Feeds:
Færslur
Athugasemdir

Archive for the ‘Alls konar’ Category

Guðspjall: Þá leiddi andinn Jesú út í óbyggðina til þess að djöfullinn gæti freistað hans. Þar fastaði Jesús fjörutíu daga og fjörutíu nætur og var þá orðinn hungraður. Þá kom djöfullinn og sagði við hann: „Ef þú ert sonur Guðs þá bjóð þú að steinar þessir verði að brauðum.“ Jesús svaraði: „Ritað er: Eigi lifir maðurinn á einu saman brauði heldur á hverju því orði sem fram gengur af Guðs munni.“ Þá tekur djöfullinn Jesú með sér í borgina helgu, setur hann á brún musterisins og segir við hann: „Ef þú ert sonur Guðs þá kasta þér ofan því að ritað er: Hann mun fela þig englum sínum og þeir munu bera þig á höndum sér að þú steytir ekki fót þinn við steini.“ Jesús svaraði honum: „Aftur er ritað: Þú skalt ekki freista Drottins, Guðs þíns.“ Enn tekur djöfullinn hann með sér upp á ofurhátt fjall, sýnir honum öll ríki heims og dýrð þeirra og segir: „Allt þetta mun ég gefa þér ef þú fellur fram og tilbiður mig.“ En Jesús sagði við hann: „Vík brott, Satan! Ritað er: Drottin, Guð þinn, skalt þú tilbiðja og þjóna honum einum.“ Þá fór djöfullinn frá Jesú. Og englar komu og þjónuðu honum. (Matt 4.1-11)

satanNáð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Hver er Satan?

Þessi undarlega og hvimleiða persóna sem öðru hverju dúkkar upp á síðum hinnar helgu bókar og gengur undir ýmsum nöfnum? Í Biblíunni er hann oftast kallaður Satan eða djöfullinn. Stundum er talað um Belsebúb og ljóst að þar er átt við sama karakter. Á einum stað er hann kallaður freistarinn. Enda hefur höggormurinn í paradis, snákurinn, verið sameinaður þessari persónu, sennilega einkum vegna hlutverksins sem hann gegnir í frásögninni af aldingarðinum Eden, þar sem hann er vissulega í hlutverki freistarans.

Nafn djöfulsins

En hvað þýðir þetta allt saman?

Nafnið Satan – ef það er yfirhöfuð nafn – er hebreskt að uppruna og merkir andstæðingur eða mótstöðumaður og í Gamla testamentinu er það hvað eftir annað notað í þeirri merkingu, merkingu þar sem út í hött væri að þýða það Satan – eða öllu heldur láta það standa óþýtt sem „satan“. Höfðingjar Filista óttast að Davíð konungur snúist gegn þeim og það er orðað þannig að hann skuli ekki komast upp með að gerast „satan“ þeirra. Í Fyrri Konungabók segir að Drottinn hafi vakið Salómon upp „satan“ og að Resón Eljadason hafi verið „satan“ Ísraels á meðan Salómon lifði. Hvernig varð venjulegt nafnorð sem aðeins merkir „andstæðingur“ að sérnafni persónu sem er höfuðandstæðingur Guðs? Hvernig skapaðist sú hefð að þýða ekki þetta orð heldur láta það standa óþýtt eins og sérnafn á handvöldum stöðum í Biblíunni?

Og hvernig fékk þessi persóna nöfnin djöfullinn, andskotinn og jafnvel kölski?

Orðið djöfull er íslenskun gríska orðsins „diabolos“, myndað af forsetningunni „dia“ sem merkir „gegn“ eða „á móti“ og sögninni „boleo“ sem merkir að kasta. Diabolos er þannig þýðing hebreska orðsins satan, sá sem kastar einhverju gegn þér, og bókstafleg íslensk þýðing þess er „and-skoti“. Orðið diabolos hafði í grísku þessa tíma aftur á móti merkinguna „spottari“, „lygari“ eða „rógtunga“ í daglegu tali og er til dæmis notað í þeirri merkingu í Síðara Tímóteusarbréfi. Í forníslensku var til lýsingarorðið „kölsugur“ sem merkti „spottgjarn“, en það er álitið liggja að baki orðinu „kölski“.

Hlutverk djöfulsins

En það er alveg ljóst að Satan er ekki bara einhver óvinur úti í bæ. Hann er sjálfstæð vera, fallinn engill með horn og hala, erkióvinur Guðs og alls sem gott er og höfðingi helvítis. Er það ekki annars?

Nei, reyndar ekki. Hvergi í Biblíunni er dregin upp sú mynd af honum. Hann hefur enga tengingu við dauðraríkið eða hlutskipti vondra manna eftir likamsdauðann. Það er síðari tíma uppfinning. Og ytra útlit hans, sem gerir hann að grískum satýr á sterum, með horn og hala og klaufir eins og blending af manni og geit … á sér enga stoð í heilgari ritningu, en er sennilega tilraun til að túlka hlutverk hans sem freistara myndrænt, enda var það hlutverk satýra að táldraga mennskar konur – ekki ólíkt því sem höggormurinn gerði við Evu.

Og ekki heldur svo ólíkt því sem hann reynir að gera við Jesú í guðspjalli dagsins, tæla hann til falls. Því það er það sem hann gerir. Hann er freistari, tælari og lygari. Í Jóhannesarguðspjalli segir um hann: „Hann … hefur aldrei þekkt sannleikann því í honum finnst enginn sannleikur. Þegar hann lýgur fer hann að eðli sínu því hann er lygari og lyginnar faðir.“

Freistingar Satans

Freistingarfrásagnirnar er að finna í öllum samstofna guðspjöllunum, hjá Matteusi, Markúsi og Lúkasi, nánast samhljóða hjá Matteusi og Lúkasi en Markús afgreiðir hana í einni setningu: „Þá knúði andinn hann út í óbyggðina og var hann í óbyggðinni fjörutíu daga og Satan freistaði hans.“ En jafnvel þar er það ljóst að einhver sem kallaður er Satan er að verki.

Freistingarnar eru þrjár. Að steinar verði að brauði, að misnota stöðu sína til sjálsfupphafningar og að tilbiðja djöfulinn: Auður, völd og að snúa baki við sannleikanum.

En í þessu ljósi er áhugavert að bera saman freistingarfrásagnir Jóhannesarguðspjalls við hinar.

Í Jóhannesarguðspjalli er Jesú nefnilega sannarlega freistað, meira að segja með nákvæmlega nákvæmlega sömu freistingum. Munurinn er sá að hjá Jóhannesi er djöfullinn ekki að verki, heldur taka menn að sér hlutverk freistarans. Matteus og Lúkas sýna Satan bjóða Jesú völd, en í Jóhannesarguðspjalli stendur Jesús frammi fyrir sömu freistingu þegar á að „taka hann með valdi til að gera hann að konungi.“ Matteus og Lúkas sýna Satan mana Jesú til að gera eigingjarnt kraftaverk og sýna mátt sinn með því að breyta steinum í brauð. Í Jóhannesarguðspjalli manar fólkið Jesú til að gera kraftaverk til að það trúi. Hjá Lúkasi og Matteusi svarar Jesús með þekktum ummælum um andlega næringu: „Eigi lifir maðurinn á einu saman brauði.“ Matteus lætur hann bæta við: „…heldur á hverju því orði sem fram gengur af Guðs munni.“ Í Jóhannesarguðspjalli svarar Jesús með ummælum um „hið sanna brauð“ sem „niður stígur af himni og gefur heiminum líf.“ Loks sýna Matteus og Lúkas Satan fara með Jesú til Jerúsalem, setja hann á brún musterisins og skora á hann að sýna yfirnáttúrulega hæfileika sína opinberlega. Í Jóhannesarguðspjalli eru það bræður Jesú, sem bregða sér í hlutverk freistarans, þegar þeir mana hann til að fara til Jerúsalem og verða alkunnur af kraftaverkum sínum.

Þannig birtist Satan ekki sem freistarinn í Jóhannesarguðspjalli heldur eru það vinir og jafnvel bræður Jesú sem taka að sér hlutverk hans.

Jesús og Satan

Jesús stendur nefnilega oft frammi fyrir freistaranum þótt hann birtist ekki alltaf í líki Satans. Hann segir meira að segja við besta vin sinn: „Vík frá mér, Satan.“

Já, hann kallar Pétur postula „Satan“ fimm versum eftir að hann hefur kallað hann klettinn sem hann muni reisa kirkju sína á. Er kletturinn sem kirkjan er reist á þá djöfullinn?

Tvítekning merkingar, svokallað hliðstæðurímer algengt stílbragð í Biblíunni. Þá er átt við að í fyrri hluta vers er fullyrðing sett fram sem síðan er hnykkt á eða endurtekin með öðru orðalagi í síðari hlutanum. Þetta stílbragð tekur gjarnan á sig þá mynd að torskiljanleg setning er útskýrð eða útfærð nánar í seinni hluta versins. Um það mætti nefna fjölda dæma.

Sömu aðferðafræði má beita á þetta ávarp Jesú. Í raun má segja að það sé útskýrt til fullnustu í næstu setningu á eftir: „Þú vilt bregða fæti fyrir mig. Eigi hugsar þú um það, sem Guðs er, heldur það, sem manna er.“

Pétur hafði beðið hann að fara ekki til Jerúsalem, að hlýða ekki vilja Guðs. Þess vegna kallar hann Pétur Satan. Ekki af því að Pétur hafi gerst myrkrahöfðingi í helvíti og yfirnáttúrulegur erkióvinur Guðs á himnum, heldur af því að hann setti sinn vilja ofar Guðs vilja.

En erum við þá ekki öll Satan?

Og svarið er: Jú.

Við erum Satan

Öll eigum við þær stundir þegar við breytum gegn betri vitund. Við værum ekki mannleg annars. Þegar eigingjarnri hvöt fylgir hugsunin: „Það þarf enginn að komast að þessu.“

Við erum ekki öll sek um stórtæka sviksemi, grófa misnotkun á fjármunum sem okkur er treyst fyrir svo stappar nærri fjárdrætti, pólitíska spillingu; að nota aðstöðu okkar til að skara eld að eigin köku á kostnað annarra eða annars konar trúnaðarsvik eða alvarleg tryggðarof. Sum okkar eru það. Það þarf ekki annað en að lesa blöðin eða horfa á sjónvarpsfréttir til að sjá það. En við erum öll fær um það. Og við þekkjum öll þessa rödd sem segir: „Láttu það eftir þér, gerðu það bara, það þarf enginn að komast að því, þú veist að þig langar til þess.“

Og sum okkar eiga það meira að segja til að vera þessi rödd í lífi annarra.

Við erum öll með rödd freistarans hljómandi í höfðinu á okkur … freistarans sem í Biblíunni er kallaður andstæðingurinn, yfirleitt með hebreska orðinu þeirrar merkingar, „Satan“ eða því gríska, „djöfull“, því þetta er rödd alls sem vinnur gegn framgangi sannleikans og náungakærleikans, grunnstoðum kristindómsins. Þetta eru farartálmarnir á veginum til guðsríkisins: Eigingirnin.

Gjafir Satans

Í Jóhannesarguðspjalli er djöfullinn í þrígang kallaður „höfðingi þessa heims“. Í freistingafrásögnum Matteusar og Lúkasar kemur fram sama mynd. Þar er gengið út frá því að hann geti boðið auð og völd. Slíkt sé hans að gefa. Enginn getur gefið það sem hann á ekki.

Og enn er það hans að gefa. Á öllum stundum segir hann við okkur, ýmist með okkar eigin munni eða fólksins í kringum okkur: „Öll þau veraldlegu gæði sem hugur þinn girnist gætu orðið þín ef þú bara lætur náungakærleikann og samhygðina lönd og leið og felur í staðinn allan þinn trúnað þeim öflum sem geta veitt þér þau.“ Ef þú fellur fram og tilbiður andstæðu … andstæðing Guðs.

Og svar Jesú er: „Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn en glata sálu sinni?“

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 18. 2. 2018

Read Full Post »

Guðspjall: Þegar Jesús var að leggja af stað kom maður hlaupandi, féll á kné fyrir honum og spurði hann: „Góði meistari, hvað á ég að gera til þess að öðlast eilíft líf?“ Jesús sagði við hann: „Hví kallar þú mig góðan? Enginn er góður nema Guð einn. Þú kannt boðorðin: Þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki bera ljúgvitni, þú skalt ekki pretta, heiðra föður þinn og móður.“ Hinn svaraði honum: „Meistari, alls þessa hef ég gætt frá æsku.“ Jesús horfði á hann með ástúð og sagði við hann: „Eins er þér vant. Far þú, sel allt sem þú átt og gef fátækum og munt þú fjársjóð eiga á himni. Kom síðan og fylg mér.“ En hann varð dapur í bragði við þessi orð og fór burt hryggur enda átti hann miklar eignir. Þá leit Jesús í kring og sagði við lærisveina sína: „Hve torvelt verður þeim sem auðinn hafa að ganga inn í Guðs ríki.“ Lærisveinunum brá mjög við orð Jesú en hann sagði aftur við þá: „Börn, hve torvelt er að komast inn í Guðs ríki. Auðveldara er úlfalda að fara gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki.“ En þeir urðu steini lostnir og sögðu sín á milli: „Hver getur þá orðið hólpinn?“ Jesús horfði á þá og sagði: „Menn hafa engin ráð til þessa en Guði er ekkert um megn.“ (Mrk 10.17-27)

Greed_0Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Í viðtalsbók Matthíasar Johannessen við Þórberg Þórðarson, Í kompaníi við allífið, segir meistari Þórbergur þessi merkilegu orð:

„Ég hef aldrei skilið hvað menn geta lagt mikið á sig af heimskulegu erfiði til þess að ávinna sér veraldarupphefðir sem þeim virðist ekki vera nein lífsnauðsyn að ná. […] (Þá fer) að langa eftir að safna auðæfum. Og þeir halda áfram að safna og safna og aldrei hafa þeir safnað svo miklu að þeim finnist þeir hafa efni á að segja: Nú er ég búinn að fá nóg. Þetta er eins og helgar bækur lýsa þorstanum í Helvíti.“

Þetta eru ansi mögnuð orð. Sérstaklega í ljósi þess að það er ekki ýkja langt síðan íslenskur athafnamaður, sem auðgast hafði mjög, var spurður í viðtali hvað væri nóg – og hann skildi ekki spurninguna. Orðið „nóg“ var ekki til fyrir honum. Það var ekkert til sem hét „nóg“. Og á honum mátti skilja að það væri lykillinn að velgengninni – að geta ekki fengið nóg.

Gróðafíkn

Það er til orð sem lýsir þeim ágalla … því andlega meini … að geta ekki fengið nóg af því sem veitir manni vellíðan, hvort sem það er venjulegt fíkniefni eða annað sem veitir sæluvímu, svo sem matur, fjárhættuspil eða upphefðin, virðingin og samfélagsstaðan sem því fylgir að vera vellauðugur.

Orðið er „fíkn“.

Þetta orð er allt of oft notað af ábyrgðarleysi og léttuð. Fólk segist jafnvel í gamni vera haldið fíkn í eitt og annað sem því finnst gott og gengisfellir þannig hugtakið – sjúkdóm sem eyðileggur líf og heilsu milljóna manna um heim allan. Fíkn er alltaf eyðileggjandi afl. Fíknin heltekur fíkilinn svo allt annað situr á hakanum. Hún leggur líf hans og ástvina hans undir sig og er svakalegt samfélagsmein.

Það gerir engan að súrefnisfíkli að geta ekki án súrefnis verið. Það gerir engan að súkkulaðifíkli að finnast gott að fá sér konfektmola. Þegar önnur næring er sniðgengin og fíkillinn á birgðir af súkkulaði á leyndum stöðum, þá er ástandið orðið sjúkt.

Þórbergur segir þetta vera eins og helgar bækur lýsi þorstanum í Helvíti. Ég vil leyfa mér að taka dýpra í árinni: Þetta er helvíti.

Eilífðin er núna

Guðs ríki er nefnilega ekki einhver verðlaun sem bíða okkar á himnum að jarðlífinu loknu ef við erum nógu þæg og hlýðin hérna megin grafarinnar og því ömurlegri sem jarðnesk tilvera okkar er, þeim mun meiri verði lúxusinn í himnaríki að henni yfirstaðinni. Guðs ríki er vissulega í eilífðinni. En okkur má ekki yfirsjást að eilífðin er hér og nú. Ef eilífiðin er allur tími er núið hluti hennar, annars væri gloppa í eilífðinni og hún ekki eilíf. Þegar við segjum „þitt er ríkið, mátturinn og dýrðin að eilífu“ í Faðirvorinu erum við því að segja „þitt er ríkið mátturinn og dýrðin hér og nú.“

En hvernig er þetta Guðs ríki?

Jesú er tíðrætt um Guðsríkið. Það er mun vinsælla umræðuefni hjá honum en andstæða þess: Helvíti.

„Guðs ríki er hið innra með yður,“ segir Jesús (Lúk 17.21). Þessa setningu er snúið að þýða á íslensku, enda væri jafn rétt að þýða hana „Guðs ríki er mitt á meðal ykkar,“ eins og stundum er gert. Hvort er rétt? Af hverju er þetta orðað svona óljóst; þannig að bæði megi skilja setninguna þannig að Guðs ríki sé eitthvað ástand í hjartanu á okkur og þannig að það sé eitthvað ástand í samfélagi okkar?

Sennilega af því að hann átti við hvort tveggja. Sennilega af því að annað getur ekki án hins verið, annað leiðir óhjákvæmilega af hinu og um leið til hins.

Ætli þekktustu orð Jesú um Guðs ríkið séu þó ekki í Faðirvorinu, svo aftur sé vitnað í það: „Til komi þitt ríki.“ Hvað á hann við? Þegar Jesús segir eitthvað sem erfitt er að skilja er ágætt ráð að lesa áfram. Oftar en ekki útskýrir hann það í næstu setningu á eftir. Og næsta setning á eftir er: „Verði þinn vilji.“ Guðs ríki er þannig Guðs vilji og Guðs vilji er að við elskum náunga okkar eins og okkur sjálf. Ekkert annað boðorð er því æðra. (Lúk 10.27 // Matt 22.37-39, Mark 12.30-31) Guðsríkið er kærleikssamfélagið mitt á meðal okkar hér og nú … ef við viljum.

Og inn í þetta Guðs ríki komast auðmenn ekki frekar en úlfaldi í gegnum nálarauga, segir Jesús við okkur í guðspjalli dagsins.

Súrrealískt myndmál

Ýmsar kenningar hafa verið settar fram um þetta furðulega, nánast súrrealíska myndmál. Bent hefur verið á að í nýrri handritum stendur ekki gríska orðið „kamilos“ sem merkir úlfaldi heldur „kamelos“ sem merkir reipi. Og á aremeísku, móðurmáli Jesú, merkir orðið „gamla“ bæði „reipi“ og „úlfaldi“, sennilega vegna þess að reipi voru alla jafna úr úfaldahári. Jesús gæti því hafa verið að tala um að þræða nál með kaðli – sem er ekki alveg eins langsótt.

En hvort það var reipi eða úlfaldi skiptir ekki öllu máli. Hvort tveggja er jafnómögulegt. Hvorugu kemur maður í gegnum nálarauga.

Hvað þýðir þetta? Er Guðs ríki þá alræði öreiganna þar sem allar veraldlegar eignir kalla yfir mann útskúfun? Þar sem hverjum þeim, sem leyfir sér að hafa eitthvað meira umleikis en brýnustu lífsnauðsyn ber til, er samstundis varpað út í ystu myrkur þar sem er grátur og gnístran tanna?

Það er að mínum dómi fullharkaleg túlkun þessara orða. Takið eftir því að lesturinn endar á orðunum „Guði er ekkert um megn.“ Hann getur því þrætt nál með kaðli … eða úlfalda ef því er að skipta.

Maður og Mammon

Jesús talar ekki mikið um peninga. „Gjaldið keisaranum það sem keisarans er“ (Mark 12.17 // Matt 22.21, Lúk 20.25) segir hann og þekkt er einnig sagan um eyri ekkjunnar þar sem framlag fátækrar ekkju er sögð stærri gjöf en fjáraustur auðmannanna því eyririnn var öll lífsbjörg hennar en hinir gáfu lítinn hluta allsnægta sinna (Mark 12.41-44 // Lúk 21.1-4), saga sem auðvitað er lítið annað en bíblíuleg röksemdafærsla fyrir hátekjuskatti.

En Jesús segir sögu um mann nokkurn sem fer úr landi og felur þjónum sínum eigur sínar, einum fimm talentur, öðrum tvær og þeim þriðja eina, „hverjum eftir hæfni“ segir þar (Matt 25.15). Sagan er ekki um peninga heldur um Guðs gjafir, sem enn í dag eru kenndar við þennan forna gjaldmiðil á mörgum þjóðtungum og kallaðar „talent“. En til að dæmisagan gangi upp þurfum við samt að sætta okkur við að eðilegt sé að fólki sé skammtað „eftir hæfni“ – upp að því marki að ójöfnuðurinn verði ekki slíkur að einn líði skort á meðan annar lendir í helgreipum Mammons.

Þetta snýst nefnilega miklu frekar um samband okkar við Mammon. Þeir sem gert hafa Mammon að húsbónda sínum og hlýða aðeins boðum hans, þeir eru ekki í Guðsríkinu og eiga enga leið þangað inn. Enginn getur þjónað tveimur herrum, Guði og Mammon. Hví skyldi einhver sem tilheyrir vellauðugasta hundraðshluta þjóðarinnar vilja samfélag jöfnuðar og samhjálpar? Hvað er í því fyrir hann? Það er hreint guðlast fyrir þeim sem aðeins hlýða æðsta boðorði Mammons: „Græðgi er góð.“

Hlutverk Mammons

Til hvers eru peningar? Eru þeir hreyfiafl til góðs? Eru þeir til að tryggja velferð samfélagsins, byggja upp grunnstoðir þess, efla heilbrigðiskerfi, menntun, mannúð? Eru þeir til að við getum tekið á móti fólki sem hættir lífi sínu til að flýja ómennskar kringumstæður í von um að búa börnum sínum betra líf eða sjáum við ofsjónum yfir að nota þá í slíkt? Eru þeir til að hjálpa þeim meðal okkar sem örlögin hafa leikið þannig að þeir þurfa framfærslu samfélagsins til að líða ekki neyð eða erum við, sem verðum þess vör að slíkt er rauveruleiki í samfélagi okkar, bara geðveik eins og áhrifamenn hafa fullyrt? Eiga peningar að auka á  jöfnuð og samkennd í samfélaginu eða eiga þeir að skapa hér tvær þjóðir sem búa við sitt hvorn raunveruleikann? Einn fyrir almenning og annan þar sem tíföld árslaun meðalíslendingsins eru fjárhæð sem „engu máli skiptir“?

Við ættum að velta þessu alvarlega fyrir okkur, því senn tökum við afdrifaríka ákvörðun um það hvernig samfélag við viljum byggja hér á þessari eyju, hvaða gildi við viljum að ráði ferðinni. Þá ákvörðun tökum við þegar við veljum fólk til að stýra þessari uppbyggingu.

Þeir Mammon og Bakkus eiga það nefnilega sameiginlegt að vera góðir þjónar en afleitir húsbændur. Þeir sem fela sjóði á aflandseyjum og í skattaskjólum – eins og alkóhólisti vodkaflösku í sokkaskúffunni eða vatnskassanum á salerninu – eru á vondum stað, þaðan sem leiðin til kærleikssamfélagsins liggur í gegnum nálarauga.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 15. október 2017

Read Full Post »


Guðspjall:
Svo er um himnaríki sem mann er ætlaði úr landi. Hann kallaði á þjóna sína og fól þeim eigur sínar. Einum fékk hann fimm talentur, öðrum tvær og þeim þriðja eina, hverjum eftir hæfni. Síðan fór hann úr landi. Sá sem fékk fimm talentur fór þegar, ávaxtaði þær og græddi aðrar fimm. Eins gerði sá er tvær fékk. Hann græddi aðrar tvær. En sá sem fékk eina fór og gróf fé húsbónda síns í jörð og faldi það. talentsLöngu síðar kom húsbóndi þessara þjóna og lét þá gera skil. Sá með fimm talenturnar gekk þá fram, færði honum aðrar fimm og sagði: Herra, fimm talentur seldir þú mér í hendur, hér hef ég grætt aðrar fimm. Húsbóndi hans sagði við hann: Gott, þú góði og trúi þjónn. Yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig. Gakk inn í fögnuð herra þíns. Þá gekk fram sá með tvær talenturnar og mælti: Herra, tvær talentur seldir þú mér í hendur, hér hef ég grætt aðrar tvær. Og húsbóndi hans sagði við hann: Gott, þú góði og trúi þjónn, yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig. Gakk inn í fögnuð herra þíns. Loks kom sá er fékk eina talentu og sagði: Herra, ég vissi að þú ert maður harður sem uppsker þar sem þú sáðir ekki og safnar þar sem þú stráðir ekki. Ég var hræddur og fól talentu þína í jörð. Hér hefur þú þitt. Og húsbóndi hans sagði við hann: Illi og lati þjónn, þú vissir að ég uppsker þar sem ég sáði ekki og safna þar sem ég stráði ekki. Þú áttir því að leggja fé mitt í banka. Þá hefði ég fengið það með vöxtum þegar ég kom heim. Takið af honum talentuna og fáið þeim sem hefur tíu talenturnar. Því að hverjum sem hefur mun gefið verða og hann mun hafa gnægð en frá þeim sem eigi hefur mun tekið verða, jafnvel það sem hann hefur. Rekið þennan ónýta þjón út í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna. (Matt 25.14-30)

 
Náð sé með ykkur öllum og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Saga ein af Helga Helgasyni hefur verið mér hugleikin síðan konan mín sagði mér hana. Hún heyrði hana í tónlistarnámi sínu sem hluta af íslenskri tónlistarsögu. Ástæða þess að þessi saga leitar alltaf til mín aftur og aftur er sú að í henni kristallast, að mínu mati, hugarfar og lífsviðhorf sem segja svo margt um þjóðina sem ég tilheyri. Hún er kannski rétt og satt dæmi um íslenska þjóðmenningu, ekki einstakt og sérstakt dæmi til að flíka á tyllidögum þegar við viljum lofsyngja hana og mæra.

helgi_helgason1848-1922-litilHelgi Helgason fæddist í Reykjavík árið 1848. Sem barn varð Helgi fyrir sterkri upplifun þegar hann heyrði í fyrsta sinn leikið á fiðlu. Á þessum árum var ekki daglegt brauð að heyra tónlist á Íslandi, tónlistarmenntun lítil sem engin og nánast ekkert tónlistarlíf.

En þessir tónar, þessi seiðandi fiðlunnar, vék ekki úr huga Helga, fátæks, reykvísks alþýðupilts sem átti þess engan kost að afla sér æðri menntunar og hann kom sér upp þeim draumi að geta leikið á fiðlu. Vandamálið var auðvitað að það var hægara sagt en gert að koma höndum yfir fiðlu í Reykjavik á miðri nítjándu öldinni.

En Helgi dó ekki ráðalaus. Hann var hagleikspiltur og þegar hann var á fermingaraldri tókst honum með elju og útsjónarsemi að smíða sér fiðlu sjálfur, af vanefnum og vanþekkingu – en á þessa fiðlu lék hann og var alsæll. Og þegar faðir hans varð þessa var, þegar hann sá ástríðu drengsins síns, dugnað hans og hæfileika – að hann hafði án þess að nokkur kenndi honum eða leiðbeindi smíðað sér fiðlu sjálfur til að geta leikið á – þá ákvað hann að kosta drenginn sinn til náms …

… í trésmíði.

Góðir trésmiðir eru hverri þjóð nauðsynlegir og Helgi var góður smiður sem smíðaði mörg merkileg hús.

En hans er minnst sem frumkvöðuls í íslensku tónlistarlífi, einkum sem brautryðjanda í starfi lúðrasveita á Íslandi. Fyrst og fremst er hans þó líklega minnst sem tónskálds, en þekktasta tónsmíð hans er ábyggilega lagið sem allir þekkja við ljóð Steingríms Thorsteinssonar, Öxar við ána.

Höfum það hugfast næst þegar við syngjum Öxar við ána að þegar höfundur lagsins var á fermingaraldri smíðaði hann sér fiðlu til að geta leikið tónlist og var í kjölfarið kostaður til náms í trésmíði. Sá undirtexti við það ættjarðarljóð gerir ekki annað en að dýpka merkingu þess.

Ísland á talentur

Þessi saga rifjaðist upp fyrir mér þegar ég fór að velta fyrir mér guðspjallstexta dagsins, en hann fjallar um þær væntingar Guðs til okkar að við ávöxtum hæfileika okkar. Guðspjallið er ekki um peninga. Talenturnar eru tákn fyrir gjafir Guðs og hvernig hann vill að við förum með þær. Enn þann dag í dag nota enskumælandi þjóðir heiti þessa forna gjaldmiðils um Guðs gjafir. Talent. Og ekki bara enskumælandi þjóðir. Vinsæll íslenskur sjónvarpsþáttur hét einmitt Ísland á talentur … eða einhverri hálfþýðingu þeirrar setningar.

island-got-talent-logoEin markverðasta og ánægjulegasta breytingin á íslenskri þjóðmenningu sem mér finnst ég hafa orðið var við á minni ævi endurspeglast einmitt í þessum sjónvarpsþætti og öðrum slíkum, hvort sem þeir heita X-Factor, The Voice eða hvað annað. Ensk heiti þáttanna benda til þess að engilsaxnesk menningaráhrif séu kannski ekki alltaf til vansa.

En breytingin er í því fólgin hvernig hin ströngu Jante-lög, sem ég ólst upp við, hafa jafnt og þétt fallið úr gildi. Jante-lögin eru auðvitað skáldskapur, en fátt er einmitt eins satt og góður skáldskapur. Þau eru hugarsmíð dansk-norska rithöfundarins Aksel Sandemose og eru í tíu liðum:

1. Ekki halda að þú sért eitthvað sérstakur.

2. Ekki halda að þú sért eins merkilegur og við.

3. Ekki halda að þú sért klárari en við.

4. Ekki telja þér trú um að þú sért betri en við.

5. Ekki halda að þú vitir meira en við.

6. Ekki halda að þú sért mikilvægari en við.

7. Ekki halda að þú sért flinkur í einhverju.

8. Ekki hlæja að okkur.

9.Ekki halda að öllum sé ekki sama um þig.

10. Ekki halda að þú getir kennt okkur eitthvað.

Ellefta greinin er refsiákvæðið: „Heldurðu kannski við vitum ekki eitt og annað um þig?“

Á íslensku birtast Jante-lögin kannski einna skýrast í setningunni „ef mig skyldi kalla“ sem konugreyið varð að láta út úr sér eftir að henni varð það á að brjóta sjöundu grein Jante-laganna, „ekki halda að þú sért flinkur í einhverju“ með því að gefa í skyn að eitthvað sem hún hafði gert væri ágætt.

Og hver kannast ekki við gömlu frænkuna sem byrjar á að biðja mann að afsaka þetta lítilræði þegar hún leiðir mann að sneisafullu veisluborði sem svignar undan ljúffengum kræsingum.

Íslensk þjóðmenning

Þegar ég var unglingur dvaldi ég eitt ár sem skiptinemi í Bandaríkjunum og það kom mér verulega á óvart þegar mér varð ljóst að þar giltu Jante-lögin alls ekki. Þau áttu sér engan stað í hugarfari eða viðhorfum fólks. Ég hafði búið í hálft ár í Bandaríkjunum þegar það bar á góma í spjalli við vini mína að söngtexti eftir mig hafði verið sunginn inn á plötu. Þetta þótti þeim merkilegt. Auðvitað hafði ég ekkert verið að segja þeim frá því bara svona upp úr þurru svo þau héldu ekki að ég væri að monta mig, ég vildi ekki að þau héldu að ég væri að þykjast vera eitthvað.

En vinum mínum sárnaði að ég skyldi ekki hafa sagt þeim frá þessu fyrr. Þeim fannst ég hafa farið á bak við þá, villt á mér heimildir.

Á áttunda áratug síðustu aldar giltu mjög ströng Jante-lög í Hafnarfirði. Hver sá sem hélt að hann væri eitthvað var samstundis leiðréttur. Og væri einhver svo óheppinn að birtast í sjónvarpinu og syngja lag … jafnvel þótt það væri gert óaðfinnanlega … var æska viðkomandi í Hafnarfirði samstundis eyðilögð með einelti og uppnefnum sem gátu elt viðkomandi alla ævi og valdið andlegum sárum sem greru seint. Jante-lögunum var framfylgt af fullkomnu miskunnarleysi og harðýðgi. Fólk var eyðilagt öðrum við viðvörunar.

Verstu spurningar sem hægt var að fá voru þessar: „Hvað þykistu vera?“ og „Hvað heldurðu að þú sért?“

Í þeim báðum felst að sá sem spyr viti nákvæmlega hvernig þú ert og ef þú gefur þig út fyrir að vera betri en hann eða merkilegri eða hæfari á einhverju sviði, ertu annað hvort að þykjast eða svo skyni skroppinn að þú haldir að þú sért eitthvað annað en þú ert.

En Guð veit hver þú ert, hver hæfni þín er, hve margar talentur hann lét þig fá. Hann vill að þú ávaxtir þær. Það geta ekki allir orðið konstertmeistarar, stórsöngvarar eða – ef út í það er farið – trésmiðir. En allir geta eitthvað og allir geta þroskað það og bætt sem þeir geta og þar með auðgað og göfgað líf annarra og fegrað umhverfi sitt.

Og Guð vill að þú gerir það.

Guð vill ekki að þú hugsir: „Þessi eina talenta mín – ef mig skyldi kalla – er ekki neins virði. Ég vil ekki að fólk haldi að ég haldi að ég sé eitthvað.“ Þá ertu í myrkri ótta og sjálfsfyrirlitningar. Þar er engin gleði, aðeins grátur og gnístran tanna.

Guð vill ekki að þú haldir að þú sért eitthvað.

Hann vill að þú vitir að þú ert eitthvað.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Read Full Post »

Guðspjall: Eftir sex daga tekur Jesús með sér þá Pétur, Jakob og Jóhannes og fer með þá upp á hátt fjall að þeir væru einir saman. Þar ummyndaðist hann fyrir augum þeirra og klæði hans urðu fannhvít og skínandi og fær enginn bleikir á jörðu svo hvítt gert. Og Elía og Móse birtust þeim og voru þeir á tali við Jesú. Þá tekur Pétur til máls og segir við Jesú: „Meistari, gott er að við erum hér. Gerum þrjár tjaldbúðir, þér eina, Móse eina og Elía eina.“ Hann vissi ekki hvað hann átti að segja enda urðu þeir mjög skelfdir. Þá kom ský og skyggði yfir þá og rödd kom úr skýinu: „Þessi er minn elskaði sonur, hlýðið á hann!“ Og jafnskjótt litu lærisveinarnir í kringum sig og sáu engan framar hjá sér nema Jesú einan. Á leiðinni ofan fjallið bannaði Jesús þeim að segja nokkrum frá því er þeir höfðu séð fyrr en Mannssonurinn væri risinn upp frá dauðum. (Mrk 9.2-9)

3_devils_dancing_by_oldjoeblind-da61zzrNáð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi.

Samtími okkar er ekki líkur neinu sem við höfum staðið frammi fyrir áður og sem slíkur lýtur hann á ýmsan hátt öðrum lögmálum en við eigum að venjast, lögmálum sem við verðum eiginlega að læra á  til að geta fótað okkur almennilega í honum.

Eitt slíkt er hið svokallaða „lögmál Poes“.

Of heimskulegt til að hæðast að

Það er kennt við Bandaríkjamanninn Nathan Poe sem setti það fram í grein þar sem hann fjallaði um deilur sköpunarsinna og þróunarsinna í Bandaríkjunum, hatrammar deilur sem ætti að vera ofvaxið skilningi hvers skynsams manns að skuli enn geisa á 21. öldinni. Lögmálið gengur út á að ekki sé hægt að skopast að eða skrumskæla málflutning sköpunarsinna án þess að háðið fari fram hjá einhverjum sem er fullkomlega sammála því sem sagt er og tekur undir það. Þetta gildir ekki bara um sköpunarsinna, þá sem lesa hið undursamlega sköpunarljóð í upphafi Fyrstu Mósebókar og guðfræði þess sem vísindaritgerð og hafna alfarið vísindalegum kenningum um náttúruval. Allar heimskulegar og öfgakenndar skoðanir eru þess eðlis að það er ekki hægt að draga dár að þeim þannig að einhver einhvers staðar fatti ekki að maður er að djóka og taki undir hvert orð.

Tökum dæmi um heimskulega skoðun: „Þar sem hundruð þúsunda Bandaríkjamanna hafa verið myrtar með skotvopnum af öðrum Bandaríkjamönnum síðastliðinn áratug er nauðsynlegt að skerða alls ekki aðgengi Bandaríkjamanna að skotvopnum.“ Hér er önnur: „Þar sem tugir Bandaríkjamanna hafa verið myrtir af hryðjuverkamönnum síðastliðinn áratug er nauðsynlegt að skerða aðgengi múslima frá öðrum löndum en þeim sem hryðjuverkemennirnir komu frá að Bandaríkjunum.“ Við getum hrist höfuðið og brosað því auðvitað er enginn svo vitlaus að sjá heila brú í svona málflutningi.

En það er ekki rétt. Milljónir kjósenda í voldugasta lýðræðisríki veraldar sjá ekkert athugavert við þessa röksemdafærslu. Og það er ekkert fyndið við það.

Það er ógnvekjandi.

Og ekki bara kjósendur … heldur sjálfur forsetinn. Forsetinn, sem sjálfur segir – samkvæmt ákveðnum heimildum – að hann vilji vera forsetinn sem fólk man eftir sem konungi.

Konungsvígslan

Það er því ágætt tilefni núna til að bera saman konunga. Því guðspjallstexti dagsins í dag er konungsvígsla. Táknmálið allt talar til samtíma síns með þeim hætti að þarna er Jesús Kristur krýndur sem konungur ljóssins og lífsins. Samtími okkar hefur að miklu leyti glatað þessu táknmáli og við sjáum aðeins mann sem lyftist frá jörðinni eins og indverskur jógi í ævintýri og ljómar eins og ljósapera.

En það er ekki það sem sagan um ummyndunina á fjallinu er um. Hún lýsir konungsvígslu.

Jesús fer upp á fjallið með félögum sínum. Fjallið er helgur staður, það er þar sem Guð talar við menn í menningarheimi frjósama hálfmánans í fornöld. Guð afhenti Móse lögmálið á fjallinu. Guð talaði við Elía á fjallinu. Eftir vígsluna steig konungur Babýlons upp á fjallið helga í borginni miðri, ziggúratið, og tók við ríki sínu. Og í öðrum Davíðssálmi segir: „Konung hef ég krýnt á Síon, mínu helga fjalli“ (Slm 2.6)

Og klæði Jesú ljóma svo skært að „enginn bleikir á jörðu [fær] svo hvítt gert“. Þetta endurspeglar líka konungsvígslu. Sagnaritarinn Jósefus, sem uppi var á fyrstu öld okkar tímatals, lýsir konungsvígslu í borgríkinu Týrus þannig að konungurinn hafi verið klæddur konungsskrúða úr silfri sem ljómaði í fyrstu sólargeislunum og fyllti lýðinn ótta og lotningu. Á milli Týrusar og Jerúsalem var gott samband og í Fyrri konungabók Gamla testamentisins er því lýst að Híram Týrusarkonungur hafi sent Salómon konungi eirsmiði og útvegað vinnuafl, verkþekkingu og hráefni til að smíða innviði musterisins í Jerúsalem.

Þótt táknheimurinn hafi tekið á sig ólík blæbrigði meðal þjóða menningarsvæðisins má ímynda sér að þær hafi átt meira sameiginlegt en sagnaritarar Gamla testamentisins hafi af pólitískum ástæðum látið í veðri vaka til að undirstrika sérstöðu Ísraelsmanna sem Guðs útvöldu þjóðar.

Það er á fjallinu sem konungurinn fæðist, í óeiginlegri merkingu, verður konungur.

Konungstitlar Jesú

Allir titlar Jesú eru konungstitlar.

„Sonur Davíðs“ er eðlilega erfingi að konungdæmi Davíðs.

„Sonur Guðs“ er konungstitill sem flestir konungar þessa menningarheims báru. Þegar Alexander mikli hafði lagt undir sig Egyptaland var honum fagnað sem syni Amons Ra. Þar sem hann var orðinn lögmætur faraó hafði hann áunnið sér sonarstöðuna – og titillinn. Í Mesópótamíu gátu konungar verið synir hinna ýmsu guða samtímis. Í öðrum Davíðssálmi, sem áður var vitnað í og margir guðfræðingar telja hafa verið litúrgískan konungsvígslusálm, segir Guð við konunginn: „Þú ert sonur minn, í dag hef ég fætt þig.“ (Slm 2.7)

„Mannssonurinn“ er óræðastur titlanna og langt mál að færa fyrir því rök að þar sé um litúrgískan konungstitil að ræða, það er að segja titil sem lýsir geistlegu hlutverki konungsins í guðveldinu frekar en því veraldlega.

Jafnvel orðið „kristur“, sem er þýðing hebreska orðsins „mashiah“ eða „messías“ í grískri umritun – er konungstitill. Í spádómsbók Jesaja er Kýrus Persakonungur, sá sem frelsaði gyðinga frá herleiðingunni til Babýlonar, kallaður „messías“, „hinn smurði Drottins“. (Jes 45.1)

Ummyndunin á fjallinu bergmálar þetta allt.

Og til að leggja áherslu á lögmæti konungsvígslunnar eru Móse og Elía viðstaddir, lögmálið og spámennirnir.

Og út á hvað ganga lögmálið og spámennirnir?

Jesús svarar því í 22. kafla Matteusarguðspjalls. Þar er Jesús spurður hvert sé hið æðsta boðorð og hann svarar:

„Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum. Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð. Annað er hliðstætt þessu: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Á þessum tveimur boðorðum hvílir allt lögmálið og spámennirnir.“ (Matt 22.37-40)

Angar illskunnar og heimskunnar

Skyldu okkar jarðnesku konungar eða forsetar sem vilja vera minnst sem konunga svara þessari spurningu á sama hátt? Eða myndu þeir segja: „Elska skaltu þjóðernið og fánann og rétt þinn til að eiga skotvopn og byggja múr á milli þín og náunga þíns og skerða frelsi hans sem mest þú mátt með hvaða hætti sem er“?

spiegel-donald-trumpSegja þeir: „Verið óhræddir“ eða segja þeir: „Verið lafhræddir og vígbúist því mesta ógnin sem að okkur steðjar eru íslamskir hryðjuverkamenn“ jafnvel þótt borðleggjandi tölfræði sýni að byssuóðir samlandar séu tugþúsundfalt líklegri til að verða einhverjum að fjörtjóni?
En við þurfum ekki að fara til hinna súrrealísku hamfara gagnvart heilbrigðri skynsemi og kristilegu siðferði, sem nýr forseti Bandaríkjanna er um þessar mundir að leiða yfir þjóð sína og heiminn, til að finna stjórnmálaleiðtoga sem finnst réttara að sýna náunganum „stálhnefa“ heldur en kærleika, finnst ekkert sjálfsagðara en að ríkisvaldið setji það á oddinn að pönkast í fólki sem er ekki fyrir neinum, er í óða önn að skapa sér örugga og friðsæla tilveru eftir hrakninga og ofbeldi sem við fæst getum ímyndað okkur og á sér þá einu ósk að vera látið í friði.

Við verðum að gæta þess að láta þann Hrunadans heimsku og illsku sem nú dunar í Bandarísku stjórnmálalífi ekki blinda okkur fyrir þeirri staðreynd að angar heimskunnar og illskunnar teygja sig víðar og að þeirra verður vart nær okkur en okkur finnst þægilegt að horfast í augu við.

Tveir ólíkir Íranar

Við getum fárast yfir þeirri staðreynd að íslenskum landsliðsmanni í taekwondo hafi verið meinað fara til Bandaríkjanna og keppa þar fyrir Íslands hönd fyrir þá sök eina að hafa fæðst í Íran. Það er full ástæða til að misbjóða það.

En látum hneykslun okkar á því ekki yfirskyggja að nú í þessari viku var karlmaður numinn á brott frá heimili sínu hér í þessari sókn, skilinn að frá sambýlismanni sínum og ástmanni og sendur með valdi til erlends ríkis – þar sem hann hafði verið beittur ólýsanlegu ofbeldi – fyrir þá sök eina að hafa fæðst í þessu sama Íran og vera ekki afreksíþróttamaður. Hann er samkynhneigður og fari svo að hann verði fluttur hreppaflutningum aftur til Íran, þar sem engum vafa er undirorpið að samkynhneigðir hafa ástæðu til að óttast um líf sitt, þarf varla að spyrja að leikslokum. Og fari svo mun engin Pílatusarþvottur geta þvegið blóð hans af höndum íslenskra stjórnvalda.

Ekki bandarískra.

Íslenskra.

Heimskan og illskan stíga nefnilega dans nær okkur en okkur finnst þægilegt að kannast við og það er ekki bara hinn þröngsýni og fáfróði hluti almennings sem klappar með. Meðal þeirra sem slá taktinn er fólk sem gegnir ábyrgðarstöðum í þágu lands og þjóðar.

Ekki Bandaríkjanna og Bandaríkjamanna heldur Íslands og Íslendinga.

Annar konungur

En texti dagsins minnir okkur á að við eigum okkur annan konung, konung ljóss og lífs. Ekki hraðlyginn, hrokafullan og hörundsáran narkissista heldur bróður sem bjó með okkur fullur náðar og sannleika og gekk út í opinn dauðann fyrir okkur.

Sá konungur situr ekki á þingi eða í stjórnarráðinu. Þaðan af síður í dómsmálaráðuneytinu eða útlendingastofnun.

Hann situr við hægri hönd Guðs föður almáttugs.

Og mun þaðan koma að dæma lifendur og dauða.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 5. febrúar 2017

Read Full Post »


Guðspjall:
Jesús kom til Jeríkó og gekk gegnum borgina. En þar var maður er Sakkeus hét. Hann var yfirtollheimtumaður og auðugur. Langaði hann að sjá hver Jesús væri en tókst það ekki fyrir mannfjöldanum því að hann var lítill vexti. Hann hljóp þá á undan og klifraði upp í mórberjatré til að sjá Jesú, en leið hans lá þar hjá. Og er Jesús kom þar að leit hann upp og sagði við hann: „Sakkeus, flýt þér ofan, í dag ber mér að vera í húsi þínu.“ Hann flýtti sér ofan og tók á móti honum glaður. Þeir er sáu þetta létu allir illa við og sögðu: „Hann þiggur boð hjá bersyndugum manni.“ En Sakkeus sneri sér til Drottins og sagði við hann: „Drottinn, helming eigna minna gef ég fátækum og hafi ég haft nokkuð af nokkrum gef ég honum ferfalt aftur.“ Jesús sagði þá við hann: „Í dag hefur hjálpræði hlotnast húsi þessu enda ert þú líka niðji Abrahams. Því að Mannssonurinn er kominn að leita að hinu týnda og frelsa það.“ (Lúk 19.1-10)
sakkeus

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Sagan um Sakkeus er skemmtileg. Hún er myndræn, hefur skýra framvindu og endar á óvæntum snúningi – í bókstaflegri merkingu.

Það er einkum við tvenns konar tilefni sem sagan af Sakkeusi er lesin og stuðst við hana í helgihaldi.

Annað tilefnið er barnastarf. Börn eiga auðvelt með að setja sig í spor Sakkeusar. Þau tengja við þetta vandamál, að vera of lítill og þurfa príla upp á eitthvað til að sjá. Til er vinsælt barnalag um Sakkeus, „Hann Sakkeus var að vexti smár“, og gaman er að leika þessa sögu. Sá sem leikur Sakkeus fær að príla.

Hitt tilefnið er við húsblessun. Þegar húsnæði er blessað er sagan af Sakkeusi einn þeirra ritningartexta sem handbókin leggur til að sé lesinn. Og hvers vegna skyldi það vera?

Það er til að minna okkur á að það er ekki endilega virðulegasta húsið í bænum þar sem Jesú er að finna. Það er ekki endilega þar sem talað er hæst og oftast um Guð sem hans verður mest vart.

Avery Jackson

Fyrir skömmu las ég grein um bandaríska fjölskyldu. Hjónin eiga dreng sem virðist vera stúlka í líkama pilts. Foreldrar þessarar transstúlku ákváðu að leyfa barninu sínu að ákveða kynferði sitt sjálft, eftir miklar sálarkvalir yfir andlegri vanlíðan þess og hvað væri til ráða. Nú ala þau drenginn sinn upp sem stúlku, hann eða hún klæðir sig eins og stúlka og er á allan hátt stúlka – nema auðvitað líffræðilega. En barnið er níu ára, það hefur nægan tíma til að skipta um skoðun áður en kynleiðréttingarferli hefst með hormónagjöf og seinkun kynþroska og – ef vill – kynleiðréttingaraðgerð. Nú líður barninu vel og allir eru hamingjusamir – eða hvað?

Ekki alveg.

Hið virta tímarit National Geographic ákvað að birta mynd af Avery Jackson, en svo nefnist stúlkan, á forsíðu tölublaðs þar sem fjallað er um nýjustu rannsóknir á kynáttun og kyngervi fólks. Það hafði þær afleiðingar að nú berast fjölskyldu hennar með reglulegu millibili bréf með svívirðingmu og jafnvel morðhótunum – frá fólki sem segist vera kristið og að Jackson fjölskyldan sé viðbjóðsleg í augum Guðs og því réttdræp.

Morðhótanir í Jesú nafni

Það hvarflar ekki að mér að efast um að þeir sem senda þessi bréf séu sannfærðir um að þeir séu að gera rétt. Auðvitað eru þeir vissir um að þeir séu að vinna verk Guðs, að þeir hafi sannleikann sín megin. Það er nefnilega hægt að gapa um Guð og kærleika í þeirri sannfæringu að maður sé í alveg sérstöku uppáhaldi hjá himnaföðurnum á meðan heimsmynd manns er svo brothætt að maður finnur sig knúinn til að skrifa morðhótun til þeirra sem ögra henni.

Nú ætla ég ekki að fullyrða hér og nú að ekkert sé við það að athuga hvernig brugðist hefur verið við kynáttunarvanda Avery litlu. National Geographic hefur sætt gagnrýni fyrir  umfjöllun sína. En það er ekki mitt að dæma. Ég er ekki sálfræðingur, geðlæknir eða kynfræðingur, hvað þá þvagfæraskurðlæknir. Ég hef ekkert vit á þessu.

En ég er guðfræðingur og kristinn maður og ég tel mig hafa vit á öðru, til dæmis því að kristið fólk sendir ekki morðhótanir. Ég veit að Kristur sagði: „Dæmið ekki og þér munuð eigi verða dæmd.“ (Lúk 6.37), „Á því munu allir sjá að þér eruð lærisveinar mínir að þér berið elsku hver til annars.“ (Jóh 13.35), „Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra það hafið þér gert mér.“ (Matt 25.40) og „Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður það skuluð þér og þeim gera.“ (Matt 7.12) og þannig mætti lengi telja. Auðvitað er það ofvaxið mínum skilningi að manneskja skuli telja sig geta hótað meðbræðrum sínum ofbeldi og líkamsmeiðingum í Jesú nafni.

Orðin tóm

Nei, Guð er ekki alltaf að finna þar sem nafn hans er hrópað hæst. Enda segir Jesús á öðrum stað: „Ekki mun hver sá sem segir við mig: Drottinn, Drottinn, ganga inn í himnaríki heldur sá einn er gerir vilja föður míns sem er á himnum.“ (Matt 7.21)

Sakkeus kom ekki á móti Jesú berjandi sér á brjóst, hrópandi „Drottinn, Drottinn!“

Hann þyrsti í að fá að sjá frelsarann og þar sem hann var svo smár vexti að það kom í veg fyrir að hann gæti það með sama hætti og aðrir greip hann til þess ráðs að klifra upp í tré. Og Jesús sá hann. Jesús sá löngun hans til að sjá sig. Og Jesús gaf sig að honum og sagði: „Í dag ber mér að vera í húsi þínu.“

Og þannig er það enn þann dag í dag. Ef þú berð þig eftir því að sjá Jesú, ef þú ert reiðubúinn til að leggja eitthvað meira á þig til þess en það eitt að standa álengdar og góna í skjóli hinna, þá sér Jesús þig og hann gefur sig að þér og hann mun verða í húsi þínu.

Jesús og bókhaldið

Samborgarar Sakkeusar fyrirlitu hann. Þeir fyrirlitu það með hvaða hætti hann hafði komist í álnir. Hann var tollheimtumaður. Tollheimtumenn innheimtu skatta fyrir rómverska heimsveldið og smurðu ofan á þá. Það var þóknun þeirra. Sakkeus var auðugur segir í textanum svo ímynda má sér að hann hafi verið duglegur við að bæta hvers konar umsýslukostnaði, stimpilgjöldum, þjónustugjöldum og öðru slíku við það sem hann innheimti.

En Jesús spurði ekki um það. Jesús bað ekkert um að fá að sjá bókhaldið hjá Sakkeusi. Það að Jesús gaf sig að Sakkeusi olli aftur á móti stakkaskiptum í lífi hans og þankagangi. Þar kemur snúningurinn. Sakkeus sýnir iðrun og gerir yfirbót. „Helming eigna minna gef ég fátækum og hafi ég haft nokkuð af nokkrum gef ég honum ferfalt aftur,“ segir hann. Jesús bað hann ekkert um það. Hann sagðist aðeins myndu dvelja í húsi hans. Dvöl hans var ekki háð því skilyrði að Sakkeus gerði upp bókhaldið sitt.

En þetta er það sem gerist þegar Jesús dvelur hjá þér. Þú ferð yfir bókhaldið þitt sjálfur. Og hér er ég ekki að tala um peninga. Ég er að tala um lífsins bók.

Og þess vegna á þessi saga erindi við okkur nú tvöþúsund árum síðar. Þetta er ekki einangraður atburður sem átti sér stað í fjarlægum heimshluta fyrir löngu síðan. Þetta er eilífur sannleikur sem á sér stað enn þann dag í dag.

Ef þú berð þig eftir því að sjá Jesú þá sér hann það og hann kemur til þín.

Og því fylgir uppgjör.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögu anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 15. 1. 2017

Read Full Post »

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 18. 12. 2016 

Lexía:

Sjá, Guð er hjálp mín,
ég er öruggur og óttast ekki.
Því að Drottinn er vörn mín og lofsöngur,
hann kom mér til hjálpar.
Þér munuð með fögnuði vatni ausa
úr lindum hjálpræðisins.
Á þeim degi munuð þér segja:
Lofið Drottin, ákallið nafn hans.
Gerið máttarverk hans kunn meðal þjóðanna.
Hafið í minnum að háleitt er nafn hans.
Lofsyngið Drottni því að dásemdarverk hefur hann gert,
þau verða þekkt um alla jörð. (Jes 12.2-5)
fist_cross

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Mér þykir vænt um lexíu dagsins í dag. Sérstaklega þetta orðasamband, „lindir hjálpræðisins“. „Þér munuð með fögnuði vatni ausa úr lindum hjálpræðisins,“ segir spámaðurinn Jesaja. Þetta talar til mín.

Persónulegt samband

Einu sinni var ég í atvinnuviðtali og var spurður: „Hvað merkir skírnarfonturinn fyrir þér?“ Ekki: „Útskýrðu fyrir okkur táknfræði skírnarinnar og merkingu skírnarsakramentisins.“ Heldur „Hvað merkir skírnarfonturinn – fyrir þér?“ Algerlega óundirbúið. Það fyrsta sem kom upp í huga minn var „lind hjálpræðisins“. Og mér finnst það fallegt. Að því að ganga Jesú Kristi á hönd fylgi léttir eins og sár þorsti sé slökktur og að hið tæra, vígða vatn skírnarlaugarinnar tákni þá svölun.

Reyndar fékk ég ekki embættið, en ég held að það hafi ekki verið út af þessu svari.

Ég er alls ekki einn um að vera í sérstöku vinfengi við þennan texta og ég skal viðurkenna að ég kynntist honum ekki í guðfræðinámi mínu heldur uppi í Vatnaskógi þar sem ég starfaði sem biblíufræðari eitt haustið. Í Vatnaskógi hefur þessi texti verið klappaður í stein. Í bókstaflegri merkingu. Þetta var einn eftirlætisritningarstaða séra Friðriks Friðrikssonar og í Vatnaskógi er uppspretta í rjóðri skammt frá kapellunni þar sem er brjóstmynd af séra Friðrik og þessi ritningarstaður er grafinn í stein þar við lindina: „Þér munuðu með fögnuði vatni ausa úr lindum hjálpræðisins.“ Það var gott eftir að erli dagsins var lokið að rölta út í þennan lund, setjast við lindina í bjartri sumarnóttinni og eiga hljóða stund með almættinu. Ég á í ákveðnu persónulegu ástarsambandi við þennan texta. Mér finnst þetta dýrðlegur vonarboðskapur.

Voveiflegur atburður

Í síðustu viku varð sá sorglegi atburður að hælisleitandi, sem gripið hafði til þess örþrifaráðs að hella yfir sig bensíni og kveikja í sér lést af sárum sínum. Hann var á þrítugsaldri og frá Makedóníu. Það er alvarlegt mál að saka einhvern um að hafa mannslíf á samviskunni og það vil ég forðast. Sá sem tekur líf sitt ber einn ábyrgð á þeim verknaði. En aðstæður þessa ógæfusama ungmennis voru á ábyrgð íslensks samfélags. Þeim sem til þekkja ber saman um að hann hafi sýnt af sér einkenni alvarlegs þunglyndis, örvæntingar og vonleysis um alllanga hríð þannig að í raun hafi verið fyrirsjáanlegt að þetta gæti ekki endað öðruvísi en voðalega ef ekki væri gripið í taumana. Enda fór það þannig. Ekki var gripið í taumana, jafnvel þótt vinir hans hafi farið þess á leit við yfirvöld að það yrði gert. Á endanum varð örvænting hans algjör og hann stytti sér aldur með þessum hroðalega hætti í kjölfar þess að honum var synjað um landvistarleyfi.

Ég ætla ekki að fullyrða hér að hann hefði átt að fá landvistarleyfi. Ég veit ekkert um það. En ég ætla að fullyrða að hann hefði átt að fá þá aðstoð sem hann þurfti til að ráða fram úr sálarangist sinni. Við berum ábyrgð á því að svo var ekki.

Einni viku eftir að þetta átti sér stað er það embættisskylda mín að tala við ykkur hér um lindir hjálpræðisins. Ef ég stæði ekki hér og talaði heldur sæti á kirkjubekknum og hlustaði myndi ég vilja fá að vita hvar þessar lindir hjálpræðisins voru fyrir þennan unga mann. Hverjir jusu með fögnuði úr þeim fyrir hann? Hvernig get ég staðið hér og sagt „þið munuð með fögnuði vatni ausa úr lindum hjálpræðisins“ í samfélagi þar sem aðgangssstýringin að þessum lindum er með þeim hætti að sumir fuðra upp af hreinni örvæntingu án þess að nokkur ausi svo miklu sem einum dropa úr þessum lindum þeim til hjálpræðis?

Ég get það ekki.

Og mér sárnar það.

Hvellandi bjalla

Mér sárnar að þessi fallegi texti sem stendur hjarta mínu svo nærri láti í eyrum eins og hljómandi málmur eða hvellandi bjalla þegar hann er settur í samhengi við líðandi stund.

Lexía dagsins í dag er hvorki hljómandi málmur né hvellandi bjalla. Hún er full af kærleika.

Ég hef séð sáran þorsta slökktan í lindum hjálpræðisins.

Ég sjálfur tel mig hafa fundið svölun í þeim.

En manni getur sárnað.

Mér sárnar að heyra stjórnmálamenn tala um að Íslendingar hafi aldrei haft það betra á sama tíma og á þriðja þúsund manns þurfa aðstoð yfir jólin og 860 fjölskyldur hafa sótt um mataraðstoð hjá Fjölskylduhjálp Íslands. Í þessum fjölskyldum eru mörghundruð börn.

Ef ég væri fjármálaráðherra með bókhald ríkisins fyrir framan mig myndi þetta eflaust horfa svona við mér, ég efa það ekki. En ég er ekki fjármálaráðherra. Ég er sóknarprestur og fyrir framan mig er ekki ríkisbókhald í blússandi plúsi heldur lifandi fólk sem er að biðja um hjálp til að geta haldið jól.

Það hryggir mig að hér á landi skuli fólk búa við þannig aðstæður að því vöknar um augu af þakklæti við að þiggja hamborgarhrygg og gosdrykki að gjöf því það þýðir að þau geta gert sér dagamun í mat og drykk á fæðingarhátíð frelsarans. Mér sárnar að þannig sé búið að öryrkjum í þessu landi, þar sem stjórnmálamenn tilkynna okkur að það sé „fullt af peningum þarna úti“, að það að fá Bónuskort með nokkur þúsund króna innistæðu að gjöf frá kirkjunni – frá ykkur og samskotum ykkar hér í kirkjunni – skuli gera gæfumuninn fyrir hátíðirnar hjá þeim á sama tíma og ekki er hægt að veita meira fjármagni í málaflokkinn af því að skattar eru ofbeldi, en ekki það hvernig búið er að þeim verst settu hér í landi allsnægtanna.

Það að stór hópur Íslendinga skuli vera háður matargjöfum er ofbeldi. Það hvernig við tökum á móti fólki, sem hingað kemur um langan veg í þeim tilgangi einum að skapa sér og fjölskyldum sínum betra líf og verða nýtir borgarar, er ofbeldi. Að standa aðgerðarlaus álengdar og horfa á einstakling fyllast hægt og hægt af svo mikilli örvæntingu að öllum má vera ljóst að það getur ekki endað öðruvísi en með ósköpum, er ofbeldi. Skeytingarleysið og sinnuleysið er hreint og klárt ofbeldi.

Sælla er að gefa en þiggja

Svo sanngirni sé gætt þá kemur fólk ekki bara hingað í kirkjuna á aðventunni til að biðja um hjálp. Hingað kemur líka fólk til að bjóða hjálp og biður kirkjuna um að hafa milligöngu um að koma henni þangað sem hennar er þörf. Og það gerum við með fögnuði. Það er með fögnuði sem við hjálpum hinum hjálpar þurfi, við afhendum Bónuskort og hamborgarhryggi með fögnuði. Við tökum við þakklæti þeirra sem þiggja með fögnuði og skilum því þangað sem það á heima með fögnuði.

En svo ég sé fullkomlega hreinskilinn og tali bara hreint út fyrir sjálfan mig: Ég geri það líka með sorg í hjarta.

Í huga mér hljóma nefnilega orð brasílíska erkibiskupsins Helders Camara sem sagði:

„Þegar ég gef hinum fátæku brauð er ég kallaður dýrlingur. Þegar ég spyr af hverju þeir fátæku eigi ekki fyrir brauði er ég kallaður kommúnisti.“

Auðvitað er gefandi að þjóna kirkju sem er í hlutverki dýrlingsins. En ég veit ósköp vel að sjálfur er ég enginn dýrlingur. Það þarf ekkert að minna mig á það.

Þess vegna langar mig miklu frekar að tilheyra kirkju sem er – svo ég haldi mig við skilgreiningar föður Helders Camara – í hlutverki kommúnistans og spyr: „Af hverju er þetta svona?“

Hlutverk kommúnistans

Af hverju er fólk á meðal okkar sem er ekki sinnt betur en svo að það styttir sér aldur með hroðalegum hætti án þess að fá nokkurn tímann þá aðstoð sem er himinhrópandi augljóst að það er í sárri þörf fyrir? Af hverju er það hlutverk kirkjunnar að skipuleggja sætaferðir fyrir öryrkja að þiggja ölmusu? Af hverju þarf fullfrískt fólk sem er í fullri vinnu að leita til kirkjunnar eftir fjárhagsaðstoð af því að það á ekkert afgangs til að geta haldið jól?

Og síðast en kannski ekki síst: Hvernig voga ráðamenn sér að halda því fram að þjóð hafi aldrei haft það betra þar sem þetta er daglegur raunveruleiki þúsunda og fráleitt sé rétta hag þeirra með hærri sköttum á tekjur sem eru hærri tvær og hálf milljón á mánuði eða leggja frekari gjöld á fyrirtæki sem ár hvert skila eigendum sínum milljarða arðgreiðslum?

Við erum kirkjan, við öll – allir sem henni tilheyra. Hvernig væri að við spyrðum þessara spurninga? Hvernig væri að við hættum að klappa okkur sjálfum á bakið fyrir það hvað við erum góð hver jól að setja plástur á þetta opna samfélagssár og brettum í staðinn upp ermar og saumuðum það saman – lokuðum því?

Þá værum við í raun og sann að ausa vatni úr lindum hjálpræðsins. Og það myndi ég að minnsta kosti gera með sönnum fögnuði og enga sorg í hjarta.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Read Full Post »

ten-virginsGuðspjall: Enn sagði Jesús: „Þá er líkt um himnaríki og tíu meyjar sem fóru til móts við brúðgumann með lampa sína. Fimm þeirra voru fávísar en fimm hyggnar. Þær fávísu tóku lampa sína en höfðu ekki olíu með sér en hinar hyggnu tóku olíu með á könnum ásamt lömpum sínum. Nú dvaldist brúðgumanum og urðu þær allar syfjaðar og sofnuðu. Um miðnætti kvað við hróp: Brúðguminn kemur, farið til móts við hann. Þá vöknuðu meyjarnar allar og tóku til lampa sína. En þær fávísu sögðu við þær hyggnu: Gefið oss af olíu yðar, það er að slokkna á lömpum vorum. Þær hyggnu svöruðu: Nei, hún nægir aldrei handa öllum. Farið heldur til kaupmanna og kaupið handa yður. Meðan þær voru að kaupa kom brúðguminn og þær sem viðbúnar voru gengu með honum inn til brúðkaupsins og dyrum var lokað. Seinna komu hinar meyjarnar og sögðu: Herra, herra, ljúk upp fyrir oss. En hann svaraði: Sannlega segi ég yður, ég þekki yður ekki. Vakið því, þér vitið ekki daginn né stundina. (Matt 25.1-13)

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Síðastliðinn þriðjudag settist ég við tölvuna og athugaði hver væri guðspjallstexti dagsins í dag. Í ljós kom að hann var dæmisagan um meyjarnar tíu. Textinn talaði ekkert sérstaklega til mín þá. Þetta er nokkuð klassísk eskatólógísk dæmisaga. Þá á ég við að viðfangsefnið er dómurinn og hinir hinstu dagar. Boðskapurinn er sá að maður á alltaf að vera viðbúinn, í raun lifa hvern dag eins og hann væri manns síðasti því enginn veit sitt skapadægur.

Marteinn Lúter á einhvern tímann að hafa verið spurður hvað hann myndi gera ef hann vissi að hann myndi deyja á morgun. Hann á að hafa svarað: „Ef ég hafði hugsað mér að planta fíkjutré myndi ég planta fíkjutré.“ Og auðvitað er þetta málið. Ef þú þarft að fara út um allan bæ til að ganga frá lausum endum, sættast við þennan eða hinn eða gera upp einhver mál … þá hefurðu ekki hagað lífi þínu skynsamlega.

Ég velti því aðeins fyrir mér hvernig ég gæti talað um þetta efni þannig að það hefði einhverja vísun í stað og stund, að það talaði inn í aðstæður okkar í dag. Hvaða erindi eiga dapurlög örlög þessara fimm fávísu meyja við okkur hér og nú?

Ég gafst upp á að finna á því flöt, treysti því að mér myndi leggjast eitthvað til og fór að sofa.

Svo kom miðvikudagsmorgunn.

Fréttin sem skók heimsbyggðina

Óhætt er að segja að miðvikudagsmorguninn hafi fært fréttir sem skóku heimsbyggðina. Maður sem virtist  fyrst og fremst byggja kosningabaráttu sína á útlendingaandúð og naut opinbers stuðnings Ku Klux Klan, maður sem hvatti til ofbeldis og lofaði því að næði hann kjöri myndi mannréttindabrotum Bandaríkjastjórnar fjölga til muna, maður sem telur hlýnun jarðar af mannavöldum vera samsæri Kínverja gegn Bandaríkjunum og hefur heitið að stórauka brennslu og vinnslu jarðefnaeldsneytis og draga Bandaríkjamenn út úr Parísarsamkomulaginu … verður næsti leiðtogi stærsta hernaðar- og kjarnorkuveldis mannkynssögunnar.

Og allt í einu urðu fávísu meyjarnar fimm að samtímamönnum mínum. Konan sem fór út með lampann sinn í Palestínu fyrir tvöþúsund árum en hafði ekki rænu á að taka með olíu á hann gengur aftur í kjósandanum í Flórida sem finnst mikilvægara að losna við múslimina og mexíkanana úr hverfinu sínu heldur en að gera eitthvað til að koma í veg fyrir að hverfið sökkvi í sæ.

Mig langar ekki til að falla í þá gryfju sem skopmyndateiknarinn Halldór Baldursson lýsti svo stórkostlega í teikningu nú í vikunni þar sem tveir hipsterar sitja á kaffihúsi og annar segir við hinn:

„Við upplýsta og gáfaða fólkið þurfum að fara í djúpa sjálfsskoðun til að greina af hverju allt ótrúlega heimska og ómenntaða fólkið er með svona fávitalegar skoðanir.“

En ég tel alveg ljóst að stærsta frétt vikunnar sé ekki góð og að það sé skylda okkar að horfast í augu við það.

Heimskan og hatrið

Ég held að fólk sé ekki illt í eðli sínu. Kjósandinn í Florida er ekki vond manneskja. En það er hægt að ala á ótta og tortryggni þannig að venjulegt fólk verður fært um svívirðilegustu grimmdarverk. Um það geymir sagan sorglega mörg dæmi.

Meyjarnar fimm voru fávísar. Þær treystu því að þær þyrftu ekki að hugsa, ekki að hugsa fyrir hlutunum, að séð yrði fyrir þeim með þeim afleiðingum að það slökknaði á ljósinu þeirra og þær urðu óupplýstar. Táknmálið er augljóst.

Það er voðalega þægilegt að þurfa ekki að hugsa. Það er ákveðinn léttir í því að geta bara pakkað sjálfstæðri hugsun ofan í kassa og fylgt einhverri stefnu, einhverjum foringja, og fundið tilgang í slagorðum og upphrópunum.

Svona umgangast sumir meira að segja kristindóminn. Samt varar Jesús okkur við þannig þankagangi. Í einni af þekktari ræðum sínum segir hann:

„Þér eruð salt jarðar. Ef saltið dofnar með hverju á að selta það? Það er þá til einskis nýtt, menn fleygja því og troða undir fótum.“ (Matt 5.13)

Það er engin tilviljun að gríska sögnin „moronizomai“, sem hér merkir „að dofna“ hafði líka aðra merkingu í grísku þess tíma: „að forheimskast“. Sú merking lifir enn í nafnorði sem myndað er af sama stofni: Moron. Hálfviti. Jesús segir við okkur: „Ef þið forheimskist verðið þið fótum troðin.“

Kannski er það einmitt þessi mannlegi veikleiki, sem við getum kallað hugsunarleysi, andlega leti, en líka einfaldlega heimsku, sem er mesta ógnin sem við stöndum frammi fyrir núna.

Heimskan hættulegri en illskan

 „Heimskan er háskalegri óvinur hins góða heldur en illskan,“

skrifaði þýski guðfræðingurinn Dietrich Bonhoeffer í bréfi um áramótin 1942 – 1943. Hann var þá í fangelsi en hann hafði verið handtekinn fyrir andspyrnu við ógnarstjórn nasista og fyrir að gagnrýna opinberlega útrýmingarherferð þeirra á hendur gyðingum. Bonhoeffer var tekinn af lífi af nasistum árið 1945, innan við mánuði áður en Þjóðverjar gáfust upp.

En í bréfinu heldur hann áfram og útskýrir þessa fullyrðingu sína:

„Hinu illa má mótmæla,“ segir hann. „Það verður auðveldlega afhjúpað, ef í hart fer er hægt að stemma stigu við því með valdi, hið illa felur alltaf í sér sjálfseyðileggingu með því að það skilur ávallt eftir sig vanlíðan meðal fólks. Gegn heimskunni erum við varnarlaus. Gegn henni duga hvorki mótmæli né vald; ástæður skipta engu máli; staðreyndum, sem eru andstæðar eigin fordómum, þarf einfaldlega ekki að trúa – í slíkum tilvikum verður hinn heimski meira að segja gagnrýninn.“

Síðar í bréfinu segir hann:

„Hinn heimski er oft þrjóskur, en það leynir samt ekki ósjálfstæði hans. Þvert á móti finnur maður það í samtali við hann að maður er ekki að tala við hann sjálfan, við hann persónulega, heldur við slagorð, yfirlýsingar o.s.frv. sem hafa náð valdi yfir honum. Honum er ekki sjálfrátt, hann er blindaður, í reynd hefur hann verið misnotaður, honum hefur verið misþyrmt. Þegar hinn heimski hefur þannig verið gerður að viljalausu verkfæri er hann einnig fær um að vinna illvirki og jafnframt ófær um að skynja hið illa.“

Bonhoeffer skrifaði á þýsku, texti hans er hér í þýðingu dr. Gunnars Kristjánssonar.

Ótti og hugrekki

Við þessi orð Bonhoefers er litlu hægt að bæta.

Mig langar þó að segja – ef einhverjum líður eins og ég sé hér að ala á ótta … við ótta og heimsku – að það er ekki það sem fyrir mér vakir. Mig langar til að ala á hugrekki. Fyrir mér er hugrekki ekki í því fólgið að þekkja ekki ótta. Sá sem ekki þekkir ótta hefur ósköp lítil not fyrir hugrekki. Við þurfum hugrekkið einmitt til að sigrast á óttanum.

Verum hugrökk því hrætt fólk gerir ljóta hluti. Hugrakkt fólk breytir heiminum.

Verum ekki heldur svo barnaleg að afgreiða þá, sem orðið hafa heimskunni og óttanum að bráð, sem vont fólk. Sýnum þeim það kristilega viðmót sem Bonhoeffer gerir svo vel grein fyrir í bréfi sínu; að skilja að þau eru fórnarlömb blekkinga og siðferðilegrar misnotkunar. Þeim er ekki sjálfrátt, þau hafa verið gerð að viljalausum verkfærum ótta síns.

Og umfram allt: Verum ekki fávís. Verum hyggin. Verum eins og meyjarnar sem höfðu vit á því að taka með sér olíu á lampana sína þannig að við getum verið ljós í myrkri heimsku og haturs.

Fáir eru þeirrar skoðunar að atburðir vikunnar boði betri tíma. Margir þeldökkir og islamskir Bandaríkjamenn hafa beinlínis lýst því yfir að úrslit forsetakosninganna geri þá skelfingu lostna enda er hatursglæpum þegar tekið að fjölga í Bandaríkjunum og búast má við því að sú þróun haldi áfram; að heimskunni finnist hún hafa öðlast tilverurétt og lögmætingu. Við megum búast við því að fá mörg tilefni til að finna fyrir ótta og óhug á næstunni.

En það þýðir líka að við fáum mörg tækifæri til að sýna hugrekki. Mörg tækifæri til að sigrast á ótta og hatri og láta kærleika og umburðarlyndi í staðinn ráða för okkar.

Og munum ef öll sund virðast lokuð, ef okkur líður eins og vitfirringin hafi tekið völdin, að illskan og heimskan ráði öllu og kærleikurinn hafi verið negldur á kross … að ef það er eitthvað sem við kristnir menn megum aldrei gefast upp á að trúa þá er það að kærleikurinn verður ekki krossfestur.

Hann rís upp aftur.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem er í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt við messu í Laugarneskirkju 13. 11. 2016

Read Full Post »

Older Posts »