Feeds:
Færslur
Athugasemdir

Archive for febrúar, 2017


Guðspjall:
Svo er um himnaríki sem mann er ætlaði úr landi. Hann kallaði á þjóna sína og fól þeim eigur sínar. Einum fékk hann fimm talentur, öðrum tvær og þeim þriðja eina, hverjum eftir hæfni. Síðan fór hann úr landi. Sá sem fékk fimm talentur fór þegar, ávaxtaði þær og græddi aðrar fimm. Eins gerði sá er tvær fékk. Hann græddi aðrar tvær. En sá sem fékk eina fór og gróf fé húsbónda síns í jörð og faldi það. talentsLöngu síðar kom húsbóndi þessara þjóna og lét þá gera skil. Sá með fimm talenturnar gekk þá fram, færði honum aðrar fimm og sagði: Herra, fimm talentur seldir þú mér í hendur, hér hef ég grætt aðrar fimm. Húsbóndi hans sagði við hann: Gott, þú góði og trúi þjónn. Yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig. Gakk inn í fögnuð herra þíns. Þá gekk fram sá með tvær talenturnar og mælti: Herra, tvær talentur seldir þú mér í hendur, hér hef ég grætt aðrar tvær. Og húsbóndi hans sagði við hann: Gott, þú góði og trúi þjónn, yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig. Gakk inn í fögnuð herra þíns. Loks kom sá er fékk eina talentu og sagði: Herra, ég vissi að þú ert maður harður sem uppsker þar sem þú sáðir ekki og safnar þar sem þú stráðir ekki. Ég var hræddur og fól talentu þína í jörð. Hér hefur þú þitt. Og húsbóndi hans sagði við hann: Illi og lati þjónn, þú vissir að ég uppsker þar sem ég sáði ekki og safna þar sem ég stráði ekki. Þú áttir því að leggja fé mitt í banka. Þá hefði ég fengið það með vöxtum þegar ég kom heim. Takið af honum talentuna og fáið þeim sem hefur tíu talenturnar. Því að hverjum sem hefur mun gefið verða og hann mun hafa gnægð en frá þeim sem eigi hefur mun tekið verða, jafnvel það sem hann hefur. Rekið þennan ónýta þjón út í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna. (Matt 25.14-30)

 
Náð sé með ykkur öllum og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Saga ein af Helga Helgasyni hefur verið mér hugleikin síðan konan mín sagði mér hana. Hún heyrði hana í tónlistarnámi sínu sem hluta af íslenskri tónlistarsögu. Ástæða þess að þessi saga leitar alltaf til mín aftur og aftur er sú að í henni kristallast, að mínu mati, hugarfar og lífsviðhorf sem segja svo margt um þjóðina sem ég tilheyri. Hún er kannski rétt og satt dæmi um íslenska þjóðmenningu, ekki einstakt og sérstakt dæmi til að flíka á tyllidögum þegar við viljum lofsyngja hana og mæra.

helgi_helgason1848-1922-litilHelgi Helgason fæddist í Reykjavík árið 1848. Sem barn varð Helgi fyrir sterkri upplifun þegar hann heyrði í fyrsta sinn leikið á fiðlu. Á þessum árum var ekki daglegt brauð að heyra tónlist á Íslandi, tónlistarmenntun lítil sem engin og nánast ekkert tónlistarlíf.

En þessir tónar, þessi seiðandi fiðlunnar, vék ekki úr huga Helga, fátæks, reykvísks alþýðupilts sem átti þess engan kost að afla sér æðri menntunar og hann kom sér upp þeim draumi að geta leikið á fiðlu. Vandamálið var auðvitað að það var hægara sagt en gert að koma höndum yfir fiðlu í Reykjavik á miðri nítjándu öldinni.

En Helgi dó ekki ráðalaus. Hann var hagleikspiltur og þegar hann var á fermingaraldri tókst honum með elju og útsjónarsemi að smíða sér fiðlu sjálfur, af vanefnum og vanþekkingu – en á þessa fiðlu lék hann og var alsæll. Og þegar faðir hans varð þessa var, þegar hann sá ástríðu drengsins síns, dugnað hans og hæfileika – að hann hafði án þess að nokkur kenndi honum eða leiðbeindi smíðað sér fiðlu sjálfur til að geta leikið á – þá ákvað hann að kosta drenginn sinn til náms …

… í trésmíði.

Góðir trésmiðir eru hverri þjóð nauðsynlegir og Helgi var góður smiður sem smíðaði mörg merkileg hús.

En hans er minnst sem frumkvöðuls í íslensku tónlistarlífi, einkum sem brautryðjanda í starfi lúðrasveita á Íslandi. Fyrst og fremst er hans þó líklega minnst sem tónskálds, en þekktasta tónsmíð hans er ábyggilega lagið sem allir þekkja við ljóð Steingríms Thorsteinssonar, Öxar við ána.

Höfum það hugfast næst þegar við syngjum Öxar við ána að þegar höfundur lagsins var á fermingaraldri smíðaði hann sér fiðlu til að geta leikið tónlist og var í kjölfarið kostaður til náms í trésmíði. Sá undirtexti við það ættjarðarljóð gerir ekki annað en að dýpka merkingu þess.

Ísland á talentur

Þessi saga rifjaðist upp fyrir mér þegar ég fór að velta fyrir mér guðspjallstexta dagsins, en hann fjallar um þær væntingar Guðs til okkar að við ávöxtum hæfileika okkar. Guðspjallið er ekki um peninga. Talenturnar eru tákn fyrir gjafir Guðs og hvernig hann vill að við förum með þær. Enn þann dag í dag nota enskumælandi þjóðir heiti þessa forna gjaldmiðils um Guðs gjafir. Talent. Og ekki bara enskumælandi þjóðir. Vinsæll íslenskur sjónvarpsþáttur hét einmitt Ísland á talentur … eða einhverri hálfþýðingu þeirrar setningar.

island-got-talent-logoEin markverðasta og ánægjulegasta breytingin á íslenskri þjóðmenningu sem mér finnst ég hafa orðið var við á minni ævi endurspeglast einmitt í þessum sjónvarpsþætti og öðrum slíkum, hvort sem þeir heita X-Factor, The Voice eða hvað annað. Ensk heiti þáttanna benda til þess að engilsaxnesk menningaráhrif séu kannski ekki alltaf til vansa.

En breytingin er í því fólgin hvernig hin ströngu Jante-lög, sem ég ólst upp við, hafa jafnt og þétt fallið úr gildi. Jante-lögin eru auðvitað skáldskapur, en fátt er einmitt eins satt og góður skáldskapur. Þau eru hugarsmíð dansk-norska rithöfundarins Aksel Sandemose og eru í tíu liðum:

1. Ekki halda að þú sért eitthvað sérstakur.

2. Ekki halda að þú sért eins merkilegur og við.

3. Ekki halda að þú sért klárari en við.

4. Ekki telja þér trú um að þú sért betri en við.

5. Ekki halda að þú vitir meira en við.

6. Ekki halda að þú sért mikilvægari en við.

7. Ekki halda að þú sért flinkur í einhverju.

8. Ekki hlæja að okkur.

9.Ekki halda að öllum sé ekki sama um þig.

10. Ekki halda að þú getir kennt okkur eitthvað.

Ellefta greinin er refsiákvæðið: „Heldurðu kannski við vitum ekki eitt og annað um þig?“

Á íslensku birtast Jante-lögin kannski einna skýrast í setningunni „ef mig skyldi kalla“ sem konugreyið varð að láta út úr sér eftir að henni varð það á að brjóta sjöundu grein Jante-laganna, „ekki halda að þú sért flinkur í einhverju“ með því að gefa í skyn að eitthvað sem hún hafði gert væri ágætt.

Og hver kannast ekki við gömlu frænkuna sem byrjar á að biðja mann að afsaka þetta lítilræði þegar hún leiðir mann að sneisafullu veisluborði sem svignar undan ljúffengum kræsingum.

Íslensk þjóðmenning

Þegar ég var unglingur dvaldi ég eitt ár sem skiptinemi í Bandaríkjunum og það kom mér verulega á óvart þegar mér varð ljóst að þar giltu Jante-lögin alls ekki. Þau áttu sér engan stað í hugarfari eða viðhorfum fólks. Ég hafði búið í hálft ár í Bandaríkjunum þegar það bar á góma í spjalli við vini mína að söngtexti eftir mig hafði verið sunginn inn á plötu. Þetta þótti þeim merkilegt. Auðvitað hafði ég ekkert verið að segja þeim frá því bara svona upp úr þurru svo þau héldu ekki að ég væri að monta mig, ég vildi ekki að þau héldu að ég væri að þykjast vera eitthvað.

En vinum mínum sárnaði að ég skyldi ekki hafa sagt þeim frá þessu fyrr. Þeim fannst ég hafa farið á bak við þá, villt á mér heimildir.

Á áttunda áratug síðustu aldar giltu mjög ströng Jante-lög í Hafnarfirði. Hver sá sem hélt að hann væri eitthvað var samstundis leiðréttur. Og væri einhver svo óheppinn að birtast í sjónvarpinu og syngja lag … jafnvel þótt það væri gert óaðfinnanlega … var æska viðkomandi í Hafnarfirði samstundis eyðilögð með einelti og uppnefnum sem gátu elt viðkomandi alla ævi og valdið andlegum sárum sem greru seint. Jante-lögunum var framfylgt af fullkomnu miskunnarleysi og harðýðgi. Fólk var eyðilagt öðrum við viðvörunar.

Verstu spurningar sem hægt var að fá voru þessar: „Hvað þykistu vera?“ og „Hvað heldurðu að þú sért?“

Í þeim báðum felst að sá sem spyr viti nákvæmlega hvernig þú ert og ef þú gefur þig út fyrir að vera betri en hann eða merkilegri eða hæfari á einhverju sviði, ertu annað hvort að þykjast eða svo skyni skroppinn að þú haldir að þú sért eitthvað annað en þú ert.

En Guð veit hver þú ert, hver hæfni þín er, hve margar talentur hann lét þig fá. Hann vill að þú ávaxtir þær. Það geta ekki allir orðið konstertmeistarar, stórsöngvarar eða – ef út í það er farið – trésmiðir. En allir geta eitthvað og allir geta þroskað það og bætt sem þeir geta og þar með auðgað og göfgað líf annarra og fegrað umhverfi sitt.

Og Guð vill að þú gerir það.

Guð vill ekki að þú hugsir: „Þessi eina talenta mín – ef mig skyldi kalla – er ekki neins virði. Ég vil ekki að fólk haldi að ég haldi að ég sé eitthvað.“ Þá ertu í myrkri ótta og sjálfsfyrirlitningar. Þar er engin gleði, aðeins grátur og gnístran tanna.

Guð vill ekki að þú haldir að þú sért eitthvað.

Hann vill að þú vitir að þú ert eitthvað.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Read Full Post »

Guðspjall: Eftir sex daga tekur Jesús með sér þá Pétur, Jakob og Jóhannes og fer með þá upp á hátt fjall að þeir væru einir saman. Þar ummyndaðist hann fyrir augum þeirra og klæði hans urðu fannhvít og skínandi og fær enginn bleikir á jörðu svo hvítt gert. Og Elía og Móse birtust þeim og voru þeir á tali við Jesú. Þá tekur Pétur til máls og segir við Jesú: „Meistari, gott er að við erum hér. Gerum þrjár tjaldbúðir, þér eina, Móse eina og Elía eina.“ Hann vissi ekki hvað hann átti að segja enda urðu þeir mjög skelfdir. Þá kom ský og skyggði yfir þá og rödd kom úr skýinu: „Þessi er minn elskaði sonur, hlýðið á hann!“ Og jafnskjótt litu lærisveinarnir í kringum sig og sáu engan framar hjá sér nema Jesú einan. Á leiðinni ofan fjallið bannaði Jesús þeim að segja nokkrum frá því er þeir höfðu séð fyrr en Mannssonurinn væri risinn upp frá dauðum. (Mrk 9.2-9)

3_devils_dancing_by_oldjoeblind-da61zzrNáð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi.

Samtími okkar er ekki líkur neinu sem við höfum staðið frammi fyrir áður og sem slíkur lýtur hann á ýmsan hátt öðrum lögmálum en við eigum að venjast, lögmálum sem við verðum eiginlega að læra á  til að geta fótað okkur almennilega í honum.

Eitt slíkt er hið svokallaða „lögmál Poes“.

Of heimskulegt til að hæðast að

Það er kennt við Bandaríkjamanninn Nathan Poe sem setti það fram í grein þar sem hann fjallaði um deilur sköpunarsinna og þróunarsinna í Bandaríkjunum, hatrammar deilur sem ætti að vera ofvaxið skilningi hvers skynsams manns að skuli enn geisa á 21. öldinni. Lögmálið gengur út á að ekki sé hægt að skopast að eða skrumskæla málflutning sköpunarsinna án þess að háðið fari fram hjá einhverjum sem er fullkomlega sammála því sem sagt er og tekur undir það. Þetta gildir ekki bara um sköpunarsinna, þá sem lesa hið undursamlega sköpunarljóð í upphafi Fyrstu Mósebókar og guðfræði þess sem vísindaritgerð og hafna alfarið vísindalegum kenningum um náttúruval. Allar heimskulegar og öfgakenndar skoðanir eru þess eðlis að það er ekki hægt að draga dár að þeim þannig að einhver einhvers staðar fatti ekki að maður er að djóka og taki undir hvert orð.

Tökum dæmi um heimskulega skoðun: „Þar sem hundruð þúsunda Bandaríkjamanna hafa verið myrtar með skotvopnum af öðrum Bandaríkjamönnum síðastliðinn áratug er nauðsynlegt að skerða alls ekki aðgengi Bandaríkjamanna að skotvopnum.“ Hér er önnur: „Þar sem tugir Bandaríkjamanna hafa verið myrtir af hryðjuverkamönnum síðastliðinn áratug er nauðsynlegt að skerða aðgengi múslima frá öðrum löndum en þeim sem hryðjuverkemennirnir komu frá að Bandaríkjunum.“ Við getum hrist höfuðið og brosað því auðvitað er enginn svo vitlaus að sjá heila brú í svona málflutningi.

En það er ekki rétt. Milljónir kjósenda í voldugasta lýðræðisríki veraldar sjá ekkert athugavert við þessa röksemdafærslu. Og það er ekkert fyndið við það.

Það er ógnvekjandi.

Og ekki bara kjósendur … heldur sjálfur forsetinn. Forsetinn, sem sjálfur segir – samkvæmt ákveðnum heimildum – að hann vilji vera forsetinn sem fólk man eftir sem konungi.

Konungsvígslan

Það er því ágætt tilefni núna til að bera saman konunga. Því guðspjallstexti dagsins í dag er konungsvígsla. Táknmálið allt talar til samtíma síns með þeim hætti að þarna er Jesús Kristur krýndur sem konungur ljóssins og lífsins. Samtími okkar hefur að miklu leyti glatað þessu táknmáli og við sjáum aðeins mann sem lyftist frá jörðinni eins og indverskur jógi í ævintýri og ljómar eins og ljósapera.

En það er ekki það sem sagan um ummyndunina á fjallinu er um. Hún lýsir konungsvígslu.

Jesús fer upp á fjallið með félögum sínum. Fjallið er helgur staður, það er þar sem Guð talar við menn í menningarheimi frjósama hálfmánans í fornöld. Guð afhenti Móse lögmálið á fjallinu. Guð talaði við Elía á fjallinu. Eftir vígsluna steig konungur Babýlons upp á fjallið helga í borginni miðri, ziggúratið, og tók við ríki sínu. Og í öðrum Davíðssálmi segir: „Konung hef ég krýnt á Síon, mínu helga fjalli“ (Slm 2.6)

Og klæði Jesú ljóma svo skært að „enginn bleikir á jörðu [fær] svo hvítt gert“. Þetta endurspeglar líka konungsvígslu. Sagnaritarinn Jósefus, sem uppi var á fyrstu öld okkar tímatals, lýsir konungsvígslu í borgríkinu Týrus þannig að konungurinn hafi verið klæddur konungsskrúða úr silfri sem ljómaði í fyrstu sólargeislunum og fyllti lýðinn ótta og lotningu. Á milli Týrusar og Jerúsalem var gott samband og í Fyrri konungabók Gamla testamentisins er því lýst að Híram Týrusarkonungur hafi sent Salómon konungi eirsmiði og útvegað vinnuafl, verkþekkingu og hráefni til að smíða innviði musterisins í Jerúsalem.

Þótt táknheimurinn hafi tekið á sig ólík blæbrigði meðal þjóða menningarsvæðisins má ímynda sér að þær hafi átt meira sameiginlegt en sagnaritarar Gamla testamentisins hafi af pólitískum ástæðum látið í veðri vaka til að undirstrika sérstöðu Ísraelsmanna sem Guðs útvöldu þjóðar.

Það er á fjallinu sem konungurinn fæðist, í óeiginlegri merkingu, verður konungur.

Konungstitlar Jesú

Allir titlar Jesú eru konungstitlar.

„Sonur Davíðs“ er eðlilega erfingi að konungdæmi Davíðs.

„Sonur Guðs“ er konungstitill sem flestir konungar þessa menningarheims báru. Þegar Alexander mikli hafði lagt undir sig Egyptaland var honum fagnað sem syni Amons Ra. Þar sem hann var orðinn lögmætur faraó hafði hann áunnið sér sonarstöðuna – og titillinn. Í Mesópótamíu gátu konungar verið synir hinna ýmsu guða samtímis. Í öðrum Davíðssálmi, sem áður var vitnað í og margir guðfræðingar telja hafa verið litúrgískan konungsvígslusálm, segir Guð við konunginn: „Þú ert sonur minn, í dag hef ég fætt þig.“ (Slm 2.7)

„Mannssonurinn“ er óræðastur titlanna og langt mál að færa fyrir því rök að þar sé um litúrgískan konungstitil að ræða, það er að segja titil sem lýsir geistlegu hlutverki konungsins í guðveldinu frekar en því veraldlega.

Jafnvel orðið „kristur“, sem er þýðing hebreska orðsins „mashiah“ eða „messías“ í grískri umritun – er konungstitill. Í spádómsbók Jesaja er Kýrus Persakonungur, sá sem frelsaði gyðinga frá herleiðingunni til Babýlonar, kallaður „messías“, „hinn smurði Drottins“. (Jes 45.1)

Ummyndunin á fjallinu bergmálar þetta allt.

Og til að leggja áherslu á lögmæti konungsvígslunnar eru Móse og Elía viðstaddir, lögmálið og spámennirnir.

Og út á hvað ganga lögmálið og spámennirnir?

Jesús svarar því í 22. kafla Matteusarguðspjalls. Þar er Jesús spurður hvert sé hið æðsta boðorð og hann svarar:

„Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum. Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð. Annað er hliðstætt þessu: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Á þessum tveimur boðorðum hvílir allt lögmálið og spámennirnir.“ (Matt 22.37-40)

Angar illskunnar og heimskunnar

Skyldu okkar jarðnesku konungar eða forsetar sem vilja vera minnst sem konunga svara þessari spurningu á sama hátt? Eða myndu þeir segja: „Elska skaltu þjóðernið og fánann og rétt þinn til að eiga skotvopn og byggja múr á milli þín og náunga þíns og skerða frelsi hans sem mest þú mátt með hvaða hætti sem er“?

spiegel-donald-trumpSegja þeir: „Verið óhræddir“ eða segja þeir: „Verið lafhræddir og vígbúist því mesta ógnin sem að okkur steðjar eru íslamskir hryðjuverkamenn“ jafnvel þótt borðleggjandi tölfræði sýni að byssuóðir samlandar séu tugþúsundfalt líklegri til að verða einhverjum að fjörtjóni?
En við þurfum ekki að fara til hinna súrrealísku hamfara gagnvart heilbrigðri skynsemi og kristilegu siðferði, sem nýr forseti Bandaríkjanna er um þessar mundir að leiða yfir þjóð sína og heiminn, til að finna stjórnmálaleiðtoga sem finnst réttara að sýna náunganum „stálhnefa“ heldur en kærleika, finnst ekkert sjálfsagðara en að ríkisvaldið setji það á oddinn að pönkast í fólki sem er ekki fyrir neinum, er í óða önn að skapa sér örugga og friðsæla tilveru eftir hrakninga og ofbeldi sem við fæst getum ímyndað okkur og á sér þá einu ósk að vera látið í friði.

Við verðum að gæta þess að láta þann Hrunadans heimsku og illsku sem nú dunar í Bandarísku stjórnmálalífi ekki blinda okkur fyrir þeirri staðreynd að angar heimskunnar og illskunnar teygja sig víðar og að þeirra verður vart nær okkur en okkur finnst þægilegt að horfast í augu við.

Tveir ólíkir Íranar

Við getum fárast yfir þeirri staðreynd að íslenskum landsliðsmanni í taekwondo hafi verið meinað fara til Bandaríkjanna og keppa þar fyrir Íslands hönd fyrir þá sök eina að hafa fæðst í Íran. Það er full ástæða til að misbjóða það.

En látum hneykslun okkar á því ekki yfirskyggja að nú í þessari viku var karlmaður numinn á brott frá heimili sínu hér í þessari sókn, skilinn að frá sambýlismanni sínum og ástmanni og sendur með valdi til erlends ríkis – þar sem hann hafði verið beittur ólýsanlegu ofbeldi – fyrir þá sök eina að hafa fæðst í þessu sama Íran og vera ekki afreksíþróttamaður. Hann er samkynhneigður og fari svo að hann verði fluttur hreppaflutningum aftur til Íran, þar sem engum vafa er undirorpið að samkynhneigðir hafa ástæðu til að óttast um líf sitt, þarf varla að spyrja að leikslokum. Og fari svo mun engin Pílatusarþvottur geta þvegið blóð hans af höndum íslenskra stjórnvalda.

Ekki bandarískra.

Íslenskra.

Heimskan og illskan stíga nefnilega dans nær okkur en okkur finnst þægilegt að kannast við og það er ekki bara hinn þröngsýni og fáfróði hluti almennings sem klappar með. Meðal þeirra sem slá taktinn er fólk sem gegnir ábyrgðarstöðum í þágu lands og þjóðar.

Ekki Bandaríkjanna og Bandaríkjamanna heldur Íslands og Íslendinga.

Annar konungur

En texti dagsins minnir okkur á að við eigum okkur annan konung, konung ljóss og lífs. Ekki hraðlyginn, hrokafullan og hörundsáran narkissista heldur bróður sem bjó með okkur fullur náðar og sannleika og gekk út í opinn dauðann fyrir okkur.

Sá konungur situr ekki á þingi eða í stjórnarráðinu. Þaðan af síður í dómsmálaráðuneytinu eða útlendingastofnun.

Hann situr við hægri hönd Guðs föður almáttugs.

Og mun þaðan koma að dæma lifendur og dauða.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 5. febrúar 2017

Read Full Post »