Feeds:
Færslur
Athugasemdir

Archive for nóvember, 2013

Í morgun fór ég í þáttinn Sunnudagsmorgunn hjá Gísla Marteini í þeim tilgangi, var mér sagt, að ræða fréttir vikunnar “á léttu nótunum”. Mig grunar að þegar upp var staðið hafi nóturnar reyndar orðið þyngri en lagt var upp með. Sumt sem ég sagði virðist hafa vakið athygli og farið öfugt ofan í fólk. Það var ekki við öðru að búast. Það er ekki hægt að opna munninn um málefni kirkjunnar án þess að fá fjölda manns upp á móti sér – og gildir þá einu hvað sagt er.

Það vakti aftur á móti athygli mína hvað vakti enga athygli af því sem ég sagði. Fólk “sónaði út” þegar reynt var að ræða fræðilega og af þekkingu.

Ógætileg orð

Miðað við umræður á Facebook virðist mér það sem einna mesta athygli vakti vera ógætileg orð sem ég lét falla um áfallahjálp. Þau mátti skilja þannig að ég teldi presta eina vera færa um að veita hana.

Ég vil því lýsa því yfir að svo er alls ekki.

Það sem ég sagði missti ég út úr mér og hefði ekki látið frá mér fara ef ég hefði haft u.þ.b. 10 sekúndur í viðbót til að velta því fyrir mér. Valgarður Guðjónsson, vinur minn og liðsfélagi í sigurliði Popppunkts frá því í fyrra, fullyrðir í bloggfærslu að ég hafi beinlínis “drullað yfir heila stétt vel menntaðs fagfólks.”

Hafi orð mín verið skilin þannig, eins og ég sé að var hægt að gera, biðst ég afsökunar á þeim og tek þau aftur. Það vakti alls ekki fyrir mér að gera lítið úr sálfræðingum og félagsráðgjöfum sem veita áfallahjálp eða “drulla yfir” menntun þeirra og þekkingu. Ég tek undir þau orð Valgarðs að þarna er vel menntað fagfók á ferðinni.

Mér til málsbóta vil ég benda á að orðin voru látin falla einmitt vegna þess að mér ofbauð hvernig mér hefur sýknt og heilagt fundist mín eigin menntun og þekking vera töluð niður. Ég efast satt að segja um að viðlíka veiðileyfi hafi verið gefið út á nokkra fræðigrein og hvaða sótraftur sem er þykist hafa á guðfræðina. Þetta lýsir sér t.d. í því þegar talað er um “vel menntað fagfólk” annars vegar og presta hins vegar, rétt eins og prestar og guðfræðingar séu ekki vel menntað fagfólk. Mér hefur nánast fundið vera gefið í skyn að þeir séu aðeins einhverjir ótýndir fúskarar, gott ef ekki hreinir og beinir kuklarar, þegar sálgæsla og áfallahjálp eru annars vegar.

Staðreyndin er sú að í prestastéttinni er mikil og góð samsöfnuð reynsla og þekking á áfallaljálp og sálgæslu. Fjöldi manns, sem þegið hefur þá þjónustu, getur vitnað um það. Að mínum dómi er ljótt að meina fólki að njóta góðs af þessari þekkingu vegna þess eins að það eru prestar sem búa yfir henni, jafnvel þótt um sé að ræða sálgæslu í skólum eða öðrum opinberum stofnunum. Prestar kunna nefnilega meira en að tóna.

Sumir kunna það ekki einu sinni.

Að plata fólk í Þjóðkirkjuna

Valgarður fer einnig mikinn í minn garð í þessari bloggfærslu þar sem hann tekur stöðuuppfærslu frá mér, þar sem ég hvet fólk til að skrá sig í Þjóðkirkjuna fyrir 1. des, og tætir í sig rökleysurnar í henni. Gott og vel. Hún var full af rökleysum, enda ekki hugsuð sem röksemd í opinberri umræðu heldur sem stöðuuppfærsla á Facebook. Henni var ætlað að hræra upp í fólki – sem virðist hafa tekist.

Mér finnst óneitanlega hlægilegt að þessi viðbrögð skuli koma frá Vantrúarmanni, en þar á bæ hafa menn einmitt verið óhræddir við að beita ýmsum meðulum til að hafa (óeðlileg?) áhrif á trúfélagaskráningu annarra. Kannski sárnar honum svona mikið að tveir skuli geta leikið þennan leik.

En það er reyndar eitt aðalsmerki kristindómsins að geta tekið góðar hugmyndir frá heiðingjum, s.s. jól, gefið þeim kristið inntak og gert þær að sínum. Hví skyldi ekki mega reka áróður fyrir því að fólk skrái sig í Þjóðkirkjuna fyrst ekkert er eðlilegra en að rekinn sé áróður fyrir því að fólk skrái sig úr henni?

Auðvitað tekur ríkisstjórnin ekki sóknargjöldin og gefur sægreifunum þau eða notar þau til að borga mönnum fyrir að brenna bækur eða skemma málverk, eins og skilja mátti Facebookfærslu mína ef hún hefði verið tekin bókstaflega. Og auðvitað vakti ekki fyrir mér að narra neinn í Þjóðkirkjuna sem ekki á trúarlega samleið með henni. Í niðurlagi þessarar stöðuuppfærslu var ég bara að fá smá útrás fyrir andúð mína á anti-intellektúalismanum sem núverandi ríkisstjórn menningarsnauðra troglódýta aðhyllist. Alltjent held ég að við getum bókað að sóknargjöldin sem renna í ríkissjóð verði ekki notuð til að auka stuðning við menningu og listir. Maður hlýtur að mega rasa aðeins út í stöðuuppfærslum á Facebook án þess að vera tekinn svona glæpsamlega alvarlega.

Eftir stendur þó að ég þekki marga sem sagt hafa sig úr Þjóðkirkjunni af öðrum ástæðum en trúarlegum. Sjálfur sagði ég mig úr henni fyrir alllöngu síðan af pólitískum ástæðum. Ég gekk í hana aftur af því að þrátt fyrir allt fann ég trúarþörf minni farveg innan hennar. En það átti líka stóran þátt í þeirri ákvörðun minni að ganga aftur í Þjóðkirkjuna að í opinberri tölfræði var ég, sem sannarlega áleit mig kristinn, með því að standa utan trúfélaga orðinn einn af skjólstæðingum Vantrúar. Alltjent túlkuðu þeir það þannig í einhverri grein sem ég las á síðunni þeirra að allir sem stæðu utan trúfélaga væru trúlausir, a.m.k. ekki kristnir.

Staðreyndin er sú að ef þróunin fer ekki að snúast við hvað varðar úrsagnir úr Þjóðkirkjunni þá er sunnudagaskólinn í uppnámi. Barna- og æskulýðsstarf kirkjunnar er í uppnámi. Félagsstarf eldri borgara er í uppnámi ásamt menningarstarfi kirkjunnar, tónlistarstarfi, fræðslustarfi og þar fram eftir götunum. Sú þjónusta sem sóknirnar veita í nærsamfélaginu getur einfaldlega lagst af. Þess vegna eru úrsagnirnar svo sorglegar.

Kannanir hafa nefnilega sýnt að almenn ánægja er með grasrótarstarf kirkjunnar. Flestir eru ánægðir með sinn prest og starf sinnar kirkju í sínu hverfi. Óánægjan er með annað. Fólk virðist ekki gera sér grein fyrir því að sóknargjöldin renna til sóknanna og úrsagnir bitna því aðeins á því starfi kirkjunnar sem almenn ánægja er með.

Þess vegna vil ég endurtaka orð mín og tala skýrar í þetta sinn:

Ég hvet kristið fólk, sem skráð hefur sig úr Þjóðkirkjunni vegna óánægju með framgöngu sem nú hefur verið lögð af eða annað sem nú er búið að laga, til að skrá sig í Þjóðkirkjuna fyrir 1. desember næstkomandi af því að trúfélagaskráning þann dag ræður því hvort sóknargjöld viðkomandi næsta árið (sem verða innheimt hvort sem honum eða henni líkar betur eða verr) renna til starfsemi kirkjunnar í nærsamfélagi hans eða hennar, til annars trúar- eða lífsskoðunarfélags eða í ríkissjóð.

Það hvort rétt sé að standa með þessum hætti að innheimtu sóknargjalda er síðan allt önnur umræða sem ég ætla ekki út í hér.

Ég verð samt að segja að mér finnst ansi mikið í lagt hjá Valgarði að kalla þessa einu stöðuuppfærslu mína og svo nokkur orð hjá Gísla Marteini (og nú þessa bloggfærslu) “svakalegan áróðurssöng sem felst í því að reyna að narra fólk með öllum tiltækum ráðum til að skrá sig í Þjóðkirkjuna.”

Ég þakka hólið.

Pönkarinn frá Nasaret

Mig langar að gamni mínu að bæta því við að ég vildi samt óska að Valgarður Guðjónsson, sem lengi hefur verið einn af mínum uppáhaldstónlistarmönnum, gæfi pönkaranum frá Nasaret aðeins meiri séns.

Jesús var nefnilega ekki tekinn af lífi af því að hann var svo vinsæll og dáður af valdhöfum. Hann var tekinn af lífi af því að hann ruggaði bátum sem ekki mátti rugga. Hann ruddist inn í musterið – í sjálfu musterisveldinu – rak út víxlarana og prangarana, sem þar voru að arðræna fátækt fólk. Systemið var meira að segja þannig að fjölskylda æðstaprestsins hafði einkarétt á þessu arðráni. Auðvitað var þetta ekki líklegt til vinsælda. Jesús var tekinn af lífi af því að hann sagði sannleika sem ekki mátti segja, að valdhafar höfðu gert hús Guðs að ræningjabæli.

Aldrei hefur nokkur maður sagt “Fuck the system” með afdrifaríkari hætti.

Hann galt fyrir það með lífi sínu.

Og við erum enn að tala um það.

Sjálfsmorðssiglingin

Aftur á móti vakti það athygli mína að um leið og ég fór að ræða það sem mér þótti áhugaverðara frá nýyfirstöðnu kirkjuþingi en ræða innanríkisráðherra þá tóku aðrir þátttakendur í umræðunni að “sóna út”.

Kirkjuþing er samkoma sem samanstendur af 12 vígðum þjónum kirkjunnar og 17 leikmönnum. Það höndlar með praktísk mál Þjóðkirkjunnar. Kirkjuþing samþykkti að beina þeim tilmælum til innanríkisráðherra að hún breyti lögum um stöðu, stjórn og starfshætti Þjóðkirkjunnar á þann hátt að þar sé tekið fram að kirkjuþing sé æðsta vald í málefnum Þjóðkirkjunnar og að það hafi á hendi fjárstjórnarvald hennar.

Þetta er að mínu mati til mikilla bóta og skref í rétta átt. Ég er nefnilega þeirrar skoðunar að megnið af vanda Þjóðkirkjunnar megi rekja til innra skipulags hennar.

Þegar ný Þjóðkirkjulög voru samþykkt árið 1997, sem átti að heita skref í þá átt að aðskilja ríki og kirkju, færðust mörg verkefni úr Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu til kirkjunnar. Af einhverjum ástæðum lentu þau öll á borðinu hjá biskupi og í kjölfarið varð Biskupsstofa að stórum vinnustað.

Við þetta varð biskupsembættið aftur á móti að einhverjum bastarði sem ekkert á skylt við lútherskan embættisskilning. Marteinn Lúther myndi snúa sér við í gröfinni ef hann frétti að biskup kirkju, sem kallar sig lútherska, hefði með höndum æðsta vald í veraldlegum málum hennar. Það er á skjön við allt sem siðbót hans og kirkjuskilningur gekk út á.

Þessi samþykkt er því “lúthersk leiðrétting” á embættisskyldum biskups.

Biskupsembættið hefur nefnilega verið í hálfgerðum vitleysingsgangi síðan 1997.

Hvað er biskup? Er hann framkvæmdastjóri kirkjunnar? Er hann trúarlegur leiðtogi hennar? Er hann fjölmiðlafulltrúi hennar? Almannatengill? Er hann þetta allt í einu? Er hægt að vera þetta allt í einu? Er hægt að vera góður í þessu öllu?

Sannlúthersk kirkja er lýðræðisleg fjöldahreyfing, ekki hírarkísk stofnun. Sannlúthersk kirkja er ekki miðstýrður valdapýramídi heldur lárétt grasrótarlýðræði. Sóknarbörnin eru æðsta vald í veraldlegum málefnum sannlútherskrar kirkju, biskup í trúarlegum.

Kirkjuþing er samkoma þar sem fulltrúar sóknarbarna eru í meirhluta og taka ákvarðanir um veraldleg mál kirkjunnar, s.s. starfsreglur um val og veitingu prestsembætta, um prestsetur og aðrar fasteignir Þjóðkirkjunnar, sameiningu prestakalla o.s.frv. Sú athugasemd Sóleyjar Tómasdóttur í þætti Gísla Marteins að kirkjan og umræðan innan hennar snúist um völd er því ekki fyllilega réttmæt. Það er einfaldlega svo að skipulag Þjóðkirkjunnar er viðfangsefni kirkjuþings. Í því felst að ákveða hvar fjárstjórnar- og framkvæmdavald hennar á að liggja. Sú umræða hlýtur eðlilega að snúast um völd. Sóley var því í raun að álasa kirkjuþingi fyrir að vinna vinnuna sína.

Með því að losa biskup Íslands undan framkvæmda- og fjárstjórnarvaldi verður hann/hún hins vegar frjáls að því að vera það sem lútherskur biskup á að vera – andlegur leiðtogi. Hann/hún getur því einfaldlega sagt næst þegar veraldleg mál ber á góma: “Ég er biskupinn. Ég skal svara öllum þínum trúarlegu og andlegu spurningum með hinni mestu ánægju. En ef þú vilt tala um peninga eða skipulagsmál kirkjunnar verð ég að vísa þér á framkvæmdastjórann sem hefur með höndum hina veraldlegu umsýslu kirkjunnar.”

(Þá er ég að gera ráð fyrir því að í trúfrjálsu fjölhyggjusamfélagi þar sem ríki og kirkja hafa verið aðskilin – samfélag sem siðbótarmennirnir sáu ekki fyrir á 16. öldinni (enda ríkti víðast hvar í Evrópu trúarnauðung langt fram á 19. öld) – tæki veraldlegur framkvæmdastjóri að sér hlutverkið sem lúthersk kirkjuskipan ætlaði greifanum, konunginum eða kirkjumálaráðherra en alls, alls ekki biskupi.)

Þá fer umræðan kannski að snúast um það sem hún á að snúast um – en ekki völd.

Kannski myndu færri sóknarbörn segja sig úr Þjóðkirkjunni vegna óánægju með yfirstjórn hennar ef völdin væru ekki þar heldur hjá sóknarbörnunum. Kannski myndu færri segja sig úr Þjóðkirkjunni ef fólk hefði það ekki á tilfinningunni að það sé það eina sem það getur gert til að hafa áhrif á hana. Kannski myndu fleiri gefa þannig kirkju séns sem vettvangi fyrir andlegar og þarfir sínar og trúarlegar iðkanir.

Þess vegna er þessi samþykkt að mínu mati stærra skref í rétta átt en vakin hefur verið athygli á. Ekki er einasta að þetta samræmist lútherskum embættis- og kirkjuskilningi heldur er þetta einmitt fyrsti vísirinn að þeim breytingum sem þarf að gera á íslenskri kirkjuskipan til að snúa við þeirri sjálfsmorðssiglingu sem Þjóðkirkjan hefur verið á undanfarin 20 ár eða svo.

Þjóðkirkjan er að mínu mati fyrst og fremst að sökkva undan sínum eigin gervikaþólska infrastrúktúr.

Þegar við köllum okkur kristin og lúthersk þá erum við að kenna okkur við tvo menn sem eiga það sameiginlegt að hafa kollvarpað kirkjuskipan samtíma síns.

Ef það er eitthvað sem kirkjuskipan samtíma okkar þarf á að halda þá er það einmitt að henni sé kollvarpað.

Annars sökkvum við.

Read Full Post »