Feeds:
Færslur
Athugasemdir

Archive for júlí, 2011

Í einni af skáldsögum Terrys Pratchetts segir frá norn sem fer í húsvitjun til blikksmiðsins í þorpinu til að komast að því af hverju börnin hans veikjast. Með í för er ung stúlka, lærlingur hennar í nornalist. Eftir að hafa skoðað börnin og kynnt sér staðhætti segir nornin blikksmiðnum að börnin séu veik af því að púkar hafi lagt bölvun á brunninn hans, hann verði að grafa nýjan uppi í brekkunni hinum megin við bæjarhúsið. Á heimleiðinn spyr stúlkan þá gömlu af hverju hún hafi ekki sagt blikksmiðnum sannleikann, að gamli brunnurinn sé mengaður af hættulegum örverum. Nornin svarar: „Blikksmiðurinn trúir ekki á hættulegar örverur, en hann trúir á púka og bölvanir. Ég kom ekki til að mennta hann í örverufræði heldur til að bjarga börnunum hans.“

Á meðan það veldur ekki skaða finnst mér sjálfsagt að bera virðingu fyrir því sem fólk trúir, jafnvel þótt það hljómi eins og tóm hindurvitni í mínum eyrum. Við virðumst flest hafa þörf fyrir að trúa einhverju sem ekki verður sannað með rökum eða rannsóknum. Og sá sem trúir á eitthvað jafnóendanlega ósannanlegt fyrirbæri og Guð, ekki síst ef því fylgir trú á upprisu mannsins og eilíft líf – ég tala nú ekki um ef trúin felur það líka í sér að þessi Guð hafi sent einkason sinn til okkar til að frelsa okkur frá dauða til trúar, vonar og kærleika – ætti að fara varlega í að gera lítið úr öðrum fyrir að trúa einhverju sem ekki verður sannað með aðferðum raunvísindanna.

Ég trúi ekki á álfa. Þjóðsögur okkar eru hins vegar morandi í frásögnum af álfum og huldufólki. Þessar sögur segja okkur heilmikið um menningarlegan uppruna okkar og bakgrunn. Þær túlka afstöðu kynslóðanna til umhverfisins og náttúrunnar. Þær eru sprottnar úr eldfornri vættatrú, þeirri tilfinningu að landið sé lifandi, að hver hóll og steinn geymi líf, og því beri okkur að koma fram við umhverfi okkar af tilhlýðilegri virðingu, en ekki yfirgangi og hroka því annars fari illa. Þetta finnst mér hreint ekki heimskuleg afstaða. Ég held meira að segja að hægt sé að sýna fram á skynsemina í henni með vísindalegum hætti. Og ef það þarf álfatrú til að fá okkur til að sýna sköpunarverkinu þá lotningu sem það ekki bara verðskuldar af okkur, heldur beinlínis krefst af okkur til að það geti haldið áfram að viðhalda okkur, þá finnst mér sjálfsagt að sýna henni virðingu.

Bakþankar í Fréttablaðinu 23. 7. 2011.

Read Full Post »

Tilfinningarök

Góður vinur minn á eldgamlan Land Rover, klassískan dýrgrip. Um árið varð hann aftur á móti vélarvana. Þetta olli vini mínum talsverðu hugarangri, það var rándýrt að skipta um vél og varla forsvaranlegt að eyða slíkum peningum í svona gamlan bíl. Á móti kom að hann fengi varla jafngóðan fararskjóta nema fyrir mun hærri upphæð. Með þetta var hann að bögglast heillengi uns hann bar vandræði sín undir eiginkonu annars vinar okkar. Hún var ekki lengi að leysa málið. „Láttu hann Pétur reikna þetta fyrir þig,“ sagði hún. „Hann er snillingur í að reikna út að það sé hagkvæmast að gera það sem hann langar mest til.“ Land Roverinn fékk umsvifalaust nýja vél og ekki örlar á eftirsjá hjá eigandanum.

Við mennirnir teljum okkur gjarnan vera skynsemisverur. En þegar upp er staðið kemur einatt í ljós að skynsemin má sín lítils gagnvart tilfinningunum. Ef við lítum til baka sjáum við flest að hvað eftir annað höfum við tekið ákvarðanir byggðar á tilfinningum en ekki skynsemi. Við metum það nefnilega oftast sem svo að það sé skynsamlegt að taka mark á tilfinningunum. Samt heyrist oft talað á niðrandi hátt um tilfinningarök, eins og þau séu ógild eða a.m.k. ekki fullgild og megi sín lítils gagnvart svoköllluðum skynsemisrökum.

Náttúruverndarsinnar eru meðal þeirra sem legið hafa undir ámæli fyrir að beita tilfinningarökum. Við því hafa þeir brugðist með því að reyna að sýna fram á að málstaður þeirra sé skynsamlegur óháð tilfinningum, náttúruvernd sé hagkvæm. Andstæðingar þeirra nota að eigin mati ísköld skynsemisrök. Hjá þeim eru atvinnuuppbygging og efnahagur sett á oddinn en ekki kjánalegar tilfinningar. En af hverju setja þeir þetta á oddinn?Er það ekki til að viðhalda byggð í plássinu sem þeir bera svo miklar tilfinningar til? Hvaða skynsemi er í því að borga stórfé og fórna náttúruperlum til að í hverjum firði geti verið þorp fyrir nokkur hundruð hræður að draga fram lífið? „Landið allt í byggð“ var einhvern tímann mikilvægt slagorð. En af hverju? Er það skynsamlegt eða hefur það fyrst og fremst tilfinningalegt gildi fyrir okkur?

Mig langar ekki að gera lítið úr mannlegri skynsemi. Ég er ekki frá því að hún reynist oft vel. En stundum fæ ég það á tilfinninguna að mikilvægasta hlutverk hennar sé þó að vera dulbúningur fyrir tilfinningarnar gagnvart vélrænni rökhyggju okkar.

Bakþankar í Fréttablaðinu 9. 7. 2011.

Read Full Post »