Feeds:
Færslur
Athugasemdir

Archive for júní, 2012

Landsýn

Ísland, minn draumur, mín þjáning, mín þrá,

mitt þróttleysi og viðnám í senn.

Þessi vængjaða auðn með sín víðerni blá,

hún vakir og lifir þó enn.

 

Sjá, hér er minn staður, mitt líf og mitt lán,

og ég lýt þér, mín ætt og mín þjóð.

Ó, þú skrínlagða heimska og skrautklædda smán,

mín skömm og mín tár og mitt blóð.

Steinn Steinarr

Read Full Post »

Var að lesa Moggabloggið. Það er sýnu verra. Þar er þetta helst:

a)      Ég er „einn af þeim ómerkilegri persónum sem ég hef séð í gegnum netið.“ (Ásthildur Cecil Þórðardóttir) Í athugasemdakerfi annars Moggabloggara segir hún: „Hef haft algjöran fyrirvara á þessum manni eftir að hann opinberaði skítlegt eðli sitt með skítaumsögn um Frjálslyndaflokkinn byggðri á rógi og lygum. Þar með er þessi maður fyrir mér persóna non grada eins og sagt er. Aumkvunarverð persóna.“ Ég man eftir þessum samskiptum. Mig minnir að þau hafi snúist um þessa Bakþanka. Verðlaun eru í boði fyrir þann sem finnur róginn og lygarnar í þeim.

b)       „Aumkunaverðir menn eins og Davíð þór, reina upphefjasig með lygum,sem Samfylkingar- fólk hefur tamið sér.“ (Vilhjálmur Stefánsson) Sami Vilhjálmur segir annars staðar: „það hefur verið viðloðandi með Davíð þór að skrifa ætíð níð um aðra og í þeirri von að geta upphafið sig eða þá sem hann starfar fyrir í þessu tilfelli þóru Samfylkingarkonu.“ Auðvitað nefnir hann ekki eitt dæmi um þetta síendurtekna níð mitt um aðra. Og svo skal ég glaður borga Vilhjálmi hverja krónu tífalda til baka sem hann getur sýnt fram á að ég hafi þegið fyrir þessi meintu störf mín fyrir Þóru eða Samfylkinguna. – Á þriðja staðnum segir hann: „þessi maður hefur aldrei látið annað en ljót orð falla úr munni sér og hatur í garð annara.Hann virðist vera með athiglis síki..Löngum hafa menn velt því fyrir sér hvort Davíð þór sé ekki með geðröskun sýki sem bríst svona út hjá honum..“ Engin dæmi eru nefnd, en auðvitað eru það ekki „ljót orð í garð annarra“ að segja þá haldna „geðröskun“ – eða hvað?

c)      Merkilegt hvað fólk er ákveðið í að ég tilheyri flokki sem ég hef aldrei kosið. Páll Vilhjálmsson tengir mig líka við Samfylkinguna í makalausum pistli. Sem betur fer hef ég reyndar engar áhyggjur af því að nokkur heilvita maður taki mark á honum lengur. Í athugasemdakerfinu er ýjað að því að ég hafi verið fullur þegar ég skrifaði þetta. (Valli) Auðvitað er ekki vikið einu orði að efni pistilsins í þessum skrifum.

d)     „Þetta er hrein og tær öfundsýki frá manni sem endanlega hefur sporað út af allri rökræðu og umfjöllun um þessar kosningar.“ (Eyjólfur Jónsson) Í athugasemd er ég kallaður „bullustampur“ og sakaður um „órökstutt mál“ (Hrólfur Þ. Hraundal), auðvitað án þess að gerð sé tilraun til að hrekja rökin sem fram koma í pistlinum.

e)      Ég er „karlinn á kassanum“ sem ekkert hefur fram að færa nema níð og Gróusögur.“ Við það er bætt yfirlýsingu um vanþóiknun á „starfsaðferðum“ stuðningsmanna viss frambjóðanda. En sá frambjóðandi er á vegum LANDRÁÐAFYLKINGARINNAR …“ (Jóhann Elíasson) Undir þetta tekur Örn Ægir (sem í athugasemdakerfi DV sagði: „Latum ekki ESB landráðaöflin ná Bessastöðum!“) með orðunum: „Þvílíkar innihaldslausar upphrópanir og rugl“ Sjálfur kem ég ekki auga á vísi að innihaldi í því sem Örn Ægir hefur sagt.

f)       Í athugasemdakerfum allra hinna blogganna dúkkar þessi sami Jóhann Elíasson upp. Þar hefur hann aðeins orðið „mannleysa“ fram að færa og tínir aldrei til eitt einasta dæmi um rangfærslur úr textanum sem verið er að gagnrýna. Um þá athugasemd er síðan sagt á einum stað: „Það er skynsamlegt það sem Jóhann Elíasson segir hér að ofan um þessi skrif manns sem ákvað að fórna mannorði sínu til að útdeila því sem lýsir honum sjálfum betur en nokkrum öðrum.“ (Rakel Sigurgeirsdóttir) – Enn ekki orð um það sem ég sagði eða leiðrétting á einhverju sem þar er missagt.

g)       „Og þetta kallar sig fræðslufulltrúa…..!!“ (Sigrún Jóna) Nei, Sigrún Jóna. Vinnuveitendur mínir titla mig fræðslufulltrúa. Ég kalla mig Davíð. Þú kallar mig aftur á móti „þetta“. Rógur? Eigum við að ræða þetta frekar? Eða eigum við að gagnrýna pistilinn minn? Eigum við frekar að halda áfram að uppnefna hvort annað?

h)      „Séra Davíð Þór sér um guðþjónustur í minni gömlu sókn. Það sem hefur undrað mig við það, er hvernig þjóðkirkjunni gat dottið það í hug að bjóða söfnuði upp á að kjaftfór guðfræðingur að sunnan fljúgi vikulega austur á land til að flytja fagnaðarerindið.“ (Magnús Sigurðsson) Ekki veit ég hver hinn gamli söfnuður Magnúsar er, en ég flýg ekki austur vikulega. Ég bý á Seyðisfirði. Ég hef séð um guðsþjónustur og prédikað í Bakkagerðissókn, Egilsstaðasókn, Hjaltastaðarsókn, Kirkjubæjarsókn, Sleðbrjótssókn og Stöðvarfjarðarsókn síðan ég fluttist hingað. Og ég geri þetta alls ekki vikulega. Mitt aðalstarf er í öðru fólgið. Þessi fáránlega rangfærsla er sett fram af manni sem titlar sig „áhugamann um frelsi hugans“. Fyrirsögnin er „Kirkjan komin út í móa.“ Hann minnist sem sagt ekki einu orði á neitt sem ég segi í pistlinum heldur lýgur þess í stað upp vinnuveitanda minn og vegur að starfsheiðri mínum. Svo er ég ekki séra.

i)        „Ég veit ekki hvað viðkomandi aðili er virkilega að vilja upp á dekk með sínu gifuryrðaflóði í þessu efni, sem óhjákvæmilega fellur aftur í fang viðkomandi, líkt og sandkast í sandkassa.“ (Guðrún María Óskarsdóttir) – Dæmi um gífuryrði og af hverju þau eru gífuryrði? Nei. Að saka annan mann um gífuryrðaflóð án þess að færa nein rök fyrir ásökuninni, eru það ekki gífuryrði, Guðrún María?

j)        „djöfulsins kjaftæði er þetta í manninum. er hann fræðslufulltrúi austurlandsprófastdsdæmis? guð hjálpi mér . ef fræðslan er eitthvað í þessa átt þá er allt pensumið ósanindi og klám“ (Björn Grétar Sveinsson) – Auðvitað án þess að benda á nein ósannindi, hvað þá klám, í því sem málið snýst um.

k)      „þetta bara sínir að prestlærður maðurin að sannleikan má hagræða eins maður vill,hans segir pistill sinn skrifaðan úr herbúðum frambjóðaneda en hvers þá ,ekki mynnist hann á að Ólafur Ragnar Forseti er sannkristinn maður,og kallar hann bara útsmogin lygara sem tali túngum mörgum,svo talar hann um foringjaræði hans er það ekki gott bara,en temað er ekki gott að manni sem telur sig Prestlærðan mann fyrirgefninga!!en ég er ekki að hallamæla neinum rambjóiðanada alls ekki,þeir eru misgóðir en allir frambærilegir“ (Haraldur Haraldsson) Ha? Þýðing á íslensku óskast. Það eina sem ég skil er að hann er ekki hrifinn. Rök? Ekki að ræða það.

l)        Mér finnst þessi eiginlega best: „þau [Ólafur og Dorrit] sjá nú svart á hvítu óvini fullvalda Íslands í þessu guðfræðingingings-greyi“ (Helga Kristjánsdóttir)

Satt best að segja er mér hætt að finnast þetta fyndið. Þetta fyllir mig aðeins óhug. Mér fannst þetta samt nógu skelfilegt til að safna þessu saman á einn stað og birta það.

Hér með vara ég allt skynsamt fólk við einstaklingunum sem hér er nafngreindir og í síðustu færslu. Þrátt fyrir allt vil ég enn trúa að þetta sé hávær minnihluti og fólk sé upp til hópa fært um rökhugsun og skynsama orðræðu. Og ég neita að trúa að málflutningur af þessu tagi sé lýsandi fyrir þá sem styðja forseta Íslands til áframhaldandi setu í embætti.

Read Full Post »

Í gær skrifaði ég pistil um það hvernig kosningabarátta Ólafs Ragnars Grímssonar hefur komið mér fyrir sjónir. Ég gat ekki stillt mig um að nota stór orð, en bað fólk að líta á rökin og staðreyndirnar frekar en orðfærið. Ég gætti þess í hvert sinn sem ég notaði stórt orð að styðja notkun þess rökum og staðreyndum.

Pistillinn olli usla. Viðbrögðin í athugsemdakerfi DV hafa valdið mér áhyggjum. Þar er ég ítrekað sakaður um að fara með róg og lygi án þess að einu einasta atriði í greininni sé hnekkt efnislega.

Það sem dregið er inn í umræðuna er:

a)      Að ég sé Samfylkingarmaður úr herbúðum Þóru (Stefán Auðunn Stefánsson). Þannig skil ég a.m.k. orðin „Samfýósi“ og „kráka dregin upp úr hreiðri“. Staðreynd: Ég hef aldrei kosið Samfylkinguna og þekki Þóru Arnórsdóttur ekki persónulega, hef skiptst á orðum við hana – en ekki það sem af er þessu ári.

b)      Að ég sé „pokaprestur og prófastur til Bleiktog bláttþinga“ sem ráðist á ÓRG „með buslubænum og kristilegri skapvonsku.“ (Jóhannes Ragnarsson) Af sama toga: „sorglegt hvað þessi þjónn guðs er bitur og reiður í skrifum“ (Sigursveinn Örvarsson)

c)      Að ég sé bara að láta bera á mér og komast í umræðuna. (Ívar Örn Hrólfsson) Eins og það sé mér eitthvað yndi að vera miðpunktur umræðu af þessu tagi.

d)     Að ég sé „DRULLU-Prestlærður Grínari,,sem á erfitt með að fá hempu,, oftast drukkinn eða skakkur,,enginn furða!!!“ (Bjössi í Klöpp) Staðreynd: Ég hef ekki einu sinni gert tilraun til að fá hempu og hef verið án hug- eða skapbreytandi efna í 7 ár, þrjá mánuði og þrjá daga.

e)      Að það sé „Ekki skemmtiegt að prestlærður maður sé svona skemtilega geggjaður““. (Jón Marteinsson) Hann bætir því við að núverandi ríkisstjórn geri skjaldborg um „helvítis útgerða pakkið“. Ég er ekki viss um að Jón hafi fylgst með umræðum um ný lög um sjávarútveg og hverjir risu einarðlegast gegn þeim.

f)       Að „Guðfræðingurinn“ sé „að missa sig“ og ætti „að lesa nokkrar blaðsíður í hinni helgu bók til að róa sig“. (Kristjana Guðmundsdóttir) Af sama toga: „Held að hann Davíð vinur minn sé alveg búin að missaða!!“ (Sævar Sigurðsson)

g)      „æ farðu og borgaðu icesave Davíð… eða mokaðu skurð einhverstaðar, a.m.k. hættu að koma með svona þvælu í blöðin, þvælu sem þú getur engan veginn bakkað upp með staðreyndum“. (Reynir Freyr Pétursson) Í fyrsta lagi var þessi „þvæla“ ekki sett „í blöðin“ heldur skrifuð sem færsla á mína persónulega bloggsíðu. Í öðru lagi geri ég ekki annað en að bakka orð mín upp með staðreyndum.

h)      „Hefur þessi guðsmaður unnið líkamlegt áreynslustarf ekki sé ég það fyrir mér.En hann kemur svona annarslagið og bullar út í loftið telur sig stóran litli kallinn:)“ (Ómar Kristvinsson) Ómari til upplýsingar hef ég unnið við löndun, uppskipun og útskipun, landbúnað, sjómennsku og í byggingarvinnu. Ég er 182 sentímetrar.

i)        Að ég sé „sjúkur maður“, skrif mín séu ekki eðlileg og líkist því ekki að vera eftir helibrigðan mann. (Sigurður Sigmannsson) Hann bætir því við að ég virðist telja kjósendur Ólafs hálfvita eftir að hafa lesið grein þar sem ég segi: „Ég tel kjósendur Ólafs Ragnars Grímssonar ekki heimskari eða verri manneskjur en þá sem hafa meiri mætur á öðrum frambjóðendum.“ Af sama toga er þessi athugasemd: „Mikið skelfing er þetta rætið og ómálefnalegt og lýsir kannski best bréfritara. Svona ritar bara sjúkur maður.“ (Þröstur Elfar) Og þessi: „Ég held að Davíð eigi verulega bágt, við ættum kanski að biðja fyrir honum.“ Og þessi: „fárveikur einstaklingur.“ (Jóhann Helgi Kristinsson) Og jafnvel þessi: „Aumingja maðurinn!“ (Birna Guðmundsdóttir)

j)        „Ólafur er svo miklu stærri peróna en þú. Haltu kj. guðsmaður. Íslendingar vilja Ólaf, skilurðu það ekki. Skítkast frá ómekilegri persónu, skiftir engu máli lengur.“ (Birgir Ás Guðmundsson) Ég er einkum hrifinn af því að vera hreinlega sagt að halda kj. Sterkt vopn í rökræðu.

k)      „Við þurfuð að láta nýja biskupinn vita um þetta skemmda epli í kirkjunni. Vesalingur.“ (Magnús Þórðarson) „Læk á það“ (Ingigerður Guðmundsdóttir) Skoðanir studdar rökum með vísun í heimildir gera mig með öðrum orðum óhæfan til að gegna núverandi starfi og biskupinn ætti að skerast í leikinn. Skoðanakúgun much? Af sama toga: „Alltaf sami klámkjafturinn á Davíð Þór. Séra Davið Þór? Vonandi aldrei.“ (Guðlaugur Ævar Hilmarsson) Ég býð verðlaun fyrir að finna eitt klámfengið orð í pistinum sem um ræðir.

l)        „Algjörlega innihaldslaust rugl! Kjósum Ólaf Ragnar hann og Dorrit eru þjóðinni til sóma. Latum ekki ESB landráðaöflin ná Bessastöðum!“ (Örn Ægir) Hann bætir því við að ég sé „algjör auli“ – sem þá væntanlega flokkast ekki sem „innihaldslaust rugl“. Ólafur er m.ö.o. í huga Arnar Ægis vörn gegn „ESB landráðaöflunum“ jafnvel þótt algerlega borðleggjandi sé að samningur um ESB fer alltaf í þjóðarakvæðagreiðslu, óháð því hver er forseti eða hvaða skoðun hann eða hún hefur á samningnum.

m)    Að ég sé að „reyna að ná i friðhelgi kvenna með því að rægja óla kallinn“ (Guðmundur Falk Náttfari)

n)      „Davíð alltaf fyndinn 😦 Annaðhvort í porno eða í prestsgalla, en að úthúða góðu fólki er of flókið fyrir hans skítlega eðli!“ (Ágúst Örvar Ágústsson)

o)      „Svona verða menn sem læra guðfræði.“ (Sævar Einarsson) Samkvæmt því eru hér og hér listi yfir fólk sem er/var nákvæmlega eins og ég.

Þetta gerir það að verkum að það eina, sem ég hef áhyggjur af að missagt sé í pistlinum mínum, sé þessi setning: „Ég tel kjósendur Ólafs Ragnars Grímssonar ekki heimskari eða verri manneskjur en þá sem hafa meiri mætur á öðrum frambjóðendum.“ Ég ætla þó að standa við það og vona að þeir sem tjá sig á netinu séu ekki þverskurður af fylgi forsetans. Sjálfur þekki ég háttvíst og greint fólk sem styður hann. Það varðar ekki vinslitum að þeir meti það, sem að þeirra mati er merki um styrk og festu, meira en sannsögli.

Ég tíni þetta til bara svona til að benda á það á hvaða plani opinber umræða á Íslandi er. Það er ekki beint hvetjandi til þátttöku í henni að sitja undir ásökunum um andlega vanheilsu, óeðli, lygar og ómerkilegheit án þess að neitt efnislegt sé tilgreint sem missagt sé, eftir að hafa sett fram athugun ítarlega studda rökum og heimildum – að vísu með óvenjulega tæpitungulausum hætti. Það er jafnvel vegið að atvinnuöryggi mínu.

Og hér kemur brandarinn:

Allt þetta fólk fer í dag og kýs margafhjúpaðan lygara og rógbera til embættis forseta Íslands, eftir að hafa sakað mig um lygar og róg án þess að hafa getað tilgreint eitt einasta dæmi um að ég hafi farið með ósannindi, sárhneykslað á því lága plani sem íslensk umræða er á, sannfært um að það sem helst sé að umræðunni sé … ég.

Read Full Post »

Þessi pistill er ekki skrifaður úr herbúðum. Hann er skrifaður úr eldhúsi á Seyðisfirði. Hann er ekki skrifaður með hatri eða heift. Hann er skrifaður með hálfum huga. Mér hefur nefnilega fundist að Íslendingar séu einhvern veginn þannig gerðir, líklega af því að þeir eru svo góðir í sér, að það eitt að kalla lygara lygara opinberlega sé líklegra til að afla honum samúðarfylgis en að koma honum illa. Þessar hugleiðingar mínar kynnu því að hafa þveröfug áhrif við það sem þeim er ætlað.

Auk þess er ég í raun ekki að segja neitt sem ekki hefur verið sagt áður og einhverjum ætti að vera óljóst. Forsetinn hefur byggt kosningabaráttu sína á ósannindum og níðrógi. Það er borðleggjandi. Aftur á móti virðist mér að þeir, sem greiða ætla að greiða honum atkvæði á morgun, láti það sér sem vind um eyru þjóta. Einhverja kosti virðast þeir álíta hann hafa sem vegi þyngra en þeir ljóðir á ráði hans sem dregnir hafa verið fram í dagsljósið og gera hann að mínu mati gersamlega vanhæfan til að gegna embætti lengur..

Í dag var mér bent á áhugaverðan pistil. Af því tilefni við ég taka fram að ég tel kjósendur Ólafs Ragnars Grímssonar ekki heimskari eða verri manneskjur en þá sem hafa meiri mætur á öðrum frambjóðendum. Ég held aftur á móti að þeir séu haldnir sterkara foringjablæti en lýðræðinu er hollt. Helsta röksemd þeirra virðist vera að þjóðin þurfi „sterkan leiðtoga“. Ég held að þetta fólk geri sér grein fyrir því að forsetinn hefur hvað eftir annað hallað réttu máli og farið með vísvitandi ósannindi og fleipur til að afla sér fylgis, en það sér í gegn um fingur sér við hann af því að hann er í huga þess þessi sterki leiðtogi. Því finnst eitthvað töff við hann. Hann talar máli okkar og lætur ekki vaða yfir sig. Hann er maður stáls í stál, sá sem lætur hart mæta hörðu.

Að mínu mati er það þó ekki það sem við þurfum á að halda núna. Lygar og rógur eru ekki styrkleikamerki, heldur þvert á móti veikleikamerki. Lygarinn og rógtungan stendur alltaf uppi á endanum afhjúpaður, berrassaður, hlandbrunninn og flengdur af sinni eigin framgöngu. Illu heili benda skoðanakannanir ekki til að það muni gerast á morgun, þótt enn sé von. En það mun gerast.

Einhverjum kann að finnast ég viðhafa fullstór orð með því að kalla forsetann lygara og rógtungu. En ég kann engin önnur til að lýsa framgöngu hans síðan hann hóf baráttu sína fyrir endurkjöri. Ég bið ykkur því að afsaka orðanotkunina með því að hafa tvennt í huga:

  • Maður, sem sjálfur veigraði sér ekki við því að saka gagnrýnendur sína um „skítlegt eðli“, verður öðrum fremur að sætta sig við að gagnrýni á hann sjálfan sé sett fram án tæpitungu.
  • Það er glöggt dæmi um rökþrot þegar maður getur ekki gagnrýnt það sem sagt er og fer í staðinn að hnýta í hvernig það er sagt.

Ég sagði að það væri óvefengjanlegt að forsetinn hefði byggt kosningabaráttu sína á lygum og rógi. Ég vil ekki falla í sömu gryfju og Hjörleifur Hallgrímsson sem í stuðningsgrein fullyrðir: „Það má nokkuð ljóst vera að framboð hinnar fallegu sjónvarpsstjörnu til forsetaembættisins Þóru Arnórsdóttur er til komið vegna hatursfulls Samfylkingarfólks út í sitjandi forseta.“ Fyrir þessu færir hann engin rök, hann hefur engar heimildir sem styðja þessa tilgátu. Á góðri íslensku má því kalla málflutning hans frá rótum „þvætting“, „kjaftæði“, „heilaspuna“, jafnvel „vænisýki“ og þarafleiðandi alveg áreiðanlega „róg“. Mig langar því að nefna nokkrar borðleggjandi staðreyndir, sem að vísu hafa allar komið fram áður, sem taka af allan vafa um að forsetinn hefur hvað eftir annað gerst ómerkingur orða sinna og farið vísvitandi með blákaldar og kalkúleraðar lygar í kosningabaráttunni. Ég tíni þær ekki til eftir mikilvægi eða auvirðuleikastigi heldur í þeirri röð sem þær koma upp í hugann:

  1. Forsetinn lýsti því yfir að hann hygðist bíða með að hefja kosningabaráttu sína þangað til framboðsfrestur hefði runnið út. Það sveik hann. Um leið og helsti keppinautur hans, sem þá virtist hafa forskot á hann samkvæmt skoðanakönnunum, þurfti að taka sér frí til að fæða barn geistist hann fram þótt enn væru tvær vikur þar til framboðsfrestur rynni út, vitandi vits að Þóra Arnórsdóttir væri ekki í aðstöðu til að bera hönd fyrir höfuð sér í nokkra daga og eitrið og gallið sem hann myndi spúa (sjá lygi 2 hér að neðan) fengi því að svíða hana og brenna og skaða framboð hennar alllengi áður en því yrði andmælt svo nokkru næmi. Sumir myndu líkja þessu við að sparka í liggjandi mann, en að mínu mati er það fulllangsótt líking. Nær lagi væri að líkja þessu við að sparka í fæðandi konu. Gott og vel. Það má skipta um taktík, þetta er kannski ekki stórglæpur. Engu að síður er alveg ljóst að forsetinn hóf kosningabaráttu sína á því að gerast ómerkingur orða sinna til að koma höggi á andstæðinginn, hann sætti færis að haga seglum eftir vindi.
  2. Það sem forsetinn hafði þá fram að færa var nákvæmlega sama lygin og áðurnefndur framsóknarmaður, Hjörleifur Hallgrímsson, byggir stuðning sinn við Ólaf á. Þóra er frambjóðandi óvinsællar ríkisstjórnar. Þetta er hin svokallaða „Let Them Deny It“ aðferð. Hún byggir á því að saka andstæðinginn um eitthvað nógu svívirðilegt án nokkurra röksemda eða heimilda og láta hann svo þurfa að verja orku sinni í að sverja það af sér. Það eina sem styður þetta er smávægileg þátttaka Þóru í starfi Samfylkingarinnar fyrir margt löngu. Sjálfur hef ég aldrei kosið Samfylkinguna, en með sömu rökum mætti gera mig að gallhörðum Samfylkingarmanni í huga fólks með því að grafa það upp að ég hafi einhvern tímann tekið að mér að stjórna málfundi á vegum hennar. Önnur tenging Þóru við Samfylkinguna eru ættfræðilegs eðlis. Sumum kann að finnast það gild rök að vilja ekki sjá „Hanníbalskynið“ á Bessastöðum, en fólki með óbrjálaða siðferðiskennd misbýður slíkur málflutningur auðvitað. Auðvitað lét forsetinn það ógert að draga stjórnmálaþátttöku maka hennar inn í dæmið, enda átti hún sér stað innan Sjálfstæðisflokksins, en þangað sækir forsetinn einmitt stuðining þessa dagana, í Moggaklíkuna og útgerðarauðvaldið. Þar með væri þessi hlægilega vænisjúka samsæriskenning nefnilega hrunin um sjálfa sig. Auk þess hlýtur það að teljast ótrúleg bíræfni að maður, sem sjálfur er leynt og ljóst í framboði gagngert í þeim tilgangi að misbeita synjunarvaldi forseta í þágu pólitísks málstaðar, væni mótframbjóðendur sína um pólitískt agenda. Eða eImager fólk búið að gleyma hverjir það voru sem ekki gátu hugsað sér að missa hann af Bessastöðum? Hver stóð við hlið hans þegar hann lýsti yfir framboði (eða hvort það var þegar hann tók við 75% af þeim fjölda undirskrifta sem til stóð að safna til að skora á hann að gefa kost á sér til endurkjörs)? Það var Guðni Ágústsson, fyrrum formaður Framsóknarflokksins, stjórnarmaður í Heimssýn (samtökum gegn inngöngu Íslands í Evrópusambandið) og félagi til margra ára í nýnasistahreyfingunni „Norrænt mannkyn“ að sögn tveggja formanna þeirra miður geðslegu samtaka.
  3. Forsetinn réðst að starfsheiðri maka Þóru, Svavars Halldórssonar, með bláköldum lygum. Óþarfi ætti að vera að fara nánar út það hér. Hvert orð af rógi Ólafs um Svavar hefur verið rekið öfugt ofan í hann. Forsetinn hefur þó ekki séð ástæðu til þess að taka eitt orð af því aftur eða biðjast velvirðingar á neinu sem þar var missagt (sem reyndar var öll ræðan). Það væri óneitanlega skondið ef Ólafur Ragnar Grímsson yrði ekki bara fyrsti forseti lýðveldisins til að sitja (vonandi aðeins) fimm kjörtímabil heldur sá fyrsti sem hæfi sitt (vonandi) síðasta kjörtímabil á því að vera dæmdur ómerkingur orða sinna og skaðabótaskyldur fyrir meiðyrðin sem barátta hans fyrir endurkjöri byggði á. Í 236. grein almennra hegningarlaga segir: „Sé ærumeiðandi aðdróttun höfð í frammi eða borin út gegn betri vitund, þá varðar það fangelsi allt að 2 árum.“ Framkoma Ólafs býður meira að segja upp á að hann þyrfti að sinna embætti forseta í þessi tvö ár (sem hann þrætir fyrir að hafa lýst því yfir að hann ætlaði að gera (sjá lygi 5 hér að neðan)) frá Kvíabryggju. Vera má að forsetinn njóti einhverrar friðhelgi á borð við þinghelgi. En henni hlýtur Alþingi að geta svipt hann eins og þingmenn. Ég vona að Svavar Halldórsson hafi kjark til að leita réttar síns gagnvart Ólafi fyrir atvinnuróginn og ærumeiðingarnar og að Alþingi Íslendinga hafi siðferðiskennd til að svipta Ólaf þeirri friðhelgi sem komið gæti í veg fyrir að 73. grein stjórnarskrár lýðveldisins Íslands gilti um hann eins og aðra Íslendinga. Sjálfum finnst mér ekki ósanngjarnt að krefjast þess af forseta lýðveldisins að hann hagi kosningabaráttu sinni innan ramma almennra hegningarlaga.
  4. Forsetinn lýgur því að hann geti komið í veg fyrir að Íslendingar verði þvingaðir inn í Evrópusambandið án þess að það yrði fyrst samþykkt í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta er einfaldlega rangt. Ólafur Ragnar Grímsson hlýtur að vita það, hann er ekki vitlaus. Samt hefur honum tekist að telja þjóðinni trú um að núverandi ríkisstjórn, sem er á síðasta snúningi, hafi í hyggju að troða þjóðinni inn í sambandið að henni óforspurðri og hann geti komið í veg fyrir það. Samningur um ESB er alltaf borinn undir þjóðaratkvæði, óháð því hvert landið er, hver er forseti þess eða hvaða skoðun hann eða hún hefur á samningnum. Það er svo einfalt. Það er algerlega borðleggjandi. Ólafi Ragnari til hróss verður þó að segjast að engum öðrum hefði ég treyst til að telja annars skynsömu fólki trú um annan eins endemisþvætting.
  5. Tvær tilvitnanir. „Það er þó einlæg ósk mín að þjóðin muni sýna því skilning þegar stöðugleiki hefur skapast í stjórnskipan landsins og stjórnarfari og staða okkar í samfélagi þjóðanna hefur skýrst ákveði ég að hverfa til annarra verkefna áður en kjörtímabilið er á enda og forsetakjör fari þá fram fyrr en ella.“ (Ólafur Ragnar Grímsson, 4. mars 2012) „Ég hef aldrei sagt að ég ætlaði bara að vera í tvö ár. Þetta er áróður sem reynt var að læða að fólki, m.a með fréttunum sem Svavar bjó til á RÚV þegar verið var að kanna framboð Þóru. Það hefur alltaf verið skýrt að ég býð mig fram til fjögurra ára.“ (Ólafur Ragnar Grímsson, 21. maí 2012) Hér.
  6. Ólafur Ragnar lýgur því að hann hafi sparað þjóðinni stórfé með því að synja Icesave lögunum undirskriftar. Staðreyndin er sú að hann samþykkti möglunar- og umyrðalaust mun óhagstæðari samning en þann sem hann síðar vísaði til þjóðarinnar. Þá var það þjóðinni til happs að Bretar og Hollendingar samþykktu ekki fyrirvara Alþingis. Sá samningur, sem hann synjaði, var okkur mun hagstæðari en sá sem hann áður hafði samþykkt þegjandi og hljóðalaust. Raunveruleikinn er sá að enginn veit hvað kemur út úr Icesave ósköpunum fyrr en dómur fellur.
  7. Ólafur Ragnar Grímsson lýgur því að hann geti orðið forseti allrar þjóðarinnar. Sitjandi forseti, sem helmingur þjóðarinnar getur ekki hugsað sér að styðja til áframhaldandi setu, verður aldrei sameiningartáknið eða sáttasemjarinn sem við þurfum nú á að halda. Þessu hlýtur hann að gera sér grein fyrir. Ólafur Ragnar Grímsson er maður stáls í stál, sá sem lætur hart mæta hörðu. Hann er ekki maður sáttar og samræðu. Atkvæði greitt Ólafi Ragnari Grímssyni er atkvæði greitt sundrungu og átökum, ekki samlyndi og sáttfýsi.

Ég veit að þetta er ekki til neins. Þeir sem ekki geta hugsað sér að kjósa Ólaf munu kinka kolli. Þeir sem ákveðið hafa að kjósa hann munu líta á þetta sem hatursáróður úr herbúðum Þóru Arnórsdóttur og ekki taka mark á neinu. Þeir munu líta á hann sem „sterkan leiðtoga“ sem svífst einskis fyrir málstað okkar og telja okkur einmitt þurfa á þannig manni að halda. Hugsanlega er ég jafnvel að gera Þóru Arnórsdóttur óleik með því að senda þetta frá mér.

Hvað mig varðar var ég heitur stuðningsmaður Ólafs í tólf ár og hálfvolgur í fjögur til viðbótar. Mér fannst hann gera margt gott í embætti. Mér fannst einkennilegt að hann skyldi sjá ástæðu til að vísa fjölmiðlalögunum til þjóðarinnar eftir að hafa ekki séð ástæðu til að gera það í sambandi við hin gríðarlegu og óafturkræfu náttúrspjöll við Kárahnjúkavirkjun, sem að mínu mati voru mun stærra mál. Hann gerði ekkert til að snúa til baka þeirri ófyrirleitnu valdníðslu Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar sem stuðningur Íslands við árás Bandaríkjanna á Írak til varnar olíu- og viðskiptahagsmunum George W. Bush og Dicks  Cheeneys var. En ég sætti mig við að hans mat á mikilvægi mála væri annað en mitt og hann væri forsetinn en ekki ég.

Það sem af er þessu ári hefur mér aftur á móti þótt átakanlegt að fylgjast með þeim lævísa og háttvísa pólitíska ref, sem Íslendingar treystu fyrir æðsta embætti þjóðarinnar, umturnast í hreinræktaðan skunk. Enn átakanlegra hefur mér þó þótt að sjá hve lyga- og rógsherferð hans fyrir endurkjöri virðist eiga greiða leið að atkvæðum Íslendinga. Mig langar því að biðja þá, sem hafa hugsað sér að kjósa Ólaf Ragnar Grímsson og hafa enst til að lesa hingað og eru enn móttækilegir fyrir rökum og staðreyndum, að líta fram hjá stóryrðunum, sem ég gat ekki stillt mig um að nota hér, og hugsa sinn gang.

Það er alveg ljóst að nái Ólafur Ragnar Grímsson endurkjöri mun helmingur þjóðarinnar líta svo á að forseti Íslands sé ómerkilegur lýðskrumari. Óvíst er að virðing embættisins jafni sig nokkurn tímann á því.

Lygahöfðingi verður aldrei friðarhöfðingi.

Read Full Post »

Lexía: „Hver er slíkur Guð sem þú, sem fyrirgefur misgjörðir og sýknar af syndum þá sem eftir eru af arfleifð þinni? Reiði Guðs varir ekki að eilífu því að hann hefur unun af að sýna mildi. Og enn sýnir hann oss miskunnsemi, hann fótumtreður sök vora. Já, þú varpar öllum syndum vorum í djúp hafsins.“ (Míka 7.18-19)

Pistill: „Beygið ykkur því undir Guðs voldugu hönd til þess að hann upphefji ykkur á sínum tíma. Varpið allri áhyggju ykkar á ann því að hann ber umhyggju fyrir ykkur. Verið algáð, vakið. Óvinur ykkar, djöfullinn, gengur um sem öskrandi ljón, leitandi að þeim sem hann getur tortímt. Standið gegn honum stöðug í trúnni og vitið að bræður ykkar og systurum allan heim verða fyrir sömu þjáningum. En er þið hafið þjáðst um lítinn tíma mun Guð, sem veitir alla náð og hefur í Kristi kallað ykkur til sinnar eilífu dýrðar, sjálfur fullkomna ykkur, styrkja og gera ykkur öflug. Hans er mátturinn um aldir alda. Amen.“ (1Pét 5.6-11)

Guðspjall: „Allir tollheimtumenn og bersyndugir komu til Jesú að hlýða á hann en farísear og fræðimenn ömuðust við því og sögðu: „Þessi maður tekur að sér syndara og samneytir þeim.“ En Jesús sagði þeim þessa dæmisögu: „Nú á einhver yðar hundrað sauði og týnir einum þeirra. Skilur hann ekki þá níutíu og níu eftir í óbyggðinni og fer eftir þeim sem týndur er þar til hann finnur hann? Og glaður leggur hann sauðinn á herðar sér er hann finnur hann. Þegar hann kemur heim kallar hann saman vini sína og nágranna og segir við þá: Samgleðjist mér því að ég hef fundið sauðinn minn sem týndur var. Ég segi yður, þannig verður meiri fögnuður á himni yfir einum syndara, sem tekur sinnaskiptum, en yfir níutíu og níu réttlátum sem þurfa þess ekki við. Eða kona sem á tíu drökmur og týnir einni drökmu, kveikir hún þá ekki á lampa, sópar húsið og leitar vandlega uns hún finnur hana? Og er hún hefur fundið hana kallar hún saman vinkonur sínar og grannkonur og segir: Samgleðjist mér því að ég hef fundið drökmuna sem ég týndi. Þannig segi ég yður að englar Guðs munu gleðjast yfir einum syndara sem bætir ráð sitt.“ (Lúk 15.1-10)

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni, Jesú Kristi. Amen.

Það er við hæfi að þegar dagurinn er hvað lengstur og sólin hæst á lofti lesum við „fagnaðarerndi utangarðsmannsins“ í kirkjunni. Þegar birtan er mest minnum við okkur á að ljós kærleikans skín líka inn í myrkustu skúmaskot tilverunnar.

Fimmtándi kafli Lúkasarguðspjalls hefst á sögunni um týnda sauðinn. Jesús fylgir henni eftir með sögunni um týndu drökmuna. Í kjölfarið kemur sagan af glataða syninum. Þrjár sögur, sóttar í reynsluheim þeirra sem hlustuðu, með sama boðskapnum: „Þótt þú gleymir Guði, þá gleymir Guð ekki þér.“ Náðarfaðmur Guðs er þér ævinlega opinn, hvað sem á daga þína hefur drifið, hvað sem þú kannt að hafa á samviskunni.

Jesús talaði ekki eins og þeir sem valdið hafa heldur talaði hann í dæmisögum þar sem líkingamálið var sótt í daglegt líft alþýðunnar. Dæmisögurnar tvær sem við heyrum í dag eru sóttar í daglegt líf þeirra allra lægst settu í samfélaginu. Þessir tveir hópar, fjárhirðar og konur, áttu það sameiginlegt að vera svo lágt skrifaðir að vitnisburður þeirra var ekki einu sinni tekinn gildur fyrir dómstólum. Þessir tveir hópar áttu það líka sameiginlegt að það voru þeir sem Guð treysti fyrir fagnaðarerindinu. Það voru fjárhirðar sem fengu skilaboðin: „Verið óhræddir, því, sjá, ég boða yður mikinn fögnuð sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur …“ (Lúk 2.10-11). Það voru konur sem fengu skilaboðin: „Hann er ekki hér, hann er upp risinn“ (Lúk 24.6). Ytri umgjörð frásagna dagsins ein og sér staðsetur Jesú mitt á meðal þeirra sem minnstra réttinda nutu, voru fótum troðnir og samfélagsskipanin neitaði um mannlega reisn.

Jesús sagði fleiri dæmisögur. Ein þeirra er sagan af faríesanum og tollheimtumanninum í musterinu. Faríseinn sté fram og baðst þannig fyrir: „Guð, ég þakka þér að ég er ekki eins og aðrir menn, ræningjar, ranglátir, hórkarlar eða þá eins og þessi tollheimtumaður.“ … En tollheimtumaðurinn stóð langt frá og vildi ekki einu sinni hefja augu sín til himins heldur barði sér á brjóst og sagði: „Guð, vertu mér syndugum líknsamur!“ (Lúk 18.11-13)

Ástæða þess að ég rifja þessa sögu upp núna er sú að ég tel hollt að hafa hana til hliðsjónar þegar við hneykslumst á óréttlæti Guðs í guðspjalli dagsins. Það er freistandi að hugsa sem svo: „Hvers eiga sauðirnir níutíuogníu að gjalda? Eru það vandræðagemlingarnir – í þessu tilfelli í bókstaflegri merkingu orðsins – sem eiga alla athygli Guðs? Er einn drullusokkur, sem snýr við blaðinu, virkilega meira virði í augum Guðs en níutíuogníu heiðarlegar og grandvarar sálir, sem ekki hafa þörf fyrir að snúa neinu blaði við? Þarf ég að villast af leið til að verðskulda kærleika Guðs?“

Það er von að spurt sé.

En höfum í huga að sauðirnir níutíuogníu eru ekki til. Þeir eru hvergi til nema í þessari sögu og kannski í hugarheimi okkar. Við erum öll, hvert og eitt okkar, þessi eini sem týndist. Eða ætlum við kannski að koma hingað í kirkuna og biðja: „Guð, ég þakka þér að ég er einn af hinum níutíuogníu en ekki þessi eini, einn hinna réttlátu og óaðfinnanlegu sem aldrei reika á rangri leið eða villast af réttri braut en ekki þessi eini sem syndgar gegn þér.“ Er þá ekki stutt í að við bætum við: „Ég þakka þér að ég er ekki eins og aðrir menn, ræningjar, ranglátir, hórkarlar eða þá eins og þessi tollheimtumaður.“

Við villumst öll af leið, mislangt og mislengi, en ekkert okkar er undanskilið syndinni.

Þetta er vandræðaorð. „Synd“. Ekki er vitað með vissu af hverju það er skrifað með ufsiloni. Ásgeir Blöndal Magnússon segir í Íslenkri orðsifjabók að ólíklegt sé að þar á bak við sé orðið „sundur“. En mér finnst samt hjálplegt að skilja hugtakið þannig. Synd er þá hvað það sem greinir okkur í sundur frá Guði, hvað það sem sundrar okkur frá ljósi kærleika hans.

Þegar dagurinn er hvað lengstur og sólin hæst á lofti minnum við okkur ekki bara á að ljós kærleikans skín til okkar allra jafnt, hvar sem við erum og hvað sem við kunnum að hafa á samviskunni. Við minnum okkur líka á að við höfum öll villst af leið, að okkar hefur verið freistað og að við höfum fallið fyrir freistingunum. Og þær eru persónugerðar í það sem sennilega er óvinsælasti og hataðasti karakterinn allri í hinni helgu bók samanlagðri, ef ekki gjörvallri mannkynssögunni. Óvinur okkar, djöfullinn, „gengur um sem öskrandi ljón, leitandi að þeim sem hann getur tortímt“.

Nú á vorum upplýstu tímum veigra margir kirkjunnar menn sér við því að nefna djöfulinn. Það þykir einhver miðaldafnykur af slíku tali. Enda var þessi persóna um aldir notuð til að kúga og hræða fólk til réttrar breytni, svo ekki sé minnst á þann smánarblett á sögu kirkjunnar og kristindómsins sem galdraofsóknir fyrri alda voru, þegar saklausu fólki, sem í versta falli hafði orðið uppvíst að meinlítilli hjátrú og kannski tilraunum til kukls en hugsanlega aðeins þekkingu á lækningarmætti hinna ýmsu jurta og grasa, var misþyrmt á hræðilegan hátt og loks brennt á báli fyrir að hafa gengist þessum meinta djöfli á vald.

En djöfullinn er raunverulegur og hann gengur um mitt á meðal okkar eins og öskrandi ljón leitandi að þeim sem hann getur tortímt. Hann birtist okkur ekki sem einhver skrattakollur með horn og hala og klaufir stórar. Hann dúkkar ekki upp á förnum vegi útlits eins og Arnar Jónsson í hlutverki sínu í Gullna hliðinu. Og … hann er ekki persóna. Hann er afl. Hann er hugmynd. Eða öllu heldur … hann er hvert það afl sem deyfir ljós kærleikans í hjörtum okkar, hann er hver sú hugmynd sem sundrar okkur frá Guði.

Okkar er freistað. Við týnumst öll. Og þar er djöfullinn að verki samkvæmt kristinni frásagnararfleifð. Hugmyndir og gildi vinna gegn því sem gott er og rétt. Við stöndum frammi fyrir ákvörðunum um það hverju við viljum trúa, á hvað við viljum leggja trúnað, hvaða gildismati við viljum fylgja og hvaða gildismati við öflum fylgis með orðum okkar og gjörðum. Við erum prófuð. Gríska sögnin „peirazo“, sem jafnan er þýdd „freista“ á íslensku, þýðir nefnilega í raun „að reyna“ – í merkingunni „að prófa“, „að láta reyna á“. Við köllum það „freistingu“ þegar reynir á það hvernig manneskjur við erum í raun og sann.

Samstofnaguðspjöllin þrjú, Matteusar-, Markúsar- og Lúkasarguðspjöll, greina öll frá því þegar Jesú var freistað í eyðimörkinni. Reynt hefur verið að „rationalísera“ þá frásögn, þ.e. útskýra hana með rökum efnisheimsins, þannig að um ofskynjanir vegna hungurs eða jafnvel sveppaáts hafi verið að ræða, en það er út í hött. Frásögnin er helgisaga, sannleikur hennar er táknrænn, ekki sagnfræðilegur. Hún er um það hvernig sálin í okkur virkar, ekki líkaminn – en heilinn í okkur er jú hluti líkamans og efnabúskapur hans hluti líkamsstarfsseminnar. Þessar þrjár frásagnir eru eins að flestu leyti þótt misítarlegar séu. Eitt af því sem þær eiga allar sameiginlegt, er að freistaranum er hvergi lýst að ytra útliti, aðeins hlutverki hans. Annað er að freistingarnar, þar sem þær eru tilgreindar sérstaklega, eru þær sömu: Auður, völd og virðing.

Freistarinn býður Jesú að breyta steinum í brauð. Skilaboðin eru: „Þú þarft ekki að svelta. Þú getur tryggt þér efnalegt öryggi með því að falla fram og tilbiðja mig, með því að nota hæfileika þína í eigingjörnum tilgangi í stað þess að gera heiminn að betri stað með þeim.“ Freistarinn sýnir Jesú öll ríki veraldar og segir: „Allt þetta mun ég gefa þér ef þú fellur fram og tilbiður mig.“ Freistarinn fer með Jesú upp á musterið og býður honum að kasta sér fram af, því englar muni grípa hann að fólki ásjáandi.

Að sjálfsögðu stenst Jesús freistingarnar, enda væri Nýja testamentið annars óneitanlega hálfsnubbót og lítið fagnaðarerindi.

Það er upplýsandi að lesa Jóhannesarguðspjall með freistingarfrássagnir hinna guðspjallanna til hliðsjónar, því þótt hina eiginlegu freistingarfrásögn sé ekki þar að finna þá stendur Jesús þar frammi fyrir öllum sömu freistingunum. Í Jóhannesarguðspjalli er það aftur á móti fólkið en ekki djöfullinn sem manar Jesú til að gera eigingjörn kraftaverk. Hjá Lúkasi og Matteusi svarar Jesús með þekktum ummælum um andlega næringu: „Eigi lifir maðurinn á einu saman brauði.“ (Lúk 4.4). Matteus lætur hann bæta við: „…heldur á hverju því orði sem fram gengur af Guðs munni.“ (Matt 4.4) Í Jóhannesarguðspjalli svarar Jesús með ummælum um „hið sanna brauð“ sem „niður stígur af himni og gefur heiminum líf.“ (Jóh 6.32-33) Hjá Jóhannesi eru það menn en ekki djöfulinn sem ætla að gera Jesú að konungi, en hann vék „aftur upp til fjallsins einn síns liðs.“ (Jóh 6.15) Í Jóhannesarguðspjalli eru það bræður Jesú, sem bregða sér í hlutverk freistarans, þegar þeir segja: „Flyt þig héðan og farðu til Júdeu til þess að lærisveinar þínir sjái líka þau verk sem þú gerir. Sá sem vill verða alkunnur starfar ekki í leynum. Fyrst þú vinnur slík verk þá opinbera sjálfan þig heiminum.“ (Jóh 7.3-4)

Djöfullinn gengur vissulega um eins og öskrandi ljón í Jóhannesarguðspjalli, en hann tekur ekki á sig einhverja mynd áþekka þeim Kölska sem við þekkjum úr þjóðsögunum um Sæmund fróða. Þar birtist freistarinn í sömu mynd og við sjáum hann í í samfélaginu í dag, í líki félaga okkar, jafnvel bræðra og ekki síst jábræðra. Matteus og Markús ganga báðir svo langt að láta Jesú kalla Pétur postula, nánasta samverkamann sinn, Satan. „Vík frá mér, Satan,“ (Matt 16.23/Mark 8.33) segir Jesús við hann, örfáum setningum eftir að hann segir að Pétur sé kletturinn sem hann vilji byggja kirkju sína á (Matt 16.18). Og Jesús útskýrir til fullnustu hvað hann á við með nafngiftinni strax í næstu setningu á eftir: „Ekki hugsar þú um það sem Guðs er heldur það sem manna er.“

Í Jóhannesarguðspjalli er djöfullinn kallaður „höfðingi þessa heims“ og „lygari og lyginnar faðir“. Og það kemur heim og saman við mynd freistingarfrásagna hinna guðspjallanna þar sem öll ríki veraldar og efnisleg gæði eru það sem djöfullinn getur boðið í skiptum fyrir skilyrðislausa tilbeiðslu á sér.

Hvar erum við þá stödd?

Eru auður, völd og virðing þá frá andskotanum komin?

Er það það sem ég er að segja? Ekki aldeilis.

Það er ekkert að því að vilja búa sér og sínum nánustu efnalegt öryggi. Það er ekkert rangt við að vera treyst fyrir trúnaðarstörfum í þágu lands og þjóðar eða jafnvel heimsbyggðarinnar. Það er engin synd að njóta vinsælda og virðingar fyrir það sem maður hefur til brunns að bera, hugsanlega umfram flesta aðra. Þvert á móti. Guð væntir þess beinlínis af okkur að við ávöxtum það pund sem hann gaf okkur en gröfum ekki fjársjóð okkar í jörð, að við setjum ljós okkar á ljósastiku, en ekki undir mæliker.

En spyrjum okkur sjálf: Hverju erum við reiðubúin til að fórna fyrir það sem er höfðingja þessa heims að gefa? Hverju er verið að fórna í kring um okkur fyrir auð, völd og virðingu? Er verið að traðka á ekkjunni og rífa matinn úr munni munaðarleysingjans til að þeir, sem ekki þurfa að örvænta um afkomu sína, geti makað krókinn enn frekar?

Er fólkið, sem við dáum, að nota náðargáfur sínar, orðkynngi og mælskulist, tónlistar- og skáldskapargáfu eða jafnvel viðskiptavit, til að gera heiminn að betri stað og okkur að ríkara fólki eða aðeins til að skara eld að sinni eigin köku, jafnvel á kostnað annarra?

Eru þeir, sem sækjast eftir völdum, að tala máli sanngirni og kærleika, sáttfýsi, réttlætis og réttvísi eða ala þeir á ótta og tortryggni? Halla þeir réttu máli, upphefja sjálfa sig og rægja keppinauta sína og jafnvel maka þeirra eða ganga þeir fram í auðmýkt og bjóða fram krafta sína af hógværð? Hvora framgönguna verðlaunum við með atkvæði okkar, hrokann og yfirlætið eða látleysið og lítillætið?

Við erum samfélagið. Samfélagið er ekki eitthvað sem við búum við, samfélagið er eitthvað sem við búum til.

Hvenær erum við farin að falla fram og tilbiðja andskotann? Hvenær erum við farin að safna okkur fjársjóðum á jörðu sem mölur og ryð fá grandað og þjófar brjótast inn og stela, en ekki á himnum þar sem hvorki eyðir mölur né ryð og þjófar brjótast ekki inn og stela? „Hvar sem fjársjóður þinn er þar mun og hjarta þitt vera“ (Matt 6.21), segir Jesús. Og líka: „Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn en glata sálu sinni?“ (Mark 8.36)

Efnisleg gæði, auður, völd og virðing. Þetta er eftirsóknarvert. En hvenær höfum við fórnað sál okkar fyrir auð, völd og virðingu?

Guð gerði okkur að ráðsmönnum yfir reikistjörnu sem býður öllum mönnum alls staðar upp á líf í gnægð. Enginn á að þurfa að búa við örbirgð, hvorki efnislega né andlega. En holdið er veikt. Menn eru breyskir og mannanna verk ófullkomin. Misskipting efnislegra gæða, óskammfeilin metorðagirnd og blygðunarlaus græðgi þrúga mannleg samfélög.

Í dag fjöllum við um andlega örbirgð og andlega næringu. Og okkur er boðið að líta í eigin barm. Við minnum okkur á að við erum öll sem eitt týndi sauðurinn.

Það er erfitt að líta í eigin barm. Það er auðveldara að sjá sök hjá öðrum þegar í óefni er komið og við getum ekki lengur litið fram hjá því að við höfum ekki stjórn á lífi okkar, þegar við stöndum frammi fyrir aðstæðum sem við kusum okkur aldrei en komum okkur þó í sjálf og okkur finnst Guð vera órafjarri.

Þegar ástin hefur slökknað í hjónabandinu er auðveldara að benda á makann heldur en að gangast við því að sjálfur ber maður ákveðna sök á því hvernig komið er. Það er tveggja manna verk að viðhalda ást í hjónabandi.

Þegar við sjálf eða einhver okkur nákominn hefur endanlega misst stjórn á áfengis- eða eiturlyfjaneyslu sinni er auðveldara að benda á slæman félagsskap heldur en að horfast í augu við að þeim, sem á annað borð hefur áhuga á slæmum félagsskap, virðist einstaklega vel í lófa lagið að þefa hann uppi hvar og hvenær sem er og að viðkomandi hafði alltaf frjálst val um það í hvaða félagsskap hann kaus að vera.

Undir þessum kringumstæðum er eins og okkur sé eðlislægt að hagræða sannleikanum til að fegra okkar hlut eða okkar nánustu og skella skuldinni á aðra.

Hvernig fellur maður fram og tilbiður lygina og lyginnar föður?

Það er auðvelt að vera huglaus. Ótti, ragmennska og grægði gera ekki miklar kröfur til okkar. Það er erfiðara að sýna kjark.

Það er auðvelt að sitja aðgerðarlaus álengdar með hendur í skauti og vera þolandi lífs síns frekar en aðnjótandi þess. Það er auðvelt að kenna öðrum, jafnvel samfélaginu í heild sinni, um allt sem er að. Það er aftur á móti erfitt að gangast við því að við erum sjálf gerendur í lífi okkar og mótendur samfélagsins sem við búum í og axla ábyrgðina sem því fylgir. Það er auðvelt að óttast og örvænta, óttast um sinn hag og örvænta um framtíðina. Það er auðvelt að stjórnast af hræðsluáróðri sem kyndir undir eðlislægan ótta okkar og tortryggni. Það er erfitt að trúa og treysta, trúa á framtíðina og treysta Guði. Til þess þarf kjark.

Í dag segir kirkjan þín við þig: Varpaðu allri áhyggju þinni á hann því hann ber umhyggju fyrir þér. Guð mun styrkja þig og gera þig öflugan, hvað sem á daga þína hefur drifið, hversu týndur sem þú varst, hversu lengi sem þú varst á flótta, hversu óttasleginn og örvæntingarfullur sem þú varst. Hann hefur unun af að sýna mildi. Hann fótumtreður sök þína. Hann varpar öllum syndum þínum, öllu sem sundrar þig frá honum, í djúp hafsins.

Verum óhrædd.

Örvæntum ekki.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Read Full Post »