Feeds:
Færslur
Athugasemdir

Archive for janúar, 2015

Line_of_dead_soldiers_awaiting_burialÉg hef andstyggð á hernaðardýrkun. Þess vegna skaprauna mér söngtextar, sem gjarnan eru sungnir í kristilegu æskulýðsstarfi, þar sem gripið er til líkinga úr hernaði. „Ég er hermaður Krists“ er ágætt dæmi. Annað dæmi er söngtextinn Áfram Kristsmenn krossmenn eftir Friðrik Friðriksson.

Þeim mun hvimleiðara finnst mér þetta að þessir textar eru gjarnan við mjög skemmtilegar og grípandi laglínur, lög heppileg til fjöldasöngs.

Auðvitað geri ég mér grein fyrir því að um líkingar er að ræða, að stríð okkar við illskuna og skeytingarleysið í heiminum er andlegt og að „… baráttan sem við eigum í er ekki við menn af holdi og blóði heldur við tignirnar og völdin, við heimsdrottna þessa myrkurs, við andaverur vonskunnar í himingeimnum.“ (Ef 6.12)

Vopnaskakið er ekki veraldlegt.

Gallinn er sá að þessar líkingar byggja á vegsömun á ofbeldi og styrjöldum. Til að eitthvað sé eftirsóknarvert eða tignarlegt við setningar á borð við „Fram í stríðið stefnið, sterki æskuher“ þarf til grundvallar að liggja aðdáun á „æskuher“ og „stríði“. Annars gengur líkingin einfaldlega ekki upp.

Að mínu mati er einfaldlega jafnóviðunandi nú á dögum að líkja trúnni og starfi kirkjunnar við hernaðarbrölt og að líkja því við önnur víðtæk og skipulögð mannréttindabrot.

Stríð er helvíti.

Þess vegna tók ég mig til um daginn og barði saman nýjum söngtexta við lagið Áfram Kristsmenn krossmenn.

Ég veit að áttunda línan er með tveimur aukaatkvæðum miðað við upphaflega textann, en það er einfaldlega vegna þess að mér hefur ekki þótt fallegt hvernig tvö síðustu atkvæðin í sjöundu línunni eru dregin á tveimur nótum í honum; „Sjáið fagra fa-ána-ann“. Ég hugsa mér því að tvö fyrstu atkvæði áttundu línunnar séu sungin á tveimur síðustu nótum þeirrar sjöundu miðað við frumtextann.

Öllum er frjálst að syngja þetta eins og þá lystir, hvar og hvenær sem er:

Fram í kærleiks krafti

(Baring-Gould/D.Þ.J.)

Kristur færði fórnir

fyrir alla jafnt.

Áfram uppi veður

óréttlætið samt.

Þungar raunir þjaka

þjáða, særða menn.

Reikistjarnan stynur

undan stríðsátökum enn.

Fram í kærleiks krafti!

Kjósum nýja leið.

Efld af andans mætti

alla sigrum neyð.

Oss í brjósti brennur

baráttunnar glóð.

Kristur elskar alla

óháð kyni‘og þjóð.

Sýnum að við erum

elskuð Drottins hjörð,

að við berum elsku

hvert til annars hér á jörð.

Fram í kærleiks krafti!

Kjósum nýja leið.

Efld af andans mætti

alla sigrum neyð.

Read Full Post »