Feeds:
Færslur
Athugasemdir

Archive for the ‘Kveðskapur’ Category

Líf þitt er sigling á lystisnekkju

á lygnu fljóti allsnægtanna.

Á bökkunum drjúpa af döðlupálmum

dýrar veigar og glúteinfrítt manna.

 

Og þér eru bornar þrírétta krásir

og þrúgur í klösum bústnum og vænum

og þú heyrir nafnið þitt mjúklega malað

í mildum og þýðum aftanblænum.

 

Og vínið flæðir og vinirnir gleðjast

því vellystingarnar fylla hvert hjarta

og yfir þér vakir himinninn heiður

sem heilagt loforð um framtíð bjarta.

 

En skyndilega er ský fyrir sólu

og skuggalegt umhorfs á fljótsins bökkum;

visnaðir garðar og hálfhrunin hreysi

og hrúga af soltnum og skítugum krökkum.

 

Með kviðinn þaninn þau kalla til þín.

Þó koma ei hljóð nein úr þeirra munni.

En þrúgandi eymdin og ringureiðin

rústa samstundis stemningunni.

 

Svo þú þýtur undir þiljur og kvartar

því þetta var ekki partur af dílnum;

að börnum með flugur í brostnum augum

byðist að fokka í lúkkinu og stílnum.

 

En áfram er siglt og útsýnið lagast

með iðgræna skrúðgarða báðum megin.

Þegar ömurleikinn er loksins að baki,

mikið lifandis ósköp verðurðu feginn.

 

Þú sérð flugur í augum fátækra barna;

ekki finngálknið í þínum eigin.

D. Þ. J.

Read Full Post »

Góði Guð

jesus-helps-peter-with-faith(Kris Kristofferson/D.Þ.J.)

.

Góði Guð.

Ekkert gerði ég hér

til að gæfir þú mér

allt það góða‘er ég nýt.

Segðu mér,

hví er harmur og þraut

núna horfin á braut,

er ég himin þinn lít?

.

Hjálpin var nær, er ég hrópaði,

heilagi faðir, þá komst þú til mín.

Allt er nú breytt, því þú elskar mig,

elífi faðir, nú sál mín er þín.

.

Segðu mér,

fær sú þraut er ég leið

bjargað þjáðum úr neyð,

frelsað þurfandi mann?

Góði Guð.

Gefðu‘að lýst fái ég

öðrum leið um þann veg

sem ég leitaði‘og fann.

.

Hjálpin var nær, er ég hrópaði,

heilagi faðir, þá komst þú til mín.

Allt er nú breytt, því þú elskar mig,

elífi faðir, nú sál mín er þín. (X2)

Faðir, nú sál mín er þín.

Read Full Post »

Faðir vor


Í Sjálfstæðu fólki segir einhvers staðar að Bjartur í Sumarhúsum hafi aldrei nennt að læra Faðirvorið, enda þyki honum lítið til frelsara koma sem ekki getur barið saman rímaða bæn. Þess vegna hefur blundað í mér alllengi forvitni um það hvernig Faðirvorið gæti hljómað í bundnu máli. Ég er áreiðanlega ekki sá fyrsti sem reynir að „yrkja Faðirvorið“, en hér er mín auðmjúka tilraun:

.

jesus-prayingFaðir vor

.

Faðir vor á himnum háa,

hlustaðu‘á mig, barnið smáa,

lofa heilagleika þinn.

Veröld öll þitt verði ríki,

vilja þinn ei framar svíki,

himnafaðir hæsti minn.

.

Hlotnist mér að bíta‘og brenna,

bróður minn og systur kenna

manni hverjum mennskum í.

Ger oss fólk sem fyrirgefur.

Fyrirgefið allt þú hefur.

Ávallt fagni‘ég undri því.

.

Hið illa‘og ljóta ei mín freisti.

Í mér blómstri ljóssins neisti.

Ger oss laus við lygi‘og fals.

Þú við börnin þín sért sáttur.

Þín er dýrðin öll og máttur.

Sannlega‘er það sannast alls.

Read Full Post »

(Andersson/Ulvæus/Anderson – þýð.: D. Þ. J.)

.

Stanslaust hún stígur dans;

stundarhlé hversdagsleikans.

Naumast að sú nýtur sín

nú þegar dansinn hvín.

.

Föstudagskvöld og lítið ljós.

Lífið kanna vill hugljúf drós.

Þar sem danslögin duna

dvelur meyjan stillt,

fýsir að finna pilt.

.

Hver það verður ei veit hún enn.

Það vísast kemur á daginn senn.

Ómi taktfastir tónar

tilveran er góð.

Svífur hún sæl og rjóð

um salarins geislaflóð …

.

… ávallt er dansinn hvín,

seiðandi eins og suðrænt vín.

Dansinn hvín.

Sjáðu hvað hún er sæt og fín.

Stanslaust hún stígur dans;

stundarhlé hversdagsleikans.

Naumast að sú nýtur sín

nú þegar dansinn hvín.

.

Hún er gella sem gumar þrá.

Girnd hún vekur, en engir fá.

Tekur einn við af öðrum,

engin krafa gerð.

Stúlku á fullri ferð

fegurri vart þú sérð …

.

… ávallt er dansinn hvín,

vekur þrótt eins og vítamín.

Dansinn hvín.

Væla fegurstu fíólín.

Stanslaust hún stígur dans;

stundarhlé hversdagsleikans.

Naumast að sú nýtur sín

nú þegar dansinn hvín.

Dýrlegur dansinn hvín.

Read Full Post »

Line_of_dead_soldiers_awaiting_burialÉg hef andstyggð á hernaðardýrkun. Þess vegna skaprauna mér söngtextar, sem gjarnan eru sungnir í kristilegu æskulýðsstarfi, þar sem gripið er til líkinga úr hernaði. „Ég er hermaður Krists“ er ágætt dæmi. Annað dæmi er söngtextinn Áfram Kristsmenn krossmenn eftir Friðrik Friðriksson.

Þeim mun hvimleiðara finnst mér þetta að þessir textar eru gjarnan við mjög skemmtilegar og grípandi laglínur, lög heppileg til fjöldasöngs.

Auðvitað geri ég mér grein fyrir því að um líkingar er að ræða, að stríð okkar við illskuna og skeytingarleysið í heiminum er andlegt og að „… baráttan sem við eigum í er ekki við menn af holdi og blóði heldur við tignirnar og völdin, við heimsdrottna þessa myrkurs, við andaverur vonskunnar í himingeimnum.“ (Ef 6.12)

Vopnaskakið er ekki veraldlegt.

Gallinn er sá að þessar líkingar byggja á vegsömun á ofbeldi og styrjöldum. Til að eitthvað sé eftirsóknarvert eða tignarlegt við setningar á borð við „Fram í stríðið stefnið, sterki æskuher“ þarf til grundvallar að liggja aðdáun á „æskuher“ og „stríði“. Annars gengur líkingin einfaldlega ekki upp.

Að mínu mati er einfaldlega jafnóviðunandi nú á dögum að líkja trúnni og starfi kirkjunnar við hernaðarbrölt og að líkja því við önnur víðtæk og skipulögð mannréttindabrot.

Stríð er helvíti.

Þess vegna tók ég mig til um daginn og barði saman nýjum söngtexta við lagið Áfram Kristsmenn krossmenn.

Ég veit að áttunda línan er með tveimur aukaatkvæðum miðað við upphaflega textann, en það er einfaldlega vegna þess að mér hefur ekki þótt fallegt hvernig tvö síðustu atkvæðin í sjöundu línunni eru dregin á tveimur nótum í honum; „Sjáið fagra fa-ána-ann“. Ég hugsa mér því að tvö fyrstu atkvæði áttundu línunnar séu sungin á tveimur síðustu nótum þeirrar sjöundu miðað við frumtextann.

Öllum er frjálst að syngja þetta eins og þá lystir, hvar og hvenær sem er:

Fram í kærleiks krafti

(Baring-Gould/D.Þ.J.)

Kristur færði fórnir

fyrir alla jafnt.

Áfram uppi veður

óréttlætið samt.

Þungar raunir þjaka

þjáða, særða menn.

Reikistjarnan stynur

undan stríðsátökum enn.

Fram í kærleiks krafti!

Kjósum nýja leið.

Efld af andans mætti

alla sigrum neyð.

Oss í brjósti brennur

baráttunnar glóð.

Kristur elskar alla

óháð kyni‘og þjóð.

Sýnum að við erum

elskuð Drottins hjörð,

að við berum elsku

hvert til annars hér á jörð.

Fram í kærleiks krafti!

Kjósum nýja leið.

Efld af andans mætti

alla sigrum neyð.

Read Full Post »

Hafnarfirði, 17. júní 2013

LANDIÐ ÞITT

Að elska þessi fjöll og fögru dali,

fossa sem steypa sér í hyldjúp gljúfur,

glitrandi læk með gjálfri sínu og hjali

við gróðurlausar eyrar, snjáðar þúfur

og drang sem gnæfir yfir eyðisandi

er enginn vandi.

Að elska lítinn fugl í frjóum garði

með furutrjám á grónum lækjarbakka,

tófu sem leitar leynis undir barði

í lyngi og mosa vöxnum hlíðarslakka

og hrafn sem í kletti hreiðrar um sig keikur

er hægðarleikur.

Að elska jafnvel vetrarmyrkrið magnað,

miskunnarlausa hríðarbylinn grimma,

gnauðandi norðanfjúk sem fær ei þagnað

frostkalda vetrarmánuðina dimma

á meðan landið lemur brimið ferlegt

er líka gerlegt.

En þegar kemur að þjóðinni á Fróni

sem þraukar enn við heimsins nyrsta jaðar

og bifast vart þótt verði margt að tjóni

og vera lystir hvergi annars staðar

en hér við úthafs vonskuveðra bálið

þá vandast málið.

Því hvernig er hægt að elska svona sauði

sem sífra og  væla af ímynduðum skorti

þar sem engan heimtar hungurdauði

og hróðug smábörn veifa greiðslukorti?

Samt kvörtum við og kveinum veturlangt

og kjósum rangt.

Það eina sem er að í þessu landi

er annað fólk og hvernig það sér hagar.

Staðreyndin er að þú ert þjóðarvandi

og það er ég sem ykkur hina plagar.

Svo þú ert ég, sem játa hér og nú

að ég er þú.

Samt sitjum við hér uppi hvert með annað

og okkur sjálf á píslargöngu langri.

Við gætum nýjar leiðir kannski kannað

og kastað fyrir róða gremju og angri.

Í staðinn reynt að þræða þroskaveg,

þú og ég.

Jafnt undir norðurljósa bjarmabandi

sem bjarta sumardaga, tæra og hreina,

þetta land að elska er enginn vandi,

allir geta það sem bara reyna.

Þrautin er að læra að landið mitt

er landið þitt.

Read Full Post »

Um lífið á jörðinni talaði hann tíðum

og töfrana í alheimnum rómi svo blíðum

af taumlausri umhyggju og elsku.

Á því sem hann fjölfróður fjálglega ræddi

um fegurð og kærleika ekkert ég græddi.

Ég varla skil eitt orð í velsku.

Read Full Post »

Older Posts »