Feeds:
Færslur
Athugasemdir

Archive for ágúst, 2016

no to racismÞegar strákarnir okkar hlupu út á leikvellina í Frakklandi í sumar til að sparka bolta landi og þjóð til sóma var það gert undir fyrirsögninni: „Say no to racism!“/„Segjum nei við rasisma!“ Þessi yfirlýsing var letruð á fyrirliðaband Arons Gunnarssonar.

Af einhverjum ástæðum virðist á Íslandi hafa sprottið upp hópur manna sem lítur á þetta slagorð sem árás á tjáningarfrelsið. Samkvæmt þessu fólki eiga allar skoðanir að eiga rétt á sér og við liggur að hver sem er eigi að hafa einhvern sérstakan rétt til að dæla hvaða drullu sem honum dettur í hug hindrunarlaust inn í hausinn á hverjum sem honum sýnist. Þannig hefur heyrst talað um að ómaklega sé vegið að rasistum þegar reynt er að segja nei við því að málatilbúnaði þeirra sé dreift á öldum ljósvakans og þingmaður hefur kvartað opinberlega yfir því að ekki sé lengur hægt að viðra fasískar skoðanir hér á landi án þess að eiga það á hættu að vera kallaður fasisti.

Við verðum að gera greinarmun á lygum og skoðunum.

Það er ekki skoðun að glæpatíðni hafi aukist í Evrópu og sérstaklega megi tengja hana við fjölgun innflytjenda. Það er rakin lygi sem engin tölfræði styður.

Það er ekki skoðun að hælisleitendur á Íslandi hafi nauðgað barni í sundlaug og lögreglan sé að hylma yfir með þeim. Það er rakalaus og illgjörn haugalygi sem enginn hefur rétt til að dreifa.

Það er ekki skoðun að eitthvert sérstakt samband sé á milli magns melaníns í húð fólks sem ræður hörundslit þess annars vegar og hins vegar greindar þess, getu, persónuleika eða innrætis. Það er hrein og bein lygi sem vísindin eru fyrir löngu búin að afsanna.

Lygi er ekki skoðun. Tjáningarfrelsið gefur engum leyfi til að ljúga. Stríð gegn lygi er ekki stríð við tjáningarfrelsið eða málfrelsið. Það eru lygarnar sem eru stríð við mannúð, siðferði og heilbrigða skynsemi. Ég vil búa í samfélagi sem byggir á mannúð, siðferði og heilbrigðri skynsemi – ekki lygum. Ég held að svo sé um flesta.

Þess vegna nýtur lygin engrar verndar samkvæmt Guðs eða manna lögum. Hún á ekki að eiga sér neitt skjól, hvorki í lagakrókum né í fjölmiðlum. Hún nýtur engra réttinda – engra griða.

Allra síst kirkjugriða, því „sannleikurinn mun gera yður frjálsa.“ (Jóh 8.32)

Að segja nei við rasisma er ekki árás á tjáningarfrelsið.

Það er árás á lygar og helsi.

 

Greinin birtist (lítið breytt) Austurlandi 18.  ágúst 2016.

Read Full Post »