Feeds:
Færslur
Athugasemdir

Archive for júní, 2013

Hafnarfirði, 17. júní 2013

LANDIÐ ÞITT

Að elska þessi fjöll og fögru dali,

fossa sem steypa sér í hyldjúp gljúfur,

glitrandi læk með gjálfri sínu og hjali

við gróðurlausar eyrar, snjáðar þúfur

og drang sem gnæfir yfir eyðisandi

er enginn vandi.

Að elska lítinn fugl í frjóum garði

með furutrjám á grónum lækjarbakka,

tófu sem leitar leynis undir barði

í lyngi og mosa vöxnum hlíðarslakka

og hrafn sem í kletti hreiðrar um sig keikur

er hægðarleikur.

Að elska jafnvel vetrarmyrkrið magnað,

miskunnarlausa hríðarbylinn grimma,

gnauðandi norðanfjúk sem fær ei þagnað

frostkalda vetrarmánuðina dimma

á meðan landið lemur brimið ferlegt

er líka gerlegt.

En þegar kemur að þjóðinni á Fróni

sem þraukar enn við heimsins nyrsta jaðar

og bifast vart þótt verði margt að tjóni

og vera lystir hvergi annars staðar

en hér við úthafs vonskuveðra bálið

þá vandast málið.

Því hvernig er hægt að elska svona sauði

sem sífra og  væla af ímynduðum skorti

þar sem engan heimtar hungurdauði

og hróðug smábörn veifa greiðslukorti?

Samt kvörtum við og kveinum veturlangt

og kjósum rangt.

Það eina sem er að í þessu landi

er annað fólk og hvernig það sér hagar.

Staðreyndin er að þú ert þjóðarvandi

og það er ég sem ykkur hina plagar.

Svo þú ert ég, sem játa hér og nú

að ég er þú.

Samt sitjum við hér uppi hvert með annað

og okkur sjálf á píslargöngu langri.

Við gætum nýjar leiðir kannski kannað

og kastað fyrir róða gremju og angri.

Í staðinn reynt að þræða þroskaveg,

þú og ég.

Jafnt undir norðurljósa bjarmabandi

sem bjarta sumardaga, tæra og hreina,

þetta land að elska er enginn vandi,

allir geta það sem bara reyna.

Þrautin er að læra að landið mitt

er landið þitt.

Read Full Post »