Feeds:
Færslur
Athugasemdir

Archive for apríl, 2012

Prédikun flutt í Vopnafjarðarkirkju 22. apríl 2012

Náð sé með ykkur öllum og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Mér er minnisstætt þegar ég kom til Vopnafjarðar í fyrsta skipti. Við höfðum verið á ferð um landið, ég og vinur minn, með frumsamda skemmtidagskrá. Við fórum hringinn réttsælis, fyrst um Vesturland og Vestfirði, þá um Norðurland og hingað austur. Þetta hafði gengið misvel. Okkur var hafði verið tekið feykivel á Akranesi og á Vestfjörðum var oftast húsfyllir. Snæfellsnesið og Norðurland voru ekki eins gjöful, ef Akureyri og Grundarfjörður eru undanskilin. Mig minnir að við höfum fengið tólf manns í Stykkishólmi og fjórtán á Dalvík. Væntingarnar voru því ekki miklar þegar Austurlandið tók við og rennt var inn á Vopnafjörð á virkum degi snemma vors til að skemmta á Hótel Tanga um kvöldið. Þeim mun ánægjulegra var að á annað hundrað manns skyldu koma. Það var mikið hlegið og greinilegt að fólk var komið til að hafa gaman. Á eftir buðu heimamenn okkur að lyfta okkur upp með sér og mig minnir að hjá mér hafi skemmtunin endað í rauðabýtið morguninn eftir ofan í lítill sundlaug undir berum himni uppi í óskaplega fallegum dal ekki langt héðan. Ég vil taka fram að ekkert ósiðlegt átti sér stað, aðeins heilbrigt og heiðarlegt djamm.

En þess vegna er það mér sérstakt ánægjuefni að í annað skiptið sem ég tala opinberlega á Vopnafirði, sautján árum síðar, skuli tilefnið vera „gleðimessa“ í Vopnafjarðarkirku. Vopnfirðingar hafa nefnilega til þessa komið mér fyrir sjónir sem sannir gleðimenn – í bestu merkingu þess orðs; fólk sem er glatt á góðri stund og kann að lyfta sér upp þegar tilefni er til.

En hvaða léttúð og galgopaháttur er þetta annars? Gleðimessa? Stappar þetta ekki nærri guðlasti? Á ekki alvaran og hátíðleikinn að ráða ríkjum í húsi Drottins?

Jú. En takið eftir því að léttúð og galgopaháttur eru ekki samheiti orðsins gleði. Alvara og hátíðleiki eru ekki andstæður gleðinnar heldur hugsanlega hinar raunverulegu birtingarmyndir hennar. Sönn gleði helst í hendur við djúpa alvöru eins og dagur og nótt haldast í hendur, eins og ljós þarf til að mynda skugga. En samt ekki, því ljósið og skugginn eru eilíflega aðskilin eins og dagurinn og nóttin á meðan alvaran er gleðiefni kristnum manni og gleðin er í alvörunni. Sönn gleði ristir nefnilega djúpt, annars er hún bara yfirborðskátína, eins og fliss að hnyttnum orðaleik eða tvíræðri gamansögu. Slík yfirborðsgleði er ekki listaverk ljóssins og skugganna í lífi mannsins heldur aðeins eitthvað flökt um gráskalasvæði tilverunnar. Sönn og djúp gleði leiðir af sér alvöru og hátíðleika sem eru þrungin merkingu. Uppskrúfuð helgislepja og tilgerðarleg mærð eru jafnóskyldar raunverulegri alvöru og hátíðleika og fliss að hnyttnum orðaleik eða tvíræðri gamansögu er hinni sönnu gleði í Kristi.

Ekki að það sé neitt að því að hafa húmor. Skopskynið er Guðs gjöf sem léttir okkur lífið. Og við getum haldið áfram og spurt: Hefði Guð gefið okkur þennan dásamlega eiginleika, að sjá spaugilegu hliðarnar á tilverunni, jafnvel þegar verst stendur á, og kalla þannig fram líknandi bros, ef hann hefði ekki húmor sjálfur?

En ég er ekki að tala um húmor og ætla ekki að gera það. Húmor er nefnilega eins og froskur. Ef maður kryfur hann þá deyr hann.

Ég er að tala um gleði.

Það er í tísku – eða var það alltjent fyrir ekki svo löngu – að tala fjarskalega niðrandi um svokallaðan „Pollýönnuhugsunarhátt“. Hann þótti til vitnis um barnaskap, kjánalega bjartsýni og brenglað raunveruleikaskyn, ef ekki beinlínis flótta frá raunveruleikanum inn í einhverja rósrauða þykjustuveröld þar sem allt er gott. Pollýanna er persóna í skáldsögu frá 1913 eftir Eleanor H. Porter. Kvikmynd var gerð eftir henni á vegum Walt Disney samsteypunnar árið 1960.

Þeir sem tala svona um Pollýönnu hafa sennilega hvorki lesið bókina né séð myndina. Því fer nefnilega fjarri að Pollýanna hafi ekki gert sér grein fyrir alvöru lífsins eða fengið að kenna á henni sjálf. Pollýanna er munaðarlaus dóttir farandprédikara. Henni er komið í fóstur hjá afskaplegra siðavandri og strangtrúaðri frænku sinni. Á hverjum sunnudegi er farið í kirkju þar sem presturinn er eldheitur helvítisprédikari. Hann eys ekki náð og kærleika Guðs yfir söfnuðinn heldur aðeins eldi og brennisteini. Þetta er frænka ánægð með, svona eiga messur að vera að hennar mati. Ekki miklar gleðimessur þar á ferð.

Einhverju sinni taka Pollýanna og presturinn tal saman þegar presturinn er eitthvað niðurdreginn. Pollýanna segir honum þá að þegar faðir hennar hafi verið dapur hafi hann jafnan lesið eitthvað af „gleðitextunum“ úr Biblíunni. Þeir væru um áttahundruð talsins. Þetta verður til þess að klerkur hugsar sinn gang og í næstu messu tilkynnir hann forviða söfnuðinum að hann hafi talið „gleðiversin“ í Biblíunni og þau séu ekki áttahundruð heldur nákvæmlega áttahundruðtuttuguogsex. Hann bætir því við að hann hafi hugsað sér að prédika út frá þeim öllum og að það muni dekka messurnar hans næstu sextán árin. Óþarfi ætti að vera að taka fram að þetta fellur ekki í kramið hjá frænku gömlu sem er einna helst á því að nú sé blessaður guðsmaðurinn endanlega búinn að missa vitið.

Ég ætla ekki að rekja söguþráðinn nánar, aðeins að staldra við þessa tölu. Átta hundruð tuttugu og sex. Á áttahundruðtuttuguogsex stöðum í Biblíunni eru skýr fyrirmæli um gleði. Ég hef ekki talið versin sjálfur og hef aðeins orð höfundar Pollýönnu fyrir því að talan sé rétt. En sé hún rétt þýðir það í raun og veru að prestur getur prédikað á hverjum einasta sunnudegi í sextán ár út frá nýjum og nýjum texta og einatt lagt út af fyrirmælum til manna að vera glaðir. Ég veit ekki með ykkur, en ég hef það á tilfinningunni að þegar Guð hefur fyrir því að segja manni sama hlutinn áttahundruðtuttuguogsex sinnum þá hljóti honum að vera fúlasta alvara.

 „Kunnan gerðir þú mér veg lífsins, gleðignótt er fyrir augliti þínu, yndi í hægri hendi þinni að eilífu“ (Slm 16.11). „Gleðjist yfir Drottni og fagnið, þér réttlátir, allir hjartahreinir menn hrópi af gleði“ (32.11). „Lítið upp til hans og ljómið af gleði“ (34.6). „Klappið saman lófum, allar þjóðir, fagnið fyrir Guði með gleðiópi“ (47.2). „Látið gleðióp gjalla fyrir Drottni, öll lönd, hefjið gleðisöng, hrópið fagnaðaróp og lofsyngið“ (98.4). „Þjónið Drottni með gleði, komið fyrir auglit hans með fagnaðarsöng“ (100.2). „Hinir trúuðu fagni í dýrðarljóma, hrópi gleðióp í hvílum sínum“ (149.5). „Lofið hann með bumbum og gleðidansi“ (150.4). Þetta eru átta ritningarstaðir af þessum áttahundruðtuttugogsex, allir úr sama ritinu, Davíðssálmum.

Og hvað með Jesú? Var ekki fæðing hans boðuð með þessum orðum: „Verið óhræddir, því, sjá, ég boða yður mikinn fögnuð sem veitast mun öllum lýðnum“ (Lúk 2.10)? Erum við ekki að flytja „fagnaðarerindi“? Orðið „fagnaðarerindi“ er hefbundin þýðing gríska orðsins „evangelion“, en nútímalegri þýðing þessa orðs væri „gleðifrétt“. Kvaddi Jesús okkur ekki með orðunum: „Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar“ (Matt 28.20). Getur kristinn maður hugsað sér meira gleðiefni?

Auðvitað ættu allar messur að vera gleðimessur.

Nú má alls ekki skilja þessi orð mín sem svo að það sé eina skylda kristins manns að vera bara æðislega happí, hvað sem á dynur. Ég er að tala um hina alltumlykjandi gleði í Kristi sem helst í hendur við hina djúpu alvöru lífsins og er ómöguleg án hennar. Gleðina, sem er frumskylda okkar og forsenda þess að við getum sinnt hinum skyldunum.

Jesús sagði: „Farið og gerið allar þjóðir að lærisveinum“ (Matt 28.19). Okkur ber að útbreiða fagnaðarerindið um Jesú Krist og laða fólk að því. Hvernig gerum við það best? Með gleði. Með því að vera lifandi vitnisburður um mátt og kærleika Guðs og hina sönnu gleði í Kristi.

Einn af mínum eftirlætiskennurum í guðfræðideildinni var Jónas Gíslason, fyrrverandi vígslubiskup. Hann kenndi kirkjusögu, en reyndar lærði ég mest lítið af kirkjusögu hjá honum. Þeim mun meira lærði ég í prédikunarfræðum. En hann kenndi ekki prédikunarfræði. Hann prédikaði. Hann átti það til að segja okkur að loka kennslubókunum og lesa bara heima og nota tímann í staðinn til að lesa yfir okkur um það hvað felst í lífi í Kristi.

Mér er afar minnistætt eitt sem hann sagði um trúboðsskylduna. Það var eitthvað á þá leið – ég biðst velvirðingar, fari ég ekki alveg rétt með – að allt trúboð sé í raun í því fólgið að lemja heiðingjana í hausinn með Biblíunni. En hann bætti því við að til væru tvær Biblíur. Önnur væri prentgripur, jafnan býsna vandaður, oft í stóru broti og þungur. Þessi Biblía gæti því í fljótu bragði virst afskaplega hentugt barefli. En þessi Biblía er gangslaus í trúboð. Hin Biblían er miklu hentugra barefli í því sambandi. Sú Biblía er líf og starf, fas og framganga, mannsins sem lesið hefur hina Biblíuna og tileinkað sér boðskap hennar; gleðifréttina – fagnaðarerindið um Jesú Krist.

Rétt eins og Jónas kenndi prédikunarfræði með fordæminu ber okkur að boða trúna með fordæminu, með því að vera lifandi vitnisburður um lífið með Guði manna á meðal, með því að ganga fram í kærleika og koma fram við aðra eins og við kysum að þeir kæmu fram við okkur – í orði og á borði.

Við búum í nútímasamfélagi þar sem það þykir ekkert sérstaklega töff að vera kristinn. Alls konar stefnur og straumar í andlegum málefnum ríða yfir okkur, allt frá augljósustu og heimskulegustu hindurvitnum að mínu mati – hér stilli ég mig um að nefna dæmi – til einstrengingslegustu efnishyggju þar sem öllu andlegu og yfirskilvitlegu, öllu sem er æðra mannlegri skynsemi og mennskum mætti, er hafnað og það sjálfkrafa afgreitt sem markleysa og heilaspuni. Trúarbrögð, sem áður voru fjarlæg og framandi, eru nú iðkuð í nærsamfélagi okkar af nágrönnum okkar, samstarfsfólki og jafnvel vinum og kunningjum. Allar stofnanir þjóðfélagsins verða að sætta sig við að sæta áður óþekktri gagnrýni, enda hafa þær allar brugðist á einn eða annan hátt, orðið uppvísar að ægilegum yfirsjónum og fádæma flumbrugangi. Þar er kirkjan ekki undanskilin.

Hvernig gerum við þessa þjóð að lærisveinum? Hvernig göngum við um þetta samfélag sem lifandi vitnisburður um gleðina í trú okkar? Hvernig tökum við þátt í samræðunni, sem nauðsynlegt er fari fram, um það hvernig samfélag við viljum byggja saman til framtíðar?

Eigum við að pakka í vörn? Verja óbreytt ástand til síðasta blóðdropa? Leggja allt undir í fyrirfram tapaðri orustu um að kirkjan okkar skuli njóta sömu forréttinda og virðingar og henni voru tryggð í gjörólíku samfélagi? Eða viljum við kirkju sem tekur virkan þátt í umræðunni með sanngirni og skynsemi að leiðarljósi, kirkju sem talar með rödd kærleikans, rödd sem hlustað er á og tekin er alvarlega – jafnvel þótt fólk sé annarrar skoðunar. Viljum við kirkju sem er lifandi vitnisburður um Guð eða viljum við kirkju sem skellir skollaeyrum við tímans þunga nið, kirkju sem með tímanum verður þá óhjákvæmlega aðeins hlægilegur steingervingur, steindauður vitnisburður um samfélag sem er liðið undir lok?

Er sanngjarnt að í stjórnarskrá lýðveldisins sé sérstakt ákvæði um Þjóðkirkju? Stenst það eðlilegar og sjálfsagðar jafnræðiskröfur að í gildi séu ein lög um Þjóðkirkju og önnur lög um önnur trúfélög? Er eðlilegt að hið opinbera innheimti sóknargjöld? Er eðlilegt að fólk sem er utan trúfélaga greiði sóknargjöld? Er eðlilegt að lífsskoðunarfélög um trúlausan húmanisma njóti lagalegrar stöðu trúfélaga? Er eðlilegt að barn sé sjálfkrafa skráð í trúfélag móður við fæðingu? Er eðlilegt í trúfrjálsu samfélagi að Ríkisútvarp sendi út messur og lestur Passíusálma? Er það rétt, sem hin virta Simon Wiesenthal stofnun hefur áhyggjur af, að í Passíusálmum Hallgríms Péturssonar gæti gyðingahaturs?

Mín svör við þessum spurningum koma efni þessarar prédikunar ekki við. Við sumum þeirra hef ég ekki einu sinni svar.

En – þessar spurningar eru eðlilegar í frjálsu samfélagi. Þær eru ekki guðlast. Þær eru ekki árásir á kirkjuna. Þær eru ekki atlaga að kristindómnum. Þær eru ekki ofsóknir á hendur trúuðum mönnum. Og það er móðgun við þá, sem raunverulega sæta ofsóknum vegna trúar sinnar, að tala þannig. Þessar spurningar eiga rétt á sér og krefjast þess að vera rökræddar af skynsömu viti, eins og aðrar sanngjarnar spurningar, ef ekki á að fara illa fyrir samfélagi okkar.

Kirkjunni ber að fagna lýðræðislegri umræðu og taka þátt í henni með glöðu geði, en ekki að kveinka sér undan henni og hlaupa í skjól ímyndaðrar friðhelgi fyrir því að vera hluti af þeirri endurmótun samfélagsins, sem nú er nauðsynlegt að eigi sér stað til að mæta breyttum tímum og kringumstæðum.

Í sjálfsvorkunn, ofurviðkvæmni, einsýni, íhaldssemi og ótta við rökræðu er engin gleði.

Við stöðvum ekki þróunina með því að neita að taka þátt í henni. Annað hvort breytumst við og lifum eða okkur verður breytt – í steingerving.

Ég sagði áðan að það væri frumskylda okkar að vera glöð. Það er rangt. Frumskylda okkar er að vera lifandi. Lífið er forsenda gleðinnar. Eða hver hefur séð glaðan steingerving?

Og hvaða gleði lýsir það að umgangast trúna eins og hún sé svo lekt fúahrip að í hvert skipti sem bátnum er ruggað verði að bregðast við því sem tilraun til að sökkva honum? Það lýsir aðeins ótta, vantrú og hugleysi. Bátar eru ekki smíðaðir til að liggja bundnir við bryggju. Bátur, sem ekki þolir að vera ruggað, er betur kominn á hafsbotni. Það er til orð yfir báta sem ekki þola að vera ruggað: „Manndrápsfley“. Ég vil ekki tilheyra kirkju sem er manndrápsfley af því að minn Guð er borg á bjargi traust. Trú mín er ekki manndrápsfley. Að koma þannig fram við hana og verja hana sem slíka fyrir mína hönd er guðlast í mínum huga.

Lokaritgerðin mín í guðfræði fjallaði um helvíti. Þar færi ég biblíuleg rök fyrir því að helvíti sé fyrst og fremst mælskufræðileg andstæða guðsríkisins. Enda kemur orðið „helvíti“ varla fyrir í munni Jesú í guðspjöllunum öðruvísi en að fyrr í sama versi hafi verið minnst á „Guðs ríki“ eða einhverja hliðstæðu þess, s.s. „himininn“ eða „lífið“. Jesús segir að Guðs ríki sé innra með okkur (Lúk 17.21). Þennan ritningarstað má líka þýða þannig að Guðs ríki sé á meðal okkar. Ég tel að þýða megi hann á báða vegu einmitt vegna þess að Jesús hafi viljað að við skildum þetta á báða vegu, hann hafi meint hvort tveggja. Í Guðs ríki er líf og ljós, fögnuður og gleði. Þar er enginn ótti, vantrú eða hugleysi.  Eins og Guðs ríki er bæði mitt á meðal okkar og innra með okkur er helvíti það líka. Ég vildi útskýra þetta til þess að þið skylduð í hvaða merkingu ég nota orðið „helvíti“ í næstu setningu svo þið haldið ekki að ég sé að bölva. Hún er svona:

Hættum þessu helvítis væli!

Þjónum Guði í gleði!

Að lokum vil ég óska ykkur öllum til hamingju með þennan dag. Megi allar ykkar messur vera gleðimessur og allir dagar ykkar gleðidagar.

Þá á ég ekki við að ég óski þess að þið hefjið hvern dag á því að ranka við ykkur í sundlauginni uppi í Selárdal eftir gleði næturinnar, heldur …

Þið vitið hvað ég á við.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Read Full Post »

Undanfarið hefur nokkuð verið rætt og ritað um sk. samviskufrelsi presta, en þá er átt við rétt presta til að neita að gefa saman einstaklinga af sama kyni í hjónaband. Þessi réttur hefur sætt nokkurri gagnrýni að undanförnu, ekki síst í kjölfar umræðu sem tengist biskupskjöri sem nú stendur fyrir  dyrum.

Ég tel þessa gagnrýni ekki með öllu réttmæta og langar að færa rök fyrir því. Vissulega er það, að mínu mati, kirkjunni til minnkunar að meðal vígðra þjóna hennar séu einstaklingar sem telja Guð fara í manngreinarálit hvað varðar ástina í hjörtum fólks. Það er ekki bara eðlilegt heldur nauðsynlegt að það sæti gagnrýni. En sú gagnrýni ætti að mínu mati ekki að beinast að yfirstjórn kirkjunnar heldur einmitt að grasrót hennar – aldrei þessu vant.

Í landinu gilda ein hjúskaparlög og hver sem er getur gengið í hjónaband með hverjum sem er að eðlilegum lágmarkskröfum uppfylltum, s.s. um sjálfræði, gagnkvæman vilja, andlegt atgervi og e.t.v. eitthvað fleira. Það er hlutverk hins opinbera að tryggja þennan rétt einstaklinga og hann er tryggður. Þess vegna ætti allt skynsamt fólk að geta verið sammála um að fráleitt væri að sýslumenn eða dómarar hefðu samviskufrelsi að þessu leyti.

Þjóðkirkjan hefur ennfremur stigið það skref að veita einstaklingum af sama kyni hjónavígslu. Samkynhneigt þjóðkirkjufólk getur m.ö.o. gefist ástinni í lífi sínu fyrir altari Guðs í húsi hans. Illu heilli var þetta skref stigið löngu, löngu seinna en forsvaranlegt var og að mínum dómi skuldar Þjóðkirkjan þessu fólki afsökunarbeiðni fyrir seinanganginn og tregðuna. Við hæfi væri að hún tjáði iðrun sína vegna þessa, sem og margs annars sem miður hefur farið í starfi hennar og boðun í gegn um aldirnar, í hverri einustu messu. Þetta mætti t.d. gera á undan syndajátningu safnaðarins. Þannig gengi kirkjan á undan með góðu fordæmi og játaði sínar eigin syndir berum orðum. Hirðirinn leiðir sauðina.

Svokallað samviskufrelsi presta þýðir aftur á móti að samkynhneigðir geta ekki krafið prest um hjónavígslu sé það honum á móti skapi. Þar standa samkynhneigðir í raun jafnfætis gagnkynhneigðum. Gagnkynhneigt par getur ekki heldur krafið prest um að gefa það saman ef presturinn telur sig hafa góða ástæðu til að synja þeirri bón. Munurinn er fólginn í því hvaða ástæður presturinn gæti mögulega haft og hve geðfelldar eða ógeðfelldar okkur kunna að þykja þær.

Nú er það svo að við njótum ekki mannréttinda til að fá að hafa vinsælar og réttar skoðanir. Mannréttindi tryggja okkur rétt til að hafa óvinsælar og jafnvel rangar skoðanir. Mannréttindi tryggja okkur jafnframt rétt til þess að rangar og vondar skoðanir annarra valdi okkur ekki skaða eða tjóni eða skerði lífsgæði okkar. Erfitt er að færa fyrir því áþreifanleg rök að samviskufrelsi presta skaði einhvern eða skerði réttindi einhverra – þótt það sé huglægt mat mitt og  margra annarra að þetta frelsi skaði ímynd Þjóðkirkjunnar. Aftur á móti er auðveldara að færa fyrir því rök að samviskufrelsi presta teljist til mannréttinda þeirra.

Á hinn bóginn er það jafnframt svo að prestur situr ekki í skjóli biskups. Hann er ekki ráðinn af biskupi þótt hann sé vígður af honum og biskup hefur ekki rétt til að reka hann nema hann hafi óvefengjanlega gerst sekur um ítrekuð aga- eða siðferðisbrot. Samviskufrelsið tryggir að afstaða prests til hjónavígslu samkynhneigðra varðar ekki hæfi hans, það telst ekki til aga- eða siðferðsbrota að neita samkynhneigðum um hjónavígslu. Þessu mætti hugsanlega breyta, en það er ekki biskups að breyta því. Það gæti kirkjuþing aftur á móti gert, ef mér skjátlast ekki.

Þá komum við að grasrótinni. Ég er fráleitt manna fróðastur um stjórnskipan Þjóðkirkjunnar. Þó þykist ég vita að prestur sé valinn af valnefnd, sem skipuð er af sóknarnefnd. Hann er ráðinn til fimm ára. Að loknum ráðningartímanum hefur sóknarnefnd rétt til að tilkynna presti að hann verði ekki endurráðinn. Sóknarnefnd er kjörin lýðræðislegri kosningu á almennum safnaðarfundi. Kirkjuþingsfulltrúar eru líka kjörnir af sóknarnefndum eftir því sem ég kemst næst. Valdið er því, aldrei þessu vant, í höndum fólksins – safnaðarins sjálfs, hinnar raunverulegu kirkju.

Á meðan sóknarnefndir, kjörnar lýðræðislegri kosningu, og valnefndir þeirra meta það ekki presti til vanhæfis að neita að gefa samkynhneigða saman í hjónaband, verða slíkir einstaklingar starfandi í stéttinni. Á meðan kirkjuþing metur það svo að ekki varði við agareglur að neita að gefa einstaklinga af sama kyni saman í hjónaband eru hendur biskups bundnar.

Ef prestur nýtur ekki trausts safnaðar síns, t.d. vegna afstöðu sinnar til hjónavígslu samkynhneigðra, þá er það að mínu mati skylda safnaðarins að tryggja að sóknarnefndin sé sama sinnis. Það getur söfnuðurinn gert með því að nýta sér lýðræðislegan rétt sinn til að velja sóknarnefndina með því að fjölmenna á almennan safnaðarfund og kjósa sóknarnefnd sem endurspeglar vilja safnaðarins. Aðeins þannig er, skv. núverandi fyrirkomulagi, hægt að víkja burt presti, sem ekki nýtur trausts. Hið sama gildir um kirkjuþingsfulltrúa.

Það er vinsælt að kvarta undan skorti á lýðræði innan Þjóðkirkjunnar og ég hef sjálfur ekki verið lægsta röddin í þeim kór til þessa. Þeim mun meiri ástæða er að mínu mati til að benda á það lýðræði sem þar er þó fyrir hendi. En það er nú einu sinni þannig með lýðræðið að það krefst þátttöku lýðsins.

Við þá sem harðast gagnrýna samviskufrelsið við ég því segja þetta: „Hvernig væri þá að drattast upp af rassinum og breyta því sem er í þínu valdi að breyta í stað þess að hanga heima í fýlu og kveina yfir því að hlutunum sé ekki breytt af þeim sem ekki hafa vald til þess? Valdið er hjá þér.“

Read Full Post »

Prédikun í Sleðbrjótskirkju og Kirkjubæjarkirkju á páskadag, 8. apríl 2012.

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Danska leikskáldið, presturinn og frelsishetjan Kaj Munk var góður prédikari. Prédikanir hans voru einlægar, heiðarlegar og lausar við uppskrúfaða tilgerð eða það sem Þórbergur Þórðarson hefði sennilega kallað „trúfíflsku“. Sem leikskáld var hann dramatískari. Í leikritinu Orðið, sem hann skrifaði árið 1925, lætur hann sig ekki muna um að láta látna konu rísa upp frá dauðum fyrir kraft trúarinnar í brjóstum ástvina hennar.

Í prédikun einni, út frá frásögninni í sjöunda kafla Lúkasarguðspjalls, þar sem Jesús reisir son ekkju nokkurrar upp frá dauðum, segir hann aftur á móti:

 „Þér vitið að ég hefi skrifað leikrit, þar sem brennandi trú kallar dauða manneskju aftur til lífsins. Það er eitt. Hitt er annað, að sem prestur hefi ég verið við sóttarsæng, þar sem ég hafði ekki krafta eða hugrekki eða trúardirfsku til þess að biðja um lækningu. Ég hefi horft upp á þær sjúkdómsþrautir, að ég hefi aðeins getað beðið Guð, að endalokin mættu koma. En endalokin komu ekki. Þetta hélt áfram dag eftir dag, viku eftir viku. Og það var ekki Guð, sem batt endi á þrautirnar, þegar þar að kom loksins. Það var aðeins náttúran, sem gafst upp. Þá hefi ég með beiskju getað sagt við sjálfan mig: Sem skáld gefur þú dauðum líf með hjálp trúarinnar, en sem prestur geturðu ekki einu sinni veitt þjáðum manni dauðann.“

Kaj Munk var eindreginn andstæðingur nasisma og fasisma og barðist mjög gegn hugmyndafræði Hitlers og Mussolinis í ræðu og riti. Hann var handtekinn og myrtur af Gestapó 4. janúar 1944. Lík hans fannst í skurði við vegarkant morguninn eftir. Hann var 45 ára. Kaj Munk er talinn meðal frelsishetja í Danmörku og viðurkenndur sem píslarvottur trúarinnar af lútherskum kirkjum.

Presturinn og píslarvotturinn heldur prédikuninni áfram með þessum orðum:

„Það er máske ekki mjög sjaldgæft, að presturinn sé sá í söfnuðinum, sem hrörlegasta hefur trúna. Sumir hafa þekkingu á trúnni, aðrir hafa trúna sjálfa, og þeir geta orðið hvor öðrum til aðstoðar.“

Píslarvottur trúarinnar þekkti sem sagt efann. Og hann reyndi ekki að fegra hann, skjóta sér undan honum eða skipta um umræðuefni. Nei. Trúarhetjan ávarpaði efann beint og gekkst við honum. Það er kannski einmitt það sem er munurinn á leiðtoga og hetju. Hugrekki er kannski ekki fólgið í því að óttast ekki, heldur einmitt í því að horfast í augu við ótta sinn og neita að láta hann stjórna sér. Að gangast við efanum, en neita að láta hann ráða ferðinni.

Ávarp dagsins er þetta: „Kristur er upprisinn! Hann er sannarlega upprisinn!“

Upprisan er nauðsynleg kristinni trú. „Ef Kristur er ekki upprisinn er ónýt prédikun okkar, ónýt líka trú ykkar,“ segir Páll postuli í Fyrra Korintubréfi (15.14).

Fyrst svo er, hvernig getur þá nokkur óbrjáluð skynsemisvera játað kristna trú? Við vitum ósköp vel að svona virkar heimurinn einfaldlega ekki. Hið dauða er dautt og verður það áfram um alla eilífið. Blóðið storknar, holdið tærist og rotnar. Hið steindauða rís einfaldlega ekki upp aftur og heldur áfram að lifa eins og ekkert hafi í skorist. Hér aftur í grárri forneskju var kannski hægt að telja fáfróðum lýð trú um svona vitleysu. Fólk, sem hélt að jörðin væri flöt og trúði því að sjúkdómar, ekki síst geðrænir, orsökuðust af illum öndum, fór létt með að kokgleypa það að fólk gæti risið upp frá dauðum. En þýðir eitthvað að matreiða þennan boðskap á þennan hátt fyrir upplýst og menntað nútímafólk?

Það er von að spurt sé. Enda hefur verið boðið upp á nýjar matreiðsluaðferðir. Samkvæmt þeim var Jesús bara mjög, mjög illa leikinn eftir krossfestinguna, ekki alveg dauður. Hann náði svo að gróa meina sinna nógu vel á þessum 40 klukkustundum, sem hann fékk að vera í friði í hellinum, til að geta skjögrast á brott með fulltingi einhverra vina sinna áður en konurnar komu að smyrja líkið að morgni páskadags.

Fyrir þessa útgáfu á sögunni getum við ekki þrætt. Við höfum ekki dánarvottorð Jesú undir höndum, aðeins frásagnir guðspjallanna. Ýmsar samsæriskenningar á þessa lund hafa náð töluverðri útbreiðslu að undanförnu, jafnvel hylli. En þetta er ekki upprisa. Samkvæmt þessu sigraði Kristur ekki dauðann með upprisu sinni í dýrðarmætti Guðs, heldur sigraðist hann aðeins á tilraun til manndráps með því að fara huldu höfði með aðstoð hinna strákanna.

Það er aum trú … Nei, það er ónýt trú.

Kaj Munk byrjar prédikun sína um son ekkjunnar á þessum orðum:

„Tveim mótbárum á þessi saga að mæta. Hin fyrri er svona: Hún er lygi. Dauðir menn eru kyrrir í kistu sinni. Hin er svona: Þótt sönn væri, hverju er ég bættari? Ég hefi misst og fæ ekkert aftur, hvað sem gömul kona á einhverjum ómerkilegum stað kann að hafa fengið einhverntíma í eilífðarfyrndinni.“

Þetta er að mínu mati spurning sem ríður meira á að spyrja en hin, hvort upprisan fá staðist lögmál efnisheimsins.

Hverju erum við bættari? Hvað máli skiptir upprisa Jesú Krists? Hverju breytir það fyrir mig og þig, jafnvel þótt satt væri, að fyrir tæpum tvöþúsund árum hafi einhver smiður í fjarlægum heimshluta risið upp frá dauðum eftir að hafa verið misþyrmt til bana af miskunnarlausum valdhöfum fyrir að rífa kjaft og ógna stöðu þeirra? Hvaða erindi á þessi saga við okkur í dag?

Þá er þess fyrst að gæta að Jesús frá Nasaret var enginn venjulegur smiður, ekki einu sinni í augum þeirra sem eindregnast vildu hann feigan. Hann var uppreisnarleiðogi og ógnvaldur þeirra sem höfðu lifibrauð sitt af óbreyttu ástandi. Hann hafði ferðast um norðurhluta landsins og safnað að sér miklum fjölda fylgismanna. Síðan stefndi hann til Jerúsalem, miðpunkts ríksins, höfuðborgarinnar og trúarmiðstöðvarinnar – musterisins, sjálfs hjarta gyðingdómsins.

Erlendir valdhafar höfðu gert musterið og leiðtoga gyðinga að verkfærum sínum og þjónum til að treysta veldi sitt og innleiða menningu sína. Heródes hafði verið gerður konungur Gyðinga af öldungaráði Rómar. Það lét honum í té rómverskar hersveitir til að tryggja undirgefni þegnanna. Eftir dauða Heródesar útnefndu rómverskir landstjórar æðstuprestana sem lögðust á eitt með Rómverjum að bæla niður uppþot og óeirðir. Stofnanir menningarinnar og trúarinnar voru því í raun í höndum Rómaveldis og leiðtogar Gyðinga í skilyrðislausri þjónustu þeirra.

Inn í þetta ástand kom Jesús eins og sá sem kemur í nafni Drottins, sem leiðtoginn sem koma myndi á ríki réttlætis og réttvísi. Sem slíkur gerði hann árás á musterið og lagði það undir sig. Hann sakaði valdhafa um að hafa gert musterið að ræningjabæli og setti fram glænýjar kenningar um það hvaða tilgangi tilbeiðslan ætti að þjóna, kenningar sem ekki aðeins ógnuðu stöðu og virðingu valdhafanna og handbenda þeirra, heldur því sem þeim var heilagast af öllu – pyngju þeirra. Í Jerúsalem var Jesús í stöðugri hættu en lýðurinn var á hans bandi og kom í veg fyrir handtöku hans á meðan bjart var. Á kvöldin fór hann út úr borginni. Þegar hann loks hætti sér inn í Jerúsalem eftir að skyggja hafði tekið, til að borða páskamáltíð með nánustu stuðningsmönnum sínum, endaði kvöldið með handtöku hans. Öllu var snúið við aftur. Lýðurinn verndaði Jesú ekki lengur heldur var hann egndur gegn honum af yfirvöldum. Morðingi var látinn laus en Kristur krossfestur að beiðni fjöldans. Illa leiknu líki hans var komið fyrir í helli og stórum steini var velt fyrir hellisopið.

Án upprisunnar endar sagan hér. Valdið ber sigur úr býtum. Allt er eins og það var áður. Það er ekki til neins að reyna að breyta eða bæta, leiðrétta eða lagfæra. Réttlætið er ekkert á leiðinni. Ráðamenn spila með fólkið, beita blekkingum og rangindum til að tryggja stöðu sína og púkka undir veldi sitt. Dauði og stöðnun ráða ríkjum. Grjótið er óhreyft fyrir hellisopinu. Gamla Jerúsalem er elíf, hin nýja Jerúsalem blekking ein.

Hvað á ég við með „hinni nýju Jerúsalem“?

Hin nýja Jerúsalem er hugmynd eða hugsýn sem tengdist voninni um dýrðarríki eilífðarinnar, framtíðarríki réttlætis og réttvísi. Þetta er gyðinglegt hugtak, úr spádómsbók Esekíels, sem kristnir menn tóku upp á arma sína. Hin nýja Jerúsalem kemur m.a. fyrir í Opinberunarbókinni:

„Og ég sá borgina helgu, nýja Jerúsalem, stíga niður af himni frá Guði, búna sem brúði er skartar fyrir manni sínum. Og ég heyrði raust mikla frá hásætinu er sagði: „Sjá, tjaldbúð Guðs er meðal mannanna og hann mun búa hjá þeim og þeir munu vera fólk hans og Guð sjálfur mun vera hjá þeim, Guð þeirra. Og hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“ (21.2-4)

Áfram er hinni nýju Jerúsalem lýst. Þar er þeim, sem er þyrstur, gefið ókeypis af lind lífsins vatns (21.7). Borgin hefur dýrð Guðs. Ljómi hennar er líkur dýrasta steini, sem jaspissteinn kristalskær (21.11). Hún þarf hvorki sólar við né tungls til að lýsa sér því að dýrð Guðs skín á hana (21.23). Ekkert óhreint, enginn sem fremur viðurstyggð eða fer með lygi mun koma þangað inn (21.27).  Þetta er að mörgu leyti dýrleg sýn af því sem koma skal, þótt miskunnarleysið í garð þeirra, sem ekki eru aufúsugestir í hinni nýju Jerúsalem og Opinberunarbókin lýsir líka, standist kannski ekki ítrustu kröfur Krists um að fyrirgefa „vorum skuldunautum“ og að elska óvini sína.

Við Íslendingar erum þessa dagana ekkert mjög uppteknir af Jerúsalem, hvorki hinni gömlu, hinni núverandi né hugsýninni um hina nýju. Enda er Jerúsalem nú á dögum aðeins höfuðborg í fjarlægu ríki sem því miður er fátítt að góðar eða uppörvandi fréttir berist frá. Sá er eldur heitastur er á sjálfum brennur, segir máltækið. Við erum mun uppteknari af hugsýninni um „hið nýja Ísland“.

Ég veit að í huga margra kann það að stappa nærri glæpi að draga fram klisjuna um „hið nýja Ísland“ í prédikunarstóli á sjálfan páskadaginn, helgustu hátíð kristinna manna um heim allan, ekki síst í ljósi þeirra óskiljanlegu fæðingarörðugleika sem framkvæmd hugmyndarinnar um hið nýja Ísland virðist vera að ganga í gegn um. En mig langar samt að gera það því hliðstæðurnar eru, að mínu mati, svo sláandi. Og ef fagnaðarerndið talar í raun til allra manna á öllum tímum talar það líka til Íslendinga árið 2012.

Það sem einkum gerir fæðingarörðugleika hins nýja Íslands óskiljanlega er auðvitað það að þótt allir virðist vera á einu máli um ágæti hugmyndarinnar, ekki síst þeir sem að margra mati eru einmitt helstu holdgervingar „hins gamla Íslands“, þá skuli ekkert bóla á því að hugmyndinni sé hrint í framkvæmd. Og þótt hugmyndir okkar um hið nýja Ísland séu ekki jafnyfirdrifnar og eins miklum gullljóma slegnar og hugmyndir gyðinga og fornkirkjunnar um hina nýju Jerúsalem og þótt okkur kunni að greina á um það nákvæmlega hvað hið nýja Ísland eigi að fela í sér, svona í smáatriðum, held ég að við séum flest ef ekki öll með sömu megindrættina í huga.

Er hið nýja Ísland ekki land réttlætis og réttvísi? Land þar sem þeir, sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu, munu saddir verða? Land þar sem klíkuskapur og kunningjaráðningar þekkjast ekki, hvort sem það eru Rómverjar, ráðherrar eða ritstjórar sem eiga hlut að máli? Land þar sem heiðarleiki og hæfni eru í hávegum höfð, en frændsemi og flokksskírteini skipta engu máli, land lýðræðis en ekki flokksræðis, lýðveldi – ekki höfðingjaveldi? Land þar sem stórglæpamanna og níðinga í valdastöðum, hvort sem er í einkageiranum eða hinum opinbera, þeirra sem „fremja viðurstyggð og fara með lygi“, bíða makleg málagjöld? Land þar sem fólkið snýr bökum saman um sameiginlega hagsmuni sína og leysir ágreining um aukaatriði á faglegan, lýðræðislegan og málefnalegan hátt í kærleika og bróðerni án upphrópana eða dylgna?

Vandamálið er að allir vilja tilheyra hinu nýja. Hver vill ekki vera hluthafi í framtíðinni fremur en aðeins þátttakandi í fortíðinni? Enginn vill vera afskrifaður sem úrelt fyrirbæri, ónothæfur hluti hins liðna, sem hent hefur verið á ruslahaug sögunnar og hefur hvorki hlutverk né tilgang lengur. Það er öllum eiginlegt að vilja gæta síns eigin hags, líka valdhöfum, bæði hinu pólitíska valdi og auðvaldinu. Þannig var það í Jerúsalem fyrir hartnær 2000 árum og þannig er Ísland í dag. Þess vegna er óbreytt ástand svona skolli lífseigt.

En stöðnun er dauði. Það er eðli alls sem lifir að það þróast og breytist og lagar sig að kringumstæðum og þeim kröfum sem til þess eru gerðar. Tegundir þróast á löngum tíma, einstaklingar á einu æviskeiði. Tungumál þróast og taka breytingum, orðaforðinn lagar sig að breyttum tímum og málfræðin hefur tilhneigingu til einföldunar. Hér er latína reyndar undantekning, enda er latína svokallað „dautt tungumál“. Listir og menning þróast. Allt sem lifir þróast og breytist – nema Guð. Hann einn og sannleikur hans er óbreyttur að eilífu. Ef eitthvað annað helst óbreytt um aldir er það næsta áreiðanleg vísbending um að það sé steindautt.

Viljum við að allt verði alltaf eins og það var? Að engu sé breytt og ekkert bætt, leiðrétt eða lagfært? Hungrar okkur ekki og þyrstir eftir réttlætinu? Má það líðast að ráðamenn spili endalaust með fólk, beiti blekkingum og rangindum til að tryggja stöðu sína og styrkja veldi sitt? Sættum við okkur við það sem viðvarandi ástand að blóðsugurnar og arðræningjarnir fitni eins og púkinn á fjósbitanum á meðan óbreyttri alþýðunni er með ógnum og blekkingum att í innbyrðis átök og erjur um smámuni? Sættum við okkur við að frelsarinn sé meðhöndlaður sem glæpamaður og glæpamaðurinn frelsaður? Að þannig sé það bara og því fái enginn og ekkert breytt?

Nei. Grjótið má einfaldlega ekki liggja óhreyft fyrir hellisopinu. Hið nýja má ekki vera blekking ein, hvort sem það er hin nýja Jerúsalem, hið nýja Ísland eða hið nýja líf í Kristi.

Stöðnun og dauði mega ekki ráða ríkjum. Dauðinn verður að vera sigraður. Líf, þar sem dauðinn er drottinn, er ekkert líf.

Það er þess vegna sem kristnir menn um allan heim segja í dag … nei, hrópa hátt og snjallt í gegn um móðu og mistur efasemdanna, þvert á það sem köld rökhugsun segir þeim að fái staðist, í trássi við allt sem meint skynsemi okkar hefur kennt okkur um það hvernig efnisheimurinn virkar: „Kristur er upprisinn!“

Hann skal vera upprisinn.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Read Full Post »

Prédikun flutt við æðruleysismessur í Stöðvarfjarðarkirkju og Egilsstaðakirkju föstudaginn langa, 6. apríl 2012

Náð sé með ykkur öllum og friður frá Guði föður og drottni, Jesú Kristi. Amen.

Í níunda kafla Markúsarguðspjalls segir frá örvæntingarfullum föður sem kemur með son sinn á fund Jesú Krists. Sonurinn er haldinn illum anda sem hefur kastað honum bæði í eld og vatn til að fyrirfara honum. Jesús segir: „Sá getur allt sem trúir.“ Og faðir drengsins svarar með þessari stórkostlegu þversögn: „Ég trúi. Hjálpa þú vantrú minni.“

Á föstudeginum langa minnumst við hryllilegs atburðar, miskunnarlauss grimmdarverks blóðþyrsts heimsveldis. Krossfesting var ekki bara aftaka, dauðarefsing. Rómverjar voru, umfram flest annað, hagsýnir og krossfesting var einfaldlega of tímafrek og kostnaðarsöm framkvæmd til að eitthvað vit væri í að taka alla dauðadæmda menn af lífi með þeim hætti. Markmiðið var ekki að deyða, heldur að kvelja og pynta þræla og uppreisnarseggi, murka úr þeim lífið með eins hægum og kvalafullum hætti og mögulegt var, öðrum til viðvörunar. Grimmdin var slík að fjölskylda hins krossfesta, foreldrar hans, eiginkona og börn, voru gjarnan neydd til að vera viðstödd og horfa á lífið kvalið úr syni, maka eða föður. Krossinn var kúgunartæki. Krossfesting var ekki pynting í þeim tilgangi að fá fólk til að tala, heldur einmitt til að fá fólk til að þegja.

En með grimmdinni afhjúpar hið illa jafnframt veikleika sinn. Það þarf bara eitt kerti til að rjúfa mykrið. Hver ljósglæta vonar kallar því á ofsafengin og yfirdrifin hræðslu- og óttaviðbrögð skelfingu lostinna myrkraafla. Með því að kalla á slökkviliðið til að kæfa hverja litla ljósglætu vonarinnar, frekar en að láta sér nægja að blása einfaldlega á hana eins og ekkert væri auðveldara eða áreynsluminna, sýna myrkraöflin hverjum þeim, sem enn geymir einhverja tíru vonar í hjarta sér, að lífið er sterkara en dauðinn. Kærleikurinn er hatrinu yfirsterkari. Vonin er máttugri en óttinn.

Krossinum var ætlað að þagga niður í lýðnum, láta hann hafa sig hægan. Halda honum í fjötrum óttans. Venjulegir morðingjar og fólk af þokkalegum ættum var náðarsamlega hálshöggvið. Krossfestingin var frátekin fyrir þá lægst settu, einmitt af því að það voru þeir sem valdstjórninni stafaði mest hætta af. Krossinn var verkfæri kúgunar og ánauðar, tákn algers vonleysis. Sérhverri tilraun til mannlegrar reisnar og frelsis var misþyrmt til bana af slíku offorsi að heilbrigð skynsemi hlaut að bjóða hverjum manni að láta allt slíkt óreynt.

Eða hvað?

Nei.

Sagan sýnir að neisti vonarinnar í hjörtum mannanna verður aldrei slökktur með öllu. Frelsisþráin og réttlætiskenndin eru okkur í blóð bornar og verða ekki upprættar, hvaða fólsku og grimmd sem myrkraöfl kúgunarinnar beita til að halda þeim í skefjum.

Árið 71 f.Kr. voru 6000 þrælar, sem gert höfðu uppreisn undir forystu þræls að nafni Spartakus, krossfestir við Appia-veginn til Rómar. Það kom ekki í veg fyrir að árið 4 f.Kr. gerðu Gyðingar í Jerúsalem tilraun til uppreisnar, vitandi hvað myndi bíða þeirra ef þeim mistækist ætlunarverk sitt. Þeirri tilraun lauk með því að 2000 Gyðingar voru krossfestir í Jerúsalem. Og þrátt fyrir það var gerð önnur uppreisn í Jerúsalem árið 70 e.Kr. sem lyktaði með eyðingu borgarinnar og svo margir voru krossfestir að ekki var pláss fyrir fleiri krossa á staðnum, en samt urðu Rómverjar, samkvæmt samtímaheimildum, uppiskroppa með krossa áður en þeir náðu að aflífa alla sem dæmdir höfðu verið til krossfestingar. Vonin er ódrepandi.

Og hér erum við að minnast atburðarins á Golgata þegar Jesús frá Nasaret var pyntaður til dauða með þessum hætti. Það er fáránlegt að ætla að dauði hans og dauðastríð hafi verið dramatískara eða á einhvern hátt frábrugðið kvölum og þjáningu þeirra þúsunda sem mætt höfðu sömu örlögum á undan honum eða þeirra þúsunda sem fylgdu upp á krossa aldirnar á eftir. Guð gerðist maður og gekk inn í hið mannlega hlutskipti. Ekki hlutskipti valdhafanna, ekki hlutskipti frjálsra manna sem nutu réttlætis og mannlegrar reisnar. Hann gekk inn í hlutskipti hins undirokaða fjölda sem aðeins beið kvalafullur dauðdagi ef hann svo mikið sem gerði tilraun til að rétta úr kútnum. Hlutskipti kúgaðra og þjáðra þúsunda, bæði fyrir og eftir Golgata-atburðinn.

En við erum ekki að minnast grimmdar og miskunnarleysis, vonleysis og uppgjafar. Við erum að minna okkur á að vonin deyr aldrei. Þegar öll sund virðast lokuð, ekkert virðist framundan nema myrkrið svart – þegar trú, von og kærleikur virðast hafa beðið algert og endanlegt skipbrot – er Guð nálægur.

„Sá getur allt sem trúir,“ sagði Kristur. Og hann var ekki bara að tala við örvona föður drengs sem haldinn var einhverju sem í þá daga var kallað „illur andi“ og reyndi hvað eftir annað að gera út af við hann. Hann var að tala við alla menn á öllum tímum. Sá getur allt sem trúir. Ekki gefa vonina upp á bátinn.

Við, sem náð höfum bata frá alkóhólisma, getum ábyggilega flest fundið okkur í sjúkdómslýsingu unga piltsins. Hve oft héldum við ekki að við hefðum fullkomna stjórn á lífi okkar til þess eins að standa okkur síðan að verki við hegðun sem hverjum heilvita manni mátti vera augljóst að stuðlaði aðeins að tortímingu okkar sjálfra? Við vorum föst í andlegum fjötrum okkar eigin stjórnleysis. Við ætluðum bara að skemmta okkur, en við vorum að drepa okkur. Svo upplifðum við okkar eigið Golgata.

Það var kannski ekki dramatískt og afgerandi augnablik. Kannski var það hægfara þróun, síversnandi ástand sem smám saman varð óbærilegra og óbærilegra uns við gáfumst upp. Gáfumst upp á okkur sjálfum, gáfumst upp á að viðhalda þeirri lygi að við hefðum stjórn á lífi okkar og viðurkenndum sannleikann: „Ég er alkóhólisti.“ Og viti menn – sannleikurinn gerði okkur frjáls þegar við gengumst við honum og öxluðum á honum ábyrgð. Þegar við viðurkenndum að við gætum ekki stjórnað lífi okkar sjálf og tókum þá ákvörðun að láta það lúta handleiðslu Guðs eins og við skildum hann, sögðum: „Faðir, í þínar hendur fel ég anda minn“, kviknaði ljóstíra vonar og myrkrið vék. Við þurftum að ganga í gegn um lífsins skuggadal til að sjá ljós lífsins. Og við gætum þess að gleyma ekki botninum okkar, okkar eigin Golgata, til að við gleymum ekki heldur þeirri stórkostlegu gjöf trúarinnar sem við njótum – við lifum ekki lengur í lygi heldur fetum veg sannleikans. Við erum laus úr fjötrum. Sannleikurinn hefur gert okkur frjáls. Dag í senn, eitt andartak í einu, hefur trú okkar gert okkur heil.

Á sama hátt minnumst við kristnir menn Golgata-atburðarins. Krossinn okkar er nefnilega ekki morðtól og pyntingatæki föstudagsins langa. Krossinn okkar er kross páskadagsmorgunsins. Við horfum á hann út um opinn munnann á hinni tómu gröf þar sem frelsari okkar var lagður. Hann er þar ekki lengur, hann er upp risinn. Krossinn, þar sem hann hékk, er auður og baðaður ljósi hinnar rísandi sólar upprisunnar. Hann fyllir okkur er ekki lengur skelfingu. Hann fyllir okkur von. Hann er ekki lengur tákn kúgunar og dauða. Hann er tákn upprisu og eilífs lífs. Hann táknar aðeins máttleysi illsku, grimmdar og miskunnarleysis gagnvart trú, von og kærleika.

Sá getur allt sem trúir. Aldrei gefa vonina upp á bátinn, jafnvel ekki þegar öll sund virðast lokuð og ekkert virðist framundan nema hægfara tortíming og dauði.

Þetta er hægara sagt en gert. Þegar við sjáum ekkert ljós í myrkrinu er erfitt að treysta því að Guð sé nálægur. En þá er fordæmi þeirra, sem náð hafa bata með Guðs hjálp og góðra manna, ljós í myrkri vonleysis og uppgjafar. Upprisa Jesú Krists frá dauðum, kærleiksverk Guðs á páskadagsmorgni, segir okkur að Guð hefur ekki gefist upp á okkur, ekki einu sinni þegar við sjálf höfum gert það. Kærleikur hans er óþrjótandi, náð hans er eilíf og hann kaus að elska okkur að fyrra bragði.

Það er erfitt að trúa. Ekki síst á föstudaginn langa, þegar afhroð vonarinnar fyrir grimmd heimsins virðist algert. Frammi fyrir krossinum á föstudaginn langa virðist það fásinna og heimska að láta sér detta í hug að lífið muni sigra dauðann. Til þess þarf nánast ómannlegt vonar- og trúarþrek. Það þarf nefnilega hugrekki til að neita að trúa sínum eigin augum, neita að trúa því sem öll heilbrigð skynsemi segir að liggi í augum uppi: Að allt sé glatað, öllu sé lokið. Það þarf kjark til að leggja líf sitt í hendurnar á Guði, svo mikinn kjark að fæst okkar eru fær um það fyrr en vanmáttur okkar til að klóra okkur af eigin rammleik upp úr dýinu, sem getuleysi okkar til að hafa stjórn á okkur eigin lífi sökkti okkur í, er orðin himinhrópandi augljós og við getum ekki lengur talið okkur trú um að við getum þeta sjálf, sama hvað við reynum.

Þess vegna getum við verið þakklát fyrir okkar eigið Golgata, eins undarlega og það kann að hljóma. Vegna þess urðum við fær um að bjarga lífi okkar með því að biðja Guð af hjartans einlægni um að gera það. Án þess hefðum við hugsanlega aldrei náð þeirri örvæntingu að lúta höfði og beygja hné í fullkominni auðmýkt og biðja með hinum örvæntingarfulla föður forðum: „Hjálpa þú vantrú minni.“

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er enn og verður um aldir alda. Amen.

Read Full Post »

Í apríl 2006 birtust mínir fyrstu Bakþankar hér í blaðinu. Síðan hefur margt breyst til hins betra í lífi mínu. Það eina, sem ég man í svipinn eftir að breyst hafi á verri veg, er tilfinning mín í garð þessara skrifa. Lengst af hlakkaði ég til að færa vangaveltur mínar í letur og koma þeim á framfæri í svo víðlesnum fjölmiðli. Upp á síðkastið hefur þetta aftur á móti orðið að hálfgerðri kvöð og núorðið er ekki laust við að ég finni fyrir vægri kvíðaröskun í hvert skipti sem ég sest við tölvuna.

„Hvernig verður þetta nú rangtúlkað, snúið út úr því og það lagt út á versta veg?“ „Hvaða mannvonska, níðingsháttur eða jafnvel kynferðislega óeðli verður lesið inn í þessa hugleiðingu?“ Í seinni tíð hef ég einhvern veginn ekki getað komist hjá því að velta þessu fyrir mér í hvert sinn sem ég ýti á „senda“.

Ég finn nefnilega í síauknum mæli fyrir því að þeir, sem verða fyrir gagnrýni eða aðfinnslum, taka því sem persónulegri árás. Ef mér finnst feministar ganga of langt er ég kynferðislega brenglaður hórkarl. Ef ég fíla ekki ungan tónlistarmann er ég hatursfullur karlfauskur. Ef mér finnst of dökk mynd dregin upp er ég veruleikafirrtur skýjaglópur. Auðvitað væri auðvelt að komast hjá þessu með því að gæta þess að segja aldrei neitt sem mögulega gæti komið illa við einhvern. En þá er líka alveg eins gott að þegja bara, því þá er maður ekki að segja neitt sem ástæða er til að hafa orð á. Lífið er of stutt til að eyða því í tilgangslausan vaðal.

Ég hef fengið vinnu sem felur það í sér að vera með ókunnugu fólki á viðkvæmum augnablikum auk þess að annast kristilegt barna- og unglingastarf. Ég hef metnað fyrir því. Ég hef engan metnað fyrir því að vera helsti „bátaruggarinn“ eða „enfant terrible“ í opinberri umræðu á Íslandi, kyndilberi pólitískrar ranghugsunar. Ég nenni því ekki.

Þegar aukavinna, sem ég hef lítinn metnað fyrir, fer að há mér í því, sem ég hef köllun til að gera, er valið því auðvelt. Ég get ekki vænst þess að vera aufúsugestur í sorgarhúsi eða vera treyst fyrir ungum börnum ef ég á sama tíma sit undir því frá leiðtoga stjórnmálaflokks, sem skjólstæðingar mínir kynnu jafnvel að tilheyra, að vera kynferðislega brenglaður nauðgaravinur, hættulegur jafnrétti og flestum góðum samfélagsgildum.

Þetta eru því mínir síðustu Bakþankar. Ég þakka lesendum sex ára samfylgd.

Bakþankar í Fréttablaðinu 31. mars 2012

Read Full Post »

Um daginn heyrði ég mikinn harmagrát í útvarpinu. Þetta var ósköp snoturt, lítið lag flutt af Bubba Morthens og Mugison. Það heitir „Þorpið“. Mér fannst samt hálfónotalegt að sitja undir þessum jarðarfararsálmi. Líkið er nefnilega í fullu fjöri.

Texti lagsins dregur upp vægast sagt nöturlega mynd af litlu sjávarplássi. Allt unga fólkið er farið suður að vinna og dreyma af því að hvorugt virðist vera hægt að gera úti á landi. Hrum gamalmenni eru ein eftir í plássinu, læst innan fangelsismúra fjallahringsins í iðjuleysi eða með nál og tvinna í höndunum á meðan hrægammarnir hnita hringi yfir höfði þess. Tækifærin eru öll fyrir sunnan, væntanlega af því að þau geta aðeins fæðst í höfuðborginni sem tímir ekki að senda þau út á land. Tækifæri eru m.ö.o. ölmusa sem Reykvíkingar þurfa að rétta þessum greyjum úti á landi, því eins og allir vita fylgir því þroskahömlun, sem gerir fólk með öllu ósjálfbjarga og ófært um að finna sjálft nokkurn skapaðan hlut sér til viðurværis, að eiga heima þar sem íbúafjöldinn nær ekki fimm stafa tölu.

Ég efast ekki um að gott eitt vaki fyrir flytjendunum og þeir séu báðir sannir vinir landsbyggðarinnar í hjarta sínu. En ég fæ ekki skilið hvernig þeim dettur í hug að henni sé einhver greiði gerður með þessari ósönnu hryllingsmynd.

Ef þeir vildu raunverulega hjálpa til myndu þeir einmitt lýsa plássunum sem landi tækifæranna, þar sem hugmyndaauðgi og framkvæmdagleði eru allt sem þarf til að koma hlutunum í verk, þar sem allar boðleiðir eru styttri og skilvirkari en í stórborginni, þar sem smæð samfélagsins gerir hvern einstakling miklu mikilvægari og verðmætari en í mannhafinu fyrir sunnan, þar sem nálægð fjallahringsins setur fólk einmitt í nánara samband við landið sitt, þar sem hin nánu tengsl við náttúruöflin afbrjála forgangsröðunina og fylla mann auðmýkt gagnvart sköpunarverkinu og skaparanum, þar sem maður horfir út á fjörðinn eða inn í dalinn af svölunum hjá sér en ekki yfir svalirnar á öllum hinum blokkunum, þar sem nýjustu uppfærslunar á vedur.is og vegagerdin.is skipta daglegt líf miklu meira máli en hvað gerðist á facebook á meðan maður svaf, þar sem lifað er í alvöru en ekki í ímynd.

Mörg af fegurstu og áhrifamestu verkum tónlistarsögunnar eru vissulega sálumessur. En að syngja þær yfir hinum sprelllifandi er helber dónaskapur.

Bakþankar í Fréttablaðinu 17. mars 2012

Read Full Post »

Fátt fer meira í taugarnar á mér en hneykslunarárátta. Þess vegna hneykslast ég mjög gjarnan á því hvað mér finnst fólk hneykslunargjarnt. Þess á milli hneykslast ég á því að fólk skuli ekki hneykslast á því sem mér finnst sannarlega hneykslunarvert. Eftir að ég tók að temja mér þann leiða ósið að dvelja langdvölum á facebook hefur þessi innri þversögn orðið mér jafnt og þétt ljósari og um leið óskiljanlegri. Það er nefnilega mikið hneykslast á facebook. Og þótt mér leiðist þessi sífellda hneykslun þá er eins og ég límist við hana og í stað þess að slökkva á tölvunni og fara að gera eitthvað viskulegt er ég, áður en ég veit af, búinn að kynna mér hverja hneykslunarhelluna á fætur annarri og verð jafnan sárhneyklsaður á því hvað þær eru í raun lítið hneykslunarefni þegar upp er staðið – svona í hinu stóra samhengi.

Ég vil ekki gera lítið úr öllum þeim óheiðarleika, sora og óeðli sem veður uppi, hvað þá hinu ógeðfellda hæfileikaleysi íslensks framáfólks til að sjá sök hjá sjálfu sér né einstakri lagni þess við að benda hvert á annað til að finna orsakir alls sem afvega hefur farið. En það hvarflar stundum að mér að þetta þjóni engum tilgangi. Undanfarið hef ég nefnilega hvað eftir annað séð fólk rjúka upp í hneykslun á hinu og þessu (Snorra í Betel, öskudagsbúningum, Jóni Baldvin, passíusálmunum, Geir Jóni o.s.frv.) með þeim afleiðingum að aðrir rjúka upp í hneykslun á því að hneykslast sé á þessu og þá er auðvitað hneykslast á því að þeim skuli finnast slík hneykslun eitthvað hneykslanleg. Hverju skilar þetta?

Íslendingar eru að ýmu leyti eins og börn sem búa við heimilisofbeldi. Við vorum blekkt og svívirt af þeim sem áttu að gæta hagsmuna okkar og við treystum til þess. Ekkert hefur verið gert til að endurheimta það traust eða gefa þjóðinni inneign fyrir fyrirgefningu sem er forsenda sáttar og heilbrigðra samskipta. Börn sem búa við heimilisofbeldi eru sjaldan til vandræða inni á heimilinu. Þar hafa þau gefið alla von um réttlæti upp á bátinn. Vanlíðan þeirra brýst út í skólanum og á leikvellinum. Höfum við með öllu gefist upp á stóru réttlætismálunum? Er virkilega svo komið að eina aðferð okkar til að fá útrás fyrir gremjuna og vanlíðanina er að froðufella af bræði og hneykslan á netinu yfir hvaða tittlingaskít sem við getum verið ósammála um?

Bakþankar í Fréttablaðinu 3. mars 2012

Read Full Post »