Feeds:
Færslur
Athugasemdir

Archive for febrúar, 2018

Guðspjall: Þá leiddi andinn Jesú út í óbyggðina til þess að djöfullinn gæti freistað hans. Þar fastaði Jesús fjörutíu daga og fjörutíu nætur og var þá orðinn hungraður. Þá kom djöfullinn og sagði við hann: „Ef þú ert sonur Guðs þá bjóð þú að steinar þessir verði að brauðum.“ Jesús svaraði: „Ritað er: Eigi lifir maðurinn á einu saman brauði heldur á hverju því orði sem fram gengur af Guðs munni.“ Þá tekur djöfullinn Jesú með sér í borgina helgu, setur hann á brún musterisins og segir við hann: „Ef þú ert sonur Guðs þá kasta þér ofan því að ritað er: Hann mun fela þig englum sínum og þeir munu bera þig á höndum sér að þú steytir ekki fót þinn við steini.“ Jesús svaraði honum: „Aftur er ritað: Þú skalt ekki freista Drottins, Guðs þíns.“ Enn tekur djöfullinn hann með sér upp á ofurhátt fjall, sýnir honum öll ríki heims og dýrð þeirra og segir: „Allt þetta mun ég gefa þér ef þú fellur fram og tilbiður mig.“ En Jesús sagði við hann: „Vík brott, Satan! Ritað er: Drottin, Guð þinn, skalt þú tilbiðja og þjóna honum einum.“ Þá fór djöfullinn frá Jesú. Og englar komu og þjónuðu honum. (Matt 4.1-11)

satanNáð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Hver er Satan?

Þessi undarlega og hvimleiða persóna sem öðru hverju dúkkar upp á síðum hinnar helgu bókar og gengur undir ýmsum nöfnum? Í Biblíunni er hann oftast kallaður Satan eða djöfullinn. Stundum er talað um Belsebúb og ljóst að þar er átt við sama karakter. Á einum stað er hann kallaður freistarinn. Enda hefur höggormurinn í paradis, snákurinn, verið sameinaður þessari persónu, sennilega einkum vegna hlutverksins sem hann gegnir í frásögninni af aldingarðinum Eden, þar sem hann er vissulega í hlutverki freistarans.

Nafn djöfulsins

En hvað þýðir þetta allt saman?

Nafnið Satan – ef það er yfirhöfuð nafn – er hebreskt að uppruna og merkir andstæðingur eða mótstöðumaður og í Gamla testamentinu er það hvað eftir annað notað í þeirri merkingu, merkingu þar sem út í hött væri að þýða það Satan – eða öllu heldur láta það standa óþýtt sem „satan“. Höfðingjar Filista óttast að Davíð konungur snúist gegn þeim og það er orðað þannig að hann skuli ekki komast upp með að gerast „satan“ þeirra. Í Fyrri Konungabók segir að Drottinn hafi vakið Salómon upp „satan“ og að Resón Eljadason hafi verið „satan“ Ísraels á meðan Salómon lifði. Hvernig varð venjulegt nafnorð sem aðeins merkir „andstæðingur“ að sérnafni persónu sem er höfuðandstæðingur Guðs? Hvernig skapaðist sú hefð að þýða ekki þetta orð heldur láta það standa óþýtt eins og sérnafn á handvöldum stöðum í Biblíunni?

Og hvernig fékk þessi persóna nöfnin djöfullinn, andskotinn og jafnvel kölski?

Orðið djöfull er íslenskun gríska orðsins „diabolos“, myndað af forsetningunni „dia“ sem merkir „gegn“ eða „á móti“ og sögninni „boleo“ sem merkir að kasta. Diabolos er þannig þýðing hebreska orðsins satan, sá sem kastar einhverju gegn þér, og bókstafleg íslensk þýðing þess er „and-skoti“. Orðið diabolos hafði í grísku þessa tíma aftur á móti merkinguna „spottari“, „lygari“ eða „rógtunga“ í daglegu tali og er til dæmis notað í þeirri merkingu í Síðara Tímóteusarbréfi. Í forníslensku var til lýsingarorðið „kölsugur“ sem merkti „spottgjarn“, en það er álitið liggja að baki orðinu „kölski“.

Hlutverk djöfulsins

En það er alveg ljóst að Satan er ekki bara einhver óvinur úti í bæ. Hann er sjálfstæð vera, fallinn engill með horn og hala, erkióvinur Guðs og alls sem gott er og höfðingi helvítis. Er það ekki annars?

Nei, reyndar ekki. Hvergi í Biblíunni er dregin upp sú mynd af honum. Hann hefur enga tengingu við dauðraríkið eða hlutskipti vondra manna eftir likamsdauðann. Það er síðari tíma uppfinning. Og ytra útlit hans, sem gerir hann að grískum satýr á sterum, með horn og hala og klaufir eins og blending af manni og geit … á sér enga stoð í heilgari ritningu, en er sennilega tilraun til að túlka hlutverk hans sem freistara myndrænt, enda var það hlutverk satýra að táldraga mennskar konur – ekki ólíkt því sem höggormurinn gerði við Evu.

Og ekki heldur svo ólíkt því sem hann reynir að gera við Jesú í guðspjalli dagsins, tæla hann til falls. Því það er það sem hann gerir. Hann er freistari, tælari og lygari. Í Jóhannesarguðspjalli segir um hann: „Hann … hefur aldrei þekkt sannleikann því í honum finnst enginn sannleikur. Þegar hann lýgur fer hann að eðli sínu því hann er lygari og lyginnar faðir.“

Freistingar Satans

Freistingarfrásagnirnar er að finna í öllum samstofna guðspjöllunum, hjá Matteusi, Markúsi og Lúkasi, nánast samhljóða hjá Matteusi og Lúkasi en Markús afgreiðir hana í einni setningu: „Þá knúði andinn hann út í óbyggðina og var hann í óbyggðinni fjörutíu daga og Satan freistaði hans.“ En jafnvel þar er það ljóst að einhver sem kallaður er Satan er að verki.

Freistingarnar eru þrjár. Að steinar verði að brauði, að misnota stöðu sína til sjálsfupphafningar og að tilbiðja djöfulinn: Auður, völd og að snúa baki við sannleikanum.

En í þessu ljósi er áhugavert að bera saman freistingarfrásagnir Jóhannesarguðspjalls við hinar.

Í Jóhannesarguðspjalli er Jesú nefnilega sannarlega freistað, meira að segja með nákvæmlega nákvæmlega sömu freistingum. Munurinn er sá að hjá Jóhannesi er djöfullinn ekki að verki, heldur taka menn að sér hlutverk freistarans. Matteus og Lúkas sýna Satan bjóða Jesú völd, en í Jóhannesarguðspjalli stendur Jesús frammi fyrir sömu freistingu þegar á að „taka hann með valdi til að gera hann að konungi.“ Matteus og Lúkas sýna Satan mana Jesú til að gera eigingjarnt kraftaverk og sýna mátt sinn með því að breyta steinum í brauð. Í Jóhannesarguðspjalli manar fólkið Jesú til að gera kraftaverk til að það trúi. Hjá Lúkasi og Matteusi svarar Jesús með þekktum ummælum um andlega næringu: „Eigi lifir maðurinn á einu saman brauði.“ Matteus lætur hann bæta við: „…heldur á hverju því orði sem fram gengur af Guðs munni.“ Í Jóhannesarguðspjalli svarar Jesús með ummælum um „hið sanna brauð“ sem „niður stígur af himni og gefur heiminum líf.“ Loks sýna Matteus og Lúkas Satan fara með Jesú til Jerúsalem, setja hann á brún musterisins og skora á hann að sýna yfirnáttúrulega hæfileika sína opinberlega. Í Jóhannesarguðspjalli eru það bræður Jesú, sem bregða sér í hlutverk freistarans, þegar þeir mana hann til að fara til Jerúsalem og verða alkunnur af kraftaverkum sínum.

Þannig birtist Satan ekki sem freistarinn í Jóhannesarguðspjalli heldur eru það vinir og jafnvel bræður Jesú sem taka að sér hlutverk hans.

Jesús og Satan

Jesús stendur nefnilega oft frammi fyrir freistaranum þótt hann birtist ekki alltaf í líki Satans. Hann segir meira að segja við besta vin sinn: „Vík frá mér, Satan.“

Já, hann kallar Pétur postula „Satan“ fimm versum eftir að hann hefur kallað hann klettinn sem hann muni reisa kirkju sína á. Er kletturinn sem kirkjan er reist á þá djöfullinn?

Tvítekning merkingar, svokallað hliðstæðurímer algengt stílbragð í Biblíunni. Þá er átt við að í fyrri hluta vers er fullyrðing sett fram sem síðan er hnykkt á eða endurtekin með öðru orðalagi í síðari hlutanum. Þetta stílbragð tekur gjarnan á sig þá mynd að torskiljanleg setning er útskýrð eða útfærð nánar í seinni hluta versins. Um það mætti nefna fjölda dæma.

Sömu aðferðafræði má beita á þetta ávarp Jesú. Í raun má segja að það sé útskýrt til fullnustu í næstu setningu á eftir: „Þú vilt bregða fæti fyrir mig. Eigi hugsar þú um það, sem Guðs er, heldur það, sem manna er.“

Pétur hafði beðið hann að fara ekki til Jerúsalem, að hlýða ekki vilja Guðs. Þess vegna kallar hann Pétur Satan. Ekki af því að Pétur hafi gerst myrkrahöfðingi í helvíti og yfirnáttúrulegur erkióvinur Guðs á himnum, heldur af því að hann setti sinn vilja ofar Guðs vilja.

En erum við þá ekki öll Satan?

Og svarið er: Jú.

Við erum Satan

Öll eigum við þær stundir þegar við breytum gegn betri vitund. Við værum ekki mannleg annars. Þegar eigingjarnri hvöt fylgir hugsunin: „Það þarf enginn að komast að þessu.“

Við erum ekki öll sek um stórtæka sviksemi, grófa misnotkun á fjármunum sem okkur er treyst fyrir svo stappar nærri fjárdrætti, pólitíska spillingu; að nota aðstöðu okkar til að skara eld að eigin köku á kostnað annarra eða annars konar trúnaðarsvik eða alvarleg tryggðarof. Sum okkar eru það. Það þarf ekki annað en að lesa blöðin eða horfa á sjónvarpsfréttir til að sjá það. En við erum öll fær um það. Og við þekkjum öll þessa rödd sem segir: „Láttu það eftir þér, gerðu það bara, það þarf enginn að komast að því, þú veist að þig langar til þess.“

Og sum okkar eiga það meira að segja til að vera þessi rödd í lífi annarra.

Við erum öll með rödd freistarans hljómandi í höfðinu á okkur … freistarans sem í Biblíunni er kallaður andstæðingurinn, yfirleitt með hebreska orðinu þeirrar merkingar, „Satan“ eða því gríska, „djöfull“, því þetta er rödd alls sem vinnur gegn framgangi sannleikans og náungakærleikans, grunnstoðum kristindómsins. Þetta eru farartálmarnir á veginum til guðsríkisins: Eigingirnin.

Gjafir Satans

Í Jóhannesarguðspjalli er djöfullinn í þrígang kallaður „höfðingi þessa heims“. Í freistingafrásögnum Matteusar og Lúkasar kemur fram sama mynd. Þar er gengið út frá því að hann geti boðið auð og völd. Slíkt sé hans að gefa. Enginn getur gefið það sem hann á ekki.

Og enn er það hans að gefa. Á öllum stundum segir hann við okkur, ýmist með okkar eigin munni eða fólksins í kringum okkur: „Öll þau veraldlegu gæði sem hugur þinn girnist gætu orðið þín ef þú bara lætur náungakærleikann og samhygðina lönd og leið og felur í staðinn allan þinn trúnað þeim öflum sem geta veitt þér þau.“ Ef þú fellur fram og tilbiður andstæðu … andstæðing Guðs.

Og svar Jesú er: „Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn en glata sálu sinni?“

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 18. 2. 2018

Read Full Post »

thornsGuðspjall: Nú var mikill fjöldi saman kominn og menn komu til Jesú úr hverri borg af annarri. Þá sagði hann þessa dæmisögu: „Sáðmaður gekk út að sá sæði sínu. Og þá er hann sáði féll sumt hjá götunni og varð fótum troðið og fuglar himins átu það upp. Sumt féll á klöpp. Það spratt en skrælnaði af því að það hafði ekki raka. Og sumt féll meðal þyrna og þyrnarnir spruttu einnig og kæfðu það. En sumt féll í góða jörð, óx upp og bar hundraðfaldan ávöxt.“ Að svo mæltu hrópaði Jesús: „Hver sem eyru hefur að heyra hann heyri.“ En lærisveinar hans spurðu Jesú hvað þessi dæmisaga þýddi. Hann sagði: „Ykkur er gefið að þekkja leynda dóma Guðs ríkis, hinir fá þá í dæmisögum að sjáandi sjái þeir ekki og heyrandi skilji þeir ekki. En dæmisagan þýðir þetta: Sæðið er Guðs orð. Það er féll hjá götunni merkir þá sem heyra orðið en síðan kemur djöfullinn og tekur það burt úr hjarta þeirra til þess að þeir trúi ekki og verði hólpnir. Það er féll á klöppina merkir þá sem taka orðinu með fögnuði er þeir heyra það en hafa enga rótfestu. Þeir trúa um stund en falla frá á reynslutíma. Það er féll meðal þyrna merkir þá er heyra en kafna síðan undir áhyggjum, auðæfum og nautnum lífsins og bera ekki þroskaðan ávöxt. En það er féll í góða jörð merkir þá sem heyra orðið og geyma það í göfugu, góðu hjarta og bera ávöxt með stöðuglyndi. (Lúk 8.4-15)

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Við höfum voðalega litla afsökun.

Hér áður fyrr var auðveldara að vera illa upplýstur, að vita lítið um umheiminn, gang veraldarinnar og framvindu sögunnar. Aðgangur að upplýsingum var tiltölulega lítill og fréttir stopular. Fjarlæg heimshorn og það sem þar átti sér stað var fullkomlega utan seilingar.

Þetta horfir öðruvísi við í dag. Við höfum aðgang að næstum því hverjum þeim upplýsingum sem við höfum áhuga á. Ekki öllum. Stundum eru þjóðarhagsmunir í húfi. Stundum eru mikilvæg mál, sem varða okkur, á því sem kallað er „viðkvæmt stig“ og því ótímabært að upplýsa nánar um þau að svo stöddu. Jafnvel getur borið svo við að viðskiptahagsmunir manna með mikil ítök séu í húfi og því sé jafnvel sett lögbann á upplýsingar þar að lútandi.

Óheftur aðgangur

En svona alla jafna er tvennu ólíku saman að jafna ef við berum okkur saman við ömmur okkar og afa, að ég tali nú ekki um langömmur okkar og langafa. Ef okkur vantar dægurlagatexta gúglum við hann bara. Við þurfum ekki að skrifa skáldinu sendibréf. Og ef við viljum vita hvað er að gerast í löndunum við Miðjarðarhafið núna þurfum við ekki annað en að kveikja á útvarpinu eða fara inn á fréttasíður á netinu.

Við höfum enga afsökun fyrir því að hafa asklok fyrir himin – eins og það er orðað – og ekki einu sinni þá að sum okkar þurfa sennilega að gúgla það hvað askur er til að byrja með, að ekki sé minnst á asklok. Lýsingarorðið „heimskur“ er að mínu mati afskaplega vel til fundið til að lýsa því hvað átt er við. Fyrri hlutinn er beinlínis orðið „heim“ og sá síðari er, skilst mér, dreginn af orðinu „elskur“. Sá sem elskar svo mikið að vera heima að hugur hans hvarflar varla út fyrir túngarðinn hjá honum er svo heimelskur að hann er beinlínis heimskur.

Við höfum frjálsan aðgang að slíku ógrynni upplýsinga, frétta og fróðleiks að við liggur að ef maður veit ekki eitthvað þá geti það ekki stafað af öðru en því að maður hefur engan áhuga á að vita það. Ef við erum ekki að glíma við vitsmunalegar eða andlegar hamlanir höfum við enga afsökun fyrir því að vera illa upplýst. Að vera heimskur eða ekki er í dag undantekningalítið frjálst val hvers og eins.

Engin afsökun fyrir heimsku

Við höfum til að mynda enga afsökun fyrir því að vita ekki að í fyrradag drukknuðu að minnsta kosti 90 manns þegar báti með flóttamönnum hvolfdi skammt undan ströndum Lýbíu. Við höfum ekki heldur neina afsökun fyrir því að vita ekki að í janúarmánuði drukknuðu að minnsta kosti 246 manns í Miðjarðarhafinu á flótta undan ömurlegum kringumstæðum í von um nýtt og betra líf í nýju landi. Við getum hneykslast á því að fólk stefni lífi sínu í tvísýnu með því að stíga upp í hin ýmsu manndrápsfley upp á von og óvon og borgi fyrir farið miklu meira en flugmiði myndi kosta. En við getum ekki látið eins og við vitum ekki að þessu fólki stendur ekki til boða öruggari ferðamáti og að örvænting þess er slík að hún knýr það til að taka þessa áhættu. Við getum ekki látið eins og víðtæk og skipulögð mannréttindabrot, ofbeldi og misnotkun flóttafólks í Lýbíu sé eitthvað leyndarmál.

Meirihluti þeirra sem reyna að komast yfir Miðjarðarhafið lifir tilraunina af. Af þeim 4300 sem reyndu í janúar drukknuðu aðeins um 17%. Hvað gerir manneskja sem er í helvíti, hefur engu að tapa og allt að vinna, frammi fyrir þeim líkum? Þau ríflega 4000 sem drukkna í Miðjarðarhafinu á flótta ár hvert að jafnaði nú um stundir eru ekki heimsk heldur örvæntingarfull. Og við höfum enga afsökun fyrir að gera okkur ekki grein fyrir því.

Við höfum enga afsökun fyrir því að vita ekki að um 60% íbúa Jemens, þess fjarlæga ríkis, um 17 milljónir manna, þjást af hungri vegna borgarastyrjaldar sem þar hefur geisað í á þriðja ár og kostað hefur um 10.000 manns lífið, meirhlutann börn.

Við höfum enga afsökun fyrir því að vita ekki Bandaríkjaher áformar um þessar mundir að framleiða smærri kjarnavopn en nú eru til staðar í vopnabúri hans. Þær sprengjur sem hann hefur nú til umráða eru víst svo stórar og klunnalegar að það er ekki hægt að nota þær nema í allsherjar kjarnorkustyrjöld. Herinn vantar handhægari og meðfærilegri kjarnorkusprengjur sem auðveldara er að komast upp með að beita. Þessar verða pínulitlar eða á stærð við þá sem varpað var á Nagasaki og drap aðeins 70.000 manns á einu augabragði.

Þetta er allt í fréttum. Við höfum enga afsökun fyrir að vera heimsk.

Sannleikurinn í skáldskapnum

Rithöfundar hafa oft og tíðum reynt að rýna í framtíðina og draga upp myndir af því sem þeir sjá fyrir sér. Vísindaskáldskapur fortíðarinnar hefur býsna oft reynst vera nýjasta tækni og vísindi samtímans. Og framtíðarhrollvekjur fortíðarinnar komast oft ansi nálægt því að lýsa samtímanum. Má þar nefna hryllilegar framtíðarsýnir skáldsagna á borð við 1984 eftir George Orwell og A Brave New World eftir Aldous Huxley sem nefnist Veröld ný og góð í íslenskri þýðingu Kristjáns Oddssonar.

Martraðarþjóðfélögin sem þeir sjá fyrir sér eru ólík. Orwell sér fyrir sér nokkuð dæmigert einræðis-fasistaríki þar sem upplýsingar eru ritskoðaðar og takmarkaðar, sögunni er ritstýrt og aðeins er pláss fyrir einn sannleik. Hættulegar bækur eru bannaðar.

Huxley sér fyrir sér skeytingarleysissamfélag. Samfélag þar sem ástæðulaust er að banna bækur því enginn nennir að lesa þær hvort sem er, samfélag sligað af ofgnótt afþreyingar og upplýsinga, þar sem sannleikurinn á sér ekki viðreisnar von í samkeppni við skrum og léttmeti.

Það er erfitt að gera það upp við sig hvor martröðin er skelfilegri. Það er hins vegar lítill vandi að mínum dómi að átta sig á því hvor þeirra er nær vestrænu nútímasamfélagi.

Guðs orð

Í dag segir Jesús okkur dæmisögu og hann útskýrir hana fyrir okkur á eftir: Sæðið er Guðs orð.

Guðs orð eru mörg.

Þau fylla þykka bók sem við köllum Biblíuna. Þar kennir margra grasa og ekki allt jafngáfulegt eða kærleiksríkt sem þar stendur, enda hlutar hennar lögbækur hirðingjaþjóðar frá bronsöld og aðrir sögulegt efni skrifað í pólitískum tilgangi – ritstjórn sögunnar.

Fáir hafa lesið þessa bók spjaldanna á milli. Enda er það í sjálfu sér óþarfi. Marteinn Lúther las eitt vers, Jóhannes 3.16, og kallaði það „Litlu Biblíuna“ af því að hann taldi það geyma efni bókarinnar í eins fáum orðum og knöppu formi og komist yrði. Litla Biblían hljóðar svo: „Því að svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.“

Að trúa á hann er að leitast við að hafa hann að leiðtoga lífs síns í verki. Ekki að játa hana á sunnudögum og láta þar við sitja. Að leitast við að hafa hann leiðtoga lífs síns er að gefa gaum að orðum hans og reyna að lifa samkvæmt þeim, sem í raun er aðeins þetta tvennt: Að elska Guð og náungann og koma fram við aðra eins og maður vill að komið sé fram við sig.

Þetta eru engin geimvísindi.

En af hverju er heimurinn þá eins og hann er? Af hverju yppa nafnkristnar þjóðir öxlum yfir eymd og neyð náungans og hafa miklu heitari skoðanir á því hvar megi selja áfengi og hverjir eigi að vera fulltrúar þjóðarinnar í söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva heldur en því hvernig ráða megi bót á þjáningum milljóna?

Ég er ekki að fordæma Eurovision. Ég hef sjálfur gaman af því. Ég er ekki heldur að gera lítið úr þeim lýðheilsu- og viðskiptafræðilegu sjónarmiðum sem takast á í umræðunni um áfengissölu. Ég er bara að reyna að setja hlutina í óbrjálað samhengi. Hver er ekki spenntari fyrir HM í Rússlandi heldur en þeim margvíslegu mannréttindabrotum og sýndarlýðræði sem þar tíðkast? Það er í mannlegu eðli.

Við erum nefnilega meðal þyrna.

Samtíðarhrollvekjan

Við heyrum en köfnum síðan undir áhyggjum, auðæfum og nautnum lífsins og berum ekki þroskaðan ávöxt. Kannski er þetta vers, Lúkas 8.14, Litla And-Biblían; nákvæmari framtíðarhrollvekja en þeir Orwell og Huxley sáu fyrir sér. Eða kannski er það nákvæmlega framtíðarhrollvekjan sem sá síðarnefndi dró upp í sinni mögnuðu skáldsögu.

Áhyggjur, auðævi og nautnir lífsins.

Óttinn er magnað stjórntæki. Enda er frelsisboðskapur kristindómsins þessi: Verið óhræddir. Á þessum boðskap er klifað. Fæðing frelsarans er boðuð með þessum orðum. Upprisa hans er tilkynnt með þessum orðum. „Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist,“ segir hann sjálfur.

En við erum ekki bara vöruð við óttanum.

Við erum líka vöruð við því að safna okkur veraldlegum fjársjóðum, við því að þjóna tveimur herrum. „Annað hvort hatar hann annan og elskar hinn eða þýðist annan og afrækir hinn.“ (Mt 6.24) „Hvar sem fjársjóður þinn er þar mun og hjarta þitt vera.“ (Mt. 6.21)

Kannski stafar okkur ekki mest ógn af því sem við óttumst.

Kannski stafar okkur ekki minni ógn af því sem við elskum.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er enn og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 4. 2. 2018

Read Full Post »