Feeds:
Færslur
Athugasemdir

Archive for mars, 2013

Senn verður kosið til Alþingis og ég hef gert upp hug minn.
Hægt er að gera upp hug sinn með ýmsum aðferðum.
Ein er að gera hann ekki upp, heldur halda sig ofan í skúffunni sem maður valdi sér hér einhvern tímann – óháð því hvort skúffan eða forsendur þess að hún var valin frekar en einhver önnur séu þær sömu nú og þá.
Mér finnst það afleit aðferð og í raun eru það aðeins andlegir steingervingar sem beita henni.
Önnur aðferð er að kynna sér nákvæmlega öll stefnumál hvers einasta framboðs niður í smæstu smáatriði og velja síðan það sem maður telur sig eiga mesta samleið með. Þetta er ágæt aðferð. Á henni eru þó þrír megingallar:
a. Þetta er óskaplega tímafrekt enda er fjöldi framboða því sem næst fáránlegur.
b. Mörg framboð hafa séð ástæðu til að móta sér flokkspólitíska afstöðu til málefna sem flokkar ráða engu um hvort sem er, s.s. til Evrópusambandsaðildar. Það er nefnilega aðeins þjóðin sjálf sem hefur rétt til að taka ákvörðun um Evrópusambandsaðild í skuldbindandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Flokkar geta ákveðið hvort hún fari fram eða ekki, en þeir geta ekki tekið málið af dagskrá. Eina aðferðin til að taka málið af dagskrá er að afgreiða það. Það er því tímasóun hjá flokki að móta sér flokkspólitíska afstöðu til einhvers sem ekki er á valdi flokka að taka ákvörðun um. Og það er beinlínis lýðræðisfjandsamlegt að vilja ekki gefa þjóðinni tækifæri til að afgreiða það.
c. Flest framboð lýsa því yfir að þau gangi „óbundin” til kosninga, en það er rósamál fyrir að þau skuldbindi sig ekki til þess að standa við orð af því sem þau segja, að allt megi semja um fyrir aðild að ríkisstjórn. Þetta þýðir, svo dæmi sé tekið, að atkvæði greitt Vinstri grænum gæti verið atkvæði greitt Bjarna Benediktssyni sem forsætisráðherra, ef um semst hjá flokksforystunum.
Þriðja aðferðin er útilokunaraðferðin.
Þá ákveður maður hvaða grundvallaratriði maður sjálfur setur á oddinn, um hvað maður sjálfur vill ekki semja, hverju maður muni aldrei sætta sig við að atkvæðið manns verði notað til að koma til leiðar.
Síðan athugar maður hvað framboðin hafa um þetta að segja, hver séu grunngildi þeirra, frá hverju þau muni aldrei víkja, um hvað megi komast að samkomulagi og hvaða málum þau vilji vísa í dóm þjóðarinnar og hafa hann að leiðarljósi frekar en einstrengingslega flokkspólistíska afstöðu.
Loks athugar maður sögu þeirra og heilindi einstaklinganna sem eru í forsvari fyrir framboðið í gegn um tíðina. Flokkur og einstaklingar sem eiga sér langa sögu svikinna loforða og tækifærismennsku eru að mínu mati líklegri en aðrir til að halda uppteknum hætti eftir kosningar.
Þessa aðferð notaði ég.
Ég set mannréttindi og borgaraleg réttindi á oddinn þegar kemur að utan- og innanríkismálum.
Ég set mannúð á oddinn þegar kemur að heilbrigðismálum.
Ég set lýðræði, heiðarleika og gegnsæi á oddinn þegar kemur að almennri stjórnsýslu.
Ég aðhyllist umhverfisvæna atvinnustefnu þar sem fjölbreytni atvinnulífs er höfð í hávegum og sjónum er beint frá eintómri orkufrekri hráefnisframleiðslu og stóriðju. Ég aðhyllist atvinnustefnu þar sem uppbyggingu er ekki miðstýrt að sunnan heldur er einstaklingum á hverjum stað skapað hvetjandi umhverfi til að virkja sitt eigið frumkvæði og hugvit til hagsbóta fyrir samfélagið í heild.
Um annað er ég reiðubúinn að semja.
Þess vegna get ég að sjálfsögðu ekki kosið Sjálfstæðisflokkinn, sem að mínu mati er aðeins yfirvarp yfir skipulagða glæpastarfsemi, flokkinn sem kallaði það að gefa auðmönnunum, sem fjármagna hann, sameignir þjóðarinnar „að selja þjóðinni eigur ríkisins”. Þetta er zíonískur foringjaræðisflokkur, margsekur um fjárglæfrastarfsemi, spillingu, valdníðslu og fjármögnunaraðferðir sem í siðuðum löndum væru kallaðar mútur.
Þess vegna get ég ekki heldur kosið Framsóknarflokkinn eða Samfylkinguna, viljalausu hækjurnar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur hingað til stuðst við til skiptis í þeirri viðleitni sinni að leggja efnahag og náttúrufar landsins í rúst – með allgóðum árangri.
Þetta eru flokkar sem vilja völd valdanna vegna – og hika ekki við að sofa hjá óvininum til að öðlast þau. Og Framsókn virðist setja ný viðmið í auvirðulegu lýðskrumi fyrir hverjar kosningar.
Og þess vegna get ég ekki heldur haldið áfram að kjósa flokkinn sem ég hef oftast kosið til þessa, flokk sem stóð með pálmann í höndunum eftir síðustu kosningar og hefur notað tímann síðan þá til að rífa hann í tætlur í innbyrðis erjum og skeina sér á tægjunum.
Ég frábið mér kærleiksofbeldið sem flokkurinn vill beita til að skapa hér réttlátt samfélag. Þar á bæ er fólk svo ákveðið í að búa til fyrirmyndarríkið að það svífst einskis til að koma því til leiðar. Þar eru því engin takmörk sett hve mikið eftirlit er réttlætanlegt að hafa með borgurunum til að tryggja að enginn geri neitt sem misbýður heilbrigðri siðferðiskennd eins og hún er skilgreind samkvæmt pólitískum stöðlum flokksins.
Þar er kvenfrelsi svo hátt skrifað að konur skulu hafa rétt til að ráðstafa líkama sínum sjálfar á hvern þann hátt sem Höllu Gunnarsdóttur og Sóleyju Tómasdóttur líkar.
Þar er litið svo á að vandamálið við stóra bróður Georges Orwells hafi verið að hann var bróðir en ekki systir – en ekki hitt: Að hann fylgdist með þér.
Þar fylgist fólk svo vel með tímanum að setja á lög um internetið sem jafngilda því að í upphafi póstflutninga hefðu verið sett lög sem leyfðu hinu opinbera að opna og lesa hvert einasta einkabréf í leit að ljósmyndum eða teikningum sem sýndu … ekki ólöglegt athæfi, heldur athæfi sem vel meinandi stórt systkin hafði ákveðið að ólöglegt væri að ljósmynda eða teikna myndir af.
Þetta er í raun 21. aldar útgáfan af því að ríða suður til að mótmæla talsímasambandi við útlönd, nema að í þessu tilfelli væri hvatinn aðeins púrítanskur ótti við dónasímtöl en ekki efnahagslegir hagsmunir. Þvert á móti – ekkert er nefnilega eins mikilvægt fyrir efnahagslífið um þessar mundir og algert ferðafrelsi um hagkerfið sem nú er í örustum vexti: Internetið. Klámsía á heilt land, hve vel sem hún er meint, á sér aðeins hliðstæðu í löndum á borð við Íran og Sádí-Arabíu – löndum þar sem fáir eru að velta fyrir sér stórum fjárfestingum í netrænni og netvænni atvinnuuppbyggingu.
Ég bý í Hamborg. Íslendingar hafa löngum átt ábatasöm viðskipti við þessa borg. Sem betur fer hefur enginn lagt til að banna þau af því að hér er rautt hverfi, hve mikla andúð sem hægt er að hafa á því sem þar fer fram.
Loks get ég ekki kosið Bjarta framtíð sem gæti kallað sig „Atvinnupólitíkusa gegn atvinnupólitík”. Þótt þar sé margt vel meinandi ágætisfólk inn á milli er flokkurinn sem slíkur og forysta hans svo skilgetið afkvæmi íslenskrar stjórnmálamenningar að hann mun óhjákvæmilega verða hrossakaupum hennar og hreppapólitík að bráð jafnörugglega og undanfarar hans, hinir ýmsu klofningar og samgróningar út úr fjórflokknum til þessa; gorkúlur á borð við Þjóðvaka og Bandalag jafnaðarmanna.
Ég hef í ljósi reynslunnar, m.a. sem gamall Þjóðvakamaður, glatað allri von um að kerfið verði frelsað innanfrá. Kerfið er gegnrotið og öll afsprengi þess morkin. Þótt nýtt fólk sé nú í forsvari fyrir kerfið og fimmti drekahausinn hafi skotið upp kollinum þá er kerfið sjálft óbreytt, siðlaust og sjálfu sér líkt, eins og berlega kom í ljós nú á lokadögum þinghaldsins, þegar niðurstöðum lýðræðislegrar þjóðaratkvæðagreiðslu var hent í ruslið í dæmigerðu pólitísku hrossaprangi því þær þjónuðu ekki hagsmunum flokkanna.
Ótrúlega margir virðast samt halda að gamli fjóshaugurinn þeirra sé skyndilega orðinn fullur af gulli, bara af því að gömlu skáninni var mokað burt og sú nýja glitrar svo fallega í sólskininu. En undir henni ólgar og vellur sama drulla og áður, aðeins úldnari og fúlli ef eitthvað er.
Þess vegna kemur aðeins eitt af hinum s.k. „litlu framboðum” til greina fyrir mig sem kjósanda.
Á undanförnu kjörtímabili hefur einn þingmaður vakið athygli mína fyrir vasklega framgöngu og fyrir að hvika hvergi frá grundvallaratriðum á borð við borgarleg réttindi og mannréttindi og jafnvel lagt sjálfa sig í persónulega hættu fyrir málstaðinn. Hún hefur í hvívetna barist fyrir upplýsingu, gegnsæi og lýðræði gegn flokksræði, leyndarhyggju og eftirlitssamfélagi – jafnvel upp í opið geðið á móðursýki pólitískrar rétthugsunar. Einn þingmaður hefur ekki þagað þótt það hefði komið sér betur í næstu skoðanakönnun. Einn þingmaður þekkir ekki lýðskrum. Einn þingmaður hefur haft hugrekki til að standa með sjálfum sér og grunngildunum sem hún stendur fyrir í gegn um þykkt og þunnt allt kjörtímabilið: Birgitta Jónsdóttir.
Ég hef ekki alltaf verið sammála henni og stundum hefur mér beinlínis fundist hún alveg óskaplega klaufaleg. En ég hef fylgst með henni vaxa í starfi og nógu oft fundist hún tala af mestri einurð og skynsemi þeirra sem leggja orð í belg til að vera sannfærður um að hún sé sá þingmaður sem langmest eftirsjá væri af eftir næstu kosningar.
Birgitta leiðir Þ-listann í Suðvesturkjördæmi í næstu kosningum. Það væri að mínu mati áfellisdómur yfir íslenskum kjósendum ef hún næði ekki kjöri.
Þ-listinn setur upplýsingu og gegnsæja stjórnsýslu í öndvegi. Þar á bæ byggja menn afstöðu sína á staðreyndum og borðleggjandi gögnum, ekki persónulegri siðferðiskennd og fordómum framámannanna flokksins og lukkuriddara hans, studdri hégiljum handvalinna loddara.
Þar er afstaða til atvinnuuppbyggingar sem mér líkar.
Þar er tekin afdráttaralaus, mannúðleg og róttæk afstaða í fíkniefnamálum.
Þar er það á hreinu að þjóðin skuli sjálf taka afstöðu til Evrópusambandsaðildar, ekki flokkarnir – og að byggja skuli upp efnahagslíf til framtíðar á grunni þeirrar ákvörðunar, en ekki í óvissunni um það hver hún verður þegar þjóðin fær loksins tækifæri til þess að taka hana.
Þar er eitt helsta stefnumálið að efla beint lýðræði á kostnað flokksræðisins.
Þar er það hluti grunnstefnunnar að hún skuli sæta sífelldri endurskoðun í ljósi nýrra upplýsinga og gagna.
Þar verður aldrei gefinn afsláttur af mannréttindum í þágu viðskiptahagsmuna þegar kemur að utanríkisstefnu.
Þar verður aldrei gefinn afsláttur af borgaralegum réttindum, s.s. upplýsinga- og tjáningarfrelsi og friðhelgi einkalífs.
Þess vegna er ég pírati.
Þess vegna skora ég á alla, sem eru sammála mér um grundvallaratriðin og deila óbeit minni á hefðbundinni, íslenskri stjórnmálamenningu, að láta aukaatriðin og túlkunaratriðin liggja á milli hluta og greiða Þ-listanum atkvæði í næstu kosningum. Skoðanakannanir sýna að píratar einir eiga einhverja raunhæfa möguleika að gerbreyta hinu pólitíska landslagi á Íslandi.
Hvert einasta atkvæði skiptir máli.

Read Full Post »

(lag og ljóð: Jim Steinman / þýðing: D. Þ. J.)

Ég man hvert smáatriði enn eins vel og ef það hefði bara gerst í gær;

gefið í og ekið út úr bænum eitthvað upp í sveit.

Ég hafði aldrei verið með eins yndisilega fagurri stúlku.

Ég vissi’að öfundin öll í minn garð yrði sterk og heit.

Og saman líkamar okkar lágu þétt

og það var unaðslegt og það var alveg rétt

og við glóðum eins og stál með fægðan burtu hvern blett,

glóðum eins og stál með fægðan burtu hvern blett.

Ó, já. Komdu hér. Elskan mín, haltu mér.

Meðan allt í svartamyrkri úti frýs

lýsa mælaborðsljósin í Paradís.

Á okkur hvíldi báðum blessun sælurík.

Við vorum varla sautján ára’og varla’í neinni flík.

Á okkur hvíldi báðum

ástríða sem ákaft við tjáðum.

Á okkur hvíldi báðum blessun sælurík.

Við vorum varla sautján ára’og varla’í neinni flík.

Heyrirðu’ekki hjartað slá? Mér finnst það yfirgnæfa útvarpið.

Svo óralengi hef ég þráð að draga þig í fjör með mér.

Og ég verð að segja eitt: Aldrei muntu sjá eftir þessu.

Svo opnaðu’augun blá,

ljúfan, og líttu á

það sem þú mátt fá.

Ég þrái’að geta kveikt í þér.

Og saman líkamar okkar lágu þétt

og það var unaðslegt og það var alveg rétt

og við glóðum eins og stál með fægðan burtu hvern blett,

glóðum eins og stál með fægðan burtu hvern blett.

Ó, já. Komdu hér. Elskan mín, haltu mér.

Meðan allt í svartamyrkri úti frýs

lýsa mælaborðsljósin í Paradís.

Já, á meðan allt í svartamyrkri frýs:

Mælaborðsljós í Paradís.

Við sköffum næði og ró, en hitt náttúran sér sjálfri lík.

Á okkur hvíldi báðum blessun sælurík.

Við vorum varla sautján ára’og varla’í neinni …

Nú gerum við það sem við þráum heitt

og í þetta sinn stöðvar það ekki neitt. (X4)

Jæja, nú er að sjá. Þetta er æsispennandi leikur, staðan er hnífjöfn og ekki mikið eftir af leiktímanum. Þarna kom sending og hann geysist fram miðjuna. Viljið þið bara sjá. Sá kann að fara með bolta. Glæsileg gabbhreyfing og hann er farinn fram hjá andstæðingnum. Hann ætlar að sóla annan, hann missir boltann … en nær honum aftur, góð redding. Hann gefur … hvílík sending! Hann fær hann aftur og missir hann … nei, hann heldur honum. Sá kann að láta hlutina gerast á vellinum. Hann sólar þá hvern á fætur öðrum. Boltinn er eins og límdur við fæturna á honum. Jahérna, sáuð þið þetta? Hvílík knattleikni. Þetta var áhætta en nú er um að gera að spila djarft. Þeir eiga ekki roð við honum, það er eins og hann sé beinlínis að ögra þeim. Hann hefur fullkomið vald á boltanum og hér er fyrirgjöfin. Hvílík móttaka! Hvílík leikni! Hann er dauðafrír fyrir galopnu markinu. Nú hlýtur hann að skora!”

Hægan nú!

Ég verð að vita eitt.

Áður en haldið er lengra vil ég heyra

að þú elskir mig eina öðrum meira.

Ertu engu’að leyna?

Muntu leiða mig alsæla um ævinnar veg?

Ertu eiginmannsefni, verður konan þín ég?

Má ég heyra

að þú elskir mig eina öðrum meira?

Ertu engu’að leyna?

Muntu leiða mig alsæla um ævinnar veg?

Ertu eiginmannsefni, verður konan þín ég?

Ég verð að vita það.

Áður en haldið er lengra vil ég heyra

að þú elskir mig eina.

Má ég sofa’á því?

Sæta, ljúfa, má ég sofa’á því?

Má ég sofa’á því?

Ég svara þér strax í fyrramálið. (X3)

Ég verð að vita það.

Má ég heyra

að þú elskir mig eina öðrum meira?

Ertu engu’að leyna?

Muntu leiða mig alsæla um ævinnar veg?

Ertu eiginmannsefni, verður konan þín ég?

Ég verð að vita það.

Áður en haldið er lengra vil ég heyra

að þú elskir mig eina.

Hvað segirðu? Svona. Ég get beðið í alla nótt. Hvað segirðu? Já, eða nei? Hvað segirðu, vinur? Já eða nei?

Má ég sofa’á því?

Sæta, ljúfa, má ég sofa’á því?

Má ég sofa’á því?

Ég svara þér strax í fyrramálið. (X3)

Ég verð að vita það.

Má ég heyra

að þú elskir mig eina öðrum meira?

Ertu engu’að leyna?

Muntu leiða mig alsæla um ævinnar veg?

Ertu eiginmannsefni, verður konan þín ég?

Ég verð að vita það.

Áður en haldið er lengra vil ég heyra

að þú elskir mig eina.

Má ég sofa’á því?

Muntu elska mig eina?

Má ég sofa’á því?

Muntu elska mig eina?

Ég fékk ei þolað þetta lengur af ástríðum óður

undir óstöðvandi spurninganna orrahríð

svo ég tók að sverja og sárt við leggja’í erg og gríð

að ég þig elska myndi alla tíð.

Ég kvaðst þig elska myndu alla tíð.

Því bið ég þess að öll nú endi tíð.

Í angist þjáist ég og líð,

því ef ég þarf að lifa öllu lengur með þér

senn úr leiðindunum bana ég bíð,

því ég svík aldrei loforð, ég rýf aldrei eið,

en örvinlan mín mér veldur sárri neyð.

Bara’að öll nú endi tíð.

Þess eins ég óska mér.

Bara’að öll nú endi tíð

svo að ég öðlist lausn frá þér.

Það var hér áður fyrr, það var á öðrum stað

að allt var miklu betra’en nú og ekkert að.

Og það var unaðslegt og það var alveg rétt

og við glóðum eins og stál með fægðan burtu hvern blett.

Read Full Post »