Feeds:
Færslur
Athugasemdir

Archive for the ‘Menning og listir’ Category

(Andersson/Ulvæus/Anderson – þýð.: D. Þ. J.)

.

Stanslaust hún stígur dans;

stundarhlé hversdagsleikans.

Naumast að sú nýtur sín

nú þegar dansinn hvín.

.

Föstudagskvöld og lítið ljós.

Lífið kanna vill hugljúf drós.

Þar sem danslögin duna

dvelur meyjan stillt,

fýsir að finna pilt.

.

Hver það verður ei veit hún enn.

Það vísast kemur á daginn senn.

Ómi taktfastir tónar

tilveran er góð.

Svífur hún sæl og rjóð

um salarins geislaflóð …

.

… ávallt er dansinn hvín,

seiðandi eins og suðrænt vín.

Dansinn hvín.

Sjáðu hvað hún er sæt og fín.

Stanslaust hún stígur dans;

stundarhlé hversdagsleikans.

Naumast að sú nýtur sín

nú þegar dansinn hvín.

.

Hún er gella sem gumar þrá.

Girnd hún vekur, en engir fá.

Tekur einn við af öðrum,

engin krafa gerð.

Stúlku á fullri ferð

fegurri vart þú sérð …

.

… ávallt er dansinn hvín,

vekur þrótt eins og vítamín.

Dansinn hvín.

Væla fegurstu fíólín.

Stanslaust hún stígur dans;

stundarhlé hversdagsleikans.

Naumast að sú nýtur sín

nú þegar dansinn hvín.

Dýrlegur dansinn hvín.

Read Full Post »

Um daginn heyrði ég mikinn harmagrát í útvarpinu. Þetta var ósköp snoturt, lítið lag flutt af Bubba Morthens og Mugison. Það heitir „Þorpið“. Mér fannst samt hálfónotalegt að sitja undir þessum jarðarfararsálmi. Líkið er nefnilega í fullu fjöri.

Texti lagsins dregur upp vægast sagt nöturlega mynd af litlu sjávarplássi. Allt unga fólkið er farið suður að vinna og dreyma af því að hvorugt virðist vera hægt að gera úti á landi. Hrum gamalmenni eru ein eftir í plássinu, læst innan fangelsismúra fjallahringsins í iðjuleysi eða með nál og tvinna í höndunum á meðan hrægammarnir hnita hringi yfir höfði þess. Tækifærin eru öll fyrir sunnan, væntanlega af því að þau geta aðeins fæðst í höfuðborginni sem tímir ekki að senda þau út á land. Tækifæri eru m.ö.o. ölmusa sem Reykvíkingar þurfa að rétta þessum greyjum úti á landi, því eins og allir vita fylgir því þroskahömlun, sem gerir fólk með öllu ósjálfbjarga og ófært um að finna sjálft nokkurn skapaðan hlut sér til viðurværis, að eiga heima þar sem íbúafjöldinn nær ekki fimm stafa tölu.

Ég efast ekki um að gott eitt vaki fyrir flytjendunum og þeir séu báðir sannir vinir landsbyggðarinnar í hjarta sínu. En ég fæ ekki skilið hvernig þeim dettur í hug að henni sé einhver greiði gerður með þessari ósönnu hryllingsmynd.

Ef þeir vildu raunverulega hjálpa til myndu þeir einmitt lýsa plássunum sem landi tækifæranna, þar sem hugmyndaauðgi og framkvæmdagleði eru allt sem þarf til að koma hlutunum í verk, þar sem allar boðleiðir eru styttri og skilvirkari en í stórborginni, þar sem smæð samfélagsins gerir hvern einstakling miklu mikilvægari og verðmætari en í mannhafinu fyrir sunnan, þar sem nálægð fjallahringsins setur fólk einmitt í nánara samband við landið sitt, þar sem hin nánu tengsl við náttúruöflin afbrjála forgangsröðunina og fylla mann auðmýkt gagnvart sköpunarverkinu og skaparanum, þar sem maður horfir út á fjörðinn eða inn í dalinn af svölunum hjá sér en ekki yfir svalirnar á öllum hinum blokkunum, þar sem nýjustu uppfærslunar á vedur.is og vegagerdin.is skipta daglegt líf miklu meira máli en hvað gerðist á facebook á meðan maður svaf, þar sem lifað er í alvöru en ekki í ímynd.

Mörg af fegurstu og áhrifamestu verkum tónlistarsögunnar eru vissulega sálumessur. En að syngja þær yfir hinum sprelllifandi er helber dónaskapur.

Bakþankar í Fréttablaðinu 17. mars 2012

Read Full Post »

Það er erfitt að vera fauskur. Samkvæmt fleygum ummælum eru hvítir, kristnir, gagnkynhneigðir, miðaldra karlmenn þeir einu sem ekkert slæmt má segja um. Fyrir vikið virðist mega láta hvað sem er flakka um þá. Í raun vantar mig aðeins byssuleyfið til að vera að margra mati holdgervingur alls sem að er í heiminum.

En hvað getur þá hress gaur eins og ég gert til að halda hippinu og kúlinu þegar hann stendur frammi fyrir því að árin hafa gert hann að fauski? Er það yfirhöfuð hægt? Þegar ég var unglingur fannst mér ekkert aumkunarverðara en fólk á aldur við foreldra mína sem þóttist svalt með því að reyna að tileinka sér tísku minnar kynslóðar í tónlist og klæðaburði.

Fauskurinn gegnir hlutverki. Honum ber að hneykslast á ungu fólki. Það er skylda hans gagnvart yngri kynslóðum að sýna þeim að þær hafi sinnt þeirri menningarlegu skyldu sinni að ganga fram af honum. Þannig er tuð fausks rós í hnappagat ungs listafólks.

En hvernig getur fauskurinn sinnt þessari samfélagslegu skyldu af ábyrgð og kærleika? Það gerir hann ekki með því að sparka í liggjandi menn og hæðast að þeim sem eiga erfitt uppdráttar. Aftur á móti hlýtur hann að mega dangla í þá sem standa traustum fótum, rétt eins og mín kynlóð ólst bæði upp við Ísbjarnarblús og Spaugstofusketsa um „Subba Skorsteins“. Það ætlaðist enginn til þess að Spaugstofumenn lægju flatir fyrir Utangarðsmönnum og ég þarf ekkert að afsaka það að ég liggi ekki marflatur fyrir „krúttunum“.

Ungu fólki ber að gera uppreisn. Það er í eðli þess. Það liggur jafnframt í hlutarins eðli að uppreisn gegn pönki getur ekki verið meira pönk. Nýja uppreisnin er því í því fólgin að vinda ofan af hamsleysinu og tryllingnum. Þetta er eðlileg og jafnvel óumflýjanleg þróun, hugsanlega heillavænleg. En það breytir því ekki að í eyrum manns sem hafði himin höndum tekið með Geislavirkum hljómar þessi tónlist eins og tilgerðarlegt mjálm.

Það háir fausknum að aldurinn ljær honum virðuleika sem gerir það að verkum að fólki hættir til að taka hann alvarlega. Mér er það algjör nýlunda sem ég hef ekki enn vanist. Stundum skýt ég mig því í fótinn með kerskni sem skilin er sem illt innræti og atlaga að einstaklingum.

Annað sem ég hef ekki enn vanist, þótt ég reki mig æ oftar á það, er hve hættulegt sjálfsháð er í hópi húmorslausra. Vonandi venst ég því aldrei.

Bakþankar í Fréttablaðinu 4. 2. 2012

Read Full Post »

Um daginn settumst við nokkrir vinir inn á kaffihús og hugðumst eiga notalegt spjall um daginn og veginn. Okkur til nokkurrar undrunar bar þá svo við að á kaffihúsinu voru tónleikar þannig að ekki var annað í boði en að sitja og hlusta á tónlist.

Listamaðurinn var ung kona sem mér skilst að sé um þessar mundir talin með efnilegri og eftirtektarverðari vonarpeningum íslensks tónlistarlífs. Ýmist gutlaði hún á rafmagnspíanó sem hljómaði eins og spiladós eða plokkaði rafmagnsgítar sem líka hljómaði eins og spiladós. Á bak við hana sat piltur á hennar reki og strauk trommur með burstum. Yfir tónaglundrið og marrið í sneriltrommuskinninu andaði listakonan síðan hásu tísti, eins og hún væri að líkja eftir nývaknaðri uglu á fúkkalyfjum, eitthvað sem mér heyrðist mestanpart vera upphafin og innhverf væmni á ensku. Tónlistin var svo mild og óágeng að ekki einu sinni trommurnar voru slegnar, hvað þá önnur hljóðfæri. Reyndar grunar mig að hefði pilturinn gerst svo bíræfinn að lemja einhverja trommuna hefði stúlkan, þetta viðkvæma blóm, samstundis fallið í öngvit ef ekki hreinlega hnigið niður örend af lostinu yfir svo blygðunarlausum ofstopa.

Þeir, sem enst hafa til að lesa hingað, geta líklega getið sér nærri um að þessi tónlist höfðaði ekkert sérstaklega til mín. Það er allt í lagi. Ég geri enga kröfu til þess að allri tónlist beri að höfða til mín. Ég er kominn á þann aldur að ef ég væri yfir mig hrifinn af lögum unga fólksins væri sennilega eitthvað mikið að … annað hvort þeim eða mér.

Ungu fólki ber að ganga fram af þeim sem eldri eru. Það er hreyfiaflið í framvindu menningarinnar og vörnin gegn stöðnun og steingervingu listsköpunarinnar. Síðan á dögum Sókratesar, ef ekki enn lengur, hafa miðaldra fauskar eins og ég ævinlega haft verulegar áhyggjur af því í hvað stefndi þegar hið óalandi og óferjandi pakk, sem skipaði yngri kynslóðir, tæki við veröldinni. Þessi togstreita hefur mótað tónlistarsöguna, hvort sem það var Mozart eða Sex Pistols. Hver kynslóð ögrar þeirri, sem á undan fór, með hömluleysi, hamsleysi og boðskap sem storkar ríkjandi siðferði og gildum. Ég átti því ekki von á öðru en að tónlist ungu kynslóðarinnar ætti eftir að ganga fram af mér. Það sem ég átt ekki von á var að það myndi ganga fram af mér hvað hún yrði merkingarlaus, máttlaus og meinlaus.

Bakþankar í Fréttablaðinu 21. 1. 2012

Read Full Post »

Ég les mjög mikið og hef yndi af lestri góðra bóka. Það heyrir til algerra undantekninga ef ekki er bók á náttborðinu mínu sem ég er að pæla mig í gegn um. Sumar bækur les ég aftur og aftur, s.s. bækur eftir Douglas Adams, Terry Pratchett og John Wyndham. Ég hef líka gaman af alþýðlegum fræðibókum um áhugasvið mín, s.s. bókum Karenar Armstrongs og Bills Brysons.

Ég gef mig þó alls ekki út fyrir að vera alæta á bókmenntir. Til dæmis er ég búinn að fá upp í kok af krimmum. Ég hef lesið þá marga og þetta er orðið gott. Einnig finnast mér ævisögur yfirleitt óáhugaverðar. Ævisögur Ingridar Bergmans og Charlies Chaplins þóttu mér þó skemmtilegar. Núorðið sneiði ég þó yfirleitt hjá ævisögum, nema þeim mun meira hafi verið mælt með þeim við mig af fólki sem ég tek mark á. Ég tek ekki mark á opinberum álitsgjöfum og menningarvitum af því að ég hef rekið mig á að þeir snobba fyrir því sem mér finnst bara vera ömurleg leiðindi.

Stundum gríp ég í nýjar fagurbókmenntir. Það gerist þó æ sjaldnar af því að mér finnst þær yfirleitt leiðinlegur og húmorslaus sósíalrealismi. Nú er ekkert að sósíalrealisma. Salka Valka er sósíalrealismi, en frásögnin er svo meinhæðin að unun er að. Sósíalrealismi þarf ekki að vera leiðinlegur og húmorslaus.

Ég tek svo sannarlega ekki mark á Bókmenntaverðlaunum Norðurlandaráðs.

Gyrði Elíasson hef ég nefnilega reynt að lesa. Hann hefur heillandi stíl og magnaða frásagnarhæfileika. En þegar ég les Gyrði fer mér eftir svona hálftíma að verða þungt um andardrátt, ég fyllist dofa og fæ einkenni þunglyndis. Þá rennur upp fyrir mér að það er út af bókinni sem ég er að lesa. Gyrðir segir svo vel frá að það tekur mig yfirleitt þennan tíma að gera mér grein fyrir því að það sem hann er að segja frá er drepleiðinlegt. Það gerist ekkert.

Nýlega lagði ég svo í annan verðlaunahafa Norðurlandaráðs, Sofie Oksanen. Bókin heitir Hreinsun og hefur verið hampað ógurlega: „Hreinsun er líklega merkilegasta skáldverkið sem kemur á markað í ár … hvalreki öllum sem vilja næra sig með mikilvægri og brýnni sögusmíð. Hreinsun verða allir að lesa sér til gagns.” (Páll Baldvin Baldvinsson / Fréttatíminn) „… gríðarlega merkileg bók og góð skáldsaga … Sálfræðitryllir.“ (Þorgerður E. Sigurðardóttir / Kiljan) og „Hún hefur slíkar víddir þessi skáldsaga að það er ekki hægt annað en vera gríðarlega hrifinn af henni. Þetta er alger snilldarbók … ofboðslega góð skáldsaga.“ (Egill Helgason / Kiljan).

Þeim mun meiri urðu vonbrigði mín þegar rann upp fyrir mér ljós við lesturinn að bókin er algjört drasl. Þetta er ekki bara vond og leiðinleg bók. Hún er beinlínis léleg. Þetta er illa skrifaður, húmorslaus sósíalrealismi, subbulegt eymdarklám í dulargervi fagurbókmennta, Lilya Forever á sterum.

Persónusköpun Sofie Oksanen er þannig að konurnar eru fórnarlömb og karlarnir eru vondir. Í bókinni er ekki einn einasti karlmaður með snefil af mannkostum. Þeir sem ekki eru ofbeldismenn og nauðgarar eru fyllibyttur og aumingjar. Ljótu karlarnir eru meira að segja með „brundkleprana í punghárunum“, afsakið orðbragðið. Já, persónusköpunin ristir nákvæmlega svona grunnt og er svona tvívíð, hún er nákvæmlega svona ítarleg og laus við listfengi. Sofie Oksanen hefur sem rithöfundur ekki getu til að átta sig á því að hægt er að vera miklu grófari með fáguðu orðbragði og valdi á blæbrigðum tungunnar heldur en með sorakjafti. Það vantar bara að illmenni bókarinnar séu með ör þvert yfir andlitið eins og hjá Enid Blyton. Reyndar gæti Sofie Oksanen lært sitthvað af þessari ensku kynsystur sinni um fjölbreytt og trúverðugt persónugallerí.

Í bókinni dúkkar ekki heldur upp eins einasta kona sem ekki er fórnarlamb vondra eða lélegra manna. Önnur aðalpersónan, gamla konan, á sér að vísu leyndarmál úr fortíðinni, en það er svo ófrumlegt og fyrirsjáanlegt að það kemur manni á óvart, þegar öll kurl eru komin til grafar, að ekkert skyldi koma manni þar á óvart. Sem sálfræðitryllir er þessi bók því á pari við Litla Kláus og Stóra Kláus.

Þegar upp er staðið eftir lestur bókarinnar er manni því efst í huga, fyrir utan léttinn að vera kominn í gegn um þennan skítahaug, hið gríðarlega oflof sem þessi ritsmíð hefur hlotið. Hvað veldur? Ef norrænum menningarvitum verður það á að kíma við lestur bókar, fyrirverða þeir sig þá og leggja bókina frá sér sem eitthvað léttmeti sem sé fyrir neðan virðingu þeirra að eyða tíma í? Eða eru þeir þjakaðir af bókmenntalegri sjálfspíslarhvöt? Eru þeir að refsa sér með lestri bóka? Er líf þeirra svo áreynslulaust og áferðarfallegt að í hvert skipti sem nógu mikið ógeð rekur á fjörur þeirra er eins og þeir hafi himin höndum tekið? Er lesturinn yfirbótaverk? Er Hollywood með einkarétt á fegurð og hamingju og því geti ekkert af því tagi mögulega skotið upp kollinum í „alvöru“ bókmenntum?

Já, heimurinn er ljótur og í honum gerist margt slæmt. Það má alveg skrifa um það. Ég er meira að segja til í að taka það með mér upp í rúm á kvöldin og lesa það. En þá leyfi ég mér líka að gera þá kröfu til rithöfundarins að hann matreiði það þannig að þar sé eitthvað nýtt, einhver óvænt flétta, frumlegur og óvenjulegur sögumaður eða frásagnarháttur og málfar sem bera þess merki að þar haldi á penna einstaklingur með fullkomið vald á stílvopninu. Undir þeirri kröfu rís Sofie Oksanen ekki.

Read Full Post »

Menningarlegur munur þjóða birtist meðal annars í því hvað salernisaðstaða felur í sér í hverju landi. Þegar ég var ungur þurfti ég einu sinni að ferðast með lest frá Istanbúl til Amsterdam, illa haldinn af matareitrun eftir að hafa lagt mér til munns alsírskan geitost. Aðeins einusinni á  ferðalaginu þurfti ég að gera þarfir mínar í gat í gólfið. Það var á Gare de Lyon lestarstöðinni í París, háborg menningar og lista í Evrópu. Jafnvel í búlgörskum landamæraskúr, þar sem ég þurfti að dúsa um hríð vegna misskilnings við vegabréfaeftirlit við tyrknesku landamærin, var mér boðið upp á betri salernisaðstöðu.

Þjóðverjar hafa sinn fræga skoðunarpall ofan í hverju klósetti. Þeir sem dvalið hafa í Þýskalandi hafa vanist þessu og finnst óþægilegt að heyra plaskið í annars konar salernum. Ítalir hafa það sem þeir kalla „bidet“. Það er sérstakur rassavaskur til að þvo á sér óæðri endann. Ég hef heyrt Ítali kvarta undan því að þetta vanti í norræn baðherbergi. Reyndar þarf ekki að hafa lifað lengi á suðurevrópskum mat til að skilja hvernig hugmyndin að þessu fyrirbæri varð til.

Danir hafa tekið upp á athyglisverðri nýjung í sambandi við sturtur. Hún er í því fólgin að baðherbergið sjálft gegnir hlutverki sturtuklefa, sturtuhausinn stendur niður úr loftinu. Kannski er hægt að draga tjald fyrir til að hlífa vaskinum og salerninu við mestu vætunni. Þetta þýðir samt sem áður að það er viðvarandi ástand á dönskum salernispappír að vera rakur. Sennilega er þetta gert til að spara pláss, hugsanlega til að spara tíma – því þetta leyfir auðvitað að tvær flugur séu slegnar í einu höggi þarna inni.

Á dönsku hóteli, þar sem ég dvaldi nýlega, var fyrirkomulagið með þessu móti. Tveir kranar stýrðu vatninu. Annar stillti kraftinn og hitann, hinn stjórnaði því hvort bunan kæmi ofan í vaskinn eða niður úr loftinu. Þessu fyrirkomulagi er alveg hægt að venjast. Það tók mig bara tvo daga. Þriðja morguninn sem ég dvaldi þarna hafði ég loks vit á því að athuga hvort konan mín, sem nýkomin var úr sturtu, hefði stillt bununa til baka á vaskinn þegar ég ætlaði að þvo mér um hendurnar. Ég lenti bara fullklæddur í sturtubaði tvisvar á meðan á dvölinni stóð.

Nú vantar mig aðeins túlkunarlykil. Hvað er það nákvæmlega sem þessi fjölbreyttu tilbrigði við baðherbergi segja manni um ólíka menningu þjóða?

Bakþankar í Fréttablaðinu 1. 10. 2011

Read Full Post »

Handritshöfundurinn 2011 sat við tölvuskjáinn og las yfir byrjunina á sjónvarpsþættinum sem hann hafði skrifað: „Jón lögregluforingi stóð yfir líkinu. Morðið hafði verið óvenjulegt og frumlegt. Verst að götulöggan hafði spillt vettvangnum. Nýliðinn í hópnum kastaði upp. Aðrir í hópnum voru drykkfelldur ruddi, kvennabósi og ung stúlka sem átti erfitt uppdráttar innan lögreglunnar vegna kynferðis síns. Sjálfur glímdi Jón við vandræði í einkalífinu.“

Handritshöfundurinn dæsti. Hann sá að þetta var alls ekki nógu gott, þetta var ekki nógu nýstárlegt og spennandi. Þetta hafði verið gert áður. Hann strokaði það út sem hann hafði skrifað og byrjaði upp á nýtt: „Angantýr lögregluforingi stóð yfir líkinu. Morðið hafði verið óvenjulegt og frumlegt. Verst að götulöggan hafði spillt vettvangnum. Nýliðinn í hópnum kastaði upp. Aðrir í hópnum voru drykkfelldur ruddi, kvennabósi og ung stúlka sem átti erfitt uppdráttar innan lögreglunnar vegna kynferðis síns. Sjálfur glímdi Angantýr við vandræði í einkalífinu.“

Handritshöfundurinn staldraði við. Þetta var að vísu skárra, en samt ekki nógu gott. Hann þurfti að fá glænýja hugmynd, eitthvað sem enginn byggist við, eitthvað sem myndi líma fólk við skjáinn frá byrjun. Hann strokaði þetta líka út og klóraði sér í hausnum. Allt í einu laust snjallræði niður í hausinn á honum. Þetta var eitthvað annað. Hann skrifaði: „Guðbjörg lögregluforingi stóð yfir líkinu. Hún hafði átt erfitt uppdráttar innan lögreglunnar vegna kynferðis síns. Sjálf glímdi hún við vandræði í einkalífinu. Morðið hafði verið óvenjulegt og frumlegt. Verst að götulöggan hafði spillt vettvangnum. Nýliðinn í hópnum kastaði upp. Aðrir í hópnum voru drykkfelldur ruddi og kvennabósi.“

Nei. Þótt honum færi reyndar jafnt og þétt fram var hann samt ekki ánægður. Hann þurfti að detta niður á einhverja glænýja nálgun. Þá varð hann fyrir opinberun. Hvað með að gera sjónvarpsþátt sem fjallaði ekki um löggur að leysa morðmál? Slíkur þáttur kæmi eins og þruma úr heiðskýru lofti. Handritshöfundurinn fylltist aðdáun á sjálfum sér. Þetta var gargandi snilld. Hann klæjaði lófana að hefjast handa. Handritshöfundurinn fálmaði eftir gemsanum sínum og fór í flýti að fletta í gegn um símanúmerin í minninu í leit að einhverjum sem kunni að elda og var ekki þegar búinn að gera matreiðsluþátt.

Bakþankar í Fréttablaðinu 3. 9. 2011

Read Full Post »

Older Posts »