Guðspjall: Þess vegna segi ég yður: Hver synd og guðlöstun verður mönnum fyrirgefin en guðlast gegn andanum verður ekki fyrirgefið. Hverjum sem mælir gegn Mannssyninum verður það fyrirgefið en þeim sem mælir gegn heilögum anda verður ekki fyrirgefið, hvorki í þessum heimi né í hinum komanda. Annaðhvort er tréð gott og ávöxturinn góður eða tréð vont og ávöxturinn vondur. Því af ávextinum þekkist tréð. Þér nöðrukyn, hvernig getið þér, sem eruð vond, talað gott? Af gnægð hjartans mælir munnurinn. Góður maður ber gott fram úr góðum sjóði en vondur maður ber vont fram úr vondum sjóði. En ég segi yður: Á dómsdegi munu menn verða að svara fyrir hvert ónytjuorð sem þeir mæla. Því af orðum þínum muntu sýknaður og af orðum þínum muntu sakfelldur verða.“ (Matt 12.31-37)
Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Við erum bombarderuð með erfiðum og óþægilegum ritningartextum nú í haustbyrjun. Hinn sæti og góði Krútt-Jesús, sem er vinur allra og börn og dýr laðast að eins og Disney-prinsessu, er víðs fjarri, en þess í stað birtist okkur tannhvass og óbilgjarn Jesús sem veigrar sér ekki við því að formæla heilu borgunum og – eins og tilfellið er í dag – einfaldlega lýsa því yfir að sumir eigi enga fyrirgefningu í vændum, hvorki í þessum heimi né þeim næsta. Texti Matteusar, sem við heyrðum áðan, á sér hliðstæðu í Markúsarguðspjalli þar sem Jesús segir:
„Sá sem lastmælir gegn heilögum anda fær eigi fyrirgefningu um aldur, hann er sekur um eilífa synd.“ (Mark 3.29)
Þetta er ansi harkalegt. Engin fyrirgefning. Eilíf synd sem aldrei að eilífu fyrnist.
Og hvað er svona harkalegt við að lastmæla gegn heilögum anda? Það má bölva Guði og Jesú fram og til baka, en þegar kemur að heilögum anda er eins gott að gæta tungu sinnar. Af hverju er Guð svona miklu viðkvæmari fyrir þessum þriðjungi sjálfs sín en hinum pörtunum; föðurnum og syninum?
Hvað er svona sérstakt við heilagan anda?
Heilagur andi
Það er kannski vafasamt að skilja orð Jesú í ljósi þrenningarkenninga kirkjunnar, sem hafði ekki verið stofnuð þegar þau voru sögð og tók reyndar ekki að móta skilning sinn á hinum þríeina Guði – föður, syni og heilögum anda – fyrr en þremur til fjórum öldum síðar, en mig langar samt að reyna það, upp að því marki sem ég skil hann. Samkvæmt kenningum kirkjunnar er þrenningarlærdómurinn reyndar óskiljanlegur í eðli sínu, þannig að ef ég þættist skilja hann til fullnustu og reyndi að útskýra hann fyrir ykkur væri ég samkvæmt kenningunni sjálfri sjálfkrafa farinn að boða villutrú, hvað sem ég segði.
En þegar ég útskýri fyrir börnum að krossinn okkar teikni upp þrenninguna eins og ég skil hana, að ég bendi upp til himins þegar ég segi að við trúum á Guð á himni, að ég dreg línu niður til jarðarinnar þegar ég segi að við trúum á Guð á jörðu og að ég dreg lárétta línu frá manni til manns þegar ég segi að við trúum á Guð í hjörtum allra manna – og að við köllum Guð á himni „Guð föður“, Guð sem kom til jarðarinnar, Jesú Krist, „son“ og Guð í hjörtum allra manna „heilagan anda“ og að það sé allt einn og sami guðinn sem er kærleikur – þá finnst þeim það ekkert mjög ruglingslegt. Það síðar á lífsleiðinni sem þetta fer að standa í okkur.
Guð í hjörtum allra manna. Heilagur andi. Eða eins og skáldið Steingrímur Thorsteinsson orðaði það: „Guð í sjálfum þér.“
Guð að verki
Enda er talað um heilagan anda í sérstöku samhengi. Heilagur andi kom yfir lærisveinana og þeir fóru að flytja fagnaðarerindið á tungum sem þeir kunnu ekki og allir skildu þá. (Post 2.4) Matteus segir frá því að áður en Jósef og María náðu saman hafi hún orðið þunguð af heilögum anda. (Matt 1.18) Jóhannes skírari segir að Jesús muni skíra með heilögum anda. (Matt 3.11/Mark 1.8) Og þegar barn er skírt þá biðjum við Guð að gefa því heilagan anda til að vekja og glæða allt gott sem hann hefur fólgið í sálu þess. Þannig er eins og Guð sái kærleikanum í hjörtu okkar en það sé heilagur andi sem láti hann blómstra og dafna. Enda er það svo að þegar Jesús kenndi okkur Faðirvorið og hvatti okkur til að biðja til Guðs lofaði hann okkur aldrei að allar okkar bænir myndu rætast, hann lofaði því að Guð myndi senda okkur heilagan anda. (Lúk 11.13)
Í klassískri upphafsbæn er Guð ávarpaður: „Þú, Guð faðir, skapari minn. Þú, Drottinn Jesús, frelsari minn. Þú, heilagi andi, huggari minn.“
Heilagur andi semsagt vekur og glæðir hið góða í sálum okkar, hann huggar okkur, hann gefur okkur vit og kjark og styrk til að tala máli ljóssins og lífsins og er almennt eins og drifkraftur okkar við að koma góðu til leiðar. Þar sem Guð er að verki, þar sem kærleikurinn er að störfum, þar sem það besta sem Guð hefur fólgið í hjörtum okkar og sálum blómstrar og dafnar, þar er heilagur andi á ferðinni.
Guð er sólin. Heilagur andi er sólskinið.
Samfélagslega víddin
Heilagur andi er þannig á vissan hátt hin samfélagslega vídd guðdómsins. Prestum er uppálagt að enda prédikanir sínar á postullegri blessun sem lýkur með orðunum: „Samfélag heilags anda sé með ykkur öllum.“
Samfélag heilags anda. Kærleikssamfélagið. Samfélagið þar sem við gætum hvert annars, höldum hvert utan um annað og komum fram við okkar minnstu bræður og systur eins og þar sé frelsari okkar á ferðinni – sem hann er … það er samfélag heilags anda.
Hitt sem við verðum að skilja er hvað í því felst að lastmæla. Íslenska orðið hefur töluvert veikari merkingu en frummálið ef maður skilur það bókstaflega, aðeins að mæla last. Gríska sögnin sem þarna er á bak við er blasfemeo[1]. Feme merkir að tala, en fyrri hlutinn sem myndaður er af sögninni blapto, merkir ekki að lasta heldur meiða, særa, skaða. Að láta út úr sér eitthvað niðrandi muldur sem engin áhrif hefur er þannig ekki að lastmæla. Bölv og ragn sem hefur sömu áhrif og að skvetta vatni á gæs er ekki að lastmæla. Það er ekki fyrr en þú ert farinn að meiða og skaða kærleikssamfélagið með því sem þú hefur til málanna að leggja – eða með því sem þú lætur það ógert að leggja til málanna – sem þú ert orðinn sekur um lastmæli gegn heilögum anda.
Og það verður þér aldrei fyrirgefið. Það er eilífur glæpur gegn öllu sem gott er og fallegt. Jesús segir það.
Jesús er nefnilega ekki þetta krútt sem sumir vilja hafa hann. Hann er alveg með það á hreinu að það er hægt að fyrirgera sáluhjálp sinni. Að það er of seint að iðrast eftir dauðann.
Uppskriftin að kærleikssamfélaginu
Í 25. kafla Matteusarguðspjalls er þessi gullna setning höfð eftir honum:
„Sannlega segi ég yður: Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér.“ (Matt 25.40)
Það er freistandi að hætta að lesa þar, en næsta setning er:
„Síðan mun hann segja við þá til vinstri handar: Farið frá mér, bölvaðir, í þann eilífa eld sem búinn er djöflinum og árum hans.“ (Matt 25.41)
Og af hverju fá þeir til vinstri handarinnar svona kaldar kveðjur … eða heitar, eftir því hvernig á það er litið? Jú, af því að niðurlagið er:
„Allt sem þér gerðuð ekki einum minna minnstu bræðra, það hafið þér ekki heldur gert mér.“ (Matt 25.45)
En hvað var það sem hinir réttlátu, hinir sáluhólpnu, gerðu en hinir létu ógert? Jesús segir það:
„… hungraður var ég og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég og þér hýstuð mig, nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég og þér komuð til mín.“ (Matt 25.35-36)
Með öðrum orðum: Hann gaf okkur uppskriftina að kærleikssamfélaginu, samfélagi heilags anda.
Mig langar að staldra við eitt orð í þessari uppskrift: „Gestur“. Aftur er þýðingin nefnilega að þvælast fyrir okkur. Gríska orðið sem þarna er á bak við er „xenos“. Það getur vissulega þýtt gestur … en það þýðir í raun aðkomumaður, einhver sem tilheyrir ekki samfélaginu heldur er utanaðkomandi, það merkir gjarnan útlendingur. Það er ekki notað um vini og kunningja sem kíkja í kaffi. Orðið xenos þekkjum við kannski helst sem hluta alþjóðlega orðsins xenophobia: Útlendingahatur.
Kristin trú og gildi
Kærleikssamfélagið tekur aðkomufólki opnum örmum og hýsir það. Og það er því miður eitur í beinum sorglega margra. Sorglegast er þó auðvitað þegar höfuðið er bitið af skömminni með því að lastmæla gegn heilögum anda í Jesú nafni.
Nú í vikunni birtist til að mynda viðtal við unga konu sem hefur í hyggju að gefa kost á sér í borgarstjórn Reykjavíkur fyrir flokk sem hefur einna helst markað sér sérstöðu fyrir að leggjast hart gegn innflytjendum og múslimum. Spurð út í þau mál svarar hún einfaldlega: „Flokkurinn styður kristna trú og gildi.“
Sá sem stendur í þeirri meiningu að við verndum kristindóminn með því að hýsa ekki aðkomufólk hefur sennilega ekki lesið 25. kafla Matteusarguðspjalls þar sem Jesús segir berum orðum við hina glötuðu til að útskýra fyrir þeim með hvaða hætti þeir fyrirgerðu sáluhjálp sinni: „… gestur var ég …“ semsagt aðkomumaður eða útlendingur „… en þér hýstuð mig ekki“ (Matt 25.43).
Þetta er sáraeinfalt: Við styðjum ekki kristna trú og gildi – samfélag heilags anda – með því að snúa baki við grunngildum kristindómsins. Nákvæmlega þannig drepum við það.
Og það er ófyrirgefanlegt.
En örvæntum ekki. Það er í okkar valdi að koma í veg fyrir að þetta tal og þessi viðhorf eyðileggi og skaði kærleikssamfélagið sem kristið fólk leitast við í vanmætti sínum að viðhalda. Látum óttann og heimskuna ekki spilla okkur. Verum óhrædd. Klæðumst hertygjum ljóssins. Biðjum Guð að gefa okkur heilagan anda að vekja og glæða hið góða sem hann hefur fólgið í sálum okkar, heilagan anda að gefa okkur vit og kjark til að tala máli sannleikans og náungakærleikans.
Það er nefnilega í okkar valdi hvort ótti og heimska sem gera vart við sig í samfélagi okkar séu bara það, ótti og heimska, eða hvort við leyfum óttanum og heimskunni að skaða samfélagið og verða þannig að eilífri, ófyrirgefanlegri synd.
Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.
Prédikun flutt í Laugarneskirkju 3. september 2017
[1] Notað af Markúsi.
Ein ástæða þess að börnin eiga auðvelt með að samþykkja þessa útskýringu þína á þrenningarkenningunni er hugsanlega sú að útskýringin gæti passað við módalisma. Þeas að þarna sé bara einn guð sem birtist okkur á þrennan hátt.
Módalismi er auðskiljanlegur. Þannig að ég tel líklegt að vandinn sé ekki að börn eigi auðvelt með að skilja þrenningarkenninguna, en ekki fullorðið fólk, heldur séu börnin bara að skilja módalisma.