Feeds:
Færslur
Athugasemdir

Archive for janúar, 2018

ummynduninGuðspjall: Eftir sex daga tekur Jesús með sér þá Pétur, Jakob og Jóhannes, bróður hans, og fer með þá upp á hátt fjall að þeir væru einir saman. Þar ummyndaðist hann fyrir augum þeirra, ásjóna hans skein sem sól og klæði hans urðu björt eins og ljós. Og Móse og Elía birtust þeim og voru þeir á tali við Jesú. Pétur tók til máls og sagði við Jesú: „Drottinn, gott er að við erum hér. Ef þú vilt skal ég gera hér þrjár tjaldbúðir, þér eina, Móse eina og Elía eina.“ Meðan Pétur var enn að tala skyggði yfir þá bjart ský og rödd úr skýinu sagði: „Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á. Hlýðið á hann!“ Þegar lærisveinarnir heyrðu þetta féllu þeir fram á ásjónur sínar og hræddust mjög. Jesús gekk til þeirra, snart þá og mælti: „Rísið upp og óttist ekki.“ En er þeir hófu upp augu sín sáu þeir engan nema Jesú einan. Á leiðinni ofan fjallið bauð Jesús þeim: „Segið engum frá sýninni fyrr en Mannssonurinn er risinn upp frá dauðum.“ (Matt 17.1-9)

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Í upphafi nýs árs glímum við texta úr Biblíunni sem varða tímamót. Þær stundir þegar okkur verður ljóst að hið liðna er að baki … það er búið … og að nýtt skeið er hafið, nýr raunveruleiki er kominn í stað þess gamla.

Síðasta sunnudag var það brúðkaupið í Kana, fyrsta táknið sem Jesús gerði samkvæmt frásögn guðspjallamannsins Jóhannesar og í dag er það sjálf ummyndunin á fjallinu. Hvort tveggja sögur sem eru hlaðnar táknum sem ætla má að enginn frumviðtakenda textans hafi verið ólæs á, hvað sem segja má um okkur – tvöþúsund árum síðar í allt öðrum heimshluta með allt annan menningararf og tilvísunarramma.

Vínguðinn Jesús

Jesús breytir vatni í vín. Hvað þýðir það? Hver gerir svoleiðis? Við þekkjum aðeins Jesú Krist. En í hinum helleníska menningarheimi fyrstu aldarinnar lá annað svar í augum uppi: Díónýsus. Vínguðinn sem Rómverjar kölluðu Bakkus.

Hann var tilbeðinn í miklum blótum þar sem vín flaut og ýmislegt annað var iðkað til að koma fólki í annarlegt ástand til að fjarlægja hömlur. Þeir sem jaðarsettir voru af samfélaginu – konur, þrælar og útlendingar – gátu fundið til frelsis og léttis á Díónýsusarblótum, fengið útrás fyrir þrár sínar og hvatir, án þess að eiga á hættu fordæmingu og útskúfun. Enda voru þau vinsæl.

En er Jesús þá vínguð? Já … í táknrænni merkingu. Við verðum að spyrja okkur hvað vínið tákni. Vínandinn kemur í veg fyrir að saftin skemmist. Lífrænt efni rotnar og eyðist, en áfengi varðveitir það. Þar sem lífrænn vefur er varðveittur og hafður til sýnir í krukkum flýtur hann jafnan í alkóhóli. Vínberjasafi hefur síðasta söludag, en vín verður bara betra með aldrinum.

Víngarðurinn – og afurð þess, vínið – eru klassísk tákn fyrir lýð Guðs í spámannsritum Gamla testamentisins. „Víngarður Drottins er Ísraels hús og Júdamenn ekran sem hann ann,“ (Jes 5.79) segir spámaðurinn Jesaja.

Hin tómu keröld

En kerin standa tóm. Andinn er urinn. Trúararfurinn er liðinn undir lok. Hann er fyrir bí. En þá kemur Jesús til skjalanna og fyllir kerin af miklu betra víni. Hann veitir veislugestum nýjan anda.

Við getum horft með vanþóknun á svallveislur Díónýsusarblótanna, en þau voru tilraun til brjótast undan hömlunum og höftunum og slíta af sér hlekkina sem öftruðu fólki frá því að lifa lífi sínu til fullnustu. Hedónísk, holdleg tilraun til þess … en á bak við hana er þráin eftir frelsi og sálarfró.

Í nýlegri kvikmynd frá Marvel samsteypunni um ævintýri ofurhetjunnar Þórs, sem fenginn er að láni úr norrænni goðafræði, er lítið samtal með mikið innihald. Þór hefur glatað hamrinum Mjölni og með honum mætti sínum. Hann gengur á fund Óðins alföður og ber sig aumlega og Óðinn spyr á móti: „Hver ert þú? Hamraguð?“ Og það rennur upp fyrir Þór að hann er ekki hamraguð heldur þrumuguð og að hamarinn var aldrei neitt annað en tákn afls og máttar.

Jesús er ekki vínguð … nema í þeim tilfellum þegar vínið er tákn fyrir líf í gnægðum og frelsi undan hinu þrúgandi oki dómsins: Tákn um nýjan anda.

Konungurinn Kristur

Og í dag er Jesús krýndur konungur á fjallinu og lögmálið og spámennirnir birtast holdgerðir í Móse og Elía sem afhenda honum trúararfinn. Aftur sömu skilaboðin: Arfurinn er upp urinn. Nýtt skeið er hafið.

Sagan er um konungskrýningu. Fjallið var helgur staður. Guð var á himnum og á fjallinu var maður næst honum. Það lá því beint við að þar væri guðkonungurinn krýndur. Í Davíðssálmum segir Guð: „Konung minn hef ég krýnt á Síon, mínu heilaga fjalli.“ (Slm 2.6) Í Babýlón stóð guðkonungurinn, sem rann saman við guðinn Mardúk, uppi á Ziggúratinu sem gnæfði yfir borginni. Og sagnaritarinn Jósefus greinir frá því að í fönísku borginni Týrus hafi konungurinn klæðst silfurskrúða sem ljómaði í sólskininu og fyllti lýðinn ótta og lotningu.

Hér er táknmálið auðskilið þeim sem talað er til þótt það kunni að fara framhjá okkur. Klæði Jesú verða björt sem ljós. Í frásögn Markúsarguðspjalls af þessum atburði segir meira að segja – til að leggja áherslu á hve hve björt klæðin urðu: „… og fær enginn bleikir á jörðu svo hvítt gjört.“ (Mark 9.3) Jesús verður með öðrum orðum að ójarðneskri birtu fyrir augunum á þeim – enda ríki hans ekki af þessum heimi.

Tjaldbúðirnar

En þótt boðskapurinn hafi ekki farið framhjá lesendum ritunartíma guðspjallsins fór hann auðvitað framhjá Pétri. Það er náttúrlega ekki einleikið hve Pétri, klettinum sem kirkjan er byggð á, er í lófa lagið að misskilja og bregðast. Kannski leggur það áherslu á það hve kirkjan er breysk sem mannlegt fyrirbæri þótt þjónusta hennar sé við hinn æðsta lífsins sannleika. Pétur vill auðvitað reisa þrjár tjaldbúðir á staðnum. Eina fyrir Jesú, aðra fyrir lögmálið og þá þriðju fyrir spámennina.

Lögmálið og spámennirnir hafa komið áður við sögu í þessu sama guðspjalli: „Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera. Því að þetta er lögmálið og spámennirnir,“ (Matt 7.12) segir Jesús. Og síðar segir hann: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum. Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð. Annað er hliðstætt þessu: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Á þessum tveimur boðorðum hvílir allt lögmálið og spámennirnir.“  (Matt 22.37-40) Lögmálið og spámennirnir: Komdu fram við aðra eins og þú vilt að komið sé fram við þig og elskaðu Guð og náungann. Þetta er kristindómurinn. Og þetta er lögmálið og spámennirnir. Þetta eru ekki þrjár tjaldbúðir heldur ein.

Og Jesús er tekinn við sem tjaldbúðastjóri.

Skírskotunin

Hin samfélagslega skírskotun til samtíma guðspjallamannsins er mikilvæg, þessi skilaboð um að hið trúarlega umboð hefðarinnar og trúarstofnananna sé úr sér gengið og það sé kominn nýr konungur, nýtt skeið sé hafið. Það er kominn nýr tjaldbúðastjóri og við eigum að hlýða á hann. Reglurnar hafa breyst.

Og sjálfsagt mætti heimfæra þann boðskap upp á samtíma okkar í hinum vestræna heimi á tuttugustuogfyrstu öldinni sem upp rennur frá fæðingu aðalsöguhetju þessarar frásagnar. Það er að morkna undan valdastoðum stofnana og gilda. Trúarstofnanir hafa æ minna vægi í trúarlífi einstaklinga. Traust almennings á stofnunum samfélagsins rénar jafnt og þétt. Ríkir, hvítir karlar standa hver af öðrum berstrípaðir og afhjúpaðir sem þeir siðblindu nautnafíklar sem þeir eru og hafa sennilega alltaf verið og vald þeirra og vægi er að renna þeim úr greipum eins og sandur á milli fingra þeirra.

Reglurnar hafa breyst.

Boðskapurinn

En boðskapurinn er líka persónulegur beint til þín og mín.

Þegar þitt sálarkerald stendur tómt og andinn er urinn, hver gefur þér þá nýjan anda? Þegar þú hefur brennt allar brýr að baki þér, kannski í taumlausum nautnadýrkandi Díonýsusardansi þar sem vínið stóð bara fyrir vín og víman var flótti frá ábyrgð og skyldum við Guð og náungann, kannski af öðrum orsökum sem ekki voru á þínu valdi. Þegar þú ert búinn á því. Hefst þá nýtt skeið eða ertu endanlega búinn að vera?

Ef þú hafðir vit á að bjóða Jesú þá breytir hann blávatninu í þínu sálarkeraldi í guðaveig sem aldrei forgengur heldur verður aðeins ljúffengari og betri með tímanum.

Tjaldbúðin er líf þitt. Hvaða ljós lýsir þar? Hvaða reglur gilda? „Hver er sjálfum sér næstur“ eða „Elskaðu Guð og náungann“? „Ég á þetta, ég má þetta“ eða „Komdu fram við aðra eins og þú vilt að komið sé fram við þig“?

Þegar við þurfum nýtt upphaf, nýjan anda, nýtt leiðarljós … þegar við verðum að horfast í augu við að vínið er búið, andinn er urinn, djammið er innantómt hark og sálarkeraldið eitt gapandi tóm … þá getum við leitað til Jesú, hlýtt á hann, gert hann að leiðtoga lífsins. Þá lýsir hann eins og sól inn í hjarta okkar, endurnýjar anda okkar og gefur okkur líf í gnægðum.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 21. janúar 2018

Read Full Post »

Guðspjall: Þá sagði Jesús þeim þessa dæmisögu: „Maður nokkur átti fíkjutré gróðursett í víngarði sínum. Hann kom og leitaði ávaxtar á því og fann ekki. Hann sagði þá við víngarðsmanninn: Í þrjú ár hef ég nú komið og leitað ávaxtar á fíkjutré þessu og ekki fundið. Högg það upp. Hví á það að vera engum til gagns? En hann svaraði honum: Herra, lát það standa enn þetta ár þar til ég hef grafið um það og borið að áburð. Má vera að það beri ávöxt síðan. Annars skaltu höggva það upp.“ (Lúk 8.6-9)

new-year-s-eve-in-reykjavikNáð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Gleðilegt nýtt ár.

Við áramót er vaninn að staldra við, líta yfir farinn veg og gera upp árið sem var að líða. Um leið er horft fram á veginn, jafnvel í spámannlegum stellingum og reynt að sjá fyrir hvað árið sem gengið er í garð muni fela í skauti sér.

Fjölmiðlar eru undirlagðir þessu, áramótauppgjör og annálar eru fastur liður sem og heimsóknir til völva og spáfólks sem sér fyrir náttúruhamfarir, framhjáhöld framáfólks og hvaðeina annað. Við allt þetta tal er litlu að bæta. Vissulega var árið 2017 óvenjulegt fyrir ýmissa hluta sakir, afdrifaríkir og óvenjulegir atburðir áttu sér stað og ekki sér enn fyrir endann á afleiðingum sumra þeirra. Árið átti sínar hetjur og skúrka … eins og öll önnur ár til þessa.

En við stöldrum líka við sjálf og horfum á ævi okkar, á árið sem leið sem kafla í ævisögunni og búum til útdrátt úr honum í huganum. Kannski teiknum við jafnvel upp drög að framvindunni í næsta kafla og strengjum hugsanlega einhver heit um eitt og annað til að hjálpa okkur að stýra lífi okkar eftir æviveginum þangað sem hugur okkar leitar.

Lánsemi

Sjálfur get ég horft yfir árið 2017 með lítið annað en þakklæti í huga. Þakklæti fyrir það traust sem mér hefur verið sýnt, þá velvild sem ég hef mætt, þann stuðning sem ég hef notið. Fyrir mitt hamingjuríka einkalíf.

Ég er lánsamur maður.

Mér finnst það betra orð en „heppinn“. Við segjum að mínu mati allt of oft að við séum „heppin“ með þetta eða hitt. Þegar ég segi frá lífi mínu og starfi heyri ég iðulega að ég sé „heppinn“ … með samstarfsfólk, vinnustað og starfsumhverfi. Ég tek ekki undir það. Mér finnst það fela í sér að það góða starf sem hér er unnið, það kærleiksríka andrúmsloft sem hér ríkir, sá uppbyggilegi og nærandi starfsandi sem hér svífur yfir vötnunum … sé bara einhver hundaheppni. Eitthvað óverðskuldað sem við höfum dottið í lukkupottinn með.

Svo er ekki. Þetta allt saman er eðlileg afleiðing af því hugarfari sem hér ríkir, þeirri stefnu sem hér hefur verið tekin og hefur verið fylgt. Ég er ekki „heppinn“ með samstarfsfólk. Ég er mjög lánsamur með samstarfsfólk – og það er ekki heppni. Það er ekki fyrir eitthvað glópalán að hingað hefur valist gott fólk til starfa, fólk sem ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst og fá að vinna með.

Lán Laugarneskirkju er ekki heppni heldur ávöxtur af starfi, stefnu og hugarfari.

En við sem vinnum hér, hvort sem það eu launaðir starfsmenn eða sjálfboðaliðar í hinum ýmsu störfum; æskulýðsleiðtogar, sóknarnefndarfólk, kórfólk, messuþjónar. Við erum ekki Laugarneskirkja. Kirkja er samfélag þeirra sem kjósa að tilheyra henni. Þið eruð kirkjan. Ekki ég.

Ávextir

Guðspjallstexti dagsins fjallar einmitt um ávexti. Jesús grípur þar til líkinga sem áheyrendur hans skildu til hlítar. Fíkjutréð og víngarðurinn eru klassísk tákn fyrir lýð Guðs í spámannsritum Gamla testamentisins. Þau sem Jesús sagði þessa dæmisögu hafa þekkt vel þessi orð Jesaja spámanns:

„Því að víngarður Drottins er Ísraels hús og Júdamenn ekran sem hann ann. Hann vænti réttlætis en sá blóði úthellt, vænti réttvísi en neyðaróp kváðu við.“ (Jes 5.79)

Áheyrendurnir hafa ekki farið í neinar grafgötur með það að þau sjálf voru fíkjutréð. Þeim var ekki heldur hulið hver ávöxturinn var sem vænst var af þeim; réttlæti og réttvísi.

Þetta er hið stóra verkefni kirkjunnar … okkar. Ekki bara mitt heldur okkar sem kjósum að tilheyra þessu samfélagi … að bera ávöxt réttlætis og réttvísi. Að vera málsvarar kærleikans, að tala röddu hins kristilega hugarfars inn í samtímann, að varpa ljósi lífsins á þau úrlausnarefni sem við stöndum frammi fyrir sem samfélag … sem þjóðfélag.

Og hjá því verður að mínum dómi ekki litið að þar höfum við sem kirkja ekki borið þann ávöxt á nýliðnu ári sem af okkur er vænst. Og ég held að það sé okkur hollt að gangast við því og viðurkenna það. Og strengja þess heit að gera betur á næsta ári.

Ljósið í kastljósinu

Kirkjan hefur nefnilega verið iðnari við það að komast í kastljósið en að varpa því sjálf á siðferðileg úrlausnarefni samfélagsins. Vissulega er það svo að ákveðin öfl í þessu þjóðfélagi sjá rautt hvenær sem kirkjuna ber á góma og gildir þá einu í hvaða samhengi. Árvisst karp um kirkjuheimsóknir skólabarna og jafnvel fermingar er auðvelt að standa af sér. En þegar vígðir kirkjunnar þjónar leyfa sér að láta út úr sér skoðanir sem ekki falla í kramið alls staðar verður aftur á móti meiri handagangur í öskjunni. Það hvarflar stundum að mér … og nú tala ég í hálfkæringi – bara svo það sé á hreinu … að best væri að biskupinn segði aldrei neitt því ef hún segir A segja allir sig úr Þjóðkirkjunni sem hefðu viljað heyra B, en ef hún segir B þá pakkar A-fólkið saman og fer í fússi.

Þannig er til dæmis sérkennilegt að mínu mati að þrjúhundruð manns hafi svo sterkar skoðanir á gagnaleynd – eftir allt sem á undan er gengið innanhúss í kirkjunni – að ef persónulegar skoðanir biskupsins á henni fara ekki saman við þeirra … að þá loksins og ekki fyrr finni þeir sig knúna til að yfirgefa Þjóðkirkjuna. Og það jafnvel þótt aðrir kirkjunnar þjóna, meðal annarra sá sem hér stendur, tjái sig opinberlega um að þeir deili ekki skoðunum með biskupi.

Glatað tækifæri

En hér stendur kannski hnífurinn í kúnni. Ég geri þetta atvik frá liðnu ári að umtalsefni vegna þess að það er í mínum huga skólabókardæmi um svo mörg önnur tækifæri sem kirkjan hefur látið sér úr greipum ganga að vekja máls á álitamálum og ræða þau opinberlega á forsendum guðfræði sinnar með siðferðilegum og biblíulegum rökum.

Á þjófnaðarhugtak Gamla testamentisins við um gagnastuld? Hann er ekki eiginlegur þjófnaður því sá sem gögnin eru afrituð frá hefur þau enn undir höndum. Að stelast í upplýsingar er því ekki eins og að stela hjóli eða peningum. Sá sem stolið er frá glatar þá hjólinu sínu eða peningunum. Hinar afrituðu upplýsingar eru enn á sínum stað þótt þær séu líka komnar á staði sem þeim var ekki ætlað að vera á. Á þjófnaðarhugtakið í sínum gamlatestamentislega skilningi kannski frekar við um það sem gagnaleyndinni er einmitt ætlað að vernda?

Í hvernig þjóðfélagi búum við þegar það er glæpur að afhjúpa glæp, kannski ekki glæp gegn lögum manna en hugsanlega gegn heilbrigðu siðferði? Hve viðamikið og innilegt má samband þeirra sem ábyrgðarstöðum gegna í almannaþágu við Mammon vera til að það hætti að vera þeirra einkamál og verði þjóðfélagsmál?

Þessum spurningum ætla ég ekki að svara hér, en spyrja þess í stað: Af hverju fóru þær ekki út í umræðuna? Af hverju urðu bara sumir fúlir, fóru í fússi og skelltu á eftir sér og málið var dautt og enginn ræddi það meir?

Sekt okkar

Hér brugðumst við. Kannski brugðust fjölmiðlar líka. En við berum ekki ábyrgð á þeim. Við berum aftur á móti ábyrgð á okkur. Af hverju tókum við ekki þennan pakka sem okkur var réttur upp í hendurnar og opnuðum hann og krufum hið safaríka innihald hans, þau siðferðilegu álitamál sem hann geymdi? Gullið tækifæri til að láta að sér kveða í umræðunni og varpa ljósi kristinnar siðfræði á þjóðfélagsleg úrlausnarefni samtímans gekk okkur úr greipum.

Og ég er sekur.

Ég gengst við því. Þegar þetta mál kom upp var ég störfum hlaðinn og nennti ekki að sökkva mér í það. Kannski var ég líka bara andlega latur. En ég nagaði mig í handarbökin á eftir þegar mér varð ljóst að bólan var hjöðnuð og horfin án þess að hún yrði að neinu öðru en frétt um úrsagnir úr Þjóðkirkjunni. Og engu siðfræðilegu ljósi var varpað á deiluefnið.

Og ég hef heitið mér því og opinbera hér með það heiti mitt að taka mig á hvað þetta varðar.

En … svo ég endurtaki mig nú … ég er ekki kirkjan.

Við erum kirkjan. Við öll sem tilheyrum henni. Þetta er ekki mitt partí. Þetta er okkar partí. Ef partíið er leiðinlegt … hvort er þá vænlegra til árangurs að gera sjálfur eitthvað til að lyfta því upp eða skella skuldinni á húsvörðinn og fara burt í fússi?

Samfélag eða stofnun?

Í þessu kristallast í mínum huga að verulegu leyti vandinn sem kirkjan stendur frammi fyrir. Hún er í hugum allt of margra stofnun en ekki samfélag.

Við getum ekki sagt okkur úr íslensku lagaumhverfi þegar dómaframkvæmd gengur fram af okkur. Við getum ekki sagt okkur undan sýslumannsembættinu. En við getum sagt okkur undan biskupsembættinu. Og það er auðvelt. Það er hægt að gera það á netinu. Það er ekki mikið meira mál en að afvina einhvern leiðinlegan á facebook. Og á eftir getur okkur meira að segja liðið eins og við höfum lagt eitthvað af mörkum – annað en það sem við raunverulega lögðum af mörkum sem var að rýra rekstrarfé sóknarkirkjunnar okkar um nokkra þúsundakalla á ári sem þess í stað renna þá í ríkissjóð.

En ef við öll, allir sem kjósa að tilheyra þessu samfélagi, tækjum ábyrgð á því … að sú stemning myndi skapast að þegar út af ber þá sé það hlutverk allra … ekki bara presta og biskupa … heldur samfélagsins, að leiðrétta stefnuna – þá myndi kirkjan virka eins og samfélag á að gera. Og þá sæist hún vera samfélag en ekki stofnun sem auðvelt er að kúpla sig út úr með því einu að smella á réttu hlekkina. Og til þess höfum við gnótt tækifæra.

Og ég bið þess að Guð gefi okkur náð til að nýta okkur þau tækifæri betur á nýju ári en við gerðum á því liðna.

Við erum fíkjutréð. Og Jesús gaf fíkjutrénu tækifæri til að bera ávöxt. Eitt ár enn. Saga dagsins í dag er um náð.

Og ég bið þess að Guð gefi kirkju sinni náð á nýju ári til að vera öflug rödd í samfélagslegri umræðu um siðferðileg álitamál – ekki meginviðfangsefni hennar.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju á nýársdag 2018

Read Full Post »