Feeds:
Færslur
Athugasemdir

Archive for nóvember, 2011

Það er vandasamt að taka þátt í opinberri umræðu. Pyttirnir eru margir sem hægt er að falla í. Einn sá algengasti er ad hominem rökvillan. Þá er ekki ráðist málflutning þeirra sem maður er ósammála og bent á villur í rökleiðslu þeirra, heldur er ráðist á persónu þeirra. Eitthvað sem kemur málinu ekki við er notað gegn þeim, t.d. kynhneigð, kynferði eða skoðanir á einhverju allt öðru. Jafnvel eru andstæðingnum gerðar upp annarlegar hvatir fyrir skoðunum sínum. Ég ætla ekki að láta eins og ég sé alsaklaus af þessum ósóma, en maður verður óneitanlega varari við þetta þegar maður verður fyrir barðinu á því en þegar maður álpast til að beita því sjálfur. Það er nefnilega auðveldara en maður heldur að verða þetta á.

Fyrir mörgum árum var ég útvarpsmaður. Þá skrifaði Magnús Skarphéðinsson grein í blað þar sem hann gagnrýndi fyrirkomulag endurvinnslu á Íslandi. Forstjóri Sorpu neitaði að svara gagnrýninni og sagði við mig í síma eitthvað á þá leið að bullið í Magnúsi Skarphéðinssyni hefði hingað til ekki þótt svaravert. Þetta er skólabókardæmi um ad hominem. Þar sem Magnús trúir á álfa og geimverur er fráleitt að hægt sé að rökræða við hann um endurvinnslu.

Þeim sem eru á bandi pólitískrar rétthugsunar virðist mér hættara við þessum afglöpum en öðrum. Nýlega skrifaði ungur karlmaður t.d. pistil á vefmiðli um ýmis skrif þar sem fundið er að aðgerðum sk. Stóru systur. Í fyrstu setningunni lýsir hann yfir því að þessi skrif séu áhugaverð. Strax í annarri setningunni segir hann síðan: „Ég velti því fyrir mér hvort þetta fólk hafi einhverra hagsmuna að gæta og hvort Stóra systir sé að ógna þeim [sic].“ Það er m.ö.o. óhugsandi að hægt sé að gjalda varhuga við því að nafnlausir einstaklingar taki lögin í sínar eigin hendur nema það ógni manni persónulega og maður eigi sjálfur hagsmuna að gæta. Hvaða hagsmunir gætu það annars verið? Hann hefði eins getað sagt berum orðum: „Aðeins hórkarlar, hórur og melludólgar gagnrýna Stóru systur.“

Ég gæti skrifað: „Það er áhugavert að fylgjast með ungum körlum verja aðgerðir Stóru systur. Ég velti því fyrir mér hvort þeir hafi einhverra hagsmuna að gæta og hvort gagnrýni á þær ógni þeim.“ Það þætti væntanlega ómerkilegur málflutningur, enda væri hann það. Hann væri aftur á móti á nákvæmlega sama plani.

Umræða af þessu tagi er ekki boðleg.

Bakþankar í Fréttablaðinu 26. 11. 2011

Read Full Post »

Stundum rekur maður augun í fréttir sem verða þess valdandi að maður rekur upp stór augu og hristir höfuðið. Þetta eru ekki alltaf stórfréttir. Í síðustu viku var t.d. smáklausa á bls. 2 í Fréttablaðinu undir fyrirsögninni „Mildari refsing ofbeldismanns“. Forsaga málsins er sú að maður nokkur gekk svo í skrokk á fyrrum sambýliskonu sinni að hún sá sér þann kost vænstan að fleygja sér fram af svölum til að flýja ofbeldið. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að ofbeldismaðurinn væri ekki ábyrgur fyrir áverkunum sem konan hlaut af fallinu, aðeins áverkunum af barsmíðunum. Refsing mannsins var því milduð úr tveggja ára fangelsi í 18 mánuði og skaðabæturnar, sem honum var gert að greiða henni, voru lækkaðar úr 860.000 kr. í 300.000 kr.

Mikið hlýtur að vanta upp á að nógu ítarlega sé greint frá öllum málavöxtum í þessu greinarkorni til að nokkrum óbrjáluðum manni geti fundist heil brú þessari niðurstöðu. Á kona þessi sér langa sögu af áráttukenndri hegðun sem lýsir sér í því að hún er sýknt og heilagt að fleygja sér fram af svölum og því bendi ekkert til þess að sú ákvörðun hennar að láta vaða hafi staðið í einhverju sambandi við barsmíðarnar sem hún sætti alveg þangað til hún stökk? Iðkaði konan „base-jump“ af slíkri ástríðu að hún lét það ekki afra sér frá því að stunda íþrótt sína að verið væri að lúberja hana? Ég hef ekki hugmyndaflug til að láta mér detta í hug fleiri skýringar sem gætu réttlætt þessa niðurstöðu. Hvernig í ósköpunum getur það talist ósannað að maðurinn beri ábyrgð á fallinu?

Auðvitað breytir það ósköp litlu í hinu stóra samhengi hvort maðurinn kemur sex mánuðum fyrr eða síðar úr fangelsi til að halda uppteknum hætti, sem rannsóknir sýna að allar líkur eru á að hann geri fái hann ekki meðferð við ofbeldishegðun sinni í afplánuninni. En hægt er að berja allmargar konur á sex mánuðum og þessi dómur getur því skipt sköpum í lífi þeirra sem verða á vegi hans þessa sex mánuði sem hann öðrum kosti hefði verið á bak við lás og slá.

Samt fæ ég ekki betur séð en að Hæstiréttur hafi með þessum úrskurði sett fram uppskrift að því hvernig drepa megi mann og komast upp með það: Hrekja hann fram af klettum. Sé Hæstiréttur sjálfum sér samkvæmur þyrfti hann að komast að þeirri niðurstöðu að það hefðu ekki verið hrakningarnar sem drápu manninn, heldur lendingin.

Bakþankar í Fréttablaðinu 12. 11. 2011

Read Full Post »

Reykjavík, 3. 11. 2011

Ágæta María Lilja.

Ég skrifa þennan pistil til að biðja þig afsökunar á því að hafa hótað þér málsókn vegna greinar þinnar „Opið bréf til Davíðs Þórs Jónssonar“ sem birtist á vefsíðunni Innihald.is sl. mánudag. Ég iðrast þeirrar hótunar. Hún var sett fram í uppnámi vegna skrifa þinna og var mér ekki samboðin. Það eina sem ég get sagt mér til varnar er að ég held að þær þungu sakir, sem ég er borinn í umræddri grein, gætu komið mér rólyndara fólki úr jafnvægi. Ég set þessa afsökunarbeiðni fram á sama vettvangi og ég setti hótunina fram í þeirri von að hún berist þér til eyrna með sama hætti. Ég er ekki að krefja þig um fyrirgefningu, en ég vona að þér muni einhvern tímann finnast ég eiga inni fyrir henni. Hótun mín um lögsókn er hér með dregin til baka.

Ástæða þess að ég dreg hana til baka er ekki sú að ég óttist að tapa málinu. Þvert á móti hafa mér lögfróðari menn sagt mér að málið ynnist nær örugglega. Fullyrðingar um refsiverða háttsemi og kynferðislega brenglun flokkast víst tvímælalaust undir meiðyrði samkvæmt lögum.

Ástæða þess að ég dreg hana til baka er ekki sú að jafnvel þótt málið ynnist væri sú niðurstaða líklegri til að valda mér meiri skaða en þér til lengri tíma litið. Markmið mitt var ekki að valda þér skaða, aðeins að fá það staðfest opinberlega að ásakanir þínar væru ómaklegar og rangar. Það hef ég þegar fengið staðfest nógu áreiðanlega fyrir mig, ekki af dómstólum heldur þeim mikla fjölda fólks sem lýst hefur yfir stuðningi og samúð með mínum málstað undanfarna daga. Ég óttast ekki að ummæli þín hafi í raun orðið æru minni til neins hnekkis. Reyndar hef ég það sterklega á tilfinningunni að þegar upp er staðið verði þau mannorði þínu til mun meira tjóns en mínu.

Ástæða þess að ég dreg hana til baka er ekki sú að með því væri ég kominn í hóp manna sem ég kysi fremur að tilheyra ekki. Þeir sem aðhyllast „tengslasekt“ (e. guilt by association) hafa gerst sekir um grundvallarrökvillu. Það að ég gæti átt það sameiginlegt með öðrum að hafa höfðað meiðyrðamál myndi tengja mig þeim á nákvæmlega sama hátt og Jón Gnarr tengist Adolf Hitler vegna þess að báðir eru/voru þeir grænmetisætur.

Ástæða þess að ég dreg hana til baka er sú að mér finnst meiðyrðalöggjöfin vond, eins og ég hef tjáð mig um opinberlega. Með því að höfða meiðyrðamál yrði ég uppvís að tvískinnungi: „Meiðyrðalöggjöfin er heimskuleg nema þegar meiðyrðin beinast að mér.“ Það er m.ö.o. vegna samvisku minnar sem ég dreg hana til baka og einnig vegna samvisku minnar sem ég sé ástæðu til að biðja þig afsökunar á að hafa sett hana fram.

Á endanum er það þó auðvitað einkum ég sjálfur sem þarf að fyrirgefa mér þetta gönuhlaup mitt gegn minni eigin sannfæringu og þeim gildum sem ég ekki bara trúi á heldur trúi að sáluhjálp mín byggi á að hafa í heiðri. Nú er mitt verkefni að ávinna mér þá fyrirgefningu. Með því að bregðast við persónusvívirðingum með hótunum er ofbeldi svarað með ofbeldi. Það er ekki aðferðafræði sem ég vil standa fyrir.

Þegar ég hafði skrifað pistilinn, sem öllu hleypti í bál og brand til að byrja með, hugsaði ég með mér að af þessu kynnu að hljótast leiðindi. Þeir sem ekki taka möglunar- og gagnrýnislaust undir allt, sem ákafasta kvenréttindafólk landsins um þessar mundir heldur fram, eru nefnilega gjarnan úthrópaðir sem málsvarar meinsemdanna sem barátta þeirra beinist gegn. Ég var því að því kominn að henda pistlinum í ruslið og skrifa um eitthvað allt annað. Mín næsta hugsun var: „Ertu þá farinn að láta stóru systur ritskoða þig?“ Ég fann þó að þetta var rangt og leiðrétti hana: „Ertu þá farinn að ritskoða þig sjálfur af ótta við stóru systur?“

Staðreyndin er nefnilega sú að fullt af fólki er dauðhrætt við að leggja orð í belg af ótta við viðbrögð eins og grein þín var. Og það, María Lilja, er jarðvegur fasismans. Þegar fólk þorir ekki að segja skoðanir sínar af ótta við ofbeldi er illt í efni. Þá er ástæða til að staldra við og hugsa sinn gang. Ég verð því að segja eins og er að ásakanir þínar um tilraunir til þöggunar þóttu mér koma úr hörðustu átt. Þar hjó sá er hlífa skyldi. Í grein minni reyndi ég aðeins að gjalda varhuga við því að nafnlausir einkaaðilar noti og gerist tálbeitur og lagði til aðrar aðferðir í barátunni gegn vændi, sem við bæði álítum greinilega vera þjóðarmein. Svar þitt var áburður um málsvörn fyrir mansal og vændi. Það eru nákvæmlega þessi mælskufræðilegu fólskubrögð sem að mínu mati eru hin raunverulega tilraun til þöggunar sem nú er að eiga sér stað í umræðunni og ástæða er til að hafa áhyggur af.

Ég hefði kosið að geta rætt ágreining okkar efnislega og málefnalega. Í gegn um mistur hinnar ómálefnalegu orðræðu sýnist mér hann snúast um þrennt, þ.e. a) réttmæti þess að einkaaðilar noti eða gerist tálbeitur, b) orsakir vændis, þ.e. hvort orsaki hitt, framboðið eða eftirspurnin og c) hvort réttlætanlegt sé að nokkur kona selji aðgang að líkama sínum undir nokkrum kringumstæðum. Um það vil ég segja:

a) Auðvitað ber að stöðva glæpi sem augljóslega eru í uppsiglingu. En það réttlætir að mínu mati ekki að fólk sé gert út af örkinni gagngert til að koma glæpum í uppsiglingu til að stöðva. Tilraun til manndráps er vissulega refsiverð, enda yfirleitt um alvarlega líkamsárás að ræða. Það réttlætir þó ekki að fólk sé gert út af örkinni til að snapa fæting í þeim tilgangi einum að stöðva tilraunir til manndráps. Þetta er mín skoðun og ég hef rétt á henni og tel mig hafa sett hana fram af rökvísi og yfirvegun. Sértu annarrar skoðunar þætti mér gott að heyra hana rökstudda. Vangaveltur um að ég eigi hagsmuna að gæta ásamt dylgjum um fortíð mína og kynverund eru ekki rökstuðningur.

b) Ég tel baráttuna gegn vændi verða að ráðast að því sem orsakar framboðið og það sé neyð kvenna, kúgun þeirra og bág staða. Þú telur baráttuna eiga að beinast að rótum eftirspurnarinnar, kynferðislegri brenglun karla. Gott og vel. Þetta vildi ég geta rökrætt við þig án þess að sitja undir áburði um kynferðislega brenglun. Ég skal viðurkenna að ég studdi mína skýringu engum rökum í pistli mínum frekar en þú í þínum. Sumpart er það vegna þess að ég taldi það óþarfa, ég taldi þá skýringu alkunna að konur stunduðu langofstast vændi tilneyddar vegna örbirgðar eða annarrar kúgunar og báginda. Sumpart rökstuddi ég hana ekki sérstaklega vegna þess að sú krafa var ekki gerð til mín af fjölmiðlinum sem pistillinn var skrifaður fyrir. Aðalástæðan er þó sú að pistillinn minn varð að takmarkast við 350 orð. Þessi texti er nú þegar orðinn á tólfta hundrað orð. Siðareglur Innihalds gera aftur á móti þá skýlausu kröfu til greinarhöfunda að þegar alkunnum skýringum er hafnað og nýjar settar fram í þeirra stað skuli þær studdar rökum og heimildum, ekki tilfinningu greinarhöfunda einni saman. Mér þætti vænt um að heyra rök og sjá heimildir sem styðja þína skilgreiningu. Satt best að segja þykir mér nefnilega ósennilegt að meginorsök vændis sé sú að mikill fjöldi kvenna, sem aldrei hefði hugleitt vændi öðrum kosti, hafi upp úr þurru og óumbeðið fengið tilboð sem þær gátu ekki hafnað frá kynferðislega brengluðum körlum. En hugsanlega höfum við bæði rangt fyrir okkur. Raunverulegar orsakir vændis kynnu að vera flókið samspil ýmissa samfélagsþátta og hugarfarslegra og þjóðfélagslegra meinsemda sem hvorugt okkar gerir sér fulla grein fyrir. Hugsanlega erum við hér að deila um það hvort komi fyrr, eggið eða hænan.

c) Í pistli mínum legg ég ríka áherslu á sjálfsákvörðunarrétt kvenna yfir eigin líkama og bæti við að það feli í sér rétt þeirra til að ráðstafa honum samkvæmt sínu eigin siðferði, ekki siðferði sjálfskipaðrar stóru systur þeirra. Ég efast ekki um að ef engin kona neyddist til að selja líkama sinn vegna ofbeldis, örbirgðar eða annars og stæðu aðrir kostir til boða sér til viðurværis myndi framboð á vændi minnka um 99% til 100%. Eftir stendur þetta mögulega 1%. Sjálfsákvörðunarrétti yfir eigin líkama fylgir, að mínu mati, rétturinn til kynmaka við þá sem maður kýs sjálfur af hvaða hvötum sem er, hvort sem þær eru ást, losti, von um fjárhagslegt öryggi til lengri eða skemmri tíma eða eitthvað allt annað. Það að annar hópurinn sé stærri en hinn réttlætir ekki að réttindi fámennari hópsins séu fyrir borð borin. Þegar upp er staðið eru það nefnilega ekki hópar sem njóta mannréttinda heldur menn og allir menn eru ekki bara jafnir heldur jafnmargir: Einn. Ég vil líka taka fram að sé sú kona til sem af eigin hvötum og frumkvæði kýs að selja líkama sinn þótt henni standi aðrir kostir til boða, sem er fræðilegur möguleiki þótt ég sé ekki að fullyrða að svo sé, þá geri ég mér engar grillur um að hún væri raunverulega hamingjusöm. Ég frábið mér því allar dylgjur um að ég sé talsmaður hinnar ímynduðu „hamingjusömu hóru“ eins og haldið hefur verið fram. Ég er aðeins málsvari þess að engin manneskja skuli neydd til að gera annað við líkama sinn en henni sjálfri hugnast og að hver manneskja hafi rétt til að gera við hann hvað sem henni sjálfri hugnast öðrum að skaðlausu. Henni sjálfri – ekki mér.

Þetta er nú orðið töluvert lengra en til stóð. Sennilega er mér meira niðri fyrir en ég gerði mér grein fyrir þegar ég settist við lyklaborðið. Ég vona að þú fyrirgefir mér það og hafir enst til að lesa þetta.

Að lokum vil ég aðeins ítreka afsökunarbeiðni mína og harma að ég skyldi með hótun minni um málshöfðun draga þessa mikilvægu og viðkvæmu umræðu niður á plan sem ég vil vera hafinn yfir. Ég er reiðubúinn til að rökræða skoðanir mínar efnislega og málefnalega hvar og hvenær sem er upp að því marki sem annir mínar við brauðstritið og aðrar skuldbindingar leyfa. En á meðan þær fullyrðingar þínar, María Lilja, standa óhaggaðar að ég sé kynferðislega brenglaður og að skoðanir mínar stafi af þessari brenglun minni en ekki þeim röksemdum sem ég hef reynt að tefla fram af eins mikilli skynsemi og yfirvegun og ég er fær um að sýna eigum við tvö ekki meira vantalað.

Lifðu heil,

Davíð Þór Jónsson

Read Full Post »