Feeds:
Færslur
Athugasemdir

Archive for mars, 2017

Guðspjall: Jesús svaraði: „Ef Guð væri faðir yðar munduð þér elska mig því að frá Guði er ég út genginn og kominn. Ekki hef ég sent mig sjálfur. Það er hann sem sendi mig. Hví skiljið þér ekki mál mitt? Af því að þér getið ekki hlustað á orð mitt. Þér eigið djöfulinn að föður og viljið gera það sem faðir yðar girnist. Hann var manndrápari frá upphafi og hefur aldrei þekkt sannleikann því í honum finnst enginn sannleikur. Þegar hann lýgur fer hann að eðli sínu því hann er lygari og lyginnar faðir. En af því að ég segi sannleikann trúið þér mér ekki. Hver yðar getur sannað á mig synd? Ef ég segi sannleikann, hví trúið þér mér ekki? Sá sem er af Guði heyrir Guðs orð. Þér heyrið ekki vegna þess að þér eruð ekki af Guði.“ (Jóh 8.42-51)

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi.

chimeracityVið mennirnir viljum vita og skilja. Þess vegna fylgjumst við með, skráum niður, skilgreinum og flokkum. Best er ef við getum sett tilveruna eins og hún leggur sig ofan í aðskilin hólf með viðeigandi merkimiða á hverju þeirra. Því miður lætur það oft raunveruleikanum illa að vera hólfaður niður með svo einföldum hætti.

Póstmódernismi

Við skiptum sögunni niður í tímabil sem við kennum við þau verkfæri, tækni eða fyrirbæri í menningu og hugsun sem einkenndu þau. Steinöld, járnöld, bronsöld … og síðar endurreisnartímabilið, rómantíska tímabilið og svo framvegis.

Á steinöld gerði enginn sér grein fyrir því að hann væri uppi á steinöld. En  við … við erum okkur mjög meðvituð um að við erum uppi á póstmódernískum tímum.

Eitt megineinkenni póstmódernismans er að sannleikurinn er teygjanlegur, staðreyndir eru túlkunaratriði því merking verður til hjá viðtakandanum. Þekking og sannleikur eru ekki algjör, ekki endanleg, heldur verða þau til í ákveðnu sögulegu, félagslegu og pólitísku samhengi og eru þess vegna afstæð í eðli sínu.

En ekkert stöðvar tímans þunga nið og þessu tímabili mannkynssögunnar mun ljúka og annað taka við. Hvað tekur við af póstmódernismanum?

Ég las um daginn grein þar sem talað er um að eftirstaðreyndatímabilið sé gengið í garð – „post-fact era“ eins og það var kallað. Megineinkenni þess er að staðreyndir skipta ekki máli lengur, þær eru úrelt fyrirbæri sem einhver grunnur að afstöðu eða lífsskoðun. Fólk getur búið til sínar eigin staðreyndir og þær eru jafnréttháar raunverulegum staðreyndum því sannleikurinn er jú afstæður og við lifum öll hvort sem er á einhvern hátt í okkar eigin heimi, okkar eigin sápukúlu sem við höfum blásið utan um líf okkar og handvalið þangað inn það og þá sem við viljum hafa í kringum okkur. Og internetið hjálpar okkur við þetta með algóryþmum sem reikna okkur út og sýna okkur bara það sem þeir sjá fyrir að okkur muni líka – og gildir þá einu hvort það er satt eða logið.

Eftirstaðreyndatímabilið

Og víst er að við höfum séð merki þess í heimsfréttum að við séum uppi á einhverju annarlegu „eftirstaðreyndatímabili“. Ekki bara af því að forseta Bandaríkjanna virðist fyrirmunað að greina staðreyndir frá heilaspuna eða yfirhöfuð að segja satt orð um nokkurn skapaðan hlut. Það er eins og hann trúi því að um leið og hann segi eitthvað sé það orðið sannleikur, hve auðhrekjanlegt sem það er, og því sé nóg fyrir hann að opna munninn og segja hvernig hann vill að heimurinn sé og þá – hókus pókus – verði hann þannig. Og þegar reynt er að reka eitthvað af svæsnasta þvættingnum ofan í hann er svarið gjarnan að margir trúi því nú að svona sé þetta og þar með er bullið í hans huga orðið jafngilt sannleikanum – „hliðstæð staðreynd“ eins og talsmaður hans kallaði það; „alternative fact.“ Orð sem að mínum dómi var snilldarlega vel þýtt yfir á íslensku sem „sannlíki“.

Ástandið er ekki mikið skárra hinum megin Atlantshafsins. Forseti Rússlands þrætti fyrir að Rússar kæmu á nokkurn hátt nálægt kolólöglegri innlimun Krímskagans eða vopnaskakinu í austurhluta Úkraínu á sama tíma og úkraínski herinn var að handtaka rússneska hermenn í stórum stíl í bardögum innan landamæra Úkraínu. Það er semsagt beinlínis hægt að ráðast með her inn í nágrannaríki og þræta fyrir það.

Og í Tyrklandi er forseti sem kallar Hollendinga fasista fyrir að leyfa ekki að þangað sé farið til að reka áróður fyrir því meðal tyrkneskra kjósenda í Hollandi að stjórnarskrá Tyrklands verði breytt á þann veg að Tyrkland verði í allri praktískri merkingu þess orðs einræðisríki. Og ekki bara það. Hollendingar eru líka sekir um kynþáttahyggju að mati Tyrklandsforseta, væntanlega af því að Tyrkir í Hollandi njóta réttinda sem Tyrkjum dettur ekki í hug að leyfa tyrkneskum Kúrdum að njóta þótt þeir séu bornir og barnfæddir í Tyrklandi. Og í sömu viku og forseti Tyrklands, lands sem neitar að gangast við þjóðarmorðum sínum á Armenum fyrir um hundrað árum, kallar Hollendinga nasista höfnuðu Hollendingar flokki nýnasista í þingkosningum.

Lygi er sannleikur

Eftirstaðreyndatímabilið: Sannleikurinn er það sem hentar hverjum og einum. Og þó lygin sé himinhrópandi augljós þá er það skoðanakúgun að umgangast hana ekki eins og hún sé jafnrétthá sannleikanum og hlutdrægni að afhjúpa hana.

Lygin er sannleikur og sannleikurinn er lygi.

Það þarf engan að undra að skáldsaga Georges Orwells, 1984, komi upp í hugann: Stríð er friður. Þrældómur er frelsi. Fáfræði er styrkur.

Við sjáum meira að segja merki þess að „newspeak“ – tungumál fasistastjórnarinnar í þeirri skáldsögu – sé að ryðja sér til rúms í fjölmiðlum. Við heyrum kynþáttahatur og kvenfyrirlitningu kallaða „óhefðbundna orðræðu“. Við heyrum okkar eigin stjórnmálamenn jafnvel kalla grímulausa hatursorðræðu erlendra þjóðarleiðtoga „áhyggjuefni“ eins og ástæðulaust sé að taka dýpra í árinni. Fyrir stuttu var sagt um stjórnmálamann sem nýtur opinbers stuðnings Ku Klux Klan, hefur gert yfirlýstan nýnasista að sínum helsta ráðgjafa, hvatt til ofbeldis gegn minnihlutahópum og hæðst að fötluðum að hann sé „ekki óumdeildur“ í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins.

Normalísering hins óásættanlega er í fullum gangi allt í kringum okkur og hún gengur vel.

Afstæði sannleikans

Jesús Kristur talaði ekki „newspeak“. Og hann var ekki póstmódernisti. Hann talaði tæpitungulaust mannamál og fyrir honum var sannleikurinn klipptur og skorinn. Allir textar dagsins lúta að því. Boðorðin eru skýr. Þar segir ekki: „Þú ættir ekki nema undir kringumstæðum þar sem það er félagslega og menningarlega viðurkennt að …“ Nei, þar segir: „Þú skalt ekki …“ Þar er ekkert óljóst. Rétt er rétt og rangt er rangt. Gott og illt eru skýrar og raunverulegar andstæður, ekki afstæð hugtök í einhverju háloftablaðri. Enginn manipúlerar sannleikann til að vera það sem hentar honum. Hann er ekkert túlkunaratriði. Sannleikurinn er sannleikur og lygin er ekki sannlíki eða hliðstæð staðreynd … hún er lygi.

Jesús sýnir oft á sér geðþekkari og hlýlegri hliðar en hann gerir í guðspjalli dagsins. En hann var sannur maður; sannur Guð sem stakk sér á bólakaf í hið mannlega hlutskipti með öllu sem það inniber, þar með talið allri tilfinningaflóru mannlegrar tilvistar. Jesús grætur og Jesús reiðist. „Manni“ getur jú sárnað – segir máltækið. Öll höfum við átt stundir þar sem okkur hefur þótt meiri ástæða til að hvæsa en mala.

„Hví skiljið þér ekki mál mitt?“ spyr Jesús viðmælendur sína og svarar spurningunni sjáfur: „Af því að þér getið ekki hlustað á orð mitt.“ – Það rúmast ekki innan sápukúlunnar ykkar. Algóryþminn ykkar útilokar ykkur frá því.

Satan sjálfur

Ykkur kann að finnast ég fara eins og köttur í kringum heitan graut að hafa ekki minnst einu orði á fílinn í borðstofunni; orðið í textanum sem hoppar á okkur og kynni jafnvel að yfirskyggja merkingu textans vegna þess hvað það stuðar okkur, hvað það snertir okkur óþægilega. Orðið sem kemur bæði fyrir í pistlinum og guðspjallinu: Djöfullinn / Satan.

„Þeir eru samkunda Satans“ segir í pistlinum og í guðspjallinu hreytir Jesús í viðmælendur sína: „Þér eigið djöfulinn að föður.“

Við ykkur sem eruð að hugsa: „Ætlar maðurinn ekki að minnast einu orði á andskotann?“ vil ég segja: Ég hef ekki talað um annað alla þessa prédikun.

„Hann hefur aldrei þekkt sannleikann því í honum finnst enginn sannleikur. Þegar hann lýgur fer hann að eðli sínu því hann er lygari og lyginnar faðir.“ Allt sem ég hef verið að segja persónugerist í Kölska.

Við gætum umorðað þetta: „Hann hefur aldrei þekkt sannleikann því fyrir honum er sannleikurinn afstæður. Þegar hann býr til sínar eigin staðreyndir jafnóðum fer hann að eðli sínu því hann er ófær um að greina mun á réttu og röngu og segir því það sem hentar honum hverju sinni.“

Ef við viljum

Við getum – ef við viljum – talað „newspeak“ þar sem ekkert orð er fyrir Guð og þarafleiðandi er óþarfi að eiga orð yfir andstæðu hans, djöfulinn. Þar sem mannhatur og illska er ekki mannhatur og illska heldur „óhefðbundin orðræða“. Þar sem kvenfyrirlitning og kynþáttahatur gerir menn í versta falli „ekki óumdeilda“. Þar sem sannlíki og hliðstæðar staðreyndir hafa sama tilverurétt og sannleikur og raunverulegar staðreyndir. Og við getum kallað það tímabil mannkynssögunnar „eftirstaðreyndatímabilið“ ef við viljum.

En Jesús Kristur hefði ekki gert það. Hann hefði kallað það sínu rétta nafni: „Öld lyginnar.“

Við getum tekið þátt í þessu. Það væri á flestan hátt þægilegra fyrir okkur.

En við getum ekki bæði tekið þátt í því að innleiða öld lyginnar og talið okkur trú um að við séum kristnar manneskjur, að við séum að leitast við að hafa Jesú Krist að leiðtoga lífs okkar.

Það er nefnilega ekki Guð sem er faðir lyginnar.

Það er annar.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 19. mars 2017.

Read Full Post »

Guðspjall: Þeir komu til Jeríkó. Og þegar Jesús fór út úr borginni ásamt lærisveinum sínum og miklum mannfjölda sat þar við veginn Bartímeus, sonur Tímeusar, blindur beiningamaður. Þegar hann heyrði að þar færi Jesús frá Nasaret tók hann að hrópa: „Sonur Davíðs, Jesús, miskunna þú mér!“ Margir höstuðu á hann að hann þegði en hann hrópaði því meir: „Sonur Davíðs, miskunna þú mér!“ Jesús nam staðar og sagði: „Kallið á hann.“ Þeir kalla á blinda manninn og segja við hann: „Vertu hughraustur, statt upp, hann kallar á þig.“ Blindi maðurinn kastaði frá sér yfirhöfn sinni, spratt á fætur og kom til Jesú. Jesús spurði hann: „Hvað vilt þú að ég geri fyrir þig?“ Blindi maðurinn svaraði honum: „Rabbúní, að ég fái aftur sjón.“ Jesús sagði við hann: „Far þú, trú þín hefur bjargað þér.“ Jafnskjótt fékk hann sjónina og fylgdi honum á ferðinni. (Mrk 10.46-52)

bartímeus

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Múslimir líta svo á að þýðingar á Kóraninum séu ekki Guðs orð, heldur aðeins þýðing þess. Þannig er arabíska í þeirra huga móðurmál Guðs, ef svo má segja. Færa má góð rök fyrir því að þetta sé skynsamlegt. Öll þýðing er nefnilega túlkun. Þótt orð eigi sér kannski beinar og augljósar þýðingar er merking þeirra og notkun í málinu mjög oft alls ekki fyllilega hliðstæð.

Aðeins Íslendingar myndu, svo dæmi sé tekið, nota orðið „rassgat“ um krúttlega krakka. Bókstafleg þýðing á slíku tali yfir á erlend tungumál myndi undantekningalaust valda misskilningi og í raun alls ekki vera þýðing merkingarinnar heldur beinlínis afskræming hennar.

Þrengsta merkingin

Orðið „sonur“ í tungumálum ritningarinnar – „ben“ á hebresku, „huios“ á grísku og „bar“ á arameísku sem var móðurmál Jesú – hafði til dæmis mun víðari merkingu en orðið „sonur“ hefur í íslensku. Grikkir kölluðu þjóna „syni“ og þar sem það er augljóslega merkingin er „huios“ ekki þýtt „sonur“ heldur „þjónn“ í Nýja testamentinu. Í hebresku er merkingin jafnvel enn víðari. Orðið „auðmaður“ á hebresku væri bókstaflega þýtt „sonur auðsins“ og orðið „lygari“ „sonur lyginnar“. Við myndum nota orðin „auðmaður“ og „lygamörður“, ekki „auðssonur“ og „lygasonur“ eins og hebrear gerðu til forna. Þannig er „sonur“ í fornhebresku aðeins bundinn einhverri óljósri skuldbindingu eða þjónustu við orðið sem skeytt er við það.

Þetta kallar auðvitað á hugleiðingar um það hvað „sonur Guðs“ merkir í raun og veru og jafnvel „mannssonurinn“ ef út í það er farið… en þær eru ekki efni þessarar prédikunar.

Ég nefni þetta vegna þess að mig langar að velta vöngum yfir því hvað „sonur Tímeusar“ merkir raunverulega. Nafnið Bartímeus er nefnilega ákveðinn bastarður. Arameíska orðinu „bar“ sem merkir „sonur“ er skeytt framan við gríska karlmannsnafnið „Tímeus“. Ég held að þetta skipti máli til að skilja guðspjall dagsins, því það er óneitanlega athyglisvert að blindi beiningamaðurinn í sögunni skuli vera nafngreindur. Jesús læknar fjöldann allan af blindu, lömuðu, holdsveiku og öðru fötluðu og sjúku fólki og sjaldnast er ástæða til að nafngreina það eins og hér er gert. Það hlýtur að merkja eitthvað.

Var sá blindi kannski þjónn Tímeusar eða lærisveinn hans?

Guð Tímeusar

En hver var þá Tímeus?

Nú er ég ekki heimspekimenntaður og ekki til þess fallinn að skýra frá kenningum Platons og ritsmíðum hans á þann hátt að það standist akademískar kröfur. En Tímeus er persóna í samnefndri ritsmíð eftir Platon sem hafði gríðarmikil áhrif á guðs- og heimsmynd fornaldar. Sú mynd er ólík þeirri sem Jesús Kristur boðaði og varðar – án þess að ég geti farið út í það af einhverri djúpri þekkingu – háleitar hugmyndir um alheimssál og fjarlægan, ópersónulegan skapara. Einhvers konar deiskar eða panþeískar hugmyndir ef það útskýrir eitthvað.

Kannski sat Tímeusarsinninn í vegarkantinum, blindaður af kenningum meistara síns sem gera alls ekki ráð fyrir lífrænu sambandi, hvað þá samtali við persónulegan Guð sem kemur inn í líf mannsins.

Allir ritningartextar dagsins fjalla um samtal við Guð. Í lexíunni krefur Móse, hnarreistur og sperrtur, Guð um svör. „Skýrðu mér frá vegum þínum,“ hrópar hann. Í pistlinum sjáum við aðra mynd, Jesús biðst fyrir í auðmýkt „með sárum andvörpum og tárum“.

Og í guðspjallinu svarar Guð, sem gerst hafði maður, örvæntingarfullu kalli manns  sem ekki aðeins hafði lokað sig af frá því að eiga samband við Guð heldur var blindaður af þeirri kaldranalegu heimsmynd að það væri ekki hægt. „Miskunna þú mér,“ hrópar hann, sligaður af tilgangsleysinu í heiminum sem hann hafði smíðað í kringum sig með kenningum sínum. „Miskunna þú mér. Gefðu mér ástæðu til að fara fram úr á morgnana. Segðu mér að lífið sé meira og stærra en þetta.“

Og Jesús spyr hann: „Hvað viltu að ég geri fyrir þig?“

Spurningin kann að virðast heimskuleg. Eins og það liggi ekki í augum uppi. En Jesús varð að spyrja því Bartímeus varð að segja það. Hann varð að biðja um hjálp. Annað hefði verið óumbeðið inngrip í líf Bartímeusar. Jesús gerist nefnilega ekki boðflenna í lífi nokkurs manns. Það þarf að rétta út hönd og biðja um hjálp.

Þegar við tölum um Guð

Tungumálið er vandmeðfarið, ekki síst þegar við tölum um Guð. Ekkert er eins og Guð og því er allt sem við segjum um Guð líkingamál. Guð er auðvitað ekki konungur. Hann er kallaður konungur af því að við tengjum konung við vald og mátt. Til að undirbyggja myndina eru jafnvel himneskir herskarar hafðir í kringum hann eins og hirð. Guð er ekki heldur fjárhirðir eins og hann er kallaður í 23. Davíðssálmi, arnarmóðir sem sveimar yfir hreiðri sínu, ungamamma sem skýlir ungunum undir vængjum sínum eða fæðandi móðir … allt myndir sem við sjáum í Biblíunni.

Og Guð er ekki faðir okkar nema í óeiginlegri, andlegri merkingu. Við köllum hann föður og tengjum það við skilyrðislausan kærleika hans og umhyggju. En hann kennir okkur ekki að hjóla, lánar okkur bílinn eða gengst í ábyrgð fyrir láni fyrir okkur – svo ég nefni eitthvað sem ég tengi við föðurhlutverkið.

Allar líkingar okkar um Guð brotna nefnilega á endanum. Enga þeirra er hægt að halda áfram með endalaust, engin þeirra er fullkomin. Þeim er ætlað að hjálpa okkur til nálgast Guð, að öðlast einhvern skilning á hinu óskiljanlega, að henda reiður á því sem er of háleitt og mikilfenglegt til að við getum meðtekið það. Að nota orð sem við þekkjum og myndir sem við skiljum til að öðlast guðsmynd sem við getum lotið í trú.

En líkingarnar okkar geta líka þvælst fyrir okkur. Ef við nú erum svo ólánsöm að tengja ekki hugtakið „faðir“ við kærleika og vernd heldur við misnotkun og ofbeldi þá er föðurlíkingin ekki til gagns heldur ógagns. Þá greiðir hún ekki götu okkar að nánd við miskunnsaman og kærleiksríkan Guð heldur er hún farartálmi á þeirri leið.

Að játa dogmatík

Við fórum ekki með hina postullegu trúarjátningu okkar hér áðan eins og alla jafna er gert í messum, heldur játuðum trú okkar í sátt og friði í þögulli íhugun. Mig langaði nefnilega til að vekja ykkur til umhugsunar. Þið sem söknuðuð trúarjátningarinnar, hvers söknuðuð þið? Var það „getinn af heilögum anda“? Var það „steig niður til heljar“? Var það „mun þaðan koma að dæma lifendur og dauða“? Var það kannski þetta allt og meira til?

Trúarjátningin okkar er nefnilega í raun aðeins fjögur orð: „Ég trúi á Guð.“ Strax í fimmta orði byrjar dogmatíkin: „… föður“. Og síðan: „… almáttugan.“ Og svo framvegis.

Þetta er gallinn við dogmatíkina; trúarkenningarnar okkar og útlistanirnar. Hún er eðli sínu samkvæmt ekki opinn og útbreiddur faðmur heldur nálarauga. Hún greinir frá því í smáatriðum hverju við trúum og hverju á að trúa og ef eitthvað af því stendur í þér áttu ekki samleið með okkur hinum.

Þannig getur hún skilgreint okkur hvert frá öðru.

En Jesús sagði ekki við Bartímeus blinda: „Dogmatík þín hefur bjargað þér.“

Hann sagði ekki: „Snilldarlegt líkingamál þitt um almættið og eðli þess sem dregur upp skýra og skiljanlega og í meginatriðum rétta mynd af sambandi Guðs og manns hefur bjargað þér.“

Nei. Hann sagði: „Trú þín hefur bjargað þér.“

Miskunna þú oss

„Miskunna þú mér,“ hrópaði blindi beiningamaðurinn.

Og enn þann dag í dag tökum við undir með honum og hrópum þetta í kirkjunni í upphafi hverrar messu: „Drottinn, miskunna þú oss.“ Kyrie eleison.

Gefðu okkur sjónina aftur.

Taktu frá okkur myrkur heimsmyndar þar sem þú ert fjarlægur og afskiptalaus og gefðu okkur sýn á raunveruleika þar sem þú er nálægur og lifandi og við getum átt persónulegt vitundarsamband við þig.

Vertu í lífi okkar svo við getum talað við þig. Hvort sem það er til að krefja þig svara þegar við botnum ekkert í því hver er vilji þinn, eins og Móses gerði í eyðimörkinni forðum, eða með sárum andvörpum og tárum til að fá huggun þegar þjáningin er að yfirbuga okkur eins og frelsari okkar gerði.

Og enn þann dag í dag spyr Jesús á móti: „Hvað viltu að ég geri fyrir þig?“

Og við verðum að svara.

Vissulega er engin bæn einlægari en steyttur hnefi til himins. En steyttur hnefi er ekki útrétt hönd. Við verðum að rétta út hönd og biðja um hjálp.

Við erum öll Bartímeus. Að minnsta kosti sá Bartímeus sem við sjáum í upphafi frásagnarinnar. Ef við réttum út hönd og biðjum um hjálp fáum við sjónina aftur. Trúin getur bjargað okkar.

Guðspjallstexti dagsins endar á því að Bartímeus fylgir Jesú á ferðinni. Þessi ferð er líf og starf kristins manns.

Spurningin er hvort við séum reiðubúin til að vera líka sá Bartímeus sem við sjáum í sögulok.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er enn og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 12. mars 2017.

Read Full Post »