Feeds:
Færslur
Athugasemdir

Archive for the ‘Fjölmiðlar’ Category

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 18. 12. 2016 

Lexía:

Sjá, Guð er hjálp mín,
ég er öruggur og óttast ekki.
Því að Drottinn er vörn mín og lofsöngur,
hann kom mér til hjálpar.
Þér munuð með fögnuði vatni ausa
úr lindum hjálpræðisins.
Á þeim degi munuð þér segja:
Lofið Drottin, ákallið nafn hans.
Gerið máttarverk hans kunn meðal þjóðanna.
Hafið í minnum að háleitt er nafn hans.
Lofsyngið Drottni því að dásemdarverk hefur hann gert,
þau verða þekkt um alla jörð. (Jes 12.2-5)
fist_cross

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Mér þykir vænt um lexíu dagsins í dag. Sérstaklega þetta orðasamband, „lindir hjálpræðisins“. „Þér munuð með fögnuði vatni ausa úr lindum hjálpræðisins,“ segir spámaðurinn Jesaja. Þetta talar til mín.

Persónulegt samband

Einu sinni var ég í atvinnuviðtali og var spurður: „Hvað merkir skírnarfonturinn fyrir þér?“ Ekki: „Útskýrðu fyrir okkur táknfræði skírnarinnar og merkingu skírnarsakramentisins.“ Heldur „Hvað merkir skírnarfonturinn – fyrir þér?“ Algerlega óundirbúið. Það fyrsta sem kom upp í huga minn var „lind hjálpræðisins“. Og mér finnst það fallegt. Að því að ganga Jesú Kristi á hönd fylgi léttir eins og sár þorsti sé slökktur og að hið tæra, vígða vatn skírnarlaugarinnar tákni þá svölun.

Reyndar fékk ég ekki embættið, en ég held að það hafi ekki verið út af þessu svari.

Ég er alls ekki einn um að vera í sérstöku vinfengi við þennan texta og ég skal viðurkenna að ég kynntist honum ekki í guðfræðinámi mínu heldur uppi í Vatnaskógi þar sem ég starfaði sem biblíufræðari eitt haustið. Í Vatnaskógi hefur þessi texti verið klappaður í stein. Í bókstaflegri merkingu. Þetta var einn eftirlætisritningarstaða séra Friðriks Friðrikssonar og í Vatnaskógi er uppspretta í rjóðri skammt frá kapellunni þar sem er brjóstmynd af séra Friðrik og þessi ritningarstaður er grafinn í stein þar við lindina: „Þér munuðu með fögnuði vatni ausa úr lindum hjálpræðisins.“ Það var gott eftir að erli dagsins var lokið að rölta út í þennan lund, setjast við lindina í bjartri sumarnóttinni og eiga hljóða stund með almættinu. Ég á í ákveðnu persónulegu ástarsambandi við þennan texta. Mér finnst þetta dýrðlegur vonarboðskapur.

Voveiflegur atburður

Í síðustu viku varð sá sorglegi atburður að hælisleitandi, sem gripið hafði til þess örþrifaráðs að hella yfir sig bensíni og kveikja í sér lést af sárum sínum. Hann var á þrítugsaldri og frá Makedóníu. Það er alvarlegt mál að saka einhvern um að hafa mannslíf á samviskunni og það vil ég forðast. Sá sem tekur líf sitt ber einn ábyrgð á þeim verknaði. En aðstæður þessa ógæfusama ungmennis voru á ábyrgð íslensks samfélags. Þeim sem til þekkja ber saman um að hann hafi sýnt af sér einkenni alvarlegs þunglyndis, örvæntingar og vonleysis um alllanga hríð þannig að í raun hafi verið fyrirsjáanlegt að þetta gæti ekki endað öðruvísi en voðalega ef ekki væri gripið í taumana. Enda fór það þannig. Ekki var gripið í taumana, jafnvel þótt vinir hans hafi farið þess á leit við yfirvöld að það yrði gert. Á endanum varð örvænting hans algjör og hann stytti sér aldur með þessum hroðalega hætti í kjölfar þess að honum var synjað um landvistarleyfi.

Ég ætla ekki að fullyrða hér að hann hefði átt að fá landvistarleyfi. Ég veit ekkert um það. En ég ætla að fullyrða að hann hefði átt að fá þá aðstoð sem hann þurfti til að ráða fram úr sálarangist sinni. Við berum ábyrgð á því að svo var ekki.

Einni viku eftir að þetta átti sér stað er það embættisskylda mín að tala við ykkur hér um lindir hjálpræðisins. Ef ég stæði ekki hér og talaði heldur sæti á kirkjubekknum og hlustaði myndi ég vilja fá að vita hvar þessar lindir hjálpræðisins voru fyrir þennan unga mann. Hverjir jusu með fögnuði úr þeim fyrir hann? Hvernig get ég staðið hér og sagt „þið munuð með fögnuði vatni ausa úr lindum hjálpræðisins“ í samfélagi þar sem aðgangssstýringin að þessum lindum er með þeim hætti að sumir fuðra upp af hreinni örvæntingu án þess að nokkur ausi svo miklu sem einum dropa úr þessum lindum þeim til hjálpræðis?

Ég get það ekki.

Og mér sárnar það.

Hvellandi bjalla

Mér sárnar að þessi fallegi texti sem stendur hjarta mínu svo nærri láti í eyrum eins og hljómandi málmur eða hvellandi bjalla þegar hann er settur í samhengi við líðandi stund.

Lexía dagsins í dag er hvorki hljómandi málmur né hvellandi bjalla. Hún er full af kærleika.

Ég hef séð sáran þorsta slökktan í lindum hjálpræðisins.

Ég sjálfur tel mig hafa fundið svölun í þeim.

En manni getur sárnað.

Mér sárnar að heyra stjórnmálamenn tala um að Íslendingar hafi aldrei haft það betra á sama tíma og á þriðja þúsund manns þurfa aðstoð yfir jólin og 860 fjölskyldur hafa sótt um mataraðstoð hjá Fjölskylduhjálp Íslands. Í þessum fjölskyldum eru mörghundruð börn.

Ef ég væri fjármálaráðherra með bókhald ríkisins fyrir framan mig myndi þetta eflaust horfa svona við mér, ég efa það ekki. En ég er ekki fjármálaráðherra. Ég er sóknarprestur og fyrir framan mig er ekki ríkisbókhald í blússandi plúsi heldur lifandi fólk sem er að biðja um hjálp til að geta haldið jól.

Það hryggir mig að hér á landi skuli fólk búa við þannig aðstæður að því vöknar um augu af þakklæti við að þiggja hamborgarhrygg og gosdrykki að gjöf því það þýðir að þau geta gert sér dagamun í mat og drykk á fæðingarhátíð frelsarans. Mér sárnar að þannig sé búið að öryrkjum í þessu landi, þar sem stjórnmálamenn tilkynna okkur að það sé „fullt af peningum þarna úti“, að það að fá Bónuskort með nokkur þúsund króna innistæðu að gjöf frá kirkjunni – frá ykkur og samskotum ykkar hér í kirkjunni – skuli gera gæfumuninn fyrir hátíðirnar hjá þeim á sama tíma og ekki er hægt að veita meira fjármagni í málaflokkinn af því að skattar eru ofbeldi, en ekki það hvernig búið er að þeim verst settu hér í landi allsnægtanna.

Það að stór hópur Íslendinga skuli vera háður matargjöfum er ofbeldi. Það hvernig við tökum á móti fólki, sem hingað kemur um langan veg í þeim tilgangi einum að skapa sér og fjölskyldum sínum betra líf og verða nýtir borgarar, er ofbeldi. Að standa aðgerðarlaus álengdar og horfa á einstakling fyllast hægt og hægt af svo mikilli örvæntingu að öllum má vera ljóst að það getur ekki endað öðruvísi en með ósköpum, er ofbeldi. Skeytingarleysið og sinnuleysið er hreint og klárt ofbeldi.

Sælla er að gefa en þiggja

Svo sanngirni sé gætt þá kemur fólk ekki bara hingað í kirkjuna á aðventunni til að biðja um hjálp. Hingað kemur líka fólk til að bjóða hjálp og biður kirkjuna um að hafa milligöngu um að koma henni þangað sem hennar er þörf. Og það gerum við með fögnuði. Það er með fögnuði sem við hjálpum hinum hjálpar þurfi, við afhendum Bónuskort og hamborgarhryggi með fögnuði. Við tökum við þakklæti þeirra sem þiggja með fögnuði og skilum því þangað sem það á heima með fögnuði.

En svo ég sé fullkomlega hreinskilinn og tali bara hreint út fyrir sjálfan mig: Ég geri það líka með sorg í hjarta.

Í huga mér hljóma nefnilega orð brasílíska erkibiskupsins Helders Camara sem sagði:

„Þegar ég gef hinum fátæku brauð er ég kallaður dýrlingur. Þegar ég spyr af hverju þeir fátæku eigi ekki fyrir brauði er ég kallaður kommúnisti.“

Auðvitað er gefandi að þjóna kirkju sem er í hlutverki dýrlingsins. En ég veit ósköp vel að sjálfur er ég enginn dýrlingur. Það þarf ekkert að minna mig á það.

Þess vegna langar mig miklu frekar að tilheyra kirkju sem er – svo ég haldi mig við skilgreiningar föður Helders Camara – í hlutverki kommúnistans og spyr: „Af hverju er þetta svona?“

Hlutverk kommúnistans

Af hverju er fólk á meðal okkar sem er ekki sinnt betur en svo að það styttir sér aldur með hroðalegum hætti án þess að fá nokkurn tímann þá aðstoð sem er himinhrópandi augljóst að það er í sárri þörf fyrir? Af hverju er það hlutverk kirkjunnar að skipuleggja sætaferðir fyrir öryrkja að þiggja ölmusu? Af hverju þarf fullfrískt fólk sem er í fullri vinnu að leita til kirkjunnar eftir fjárhagsaðstoð af því að það á ekkert afgangs til að geta haldið jól?

Og síðast en kannski ekki síst: Hvernig voga ráðamenn sér að halda því fram að þjóð hafi aldrei haft það betra þar sem þetta er daglegur raunveruleiki þúsunda og fráleitt sé rétta hag þeirra með hærri sköttum á tekjur sem eru hærri tvær og hálf milljón á mánuði eða leggja frekari gjöld á fyrirtæki sem ár hvert skila eigendum sínum milljarða arðgreiðslum?

Við erum kirkjan, við öll – allir sem henni tilheyra. Hvernig væri að við spyrðum þessara spurninga? Hvernig væri að við hættum að klappa okkur sjálfum á bakið fyrir það hvað við erum góð hver jól að setja plástur á þetta opna samfélagssár og brettum í staðinn upp ermar og saumuðum það saman – lokuðum því?

Þá værum við í raun og sann að ausa vatni úr lindum hjálpræðsins. Og það myndi ég að minnsta kosti gera með sönnum fögnuði og enga sorg í hjarta.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Read Full Post »

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 4. 12. 2016


Himinn og jörð munu líða undir lok en orð mín munu aldrei undir lok líða.
En þann dag eða stund veit enginn, hvorki englar á himni né sonurinn, enginn nema faðirinn. Gætið yðar, vakið! Þér vitið ekki nær tíminn er kominn. Svo er þetta sem maður fari úr landi, skilji við hús sitt og feli þjónum sínum umráðin, hverjum sitt verk. Dyraverðinum býður hann að vaka. Vakið því, þér vitið ekki nær húsbóndinn kemur, að kveldi, á miðnætti, í óttu eða dögun. Látið hann ekki finna yður sofandi þegar hann kemur allt í einu. Það sem ég segi yður, það segi ég öllum: Vakið!“ (Mrk 13.31-37)

egg-a-hausNáð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Af umræðunni á samfélagsmiðlum að dæma nú í þessari viku, að minnsta kosti af stöðuuppfærslum þeirra sem ég hef valið að að vera umkringdur af á þeim vettvangi, mætti ætla að þjóðin lifði nánast einvörðungu á hænsnaeggjum og að öllum þessum gríðarlegu viðskiptum verði í framtíðinni svo sannarlega beint annað en þeim hefur verið beint til þessa í ljósi nýrra afhjúpana um blekkingar og dýraníð hjá íslensku hænsnabúi.

Auðvitað er gott eitt um það að segja.

Þetta er mikið til sama fólkið og sór þess dýran eið á þessum sama vettvangi ekki alls fyrir löngu að versla aldrei framar við Ölgerðina eftir að í ljós kom að þar hafði iðnaðarsalt verið selt til matvælaframleiðslu í rúman áratug án þess að það væri gert heyrinkunnugt. Auðvitað hvarflar ekki að mér að þetta fólk kynni nú samt að drekka malt og appelsín um jólin þrátt fyrir eldheitar yfirlýsingar um annað.

Þetta sama fólk er auðvitað löngu hætt að kaupa nokkurn skapaðan hlut sem Mjólkursamsalan framleiðir í mótmælaskyni við ólögmæt bolabrögð fyrirtækisins við að hrekja smærri samkeppnisaðila af markaði þar sem það hefur frá upphafi vega haft ráðandi stöðu. Eftir yfirlýsingarnar í kjölfar þeirra afhjúpana grunar mig ekki einu sinni að þessir vinir mínir kynnu nú samt að freistast til að kaupa rjóma í möndlugrautinn sinn frá MS ef sama vara frá samkeppnisaðila er ekki í boði heldur neiti sér frekar um möndlugraut á jólunum.

Eða hvað?

Svik og prettir

Það er ekki ætlun mín að gera lítið úr þeim brotum sem eggjabúið Brúnegg hefur orðið uppvíst að. Þaðan af síður langar mig að láta eins og þær óafsakanlegu brotalamir, bæði á dýravernd og neytendavernd á Íslandi sem sú hryllingssaga öll sýnir, skipti engu máli. Og síst af öllu vil ég hæða viðleitni fólks til að vera meðvitaðir neytendur og sjálfur geri ég mitt besta til þess.

En mig langar að beina sjónum okkar að bræðinni sem umfjöllun Kastljóssins kallaði fram og hvaða brotalamir í okkur sjálfum hún afhjúpar.

Af hverju urðum við svona reið? Nú er ekki eins og við höfum upp til hópa staðið í þeirri trú að hvergi væri farið illa með hænur á Íslandi eða að íslenskir bisnesmenn væru upp til hópa flekklausir kórdrengir þegar kemur að viðskiptasiðferði.

Nei, við vorum svikin. Við settum traust okkar á eitthvað sem ekki var treystandi. Og þeir sem áttu að vera á vaktinni … að vaka yfir velferð okkar … brugðust skyldum sínum – sváfu á verðinum. Hvort það var vegna mannlegra mistaka, hreinræktaðrar spillingar eða ónýtra reglugerða um starfshætti þeirra er aukaatriði – í þessu samhengi.

Kjarni málsins er að um árabil voru okkur seld egg, sem framleidd voru með einbeittum og ítrekuðum brotum á dýraverndarlögum, á uppsprengdu verði vegna einhvers sem við héldum að væri opinber vottun um vistvæna framleiðsluhætti en var í raun aðeins merkingarlaust lógó sem rafgeymasýruframleiðendum hefði þess vegna verið heimilt að setja á sína vöru hefðu þeir haft hugmyndaflug til þess.

Það er sárt að vera svikinn svona. Enda láta viðbrögðin ekki á sér standa.

Sem betur fer virðist sem þessi ákveðni framleiðandi muni ekki komast upp með að treysta á gullfiskaminni Íslendinga, einfaldlega vegna þess að ólíklegt er við sjáum Brúnegg í mörgum verslunum í náinni framtíð. Siðleysið var slíkt að flestir smásalar hafa lýst því yfir að þeir hafi ekki geð í sér til að bjóða upp á þau í bráð.

En Mjólkursamsalan dælir enn út sinni framleiðslu og Egils malt og appelsín er enn blandan mín og blandan þín, hvað sem líður þrettán ára samfelldri sölu á iðnaðarsalti til matvælaframleiðslu.

Sofnuðum við kannski sjálf á verðinum?

Að halda vöku sinni

Skilaboð Jesú til okkar í dag eru þessi: „Vakið! Gætið yðar, vakið! Það segi ég öllum: Vakið!“

Það verður að segjast eins og er að þessi skilaboð eiga brýnt erindi til okkar í dag.

Það er erfitt að halda vöku sinni. Við erum verur vanans. Smám saman fer nýjabrumið af öllu. Það er auðvelt að svíða óréttlæti og fólska en svo verðum við ónæm fyrir því og hrökkvum í sama farið, gerum hlutina eins og við erum vön, hreiðrum um okkur í þægindarammanum okkar.

„Vakið!“ segir Jesús Kristur.

Við erum nefnilega ekki í mikilli hættu þegar við erum allsgáð og vakandi og með hugann við það sem við erum að gera. Það er þegar við erum hálfsofandi og með hugann annars staðar, að gera hlutina af gömlum vana – nánast á sjálfstýringu – sem slysin verða. Við vitum nefnilega aldrei fyrirfram hvenær við þurfum á árvekni okkar að halda. Ögurstundina sér enginn fyrir. Eða eins og Jesús orðar það í guðspjalli dagsins: „Þér vitið ekki nær tíminn er kominn.“

Vökum.

Að verða leiður á þessu

Um daginn átti ég spjall við mann sem deilir þeirri lífsreynslu með mér að hafa misst stjórn á lífi sínu og þurft að endurskoða viðhorf sín og gildismat til að öðlast frelsi frá áþján áfengisfíknar. Hann var með nokkurra mánaða reynslu af bataferlinu og leitaði því til mín sem manns með ellefu og hálfs árs reynslu af því í von um að ég gæti miðlað honum einhverju hjálplegu. Honum gekk allt í haginn, hann var heill og sannur í allri sinni viðleitni til að ná bata, var iðinn og duglegur og gerði allt rétt.

„Hvert er þá vandamálið?“ spurði ég.

„Ég kvíði því svo hvað gerist þegar ég verð leiður á þessu,“ var svarið.

Ég er þessum unga manni svo innilega þakklátur, því þótt svarið kæmi mér í svip á óvart þá rifjaði það skyndilega upp fyrir mér kvíða sem ég sjálfur var gagntekinn af fyrir ellefu og hálfu ári þegar mér gekk í fyrsta skipti í langan tíma allt í haginn: „Hvað gerist þegar ég verð leiður á þessu?“

Ef það er eitthvað sem alkóhólistinn þekkir þá er það nefnilega að halda ekki dampi. Nógu oft hefur hann svarið og sárt við lagt að snúa við blaðinu, að hafa stjórn á lífi sínu, að bæta sig … til þess eins að sjá allt fara í sama farið aftur – reyndar yfirleitt í aðeins verra far – eftir nokkra daga, vikur eða í besta falli mánuði. Alkóhólistinn er svo heima í vanlíðaninni og aumkvunarverðu niðurlægingunum sem fylgja neyslunni að þægindaramminn hans nær utan um það. Að allt gangi honum í hag, að vera edrú og með hlutina á hreinu, að vera að vinna ötult uppbyggingarstarf á lífi sínu og andlegri heilsu … er framandi fyrir honum og fyllir hann óöryggi og kvíða. Hann kann það ekki, hann þekkir ekki þessa líðan, hún er utan við þægindarammann hans. Eiginlega líður honum ekki vel nema honum líði illa því það er hans eðlilega ástand.

Að halda ekki dampi

Ég held að það að halda ekki dampi sé ekki sérstakur alkóhólískur eiginleiki heldur sammannlegur veikleiki. Munurinn er kannski fyrst og fremst í því fólginn hvað þægindarammi alkóhólistans er orðinn sjúkur. Þannig verða það ekki upp til hópa alkóhólistar sem kaupa sér árskort á líkamsræktarstöð í byrjun janúar næstkomandi og hætta að nota þau um mánaðamótin janúar febrúar. Það er allt heilbrigða fólkið sem gerir það.

En  hvernig fer maður að því að halda dampi? Hvernig fer maður að því að verða ekki „leiður á þessu“? Að halda vöku sinni.

Ég get aðeins svarað því fyrir sjálfan mig að mín leið var í gegnum trúna. Að játa Jesú Krist sem leiðtoga lífs míns og taka þá ákvörðun að leitast við að láta líf mitt og vilja lúta handleiðslu Guðs eins og ég er fær um að skilja hann. Takið eftir því að ég segi ekki „að láta“ heldur „að leitast við að láta“. Í mínu tilviki nægði einlæg viðleitni, sem oft var bágborin, ásamt því að leitast við að viðurkenna það sem út af bar undanbragðalaust.

Kannski dugar einhver önnur trú, til dæmis trúin á málstaðinn, á markmiðið eða á árangurinn.

Súrsaðir hrútspungar eða brún egg?

Í Ofvitanum segir Þórbergur Þórðarson eitthvað á þá leið að hugsanir séu „súrsaðir hrútspungar sálarinnar“. Af líkingunni má ráða að Þórbergi hafi þótt súrsaðir hrútspungar mikill herramannsmatur því hugsanir hans voru háleitar og snerust um menningu, skáldskap og listir, eilífðarmálin og æðstu rök tilverunnar.

Þessi prédikun er ekki um súrsaða hrútspunga sálarinnar. Og hún er ekki heldur um Brúnegg. En kannski er hún um eitthvað sem við getum kallað „brúnegg sálarinnar“.

Hvenær eru hugsanir okkar og gjörðir því marki brenndar að það sem stendur á umbúðunum er ekki í nokkru samræmi við innihaldið? Hvenær gerist það að við leggjum af stað full fagurra fyrirheita um góðan aðbúnað og vistvæna hætti en missum einbeitinguna á leiðinni – eða trúna – og látum sinnuleysið og letina; þægindin – ef ekki beinlínis gróðafíkninina – blása öllum fögru fyrirætlununum út úr hausnum á okkur með þeim afleiðingum að ekkert er eftir nema merkingarlaust lógó, klisjur án innihalds og slagorð sem ekkert er á bakvið? Hvenær erum við sjálf að reiða fram brúnegg sálarinnar?

„Vakið!“ segir Jesús Kristur við okkur í dag. Og við skulum hlýða því kalli.

Annars er hætt við að innihaldslýsing okkar sjálfra verði ekkert annað en svikið loforð.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er enn og verður um aldir alda. Amen.

Read Full Post »

post-64231-this-is-fine-dog-fire-comic-im-n7mp

Það fyllir mig ákveðnum óhug að fylgjast með umfjölluninni í fjölmiðlum um úrslit forsetakosninganna í Bandaríkjunum sl. þriðjudag. Þannig er strax byrjað að reyna að skilja á milli „forsetans Trump“ og „forsetaframbjóðandans Trump“. Talað er um að sennilega muni hann „tóna sig niður“ þegar hann tekur við embætti – að kosningabarátta hans hafi verið úthugsuð fjölmiðlaherferð til að afla fylgis en ekki forsmekkurinn af því sem koma skal. Jafnvel heyrist talað um að úrslitin séu ekki eins slæm og margir vilja  vera láta, þetta boði e.t.v betri tíma í alþjóðastjórnmálum í kjölfar aukinnar þíðu í samskiptum Bandaríkjanna  við Rússland.

Þetta síðastnefnda er auðvitað ákveðin aðferð til að lýsa einangrunarstefnu Trumps, þar sem Bandaríkin verða afgirt „idiocracy“ á sjálfsmorðssiglingu sem lætur umheiminn afskiptalausan og skilji þarmeð fyrrum Sovétlýðveldi Austur-Evrópu eftir varnarlaus gegn árásarstefnu Pútíns sem um þessar mundir birtist einna helst í innrás Rauða hersins í Úkraínu – og enginn kallar heldur sínu rétta nafni.

Þetta er að mínu mati stórhættulegt. Með því að tala svona er sjónum beint frá því sem raunverulega gerðist sl. þriðjudag og er að gerast í kringum okkur. Það getur verið þægilegt af því að það er svo erfitt að skoða það í réttu ljósi. En þetta er aumkvunarverð meðvirkni, hlægileg tilraun til að gera gott úr einhverju sem er of slæmt til að meðtaka það.

Við megum ekki loka augunum fyrir staðreyndum.

Staðreyndin er þessi:

Sl. þriðjudag fór fjórðungur Bandaríkjamanna á kjörstað til að kjósa nauðgara sem hvatt hefur til ofbeldis og mannréttindabrota og nýtur opinbers stuðnings Ku Klux Klan, skattsvikara og kennitöluflakkara sem ekki er bara óheiðarlegur hálfviti í viðskiptum (hefur nú þegar tapað 75% af föðurarfinum) heldur er svo vitlaus að hann telur hlýnun jarðar mannavöldum, sem er óhrekjanleg, vísindalega margsönnuð staðreynd, vera samsæri Kínverja gegn Bandaríkjunum.

Atkvæði fjórðungs Bandaríkjamanna nægði til að vanstilltur siðblindingi verður næsti leiðtogi stærsta hernaðar- og kjarnorkuveldis mannkynssögunnar.

Þegar íslenskir stjórnmálamenn tala um að „orðræða Trumps“ sé „áhyggjuefni“ er það vissulega alveg rétt – svona eins og það er í sjálfu sér alveg rétt þegar matreiðslumeistari segir að blásýra sé kannski ekki sérlega æskilegt hráefni í matargerð. Slík ummæli gera hvorugan afur á móti sérlega trúverðugan.

Afstaða Trumps í loftslagsmálum ein og sér nægir til að gera hann að langhættulegasta manni heims þegar hann tekur við embætti.

Sigur Donalds Trumps er ekki þörf áminning til fjölmiðla um sambandsleysi þeirra við grasrótina. Hann er ekki stríðsyfirlýsing almennings á hendur „kerfinu“. Hann er ekki heldur krúttlegt dæmi um það hve forneskjuleg og úrelt bandarísk kosningalöggjöf er þar sem Hillary Clinton fékk fleiri atkvæði. Og allra síst er hann einhver ávísun á betri tíma.

Sigur Donalds Trumps er hnattrænt stórslys af stærðargráðu sem mannkynið hefur ekki séð í a.m.k. 70 ár – í besta falli. Hugsanlega ekki síðan það kom fram á sjónarsviðið fyrir 30.000 árum.

Að fjalla um Donald Trump sem eitthvað annað er svívirðilegt ábyrgðarleysi.

Með því er hið óásættanlega normalíserað.

Read Full Post »

Í morgun fór ég í þáttinn Sunnudagsmorgunn hjá Gísla Marteini í þeim tilgangi, var mér sagt, að ræða fréttir vikunnar “á léttu nótunum”. Mig grunar að þegar upp var staðið hafi nóturnar reyndar orðið þyngri en lagt var upp með. Sumt sem ég sagði virðist hafa vakið athygli og farið öfugt ofan í fólk. Það var ekki við öðru að búast. Það er ekki hægt að opna munninn um málefni kirkjunnar án þess að fá fjölda manns upp á móti sér – og gildir þá einu hvað sagt er.

Það vakti aftur á móti athygli mína hvað vakti enga athygli af því sem ég sagði. Fólk “sónaði út” þegar reynt var að ræða fræðilega og af þekkingu.

Ógætileg orð

Miðað við umræður á Facebook virðist mér það sem einna mesta athygli vakti vera ógætileg orð sem ég lét falla um áfallahjálp. Þau mátti skilja þannig að ég teldi presta eina vera færa um að veita hana.

Ég vil því lýsa því yfir að svo er alls ekki.

Það sem ég sagði missti ég út úr mér og hefði ekki látið frá mér fara ef ég hefði haft u.þ.b. 10 sekúndur í viðbót til að velta því fyrir mér. Valgarður Guðjónsson, vinur minn og liðsfélagi í sigurliði Popppunkts frá því í fyrra, fullyrðir í bloggfærslu að ég hafi beinlínis “drullað yfir heila stétt vel menntaðs fagfólks.”

Hafi orð mín verið skilin þannig, eins og ég sé að var hægt að gera, biðst ég afsökunar á þeim og tek þau aftur. Það vakti alls ekki fyrir mér að gera lítið úr sálfræðingum og félagsráðgjöfum sem veita áfallahjálp eða “drulla yfir” menntun þeirra og þekkingu. Ég tek undir þau orð Valgarðs að þarna er vel menntað fagfók á ferðinni.

Mér til málsbóta vil ég benda á að orðin voru látin falla einmitt vegna þess að mér ofbauð hvernig mér hefur sýknt og heilagt fundist mín eigin menntun og þekking vera töluð niður. Ég efast satt að segja um að viðlíka veiðileyfi hafi verið gefið út á nokkra fræðigrein og hvaða sótraftur sem er þykist hafa á guðfræðina. Þetta lýsir sér t.d. í því þegar talað er um “vel menntað fagfólk” annars vegar og presta hins vegar, rétt eins og prestar og guðfræðingar séu ekki vel menntað fagfólk. Mér hefur nánast fundið vera gefið í skyn að þeir séu aðeins einhverjir ótýndir fúskarar, gott ef ekki hreinir og beinir kuklarar, þegar sálgæsla og áfallahjálp eru annars vegar.

Staðreyndin er sú að í prestastéttinni er mikil og góð samsöfnuð reynsla og þekking á áfallaljálp og sálgæslu. Fjöldi manns, sem þegið hefur þá þjónustu, getur vitnað um það. Að mínum dómi er ljótt að meina fólki að njóta góðs af þessari þekkingu vegna þess eins að það eru prestar sem búa yfir henni, jafnvel þótt um sé að ræða sálgæslu í skólum eða öðrum opinberum stofnunum. Prestar kunna nefnilega meira en að tóna.

Sumir kunna það ekki einu sinni.

Að plata fólk í Þjóðkirkjuna

Valgarður fer einnig mikinn í minn garð í þessari bloggfærslu þar sem hann tekur stöðuuppfærslu frá mér, þar sem ég hvet fólk til að skrá sig í Þjóðkirkjuna fyrir 1. des, og tætir í sig rökleysurnar í henni. Gott og vel. Hún var full af rökleysum, enda ekki hugsuð sem röksemd í opinberri umræðu heldur sem stöðuuppfærsla á Facebook. Henni var ætlað að hræra upp í fólki – sem virðist hafa tekist.

Mér finnst óneitanlega hlægilegt að þessi viðbrögð skuli koma frá Vantrúarmanni, en þar á bæ hafa menn einmitt verið óhræddir við að beita ýmsum meðulum til að hafa (óeðlileg?) áhrif á trúfélagaskráningu annarra. Kannski sárnar honum svona mikið að tveir skuli geta leikið þennan leik.

En það er reyndar eitt aðalsmerki kristindómsins að geta tekið góðar hugmyndir frá heiðingjum, s.s. jól, gefið þeim kristið inntak og gert þær að sínum. Hví skyldi ekki mega reka áróður fyrir því að fólk skrái sig í Þjóðkirkjuna fyrst ekkert er eðlilegra en að rekinn sé áróður fyrir því að fólk skrái sig úr henni?

Auðvitað tekur ríkisstjórnin ekki sóknargjöldin og gefur sægreifunum þau eða notar þau til að borga mönnum fyrir að brenna bækur eða skemma málverk, eins og skilja mátti Facebookfærslu mína ef hún hefði verið tekin bókstaflega. Og auðvitað vakti ekki fyrir mér að narra neinn í Þjóðkirkjuna sem ekki á trúarlega samleið með henni. Í niðurlagi þessarar stöðuuppfærslu var ég bara að fá smá útrás fyrir andúð mína á anti-intellektúalismanum sem núverandi ríkisstjórn menningarsnauðra troglódýta aðhyllist. Alltjent held ég að við getum bókað að sóknargjöldin sem renna í ríkissjóð verði ekki notuð til að auka stuðning við menningu og listir. Maður hlýtur að mega rasa aðeins út í stöðuuppfærslum á Facebook án þess að vera tekinn svona glæpsamlega alvarlega.

Eftir stendur þó að ég þekki marga sem sagt hafa sig úr Þjóðkirkjunni af öðrum ástæðum en trúarlegum. Sjálfur sagði ég mig úr henni fyrir alllöngu síðan af pólitískum ástæðum. Ég gekk í hana aftur af því að þrátt fyrir allt fann ég trúarþörf minni farveg innan hennar. En það átti líka stóran þátt í þeirri ákvörðun minni að ganga aftur í Þjóðkirkjuna að í opinberri tölfræði var ég, sem sannarlega áleit mig kristinn, með því að standa utan trúfélaga orðinn einn af skjólstæðingum Vantrúar. Alltjent túlkuðu þeir það þannig í einhverri grein sem ég las á síðunni þeirra að allir sem stæðu utan trúfélaga væru trúlausir, a.m.k. ekki kristnir.

Staðreyndin er sú að ef þróunin fer ekki að snúast við hvað varðar úrsagnir úr Þjóðkirkjunni þá er sunnudagaskólinn í uppnámi. Barna- og æskulýðsstarf kirkjunnar er í uppnámi. Félagsstarf eldri borgara er í uppnámi ásamt menningarstarfi kirkjunnar, tónlistarstarfi, fræðslustarfi og þar fram eftir götunum. Sú þjónusta sem sóknirnar veita í nærsamfélaginu getur einfaldlega lagst af. Þess vegna eru úrsagnirnar svo sorglegar.

Kannanir hafa nefnilega sýnt að almenn ánægja er með grasrótarstarf kirkjunnar. Flestir eru ánægðir með sinn prest og starf sinnar kirkju í sínu hverfi. Óánægjan er með annað. Fólk virðist ekki gera sér grein fyrir því að sóknargjöldin renna til sóknanna og úrsagnir bitna því aðeins á því starfi kirkjunnar sem almenn ánægja er með.

Þess vegna vil ég endurtaka orð mín og tala skýrar í þetta sinn:

Ég hvet kristið fólk, sem skráð hefur sig úr Þjóðkirkjunni vegna óánægju með framgöngu sem nú hefur verið lögð af eða annað sem nú er búið að laga, til að skrá sig í Þjóðkirkjuna fyrir 1. desember næstkomandi af því að trúfélagaskráning þann dag ræður því hvort sóknargjöld viðkomandi næsta árið (sem verða innheimt hvort sem honum eða henni líkar betur eða verr) renna til starfsemi kirkjunnar í nærsamfélagi hans eða hennar, til annars trúar- eða lífsskoðunarfélags eða í ríkissjóð.

Það hvort rétt sé að standa með þessum hætti að innheimtu sóknargjalda er síðan allt önnur umræða sem ég ætla ekki út í hér.

Ég verð samt að segja að mér finnst ansi mikið í lagt hjá Valgarði að kalla þessa einu stöðuuppfærslu mína og svo nokkur orð hjá Gísla Marteini (og nú þessa bloggfærslu) “svakalegan áróðurssöng sem felst í því að reyna að narra fólk með öllum tiltækum ráðum til að skrá sig í Þjóðkirkjuna.”

Ég þakka hólið.

Pönkarinn frá Nasaret

Mig langar að gamni mínu að bæta því við að ég vildi samt óska að Valgarður Guðjónsson, sem lengi hefur verið einn af mínum uppáhaldstónlistarmönnum, gæfi pönkaranum frá Nasaret aðeins meiri séns.

Jesús var nefnilega ekki tekinn af lífi af því að hann var svo vinsæll og dáður af valdhöfum. Hann var tekinn af lífi af því að hann ruggaði bátum sem ekki mátti rugga. Hann ruddist inn í musterið – í sjálfu musterisveldinu – rak út víxlarana og prangarana, sem þar voru að arðræna fátækt fólk. Systemið var meira að segja þannig að fjölskylda æðstaprestsins hafði einkarétt á þessu arðráni. Auðvitað var þetta ekki líklegt til vinsælda. Jesús var tekinn af lífi af því að hann sagði sannleika sem ekki mátti segja, að valdhafar höfðu gert hús Guðs að ræningjabæli.

Aldrei hefur nokkur maður sagt “Fuck the system” með afdrifaríkari hætti.

Hann galt fyrir það með lífi sínu.

Og við erum enn að tala um það.

Sjálfsmorðssiglingin

Aftur á móti vakti það athygli mína að um leið og ég fór að ræða það sem mér þótti áhugaverðara frá nýyfirstöðnu kirkjuþingi en ræða innanríkisráðherra þá tóku aðrir þátttakendur í umræðunni að “sóna út”.

Kirkjuþing er samkoma sem samanstendur af 12 vígðum þjónum kirkjunnar og 17 leikmönnum. Það höndlar með praktísk mál Þjóðkirkjunnar. Kirkjuþing samþykkti að beina þeim tilmælum til innanríkisráðherra að hún breyti lögum um stöðu, stjórn og starfshætti Þjóðkirkjunnar á þann hátt að þar sé tekið fram að kirkjuþing sé æðsta vald í málefnum Þjóðkirkjunnar og að það hafi á hendi fjárstjórnarvald hennar.

Þetta er að mínu mati til mikilla bóta og skref í rétta átt. Ég er nefnilega þeirrar skoðunar að megnið af vanda Þjóðkirkjunnar megi rekja til innra skipulags hennar.

Þegar ný Þjóðkirkjulög voru samþykkt árið 1997, sem átti að heita skref í þá átt að aðskilja ríki og kirkju, færðust mörg verkefni úr Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu til kirkjunnar. Af einhverjum ástæðum lentu þau öll á borðinu hjá biskupi og í kjölfarið varð Biskupsstofa að stórum vinnustað.

Við þetta varð biskupsembættið aftur á móti að einhverjum bastarði sem ekkert á skylt við lútherskan embættisskilning. Marteinn Lúther myndi snúa sér við í gröfinni ef hann frétti að biskup kirkju, sem kallar sig lútherska, hefði með höndum æðsta vald í veraldlegum málum hennar. Það er á skjön við allt sem siðbót hans og kirkjuskilningur gekk út á.

Þessi samþykkt er því “lúthersk leiðrétting” á embættisskyldum biskups.

Biskupsembættið hefur nefnilega verið í hálfgerðum vitleysingsgangi síðan 1997.

Hvað er biskup? Er hann framkvæmdastjóri kirkjunnar? Er hann trúarlegur leiðtogi hennar? Er hann fjölmiðlafulltrúi hennar? Almannatengill? Er hann þetta allt í einu? Er hægt að vera þetta allt í einu? Er hægt að vera góður í þessu öllu?

Sannlúthersk kirkja er lýðræðisleg fjöldahreyfing, ekki hírarkísk stofnun. Sannlúthersk kirkja er ekki miðstýrður valdapýramídi heldur lárétt grasrótarlýðræði. Sóknarbörnin eru æðsta vald í veraldlegum málefnum sannlútherskrar kirkju, biskup í trúarlegum.

Kirkjuþing er samkoma þar sem fulltrúar sóknarbarna eru í meirhluta og taka ákvarðanir um veraldleg mál kirkjunnar, s.s. starfsreglur um val og veitingu prestsembætta, um prestsetur og aðrar fasteignir Þjóðkirkjunnar, sameiningu prestakalla o.s.frv. Sú athugasemd Sóleyjar Tómasdóttur í þætti Gísla Marteins að kirkjan og umræðan innan hennar snúist um völd er því ekki fyllilega réttmæt. Það er einfaldlega svo að skipulag Þjóðkirkjunnar er viðfangsefni kirkjuþings. Í því felst að ákveða hvar fjárstjórnar- og framkvæmdavald hennar á að liggja. Sú umræða hlýtur eðlilega að snúast um völd. Sóley var því í raun að álasa kirkjuþingi fyrir að vinna vinnuna sína.

Með því að losa biskup Íslands undan framkvæmda- og fjárstjórnarvaldi verður hann/hún hins vegar frjáls að því að vera það sem lútherskur biskup á að vera – andlegur leiðtogi. Hann/hún getur því einfaldlega sagt næst þegar veraldleg mál ber á góma: “Ég er biskupinn. Ég skal svara öllum þínum trúarlegu og andlegu spurningum með hinni mestu ánægju. En ef þú vilt tala um peninga eða skipulagsmál kirkjunnar verð ég að vísa þér á framkvæmdastjórann sem hefur með höndum hina veraldlegu umsýslu kirkjunnar.”

(Þá er ég að gera ráð fyrir því að í trúfrjálsu fjölhyggjusamfélagi þar sem ríki og kirkja hafa verið aðskilin – samfélag sem siðbótarmennirnir sáu ekki fyrir á 16. öldinni (enda ríkti víðast hvar í Evrópu trúarnauðung langt fram á 19. öld) – tæki veraldlegur framkvæmdastjóri að sér hlutverkið sem lúthersk kirkjuskipan ætlaði greifanum, konunginum eða kirkjumálaráðherra en alls, alls ekki biskupi.)

Þá fer umræðan kannski að snúast um það sem hún á að snúast um – en ekki völd.

Kannski myndu færri sóknarbörn segja sig úr Þjóðkirkjunni vegna óánægju með yfirstjórn hennar ef völdin væru ekki þar heldur hjá sóknarbörnunum. Kannski myndu færri segja sig úr Þjóðkirkjunni ef fólk hefði það ekki á tilfinningunni að það sé það eina sem það getur gert til að hafa áhrif á hana. Kannski myndu fleiri gefa þannig kirkju séns sem vettvangi fyrir andlegar og þarfir sínar og trúarlegar iðkanir.

Þess vegna er þessi samþykkt að mínu mati stærra skref í rétta átt en vakin hefur verið athygli á. Ekki er einasta að þetta samræmist lútherskum embættis- og kirkjuskilningi heldur er þetta einmitt fyrsti vísirinn að þeim breytingum sem þarf að gera á íslenskri kirkjuskipan til að snúa við þeirri sjálfsmorðssiglingu sem Þjóðkirkjan hefur verið á undanfarin 20 ár eða svo.

Þjóðkirkjan er að mínu mati fyrst og fremst að sökkva undan sínum eigin gervikaþólska infrastrúktúr.

Þegar við köllum okkur kristin og lúthersk þá erum við að kenna okkur við tvo menn sem eiga það sameiginlegt að hafa kollvarpað kirkjuskipan samtíma síns.

Ef það er eitthvað sem kirkjuskipan samtíma okkar þarf á að halda þá er það einmitt að henni sé kollvarpað.

Annars sökkvum við.

Read Full Post »

Var að lesa Moggabloggið. Það er sýnu verra. Þar er þetta helst:

a)      Ég er „einn af þeim ómerkilegri persónum sem ég hef séð í gegnum netið.“ (Ásthildur Cecil Þórðardóttir) Í athugasemdakerfi annars Moggabloggara segir hún: „Hef haft algjöran fyrirvara á þessum manni eftir að hann opinberaði skítlegt eðli sitt með skítaumsögn um Frjálslyndaflokkinn byggðri á rógi og lygum. Þar með er þessi maður fyrir mér persóna non grada eins og sagt er. Aumkvunarverð persóna.“ Ég man eftir þessum samskiptum. Mig minnir að þau hafi snúist um þessa Bakþanka. Verðlaun eru í boði fyrir þann sem finnur róginn og lygarnar í þeim.

b)       „Aumkunaverðir menn eins og Davíð þór, reina upphefjasig með lygum,sem Samfylkingar- fólk hefur tamið sér.“ (Vilhjálmur Stefánsson) Sami Vilhjálmur segir annars staðar: „það hefur verið viðloðandi með Davíð þór að skrifa ætíð níð um aðra og í þeirri von að geta upphafið sig eða þá sem hann starfar fyrir í þessu tilfelli þóru Samfylkingarkonu.“ Auðvitað nefnir hann ekki eitt dæmi um þetta síendurtekna níð mitt um aðra. Og svo skal ég glaður borga Vilhjálmi hverja krónu tífalda til baka sem hann getur sýnt fram á að ég hafi þegið fyrir þessi meintu störf mín fyrir Þóru eða Samfylkinguna. – Á þriðja staðnum segir hann: „þessi maður hefur aldrei látið annað en ljót orð falla úr munni sér og hatur í garð annara.Hann virðist vera með athiglis síki..Löngum hafa menn velt því fyrir sér hvort Davíð þór sé ekki með geðröskun sýki sem bríst svona út hjá honum..“ Engin dæmi eru nefnd, en auðvitað eru það ekki „ljót orð í garð annarra“ að segja þá haldna „geðröskun“ – eða hvað?

c)      Merkilegt hvað fólk er ákveðið í að ég tilheyri flokki sem ég hef aldrei kosið. Páll Vilhjálmsson tengir mig líka við Samfylkinguna í makalausum pistli. Sem betur fer hef ég reyndar engar áhyggjur af því að nokkur heilvita maður taki mark á honum lengur. Í athugasemdakerfinu er ýjað að því að ég hafi verið fullur þegar ég skrifaði þetta. (Valli) Auðvitað er ekki vikið einu orði að efni pistilsins í þessum skrifum.

d)     „Þetta er hrein og tær öfundsýki frá manni sem endanlega hefur sporað út af allri rökræðu og umfjöllun um þessar kosningar.“ (Eyjólfur Jónsson) Í athugasemd er ég kallaður „bullustampur“ og sakaður um „órökstutt mál“ (Hrólfur Þ. Hraundal), auðvitað án þess að gerð sé tilraun til að hrekja rökin sem fram koma í pistlinum.

e)      Ég er „karlinn á kassanum“ sem ekkert hefur fram að færa nema níð og Gróusögur.“ Við það er bætt yfirlýsingu um vanþóiknun á „starfsaðferðum“ stuðningsmanna viss frambjóðanda. En sá frambjóðandi er á vegum LANDRÁÐAFYLKINGARINNAR …“ (Jóhann Elíasson) Undir þetta tekur Örn Ægir (sem í athugasemdakerfi DV sagði: „Latum ekki ESB landráðaöflin ná Bessastöðum!“) með orðunum: „Þvílíkar innihaldslausar upphrópanir og rugl“ Sjálfur kem ég ekki auga á vísi að innihaldi í því sem Örn Ægir hefur sagt.

f)       Í athugasemdakerfum allra hinna blogganna dúkkar þessi sami Jóhann Elíasson upp. Þar hefur hann aðeins orðið „mannleysa“ fram að færa og tínir aldrei til eitt einasta dæmi um rangfærslur úr textanum sem verið er að gagnrýna. Um þá athugasemd er síðan sagt á einum stað: „Það er skynsamlegt það sem Jóhann Elíasson segir hér að ofan um þessi skrif manns sem ákvað að fórna mannorði sínu til að útdeila því sem lýsir honum sjálfum betur en nokkrum öðrum.“ (Rakel Sigurgeirsdóttir) – Enn ekki orð um það sem ég sagði eða leiðrétting á einhverju sem þar er missagt.

g)       „Og þetta kallar sig fræðslufulltrúa…..!!“ (Sigrún Jóna) Nei, Sigrún Jóna. Vinnuveitendur mínir titla mig fræðslufulltrúa. Ég kalla mig Davíð. Þú kallar mig aftur á móti „þetta“. Rógur? Eigum við að ræða þetta frekar? Eða eigum við að gagnrýna pistilinn minn? Eigum við frekar að halda áfram að uppnefna hvort annað?

h)      „Séra Davíð Þór sér um guðþjónustur í minni gömlu sókn. Það sem hefur undrað mig við það, er hvernig þjóðkirkjunni gat dottið það í hug að bjóða söfnuði upp á að kjaftfór guðfræðingur að sunnan fljúgi vikulega austur á land til að flytja fagnaðarerindið.“ (Magnús Sigurðsson) Ekki veit ég hver hinn gamli söfnuður Magnúsar er, en ég flýg ekki austur vikulega. Ég bý á Seyðisfirði. Ég hef séð um guðsþjónustur og prédikað í Bakkagerðissókn, Egilsstaðasókn, Hjaltastaðarsókn, Kirkjubæjarsókn, Sleðbrjótssókn og Stöðvarfjarðarsókn síðan ég fluttist hingað. Og ég geri þetta alls ekki vikulega. Mitt aðalstarf er í öðru fólgið. Þessi fáránlega rangfærsla er sett fram af manni sem titlar sig „áhugamann um frelsi hugans“. Fyrirsögnin er „Kirkjan komin út í móa.“ Hann minnist sem sagt ekki einu orði á neitt sem ég segi í pistlinum heldur lýgur þess í stað upp vinnuveitanda minn og vegur að starfsheiðri mínum. Svo er ég ekki séra.

i)        „Ég veit ekki hvað viðkomandi aðili er virkilega að vilja upp á dekk með sínu gifuryrðaflóði í þessu efni, sem óhjákvæmilega fellur aftur í fang viðkomandi, líkt og sandkast í sandkassa.“ (Guðrún María Óskarsdóttir) – Dæmi um gífuryrði og af hverju þau eru gífuryrði? Nei. Að saka annan mann um gífuryrðaflóð án þess að færa nein rök fyrir ásökuninni, eru það ekki gífuryrði, Guðrún María?

j)        „djöfulsins kjaftæði er þetta í manninum. er hann fræðslufulltrúi austurlandsprófastdsdæmis? guð hjálpi mér . ef fræðslan er eitthvað í þessa átt þá er allt pensumið ósanindi og klám“ (Björn Grétar Sveinsson) – Auðvitað án þess að benda á nein ósannindi, hvað þá klám, í því sem málið snýst um.

k)      „þetta bara sínir að prestlærður maðurin að sannleikan má hagræða eins maður vill,hans segir pistill sinn skrifaðan úr herbúðum frambjóðaneda en hvers þá ,ekki mynnist hann á að Ólafur Ragnar Forseti er sannkristinn maður,og kallar hann bara útsmogin lygara sem tali túngum mörgum,svo talar hann um foringjaræði hans er það ekki gott bara,en temað er ekki gott að manni sem telur sig Prestlærðan mann fyrirgefninga!!en ég er ekki að hallamæla neinum rambjóiðanada alls ekki,þeir eru misgóðir en allir frambærilegir“ (Haraldur Haraldsson) Ha? Þýðing á íslensku óskast. Það eina sem ég skil er að hann er ekki hrifinn. Rök? Ekki að ræða það.

l)        Mér finnst þessi eiginlega best: „þau [Ólafur og Dorrit] sjá nú svart á hvítu óvini fullvalda Íslands í þessu guðfræðingingings-greyi“ (Helga Kristjánsdóttir)

Satt best að segja er mér hætt að finnast þetta fyndið. Þetta fyllir mig aðeins óhug. Mér fannst þetta samt nógu skelfilegt til að safna þessu saman á einn stað og birta það.

Hér með vara ég allt skynsamt fólk við einstaklingunum sem hér er nafngreindir og í síðustu færslu. Þrátt fyrir allt vil ég enn trúa að þetta sé hávær minnihluti og fólk sé upp til hópa fært um rökhugsun og skynsama orðræðu. Og ég neita að trúa að málflutningur af þessu tagi sé lýsandi fyrir þá sem styðja forseta Íslands til áframhaldandi setu í embætti.

Read Full Post »

Í gær skrifaði ég pistil um það hvernig kosningabarátta Ólafs Ragnars Grímssonar hefur komið mér fyrir sjónir. Ég gat ekki stillt mig um að nota stór orð, en bað fólk að líta á rökin og staðreyndirnar frekar en orðfærið. Ég gætti þess í hvert sinn sem ég notaði stórt orð að styðja notkun þess rökum og staðreyndum.

Pistillinn olli usla. Viðbrögðin í athugsemdakerfi DV hafa valdið mér áhyggjum. Þar er ég ítrekað sakaður um að fara með róg og lygi án þess að einu einasta atriði í greininni sé hnekkt efnislega.

Það sem dregið er inn í umræðuna er:

a)      Að ég sé Samfylkingarmaður úr herbúðum Þóru (Stefán Auðunn Stefánsson). Þannig skil ég a.m.k. orðin „Samfýósi“ og „kráka dregin upp úr hreiðri“. Staðreynd: Ég hef aldrei kosið Samfylkinguna og þekki Þóru Arnórsdóttur ekki persónulega, hef skiptst á orðum við hana – en ekki það sem af er þessu ári.

b)      Að ég sé „pokaprestur og prófastur til Bleiktog bláttþinga“ sem ráðist á ÓRG „með buslubænum og kristilegri skapvonsku.“ (Jóhannes Ragnarsson) Af sama toga: „sorglegt hvað þessi þjónn guðs er bitur og reiður í skrifum“ (Sigursveinn Örvarsson)

c)      Að ég sé bara að láta bera á mér og komast í umræðuna. (Ívar Örn Hrólfsson) Eins og það sé mér eitthvað yndi að vera miðpunktur umræðu af þessu tagi.

d)     Að ég sé „DRULLU-Prestlærður Grínari,,sem á erfitt með að fá hempu,, oftast drukkinn eða skakkur,,enginn furða!!!“ (Bjössi í Klöpp) Staðreynd: Ég hef ekki einu sinni gert tilraun til að fá hempu og hef verið án hug- eða skapbreytandi efna í 7 ár, þrjá mánuði og þrjá daga.

e)      Að það sé „Ekki skemmtiegt að prestlærður maður sé svona skemtilega geggjaður““. (Jón Marteinsson) Hann bætir því við að núverandi ríkisstjórn geri skjaldborg um „helvítis útgerða pakkið“. Ég er ekki viss um að Jón hafi fylgst með umræðum um ný lög um sjávarútveg og hverjir risu einarðlegast gegn þeim.

f)       Að „Guðfræðingurinn“ sé „að missa sig“ og ætti „að lesa nokkrar blaðsíður í hinni helgu bók til að róa sig“. (Kristjana Guðmundsdóttir) Af sama toga: „Held að hann Davíð vinur minn sé alveg búin að missaða!!“ (Sævar Sigurðsson)

g)      „æ farðu og borgaðu icesave Davíð… eða mokaðu skurð einhverstaðar, a.m.k. hættu að koma með svona þvælu í blöðin, þvælu sem þú getur engan veginn bakkað upp með staðreyndum“. (Reynir Freyr Pétursson) Í fyrsta lagi var þessi „þvæla“ ekki sett „í blöðin“ heldur skrifuð sem færsla á mína persónulega bloggsíðu. Í öðru lagi geri ég ekki annað en að bakka orð mín upp með staðreyndum.

h)      „Hefur þessi guðsmaður unnið líkamlegt áreynslustarf ekki sé ég það fyrir mér.En hann kemur svona annarslagið og bullar út í loftið telur sig stóran litli kallinn:)“ (Ómar Kristvinsson) Ómari til upplýsingar hef ég unnið við löndun, uppskipun og útskipun, landbúnað, sjómennsku og í byggingarvinnu. Ég er 182 sentímetrar.

i)        Að ég sé „sjúkur maður“, skrif mín séu ekki eðlileg og líkist því ekki að vera eftir helibrigðan mann. (Sigurður Sigmannsson) Hann bætir því við að ég virðist telja kjósendur Ólafs hálfvita eftir að hafa lesið grein þar sem ég segi: „Ég tel kjósendur Ólafs Ragnars Grímssonar ekki heimskari eða verri manneskjur en þá sem hafa meiri mætur á öðrum frambjóðendum.“ Af sama toga er þessi athugasemd: „Mikið skelfing er þetta rætið og ómálefnalegt og lýsir kannski best bréfritara. Svona ritar bara sjúkur maður.“ (Þröstur Elfar) Og þessi: „Ég held að Davíð eigi verulega bágt, við ættum kanski að biðja fyrir honum.“ Og þessi: „fárveikur einstaklingur.“ (Jóhann Helgi Kristinsson) Og jafnvel þessi: „Aumingja maðurinn!“ (Birna Guðmundsdóttir)

j)        „Ólafur er svo miklu stærri peróna en þú. Haltu kj. guðsmaður. Íslendingar vilja Ólaf, skilurðu það ekki. Skítkast frá ómekilegri persónu, skiftir engu máli lengur.“ (Birgir Ás Guðmundsson) Ég er einkum hrifinn af því að vera hreinlega sagt að halda kj. Sterkt vopn í rökræðu.

k)      „Við þurfuð að láta nýja biskupinn vita um þetta skemmda epli í kirkjunni. Vesalingur.“ (Magnús Þórðarson) „Læk á það“ (Ingigerður Guðmundsdóttir) Skoðanir studdar rökum með vísun í heimildir gera mig með öðrum orðum óhæfan til að gegna núverandi starfi og biskupinn ætti að skerast í leikinn. Skoðanakúgun much? Af sama toga: „Alltaf sami klámkjafturinn á Davíð Þór. Séra Davið Þór? Vonandi aldrei.“ (Guðlaugur Ævar Hilmarsson) Ég býð verðlaun fyrir að finna eitt klámfengið orð í pistinum sem um ræðir.

l)        „Algjörlega innihaldslaust rugl! Kjósum Ólaf Ragnar hann og Dorrit eru þjóðinni til sóma. Latum ekki ESB landráðaöflin ná Bessastöðum!“ (Örn Ægir) Hann bætir því við að ég sé „algjör auli“ – sem þá væntanlega flokkast ekki sem „innihaldslaust rugl“. Ólafur er m.ö.o. í huga Arnar Ægis vörn gegn „ESB landráðaöflunum“ jafnvel þótt algerlega borðleggjandi sé að samningur um ESB fer alltaf í þjóðarakvæðagreiðslu, óháð því hver er forseti eða hvaða skoðun hann eða hún hefur á samningnum.

m)    Að ég sé að „reyna að ná i friðhelgi kvenna með því að rægja óla kallinn“ (Guðmundur Falk Náttfari)

n)      „Davíð alltaf fyndinn 😦 Annaðhvort í porno eða í prestsgalla, en að úthúða góðu fólki er of flókið fyrir hans skítlega eðli!“ (Ágúst Örvar Ágústsson)

o)      „Svona verða menn sem læra guðfræði.“ (Sævar Einarsson) Samkvæmt því eru hér og hér listi yfir fólk sem er/var nákvæmlega eins og ég.

Þetta gerir það að verkum að það eina, sem ég hef áhyggjur af að missagt sé í pistlinum mínum, sé þessi setning: „Ég tel kjósendur Ólafs Ragnars Grímssonar ekki heimskari eða verri manneskjur en þá sem hafa meiri mætur á öðrum frambjóðendum.“ Ég ætla þó að standa við það og vona að þeir sem tjá sig á netinu séu ekki þverskurður af fylgi forsetans. Sjálfur þekki ég háttvíst og greint fólk sem styður hann. Það varðar ekki vinslitum að þeir meti það, sem að þeirra mati er merki um styrk og festu, meira en sannsögli.

Ég tíni þetta til bara svona til að benda á það á hvaða plani opinber umræða á Íslandi er. Það er ekki beint hvetjandi til þátttöku í henni að sitja undir ásökunum um andlega vanheilsu, óeðli, lygar og ómerkilegheit án þess að neitt efnislegt sé tilgreint sem missagt sé, eftir að hafa sett fram athugun ítarlega studda rökum og heimildum – að vísu með óvenjulega tæpitungulausum hætti. Það er jafnvel vegið að atvinnuöryggi mínu.

Og hér kemur brandarinn:

Allt þetta fólk fer í dag og kýs margafhjúpaðan lygara og rógbera til embættis forseta Íslands, eftir að hafa sakað mig um lygar og róg án þess að hafa getað tilgreint eitt einasta dæmi um að ég hafi farið með ósannindi, sárhneykslað á því lága plani sem íslensk umræða er á, sannfært um að það sem helst sé að umræðunni sé … ég.

Read Full Post »

Þessi pistill er ekki skrifaður úr herbúðum. Hann er skrifaður úr eldhúsi á Seyðisfirði. Hann er ekki skrifaður með hatri eða heift. Hann er skrifaður með hálfum huga. Mér hefur nefnilega fundist að Íslendingar séu einhvern veginn þannig gerðir, líklega af því að þeir eru svo góðir í sér, að það eitt að kalla lygara lygara opinberlega sé líklegra til að afla honum samúðarfylgis en að koma honum illa. Þessar hugleiðingar mínar kynnu því að hafa þveröfug áhrif við það sem þeim er ætlað.

Auk þess er ég í raun ekki að segja neitt sem ekki hefur verið sagt áður og einhverjum ætti að vera óljóst. Forsetinn hefur byggt kosningabaráttu sína á ósannindum og níðrógi. Það er borðleggjandi. Aftur á móti virðist mér að þeir, sem greiða ætla að greiða honum atkvæði á morgun, láti það sér sem vind um eyru þjóta. Einhverja kosti virðast þeir álíta hann hafa sem vegi þyngra en þeir ljóðir á ráði hans sem dregnir hafa verið fram í dagsljósið og gera hann að mínu mati gersamlega vanhæfan til að gegna embætti lengur..

Í dag var mér bent á áhugaverðan pistil. Af því tilefni við ég taka fram að ég tel kjósendur Ólafs Ragnars Grímssonar ekki heimskari eða verri manneskjur en þá sem hafa meiri mætur á öðrum frambjóðendum. Ég held aftur á móti að þeir séu haldnir sterkara foringjablæti en lýðræðinu er hollt. Helsta röksemd þeirra virðist vera að þjóðin þurfi „sterkan leiðtoga“. Ég held að þetta fólk geri sér grein fyrir því að forsetinn hefur hvað eftir annað hallað réttu máli og farið með vísvitandi ósannindi og fleipur til að afla sér fylgis, en það sér í gegn um fingur sér við hann af því að hann er í huga þess þessi sterki leiðtogi. Því finnst eitthvað töff við hann. Hann talar máli okkar og lætur ekki vaða yfir sig. Hann er maður stáls í stál, sá sem lætur hart mæta hörðu.

Að mínu mati er það þó ekki það sem við þurfum á að halda núna. Lygar og rógur eru ekki styrkleikamerki, heldur þvert á móti veikleikamerki. Lygarinn og rógtungan stendur alltaf uppi á endanum afhjúpaður, berrassaður, hlandbrunninn og flengdur af sinni eigin framgöngu. Illu heili benda skoðanakannanir ekki til að það muni gerast á morgun, þótt enn sé von. En það mun gerast.

Einhverjum kann að finnast ég viðhafa fullstór orð með því að kalla forsetann lygara og rógtungu. En ég kann engin önnur til að lýsa framgöngu hans síðan hann hóf baráttu sína fyrir endurkjöri. Ég bið ykkur því að afsaka orðanotkunina með því að hafa tvennt í huga:

  • Maður, sem sjálfur veigraði sér ekki við því að saka gagnrýnendur sína um „skítlegt eðli“, verður öðrum fremur að sætta sig við að gagnrýni á hann sjálfan sé sett fram án tæpitungu.
  • Það er glöggt dæmi um rökþrot þegar maður getur ekki gagnrýnt það sem sagt er og fer í staðinn að hnýta í hvernig það er sagt.

Ég sagði að það væri óvefengjanlegt að forsetinn hefði byggt kosningabaráttu sína á lygum og rógi. Ég vil ekki falla í sömu gryfju og Hjörleifur Hallgrímsson sem í stuðningsgrein fullyrðir: „Það má nokkuð ljóst vera að framboð hinnar fallegu sjónvarpsstjörnu til forsetaembættisins Þóru Arnórsdóttur er til komið vegna hatursfulls Samfylkingarfólks út í sitjandi forseta.“ Fyrir þessu færir hann engin rök, hann hefur engar heimildir sem styðja þessa tilgátu. Á góðri íslensku má því kalla málflutning hans frá rótum „þvætting“, „kjaftæði“, „heilaspuna“, jafnvel „vænisýki“ og þarafleiðandi alveg áreiðanlega „róg“. Mig langar því að nefna nokkrar borðleggjandi staðreyndir, sem að vísu hafa allar komið fram áður, sem taka af allan vafa um að forsetinn hefur hvað eftir annað gerst ómerkingur orða sinna og farið vísvitandi með blákaldar og kalkúleraðar lygar í kosningabaráttunni. Ég tíni þær ekki til eftir mikilvægi eða auvirðuleikastigi heldur í þeirri röð sem þær koma upp í hugann:

  1. Forsetinn lýsti því yfir að hann hygðist bíða með að hefja kosningabaráttu sína þangað til framboðsfrestur hefði runnið út. Það sveik hann. Um leið og helsti keppinautur hans, sem þá virtist hafa forskot á hann samkvæmt skoðanakönnunum, þurfti að taka sér frí til að fæða barn geistist hann fram þótt enn væru tvær vikur þar til framboðsfrestur rynni út, vitandi vits að Þóra Arnórsdóttir væri ekki í aðstöðu til að bera hönd fyrir höfuð sér í nokkra daga og eitrið og gallið sem hann myndi spúa (sjá lygi 2 hér að neðan) fengi því að svíða hana og brenna og skaða framboð hennar alllengi áður en því yrði andmælt svo nokkru næmi. Sumir myndu líkja þessu við að sparka í liggjandi mann, en að mínu mati er það fulllangsótt líking. Nær lagi væri að líkja þessu við að sparka í fæðandi konu. Gott og vel. Það má skipta um taktík, þetta er kannski ekki stórglæpur. Engu að síður er alveg ljóst að forsetinn hóf kosningabaráttu sína á því að gerast ómerkingur orða sinna til að koma höggi á andstæðinginn, hann sætti færis að haga seglum eftir vindi.
  2. Það sem forsetinn hafði þá fram að færa var nákvæmlega sama lygin og áðurnefndur framsóknarmaður, Hjörleifur Hallgrímsson, byggir stuðning sinn við Ólaf á. Þóra er frambjóðandi óvinsællar ríkisstjórnar. Þetta er hin svokallaða „Let Them Deny It“ aðferð. Hún byggir á því að saka andstæðinginn um eitthvað nógu svívirðilegt án nokkurra röksemda eða heimilda og láta hann svo þurfa að verja orku sinni í að sverja það af sér. Það eina sem styður þetta er smávægileg þátttaka Þóru í starfi Samfylkingarinnar fyrir margt löngu. Sjálfur hef ég aldrei kosið Samfylkinguna, en með sömu rökum mætti gera mig að gallhörðum Samfylkingarmanni í huga fólks með því að grafa það upp að ég hafi einhvern tímann tekið að mér að stjórna málfundi á vegum hennar. Önnur tenging Þóru við Samfylkinguna eru ættfræðilegs eðlis. Sumum kann að finnast það gild rök að vilja ekki sjá „Hanníbalskynið“ á Bessastöðum, en fólki með óbrjálaða siðferðiskennd misbýður slíkur málflutningur auðvitað. Auðvitað lét forsetinn það ógert að draga stjórnmálaþátttöku maka hennar inn í dæmið, enda átti hún sér stað innan Sjálfstæðisflokksins, en þangað sækir forsetinn einmitt stuðining þessa dagana, í Moggaklíkuna og útgerðarauðvaldið. Þar með væri þessi hlægilega vænisjúka samsæriskenning nefnilega hrunin um sjálfa sig. Auk þess hlýtur það að teljast ótrúleg bíræfni að maður, sem sjálfur er leynt og ljóst í framboði gagngert í þeim tilgangi að misbeita synjunarvaldi forseta í þágu pólitísks málstaðar, væni mótframbjóðendur sína um pólitískt agenda. Eða eImager fólk búið að gleyma hverjir það voru sem ekki gátu hugsað sér að missa hann af Bessastöðum? Hver stóð við hlið hans þegar hann lýsti yfir framboði (eða hvort það var þegar hann tók við 75% af þeim fjölda undirskrifta sem til stóð að safna til að skora á hann að gefa kost á sér til endurkjörs)? Það var Guðni Ágústsson, fyrrum formaður Framsóknarflokksins, stjórnarmaður í Heimssýn (samtökum gegn inngöngu Íslands í Evrópusambandið) og félagi til margra ára í nýnasistahreyfingunni „Norrænt mannkyn“ að sögn tveggja formanna þeirra miður geðslegu samtaka.
  3. Forsetinn réðst að starfsheiðri maka Þóru, Svavars Halldórssonar, með bláköldum lygum. Óþarfi ætti að vera að fara nánar út það hér. Hvert orð af rógi Ólafs um Svavar hefur verið rekið öfugt ofan í hann. Forsetinn hefur þó ekki séð ástæðu til þess að taka eitt orð af því aftur eða biðjast velvirðingar á neinu sem þar var missagt (sem reyndar var öll ræðan). Það væri óneitanlega skondið ef Ólafur Ragnar Grímsson yrði ekki bara fyrsti forseti lýðveldisins til að sitja (vonandi aðeins) fimm kjörtímabil heldur sá fyrsti sem hæfi sitt (vonandi) síðasta kjörtímabil á því að vera dæmdur ómerkingur orða sinna og skaðabótaskyldur fyrir meiðyrðin sem barátta hans fyrir endurkjöri byggði á. Í 236. grein almennra hegningarlaga segir: „Sé ærumeiðandi aðdróttun höfð í frammi eða borin út gegn betri vitund, þá varðar það fangelsi allt að 2 árum.“ Framkoma Ólafs býður meira að segja upp á að hann þyrfti að sinna embætti forseta í þessi tvö ár (sem hann þrætir fyrir að hafa lýst því yfir að hann ætlaði að gera (sjá lygi 5 hér að neðan)) frá Kvíabryggju. Vera má að forsetinn njóti einhverrar friðhelgi á borð við þinghelgi. En henni hlýtur Alþingi að geta svipt hann eins og þingmenn. Ég vona að Svavar Halldórsson hafi kjark til að leita réttar síns gagnvart Ólafi fyrir atvinnuróginn og ærumeiðingarnar og að Alþingi Íslendinga hafi siðferðiskennd til að svipta Ólaf þeirri friðhelgi sem komið gæti í veg fyrir að 73. grein stjórnarskrár lýðveldisins Íslands gilti um hann eins og aðra Íslendinga. Sjálfum finnst mér ekki ósanngjarnt að krefjast þess af forseta lýðveldisins að hann hagi kosningabaráttu sinni innan ramma almennra hegningarlaga.
  4. Forsetinn lýgur því að hann geti komið í veg fyrir að Íslendingar verði þvingaðir inn í Evrópusambandið án þess að það yrði fyrst samþykkt í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta er einfaldlega rangt. Ólafur Ragnar Grímsson hlýtur að vita það, hann er ekki vitlaus. Samt hefur honum tekist að telja þjóðinni trú um að núverandi ríkisstjórn, sem er á síðasta snúningi, hafi í hyggju að troða þjóðinni inn í sambandið að henni óforspurðri og hann geti komið í veg fyrir það. Samningur um ESB er alltaf borinn undir þjóðaratkvæði, óháð því hvert landið er, hver er forseti þess eða hvaða skoðun hann eða hún hefur á samningnum. Það er svo einfalt. Það er algerlega borðleggjandi. Ólafi Ragnari til hróss verður þó að segjast að engum öðrum hefði ég treyst til að telja annars skynsömu fólki trú um annan eins endemisþvætting.
  5. Tvær tilvitnanir. „Það er þó einlæg ósk mín að þjóðin muni sýna því skilning þegar stöðugleiki hefur skapast í stjórnskipan landsins og stjórnarfari og staða okkar í samfélagi þjóðanna hefur skýrst ákveði ég að hverfa til annarra verkefna áður en kjörtímabilið er á enda og forsetakjör fari þá fram fyrr en ella.“ (Ólafur Ragnar Grímsson, 4. mars 2012) „Ég hef aldrei sagt að ég ætlaði bara að vera í tvö ár. Þetta er áróður sem reynt var að læða að fólki, m.a með fréttunum sem Svavar bjó til á RÚV þegar verið var að kanna framboð Þóru. Það hefur alltaf verið skýrt að ég býð mig fram til fjögurra ára.“ (Ólafur Ragnar Grímsson, 21. maí 2012) Hér.
  6. Ólafur Ragnar lýgur því að hann hafi sparað þjóðinni stórfé með því að synja Icesave lögunum undirskriftar. Staðreyndin er sú að hann samþykkti möglunar- og umyrðalaust mun óhagstæðari samning en þann sem hann síðar vísaði til þjóðarinnar. Þá var það þjóðinni til happs að Bretar og Hollendingar samþykktu ekki fyrirvara Alþingis. Sá samningur, sem hann synjaði, var okkur mun hagstæðari en sá sem hann áður hafði samþykkt þegjandi og hljóðalaust. Raunveruleikinn er sá að enginn veit hvað kemur út úr Icesave ósköpunum fyrr en dómur fellur.
  7. Ólafur Ragnar Grímsson lýgur því að hann geti orðið forseti allrar þjóðarinnar. Sitjandi forseti, sem helmingur þjóðarinnar getur ekki hugsað sér að styðja til áframhaldandi setu, verður aldrei sameiningartáknið eða sáttasemjarinn sem við þurfum nú á að halda. Þessu hlýtur hann að gera sér grein fyrir. Ólafur Ragnar Grímsson er maður stáls í stál, sá sem lætur hart mæta hörðu. Hann er ekki maður sáttar og samræðu. Atkvæði greitt Ólafi Ragnari Grímssyni er atkvæði greitt sundrungu og átökum, ekki samlyndi og sáttfýsi.

Ég veit að þetta er ekki til neins. Þeir sem ekki geta hugsað sér að kjósa Ólaf munu kinka kolli. Þeir sem ákveðið hafa að kjósa hann munu líta á þetta sem hatursáróður úr herbúðum Þóru Arnórsdóttur og ekki taka mark á neinu. Þeir munu líta á hann sem „sterkan leiðtoga“ sem svífst einskis fyrir málstað okkar og telja okkur einmitt þurfa á þannig manni að halda. Hugsanlega er ég jafnvel að gera Þóru Arnórsdóttur óleik með því að senda þetta frá mér.

Hvað mig varðar var ég heitur stuðningsmaður Ólafs í tólf ár og hálfvolgur í fjögur til viðbótar. Mér fannst hann gera margt gott í embætti. Mér fannst einkennilegt að hann skyldi sjá ástæðu til að vísa fjölmiðlalögunum til þjóðarinnar eftir að hafa ekki séð ástæðu til að gera það í sambandi við hin gríðarlegu og óafturkræfu náttúrspjöll við Kárahnjúkavirkjun, sem að mínu mati voru mun stærra mál. Hann gerði ekkert til að snúa til baka þeirri ófyrirleitnu valdníðslu Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar sem stuðningur Íslands við árás Bandaríkjanna á Írak til varnar olíu- og viðskiptahagsmunum George W. Bush og Dicks  Cheeneys var. En ég sætti mig við að hans mat á mikilvægi mála væri annað en mitt og hann væri forsetinn en ekki ég.

Það sem af er þessu ári hefur mér aftur á móti þótt átakanlegt að fylgjast með þeim lævísa og háttvísa pólitíska ref, sem Íslendingar treystu fyrir æðsta embætti þjóðarinnar, umturnast í hreinræktaðan skunk. Enn átakanlegra hefur mér þó þótt að sjá hve lyga- og rógsherferð hans fyrir endurkjöri virðist eiga greiða leið að atkvæðum Íslendinga. Mig langar því að biðja þá, sem hafa hugsað sér að kjósa Ólaf Ragnar Grímsson og hafa enst til að lesa hingað og eru enn móttækilegir fyrir rökum og staðreyndum, að líta fram hjá stóryrðunum, sem ég gat ekki stillt mig um að nota hér, og hugsa sinn gang.

Það er alveg ljóst að nái Ólafur Ragnar Grímsson endurkjöri mun helmingur þjóðarinnar líta svo á að forseti Íslands sé ómerkilegur lýðskrumari. Óvíst er að virðing embættisins jafni sig nokkurn tímann á því.

Lygahöfðingi verður aldrei friðarhöfðingi.

Read Full Post »

Older Posts »