Feeds:
Færslur
Athugasemdir

Archive for febrúar, 2012

Undanfarið hefur töluvert verið rætt og ritað um það hvort trúfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar geri menn undanþegna landslögum um hatursáróður ef þeir geta fært rök fyrir því að mannhatrið sé trúarleg afstaða. Minna hefur verið rætt um það hvaða sálarmein valdi því að kristni sumra skuli brjótast út í hatursáróðri en ekki kærleiksáróðri. Jesús frá Nasaret var jú einhver mesti áróðursmeistari kærleikans sem uppi hefur verið: „Elska skaltu náungann eins og sjálfan þig.“

Það er rétt að í Gamla testamentinu er kynlíf tveggja karlmanna sagt viðurstyggð (3M 18.22; 20.13). Á báðum þessum stöðum er líka tekið fram, nánast í næstu setningu á undan eða eftir, að fólk skuli ekki sofa hjá á meðan konan er á túr (18.19; 20.18). Af einhverjum ástæðum virðast þeir, sem mest er í nöp við hommaskap, alveg láta hjá líða að berjast með sama offorsi gegn því að fólk sé að gera dodo þegar Rósa frænka er í heimsókn – þótt Guð þeirra hafi alveg jafnmikla andstyggð á því. Þeir, sem byggja vilja hjónabandsskilning sinn á Gamla testamentinu, verða auk þess að samþykkja fjölkvæni (1Kron 3.1-9 o.fl.), kynlífsþrælkun og nauðungarstaðgöngumæðrun (1M 16.1-4) og að nauðgari geti komist hjá refsingu með því að kvænast fórnarlambi sínu og greiða föður þess skaðabætur (5M 22.28-29). Þeir, sem beita Gamla testamentinu fyrir sig í þessari umræðu, eru greinilega að velja það sem hentar fordómum þeirra úr safni fyrirmæla sem þeim dettur ekki í hug að taka önnur ákvæði úr alvarlega. Ég leyfi mér að fullyrða að erfitt sé að finna nokkra bók, sem verr er til þess fallin að byggja kristinn hjónabandsskilning á, en ritasafn Gamla testamentisins – alltjent ef lögbók hirðingjaþjóðar frá bronsöld er skilin bókstaflega og hvorki er reynt að lesa þetta ritasafn í samhengi ritunartíma síns og menningarsögulegs bakgrunns, innbyrðis samhengi sögunnar, sem þar er sögð, né að greina kjarnaboðskap hennar. Þeir, sem lesa Gamla testamentið með þessum hætti, mættu hafa hina kristilegu grundvallarafstöðu í huga: „Dæmið ekki og þér munuð eigi verða dæmd.“ (Lúk 6.37)

En á hverju eigum við þá að byggja „kristinn“ hjónabandsskilning? Þetta kann að hljóma langsótt en kannski væri óvitlaust að byggja hann á Kristi sjálfum: „Á því munu allir þekkja að þér eruð mínir lærisveinar ef þér berið elsku hver til annars.“ (Jóh 13.35)

Bakþankar í Fréttablaðinu 18. 2. 2012

Read Full Post »

Fyrir nokkrum árum hringdi síminn heima hjá mér á laugardagskvöldi. Fyrr um kvöldið hafði verið sýndur skemmtiþáttur í Sjónvarpinu sem ég skrifaði og lék í ásamt besta vini mínum. Í símanum var kona sem spurði mig hvort ég væri sá hinn sami Davíð Þór og hefði verið í sjónvarpinu fyrr um kvöldið. Eftir að hún fékk þetta staðfest tilkynnti hún mér sallaróleg eftirfarandi:

a)        Að ég væri ógeðslegur.

b)        Að það ætti að skjóta mig í hausinn.

c)        Að hún væri búin að gera ráðstafanir til að það yrði gert von bráðar.

Ég viðurkenni að mér varð ekki um sel. Ég hringdi í lögregluna, en hún gat ekkert gert annað en að ráðleggja mér að fá mér símanúmerabirti og skrifa hjá mér símanúmerið ef ég fengi annað símtal af þessu tagi. Næst hringdi ég í vinkonu mína, þjóðþekkta manneskju sem þá hafði verið á milli tannanna á fólki og umfjöllunarefni gulu pressunnar vegna einkalífs síns. Þegar ég sagði henni hvað hefði átt sér stað svaraði hún: „Velkominn í klúbbinn.“

Mér hefur aldrei verið sýnt morðtilræði svo ég viti til. Hafi kona þessi því gert alvöru úr þeirri hótun sinni að koma mér fyrir kattarnef hefur sú tilraun verið svo misheppnuð að ég varð hennar ekki einu sinni var.

Staðreyndin er sú að það er til fullt af mjög veiku fólki, andlegum og siðferðislegum lyddum, sem fá eitthvað út úr því að hóta öðrum öllu illu þegar þeim finnst þeim ógnað. Sennilega er þetta fólk þjakað af vanmáttarkennd og valdaleysi. Því finnst það máttugt og sterkt og finnur til sín þegar það nær að skjóta öðrum skelk í bringu. Ótti og vanmáttarkennd eru algengustu hvatirnar að baki ofbeldis. Það er engin tilviljun að „fræga fólkið“ er sjaldnast í símaskránni. Það þarf ekki mörg svona símtöl til að menn taki þá ákvörðun að hafa símanúmerið sit ekki öllum aðgengilegt.

Til að fá morðhótun á Íslandi eða aðrar ámóta óskemmtilegar orðsendingar þarf ekki mikið. Það þarf aðeins að koma fram opinberlega og falla hinum sjúka ekki í geð. Við þá sem hafa lent í því að berast ofbeldishótanir að undanförnu langar mig því aðeins að segja eitt: „Velkomin í klúbbinn.“

Aldrei datt mér í hug að leggja alla, sem ekki höfðu húmor fyrir Radíusbræðrum, að jöfnu við þessa veiku konu. Ég sé það núna að ég hefði getað komið fram í fjölmiðlum sem píslarvottur og kyndilberi nýrra viðhorfa og áunnið mér samúð. Allir sem ekki féllu flatir fyrir öllu sem frá mér kæmi væru andlegir aumingjar sem aðeins geta gripið til hótana og annars ofbeldis. Ég hefði getað gengið enn lengra og sagt þá sem af stillingu og yfirvegun létu í ljós þá skoðun að ég væri ekki fyndinn væru sömu siðferðislegu ógeðin og hinir, eini munurinn væri sá að þeir væru svo lævísir að í stað ofbeldis og hótana beittu þeir stillingu og yfirvegun. Ég hefði jafnvel getað dregið Tvíhöfða inn í dæmið, en þeir höfðu þá nýlega lýst því yfir í blaðaviðtali að Radíusbræður væru ekki lengur fyndnir. Eini munurinn á þeim og þessari lösnu konu væri sá að Jón Gnarr hefði ekki hringt í mig og hótað að drepa mig.

Svoleiðis gerir auðvitað engin heilvita manneskja, eða hvað? Fjölmiðlar myndu aldrei láta spila svoleiðis með sig, er það? Sú var a.m.k. ekki raunin þegar ég fékk mína morðhótun á síðasta áratug síðustu aldar. En nú er landslagið og viðhorfin breytt. Í dag þykir þetta sjálfsagt mál. Hið svokallaða „skotbyrgishugarfar“ (e. bunker mentality) er allsráðandi.

Með „skotbyrgishugarfari“ er átt við þá bjargföstu sannfæringu að „við“ höfum höndlað sannleikann og „hinir“ séu eitt stórt illt afl sem hatar „okkur“ og lætur einskis ófreistað til að ráða niðurlögum „okkar“. Skotbyrgishugarfar má draga saman í setninguna: „Sá sem er ekki einn af okkur er einn af hinum.“ Stríðið gegn hryðjuverkum er skólabókardæmi. Það var háð á þeim forsendum að hver sá sem ekki samþykkti gagnrýni- og fyrirvaralaust allt sem George W. Bush sagði og gerði var þar með hlynntur hryðjuverkum. Þess vegna þorði enginn að hreyfa mótmælum, það jafngilti því sem næst farseðli til Guantanamo – aðra leið. Sá sem ekki studdi Bandaríkin í einu og öllu var stuðningsmaður Al Qaída. Skotbyrgishugarfarið er verkfæri handhafa pólitískrar rétthugsunar til þöggunar og sjálfsritskoðunar.

Ekki alls fyrir löngu skrifaði ég Bakþanka í Fréttablaðið þar sem ég m.a. hvatti til baráttu gegn mansali og vændi. Ég sagði neyð, kúgun og örbirgð kvenna ásamt öðru ofbeldi sem þær eru beittar vera samfélagsmein sem ráðast þyrfti gegn. Í þessum Bakþönkum varð mér það aftur á móti á að gjalda varhuga við því að einkaaðilar tækju það að sér óumbeðnir að gerast tálbeitur til að upplýsa sakamál. Það var nóg til þess að fjandinn væri laus.

Skömmu síðar birtist grein á netinu þar sem ég var sagður „reka upp harmakvein“ fyrir hönd hórkarla, ég væri talsmaður mansals og vændis og ekki bara það … ég væri beinlínis hlynntur nauðgunum og barnamisnotkun. Og af hverju? Jú, af því að ég væri kynferðislega brenglaður. Greinin var svo langt fyrir neðan allar hellur að hún var fljótlega fjarlægð af vefmiðlinum sem birti hana og ég var beðinn afsökunar á ærumeiðingunum í henni. Illu heilli hafði ég snöggreiðst og hlaupið á mig, eins og mér hættir til þegar mitt viðkvæma stolt er sært, og hótað höfundi greinarinnar málssókn. Þegar mér rann reiðin gerði ég mér grein fyrir því að málssókn yrði hundleiðinleg og tímafrek og að þessi skrif myndu þegar upp væri staðið reynast mun skaðlegri æru höfundar þeirra en minni. Ég dró því hótun um málshöfðun til baka án þess að bakka með neitt annað. Auðvitað tókst einhverjum að lesa það sem þá „séríslensku list“ að biðjast afsökunar án þess að biðjast afsökunar á neinu.

Nýverið reið Sóley Tómasdóttir síðan á vaðið og hjó í sama knérunn. Ég reyndi að leiða þetta hjá mér enda kominn með upp í kok af því að reyna að rökræða við fólk sem fast er í skotbyginu sínu og lítur á rök sem klæki og lymskubrögð „hinna“ til að telja fólki trú um að þeir kynnu að hafa eitthvað fyrir sér. Reyndar er stórmerkilegt að þessi skoðanasystir stúlkunnar sem kallaði mig kynferðislega brenglaðan hórkarl segi í þesarri grein: „Það á enginn að þurfa að sitja undir persónulegum árásum vegna skoðana sinna.“ Engu að síður heldur hún áfram og leggur mig að jöfnu við menn sem hóta og beita ofbeldi og nota fúkyrði og dónaskap í opinberri umræðu. Mennirnir sem nefndir eru í sömu andrá og ég eru annars vegar Gilzenegger, sem einna helst er á móti feminisma af því hvað feminstar séu ljótir og telur þær aðeins þurfa „hágæðalim“ til að láta af ruglinu, og hins vegar Jón stóri, fíkniefnasali sem vakið hefur þjóðarathygli fyrir að halda stúlkum undir lögaldri uppi á eiturlyfjum í skiptum fyrir kynlíf. Þetta er félagsskapurinn sem ég er settur í. Að mati Sóleyjar er ég andlegur tvíburi þeirra, kurteisa útgáfan af þeim. Ég kalla hana nefnilega ekki kuntu og segist auk þess vera á móti mansali og vændi, geld varhuga við staðgöngumæðrun gegn greiðslu og styð jafnrétti kynjanna, jöfn tækifæri og launajafnrétti. Lymsku minni og klækjabrögðum við að tjá kvenfyrirlitningu mína eru greinilega engin takmörk sett.

Að mati Sóleyjar er ég nákvæmlega sami dóninn og hinir dónarnir. Ég dulbý bara dónaskap minn á bak við rök og staðreyndir. Því til stafestingar vitnar hún í grein eftir mig þar sem ég ýja að því að píkuhárarakstur sé ekki mest aðkallandi janfréttismál nútímans. Auðvitað gerir hún ekki tilraun til að hnekkja orði af því sem ég hef látið frá mér fara, enda finnst henni málflutningur minn ekki segja meira um raunverulegaer skoðanir mínar heldur en leturgerðin sem ég valdi.

Ég myndi aldrei kalla Sóley Tómasdóttur kuntu. Það er hún ekki, ekki frekar en að ég sé skaufi. Eftir að hún kallaði mig kurteisan dóna á fésbókinni varð mér það á að þakka fyrir mig með því að þéra hana, titla hana ungfrú og kalla hana leggöng – svona til að máta mig í hlutverk kurteisa dónans. En ég eyddi þeim ummælum fljótt og biðst afsökunar á þeim. Mér leið illa í hlutverkinu.

Ég er þeirrar skoðunar að málflutningur hennar sé gegnsósa af skotbyrgishugarfari og fullur af þversögnum: „Við“ getum leyft okkur nákvæmlega það sama og gerir „hina“ að óvininum af því að „við“ erum góð en „hinir“ eru vondir.

Ég er feministi að því leyti að ég aðhyllist algert jafnrétti allra einstaklinga óháð kynferði eða nokkru öðru. Ég er feministi að því leyti að mismunun vegna kynferðis, kynhneigðar, uppruna eða nokkurs annars er eitur í mínum beinum. Ég er feministi að því leyti að ég tel að engin manneskja eigi að neyðast til að gera annað við líkama sinn en hún kýs sjálf og alla hafa rétt til að gera við hann hvað sem þeir kjósa sjálfir, óháð kynferði eða nokkru öðru. Ég er feministi að því leyti að ég tel enga manneskju hafa rétt til þess vegna kynferðis síns að vera friðhelg fyrir gagnrýni þegar hún talar út um rassgatið á sér. Þetta er ekki trix til að þykjast vera „innanbúðarmaður“, eins og Sóley heldur fram, heldur bjargföst hjartans sannfæring sem litað hefur öll mín skrif. Ef Sóley veit um betra orð en „feminismi“ til að lýsa þessari afstöðu skal ég samstundis taka það upp og hætta að kalla mig feminista.

Sóley segir: „Femínistar sætta sig ekki við að konur séu kallaðar ljótum nöfnum vegna skoðana sinna.“ Mín skoðun er sú að enginn ætti að sætta sig við það. Sóleyjar skoðun, í raun, er aftur á móti sú að það sé gott á alla aðra en þá sem eru „innanbúðarmenn“ í skotbyrgi hennar eigin feminisma. Orð eru nefnilega ódýr. Það er erfiðara að vera sjálfum sér samkvæmur. Og það mistekst Sóley Tómasdóttur með aumkunarverðum hætti.

Morðhótanir eru ofbeldi.

Hótanir um nauðganir eru ofbeldi.

Níðrógur á borð við skrif Sóleyjar Tómasdóttur er líka ofbeldi.

Auðvitað geri ég mér grein fyrir því að þessi færsla er ekki til neins. Hún verður túlkuð sem enn eitt dæmið um kvenfyrirlitningu mína. Mér tekst að stilla dæminu þannig upp að ég sé fórnarlambið en ekki aumingja konurnar sem ég hef af minni alræmdu kurteisi verið að níðast á og hvetja til ofbeldis gegn. Ég er að gera lítið úr alvarleika morð- og nauðgunarhótana. Ég er að breiða yfir stuðning minn við mansal, vændi, barnamisnotkun og nauðganir með því að fullyrða að ég sé andvígur þessu öllu.

Kannski hefði ég betur varið klukkutímanum sem það tók mig að skrifa þetta í eitthvað annað. Kannski þjóna þessi skrif aðeins tilgangi einhvers konar sjálfshjálpar. En fyrst ég hafði fyrir því að skrifa þetta get ég eins birt það.

Þakka þér fyrir að hafa nennt að lesa alla leið hingað.

Read Full Post »

Það er erfitt að vera fauskur. Samkvæmt fleygum ummælum eru hvítir, kristnir, gagnkynhneigðir, miðaldra karlmenn þeir einu sem ekkert slæmt má segja um. Fyrir vikið virðist mega láta hvað sem er flakka um þá. Í raun vantar mig aðeins byssuleyfið til að vera að margra mati holdgervingur alls sem að er í heiminum.

En hvað getur þá hress gaur eins og ég gert til að halda hippinu og kúlinu þegar hann stendur frammi fyrir því að árin hafa gert hann að fauski? Er það yfirhöfuð hægt? Þegar ég var unglingur fannst mér ekkert aumkunarverðara en fólk á aldur við foreldra mína sem þóttist svalt með því að reyna að tileinka sér tísku minnar kynslóðar í tónlist og klæðaburði.

Fauskurinn gegnir hlutverki. Honum ber að hneykslast á ungu fólki. Það er skylda hans gagnvart yngri kynslóðum að sýna þeim að þær hafi sinnt þeirri menningarlegu skyldu sinni að ganga fram af honum. Þannig er tuð fausks rós í hnappagat ungs listafólks.

En hvernig getur fauskurinn sinnt þessari samfélagslegu skyldu af ábyrgð og kærleika? Það gerir hann ekki með því að sparka í liggjandi menn og hæðast að þeim sem eiga erfitt uppdráttar. Aftur á móti hlýtur hann að mega dangla í þá sem standa traustum fótum, rétt eins og mín kynlóð ólst bæði upp við Ísbjarnarblús og Spaugstofusketsa um „Subba Skorsteins“. Það ætlaðist enginn til þess að Spaugstofumenn lægju flatir fyrir Utangarðsmönnum og ég þarf ekkert að afsaka það að ég liggi ekki marflatur fyrir „krúttunum“.

Ungu fólki ber að gera uppreisn. Það er í eðli þess. Það liggur jafnframt í hlutarins eðli að uppreisn gegn pönki getur ekki verið meira pönk. Nýja uppreisnin er því í því fólgin að vinda ofan af hamsleysinu og tryllingnum. Þetta er eðlileg og jafnvel óumflýjanleg þróun, hugsanlega heillavænleg. En það breytir því ekki að í eyrum manns sem hafði himin höndum tekið með Geislavirkum hljómar þessi tónlist eins og tilgerðarlegt mjálm.

Það háir fausknum að aldurinn ljær honum virðuleika sem gerir það að verkum að fólki hættir til að taka hann alvarlega. Mér er það algjör nýlunda sem ég hef ekki enn vanist. Stundum skýt ég mig því í fótinn með kerskni sem skilin er sem illt innræti og atlaga að einstaklingum.

Annað sem ég hef ekki enn vanist, þótt ég reki mig æ oftar á það, er hve hættulegt sjálfsháð er í hópi húmorslausra. Vonandi venst ég því aldrei.

Bakþankar í Fréttablaðinu 4. 2. 2012

Read Full Post »