Feeds:
Færslur
Athugasemdir

Archive for október, 2011

Reykjavík, 31. október 2011

Ágæta María Lilja.

Þú stakkst niður penna til að svara pistli sem ég skrifaði og birtist í Fréttablaðinu 29. október síðastliðinn. Þær ávirðingar sem þú berð á mig í þessari grein eru þess eðlis að við þeim verð ég að bregðast, þótt mér sé það þvert um geð að vera að standa í því að svara órökstuddum skætingi um meint viðhorf mín til kvenna og kynlífs. Þau koma reyndar engum við nema mér og rekkjunauti mínum.

Þú vitnar í almenn hegningarlög máli þínu til stuðnings. Mig langar líka að vitna í þau:

210. gr. Ef klám birtist á prenti, skal sá, sem ábyrgð ber á birtingu þess eftir prentlögum, sæta sektum eða fangelsi allt að 6 mánuðum.

Setninguna þar sem þú lýsir mér sem „gömlum ritstjóra klámbæklings, þar sem líkamar kvenna voru hlutgerðir og settir upp sem söluvara“ er mér ómögulegt að skilja öðruvísi en sem ásökun um lögbrot. Þú ert að væna mig um brot á 210. gr. almennra hegningarlaga. Á meðan ég ritstýrði tímaritinu Bleikt&Blátt var í tvígang rannsakað hvort ég hefði í starfi gerst brotlegur við þessa grein. Í bæði skiptin var málið látið niður falla að lokinni rannsókn þar sem engin ástæða þótti til málshöfðunar. Þannig að þú ert ekki að væna mig um glæp sem ég hef verið sýknaður af opinberlega heldur ertu að væna mig opinberlega um að hafa stundað glæpastarfsemi eftir að lögreglurannsókn hefur ítrekað leitt í ljós að enginn fótur hefur verið fyrir grunsemdum um slíkt.

Að þessu sögðu langar mig að halda áfram að vitna í almenn hegningarlög:

234. gr. Hver, sem meiðir æru annars manns með móðgun í orðum eða athöfnum, og hver, sem ber slíkt út, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári.

235. gr. Ef maður dróttar að öðrum manni einhverju því, sem verða myndi virðingu hans til hnekkis, eða ber slíka aðdróttun út, þá varðar það sektum eða fangelsi allt að 1 ári.

Ég fæ því ekki betur séð en að grein þín sé lögbrot sem metið er tvöfalt alvarlega en það sem þú vænir mig um í henni (6 mán / 1 ár). Alltjent get ég ekki litið á það að vera kallaður glæpamaður (brotamaður við 210. gr. almennra hegningarlaga) sem neitt annað en ærumeiðingu í orðum og aðdróttun virðingu minni til hnekkis.

Mig langar að gamni mínu að halda áfram að telja upp ærumeiðandi ummæli í minn garð í grein þinni, þótt þau sem þegar eru talin séu að mínu mati alvarlegust:

a) Þú segir að í grein minni reki ég „upp harmavein til bjargar aumingjans „fórnarlömbum“ þessara illu systra“. Eftir að hafa lúslesið greinina mína aftur finn ég þetta „harmakvein“ hvergi í henni. Þessa setningu þína má jafnvel skilja sem svo að þú álítir grein mína málsvörn fyrir kaupendur vændisþjónustu, sem er skrítið í ljósi þess að ein fárra fullyrðinga minna um vændi í pistlinum er: „Það er eðlilegt að vilja berjast gegn vændi.“ Svo aftur sé vitnað í almenn hegningarlög þá segir þar: 206. gr. Hver sem greiðir eða heitir greiðslu eða annars konar endurgjaldi fyrir vændi skal sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári. Er það ærumeiðing í orðum og aðdróttun virðingu til hnekkis að vera kallaður málsvari þeirra sem fremja glæpi sem varða fangelsi allt að einu ári? Það myndi ég segja.

b) Þú fullyrðir að ég tali „um að vændi sé elsta atvinnugrein mannkyns“. Þar ferðu með rangt mál. Í pistli mínum fullyrði ég aðeins að vændi hafi „stundum verið kallað elsta atvinnugreinin“. Þeirri fullyrðingu geturðu ekki hnekkt. Ég fylgi þeirri fullyrðingu eftir með setningunni: „Vera má að það sé rétt, en það réttlætir það hvorki né afsakar.“ Í grein minni segi ég hvergi „að vændi sé raunveruleg atvinna eins og hjúkrun og/eða ljósmæðrun“ eins og þú fullyrðir. Þar ertu annað hvort að ljúga upp á mig vísvitandi eða þú hefur ekki lesið greinina sem þú ert að svara nógu vel. Og fyrst við erum að vitna í almenn hegningarlög: 236. gr. Sé ærumeiðandi aðdróttun höfð í frammi eða borin út gegn betri vitund, þá varðar það fangelsi allt að 2 árum. Sé aðdróttun birt eða borin út opinberlega, enda þótt sakaráberi hafi ekki haft sennilega ástæðu til að halda hana rétta, þá varðar það sektum eða fangelsi allt að 2 árum.

c) Fullyrðingu b) fylgirðu úr hlaði með setningunni: „Órjúfanlegur og jafnframt einn sá stærsti hluti vændis”iðnaðar” er mansal, en það Davíð er hið eina eiginlega nútímaþrælahald.“ Eftir að hafa gert mig að talsmanni vændis og málsvara hórkarla er því ýjað að því hérna að ég sé talsmaður þrælahalds. Og það í grein þar sem ég hvet til þess að barist sé „gegn neyð kvenna, fátækt og valdaleysi, fyrir mannréttindum þeirra og sjálfsákvörðunarrétti yfir eigin líkama.“ Eru engin takmörk fyrir því hve rækilega er hægt að snúa því sem maður segir á hvolf?

d) Þú segir: „Kynlíf með vændiskonu er því ekki kynlíf heldur nauðgun sem greitt hefur verið fyrir.“ Ég ætla ekki að þræta fyrir það enda fjallaði pistillinn minn ekki um eðli vændis heldur þær aðferðir sem ég tel boðlegar í siðuðu samfélagi við að berjast gegn hvers konar samfélagsmeinum. Það sem mér sárnar er að eftir að hafa gert mig að talsmanni vændis, málsvara hórkarla og verndara þrælahalds ertu hér að gefa í skyn að ég leggi blessun mína yfir nauðganir.

e) Loks talarðu um „brenglað viðhorf karla (eins og greinilega þín) til kynlífs og kvenna.“ Án þess að viðhorf mín til kynlífs komi þér eða þessu máli við þá hlýturðu að skilja að mér sárnar þegar þau eru kölluð brengluð opinberlega. Einkum þegar þú dregur þá ályktun að viðhorf mín til kynlífs séu brengluð af því að lesa grein þar sem útgangspunkturinn er sjálfsákvörðunarréttur kvenna yfir eigin líkama.

Við erum greinilega ósammála, María Lilja. Það fer ekki á milli mála. Þú ert þeirrar skoðunar að eftirspurn eftir vændi orsaki framboðið. Ég tel orsakasamhengið vera á hinn veginn og álít nýlega könnun styðja það. Um þetta hljótum við að geta tekist á eins og siðað fólk, með rök og staðreyndir að vopni en ekki uppblásnar tilfinningar, hæpnar fullyrðingar byggðar á engu nema persónulegri siðferðiskennd okkar sjálfra, ærumeiðingar og persónusvívirðingar.

Ég vona, María Lilja, að þú áttir þig á alvarleika þeirra ávirðinga sem á mig eru bornar í grein þinni. Ég get ekki setið þegjandi og aðgerðarlaus undir því að vera kallaður glæpamaður og málsvari vændis, „dónakalla“, þrælahalds og nauðgana með brengluð viðhorf til kynlífs og kvenna. Það hlýturðu að skilja. Ég sé mér aftur á móti engan akk í því að koma þér á bak við lás og slá þótt þú hafir gerst sek um þetta. Ég fer þess því vinsamlega á leit við þig að þú dragir allar þessar ærumeiðandi aðdróttanir til baka og biðjir mig afsökunar á þeim á sama vettvangi og skrif þín birtust. Til þess gef ég þér þrjá sólarhringa. Öðrum kosti mun ég þ. 4. nóvember 2011 byrja að kanna möguleika mína á að leita réttar míns gagnvart þér fyrir dómstólum.

Kær kveðja,

Davíð Þór Jónsson

Read Full Post »

Fíkniefnasala og -neysla er mér og mörgum öðrum mikill þyrnir augum auk þess að varða við landslög. Ekki er laust við að manni renni til rifja úrræðaleysi og vanmáttur yfirvalda við að ráða bót á þessum mikla og brýna vanda. En nú er ný baráttuaðferð komin fram. Hún er í því fólgin að einkaaðilar fari út á meðal fólks og bjóði því fíkniefni til sölu. Um leið og einhver lætur í ljós áhuga á viðskiptunum og fer að ræða verð og tegundir er viðkomandi umsvifalaust kærður til lögreglu því samtalið var tekið upp. Þráist lögreglan við að taka ábendingarnar alvarlega, gefi í skyn að það sé ekki einkaaðila að rannsaka glæpi með því að hvetja til þeirra, þeir sem séu að verki kynnu jafnvel að freistast til að setja persónulega óvildarmenna sína á þennan lista að ósekju, verður rekið upp ramakvein í fjölmiðlum yfir skilnings- og skeytingarleysi hennar.

Að öllu gamni slepptu held ég að ekki þurfi að fara mörgum orðum um það af hverju þessi baráttuaðferð er ónothæf. Enginn, held ég, vill búa í landi þar sem fólk er dæmt fyrir glæpi sem það hefur ekki framið heldur aðeins látið í ljós áhuga á að fremja eftir að hafa verið hvatt til þess af þeim sem ættu að gæta laga og reglu. Það gildir einu hvert brotið er, fíkniefnasala, umferðarlagabrot, innbrot eða vændi. Ef brotið er ekki framið er óverjandi að refsa fyrir það, ekki síst ef brotaviljinn er aðeins látinn í ljós sem viðbragð við hvatningu til lögbrots.

Vændi hefur stundum verið kallað elsta atvinnugreinin. Vera má að það sé rétt, en það réttlætir það hvorki né afsakar. Það segir okkur aðeins hve neyð kvenna á sér langa sögu. En vændi verður aldrei upprætt með öllu. Með því að útrýma neyðinni, valdaleysinu og kúguninni sem rekur langflestar konur út í vændi hyrfi það þó vaflaust næstum því alveg. Næstum því.

Það er eðlilegt að vilja berjast gegn vændi. En það réttlætir ekki tálbeitur og njósnir. Tilgangurinn helgar aldrei meðalið því árangurinn sem næst er alltaf skilgetið afkvæmi aðferðanna sem beitt er til að ná honum. Barátta gegn vændi verður að vera barátta gegn neyð kvenna, fátækt og valdaleysi, fyrir mannréttindum þeirra og sjálfsákvörðunarrétti yfir eigin líkama. En þeim sjálfsákvörðunarrétti fylgir líka réttur þeirra til að ráðstafa honum samkvæmt sínu eigin siðferði, ekki siðferði sjálfskipaðrar stóru systur þeirra.

Bakþankar í Fréttablaðinu 29. 10. 2011

Read Full Post »

Í vikunni las ég að prestur hefði lent í bobba í útvarpsviðtali aðspurður um núverandi dvalarstað látins manns. Þegar ég horfði á upptöku af viðtalinu gat ég þó ekki séð að bobbinn væri ýkja mikill. Rétt er að fát kom á prestinn og hann tafsaði, greinilega ekki viðbúinn spurningunni. Henni var líka slengt fram á óvenjulega skorinorðan og umbúðalausan hátt. Sem er hressandi. En svarið kom: Það er ekki okkar að dæma, Guð einn dæmir (sbr. Lúk 6.37). Presturinn bætti því ennfremur við að það sem gert er á hluta barns er gert á hluta Krists (sbr. Matt 25.40, 45). En eftir stóð spurningin: „Stendur ekki í Biblíunni að hann muni brenna í helvíti um alla eilífð?“ Illu heilli lét presturinn það ógert að svara þeirri spurningu.

Svarið er nei. Það stendur hvergi í Biblíunni. Það kenningakerfi var smíðað snemma á miðöldum, byggt á heimsslitabókmenntum sem voru í tísku í kringum upphaf okkar tímatals, en eru hvorki hluti af helgiritasafni gyðinga né kristinna manna. Jesús talar aðeins um helvíti sem andstæðu við Guðs ríki eða táknmyndir þess; lífið og himininn. Og Guðsríkið er í senn innra með okkur og mitt á meðal okkar. Hið sama gildir um helvíti. Ein saga lýsir að vísu Hades sem hlutskipti vonds manns eftir dauðann (Lúk 16.19-31). Þar er myndmálið sótt í þessa rithefð, en sú saga fjallar reyndar um félagslegar skyldur manna hérna megin grafar. Sagan á skýra hliðstæðu í egypskri helgisögu og í rabbínskum bókmenntum.

En hvar eru dánir syndaselir þá núna skv. kenningum Biblíunnar um afdrif sálnanna? Ætli Páll postuli svari því ekki best: „Því að laun syndarinnar er dauði en náðargjöf Guðs er eilíft líf í Kristi Jesú, Drottni vorum (Róm 6.23).“ Dauði er ekki eilíft líf í kvöl. Dauði er ekkert líf. Dauðinn er endanlegur. Það er því hann sem er hin eilífa refsing, en ekki eldur og misþyrmingar. Tal Jesú um „eldsofninn“ er líking við það þegar illgresi er brennt – ekki til að pynta það heldur eyða því.

Kristnir menn treysta á eilíft líf. En með „eilífð“ er ekki átt við endalaust magn af tíma. Aldir alda á skýi með hörpu í fanginu yrðu brátt sannkallað helvíti. Elíft líf er andlegt líf sem er eðlisólíkt jarðnesku og veraldlegu lífi, ný og guðdómleg vídd tilveru. Sú er náðargjöf Guðs. En það er ekki okkar að útdeila henni eftir okkar persónulegu réttlætiskennd. Það gerir Guð einn.

 Bakþankar í Fréttablaðinu 15. 10. 2011.

Read Full Post »

Ég les mjög mikið og hef yndi af lestri góðra bóka. Það heyrir til algerra undantekninga ef ekki er bók á náttborðinu mínu sem ég er að pæla mig í gegn um. Sumar bækur les ég aftur og aftur, s.s. bækur eftir Douglas Adams, Terry Pratchett og John Wyndham. Ég hef líka gaman af alþýðlegum fræðibókum um áhugasvið mín, s.s. bókum Karenar Armstrongs og Bills Brysons.

Ég gef mig þó alls ekki út fyrir að vera alæta á bókmenntir. Til dæmis er ég búinn að fá upp í kok af krimmum. Ég hef lesið þá marga og þetta er orðið gott. Einnig finnast mér ævisögur yfirleitt óáhugaverðar. Ævisögur Ingridar Bergmans og Charlies Chaplins þóttu mér þó skemmtilegar. Núorðið sneiði ég þó yfirleitt hjá ævisögum, nema þeim mun meira hafi verið mælt með þeim við mig af fólki sem ég tek mark á. Ég tek ekki mark á opinberum álitsgjöfum og menningarvitum af því að ég hef rekið mig á að þeir snobba fyrir því sem mér finnst bara vera ömurleg leiðindi.

Stundum gríp ég í nýjar fagurbókmenntir. Það gerist þó æ sjaldnar af því að mér finnst þær yfirleitt leiðinlegur og húmorslaus sósíalrealismi. Nú er ekkert að sósíalrealisma. Salka Valka er sósíalrealismi, en frásögnin er svo meinhæðin að unun er að. Sósíalrealismi þarf ekki að vera leiðinlegur og húmorslaus.

Ég tek svo sannarlega ekki mark á Bókmenntaverðlaunum Norðurlandaráðs.

Gyrði Elíasson hef ég nefnilega reynt að lesa. Hann hefur heillandi stíl og magnaða frásagnarhæfileika. En þegar ég les Gyrði fer mér eftir svona hálftíma að verða þungt um andardrátt, ég fyllist dofa og fæ einkenni þunglyndis. Þá rennur upp fyrir mér að það er út af bókinni sem ég er að lesa. Gyrðir segir svo vel frá að það tekur mig yfirleitt þennan tíma að gera mér grein fyrir því að það sem hann er að segja frá er drepleiðinlegt. Það gerist ekkert.

Nýlega lagði ég svo í annan verðlaunahafa Norðurlandaráðs, Sofie Oksanen. Bókin heitir Hreinsun og hefur verið hampað ógurlega: „Hreinsun er líklega merkilegasta skáldverkið sem kemur á markað í ár … hvalreki öllum sem vilja næra sig með mikilvægri og brýnni sögusmíð. Hreinsun verða allir að lesa sér til gagns.” (Páll Baldvin Baldvinsson / Fréttatíminn) „… gríðarlega merkileg bók og góð skáldsaga … Sálfræðitryllir.“ (Þorgerður E. Sigurðardóttir / Kiljan) og „Hún hefur slíkar víddir þessi skáldsaga að það er ekki hægt annað en vera gríðarlega hrifinn af henni. Þetta er alger snilldarbók … ofboðslega góð skáldsaga.“ (Egill Helgason / Kiljan).

Þeim mun meiri urðu vonbrigði mín þegar rann upp fyrir mér ljós við lesturinn að bókin er algjört drasl. Þetta er ekki bara vond og leiðinleg bók. Hún er beinlínis léleg. Þetta er illa skrifaður, húmorslaus sósíalrealismi, subbulegt eymdarklám í dulargervi fagurbókmennta, Lilya Forever á sterum.

Persónusköpun Sofie Oksanen er þannig að konurnar eru fórnarlömb og karlarnir eru vondir. Í bókinni er ekki einn einasti karlmaður með snefil af mannkostum. Þeir sem ekki eru ofbeldismenn og nauðgarar eru fyllibyttur og aumingjar. Ljótu karlarnir eru meira að segja með „brundkleprana í punghárunum“, afsakið orðbragðið. Já, persónusköpunin ristir nákvæmlega svona grunnt og er svona tvívíð, hún er nákvæmlega svona ítarleg og laus við listfengi. Sofie Oksanen hefur sem rithöfundur ekki getu til að átta sig á því að hægt er að vera miklu grófari með fáguðu orðbragði og valdi á blæbrigðum tungunnar heldur en með sorakjafti. Það vantar bara að illmenni bókarinnar séu með ör þvert yfir andlitið eins og hjá Enid Blyton. Reyndar gæti Sofie Oksanen lært sitthvað af þessari ensku kynsystur sinni um fjölbreytt og trúverðugt persónugallerí.

Í bókinni dúkkar ekki heldur upp eins einasta kona sem ekki er fórnarlamb vondra eða lélegra manna. Önnur aðalpersónan, gamla konan, á sér að vísu leyndarmál úr fortíðinni, en það er svo ófrumlegt og fyrirsjáanlegt að það kemur manni á óvart, þegar öll kurl eru komin til grafar, að ekkert skyldi koma manni þar á óvart. Sem sálfræðitryllir er þessi bók því á pari við Litla Kláus og Stóra Kláus.

Þegar upp er staðið eftir lestur bókarinnar er manni því efst í huga, fyrir utan léttinn að vera kominn í gegn um þennan skítahaug, hið gríðarlega oflof sem þessi ritsmíð hefur hlotið. Hvað veldur? Ef norrænum menningarvitum verður það á að kíma við lestur bókar, fyrirverða þeir sig þá og leggja bókina frá sér sem eitthvað léttmeti sem sé fyrir neðan virðingu þeirra að eyða tíma í? Eða eru þeir þjakaðir af bókmenntalegri sjálfspíslarhvöt? Eru þeir að refsa sér með lestri bóka? Er líf þeirra svo áreynslulaust og áferðarfallegt að í hvert skipti sem nógu mikið ógeð rekur á fjörur þeirra er eins og þeir hafi himin höndum tekið? Er lesturinn yfirbótaverk? Er Hollywood með einkarétt á fegurð og hamingju og því geti ekkert af því tagi mögulega skotið upp kollinum í „alvöru“ bókmenntum?

Já, heimurinn er ljótur og í honum gerist margt slæmt. Það má alveg skrifa um það. Ég er meira að segja til í að taka það með mér upp í rúm á kvöldin og lesa það. En þá leyfi ég mér líka að gera þá kröfu til rithöfundarins að hann matreiði það þannig að þar sé eitthvað nýtt, einhver óvænt flétta, frumlegur og óvenjulegur sögumaður eða frásagnarháttur og málfar sem bera þess merki að þar haldi á penna einstaklingur með fullkomið vald á stílvopninu. Undir þeirri kröfu rís Sofie Oksanen ekki.

Read Full Post »

Menningarlegur munur þjóða birtist meðal annars í því hvað salernisaðstaða felur í sér í hverju landi. Þegar ég var ungur þurfti ég einu sinni að ferðast með lest frá Istanbúl til Amsterdam, illa haldinn af matareitrun eftir að hafa lagt mér til munns alsírskan geitost. Aðeins einusinni á  ferðalaginu þurfti ég að gera þarfir mínar í gat í gólfið. Það var á Gare de Lyon lestarstöðinni í París, háborg menningar og lista í Evrópu. Jafnvel í búlgörskum landamæraskúr, þar sem ég þurfti að dúsa um hríð vegna misskilnings við vegabréfaeftirlit við tyrknesku landamærin, var mér boðið upp á betri salernisaðstöðu.

Þjóðverjar hafa sinn fræga skoðunarpall ofan í hverju klósetti. Þeir sem dvalið hafa í Þýskalandi hafa vanist þessu og finnst óþægilegt að heyra plaskið í annars konar salernum. Ítalir hafa það sem þeir kalla „bidet“. Það er sérstakur rassavaskur til að þvo á sér óæðri endann. Ég hef heyrt Ítali kvarta undan því að þetta vanti í norræn baðherbergi. Reyndar þarf ekki að hafa lifað lengi á suðurevrópskum mat til að skilja hvernig hugmyndin að þessu fyrirbæri varð til.

Danir hafa tekið upp á athyglisverðri nýjung í sambandi við sturtur. Hún er í því fólgin að baðherbergið sjálft gegnir hlutverki sturtuklefa, sturtuhausinn stendur niður úr loftinu. Kannski er hægt að draga tjald fyrir til að hlífa vaskinum og salerninu við mestu vætunni. Þetta þýðir samt sem áður að það er viðvarandi ástand á dönskum salernispappír að vera rakur. Sennilega er þetta gert til að spara pláss, hugsanlega til að spara tíma – því þetta leyfir auðvitað að tvær flugur séu slegnar í einu höggi þarna inni.

Á dönsku hóteli, þar sem ég dvaldi nýlega, var fyrirkomulagið með þessu móti. Tveir kranar stýrðu vatninu. Annar stillti kraftinn og hitann, hinn stjórnaði því hvort bunan kæmi ofan í vaskinn eða niður úr loftinu. Þessu fyrirkomulagi er alveg hægt að venjast. Það tók mig bara tvo daga. Þriðja morguninn sem ég dvaldi þarna hafði ég loks vit á því að athuga hvort konan mín, sem nýkomin var úr sturtu, hefði stillt bununa til baka á vaskinn þegar ég ætlaði að þvo mér um hendurnar. Ég lenti bara fullklæddur í sturtubaði tvisvar á meðan á dvölinni stóð.

Nú vantar mig aðeins túlkunarlykil. Hvað er það nákvæmlega sem þessi fjölbreyttu tilbrigði við baðherbergi segja manni um ólíka menningu þjóða?

Bakþankar í Fréttablaðinu 1. 10. 2011

Read Full Post »