Feeds:
Færslur
Athugasemdir

Archive for maí, 2017

Guðspjall: Og Jesús sagði við þá: „Nú á einhver yðar vin og fer til hans um miðnætti og segir við hann: Vinur, lánaðu mér þrjú brauð því að vinur minn er kominn til mín úr ferð og ég hef ekkert að bera á borð fyrir hann. Mundi hinn þá svara inni: Ger mér ekki ónæði. Það er búið að loka dyrum og börn mín og ég komin í rúmið. Ég get ekki farið á fætur að fá þér brauð? Ég segi yður, þótt hann fari ekki á fætur og fái honum brauð vegna vinfengis þeirra, þá fer hann samt fram úr sakir áleitni hans og fær honum eins mörg og hann þarf. Og ég segi yður: Biðjið og yður mun gefast, leitið og þér munuð finna, knýið á og fyrir yður mun upp lokið verða. Því að hver sá öðlast sem biður, sá finnur sem leitar og fyrir þeim sem á knýr mun upp lokið verða. Er nokkur sá faðir yðar á meðal sem gæfi barni sínu höggorm ef það biður um fisk eða sporðdreka ef það biður um egg? Fyrst þér, sem eruð vondir, hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðirinn himneski gefa þeim heilagan anda sem biðja hann.“ (Lúk 11.5-13)

rocket1Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Fyrir nokkrum árum skrifaði Illugi Jökulsson mjög persónulega grein þar sem hann lýsir þeirri harmrænu stund í lífi sínu þegar hann sem barn gekk af trúnni. Hann var þá, eins og hann er enn, sérlegur áhugamaður um tækni og vísindi og fylgdist gagntekinn spennu með geimferð þar sem allt virtist vera að fara úrskeiðis og vísindamenn geimferðastofnunarinnar unnu dag og nótt að því að koma geimfaranum heilu og höldnu til jarðar. Drengurinn Illugi lagðist á bæn og bað til Guðs um hjálp til handa hetjunni sinni, geimfaranum hugdjarfa. En allt kom fyrir ekki. Geimferðin endaði með ósköpum og kostaði geimfarann lífið.

Þetta þótti Illuga vægast sagt léleg frammistaða hjá Guði. Sá guð sem trú hans beindist að hefði aldrei látið þetta gerast, þannig að fyrst þetta gerðist þá gat hann ekki verið til. Hans Guð hlustaði á einlægar og óeigingjarnar bænir eins og þessa og bænheyrði. Síðan hefur Illugi ekki trúað á neinn guð, eftir því sem ég best veit – en áratugur er liðinn síðan greinin birtist.

Hann á fullan rétt á því og ekki hvarflar að mér að setja siðferði hans eða manngildi í nokkurt samhengi við trúarafstöðu hans. Ég held að flestir hljóti að vera sammála um – eins iðinn og hann hefur verið við að tjá sig um allt milli himins og jarðar í gegn um tíðina – að þar fari ekki bara fjölfróður maður heldur líka hjartahlýr mannvinur, hvort sem menn síðan eru sammála honum um þjóðfélagsmál í einu og öllu eða ekki.

Og ég held líka að flestir geti sett sig í spor hins unga Illuga. Að leggja vonir sínar og óskir í barnslega einlægu trúartrausti í hendur elskandi Guðs í trausti þess að hann verði við óskunum og geri það sem um er beðið og svo vonbrigðin þegar það gerist ekki.

Að biðja Guð

bicycleSaga ein segir frá efnalitlum dreng sem á hverjum degi bað Guð að gefa sér reiðhjól. Aldrei fékk hann reiðhjólið svo hann var við það að ganga af trúnni, en gekk fyrst á fund prestsins síns til að bera fram kvörtun. Presturinn og drengurinn ræddu lengi vel saman um bænina og kvöddust síðan með hinum mestu virktum. Daginn eftir mætir presturinn drengnum á nýju hjóli. Hann spyr drenginn hvernig hann hafi farið að því að eignast hjólið og hann svaraði: „Eftir að þú útskýrðir fyrir mér hvernig bænin virkaði, að það þýddi ekkert að biðja Guð um hjól, þá fór ég og stal hjóli og bað í staðinn Guð um fyrirgefningu.“

Þetta er kallað „að syndga upp á náðina“ og þykir ekki eftirbreytniverð guðfræði. Að lifa á yfirdrættinum á himnum – að treysta honum alla leið og sjá aldrei ástæðu til að vera í plús hjá Guði.

Ekki ætla ég að líkja hinum unga Illuga við drenginn í brandaranum, enda sá fyrrnefndi greinilega mun þroskaðari siðferðisvera en sá síðari. En þeir eiga það sameiginlegt að hafa í bæn beðið Guð um að gera eitthvað fyrir sig án árangurs. Drengurinn í brandaranum tók málin í sínar eigin hendur – sem stóð Illuga ekki til boða.

En er það ekki það sem maður á að gera? Biðja Guð að gera hluti fyrir sig? Er það ekki það sem bænin gengur út á? Er bæn ekki beiðni eða bón … eru þetta ekki í flestu tilliti samheiti? Og trúum við ekki á bænheyrslu?

Í guðspjalli dagsins fullyrðir Jesús Kristur: „Biðjið og yður mun gefast.“ Og hann útskýrir það á þá leið að fyrst við gefum ekki börnum okkar höggorm ef þau biðja um fisk eða sporðdreka ef þau biðja um egg – hví skyldi faðir okkar á himnum þá ekki gefa okkur það sem við biðjum um?

Heimur bænheyrslunnar

Mikið væri nú heimurinn indæll staður ef maður gæti beðið Guð í barnslegri einlægni um hvað sem er og hann myndi hlýða. Þá færi aldrei neitt úrskeiðis og allir fengju allar óskir sínar uppfylltar. Öll íþróttafélög yrðu alltaf Íslandsmeistarar, sætasta stelpan í skólanum væri skotin í öllum strákunum, allir fengju alltaf sjálfkrafa hæstu einkunn á öllum prófum og því væri algjör óþarfi að læra fyrir þau og engin hætta væri á því að neinar ævintýraferðir eða geimleiðangrar færu úrskeiðis svo vísindamennirnir væru í raun óþarfir eða gætu alla vega kastað til höndunum við vinnu sína hvernig sem þeim sýndist því það væri aldrei neitt raunverulegt í húfi – Guð myndi alltaf redda þeim. Allar hljómsveitir yrðu vinsælar, allar kvikmyndir fengju Óskarsverðlaun þannig að óþarfi væri að vanda sérstaklega til verka.

Það væri með öðrum orðum ekkert afrek að verða Íslandsmeistari þannig að stuðningur okkar við liðið okkar væri óþarfur og í raun tilgangslaus. Sú staðreynd að geimferðir eru afrek – einmitt vegna þess að þær eru hættulegar og margt getur farið úrskeiðis – myndi heyra sögunni til. Reyndar myndu öll afrek mannsandans heyra sögunni til.

Þjáning og dauði væri ekki lengur til þannig að við þyrftum ekki að vera góð hvert við annað; ekkert hræðilegt gæti gerst. Og við hefðum alla eilífðina til að gera upp málin þannig að það væri óþarfi að vera „skjótur til sátta“ eins og Jesús hvetur okkur til að vera í Fjallræðunni. Og minnstu bræður og systur Jesú Krists væru ekki á meðal okkar heldur eintóm stóru systkini því hver væri hjálpar þurfi eða upp á gæsku og náungakærleik kominn ef líf hans væri að öllu leyti nákvæmlega eins og hann óskar sér?

Kærleikurinn myndi sennilega heyra sögunni til.

Í öllum praktískum skilningi væri ekki lengur til einn almáttugur Guð heldur gengi um jörðina hálfur áttundi milljarður allmáttugra Guða með ólíkar langanir, markmið og þrár. Sjö og hálfur milljarður miseigingjarnra manna að segja Guði fyrir verkum.

Það segir sig sjálft að þetta gengur alls ekki upp. Þannig að við getum eins sleppt því að biðja til Guðs, er það ekki?

Eða hvað?

Kannski væri ekki úr vegi að heyra orð Jesú. Að lesa alla setninguna … að klára textann áður en við förum að álykta út frá hluta hans.

Hann segir nefnilega aldrei að Guð svari bænum okkar um fisk eða egg … eða sigur íþróttafélagsins okkar, ástir sætustu stelpurnnar, nýtt reiðhjól eða farsælan endi á háskaför sem á hug okkar allan.

Nei, það er annað sem Guð gefur okkur í bæninni.

„Fyrst þér, sem eruð vondir, hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðirinn himneski gefa þeim heilagan anda sem biðja hann,“ segir Jesús.

Heilagan anda.

Hvað er það?

Samfélag heilags anda

Þrenningarlærdómurinn þvælist fyrir mörgum, einn Guð í þremur persónum; föður, syni og heilögum anda. Samkvæmt kenningum kirkjunnar er þetta satt en samtímis óskiljanlegt, þannig að ef ég þættist skilja þetta og reyndi að útskýra það fyrir ykkur væri ég samkvæmt kenningunni sjálfri sjálfkrafa farinn að boða villutrú, hvað sem ég segði.

krossmarkEn þegar ég útskýri fyrir börnum að krossinn okkar teikni upp þrenninguna eins og ég skil hana, að ég bendi upp til himins þegar ég segi að við trúum á Guð á himni, að ég dreg línu niður til jarðarinnar þegar ég segi að við trúum á Guð á jörðu og að ég dreg lárétta línu frá manni til manns þegar ég segi að við trúum á Guð í hjörtum allra manna – og að við köllum Guð á himni „Guð föður“, Guð sem kom til jarðarinnar, Jesú Krist, „son“ og Guð í hjörtum allra manna „heilagan anda“ og að það sé allt einn og sami guðinn sem sé kærleikur – þá finnst þeim það ekkert mjög ruglingslegt. Það síðar á lífsleiðinni sem þetta fer að standa í okkur.

Guð í hjörtum allra manna. Heilagur andi.

Í síðustu viku lásum við fallegan texta úr Fyrra Jóhannesarbréfi þar sem segir einfaldlega „Guð er kærleikur“ og haldið er áfram og fullyrt að ef við elskum hvert annað þá sé Guð í okkur og við í Guði.

Guð í okkur. Heilagur andi.

Okkur stendur til boða að vera samfélag heilags anda. Að vera kærleikssamfélag.

Hvernig getum við hafnað því tilboði? Hvernig getum við ekki borið okkur eftir þeirri gjöf?

Í kærleikssamfélaginu rætast ekki allar óskir. Við verðum fyrir harmi og áföllum. En þegar það gerist njótum við ástar og umhyggju náungans sem leitast við að elska Guð og náungann minnugur þess að það sem við gerum okkar minnstu bræðrum og systrum gerum við Jesú Kristi. Þar gerum við slíkt hið sama, komum fram við aðra eins og við viljum að komið sé fram við okkur.

Og það eina sem við þurfum að gera er að vilja það … og biðja um það.

Kannski hef ég ekki sagt neitt í þessari prédikun sem Steingrímur Thorsteinsson sagði ekki betur þegar hann orti:

Trúðu á tvennt í heimi.

Tign sem æðsta ber.

Guð í alheims geimi.

Guð í sjálfum þér.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er enn og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 21. maí 2017

Read Full Post »

heart-shaped-cloud-formation-detlev-van-ravenswaayPistill: Þetta er kærleikurinn: Ekki að við elskuðum Guð heldur að hann elskaði okkur og sendi son sinn til að vera friðþæging fyrir syndir okkar. Þið elskuðu, fyrst Guð hefur elskað okkur svo mikið þá ber okkur einnig að elska hvert annað. Enginn hefur nokkurn tíma séð Guð. Ef við elskum hvert annað þá er Guð í okkur og kærleikur hans er fullkomnaður í okkur. Guð hefur gefið okkur anda sinn og þannig vitum við að við erum í honum og hann í okkur. Við höfum séð og vitnum að faðirinn hefur sent soninn til að vera frelsari heimsins. Hver sem játar að Jesús sé sonur Guðs, í honum er Guð stöðugur og hann í Guði. Við þekkjum kærleikann, sem Guð hefur á okkur, og trúum á hann. Guð er kærleikur og sá sem er stöðugur í kærleikanum er stöðugur í Guði og Guð er stöðugur í honum. (1Jóh 4.10-16)

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni, Jesú Kristi. Amen.

Sagan segir að á sínum tíma hafi Guðleysisráð Sovétríkjanna sálugu komið saman til fundar. Fundarmönnum var mikið niðri fyrir og raunar í öngum sínum, því aðgerðir þeirra voru ekki að skila þeim árangri sem vænst var. Hvernig sem þeir reyndu að berja niður kristindóminn þá virtist það ekki hafa nein áhrif. Prestar höfðu verið fangelsaðir og sendir í gúlagið og kirkjur teknar herskildi og breytt í kartöflugeymslur, en allt kom fyrir ekki. Fólk hélt áfram að trúa, hélt áfram að biðja, hélt áfram að koma saman í Jesú nafni í tilbeiðslu og bænagjörð. Hvað áttu þeir til bragðs að taka? Hvað var eiginlega til ráða? – Niðurstaðan var sú að sennilega væri skynsamlegast að senda menn til Svíþjóðar … til að komast að því hvernig þeir fóru að þessu.

Sagan er ábyggilega haugalygi, en það skiptir ekki máli … sannleikurinn í henni er djúpur og mikill fyrir því.

Þörfin fyrir Guð

Það er kannski engin tilviljun að í velferðar- og velmegunarsamfélögum virðist almenn trúariðkun einna helst eiga undir högg að sækja. Kirkjum á slíkum stöðum hættir til að verða latar og værukærar. Eldmóðurinn sem þarf til að halda lífi í voninni um bætt og betra hlutskipti – um Guðs ríki mitt á meðal okkar – nærist á þörfinni fyrir bætt og betra hlutskipti. Þar sem sú þörf er ekki mikil, þar sem allur þorri almennings býr ekki við fátækt og kúgun, virðist vera minni þörf fyrir Guð. Þar sem vonin er alltaf handan við hornið, þar sem bágt ástand er tímabundið og hægt að vinna sig út úr því, þar sem stjórnvöld leggja ekki allt kapp á að viðhalda vonleysi og draga kjark úr fólki til að verja völd sín, þar sem þú getur brett upp ermar og reddað þér eða í versta falli fengið þá félagslegu aðstoð sem þú átt rétt á til að bjarga þér … til hvers að biðja Guð um hjálp? Þar sem þú ert sjálfur við stjórnvölinn á lífi þínu og allt gengur bærilega … til hvers að lúta handleiðslu æðri máttar?

En jafnvel þar … stendur manneskjan með reglulegu millibili frammi fyrir vanmætti sínum.

Í slíkum samfélögum missir fólk líka tökin á lífi sínu, hvort sem það er í víti fíknar eða annarra sjúkdóma eða bara í sjálfselsku, eigingirni og tillitsleysi sem smám saman rústar ekki bara virðingu annarra fyrir þeim heldur þeirra eigin sjálfsvirðingu. Í slíkum samfélögum eru einstaklingar sem horfa í spegilinn á laugardags- eða sunnudagsmorgni og sjá manneskju sem þeir fyrirlíta, manneskju sem er einmitt ekki persónan sem þeir ætluðu að verða.

Í slíkum samfélögum er kannski minni þörf til að biðja: „Til komi þitt ríki – þar sem réttlæti og jöfnuður ríkir.“ En þar er alveg jafnmikil þörf til að biðja: „Verði þinn vilji – ekki minn sem leitt hefur mig á algjörar villigötur í lífi mínu.“

Ranglæti heimsins

En svo er til ranglæti sem ekki er af manna völdum og það fer ekki í manngreinarálit. Því er sama hvort þú býrð í Svíþjóð eða Sómalíu, í Súdan eða Grímsnesinu.

stephen fryUm þessar mundir gengur mikill reiðilestur breska leikarans og sjónvarpsmannsins Stephens Frys ljósum logum á samfélagsmiðlum. Aðspurður um hvað hann myndi segja við Guð ef hann hitti hann svarar Fry:

„Beinkrabbamein í börnum, hvernig stendur á því? Hvernig vogarðu þér? Hvernig vogarðu þér að skapa heim þar sem svona mikið er um eymd sem er ekki okkar sök? Það er ranglátt og illgjarnt. Hvernig get ég borið virðingu fyrir kenjóttum, meinfýsnum og heimskum Guði sem skapar veröld sem er full af ranglæti og þjáningu?“

Þessi orð féllu í sjónvarpsviðtali fyrir tveim árum og vöktu athygli. Athyglin sem þau vöktu komu Fry á óvart að hans eigin sögn. Hann sagðist aðeins hafa verið að enduróma orð heimspekingsins Bertrands Russells og annarra sem sagt hafa hið sama allt aftur til daga Forngrikkja.

Það er rétt hjá Stephen Fry að hann var aðeins að bergmála hugsanir þessara manna. Reyndar má bæta því við að hann var líka að bergmála hugsanir höfunda Jobsbókar og allmargra Davíðssálma. Hann var að færa í orð hugsanir flestra sæmilegra skynsamra, hugsandi manna, trúaðra sem trúlausra, frá upphafi tíma.

Það þarf ekki að breyta inntakinu í orðum Stephens Frys til að fullyrða að hann hafi verið að vitna í heilaga ritningu:

„Saklausum og óguðlegum tortímir hann. Þegar svipan deyðir óvænt hæðir hann angist hinna saklausu. Falli land guðlausum í greipar byrgir hann augu dómaranna. Ef ekki hann, hver þá?“ (Job 9.22b-24)

segir Job um Guð. Við Guð segir hann:

„Er það þér ávinningur að beita ofbeldi, að hafna verki handa þinna og láta ljós skína yfir ráðabrugg guðlausra?“ (Job 10.3)

Það er nefnilega furðu lífsseigur misskilningur, ekki síst meðal harðkjarna trúleysingja, að efinn og trúin eigi enga samleið, að trúað fólk þekki ekki efann, að til að trúa verði að fórna gagnrýnni, sjálfstæðri hugsun og elta bókstafinn í blindni. En það er ekki þannig.

Glíman við efann er hluti af trúarþroska og trúarreynslu hvers manns – eins og fjölmargir textar Biblíunnar eru svo glöggt dæmi um.

Fáar bænir eru eins einlægar og steyttur hnefi til himins.

Viðbragðið

En hvernig eigum við að bregðast við þessu? Hvernig getum við trúað á Guð sem lætur börn fá krabbamein? Hvernig getum við trúað á Guð sem ryður snjóflóðum yfir þorp? Guð sem veldur hungursneyðum með þurrkum eða flóðum?

Við getum sagt sem svo – og það hefur verið sagt – að vegir Guðs séu órannsakanlegir, ranglætið sé hluti af ráðsályktun Guðs, þetta sé allt partur af stóra planinu sem okkur er ekki ætlað að skilja, það sé tilgangur með þjáningunni sem okkur er hulinn. Auk þess þá sé þjáningin afstæð sem hluti af hinni veraldlegu vídd tilverunnar en ekki þeirrar andlegu.

Þetta eru að mínum dómi ódýr og ófullnægjandi svör. Fyrir hinum þjáða er ekkert afstætt við þjáninguna. Og leiðtogi lífsins, Jesús Kristur, mætti þjáningunni aldrei með útskýringum eða réttlætingum – hvað þá aðdáun – heldur ávallt með huggun og líkn.

„Guð er kærleikur,“ segir í pistli dagsins. Og ekki bara það. Það er gengið lengra og fullyrt: „Ef við elskum hvert annað þá er Guð í okkur og kærleikur hans er fullkomnaður í okkur. … við erum í honum og hann í okkur.“

Heimurinn er óréttlátur. Það fer ekki á milli mála. Snjóflóð falla á þorp. Börn deyja úr sjúkdómum. Hungursneyðir geysa. Hvernig eigum við að bregðast við því?

Ég sé aðeins tvennt í stöðunni.

Annað er að setja undir sig hausinn og böðlast í gegn um þetta líf á hörkunni. Vona það besta, gefa ekki óþarfa höggstað á sér og passa sjálfan sig númer eitt, tvö og þrjú. En það er engin trygging fyrir því að maður verði ekki fyrir barðinu á ranglæti heimsins. Það minnkar kannski líkurnar á því eitthvað smávegis, en það auðveldar manni ekki að takast á við það þegar á reynir … reyndar er sennilegra að það geri manni það erfiðara.

Hitt viðbragðið er kærleikurinn. Guð. Að leitast við að fylgja Jesú Kristi og lifa samkvæmt orðum hans í guðspjalli dagsins: „Þetta býð ég yður, að þér elskið hvert annað.“ (Jóh 15.17) Að vera í Guði og hafa Guð í sér. Að muna að við erum öll í þessu saman, að passa hvert annað, bera hvert annars byrðar.

Það er jafnsennilegt að sorg og neyð vitji manns, en þegar það gerist er maður ekki einn. Maður hefur öxl að gráta á, faðm að falla í. Stuðning við að rísa á fætur á nýjan leik og halda áfram. Leiðsögn í gegn um þjáninguna.

Í ranglátum heimi er kærleikurinn nauðsynlegur. Segja má að það sé beinlínis þjáningin sem gerir Guð ómissandi.

Rétta spurningin

Jesús segir okkur aldrei af hverju heimurinn er ranglátur. Og þegar hann er spurður að því svarar hann ekki. Í níunda kafla Jóhannesarguðspjalls mætir Jesús manni sem hafði verið blindur frá fæðingu. Þar segir:

„Lærisveinar hans spurðu hann: „Rabbí, hvort hefur þessi maður syndgað eða foreldrar hans fyrst hann fæddist blindur?“ Jesús svaraði: „Hvorki er það af því að hann hafi syndgað eða foreldrar hans heldur til þess að verk Guðs verði opinber á honum.“ (Jóh 9.2-3)

Með öðrum orðum: Spurningin er röng. Ekki spyrja af hverju heimurinn er ranglátur. Við því getum við ekkert gert. Spurðu frekar: Hvers krefst sú staðreynd, að heimurinn er ranglátur, af mér sem manneskju?

Og þeirri spurningu svarar hann fyrir okkur:

Það krefst kærleika.

Það krefst Guðs í þér.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 14. maí 2017

Read Full Post »