Feeds:
Færslur
Athugasemdir

Archive for janúar, 2017


Guðspjall:
Jesús kom til Jeríkó og gekk gegnum borgina. En þar var maður er Sakkeus hét. Hann var yfirtollheimtumaður og auðugur. Langaði hann að sjá hver Jesús væri en tókst það ekki fyrir mannfjöldanum því að hann var lítill vexti. Hann hljóp þá á undan og klifraði upp í mórberjatré til að sjá Jesú, en leið hans lá þar hjá. Og er Jesús kom þar að leit hann upp og sagði við hann: „Sakkeus, flýt þér ofan, í dag ber mér að vera í húsi þínu.“ Hann flýtti sér ofan og tók á móti honum glaður. Þeir er sáu þetta létu allir illa við og sögðu: „Hann þiggur boð hjá bersyndugum manni.“ En Sakkeus sneri sér til Drottins og sagði við hann: „Drottinn, helming eigna minna gef ég fátækum og hafi ég haft nokkuð af nokkrum gef ég honum ferfalt aftur.“ Jesús sagði þá við hann: „Í dag hefur hjálpræði hlotnast húsi þessu enda ert þú líka niðji Abrahams. Því að Mannssonurinn er kominn að leita að hinu týnda og frelsa það.“ (Lúk 19.1-10)
sakkeus

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Sagan um Sakkeus er skemmtileg. Hún er myndræn, hefur skýra framvindu og endar á óvæntum snúningi – í bókstaflegri merkingu.

Það er einkum við tvenns konar tilefni sem sagan af Sakkeusi er lesin og stuðst við hana í helgihaldi.

Annað tilefnið er barnastarf. Börn eiga auðvelt með að setja sig í spor Sakkeusar. Þau tengja við þetta vandamál, að vera of lítill og þurfa príla upp á eitthvað til að sjá. Til er vinsælt barnalag um Sakkeus, „Hann Sakkeus var að vexti smár“, og gaman er að leika þessa sögu. Sá sem leikur Sakkeus fær að príla.

Hitt tilefnið er við húsblessun. Þegar húsnæði er blessað er sagan af Sakkeusi einn þeirra ritningartexta sem handbókin leggur til að sé lesinn. Og hvers vegna skyldi það vera?

Það er til að minna okkur á að það er ekki endilega virðulegasta húsið í bænum þar sem Jesú er að finna. Það er ekki endilega þar sem talað er hæst og oftast um Guð sem hans verður mest vart.

Avery Jackson

Fyrir skömmu las ég grein um bandaríska fjölskyldu. Hjónin eiga dreng sem virðist vera stúlka í líkama pilts. Foreldrar þessarar transstúlku ákváðu að leyfa barninu sínu að ákveða kynferði sitt sjálft, eftir miklar sálarkvalir yfir andlegri vanlíðan þess og hvað væri til ráða. Nú ala þau drenginn sinn upp sem stúlku, hann eða hún klæðir sig eins og stúlka og er á allan hátt stúlka – nema auðvitað líffræðilega. En barnið er níu ára, það hefur nægan tíma til að skipta um skoðun áður en kynleiðréttingarferli hefst með hormónagjöf og seinkun kynþroska og – ef vill – kynleiðréttingaraðgerð. Nú líður barninu vel og allir eru hamingjusamir – eða hvað?

Ekki alveg.

Hið virta tímarit National Geographic ákvað að birta mynd af Avery Jackson, en svo nefnist stúlkan, á forsíðu tölublaðs þar sem fjallað er um nýjustu rannsóknir á kynáttun og kyngervi fólks. Það hafði þær afleiðingar að nú berast fjölskyldu hennar með reglulegu millibili bréf með svívirðingmu og jafnvel morðhótunum – frá fólki sem segist vera kristið og að Jackson fjölskyldan sé viðbjóðsleg í augum Guðs og því réttdræp.

Morðhótanir í Jesú nafni

Það hvarflar ekki að mér að efast um að þeir sem senda þessi bréf séu sannfærðir um að þeir séu að gera rétt. Auðvitað eru þeir vissir um að þeir séu að vinna verk Guðs, að þeir hafi sannleikann sín megin. Það er nefnilega hægt að gapa um Guð og kærleika í þeirri sannfæringu að maður sé í alveg sérstöku uppáhaldi hjá himnaföðurnum á meðan heimsmynd manns er svo brothætt að maður finnur sig knúinn til að skrifa morðhótun til þeirra sem ögra henni.

Nú ætla ég ekki að fullyrða hér og nú að ekkert sé við það að athuga hvernig brugðist hefur verið við kynáttunarvanda Avery litlu. National Geographic hefur sætt gagnrýni fyrir  umfjöllun sína. En það er ekki mitt að dæma. Ég er ekki sálfræðingur, geðlæknir eða kynfræðingur, hvað þá þvagfæraskurðlæknir. Ég hef ekkert vit á þessu.

En ég er guðfræðingur og kristinn maður og ég tel mig hafa vit á öðru, til dæmis því að kristið fólk sendir ekki morðhótanir. Ég veit að Kristur sagði: „Dæmið ekki og þér munuð eigi verða dæmd.“ (Lúk 6.37), „Á því munu allir sjá að þér eruð lærisveinar mínir að þér berið elsku hver til annars.“ (Jóh 13.35), „Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra það hafið þér gert mér.“ (Matt 25.40) og „Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður það skuluð þér og þeim gera.“ (Matt 7.12) og þannig mætti lengi telja. Auðvitað er það ofvaxið mínum skilningi að manneskja skuli telja sig geta hótað meðbræðrum sínum ofbeldi og líkamsmeiðingum í Jesú nafni.

Orðin tóm

Nei, Guð er ekki alltaf að finna þar sem nafn hans er hrópað hæst. Enda segir Jesús á öðrum stað: „Ekki mun hver sá sem segir við mig: Drottinn, Drottinn, ganga inn í himnaríki heldur sá einn er gerir vilja föður míns sem er á himnum.“ (Matt 7.21)

Sakkeus kom ekki á móti Jesú berjandi sér á brjóst, hrópandi „Drottinn, Drottinn!“

Hann þyrsti í að fá að sjá frelsarann og þar sem hann var svo smár vexti að það kom í veg fyrir að hann gæti það með sama hætti og aðrir greip hann til þess ráðs að klifra upp í tré. Og Jesús sá hann. Jesús sá löngun hans til að sjá sig. Og Jesús gaf sig að honum og sagði: „Í dag ber mér að vera í húsi þínu.“

Og þannig er það enn þann dag í dag. Ef þú berð þig eftir því að sjá Jesú, ef þú ert reiðubúinn til að leggja eitthvað meira á þig til þess en það eitt að standa álengdar og góna í skjóli hinna, þá sér Jesús þig og hann gefur sig að þér og hann mun verða í húsi þínu.

Jesús og bókhaldið

Samborgarar Sakkeusar fyrirlitu hann. Þeir fyrirlitu það með hvaða hætti hann hafði komist í álnir. Hann var tollheimtumaður. Tollheimtumenn innheimtu skatta fyrir rómverska heimsveldið og smurðu ofan á þá. Það var þóknun þeirra. Sakkeus var auðugur segir í textanum svo ímynda má sér að hann hafi verið duglegur við að bæta hvers konar umsýslukostnaði, stimpilgjöldum, þjónustugjöldum og öðru slíku við það sem hann innheimti.

En Jesús spurði ekki um það. Jesús bað ekkert um að fá að sjá bókhaldið hjá Sakkeusi. Það að Jesús gaf sig að Sakkeusi olli aftur á móti stakkaskiptum í lífi hans og þankagangi. Þar kemur snúningurinn. Sakkeus sýnir iðrun og gerir yfirbót. „Helming eigna minna gef ég fátækum og hafi ég haft nokkuð af nokkrum gef ég honum ferfalt aftur,“ segir hann. Jesús bað hann ekkert um það. Hann sagðist aðeins myndu dvelja í húsi hans. Dvöl hans var ekki háð því skilyrði að Sakkeus gerði upp bókhaldið sitt.

En þetta er það sem gerist þegar Jesús dvelur hjá þér. Þú ferð yfir bókhaldið þitt sjálfur. Og hér er ég ekki að tala um peninga. Ég er að tala um lífsins bók.

Og þess vegna á þessi saga erindi við okkur nú tvöþúsund árum síðar. Þetta er ekki einangraður atburður sem átti sér stað í fjarlægum heimshluta fyrir löngu síðan. Þetta er eilífur sannleikur sem á sér stað enn þann dag í dag.

Ef þú berð þig eftir því að sjá Jesú þá sér hann það og hann kemur til þín.

Og því fylgir uppgjör.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögu anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 15. 1. 2017

Read Full Post »

angry-old-manÉg ætti að vera latur og værukær. Ég er kominn á sextugsaldur, er í góðri stöðu og á fallegt heimili. Ég á meira að segja barnabörn. Ég ætti að vera vaxinn upp úr hlutverki reiða, unga mannsins. Eftir öll þessi ár finnst mér ég eiga það inni að fá að slaka á og láta yngri kynslóðum eftir eldmóðinn og hugsjónirnar til að breyta heiminum.

Vandamálið er að ég er eldri en margir ráðamanna þjóðarinnar og þeir virðast flestir hverjir neita eindregið að leika það hlutverk sem yngri kynslóðum er ætlað í mínum huga.

Þannig tilkynnir ráðherra mér að ég sé einfaldlega geðveikur af því að ég verð var við það í vinnunni að það hafa það ekki allir gott á Íslandi. Það að mér gremjist að fólk með rétt sambönd fái tugmilljóna lán afskrifuð á sama tíma og aðrir eru bornir með valdi út úr húsum sínum og heimilum fyrir mun minni sakir er skilgreint sem úrkynjun – öfundargen sem hrjáir þá sem ekki njóta góðs af forréttinda- og afætugenum.

Og ég finn reiðina blossa upp í mér.

Þetta átti ekki að vera svona.

Mín kynslóð átti ekki að ganga berserksgang spillingar og hroka þegar hún væri komin á þann virðulega aldur að vera falin stjórnun landsins.

Reiði mín ristir dýpra en svo að það sé bara réttlætiskennd mín eða siðferðiskennd sem er misboðið. Það er bara toppurinn á ísjakanum.

Það er trú mín á mannkynið sem er í húfi.

Ef þetta er það sem mín kynslóð og sú næsta á eftir lögðu af mörkum, hvaða von er þá til þess að nokkur kynslóð – barna minna eða barnabarna – fuðri ekki líka upp á báli siðblindrar sérhygli?

Kannski er ég bara eigingjarn. Kannski gremst mér bara að stjórn landsins skuli vera í þannig höndum að ég þurfi að vera reiður, gamall maður í stað þess að geta verið latur og værukær eins og var planið.

Bakþankar í Austurlandi 12. 1. 2017

Read Full Post »

 

st-_thomas_giving_alms_by_murillo_norton_simon_museumGuðspjall: Meðan hann var í Jerúsalem á páskahátíðinni fóru margir að trúa á hann því þeir sáu þau tákn sem hann gerði. En Jesús gaf þeim ekki trúnað sinn því hann þekkti alla. Hann þurfti þess ekki að neinn bæri öðrum manni vitni. Hann vissi sjálfur hvað í manni býr. (Jóh 2.23-25)

 
Náð sé með ykkur og friður frá Guði Föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Gleðilegt nýtt ár.

Að þessu sinni byrjum við í kirkjunni nýtt ár á að minna okkur á einlægnina. Jesús þekkir alla, hann veit hvað í hverjum manni býr. Það þýðir ekkert að þykjast frammi fyrir Guði. Enginn blöffar Guð.

Þetta þema heldur áfram í næstu köflum guðspjallsins. Jesús ræðir við hina og þessa og heyrir ekki bara spurningarnar sem hann er spurður heldur sér hann spurningarnar í hjörtum viðmælenda sinna og svarar þeim líka.

Að þeyta lúðra

Það er gott að vera minntur á þetta í samfélagi þar sem það er í tísku að iðka réttlæti sitt fyrir mönnum, eins og segir í hinni helgu bók. Jesús varar okkur við að vera eins og hræsnararnir sem vilja biðjast fyrir í samkundum og á gatnamótum til að menn sjái þá, menn sem láta þeyta lúðra fyrir sér þegar þeir gefa ölmusu.

Auðvitað er gott að láta gott af sér leiða, en þegar góð málefni eru styrkt með fermetra stórum ávísunum að viðstöddum blaðaljósmyndurum er ekki laust við að sá grunur læðist að manni að eitthvað meira hafi vakað fyrir gefandanum en það eitt að láta gott af sér leiða – að góðmennskan sé liður í ímyndarsköpun og sem slík eigingjörn í eðli sínu.

Þess vegna langar mig í tilefni áramótanna að taka upp sið sem mjög tíðkaðist hér á Íslandi á árunum fyrir hrun og einhverjir kynnu jafnvel að sakna og tilnefna auðmann ársins. Mig langar aftur á móti til að gera það á öðrum forsendum en tíðkaðist hér áður fyrr – leyfist mér að segja „kristilegum“ forsendum?

Auðmenn ársins

Í þriðja sæti er maðurinn sem kom hingað í kirkjuna hálfum mánuði fyrir jól og bar inn kassa af jólamat, malti og appelsíni og öðru góðgæti og fól okkur – fyrir hönd hópsins sem hann var í forsvari fyrir – að hafa milligöngu um að koma þessu í hendurnar á fjölskyldum sem ættu erfitt með að veita sér slíkan viðgjörning yfir hátíðirnar fyrir þá peninga sem þær hefðu umleikis. Skilyrðið var að nöfn gefenda yrðu algert leyndarmál sem og nöfn þiggjendanna. Við þessu var orðið. Jólamaturinn komst í góðar hendur og þakklæti þeirra sem tóku við þessum höfðinglegu gjöfum er hér með komið til skila þangað sem það á heima. Þeir vita hverjir þeir eru – og Guð veit það líka.

Í öðru sæti er fjölskyldan sem kom hingað í kirkjuna nokkrum dögum fyrir jól með tvo konfektkassa og tvö umslög með dálítilli fjárhæð í – engu ógurlegu en nógu hárri til að breyta töluverðu fyrir efnalitlar fjölskyldur. Skilyrðið fyrir gjöfinni var það sama: Fullkomin leynd um gefendur og þiggjendur. Við í kirkjunni gátum orðið við þessu og er þakklæti þeirra sem þáðu þessar gjafir hér með komið til skila.

En í fyrsta sæti sem auðmaður ársins í mínum huga er konan sem kom til mín á samkomu hér í sókninni og bað mig að koma með sér afsíðis, því enginn mátti verða vitni að erindi hennar. Þegar hún var viss um að enginn sæi rétti hún mér fimmþúsundkrónaseðil og bað mig að setja hann í einn söfnunarbaukanna niðri í kirkjunni sem hún á svo erfitt með að sækja vegna fötlunar sinnar, en hún er bundin í hjólastól. Ég varð við því og hennar framlag var ekki eyrnamerkt einu né neinu sérstöku heldur rann það saman við þær fjárhæðir sem sóknarbörn létu af hendi rakna í samskotum hér í kirkjunni á aðventunni.

Ég treysti því að með því að greina frá þessu sé ég ekki kominn í þversögn og farinn að þeyta lúðra fyrir fólki sem einmitt vildi láta gott af sér leiða fyrir Guð og náungann en ekki fyrir ímynd sína. En ég tel gagnlegt, jafnvel nauðsynlegt, að greina frá þessu – og tel það hægt án þess að brjóta þau loforð um leynd sem gefin voru.

Heimsósóminn freistar

Það er nefnilega auðvelt að gleyma sér í heimsósómanum. Það er svo gaman að benda fingri á aðra og hrópa: „Vei!  Vei yður, þér hræsnarar og farísear!“ Það lætur manni líða vel, eins og maður sé siðferðilega á hærra plani en annað fólk og á alveg sérstökum „buddy basis“ við Jesú Krist, prókúruhafi Guðs á jörð.

Með því er ég ekki að segja að ástæðulaust sé að gagnrýna það að þurfa að lifa lífi sínu fyrir galopnum tjöldum; að allt það góða sem maður gerir, hvort sem það er fyrir sjálfan sig eða náungann, sé lítils virði sé því ekki deilt á facebook eða fjallað um það í fjölmiðlum.

En við skulum þá líka muna að fullt af fólki er einlægt og heiðarlegt í þeirri viðleitni sinni að láta gott af sér leiða og gera heiminn örlítið betri. Fullt af fólki leggur raunverulega meira upp úr því að safna sér auði sem mölur og ryð fá ekki grandað heldur en gulli og stöðutáknum. Fullt af fólki leggur meira upp úr því að vera sátt við manneskjuna sem það sér í speglinum heldur en þá sem það sér á facebook eða í fjölmiðlum.

Auðlegð hjartans

Hinir raunverulegu auðmenn allra ára eru nefnilega þeir sem gefa af auðlegð hjarta síns. Og þeir eru hér meðal okkar. Við megum ekki einblína svo á þá sem vilja að allir viti hvað þeir eru góðir og líka eru á meðal okkar – þá sem leggja svo mikið upp úr þeirri ímynd að vera mannvinir og hluti af lausninni en ekki vandamálinu að allt sem þeir segja eða gera snýst á einn eða annan hátt um þá sjálfa og framlag þeirra til kærleika og mannúðar í heiminum – að við sjáum ekki hina.

Ég er kannski heppinn. Þeir sem vilja láta þeyta fyrir sér lúðra hafa nefnilega ekki mikið verið að leggja leið sína hingað í kirkjuna á aðventunni til að láta gott af sér leiða. Þannig hef ég verið heppinn með félagsskap. En það hefur líka sannfært mig um að heimurinn er ekki á leiðinni til andskotans.

„Það eina sem hið illa þarf til að hafa sigur er að gott fólk geri ekki neitt,“ er haft eftir heimspekingnum Edmund Burke. Og ég held að það séu orð að sönnu.

Og ég er svo ótrúlega lánsamur að atvinnu minnar vegna hef ég fengið að verða vitni að mörgu góðu fólki sem einmitt er að gera eitthvað.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda.

Svo sem var í upphafi er enn og verður um aldir alda.

Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju á nýársdag 2017

 

 

Read Full Post »