Feeds:
Færslur
Athugasemdir

Archive for mars, 2016

Hryðjuverkaógnin er mjög raunveruleg og hana verður að taka alvarlega. Berjast verður gegn þessum ófögnuði með öllum tiltækum ráðum lýðræðisins. Það þýðir að mínu mati að ráð sem fela í sér skerðingu á réttindum borgaranna eru ekki tiltæk. Árásunum er beinlínis beint að  réttindum okkar. Við getum ekki klárað glæpinn fyrir óvini okkar og talið okkur trú um að með því séum við að bera sigurorð af honum. Með því erum við þvert á móti að vinna verkið fyrir hann.

En einmitt vegna þess hve málið er grafalvarlegt og brýnt er mikilvægt að það sé rætt af skynsemi og yfirvegun í ljósi staðreynda en ekki með upphrópunum og vænisýki með bábiljur að vopni.

Staðreyndirnar

chartoftheday_4093_people_killed_by_terrorist_attacks_in_western_europe_since_1970_nMeðfylgjandi graf, tekið af síðunni statistica.com, sýnir fjölda látinna í hryðjuverkaárásum í Evrópu 1970 – 2015. Þar sést að mannfallið var mest árið 1988. Í fimmtán ár þar á undan voru aldrei færri en 150 og oft á fimmta hundrað Evrópubúa myrtir af hryðjuverkamönnum ár hvert. Langflestar þessara árása áttu sér stað í Bretlandi og Norður-Írlandi þar sem Írski lýðveldisherinn fór hamförum.

Til samanburðar létust 130 í hryðjuverkaárásunum í París 13. nóvember síðastliðinn.

Öll þau ár sem IRA myrti saklausa borgara á Bretlandi í hundraðatali minnist ég þess ekki að hafa orðið var við bylgju Írahaturs og Írafordóma. Hafi einhver ráðamanna okkar lagt til að mannréttindi Íra skyldi skerða eða ferðafrelsi þeirra skyldi takmarka vegna uppruna þeirra þá fór það framhjá mér. Ég man ekki eftir neinum mótmælum við kaþólsku kirkjuna í Reykjavík, jafnvel þótt ávallt hafi verið fjallað um ófriðinn sem átök kaþólikka og mótmælenda.

Staðreyndin er sú að hryðjuverkaógnin er hvorki „ný“ né er hún „meiri“ nú en við höfum áður kynnst. Að halda slíku fram er ábyrgðarleysi.

Það er erfitt að velta því ekki fyrir sér hvaða hvatir liggi að baki því þegar málsmetandi aðilar, sem eiga að vita betur, veifa borðleggjandi bábiljum máli sínu til stuðnings.

Hið nýja

Það sem er nýtt er einkum tvennt:

Annað er að hryðjuverkamennirnir eru framandlegri nú en áður. Þeir ganga að nafninu til fram í nafni trúarbragða sem eru flestum Evrópubúum framandi. Þeir koma frá ólíkum menningarheimi sem lýsir sér í tungu þeirra og klæðaburði. Þeir eru ekki rauðhærðir, enskumælandi og í prjónapeysum.

Hitt er að núna eru morðingjarnir mun iðnari við að drepa trúsystkin sín heimafyrir heldur en „okkur hin“ þótt það fari haganlega lágt í umræðunni. Alltént minnist ég þess ekki að hafa séð marga pakistanska eða nígeríska fána lagða yfir prófílmyndir á facebook þótt íslamskir öfgamenn myrði margfalt fleiri í þessum löndum en nokkurn tímann í Frakklandi eða Belgíu.

Það er eðlilegt. París og Brussel standa okkur nær en Karachi og Kano. Voðaverk framin þar snerta okkur meira. En sorg þeirra sem eiga um sárt að binda er jafnsár og jafnraunveruleg, hvar í heiminum sem þeir eru staddir og hverrar trúar sem þeir eru.

Staðreyndin er nefnilega sú að þetta eru ekki „þeir á móti okkur“. Þetta eru „þeir á móti öllum“. Að halda öðru fram er bábilja.

Hvað er til ráða?

Eðlilegt er að spurt sé hvað sé til ráða. Um það má eflaust deila og þræta, en mikilvægt er að viðbrögð okkar fiti ekki púkann á  fjósbitanum. Ég hef ekki heyrt neinar patentlausnir. Ég hef aftur á móti heyrt nokkrar tillögur sem að mínum dómi eru arfavitlausar.

Mig langar að nefna nokkrar.

Það er áreiðanlega ekki góð hugmynd að slíta eða takmarka samstarf okkar í öryggismálum og landamæravörslu við þær þjóðir sem fremst standa í heiminum á sviði mannréttinda; vina- og grannþjóðir okkar í Schengen.

Það er alls ekki góð hugmynd að ausa hatursáróðri yfir íslenska múslimi eða flóttafólk sem hér leitar skjóls undan nákvæmlega þessum sömu brjálæðingum. Við græðum ekkert á því að hér alist upp hópur ungra, reiðra islamskra karla og kvenna sem eru fyrirlitin og útskúfuð af samfélaginu. Við stórtöpum öll á því.

Ennfremur er það að mínu mati vond hugmynd að hræða fólk frekar en að tala í það kjark. Hrætt fólk gerir ljóta hluti. Kjarkað fólk breytir heiminum.

Að leysa vandamál með sprengjum

Loks er það afar vond hugmynd að reyna að sprengja þetta vandamál í burtu enda má færa góð rök fyrir því að það sé að verulegu leyti bein afleiðing þeirrar tilhneigingar vesturveldanna að reyna að leysa öll sín vandamál með sprengjum til að byrja með.

Hvað á ég við?

Stríðið gegn hryðjuverkum í þessum heimshluta ber ekki árangur. Á árunum 2004 – 2013 kostaði það 80.000 manns lífið bara í Pakistan, meirihlutann óbreytta borgara. Samanlagt mannfall í þessu stríði í löndum múslima undanfarinn einn og hálfan áratug skiptir hugsanlega milljónum.

Með öðrum orðum: Mannfall af völdum hryðjuverka í Evrópu bliknar í samanburði við við mannfall í löndum múslima af völdum stríðsins gegn hryðjuverkum.

Þessi þversögn er út í hött.

Þetta brjálæði hjálpar ekki vestrinu í baráttunni við öfgasinnaða islamista.

Það þarf að hugsa nálgunina upp á nýtt frá grunni.

Read Full Post »

Morð og ofbeldi eru aldrei réttlætanleg. Enginn málstaður er nógu góður til að afsaka slíkt. Hryðjuverk eru hroðalegur glæpur, óháð því hver er ábyrgur. Þar má ekki gera neinn greinarmun, hvort sem íslamskir eða hægri öfgamenn eiga hlut að máli.

Í Brussel eru höfuðstöðvar Evrópusambandsins og borgin því táknræn höfuðborg Evrópu og vestrænna gilda um frjálst samfélag. Hryðjuverkaárásunum í Brussel er auðvitað beint gegn þeim með hnitmiðuðum hætti. Þær ber að fordæma eins eindregið og kostur er.

En hryðjuverkamenn geta ekki drepið þessi gildi og þeir vita það. Enda er það ekki það sem vakir fyrir þeim. Það sem vakir fyrir þeim er að hræða okkur til að drepa þau sjálf – fyrir þá. Það sorglega er að þeim er að verða nokkuð vel ágengt með þau áform.

Á þessari stundu er mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir því að sá fjórðungur mannkyns sem játar islam ber ekki ábyrgð á hryðjuverkum. Ábyrgðin er tiltölulega fárra vitfirringa.

Enn mikilvægara er að við gerum okkur grein fyrir því að tíu ára drengurinn í Hólabrekkuskóla – sem grætur sig í svefn á kvöldin af því að hann er lafhræddur; af því að hann fer ekki varhluta af hatursáróðrinum sem stanslaust er hellt yfir hann og fjölskyldu hans vegna trúar þeirra og uppruna – er ekki heldur ábyrgur fyrir þeim.

Það er á okkar ábyrgð að láta hann og fjölskyldu hans finna að þau eru örugg og óhult á Íslandi, að allir sem virða reglur samfélagsins eru velkomnir og viðurkenndir óháð trú og uppruna.

Öðrum kosti elur samfélag okkar af sér unga, hrædda islamska karlmenn sem eru hataðir og fyrirlitnir af samfélagi sem jaðarsetur þá og þeir hata og fyrirlíta á móti.

Þannig verjum við okkur ekki fyrir hryðjuverkum.

Þannig köllum við þau yfir okkur.

 

 

Read Full Post »