Feeds:
Færslur
Athugasemdir

Archive for desember, 2011

Gloria

Dásamlegi Drottinn Guð,

þín dýrð er meiri en konungshalla,

leiðsögn þín sé lofsömuð

og líknin þín um veröld alla.

Gæska þín úr gildi mun ei falla.

Þú gafst mér allt til gleði og frelsis.

Gloria in excelsis.

 

Kærleiksríki Kristur sem

komst til mín í skuggadalinn,

fátækt barn í Betlehem,

bandingi til dauða kvalinn,

allt hið ljóta lagðir þú í valinn.

Þú gafst mér allt til gleði og frelsis.

Gloria in excelsis.

 

Guð á himni, Guð á jörð,

Guð í mínu innsta hjarta,

þér ég krýp í þakkargjörð,

þú sem slökktir myrkrið svarta

og kveiktir von um veröld nýja og bjarta.

Þú gafst mér allt til gleði og frelsis.

Gloria in excelsis.

Read Full Post »

Sennilega hefur engin flökkusaga farið eins víða og sagan af fæðingu Jesú. Jólaguðspjallið er löngu orðið snar þáttur af íslenskum jólum og þar af leiðandi menningu okkar. Aftansöngurinn í útvarpinu er ómissandi í jólahaldi margra heimila og skólar setja gjarnan upp helgileiki þar sem fyrsta setningin er oftar en ekki: „En það bar til um þessar mundir að boð kom frá Ágústusi keisara að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina.“ Þegar þessi setning hljómar í útvarpinu á aðfangadagskvöld þýðir hún í raun: „Jólin eru komin.“

Sumum finnst það varpa rýrð á þessa frásögn að engar heimildir utan Nýja testamentisins skuli greina frá því boð af þessu tagi hafi komið frá Ágústusi keisara um þessar mundir. Reyndar má stórefa að hin sögulega persóna, Jesús frá Nasaret, hafi í raun fæðst í Betlehem í Júdeu. Staðsetningin þjónar líklega fyrst og fremst þeim tilgangi að sýna að í Jesú hafi ræst messíasarspádómur Míka (5.1). En messías Míka var hinn hefðbundi messías klassísks gyðingdóms; veraldlegur konungur. Míka hafði ógeð á „stjórnmálastétt“ síns tíma. Þess vegna þurfti foringja sem var ómengaður af spillingu hirðarinnar í Jerúsalem, nýjan gullaldarleiðtoga, nýjan Davíð konung. Messíasinn skyldi því koma frá borg Davíðs – ekki Jerúsalem. Betlehem táknaði ferska vinda, „nýtt blóð“.

Vegna þess hve sagnfræðilegum áreiðanleika jólaguðspjallsins virðist vera áfátt hef ég heyrt fullyrt að það sé bara helgisaga. Í mínum huga er orðasambandið „bara helgisaga“ aftur á móti þversögn. Eins mætti kalla alla sögu, listir og menningu mannkynsins „bara alla sögu, listir og menningu mannkynsins“, bróðurþel og náungakærleika „bara bróðurþel og náungakærleika“ og sjálfan tilgang lífsins „bara sjálfan tilgang lífsins“.

Helgisaga miðlar ekki þurrum sagnfræðilegum staðreyndum á borð við ártöl, dagsetningar og staðsetningar, heldur er hún táknræn og þrungin trúarlegri merkingu. Jólaguðspjallið geymir þannig eilífan, andlegan sannleika, en ekki sagnfræðilegan raunveruleika. Þrír vitringar, fulltrúar mannlegrar visku og þekkingar úr öllum heimshornum (þau voru þrjú í Ísrael til forna) leggja heiminn að fótum frelsarans í formi gjafa. Guð sendir þeim lægst settu í samfélaginu þessi skilaboð: „Verið óhræddir.“

Frelsari er fæddur. Vonin er komin í heiminn. Lífið hefur tilgang. Guð elskar þig.

Gleðileg jól.

Read Full Post »

Mörgum er uppsigað við hinn svokallaða fjórflokk. En staðreyndin er sú að við búum ekki við fjögurra flokka kerfi, heldur fimm. Fimmti flokkurinn skiptir reglulega um nafn og sjálfsmynd, en hann er alltaf athvarf þeirra sem vilja vera partur af kerfinu en finna sig ekki í hinum hólfunum. Fimmti flokkurinn, hvort sem hann heitir Borgaraflokkurinn, Frjálslyndi flokkurinn, Kvennalistinn, Þjóðvaki eða Borgarahreyfingin, verður síðan smám saman samdauna hinni pólitísku ólykt og tekur upp alla ósiðina sem honum var stefnt gegn í upphafi, ómálefnalega orðræðu og hið séríslenska kosningasvindl sem flokkaflakk þingmanna á miðju kjörtímabili er. Síðasta tilraunin, Hreyfingin, er skólabókardæmi. Ekki hafði hún lengi átt fulltrúa á þingi áður en þar upphófust dylgjur um geðræn vandamál þingmanna og flokkaflakkið byrjaði.

Þess vegna er kominn tími á nýjan, ferskan og frumlegan fimmtaflokk. Málefnin þurfa ekki einu sinni að liggja fyrir, það er nóg að hann sé í eigin huga ferskur og frumlegur ólíkt öllum flokkunum sem hingað til hafa farið fram úldnir og ófrumlegir að eigin mati. Flokkurinn verður leiddur af skilgetnasta afkvæmi íslenskra stjórnmála 20. aldarinnar, flokkaflakkaranum Guðmundi Steingrímssyni Hermannssonar Jónassonar. Hann er greindarpiltur sem gott eitt vakir fyrir, en þessi aðferðafræði mun ekki duga honum betur til að siðvæða íslenska pólítik en þeim fjölmörgu sem reynt hafa hana á undan honum.

Að ætla að nota fimmta flokkinn til að bæta íslenska pólitík hefur reynst ámóta gagnlegt og að hreinsa drullupoll með því að bæta út í hann pínulitlu af fersku vatni. Góðu áformin verða undatekningalaust hinni gerspilltu pólitísku ómenningu að bráð. Enn er mulið undir alþingismenn, þeir hafa jafnvel fengið aðstoðarmenn á launum hjá almenningi svo þeir komist í jólafrí í byrjun desember og ekki hefur verið hróflað við eftirlaununum sem þeir skömmtuðu sér sjálfir og eru ekki í neinu samræmi við það sem tíðkast hjá fólki sem þarf að sjá fyrir sér með heiðarlegri vinnu.

Við þurfum ekki fleiri flokka á Alþingi. Við þurfum ekki nýtt fólk á Alþingi. Það er fullreynt. Við þurfum að jafna Alþingi við jörðu og byggja nýtt stjórnkerfi frá grunni. Núverandi fyrirkomulag er þess eðlis að það eitt að hafa áhuga á því að sitja á þingi gerir hvern mann siðferðilega vanhæfan til þess.

Bakþankar í Fréttablaðinu 10. desember 2011

Read Full Post »