Feeds:
Færslur
Athugasemdir

Archive for október, 2016

unmerciful-servantGuðspjall: Þá gekk Pétur til hans og spurði: „Drottinn, hve oft á ég að fyrirgefa bróður mínum ef hann misgerir við mig? Svo sem sjö sinnum?“ Jesús svaraði: „Ekki segi ég þér sjö sinnum heldur sjötíu sinnum sjö. Því að líkt er um himnaríki og konung sem vildi láta þjóna sína gera skil. Hann hóf reikningsskilin og var færður til hans maður er skuldaði tíu þúsund talentur. Sá gat ekkert borgað og bauð konungur þá að hann skyldi seldur ásamt konu og börnum og öllu sem hann átti til lúkningar skuldinni. Þá féll þjónninn til fóta honum og sagði: Haf biðlund við mig og ég mun borga þér allt. Og herra þjónsins kenndi í brjósti um hann, lét hann lausan og gaf honum upp skuldina. Þegar þjónn þessi kom út hitti hann einn samþjón sinn sem skuldaði honum hundrað denara. Hann greip hann, tók fyrir kverkar honum og sagði: Borga það sem þú skuldar! Samþjónn hans féll þá til fóta honum og bað hann: Haf biðlund við mig og ég mun borga þér. En hann vildi það ekki, heldur fór og lét varpa honum í fangelsi uns hann hefði borgað skuldina. Þegar samþjónar hans sáu hvað orðið var urðu þeir mjög hryggir og sögðu herra sínum allt sem gerst hafði. Konungurinn kallar þá þjóninn fyrir sig og segir við hann: Illi þjónn, alla þessa skuld gaf ég þér upp af því að þú baðst mig. Bar þér þá ekki einnig að miskunna samþjóni þínum eins og ég miskunnaði þér? Og konungur varð reiður og afhenti hann böðlunum uns hann hefði goldið allt sem hann skuldaði honum. (Matt 18.21-34)

 

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Guðspjallstexti dagsins fjallar um fyrirgefninguna og það er vel. Það er mikil þörf á að ræða hana af skynsemi og einlægni. Fyrirgefningin þvælist nefnilega fyrir mörgum. Það er erfitt að fyrirgefa og erfitt að glíma við það að geta ekki fyrirgefið. Að vera í viðjum sektarkenndar vegna einhvers sem maður gerði sjálfur eða lét ógert eða sektarkenndar yfir því að vera að erfa eitthvað sem manni var gert, kannski árum eða áratugum saman en getur ekki sleppt tökum á … getur verið óbærilegt.

Fyrirgefningin getur því verið bráðnauðsynleg til að okkur líði sæmilega.

En á að fyrirgefa allt? Er hægt að fyrirgefa allt? Er okkur allt fyrirgefið? Fyrirgefst okkur að fyrirgefa ekki?

Skaðleg grunnhyggni

Ég efast um að mörg guðfræðileg hugtök hafi í gegn um tíðina orðið fyrir eins mikilli grunhygginni og einfeldningslegri útlistun og fyrirgefningin. Það hefur gjarnan verið litið svo á að þetta sé ekkert flókið; við eigum bara að fyrirgefa öllum allt og ef við gerum það ekki þá erum við vont fólk. Punktur.

Þetta er skaðlegt. Þessari skilyrðislausu fyrirgefningarskyldu hefur nefnilega verið beitt miskunnarlaust til að kúga fólk og halda því niðri. Það á að láta bjóða sér hvað sem er af því að ef maður fyrirgefur ekki allt þegjandi og hljóðalaust er maður að bregðast kristilegum skyldum sínum. Boðskapurinn hefur verið þessi: Láttu traðka á þér og ekki dirfast að bera hönd fyrir höfuð þér. Fyrirgefðu sama einstaklingi ítrekaðar misgjörðir við þig 490 sinnum án þess að æmta né skræmta – hvað þá að láta þér detta í hug að leita réttar þíns.

Ég hef leyft mér að nota orðið „fyrirgefningarfasismi“ um þessa túlkun enda er um að ræða hugmyndafræði sem varpar allri mannlegri reisn og réttindum þeirra sem minna mega sín fyrir róða í þágu hinna … sem í réttlátu samfélagi eru látnir taka afleiðingum gjörða sinna.

Fyrirgefningarfasisminn varpar sök gerandans á þolandann. Óhæfan sem maður varð fyrir er smækkuð og nánast afsökuð og í staðinn er öll athyglin á þeirri óhæfu manns sjálfs að fyrirgefa ekki það sem manni var gert umyrðalaust. Þessi grunnhyggna, skilyrðislausa fyrirgefnarskylda er þannig mjög öflugt kúgunartæki; hún hjálpar gerendum að komast hjá því að axla ábyrgð og lætur þolandann ekki bara bera byrðar þess sem honum var gert heldur gerir hann til viðbótar sekan um þann glæp að vera vond manneskja að fyrirgefa ekki allt strax.

Ekki svona einfalt

Sem betur fer hafa þenkjandi guðfræðingar á undanförfnum árum kafað dýpra og áttað sig á því að þetta er ekki svona einfalt. Ýmis atvik sem átt hafa sér stað og farið hafa hátt í fjölmiðlum og þjóðfélagsumræðunni, hafa einmitt sett fyrirgefninguna í brennidepil guðfræðilegrar umræðu og pælinga.

Ýmsir framámenn í þjóðfélaginu, bæði leiðtogar ríkisvaldsins, kirkjunnar og fjármálaheimsins hafa orðið uppvísir að athæfi sem í besta falli er vafasamt og í ákveðnum tilfellum beinlínis glæpsamlegt. Og þjóðin hefur verið í þeim sporum að þurfa að gera upp við sig hvort þetta eigi bara að fyrirgefa og halda áfram eins og ekkert hafi í skorist eða hvort „persónugera eigi vandann“ – eins og það var orðað (einkum af þeim, auðvitað, sem óttuðust að vandinn yrði þá persónugerður í þeim sjálfum).

Að fyrirgefa eða láta hina ábyrgu fá makleg málagjöld.

Texti dagsins í dag er eins og dæmisaga úr nútímanum. Hún fjallar um konungsþjón sem hagar sér nokkurn veginn nákvæmlega eins og íslenskur banki eftir hrun; lætur bera út smælingja fyrir skuldir sem blikna í samanburði við þær formúur fjár sem hann sjálfur er nýbúinn að fá afskrifaðar. Og skilaborðin eru skýr: Fyrirgefningin er ekki skilyrðislaus. „Og konungur varð reiður og afhenti hann böðlunum uns hann hefði goldið allt sem hann skuldaði honum,“ segir þar.

Sumir eiga einfaldlega ekki skilið að vera fyrirgefið. Þeir hafa ekkert unnið sér inn fyrir því. Og við megum vera reið, eins og konungurinn, við þá sem haga sér svona.

Að fyrirgefa er að gefa

Sögnin „að fyrirgefa“ gefur okkur ákveðna innsýn í eðli fyrirgefningarinnar. Seinni hlutinn er „að gefa“. Og það er það sem fyrirgefningin er; gjöf. Þegar við fyrirgefum erum við að gefa af okkur.

Og það er tvennt sem við þurfum að hafa í huga varðandi það.

Hið fyrra er að það er ekki hægt að gefa eitthvað sem maður á ekki – eða á ekki fyrir. Ef maður á ekki innistæðu fyrir gjöfinni getur maður ekki gefið hana.

Hið seinna er að það er ekki hægt að skulda gjöf. Ef maður skuldar einhverjum eitthvað er það ekki gjöf, þá eru það einhver kaup kaups eða greiði í greiða stað. Gjöf er alltaf án kvaða. Það er ekki hægt að krefja neinn um gjöf, aðeins um að borga skuldir. Og það ljótasta við fyrirgefningarfasismann er kannski einmitt það að hann gerir fyrirgefninguna, þá dýrmætu gjöf, að skuld.

En hvernig eignast maður innistæðu fyrir fyrirgefningu?

Týndi sonurinn

Annar texti í Nýja testamentinu sem fjallar um fyrirgefninguna varpar ákveðnu ljósi á það. Það er sagan af týnda syninum. Yngri sonurinn tekur út föðurarfinn sinn og sukkar hann allan út. Að því loknu líður hann hungur og neyð og loks sér hann að sér og snýr aftur heim. Og faðirinn fyrirgefur honum og tekur honum opnum örmum.

Af hverju?

Var það af því að sonurinn sneri til baka og sagði: „Jæja, nú fyrirgefur þú mér, pabbi minn, og við látum eins og þetta hafi ekki gerst. Við sláum striki yfir þetta leiðindaatvik og ég tek aftur sæti mitt við háborðið. Það tóku allir þátt í þessu hvort sem er. Við skulum ekkert vera að persónugera vandann hérna.“

Nei. Það var ekki það sem hann sagði. Orðin í hjarta hans voru önnur. Þau voru: „Faðir, ég hef syndgað móti himninum og gegn þér. Ég er ekki framar verður að heita sonur þinn. Lát mig vera sem einn af daglaunamönnum þínum.“ (Lúk 15.18-19)

Sonurinn sneri ekki aftur með kröfur um fyrirgefningu eða neinar væntingar í þá átt. Hann kom til að viðurkenna afbrot sín og beiðast ásjár í auðmýkt. Hann kom ekki til að vera í sömu stöðu og áður heldur til að vera sem einn af daglaunamönnum föður síns og lifa þannig með afleiðingum gjörða sinna.

Og faðirinn fyrirgaf honum.

Iðrun og yfirbót

Það er iðrunin og yfirbótin sem gera fyrirgefninguna mögulega. Stundum nægir meira að segja einlægur vilji til að gera yfirbót. Konungsþjónninn í guðspjalli dagsins sýndi iðrun í orði en yfirbótin var engin. Og af því er hægt að draga þá ályktun að iðrunin hafi verið orðin tóm.

Tökum dæmi sem skýra í hverju iðrun og yfirbót felast.

Ímyndum okkur að ég hafi stolið fimmþúsundkalli af þér og þú veist það. Ég kem til þín og segi: „Fyrirgefðu að ég skyldi stela þessum fimmþúsundkalli af þér. Þú fyrirgefur það, er það ekki? Ertu ekki góður og sannkristinn maður? Áttu eitthvað að éta?“

Eða ég kæmi til baka og segði: „Mér þykir mjög leiðinlegt að ég skyldi stela þessum fimmþúsundkalli af þér. Hér hefurðu hann til baka. Ég vona að þú finnir það í hjarta þér að geta fyrirgefið mér og við getum haldið áfram að vera vinir. En það er þín ákvörðun.“

Undir hvorum kringumstæðunum ættuð þið auðveldara með að fyrirgefa mér? Því er auðsvarað – held ég.

Sönn fyrirgefning

En hvað er ég að segja?

Eigum við þá ekki að fyrirgefa?

Er ég búinn að þvæla þetta og snúa svo mjög að grundvallaratriðið sjálft … það að ég á að fyrirgefa bróður mínum sjötíu sinnum sjö sinnum ef hann misgerir við mig, eins og Jesús fullyrðir í upphafi þessa guðspjallstexta svo skýrlega að það verður ekki misskilið … grundvallaratriðið sem er svo miðlægt í kristinni trú að við biðjum jafnvel í sjálfu faðirvorinu um að fá að fyrirgefa vorum skuldunautum … að því sé varpað fyrir róða og gleymt og grafið?

Það er ekki það sem vakir fyrir mér með því að gagnrýna það sem ég kalla fyrirgefningarfasisma. Þvert á móti. Ég fullyrti meira að segja í upphafi orða minna að fyrirgefningin geti verið bráðnauðsynleg til að okkur líði sæmilega.

En það verður að vera sönn fyrirgefning, ekki eitthvað innistæðulaust orðagjálfur sett fram af miskilinni skyldurækni, jafnvel með óbragð í munninum.

Þegar mann svíður sárt undan misgjörðum annarra, ég þarf ekki að nefna nein dæmi, við getum hvert um sig hugsað um eitthvað slæmt sem okkur hefur verið gert, þá hjálpar það manni ekkert að heyra snúðugt og óeinlægt „fyrirgefðu“. Það gefur manni enga innistæðu eða löngun til að gefa nokkurn skapaðan hlut. Viðkomandi á enga fyrirgefningu skilið.

Hverjum er gefið?

En kannski á maður sjálfur það skilið að fá að fyrirgefa.

Fyrirgefningin er nefnilega ekki endilega gjöf sem maður gefur þeim sem braut á manni. Hún getur verið gjöf sem maður gefur sjálfum sér. Sú gjöf að ganga ekki með það sem manni var gert eins og steinbarn í maganum eða mein í sálinni út lífið, að láta misgjörðir annarra við mann ekki skilgreina mann og móta, ráða líðan manns og stjórna hegðun manns … sú gjöf að vísa misgjörðarmanninum á dyr úr huga sínum í stað þess að verðlauna hann fyrir það sem hann gerði manni með ókeypis fæði og húsnæði í hausnum á manni út lífið … sá léttir … er það ekki gjöf sem við eigum öll skilið?

En það er líka gjöf sem er mjög mjög erfitt að gefa.

Kannski er það einmitt þess vegna sem við biðjum Guð um hjálp til að fyrirgefa vorum skuldunautum.

Af því að það er erfitt.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 23. 10. 2016

Read Full Post »

joh-4-46Guðspjall: Nú kom Jesús aftur til Kana í Galíleu þar sem hann hafði gert vatn að víni. Í Kapernaúm var konungsmaður nokkur sem átti sjúkan son. Þegar hann frétti að Jesús væri kominn frá Júdeu til Galíleu fór hann til hans og bað hann að koma niður eftir og lækna son sinn. En hann var dauðvona. Þá sagði Jesús við hann: „Þið trúið ekki nema þið sjáið tákn og stórmerki.“ Konungsmaður bað hann: „Drottinn, kom þú áður en barnið mitt andast.“ Jesús svaraði: „Far þú, sonur þinn lifir.“ Maðurinn trúði því sem Jesús sagði við hann og fór af stað. En meðan hann var á leiðinni ofan eftir mættu honum þjónar hans og sögðu að sonur hans væri á lífi. Hann spurði þá hvenær honum hefði farið að létta og þeir svöruðu: „Í gær upp úr hádegi fór hitinn úr honum.“ Þá sá faðirinn að það var á þeirri stundu þegar Jesús hafði sagt við hann: „Sonur þinn lifir.“ Og hann tók trú og allt hans heimafólk. (Jóh 4.46-53)

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Samkvæmt ákveðnum skóla prédikunarfræðanna má prestur aðeins undir einum ákveðnum kringumstæðum tala um sjálfan sig í prédikun og það er þegar hann kynnir sjálfan sig fyrir nýjum söfnuði. Ég ætla ekki að lofa því hér og nú að í störfum mínum fyrir Laugarneskirkju muni ég virða þessa reglu í einu og öllu, en ég ætla að leyfa mér að fara eftir henni í dag.

Í dag er ég formlega settur inn í embætti sóknarprests í Laugarnessprestakalli, sem auðvitað markar þáttaskil í lífi mínu þótt það marki engin sérstök þáttaskil í sögu kristindómsins. Prestar koma og fara og dagurinn í dag mun í besta falli dúkka upp sem neðalmálsgrein í sögu Laugarnessöfnuðar þegar og ef hún verður skráð. En ég vona að á þessum tímamótum í lífi mínu fyrirgefist mér að vera svolítið persónulegur og tala aðeins um köllun mína og sýn á lífið.

Það er nefnilega það sem ritningarlestrar dagsins í dag fjalla um að mínu mati.

Lífið.

Hvað er að lifa?

„Sonur þinn lifir,“ segir Jesús við konungsmanninn.

Og mig langar að spyrja: „Hvað er það … að lifa?“

Það eitt að hjartað dæli nægu blóði um æðakerfið til að frumur líkamans fái þann lágmarksskammt af súrefni sem þær þurfa sér til viðurværis … gerir það mann lifandi? Eða felur það vera lifandi eitthvað meira í sér en það eitt að vera ekki dauður?

Fyrir mér inniber það að vera lifandi að finna til … bæði gleði og sorgar. Að eiga sér sögu – af velgengni og mótbyr, af afrekum og mistökum. Lífið er síkvikt og síbreytilegt. Fyrir mér er líka hægt að vera lifandi dauður – kannski af því að ég hef sjálfur átt tímabil þar sem ég var á flótta frá því að lifa … með því sem það inniber. Mér reyndist auðvelt að falla í þá gryfju að brynja mig og deyfa fyrir því að vera á lífi og líta á það sem aðferð til að fást við lífið en ekki það sem það var; aðferð til að flýja lífið.

Sársauki, sorg og vanlíðan þarf ekki að vera veikleika- eða sjúkdómsmerki. Það fer eftir kringumstæðum. Það er heilbrigt að finna til ef maður meiðir sig, þá er skortur á sársauka merki um að eitthvað alvarlegt sé að. Það er heilbrigt að fyllast sorg yfir ástvinamissi. Annað er merki um alvarlega sálarkvilla. Það er heilbrigt að líða illa þegar maður finnur til iðrunar. Það bendir til þess að samviskan starfi eðlilega.

„Sonur þinn lifir,“ sagði Jesús við konungsmanninn. Við vitum ekkert um það hvernig líf sonarins var eftir þetta. Hvort hann lifði til hárrar elli eða dó skömmu eftir þessa atburði. Hvort hann var hamingjusamur eða vansæll, hvort hann glímdi við andlega erfiðleika og tilvistarkreppu eða hvort hann lullaði átakalítið í gegn um lygna ævi uns hann lognaðist út af saddur lífdaga. Sem er reyndar ósennilegt. Lífið er yfirleitt ekki þannig.

En það gildir einu. Sagan er ekki um það.

Á þessari stundu fékk faðirinn þá gleðifrétt … það fagnaðarerindi … að sonur hans lifði.

Hvernig mælum við líf?

Ég lít svo á að það þýði líf með öllu því sem það inniber. Ekki bara hjartslátt … heldur tilfinningar, sorg og gleði, yndi og gremju, kærleika og samfélag. Heilbrigt, eðlilegt líf.

Þeir sem horft hafa upp á ástvini fara á mis við þetta, vera með sálina í doðafjötrum fíknar eða af einhverjum ástæðum ófæra um að sýna eða upplifa heilbrigðar tilfinningar, ófæra um að eiga eðlilegt samfélag við aðra … þeir þrá að heyra þetta. Sonur þinn – eða dóttir, bróðir þinn – eða systir, faðir þinn – eða móðir … lifir.

Viðkomandi er kominn aftur. Við getum átt samfélag við hann eða hana. Við getum sýnt og þegið kærleika. Við getum hlegið saman. Við getum grátið saman.

Þannig er lífið. Við getum lifað saman. Átt heilbrigt tilfinningalíf. Félagslíf.

Og þannig mælum við lífið.

Læknar og heilbrigðisstarfsfólk er góðu heilli hætt að líta á það sem skyldu sína að halda undantekningarlaust  líftórunni í deyjandi fólki sem allra allra lengst – hafi þeir í raun einhvern tímann gert það. Á endanum er líknandi meðferð mun mannúðlegri og kærleiksríkara viðbragð við nálægð dauðans heldur en tilraunir til kraftaverkalækninga sem kannski lengja líf viðkomandi um nokkra daga eða hugsanlega vikur af þjáningu og vanlíðan.

Við mælum lífið nefnilega í raun ekki í dögum. Lengd þess er ekki aðalatriðið.

En hvernig mælir maður þá líf?

Mælir maður dýpt þess? Innihald? Hve vítt róf mannlegrar reynslu það spannaði?

Mælum við ekki lífið aðallega í gæðum?

Og þá meina ég þessum sönnu lífsgæðum. Ekki þessum sem við getum ekki tekið með okkur þegar jarðvistinni lýkur og mölur og ryð frá grandað, heldur hinum. Í þeim andlegu verðmætum sem líf okkar innihélt, í því góða sem við létum af okkur leiða, í því göfuga og fagra sem við vorum þátttakendur í, í kærleikanum sem við veittum og nutum.

Bandaríski stjarneðlisfræðingurinn Neil deGrasse Tyson hefur látið hafa eitthvað eftir sér á þá leið að það versta sem  vísindin gætu gert væri að finna leið til stöðva öldrun og hrörnun líkamans. Ef þannig væri hægt að veita mönnum ódauðleika væri lífið búið að missa tilgang sinn. Hann segir að það sé einmitt dauðinn sem gefi lífinu gildi. Að óhjákvæmileiki dauðans og endanleiki lífsins geri lífið einmitt svo óendanlega dýrmætt. Dagar okkar eru taldir, segir í Biblíunni. Þeir eru takmörkuð auðlind sem gengur á með hverjum degi sem við lifum. Vitneskjan um að á endanum munu þeir ganga til þurrðar gefur okkur ástæðu til að fara vel með hvern og einn þeirra.

Presturinn í speglinum

Dagurinn í dag markar tímamót í lífi mínu. Í dag er ég settur í embætti sóknarprests í Laugarnessprestakalli. Þegar ég horfi tíu, fimmtán, tuttugu ár aftur í tímann … þá finnst mér þetta óraunverulegt. En um leið er það staðfesting þess að lífið er síkvikt. Allt sem lifir tekur breytingum.

Ein sterkasta og mikilvægasta lífsreynsla mín sem prests var á aðfangadag 2014 þegar ég annaðist aftansöng í Reyðarfjarðarkirkju. Ég hafði undirbúið mig vandlega, þetta var fyrsta hátíðarmessan mín. Ég hafði æft hátíðatón séra Bjarna fram og aftur, bæði með kórnum og heima í stofu með aðstoð konu minnar sem ég er svo lánsamur að eiga, en hún er tónlistarmaður og reyndur tónlistarkennari. Ég hafði valið sálmana af kostgæfni í samvinnu við okkar yndislega organista þarna fyrir austan og skrifað sannkallaða þrumuprédikun sem ég hafði lagt mikinn metnað í og var satt að segja svolítið ánægður með. Allt var til reiðu. Allt var klárt. Ég ætlaði að gera flotta jólamessu.

Tíu mínútum áður en hringt var til messunnar fór ég inn á skrifstofu prestsins og skrýddist með aðstoð meðhjálparans. Að því loknu spurði ég hann hvort þetta liti þokkalega út. Hann sagði ekki neitt heldur opnaði skápinn sem skrúðarnir héngu í, en innan á skáphurðinni var stór spegill. Og í speglinum blasti skyndilega við mér prestur í fullum skrúða … með andlitið á mér.

Ég var óviðbúinn. Eitt augnablik varð ég hræddur. Mér fannst ég ekki tilbúinn. Enda var ég það ekki. Mér hafði nefnilega láðst að undirbúa eitt, kannski það allra mikilvægasta; sjálfan mig. Ég hafði verið svo upptekinn af því að tryggja að allt þetta praktíska væri í lagi að ég gleymdi að undirbúa litla hjartað í prestinum sjálfum. Mér fannst ég  ekki verðugur.

Ég  bað meðhjálparann að leyfa mér að vera einum í nokkrar mínútur. Þangað til hringt var inn stóð ég þarna og horfði á prestinn í speglinum og fann auðmýktina gagnvart hlutverki mínu, gagnvart þeirri ábyrgð sem mér hafði verið falin og gagnvart Guði … ekki hellast yfir mig heldur miklu frekar spretta fram einhvers staðar í brjóstinu á mér og dreifast um mig.

Æ síðan hef ég reynt að standa vörð um auðmýktina af því að án hennar líður mér ekki vel. Án hennar líður mér eins og ég sé að villa á mér heimildir – eins og ég sé að leika prest.

Köllun mín

Það er því fyrst og fremst með auðmýkt í hjarta sem ég tek við embætti sóknarprests þessa virðulega söfnuðar. Auðmýkt og þakklæti fyrir það mikla traust sem mér er sýnt.

Ég hef gegnt þessu embætti í praxís nú í tvær vikur og á þeim tíma hef ég fengið allnokkra nasasjón af því hvað í því felst.

Ég hef fengið að vera með ungum og öldnum, fólki sem er að hefja lífið og fólki sem komið er með mun meiri reynslu af því en ég. Ég hef verið með ráðvilltu fólki sem þurfti aðstoð og ég hef þegið aðstoð og góð ráð frá frábæru samstarfsfólki og ráðagóðum kollegum. Ég hef verið með sorgmæddu fólki, staðið við dánarbeð og fylgt ástvinum látinna í gegn um kistulagningu og útför. En ég hef líka verið með fólki á gleðistundum og ánægjulegum tímamótum í lífi þess, skírt börn þess og annast hjónavígslur.

Með öðrum orðum; ég hef fengið að koma að lífinu … eins og það er.

Og það er köllun mín. Að fá að þjóna lífinu í öllum sínum fjölbreytileika og margslungnu blæbrigðum. Og ég bið Guð um náð til að fá að gera það af kærleika og auðmýkt.

Dýrð sé Guð föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédíkun flutt í Laugarneskirkju 16. 10. 2016

Read Full Post »

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 2. október 2016.

Guðspjall: Þá sté Jesús í bát og hélt yfir um og kom til borgar sinnar. Þar færa menn honum lama mann sem lá í rekkju. Þegar Jesús sá trú þeirra sagði hann við lama manninn: „Vertu hughraustur, barnið mitt, syndir þínar eru fyrirgefnar.“ Nokkrir fræðimenn hugsuðu þá með sjálfum sér: „Hann guðlastar!“ En Jesús þekkti hugsanir þeirra og sagði: „Hví hugsið þið illt í hjörtum ykkar? Hvort er auðveldara að segja: Syndir þínar eru fyrirgefnar, eða: Statt upp og gakk? En til þess að þið vitið að Mannssonurinn hefur vald á jörðu að fyrirgefa syndir þá segi ég þér,“ og nú talar hann við lama manninn: „Statt upp, tak rekkju þína og far heim til þín!“ Og hann stóð upp og fór heim til sín. En fólkið, sem horfði á þetta, varð óttaslegið og lofaði Guð sem gefið hafði mönnum slíkt vald. (Matt 9.1-7)

church-in-a-bubble-228x200Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Friður er okkur býsna hugleikinn hér í kirkjunni. Presturinn heilsar söfnuðinum með orðunum: „Friður sé með yður.“ Jafnvel: „Friður Drottins sé með yður.“ Prédikunin hefst á orðunum: „Náð sé með ykkur og friður.“ Við biðjum: „Ó, þú Guðs lamb Kristur, þú sem burt ber heimsins synd, gef oss þinn frið.“ Og þá eru ónefnd blessunarorðin í lok hverrar messu, en þeim lýkur á orðunum: „… og gefi þér frið.“

Segir það sig þá ekki sjálft að friður eigi að vera helsta keppikefli okkar? Við eigum að boða frið, starfa í friði, leitast við að um okkur ríki friður og þarafleiðandi að láta allt sem ógnað getur friðnum … í friði?

Ófriður um grið

Því er ég að velta þessu fyrir mér að það hefur ekki farið á milli mála að ýmsum líkar ekki að kirkjan standi fyrir því sem þeir upplifa sem ófrið og illindi.

Augljóst dæmi um slíkt er þegar hér var látið reyna á kirkjugrið fyrir tvo hælisleitendur sem vísað hafði verið úr landi á grundvelli svokallaðrar Dyflinnarreglugerðar eða öllu heldur eins ákvæðis hennar sem fyrst og fremst er valkvæð heimild en íslensk stjórnvöld kjósa nánast undantekningalaust að líta á sem valdboð eða fyrirmæli – oft í algjöru trássi við augljósustu mannúðarsjónarmið og jafnvel í trássi við ákveðin ákvæði barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem þó á að heita lögfestur á Íslandi.

Þessir atburðir áttu sér stað í júní.

Nú í lok september bárust okkur fréttir af öðrum þessara hælisleitenda, hinum sextán ára gamla Ali Nasir. Hann dvelur nú í Bagdad í hrörlegu geymslurými þar sem hann sefur á gólfinu innan um rykfallin húsgögn og gömul heimilistæki því honum hefur verið afneitað af fjölskyldu sinni í Írak fyrir að taka kristna trú. Hann þarf að reiða sig á matargjafir frá ókunnugum til að svelta ekki heilu hungri.

Getum við, sem kristnir menn, sætt okkur við að friður ríki um þetta?

Getum við, sem siðað fólk, sætt okkur við að sextán ára drengur sem hér – undir þessu þaki – leitaði griða fái þessar móttökur?

Jesús ruggar bátnum

Í guðspjalli dagsins fer Jesús í bátsferð. En það er ekki fyrr en hann stígur á land sem hann fer að rugga bátnum þannig að eftir er tekið.

Hann mætir þjáningu með líkn. Ekki bara með bæn og samúðarhjali heldur með því að gera eitthvað í málinu. Og það vekur urg, eins og við er að búast.

„Hann guðlastar!“ segja fræðimennirnir. „Við erum ekki vön því hér að hlutirnir séu gerðir svona. Má þetta? Þarna er hann kominn út fyrir sitt hlutverk. Það er ekki hans hlutverk að vekja athygli á óréttlætinu, hvað þá að leiðrétta það. Varðar þetta ekki við lög?“

Þessi söngur heyrist enn þegar kirkjan neitar að þegja og leyfir sér að draga óréttlætið fram í dagsljósið.

Þá er friðurinn úti. En samt ekki. Það er nefnilega ekki friðurinn sem er úti.

Friður um óréttlæti er nefnilega þversögn. Réttlæti verður að vera forsenda friðar. Um óréttlæti getur aldrei ríkt friður. Þögn, já. Kyrrð … vissulega. Ró … svo sannarlega. En ekki friður. Við megum aldrei rugla því saman við frið. Friður um óréttlæti er nefnilega ekki friður heldur skeytingarleysi, sinnuleysi um náungann. Og það er ekki hlutverk kirkjunnar að boða sinnuleysi; frið um óréttlæti. Það er hlutverk kirkjunnar að boða frið … en það gerir hún með því að vinna að réttlæti til að raunverulegur friður geti ríkt, en ekki skeytingarleysið eitt.

Þetta getur hún  til dæmis gert með því að sýna óréttlætið, beina kastljósi fjölmiðla að því, í von um það verði til þess að almenningi ofbjóði og hann taki höndum saman um að útrýma því.

Engum friði var raskað í Laugarneskirkju í júní. Sinnuleysi og skeytingarleysi var aftur á móti ögrað þannig að eftir var tekið.

„Hann guðlastar!“ sögðu fræðimennirnir, prókúruhafar sannleikans.

Það þykir víst ekkert tiltökumál lengur á Íslandi að guðlasta. Ég held að það varði ekki einu sinni við lög. Það er því léttvæg ásökun að vera vændur um guðlast. En þá verður bara að væna þá sem leyfa sér að rugga bátnum með þessum hætti um eitthvað annað lögbrot.

„Þetta er lögbrot!“ sögðu því prókúruhafar sannleikans í nútímanum þegar leitast var við að veita Ali Nasir, sextán ára pilti frá Írak sem fjölskyldan hefur hafnað fyrir að taka kristna trú, þau grið hér í þessu húsi sem hann óskaði eftir. Óskað var eftir mannúð. Hér var leitast við að sýna hana. Og það var kallað lögbrot, jafnvel þótt enginn gæti nefnt svo mikið sem einn lagabókstaf sem átti að hafa verið brotinn.

Lögbrot.

Eins og það skelfilegasta sem hent gæti kirkju Krists væri að verða uppvís að lögbroti. Kirkju Jesú Krists sem var krossfestur á Golgata fyrir … lögbrot.

Fyrir að ógna valdstjórninni.

Lög Guðs og lög manna

Í þessu samhengi er full ástæða til að taka undir hvert orð séra Geirs Waage þegar hann sagði:

„Þær aðstæður geta komið upp og eru raunar algengar í harðræðisríkjum að menn verði að gera það upp við samvizku sína hvort þeir treysti sjer til þess að hlýða lögunum þegar það fer í bága við samvizkuna. Þá er það mitt ráð að fremur beri að hlýða Guði en mönnum.“

Til að sanngirni sé gætt er rétt að fram komi að þessi orð lét séra Geir ekki falla nú í sumar í umræðu um útlendingalög heldur í umræðu um barnaverndarlög fyrir sex árum. Til að sanngirni sé gætt er líka rétt að fram komi að séra Geir taldi sína eigin röksemdafærslu um barnaverndarlögin ekki eiga við um útlendingalögin nú í sumar.

Að mínum dómi gilda þau þó mun betur um þau síðarnefndu en hin fyrrnefndu. Þegar lög manna brjóta í bága við lög Guðs um kærleika og mannúð ber að fara eftir hinum síðari.

Ásakanir í garð kirkjunnar um lögbrot eru því ekki bara tilhæfulausar. Þær eru bitlausar.

Reyndar má geta þess – svona í framhjáhlaupi – að það varðar víst við lög að væna fólk opinberlega að ósekju um saknæmt athæfi, þannig að landslög voru vissulega brotin í tengslum við brottvísun Alis Nasirs frá Íslandi. En þau lög voru ekki brotin í Laugarneskirkju og ekki af Laugarneskirkju. Þau voru brotin í fjölmiðlum í kjölfarið. En þetta er útúrdúr.

Kirkja er ekki sápukúla

Það á að ríkja friður um kirkjuna. Það er rétt. Kirkjan á að vera griðastaður. Það er líka rétt. En kirkja er ekki sápukúla. Við komum ekki hingað til að pakka okkur inn í bómull.

Við höfum engan rétt til að loka okkur inni í kirkjubyggingunni, loka dyrum og gluggum og krefjast griða fyrir siðferðilegu álitamálunum þarna úti; hliðstæðu þess að setja puttana í eyrun, loka augunum og söngla „lallalallala“ í sífellu til að þurfa hvorki að sjá né heyra eitthvað sem okkur finnst óþægilegt. Við höfum engan rétt til að vera eins og risaeðlan í Toy Story sem fórnaði sínum agnarsmáu höndum í skelfingu og hrópaði: „Ég þoli ekki að taka afstöðu!“

Kristin trú krefur okkur um að taka afstöðu og í afstöðuleysinu felst mannfjandsamlegasta og hættulegasta afstaðan sem við getum tekið, því það eina sem hið illa þarf til að vinna sigur er að gott fólk geri ekki neitt – svo vitnað sé í heimspekinginn Edmund Burke.

Í fyrradag bárust fréttir af Írana nokkrum sem er okkur hér í Laugarneskirkju að góðu kunnur … og ekki bara okkur. Hann heitir Morteza og tekur virkan þátt í starfi bænahóps hælisleitenda sem hér hittist. Hann reyndir gerir stórum hópi hælisleitendanna kleyft að taka þátt í stundinni og njóta hennar því hún fer fram á ensku og margir þeirra tala litla sem enga ensku. Morteza kemur og þekur þátt og þýðir fyrir þá sem ekki skilja. Morteza hefur verið dæmdur til dauða í heimalandi sínu, Íran, fyrir að taka kristna trú. Útlendingastofnun hefur hafnað beiðni hans um að fá að dvelja hér á landi á meðan umsókn hans um atvinnu- og dvalarleyfi er til meðferðar. Morteza hefur starfað víðar en hjá kirkjunni sem sjálfboðaliði við túlkun og unnið ómetanlegt starf þar sem hann getur þýtt af persnesku, farsi og arabísku yfir á ensku. Hér er einfaldlega verið að flytja gríðarlegan mannauð í einum einstaklingu úr landi, að því er virðist af þeirri einu ástæðu að við megum það. Tölvan segir ókei.

Hælisleitendurnir sem treysta á hæfileika Morteza til að geta tekið þátt í starfi bænahópsins voru ekki spurðir. Það er ekkert hólf í excel skjalinu fyrir andlega velferð þeirra.

Gríðarlegur skortur er hér á landi á einstaklingum sem þýtt geta af farsi. Ætli við neyðumst ekki til að flytja inn slíkan einstakling af því að við fluttum út einstaklinginn sem hér var sem gat það?

Þetta snýst ekki um Morteza eða bænahóp hælisleitenda í Laugarneskirkju. Þetta snýst um viðhorf, þetta snýst um vinnubrögð og viðmót. Þetta snýst um lifandi manneskjur frammi fyrir ómanneskjulegu, sálarlausu og vitlausu kerfi.

Viljum við virkilega að friður ríki um þetta Kafkaíska reglugerðahelvíti? Ætlum við að sitja lömuð og aðgerðarlaus frammi fyrir því eða ætlum við að heyra Jesú segja: „Stattu upp!“

Og er það ekki einmitt hlutverk kirkjunnar að brýna sína spámannlegu raust og mæla orð hans inn í nútímann?

Stattu upp!

Kraftaverkasögur Jesú hafa alltaf þrjár víddir.

Sú fyrsta er sú bókstaflega: Jesús læknar lamaðan mann og fræðimennirnir mögla því Jesús á ekki að gera svoleiðis. Þetta er sú auðskildasta. Í henni felst ekkert annað en það sem hver sem er getur sleikt af yfirborði textans eins og hann kemur fyrir með því einu að reanna augunum yfir hann. Sorglega margir fara ekki lengra en þetta í lestrinum og ýmist festast í barnalegri bókstafstrú eða hafna alfarið frásögnum Nýja testamentisins sem einhverju ótrúverðugu hókus-pókus bulli.

Önnur víddin er sú táknræna: Hvað táknar lömunin? Blindur maður sér ekki ljósið. Sá heyrnarlausi heyrir ekki Orð Guðs. Sá mállausi getur ekki tekið þátt í að útbreiða sannleikann. Sá lamaði liggur bara eins og slytti og gerir ekkert. Hvað tákna fræðimennirnir? Hvaða öfl eru persónugerð í þeim?

Og loks er það trúarlega víddin: Hvaða erindi á þessi frásögn við mig í dag?

Syndir þínar eru fyrirgefnar. Letin og ábyrgðarleysið, sinnuleysið og skeytingarleysið sem hafa lamað þig. Þetta tilheyrir fortíðinni ef þú mætir Jesú núna og heyrir rödd hans.

Og það sem rödd has segir við þig er þetta: Stattu upp, taktu rekkju þína og farðu heim til þín.  Vertu til gagns í samfélaginu heima hjá þér. Ekki vera lamaður lengur. Sópaðu burt ryki fortíðarinnar, mölvaðu allar morknu og fúnu stoðirnar undan mannfjandsamlegum og sálarlausum kerfum valdsins sem tyggja og bryðja lifandi manneskjur og spýta þeim svo út úr sér eins og hverju öðru rusli.

Og það sem fræðimennirnir, fulltrúar valdsins og kerfisins, segja við þig er: Hlustaðu ekki á hann. Þetta er lögbrot!

Í kirkjunni á að ríkja friður. Vissulega. Ekki sinnuleysi. Ekki skeytingarleysi. Heldur raunverulegur friður.

Það er ekki tilgangur kirkjunnar að rugga bátum til að rugga bátum. Það er tilgangur kirkjunnar að þjóna sannleikanum í kærleika – líka þegar það ruggar bátum.

Og kirkjan á að boða frið. Raunverulegan frið.

Það þýðir að þar sem óréttlæti veður uppi má hún aldrei vera til friðs.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Read Full Post »