Feeds:
Færslur
Athugasemdir

Archive for september, 2017

Guðspjall: Á ferð þeirra kom Jesús í þorp nokkurt og kona að nafni Marta bauð honum heim. Hún átti systur er María hét og settist hún við fætur Drottins og hlýddi á orð hans. En Marta lagði allan hug á að veita sem mesta þjónustu. Og hún gekk til hans og mælti: „Drottinn, hirðir þú eigi um það að systir mín lætur mig eina um að þjóna gestum? Seg þú henni að hjálpa mér.“ En Drottinn svaraði henni: „Marta, Marta, þú ert áhyggjufull og mæðist í mörgu en eitt er nauðsynlegt. María valdi góða hlutskiptið. Það verður ekki frá henni tekið.“ (Lúk 10.38-42)

torfbærNáð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Amma mín borðaði ekki mat.

Hún var húsmóðir á sveitaheimili, fædd árið 1900 á sveitabæ austur í Hjaltastaðaþinghá og alin upp í sveit. Lærði ung að vera til gagns og þegar hún varð húsmóðir á sínu eigin heimili sinnti hún því hlutverki vel og samviskusamlega. Ég var í sveit hjá henni á hverju sumri fram undir fermingu, uns hún var komin hátt á áttræðisaldur. Ég verð ævinlega þakklátur fyrir að hafa fengið að alast upp að hluta til af kynslóð – og á vissan hátt í menningarheimi – sem nú eru horfin.

Eitt af því sem einkenndi ömmu mína var að hún settist aldrei til borðs með öðru heimilisfólki á matmálstímum. Hún annaðist matseldina, bar mat á borð, sá til þess að allir fengu sitt. Hún stýrði borðhaldinu en tók ekki þátt í því sjálf.  Þetta var alsiða hjá hennar kynslóð.

Alla vega man ég að ég skildi vel sögu sem ég heyrði einhvern tímann af sveitadreng sem hafði verið í heimsókn hjá vini sínum á næsta bæ og tekið þátt í borðhaldi þar og séð undur og stórmerki sem hann gat ekki beðið eftir að segja frá heima. Fréttin var þessi: „Mamma, Mamma! Amma hans Palla borðar mat!“

Auðvitað borðaði amma mín mat. Þegar aðrir höfðu lokið við að matast og voru gengnir til verka sinna tíndi hún mat á disk handa sér og borðaði. Fyrr mætti nú vera. Og hún lét okkur frændurna, sem vorum hjá henni á sumrin, á svipuðu reki, sjá um uppvaskið á meðan – án undantekninga. Að mig minnir. En þessi drengur hafði greinilega aldrei séð ömmur borða og þótti það tíðindum sæta að amma leyfði sér að setjast til borðs með öðru heimilisfólki og snæða.

Uppreisnin

Guðspjall dagsins segir af jafnvel enn meiri undrum og stórmerkjum en þeim að ömmur borði mat. Þetta er saga af konu sem leyfir sér þá ósvinnu að hlamma sér niður og hlusta á gestinn frekar en að ganga um beina eins og ætlast var til af henni. Eins og hefðin kvað á um um, eins og kynslóðir kvenna höfðu gert á undan henni. Hvað hélt hún eiginlega að hún væri?

Þetta er í raun stórmerkilegur byltingarboðskapur þegar til þess er litið að textinn er skrifaður öðru hvoru megin við fyrstu aldamót okkar tímatals, hugsanlega svo snemma sem árið 80. Þessi texti verður til í samfélagi þar sem fáheyrt er að kona hagi sér svona. Þar sem mjög strangar reglur giltu um hátterni kvenna, verkefni þeirra og skyldur og einkum og sér í lagi umgengni þeirra við karla. Og þarna er kona sem lætur það allt lönd og leið. Athæfi hennar er skýlaust brot á öllum venjum og reglum. Kona sem fær sér sæti með hinum og tekur þátt í samkomunni eins og hún sé maður með mönnum. Hvað þykist hún vera?

Og ekki nóg með það. Jesús blessar uppátækið. „Gott hjá henni,“ segir hann. Ógnin við feðraveldið sem felst í sjálfsákvörðunarrétti kvenna – fyrirbæri sem ekki var farið að velta fyrir sér að neinu marki fyrr en mörgum öldum síðar – fór ekkert fyrir brjóstið á honum. Jafnvel Marteinn Lúther, okkar mikli trúarleiðtogi, skrifaði að konum bæri að vera hlýðnar og undirgefnar, að eðli karla gerði þá hæfa til að ræða alvörumál af skynsemi en ekki „ruglingslega og afkáralega“ eins og konur geri. Það gerir hann fimmtán öldum síðar.

Byltingarboðskapur

Færa má rök fyrir því að þarna komi Jesús út úr skápnum sem gallharður feministi. Það má líka færa rök fyrir því að Jesús hafi í raun verið kommúnisti. En ég ætla ekki að gera það. Hvorug hugmyndafræðin varð til fyrr en löngu löngu síðar. En líf og starf Jesú, boðskapur hans, fól í sér – eins og þessi hugmyndakerfi í sinni tærustu og einföldustu mynd gera – valdeflingu hinna undirokuðu, þeirra sem einskis máttu sín. Jesús sker upp herör gegn venjum og siðum, reglum og viðhorfum sem skerða aðgengi fólks að andlegum verðmætum og blinda sýn þess á hjálpræðið.

Jesús bendir á siðferðilega yfirburði tollheimtumannsins yfir faríseanum. Hann bendir á að eyrir ekkjunnar er stærri gjöf en fjáraustur auðmannanna. Hann segir dæmisögur úr daglegu lífi hinna lægst settu og forsmáðu. Sagan af týnda sauðnum er beint úr reynsluheimi fjárhirða, lægstu stéttar samfélagsins. Hann fullyrðir að fyrir ríkan mann að vera hluti af guðsríkinu sé eins og fyrir úlfalda að komast í gegn um nálarauga. Við getum rétt ímyndað okkur hvernig það hljómaði í eyrum æðstu prestanna sem orðið höfðu vellauðugir á einkaleyfi á sölu fórnardýra í musterinu á uppsprengdu verði.

Og konur eru síðan kapítuli út af fyrir sig. Sagan af týndu drökmunni. Samversku konunni. Og nú … Mörtu og Maríu.

Jesús er byltingarmaður.

Enda voru meintir villutrúarmenn ekki krossfestir í Rómaveldi. Sú dauðarefsing var frátekin fyrir eina tegund glæpamanna: Uppreisnarmenn.

Hinn innri kúgari

En Jesús bendir líka á að inn á milli er það sem hamlar okkur hlutverk sem enginn hefur skikkað okkur í nema við sjálf. Takið eftir því að Jesús bað Mörtu ekkert um að ganga um beina. Hann bað hana ekkert um að elda mat fyrir sig. Það var Marta sem hafði boðið Jesú heim til sín. Það hafði enginn lagt þessar byrðar á Mörtu nema Marta sjálf.

Í Kristnihaldi undir Jökli býr Halldór Laxness til kostulega kvenpersónu, Hnallþóru nokkra, en hlutverk hennar er að sjá til þess að Umbi nærist. Henni finnst Umbi svo merkileg persóna – reyndar kallar hún hann biskupinn – að það hvarflar ekki að henni að bjóða honum upp á fisk eða flot, ekkert er nógu fínt fyrir hann nema sykursætar stríðstertur sem Umbi auðvitað fær ógeð á eftir stutta stund. Fyrir vikið eru íburðarmiklar tertur jafnan kallaðar hnallþórur á íslensku.

Jesús kom ekki til Mörtu til að vera bornar hnallþórur. Hann kom til að spjalla við fólkið. Og Marta var of upptekin af öðru til að veita honum það sem hann vildi – félagsskap hennar.

Og Marta spyr Jesú, þegar hún verður pirruð á því að þurfa að standa í þessu öllu ein: „Drottinn, hirðir þú eigi um það að systir mín lætur mig eina um að þjóna gestum?“

Við lendum oft í þessari stöðu. Þegar okkur langar til að hreyta í Guð setningum sem byrja á: „Hirðir þú eigi um …?“ „Er þér sama?“ Þegar þyrmir yfir okkur vegna þess sem á okkur er lagt á meðan aðrir hafa það náðugt og sigla vesenislaust í gegnum lífið. Og Jesús svarar okkur ekki með því að skamma okkur, ekki frekar en að hann hafi skammað Mörtu og sakað hana um ranga breytni. Gestrisni er og verður dyggð.

Hann spyr bara: „Hver lagði þetta á þig? Af hverju valdirðu þér ekki betra hlustskipti sjálf? Þú getur nefnilega valið.“

Að grípa daginn

Við skulum líka hafa hugfast að María sat ekki ævilangt við fætur Jesú og hlustaði á hann. Daginn eftir hefur hún vaknað og gengið til verka sinna, útbúið morgunmat handa fólkinu sínu og sinnt öðrum skyldum sínum. En hún hafði orð Jesú í hjarta sér því hún hafði ekki neitað sér um þau andlegu verðmæti þegar þau voru innan seilingar. Því tækifæri hafði hún ekki fórnað fyrir misskilda skyldurækni. Þessi dagur var ekki eins og flestir dagar. Og það varð aldrei frá henni tekið í dagsins önnum upp frá því að hafa gripið þennan dag.

Amma mín borðaði mat. Og þegar gesti bar að garði settist hún hjá þeim, bar í þá kaffi og fékk sér sjálf. Skipst var á sögum og gjarnan farið með vísur. Og sennilega var þetta frekar nútímalegt sveitaheimili á sinna tíma mælikvarða því móðir mín hefur sagt mér að ein af hennar bernskuminningum sé að heyra föður sinn, afa minn, ausa sér yfir gest sem hafði sagt hann vera að vinna kvenmannsverk þegar hann kom í heimsókn og afi var að stússa í matseld. En flesta daga stýrði amma mín borðhaldinu á heimilinu og fékk sér sjálf þegar hún gat snætt í næði. Ég fékk aldrei þá grillu í höfuðið að amma mín borðaði ekki mat.

Við skulum passa okkur. Skyldurækni er vissulega dyggð. En við skulum ekki gleyma okkur svo í skyldurækninni – og hlaða svoleiðis á okkur skyldum í þeirri trú að því fleiri skyldur sem við höfum þeim mun dyggðugri séum við – að það þyki tíðindum sæta að við þurfum að næra okkur eins og annað fólk.

Og þá á ég ekki bara við líkamlega næringu.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 24. september 2017

Read Full Post »

Guðspjall: Þessu næst var ein af hátíðum Gyðinga og Jesús fór upp til Jerúsalem. Við Sauðahliðið í Jerúsalem er laug sem kallast á hebresku Betesda. Þar eru fimm súlnagöng. Í þeim lá fjöldi sjúkra manna, blindra, haltra og lamaðra [sem biðu hræringar vatnsins. En engill Drottins fór öðru hverju niður í laugina og hrærði vatnið. Sá sem fyrstur fór ofan í eftir hræring vatnsins varð heill hvaða sjúkdómur sem þjáði hann.] Þarna var maður nokkur sem hafði verið sjúkur í þrjátíu og átta ár. Jesús sá hann þar sem hann lá og vissi að hann hafði lengi verið sjúkur. Hann segir við manninn: „Viltu verða heill?“ Hinn sjúki svaraði honum: „Herra, ég hef engan til að láta mig í laugina þegar vatnið hrærist og meðan ég er á leiðinni fer annar ofan í á undan mér.“ Jesús segir við hann: „Statt upp, tak rekkju þína og gakk!“ Jafnskjótt varð maðurinn heill, tók rekkju sína og gekk. En þessi dagur var hvíldardagur og menn sögðu við hinn læknaða: „Í dag er hvíldardagur. Þú mátt ekki bera rekkjuna.“ Hann svaraði þeim: „Sá sem læknaði mig sagði við mig: Tak rekkju þína og gakk!“ Þeir spurðu hann: „Hver er sá maður sem sagði þér: Tak hana og gakk?“ En læknaði maðurinn vissi ekki hver hann var því að Jesús hafði leynst brott enda var þröng á staðnum. Nokkru síðar hitti Jesús hann í helgidóminum og sagði við hann: „Nú ert þú orðinn heill. Syndga ekki framar svo að eigi hendi þig annað verra.“ Maðurinn fór og sagði ráðamönnum Gyðinga að Jesús væri sá sem læknaði hann. (Jóh 5.1-15)

ex-leper

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Kvikmyndin Life of Brian með Monty Python gamanleikhópnum olli nokkru fjaðrafoki þegar hún var frumsýnd árið 1979, þótt nú til dags þætti trúarskens á borð við það sem ber myndina uppi býsna meinlaust. En fólk var ekki vant því þá að gantast væri með þá atburði sem lýst er í heilagri ritningu og sumir tóku því vægast sagt illa að í bakgrunni sögunnar af Jesú frá Nasaret væri sýnd farsakennd ævi hins seinheppna Brians.

Eitt atriði myndarinnar sýnir mann nokkurn, leikinn af Michael Palin, sem kallar sig „fyrrverandi holdsveikisjúkling“, bölva Jesú í sand og ösku fyrir að hafa læknað sig og þar með haft af sér lífsviðurværið. Einn daginn er hann heiðarlegur, holdsveikur betlari og svo allt í einu eins og hendi sé veifað er hann gerður stálheilbrigður og hann skilinn eftir með engin úrræði til að framfleyta sér með þeim eina hætti sem hann kunni. „Bloody do-gooder“ er hann kallaður, sem þýða mætti „bévítans góðgjörðarmaður“.

Þetta er auðvitað bráðfyndið, en eins og svo margt sem er fyndið, þá er þetta meðal annars fyndið af því að í því er sannleiksbroddur. Eilífur sannleiksbroddur. Enn í dag heyrast viðhorf eins og þessi viðruð. „Góðgjörðarmönnum“ er kannski ekki bölvað í sand og ösku sem slíkum, en í fjölmiðlum veður samt uppi hópur sjálfskipaðra álitsgjafa sem ekki geta hugsað sér neitt ljótara að segja um fólk en að kalla það „góða fólkið“.

Gott fólk er vont fólk

Það er kannski ekkert skrýtið að nú þegar það, sem George Orwell kallaði „newspeak“ í skáldsögu sinni 1984, dafnar sem aldrei fyrr – stríð er friður, frelsi er helsi, fáfræði er styrkur … en við þessa upptalningu hefur samtími okkar einmitt bætt fullyrðingum á borð við „lygi er hliðstæð staðreynd“ og „mannhatur er óhefðbundin orðræða“ – að fram komi tilhneiging til að kalla andfasisma fasisma og jafnvel – sem hlýtur að vera hámark alls sem er ófyrirleitið – góða fólkið vont fólk.

Það væri þá kannski ekki nema að kalla siðferðiskennd ábyrgðarleysi. En það myndi náttúrlega enginn gera.

Eða hvað?

Kannski er ekki seinna vænna að kynna þjóðina fyrir þessu verki Orwells eins og gert verður í Borgarleikhúsinu í vetur og við hæfi að leikstjórinn sé í fararbroddi þeirra, sem með því að krefjast þess með óbilandi þrautseigju að sannleikurinn væri dreginn fram í dagsljósið, urðu þess valdandi að þeir atburðir, sem hæst hafa farið í fréttum undanfarna viku, áttu sér stað.

Við náðarlaugina

Guðspjallstexti dagsins segir sögu af því þegar Jesús gerðist svo óforskammaður – að mati sumra – að vera gott fólk. Hann kemur að lauginni Betseda við Sauðahliðið, en sauðir sem komið var með til Jerúsasalem til að fórna í musterinu voru þvegnir í þessari laug strax við hliðið svo þeir væru hreinir í helgidómnum.

Orðið „Betseda“ merkir „hús náðar“ … en við Íslendingar skeytum þessum tveimur orðum saman í öðru og gjörsamlega óskyldu samhengi.

Við Betseda laugina var aftur á móti lítið um náð. Þar lá helsjúkt fólk og beið þess að vatnið gáraðist í þeirri trú að sá fyrsti sem færi ofan í hana eftir það hlyti bót meina sinna. Þetta var svona „fyrstur-kemur-fyrstur-fær“ náð.

Og þessi maður er búinn að vera veikur í 38 ár. Og Jesús spyr hann: „Viltu verða heill?“ Spurningin kann að virðast kjánaleg. En ef maðurinn hafði legið þarna árum saman, eins og gefið er í skyn í textanum, er hún eðlileg.

Af hverju er maðurinn ekki löngu búinn að gera eitthvað í þessu? Hafði honum virkilega ekki gefist tækifæri í 38 ár til að koma sér ofan í laugina? „Meðan ég er á leiðinni er einhver annar á undan mér,“ segir hann. „Þetta er ekki mér að kenna. Þetta er öðrum að kenna.“

Maðurinn gat greinilega hreyft sig eitthvað, hugsanlega bylt sér ofan í laugina hefði hann legið á brún hennar.

Er von að Jesús spyrji: „Hvernig er það … viltu verða heill? … Eða ertu kannski búinn að sætta þig við hlutskipti þitt? Er þetta sjálfsmyndin; lamaði maðurinn við laugina. Grey fórnarlamb kringumstæðna sinna. Það er ekki honum að kenna að ekkert varð úr honum. Fékkstu með sjúkdómi þínum hina fullkomnu afsökun upp í hendurnar?“

Engar afsakanir

Jesús spyr: „Viltu verða heill?“ Og maðurinn segir ekki já. Þess í stað kemur hann með afsökun.

Og Jesús læknar hann.

Það er fátítt að Jesús lækni fólk óumbeðinn. Fólk kemur til hans og biður um lækningu eða biður um miskunn og Jesús spyr: „Hvað viltu að ég geri fyrir þig?“ Það er óvenjulegt að hann geri þetta svona. „Ég ætla að taka af þér afsökunina,“ segir hann. „Stattu upp, taktu fletið þitt og farðu.“

Jesús fer ekki með neina arameíska galdraþulu. Hann hrærir ekkert smyrsl úr mold og munnvatni. Hann fer ekki með bæn yfir manninum. Hann segir bara: „Á fætur og burt með þig.“ Og hann segir ekki „Trú þín hefur bjargað þér“ eins og hann gerir yfirleittt og alls ekki „Ég bjargaði þér“. Næst þegar hann hittir manninn segir hann einfaldlega við hann: „Og reyndu svo að haga þér almennilega héðan í frá.“

Í millitíðinni var maðurinn spurður hvað það ætti að þýða að bera fletið á hvíldardegi og hann svaraði ekki: „Ég ber það af því að ég get það. Ég er búinn að vera lamaður í 38 ár.“ Hann kom með aðra afsökun: „Maðurinn sagði mér að gera það.“

En Jesús réttir manninum líf sitt upp í hendurnar og segir honum að bera ábyrgð á því héðan í frá. Hann hefur enga afsökun lengur.

Þessi maður var kannski í svipaðri stöðu og fyrrum holdsveikisjúklingurinn í Life of Brian eftir fund sinn við Jesú. Nú varð hann að fara að gera eitthvað við líf sitt. Hann gat ekki bara legið við laugina, vorkennt sjálfum sér og lifað á ölmusu.

Okkar eigin Betseda

Við erum flest á einhverjum tímapunkti í lífi okkar við okkar persónulegu Betseda laug. Hangandi við einhverja tálvon með líf okkar á bið. Lömuð. Og afsakanirnar okkar geta verið góðar, jafnvel pottþéttar.

En Jesús sér hvað í okkur býr. Og enn í dag spyr hann okkur: „Virtu verða heill?“

Hvernig getum við orðið það?

Með því að rísa á fætur. Gera eitthvað. Sleppa afsökununum. Það er enginn að fara að gera þetta fyrir okkur. Það er enginn að fara að henda okkur út í einhverja náðarlaug sem leysir öll okkar vandamál.

Jesús segir: „Stattu upp og láttu ekki hvað sem er yfir þig ganga af því að þú ert svo mikið fórnarlamb. Engar afsakanir. Þú getur það.“

Það var ekki mikil náð við náðarlaugina í Jerúsalem. Guðs ríki var ekki mitt á meðal sjúklinganna sem þar lágu og slógust um að verða fyrstir ofan í laugina til að fá náðina sem var af svo skornum skammti að bara sá sneggsti, útsjónarsamasti og ófyrirleitnasti gat orðið sér úti um hana.

Náðarlaugin er hugarburður. Blekking.

Nóg er nóg

Náð Guðs er óþrjótandi og um hana þarf ekki að slást við náungann. Guðs ríki er mitt á meðal okkar þegar við þjónum hvert öðru í kærleika. Guðs ríki er þar sem smælingjarnir eru efldir til að rísa á fætur, taka rekkjurnar sem þeir hafa legið á og látið traðka á sér og ganga … til verka. Við að gera líf sitt innihaldsríkara. Fegra umhverfi sitt. Bæta samfélag sitt.

Og þegar einhver spyr: „Hvað ert þú að rífa kjaft? Hvað ert þú að krefjast umbóta? Hvað ert þú að rukka ráðamenn um sannleikann? Af hverju heldurðu þig ekki á mottunni?“ Þá svörum við ekki: „Maðurinn sagði mér að gera það.“

Við svörum: „Ég geri það af því að ég get það. Af því að ég á rétt á því. Ég er búinn að liggja nógu lengi á þessari mottu.“

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 17. september 2017

Read Full Post »

Guðspjall: Þess vegna segi ég yður: Hver synd og guðlöstun verður mönnum fyrirgefin en guðlast gegn andanum verður ekki fyrirgefið. Hverjum sem mælir gegn Mannssyninum verður það fyrirgefið en þeim sem mælir gegn heilögum anda verður ekki fyrirgefið, hvorki í þessum heimi né í hinum komanda. Annaðhvort er tréð gott og ávöxturinn góður eða tréð vont og ávöxturinn vondur. Því af ávextinum þekkist tréð. Þér nöðrukyn, hvernig getið þér, sem eruð vond, talað gott? Af gnægð hjartans mælir munnurinn. Góður maður ber gott fram úr góðum sjóði en vondur maður ber vont fram úr vondum sjóði. En ég segi yður: Á dómsdegi munu menn verða að svara fyrir hvert ónytjuorð sem þeir mæla. Því af orðum þínum muntu sýknaður og af orðum þínum muntu sakfelldur verða.“ (Matt 12.31-37)

krútt jesúsNáð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Við erum bombarderuð með erfiðum og óþægilegum ritningartextum nú í haustbyrjun. Hinn sæti og góði Krútt-Jesús, sem er vinur allra og börn og dýr laðast að eins og Disney-prinsessu, er víðs fjarri, en þess í stað birtist okkur tannhvass og óbilgjarn Jesús sem veigrar sér ekki við því að formæla heilu borgunum og – eins og tilfellið er í dag – einfaldlega lýsa því yfir að sumir eigi enga fyrirgefningu í vændum, hvorki í þessum heimi né þeim næsta. Texti Matteusar, sem við heyrðum áðan, á sér hliðstæðu í Markúsarguðspjalli þar sem Jesús segir:

„Sá sem lastmælir gegn heilögum anda fær eigi fyrirgefningu um aldur, hann er sekur um eilífa synd.“ (Mark 3.29)

Þetta er ansi harkalegt. Engin fyrirgefning. Eilíf synd sem aldrei að eilífu fyrnist.

Og hvað er svona harkalegt við að lastmæla gegn heilögum anda? Það má bölva Guði og Jesú fram og til baka, en þegar kemur að heilögum anda er eins gott að gæta tungu sinnar. Af hverju er Guð svona miklu viðkvæmari fyrir þessum þriðjungi sjálfs sín en hinum pörtunum; föðurnum og syninum?

Hvað er svona sérstakt við heilagan anda?

Heilagur andi

Það er kannski vafasamt að skilja orð Jesú í ljósi þrenningarkenninga kirkjunnar, sem hafði ekki verið stofnuð þegar þau voru sögð og tók reyndar ekki að móta skilning sinn á hinum þríeina Guði – föður, syni og heilögum anda – fyrr en þremur til fjórum öldum síðar, en mig langar samt að reyna það, upp að því marki sem ég skil hann. Samkvæmt kenningum kirkjunnar er þrenningarlærdómurinn reyndar óskiljanlegur í eðli sínu, þannig að ef ég þættist skilja hann til fullnustu og reyndi að útskýra hann fyrir ykkur væri ég samkvæmt kenningunni sjálfri sjálfkrafa farinn að boða villutrú, hvað sem ég segði.

krossmarkEn þegar ég útskýri fyrir börnum að krossinn okkar teikni upp þrenninguna eins og ég skil hana, að ég bendi upp til himins þegar ég segi að við trúum á Guð á himni, að ég dreg línu niður til jarðarinnar þegar ég segi að við trúum á Guð á jörðu og að ég dreg lárétta línu frá manni til manns þegar ég segi að við trúum á Guð í hjörtum allra manna – og að við köllum Guð á himni „Guð föður“, Guð sem kom til jarðarinnar, Jesú Krist, „son“ og Guð í hjörtum allra manna „heilagan anda“ og að það sé allt einn og sami guðinn sem er kærleikur – þá finnst þeim það ekkert mjög ruglingslegt. Það síðar á lífsleiðinni sem þetta fer að standa í okkur.

Guð í hjörtum allra manna. Heilagur andi. Eða eins og skáldið Steingrímur Thorsteinsson orðaði það: „Guð í sjálfum þér.“

Guð að verki

Enda er talað um heilagan anda í sérstöku samhengi. Heilagur andi kom yfir lærisveinana og þeir fóru að flytja fagnaðarerindið á tungum sem þeir kunnu ekki og allir skildu þá. (Post 2.4) Matteus segir frá því að áður en Jósef og María náðu saman hafi hún orðið þunguð af heilögum anda. (Matt 1.18) Jóhannes skírari segir að Jesús muni skíra með heilögum anda. (Matt 3.11/Mark 1.8) Og þegar barn er skírt þá biðjum við Guð að gefa því heilagan anda til að vekja og glæða allt gott sem hann hefur fólgið í sálu þess. Þannig er eins og Guð sái kærleikanum í hjörtu okkar en það sé heilagur andi sem láti hann blómstra og dafna. Enda er það svo að þegar Jesús kenndi okkur Faðirvorið og hvatti okkur til að biðja til Guðs lofaði hann okkur aldrei að allar okkar bænir myndu rætast, hann lofaði því að Guð myndi senda okkur heilagan anda. (Lúk 11.13)

Í klassískri upphafsbæn er Guð ávarpaður: „Þú, Guð faðir, skapari minn. Þú, Drottinn Jesús, frelsari minn. Þú, heilagi andi, huggari minn.“

Heilagur andi semsagt vekur og glæðir hið góða í sálum okkar, hann huggar okkur, hann gefur okkur vit og kjark og styrk til að tala máli ljóssins og lífsins og er almennt eins og drifkraftur okkar við að koma góðu til leiðar. Þar sem Guð er að verki, þar sem kærleikurinn er að störfum, þar sem það besta sem Guð hefur fólgið í hjörtum okkar og sálum blómstrar og dafnar, þar er heilagur andi á ferðinni.

Guð er sólin. Heilagur andi er sólskinið.

Samfélagslega víddin

Heilagur andi er þannig á vissan hátt hin samfélagslega vídd guðdómsins. Prestum er uppálagt að enda prédikanir sínar á postullegri blessun sem lýkur með orðunum: „Samfélag heilags anda sé með ykkur öllum.“

Samfélag heilags anda. Kærleikssamfélagið. Samfélagið þar sem við gætum hvert annars, höldum hvert utan um annað og komum fram við okkar minnstu bræður og systur eins og þar sé frelsari okkar á ferðinni – sem hann er … það er samfélag heilags anda.

Hitt sem við verðum að skilja er hvað í því felst að lastmæla. Íslenska orðið hefur töluvert veikari merkingu en frummálið ef maður skilur það bókstaflega, aðeins að mæla last. Gríska sögnin sem þarna er á bak við er blasfemeo[1]. Feme merkir að tala, en fyrri hlutinn sem myndaður er af sögninni blapto, merkir ekki að lasta heldur meiða, særa, skaða. Að láta út úr sér eitthvað niðrandi muldur sem engin áhrif hefur er þannig ekki að lastmæla. Bölv og ragn sem hefur sömu áhrif og að skvetta vatni á gæs er ekki að lastmæla. Það er ekki fyrr en þú ert farinn að meiða og skaða kærleikssamfélagið með því sem þú hefur til málanna að leggja – eða með því sem þú lætur það ógert að leggja til málanna – sem þú ert orðinn sekur um lastmæli gegn heilögum anda.

Og það verður þér aldrei fyrirgefið. Það er eilífur glæpur gegn öllu sem gott er og fallegt. Jesús segir það.

Jesús er nefnilega ekki þetta krútt sem sumir vilja hafa hann. Hann er alveg með það á hreinu að það er hægt að fyrirgera sáluhjálp sinni. Að það er of seint að iðrast eftir dauðann.

Uppskriftin að kærleikssamfélaginu

Í 25. kafla Matteusarguðspjalls er þessi gullna setning höfð eftir honum:

„Sannlega segi ég yður: Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér.“ (Matt 25.40)

Það er freistandi að hætta að lesa þar, en næsta setning er:

„Síðan mun hann segja við þá til vinstri handar: Farið frá mér, bölvaðir, í þann eilífa eld sem búinn er djöflinum og árum hans.“ (Matt 25.41)

Og af hverju fá þeir til vinstri handarinnar svona kaldar kveðjur … eða heitar, eftir því hvernig á það er litið? Jú, af því að niðurlagið er:

„Allt sem þér gerðuð ekki einum minna minnstu bræðra, það hafið þér ekki heldur gert mér.“ (Matt 25.45)

En hvað var það sem hinir réttlátu, hinir sáluhólpnu, gerðu en hinir létu ógert? Jesús segir það:

„… hungraður var ég og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég og þér hýstuð mig, nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég og þér komuð til mín.“ (Matt 25.35-36)

Með öðrum orðum: Hann gaf okkur uppskriftina að kærleikssamfélaginu, samfélagi heilags anda.

Mig langar að staldra við eitt orð í þessari uppskrift: „Gestur“. Aftur er þýðingin nefnilega að þvælast fyrir okkur. Gríska orðið sem þarna er á bak við er „xenos“. Það getur vissulega þýtt gestur … en það þýðir í raun aðkomumaður, einhver sem tilheyrir ekki samfélaginu heldur er utanaðkomandi, það merkir gjarnan útlendingur. Það er ekki notað um vini og kunningja sem kíkja í kaffi. Orðið xenos þekkjum við kannski helst sem hluta alþjóðlega orðsins xenophobia: Útlendingahatur.

Kristin trú og gildi

Kærleikssamfélagið tekur aðkomufólki opnum örmum og hýsir það. Og það er því miður eitur í beinum sorglega margra. Sorglegast er þó auðvitað þegar höfuðið er bitið af skömminni með því að lastmæla gegn heilögum anda í Jesú nafni.

Nú í vikunni birtist til að mynda viðtal við unga konu sem hefur í hyggju að gefa kost á sér í borgarstjórn Reykjavíkur fyrir flokk sem hefur einna helst markað sér sérstöðu fyrir að leggjast hart gegn innflytjendum og múslimum. Spurð út í þau mál svarar hún einfaldlega: „Flokkurinn styður kristna trú og gildi.“

Sá sem stendur í þeirri meiningu að við verndum kristindóminn með því að hýsa ekki aðkomufólk hefur sennilega ekki lesið 25. kafla Matteusarguðspjalls þar sem Jesús segir berum orðum við hina glötuðu til að útskýra fyrir þeim með hvaða hætti þeir fyrirgerðu sáluhjálp sinni: „… gestur var ég …“ semsagt aðkomumaður eða útlendingur „… en þér hýstuð mig ekki“ (Matt 25.43).

Þetta er sáraeinfalt: Við styðjum ekki kristna trú og gildi – samfélag heilags anda – með því að snúa baki við grunngildum kristindómsins. Nákvæmlega þannig drepum við það.

Og það er ófyrirgefanlegt.

En örvæntum ekki. Það er í okkar valdi að koma í veg fyrir að þetta tal og þessi viðhorf eyðileggi og skaði kærleikssamfélagið sem kristið fólk leitast við í vanmætti sínum að viðhalda. Látum óttann og heimskuna ekki spilla okkur. Verum óhrædd. Klæðumst hertygjum ljóssins. Biðjum Guð að gefa okkur heilagan anda að vekja og glæða hið góða sem hann hefur fólgið í sálum okkar, heilagan anda að gefa okkur vit og kjark til að tala máli sannleikans og náungakærleikans.

Það er nefnilega í okkar valdi hvort ótti og heimska sem gera vart við sig í samfélagi okkar séu bara það, ótti og heimska, eða hvort við leyfum óttanum og heimskunni að skaða samfélagið og verða þannig að eilífri, ófyrirgefanlegri synd.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 3. september 2017

[1] Notað af Markúsi.

Read Full Post »