Feeds:
Færslur
Athugasemdir

Archive for the ‘Kveðskapur’ Category

seljavegurBlessuð sértu borgin mín,

byggðin fagra á nesi lágu.

Litskrúðugu þökin þín

þegar sólin á þau skín

glitra eins og gullið skrín

gersema við sundin bláu.

Blessuð sértu borgin mín,

byggðin fagra á nesi lágu.

 

Æskuslóðir indælar

enn ég lít á hverjum degi.

Bárujárn og bakgarðar,

bernskusporin minningar,

er ég geng um göturnar,

glæða lífi á förnum vegi.

Æskuslóðir indælar

enn ég lít á hverjum degi.

 

D. Þ. J.

 

Við þetta fallega lag eru til ýmsir textar. Sennilega er sá vinsælastur sem hefst á orðunum „Fjalladrottning móðir mín“. Vestmannaeyingar eiga sitt eigið ljóð við þetta lag, „Yndislega eyjan mín“. Auk þess er til sálmur við þetta lag (nr. 435). Mér fannst Reykvíkinga, sem hvorki eru bundnir sveit eða eyju tilfinningaböndum, vanta ljóð við þetta lag. Hér er gerð tilraun til að bæta úr þeim skorti, ef hann þá var einhver.

Read Full Post »

Sanna

Sanna MagdalenaÞeir buðu þér sæti við borðið hjá sér

að bjóða þér léttari hlekki

og lýðurinn gerði lítið úr þér

er þú lést sem þú heyrðir það ekki.

 

En þú komst ekki puntuð með pennastöng

að pára einhver falleg orð.

Þú mættir með öxi, mjó og svöng,

að mölva þetta helvítis borð.

Read Full Post »

Vetrarmáni

(Skoskt þjóðlag/D. Þ. J.)

 

Eitt kjökur um nótt sem þig kallar til sín

þegar kærleik og yl þarf að veita

er sem lofsöngur ómi um lífsins mestu dýrð;

að svo lítið nái öllu að breyta.

 

Hún kemur sem vor inn í vetrarins drunga

með von um að nú muni hlýna

og vakir þér yfir sem vetrarmáni skær

svo að veröldin fer gjörvöll að skína.

 

Eitt bros sem í sviphending birtist og fer

eins og bliki á himneska sjóði

er örskot sem færir þér eilífðina um stund

svo að einskis virði er jarðneskur gróði.

 

Það kemur sem vor inn í vetrarins drunga

með von um að nú muni hlýna

og vakir þér yfir sem vetrarmáni skær

svo að veröldin fer gjörvöll að skína.

 

Eitt varnarlaust líf sem í vanmætti þér

ber að vernda og hlú að og gæta

í fullkomnu trausti í faðmi hvílir rótt.

Það er frelsara sínum að mæta.

 

Hann kemur sem vor inn í vetrarins drunga

með von um að nú muni hlýna

og vakir þér yfir sem vetrarmáni skær

svo að veröldin fer gjörvöll að skína.

 

Read Full Post »

asmundurÉg fékk mér bíl og fór að bíla

og braska og díla.

Sú vegalengd var milljón og ein míla

sem eins og píla

án þess að hvíla

ég sagðist þurfa sjálfan flytja mig.

 

En einhver skratti fór að skvíla

og skítafýla

gaus upp og góða fólkið tók að íla

og vola og víla.

Mér vildi skýla

enginn, því við allt ég fór á svig.

 

Og þannig var ég gerður Grýla

af gremju kríla,

sem bara var í pólitík að príla

og kviðinn kýla,

en kaus að stíla

reikninginn á ríkissjóð og þig.

 

Read Full Post »

jólasnjór 2Er napur vindur nístir hold

og nóttin öllu ræður

og myrkri þrúgar þreytta fold

þungur bylur skæður

 

og landið kreppt í klakabönd

hinn kaldi vetur hefur,

í drunga gráan dal og strönd

hin daufa skíma grefur

 

og frostið teiknar föla rós

í fönn á eyðihjarni.

Þá mætir okkur lífsins ljós

í litlu, snauðu barni.

Read Full Post »

Eilítið meir

 (A Little Bit More)

(Lag og texti: Bobby Gosh/ísl. Texti: D. Þ. J.)

 

Þegar vetra fer og sólin sest

og sumarið þagnar og deyr

og þú heldur að ég sé uppgefinn

þá skal ég elska þig eilítið meir.

 

Sestu mér hjá og hlustaðu á

hve hjarta mitt ákaft slær,

eins og frjálst úr vetrarfjötrum

þegar fæ ég að vera þér nær.

Ég ligg þér við hlið og lifna allur við

sem leiki um mig gola hlý

og fuglar syngi söngva

og sjáist ekki á himni ský.

 

Og þegar vetra fer og sólin sest

og sumarið þagnar og deyr

og þú heldur að ég sé uppgefinn

þá skal ég elska þig eilítið meir.

 

Mynd þín svo hýr í huga mér býr

þótt húmi að og hverfi sýn.

Þá er brosið undurblíða

bjarta heillastjarnan mín.

Þegar strýkur mér blítt hauströkkur hlýtt

þú hjartað fyllir sætum yl

og laufin fölna og falla

og fegurðin er bara til.

 

Og þegar vetra fer og sólin sest

og sumarið þagnar og deyr

og þú heldur að ég sé uppgefinn

þá skal ég elska þig eilítið meir.

 

Þetta er nýjasta afurð þess sem ég í gamni galla „Þorsteins Eggertssonar heilkennið“ mitt, þ.e. áráttukenndrar þráhyggju að þýða dægurlagatexta á íslensku. Mér hefur alltaf þótt þetta lag fallegt og það var sungið á ensku við hjónavígsluathöfn sem ég stjórnaði nú í haust. Á leiðinni heim kom viðlagið til mín á íslensku og ég skrifaði það niður hjá mér. Um daginn var ég síðan að taka til í möppunni minni og fann þetta og langaði að klára það. Síðustu daga hafa erindin því verið að púsla sér saman í hausnum á mér á milli annarra verkefna og ég held að ég sé nokkuð sáttur við þetta svona. Þetta er auðvitað miklu væmnara og upphafnara en frumtextinn, sem er mun holdlegri. En svona verður maður nú væminn og upphafinn með aldrinum, andinn sigrar holdið.

Read Full Post »

rauðhettaRauðhetta vildi ráða í skóginum

af réttsýni, sanngirni og mildi.

Að aðrir vildu öðruvísi stjórnarfar

alls ekki Rauðhetta skildi.

 

En fleiri vildu þó fara með völdin

til framfara í öllum geirum.

Þeir lofuðu hinu og líka þessu.

Allt lét það vel í eyrum.

 

Úlfurinn vildi ábyrgð og festu

og áfram stöguleika

þar sem ríkir af fátækum stela og stela

og sterkir éta veika.

 

Og Drakúla greifi var dugnaðarforkur

sem daglega blóð vildi kneyfa

og beita sér hugðist af hörku fyrir

hagsmunum Drakúla greifa.

 

Þarna var líka hópur af hundum

um hitt og þetta að gelta:

Að allir þyrftu að eiga sér greni

og enginn mætti svelta.

 

Þetta var vitaskuld ófremdarástand

sem afdráttarlaust varð að svara.

Nú þurfti skilning – að miðla málum

og milliveginn að fara.

 

Svo skógurinn yrði fagur og fríður

var farið í vetrarleyfi.

Þar réðu þau sínum ráðum í næði,

Rauðhetta, úlfur og greifi.

 

Rauðhetta lagði áherslu á það

við úlfinn og Drakúla báða

að hún myndi fara í fýlu og hætta

ef fengi hún ekki að ráða.

 

Úlfurinn vildi aðeins stela

og auðvitað greifinn dreyra.

Um allt þetta náðu þau samstundis sáttum

og sjálfsagt eitthvað fleira.

 

Þau gerðu málamiðlunarsamning

með mörgum og fallegum orðum

svo skógurinn yrði aftur friðsæll

og allt í föstum skorðum.

 

Rauðhetta stjórnar rjóðrinu sínu,

rösk og með skynsemi kalda.

Og úlfurinn stelur, en ekki svo miklu

að uppnámi þurfi að valda.

 

Og Drakúla blóðið sitt drekkur í friði,

en drepur bara fáa.

Þetta er til hagsbóta og heilla fyrir

háa jafnt sem lága.

 

Og Rauðhetta er ekkert örg þótt sumir

atyrði á flesta lund hana,

því það væri skelfilegt skaðræðisástand

ef skógurinn færi í hundana.

Read Full Post »

Older Posts »