Feeds:
Færslur
Athugasemdir

Archive for maí, 2012

Eitt ömurlegasta tímabilið í bandarískri stjórnmálasögu var hið svokallaða McCarthy-tímabil. Það er nefnt eftir öldungadeildarþingmanninum Joseph McCarthy (1908-1957). Þetta tímabil einkenndist af pólitískum ofsóknum þar sem ótti Bandaríkjamanna við kommúnisma var misnotaður til að gera út af við feril og framavonir hvers sem með einhverju móti mátti bendla við hvað sem laut að kommúnisma. Þessar ofsóknir bitnuðu á stjórnmálamönnum, lögfræðingum og listafólki.

Orðið „mccarthyismi“ er núorðið notað um þessa aðferðafræði, að smyrja órökstuddum ásökunum um tengsl við eitthvað óvinsælt á andstæðing sinn og láta hann svo þurfa að standa í að hreinsa æru sína og sverja slíkt af sér. Þátttaka í félagsskap á æskuárum, sem einhver tengsl hafði við hið óvinsæla, vinátta við fólk með hinar óvinsælu skoðanir eða jafnvel ættartengsl eru nóg til að viðkomandi sé sagður hættulegur og flekkaður af því sem ótti fólks beinist að.

Vendipunkturinn, sem réði niðurlögum þessa andstyggilega tímabils, er talinn hafa verið yfirheyrsla yfir Joseph Welch 9. júní 1954. McCarthy gekk þá lengra en hann hafði áður gert í að sverta mannorð saklauss fólks. Welch spurði á móti: „Have you no sense of decency, sir? At long last, have you left no sense of decency?” (Hefurðu enga sómakennd, herra? Hefurðu loksins enga sómakennd lengur?”) Þegar spurningarinnar var spurt brustu út fagnaðarlæti í salnum og stöðva þurfti yfirheyrslurnar. Það var nefnilega hverjum manni átakanlega ljóst um leið og spurt var að varið var “nei”. Joseph McCarthy hafði fórnað æru sinni til að koma höggi á andstæðinga sína með hvaða ráðum sem var. Hann hafði enga sómakennd lengur.

Því er ég að rifja þetta upp að það hlýtur að setja ugg að hverjum sæmilega sögufróðum og upplýstum manni sem fylgst hefur með upphafi kosningabaráttu forseta Íslands. Það er nefnilega engu líkara en að Ólafur Ragnar Grímsson hafi leitað í smiðju eins auvirðulegasta stjórnmálamanns sögunnar að aðferð til að klekkja á mótframbjóðanda sínum. Í stað þess að bendla hana við kommúnisma og Sovétríkin smyr hann á hana tengslum við Samfylkinguna og ríkisstjórnina. Þannig verða óvinsældir núverandi ríkisstjórnar honum jafngóð grýla og Sovétríkin sálugu voru Joseph McCarthy við að ala á ótta almennings til að klekkja á andstæðingum sínum.

En það er eins og ekki megi tala um þetta. Jafnvel er látið sem svo að fullyrðingar Ólafs Ragnars Grímssonar um tengsl Þóru Arnórsdóttur við Samfylkinguna og ríkisstjórnina sé marktækur málflutningur en ekki það sem það augljóslega er; lúalegt örþrifaráð embættismanns sem stendur frammi fyrir því að missa völdin sem hann hélt að hann væri áskrifandi að. Það þarf ekki mikla rannsóknarblaðamennsku til að sjá að Þóra Arnórsdóttir tengist Samfylkingunni og ríkisstjórninni jafnmikið og megnið af fórnarlömbum Josephs McCarthys tengdist Sovétríkjunum.

Ólafur Ragnar lét eitt sinn fleyg orð falla þar sem hann vændi Davíð Oddsson um “skítlegt eðli”. Þau orð lét hann ekki falla sem óbreyttur borgari í bloggpistli á sinni persónulegu heimasíðu heldur sem þingmaður í ræðustóli á Alþingi Íslendinga. Hvernig dettur fjölmiðlamanni, sem vill vera tekinn alvarlega, í hug að túlka það sem “hatur” að þessi orð hans séu nú heimfærð upp á hann sjálfan í tilefni þess að hann hefur undanfarna daga orðið ber að framgöngu sem er síst tignarlegri en sú sem var tilefni þess að þau féllu á sínum tíma? Það er illa komið fyrir íslenskri blaðamennsku ef þetta eru efnistökin.

Það yrði áfellisdómur yfir lýðræðis- og siðferðisþroska íslensku þjóðarinnar ef bessasataðamccarthyismi Ólafs Ragnars Grímssonar yrði til þess að tryggja honum fimmta kjörtímabilið í embætti forseta Íslands. Það er lýðræðisleg og siðferðileg skylda hvers kjósanda, sem þessi forkastanlegi málflutningur hans minnir á hryllileg fordæmi sögunnar, að spyrja eins og Welch forðum: “Hefurðu virkilega engan snefil af sómakennd lengur?” Að túlka það sem “hatur” að spyrja þessa er annað hvort fádæma aum söguþekking eða aumkvunarverð meðvirkni.

Hvert svarið við þessari spurningu er mun koma í ljós á næstu vikum og mánuðum. Það verður Ólafur Ragnar Grímsson sjálfur sem svarar henni með framgöngu sinni. Og kjósendum ber að fylgjast gaumgæfilega með því hvernig hann svarar henni. Það væri nefnilega ömurlegt að tilheyra þjóð sem léti ótta við ímyndaða grýlu ráða því hvern hún velur til að gegna æðsta embætti sínu.

Ömurlegra væri þó að hafa forseta með enga sómakennd.

Read Full Post »

Seyðisfirði, 16. maí 2012

Virðulegi forseti.

Ég hef fylgst með áhuga af því hvernig þú hefur hafið kosningabaráttu þína fyrir forsetakosningarnar sem fram fara í sumar. Ég kaus þig árið 1996, enda varstu þá draumaframbjóðandi frjálslyndra vinstri manna og fleinn í síðu íhalds, auðvalds, Moggaveldisins og ekki síst Davíðs Oddssonar. Ég stóð meira að segja í ritdeilu fyrir þig í Alþýðublaðinu sáluga, þar sem við tókum það að okkur nokkrir að „dekka“ Hannes Hólmstein Gissurarson. Kjör þitt olli mér töluverðri kátínu fyrir sextán árum.

Þá gerðu forsetaframbjóðendurnir sjálfir sér aftur á móti sérstakt far um að vera kurteisir og málefnalegir í fasi og framgöngu, hvað sem segja mátti um „starfsmenn á plani“. Þeir kölluðu hver annan meira að segja „meðframbjóðendur“ en ekki „mótframbjóðendur“. Nú hef ég á hinn bóginn tekið eftir því að þitt fyrsta verk í kosningabaráttunni var að draga með mjög svo afdráttarlausum hætti úr trúverðugleika eins meðframbjóðanda þíns, Þóru Arnórsdóttur. Þú gekkst jafnvel svo langt að kalla hana „mótframbjóðanda“.

Þóra Arnórsdóttir er ung kona með ríka réttlætiskennd. Eins og títt er um fólk með réttlætiskennd, m.a. mig sjálfan, hefur hún komið nálægt pólitísku starfi með þeim flokki eða flokkum sem hún taldi skoðanir sínar eiga mesta samleið með. Ólíkt þér lét hún það þó eiga sig að helga líf sitt því að ná frama á þeim vettvangi, hvað þá að hún hafi flakkað á milli flokka þar til hún fann einn þar sem hún taldi sig fá persónulegri metorðagirnd sinni fullnægt. Flestar siðferðisverur verða nefnilega afhuga íslenskum stjórnmálum mjög fljótlega eftir að þær kynnast innviðum þeirra af eigin raun.

Þóra fann sér þess í stað starsvettvang í fjölmiðlum. Þar hefur hún reynst sannkölluð afburðamanneskja og hlotið verðlaun fyrir störf sín. Hún gerði t.a.m. mjög fróðlega og vandaða heimildaþáttaröð um efnahagshrunið á Íslandi haustið 2008. Hún þekkir því flestum betur forsögu þess og orsakir, þar með talið þátt þinn í þeim atburðum sem urðu þess valdandi að efnahagslíf landsins var lagt í rúst. Má þar nefna „You ain‘t seen nothing yet“ ræður þínar, ferðir þínar heimshorna á milli í einkaþotum útrásarvíkinga og það hvernig þú ítrekað hóraðist með æðsta embætti þjóðarinnar í þágu hagsmuna þeirra. Það skýtur því óneitanlega dálítið skökku við að þú, af öllum mönnum, skulir kalla hana „2007 frambjóðanda“. Öllum óbrjáluðum mönnum er deginum ljósara að þú ert eini „2007 frambjóðandinn“ í þessum slag og að sá, sem með ítarlegustum hætti hefur kynnt sér allt sem varðar hrunið, er Þóra Arnórsdóttir.

Núverandi ríkisstjórn hefur fengið það lítt öfundsverða hlutskipti að hreinsa til í rústunum  sem þessir gömlu velunnarar þínir og velgjörðarmenn ásamt átján ára einræði hömlulausrar frjálshyggju skildu eftir sig. Í nafni hennar voru glæpamönnum gefnar sameignir þjóðarinnar, sem þeir síðan mergsugu inn að beini og steyptu vísvitandi í gjaldþrot eftir að hafa falið fenginn í útlenskum skattaskjólum. Ríkisstjórninni hefur gengið illa með hreinsunarstarfið, svo illa reyndar að aðeins er hægt að ímynda sér að þrír aðrir stjórnmálaflokkar hefðu mögulega getað staðið sig verr. Auk þess hlýtur hver maður að sjá að þetta er varla nokkur vinnandi vegur. Tjónið sem núverandi stjórnarandstaða og hinir glæpamennirnir, þínir gömlu vinir, ollu jafngildir því að hvert einasta hús á Íslandi hafi brunnið til kaldra kola. Ríkisstjórnin er því afar óvinsæl um þessar mundir, sem að mörgu leyti er skiljanlegt.

Það er því sorglegra en tárum taki að í Morgunblaðsviðtali sl. mánudag skulir þú reyna að afla þér samúðar út á óvinsældir ríkisstjórnarinnar með því fullyrða að Þóra sé sérstakur frambjóðandi Samfylkingarinnar, nánast einhvers konar holdgerð hefnd ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir það hvernig þú tókst á Icesave málinu, jafnvel þótt Þóra njóti samkvæmt skoðanakönnunum mun meira fylgis en ríkisstjórnin. Þessu slettir þú fram án þess að hafa neitt fyrir þér í því annað en „bernskubrek“ hennar í pólitík og þína eigin sannfæringu um meintan fjandskap forsætisráðherra í þinn garð.

Það fyllir mig ómældri hryggð að þú, af öllum mönnum, skulir leggjast svo lágt að reyna að afla þér fylgis með því að ala á ótta við grýlu af þessu tagi. Íhaldið beitti „kommagrýlu“ fyrir sig með góðum árangri áratugum saman. „Samfylkingargrýla“ þín er að öllu leyti jafnauvirðuleg og lúaleg.

Mig langar því að spyrja þig þriggja spurninga sem brenna á mér og mig klæjar í að fá svar við sem allra fyrst:

  1. Hefurðu virkilega engan snefil af sómakennd lengur?
  2. Hvernig tilfinning er það að vera núna draumaframbjóðandi íhalds, útgerðarauðvalds, Moggaveldisins og síðast en ekki síst Davíðs Oddssonar?
  3. Grunaði þig einhvern tímann að inni í þér sjálfum leyndist svona skítlegt eðli?

Með kveðju,

Davíð Þór Jónsson

Read Full Post »