Feeds:
Færslur
Athugasemdir

Archive for the ‘Nostalgía’ Category

(Andersson/Ulvæus/Anderson – þýð.: D. Þ. J.)

.

Stanslaust hún stígur dans;

stundarhlé hversdagsleikans.

Naumast að sú nýtur sín

nú þegar dansinn hvín.

.

Föstudagskvöld og lítið ljós.

Lífið kanna vill hugljúf drós.

Þar sem danslögin duna

dvelur meyjan stillt,

fýsir að finna pilt.

.

Hver það verður ei veit hún enn.

Það vísast kemur á daginn senn.

Ómi taktfastir tónar

tilveran er góð.

Svífur hún sæl og rjóð

um salarins geislaflóð …

.

… ávallt er dansinn hvín,

seiðandi eins og suðrænt vín.

Dansinn hvín.

Sjáðu hvað hún er sæt og fín.

Stanslaust hún stígur dans;

stundarhlé hversdagsleikans.

Naumast að sú nýtur sín

nú þegar dansinn hvín.

.

Hún er gella sem gumar þrá.

Girnd hún vekur, en engir fá.

Tekur einn við af öðrum,

engin krafa gerð.

Stúlku á fullri ferð

fegurri vart þú sérð …

.

… ávallt er dansinn hvín,

vekur þrótt eins og vítamín.

Dansinn hvín.

Væla fegurstu fíólín.

Stanslaust hún stígur dans;

stundarhlé hversdagsleikans.

Naumast að sú nýtur sín

nú þegar dansinn hvín.

Dýrlegur dansinn hvín.

Read Full Post »

(lag og ljóð: Jim Steinman / þýðing: D. Þ. J.)

Ég man hvert smáatriði enn eins vel og ef það hefði bara gerst í gær;

gefið í og ekið út úr bænum eitthvað upp í sveit.

Ég hafði aldrei verið með eins yndisilega fagurri stúlku.

Ég vissi’að öfundin öll í minn garð yrði sterk og heit.

Og saman líkamar okkar lágu þétt

og það var unaðslegt og það var alveg rétt

og við glóðum eins og stál með fægðan burtu hvern blett,

glóðum eins og stál með fægðan burtu hvern blett.

Ó, já. Komdu hér. Elskan mín, haltu mér.

Meðan allt í svartamyrkri úti frýs

lýsa mælaborðsljósin í Paradís.

Á okkur hvíldi báðum blessun sælurík.

Við vorum varla sautján ára’og varla’í neinni flík.

Á okkur hvíldi báðum

ástríða sem ákaft við tjáðum.

Á okkur hvíldi báðum blessun sælurík.

Við vorum varla sautján ára’og varla’í neinni flík.

Heyrirðu’ekki hjartað slá? Mér finnst það yfirgnæfa útvarpið.

Svo óralengi hef ég þráð að draga þig í fjör með mér.

Og ég verð að segja eitt: Aldrei muntu sjá eftir þessu.

Svo opnaðu’augun blá,

ljúfan, og líttu á

það sem þú mátt fá.

Ég þrái’að geta kveikt í þér.

Og saman líkamar okkar lágu þétt

og það var unaðslegt og það var alveg rétt

og við glóðum eins og stál með fægðan burtu hvern blett,

glóðum eins og stál með fægðan burtu hvern blett.

Ó, já. Komdu hér. Elskan mín, haltu mér.

Meðan allt í svartamyrkri úti frýs

lýsa mælaborðsljósin í Paradís.

Já, á meðan allt í svartamyrkri frýs:

Mælaborðsljós í Paradís.

Við sköffum næði og ró, en hitt náttúran sér sjálfri lík.

Á okkur hvíldi báðum blessun sælurík.

Við vorum varla sautján ára’og varla’í neinni …

Nú gerum við það sem við þráum heitt

og í þetta sinn stöðvar það ekki neitt. (X4)

Jæja, nú er að sjá. Þetta er æsispennandi leikur, staðan er hnífjöfn og ekki mikið eftir af leiktímanum. Þarna kom sending og hann geysist fram miðjuna. Viljið þið bara sjá. Sá kann að fara með bolta. Glæsileg gabbhreyfing og hann er farinn fram hjá andstæðingnum. Hann ætlar að sóla annan, hann missir boltann … en nær honum aftur, góð redding. Hann gefur … hvílík sending! Hann fær hann aftur og missir hann … nei, hann heldur honum. Sá kann að láta hlutina gerast á vellinum. Hann sólar þá hvern á fætur öðrum. Boltinn er eins og límdur við fæturna á honum. Jahérna, sáuð þið þetta? Hvílík knattleikni. Þetta var áhætta en nú er um að gera að spila djarft. Þeir eiga ekki roð við honum, það er eins og hann sé beinlínis að ögra þeim. Hann hefur fullkomið vald á boltanum og hér er fyrirgjöfin. Hvílík móttaka! Hvílík leikni! Hann er dauðafrír fyrir galopnu markinu. Nú hlýtur hann að skora!”

Hægan nú!

Ég verð að vita eitt.

Áður en haldið er lengra vil ég heyra

að þú elskir mig eina öðrum meira.

Ertu engu’að leyna?

Muntu leiða mig alsæla um ævinnar veg?

Ertu eiginmannsefni, verður konan þín ég?

Má ég heyra

að þú elskir mig eina öðrum meira?

Ertu engu’að leyna?

Muntu leiða mig alsæla um ævinnar veg?

Ertu eiginmannsefni, verður konan þín ég?

Ég verð að vita það.

Áður en haldið er lengra vil ég heyra

að þú elskir mig eina.

Má ég sofa’á því?

Sæta, ljúfa, má ég sofa’á því?

Má ég sofa’á því?

Ég svara þér strax í fyrramálið. (X3)

Ég verð að vita það.

Má ég heyra

að þú elskir mig eina öðrum meira?

Ertu engu’að leyna?

Muntu leiða mig alsæla um ævinnar veg?

Ertu eiginmannsefni, verður konan þín ég?

Ég verð að vita það.

Áður en haldið er lengra vil ég heyra

að þú elskir mig eina.

Hvað segirðu? Svona. Ég get beðið í alla nótt. Hvað segirðu? Já, eða nei? Hvað segirðu, vinur? Já eða nei?

Má ég sofa’á því?

Sæta, ljúfa, má ég sofa’á því?

Má ég sofa’á því?

Ég svara þér strax í fyrramálið. (X3)

Ég verð að vita það.

Má ég heyra

að þú elskir mig eina öðrum meira?

Ertu engu’að leyna?

Muntu leiða mig alsæla um ævinnar veg?

Ertu eiginmannsefni, verður konan þín ég?

Ég verð að vita það.

Áður en haldið er lengra vil ég heyra

að þú elskir mig eina.

Má ég sofa’á því?

Muntu elska mig eina?

Má ég sofa’á því?

Muntu elska mig eina?

Ég fékk ei þolað þetta lengur af ástríðum óður

undir óstöðvandi spurninganna orrahríð

svo ég tók að sverja og sárt við leggja’í erg og gríð

að ég þig elska myndi alla tíð.

Ég kvaðst þig elska myndu alla tíð.

Því bið ég þess að öll nú endi tíð.

Í angist þjáist ég og líð,

því ef ég þarf að lifa öllu lengur með þér

senn úr leiðindunum bana ég bíð,

því ég svík aldrei loforð, ég rýf aldrei eið,

en örvinlan mín mér veldur sárri neyð.

Bara’að öll nú endi tíð.

Þess eins ég óska mér.

Bara’að öll nú endi tíð

svo að ég öðlist lausn frá þér.

Það var hér áður fyrr, það var á öðrum stað

að allt var miklu betra’en nú og ekkert að.

Og það var unaðslegt og það var alveg rétt

og við glóðum eins og stál með fægðan burtu hvern blett.

Read Full Post »

Leifur djöfull og Lalli

lögðu mig í einelti í skóla.

Ég var barinn á hverju balli,

brókaður, látinn góla,

hrakyrtur, spottaður, hæddur,

hrópandi úr buxunum klæddur.

Ég vildi að ég væri ekki fæddur

svona voðaleg kveif

árin sem ég var alltaf hræddur

við ófétin Lalla og Leif.

 

En nú er ég eldri að árum

og ekki lengur í sárum,

framámaður á Fróni

og flestir virða mig,

en Leifur er lassaróni

og Lalli hengdi sig.

 

Kannski er ekki alltaf klippt og skorið

hverjum er bjartast bernskuvorið.

Read Full Post »

Prédikun flutt í Vopnafjarðarkirkju 22. apríl 2012

Náð sé með ykkur öllum og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Mér er minnisstætt þegar ég kom til Vopnafjarðar í fyrsta skipti. Við höfðum verið á ferð um landið, ég og vinur minn, með frumsamda skemmtidagskrá. Við fórum hringinn réttsælis, fyrst um Vesturland og Vestfirði, þá um Norðurland og hingað austur. Þetta hafði gengið misvel. Okkur var hafði verið tekið feykivel á Akranesi og á Vestfjörðum var oftast húsfyllir. Snæfellsnesið og Norðurland voru ekki eins gjöful, ef Akureyri og Grundarfjörður eru undanskilin. Mig minnir að við höfum fengið tólf manns í Stykkishólmi og fjórtán á Dalvík. Væntingarnar voru því ekki miklar þegar Austurlandið tók við og rennt var inn á Vopnafjörð á virkum degi snemma vors til að skemmta á Hótel Tanga um kvöldið. Þeim mun ánægjulegra var að á annað hundrað manns skyldu koma. Það var mikið hlegið og greinilegt að fólk var komið til að hafa gaman. Á eftir buðu heimamenn okkur að lyfta okkur upp með sér og mig minnir að hjá mér hafi skemmtunin endað í rauðabýtið morguninn eftir ofan í lítill sundlaug undir berum himni uppi í óskaplega fallegum dal ekki langt héðan. Ég vil taka fram að ekkert ósiðlegt átti sér stað, aðeins heilbrigt og heiðarlegt djamm.

En þess vegna er það mér sérstakt ánægjuefni að í annað skiptið sem ég tala opinberlega á Vopnafirði, sautján árum síðar, skuli tilefnið vera „gleðimessa“ í Vopnafjarðarkirku. Vopnfirðingar hafa nefnilega til þessa komið mér fyrir sjónir sem sannir gleðimenn – í bestu merkingu þess orðs; fólk sem er glatt á góðri stund og kann að lyfta sér upp þegar tilefni er til.

En hvaða léttúð og galgopaháttur er þetta annars? Gleðimessa? Stappar þetta ekki nærri guðlasti? Á ekki alvaran og hátíðleikinn að ráða ríkjum í húsi Drottins?

Jú. En takið eftir því að léttúð og galgopaháttur eru ekki samheiti orðsins gleði. Alvara og hátíðleiki eru ekki andstæður gleðinnar heldur hugsanlega hinar raunverulegu birtingarmyndir hennar. Sönn gleði helst í hendur við djúpa alvöru eins og dagur og nótt haldast í hendur, eins og ljós þarf til að mynda skugga. En samt ekki, því ljósið og skugginn eru eilíflega aðskilin eins og dagurinn og nóttin á meðan alvaran er gleðiefni kristnum manni og gleðin er í alvörunni. Sönn gleði ristir nefnilega djúpt, annars er hún bara yfirborðskátína, eins og fliss að hnyttnum orðaleik eða tvíræðri gamansögu. Slík yfirborðsgleði er ekki listaverk ljóssins og skugganna í lífi mannsins heldur aðeins eitthvað flökt um gráskalasvæði tilverunnar. Sönn og djúp gleði leiðir af sér alvöru og hátíðleika sem eru þrungin merkingu. Uppskrúfuð helgislepja og tilgerðarleg mærð eru jafnóskyldar raunverulegri alvöru og hátíðleika og fliss að hnyttnum orðaleik eða tvíræðri gamansögu er hinni sönnu gleði í Kristi.

Ekki að það sé neitt að því að hafa húmor. Skopskynið er Guðs gjöf sem léttir okkur lífið. Og við getum haldið áfram og spurt: Hefði Guð gefið okkur þennan dásamlega eiginleika, að sjá spaugilegu hliðarnar á tilverunni, jafnvel þegar verst stendur á, og kalla þannig fram líknandi bros, ef hann hefði ekki húmor sjálfur?

En ég er ekki að tala um húmor og ætla ekki að gera það. Húmor er nefnilega eins og froskur. Ef maður kryfur hann þá deyr hann.

Ég er að tala um gleði.

Það er í tísku – eða var það alltjent fyrir ekki svo löngu – að tala fjarskalega niðrandi um svokallaðan „Pollýönnuhugsunarhátt“. Hann þótti til vitnis um barnaskap, kjánalega bjartsýni og brenglað raunveruleikaskyn, ef ekki beinlínis flótta frá raunveruleikanum inn í einhverja rósrauða þykjustuveröld þar sem allt er gott. Pollýanna er persóna í skáldsögu frá 1913 eftir Eleanor H. Porter. Kvikmynd var gerð eftir henni á vegum Walt Disney samsteypunnar árið 1960.

Þeir sem tala svona um Pollýönnu hafa sennilega hvorki lesið bókina né séð myndina. Því fer nefnilega fjarri að Pollýanna hafi ekki gert sér grein fyrir alvöru lífsins eða fengið að kenna á henni sjálf. Pollýanna er munaðarlaus dóttir farandprédikara. Henni er komið í fóstur hjá afskaplegra siðavandri og strangtrúaðri frænku sinni. Á hverjum sunnudegi er farið í kirkju þar sem presturinn er eldheitur helvítisprédikari. Hann eys ekki náð og kærleika Guðs yfir söfnuðinn heldur aðeins eldi og brennisteini. Þetta er frænka ánægð með, svona eiga messur að vera að hennar mati. Ekki miklar gleðimessur þar á ferð.

Einhverju sinni taka Pollýanna og presturinn tal saman þegar presturinn er eitthvað niðurdreginn. Pollýanna segir honum þá að þegar faðir hennar hafi verið dapur hafi hann jafnan lesið eitthvað af „gleðitextunum“ úr Biblíunni. Þeir væru um áttahundruð talsins. Þetta verður til þess að klerkur hugsar sinn gang og í næstu messu tilkynnir hann forviða söfnuðinum að hann hafi talið „gleðiversin“ í Biblíunni og þau séu ekki áttahundruð heldur nákvæmlega áttahundruðtuttuguogsex. Hann bætir því við að hann hafi hugsað sér að prédika út frá þeim öllum og að það muni dekka messurnar hans næstu sextán árin. Óþarfi ætti að vera að taka fram að þetta fellur ekki í kramið hjá frænku gömlu sem er einna helst á því að nú sé blessaður guðsmaðurinn endanlega búinn að missa vitið.

Ég ætla ekki að rekja söguþráðinn nánar, aðeins að staldra við þessa tölu. Átta hundruð tuttugu og sex. Á áttahundruðtuttuguogsex stöðum í Biblíunni eru skýr fyrirmæli um gleði. Ég hef ekki talið versin sjálfur og hef aðeins orð höfundar Pollýönnu fyrir því að talan sé rétt. En sé hún rétt þýðir það í raun og veru að prestur getur prédikað á hverjum einasta sunnudegi í sextán ár út frá nýjum og nýjum texta og einatt lagt út af fyrirmælum til manna að vera glaðir. Ég veit ekki með ykkur, en ég hef það á tilfinningunni að þegar Guð hefur fyrir því að segja manni sama hlutinn áttahundruðtuttuguogsex sinnum þá hljóti honum að vera fúlasta alvara.

 „Kunnan gerðir þú mér veg lífsins, gleðignótt er fyrir augliti þínu, yndi í hægri hendi þinni að eilífu“ (Slm 16.11). „Gleðjist yfir Drottni og fagnið, þér réttlátir, allir hjartahreinir menn hrópi af gleði“ (32.11). „Lítið upp til hans og ljómið af gleði“ (34.6). „Klappið saman lófum, allar þjóðir, fagnið fyrir Guði með gleðiópi“ (47.2). „Látið gleðióp gjalla fyrir Drottni, öll lönd, hefjið gleðisöng, hrópið fagnaðaróp og lofsyngið“ (98.4). „Þjónið Drottni með gleði, komið fyrir auglit hans með fagnaðarsöng“ (100.2). „Hinir trúuðu fagni í dýrðarljóma, hrópi gleðióp í hvílum sínum“ (149.5). „Lofið hann með bumbum og gleðidansi“ (150.4). Þetta eru átta ritningarstaðir af þessum áttahundruðtuttugogsex, allir úr sama ritinu, Davíðssálmum.

Og hvað með Jesú? Var ekki fæðing hans boðuð með þessum orðum: „Verið óhræddir, því, sjá, ég boða yður mikinn fögnuð sem veitast mun öllum lýðnum“ (Lúk 2.10)? Erum við ekki að flytja „fagnaðarerindi“? Orðið „fagnaðarerindi“ er hefbundin þýðing gríska orðsins „evangelion“, en nútímalegri þýðing þessa orðs væri „gleðifrétt“. Kvaddi Jesús okkur ekki með orðunum: „Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar“ (Matt 28.20). Getur kristinn maður hugsað sér meira gleðiefni?

Auðvitað ættu allar messur að vera gleðimessur.

Nú má alls ekki skilja þessi orð mín sem svo að það sé eina skylda kristins manns að vera bara æðislega happí, hvað sem á dynur. Ég er að tala um hina alltumlykjandi gleði í Kristi sem helst í hendur við hina djúpu alvöru lífsins og er ómöguleg án hennar. Gleðina, sem er frumskylda okkar og forsenda þess að við getum sinnt hinum skyldunum.

Jesús sagði: „Farið og gerið allar þjóðir að lærisveinum“ (Matt 28.19). Okkur ber að útbreiða fagnaðarerindið um Jesú Krist og laða fólk að því. Hvernig gerum við það best? Með gleði. Með því að vera lifandi vitnisburður um mátt og kærleika Guðs og hina sönnu gleði í Kristi.

Einn af mínum eftirlætiskennurum í guðfræðideildinni var Jónas Gíslason, fyrrverandi vígslubiskup. Hann kenndi kirkjusögu, en reyndar lærði ég mest lítið af kirkjusögu hjá honum. Þeim mun meira lærði ég í prédikunarfræðum. En hann kenndi ekki prédikunarfræði. Hann prédikaði. Hann átti það til að segja okkur að loka kennslubókunum og lesa bara heima og nota tímann í staðinn til að lesa yfir okkur um það hvað felst í lífi í Kristi.

Mér er afar minnistætt eitt sem hann sagði um trúboðsskylduna. Það var eitthvað á þá leið – ég biðst velvirðingar, fari ég ekki alveg rétt með – að allt trúboð sé í raun í því fólgið að lemja heiðingjana í hausinn með Biblíunni. En hann bætti því við að til væru tvær Biblíur. Önnur væri prentgripur, jafnan býsna vandaður, oft í stóru broti og þungur. Þessi Biblía gæti því í fljótu bragði virst afskaplega hentugt barefli. En þessi Biblía er gangslaus í trúboð. Hin Biblían er miklu hentugra barefli í því sambandi. Sú Biblía er líf og starf, fas og framganga, mannsins sem lesið hefur hina Biblíuna og tileinkað sér boðskap hennar; gleðifréttina – fagnaðarerindið um Jesú Krist.

Rétt eins og Jónas kenndi prédikunarfræði með fordæminu ber okkur að boða trúna með fordæminu, með því að vera lifandi vitnisburður um lífið með Guði manna á meðal, með því að ganga fram í kærleika og koma fram við aðra eins og við kysum að þeir kæmu fram við okkur – í orði og á borði.

Við búum í nútímasamfélagi þar sem það þykir ekkert sérstaklega töff að vera kristinn. Alls konar stefnur og straumar í andlegum málefnum ríða yfir okkur, allt frá augljósustu og heimskulegustu hindurvitnum að mínu mati – hér stilli ég mig um að nefna dæmi – til einstrengingslegustu efnishyggju þar sem öllu andlegu og yfirskilvitlegu, öllu sem er æðra mannlegri skynsemi og mennskum mætti, er hafnað og það sjálfkrafa afgreitt sem markleysa og heilaspuni. Trúarbrögð, sem áður voru fjarlæg og framandi, eru nú iðkuð í nærsamfélagi okkar af nágrönnum okkar, samstarfsfólki og jafnvel vinum og kunningjum. Allar stofnanir þjóðfélagsins verða að sætta sig við að sæta áður óþekktri gagnrýni, enda hafa þær allar brugðist á einn eða annan hátt, orðið uppvísar að ægilegum yfirsjónum og fádæma flumbrugangi. Þar er kirkjan ekki undanskilin.

Hvernig gerum við þessa þjóð að lærisveinum? Hvernig göngum við um þetta samfélag sem lifandi vitnisburður um gleðina í trú okkar? Hvernig tökum við þátt í samræðunni, sem nauðsynlegt er fari fram, um það hvernig samfélag við viljum byggja saman til framtíðar?

Eigum við að pakka í vörn? Verja óbreytt ástand til síðasta blóðdropa? Leggja allt undir í fyrirfram tapaðri orustu um að kirkjan okkar skuli njóta sömu forréttinda og virðingar og henni voru tryggð í gjörólíku samfélagi? Eða viljum við kirkju sem tekur virkan þátt í umræðunni með sanngirni og skynsemi að leiðarljósi, kirkju sem talar með rödd kærleikans, rödd sem hlustað er á og tekin er alvarlega – jafnvel þótt fólk sé annarrar skoðunar. Viljum við kirkju sem er lifandi vitnisburður um Guð eða viljum við kirkju sem skellir skollaeyrum við tímans þunga nið, kirkju sem með tímanum verður þá óhjákvæmlega aðeins hlægilegur steingervingur, steindauður vitnisburður um samfélag sem er liðið undir lok?

Er sanngjarnt að í stjórnarskrá lýðveldisins sé sérstakt ákvæði um Þjóðkirkju? Stenst það eðlilegar og sjálfsagðar jafnræðiskröfur að í gildi séu ein lög um Þjóðkirkju og önnur lög um önnur trúfélög? Er eðlilegt að hið opinbera innheimti sóknargjöld? Er eðlilegt að fólk sem er utan trúfélaga greiði sóknargjöld? Er eðlilegt að lífsskoðunarfélög um trúlausan húmanisma njóti lagalegrar stöðu trúfélaga? Er eðlilegt að barn sé sjálfkrafa skráð í trúfélag móður við fæðingu? Er eðlilegt í trúfrjálsu samfélagi að Ríkisútvarp sendi út messur og lestur Passíusálma? Er það rétt, sem hin virta Simon Wiesenthal stofnun hefur áhyggjur af, að í Passíusálmum Hallgríms Péturssonar gæti gyðingahaturs?

Mín svör við þessum spurningum koma efni þessarar prédikunar ekki við. Við sumum þeirra hef ég ekki einu sinni svar.

En – þessar spurningar eru eðlilegar í frjálsu samfélagi. Þær eru ekki guðlast. Þær eru ekki árásir á kirkjuna. Þær eru ekki atlaga að kristindómnum. Þær eru ekki ofsóknir á hendur trúuðum mönnum. Og það er móðgun við þá, sem raunverulega sæta ofsóknum vegna trúar sinnar, að tala þannig. Þessar spurningar eiga rétt á sér og krefjast þess að vera rökræddar af skynsömu viti, eins og aðrar sanngjarnar spurningar, ef ekki á að fara illa fyrir samfélagi okkar.

Kirkjunni ber að fagna lýðræðislegri umræðu og taka þátt í henni með glöðu geði, en ekki að kveinka sér undan henni og hlaupa í skjól ímyndaðrar friðhelgi fyrir því að vera hluti af þeirri endurmótun samfélagsins, sem nú er nauðsynlegt að eigi sér stað til að mæta breyttum tímum og kringumstæðum.

Í sjálfsvorkunn, ofurviðkvæmni, einsýni, íhaldssemi og ótta við rökræðu er engin gleði.

Við stöðvum ekki þróunina með því að neita að taka þátt í henni. Annað hvort breytumst við og lifum eða okkur verður breytt – í steingerving.

Ég sagði áðan að það væri frumskylda okkar að vera glöð. Það er rangt. Frumskylda okkar er að vera lifandi. Lífið er forsenda gleðinnar. Eða hver hefur séð glaðan steingerving?

Og hvaða gleði lýsir það að umgangast trúna eins og hún sé svo lekt fúahrip að í hvert skipti sem bátnum er ruggað verði að bregðast við því sem tilraun til að sökkva honum? Það lýsir aðeins ótta, vantrú og hugleysi. Bátar eru ekki smíðaðir til að liggja bundnir við bryggju. Bátur, sem ekki þolir að vera ruggað, er betur kominn á hafsbotni. Það er til orð yfir báta sem ekki þola að vera ruggað: „Manndrápsfley“. Ég vil ekki tilheyra kirkju sem er manndrápsfley af því að minn Guð er borg á bjargi traust. Trú mín er ekki manndrápsfley. Að koma þannig fram við hana og verja hana sem slíka fyrir mína hönd er guðlast í mínum huga.

Lokaritgerðin mín í guðfræði fjallaði um helvíti. Þar færi ég biblíuleg rök fyrir því að helvíti sé fyrst og fremst mælskufræðileg andstæða guðsríkisins. Enda kemur orðið „helvíti“ varla fyrir í munni Jesú í guðspjöllunum öðruvísi en að fyrr í sama versi hafi verið minnst á „Guðs ríki“ eða einhverja hliðstæðu þess, s.s. „himininn“ eða „lífið“. Jesús segir að Guðs ríki sé innra með okkur (Lúk 17.21). Þennan ritningarstað má líka þýða þannig að Guðs ríki sé á meðal okkar. Ég tel að þýða megi hann á báða vegu einmitt vegna þess að Jesús hafi viljað að við skildum þetta á báða vegu, hann hafi meint hvort tveggja. Í Guðs ríki er líf og ljós, fögnuður og gleði. Þar er enginn ótti, vantrú eða hugleysi.  Eins og Guðs ríki er bæði mitt á meðal okkar og innra með okkur er helvíti það líka. Ég vildi útskýra þetta til þess að þið skylduð í hvaða merkingu ég nota orðið „helvíti“ í næstu setningu svo þið haldið ekki að ég sé að bölva. Hún er svona:

Hættum þessu helvítis væli!

Þjónum Guði í gleði!

Að lokum vil ég óska ykkur öllum til hamingju með þennan dag. Megi allar ykkar messur vera gleðimessur og allir dagar ykkar gleðidagar.

Þá á ég ekki við að ég óski þess að þið hefjið hvern dag á því að ranka við ykkur í sundlauginni uppi í Selárdal eftir gleði næturinnar, heldur …

Þið vitið hvað ég á við.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Read Full Post »

Það er erfitt að vera fauskur. Samkvæmt fleygum ummælum eru hvítir, kristnir, gagnkynhneigðir, miðaldra karlmenn þeir einu sem ekkert slæmt má segja um. Fyrir vikið virðist mega láta hvað sem er flakka um þá. Í raun vantar mig aðeins byssuleyfið til að vera að margra mati holdgervingur alls sem að er í heiminum.

En hvað getur þá hress gaur eins og ég gert til að halda hippinu og kúlinu þegar hann stendur frammi fyrir því að árin hafa gert hann að fauski? Er það yfirhöfuð hægt? Þegar ég var unglingur fannst mér ekkert aumkunarverðara en fólk á aldur við foreldra mína sem þóttist svalt með því að reyna að tileinka sér tísku minnar kynslóðar í tónlist og klæðaburði.

Fauskurinn gegnir hlutverki. Honum ber að hneykslast á ungu fólki. Það er skylda hans gagnvart yngri kynslóðum að sýna þeim að þær hafi sinnt þeirri menningarlegu skyldu sinni að ganga fram af honum. Þannig er tuð fausks rós í hnappagat ungs listafólks.

En hvernig getur fauskurinn sinnt þessari samfélagslegu skyldu af ábyrgð og kærleika? Það gerir hann ekki með því að sparka í liggjandi menn og hæðast að þeim sem eiga erfitt uppdráttar. Aftur á móti hlýtur hann að mega dangla í þá sem standa traustum fótum, rétt eins og mín kynlóð ólst bæði upp við Ísbjarnarblús og Spaugstofusketsa um „Subba Skorsteins“. Það ætlaðist enginn til þess að Spaugstofumenn lægju flatir fyrir Utangarðsmönnum og ég þarf ekkert að afsaka það að ég liggi ekki marflatur fyrir „krúttunum“.

Ungu fólki ber að gera uppreisn. Það er í eðli þess. Það liggur jafnframt í hlutarins eðli að uppreisn gegn pönki getur ekki verið meira pönk. Nýja uppreisnin er því í því fólgin að vinda ofan af hamsleysinu og tryllingnum. Þetta er eðlileg og jafnvel óumflýjanleg þróun, hugsanlega heillavænleg. En það breytir því ekki að í eyrum manns sem hafði himin höndum tekið með Geislavirkum hljómar þessi tónlist eins og tilgerðarlegt mjálm.

Það háir fausknum að aldurinn ljær honum virðuleika sem gerir það að verkum að fólki hættir til að taka hann alvarlega. Mér er það algjör nýlunda sem ég hef ekki enn vanist. Stundum skýt ég mig því í fótinn með kerskni sem skilin er sem illt innræti og atlaga að einstaklingum.

Annað sem ég hef ekki enn vanist, þótt ég reki mig æ oftar á það, er hve hættulegt sjálfsháð er í hópi húmorslausra. Vonandi venst ég því aldrei.

Bakþankar í Fréttablaðinu 4. 2. 2012

Read Full Post »

Menningarlegur munur þjóða birtist meðal annars í því hvað salernisaðstaða felur í sér í hverju landi. Þegar ég var ungur þurfti ég einu sinni að ferðast með lest frá Istanbúl til Amsterdam, illa haldinn af matareitrun eftir að hafa lagt mér til munns alsírskan geitost. Aðeins einusinni á  ferðalaginu þurfti ég að gera þarfir mínar í gat í gólfið. Það var á Gare de Lyon lestarstöðinni í París, háborg menningar og lista í Evrópu. Jafnvel í búlgörskum landamæraskúr, þar sem ég þurfti að dúsa um hríð vegna misskilnings við vegabréfaeftirlit við tyrknesku landamærin, var mér boðið upp á betri salernisaðstöðu.

Þjóðverjar hafa sinn fræga skoðunarpall ofan í hverju klósetti. Þeir sem dvalið hafa í Þýskalandi hafa vanist þessu og finnst óþægilegt að heyra plaskið í annars konar salernum. Ítalir hafa það sem þeir kalla „bidet“. Það er sérstakur rassavaskur til að þvo á sér óæðri endann. Ég hef heyrt Ítali kvarta undan því að þetta vanti í norræn baðherbergi. Reyndar þarf ekki að hafa lifað lengi á suðurevrópskum mat til að skilja hvernig hugmyndin að þessu fyrirbæri varð til.

Danir hafa tekið upp á athyglisverðri nýjung í sambandi við sturtur. Hún er í því fólgin að baðherbergið sjálft gegnir hlutverki sturtuklefa, sturtuhausinn stendur niður úr loftinu. Kannski er hægt að draga tjald fyrir til að hlífa vaskinum og salerninu við mestu vætunni. Þetta þýðir samt sem áður að það er viðvarandi ástand á dönskum salernispappír að vera rakur. Sennilega er þetta gert til að spara pláss, hugsanlega til að spara tíma – því þetta leyfir auðvitað að tvær flugur séu slegnar í einu höggi þarna inni.

Á dönsku hóteli, þar sem ég dvaldi nýlega, var fyrirkomulagið með þessu móti. Tveir kranar stýrðu vatninu. Annar stillti kraftinn og hitann, hinn stjórnaði því hvort bunan kæmi ofan í vaskinn eða niður úr loftinu. Þessu fyrirkomulagi er alveg hægt að venjast. Það tók mig bara tvo daga. Þriðja morguninn sem ég dvaldi þarna hafði ég loks vit á því að athuga hvort konan mín, sem nýkomin var úr sturtu, hefði stillt bununa til baka á vaskinn þegar ég ætlaði að þvo mér um hendurnar. Ég lenti bara fullklæddur í sturtubaði tvisvar á meðan á dvölinni stóð.

Nú vantar mig aðeins túlkunarlykil. Hvað er það nákvæmlega sem þessi fjölbreyttu tilbrigði við baðherbergi segja manni um ólíka menningu þjóða?

Bakþankar í Fréttablaðinu 1. 10. 2011

Read Full Post »

Árið 1994 var ég vinsæll útvarpsmaður og skemmtikraftur á Íslandi. Já, það eru17 ár síðan. Það sem einkum háði mér sem útvarpsmanni var hvað mér leiddist tónlistin óskaplega mikið sem þá var vinsælust. Ég átti ekki að vera vaxinn upp úr því að hlusta á poppmúsík, en vinsæla tónlistin á þessum tíma gerði mér mjög erfitt að fylgjast með. Nú þegar ég lít aftur, sé ég að það var um þetta leyti sem ég hætti að fylgjast með stefnum og straumum í dægurtónlist og ákvað að það sem ég hefði þegar heyrt myndi duga mér ágætlega út lífið.

Eitt af því sem sennilega olli straumhvörfum voru tónleikar með hljómsveitinni St. Etienne sem haldnir voru í Reykjavík þetta ár. Ég var svo ofboðslega frægur að ég átti að vera kynnir, en útvarpsstöðin, sem ég vann hjá, kom á einhvern hátt að atburðinum. Tónleikarnir áttu að byrja frekar snemma og ég þurfti ekki að mæta fyrr en klukkutíma síðar. Mér þótti það skrýtið, en skildi það þannig að vænst væri uppistands af minni hálfu á meðan hljómsveitin tæki sér pásu.

Þegar ég mætti voru tónleikarnir ekki byrjaðir. Tónlist af plötum glumdi í hátalarakerfinu og fólk ráfaði um, spjallaði saman eða dillaði sér við taktinn. Ég sá Bjössa Basta álengdar, en hann var einn aðstandenda tónleikanna. Ég sveif á hann og spurði hann hvað í ósköpunum hefði gerst, tónleikarnir ættu að vera löngu byrjaðir. Hann sagði að ekkert hefði gerst, tónleikarnir væru löngu og þetta væru þeir. Fyrsta atriðið væri að einn hljómsveitarmeðlima dídjeiaði í tvo tíma, en sögnin „að dídjeia“ er fagorð í bransanum og merkir„að leika tónlist af plötum“.

Þarna hafði fólk semsagt borgað sig inn á tónleika en fékk í staðinn að sjá tónlistarmann setja plötur á grammófón. Auðvitað hefði ég átt að fylgjast andaktugur með manninum á sviðinu, því þarna var greinilega atvinnumaður í því sem einna helst háði mér í starfi: Því að setja plötu á fóninn. Af einhverjum ástæðum tókst mér þó engan veginn að vera heillaður. Mér fannst þessir hæfileikar satt best að segja ekki nógu merkilegir til að ástæða væri til að borga fyrir að fá að njóta þeirra. Þegar hljómsveitin loks hóf leik sinn minnir mig að hljóðfæraskipanin hafi verið tveir menn með segulbandstæki og söngkona.

Áður en þið afskrifið þetta sem tuð í gömlum karli vil ég taka eitt fram: Ég er ekki gamall. Ég er retró.

Bakþankar í Fréttablaðinu 6. 8. 2011

Read Full Post »

Older Posts »