Feeds:
Færslur
Athugasemdir

Archive for ágúst, 2011

Kasha Jacqueline Nabagesera á við vandamál að stríða. Hún er lesbía. Það er samt ekki vandamálið. Vandamálið er að hún er frá Úganda. Í Úganda er samfélagið gegnsýrt af hómófóbíu. Samkynhneigð varðar við lög og ævilangur fangelsisdómur liggur við „ítrekaðri samkynhneigð“. Árið 2009 var frumvarp ennfremur lagt fyrir þing Úganda þar sem krafist var dauðarefsingar yfir samkynhneigðum. Vegna alþjóðlegs þrýstings var frumvarpið þó dregið til baka.

Frumvarpið naut samt víðtæks stuðnings í Úganda. Hommahatrið er svo viðurkennt að í fyrra vogaði úgandíska tímaritið Rolling Stone (sem ekki má rugla saman við alþjóðlega popptímaritið) sér að birta myndir af hundrað yfirlýstum hommum, kalla þá “þjóðarskömm” og hvetja til þess að þeir yrðu allir hengdir. Í janúar á þessu ári var einn þeirra, David Kato, síðan myrtur á heimili sínu í Kampala. Morðingjarnir sáust flýja af vettvangi í bifreið. Lögreglan hefur skráningarnúmerið undir höndum, en morðingjarnir ganga enn lausir. Ritstjóri tímaritsins þrætir enn fyrir að samband sé á milli morðsins og greinarinnar.

Það er auðvelt að fallast hendur frammi fyrir þessari grimmd. Það er auðvelt að gefast upp fyrir illsku heimsins. Það er of auðvelt. Það er líka auðvelt að fyllast vanþóknun og krefjast þess að þróunaraðstoð við Úganda sé dregin til baka þangað til ofsóknunum linnir. En hvað leiðir það af sér? Skort á almennilegri fullorðinsfræðslu einmitt þar sem hennar er mest þörf. Bandarísk trúfélög með höfuðstöðvar í biblíubeltinu, sem reka meint hjálparstarf en einkum þó áróður gegn samkynhneigðum, yrðu þá ein um hituna í Úganda. Það myndi ekki hjálpa Köshu og vinum hennar, það myndi gera illt verra fyrir þau.

Það er líka auðvelt að búa til stuttermaboli og skilti gegn hommaofsóknum í Úganda og hafa hátt úti á götum á Vesturlöndum. Ég vil ekki gera lítið úr mórölskum stuðiningi, en það sem gerir málstaðnum þó mest gagn er að Kasha og vinir hennar njóti verndar gegn ribbaldaflokkum, hafi öruggt húsnæði fyrir réttindabaráttu sína og – það sem hljómar í okkar eyrum of einfalt og sjálfsagt til að okkur hugkvæmist að það geti haft úrslitaáhrif – óheftan aðgang að ljósritunarvél. Allt þetta veitir Amnesty International Köshu og félögum hennar í Úganda.

Ef þú vilt raunverulega hjálpa geturðu gerst félagi á heimasíðu Íslandsdeildarinnar.

Bakþankar í Fréttablaðinu 20. 8. 2011.

Read Full Post »

Árið 1994 var ég vinsæll útvarpsmaður og skemmtikraftur á Íslandi. Já, það eru17 ár síðan. Það sem einkum háði mér sem útvarpsmanni var hvað mér leiddist tónlistin óskaplega mikið sem þá var vinsælust. Ég átti ekki að vera vaxinn upp úr því að hlusta á poppmúsík, en vinsæla tónlistin á þessum tíma gerði mér mjög erfitt að fylgjast með. Nú þegar ég lít aftur, sé ég að það var um þetta leyti sem ég hætti að fylgjast með stefnum og straumum í dægurtónlist og ákvað að það sem ég hefði þegar heyrt myndi duga mér ágætlega út lífið.

Eitt af því sem sennilega olli straumhvörfum voru tónleikar með hljómsveitinni St. Etienne sem haldnir voru í Reykjavík þetta ár. Ég var svo ofboðslega frægur að ég átti að vera kynnir, en útvarpsstöðin, sem ég vann hjá, kom á einhvern hátt að atburðinum. Tónleikarnir áttu að byrja frekar snemma og ég þurfti ekki að mæta fyrr en klukkutíma síðar. Mér þótti það skrýtið, en skildi það þannig að vænst væri uppistands af minni hálfu á meðan hljómsveitin tæki sér pásu.

Þegar ég mætti voru tónleikarnir ekki byrjaðir. Tónlist af plötum glumdi í hátalarakerfinu og fólk ráfaði um, spjallaði saman eða dillaði sér við taktinn. Ég sá Bjössa Basta álengdar, en hann var einn aðstandenda tónleikanna. Ég sveif á hann og spurði hann hvað í ósköpunum hefði gerst, tónleikarnir ættu að vera löngu byrjaðir. Hann sagði að ekkert hefði gerst, tónleikarnir væru löngu og þetta væru þeir. Fyrsta atriðið væri að einn hljómsveitarmeðlima dídjeiaði í tvo tíma, en sögnin „að dídjeia“ er fagorð í bransanum og merkir„að leika tónlist af plötum“.

Þarna hafði fólk semsagt borgað sig inn á tónleika en fékk í staðinn að sjá tónlistarmann setja plötur á grammófón. Auðvitað hefði ég átt að fylgjast andaktugur með manninum á sviðinu, því þarna var greinilega atvinnumaður í því sem einna helst háði mér í starfi: Því að setja plötu á fóninn. Af einhverjum ástæðum tókst mér þó engan veginn að vera heillaður. Mér fannst þessir hæfileikar satt best að segja ekki nógu merkilegir til að ástæða væri til að borga fyrir að fá að njóta þeirra. Þegar hljómsveitin loks hóf leik sinn minnir mig að hljóðfæraskipanin hafi verið tveir menn með segulbandstæki og söngkona.

Áður en þið afskrifið þetta sem tuð í gömlum karli vil ég taka eitt fram: Ég er ekki gamall. Ég er retró.

Bakþankar í Fréttablaðinu 6. 8. 2011

Read Full Post »