vísindaskáldskap. Hann þarf ekki að vera góður eða frumlegur til þess, hann þarf bara að ganga upp samkvæmt þeim forsendum sem hann gefur sér sjálfur. Kvikmyndin um Þór gerir það. Guðirnir í Ásgarði eru strangt til ekki eiginlegir guðir, þeir eru einfaldlega verur á öðrum hnetti og sem slíkar með ýmiss konar mátt sem dauðlegir menn hafa ekki. Forsendan er sú að á reikistjörnunni Ásgarði hafa menn náð valdi á að búa til eins konar ormagöng í rúmi og ferðast um þau. Þau nefnast Bifröst og birtast sem ljósgeisli. Þegar þeir komast að því að hrímþursarnir frá reikistjörnunni Jötunheimi eru að reyna að leggja undir sig jörðina fara þeir þangað og berjast við þá til að halda þeim í skefjum. Frumstæð menningarþjóð víkinga sem varð vitni að þessu stríði túlkar þessar verur auðvitað sem guði og þannig verður norræn goðafræði til. Myndin er m.ö.o. ekki afbökun norrænnar goðafræði heldur gefur hún sér þær forsendur að norræn goðafræði sé ófullkomin aðferð frumstæðrar menningarþjóðar til að skilja og segja frá atburðum sem hún var vitni að en hafði engar forsendur til að skilja til fullnustu.

En að hvaða leyti er myndin þá nauðgun á norrænni goðafræði? Skoðum söguþráðinn. Þór er sviptur mættinum vegna hroka síns og fær hann ekki aftur fyrr en hann verðskuldar hann. Hann verður því einn af okkur. Guð gerist maður. Orðið varð hold (Jóh 1.14). Og hann lærir sína lexíu. Hann gerist fullur náðar og sannleika (Jóh 1.14) og færir að lokum hina algjöru fórn. Loki sendir drápsvélmenni til jarðarinnar til að gera út af við Þór. Þór gerir sér grein fyrir því að hann ræður ekki við hana, en til að hlífa vinum sínum gengur hann á fund hennar og segir: „Það er ég sem þú vilt, ekki þau. Dreptu mig, en hlífðu þeim.“ Enginn á meiri kærleika en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína (Jóh 15.13). Auðvitað drepur hið illa vélmenni Þór hratt og örugglega. Í andarslitrunum segir Þór: „It‘s finished.“ Það er fullkomnað (Jóh 19.30). Síðan lítur hann á hina dauðlegu konu, fulltrúa mannkynsinins og segir: „You‘re saved.“ Þú ert (sálu)hólpin. Þá gefur hann upp öndina. En hvað gerist þá? Þór rís upp frá dauðum í mætti og dýrð. Hann sigrar dauða og djöful. Í lokabardaganum er Loki með mikinn hjálm með geithafurshornum, en geithafurinn er eldfornt satanstákn.

Ef hægt er að tala um kvikmyndina Thor sem nauðgun norrænnar goðafræði þá er hún, að mínu mati, fyrst og fremst í því fólgin að sagan af þrumuguðinum Þór skuli vera sögð eins og hasarmyndaútgáfa af fagnaðarerindinu um Jesú Krist. Það hugsa ég að særi harða ásatrúarmenn meir en vísindaskáldskapurinn.

Read Full Post »

Lokaprédikun mín í guðfræði frá Háskóla Íslands, flutt í Háskólakapellunni 29. apríl 2011.
Lúk 11.5-13: Og Jesús sagði við þá: „Nú á einhver yðar vin og fer til hans um miðnætti og segir við hann: Vinur, lánaðu mér þrjú brauð því að vinur minn er kominn til mín úr ferð og ég hef ekkert að bera á borð fyrir hann. Mundi hinn þá svara inni: Ger mér ekki ónæði. Það er búið að loka dyrum og börn mín og ég komin í rúmið. Ég get ekki farið á fætur að fá þér brauð? Ég segi yður, þótt hann fari ekki á fætur og fái honum brauð vegna vinfengis þeirra, þá fer hann samt fram úr sakir áleitni hans og fær honum eins mörg og hann þarf. Og ég segi yður: Biðjið og yður mun gefast, leitið og þér munuð finna, knýið á og fyrir yður mun upp lokið verða. Því að hver sá öðlast sem biður, sá finnur sem leitar og fyrir þeim sem á knýr mun upp lokið verða. Er nokkur sá faðir yðar á meðal sem gæfi barni sínu höggorm ef það biður um fisk eða sporðdreka ef það biður um egg? Fyrst þér, sem eruð vondir, hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðirinn himneski gefa þeim heilagan anda sem biðja hann.“

Náð sé með ykkur öllum og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi.

Gamall og lélegur ljóskubrandari er á þá leið að ljóskur séu svo vitlausar að þær noti biblíuaðferðina við að fletta upp í símaskránni. Biblíuaðferðin er: „Leitið og þér munuð finna.“ Ég sagði að hann væri lélegur.

En þetta minnir mig á aðra sögu. Þessi er sönn. Lítil stelpa í meðalstóru plássi úti á landi þurfti fyrir nokkrum árum nauðsynlega að hringja í vinkonu sína. Vinkonan var auðvitað ekki í símaskránni, en faðir hennar var það. Hann er bandarískur og heitir Philip. Heimilisfólkið var önnum kafið og mátti ekki vera að því að hjálpa stelpunni, hún var jú orðin læs, orðin átta ára og átti að geta fundið þetta sjálf. Fljótlega heyrðist væl: „Hann er ekki í símaskránni!“ „Jújú, leitaðu bara betur,“ var svarað. Og svo leið og beið. Heimilisfólkið hélt áfram að sinna sínu og hvorki hósti né stuna heyrðist frá þeirri stuttu. Fólk hélt að hún hefði fyrir löngu snúið sér að einhverju öðru, enda einbeiting og þolgæði ekki sterkasta hlið ungra barna. En þá heyrðist skyndilega hrópað innan úr stofu: „Hann heitir ekkert Filipp! Hann heitir PH-ilipp!“

Þessi saga sýnir kannski að biblíuaðferðin er ekkert svo vitlaus. Með dálitlum skammti af þolgæði þá virkar hún. Leitið og þér munuð finna.

Undanfarið hefur verið rætt og deilt um það hvaða stakk eigi að sníða boðun kristinnar kirkju í fjölhyggjusamfélagi. Því viðhorfi vex jafnt og þétt fiskur um hrygg að boðskapur hennar eigi ekkert erindi út fyrir veggi kirkjubygginganna sjálfra. Um það má auðvitað deila endalaust, en sjálfum finnst mér áhugaverðara að velta fyrir mér óttanum við þetta sem kallað er trúarleg innræting. Það er eins og vernda verði ómótaða hugi fyrir skaðlegum áhrifum trúarinnar, og það þótt reynslan sýni að þessi meinta innræting sé hvorki áhrifaríkari né skaðlegri en svo að þeir, sem harðast ganga fram í andspyrnunni um þessar mundir, ólust einmitt upp við hana sjálfir. Kannski ætti kirkjan að fagna því að vera sparkað út úr skólunum. Verður hún ekki fyrir vikið miklu meira spennandi og smart? Við þekkjum það flest hvað áhugaverðar bækur geta orðið leiðinlegar þegar þær eru skyldunámsefni.

Þessi ótti virðist mér stafa af þeirri hugmynd að enginn sé óhultur fyrir trúnni, að venjulegt fólk, sem ekki er að leita að nokkrum sköpuðum hlut, geti hvenær sem er lent í því að finna eitthvað stórhættulegt, eitthvað sem það hefði engan áhuga á ef það sem það fann hefði ekki samstundis svipt það eðlilegri og heilbrigðri dómgreind. Við höfum öll heyrt hryllingssögur af þessu tagi, um venjulegt fólk sem einn góðan veðurdag frelsast bara algerlega upp úr þurru og er ekki húsum hæft upp frá því. Þetta gerist. Þetta er þekkt fyrirbæri. Trúarlífssálarfræðingar hafa rannsakað þetta ítarlega. Þetta er kallað „snapping“ upp á ensku, „að bresta“.

Rannsóknirnar hafa aftur á móti leitt í ljós að þetta er ekki svona einfalt. „Snapping“ á sér undantekningalaust töluverðan aðdraganda, það er aðeins lokahnykkur á löngu ferli. Einhver vöntun, eitthvað innra tóm hefur verið að grafa um sig alllengi, oftast án þess að fólk hafi rætt það við aðra. Fólk fyrirverður sig fyrir að upplifa skort af því tagi sem allsnægtaþjóðfélagið getur ekki fullnægt, vöntun gæða sem efnishyggjusamfélagið metur ekki til gæða. Þetta gerist ekki bara rétt sisona. Það gengur enginn upp að öðrum manni og segir við hann einhver töfraorð sem breyta honum í viljalaust verkfæri ranghugmynda um æðri máttarvöld. Það er enginn að fara að byrla þér inn Guði.

Leitið … og þér munuð finna. Kannski ekki það sem þið voruð að leita að. Kannski voruð þið að leita að svarinu við spurningunni um lífið eftir dauðann en finnið svarið við spurningunni um lífið fyrir dauðann. Kannski báðuð þið um styrk, en finnið aðeins erfiðleika – til að styrkja ykkur á að glíma við. Kannski báðuð þið um visku, en finnið aðeins þrautir að leysa og verkefni að ráða fram úr – til að stæla vit ykkar og efla innsæi. Kannski báðuð þið um hugrekki og finnið aðeins kringumstæður sem krefjast hugrekkis af ykkur. Leit felur það nefnilega ekki í sér að fá það sem leitað er að fyrirhafnarlaust upp í hendurnar.

Kannski báðuð þið um hamingjuríkt líf, en verðið fyrir harmi og missi – án þess að átta ykkur á því að hamingjuríkt líf felur í sér harm og missi. Eða hvaða gæfumaður eða gæfukona hefur aldrei fellt tár? Vorkennum við ekki frekar fólki sem lífið hefur aðeins tekið á með silkihönskum? Finnst okkur ekki slíkt fólk hafa farið á mis við mikilvægan hluta af mannlegri reynslu? Er ekki einhver andleg fátækt í því fólgin að komið sé að tómum kofanum hjá fólki þegar sáru hliðarnar á hinu mennska hlutskipti ber á góma? Skynjum við ekki öll andlegt ríkidæmi hjá fólki sem glímt hefur við erfiðleika og öðlast sátt?

Aðeins börn og barnalegt fólk telur sér trú um að lífið sé sanngjarnt. Fólk eldist og deyr. Sjúkdómar og slys kosta mannslíf. Hamingjuríkt líf getur ekki falið það í sér að missa aldrei neinn sem manni þykir vænt um, því þá væri það í því fólgið að þykja aldrei vænt um neinn. Hamingjuríkt líf getur ekki falið það í sér að syrgja aldrei ástvin, því þá væri það í því fólgið að hafa aldrei átt ástvin. Hamingjuríkt líf felur í sér allt litróf hins mannlega hlutskiptis, björtu hliðarnar og skuggahliðarnar. Hamingjuríkt líf felur það í sér að geta verið til staðar fyrir aðra þegar á bjátar, að hafa þá einhverju að miðla. Hamingjuríkt líf felur það líka í sér að eiga slíka manneskju að þegar maður sjálfur þarf á henni að halda. Hamingjuríkt líf án sorgar eða harma er þversögn.

Lífið er nefnilega sannkallað ævintýri. Mig langar að segja ykkur lítið ævintýri. „Einu sinni var lítil prinsessa. Hún átti eðlilega æsku, óx úr grasi og kynntist hugprúðum prinsi. Þau giftust og lifðu hamingjusöm til æviloka. Endir.“ Var þetta ekki leiðinlegasta ævintýri sem þið hafið heyrt? Hvar var vonda stjúpan? Hvar voru álögin, mótlætið, háskinn? Þetta var ekki ævintýri. Þetta var bull. Svona er ekkert ævintýri og svona er lífið ekki.

Biðjið og yður mun gefast. Ævintýrið „Hamingjuríkt líf“ stendur okkur öllum til boða. En höfum hugfast að það hvort titillinn sé réttnefni eða ekki, er ekki fólgið í atburðum verksins sem slíkum heldur í því hvernig aðalpersónurnar bregðast við þeim.

Að trúa er að treysta. Þetta er ekki líking. Að trúa er ekki eins og að treysta, heldur er þetta bókstafleg merking grísku sagnarinnar pistevo sem hvað eftir annað kemur fyrir í Nýja testamentinu og er jafnan þýdd með sögninni að trúa. Þetta eru ekki samheiti. Þetta er sama orðið. Þetta er ekki það sama og að efast aldrei. Við heyrum það sjálf hver munurinn er á því þegar við vitum að einhver er að segja satt og þegar við trúum að einhver sé að segja satt.  Trúin krefst viðtengingarháttar. Vissan útilokar allan efa. Trúin gerir sér grein fyrir þeim möguleika að blekking sé á ferðinni, en treystir því að svo sé ekki. Að trúa er að treysta.

Hamingjuríkt líf er í því fólgið að sleppa og treysta. Treysta því að framtíðin sé í betri höndum en okkar. Treysta því að hvað sem hún kunni að bera í skauti sér þá sé það okkar verkefni að bregðast þannig við því að „Hamingjuríkt líf“ geti verið réttnefni á ævintýrinu okkar. Treysta Guði fyrir framtíðinni, því hún er í hans höndum en ekki okkar, og einbeita okkur að því að fara vel með það eina sem hann hefur lagt í hendurnar á okkur; núið. Lífið er núna. Framtíðin kemur aldrei, heldur aðeins nýtt nú. Því betur sem við förum með núið, þeim mun ánægjulegra verður núið sem tekur við af því, hvað sem það ber í skauti sér.

En hvað svo? Ekki getur maður bara tekið þá ákvörðun að trúa. Eða hvað? Er trúin ekki stórkostleg gjöf, sem Guð einn getur gefið, en hefur á sínum órannsakanlegu forsendum ákveðið að sumir skuli fara á mis við? Jú og nei. Trúin er vissulega stórkostleg Guðs gjöf. En maður þarf að sækja hana sjálfur. Guð þröngvar henni ekki upp á okkur. Guð gerist ekki boðflenna í lífi nokkurs manns. En ef þú býður honum þá kemur hann „jafn áreiðanlega og morgunroði, eins og vorskúr sem vökvar jarðveginn“, svo vitnað sé í spámanninn Hósea. Hver sá öðlast sem biður.

Á hverjum degi tökum við þá ákvörðun að trúa, að treysta. Við treystum því að það sem við lesum í blöðunum sé satt og rétt án þess að hafa neinar forsendur til að sannreyna það sjálf. Við treystum því í samskiptum okkar við annað fólk að það sé ekki að ljúga að okkur og fara á bak við okkur. Við treystum því í viðskiptum að það sé ekki verið að pretta okkur eða svíkja. Stundum er þessi trú auðvitað á sandi reist. Mun oftar reynist þetta trúnaðartraust okkur þó vel. Og þótt það sé sárt að vera narraður, væri þó enn sárara að tortryggja sífellt allt og alla af því að sá möguleiki er fyrir hendi að verið sé að hafa okkur að fíflum. Öll ánægjuleg mannleg samskipti hafa traust, trú, sem forsendu. Þess vegna tökum við jafnan áhættuna, þótt það þýði að við gefum á okkur höggstað. Það er víst hægt að ákveða að trúa, að treysta.

Unga stúlkan, sem fann Philip, er orðin fullorðin. Segjum sem svo að nú hafi hún tekið þá ákvörðun að finna Guð. Hvað hún að gera? Reynslan ætti að hafa kennt henni að biblíuaðferðin virkar, sé henni beitt af þolgæði. Knýið á og fyrir yður mun upp lokið verða. Ef ekki fyrir vináttu sakir, þá að minnsta kosti fyrir þrákelknina.

Það að beygja hnén í auðmýkt og biðja um pínulitla trú … er pínulítil trú. Biðjið og yður mun gefast.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Read Full Post »

Einhver misskildasta frásögn Gamla testamentisins er sagan af því þegar Guð platar Abraham til að halda að hann eigi að fórna Ísak syni sínum. Enda engin furða. Við fyrstu sýn virðist sagan draga upp mynd af andstyggilegum Guði sem pínir fólk og lætur það halda að hann geri ómanneskjulegar kröfur til þess. En slíkur skilningur byggir á algerri vanþekkingu á sögulegum bakgrunni frásagnarinnar og því samfélagi sem hún gerist í.

Trú Abrahams var ekki eingyðistrú í nútímamerkingu heldur sk. „mónólatría“. Þá er átt við að tilvist annarra guða var ekki hafnað sem slíkri, heldur beindist átrúnaðurinn og tilbeiðslan alfarið að einum tilteknum guði. Í tilfelli Abrahams var það sennilega kanverski háguðinn El. Hann var m.a. tilbeðinn með frumburðafórnum. Þær voru alsiða í trúarbrögðum frjósama hálfmánans á öðru árþúsundinu fyrir okkar tímatal og héldust víða við lýði langt fram á það fyrsta. Í Spádómsbók Jeremía 7.30-31 gagnrýnir spámaðurinn villutrú konungsins og segir hann hafa reist Tófet-fórnarhæðir í Hinnómssonadal, sem í Nýja testamentinu er kallaður Gehenna. Tófet var fórnarstaður þar sem börnum var fórnað í eldi eins m.a. tíðkaðist í Fönikíu. Kröfu Guðs um að Abraham fórnaði Ísak er því óþarfi að skilja öðruvísi en sem frásagnarhátt fornaldar af því að viðtekin trúariðkun Abrahams hafi krafist frumburðarfórnar af honum.

En það er þá sem undrið gerist. Guð ættfeðranna afþakkar fórnina. Fram kemur guðsmynd sem hafnar mannfórnum. Sagan er allegoría af þeim merku tímamótum í þróun trúarbragða gyðinga þegar frumburðafórnirnar voru aflagðar, sennilega um 1800 f.Kr. eða um 500 árum fyrir brottförina úr Egyptalandi og um 800 árum fyrir stofnun konungdæmisins í Jerúsalem. Þetta skref stigu flestar grannþjóðir Ísraelsmanna ekki fyrr en mörgum öldum síðar, sumar ekki fyrr en árþúsundum síðar.

Frásögnin er því í raun skáldleg útfærsla á afar blessunarríkum atburði í mannkynssögunni. Hún er á ákveðinn hátt fæðingarfrásögn hins miskunnsama Guðs. Hún segir söguna af því, skv. bókmenntalegum frásagnarreglum ritunartíma síns, þegar menn vakna til skilnings á Guði sem hefur þóknun á miskunnsemi en ekki sláturfórnum og á guðsþekkingu fremur en brennifórnum (sbr. Hós 6.6), Guði sem setur siðferðið ofar ritúalinu, hve erfitt sem menn hafa síðan átt með að skilja það sl. 4000 ár.

Read Full Post »

Stundum er sagt – og það með allnokkrum sanni – að öfgarnar mætist. Þegar kemur að pólitík birtist þetta einkum í því að öfgamenn til hægri og vinstri virðast gjarnan eiga mun meira sameignilegt en hófsamar vinstri- og hægrimenn. Þetta eru einkum alræðistilburðir, forræðishyggja og andúð á mannréttindum. Því er ég að velta þessu fyrir mér að í nýlegri atkvæðagreiðslu á Alþingi drógu þingmenn upp nokkuð skýra mynd af því hvernig hinu pólitíska landslagi er háttað í þingsölum um þessar mundir.

Þar var m.a. hlaupist undan merkjum vegna afstöðu ríkisstjórnarinnar til Evrópusambandsins. Hún er, skilst mér, sú að þjóðin skuli ákveða hvort landið tilheyri ESB eða ekki. Við þetta geta sumir ekki sætt sig og finnst það allt of mikil þjónkun við ESB að þjóðinni, sem treysti þeim fyrir þingsæti, skuli treyst til að taka slíka ákvörðun. Nú í vikunni tókst flokksþingi Framsóknarflokksins naumlega að sigrast á þessum lýðræðisótta með því að samþykkja ekki að viðræðum skuli strax hætt. Það var, að mínu mati, vel af sér vikið. Það, hvernig þingstyrkur Framsóknarflokksins hefur þróast undanfarna áratugi, gefur fólki þar á bæ nefnilega litla ástæðu til að hafa eitthvað sérstakt dálæti á lýðræðinu. En þennan styrk hafa sumir greinilega ekki til að bera.

Þessi ríkisstjórn mun ekki taka ákvörðun um Evrópusambandsaðild. Hún hefur ekki vald til þess. Það vald er þjóðarinnar einnar. Og þá ákvörðun mun þjóðin taka fyrr eða síðar, hvort sem einhverjum líkar það betur eða verr. Feli stjórnvöld henni það ekki mun hún knýja fram rétt sinn til þess. Hver ákvörðunin síðan verður er aukaatriði í þessu samhengi. Nú ríður á að byggja upp og það verður ekki gert með neinum traustvekjandi hætti í skugga algjörrar óvissu um aðild – af eða á – í náinni framtíð.

Það segir sína sögu um lýðræðisótta Evrópusambandsandstæðinga að þeir skuli ekki treysta þjóðinni til að hafna aðildinni, í ljósi þess hve augljóst skaðræði þeir telja hana. Það segir líka sitt um trú þeirra, sem hlynntir eru aðild, að þeir skuli knýja á um að ákvörðunin verði tekin sem fyrst, þótt skoðanakannanir gefi þeim núna litla ástæðu til bjartsýni.

Verst að ekki skuli vera til gott orð í íslensku um þá pólitísku hugsjón að stjórnvöldum sé betur treystandi fyrir hagsmunum fólks en lýðnum. Jú, annars … orðið er til. Það er „fasismi“.

Bakþankar í Fréttablaðinu 16. 4. 2011.

Read Full Post »