Feeds:
Færslur
Athugasemdir

Archive for the ‘Prédikanir’ Category

Guðspjall: Svo er um himnaríki sem mann er ætlaði úr landi. Hann kallaði á þjóna sína og fól þeim eigur sínar. Einum fékk hann fimm talentur, öðrum tvær og þeim þriðja eina, hverjum eftir hæfni. Síðan fór hann úr landi. Sá sem fékk fimm talentur fór þegar, ávaxtaði þær og græddi aðrar fimm. Eins gerði sá er tvær fékk. Hann græddi aðrar tvær. En sá sem fékk eina fór og gróf fé húsbónda síns í jörð og faldi það. Löngu síðar kom húsbóndi þessara þjóna og lét þá gera skil. Sá með fimm talenturnar gekk þá fram, færði honum aðrar fimm og sagði: Herra, fimm talentur seldir þú mér í hendur, hér hef ég grætt aðrar fimm. Húsbóndi hans sagði við hann: Gott, þú góði og trúi þjónn. Yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig. Gakk inn í fögnuð herra þíns. Þá gekk fram sá með tvær talenturnar og mælti: Herra, tvær talentur seldir þú mér í hendur, hér hef ég grætt aðrar tvær. Og húsbóndi hans sagði við hann: Gott, þú góði og trúi þjónn, yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig. Gakk inn í fögnuð herra þíns. Loks kom sá er fékk eina talentu og sagði: Herra, ég vissi að þú ert maður harður sem uppsker þar sem þú sáðir ekki og safnar þar sem þú stráðir ekki. Ég var hræddur og fól talentu þína í jörð. Hér hefur þú þitt. Og húsbóndi hans sagði við hann: Illi og lati þjónn, þú vissir að ég uppsker þar sem ég sáði ekki og safna þar sem ég stráði ekki. Þú áttir því að leggja fé mitt í banka. Þá hefði ég fengið það með vöxtum þegar ég kom heim. Takið af honum talentuna og fáið þeim sem hefur tíu talenturnar. Því að hverjum sem hefur mun gefið verða og hann mun hafa gnægð en frá þeim sem eigi hefur mun tekið verða, jafnvel það sem hann hefur. Rekið þennan ónýta þjón út í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna. (Matt 25.14-30)

fjötrar óttansNáð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Guðspjall dagsins fjallar ekki um peninga. Bara svo það sé sagt hreint út alveg strax.

Jesús er reyndar voðalega lítið upptekinn af peningum. Við játum hann vissulega sem leiðtoga lífs okkar, heitum því þegar við fermumst að ætla að „leitast við“ að hafa hann í því hlutverki í lífinu. En fjármálaráðgjöf er ekki eitthvað sem hann lagði fyrir sig. Leiðbeiningar um sparnað og vexti, ávöxtun fjármuna og skuldaálag verðum við bara að finna annars staðar en í Nýja testamentinu. Við getum leitað í dæmisöguna um eyri ekkjunnar ef okkur vantar leiðbeiningar um kristileg viðhörf varðandi framlög hinna ýmsu tekjuhópa til samneyslunnar … en þar með eru snertifletir hagfræði og guðfræði eiginlega upp taldir … eða því sem næst.

Guðs gjafir

Guðspjall dagsins er um Guðs gjafir. Við getum kallað þær hæfileika, jafnvel náðargáfur. Á sumum erlendum tungum eru þessar Guðs gjafir eða náðargáfur enn þann dag í dag kallaðar nafni þessa forna gjaldmiðils: Talent. Og öllum er okkur úthlutað einhverju slíku, mismiklu … en allir fá eitthvað. Engum er alls varnað. Og guðspjallið segir okkur til hvers er ætlast af okkur varðandi það hvernig við förum með það.

Við eigum ekki að fela það, ekki að grafa það í jörð. Við eigum að láta það bera ávöxt, rækta það og efla. Ekki í eigingjörnum tilgangi, ekki okkur sjálfum til dýrðar, heldur af því að þegar upp er staðið þá er ekki það sem skiptir máli hve mikið af slíku okkur var fengið heldur hvað við gerðum við það. Það er ekki spurt úr hve miklu við höfðum að moða heldur hvernig við moðuðum úr því … ef svo má að orði komast.

Þetta er ekki falleg saga ef hún er lesin bókstaflega. Herrann fer í manngreinarálit, hann gerir upp á milli þjóna sinna. Og sá sem hann treysti minnst sýndi kannski af hverju hann naut minnsta traustsins. Hann lét óttann ráða ferð, tók enga áhættu og skilaði upp á punkt og prik nákvæmlega því sem hann byrjaði með. Húsbóndinn verðlaunar þannig áhættusækni – að því tilskyldu að áhættan gangi upp.

En þessi saga er ekki um peninga.

Hún er um ótta.

Myrkur óttans

„Ég var hræddur,“ sagði þjónninn. Óttinn réð ferðinni. Hann treysti ekki guðsgjöfunum sínum. Hann faldi þær. Hann treysti sér ekki til að rækta þær og láta þær bera ávöxt.

Óttinn er eitt öflugasta verkfæri myrkursins. Enda er fæðing Jesú tilkynnt með orðunum: „Verið óhræddir!“ á Betlehemsvöllum (Lúk 2.10). Og upprisan líka. „Skelfist eigi,“ segir engillinn við konurnar sem fyrstar koma að hinni tómu gröf (Mrk 16.9). Og hvað eftir annað segir Jesús lærisveinum sínum að óttast ekki. Hann kallar Símon Pétur til fylgdar við sig með orðunum: „Óttast þú ekki, héðan í frá skalt þú menn veiða“ (Lúk 5.10). „Það er ég, verið óhræddir!“ segir hann við lærisveinana þegar hann kemur gangandi til þeirra á vatninu og þeir halda að hann sé draugur (Matt 14.27). Ræðu sína yfir postulunum sem hann sendir út til að vinna máttarverk endar hann á orðunum: „Verið óhræddir, þér eruð meira verðir en margir spörvar.“ (Matt 10.31). Þannig mætti lengi telja.

Þessi saga er um ótta og það hvað verður um okkur þegar við látum hann ráða ferðinni.

Í sögulok er þjóninum nefnilega varpað út í ystu myrkur þar sem er grátur og gnístran tanna. Það er ekki fallegt. En í ljósi þess að sagan er öll á táknmáli – húsbóndinn táknar Guð, þjónarnir okkur mennina, talenturnar Guðs gjafir – þá ættum við að halda áfram og spyrja hvað myrkrið tákni. Og í framhaldi af því hvar þjónninn hafi verið staddur í upphafi sögunnar. Var hann ekki umvafinn myrkri óttans allan tímann og endar á sama stað og hann byrjaði? Óttinn varnaði honum leiðar til ljóssins. Útilokaði hann frá fögnuði Herrans.

Það eina í þessari sögu sem ekki táknar eitthvað annað er sennilega gráturinn og tannagnístranin sem líkast til standa aðeins fyrir grát og gnístran tanna … í myrkri óttans.

Við erum föst í þessu myrkri óttans þegar við þorum ekki að láta ljós okkar skína. Og okkur er engrar undankomu auðið úr myrkrinu fyrr en við segjum skilið við óttann.

Himnaríki

Þessi saga er í 25. kafla Matteusarguðspjalls. Sá kafli inniheldur þrjár dæmisögur um himnaríki. Sú fyrsta líkir himnaríki við brúðkaup þar sem tíu brúðarmeyjar fara til fundar við brúðguma sem enginn veit almennilega hvenær kemur, en sumar höfðu ekki rænu á að taka með sér olíu á lampana sína. Þær voru því orðnar ljóslausar þegar brúðguminn birtist og misstu því af partíinu. Þá kemur þessi saga um talenturnar og hvað þarf að gera til að geta orðið þátttakandi í fögnuði herrans. Strax á eftir henni kemur síðan þekktasta dæmisagan, saga sem ætti að standa feitletruð í öllu sem kalla mætti „Inngang að kristinni siðfræði fyrir algjöra byrjendur“. Sú saga inniheldur meðal annars kjörorð okkar hér í Laugarneskirkju sem standa með stóru letri á heimasíðunni okkar:

„Hungraður var ég og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég og þér hýstuð mig.“ (Matt 25.35)

Það merkilega við þessar þrjár dæmisögur er að engin þeirra gerist í veislunni sjálfri. Í þeirri fyrstu ganga hyggnu meyjarnar inn til brúðkaupsins og dyrunum er lokað. Ekki orð um það sem þar gerist. Í þeirri næstu, þeirri sem við heyrðum í dag, ganga góðu og trúu þjónarnir inn í fögnuð herrans … án þess að honum sé lýst á nokkurn hátt. Í þeirri þriðju birtist Mannssonurinn í dýrðarhásæti sínu og skilur hafrana frá sauðunum og þeim síðarnefndu er tilkynnt að þeir fái að erfð ríkið sem þeim var búið frá grundvöllun heimsins (Matt 25.34). En svo snýst sagan ekkert um þetta ríki, heldur um það hvað það er sem aðskilur hafra frá sauðum. Engin þessara dæmisagna greinir frá því í hverju þetta himnaríki – sem bíður – er fólgið og það þótt þær tvær fyrstu hefjist báðar beinlínis á orðunum: „Svo er um himnaríki sem …“ eða „Líkt er um himnaríki og …“

Eru þær þá ekkert um himnaríki?

Laug Jesús?

Hérna megin

Nei, það gerði hann ekki. Þær eru vissulega um himnaríki. En engin þeirra lýsir þó einhverri eilífðarsælu hinna útvöldu eftir að jarðvistinni lýkur. Allar þessar sögur fjalla um hegðun okkar hérna megin grafar.

Sú fyrsta fjallar um mikilvægi þess að sofna ekki á verðinum og láta ljósið sitt slokkna. Sú næsta fjallar um mikilvægi þess að óttast ekki að láta ljós sitt skína. Og sú þriðja fjallar um að gefa hungruðum að eta, þyrstum að drekka, að hýsa gesti, klæða nakta, vitja sjúkra og heimsækja þá sem eru í fangelsi. Með öðrum orðum – um náungakærleika. Um það hvernig gott fólk kemur fram við annað fólk. Hún er um það hvað í því felst að vera gott fólk.

Ef þessar sögur fjalla um himnaríki – eins og Jesús fullyrðir að þær geri – þá er himnaríki hegðun okkar hérna megin, ekki umbun okkar fyrir hana hinum megin.

Vegna þess að ef eina ástæðan fyrir því að við leitumst við að sýna náungakærleika er óttinn við afleiðingar þess að gera það ekki, þá er það ekki kærleikurinn sem við stjórnumst af heldur óttinn.

Ef eina ástæðan fyrir því að við reynum að vera gott fólk er ótti við afleiðingar þess að vera það ekki … þá erum við ekkert sérstaklega gott fólk.

Þá erum við bara hrætt fólk.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 17. febrúar 2019

Read Full Post »

Guðspjall: Eftir sex daga tekur Jesús með sér þá Pétur, Jakob og Jóhannes og fer með þá upp á hátt fjall að þeir væru einir saman. Þar ummyndaðist hann fyrir augum þeirra og klæði hans urðu fannhvít og skínandi og fær enginn bleikir á jörðu svo hvítt gert. Og Elía og Móse birtust þeim og voru þeir á tali við Jesú. Þá tekur Pétur til máls og segir við Jesú: „Meistari, gott er að við erum hér. Gerum þrjár tjaldbúðir, þér eina, Móse eina og Elía eina.“ Hann vissi ekki hvað hann átti að segja enda urðu þeir mjög skelfdir. Þá kom ský og skyggði yfir þá og rödd kom úr skýinu: „Þessi er minn elskaði sonur, hlýðið á hann!“ Og jafnskjótt litu lærisveinarnir í kringum sig og sáu engan framar hjá sér nema Jesú einan. Á leiðinni ofan fjallið bannaði Jesús þeim að segja nokkrum frá því er þeir höfðu séð fyrr en Mannssonurinn væri risinn upp frá dauðum. (Mrk 9.2-9)

krossgöturNáð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi.

„Þetta er gott. Svona skulum við hafa það. Varðveitum nákvæmlega þetta ástand, þessa stund. Dveljum hér. Höldum ekki áfram héðan.“

Okkur hefur eflaust öllum liðið þannig einhvern tímann á ævinni. Framtíðin var óráðin, stórar ákvarðanir, sem hafa myndu mikil áhrif á líf okkar til langs tíma, biðu handan við hornið. Þær fylltu okkur kvíða, við vissum ekki hvað við ætluðum að gera eða hvort það væri góð ákvörðun að velja þá leið sem við vorum einna helst á því að fara. Hvað ef hin ákvörðunin myndi nú reynast betur?

En þessi ákvörðun beið okkar og það var engin undankomuleið, krossgöturnar nálguðust og við myndum standa á þeim og verða að velja okkur leið. En akkúrat núna … á þessu augnabliki … var þetta fínt. Svona. Af hverju gátu hlutirnir ekki bara verið svona áram?

Guðspjall dagsins segir frá krossgötum … og mannlegum … alveg einstaklega mannlegum … viðbrögðum.

Konungurinn er kominn

Sagan er náttúrlega þrungin táknum. Jesús tekur þrjá lærisveina sína með sér upp á hátt fjall. Fjallið er gegnumgandi tákn í Markúsarguðspjalli fyrir öryggi og skjól. Það er griðastaður. Jesús segir að Júdamenn skuli flýja til fjalla þegar „viðurstyggð eyðileggingarinnar“ blasi við (Mrk 13.14). Fjallið táknar líka nálægð við Guð. Jesús fer ævinlega upp á fjall til að biðjast fyrir, eftir að hafa mettað mannfjöldann í eyðimörkinni (Mrk 6.46) og áður en hann er handtekinn í Getsemane (Mrk 14.26). Enda var fjallið staður opinberunarinnar í sögu, bókmenntum og menningararfi gyðinga. Móse fékk boðorðin afhent á fjallinu og Guð birtist Elía á fjallinu – og báðir birtast þeir Jesú og lærisveinunum á fjallinu í þessari frásögn.

Loks er fjallið staður konungsvígslunnar. Í einum Davíðssálma segir Guð: „Konung minn hef ég krýnt á Síon, mínu heilaga fjalli.“ (Slm 2.6) Í Babýlón stóð guðkonungurinn, sem rann saman við guðinn Mardúk, uppi á fjallslíkinu, Ziggúratinu sem gnæfði yfir borginni. Og sagnaritarinn Jósefus greinir frá því að í fönísku borginni Týrus hafi konungurinn klæðst silfurskrúða sem ljómaði í sólskininu og fyllti lýðinn ótta og lotningu. Hér ljómar Jesús, en takið eftir því að „enginn bleikir á jörðu fær svo hvítt gert“, enda er ríki Jesú ekki af þessari jörðu.

Þessi saga er eitt stórt tákn um krýningu guðkonungsins.

Elía og Móse, eru holdgervingar lögmálsins og spámannanna.

Og hvað eru lögmálið og spámennirnir?

Á krossgötum

Jesús svarar þeirri spurningu: „Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera. Því að þetta er lögmálið og spámennirnir“ segir í Matteusarguðspjalli. (Matt 7.12). Og síðar í sama guðspjalli segir hann: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum. Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð. Annað er hliðstætt þessu: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Á þessum tveimur boðorðum hvílir allt lögmálið og spámennirnir.“ (Matt 22.37-40)

Hér birtast lögmálið og spámennirnir til að afhenda Jesú kefli trúarinnar. Nýir tímar eru komnir. Lögmálið og spámennirnir, trúararfurinn, er allur saman komin í hinum nýja konungi lífsins og ljóssins: Jesú Kristi.

Við erum á krossgötum.

Og hvernig bregst Pétur við?

„Meistari, gott er að við erum hér. Gerum þrjár tjaldbúðir, þér eina, Móse eina og Elía eina,“ segir hann.

Hér er gott að vera. Þetta er gott. Verum áfram hér … svona … reisum þrjár tjaldbúðir … höldum ekki áfram.

En lífið hélt áfram. Þeir fóru niður af fjallinu og lærisveinarnir þurftu að velja sér leið; að fylgja Jesú eða lögmálinu og spámönnunum. Að fylgja hinum nýkrýnda konungi eða hinum sem voru búnir að afhenda honum konungdæmið.

„Gerum þrjár tjaldbúðir,“ segir hann. Veljum ekki leið, veljum þær allar.

En það er ekki hægt að fara allar leiðir. Einn maður getur ekki dvalið nema í einni tjaldbúð. Hann hefur enga þörf fyrir þrjár. Á þessum krossgötum er ekki í boði að setjast að og halda ekki áfram. Það þarf að velja sér leið, velja sér tjaldbúð.

En hvaða tjaldbúð á að velja?

Samfélag gallagripa

Lærisveinarnir og ég og þið sem eruð hér … við höfum valið leið kristindómsins, valið leið Jesú Krists. Öll höfum við einhvern tímann hvikað af þeirri leið, efast, jafnvel villst. Það hef ég svo sannarlega gert og það gerði Pétur postuli líka og ég leyfi mér að fullyrða að það gildi einnig um ykkur öll.

Pétur er hinn breyski maður. Pétur er sá sem afneitar Jesú þrisvar þegar lífi hans er ógnað. En um leið er Pétur sá sem gerir hið ómögulega … gengur á vatni … en fer að efast … og sökkva. Og það er hann, þessi breyski maður, þessi gallagripur, sem er kletturinn sem Jesús reisti kirkju sína á.

Kirkja Krists er nefnilega af holdi og blóði, hún er samfélag gallagripa. Eins og öll samfélög samanstendur hún af breyskum manneskjum en ekki óskeikulum dýrlingum og englum. Kirkja Krists er staður fyrir mig og þig, haldið uppi af fólki, viðhaldið af fölki eins og mér og þér í gegn um aldirnar. Hún er ekki staður ofurmenna sem aldrei bregðast, aldrei óttast, aldrei efast. Þess vegna er hún staður náungakærleika og umburðarlyndis – af því að við sjáum okkur sjálf hvert í öðru.

Þegar hún hættir að vera það er hún ekki lengur kirkja Krists. Þá hættir hún að vera staður þar sem við komum fram við aðra eins og við viljum að komið sé fram við okkur, þá hættir hún að vera staður þar sem við elskum Guð og þarafleiðandi náungann eins og okkur sjálf. Þá hættir hún að vera griðastaður hans sem allt lögmálið og spámennirnir hvíla á: Jesú frá Nasaret.

Mér finnst það gott. Ég segi eins og Pétur í þessari frásögn: „Það er gott að við erum hér.“ Af því að hér megum við halda áfram með þessa setningu og segja tóma vitleysu eins og Pétur. Það er samt pláss fyrir okkur hérna. Við erum samt velkomin, þótt við fáum galnar hugmyndir eins og að vilja gera öllum til geðs og reisa þrjár tjaldbúðir, fara allar leiðir frekar en að velja eina og halda sig við hana, baða út öngunum eins og risaeðlan í Toy Story og hrópa í örvæntingu: „Ég þoli ekki að taka afstöðu!“ Það er í lagi. Það má. Við höfum öll verið þar.

Lífið heldur áfram

En lífið heldur áfram. Leið okkar heldur áfram í gegn um allar krossgöturnar sem eru á henni. Á engum þeirra er það í boði að setjast niður og segja: „Verum bara hér. Þetta er ágætt. Höldum ekki áfram.“ Sama hve miklum kvíða það kann að fylla okkur að verða að velja okkur leið þá er ekki annað í boði.

Því jafnvel það að velja ekki leið … er leið. Afstöðuleysið er afstaða.

Okkur er hvað eftir annað stillt upp – ekki síst af fjölmiðlum – frammi fyrir álitamálum. Þessi segir eitt og annar annað og við vitum ekki hverjum við eigum að trúa. Hvoru megin línunnar sem er dregin í sandinn ætla ég að taka mér stöðu? Eða ætla ég að slá upp tjaldbúðum á línunni, hreiðra um mig þar og taka ekki afstöðu?

Þegar aldurhniginn stjórnmálaleiðtogi, svo dæmi sé tekið, sem er sakaður um ósiðlegt athæfi af fjölda kvenna, sver af sér allar sakir enda engar beinharðar sannanir til staðar, þá er auðvelt að yppa öxlum og hugsa sem svo að þetta komi manni ekki við. Til hvers að hafa skoðun á þessu? Af hverju að taka afstöðu? Hvað veit maður svosem? Hverju á maður að trúa?

Þegar útvarpsstöð leggur þá í einelti með ósannindum og lygum, sem eru í veikastri stöðu í samfélagi okkar og eru ekki í neinni aðstöðu til að bera hönd fyrir höfuð sér eða leita réttar síns … þá er auðvelt að horfa í hina áttina og láta það óátalið af því að það snertir mann ekki persónulega og maður hlustar hvort sem er aldrei á þessa útvarpsstöð. Af hverju að taka afstöðu?

Knúin svars

Málið er að við erum spurð: Með hverjum stendur þú? Og þegar þeirrar spurningar hefur verið spurt þá er ekki í boði að ýta á einhvern pásutakka á framrás tímans og slá upp andlegum tjaldbúðum í því augnbliki frystu í tíma til að hlífa sér við framhaldinu. Við getum ekki komið okkur undan því að svara spurningunni með því að öskra „Sto!“ á heiminn.

„Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra það hafið þér gert mér“ (Matt 25.40) segir Jesús Kristur. Með öðrum orðum: Í hvert skipti sem við tökum ekki afstöðu með okkar minnstu bræðrum og systrum erum við ekki að taka afstöðu með Jesú Kristi. Í raun má því segja að með því einu að vera hér, með þeirri ákvörðun okkar að vilja leitast við að vera kristnar manneskjur, þá séum við búin að taka afstöðu. Spurningin er hvort við séum reiðubúin að standa við hana eða hvort við ætlum að afneita henni um leið og það verður erfitt.

Ætlum við að reisa einar tjaldbúðir og bjóða okkar minnstu bræðrum og systrum að dvelja í þeim með okkur?

Eða ætlum við að reisa þrjár tjaldbúðir, eina fyrir þolendurna, eina fyrir gerendurna og þá þriðju fyrir okkur sjálf, svo við þurfum hvoruga að umgangast og getum verið út af fyrir okkur í friði í afstöðuleysi okkar?

Svar Jesú Krists er einfalt.

Það er ekki í boði.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 10. febrúar 2019

Read Full Post »

Guðspjall: Jesús kom til Jeríkó og gekk gegnum borgina. En þar var maður er Sakkeus hét. Hann var yfirtollheimtumaður og auðugur. Langaði hann að sjá hver Jesús væri en tókst það ekki fyrir mannfjöldanum því að hann var lítill vexti. Hann hljóp þá á undan og klifraði upp í mórberjatré til að sjá Jesú, en leið hans lá þar hjá. Og er Jesús kom þar að leit hann upp og sagði við hann: „Sakkeus, flýt þér ofan, í dag ber mér að vera í húsi þínu.“ Hann flýtti sér ofan og tók á móti honum glaður. Þeir er sáu þetta létu allir illa við og sögðu: „Hann þiggur boð hjá bersyndugum manni.“ (Lúk 19.1-7)

illgresiNáð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Þegar ég var unglingur komst ég yfir bók sem hafði mikil áhrif á mig og hefur fylgt mér æ síðan. Ég blaða ennþá í henni öðru hverju mér til ánægju og uppörvunar. Það er eins og hún minni mig alltaf á ákveðinn sannleikskjarna og stappi í mig stálinu, auk þess sem hún sýnir mér ljóslifandi á mátt tungunnar og endurnýjar þannig aðdáun mína á þeim sem geta beitt henni af snilld. Kannski var þetta bókin sem einna helst varð til þess að ég sjálfur tók að spreyta mig á því að reyna að yrkja.

Þetta er nefnilega ljóðabók. Hún heitir Illgresi og er eftir Örn Arnarson. Sú staðreynd að Örn er þjóðskáld Hafnfirðinga hefur lítið með aðdáun mína á þessari bók að gera, þótt það spilli auðvitað ekki fyrir.

Vissulega sé ég núna að sum viðhorfa Arnar, einkum þau sem birtast í ýmsum kersknis- og gamanvísum hans, eru löðrandi í úreltri feðraveldishugsun og jafnvel kvenfyrirlitningu. En kjarni máls hans – sem er samkennd með lítilmagnanum og megn óbeit á arðráni og afætum – lætur ekki á sjá þótt tímar líði og viðhorf breytist. Og það besta í kveðskap Arnar er þess eðlis að enn fæ ég gæsahúð þegar ég les það, ölllum þessum árum eftir mín fyrstu kynni af því.

Ljóðið sem mér er einna hugleiknast um þessar mundir heitir Legg í lófa. Þar er dregin upp átakanleg mynd af öldruðum betlara og góðborgurunum sem ganga hjá án þess að virða hann viðlits.

Ljóðið er svona:

Herðalotinn, hæruskotinn

húkir undir vegg,

starir blindum bænaraugum

blæs í úfið skegg,

terrir ellitærða hendi

töturdúðum frá:

Legg í lófa karls, karls,

karl skal ekki sjá.

 

Ör af kæti, fim á fæti

flýtir æskan sér,

ætlar að grípa geislabrot,

sem glampa þar og hér.

Ellin hrum og yndissnauð

er aðeins sinustrá.

Legg í lófa karls, karls,

karl skal ekki sjá.

 

Tízkulóa og tildurrófa

tifa um borgarstig.

Skraut-Oddi og Glæsi-Gísl

í gluggum spegla sig.

Aldrei munu örðug lífskjör

af þeim skartið má.

Legg í lófa karls, karls,

karl skal ekki sjá.

 

Bumbufeitur, búlduleitur

burgeis stígur gleitt.

Hann á skip og skrautbygging

og skuldar engum neitt.

Aldrei verður hann einstæðingur,

auðnumaðurinn sá.

Legg í lófa karls, karls,

karl skal ekki sjá.

 

Legg í lófa karls, karls,

karl skal ekki sjá,

að þeir gefa manna minnst,

sem mikið berast á.

Fátækur af fátækt sinni

fórnar því sem má.

Legg í lófa karls, karls,

karl skal ekki sjá.

Manna minnst

Einhverjum fjörutíu árum eftir að ég las þessi orð fyrst spruttu þau upp í huga minn til að lýsa minni eigin reynslu í prestsembætti af því að taka við samskotum og ýmissi aðstoð til handa bágstöddum. Hér frammi við kirkjudyr eru söfnunarbaukar þar sem hverri krónu er varið til að aðstoða þá sem hingað leita að hjálp í neyð. Í þessa bauka hef ég með eigin augum séð margan eyri ekkjunnar látinn. Börn tæma vasana af mynt og setja í baukana. Aðrir láta eitthvað smáræði sem þeir eru með á sér af hendi rakna. Í þessa bauka fara aldrei fúlgur í heilu lagi. Það eru ekki auðkýfingar, ekki þeir sem eiga „skip og skrautbygging“ sem fylla þá. Það eru ekki fínu pappírarnir í þjóðfélaginu sem það gera, ekki þeir sem hafa besta lánshæfismatið hjá bankastofnunum okkar. Og það eru ekki heldur þeir sem þurfa á því að halda sem í þá fer.

Kannski veltur samkenndin á því að hafa reynslu af eða að minnsta kosti einhvern skilning á því hvernig það er að vera í þeirri stöðu að þurfa góðvild annarra til að komast af. Kannski sviptir það mann mjög mikilvægum hluta hins mannlega hlutskiptis að fæðast með silfurskeið í munninum og þurfa aldrei að hafa hinar minnstu áhyggjur af afkomu sinni eða því hvort til sé peningur fyrir kvöldmat, að hafa aldrei verið í þeirri aðstöðu að hafa þurft að neita sér um eitthvað vegna peningaleysis. Kannski er það þannig að náungakærleikur þeirra, sem eru svo ógæfusamir að fæðast til slíkra allsnægta, fær aldrei neina næringu, aldrei tækifæri til að vaxa og þroskast og blómstra. Kannski skrapar ofgnóttinn og hið fullkomna afkomuöryggi úr okkur dýrmætasta og göfugasta hluta mennsku okkar.

Alla vega hefur það ekki breyst síðan Örn Arnarson orti Legg í lófa að „þeir gefa manna minnst sem mikið berast á.“

Fínu pappírarnir

Hverjir eru fínu og pappírarnir í þjóðfélaginu?

Hverjir eru þeir „ófínu“?

Þetta hefur breyst á undanförnum áratugum. Einhvern tímann hefði það þótt fínt að vera prestur, en í seinni tíð heyri ég oft talað um presta – að minnsta kosti í sumum kreðsum – eins og orðið sé samheiti yfir „hræsnari“. Þegar ég var lítill þótti mjög fínt að vera lögfræðingur, en lögfræðingar eru samt eins og allir vita ekki yfir það hafnir að fremja hræðilega glæpi og oft heyri ég talað um lögfræðinga eins og þeir séu allir fégráðugar blóðusugur. Sem þeir eru auðvitað ekki – frekar en nokkur önnur stétt manna. Um stjórnmálamenn þarf ekki að fjölyrða, en fáir held ég að verði fyrir öðru eins hatri í athugasemdakerfum. Vegna þess að einhverjir þeirra hafa brugðist trausti okkar er talað um þá alla eins og það sé sami sitjandinn undir þeim öllum, svo það sé orðað penar en gert er á netinu. En svo fer það líka eftir því hvar í flokki þeir standa og hvaða flokk sá sem talar styður.

Þegar ég var lítill var líka stundum talað um það sem hræðileg örlög að enda í öskunni. Í dag verð ég ekki var við annað en að nokkuð almenn virðing sé borin fyrir dugnaði sorphirðufólks og að störf þeirra séu býsna mikils metin í þjóðfélaginu.

Tímarnir breytast.

Að minnsta kosti er erfitt að benda á einhverja óumdeilda stétt manna sem nýtur óskoraðrar virðingar.

Þannig var því ekki farið á dögum Jesú.

Tollheimtumenn og farísear

Fínu pappírarnir í þjóðfélaginu voru farísearnir, svona ef æðstuprestar og aðall eru undanskildir. Þetta verður að hafa í huga þegar ummæli Jesú Krists um farísea eru túlkuð. Hann var ekki að atyrða einhverja annálaða drullusokka. Allt almennilegt fólk hefur sopið hveljur yfir því að þessi ófágaði, galíleíski smiður skyldi leyfa sér að úthúða þessum blessuðu fyrirmyndarborgurum með svona ósvífnum hætti.

Og það var líka alveg kristaltært hverjir „ófínu“ pappírarnir voru, því venjulegt fólk verður jú að hafa einhvern fyrir neðan sig til að finnast það sjálft ekki vera á botni samfélagsins. Það voru tollheimtumenn. Og guðspjall dagsins segir einmitt sögu af samskiptum Jesú við einn slíkan.

Og Jesús segir að „honum beri“ að vera í húsi hans. Ekki að hann ætli að setjast upp á hann eða hvort hann megi koma í mat. Nei. Honum „ber“ að vera í húsi hins forsmáða og fyrirlitna.

Og Sakkeus gleðst við á meðan „almennilegt fólk“ fussar auðvitað og sveiar.

Þessi umturnun á virðingarstiga samfélagsins, þessi lítilsvirðing við broddborgarana, eða öllu heldur við hinn veraldlega mælikvarða á virðingu og sæmd, ásamt valdeflingu og mannlegri reisn hinna, sem minnst mega sín, er í mínum huga kjarni kristindómsins.

Reyndar er ekki alls kostar rétt að Jesús hvolfi virðingarstiganum. Nær væri að segja að hann taki hann og höggvi hann í spón.

Þessi boðskapur á sama erindi við okkur í dag og hann átti við samfélagið fyrir botni Miðjarðarhafsins fyrir tvöþúsund árum.

Grillurnar okkar

Það er sama hvað við viljum gera okkur miklar grillur um Ísland sem „stéttlaust samfélag“. Það gildir einu hvað það lætur okkur líða vel með okkur sjálf að ímynda okkur að svo sé í einhverri siðferðilegri sjálfsefjun. Slíkar hugmyndir standast enga skoðun ef við höfum hugrekki til að opna augun og sjá heiminn eins og hann er. Eða skyldu margir hér inni vera að spá í að kaupa sér eins og einn banka næst þegar einn slíkur verður auglýstur til sölu? Skyldu mörg ykkar vera að spá í að fórna einni lystisnekkjunni í Karíbahafinu til að eiga fyrir útborguninni? Ég efast um að svo sé. Og jafnvel þótt svo væri er ég nánast viss um að mun fleiri eru að glíma við þann vanda að lifa mannsæmandi lífi í Reykjavík jafnframt því að geta staðið straum af kostnaðinum við það að hafa þak yfir höfuðið.

Fólk er fyrir ofan okkur og fólk er fyrir neðan okkur, í tekjum og í virðingarstiga safmélagsins – sem illu heilli virðist yfirleitt fara saman.

Þessu hendir Jesús út í hafsauga.

Mælikvarði mannvirðinganna

„Sýndu mér hver þú ert,“ segir hann, „ekki hvað þú átt. Ekki segja mér hvað þú ert álitinn vera, sýndu mér hvað þú hefur til brunns að bera – milliliðalaust. Ekki tíunda orðstír þinn og afrekaskrá, ekki sýna mér orður eða lesa fyrir mig lofrullur um þig. Sýndu mér hvað þú gafst. Sýndu mér hverjum þú hjálpaðir. Því í því er mennska þín fólgin, í kærleikanum sem þú sýnir.“

Ef þetta væri mælikvarðinn á virðingu og sæmd, ekki stétt eða staða, auður, útlit, menntun eða mannvirðingar, heldur hitt … hvernig þú kemur fram við þá sem sárast þurfa á því að halda að vera auðsýndur náungakærleikur í verki … þá væri heimurinn betri staður – fyrir okkur öll.

Því hvað er hræðilegra en að fara í gegn um heila mannsævi án þess að upplifa það nokkru sinni að hafa orðið annarri manneskju, sem þurfti á því að halda, að liði með kærleiksverki? Sá sem á slíkt líf að baki deyr í andlegri örbirgð.

Frá slíku hlutskipti vill Jesús frelsa okkur öll.

Það er erindið sem hann á við okkur enn þann dag í dag.

Og það er réttnefnt „fagnaðar-erindi“.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 20. janúar 2019

Read Full Post »

Pistill: Minnist þess, systkin, hvernig þið voruð þegar Guð kallaði ykkur: Mörg ykkar voru ekki vitur að manna dómi, ekki voldug eða ættstór. En Guð hefur útvalið það sem heimurinn telur heimsku til að gera hinum vitru kinnroða og hið veika í heiminum til þess að gera hinu volduga kinnroða. Og hið lítilmótlega í heiminum, það sem heimurinn telur einskis virði, hefur Guð útvalið til þess að gera að engu það sem er í metum. (I Kor 1.26-28)

death-star-ii_b5760154Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Í vikunni átti ég áhugaverðan fund með nokkrum körlum þar sem við ræddum hetjuskap og hugrekki. Og niðurstaðan – ef það var þá nokkur niðurstaða – var eiginlega á þá leið að hefðbundnar staðalhugmyndir okkar um hetjuna væru ef til vill dálítið vanhugsaðar og yfirborðskenndar.

Þannig sjáum við gjarnan hetju fyrir okkur sem einstakling sem óttast ekkert og gengur ótrauður til móts við hvaða hættu sem er án þess að hika. Slíkt er hugrekkið.

En stöldrum aðeins við.

Án þess að óttast? Hvað hefur sá sem ekki óttast að gera við hugrekki? Krefst það einhvers hugrekkis að ganga á hólm við það sem maður óttast ekki neitt? Er það ekki einmitt óttinn sem gerir hugrekkið nauðsynlegt? Ég segi bara fyrir sjálfan mig að þegar ég geri eitthvað sem mér finnst að ekki geti farið úrskeiðis þá krefst það afar lítils hugrekkis af mér. Í þau skipti þegar ég hef þurft að taka á honum stóra mínum, sýna það hugrekki sem ég þó hef til að bera og ég held svosem að sé hvorki meira né minna en hver meðalmaður býr yfir, þá hefur það einmitt verið þegar ég var sem óttaslegnastur. Þegar allt sem gat farið úrskeiðis stóð mér sem mest lifandi fyrir hugskotssjónum.

Kannski er heilmikið til í speki kínverska heimspekingsins Laós Tses þegar hann segir: „Sá sem sigrar aðra er sterkur. Sá sem sigrar sjálfan sig er mikilmenni.“ Kannski er það að ganga á hólm við á okkur sjálf og þá djöfla sem við höfum að draga, hvert og eitt, mesta hetjudáðin sem við getum drýgt, það sem krefst mests hugrekkis af okkur.

Tinni og Kolbeinn

Við karlarnir veltum fyrir okkur fyrirmyndum okkar í hetjuskap og eitt nafnið sem bar á góma var Tinni. Tinni er vissulega snjall og lætur sér fátt fyrir brjósti brenna. En einmitt af þeim sökum er hann kannski of mikil hetja til að vera raunveruleg hetja. Eini ljóðurinn sem ég veit á ráði Tinna er eitt fyllirí sem hann fór á í bókinni Skurðgoðið með skarð í eyra. Að öðru leyti er hann eiginlega einum of óaðfinnanlegur og sléttur og felldur – nánast ómannlegur. Honum verður aldrei á, gerir aldrei mistök. Hann hefur ósköp lítið að óttast. Kolbeinn kafteinn, á hinn bóginn … þar er náungi sem hefur djöfla að draga. Þar er á ferðinni einstaklingur sem veit á eigin skinni að hlutirnir geta farið úrskeiðis, einstaklingur sem þarf að sigrast á sínum eigin djöflum á hverjum morgni til þess eins að geta staðið uppréttur að baki Tinna vini sínum, sem er eins og sé fyrirmunað að mistakast nokkur skapaður hlutur.

Þannig eru hinar raunverulegu hetjur kannski ekki óvenjulegt og óttalaust fólk, eins og Tinni, heldur einmitt ósköp venjulegt og meingallað fólk, eins og Kolbeinn kafteinn, sem bregst rétt við í óvenjulegum kringumstæðum og þarafleiðandi kannski fáir minni ofurhetjur en einmitt hinar svokölluðu ofurhetjur sem eru svo vinsælar í kvikmyndum þessi dægrin.

Ímyndum okkur einstakling með getu og burði Súpermanns, sem byssukúlur bíta ekki á, getur flogið um og er svo sterkur að hann getur breytt sporbaug himinhnatta. Ímyndum okkur að hann, sem er ódrepandi og þarf raunverulega ekki að óttast neitt, myndi bara lifa venjulegu lífi og ekki nenna að standa í því að bjarga heiminum alla daga. Hann væri ekki bara „ekki hetja“ – hann væri siðblindur.

Sigur hins lítilmótlega

Pistill dagsins kallar á þessar hugrenningar að mínu mati. Það sem heimurinn telur heimsku lætur Guð gera hinum vitru kinnroða. Hið lítilmótlega, það sem heimurinn telur einskis virði, lætur Guð gera það að engu sem heimurinn hefur í metum. Þetta eru hinir fyrstu kristnu menn sem verið er að lýsa, hvorki vitrir að manna dómi, voldugir né ættstórir. Ekki líklegir til afreka eða til að setja mark sitt á söguna. Páll postuli kallar þá „hið lítilmótlega í heiminum“. Þetta er liðið sem ól af sér stærstu trúarbrögð mannskynssögunnar. Hvar eru trúarbrögð herraþjóðanna í dag? Hvar eru Seifsdýrkendurnir og Júpítersdýrkendurnir og Mardúksdýrkendurnir?

Þetta minni – sigur lítilmagnans á ofureflinu – er sígilt og klassískt. Oft er talað um Davíð og Golíat í því sambandi og þar vísað til alþekktrar sögu úr Gamla testamentinu. En ef sagan um Davíð og Golíat er skoðuð gaumgæfilega sést að hún er ekki bara um að Guð grípi inn í og láti það ómögulega eiga sér stað, lítinn dreng fella gríðarstóran risa.

Golíat hafði nefnilega einn veikleika. Hann var gríðarstór, klyfjaður níðþungum herklæðum og fyrir vikið hægur og klunnalegur í hreyfingum. Þess vegna var miklu auðveldara að hitta hann en hinn litla og kvika Davíð. Filistarnir, sem tefldu Golíati fram, gerðu nefnilega þau grundvallarmistök að halda að Gyðingarnir myndu tefla á móti honum einhverjum sem ætlaði að spila eftir þeirra reglum, einhverjum sem myndi mæta Golíati á forsendum Golíats. Sagan er ekki síður um sigur kænskunnar á þeirri heimsku að setja allt sitt traust á aflsmuni. Ísraelski herforinginn og stjórnmálamaðurinn Moshe Dyan hefur fullyrt að Golíat hefði ekki átt minni möguleika gegn Davíð vopnuðum Colt 45 skammbyssu.

Við spjölluðum um söguna um Davíð og Golíat í fermingarfræðslunni í fyrra af því að mér fannst boðskapur hennar vera gott veganesti út í lífið: Hafðu trú á sjálfum þér og ekki láta hugfallast þótt þér virðist þú standa frammi fyrir ofurefli, mættu því á þínum eigin forsendum en ekki forsendum þess – því kænskan sigrar alltaf aflsmunina. Ég gaf fermingarbörnunum það verkefni að finna dæmi um að þetta væri sannleikur. Þau máttu vera úr lífi þeirra sjálfra, sögulegum atburðum eða bókmenntum. Og allnokkrir nefndu örlög Helstirnisins í Stjörnustríðsmyndunum.

Örlög Helstirnisins

Fyrir þá sem ekki þekkja til þá er Helstirnið gríðarstórt gereyðingarvopn, á stærð við lítið tungl, sem þýtur um himingeiminn og getur sprengt heilar reikistjörnur í loft upp. Því er tortímt af geimflaug sem er ekki mikið stærri en fólksbíll. Helstirnið hefur nefnilega einn veikleika, örlítið loftræstiop. Stærri geimflaug hefði aldrei getað smogið á milli skotanna úr geislabyssum Helstirnisins og komist nógu nálægt loftræstiopinu til að skjóta sprengjunni ofan í það. Smæðin var mesti styrkur andspyrnunnar, stærðin veikleiki Helstirnisins. Helstirnið átti aldrei möguleika, ekki frekar en Golíat á móti Davíð.

Eða svo gripið sé til enn einnar líkingarinnar: Heimsins stærsti fíll hefði lítið að gera í heimsins öflugasta skriðdreka. En heimsins kænasta mús gæti smogið á milli glufa og tannhjóla og nagað í sundur akkúrat rétta vírinn sem gerir skriðdrekann óökuhæfan.

Gott og vel. Allt hljómar þetta vel … vona ég.

En það er eðlilegt að spurt sé: Eru þetta ekki bara ævintýri? Tinni, Biblíusögur og Stjörnustríð? (Og enn hef ég ekki minnst einu orði á hina lítilmótlegu Hobbita Hringadróttinssögu.) Eru raunveruleg dæmi um sigur Davíðs á Golíati ekki álíka fátíð og … tja … hvað á að segja … sigur Íslendinga á Englendingum í fótbolta?

Getum við fundið raunveruleg dæmi þess í samtíma okkar að öryrki með bilaðan síma nái miklivægum heimildum sem aldrei hefðu orðið opinberar ef fremstu hljóðupptökumenn þjóðarinnar hefðu mætt á staðinn með bægslagangi og stillt upp öllum flottustu græjunum sínum?

Afrískt máltæki segir: „Ef þú heldur að það sé hægt að vera of lítill til að hafa áhrif þá hefurðu aldrei eytt nótt í tjaldi með moskítóflugu.“

Guð og maður

Sagan um Davíð og Golíat er, eins og svo margt annað í Biblíunni, heilagur sannleikur ef maður hefur vit á að skoða um hvað hún er, ef maður les ekki bara orðin og atburðarásina heldur boðskapinn og merkinguna. Hún gerist hvað eftir annað mitt á meðal okkar. Auðvitað gerist það líka hvað eftir annað að Golíat hefur Davíð undir, en þá er það af því að Davíð misskildi söguna og hélt að hún væri um að Guð myndi hjálpa honum að sigra Golíat í aflraunum.

Það er eðlilegt að óttast og nauðsynlegt að kunna það. Sá sem ekki kann að óttast fer sér mjög sennilega hratt og örugglega að voða. Hugrekki er ekki það að óttast ekki. Hugrekki er það að ganga á hólm við ótta sinn, horfast í augu við hann og neita að láta hann ráða ferðinni. Óttinn er hluti af tilveru okkar, en hugrekkið gerir það að verkum að hann þarf ekki að vera húsbóndi okkar.

En hvað með Jesú Krist? Var hann ekki hálfgerður Súpermann? Ef við erum kristin þá trúum við því að hann sé Guð og hvað þarf Guð að óttast? Hann er ódrepandi. Ef hann vissi að hann myndi rísa upp, hver var þá fórnin að ganga út í opinn dauðann? Var það ekki bara brella – show business – að gera þetta svona?

Nei.

Við trúum því nefnilega ekki bara að Jesús hafi verið Guð. Við trúum því líka að hann hafi verið maður. Alger maður. Fullkominn maður. Og ef mennska hans var fullkomin og ekkert vantaði upp á hana, eins og okkur ber að trúa samkvæmt hinni réttu kenningu, þá þýðir það að hann hafði til að bera allt það sem gerir okkur mennsk, tilfinningar og kenndir. Þar hlýtur óttinn að vera meðtalinn. Eða vantar ekki eitthvað upp á mennsku þess sem þekkir ekki ótta?

En það er ekki óttinn sem einkennir Jesú … heldur hugrekkið.

Angist Jesú

Við höfum mjög mikilvæga sögu í Nýja testamentinu þar sem Jesús liggur á bæn alla nóttina áður en hann er handtekinn og biður Guð að hlífa sér við þessum örlögum, því hann þarf ekkert að ganga þess dulinn hvað bíður hans. Hann bætir reyndar við: „En verði þó ekki minn heldur þinn vilji.“ (Lúk 22.44) Jesús óttaðist. Að honum setti „hryggð og angist“ segir í Matteusarguðspjalli. (Matt 26.37)

Jesús hefði getað flúið af hólmi, stungið af og farið huldu höfði. Og þannig ónýtt allt sitt verk, allt sem hann stóð fyrir, allt sem hann boðaði. Og við hér hefðum aldrei heyrt hans getið. En hann gerði það ekki. Hann stóð með sjálfum sér, hvað sem það kostaði. Og það kostaði eins mikið nokkuð getur kostað.

Þannig getur Jesús verið okkur hin stóra fyrirmynd í hugrekki, því hann þekkti svo sannarlega óttann. Og þegar við óttumst, þegar við stöndum frammi fyrir ofureflinu, þegar okkur finnst við vera það lítilmótlegasta í heiminum og ekkert sé framundan nema ógn og dauði … þá höfum við hina kristnu von, þrælana og undirmálsfólkið sem þurfti að fara huldu höfði til að geta ræktað trú sína, sem að lokum vann fullnaðarsigur. Við höfum hinn angistarfulla smið sem hlaut hræðileg örlög en reis upp frá dauðum í dýrð.

Og vegna hinnar kristnu vonar getum við líka haft hið kristna hugrekki. Við getum horfst í augu við ótta okkar og sagt: „Ég sé þig. Ég veit af þér. Ég veit að þú ert hluti af mér og að ég losna aldrei við þig. En þú ert ekki húsbóndi minn. Það ert ekki þú sem ég fylgi.

Það er annar.“

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 13. janúar 2019

Read Full Post »

Guðspjall: Meðan hann var í Jerúsalem á páskahátíðinni fóru margir að trúa á hann því þeir sáu þau tákn sem hann gerði. En Jesús gaf þeim ekki trúnað sinn því hann þekkti alla. Hann þurfti þess ekki að neinn bæri öðrum manni vitni. Hann vissi sjálfur hvað í manni býr. (Jóh 2.23-25)

jesus-picture-driving-out-the-money-changers-and-merchants-from-the-temple

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Gleðilegt nýtt ár.

Í Hávamálum er að finna ýmsa speki sem lifað hefur með þjóðinni um aldir og sumt af henni hefur jafnvel orðið að orðatiltækjum sem við notum, gjarnan án þess að gera okkur endilega grein fyrir uppruna þeirra. Þar er meðal annars að finna þessa hendingu:

Ósnotur maður

hyggur sér alla vera

viðhlæjendur vini.

Já. Þeir sem komist hafa í þá stöðu að hugsanlega kynni eitthvað að vera hægt að græða á vináttu þeirra hafa, held ég, flestir veitt því athygli hve viðhlæjendum þeirra snöggfjölgaði við það. Þetta er gömul speki og ný og alls ekki bundin við Ísland eða Hávamál.

Ekki eru allir viðhlæjendur vinir. Þetta er almælt.

Algild speki

Þúsund árum áður en Hávamál urðu til var sama speki færð í letur með öðrum hætti í öðrum heimshluta, fyrir botni Miðjarðarhafsins í riti sem við köllum Nýja testamentið.

Það er nefnilega þannig að ef byltingin tekst þá kemur í ljós daginn eftir að allir voru allan tímann sannir byltingarmenn í hjarta sínu, á bandi byltingarinnar og treysta sér fullkomlega til að vera bestu vinir byltingarleiðtogans. Ef byltingin mistekst, segjum jafnvel að byltingarleiðtoginn hafi verið krossfestur, þá kannast enginn við að hafa nokkurn tímann verið í slagtogi við hann. Besti vinur hans er jafnvel vís með að afneita honum þrisvar áður en eitt hanaræksni nær að gala tvisvar.

Í þessum stutta guðspjallsbúti, þessum þremur versum sem við lesum í dag, er mikil saga og djúpur sannleikur. Á yfirborðinu lætur þetta lítið yfir sér. Jesús er í Jerúsalem á páskahátíðinni og margir fara að trúa á hann. En Jesús virðist taka því fálega, eins og hann hafi einhverja fyrirvara. Hann gaf þeim ekki trúnað sinn því hann vissi hvað í þeim bjó.

Af hverju er Jesús svona leiðinlegur? Hverju sætir þessi tortryggni? Af hverju tekur hann ekki öllu þessu fólki opnum örmum og gerir það að trúnaðarvinum sínum?

Við verðum að setja þennan texta í samhengi við stóru söguna sem guðspjallið segir. Það sem hér er nýbúið að gerast er að Jesús frá Nasaret og fylgismenn hans hafa gert áhlaup á musterið í Jerúsalem, helgasta stað gyðingdómsins, og tekið það yfir. Hann gerði sér svipu úr köðlum og rak alla út úr musterinu, velti við borðum og kallaði þá ræningja sem seldu fórnardýr á uppsprengdu verði í ágóðaskyni fyrir æðsta prestinn og fjölskyldu hans. Og það er undir þessum kringumstæðum sem Jesús er að kenna í musterinu og allt þetta fólk tekur allt í einu hreina og sanna trú … að sögn.

Hvað hafði allt þetta fólk verið að gera áður en Jesús tók til sinna ráða og hreinsaði til í spillingarfjósinu? Við hverjum hló það þá? Jesús vissi það ósköp vel. Hann þekkti alla.

Hvað gerði allt þetta fólk þegar Jesú var síðan að blæða út á krossinum? Hvar var trú þess þá? Hvers máttu sín þá öll táknin sem hann hafði gert? Voru þá kannski aðrir komnir til sögunnar sem vænlegra var að hlæja við en ræflinum sem verið var að murka lífið úr á Golgata?

Hvað er bylting?

 Ég nota hér orðið „bylting“ og misnota það kannski. Mér til varnar get ég aðeins sagt að orðið hefur verið notað á þennan hátt – um samfélagsbreytingar, um víðtæka og almenna kúvendingu á viðhorfum, viðmiðum og því hvað samfélagið umber og hvað ekki. Svo dæmi sé tekið þá hefur á mínu æviskeiði orðið ekkert minna en algjör bylting í viðhorfum samfélagsins til samkynhneigðar. Og nú er svipuð bylting að eiga sér stað gagnvart kynáttun, góðu heilli.

Á nýliðnu ári heyrðist orðið „bylting“ notað um það að rjúfa þagnarmúrinn um kynferðislega áreitni og kynferðislega misbeitingu valds, um það að segja þolendaskömmun stríð á hendur og skila sektinni til hinna seku. Myllumerkið #metoo var neisti sem kveikti bál. Og ég trúi því að margir hafi sopið hveljur yfir sögunum, ekki bara því hve sumar þeirra lýstu harðsvíruðu virðingarleysi og yfirgangi, ef ekki beinlínis hegningarlagabrotum – heldur ekki síður yfir því hve margar þessar sögur voru. Og úr öllum geirum þjóðfélagsins að því er virtist. Allt í einu rann upp fyrir mörgum að þeir höfðu lifað og hrærst í fársjúku samfélagi þar sem þögn hafði ríkt um þá staðreynd að helmingur borgaranna bjó við að það væri eðlilegur hluti af reynsluheimi þeirra að vera sýnd lítilsvirðing og dónaskapur, verða fyrir áreitni og jafnvel kynferðislegu ofbeldi af hálfu, að því er virðist, stórs hluta hins helmingsins. Stjórnmálakonur, leikkonur, prestar, íþróttakonur, heilbrigðisstarfsmenn – það virtist gilda einu hvar borið var niður. Alls staðar hafði þessi óþverri grasserað og um það verið þagað. En ekki lengur.

Tuð um yfirgang pólitískrar rétthugsunar og að ekkert mætti nú lengur, karlar mættu ekki lengur reyna við konur – eins og einhver af þessum sögum hefði snúist um heiðarlega, misheppnaða viðreynslu – heyrðist auðvitað. Og heyrist enn. En hverjum þeim karli sem ekki er siðblindur og á móður, systur eða dætur – sem reyndar er mikill meirihluti íslenskra karlmanna – hlýtur að misbjóða að þær geti ekki látið drauma sína rætast án þess að eiga það á hættu að vera svívirtar eða misnotaðar kynferðislega af karlkyns kollegum eða yfirmönnum. Og að þær eigi bara að láta það yfir sig ganga.

Ný stemning

 Undir þessum kringumstæðum, í kjölfar byltingarinnar sem tókst – eða að minnsta kosti virðist vera vænlegt að veðja á að muni að lokum takast, dauði síðasta dónakallsins sé í augsýn – er bæði auðvelt og praktískt að hoppa á vagninn. Það er lítil fyrirhöfn og líklegt til vinsælda að koma út úr skápnum sem einarður feministi til langs tíma þegar þetta er stemningin. Mun minni fyrirhöfn, eins og dæmin sanna, heldur en að stilla sig síðan um að sýna sitt rétta eðli með fyrirlitlegu groddatali í því sem ranglega var treyst á að væri trúnaðarsamtal.

Við þurfum ekkert að ímynda okkur að allir viðhlæjendur þessarar byltingar séu vinir hennar.

Það var áhugavert að fylgjast með hinni siðfræðilegu umræðu sem fram fór síðustu vikur ársins sem við kvöddum í gær. Ég stórefa að orð eins og iðrun og fyrirgefning og jafnvel sjálft syndarhugtakið hafi nokkurn tímann verið eins miðlæg í þjóðfélagsumræðunni og í lok nóvember og í desember 2018.

Og við hljótum að spyrja okkur sjálf hvað sé rétt og rangt í þessum efnum. Hve langt á umburðarlyndi okkar að ná? Hve langt má opinber smánun manna sem verða sér til skammar ganga? Skiptir það máli hverjir eiga í hlut, er ekki sama hvort það er Jón eða séra Jón? Er ekki þversögn í því fólgin að fara ljótum orðum um menn fyrir að fara ljótum orðum um menn? Er með því ekki einmitt farið niður á þeirra plan með þeim afleiðingum að í stað málefnalegrar umræðu fáum við leðjuslag?

Jú, svo sannarlega. Og ekki hefur allt verið gáfulegt eða geðslegt sem kom fram í umræðunni, beggja vegna víglínunnar.

Hvað má þá?

En við sem kristið fólk megum þó standa vörð um grundvallarhugtök siðfræðinnar sem við aðhyllumst, hugtök á borð við iðrun og fyrirgefningu, og láta ekki misnota þau, útvatna og afskræma til að firra menn ábyrgð orða sinna og gjörða.

Við megum benda á að setningin: „Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrstur steini“ var sögð til að verja forsmáða, réttlausa og varnarlausa konu fyrir grjótkasti vel stæðra karla úr stétt góðborgara, ekki til að verja rétt vel stæðra karla úr stétt góðborgara til að svívirða alla þá þjóðfélgashópa koll af kolli sem þurft hafa að heyja réttindabaráttu til að standa jafnfætis þeim frammi fyrir stofnunum samfélagsins.

Við megum benda á að fyrirgefning fæst fyrir iðrun og yfirbót eins og sagan af týnda syninum sýnir. Hún fæst ekki fyrir að neita sök og benda á aðra, enda væri í því fólgin þversögn, því hvað á að fyrirgefa þeim sem ekkert hefur til saka unnið?

Við megum benda á að iðrun í orði án nokkurra yfirbóta í verki er orðin tóm og einskis verð. Það er munur á því að sjá að sér, játa sök sína, iðrast og bæta fyrir brot sín og hinu að grenja sig hvítan af ótta við afleiðingar þess að gera það ekki.

Hvernig kristin manneskja á að bregðast við forherðingu er nefnilega ekki síður mikilvæg siðferðisleg spurning sem við stöndum frammi fyrir og ekki er síður þörf að ræða en hinar spurningarnar sem ég hef varpað hér fram. Hvað segir Nýja testamentið okkur um syndarann sem neitar sök? Um misgjörðarmanninn sem kann ekki að skammast sín? Um valdafólkið sem misnotar opinbera aðstöðu sína í eiginhagsmunaskyni á kostnað almennings? Og má þá ekki einu gilda hvort það er gert í opinberu embætti eða annarri valdastöðu? Breytir það einhverju hvort brotið er framið í efnahagslegum eða kynferðislegum tilgangi?

Hvernig eigum við að bregðast við dónaköllunum og spilltu embættismönnunum sem annað hvort neita allri sök eða krefjast bara umbúðalaust fyrirgefningar, eins og hún sé eitthvað sem þeir eigi heimtingu á án þess að hafa nokkuð til hennar unnið?

Hvað hefði Jesús gert?

Það sem Jesús gæti hafa gert

Þeirri spurningu get ég ekki svarað.

En get bent á að eitt af því sem hann gæti hafa gert er að gera sér svipu úr köðlum, velta um borðum þeirra og hrekja þá á flótta.

Jesús Kristur var nefnilega byltingarleiðtogi. Sú valdefling smælingjanna og miskunnarlaus gagnrýni hans á valdhafa, sem var leiðarstefið í boðskap hans, var ekkert annað en ófyrirleitin árás á ríkjandi viðhorf og valdastrúktúr samfélagsins sem hann starfaði í.

Og samfélagið sem við búum í virðist því miður vera þannig að enn er boðskapur Jesú árás á ómenningu sem manni sýnist vera rótgróin því og samofin.

Áleitnasta spurningin sem við ættum að spyrja okkur í dag, að mínu mati, varðar kannski einmitt byltinguna … byltinguna gegn valdleysinu, raddleysinu, undirokuninni, kúguninni og þögguninni, í hvaða nafni sem byltingin er gerð.

Og hún er þessi: Er ég vinur byltingarinnar … eða viðhlæjandi?

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju á nýársdag 2019

Read Full Post »

tungutalPistill: Þá er upp var runninn hvítasunnudagur voru allir saman komnir á einum stað. Varð þá skyndilega gnýr af himni, eins og óveður væri að skella á, og fyllti allt húsið þar sem þeir voru. Þeim birtust tungur, eins og af eldi væru, er kvísluðust og settust á hvert og eitt þeirra. Allir fylltust heilögum anda og tóku að tala öðrum tungum, eins og andinn gaf þeim að mæla. Í Jerúsalem dvöldust Gyðingar, guðræknir menn, frá öllum löndum undir himninum. Er þetta hljóð heyrðist kom allur hópurinn saman. Þeim brá mjög við því að hver og einn heyrði þá mæla á sína tungu. Menn voru frá sér af undrun og sögðu: „Eru þetta ekki allt Galíleumenn sem hér eru að tala? Hvernig má það vera að við, hvert og eitt, heyrum þá tala okkar eigið móðurmál? Við erum Partar, Medar og Elamítar, við erum frá Mesópótamíu, Júdeu, Kappadókíu, Pontus og Asíu, frá Frýgíu og Pamfýlíu, Egyptalandi og Líbýubyggðum við Kýrene og við sem hingað erum flutt frá Róm. Hér eru bæði Gyðingar og þeir sem tekið hafa trú Gyðinga, Kríteyingar og Arabar. Við heyrum þá tala á tungum okkar um stórmerki Guðs.“ (Post 2.1-11)

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Pistill dagsins í dag segir frá kraftaverki. Kraftaverki sem margir telja endurtaka sig aftur og aftur við kristnar trúarathafnir enn þann dag í dag: Tungutali.

Og nú er ég að tala um viðkvæmt mál sem skiptar skoðanir eru á.

Tungutal nú

Til eru söfnuðir sem líta á tungutal sem svo mikið grundvallaratriði að í raun sé ekki hægt að tala um að heilagur andi sé meðal annarra en þeirra sem fara í annarlegt ástand við tilbeiðsluna þannig að upp úr þeim velli merkingarlausar málhljóðarunur í belg og biðu. Menn í trúarmóki tala tungum. Svo einfalt er það.

Tungutal við trúarathafnir hefur verið rannsakað með vísindalegum hætti. Auðvitað ekki allt, fyrr mætti nú vera. En viðamiklar rannsóknir á upptökum af því sem fólk segir í þessu ástandi í hinum ýmsu söfnuðum hafa leitt í ljós að það er bull; merkingarlaust babl.

En þá er eðlilegt að spyrja: Til hvers?

Hvað er unnið með því? Hvaða gagn er Guðsríkinu gert með því? Hvernig miðar það að því að skila okkur til fyrirheitna landsins þar sem friður og jöfnuður ríkir?

Ég ætla ekki að fullyrða að við slíkar athafnir sé heilagur andi víðs fjarri. Um það get ég ekkert sagt. Ég leyfi mér hins vegar að halda því fram að slíkir atburðir út af fyrir sig flokkist ekki undir neins konar kraftaverk. Við vitum að sefjunarmáttur mannshugans er gríðarlegur og tungutal við trúarathafnir á sér sennilega frekar félagssálfræðilegar skýringar en guðdómlegar.

Að skilja söguna

Kraftaverk eru nefnilega alltaf kærleiksverk. Þau snúast aldrei um þann sem þau framkvæmir. Jesús mettar hungraða, læknar sjúka, líknar sorgmæddum. Babl í trúarmóki sem enginn skilur gerir ekkert af þessu.

Enda er sagan af undrinu á hvítasunnudag í öðrum kafla Postulasögunnar ekki af mönnum sem féllu í mók og böbluðu eitthvað bull. Hún er um menn sem raunverulega sögðu eitthvað á tungumálum sem þeir töluðu ekki sjálfir en þeir sem það gerðu skildu. Arameískumælandi Galíleumenn töluðu þannig að Partar, Medar, Elamítar, Mesapótamíumenn, Júdeumenn, Kappadókar, fólk frá Pontus-héraði við sunnanvert Svartahaf, fólk annars staðar frá þessu landsvæði sem í dag er kallað Litla-Asía en er bara kallað Asía í Nýja testamentinu, Frýgíumenn, Egyptar, Líbýumenn, Rómverjar, Kríteyingar og Arabar skildu það sem sagt var.

Um það er sagan. Um það að vera skilinn.

Tungutal þar sem enginn viðstaddra skilur orð af því sem sagt er á ekkert skylt við það sem þessi frásögn greinir frá.

Og kannski er það hið eilífa krafataverk: Að vera skilinn. Að ég skuli geta staðið hér og kreist loft upp úr mér og notað barkann, tunguna, varir og munn til að móta þannig bylgjur sem, þegar þær lenda á eyrum ykkar, geta teiknað myndir fyrir augum ykkar, plantað hugmyndum í hugskot ykkar, miðlað þekkingu, innsæi, lífsviðhorfum … vakið með ykkur sorg, gleði, fögnuð … eða reiði. Og ég get miðlað ykkur af líðan minni, reynslu minni, sögu minni, sorgum mínum og gleði … og reiði. Einhverju sem er mikilvægara fyrir persónulega sálarheill mína að aðrir skilji heldur en guðfræðilegar útleggingar mínar á orðum heilagrar ritningar, svo dæmi sé tekið.

Hvað er þetta annað en hugsanaflutningur sem jafnast á við trylltustu vísindaóra?

Enn stórkostlegra kraftaverk er kannski að fyrir tæpum tvöþúsundum árum skyldi óþekktur einstaklingur teikna nokkur strik með bleki unnu fyrst og fremst úr sóti og jurtaolíu á papýrusörk og skrásetja þannig frásögnina sem hér var lesin áðan … á öðru tungumáli í öðrum heimshluta á öðru tímaskeiði mannkynssögunnar … og við skildum hana.

Hún er ekki um að falla í trans og babla.

Hún er um það að skiljast.

Þrívíð frásögn

Kraftaverkafrásagnir hafa alltaf þrjár víddir. Sú bókstaflega er augljósust: Menn tala tungumál sem þeir kunna ekki en þeir sem það gera skilja þá. Það á ekki að vera hægt. Af því leiðir að þetta verður að kalla kraftaverk. Punktur.

Næsta vídd er hin táknræna. Þar skulum við staldra við og spyrja: Hvar er kærleiksverkið í þessu kraftaverki? Hér er ekki greint frá því að nokkur maður hafi mettast eða læknast eða huggast. Aðeins að þessi allra þjóða kvikindi sem þarna voru saman komin til að fagna Hvítasunnuni, gyðinglegri hveitiuppskeruhátíð, Shavóþ, sem á þessum tíma var orðin tileinkuð þeim atburði þegar Móses tók við lögmálinu á Sínaífjalli og markar þannig eiginlega upphaf gyðingdómsins … eins konar afmæli gyðingdómsins … hafi heyrt þessa Galíleumenn tala á sínum eigin tungum – um stórmerki Guðs.

Hvað þeir sögðu nákvæmlega fylgir ekki sögunni. Enda er hún ekki um það hvað þeir sögðu. Hún er um að það að fá að heyra um stórmerki Guðs á sínu eigin móðurmáli sé dýrmætt … lífsbætandi. Þannig er Guð kominn nær þér, hann er kominn til þín. Þú þarft ekki að hafa vald á einhverju helgimáli eða framandi tungu til að tala við Guð. Hann skilur tungumálið sem þú hugsar á. Tungumálið sem þú lærðir að tjá þig á.

Hann skilur þig.

Móðurmálið mitt

Þriðja víddin er síðan hin trúarlega. Þá spyrjum við: Hvað kemur þetta mér við? Hvaða erindi á þessi saga við mig í dag?

Biblían hefur verið til á móðurmáli mínu síðan á sextándu öld og verið þýdd og endurþýdd alloft síðan þá, nú síðast fyrir aðeins ellefu árum.

En skil ég hana?

Hvað er náð? Hvað er friður? Hvað er hjálpræði?

Hvað þýðir það vera í skugga einhvers? Þýðir það ekki að einhver er að stela ljósinu frá manni? Enginn vill vera í skugganum af einhverjum öðrum. Enginn vill láta aðra varpa skugga á sig. Í Biblíunni þýðir það aftur á móti að njóta verndar einhvers fyrir steikjandi sólarhitanum sem mun meiri ógn stafar af þar sem sögusvið hennar er heldur en frosti og kulda. Þar táknar skugginn líkn forsælunnar. „Í skugga vængja þinna fagna ég,“ (Slm 63.8) segir í Davíðssálmum.

Ég nefni þetta sem dæmi, annars vegar um orð sem við notum lítið í daglegu tali og hins vegar um framandi orðanotkun. Það er nefnilega ekki nóg að skilja tungumálið. Það verður að skilja tungutakið líka. Hver hefur ekki rekist á fullkomlega óskiljanlegar setningar á íslensku sem út af fyrir sig er rétt, orð fyrir orð? Þetta er einkum algengt í ritmáli frá hinu opinbera.

Fæðing kirkjunnar

Shavóþ var eins konar afmælisdagur gyðingdómsins og hvítasunnan er afmælisdagur kirkjunnar. Stofnun hennar er miðuð við atburðinn sem frá greinir í upphafi annars kafla Postulasögunnar. Stofnun hennar er beinlínis miðuð við þann atburð þegar fólk af fjöldamörgum þjóðernum heyrði talað um stórmerki Guðs þannig að allir skildu.

Og skilaboðin til okkar eru að tala þannig að það skiljist. Að grafa ekki erindi okkar í skrúðyrðaþvælu eða helgimáli sem er framandlegt langflestum þeirra sem tala og hugsa á tungumálinu. Og þegar mikið liggur við að tala enga tæpitungu. Eða svo vísað sé í Rómverjabréfið, að tala þannig að flærðarleysi elsku okkar sé augljóst og andstyggð okkar á því sem vont er fari ekki á milli mála. (Róm 12.9)

Það er ekkert kristilegt við það að tipla á tánum í kringum málefni, sem skiptar skoðanir eru á, til að gæta þess að styggja engan. Jesús frá Nasaret var ekki negldur á kross af því að hann styggði engan, heldur af því að orð hans ógnuðu stöðu þeirra sem miskunnarlaust misbeittu valdi sínu til að kúga lýðinn í þágu eigin hagsmuna.

Og af hverju gerðu þau það?

Af því að fólkið skildi hann.

Það sem Jesús sagði ekki

Jesús sagði ekki: „Verknaðarskylda einstaklinga gagnvart öðrum aðilum skal vera í gagnkvæmu og samhangandi umönnunarsambandi við væntingar þeirra til hliðstæðrar aðhlynningarþjónustu téðra aðila við öndverðar kringumstæður.“

Þá hefði engin hætta stafað af honum.

Hann sagði: „Allt sem þið viljið að aðrir menn geri ykkur skuluð þið gera þeim.“ (Matt 7.12)

Hann sagði ekki: „Forsvarsaðilar lífsskoðanastofnana hafa í síauknum mæli þróað verkferla með þeim hætti að hinn fjárhagslegi ávinningur starfseminnar verkar tekjuaukandi fyrir umsjáraðila tilbeiðsluathafna á ársgrundvelli.“

Hann sagði: „Þið hafið gert hús föður míns að ræningjabæli.“ (Lúk 19.46)

Hann sakaði valdhafa ekki um að áhyggjuefni væri að greina mætti vaxandi tilhneigingu til þess að þess væri ekki gætt með nægilega skilvirkum og gegnsæum hætti að viðunandi og ásættanlegt samræmi væri á milli opinberra reglugerða og tilskipana um hvað teldist til saknæms athæfis almennra borgara annars vegar og hins vegar þeirra verkferla sem yfirumsjónaraðilar samfélagslegarar allsherjarreglu og styrkingar innviðanna færu eftir við úrvinnslu þeirra athafna sem væru á ábyrgð og valdsviði þeirra.

Hann gerði það ekki.

Hann kallaði þá hræsnara.

Og kirkja hans á að gera það líka.

Á afmælinu sínu minnir hún sig á að það er ekki hlutverk hennar að babla einhverja hátimbraða merkingarleysu sem ekki nokkur maður skilur. Hún á að segja frá stórmerkjum Guðs, að segja frá náðinni, hjálpræðinu og kærleikanum, flærðarleysi elsku sinnar og andstyggð sinni á því sem vont er … þannig að það skiljist.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju á hvítasunnudag, 20. 5. 2018

Read Full Post »

Guðspjall: Ég er góði hirðirinn. Góði hirðirinn leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina. Sá sem er leigður og hvorki er hirðir né á sauðina, hann flýr og yfirgefur sauðina þegar hann sér úlfinn koma og úlfurinn hremmir þá og tvístrar þeim. Enda gætir hann sauðanna aðeins fyrir borgun og er ekkert annt um þá. Ég er góði hirðirinn og þekki mína og mínir þekkja mig eins og faðirinn þekkir mig og ég þekki föðurinn. Ég legg líf mitt í sölurnar fyrir sauðina. Ég á líka aðra sauði sem eru ekki úr þessu sauðabyrgi. Þá ber mér einnig að leiða, þeir munu heyra raust mína. Og það verður ein hjörð, einn hirðir. (Jóh 10.11-16)

Bernhard_Plockhorst_-_Good_ShephardNáð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Í dag sjáum við eina þekktustu og um leið geðfelldustu myndina af Jesú Kristi. Myndina af góða hirðinum. Myndin var þekkt í trúararfi gyðinga, eins og við heyrðum af lexíunni úr Spádómsbók Esekíels, þar sem Guð líkir sér í orðum spámannsins við góðan hirði sem heldur hjörð sinni til beitar í góðu haglendi. Jesús heldur áfram með þetta myndmál, en gengur lengra. Hann bókstaflega leggur lífið í sölurnar fyrir sauði sína. Hann er ekki leigður til að gæta hjarðarinnar heldur erum við hans hjörð.

Köllun hirðisins

Almennt er talið að hirðarnir sem flýja og yfirgefa sauðina þegar hætta steðjar að, sem Jesús nefnir í þessari ræðu, tákni faríseana en kannski ekki síður falsspámennina sem vaðið höfðu uppi á landsvæðinu með ýmiss konar boðskap, en létu sig sumir hverjir hverfa þegar þeim var ekki lengur vært vegna ofsókna stjórnvalda. Jesús var ekki af því tagi. Hann gætti hjarðar sinnar uns það kostaði hann lífið.

Þannig getur Jesús verið okkur fyrirmynd um það hvað í hugrekki felst. Honum stóð til boða að láta sig hverfa og fara huldu höfði eftir að honum var ljóst hvert stefndi. Hann þekkti óttann. Í grasagarðinum áður en hann var handtekinn lá hann á bæn og bað Guð að taka frá sér kaleik þennan. (Lúk 22.42) En um leið var hann reiðubúinn til að drekka hann í botn ef til þess kæmi. Hann var ekki þræll ótta síns.

Við getum hugleitt um stund hvernig sagan hefði orðið öðruvísi ef Jesús hefði stungið af, flúið frá öllu saman til að bjarga lífi sínu. Óvíst er að Rómverjarnir hefðu haft uppi á honum. Þeir voru ekki betur að sér um útlit hans en svo að þeir þurftu að biðja Júdas að benda sér á hann. Honum hefði verið í lófa lagið að láta sig hverfa inn í fjöldann og sleppa tiltölulega óskaddaður frá ævintýrinu. Hann hefði síðar getað sagt barnabörnunum æsilegar sögur frá því þegar hann var spámaður í Jerúsalem og Rómverjarnir reyndu að góma hann og með hvaða klækjum og lymskubrögðum hann lék á þá.

Og þannig hefði hann ónýtt allt starf sitt. Allt sem hann starfaði og barðist fyrir hefði orðið einskis vert og við hefðum sennilega aldrei heyrt hans getið, ekki frekar en Þevdasar eða Júdasar frá Galíleu sem líklega voru einhverjir lukkuriddarar sem fóru mikinn áður en Jesús kom fram og við vitum aðeins að voru til vegna þess að þeir eru nefndir í ræðu Gamalíels fyrir æðstaráðinu í 5. kafla Postulasögunnar.

Við værum ekki hér ef ekki hefði verið fyrir hugrekki Jesú frá Nasaret að fylgja því, sem hann stóð fyrir, upp á krossinn.

Fyrir hvað stöndum við? Hverju erum við reiðubúin til að fórna fyrir það? Þegjum við ef við eigum á hættu að kalla yfir okkur óþægindi með því að segja það sem við vitum vera sannleikann? Ég er ekki að tala um krossfestingu, bara eitthvað eins og skítkast í athugasemdakerfum netmiðla, svívirðingar á facebook, óþægileg símtöl heim til manns frá fólki í lélegu jafnvægi. Í versta falli hættu á fjárhagstjóni eða jafnvel atvinnumissi.

Er það þess virði?

Hin sauðabyrgin

Jesús segir okkur líka í guðspjalli dagsins að hann eigi fleiri sauðabyrgi en þetta og að þar séu líka hans sauðir. Við gætum staldrað aðeins við hér og velt því fyrir okkur hvert okkar sauðabyrgi sé. Er það Laugarneskirkja og hin sauðabyrgin þá aðrar kirkjur? Er sauðabyrgið Þjóðkirkjan, jafnvel hin kristna kirkja eins og hún leggur sig og hin sauðabyrgin þeir sem ekki tilheyra henni? Er sauðabyrgið okkar kannski þessa eyja hér á mörkum hins byggilega heims?

Þekkjum við sauðina úr hinum sauðabyrgjunum frá úlfunum? Því við skulum ekkert ganga þess dulin að úlfarnir eru á meðal okkar, þeir sem það vakir fyrir að tvístra hjörðinni, spilla sannleikanum, skjóta okkur skelk í bringu. Þagga niður í okkur þegar sannleikurinn brennur á tungu okkar. Eða það sem er enn betra fyrir þá: Valda okkur svo miklum óþægindum þegar við segjum sannleikann að við þöggum niður í okkur sjálf af ótta við þá og vinnum þannig vinnuna þeirra fyrir þá: Að þagga niður í okkur.

Því þeir þurfa ekki stuðning okkar við að tvístra hjörðinni og snúa sannleikanum á hvolf. Þeim nægir þögn okkar.

Verkfæri sannleikans

Það getur verið erfitt að þekkja aðra sauði frá úlfum, einkum og sér í lagi úlfum sem eru í sauðagærum.

Til þess höfum við enga aðra aðferð en sannleikann; grundvallarsannindi kristinnar trúar. Leiðarljósið í siðferðilegri breytni sem Jesús skildi eftir handa okkur: Að elska Guð og náungann. Ekki bara náungann sem er okkur að skapi; náungann sem deilir með okkur uppruna og trúarbrögðum, stjórnmálaskoðunum og þar fram eftir götunum.

Að allt sem við viljum að aðrir menn geri okkur beri okkur að gera þeim. Ekki aðrir kristnir menn, aðrir hvítir menn, karlmenn eða kvenmenn, vinstri menn eða hægri menn. Nei, aðrir menn.

En kannski fyrst og fremst að það sem við gerum okkar minnstu bræðrum og systrum gerum við frelsara okkar. Okkar minnstu bræðrum og systrum; þeim sem veikasta stöðu hafa í samfélagi okkar, þeim sem ekki eru í neinni aðstöðu til að bera hönd fyrir höfuð sér. Þegar á þá er ráðist er það skylda kristins manns að koma þeim til varnar.

Spámaðurinn Jesaja brýnir okkur til að reka réttar munaðarleysingjans og verja mál ekkjunnar (Jes 1.17), sem er fólkið sem var í veikastri stöðu á hans dögum. Jesús segir sjálfur: „Útlendingur var ég og þér hýstuð mig.“ Og það eru einmitt útlendingar – flóttafólk og hælisleitendur – sem eru í veikastri stöðu á Íslandi í samtíma okkar.

Og ýlfrið berst okkur til eyrna um að við eigum ekki að taka við þessum landflótta heiðingjum, ekki að taka okkur miskunnsama Samverjann til eftirbreytni í siðferðilegum efnum, sem einmitt bjó um sár manns sem hann ekki deildi trúarbrögðum með og hjúkraði honum til heilsu. Og það þótt lokaorð þessarar dæmisögu Jesú séu beinlínis: „Far þú og gjör slíkt hið sama.“ (Lúk 10.37)

Aðferðafræði úlfsins

Hvernig er hægt að misskilja þetta? Hvernig er hægt að taka þetta og snúa þessu svona gjörsamlega á hvolf? Hvernig er hægt að skella svona fullkomlega skollaeyrum við sjálfu leiðarstefinu í öllu kristilegu hugarfari og breytni og telja sér samt trú um að maður sé kristin manneskja?

Alið er á tortryggni í garð þeirra sem við eigum að hlú að og hjúkra, hýsa og skýla, með því að spyrja hvað það kosti okkur. Rétt eins og ekki liggi fyrir sú borðleggjandi staðreynd að það kostar ekki krónu. Hver króna sem varið er í að veita fólki skjól og hæli á Íslandi og hjálpa því til að aðlagast íslensku samfélagi og verða hluti af því er fjárfesting í nýjum borgurum – nýjum, nýtum þjóðfélagsþegnum. Meðalflóttamaðurinn borgar þessa fjárhæð upp á örfáum árum með tekju- og neyslusköttum eftir að hann er orðinn virkur þátttakandi í íslensku samfélagi. Eftir það er hann farinn að skila hreinum hagnaði.

Þannig er flóttafólk í raun hagkvæmari borgarar en innfæddur Íslendingur sem kostaður er til manns úr sjóðum samneyslunnar fram á þrítugsaldur ef ekki lengur. Að ég tali nú ekki um ef hann ofaníkaupið kann einhverjar aðferðir til að láta samneysluna fjármagna stóran hluta af uppihaldi sínu og einkaneyslu … fram á sjötugsaldur.

Auðvitað er þetta samt ekki spurning um krónur og aura. Þetta er spurning um rétt og rangt. En jafnvel þeir sem ekki bera skynbragð á rétt og rangt heldur aðeins á krónur og aura ættu, ef þeir reikna dæmið, að komast að sömu niðurstöðu og hinir, sem einfaldlega trúa því að það sé skylda þeirra að koma kristilega fram við þá sem minnst mega sín, að skjóta skjólshúsi yfir þá sem hvergi eiga höfði að að halla, að bera hönd fyrir höfuð hinna varnarlausu, sem ekki geta gert það sjálfir, þegar að þeim er veist.

Á berangri

Við erum nefnilega ekki innilokuð í sauðabyrginu okkar, óhult og örugg. Við erum úti á akrinum og úlfarnir eru allt í kringum okkur. Þeir hættulegustu bregða yfir sig sauðagæru og blanda sér í hópinn til að geta hvíslað í eyru okkar að sauðirnir úr hinu sauðabyrginu séu úlfarnir sem okkur beri að óttast. Þetta eru þeir sem flagga kristnum gildum í málflutningi sem síðan er ekkert annað en gróf aðför að öllu sem talist getur kristilegt.

En góði hirðirinn er á meðal okkar. Hann er með okkur í orði sínu. Hann er með okkur í þeim grundvallarlífsgildum sem hann skildi eftir, sínum eilífa leiðarvísi inn í fyrirheitna landið þar sem réttlæti og friður ríkir; Guðsríkið mitt á meðal okkar.

En það krefst þess að við höfum hugrekki til að bjóða úlfunum byrginn. Að við linnum ekki andspyrnunni gegn skemmdarverkum þeirra á hinum kristna boðskap. Að við leynum ekki andúð okkar á því sem þeir hafa fram að færa. Að við ljáum ekki viðhorfum þeirra lögmæti með því að taka þau til greina sem umræðutæk.

Sumt á einfaldlega ekki að vera til umræðu.

Maður spyr ekki hvað það kosti að vera ekki illmenni. Maður spyr: „Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn og glata sálu sinni?“ (Matt 16.26)

Berserksgangur lyginnar

Stundum er sagt að lygin komist hálfa leið í kringum hnöttinn áður en sannleikurinn nær að reima á sig skóna. Og víst er margt til í því. Við sjáum lygina fara mikla sigurför um heiminn um þessar mundir og vaxa fiskur um hrygg í löndum sem við höfum til þessa talið byggð siðuðum þjóðum. Þjóðernishyggja með tilheyrandi útlendingahatri og ógnum við borgaraleg réttindi, einkum hinsegin fólks og kvenna, er í örum vexti víðast hvar. Líka hér á Íslandi.

Það eru ekki bara útlenskir stjórnmálamenn sem farnir eru að tjá sig með hætti sem sent hefði kalt vatn á milli skinns og hörunds á öllu siðferðilega heilbrigðu fólki hefðu þau fallið á árunum fyrst eftir seinni heimstyrjöldina þegar heimsbyggðin var enn lömuð af hryllingi yfir voðaverkum nasista. Íslenskir stjórnmálamenn eru í auknum mæli farnir að tjá sig á þeim nótum. Þjóðernisöfgaflokkar eru við völd og sitja í ríkisstjórnum í mörgum löndum sem við eigum í nánum samskiptum við.

Ætlum við að þegja? Ætlum við að sætta okkur við þetta? Eða ætlum við að brýna raustina og hrópa sannleikann fullum hálsi upp í brimgný hatursorðræðunnar?

Hvað ef það kostar okkur vinsældir? Virðingu? Vinnuna?

Hvað erum við reiðubúin til að leggja í sölurnar?

Er kannski skynsamlegra að gefa sig óttanum á vald? Að lúta í lægra haldi fyrir múgsefjuninni og spila með?

Eða ætlum við að hafa hugrekki til að segja sannleikann og búa hann í orð sem ná í gegn um ýlfrið?

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 15. apríl 2018

Read Full Post »

Older Posts »