Feeds:
Færslur
Athugasemdir

Archive for ágúst, 2012

Prédikun flutt í Egilsstaðakirkju 26. 8. 2012

 Guðspjall:  Síðan hélt Jesús úr Týrusarbyggðum, um Sídon og yfir Dekapólisbyggðir miðjar til Galíleuvatns. Þá færa menn til hans daufan og málhaltan mann og biðja hann að leggja hönd sína yfir hann. Jesús leiddi hann afsíðis frá fólkinu, stakk fingrum sínum í eyru honum og vætti tungu hans með munnvatni sínu. Þá leit hann upp til himins, andvarpaði og sagði við hann: „Effaþa,“ það er: Opnist þú. Og eyru hans opnuðust og haft tungu hans losnaði og hann talaði skýrt. Jesús bannaði þeim að segja þetta neinum en svo mjög sem hann bannaði þeim því frekar sögðu þeir frá því. Menn undruðust mjög og sögðu: „Allt gerir hann vel, daufa lætur hann heyra og mállausa mæla.“ (Mark 7.31-37)

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Guð er kærleikur.

Það er grundvallaratriði trúarinnar sem við játum.

En kærleikur getur, eðli sínu samkvæmt, ekki hverfst um sjálfan sig. Kærleikurinn verður að hafa eitthvað til að beinast að. Kærleikurinn krefst andlags. Kærleikurinn þarf viðfang. Það er ekki hægt að elska nema elska … eitthvað.

Í upphafi skapaði Guð himinn og jörð.

Af hverju?

Af því að hann varð.

Guð er kærleikur og kærleikur verður að hafa eitthvað til að beinast að.

Þannig er sköpunarverkið kærleiksverk. Og við erum hluti þess. Við erum ekki bara furðuverk, eins og Ruth Reginalds söng hérna um árið, heldur erum við kærleiksverk. Við erum, eins og sköpunarverið allt, sköpuð að vera viðfang kærleika Guðs. Og rétt eins og enginn listamaður kemst hjá því að afhjúpa sjálfan sig að einhverju leyti í sköpunarverkum sínum opinberar Guð sig á ýmsan hátt í sköpun sinni. „Himnarnir segja frá Guðs dýrð, festingin kunngjörir verkin hans handa,“ segir í nítjánda Davíðssálmi. Og Guð afhjúpar sig að vissu leyti í okkur líka.

Eða eins og Steingrímur Thorsteinsson orðaði það:

„Trúðu á tvennt í heimi,

tign sem æðsta ber:

Guð í alheims geimi.

Guð í sjálfum þér.“

Biblían orðar þetta öðruvísi. Hún segir að við séum sköpuð í mynd Guðs.

Það er áhugavert að skoða þetta orð, sem hefð hefur skapast fyrir að þýða sem „mynd“. Á hebreskunni er það „tselem“. Það getur haft ýmsar merkingar, til dæmis „skurðgoð“. Það hlýtur að hafa valdið frumviðtakendum þessa texta heilabrotum að vera tilkynnt að þeir séu „tselem“ þess sama Guðs og strax í öðru boðorðinu bannar að gerð séu „tselem“ af sér.

En þar liggur einmitt hundurinn grafinn. Guðir hinna þjóðanna tóku sér bólfestu í dauðum hlutum, útskornum trjádrumbum og styttum úr gulli og silfri. Lifandi Guð tekur sér ekki bólfestu í dauðum hlut. Dauður hlutur getur aldrei verið fulltrúi lifandi Guðs. Við erum fulltrúar hins lifandi Guðs í sköpun hans. Við höfum fengið hana að láni hjá honum. Hún og opinberun Guðs í henni hafa verið afhentar okkur til varðveislu. Líf okkar hefur svo sannarlega tilgang, göfugan og heilagan.

Guð opinberar sig að ýmsu leyti í okkur. Við höfum þörf fyrir að elska og vera elskuð. Við höfum þörf fyrir að skapa. Við höfum þörf fyrir að tjá okkur eins og Guð tjáir sig við okkur og eiga samfélag við annað fólk eins og Guð leitast eftir að eiga samfélag við okkur. „Hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika“ (Jóh 1.14).

Þannig var Jesús Kristur. Sannur Guð og sannur maður.

Mennska hans og guðdómur birtust á sama hátt, í samfélagi hans við aðra menn. Hann dró sig ekki í hlé og afneitaði heiminum og samfélaginu, eins og þá var í tísku meðal ýmissa andlega þenkjandi hópa og er enn. Hann lokaði sig ekki af í helli og leitaði Guðs í naflanum á sjálfum sér. Nei, hann stakk sér til sunds í hið mannlega hlutskipti. Hann sá Guðs ríki í mönnunum og samfélagi þeirra. Hann tjáði sig, hann talaði Guðs orð og var farvegur fyrir kærleika Guðs til allra manna. Öll hans verk voru kærleiksverk. Og sum voru meira en það, þau voru kraftaverk. En öll kraftaverk hans, eins og önnur verk, voru kærleiksverk. Þau þjónuðu aldrei eigingjörnum tilgangi.

Hann kastaði sér ekki fram af musterinu til að allir sæju englana grípa hann og hann yrði ógeðslega frægur. Hann breytti ekki steinum í brauð bara af því að hann var svangur. Hann læknaði sjúka, mettaði hungraða, huggaði sorgmædda, gaf blindum sýn og heyrnar- og mállausum gaf hann heyrn og mál.

Í dag heyrum við sögu af kraftaverki. Menn færa til Jesú „daufan og málhaltan mann“. Þetta er skrýtið orð, „daufur“. Hvað þýðir það umfram það að vera heyrnarlaus? Þetta kallar fram í hugann ein ummæli Jesú:

„Þér eruð salt jarðar. Ef saltið dofnar, með hverju á að selta það? Það er þá til einskis nýtt, menn fleygja því og troða undir fótum“ (Matt 5.13).

Gríska sögnin „moraino“, sem þar er notuð, hafði í daglegri grísku þess tíma aðra merkingu: „að forheimskast“. Hún er af sama stofni og orðið „moron“ – „hálfviti“. Jesús eggjar okkur til að forheimskast ekki. Hér einu sinni var orðið „daufdumbur“ notað um heyrnar- og mállausa. Og orðið „dumbur“ er auðvitað sama orð og enska orðið „dumb“, „heimskur“. Jesús opnar eyru hins dumba.

Við erum sem betur fer hætt að nota orð af þessu tagi um fólk sem glímir við fötlun.

Þessi saga er augljóslega hlaðin táknrænni merkingu. Hún segir ekki bara frá því að hér einu sinni í fyrndinni hafi í fjarlægum heimshluta verið uppi maður sem kunni einhver trix til að ráða bót á fötlunum sem nútíma læknavísindi standa enn ráðþrota gagnvart. Eða jú, hún segir þá sögu, en sagan er ekki um það. Ekki frekar en að Sjálfstætt fólk sé saga um sauðfjárbúskap eða Hringadróttins saga sé ævintýri um skartgrip.

Þetta er helgisaga. Merkingu hennar á ekki að sleikja af ysta yfirborði textans þannig að hún láti mann með öllu ósnortinn. Þannig getum við afgreitt þessa frásögn sem tröllasögu sem kemur okkur ekki við. Við vitum ósköp vel að svona virka skynfærin í okkur einfaldlega ekki. Heyrnar- og mállausir menn verða ekki skyndilega altalandi og heyrandi við það eitt að hrært sé í eyrunum á þeim, tunga þeirra sé vætt með munnvatni og sagt sé við þá: „Opnist þú!“ Jafnvel ekki þótt það sé sagt á arameísku.

Þetta er helgisaga og sem slík á hún erindi við alla menn á öllum tímum. Hún á erindi við þig hér og nú. Táknmál hennar miðlar helgum sannleika um gott og illt, Guð og menn, sáluhjálp og kærleika, ekki um háls-, nef- og eyrnalækningar – með fullri virðingu fyrir þeirri merku grein læknavísindanna.

Davíð Stefánsson orti:

„Ég fell að fótum þínum

og faðma lífsins tré.

Með innri augum mínum

ég undur mikil sé.“

Þessi saga er um innri eyru okkar. Við þjáumst öll af valkvæðu heyrnarleysi.

Foreldrar þekkja þetta vel hjá börnunum sínum. Setningin „Taktu nú til í herberginu þínu“ virðist til að mynda geta farið ótrúlega oft og margvíslega fyrir ofan garð og neðan hjá þeim á meðan orðið „Ís!“ virðist eiga beina og greiða leið að skynjuninni. Hið fyrra kallar á „humm“ og „ha?“ og „hvað sagðirðu?“ eða í besta falli „Já, ég geri það á eftir“ á meðan hið síðara kallar á fýsíska nærveru barnanna á augabragði.

Valkvætt heyrnarleysi. Það lýsir sér í því að okkur reynist miklu auðveldara að heyra það sem okkur finnst gott að heyra heldur en það sem við höfum gott af því að heyra. Okkur finnst gott að heyra að við séum æðisleg, að landið sé fagurt og frítt, að afrek forfeðranna séu einsdæmi í veraldarsögunni og að við höfum á einhvern hátt erft mikilfengleika þeirra án þess að hafa sjálf lagt nokkurn skapaðan hlut af mörkum umfram það að hafa fæðst hér á þessari eyju.

Okkur finnst ekki eins gott að heyra að við séum feit og löt, að umgengni okkar við sköpunarverkið sé hreinræktuð rányrkja og að hinir göfugu forfeður okkar hafi verið ótýndir þjófar og morðingjar, að flestar þjóðir veraldar hafi staðið þeim framar á flestum sviðum menningar og lista, að írsku þrælarnir þeirra hafi verið lesandi, skrifandi og yrkjandi dróttkvæðan hátt öldum saman á meðan þeir voru að krafla einfaldar setningar í grjót með frumstæðu rúnaletri, að löngu eftir að aðrar þjóðir höfðu reist gotneskar kirkjur, pýramída og Kínamúra hafi bygginarlist forfeðra okkar verið á því stigi að útlendingum, sem sjá híbýlin í dag, dettur helst í hug að líkja þeim við hobbitaholur. – Á!

Jesús opnar eyru okkar. Ef saltið dofnar, með hverju á að selta það? Það er þá til einskis nýtt, menn fleygja því og troða undir fótum. Ef við látum leiðtoga okkar deyfa okkur og forheimska með skjalli og skrumi, þjóðrembu og lýðskrumi, erum við bara að gera þeim auðveldara um vik að traðka á okkur.

Jesús opnar eyru okkar.

Við heyrum: „Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera“ þótt okkur finnist það ekki eins þægilegt og að heyra: „Þetta er hans vandamál, þetta kemur þér ekki við.“

Við heyrum: „Hungraður var ég og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég og þér gáfuð mér að drekka“ þótt okkur finnist það ekki eins þægilegt og að heyra býsnast yfir pakkinu sem lifir á bótum.

Við heyrum: „Gestur var ég og þér hýstuð mig“ þótt okkur finnist það ekki eins þægilegt og að heyra talað um „flóttafólk“ innan gæsalappa og heyra því líkt við lukkuriddara sem eigi ekkert bágt heldur hafi yfirgefið ágætisástand heima fyrir til að freista gæfunnar í útlöndum og níðast á góðvild okkar, góðvild sem þá væntanlega birtist í því að við lokum þau af mánuðum ef ekki árum saman og meinum þeim þátttöku í samfélaginu, meinum þeim að eiga samfélag við okkur.

Við heyrum: „Í fangelsi var ég og þér heimsóttuð mig“ þótt okkur finnist það ekki eins þægilegt og að heyra: „Það þarf að þyngja dómana yfir þessum andskotum sem eru í fangelsi og eiga það allir skilið.“

Jesús opnar eyru okkar. Við heyrum kærleiksboðorð hans. Við heyrum hann eggja okkur til að sýna samúð og láta ekki deyfa okkur og forheimska með því sem okkur finnst þægilegt að heyra.

En við þjáumst ekki bara af valkvæðu heyrnarleysi. Við erum líka með tunguhaft hugleysisins.

Það þarf hugrekki til að leggja orð í belg. Ekki síst nú á tímum hömlulauss málfrelsis sem illu heilli virðist helst brjótast út því að stórir hópar fólks hika ekki við að brigsla öðrum opinberlega um annarlegar hvatir, sóðalegt innræti, geðrænar veilur, mannhatur, hórdóm og gott ef ekki allar hinar dauðasyndirnar sjö á einu bretti fyrir það eitt að láta í ljós óvinsæla skoðun, hve vel sem hún var studd rökum og heimildum, algerlega óháð því hve einlæg og sterk réttlætiskennd er að baki henni.

Jesús losar um tunguhaft okkar.

Trúin gefur okkur hugrekki til að tala máli sannleikans upp í brimgný múgsefjunarinnar og dyninn ofsa skrílsins sem enn í dag hrópar: „Krossfestið hann! Krossfestið hann!“ með sífellt nýjum tilbrigðum. Trúin brýnir okkur til að gæta hins veika og smáa, leita réttarins, hjálpa hinum kúgaða, reka réttar munaðarleysingjans og verja mál ekkjunnar, svo vitnað sé í Jesaja spámann. Trúin gefur okkur kjark til að velta um borðum víxlaranna og kalla ræningjabæli samfélagsins sínum réttu nöfnum. Jesús bannar okkur að sitja aðgerðarlaus álengdar með hendur í skauti og horfa á réttlætið fótum troðið. Jesús bannar okkur að þegja yfir sannleikanum og tala ekki það sem rétt er þegar lygin og hræsnin ganga berserksgang.

Guðspjall dagsins er saga af manni sem öðlast nýtt líf í Jesú Kristi. Hún er um okkur öll og á erindi til okkar allra. Hún er um mann sem var einangraður, mann sem gat ekki tjáð hug sinn, mann sem gat ekki átt eðlileg samskipti, mann sem vegna fötlunar sinnar var útilokaður frá heilbrigðri þátttöku í samfélaginu. Og það er skemmtilega táknrænt að hún er sögð á táknmáli, en með tilkomu táknmáls hefur einangrun heyrnar- og mállausra í samfélagi okkar einmitt minnkað til mikilla muna. Í sögunni stendur ytri fötlun sem tákn um andlega innri fötlun sem hrjáir okkur öll að einhverju leyti, fötlun sem Jesús þráir að lækna okkur af.

Og hver er niðurstaðan?

„Allt gerir hann vel, daufa lætur hann heyra og mállausa mæla.“ Hann opnar eyru hinna forpokuðu og fordómafullu, hinna þröngsýnu og sjálfumglöðu. Hann gefur hinum útskúfuðu og forsmáðu rödd. Hann gefur hinum huglausa kjark.

Allt gerir hann vel.

Þetta er engin smáræðiseinkunn.

Þetta er sama einkunn og sköpunarverkið fær í Fyrstu Mósebók þegar heimurinn var enn án syndar: „Guð leit allt sem hann hafði gert, og sjá, það var harla gott“ (1.31).

Sköpunarverkið, að okkur meðtöldum, er hið stórkostlega kærleiksverk Guðs. En við erum ekki bara kærleiksverk hans, við erum fulltrúar hans. Við erum sköpuð í hans mynd. Við erum farvegur fyrir kærleika hans til allra manna og alls sem hann hefur skapað. Hinn lifandi Guð býr í okkur og opinberar sig þegar við opnum eyrun fyrir sannleika hans og tölum röddu kærleikans. Þá er Guðs ríki hið innra með okkur og mitt á meðal okkar.

Og Jesús Kristur sviptir okkur heyrnarleysinu og málleysinu, heimskunni og hugleysinu, sem kemur í veg fyrir að við þjónum okkar heilaga tilgangi.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er enn og verður um aldir alda. Amen.

Read Full Post »

Prédikun flutt í Þingmúlakirkju við kvöldsguðsþjónustu 12. 8. 2012

Guðspjall: Og er Jesús kom nær og sá borgina grét hann yfir henni og sagði: „Ef þú hefðir aðeins vitað á þessum degi hvað til friðar heyrir! En nú er það hulið sjónum þínum. Því að þeir dagar munu koma yfir þig að óvinir þínir munu gera virki um þig, setjast um þig og þröngva þér á alla vegu. Þeir munu leggja þig að velli og börn þín sem í þér eru og ekki láta standa stein yfir steini í þér vegna þess að þú þekktir ekki þinn vitjunartíma.“ Þá gekk hann inn í helgidóminn og tók að reka út þá er voru að selja og mælti við þá: „Ritað er: Hús mitt á að vera bænahús en þér hafið gert það að ræningjabæli.“ Daglega var hann að kenna í helgidóminum en æðstu prestarnir og fræðimennirnir, svo og fyrirmenn þjóðarinnar, leituðust við að ráða hann af dögum en fundu eigi hvað gera skyldi því að allt fólkið vildi ákaft hlýða á hann. (Lúk 19.41-48)

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Fyrir nokkrum árum var ég staddur í Prag, höfuðborg Tékklands. Prag er falleg og gömul borg með mörgum gömlum byggingum sem haldið hefur verið vel við og Karlsbrúin er ógleymanlegt mannvirki hverjum sem hana skoðar. Hafist var handa við byggingu hennar um miðja fjórtándu öld og var henni lokið snemma á þeirri fimmtándu. Fyrir Íslending er slíkt samgöngumannvirki nánast eins og eitthvað úr ævintýrum.

En ein bygging í Prag er mér þó minnisstæðari en flestar aðrar. Það er kirkja sem ég skoðaði, en get þó engan veginn munað hvað heitir. Kirkja þessi er hið mesta glæsihýsi og skrautbygging. Þar er hátt til lofts og vítt til veggja. Meðfram báðum langveggjunum er fjöldi altara hlið við hlið. Þetta eru gömul einkaaltari helstu aðalsættanna í Prag og þau verða sífellt glæsilegri eftir því sem innar dregur. Hvert hús auðkýfinga og stóreignafólks í hinni gömlu Prag átti sér þarna sitt eigið altari og þegar gengið er meðfram röð þeirra er augljóst að ættirnar hafa verið í ömurlegri keppni sín á milli um það hver þeirra gæti átt íburðarmesta altarið í kirkjunni.

Kirkjan öll var skreytt og gullbrydduð í hólf og gólf. Varla var lófastór blettur á veggjum eða lofti kirkjunnar sem ekki var gulli sleginn eða skreyttur á einhvern hátt. Og svei mér þá ef menn höfðu ekki brugðið á það ráð, þegar ekki var lengur neinn auður blettur til að gylla eða skreyta inni í kirkjunni, að taka til við að gylla og skreyta skrautið.

Eftir því sem innar og nær háaltarinu dró varð óhófið og bruðlið sífellt meira. Mér var orðið nóg um en brá þó fyrst allverulega í brún þegar ég var stöðvaður áður en ég gat farið alla leið innst í kirkjuna og að háaltarinu, því þangað inn þurfti að borga aðgangseyri. Ég segi það satt að aldrei hefur hellst yfir mig eins mikil löngun til að velta um borðum og æpa: „Kirkja á að vera bænahús en þið hafið gert hana að ræningjabæli!“

Ég gerði það þó ekki heldur lét mér nægja að láta í ljós megna óánægju með guðfræði þess að rukka um aðgang að altari Guðs og strunsaði út. Þeim mun ankanalegra fannst mér þetta vegna þess að skömmu eftir að ég kom þarna inn gekk vörður upp að mér og skipaði mér með nokkrum þjósti að taka ofan derhúfuna sem ég var með á hausnum, þetta væri guðshús og þar inni væru menn berhöfðaðir. Ég get tekið undir það og auðvitað hafði mér bara láðst að taka ofan derhúfuna sem mér, næpuhvítum heimskautabúanum, var nauðsynleg í suðurevrópskum sólarhitanum til að brenna ekki á nefinu. En mér fannst gestgjafarnir sýna þeim Guði, sem ég trúi á, ólíkt meiri lítilsvirðingu með fyrirkomulaginu þarna inni, en ég hafði gert með þessari gleymsku minni.

Ég taldi mér trú um að ég hefði ekki velt við borðunum af einhvers konar hógværð, að með því hefði ég verið að stilla mér upp sem einhverri nútíma hliðstæðu manns, hvers skóþveng ég er ekki þess verður að krjúpa og leysa. En auðvitað var aðalástæðan hugleysi. Ég treysti mér ekki til að taka afleiðingum gjörða minna, afleiðingum þess að valda þarna uppnámi og þessari túristagildru hugsanlegum tekjumissi. Og hverju hefði ég svosem fengið áorkað með því að taka eitthvað brjálæðiskast þarna inni?

Seinna hvarflaði að mér að kannski hefði ég verið ég einn um þá upplifun að finna ekki fyrir nærveru annars Guðs en Mammóns inni í þessari byggingu. Trú hvers og eins er hans persónulega upplifun og hugsanlega hefði ég aðeins verið að traka á þeirri helgi, sem staðurinn var hjúpaður í huga allra annarra, með því að vera með uppsteyt.

Í dag talar Jesús um bænahús og ræningjabæli. Gagnrýni Jesú er hvöss og tæpitungulaus og í raun hvassari en orðanna hljóðan ein og sér nú í dag bendir til. Í þessari stuttu setningu: „Hús mitt á að vera bænahús en þér hafið gert það að ræningjabæli,“ nær hann nefnilega að vitna í tvo gerólíka spámannstexta. Óþarfi er að gera sér í hugarlund að sú vísun hafi farið fyrir ofan garð og neðan hjá samtímamönnum hans og áheyrendum á sama hátt og hún gerir hjá mis-biblíufróðum Íslendingum nú í upphafi 21. aldarinnar.

Í 56. kafla Spádómsbókar Jesaja segir:

 „Útlendinga, sem gengnir eru Drottni á hönd til að þjóna honum og elska nafn hans, til að verða þjónar hans, alla þá sem halda hvíldardaginn og vanhelga hann ekki og halda sér fast við sáttmála minn, mun ég leiða til míns heilaga fjalls og gleðja þá í bænahúsi mínu. Brennifórnir þeirra og sláturfórnir munu þóknast mér á altari mínu því að hús mitt skal nefnast bænahús fyrir allar þjóðir.“

Þetta er eini staðurinn í ritningunni þar sem orðið „bænahús“ kemur fyrir utan þessarar frásagnar Lúkasar af Jesú, sem reyndar á sér hliðstæðu bæði í Matteusarguðspjalli og Markúsarguðspjalli.

Í þessum texta Jesaja er dregin upp dýrðleg framtíðarmynd. Guð gleður þá sem á hann trúa í bænahúsi sínu og brennifórnirnar gleðja Guð. Hús hans er bænahús fyrir allar þjóðir. Þetta er ávísun á friðsæla og blessunarríka tíma. Heimsmynd fornaldar gerði ráð fyrir því að atburðir sögunnar ættu sér stað af völdum Guðs. Þegar eitthvað illt henti var Guð að refsa þjóðinni fyrir óhlýðni sína. Þegar velsæld og velmegun ríkti var Guð að umbuna þjóðinni fyrir góða frammistöðu. Glaður Guð jafngilti því áhyggjuleysi og lukkunnar velstandi. Illu heilli eimir enn eftir af þessum söguskilningi fornaldar allt of víða. Illu heilli, segi ég, því hann gefur okkur ástæðu til að leita orsaka hins illa hjá Guði en ekki þar sem þær er nánast undantekningarlaust að finna: Hjá okkur mönnunum.

Jesús frá Nasaret var ekki uppi á friðsælum og blessunarríkum tímum. Rómverjar ríktu yfir landinu með miskunnarlausri harðstjórn og kúgun. Sérhverri tilraun til mannlegrar reisnar óbreytts almúgans var misþyrmt til bana af grimmilegu offorsi. Krossfestingin var frátekin fyrir þá lægst settu og ætluð þeim sem ógnuðu yfirvaldi Rómar, efndu til uppþota og uppreisnar gegn Rómaveldi. Tilgangur hennar var ekki að deyða, heldur að murka lífið úr hinum seka af slíkum kvalalosta að enginn óbrjálaður maður myndi reyna að vefengja rómversk yfirráð. Ísrael hafði verið musterisveldi, þar sem hið trúarlega og pólitíska vald voru eitt og hið sama. Á dögum Jesú höfðu Rómverjar gert musterið og leiðtoga gyðinga að verkfærum sínum og þjónum til að treysta veldi sitt. Rómverskir landstjórar útnefndu æðstuprestana sem lögðust á eitt með Rómverjum að bæla niður uppþot og óeirðir. Stofnanir trúarinnar voru í höndum Rómaveldis og leiðtogar Gyðinga í skilyrðislausri þjónustu þeirra.

Jesús hreinsaði musterið og rak út þá sem voru að að selja. En hvað voru þeir að selja?

Allir karlkyns Gyðingar þurftu að greiða hálft „shekel“ í musterisskatt á ári, fjárhæð sem nam um það bil tveimur daglaunum verkamanns. Skattinn þurfti að greiða í nákvæmlega hálfu shekeli, en ekki neinum öðrum hinna fjölmörgu gjaldmiðla sem voru í umferð í Júdeu á fyrstu öld okkar tímatals. Víxlararnir skiptu þessu fyrir fólkið, gegn vænni þóknun að sjálfsögðu, einhverju sem í dag væri sennilega kallað „umsýslugjald“. Þetta var auðvitað hreinræktuð glæpastarfsemi.

Einnig var verið að selja fórnardýr. Fórnardýr mátti kaupa á sanngjörnu verði á markaðnum, en það var skýlaus krafa að fórnadýrin þyrftu að vera án lýta og við musterið störfuðu menn sem sérstaklega rannsökuðu hvert einasta fórnadýr í leit að hinu minnsta lýti. Það er að segja hvert einasta fórnardýr sem ekki var keypt af opinberum fórnardýrasölum í musterinu sjálfu. Fórnardýrasalarnir keyptu auðvitað fórnardýrin á markaðstorginu. Vitað er að álagning þeirra gat numið 1500%. Þetta var líka hreinræktuð glæpastarfsemi, arðrán á hinum fátækustu.

Það sem gerði þetta enn verra var að þessir sölubásar, „Básar Annasar“, tilheyrðu fjölskyldu Annasar æðsta prests, sem hafði einkaleyfi á þessari starfsemi. Þegar farið var með Jesú til æðsta prestsins til yfirheyrslu, eins og lýst er í 18. kafla Jóhannesarguðspjalls, skulum við því hafa í huga að Jesús hafði valdið honum persónulega töluverðu fjárhagstjóni með því að ráðast með þessum hætti á löglega og lögverndaða einokun hans á siðlausu okri á fórnardýrum í musteri Guðs.

Auðvitað var þetta ekkert annað en ræningjabæli, eins og Jesús kallaði það. En orðið „ræningjabæli“ hefur kallað fram í hugskoti áheyrendanna aðra tilvitnun í spámennina sem ekki hefur hljómað eins vel og hin dýrðlega framtíðarsýn Jesaja.

Í 7. kafla Spádómsbókar Jeremía segir nefnilega:

„Er þetta hús, sem kennt er við nafn mitt, ræningjabæli í yðar augum? Já, ég lít svo á, segir Drottinn. Farið til helgistaðar míns í Síló þar sem ég lét nafn mitt búa áður fyrr. Virðið fyrir yður hvernig ég hef farið með hann vegna illsku lýðs míns, Ísraels. En þér hafið nú unnið öll sömu verk, segir Drottinn. Þótt ég talaði til yðar seint og snemma hlustuðuð þér ekki og þótt ég hrópaði til yðar svöruðuð þér ekki. Þess vegna ætla ég að fara með þetta hús, sem kennt er við nafn mitt og þér treystið á, eins og ég fór með Síló. Ég ætla að fara með staðinn sem ég gaf yður og feðrum yðar eins og ég fór með Síló. Ég mun reka yður frá augliti mínu eins og ég rak alla bræður yðar frá mér, alla niðja Efraíms.“

Síló?

Síló hafði verið höfuðborg Ísraels og samastaður sáttmálsarkarinnar fram að byggingu musterisins í Jerúsalem. Síló hafði verið höfuðborg Norðurríkisins, sem einnig nefndist Efraím, en eftir daga Davíðs og Salómons klofnaði Ísraelsríki í tvennt. Norðurríkið féll fyrir Assýringum um það bil árið 721 f. Kr, borgin Síló var brennd til grunna og íbúar hennar ýmist hernumdir eða strádrepnir. Samkvæmt söguskilningi fornaldar gat fall Norðurríkisins aðeins stafað af framferði konunganna þar. Enda geymir Gamla testamentið slíkar sögur, til að mynda af hinni illu Baals-dýrkandi drottingu Jesebel og ofsóknum hennar á hendur Elísa spámanni.

Og hér stendur Jesús og leggur Jerúsalem og musterið Guðs í henni miðri að jöfnu við Síló og minnir á viðurstyggð eyðileggingarinnar sem þar blasti við af völdum framferðis leiðtoganna. „Þér hafið unnið öll sömu verk, segir Drottinn.“ Þessi tilvitnun í Jeremía er eini staðurinn í ritningunni þar sem orðið „ræningjabæli“ kemur fyrir, fyrir utan þessi orð Jesú í þremur guðspjallanna fjögurra.

Jesús hafði litlar áhyggjur af því að hann kynni að vera að traka á þeirri helgi, sem staðurinn var hjúpaður í huga annarra, með því að vera með uppsteyt.

Stofnanir trúarinnar og hins pólitíska valds voru þær sömu í musterisveldinu. Lotningin fyrir Guði var misnotuð til að þvinga fram lotningu fyrir óprúttnum, gróðasjúkum valdhöfum, undirlægjum rómverskra harðstjóra.

En hvaða erindi á þessi saga til okkar í dag? Það er ekki eins og leiðtogar okkar misnoti pólitískt vald sitt til að skara eld að eigin köku eða tryggja afkomu fjölskyldufyrirtækjanna sinna? Er það nokkuð? Það er ekki eins og ráðamenn okkar hafi verið eigendur stórra fyrirtækja á sama tíma og þeir þurftu að taka ákvarðanir um útdeilingu auðlinda og að heimabyggð þeirra og fjölskyldufyrirtækisins þeirra hafi notið þess á kostnað annarra? Eða er það? Það er ekki eins og íslensk stjórnmálasaga gefi nokkrum manni ástæðu til að gjalda varhuga við því að einstaklingar sem eiga mikilla persónulegra hagsmuna að gæta í afkomu stórfyrirtækja, til dæmis olíurisa, komist í þá aðstöðu að útdeila landsins gæðum. Eða hvað?

Jesús er vissulega að tala um stofnanir hins pólitíska valds, en ekki síður um stofnanir trúarinnar. Óvíst er að hann hafi verið fær um að greina þar á milli sjálfur. Orð hans um kirkju síns tíma eru eilíf áminning til kirkju allra tíma um að vera á varðbergi. Kirkjan má aldrei vera ræningjabæli. Fjárreiður hennar verða að vera siðlegar. Innra skipulag hennar verður að vera í samræmi við sið hennar og játningar. Hún verður að vera sjálfri sér samkvæm í boðun sinni. Hún verður að taka mið af samtíma sínum í þessum efnum.

Þegar kirkjuskipan Kristjáns 3. var innleidd hér á Íslandi á sextándu öld var hún í raun uppkast að nýrri þjóðfélagsskipan ekki síður en nýrri kirkjuskipan. Hún var í sex liðum. En hún gerði aldrei ráð fyrir öðru en að aðeins fyrsti liðurinn, sá er varðaði trúna sjálfa, væri óbreytanlegur. Hinum fimm mátti breyta að vild til að laga starfsemi kirkjunnar að samfélagi hvers tíma, enda mannasetningar þar á ferð. Vorri evangelísk-lúthersku Þjóðkirkju ber því, samkvæmt sinni eigin stofnskrá, að vera í stöðugri sjálfsskoðun og endurmótun.

Um þessar mundir er þung undiralda í samfélaginu, sem krefst algjörs trúfrelsis og sér það ekki komast á fyrr en með algjöru afskiptaleysi hins opinbera af trúmálum þjóðarinnar. Hér standa öll spjót á Þjóðkirkjunni.

Það var áhugavert að fylgjast með umræðunni um ein hjúskaparlög á Íslandi og sérlega ánægjulegt hve kirkjunnar menn voru upp til hópa hlynntir þeirri lagabót sem í því fólst. Á hinn bóginn má segja að einkennilegt sé hve kirkjunnar menn hafa verið latir við að lýsa yfir stuðningi við að á sama hátt gildi í landinu ein lög um trúfélög, en ekki ein lög um Þjóðkirkju Íslands og önnur um trúfélög eins og nú er raunin.

Í lögum frá Alþingi um Þjóðkirkju Íslands er meðal annars kveðið á um skiptingu landsins í biskupsumdæmi. Mér er sem ég sæi Ásatrúarfélagið sætta sig við það sem sjálfsagðan hlut að á Alþingi Íslendinga væru teknar ákvarðanir um það hvernig skipta beri landinu í goðorð. Mér er sem ég sæi íslenska múslimi sætta sig við það þegjandi og hljóðalaust að fyrsti þingmaður Reykjavíkurkjördæmis nyrðra ætti að vera verndari Félags múslima á Íslandi og íslenska Zen-Búddista sætta sig við að fyrsti þingmaður Reykjavíkurkjördæmis syðra ætti að vera verndari Zen-Búddistafélagsins – algerlega án þess að trú eða trúfélagsaðild þeirra komi málinu við. Hví skyldi þá þjóðkjörinn embættismaður, sem engin krafa er um verði að tilheyra einu trúfélagi frekar en öðru – enda bryti það í bága við allan óbrjálaðan skilning á orðinu „trúfrelsi“ – sjálfkrafa eiga að vera verndari Þjóðkirkjunnar?

Stærð Þjóðkirkjunnar er engin rök. Það að einn hópur sé fjölmennari en annar réttlætir aldrei að réttindi minnihlutans séu fyrir borð borin.

Ég er ekki að kalla Þjóðkirkjuna ræningjabæli. Öðru nær. Hið mikla og góða starf sem þar er unnið á öllum sviðum á betra skilið. Og það á betra skilið en að sitja undir ámæli fyrir að undir það sé mulið með ósanngjörnum hætti af hinu opinbera á kostnað annarra. Ekki síst vegna þess að undirmulningurinn – ef hann þá á annað borð á sér stað og ef „undirmulningur“ á annað borð er íslenskt orð – er ónauðsynlegur hinu mikla og góða starfi, að mati þess er hér talar. Hverju er Þjóðkirkjan í raun og veru bættari með 62. grein íslensku stjórnarskrárinnar þar sem segir: „Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.“ Hvað veitir þetta ákvæði barna- og æskulýðsstarfi Þjóðkirkjunnar, svo dæmi sé tekið, umfram það sem segir 1. grein laga um trúfélög: „Rétt eiga menn á að stofna trúfélög og iðka trú sína í samræmi við sannfæringu hvers og eins.“ Tryggir þetta lagaákvæði ekki stuðning og vernd ríksins við öll trúfélög – og við trúfrelsið?

Samningar kirkju og ríkis koma þessu máli ekki við. Opinberum aðilum er frjálst að semja við hvern sem er um hvað sem er, líka trúfélög. Reykjavíkurborg er til dæmis með samning við Hjálpræðisherinn um að veita ákveðna þjónustu og styrkir hann til þess að einhverju leyti. Af þessum samningi er afskaplega góð reynsla.

Þjóðkirkjan er ekki byggð á sandi og hún þarf engin flotholt frá ríkisstjórn og Alþingi til að jörðin gleypi hana ekki. Hún er byggð á kletti og kletturinn er Kristur.

Þjóðkirkjan er ekki Þjóðkirkja af því að það stendur í Stjórnarskrá íslenska lýðveldisins.

Hún er ekki heldur Þjóðkirkja af því að það stendur í lögum frá Alþingi um Þjóðkirkju Íslands.

Hún er Þjóðkirkja af því að hún skilgreinir sig sjálf sem Þjóðkirkja samkvæmt kirkjuskilningnum sem hún er grundvölluð á. Af því að hún er, samkvæmt sjálfsskilgreiningu sinni sem þjóðkirkja, skuldbundin gagnvart Guði almáttugum til að þjóna og taka á móti öllum mönnum, óháð aldri, kynferði, kynhneigð, kynþætti, búsetu eða nokkru öðru. Ekkert annað trúfélag á Íslandi hefur í senn löngun og stofnanalega burði til að gera þetta. Þjóðkirkja er samkvæmt sjálfsskilningi sínum „bænahús fyrir allar þjóðir“ og aldrei „ræningjabæli“.

Auðvitað er ekki ókeypis að reka kirkju. Við viljum sýna guðshúsum okkar fullan sóma, ekki síst vegna menningarsögulegs og byggingarsögulegs gildis margra þeirra. Við viljum að helgihaldið sé okkur til sóma. Það þýðir ekki að íburður og prjál eigi að vera hluti af því. Við verðum alltaf að vera á varðbergi gagnvart því hvar mörk hins sómasamlega og bruðlsins liggja, hvenær peningum er betur varið í barna- og æskulýðsstarf og líknarstarf heldur en í margra milljón króna listaverk, hökla og messuklæði.

Guð hefur alltaf samúð með þeim, sem beittir eru ranglæti og kúgun. Guð kirkjunnar er Guð sanngirni og réttlætis. Guð grætur með þeim sem þjást. Og hugsanlega grætur hann aldrei sárar en með þeim sem þjást af skorti á tröppum meintra guðshúsa þar sem innandyra er verið að gylla gull honum til dýrðar.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er enn og verður um aldir alda. Amen.

Read Full Post »

Prédikun flutt í Bakkagerðiskirkju 5. ágúst 2012.

Lexía: Sonur minn, ef þú hlýðir orðum mínum og geymir boðorð mín hjá þér, veitir spekinni athygli þína og hneigir hjarta þitt að hyggindum, já, ef þú kallar á skynsemina og hrópar á hyggindin, ef þú leitar að þeim eins og silfri og grefur eftir þeim eins og fólgnum fjársjóðum, þá mun þér lærast að óttast Drottin og veitast þekking á Guði. Drottinn veitir speki, af munni hans kemur þekking og hyggindi. Hann geymir hinum ráðvöndu gæfuna og er skjöldur þeirra sem breyta grandvarlega því að hann vakir yfir stígum réttlætisins og varðveitir veg sinna réttsýnu. Þá skilur þú einnig hvað réttlæti er, réttur og réttsýni, skilur sérhverja braut hins góða. (Okv 2.1-9)

Guðspjall: Enn sagði Jesús við lærisveina sína: „Maður nokkur ríkur hafði ráðsmann og var honum sagt að ráðsmaðurinn sóaði eigum hans. Ríki maðurinn lét kalla ráðsmanninn fyrir sig og sagði við hann: Hvað er þetta er ég heyri um þig? Gerðu grein fyrir störfum þínum því að þú getur ekki verið ráðsmaður lengur. Ráðsmaðurinn sagði þá við sjálfan sig: Hvað á ég að gera fyrst húsbóndi minn sviptir mig ráðsmennskunni? Ekki orka ég að grafa og skömm þykir mér að betla. Nú sé ég hvað ég geri til þess að menn taki við mér í hús sín þegar ég verð sviptur ráðsmennskunni. Hann kallaði nú á skuldunauta húsbónda síns, hvern og einn. Við þann fyrsta sagði hann: Hve mikið skuldar þú húsbónda mínum? Hann svaraði: Hundrað kvartil viðsmjörs. Hann mælti þá við hann: Tak skuldabréf þitt, set þig niður og skrifa sem skjótast fimmtíu. Síðan sagði hann við annan: En hvað skuldar þú? Hann svaraði: Hundrað tunnur hveitis. Og hann sagði honum: Tak þú skuldabréf þitt og skrifa áttatíu. Og húsbóndinn hrósaði svikula ráðsmanninum fyrir að hafa breytt kænlega. Því að börn þessa heims eru kænni í skiptum við sína kynslóð en börn ljóssins. Og ég segi ykkur: Notið hinn rangláta mammón til þess að eignast vini sem taki við ykkur í eilífar tjaldbúðir þegar hann er uppurinn. (Lúk 16.1-9)

Náð sé með ykkur öllum og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Viktor Lustig er ekki nafn sem margir kannast við þegar þeir heyra það. En þegar saga Viktors Lustigs er sögð er erfitt að fyllast ekki einhverri öfugsnúinni aðdáun á kænsku hans. Hann fæddist í smábæ í Austurrísk-ungverska keisaradæminu, sem nú tilheyrir Tékklandi, árið 1890, en þekktasta afrek sitt vann hann í París árið 1925. Þá tókst honum að selja Eiffelturninn. Lustig tengdist frönskum stjórnvöldum eða borgarstjórn Parísar ekki neitt. En ekki tókst honum bara að selja frönskum brotajárnssala, André Poisson, Eiffelturnin til niðurrifs í brotajárn heldur þáði hann í þokkabót háa mútugreiðslu frá Poisson þessum til að tryggja að hann fengi viðskiptin með því að leika spilltan opinberan starfsmann. Þegar hið rétta kom í ljós skammaðist Poisson sín of mikið fyrir að hafa látið blekkjast til að leggja fram kæru á hendur Lustig og málið var látið niður falla, en Lustig auðgaðist verulega á svikunum. Það er eitthvað alveg ótrúlega smart við að fá fégráðugan og óheiðarlegan kaupsýslumann til að múta sér til að selja sér Eiffelturninn.

Í kreppunni miklu birtust auglýsingar í dagblöðum í Kanada þar sem auglýst var til sölu tæki til að útrýma svokölluðum kartöflubjöllum, miklum skaðræðisskepnum í kanadískum kartöflugörðum. Tækið fékkst í póstkröfu fyrir aðeins einn og hálfan dal. Fáir bændur voru svo fátækir að þeir gætu ekki önglað saman einum og hálfum dal til að losna við þessa plágu. Þúsundir af þessum tækjum voru seld. Þegar pakkinn barst var hann aðeins tveir trékubbar og leiðbeiningar sem voru svohljóðandi: „Setjið kartöflubjölluna á annan kubbinn og skellið hinum kubbnum ofan á hana.“ Tækið virkaði vissulega, en stóð samt ekki alveg undir væntingum. Raunvirði pakkans var sennilega innan við fimm sent. Þetta finnst okkur líka sniðugt, en samt ekki alveg eins sniðugt. Sennilega af því að þarna voru fórnarlömbin hrekklausir fátæklingar sem munaði um einn og hálfan dal en ekki heimskir og ágjarnir auðkýfingar. Fórnarlömbin héldu að þau væru að fá lausn á raunverulegri plágu sem ógnaði afkomu þeirra.

Reyndar sögðu einhverjir bændur í samtímaheimildum að þeim hefði þótt það eins og hálfs dals virði að geta nú sagt gamansöguna af kartöflupöddueyðingartækinu sem þeir keyptu.

Þriðja sagan sem mig langar að segja ykkur er jafnsönn. Hún er svona: Stjórnendum í banka nokkrum fannst bankinn ekki alveg nógu verðmætur í aðdraganda einhvers uppgjörs. Þeir fengu því erlendan auðkýfing til að fjárfesta í bankanum fyrir tvo milljarða króna. Þetta kom vel út. Þegar að uppgjörinu kom var bankinn fyrir vikið tveim milljörðum króna meira virði en áður. En þegar bankinn síðan fór á hausinn og þrotabúið var gert upp kom í ljós að milljarðana tvo, sem auðkýfingurinn notaði til að fjárfesta í bankanum, hafði hann fengið lánaða hjá bankanum sjálfum og tryggingin fyrir láninu var þessi tveggja milljarða króna hlutur í bankanum sjálfum sem keyptur var fyrir lánið.

Ég veit ekki með ykkur, en sjálfur finn ég fyrir lítilli aðdáun á þesari kænsku og ráðsnilld. Mér finnst þetta vera hreinræktuð glæpastarfssemi. Kannski af því að í þessu tilfelli er ég sjálfur í hópi fórnarlamba svikahrappanna. Með þessum hætti var íslensk alþýða féflett upp í opið geðið á þjóðkjörnum fulltrúum okkar á Alþingi og ríkisstjórn, sem hafði það eina verkefni með höndum að gæta hagsmuna okkar og klúðraði því svona eftirminnilega. Með þessum aðferðum orsakaðist það að allt í einu var orðið nauðsyn hér í velferðinni og velmeguninni að slá „skjaldborg“ um heimilin í landinu.

Það, hvernig mér hefur þótt takast til við að slá þessa skjaldborg, kemur efni þessarar prédikunar ekki við, heldur hitt: Hvers vegna dáumst við stundum að klæjabrögðum svikahrappa og hrekkjalóma og hvers vegna fylla þau okkur undir öðrum kringumstæðum aðeins reiði, jafnvel svo mikilli að við gerum okkur ferð niður á Austurvöll með sleif og pott til að fá útrás fyrir hana? Kannski eiga kynslóðir framtíðarinnar eftir að hlæja jafninnilega að okkur og við getum í dag hlegið að fégráðuga brotajárnssalanum André Poisson sem keypti Eiffelturninn. Og kannski eigum við það skilið.

Í dag segir Jesús okkur sögu af svikahrappi, reyndar fjórum óprúttnum aurasálum, og það sem meira er, hann segir okkur að taka okkur þær til fyrirmyndar. „Notið hinn rangláta mammón til þess að eignast vini sem taki við ykkur í eilífar tjaldbúðir.“ Hvað er maðurinn að fara?

Ráðsmaðurinn í dæmisögunni, sem Jesús segir okkur í dag, hefur sennilega verið frelsaður þræll. Landeigendur fólu gjarnan menntuðum þrælum daglegan rekstur og umsýslu eigna sinna enda var algengt að vellauðgir stóreignamenn dveldu langdvölum þar sem eitthvað meira spennandi var að gerast en í fásinninu úti í sveitinni. Þetta var gott starf fyrir þræl, jafnvel frelsaðan þræl, en vegna fortíðar sinnar gat hann þó aldrei gert sér vonir um að ná sömu stöðu í samfélaginu og húsbóndi hans. Ráðsmaðurinn hafði dregið sér fé og húsbóndinn komst að því. Hvað gat ráðsmaðurinn gert til að tryggja afkomu sína? Hann var orðinn of góðu vanur til að geta hugsað sér að vinna líkamlega erfiðisvinnu, hvað þá að betla. Hann fékk góða hugmynd. Skuldunautarnir voru nefnilega líka svikahrappar. Skuld þeirra var vafalaust leiga. Landeigendur leigðu út hluta jarða sinna og leigan var borguð sem tollur af afurðum skikanna sem leigðir voru út. Ráðsmaðurinn brá á það ráð að falsa skýrslur. Hann lækkaði skuldir leiguliðanna. Þetta leiddi tvennt af sér. Í fyrsta lagi átti hann nú hönk upp í bakið á þeim. Æ sér gjöf til gjalda. Og í öðru lagi voru þeir nú orðnir þátttakendur í svikastarfsemi hans, þeir voru orðnir meðsekir um undanskotin og ráðsmaðurinn var því í góðri aðstöðu til að kúga úr þeim fé eða annan atbeina. Það hefði getað komið sér illa fyrir þá að taka ekki við honum í hús sín. Hann hafði hreðjatak á þeim, ef svo má að orði komast.

Fjórði þrjóturinn í sögunni er síðan landeigandinn sjálfur. Í stað þess að fyllast bræði þegar hann kemst að því hvernig hinn óprúttni ráðsmaður hefur komið ár sinni fyrir borð fyllist hann aðdáun á því hvað hann var útsmoginn. Honum hefur sennilega fundist það virði fimmtíu kvartila viðsmjörs og tuttugu tunna af hveiti að geta nú sagt hinum ríku landeigendunum í ríkramannaklúbbnum frá þessum ótrúlega bíræfna ráðsmanni sem hann hafði haft heima í Júdeu.

Og þetta er eiginleiki sem við búum yfir. Við getum dáðst að stjórnmálamanni fyrir það hvað hann er stórkostlega útsmoginn í refskák og hrossakaupum pólitíkurinnar. Við erum jafnvel vís með að kjósa hann á þing aftur, eftir að hann hefur setið í fangelsi fyrir fjársvik og mútuþægni án þess að hafa látið í ljós neina iðrun, af því að hann er svo óprúttinn í að afla kjördæminu bitlinga.

En hvað getum við lært af þessu? Eigum við að beita svikum og prettum, undanskotum og fjárdrætti í þágu hins góða málstaðar? Helgar tilgangurinn þá meðalið?

Nei, það gerir hann aldrei af því að sérhver niðurstaða er alltaf skilgetið afkvæmi aðferðanna sem beitt var til að ná henni. Til dæmis: Sköpum réttlátt samfélag. Hvernig gerum við það? Er ekki ágætt ráð að drepa bara alla sem eru á móti réttlátu samfélagi? Þegar sá síðasti þeirra hefur verið tekinn af lífi … erum við þá ekki komin með réttlátt samfélag?

Nei. Þá erum við komin með samfélag þar sem fólk er drepið fyrir skoðanir sínar. Hve ógeðfelldar sem okkur kann að finnast þær er slíkt samfélag enn ógeðfelldara.

Það er alltaf rangt að ljúga, sama hve góðu við teljum okkur geta komið til leiðar með því. Það er alltaf rangt að hafa það af öðrum, sem þeim ber með réttu, hve mikið sem okkur langar í það sjálf.

Lögmál náttúrunnar eru óbreytanleg. Ljóshraðinn er alltaf sá sami, um 300.000.000 metrar á sekúndu. Þyngdarhröðun jarðar er sú sama á virkum dögum á milli níu og fimm og hún er á kvöldin og um helgar. Hví skyldu þá önnur siðalögmál gilda þegar við erum að græða á daginn en þegar við erum að grilla á kvöldin?

Af hverju skyldum við geta dáðst af svikahröppum, lýðskrumurum og gerspilltum stjórnmálamönnum?

„Börn þessa heims eru kænni í skiptum við sína kynslóð en börn ljóssins,“ segir Jesús. Börn þessa heims eru þeir sem stjórnast af ásókn í auðævi þessa heims, fjársjóði sem mölur og ryð fá grandað. Börn þessa heims sitja ekki heima hjá sér á rassinum og bíða eftir því að milljarðarnir detti í fangið á þeim af himnum ofan eða streymi sjálfkrafa inn á bankareikninginn þeirra eins og fyrir náð Guðs. Nei. Þau eru þarna úti og unna sér engar hvíldar. Þau eru vakandi fyrir hverju tækifæri og skrúfa frá öllum hæfileikum sínum þar sem ágóða er von. Þau beita skrúðmælgi og lýðskrumi af fágætri kænsku. Þau spila á kenndir þeirra sem hafa á fé eða fylgi af, hvort sem það er ótti, t.d. við að aðrir landshlutar fái feitari bita að sunnan, fégræðgi eða einfaldlega löngun í betra líf, sem nýr bíll, hrukkukrem eða próteindrykkur á að veita.

Á sama hátt flæða hin andlegu auðævi ekki heldur inn í sálina á okkur áreynslulaust á meðan við sitjum heima í leisíbojinum okkar og horfum á Criminal Minds eða Delicious Iceland með Völla Snæ – með fullri virðingu fyrir þeim ágætu sjónvarpsþáttum báðum. Jesús er að segja okkur að rífa okkur upp og fara út og afla okkur fjársjóða, sem mölur og ryð fá ekki grandað, af sama ákafa og þorsta og börn þessa heims sýna í ásókn sinni í hina fjársjóðina. Í lexíunni segir að við eigum að leita spekinnar eins og silfurs og grafa eftir henni eins og fólgnum fjársjóðum.

Það er auðvelt að standa upp, slökkva á sjónvarpinu og fara út og gera eitthvað sem við fáum borgaðan hundraðogfimmtíuþúsundkall fyrir. En þegar við þurfum að gera það til að hjálpa einhverjum, sem aldrei mun vera í aðstöðu til launa okkur greiðann, þá er sessan undir rassinum á okkur alveg ótrúlega þægileg.

Verknaðarskyldan er miðlæg í boðskap Jesú Krists. Hann hefur þekkt búddísku útgáfuna af gullnu reglunni: „Ekki gera öðrum það sem þú vilt ekki að aðrir geri þér.“ Júdea og Galílea höfðu verið hluti af ríki Alexanders mikla sem náði allt austur til Indlands og hermenn hans, sem þar fóru um, hafa áreiðanlega borið með sér stefnur og strauma í austrænni speki.

Jesús hefur þekkt karmalögmálið og ræðst beinlínis á það í einni sögu þar sem endurgjaldslögmál klassísks gyðingdóms fær líka á baukinn. Jesús og lærisveinar hans mæta manni sem hafði verið blindur frá fæðingu og lærisveinarnir spyrja: „Hvort hefur þessi maður syndgað eða foreldrar hans fyrst hann fæddist blindur?“ (Jóh 9.2) Það segir sig sjálft að fyrst hann fæddist blindur hlýtur hann að hafa syndgað í fyrra lífi ef blindan var refsing fyrir syndir hans. Það er karmalögmálið. Hafi foreldrar hans syndgað hefði Guð getað refsað þeim með blindu barni samkvæmt endurgjaldslögmálinu, en það gekk út á að Guð refsaði fyrir syndir og verðlaunaði dyggðir hérna megin grafar með veraldlegum hætti. Jesús hafnar bæði endurgjaldslögmálinu og karmalögmálinu, en svarar ekki spurningunni.

Hans svar er: „Hvorki er það af því að hann hafi syndgað eða foreldrar hans heldur til þess að verk Guðs verði opinber á honum.“ (9.3) Með öðrum orðum: Ekki spyrja af hverju það gerðist, því það skiptir ekki máli. Spurðu heldur: Sú staðreynd að það gerðist, hvaða skyldu leggur það á mig sem manneskju?

Á sama hátt breytir Jesús gullnu reglunni í verknaðarskyldu: „Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera.“ (Matt 7.12//Lúk 6.31) Með öðrum orðum: Ekki láta þér nægja að vera ekki vondur og gera ekki illt. Vertu góður og láttu gott af þér leiða.

Við þráum öll réttlæti og réttvísi. En það þarf hvorki að vera forfallinn fréttafíkill né sprengmenntaður samfélagsfræðingur til að átta sig á því að heimurinn er óréttlátur. Hvernig breytum við heiminum? Hvernig sköpum við réttlátt samfélag fyrst ekki er bara hægt að drepa alla sem standa í veginum?

Jody Williams ekki nafn sem margir kannast við þegar þeir heyra það. En þegar saga hennar er sögð er erfitt að fyllast ekki aðdáun. Hún fæddist árið 1950 í smábænum Putney í Vermont í Bandaríkjunum. Árið 1997 voru henni veitt Friðarverðlaun Nóbels fyrir baráttu sína gegn jarðsprengjum. Eftir henni eru þessi orð höfð: „Breytingar eru enginn galdur. Til að breyta heiminum þarf bara að standa upp af rassinum og leggja eitthvað af mörkum. Það er óþarfi að hafa einhverja stórkostlega framtíðarsýn. Þetta snýst um að vera sjálfur framtíðin sem maður vill sjá.“

Betur er varla hægt að orða það sem mig langaði að segja ykkur í dag.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Read Full Post »