Feeds:
Færslur
Athugasemdir

Archive for nóvember, 2016

ten-virginsGuðspjall: Enn sagði Jesús: „Þá er líkt um himnaríki og tíu meyjar sem fóru til móts við brúðgumann með lampa sína. Fimm þeirra voru fávísar en fimm hyggnar. Þær fávísu tóku lampa sína en höfðu ekki olíu með sér en hinar hyggnu tóku olíu með á könnum ásamt lömpum sínum. Nú dvaldist brúðgumanum og urðu þær allar syfjaðar og sofnuðu. Um miðnætti kvað við hróp: Brúðguminn kemur, farið til móts við hann. Þá vöknuðu meyjarnar allar og tóku til lampa sína. En þær fávísu sögðu við þær hyggnu: Gefið oss af olíu yðar, það er að slokkna á lömpum vorum. Þær hyggnu svöruðu: Nei, hún nægir aldrei handa öllum. Farið heldur til kaupmanna og kaupið handa yður. Meðan þær voru að kaupa kom brúðguminn og þær sem viðbúnar voru gengu með honum inn til brúðkaupsins og dyrum var lokað. Seinna komu hinar meyjarnar og sögðu: Herra, herra, ljúk upp fyrir oss. En hann svaraði: Sannlega segi ég yður, ég þekki yður ekki. Vakið því, þér vitið ekki daginn né stundina. (Matt 25.1-13)

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Síðastliðinn þriðjudag settist ég við tölvuna og athugaði hver væri guðspjallstexti dagsins í dag. Í ljós kom að hann var dæmisagan um meyjarnar tíu. Textinn talaði ekkert sérstaklega til mín þá. Þetta er nokkuð klassísk eskatólógísk dæmisaga. Þá á ég við að viðfangsefnið er dómurinn og hinir hinstu dagar. Boðskapurinn er sá að maður á alltaf að vera viðbúinn, í raun lifa hvern dag eins og hann væri manns síðasti því enginn veit sitt skapadægur.

Marteinn Lúter á einhvern tímann að hafa verið spurður hvað hann myndi gera ef hann vissi að hann myndi deyja á morgun. Hann á að hafa svarað: „Ef ég hafði hugsað mér að planta fíkjutré myndi ég planta fíkjutré.“ Og auðvitað er þetta málið. Ef þú þarft að fara út um allan bæ til að ganga frá lausum endum, sættast við þennan eða hinn eða gera upp einhver mál … þá hefurðu ekki hagað lífi þínu skynsamlega.

Ég velti því aðeins fyrir mér hvernig ég gæti talað um þetta efni þannig að það hefði einhverja vísun í stað og stund, að það talaði inn í aðstæður okkar í dag. Hvaða erindi eiga dapurlög örlög þessara fimm fávísu meyja við okkur hér og nú?

Ég gafst upp á að finna á því flöt, treysti því að mér myndi leggjast eitthvað til og fór að sofa.

Svo kom miðvikudagsmorgunn.

Fréttin sem skók heimsbyggðina

Óhætt er að segja að miðvikudagsmorguninn hafi fært fréttir sem skóku heimsbyggðina. Maður sem virtist  fyrst og fremst byggja kosningabaráttu sína á útlendingaandúð og naut opinbers stuðnings Ku Klux Klan, maður sem hvatti til ofbeldis og lofaði því að næði hann kjöri myndi mannréttindabrotum Bandaríkjastjórnar fjölga til muna, maður sem telur hlýnun jarðar af mannavöldum vera samsæri Kínverja gegn Bandaríkjunum og hefur heitið að stórauka brennslu og vinnslu jarðefnaeldsneytis og draga Bandaríkjamenn út úr Parísarsamkomulaginu … verður næsti leiðtogi stærsta hernaðar- og kjarnorkuveldis mannkynssögunnar.

Og allt í einu urðu fávísu meyjarnar fimm að samtímamönnum mínum. Konan sem fór út með lampann sinn í Palestínu fyrir tvöþúsund árum en hafði ekki rænu á að taka með olíu á hann gengur aftur í kjósandanum í Flórida sem finnst mikilvægara að losna við múslimina og mexíkanana úr hverfinu sínu heldur en að gera eitthvað til að koma í veg fyrir að hverfið sökkvi í sæ.

Mig langar ekki til að falla í þá gryfju sem skopmyndateiknarinn Halldór Baldursson lýsti svo stórkostlega í teikningu nú í vikunni þar sem tveir hipsterar sitja á kaffihúsi og annar segir við hinn:

„Við upplýsta og gáfaða fólkið þurfum að fara í djúpa sjálfsskoðun til að greina af hverju allt ótrúlega heimska og ómenntaða fólkið er með svona fávitalegar skoðanir.“

En ég tel alveg ljóst að stærsta frétt vikunnar sé ekki góð og að það sé skylda okkar að horfast í augu við það.

Heimskan og hatrið

Ég held að fólk sé ekki illt í eðli sínu. Kjósandinn í Florida er ekki vond manneskja. En það er hægt að ala á ótta og tortryggni þannig að venjulegt fólk verður fært um svívirðilegustu grimmdarverk. Um það geymir sagan sorglega mörg dæmi.

Meyjarnar fimm voru fávísar. Þær treystu því að þær þyrftu ekki að hugsa, ekki að hugsa fyrir hlutunum, að séð yrði fyrir þeim með þeim afleiðingum að það slökknaði á ljósinu þeirra og þær urðu óupplýstar. Táknmálið er augljóst.

Það er voðalega þægilegt að þurfa ekki að hugsa. Það er ákveðinn léttir í því að geta bara pakkað sjálfstæðri hugsun ofan í kassa og fylgt einhverri stefnu, einhverjum foringja, og fundið tilgang í slagorðum og upphrópunum.

Svona umgangast sumir meira að segja kristindóminn. Samt varar Jesús okkur við þannig þankagangi. Í einni af þekktari ræðum sínum segir hann:

„Þér eruð salt jarðar. Ef saltið dofnar með hverju á að selta það? Það er þá til einskis nýtt, menn fleygja því og troða undir fótum.“ (Matt 5.13)

Það er engin tilviljun að gríska sögnin „moronizomai“, sem hér merkir „að dofna“ hafði líka aðra merkingu í grísku þess tíma: „að forheimskast“. Sú merking lifir enn í nafnorði sem myndað er af sama stofni: Moron. Hálfviti. Jesús segir við okkur: „Ef þið forheimskist verðið þið fótum troðin.“

Kannski er það einmitt þessi mannlegi veikleiki, sem við getum kallað hugsunarleysi, andlega leti, en líka einfaldlega heimsku, sem er mesta ógnin sem við stöndum frammi fyrir núna.

Heimskan hættulegri en illskan

 „Heimskan er háskalegri óvinur hins góða heldur en illskan,“

skrifaði þýski guðfræðingurinn Dietrich Bonhoeffer í bréfi um áramótin 1942 – 1943. Hann var þá í fangelsi en hann hafði verið handtekinn fyrir andspyrnu við ógnarstjórn nasista og fyrir að gagnrýna opinberlega útrýmingarherferð þeirra á hendur gyðingum. Bonhoeffer var tekinn af lífi af nasistum árið 1945, innan við mánuði áður en Þjóðverjar gáfust upp.

En í bréfinu heldur hann áfram og útskýrir þessa fullyrðingu sína:

„Hinu illa má mótmæla,“ segir hann. „Það verður auðveldlega afhjúpað, ef í hart fer er hægt að stemma stigu við því með valdi, hið illa felur alltaf í sér sjálfseyðileggingu með því að það skilur ávallt eftir sig vanlíðan meðal fólks. Gegn heimskunni erum við varnarlaus. Gegn henni duga hvorki mótmæli né vald; ástæður skipta engu máli; staðreyndum, sem eru andstæðar eigin fordómum, þarf einfaldlega ekki að trúa – í slíkum tilvikum verður hinn heimski meira að segja gagnrýninn.“

Síðar í bréfinu segir hann:

„Hinn heimski er oft þrjóskur, en það leynir samt ekki ósjálfstæði hans. Þvert á móti finnur maður það í samtali við hann að maður er ekki að tala við hann sjálfan, við hann persónulega, heldur við slagorð, yfirlýsingar o.s.frv. sem hafa náð valdi yfir honum. Honum er ekki sjálfrátt, hann er blindaður, í reynd hefur hann verið misnotaður, honum hefur verið misþyrmt. Þegar hinn heimski hefur þannig verið gerður að viljalausu verkfæri er hann einnig fær um að vinna illvirki og jafnframt ófær um að skynja hið illa.“

Bonhoeffer skrifaði á þýsku, texti hans er hér í þýðingu dr. Gunnars Kristjánssonar.

Ótti og hugrekki

Við þessi orð Bonhoefers er litlu hægt að bæta.

Mig langar þó að segja – ef einhverjum líður eins og ég sé hér að ala á ótta … við ótta og heimsku – að það er ekki það sem fyrir mér vakir. Mig langar til að ala á hugrekki. Fyrir mér er hugrekki ekki í því fólgið að þekkja ekki ótta. Sá sem ekki þekkir ótta hefur ósköp lítil not fyrir hugrekki. Við þurfum hugrekkið einmitt til að sigrast á óttanum.

Verum hugrökk því hrætt fólk gerir ljóta hluti. Hugrakkt fólk breytir heiminum.

Verum ekki heldur svo barnaleg að afgreiða þá, sem orðið hafa heimskunni og óttanum að bráð, sem vont fólk. Sýnum þeim það kristilega viðmót sem Bonhoeffer gerir svo vel grein fyrir í bréfi sínu; að skilja að þau eru fórnarlömb blekkinga og siðferðilegrar misnotkunar. Þeim er ekki sjálfrátt, þau hafa verið gerð að viljalausum verkfærum ótta síns.

Og umfram allt: Verum ekki fávís. Verum hyggin. Verum eins og meyjarnar sem höfðu vit á því að taka með sér olíu á lampana sína þannig að við getum verið ljós í myrkri heimsku og haturs.

Fáir eru þeirrar skoðunar að atburðir vikunnar boði betri tíma. Margir þeldökkir og islamskir Bandaríkjamenn hafa beinlínis lýst því yfir að úrslit forsetakosninganna geri þá skelfingu lostna enda er hatursglæpum þegar tekið að fjölga í Bandaríkjunum og búast má við því að sú þróun haldi áfram; að heimskunni finnist hún hafa öðlast tilverurétt og lögmætingu. Við megum búast við því að fá mörg tilefni til að finna fyrir ótta og óhug á næstunni.

En það þýðir líka að við fáum mörg tækifæri til að sýna hugrekki. Mörg tækifæri til að sigrast á ótta og hatri og láta kærleika og umburðarlyndi í staðinn ráða för okkar.

Og munum ef öll sund virðast lokuð, ef okkur líður eins og vitfirringin hafi tekið völdin, að illskan og heimskan ráði öllu og kærleikurinn hafi verið negldur á kross … að ef það er eitthvað sem við kristnir menn megum aldrei gefast upp á að trúa þá er það að kærleikurinn verður ekki krossfestur.

Hann rís upp aftur.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem er í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt við messu í Laugarneskirkju 13. 11. 2016

Read Full Post »

post-64231-this-is-fine-dog-fire-comic-im-n7mp

Það fyllir mig ákveðnum óhug að fylgjast með umfjölluninni í fjölmiðlum um úrslit forsetakosninganna í Bandaríkjunum sl. þriðjudag. Þannig er strax byrjað að reyna að skilja á milli „forsetans Trump“ og „forsetaframbjóðandans Trump“. Talað er um að sennilega muni hann „tóna sig niður“ þegar hann tekur við embætti – að kosningabarátta hans hafi verið úthugsuð fjölmiðlaherferð til að afla fylgis en ekki forsmekkurinn af því sem koma skal. Jafnvel heyrist talað um að úrslitin séu ekki eins slæm og margir vilja  vera láta, þetta boði e.t.v betri tíma í alþjóðastjórnmálum í kjölfar aukinnar þíðu í samskiptum Bandaríkjanna  við Rússland.

Þetta síðastnefnda er auðvitað ákveðin aðferð til að lýsa einangrunarstefnu Trumps, þar sem Bandaríkin verða afgirt „idiocracy“ á sjálfsmorðssiglingu sem lætur umheiminn afskiptalausan og skilji þarmeð fyrrum Sovétlýðveldi Austur-Evrópu eftir varnarlaus gegn árásarstefnu Pútíns sem um þessar mundir birtist einna helst í innrás Rauða hersins í Úkraínu – og enginn kallar heldur sínu rétta nafni.

Þetta er að mínu mati stórhættulegt. Með því að tala svona er sjónum beint frá því sem raunverulega gerðist sl. þriðjudag og er að gerast í kringum okkur. Það getur verið þægilegt af því að það er svo erfitt að skoða það í réttu ljósi. En þetta er aumkvunarverð meðvirkni, hlægileg tilraun til að gera gott úr einhverju sem er of slæmt til að meðtaka það.

Við megum ekki loka augunum fyrir staðreyndum.

Staðreyndin er þessi:

Sl. þriðjudag fór fjórðungur Bandaríkjamanna á kjörstað til að kjósa nauðgara sem hvatt hefur til ofbeldis og mannréttindabrota og nýtur opinbers stuðnings Ku Klux Klan, skattsvikara og kennitöluflakkara sem ekki er bara óheiðarlegur hálfviti í viðskiptum (hefur nú þegar tapað 75% af föðurarfinum) heldur er svo vitlaus að hann telur hlýnun jarðar mannavöldum, sem er óhrekjanleg, vísindalega margsönnuð staðreynd, vera samsæri Kínverja gegn Bandaríkjunum.

Atkvæði fjórðungs Bandaríkjamanna nægði til að vanstilltur siðblindingi verður næsti leiðtogi stærsta hernaðar- og kjarnorkuveldis mannkynssögunnar.

Þegar íslenskir stjórnmálamenn tala um að „orðræða Trumps“ sé „áhyggjuefni“ er það vissulega alveg rétt – svona eins og það er í sjálfu sér alveg rétt þegar matreiðslumeistari segir að blásýra sé kannski ekki sérlega æskilegt hráefni í matargerð. Slík ummæli gera hvorugan afur á móti sérlega trúverðugan.

Afstaða Trumps í loftslagsmálum ein og sér nægir til að gera hann að langhættulegasta manni heims þegar hann tekur við embætti.

Sigur Donalds Trumps er ekki þörf áminning til fjölmiðla um sambandsleysi þeirra við grasrótina. Hann er ekki stríðsyfirlýsing almennings á hendur „kerfinu“. Hann er ekki heldur krúttlegt dæmi um það hve forneskjuleg og úrelt bandarísk kosningalöggjöf er þar sem Hillary Clinton fékk fleiri atkvæði. Og allra síst er hann einhver ávísun á betri tíma.

Sigur Donalds Trumps er hnattrænt stórslys af stærðargráðu sem mannkynið hefur ekki séð í a.m.k. 70 ár – í besta falli. Hugsanlega ekki síðan það kom fram á sjónarsviðið fyrir 30.000 árum.

Að fjalla um Donald Trump sem eitthvað annað er svívirðilegt ábyrgðarleysi.

Með því er hið óásættanlega normalíserað.

Read Full Post »

woman-issue-of-blood-164042_186x186Guðspjall: Meðan Jesús mælti þetta við þá kom forstöðumaður einn, laut honum og sagði: “Dóttir mín var að skilja við, kom og legg hönd þína yfir hana, þá mun hún lifna.” Jesús stóð upp og fór með honum og lærisveinar hans. Kona, sem hafði haft blóðlát í tólf ár, kom þá að baki Jesú og snart fald klæða hans. Hún hugsaði með sér: “Ef ég fæ aðeins snert klæði hans mun ég heil verða.” Jesús sneri sér við og er hann sá hana sagði hann: “Vertu hughraust, dóttir, trú þín hefur bjargað þér.” Og konan varð heil frá þeirri stundu. Þegar Jesús kom að húsi forstöðumannsins og sá pípuleikara og fólkið í uppnámi sagði hann: “Farið burt! Stúlkan er ekki dáin, hún sefur.” En þeir hlógu að honum. Þegar fólkið hafði verið látið fara gekk hann inn og tók hönd hennar og reis þá stúlkan upp. Og þessi tíðindi bárust um allt héraðið. (Matt 9.18-26)

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Skiptir máli hverju maður trúir?

Kannski ekki.

Kannski má það einu gilda hverju maður trúir, svo framarlega sem …

Og þar stendur einmitt hnífurinn í kúnni.

Þegar maður getur ekki haldið áfram með setninguna „Kannski má það einu gilda hverju maður trúir“ án þess að á eftir komi „svo framarlega sem“ eða „að því tilskyldu“ þá skiptir svo sannarlega máli hverju maður trúir.

Bölvun sorgarinnar

Mér er ætíð minnisstæð saga sem trúboði nokkur sagði mér fyrir mörgum árum, en hann hafði starfað í Afríku. Trú fólksins sem hann starfaði með held ég að uppfylli þau skilyrði að geta kallast frumstæð. Fólkið trúið á anda forfeðranna og einkum og sér í lagi bölvun þeirra. Ef einhver varð fyrir óláni var það af því að bölvun hvíldi á honum og best var að halda sig fjarri honum á meðan bölvunin loddi enn við hann. Þetta var auðvitað erfitt í landi þar sem fátækt var mikil, heilbrigðisþjónusta bágborin ef einhver og ungbarnadauði landlægur.

Sagan var um fátækan bónda sem misst hafði tvö börn. Hann hafði tekið kristna trú. Illu heilli missti hann þriðja barnið eftir að hann var orðinn hluti af hinu kristna samfélagi. Þá varð sú breyting á að í stað þess að allir forðuðust hann á meðan hann syrgði litla barnið sitt var hann umvafinn hlýju og kærleika. Fólk kom til hans og færði honum blóm og mat og faðmaði hann og grét með honum í stað þess að forðast hann eins og áður.

Nú er rétt að fram komi að minnstur hluti þess starfs sem trúboðar sinna í dag er falið í beinu trúboði, þ.e.a.s. því að kristna sem flesta. Trúboðar ganga fyrst og fremst fram í kærleika Guðs, efla heilbrigðistþjónustu, grafa vatnsbrunna og koma almennt fram af miskunn og reyna að stuðla að betra lífi fyrir fólk. Öflugasta trúboðið er verkin. Hjálparstarfið spyr ekki um trú þeirra sem þiggja hjálpina og ekki einu sinni um trú heimamannanna sem ráðnir eru til að veita hana. Í síðustu viku kom til dæmis eþíópskur múslimi hingað í Laugarneskirkju og sagði fermingarbörnum frá starfi sínu fyrir hjálparsamtök kirkjunnar við að grafa vatnsbrunna í Eþíópíu.

En sagan um manninn sem í sjálfu sér hafði ekki öðlast meiri lífsgæði – börnin hans héldu áfram að deyja – en upplifði það fyrst eftir að hann kom í kristið samfélag að vera sýnd samúð og kærleikur undir þeim kringumstæðum, hefur verið með mér æ síðan.

Það skiptir nefnilega máli hverju maður trúir.

Óhreinu konurnar

Guðspjall dagsins segir frá tveimur óhreinum einstaklingum. Einstaklingum sem bölvun hvíldi á, einstaklingum sem blátt bann lá við því að snerta. Tveim konum.

Önnur hafði haft blóðlát í tólf ár.

Í Ísrael til forna hvíldi bölvun á blóði. Þannig giltu strangar reglur um það hvernig umgangast átti konu á meðan hún hafði á klæðum. Hana mátti ekki snerta og hún mátti ekki vinna nein húsverk. Kannski var þetta fyrsta kvennafríið; konur fengu frið fyrir ástleitni eiginmanna sinna og undanþágu frá skyldustörfum við heimilishald einmitt þegar þær þurftu kannski mest á því að halda. En feðraveldið gat auðvitað ekki réttlætt það með öðrum hætti en þeim að konurnar væru óhreinar.

Þessi kona hafði verið óhrein í tólf ár.

Hana hafði enginn mátt snerta allan þann tíma.

Tólf ár eru langur tími. Að vera útskúfaður svona lengi setur mark sitt á þann sem fyrir því verður. Við þráum öll að vera samþykkt, ekki umborin heldur samþykkt. Viðurkennd. Okkur er nauðsynlegt að eiga samfélag, vera hluti af samfélagi. Vera snert og snerta aðra. Sá sem fer á mis við það fer á mis við stóran hluta þess sem gerir lífið þess virði að vera til.

Hin konan í sögunni, tólf ára stúlka, var látin.

Lík voru líka talin óhrein. Þau mátti ekki snerta.

Þessi saga er um tvær óhreinar konur sem ekki mátti snerta.

Og Jesús snerti þær báðar.

Að koma við

Af hverju erum við að rifja þetta upp næstum því tvöþúsund árum síðar?

Jú, það er til að minna okkur á að ef við erum lærisveinar Jesú Krists þá snertum við hvert annað.

Þetta snýst um að koma við. Við komum hvert við annað og við komum hvert öðru við.

Þetta getur verið erfitt.

Sumt fólk er erfitt að umgangast. Það er flókið. Við kunnum það ekki og okkur finnst það óþægilegt. Og þá er freistandi að forðast það.

Það gerir kröfur til okkar að umgangast fólk sem er lamað af sorg, svo dæmi sé tekið. Sorg þeirra snertir okkur og það er ekki þægileg snerting. Kannski erum við hrædd um að segja eitthvað vitlaust, að kunna okkur ekki … við erum ekki heima í því hvað er við hæfi. Kannski finnst okkur bara óþægilegt að vera þar sem svona mikil vanlíðan er í kringum okkur.

Þá er auðvitað miklu þægilegra að sleppa því bara að umgangast sorgmædda – eins og þau séu óhrein. Að leggja lykkju á leið sína framhjá sorgarhúsi – eins og á því hvíli bölvun.

Það er lausn heigulsins. Þess sem þorir ekki að horfast í augu við lífið á lífsins forsendum.

„Ég kann ekkert að umgangast X“, segir hann og í stað X getum við sett fatlaða, þroskahefta, fórnarlömb kynferðisofbeldis eða hvers sem er annars, flóttafólk, fólk með annan litarhátt, fólk með aðra kynhneigð, jafnvel bara konur eða börn – hvaðeina sem notað hefur verið til að jaðarsetja fólk og útskúfa.

Heigullinn sér ekki manneskjuna. Hann sér bara sjúkdóminn, fötlunina, litarháttinn, kynhneigðina, ofbeldið … eða hvað sem það er sem gerir það að verkum að það er í hans huga pínulítið flóknara að umgangast viðkomandi heldur en þá sem endurspegla hann sjálfan að flestu eða öllu leyti.

Þú ert þú

Jesús sér þig.

Fyrir honum ert þú þú. Þú ert ekki kynhneigðin þín eða kynferðið þitt og þú ert ekki heldur ofbeldið sem þú varðst fyrir eða ógæfan sem henti þig. Þú ert ekki sjúkdómurinn þinn eða fötlunin þín. Þú ert ekki alkóhólisminn þinn og allt það ljóta og aumkvunarverða sem hann lét þig gera til að viðhalda sjálfum sér. Þú ert ekki meðvirknin þín og allt það brjóstumkennanlega sem hún neyddi þig til að láta bjóða þér. Þú ert hvorki glæpurinn sem þú framdir né glæpurinn sem framinn var á þér.

Þú ert þú.

Konan í guðspjallinu hélt að Jesús sæi hana ekki. Hún hélt að hún gæti stolið blessun hans og orðið heil án þess að hann þyrfti að verða þess var. Hún hafði slíka trú á honum að ef hún aðeins fengi snert klæði hans var hún sannfærð um að hún fengi bót meina sinna. Hún var svo sannfærð um að hún væri óhrein og skítug að henni datt ekki í hug að hann myndi virða hana viðlits. Allra síst þegar hann var í svona virðulegum félagsskap. Í frásögnum Markúsar og Lúkasar af þessum atburði er forstöðumaðurinn nafngreindur sem Jaírus. Hann var fínn maður og hátt settur, forstöðumaður samkundunnar, maður af því tagi sem virti lögmálið og hefði aldrei komið til hugar að eiga samfélag við óhreina konu. Frelsarinn var á leiðinni í fínt hús að sinna brýnu verkefni. Hví hefði hann átt að staldra við á leið sinni að sjúkrabeði dóttur fyrirmennis til að sinna hraki eins og henni?

En Jesús sá hana. Og hann sagði ekki við hana: „Þín útsmogna ráðagerð hefur bjargað þér.“ Og hann sagði ekki heldur við hana: „Hinn guðdómlegi máttur í faldi klæða minna hefur bjargað þér.“ Nei, hann sagði: „Trú þín hefur bjargað þér.“

Og hann kallaði hana „dóttur“. Því rétt eins og látna dóttirin í fína húsinu var þessi þjakaða og forsmáða kona líka dóttir.

Þannig sá Jesús hana.

Og þannig sér Jesús þig líka.

Þegar þú horfir í spegil og þér líkar ekki við manneskjuna sem þú sérð … þegar þér finnst þú hve óhreinastur eða óhreinust … þegar þér finnst þú hve ósnertanlegastur eða ósnertanlegust … þá sér Jesús þig.

Og hann snertir þig.

Og ef þú trúir því getur trú þín gert þig heilan.

Það skiptir nefnilega máli hverju maður trúir.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 6. nóvember 2016

Read Full Post »