Feeds:
Færslur
Athugasemdir

Archive for desember, 2014

simeonGuðspjall:

„En er hreinsunardagar þeirra voru úti eftir lögmáli Móse fóru þau með hann upp til Jerúsalem til að færa hann Drottni, en svo er ritað í lögmáli Drottins: „Allt karlkyns, er fyrst fæðist af móðurlífi, skal helgað Drottni,“ og til að bera fram fórn, eins og segir í lögmáli Drottins, „tvær turtildúfur eða tvær ungar dúfur“. Þá var í Jerúsalem maður er Símeon hét. Hann var réttlátur og guðrækinn og vænti þess að Guð frelsaði Ísrael. Heilagur andi var yfir honum og hafði hann vitrað honum að hann skyldi ekki deyja fyrr en hann hefði séð Krist Drottins. Að leiðsögn andans kom hann í helgidóminn. Og er foreldrarnir færðu þangað sveininn Jesú til að fara með hann eftir venju lögmálsins tók Símeon hann í fangið, lofaði Guð og sagði:
Nú lætur þú, Drottinn, þjón þinn í friði fara
eins og þú hefur heitið mér
því að augu mín hafa séð hjálpræði þitt,
sem þú hefur fyrirbúið í augsýn allra lýða,
ljós til opinberunar heiðingjum
og til vegsemdar lýð þínum Ísrael.“
(Lúk 2.22-32)

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Af hverju erum við hérna?

Ég meina ekki „hér á jörðinni“. Þetta er ekki stór existensíalísk spurning. Ég meina bara „hérna í kirkjunni“. Núna.

Hvað erum við að gera hérna? Hvað gerði það að verkum að við sáum ástæðu til að fara að heiman í morgun til þess að verja um það bil 45 mínútum af lífi okkar hér í þessu húsi? Þessum tíma hefðum við hæglega getað varið í eitthvað annað. Það er sunnudagur á milli jóla og nýárs og það er ekki komið hádegi. Við hefðum alveg getað ákveðið að dóla okkur bara frekar heima á náttfötunum og ekki þurft að afsaka það fyrir neinum. Gleymt okkur í lestri góðrar bókar, unað okkur í faðmi fjölskyldunnar, horft á mynd á diski eða bara á sjónvarpið. Í þessum töluðum orðum er verið að sýna Vaska grísinn Badda í Sjónvarpinu.

Af hverju laut vaski grísinn Baddi í lægra haldi fyrir Jesú Kristi í samkeppnini um tíma okkar og athygli í dag?

Ég ætlast ekki til þess að þið svarið þessari spurningu. Ég ætla ekki að biðja ykkur að rétta upp hönd og velja svo einhvern úr hópnum til að svara henni eins og kennari í skólastofu. Mig langar bara til að biðja ykkur að velta henni fyrir ykkur.

Af hverju? Hvað er það sem dregur mig hingað núna?

Kannski eigið þið ekkert svar við þessari spurningu. Og það er allt í lagi. Þið skuldið engum útskýringu á því. Þið þurfið ekkert að hafa einhverja réttlætingu á reiðum höndum fyrir því að þið ákveðið að fara í kirkju á sunnudegi. Ástæður ykkar koma ykkur einum við.

Þið þurfið ekkert að vera miður ykkar yfir því að vita ekki rétta svarið. Engum ber skylda til að vita upp á hár hvernig sannlúterskur rétttrúnaður skilgreinir það hvað eigi að vera hvöt hins almenna sóknarbarns til þess að fara í kirkju.

Það er ekki til neitt rétt svar við þessari spurningu. Ástæðurnar kunna að vera jafnmargar og þið eruð. Vonandi langaði ykkur … svo vitnað sé í upphafsbænina sem alla jafna er lesin hér við guðsþjónustur … að heyra hvað Guð vill við ykkur tala í sínu orði og taka framförum í kristilegu hugarfari og líferni.

En kannski varstu bara læst úti og vantaðir einhvern stað í sæmilegri hlýju til að bíða þess að einhver kæmi til þín með aukalykilinn. Ef svo er … hjartanlega velkomin. Þú hefðir getað fundið verri stað til að hanga á.

Kannski ertu kominn gagngert í þeim erindagjörðum að finna veikan blett á prédikuninni, til að geta notað rökvillur prestsins til að gera lítið úr kristinni trú og kirkjunni. Ef það er tilfellið … tja … þá ertu alla vega kominn til þess að hlusta. Velkominn.

Fyrst og síðast þá er ástæðan … þín. Og hún er á milli þín og Guðs. Hún er ekki á milli þín og prestsins eða þín og sessunautar þíns.

Ástæður þínar breyta ekki því sem hér er í boði; lofgjörð, bæn, þakkargjörð, boðun og vonandi einhver huggun. Ég get aðeins vonað að þú sért hingað kominn til að þiggja og meðtaka eitthvað af þessu. Þetta er það sem við bjóðum. Ég get ekki skoðað hjarta þitt við innganginn og vísað þér á dyr ef mér finnst þú vera kominn hingað á röngum forsendum. Hér þarf ekki að framvísa því sem býr í hjartanu eins og einhverjum persónuskilríkjum til að vera hleypt inn.

En vonandi ertu kominn til að hlusta. Vonandi ertu kominn til að taka þátt. Ef það er einlæg löngun þín að taka framförum í kristilegu hugarfari og líferni þá ertu á réttum stað. En það gerist þó ekki sjálfkrafa með því að mæta í kirkju ef síðan er setið úti í horni og hangið í símanum. Rétt eins og skólaganga og menntun eru sitt hvað þá er kirkjusókn og kristilegt hugarfar sitt hvað. Annað getur vissulega veitt hitt, en ekki inn í lokaðan huga.

Viska Amyar

Í blöðum og tímaritum er gjarnan dálkur þar sem ráðagóð manneskja svarar aðsendum spurningum lesenda. Ein slík nefnist Amy Dickinson. Hún svarar bréfum lesenda dagblaðsins Chicago Tribune í Bandaríkjunum. Í maí á þessu ári barst henni bréf sem var svohljóðandi í styttri útgáfu:

„Kæra Amy.

Á hverju hausti fer ég í verslanaferð með tveim systra minna, frænkum og vinkonum. Við gistum á fínu hóteli og látum ýmislegt eftir okkur í mat og drykk. Við eigum eina systur enn sem heitir Wendy, en henni er ekki boðið með. Hún tekur það mjög nærri sér. Wendy tengist þessum frænku- og vinkvennahópi ekki eins mikið og við hinar systurnar. Við erum allar giftar og heimavinnandi. Wendy er fráskilin einstæð móðir sem vinnur úti.

Það eru ýmsar ástæður fyrir því að henni er ekki boðið með. Fyrir það fyrsta þá hefur hún ekki efni á því sama og við. Auk þess hefur hún önnur áhugamál. Líf hennar er mjög ólíkt okkar. Hún kvartar mikið undan verkjum og segist vera með einhvern taugasjúkdóm sem okkur grunar að sé nú bara ímyndun og hún noti hann sem afsökun fyrir að fara ekki í kirkju á sunnudögum. Hún kvartar líka mikið undan fyrrverandi eiginmanni sínum sem fór frá henni vegna annarrar konu, en allir vita að það þarf tvo í tangó og auðvitað á hún einhverja sök á því sjálf hvernig fór.

Við erum allar mjög virkar í kirkjunni okkar en hún mætir aðeins endrum og sinnum. Hún einfaldlega passar ekki inn í hópinn. Hún tekur þetta mjög nærri sér og í fyrra kom hún meira að segja heim til mín án þess að gera boð á undan sér og grét út af þessu, sem kom mér og börnunum í uppnám og gerði það að verkum að eiginmaður minn varð að hóta að hringja á lögregluna ef hún færi ekki.

Nú talar hún varla við mig og hefur sagt ættingjum okkar að ég sé hræðileg manneskja. Hvernig get ég látið hana skilja að hún ætti kannski að finna sér aðra vini sem hún á meira sameiginlegt með?

Undirritað: Sorgmædd systir.“

Hvernig skyldi Amy Dickinson nú hafa svarað þessu bréfi? Fylltist hún ekki hluttekningu? Fann hún ekki til með bréfritara í þessu vandræðamáli og gróf upp einhver holl ráð til að losa hana úr þessari klípu? Sagði hún henni ekki að bjóða henni í heimsókn ásamt einhverjum öðrum einstæðum mæðrum með lítil fjárráð og lítinn áhuga á kirkjusókn í von um að þær smyllu saman og yrðu bestu vinkonur upp frá því og tækju þessa vandræðasystur svo að segja af höndum hennar? Hún yrði vandamál einhverra annarra?

Nei. Það vill nefnilega þannig til að Amy Dickinson reyndist, alltjent í þessu tilviki, starfi sínu vaxin. Svar hennar var svohljóðandi:

„Kæra sorgmædda systir.

Ég vil byrja á að gera það alveg ljóst að ég er sammála systur þinni. Þú ert hræðileg manneskja. Auðvitað ræður þú því sjálf hvað þú gerir og með hverjum þú verð tíma þínum og hverja þú útilokar úr lífi þínu, en þú kemst ekki upp með að gera það og skella skuldinni á þann sem þú útskúfar fyrir að passa ekki í hópinn.

Það er deginum ljósara að eina ástæðan fyrir því að systir þín passar ekki í hópinn er sú að þú sérð enga ástæðu til að búa til pláss fyrir hana í honum. Þér er frjálst að gera það. Það er þitt val. En þú hefur engan rétt til að áfellast hana fyrir að sárna slík framkoma hjá systur sinni. Ef þér finnst erfitt að lifa með því er það þitt vandamál.

Kannski er þetta eitthvað sem þú gætir hugleitt næst þegar þú ferð í kirkju, því þótt þú segist fara þangað mjög oft virðistu ekki hafa lært nokkurn skapaðan hlut á því.“

Ég ætla ekki að segja að Amy Dickinson hefði ekki getað komið þessum skilaboðum á framfæri með mildilegra orðfæri. Ég ætla ekki að taka undir með henni að systirin sé hræðileg manneskja. Afvegaleidd, já. Jafnvel villuráfandi. En ég held að enginn sé beinlínis hræðileg manneskja, í versta falli afvegaleidd manneskja á hræðilegan hátt. En ég tel ljóst að Amy Dickinson hafi verið með grundvallaratriði kristilegs hugarfars og lífernis töluvert mikið meira á hreinu en kirkjurækna systirin sorgmædda sem ritaði bréfið.

Á ég að gæta systur minnar?

Við stöndum enn í dag frammi fyrir hinni fornu spurningu. Einni fyrstu spurninganna sem maðurinn spurði Guð: „Á ég að gæta bróður míns?“ Í þessu tilfelli reyndar systur. Og svarið var himinhrópandi „Já!“

Samt erum við enn í dag að finna leiðir til að réttlæta það gagnvart trú okkar og siðferði að aðrir komi okkur ekki við. „Hver er sinnar gæfu smiður,“ segjum við, en gleymum því að sumir hafa aðgang að miklu vandaðara hráefni og betri verkfærum en aðrir, án þess að hafa lagt neitt af mörkum til þess að eiga það skilið. „Svo uppsker hver sem hann sáir,“ segjum við og leiðum hugann ekki að því að sumir fá meira og betra útsæði og frjórri jarðveg til að sá í en aðrir, án þess að hafa til þess unnið.

Svo upptekin erum við stundum af því að finna leiðir til að þurfa ekki að gæta bróður okkar að við gleymum jafnvel af hverju maðurinn spurði spurningarinnar til að byrja með og hvernig Guð svaraði henni nákvæmlega. Maðurinn spurði af því að hann vissi ósköp vel að bróðirinn lá örendur úti á akrinum, hann hafði myrt bróður sinn sjálfur. Og Guð svaraði: „Blóð bróður þíns hrópar til mín af jörðinni.“

Við erum, ef marka má okkar hefðbundnu upphafsbæn, hingað komin meðal annars til þess að taka framförum í kristilegu hugarfari og líferni. Systirin sem ritaði bréfið hélt að það væri nóg að láta sjá sig til að vera komin með vottorð upp á að það að hún gæti hagað sér eins og henni hentaði því hún væri svo góð manneskja að mæta í kirkju. Það er ekki í boði hér. Hér eru ekki veitt siðferðileg heilbrigðisvottorð fyrir það eitt að láta sjá sig.

Því er ég að tala um þetta að fólkið sem við heyrum um í guðspjallstexta dagsins er með það alveg á kristaltæru hvert erindi þeirra er í musterið. Jósef og María eru þangað komin til að færa þakkargjörð, þakka Guði fyrir þá blessun sem nýfædda barnið þeirra var. Það var gert með fórnargjöf, tveimur turtildúfum eða tveim ungum dúfum. Símeon var kominn til að líta augum hjálpræði Drottins. Hann tók Jesúbarnið í fangið og söng lofsöng.

Þakkargjörð og lofgjörð.

Það er í boði.

Bæn, lofgjörð, þakkargjörð, ritningarlestur og útlegging sem saman ná vonandi að blása í einhverjar glæður skilinings á því hvað felst í kristilegu hugarfari og líferni, sem saman ná vonandi að veita hrelldum huga einhverja svölun eða huggun, sem saman ná kannski að veita göfgandi og mannbætandi tilfinningum á borð við þakklæti og auðmýkt inn í huga okkar og sálir.

Þetta er allt í boði.

En ekkert af þessu verður barið inn í hausinn á okkur. Engu af þessu verður troðið inn í hjörtu sem ekki vilja veita því viðtöku.

En ef við viljum getum við öll á ákveðin hátt verið Símeon. Að leiðsögn andans komum við í helgidóminn og tökum Jesúbarnið okkur í fang. Við leggjum það að brjósti okkar. Við hleypum því inn í hjörtu okkar og veitum því þar skjól.

Það er í boði.

Ef við viljum.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er enn og verður um aldir alda.

Amen.

Prédikun flutt við messu í Eskifjarðarkirkju 28. 12. 2014

Read Full Post »

shepherd

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Jólin eru komin. Þessi árvissi gleðigjafi í miðju svartasta skammdeginu. Við fögnum því að daginn tekur að lengja og notum það tilvalda tákn úr gangi náttúrunnar, sigur ljóssins á myrkrinu, til að minnast þess þegar ljós lífsins, Jesús Kristur, kom í heiminn. Því staðreyndin er auðvitað sú að við höfum ekki hugmynd um það á hvaða árstíma Jesús frá Nasaret fæddist.

Við gefum gjafir, förum í sparifötin, eldum góðan mat og kýlum kviðinn. Greniangan fyllir vitin, nema þar sem ilmur af hangikjöti, rjúpum eða laufabrauði yfirgnæfir hann. Við vonum að við fáum hvít jól, af því að það er svo jólalegt, en þó ekki svo hvít að við komumst ekki ferða okkar. Passlega hvít skulu þau vera. Á jólunum á allt að vera fullkomið.

Jólin eru ekki tími þegar við veltum við borðum víxlaranna. Við stingum ekki á kýlum eða vörpum ljósi á meinsemdir samfélagsins. Jólin eru ekki tími hvassrar félagslegrar ádeilu eða vægðarlausrar gagnrýni. Á jólunum ruggum við ekki bátum, við ögrum ekki félagslegum viðmiðum eða storkum viðteknum hefðum.

Nei, jólin eru tími friðar og sáttar. Allir eru vinir á jólunum. Og jólin skulu vera eins í ár og þau voru í fyrra og árið þar áður og þar áður, alveg síðan við vorum lítil börn sjálf. Alla ævi leitumst við við að endurskapa okkar bernskujól. Spurningar á borð við „Hvernig gerir þú þetta eða hitt á jólunum?“ eða „Hvernig ert þú vanur eða þið vön að hafa þetta á jólunum?“ eiga sér yfirleitt alveg ákveðin svör. Mjög fáir svara: „Tja, það er nú misjafnt. Það fer eftir ýmsu.“

Á jólunum sækjum við nefnilega öryggi og huggun í ritúalið – það að gera hlutina alltaf eins. Þörf fólks fyrir ritúöl og hefðir sem uppsprettu einhverrar öryggiskenndar, fyrir fastan póst í tilverunni, nær langt út fyrir mörk skilgreindra trúarbragða og lífsskoðana.

Jólin eru prúðbúin, slétt og felld.

Við höllum okkur aftur og njótum þess að heyra helgisöguna fallegu, frásögn Lúkasar af fæðingu Jesúbarnsins: „En það bar til um þessar mundir að boð kom frá Ágústusi keisara …“ og svo framvegis.

En málið er að sú frásögn er ekkert mjög slétt og felld. Hún er ekki um prúðbúið fólk að kýla kviðinn á kræsingum í skreyttum stássstofum. Hún er ekki um Guð sem kemur í kirkju til að mæta söfnuði sínum sem bíður hans þar í sparifötunum.

Þegar grannt er skoðað segir annar kafli Lúkasarguðspjalls frá fólki sem hrakist hafði undan gullgrafarahugarfari samferðafólks síns til að leita sér skjóls í gripahúsi af því að það var ekki rúm fyrir þau í gistihúsinu.

Sagan segir að í Betlehem hafi verið mikil umferð ferðamanna. Gera má sér í hugarlund hvort þessi holskefla aðkomumfólks hafi ekki haft einhver áhrif á verðlagið á gististöðunum á staðnum, sem alls ekki hafa náð að anna þessari óeðlilega miklu eftirspurn. Það hefur varla verið á færi annarra en ríka og fína fólksins að fá inni á sómasamlegum stað. Fátækur smiður frá Galíleu, með kasólétta unnustu, vart komna af barnsaldri, átti auðvitað aldrei séns.

Þessi saga er um það hvar Guð kýs að birtast mönnum. En það er bara á yfirborðinu sem textinn segir okkur hvar á yfirborði jarðar hann birtist. Í raun er sagan um það hvar í samfélaginu Guð birtist mönnum. Og Guð birtist mönnum einmitt þar sem hans er síst von – en mest þörf.

Sagan er um Guð sem tilkynnir þeim, sem töldust til mannlífssorans á sínum tíma, að þeim sé frelsari fæddur. Hún er um Guð sem segir þeim útskúfuðu og fyrirlitnu að vera óhræddir. Hún er ekki um Guð sem birtist þeim sem bíða hans, heldur hinum – sem hafa gefist upp á honum.

Botn samfélagsins

Við erum alin upp við hugmyndir um fjárhirða sem sællega og rjóða smaladrengi, en nú vitum við að þær hugmyndir eru alrangar. Á dögum Jesú frá Nasaret voru fjárhirðar lægsta stétt samfélagsins. Fjárhirðar urðu aðeins þeir sem enga almennilega vinnu fengu. Fjárhirðar voru álitnir óheiðarlegir lygarar og þjófar. Vitnisburður fjárhirða var ekki tekinn gildur fyrir dómstólum og vitað er um dæmi þess að fjárhirðum hafi einfaldlega verið óheimill aðgangur að bæjum og borgum, þeir voru einfaldlega skikkaðir til að halda sig utan borgarmarkanna. Trúarleg yfirvöld voru sérstaklega gagnrýnin á fjárhirða því skyldur þeirra komu í veg fyrir að þeir gætu haldið hvíldardaginn heilagan svo sem sanntrúuðum gyðingum bar og þar af leiðandi voru þeir „óhreinir“. Farísearnir, fyrirmyndarborgararnir, flokkuðu fjárhirða með vændiskonum og tollheimtumönnum, fólki sem var syndugt vegna atvinnu sinnar.

Ekkert af þessu kom þó í veg fyrir að prestarnir, farísearnir og hitt fína fólkið nyti afurðanna. Þau voru kannski of fín til að umgangast fjárhirða, en þau voru ekki of fín til að snæða lambakjöt. Þetta er kallað hræsni. Rétt eins og nú á dögum þegar við fordæmum barnaþrælkun hörðum orðum en kaupum okkur svo ódýrustu flíkina í erlendu stórversluninni án þess að velta fyrir okkur upprunalandinu eða ástæðum þess að flíkin getur verið svona ódýr.

Við þurfum ekkert að velta því fyrir okkur hvaða áhrif það hefur á fólk að vera í þeirri félagslegu stöðu sem fjárhirðar í Palestínu voru í á fyrstu öld okkar tímatals. Þvi miður. Þetta fólk er nefnilega enn á meðal okkar. Flökkulýður, Roma-fólk, sígaunar … Við getum einfaldlega aflað okkur beinharðra upplýsinga um það. Það hefur verið rannsakað.

Sá sem þekkir ekkert annað en að vera botn samfélagsins, fyrirlitinn og útskúfaður, fer smám saman að líta á það sem eðlilegt hlutskipti sitt … og bregst ekki væntingum. Ef ég er á annað borð er álitinn þjófur, hví að valda fólki vonbrigðum? Það er ekki eins og ég eigi mér viðreisnar von hvort sem er. Það er ekki eins og ég eigi einhvern möguleika á að sýna fram á að orðsporið sem fer af mér sé rangt. Samfélagið setur mig í hlutverk og áður en ég veit af er ég farinn að leika það af innlifun.

Hvernig skyldi kúltúr fjárhirðanna hafa verið? Skyldu þeir sín á milli hafa rökrætt af skynsemi og yfirvegun hve þeim sárnaði og sveið hið samfélagslega óréttlæti sem þeir urðu fyrir barðinu á eða skyldu þeir hafa verið meira fyrir að stæra sig af afrekum sínum á sviði ýmiss konar óheiðarleika og uppátækja? Hvort ætli sé líklegra að þeir hafi myndað óheflað testósterónsamfélag ómenntaðra karla sem breiddu yfir vanmátt sinn með mannalátum – eins og við þekkjum enn í dag hjá svipuðum hópum – eða verið blíðir, næmir, tilfinningaríkir og skilningsríkir einlægir sálufélagar hver annars? Ég læt þeirri spurningu ósvarað.

Ég veit aðeins að sá sem þekkir ekkert annað en að hann sé ekki bara í neðsta þrepi samfélagsstigans heldur líka í neðsta sæti vinsældalistans hjá Guði hann fer smám saman að trúa því sjálfur: „Guð hefur hafnað mér. Hann vill ekkert með mig hafa. Hann lítur ekki við mér. Það má vera að hann sé í góðu sambandi við ríka og fína fólkið, en hann kemur mér ekki við og ég kem honum ekki við.“ Og sú lífsafstaða kann að setja sitt mark á framkomu manna og atferli.

En það er þessi hópur manna sem Guð sendir engil til að tilkynna þeim að frelsari sé fæddur. Prestana og faríseana, sem beðið höfðu komu messíasar með öndina í hálsinum, hunsaði hann algerlega. Frelsarinn birtist ekki í musterinu, hvorki í musteri hins andlega né hins veraldlega valds, þar sem allt var til reiðu fyrir komu hans, heldur í líki bláfátæks hvítvoðungs sem lagður var í jötu innan um búfénað. Og svo bætir Guð gráu ofan á svart með að leita uppi þann versta trantaralýð – í augum góðborgaranna – sem hann gat fundið til að flytja fagnaðarerindið: „Barn er oss fætt. Sonur er oss gefinn.“

Farísearnir og fína fólkið hefðu hlegið ef þeim hefði verið sagt þetta, að frelsarinn hefði fæðst í fjárhúsi og að fjárhirðar hefðu verið valdir til að meðtaka gleðifréttina, svo fáránlega langsótt og súrrealískt hefði þeim fundist það. Og hafi broddborgunum komið þetta á óvart var það þó ekkert í líkingu við það hve gjörsamlega í opna skjöldu þetta kom fjárhirðunum sjálfum. Enda urðu þeir skelfingu lostnir. Í þeirra huga gat Guð ekki átt annað erindi við þá en að ná sér niðri á þeim, veita þeim makleg málagjöld.

En erindi Guðs var allt annað.

Til þín

Þannig er sagan ekki bara um það hvar í samfélagi manna Guð birtist. Hún er líka um það hvar í lífi þínu Guð birtist þér, hvenær þú þarft á Guði að halda.

Hann kemur nefnilega ekki endilega til þín þar sem þú situr í kirkjunni í sparifötunum á jólunum. Hann kemur ekki endilega til þín á mestu gleðistundum í lífi þínu, hann fagnar ekki endilega stærstu sigrunum með þér eða klappar þér á bakið yfir stærstu afrekum þínum. Enda er nóg af öðrum sem eru reiðubúnir til þess.

Kannski gerir hann þetta allt … en ekki endilega.

Guð elskar þig nefnilega ekki mest þegar þú ert vinsælastur, dáðastur og elskaðastur af öðrum. Guð elskar þig þegar þú þarft virkilega á kærleika hans að halda.

Þegar þú ert á botninum, kannski ekki endilega botni samfélagsstigans heldur þínum persónulega botni, hver sem hann er og af hvaða völdum sem hann kann að vera, þá stendur engill Guðs við hliðina á þér.

Og þú átt kannski von á því að hann segi: „Hvað sagði ég ekki? Þarna fékkstu það sem þú átt skilið. Gott á þig!“ Af því að þér finnst það vera það sem þú átt skilið að heyra.

En hann segir það ekki.

Hann segir: „Vertu óhræddur. Þú ert ekki einn. Guð er með þér. Þér er frelsari fæddur.“

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er enn og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt við jólanáttsöng í Reyðarfjarðarkirkju á aðfangadagskvöld og við hátíðarmessu í Kirkjubæjarkirkju á jóladag.

Read Full Post »

gloria_in_excelsis_deo_by_tiny_sparrow-d3aqjzoFyrir nokkrum árum heyrði ég lærðan fræðimann halda fyrirlestur þar sem hann færði m.a. rök fyrir því að mannkynið hefði kynslóð fram af kynslóð ræktað með sér ótta og tortryggni. Þetta sagði hann að væri aðeins spurning um hreint náttúruval.

Því hræddari sem menn voru við allt sem þeim gat mögulega stafað ógn af, þeim mun minni líkur voru á því að eitthvað sem þeim stafaði raunveruleg ógn af yrði þeim að aldurtila. Hinir fífldjörfu – eða eins og það er kallað í dag: „áhættusæknu“ – þeir dóu yngri og eignuðust færri afkvæmi en hinir tortryggnu. Og afkvæmi hinna óttalausu annað hvort erfðu fífldirfskuna og dóu yngri frá færri afkvæmum en hinir eða létu sér afdrif forfeðranna að kenningu verða og tömdu sér ótta og tortryggni.

Ég kann ekki að færa rök gegn þessari kenningu og það sem meira er … mér finnst margt í samtíma okkar benda til þess að hún kunni að eiga við nokkur rök að styðjast. Við sjáum víða alið á ótta og tortryggni. Og það virðist vera vænlegt til árangurs. Þannig að kannski er þetta bara alveg hárrétt. Kannski höfum við sem tegund verið á valdi óttans öld fram af öld.

En þar með er sagan ekki öll.

Við kristnir menn erum nefnilega undir skýrum fyrirmælum frá Guði um að láta ekki stjórnast af ótta. Við njótum nefnilega góðs af undrinu mikla.

Guð gerðist maður og fæddist sem fátækt, landflótta barn í gripahúsi. Og fæðing hans var tilkynnt með orðunum: „Verið óhræddir.“

Ég held að Guð hafi ekki verið að segja okkur að láta heilbrigða varkárni lönd og leið. Að vaða á fjöll illa búin í aftakaveðri eða róa á illa útbúnum kænum út í haugasjó af því að við óttumst ekkert.

Nei, Guð var ekki að segja okkur að hætta að kannast við óttann. Ég held að hann hafi verið að segja okkur að hafa óttann ekki lengur að leiðarljósi í lífi okkar eins og forfeður okkar höfðu gert kynslóð fram af kynsloð. Óttinn skyldi ekki lengur vera alfa og ómega allrar tilveru okkar. Við erum ekki ein og þurfum því ekki sífellt að halla okkur að óttanum. Guð er með okkur.

Á hebresku hljómar sú setning svona: Imm-anú-el.

Það er mikill gleðiboðskapur … eða svo notað sé eldra orðalag: Fagnaðar-erindi.

En þessar vangaveltur um óttann kalla fram í hugskotið annað hugtak: Hugrekki.

Hvað er hugrekki?

Stundum heyrist talað þannig að hugrekki sé í því fólgið að óttast ekkert. Ég er ekki sammála því. Ég held að sá sem óttast ekkert hafi voða lítið við hugrekki að gera. Sá sem ekki kann að óttast hefur miklu meiri þörf fyrir aðstoð sérfræðinga en hugrekki. Það er stórhættulegt að hafa ekki vit á að óttast það sem raunveruleg ógn stafar af.

Það erum við hin sem þurfum á hugrekki að halda. Við sem þekkjum óttann. Við þurfum hugrekki til að mæta honum. Við þurfum hugrekki til að horfast í augu við hann og segja: „Þú ert ekki húsbóndi minn!“ Við þurfum hugrekki til að stjórnast ekki af óttanum heldur andstæðu hans … trúnni.

Að trúa er nefnilega að treysta. Á móðurmáli Nýja testamentisins, grísku, er sögnin pisteuo notuð um hvort tveggja. Að trúa og treysta eru ekki samheiti á grísku, heldur eitt og sama fyrirbærið sem sama orð er notað um. Það erum við Íslendingar sem skiljum þarna á milli. Á móðurmáli Nýja testamentisins er hvorki merkingarlegur munur né málfræðilegur á því að trúa á Guð og að treysta á Guð. Það þarf hugrekki til að vera óhræddur og treysta á Guð. Að lifa ekki í efa, ótta og tortryggni, heldur trú von og kærleika.

En hér er ég ekki að tala um trú og efa sem andstæður sem útiloka hvor aðra. Að lifa í efa og að lifa í trú eru aftur á móti andsæður.

Ég talaði um að hugrekki væri ekki í því fólgið að þekkja ekki ótta og tortryggni heldur að neita að láta óttann og tortryggnina ráða ferðinni, lifa ekki í ótta og tortryggni.

Það sama gildir um efann.

Trúin er ekki endilega í því fólgin að þekkja ekki efann, heldur því að neita að láta hann ráða ferðinni. Að horfast í augu við efann, kannast við hann, en hafa hugrekki til að treysta á andstæðu hans … að hafa hugrekki til að trúa á Guð, treysta á Guð.

Þar er Jesús frá Nasaret auðvitað stóra fyrirmyndin okkar. Við getum spurt okkur hvort hann hafi ekki óttast örlög sín. Ég held að ef við trúum að hann hafi verið sannur maður þá hljóti hann að hafa þekkt óttann og óttast dauðann. En hann lét ótta sinn ekki aftra sér frá ætlunarverki sínu. Hann hefði svo auðveldlega getað stungið af þegar honum varð ljóst í hvað stefndi, farið huldu höfði og bjargað lífi sínu. Ef hann hefði gert það er aftur á móti ósennilegt að nokkurt okkur hér inni hefði heyrt hans getið. Ef hann hefði gert það hefði hann ónýtt allt sem hann hafði lifað og starfað fyrir. Hann fylgdi sannleikanum út í rauðan dauðann.

Hann treysti Guði.

Í grasagarðinum bað hann: „Tak þennan kaleik frá mér.“ En hann bætti við: „Þó ekki sem ég vil heldur sem þú vilt.“ Og á krossinum hrópaði hann: „Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?“

Þetta eru upphafsorð 22. Davíðssálms. Og hvort sem hann fór með allan sálminn á krossinum eða bara upphafsorðin, þá var sálmurinn svo þekktur að allir sem á heyrðu hafa ósjálfrátt heyrt niðurlag hans, rétt eins og við vitum að „þitt er ríkið, mátturinn og dýrðin“ fylgir „Faðir vor, þú sem ert á himni.“

Niðurlagið er svona:

„Því að ríkið er Drottins,
hann drottnar yfir þjóðunum.
Öll stórmenni jarðar munu falla fram fyrir honum
og allir sem hníga í duftið beygja kné sín fyrir honum.
En ég vil lifa honum,
niðjar mínir munu þjóna honum.
Komandi kynslóðum mun sagt verða frá Drottni
og óbornum mun boðað réttlæti hans
því að hann hefur framkvæmt það.“

Í þjáningunni hrópaði hann – með beinum eða óbeinum hætti – framan í kvalara sína: „Komandi kynslóðum mun sagt verða frá Drottni og óbornum mun boðað réttlæti hans.“

Til þess þarf hugrekki.

Ég held að það sé full þörf á því á aðventunni að við hugleiðum óttann og hugrekkið, efann og trúna. Á aðventunni kveikjum við ljós í myrkrinu og búum okkur undir að halda hátíð ljóssins. Það er engin tilviljun að orðasambandið „ljós óttans“ er ekki til í neinni tungu jarðar en aftur á móti er orðasambandið „myrkur óttans“ þeim mun algengara.

Ég held að það sé þörf á því að hugleiða þetta af því að þótt jólin séu gleðileg hátíð – barnanna hátíðin best, eins og segir í jólalaginu – þá eru þau um margt erfiður tími líka. Þeir sem misst hafa einhvern sér nákominn, sem ávallt hefur verið hluti af jólunum, finna sárar til söknuðarins og sorgarinnar en áður.

Á jólunum viljum við hafa allt eins og það hefur alltaf verið. En það er ekki hægt. Ekkert stöðvar tímans þunga nið. Guð einn er eins og hann hefur alltaf verið. Allt annað er breytingum háð.

Og ef maður býr við það að einhver voveiflegur atburður, af manna völdum eða öðrum, hefur sett sitt mark á ein jól þá er oft eins og hann gangi í endurnýjun lífdaga hver jól eftir það. Slæmar bernskuminningar tengdar jólum geta haldið áfram að varpa skugga á hátíðina árum og áratugum saman og eyðilagt fögnuðinn í hjartanu.

Þess vegna er gott að minnast þessara orða einmitt á þessum árstíma: „Verið óhrædd.“ Okkur er frelsari fæddur. Guð er með okkur og boðar okkur mikinn fögnuð sem veitast mun öllum lýðnum. Okkar er að treysta því að svo sé, að taka við þessum fögnuði, að þiggja skilyrðislausan kærleika Guðs.

Við kunnum að óttast og við kunnum að efast. Guð veit það. En ef við leyfum honum það getur Jesús Kristur gefið okkur hugrekki til að láta óttann og efann ekki ráða ríkjum í hjörtum okkar heldur trúna, vonina og kærleikann.

Í svartasta skammdeginu tendrum við ljós í myrkrinu. Við kveikjum ljós vonarinnar í myrkri óttans, ljós trúarinnar í myrkri efans, ljós traustsins í myrkri tortryggninnar.

Þetta myrkur er ekki að fara neitt. Það hefur fylgt okkur frá örófi alda. Það blasir við okkur. Við vitum af því og það er þarna. Það væri barnaskapur að þræta fyrir tilvist þess.

En við óttumst það ekki lengur. Við þurfum þess ekki. Við höfum nefnilega ljós lífsins.

Okkur er frelsari fæddur.

Guð gefi okkur öllum gleðileg jól.

Read Full Post »