Feeds:
Færslur
Athugasemdir

Archive for apríl, 2017

Líf þitt er sigling á lystisnekkju

á lygnu fljóti allsnægtanna.

Á bökkunum drjúpa af döðlupálmum

dýrar veigar og glúteinfrítt manna.

 

Og þér eru bornar þrírétta krásir

og þrúgur í klösum bústnum og vænum

og þú heyrir nafnið þitt mjúklega malað

í mildum og þýðum aftanblænum.

 

Og vínið flæðir og vinirnir gleðjast

því vellystingarnar fylla hvert hjarta

og yfir þér vakir himinninn heiður

sem heilagt loforð um framtíð bjarta.

 

En skyndilega er ský fyrir sólu

og skuggalegt umhorfs á fljótsins bökkum;

visnaðir garðar og hálfhrunin hreysi

og hrúga af soltnum og skítugum krökkum.

 

Með kviðinn þaninn þau kalla til þín.

Þó koma ei hljóð nein úr þeirra munni.

En þrúgandi eymdin og ringureiðin

rústa samstundis stemningunni.

 

Svo þú þýtur undir þiljur og kvartar

því þetta var ekki partur af dílnum;

að börnum með flugur í brostnum augum

byðist að fokka í lúkkinu og stílnum.

 

En áfram er siglt og útsýnið lagast

með iðgræna skrúðgarða báðum megin.

Þegar ömurleikinn er loksins að baki,

mikið lifandis ósköp verðurðu feginn.

 

Þú sérð flugur í augum fátækra barna;

ekki finngálknið í þínum eigin.

D. Þ. J.

Read Full Post »


Guðspjall:
Að liðnum hvíldardegi, þegar lýsti af fyrsta degi vikunnar, komu þær María Magdalena og María hin til að líta á gröfina. Þá varð landskjálfti mikill því engill Drottins sté niður af himni, kom og velti steininum og settist á hann. Hann var sem elding ásýndum og klæðin hvít sem snjór. Varðmennirnir skulfu af hræðslu við hann og urðu sem örendir. En engillinn mælti við konurnar: „Þið skuluð eigi óttast. Ég veit að þið leitið að Jesú hinum krossfesta. Hann er ekki hér. Hann er upp risinn, eins og hann sagði. Komið og sjáið staðinn þar sem hann lá. Farið í skyndi og segið lærisveinum hans: Hann er upp risinn frá dauðum, hann fer á undan ykkur til Galíleu. Þar munuð þið sjá hann. Þetta hef ég sagt ykkur.“ Og þær fóru í skyndi frá gröfinni, með ótta og mikilli gleði, og hlupu að flytja lærisveinum hans boðin. (Matt 28.1-8)
 

messa 2. okt 2016 þrengriNáð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Hér fyrir aftan mig hangir stór kross. Hann er tákn kristninnar, tákn kristinna manna. Við merkjum kirkjurnar okkar með krossum, við signum okkur og hvert annað með krossi, við göngum jafnvel með kross í keðju um hálsinn og að leiðarlokum setjum við kross á leiði okkar.

Hvað táknar þetta?

Morðtólið

Krossinn var skelfilegt aftökutæki til forna og ég hef verið spurður: „Ef hann hefði verið hengdur, væruð þið þá með gálga?“ Spurningin er ófyrirleitin, jafnvel meiðandi, en hún er ekki út í hött. Það er eðlilegt að velta því fyrir sér hvað það eigi að þýða að söfnuður miskunnsams Guðs og kærleiksríks frelsara – söfnuður sem í orði kveðnu að minnsta kosti hefur náungakærleik að leiðarljósi; gullnu regluna að koma fram við aðra eins og maður vill að komið sé fram við sig – söfnuður sem trúir því að það sem við gerum einum okkar minnstu bræðra gerum við frelsara okkar, skuli gera morðtólið sem notað var til að svipta hann lífi á þann kvalfyllsta og mest niðurlægjandi hátt, sem rómverska heimsveldið gat látið sér til hugar koma, að tákni sínu.

Hvað táknar krossinn fyrir þér?

Fyrir fólkið sem var á Golgatahæðinni á föstudaginn langa, fylgjendur Krists sem sáu lífið murkað úr leiðtoga sínum, táknaði hann algjört afhroð. Allt sem þau höfðu barist fyrir, allt sem þau höfðu unnið að var glatað. Guðsríkið var fyrir bí. Draumar þeirra um betra samfélag og mannlega reisn höfðu verið barðir niður af miskunnarlausri ógnarstjórn. Það var ekki bara leiðtogi þeirra sem hafði verið drepinn. Vonin í hjörtum þeirra var drepin.

Róðukrossinn

róðukrossVið minnum okkur sjálf á þennan atburð, ekki bara með helgihaldi og ýmiss konar samkomum á föstudaginn langa. Við minnum okkur á hann með krossi; róðukrossi – krossi með mynd hins myrta og svívirta frelsara okkar á.

Sá kross minnir okkur líka á kærleika Krists og á hina algjöru fórn hans. „Enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína,“ (Jóh 15.13) segir í Jóhannesarguðspjalli. Jesús hefði getað flúið af hólmi og farið huldu höfði þegar honum var ljóst hvað beið hans og þar með ónýtt allt sem hann hafði unnið að, gert alla boðun sína og starf að engu. En hann gerði það ekki. Hann gekk í dauðann fyrir sannleikann, fyrir okkur – þig og mig.

En krossinn hér á bak við mig er ekki sá kross.

Pyntaður og limlestur líkami Krists hangir ekki á þessum krossi. Hann er auður.

Af hverju?

Af því að hann er þar ekki lengur. Hann er upp risinn.

Hinn krossinn

Þetta er ekki kross föstudagsins langa. Þetta er kross páskadagsmorgunsins.

Við horfum ekki á þennan kross í skugga örvæntingar og vonleysis föstudagsins langa. Við horfum á þennan kross út um munnann á hinni tómu gröf í hinni rísandi sól páskadagsmorgunsins.

Hann er upp risinn.

Og þá táknar krossinn ekki lengur vonleysi baráttunnar fyrir betri heimi. Hann er ekki lengur tákn um grimmd og miskunnarleysi valda- og vænisjúks heimsveldis sem engu eirir til að viðhalda sjálfu sér og veldi sínu, fyrirlítur og forsmáir mannslíf í þágu auðs og valda. Hann táknar ekki lengur afhroð sannleikans fyrir lyginni og kærleikans fyrir illskunni.

Þvert á móti.

Hinn auði kross páskadagsmorgunsins sýnir okkur máttleysi hins illa. Magnleysi myrkursins gagnvart ljósinu. Hann táknar sigur kærleikans – ekki afhroð hans.

Þeir héldu að þeir gætu krossfest frelsara okkar, myrt kærleikann, drepið vonina í hjörtum okkar. En þeir höfðu rangt fyrir sér. Kærleikurinn lætur ekki drepa sig. Hann rís alltaf upp aftur. Og fyrir vikið er vonin í hjörtum okkar ódrepandi. Öll þeirra grimmúðlegu morðtól og pyntingatæki mega sín einskis gagnvart trúnni, voninni og kærleikanum í brjóstum okkar.

Kross fagnaðarerindisins

Guðspjall dagsins segir frá tveimur konum sem daginn eftir hina miklu páskahátíð gyðinga, snemma að morgni fyrsta dags vikunnar, fara að líta á gröf Jesú. Matteus segir ekki að erindi þeirra þangað hafi verið annað en að líta á gröfina, en bæði Markús og Lúkas segja að þær hafi ætlað að smyrja líkið. Veita frelsaranum síðustu þjónustuna sem hann þyrfti í þessari jarðvist. „Þá varð landskjálfti mikill því engill Drottins sté niður af himni, kom og velti steininum og settist á hann. Hann var sem elding ásýndum og klæðin hvít sem snjór.“ Matteus heldur áfram: „Varðmennirnir skulfu af hræðslu við hann og urðu sem örendir.“ Skyldi engan undra. En engillinn tekur til máls og ávarpar konurnar. Og hvað segir hann við þær?

„Þið skuluð eigi óttast,“ segir hann.

Á þessum orðum hefst boðskapur Guðs til manna á páskadagsmorgni. „Þið skuluð eigi óttast.“

Þessi orð hafði Guð áður sent mönnum með munni engla sinna. „Verið óhræddir.“ Þá fylgdi þeim orðum ekki sú yfirlýsing að frelsarinn væri upp risinn heldur að hann væri fæddur. Og í bæði skiptin voru það hinir lægst settu í samfélaginu, fjárhirðar og konur, sem fengu skilaboðin.

Inn í þessi skilaboð Guðs til manna er jarðneskt líf Jesú Krists rammað. „Verið óhræddir. Ykkur er frelsari fæddur.“ „Þið skuluð eigi óttast. Hann er upp risinn.“

Þetta er sannkallað fagnaðar-erindi.

Kross kærleikans

empty crossÞað er nóg að óttast. Heimurinn býr yfir mörgu slæmu og hættulegu sem fyllt getur hvern mann skelfingu. Og leiðtogar okkar og fyrirmenni sjá sér mörg hag í því að ala á þessum ótta. „Óttist, óttist!“ segja þeir. „Óttist útlendinga! Óttist hryðjuverk! Óttist þá sem eru ólíkir ykkur og framandi! Óttist náungann!“

En Guð segir annað.

„Þið skuluð elska aðkomumanninn því að þið voruð sjálfir aðkomumenn í Egyptalandi,“ (5Mós 10.19) segir hann. Og í fjallræðunni segir Jesús: „Slái einhver þig á hægri kinn þá bjóð honum einnig hina,“ (Matt 5.39) Á öðrum stað segir hann síðan: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“

Í Guðsríkinu er ekkert pláss fyrir ótta – aðeins kærleika.

Það er erfitt að vera óttalaus. Það er til mikils mælst. Þetta eru engin smávegis fyrirmæli. „Óttist ekki!“ Hvernig á nokkur maður að geta orðið við þessu?

Ég held að Guð fyrirgefi okkur óttann. Og við getum leyft okkur að vera óttalaus því Guð hefur gefið okkur það sem við þurfum til að sigrast á óttanum, til að láta hann ekki ráða ferðinni heldur andstæðu hans: Kærleikann.

Og það sem við þurfum til þess er hinn auði kross páskadagsmorgunsins.

Krossinn sem sýnir okkur afhroð myrkursins fyrir ljósinu. Krossinn sem glæðir vonina í hjörtum okkar lífi, krossinn sem segir okkur að kærleikurinn er ódrepandi.

Misþyrmt og limlest lík frelsara okkar hangir ekki lengur á þeim krossi.

Hann er þar ekki lengur.

Hann er upp risinn.

Kristur er sannarlega upp risinn.

Gleðilega páska!

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er enn og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt við hátíðarmessu í Laugarneskirkju á páskadagsmorgni 16. apríl 2017

Read Full Post »

fótþvotturGuðspjall: Kvöldmáltíð stóð yfir. Djöfullinn hafði þegar blásið því í brjóst Júdasi, syni Símonar Ískaríots, að svíkja Jesú. Jesús vissi að faðirinn hafði lagt allt í hendur honum, að hann var frá Guði kominn og var að fara aftur til Guðs. Hann stóð upp frá máltíðinni, lagði af sér yfirhöfnina, tók líndúk og batt um sig. Síðan hellti hann vatni í mundlaug og tók að þvo fætur lærisveinanna og þerra með líndúknum sem hann hafði um sig. Hann kemur þá að Símoni Pétri sem segir við hann: „Drottinn, ætlar þú að þvo mér um fæturna?“ Jesús svaraði: „Nú skilur þú ekki hvað ég er að gera en seinna muntu skilja það.“Pétur segir við hann: „Aldrei að eilífu skaltu þvo fætur mína.“ Jesús svaraði: „Ef ég þvæ þér ekki áttu enga samleið með mér.“ (Jóh 13.2-8)

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Í dag er skírdagur. Þetta er skrýtið orð: Skír-dagur. Það þýðir ekki að þessi dagur sé skýrari en aðrir dagar, enda ekki með ufsiloni. Það þýðir ekki heldur að hann sé betur til þess fallinn að skíra börn en aðrir dagar – þótt auðvitað sé það ekki verra. Heiti dagsins er reyndar dregið af sögninni „að skíra“ sem merkir „að hreinsa“ og við notum enn um það að taka börn inn í samfélag heilagra. Á skírdag þvoði Jesús fætur lærisveina sína eftir síðustu kvöldmáltíðina. Þessa atburðar minnumst við í dag. Þess táknræna, óeigingjarna kærleiksverks.

Ekkert já eða amen

Þegar ég skíri börn nefni ég það gjarnan að ungbarnaskírnir hafa sætt gagnrýni og til eru söfnuðir sem ekki skíra hvítvoðunga heldur aðeins einstaklinga sem hafa þroska til að taka þá ákvörðun sjálfir og að eigin ósk að láta skírast. Enda var Jesús sjálfur um þrítugt þegar Jóhannes skírari skírði hann í ánni Jórdan.

Þennan sið að skíra ung börn má rekja til þeirrar trúar að í skírninni öðlumst við vernd hins heilaga samfélags sem við erum tekin inn í; að við skírnina taki Guð okkur inn í ríki síns elskaða sonar þar sem er fyrirgefning syndanna, líf og sáluhjálp – svo vitnað sé í handbók Þjóðkirkjunnar. Það er hlutskipti sem allir kristnir foreldrar óska barninu sínu strax í frumbernsku þess.

Ef grannt er skoðað er ljóst að við skírnina segja hvítvoðungarnir hvorki „já“ eða „amen“ við neinu sem fram fer. Þeir eru aðeins komnir til að þiggja. Þiggja skilyrðislausan kærleika Guðs, borin að skírnarfontinum í kærleiksörmum foreldra eða nákomins ættingja sem sjálfur var á sínum tima borinn að honum í kærleiksörmum ástvinar og þannig koll af kolli aftur í aldir. Og allt í kærleiksfaðmi föðurins á himnum.

Skuldbindingin er foreldranna, ekki barnsins. Það eru þau sem í skírninni skuldbinda sig til að ala barnið sitt upp sem kristna manneskju. Og sú ákvörðun er mikilvæg. Og foreldrar hafa rétt til að taka hana. Þeir taka hana ekki fyrir hönd barnsins síns, þau taka hana fyrir sig sjálf – hún varðar þau sem foreldra. Ekkert foreldri kemst hjá því að taka afstöðu til þess hvernig það ætlar að ala barnið sitt upp, hvernig það ætlar að tala við það, hvaða lífsgildi það ætlar innræta því.

Barnið er bara að þiggja.

Þiggjendurnir

Og það er það sem við gerum á skírdag. Við þiggjum.

Allir ritningarlestrar dagsins fjalla um okkur sem þiggjendur. „Hvað á ég að gjalda Drottni fyrir allar velgjörðir hans við mig?“ (Slm 116.12) spyr sálmaskáldið í lexíunni. Og í pistlinum fjallar postulinn Páll um mikilvægi þess að við áttum okkur á því hvað við erum að þiggja þegar við neytum altarissakramentisins. Og guðspjallið útskýrir það fyrir okkur.

„Ef ég þvæ þér ekki áttu enga samleið með mér,“ segir Jesús við Pétur. Ef þú ert ekki reiðubúinn til að þiggja kærleiksþjónstu mína ertu ekki reiðubúinn til að fylgja mér.

Við kristnar manneskjur eigum ekki bara að auðsýna kærleika. Við eigum líka að þiggja hann.

Það er auðvelt að týna sér í að gefa og gefa. Að láta miskunnarlausa skyldurækni éta sig lifandi. Við þekkjum sennilega flest dæmi af einstaklingum sem allt sitt líf hugsðuðu um aðra, önnuðust fólkið sitt, héldu heimilinu gangandi og aldrei þurfti að gera neitt fyrir. En svo færðist aldurinn yfir og þau urðu upp á aðra komin, þurftu á aðstoð og umönnun annarra að halda og þá kom í ljós að þau höfðu glatað hæfileikanum til að þiggja. Þau urðu eirðarlaus og fylltust vanlíðan. Þau kunnu þetta ekki. Þau réðu ekki við að vera í þeirri aðstöðu að vera sá sem þiggur.

Þetta er í raun eigingjörn afstaða. Með því að þiggja ekki þjónustu, kærleika annarra erum við í raun að halda þeim frá okkur; að  taka ekki við þeim. Við erum að einangra okkur. Það er ákveðið öryggi í því að þurfa ekki á öðrum að halda heldur vera sá sem hinir þurfa á að halda. En kærleikssamfélag er ekki í því fólgið að einangra sig frá öðrum, heldur í því að gefa og þiggja. Í kærleikssamffélaginu þjónum við hvert öðru í kærleika. Það er ekki kærleikssamfélag þar sem sumir eru sífellt að þjóna hinum.

Það er auðvelt að detta í þá gryfju að halda að það sé eitthvað göfugt að ofurselja sig þjónustu við aðra og þiggja aldrei neitt sjálfur. Það er jafnvel freistandi að fyllast siðferðilegu yfirlæti yfir slíku og fá fró út úr því hvað maður er mikill píslarvottur og fórnarlamb: „Alltaf geri ég allt fyrir aðra og aldrei gerir neinn neitt fyrir mig.“ En kannski er ástæðan sú að viðkomandi leyfir aldrei neinum að gera neitt fyrir sig. Það þarf að hleypa fólki að sér til að geta þegið það sem það hefur að bjóða.  Fólk nálgast ekki þann sem lemur alla frá sér sem reyna það.

Að hleypa öðrum að sér

Fólk getur verið stórvarsamt. Það verður að segjast eins og er. Það þarf hugrekki til að treysta því, að fela sig öðru fólki. Fólk er breyskt og brigðult. Það á það til að valda vonbrigðum. Það er mjög góð aðferð til að tryggja sig gegn því að aðrir særi mann að gefa þeim aldrei færi á því. Hún virkar. En hún er einmanaleg. Hún útilokar mann frá samfélagi við aðra. Hún tryggir öryggi manns. En það er öryggi einsemdarinnar, ekki samfélagsins.

Það er fallegt að þjóna öðrum. Við eigum að auðsýna kærleika. En erum við að auðsýna kærleika ef við þjónum öðrum til að upphefja okkur sjálf? Til að sannfæra okkur sjálf og helst aðra í leiðinni um hvað við erum góð? Erum við að auðsýna kærleika ef erum með því að flýja áhættuna sem fylgir jafningjasambandi við náungann, þar sem gefið er og þegið á jafnréttisgrundvelli og fólk fær tækifæri til að særa mann og bregðast manni? Erum við að auðsýna kærleika ef fórn okkar þjónar þeim tilgangi að einangra okkur sjálf til að vernda okkur fyrir þeirri áhættu sem fylgir nánd við annað fólk, sem fylgir því að tilheyra samfélagi? Sem fylgir því að hleypa öðrum nálægt sér.

Er það kannski þannig að til að geta auðsýnt öðrum raunverulegan kærleika þarf maður að vera fær um að þiggja hann? Er maður ekki annars bara að auðsýna ótta og þrælslund– sem maður getur haldið að sé kærleikur, en er það ekki?

Eins og börn

Það þarf að hleypa fólki að sér til að eiga samleið með Jesú. „Ef ég þvæ þér ekki áttu enga samleið með mér,“ sagði hann við Pétur forðum daga.

Og hann segir það sama við þig í dag.

Þegar barn er borið til skírnar á það ekkert val. Því stendur ekki til boða að afþakka neitt. Það er ekki fært um neitt annað en að þiggja.

Og einmitt þannig eigum við að taka við Guðs ríki.

Eins og börn.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju á skírdag 13. apríl 2017

Read Full Post »

sacrifice-of-isaacLexía: Eftir þessa atburði reyndi Guð Abraham. Hann mælti til hans: „Abraham.“ Og hann svaraði: „Hér er ég.“ Hann sagði: „Tak þú son þinn, einkason þinn sem þú elskar, hann Ísak, og far þú til Móríalands og fórna honum sem brennifórn á því fjalli sem ég mun vísa þér á.“ Árla morguns söðlaði Abraham asna sinn, tók með sér tvo af sveinum sínum og Ísak son sinn, klauf við til brennifórnar, lagði síðan af stað og hélt til þess staðar sem Guð hafði sagt honum. Á þriðja degi hóf Abraham upp augu sín og sá staðinn álengdar. Hann sagði við sveina sína: „Bíðið hérna hjá asnanum en við drengurinn munum ganga þangað upp eftir til að biðjast fyrir og komum svo til ykkar aftur.“ Abraham tók nú brennifórnarviðinn og lagði Ísak syni sínum á herðar en eldinn og hnífinn tók hann sér í hönd. Og þeir gengu báðir saman. Þá sagði Ísak við Abraham föður sinn: „Faðir minn.“ Og hann svaraði: „Hér er ég, sonur minn.“ Ísak mælti: „Hér er eldurinn og viðurinn. En hvar er sauðurinn til brennifórnarinnar?“ Abraham svaraði: „Guð mun sjá sér fyrir sauð til brennifórnar, sonur minn.“ Og þeir gengu báðir saman. Nú komu þeir á staðinn sem Guð hafði talað um. Þar reisti Abraham altari, lagði viðinn á, batt Ísak son sinn og lagði hann á altarið ofan á viðinn. Þá tók Abraham hnífinn í hönd sér til þess að slátra syni sínum. En engill Drottins kallaði til hans af himni og mælti: „Abraham! Abraham!“ Og hann svaraði: „Hér er ég.“ Engillinn sagði: „Leggðu ekki hönd á sveininn og gerðu honum ekkert því að nú veit ég að þú óttast Guð. Þú hefur jafnvel ekki synjað mér um son þinn, einkason þinn.“ Þá hóf Abraham upp augu sín og sá hvar hrútur var fastur á hornunum í greinaþykkni. Fór hann þangað, tók hrútinn og fórnaði honum sem brennifórn í stað sonar síns. (1Mós 22.1-13)

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

„Fórn“ er hugtak sem við veltum ekki oft fyrir okkur. En vitum hvað það þýðir.

Við fórnum einu og öðru … en alltaf fyrir eitthvað. Við þekkjum hugtakið úr skák. Ef maður fórnar manni þá fær maður eitthvað í staðinn sem gerir það þess virði. Annars er það ekki fórn heldur bara afleikur. Þannig er fórn í sjálfu sér kaup kaups sem maður græðir alltaf á.

Kannski er það þegar við fórnum tíma okkar einna merkilegast í þessu samhengi. Hvenær fórnum við tíma okkar og hvenær erum við bara að eyða honum? Finnst okkur ekki jafnvel æskilegra að eyða tíma okkar? Við eyðum honum í eitthvað sem okkur finnst gaman en þegar við fórnum honum þá erum við að gera eitthvað annað, eitthvað sem okkur langar ekki til að gera – en í þeim tilgangi að maður sjálfur eða einhver annar fái eitthvað í staðinn. Fórn felur nefnilega alltaf í sér tilgang. Maður er í raun alltaf að kaupa eitthvað með því sem maður fórnar.

Fórnarkúltúr

Við búum ekki við ríkan fórnarkúltur, öfugt við forfeður okkar sem voru uppi í fornöld. Þar var fórnin grundvallaratriði í allri trúariðkun og þar með gangi samfélagsins. Eðlilegur gangur náttúrunnar, framvinda lífsins og jafnvel tilvist veraldarinnar – allt öryggi tilverunnar – var keypt af guðunum með fórnum.

Abraham, fyrsti forfaðir gyðinga – eða það tímabil í forsögu gyðinga sem er persónugert í honum, tímabilið þegar segja má að saga gyðinga sem þjóðar byrji – er talinn hafa verið uppi á 18. öld fyrir Krist eða þar um bil, rúmum 2.500 árum áður en Íslandssagan hefst eða fyrir 3800 árum.

Þannig má segja að á vissan hátt sé vafasamt að tala um Abraham sem gyðing, í merkingunni „gyðingtrúar“. Hvernig iðkar maður trú sem enginn hefur iðkað áður? Ég tala nú ekki um í fornöld, þúsöldum áður en hugmyndin um trú sem eitthvað persónulegt en ekki samfélags- eða menningarlegt fyrirbæri leit dagsins ljós.

Enda eru flestir fræðimenn á því máli að trú Abrahams megi frekar lýsa sem „eins Guðs tilbeiðslu“ en eiginlegri eingyðistrú eins og hún er skilgreind í dag, „mónólatríu“ fremur en „mónóþeisma“ ef það útskýrir eitthvað. Í því felst að tilvist annarra guða er ekki beinlínis hafnað en átrúnaðurinn og tilbeiðslan er öll bundin einum ákveðnum Guði. Í tilfelli Abrahams var það sennilega kanverski háguðinn El.

Og hér kemur það sem vantar til að við skiljum söguna um sonarfórn Abrahams: Kanverski háguðinn El var tilbeðinn með frumburðarfórnum.

Barnafórnir

Barnafórnir tíðkuðust víða á þessu menningarsvæði í fornöld, voru nánast viðtekin venja, til dæmis í Fönikíu og víðar. Við fornleifauppgröft í fönísku borginni Karþagó í Norður-Afríku hafa til að mynda fundist leifar mörghundruð barna, sem tekin voru af lífi við fórnarathafnir til dýrðar gyðjunni Tanít og guðinum Baal-Hammon.

Það er auðvelt að lesa lexíu dagsins og fyllast viðbjóði og hryllingi og réttlátri andúð á Guði. Ef maður hefur enga þekkingu á menningarlegum bakgrunni og sögulegu samhengi textans birtist í honum andstyggilegur Guð sem pínir fólk og platar það til að halda að hann vilji að maður myrði börnin sín til að þóknast honum.

En fyrir Abraham var Guð ekki að biðja um neitt óvenjulegt. Hann var aðeins að biðja hann að fylgja reglunum, gera eins og alltaf var gert, alltaf hafði verið gert, gera eins og hinir. Tryggja öryggi sitt. Og Abraham sagði já.

En það er þá sem undrið gerist. Hið óvenjulega. Hið glænýja.

Guð afþakkar fórnina.

Og tilbeiðslan varð ekki söm upp frá því.

Sagan er á vissan hátt fæðingarfrásögn hins miskunnsama Guðs; Guðs sem hefur þóknun á miskunnsemi en ekki sláturfórnum og á guðsþekkingu fremur en brennifórnum, svo vitnað sé í spámanninn Hósea (Hós 6.6), Guðs sem setur siðferðið ofar ritúalinu, hve erfitt sem menn hafa síðan átt með að skilja það sl. 4000 ár.

Tímamót

Sagan er þannig allegoría sögð skv. bókmenntalegum frásagnarreglum ritunartíma síns. Hún segir söguna af þeim merku tímamótum í þróun trúarbragða gyðinga þegar frumburðafórnirnar voru aflagðar, skref sem flestar grannþjóðir Ísraelsmanna stigu ekki fyrr en mörgum öldum síðar, sumar ekki fyrr en árþúsundum síðar.

Enda sjást þess merki. Gamla testamentið segir fráleitt sögu þjóðar sem aldrei villist af leið. Hvað eftir annað þarf Guð, með munni spámanna sinna, að halda reiðilestra yfir þjóðinni og konungum hennar og hóta öllu illu ef ekki sé látið af tilbeiðslu annarra Guða.

Í þessum frásögnum birtist hefnigjarn og hörundsár Guð, öfundsjúkur og eigingjarn; hégómlegur Guð sem verður sármóðgaður og reiður ef fólk vogar sér að tilbiðja aðra guði en hann – ef maður gerir enga tilraun til að skilja sögulegan bakgrunn og menningarlegt samhengi textans. Það sem Guð er að gagnrýna er nefnilega sannarlega viðurstyggilegt.

Spámaðurinn Jeremía segir til dæmis á einum stað: „Júdamenn hafa gert það sem illt er í augum mínum, segir Drottinn. Þeir hafa reist viðurstyggilegar guðamyndir sínar í húsinu, sem kennt er við nafn mitt, til þess að saurga það.“

Og við getum sagt: „Vá, einn viðkvæmur. Hvernig væri að slaka aðeins á?“

En hvernig heldur Jeremía áfram? Hann bætir við: „Þeir hafa reist Tófet-fórnarhæðir í Hinnomssonardal til þess að brenna syni sína og dætur í eldi.“ (Jer 7.30-31).

Helvíti fórnanna

Orðið „tófet“ er haft um fórnarstað þar sem börnum var fórnað í eldi. „Hinnómssonardalur“ sem spámaðurinn Jeremía nefnir hét á hebresku „Gehenna“; orð sem Jesús Kristur notar ítrekað í Nýja testamentinu í merkingunni „helvíti“. Sú líking er ekki úr lausu lofti dregin.

Í fornöld var algengt að ríki tryggðu sér friðsamleg samskipti við voldugri grannríki með því að tileinka sér trúariðkun þeirra og þrátt fyrir gorgeirinn um Ísrael, sem víða má finna í Gamla testamentinu enda hlutar þess skrifaðir gagngert í pólitískum tilgangi, verður að segjast eins og er að Ísrael var aldrei voldugt ríki. Sagan sem Gamla testamentið segir er enda saga af ríki sem fyrst var að hluta til sigrað af Assýringum, síðan af Babýlóníumönnum uns það var undir hælnum á Persum allt þangað til Grikkir lögðu það undir sig og loks – þegar komið er að tíma Nýja testamentisins – Rómverjar. Gamla testamentið geymir vitnisburð um það að átrúnaðurinn villist af leið, hugsanlega til að ögra ekki voldugum grannþjóðum eins og Föníkumönnum. Til að tryggja öryggi sitt.

Við höfum haldið áfram að villast af leið. Kirkjan hefur sett ritúöl sín og siði ofar mannúð og kærleika. Um það eru of mörg alþekkt dæmi til að ástæða sé til að tilgreina einhver sérstök. Og íslenska þjóðkirkjan hefur líka dregið á eftir sér lappirnar þegar kemur að sjálfsögðum réttlætismálum.

En við skulum hafa í huga þegar hjáguðadýrkunin er fordæmd í Gamla testamentinu að þar er ekki einhver ofurviðkvæmni í Guði á ferð. Hann er að argast út í að það sé verið að slátra börnum.

Það skiptir nefnilega máli hverju maður trúir.

Mannfórnir samtímans

En hvað kemur þetta okkur við? Það er ekki eins og við séum að stunda mannfórnir í þágu trúarinnar.

Það er vissulega rétt. Við fórnum ekki fólki fyrir það sem við trúum á. En það er ekki þar með sagt að við fórnum ekki fólki. Því það gerum við.

Kannski mætti snúa þessu við og segja: „Það sem við erum reiðubúin til að fórna fólki fyrir er það sem við trúum á – í raun.“

Fyrir hvað fórnum við fólki?

Við vitum að fjársvelt heilbrigðiskerfi kostar mannslíf. Það er engin leið að líta fram hjá því. Við vitum að umferðarslys kosta mannslíf og að í fjársveltu vegakerfi er meiri hætta á umferðarslysum. Við vitum að við stórframkvæmdir verða banaslys, það er beinlínis tekið með í reikninginn. Þar erum við bókstaflega að tala um kalkúleraðar mannfórnir. En við teljum það þess virði í þágu efnahagslegs öryggis okkar; hagvaxtar og ríkisfjármála.

Eigum við að nefna flóttamannavandann? Eigum við að láta eins og við vitum ekki að stefna vesturlanda í þeim efnum kostar mannslíf? Að fólk hættir lífi sínu í að komast yfir Miðjarðarhafið á hriplekum manndrápsfleyjum og borgar fyrir það margfalt það verð sem flugmiði á milli landanna myndi kosta – ef flugfélögum væri leyft að selja því þá?

Í þágu hvers er þeim mannslífum fórnað? Vestrænna hagkerfa? Menningarlegrar einsleitni? Í þágu ótta okkar við breytta heimsmynd og þá sem eru framandi og öðruvísi en við? Í þágu öryggis okkar?

Og enn þann dag í dag etja þjóðir börnum sínum í stríð. Í þágu … þjóðarhagsmuna; öryggishagsmuna.

Við þurfum ekkert að láta eins og massífar mannfórnir séu ekki iðkaðar skipulega og yfirvegað í samtíma okkar. En því fólki er ekki fórnað á altari Guðs. Ekki lengur.

Rétt eins og áður er því er fórnað til að tryggja öryggi okkar. Því er fórnað í þágu óttans um öryggi okkar, fjárhagslegt, félagslegt og menningarlegt.

Og enn segir Guð, rétt eins og fyrir 3800 árum: „Nei! Ekki!“

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er enn og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 2. apríl 2017

Read Full Post »