Feeds:
Færslur
Athugasemdir

Archive for the ‘Bakþankar’ Category

angry-old-manÉg ætti að vera latur og værukær. Ég er kominn á sextugsaldur, er í góðri stöðu og á fallegt heimili. Ég á meira að segja barnabörn. Ég ætti að vera vaxinn upp úr hlutverki reiða, unga mannsins. Eftir öll þessi ár finnst mér ég eiga það inni að fá að slaka á og láta yngri kynslóðum eftir eldmóðinn og hugsjónirnar til að breyta heiminum.

Vandamálið er að ég er eldri en margir ráðamanna þjóðarinnar og þeir virðast flestir hverjir neita eindregið að leika það hlutverk sem yngri kynslóðum er ætlað í mínum huga.

Þannig tilkynnir ráðherra mér að ég sé einfaldlega geðveikur af því að ég verð var við það í vinnunni að það hafa það ekki allir gott á Íslandi. Það að mér gremjist að fólk með rétt sambönd fái tugmilljóna lán afskrifuð á sama tíma og aðrir eru bornir með valdi út úr húsum sínum og heimilum fyrir mun minni sakir er skilgreint sem úrkynjun – öfundargen sem hrjáir þá sem ekki njóta góðs af forréttinda- og afætugenum.

Og ég finn reiðina blossa upp í mér.

Þetta átti ekki að vera svona.

Mín kynslóð átti ekki að ganga berserksgang spillingar og hroka þegar hún væri komin á þann virðulega aldur að vera falin stjórnun landsins.

Reiði mín ristir dýpra en svo að það sé bara réttlætiskennd mín eða siðferðiskennd sem er misboðið. Það er bara toppurinn á ísjakanum.

Það er trú mín á mannkynið sem er í húfi.

Ef þetta er það sem mín kynslóð og sú næsta á eftir lögðu af mörkum, hvaða von er þá til þess að nokkur kynslóð – barna minna eða barnabarna – fuðri ekki líka upp á báli siðblindrar sérhygli?

Kannski er ég bara eigingjarn. Kannski gremst mér bara að stjórn landsins skuli vera í þannig höndum að ég þurfi að vera reiður, gamall maður í stað þess að geta verið latur og værukær eins og var planið.

Bakþankar í Austurlandi 12. 1. 2017

Read Full Post »

Í apríl 2006 birtust mínir fyrstu Bakþankar hér í blaðinu. Síðan hefur margt breyst til hins betra í lífi mínu. Það eina, sem ég man í svipinn eftir að breyst hafi á verri veg, er tilfinning mín í garð þessara skrifa. Lengst af hlakkaði ég til að færa vangaveltur mínar í letur og koma þeim á framfæri í svo víðlesnum fjölmiðli. Upp á síðkastið hefur þetta aftur á móti orðið að hálfgerðri kvöð og núorðið er ekki laust við að ég finni fyrir vægri kvíðaröskun í hvert skipti sem ég sest við tölvuna.

„Hvernig verður þetta nú rangtúlkað, snúið út úr því og það lagt út á versta veg?“ „Hvaða mannvonska, níðingsháttur eða jafnvel kynferðislega óeðli verður lesið inn í þessa hugleiðingu?“ Í seinni tíð hef ég einhvern veginn ekki getað komist hjá því að velta þessu fyrir mér í hvert sinn sem ég ýti á „senda“.

Ég finn nefnilega í síauknum mæli fyrir því að þeir, sem verða fyrir gagnrýni eða aðfinnslum, taka því sem persónulegri árás. Ef mér finnst feministar ganga of langt er ég kynferðislega brenglaður hórkarl. Ef ég fíla ekki ungan tónlistarmann er ég hatursfullur karlfauskur. Ef mér finnst of dökk mynd dregin upp er ég veruleikafirrtur skýjaglópur. Auðvitað væri auðvelt að komast hjá þessu með því að gæta þess að segja aldrei neitt sem mögulega gæti komið illa við einhvern. En þá er líka alveg eins gott að þegja bara, því þá er maður ekki að segja neitt sem ástæða er til að hafa orð á. Lífið er of stutt til að eyða því í tilgangslausan vaðal.

Ég hef fengið vinnu sem felur það í sér að vera með ókunnugu fólki á viðkvæmum augnablikum auk þess að annast kristilegt barna- og unglingastarf. Ég hef metnað fyrir því. Ég hef engan metnað fyrir því að vera helsti „bátaruggarinn“ eða „enfant terrible“ í opinberri umræðu á Íslandi, kyndilberi pólitískrar ranghugsunar. Ég nenni því ekki.

Þegar aukavinna, sem ég hef lítinn metnað fyrir, fer að há mér í því, sem ég hef köllun til að gera, er valið því auðvelt. Ég get ekki vænst þess að vera aufúsugestur í sorgarhúsi eða vera treyst fyrir ungum börnum ef ég á sama tíma sit undir því frá leiðtoga stjórnmálaflokks, sem skjólstæðingar mínir kynnu jafnvel að tilheyra, að vera kynferðislega brenglaður nauðgaravinur, hættulegur jafnrétti og flestum góðum samfélagsgildum.

Þetta eru því mínir síðustu Bakþankar. Ég þakka lesendum sex ára samfylgd.

Bakþankar í Fréttablaðinu 31. mars 2012

Read Full Post »

Um daginn heyrði ég mikinn harmagrát í útvarpinu. Þetta var ósköp snoturt, lítið lag flutt af Bubba Morthens og Mugison. Það heitir „Þorpið“. Mér fannst samt hálfónotalegt að sitja undir þessum jarðarfararsálmi. Líkið er nefnilega í fullu fjöri.

Texti lagsins dregur upp vægast sagt nöturlega mynd af litlu sjávarplássi. Allt unga fólkið er farið suður að vinna og dreyma af því að hvorugt virðist vera hægt að gera úti á landi. Hrum gamalmenni eru ein eftir í plássinu, læst innan fangelsismúra fjallahringsins í iðjuleysi eða með nál og tvinna í höndunum á meðan hrægammarnir hnita hringi yfir höfði þess. Tækifærin eru öll fyrir sunnan, væntanlega af því að þau geta aðeins fæðst í höfuðborginni sem tímir ekki að senda þau út á land. Tækifæri eru m.ö.o. ölmusa sem Reykvíkingar þurfa að rétta þessum greyjum úti á landi, því eins og allir vita fylgir því þroskahömlun, sem gerir fólk með öllu ósjálfbjarga og ófært um að finna sjálft nokkurn skapaðan hlut sér til viðurværis, að eiga heima þar sem íbúafjöldinn nær ekki fimm stafa tölu.

Ég efast ekki um að gott eitt vaki fyrir flytjendunum og þeir séu báðir sannir vinir landsbyggðarinnar í hjarta sínu. En ég fæ ekki skilið hvernig þeim dettur í hug að henni sé einhver greiði gerður með þessari ósönnu hryllingsmynd.

Ef þeir vildu raunverulega hjálpa til myndu þeir einmitt lýsa plássunum sem landi tækifæranna, þar sem hugmyndaauðgi og framkvæmdagleði eru allt sem þarf til að koma hlutunum í verk, þar sem allar boðleiðir eru styttri og skilvirkari en í stórborginni, þar sem smæð samfélagsins gerir hvern einstakling miklu mikilvægari og verðmætari en í mannhafinu fyrir sunnan, þar sem nálægð fjallahringsins setur fólk einmitt í nánara samband við landið sitt, þar sem hin nánu tengsl við náttúruöflin afbrjála forgangsröðunina og fylla mann auðmýkt gagnvart sköpunarverkinu og skaparanum, þar sem maður horfir út á fjörðinn eða inn í dalinn af svölunum hjá sér en ekki yfir svalirnar á öllum hinum blokkunum, þar sem nýjustu uppfærslunar á vedur.is og vegagerdin.is skipta daglegt líf miklu meira máli en hvað gerðist á facebook á meðan maður svaf, þar sem lifað er í alvöru en ekki í ímynd.

Mörg af fegurstu og áhrifamestu verkum tónlistarsögunnar eru vissulega sálumessur. En að syngja þær yfir hinum sprelllifandi er helber dónaskapur.

Bakþankar í Fréttablaðinu 17. mars 2012

Read Full Post »

Fátt fer meira í taugarnar á mér en hneykslunarárátta. Þess vegna hneykslast ég mjög gjarnan á því hvað mér finnst fólk hneykslunargjarnt. Þess á milli hneykslast ég á því að fólk skuli ekki hneykslast á því sem mér finnst sannarlega hneykslunarvert. Eftir að ég tók að temja mér þann leiða ósið að dvelja langdvölum á facebook hefur þessi innri þversögn orðið mér jafnt og þétt ljósari og um leið óskiljanlegri. Það er nefnilega mikið hneykslast á facebook. Og þótt mér leiðist þessi sífellda hneykslun þá er eins og ég límist við hana og í stað þess að slökkva á tölvunni og fara að gera eitthvað viskulegt er ég, áður en ég veit af, búinn að kynna mér hverja hneykslunarhelluna á fætur annarri og verð jafnan sárhneyklsaður á því hvað þær eru í raun lítið hneykslunarefni þegar upp er staðið – svona í hinu stóra samhengi.

Ég vil ekki gera lítið úr öllum þeim óheiðarleika, sora og óeðli sem veður uppi, hvað þá hinu ógeðfellda hæfileikaleysi íslensks framáfólks til að sjá sök hjá sjálfu sér né einstakri lagni þess við að benda hvert á annað til að finna orsakir alls sem afvega hefur farið. En það hvarflar stundum að mér að þetta þjóni engum tilgangi. Undanfarið hef ég nefnilega hvað eftir annað séð fólk rjúka upp í hneykslun á hinu og þessu (Snorra í Betel, öskudagsbúningum, Jóni Baldvin, passíusálmunum, Geir Jóni o.s.frv.) með þeim afleiðingum að aðrir rjúka upp í hneykslun á því að hneykslast sé á þessu og þá er auðvitað hneykslast á því að þeim skuli finnast slík hneykslun eitthvað hneykslanleg. Hverju skilar þetta?

Íslendingar eru að ýmu leyti eins og börn sem búa við heimilisofbeldi. Við vorum blekkt og svívirt af þeim sem áttu að gæta hagsmuna okkar og við treystum til þess. Ekkert hefur verið gert til að endurheimta það traust eða gefa þjóðinni inneign fyrir fyrirgefningu sem er forsenda sáttar og heilbrigðra samskipta. Börn sem búa við heimilisofbeldi eru sjaldan til vandræða inni á heimilinu. Þar hafa þau gefið alla von um réttlæti upp á bátinn. Vanlíðan þeirra brýst út í skólanum og á leikvellinum. Höfum við með öllu gefist upp á stóru réttlætismálunum? Er virkilega svo komið að eina aðferð okkar til að fá útrás fyrir gremjuna og vanlíðanina er að froðufella af bræði og hneykslan á netinu yfir hvaða tittlingaskít sem við getum verið ósammála um?

Bakþankar í Fréttablaðinu 3. mars 2012

Read Full Post »

Undanfarið hefur töluvert verið rætt og ritað um það hvort trúfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar geri menn undanþegna landslögum um hatursáróður ef þeir geta fært rök fyrir því að mannhatrið sé trúarleg afstaða. Minna hefur verið rætt um það hvaða sálarmein valdi því að kristni sumra skuli brjótast út í hatursáróðri en ekki kærleiksáróðri. Jesús frá Nasaret var jú einhver mesti áróðursmeistari kærleikans sem uppi hefur verið: „Elska skaltu náungann eins og sjálfan þig.“

Það er rétt að í Gamla testamentinu er kynlíf tveggja karlmanna sagt viðurstyggð (3M 18.22; 20.13). Á báðum þessum stöðum er líka tekið fram, nánast í næstu setningu á undan eða eftir, að fólk skuli ekki sofa hjá á meðan konan er á túr (18.19; 20.18). Af einhverjum ástæðum virðast þeir, sem mest er í nöp við hommaskap, alveg láta hjá líða að berjast með sama offorsi gegn því að fólk sé að gera dodo þegar Rósa frænka er í heimsókn – þótt Guð þeirra hafi alveg jafnmikla andstyggð á því. Þeir, sem byggja vilja hjónabandsskilning sinn á Gamla testamentinu, verða auk þess að samþykkja fjölkvæni (1Kron 3.1-9 o.fl.), kynlífsþrælkun og nauðungarstaðgöngumæðrun (1M 16.1-4) og að nauðgari geti komist hjá refsingu með því að kvænast fórnarlambi sínu og greiða föður þess skaðabætur (5M 22.28-29). Þeir, sem beita Gamla testamentinu fyrir sig í þessari umræðu, eru greinilega að velja það sem hentar fordómum þeirra úr safni fyrirmæla sem þeim dettur ekki í hug að taka önnur ákvæði úr alvarlega. Ég leyfi mér að fullyrða að erfitt sé að finna nokkra bók, sem verr er til þess fallin að byggja kristinn hjónabandsskilning á, en ritasafn Gamla testamentisins – alltjent ef lögbók hirðingjaþjóðar frá bronsöld er skilin bókstaflega og hvorki er reynt að lesa þetta ritasafn í samhengi ritunartíma síns og menningarsögulegs bakgrunns, innbyrðis samhengi sögunnar, sem þar er sögð, né að greina kjarnaboðskap hennar. Þeir, sem lesa Gamla testamentið með þessum hætti, mættu hafa hina kristilegu grundvallarafstöðu í huga: „Dæmið ekki og þér munuð eigi verða dæmd.“ (Lúk 6.37)

En á hverju eigum við þá að byggja „kristinn“ hjónabandsskilning? Þetta kann að hljóma langsótt en kannski væri óvitlaust að byggja hann á Kristi sjálfum: „Á því munu allir þekkja að þér eruð mínir lærisveinar ef þér berið elsku hver til annars.“ (Jóh 13.35)

Bakþankar í Fréttablaðinu 18. 2. 2012

Read Full Post »

Það er erfitt að vera fauskur. Samkvæmt fleygum ummælum eru hvítir, kristnir, gagnkynhneigðir, miðaldra karlmenn þeir einu sem ekkert slæmt má segja um. Fyrir vikið virðist mega láta hvað sem er flakka um þá. Í raun vantar mig aðeins byssuleyfið til að vera að margra mati holdgervingur alls sem að er í heiminum.

En hvað getur þá hress gaur eins og ég gert til að halda hippinu og kúlinu þegar hann stendur frammi fyrir því að árin hafa gert hann að fauski? Er það yfirhöfuð hægt? Þegar ég var unglingur fannst mér ekkert aumkunarverðara en fólk á aldur við foreldra mína sem þóttist svalt með því að reyna að tileinka sér tísku minnar kynslóðar í tónlist og klæðaburði.

Fauskurinn gegnir hlutverki. Honum ber að hneykslast á ungu fólki. Það er skylda hans gagnvart yngri kynslóðum að sýna þeim að þær hafi sinnt þeirri menningarlegu skyldu sinni að ganga fram af honum. Þannig er tuð fausks rós í hnappagat ungs listafólks.

En hvernig getur fauskurinn sinnt þessari samfélagslegu skyldu af ábyrgð og kærleika? Það gerir hann ekki með því að sparka í liggjandi menn og hæðast að þeim sem eiga erfitt uppdráttar. Aftur á móti hlýtur hann að mega dangla í þá sem standa traustum fótum, rétt eins og mín kynlóð ólst bæði upp við Ísbjarnarblús og Spaugstofusketsa um „Subba Skorsteins“. Það ætlaðist enginn til þess að Spaugstofumenn lægju flatir fyrir Utangarðsmönnum og ég þarf ekkert að afsaka það að ég liggi ekki marflatur fyrir „krúttunum“.

Ungu fólki ber að gera uppreisn. Það er í eðli þess. Það liggur jafnframt í hlutarins eðli að uppreisn gegn pönki getur ekki verið meira pönk. Nýja uppreisnin er því í því fólgin að vinda ofan af hamsleysinu og tryllingnum. Þetta er eðlileg og jafnvel óumflýjanleg þróun, hugsanlega heillavænleg. En það breytir því ekki að í eyrum manns sem hafði himin höndum tekið með Geislavirkum hljómar þessi tónlist eins og tilgerðarlegt mjálm.

Það háir fausknum að aldurinn ljær honum virðuleika sem gerir það að verkum að fólki hættir til að taka hann alvarlega. Mér er það algjör nýlunda sem ég hef ekki enn vanist. Stundum skýt ég mig því í fótinn með kerskni sem skilin er sem illt innræti og atlaga að einstaklingum.

Annað sem ég hef ekki enn vanist, þótt ég reki mig æ oftar á það, er hve hættulegt sjálfsháð er í hópi húmorslausra. Vonandi venst ég því aldrei.

Bakþankar í Fréttablaðinu 4. 2. 2012

Read Full Post »

Um daginn settumst við nokkrir vinir inn á kaffihús og hugðumst eiga notalegt spjall um daginn og veginn. Okkur til nokkurrar undrunar bar þá svo við að á kaffihúsinu voru tónleikar þannig að ekki var annað í boði en að sitja og hlusta á tónlist.

Listamaðurinn var ung kona sem mér skilst að sé um þessar mundir talin með efnilegri og eftirtektarverðari vonarpeningum íslensks tónlistarlífs. Ýmist gutlaði hún á rafmagnspíanó sem hljómaði eins og spiladós eða plokkaði rafmagnsgítar sem líka hljómaði eins og spiladós. Á bak við hana sat piltur á hennar reki og strauk trommur með burstum. Yfir tónaglundrið og marrið í sneriltrommuskinninu andaði listakonan síðan hásu tísti, eins og hún væri að líkja eftir nývaknaðri uglu á fúkkalyfjum, eitthvað sem mér heyrðist mestanpart vera upphafin og innhverf væmni á ensku. Tónlistin var svo mild og óágeng að ekki einu sinni trommurnar voru slegnar, hvað þá önnur hljóðfæri. Reyndar grunar mig að hefði pilturinn gerst svo bíræfinn að lemja einhverja trommuna hefði stúlkan, þetta viðkvæma blóm, samstundis fallið í öngvit ef ekki hreinlega hnigið niður örend af lostinu yfir svo blygðunarlausum ofstopa.

Þeir, sem enst hafa til að lesa hingað, geta líklega getið sér nærri um að þessi tónlist höfðaði ekkert sérstaklega til mín. Það er allt í lagi. Ég geri enga kröfu til þess að allri tónlist beri að höfða til mín. Ég er kominn á þann aldur að ef ég væri yfir mig hrifinn af lögum unga fólksins væri sennilega eitthvað mikið að … annað hvort þeim eða mér.

Ungu fólki ber að ganga fram af þeim sem eldri eru. Það er hreyfiaflið í framvindu menningarinnar og vörnin gegn stöðnun og steingervingu listsköpunarinnar. Síðan á dögum Sókratesar, ef ekki enn lengur, hafa miðaldra fauskar eins og ég ævinlega haft verulegar áhyggjur af því í hvað stefndi þegar hið óalandi og óferjandi pakk, sem skipaði yngri kynslóðir, tæki við veröldinni. Þessi togstreita hefur mótað tónlistarsöguna, hvort sem það var Mozart eða Sex Pistols. Hver kynslóð ögrar þeirri, sem á undan fór, með hömluleysi, hamsleysi og boðskap sem storkar ríkjandi siðferði og gildum. Ég átti því ekki von á öðru en að tónlist ungu kynslóðarinnar ætti eftir að ganga fram af mér. Það sem ég átt ekki von á var að það myndi ganga fram af mér hvað hún yrði merkingarlaus, máttlaus og meinlaus.

Bakþankar í Fréttablaðinu 21. 1. 2012

Read Full Post »

Older Posts »