Feeds:
Færslur
Athugasemdir

Archive for the ‘Prédikanir’ Category

Guðspjall: Og Jesús sagði við þá: „Nú á einhver yðar vin og fer til hans um miðnætti og segir við hann: Vinur, lánaðu mér þrjú brauð því að vinur minn er kominn til mín úr ferð og ég hef ekkert að bera á borð fyrir hann. Mundi hinn þá svara inni: Ger mér ekki ónæði. Það er búið að loka dyrum og börn mín og ég komin í rúmið. Ég get ekki farið á fætur að fá þér brauð? Ég segi yður, þótt hann fari ekki á fætur og fái honum brauð vegna vinfengis þeirra, þá fer hann samt fram úr sakir áleitni hans og fær honum eins mörg og hann þarf. Og ég segi yður: Biðjið og yður mun gefast, leitið og þér munuð finna, knýið á og fyrir yður mun upp lokið verða. Því að hver sá öðlast sem biður, sá finnur sem leitar og fyrir þeim sem á knýr mun upp lokið verða. Er nokkur sá faðir yðar á meðal sem gæfi barni sínu höggorm ef það biður um fisk eða sporðdreka ef það biður um egg? Fyrst þér, sem eruð vondir, hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðirinn himneski gefa þeim heilagan anda sem biðja hann.“ (Lúk 11.5-13)

rocket1Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Fyrir nokkrum árum skrifaði Illugi Jökulsson mjög persónulega grein þar sem hann lýsir þeirri harmrænu stund í lífi sínu þegar hann sem barn gekk af trúnni. Hann var þá, eins og hann er enn, sérlegur áhugamaður um tækni og vísindi og fylgdist gagntekinn spennu með geimferð þar sem allt virtist vera að fara úrskeiðis og vísindamenn geimferðastofnunarinnar unnu dag og nótt að því að koma geimfaranum heilu og höldnu til jarðar. Drengurinn Illugi lagðist á bæn og bað til Guðs um hjálp til handa hetjunni sinni, geimfaranum hugdjarfa. En allt kom fyrir ekki. Geimferðin endaði með ósköpum og kostaði geimfarann lífið.

Þetta þótti Illuga vægast sagt léleg frammistaða hjá Guði. Sá guð sem trú hans beindist að hefði aldrei látið þetta gerast, þannig að fyrst þetta gerðist þá gat hann ekki verið til. Hans Guð hlustaði á einlægar og óeigingjarnar bænir eins og þessa og bænheyrði. Síðan hefur Illugi ekki trúað á neinn guð, eftir því sem ég best veit – en áratugur er liðinn síðan greinin birtist.

Hann á fullan rétt á því og ekki hvarflar að mér að setja siðferði hans eða manngildi í nokkurt samhengi við trúarafstöðu hans. Ég held að flestir hljóti að vera sammála um – eins iðinn og hann hefur verið við að tjá sig um allt milli himins og jarðar í gegn um tíðina – að þar fari ekki bara fjölfróður maður heldur líka hjartahlýr mannvinur, hvort sem menn síðan eru sammála honum um þjóðfélagsmál í einu og öllu eða ekki.

Og ég held líka að flestir geti sett sig í spor hins unga Illuga. Að leggja vonir sínar og óskir í barnslega einlægu trúartrausti í hendur elskandi Guðs í trausti þess að hann verði við óskunum og geri það sem um er beðið og svo vonbrigðin þegar það gerist ekki.

Að biðja Guð

bicycleSaga ein segir frá efnalitlum dreng sem á hverjum degi bað Guð að gefa sér reiðhjól. Aldrei fékk hann reiðhjólið svo hann var við það að ganga af trúnni, en gekk fyrst á fund prestsins síns til að bera fram kvörtun. Presturinn og drengurinn ræddu lengi vel saman um bænina og kvöddust síðan með hinum mestu virktum. Daginn eftir mætir presturinn drengnum á nýju hjóli. Hann spyr drenginn hvernig hann hafi farið að því að eignast hjólið og hann svaraði: „Eftir að þú útskýrðir fyrir mér hvernig bænin virkaði, að það þýddi ekkert að biðja Guð um hjól, þá fór ég og stal hjóli og bað í staðinn Guð um fyrirgefningu.“

Þetta er kallað „að syndga upp á náðina“ og þykir ekki eftirbreytniverð guðfræði. Að lifa á yfirdrættinum á himnum – að treysta honum alla leið og sjá aldrei ástæðu til að vera í plús hjá Guði.

Ekki ætla ég að líkja hinum unga Illuga við drenginn í brandaranum, enda sá fyrrnefndi greinilega mun þroskaðari siðferðisvera en sá síðari. En þeir eiga það sameiginlegt að hafa í bæn beðið Guð um að gera eitthvað fyrir sig án árangurs. Drengurinn í brandaranum tók málin í sínar eigin hendur – sem stóð Illuga ekki til boða.

En er það ekki það sem maður á að gera? Biðja Guð að gera hluti fyrir sig? Er það ekki það sem bænin gengur út á? Er bæn ekki beiðni eða bón … eru þetta ekki í flestu tilliti samheiti? Og trúum við ekki á bænheyrslu?

Í guðspjalli dagsins fullyrðir Jesús Kristur: „Biðjið og yður mun gefast.“ Og hann útskýrir það á þá leið að fyrst við gefum ekki börnum okkar höggorm ef þau biðja um fisk eða sporðdreka ef þau biðja um egg – hví skyldi faðir okkar á himnum þá ekki gefa okkur það sem við biðjum um?

Heimur bænheyrslunnar

Mikið væri nú heimurinn indæll staður ef maður gæti beðið Guð í barnslegri einlægni um hvað sem er og hann myndi hlýða. Þá færi aldrei neitt úrskeiðis og allir fengju allar óskir sínar uppfylltar. Öll íþróttafélög yrðu alltaf Íslandsmeistarar, sætasta stelpan í skólanum væri skotin í öllum strákunum, allir fengju alltaf sjálfkrafa hæstu einkunn á öllum prófum og því væri algjör óþarfi að læra fyrir þau og engin hætta væri á því að neinar ævintýraferðir eða geimleiðangrar færu úrskeiðis svo vísindamennirnir væru í raun óþarfir eða gætu alla vega kastað til höndunum við vinnu sína hvernig sem þeim sýndist því það væri aldrei neitt raunverulegt í húfi – Guð myndi alltaf redda þeim. Allar hljómsveitir yrðu vinsælar, allar kvikmyndir fengju Óskarsverðlaun þannig að óþarfi væri að vanda sérstaklega til verka.

Það væri með öðrum orðum ekkert afrek að verða Íslandsmeistari þannig að stuðningur okkar við liðið okkar væri óþarfur og í raun tilgangslaus. Sú staðreynd að geimferðir eru afrek – einmitt vegna þess að þær eru hættulegar og margt getur farið úrskeiðis – myndi heyra sögunni til. Reyndar myndu öll afrek mannsandans heyra sögunni til.

Þjáning og dauði væri ekki lengur til þannig að við þyrftum ekki að vera góð hvert við annað; ekkert hræðilegt gæti gerst. Og við hefðum alla eilífðina til að gera upp málin þannig að það væri óþarfi að vera „skjótur til sátta“ eins og Jesús hvetur okkur til að vera í Fjallræðunni. Og minnstu bræður og systur Jesú Krists væru ekki á meðal okkar heldur eintóm stóru systkini því hver væri hjálpar þurfi eða upp á gæsku og náungakærleik kominn ef líf hans væri að öllu leyti nákvæmlega eins og hann óskar sér?

Kærleikurinn myndi sennilega heyra sögunni til.

Í öllum praktískum skilningi væri ekki lengur til einn almáttugur Guð heldur gengi um jörðina hálfur áttundi milljarður allmáttugra Guða með ólíkar langanir, markmið og þrár. Sjö og hálfur milljarður miseigingjarnra manna að segja Guði fyrir verkum.

Það segir sig sjálft að þetta gengur alls ekki upp. Þannig að við getum eins sleppt því að biðja til Guðs, er það ekki?

Eða hvað?

Kannski væri ekki úr vegi að heyra orð Jesú. Að lesa alla setninguna … að klára textann áður en við förum að álykta út frá hluta hans.

Hann segir nefnilega aldrei að Guð svari bænum okkar um fisk eða egg … eða sigur íþróttafélagsins okkar, ástir sætustu stelpurnnar, nýtt reiðhjól eða farsælan endi á háskaför sem á hug okkar allan.

Nei, það er annað sem Guð gefur okkur í bæninni.

„Fyrst þér, sem eruð vondir, hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðirinn himneski gefa þeim heilagan anda sem biðja hann,“ segir Jesús.

Heilagan anda.

Hvað er það?

Samfélag heilags anda

Þrenningarlærdómurinn þvælist fyrir mörgum, einn Guð í þremur persónum; föður, syni og heilögum anda. Samkvæmt kenningum kirkjunnar er þetta satt en samtímis óskiljanlegt, þannig að ef ég þættist skilja þetta og reyndi að útskýra það fyrir ykkur væri ég samkvæmt kenningunni sjálfri sjálfkrafa farinn að boða villutrú, hvað sem ég segði.

krossmarkEn þegar ég útskýri fyrir börnum að krossinn okkar teikni upp þrenninguna eins og ég skil hana, að ég bendi upp til himins þegar ég segi að við trúum á Guð á himni, að ég dreg línu niður til jarðarinnar þegar ég segi að við trúum á Guð á jörðu og að ég dreg lárétta línu frá manni til manns þegar ég segi að við trúum á Guð í hjörtum allra manna – og að við köllum Guð á himni „Guð föður“, Guð sem kom til jarðarinnar, Jesú Krist, „son“ og Guð í hjörtum allra manna „heilagan anda“ og að það sé allt einn og sami guðinn sem sé kærleikur – þá finnst þeim það ekkert mjög ruglingslegt. Það síðar á lífsleiðinni sem þetta fer að standa í okkur.

Guð í hjörtum allra manna. Heilagur andi.

Í síðustu viku lásum við fallegan texta úr Fyrra Jóhannesarbréfi þar sem segir einfaldlega „Guð er kærleikur“ og haldið er áfram og fullyrt að ef við elskum hvert annað þá sé Guð í okkur og við í Guði.

Guð í okkur. Heilagur andi.

Okkur stendur til boða að vera samfélag heilags anda. Að vera kærleikssamfélag.

Hvernig getum við hafnað því tilboði? Hvernig getum við ekki borið okkur eftir þeirri gjöf?

Í kærleikssamfélaginu rætast ekki allar óskir. Við verðum fyrir harmi og áföllum. En þegar það gerist njótum við ástar og umhyggju náungans sem leitast við að elska Guð og náungann minnugur þess að það sem við gerum okkar minnstu bræðrum og systrum gerum við Jesú Kristi. Þar gerum við slíkt hið sama, komum fram við aðra eins og við viljum að komið sé fram við okkur.

Og það eina sem við þurfum að gera er að vilja það … og biðja um það.

Kannski hef ég ekki sagt neitt í þessari prédikun sem Steingrímur Thorsteinsson sagði ekki betur þegar hann orti:

Trúðu á tvennt í heimi.

Tign sem æðsta ber.

Guð í alheims geimi.

Guð í sjálfum þér.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er enn og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 21. maí 2017

Read Full Post »

heart-shaped-cloud-formation-detlev-van-ravenswaayPistill: Þetta er kærleikurinn: Ekki að við elskuðum Guð heldur að hann elskaði okkur og sendi son sinn til að vera friðþæging fyrir syndir okkar. Þið elskuðu, fyrst Guð hefur elskað okkur svo mikið þá ber okkur einnig að elska hvert annað. Enginn hefur nokkurn tíma séð Guð. Ef við elskum hvert annað þá er Guð í okkur og kærleikur hans er fullkomnaður í okkur. Guð hefur gefið okkur anda sinn og þannig vitum við að við erum í honum og hann í okkur. Við höfum séð og vitnum að faðirinn hefur sent soninn til að vera frelsari heimsins. Hver sem játar að Jesús sé sonur Guðs, í honum er Guð stöðugur og hann í Guði. Við þekkjum kærleikann, sem Guð hefur á okkur, og trúum á hann. Guð er kærleikur og sá sem er stöðugur í kærleikanum er stöðugur í Guði og Guð er stöðugur í honum. (1Jóh 4.10-16)

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni, Jesú Kristi. Amen.

Sagan segir að á sínum tíma hafi Guðleysisráð Sovétríkjanna sálugu komið saman til fundar. Fundarmönnum var mikið niðri fyrir og raunar í öngum sínum, því aðgerðir þeirra voru ekki að skila þeim árangri sem vænst var. Hvernig sem þeir reyndu að berja niður kristindóminn þá virtist það ekki hafa nein áhrif. Prestar höfðu verið fangelsaðir og sendir í gúlagið og kirkjur teknar herskildi og breytt í kartöflugeymslur, en allt kom fyrir ekki. Fólk hélt áfram að trúa, hélt áfram að biðja, hélt áfram að koma saman í Jesú nafni í tilbeiðslu og bænagjörð. Hvað áttu þeir til bragðs að taka? Hvað var eiginlega til ráða? – Niðurstaðan var sú að sennilega væri skynsamlegast að senda menn til Svíþjóðar … til að komast að því hvernig þeir fóru að þessu.

Sagan er ábyggilega haugalygi, en það skiptir ekki máli … sannleikurinn í henni er djúpur og mikill fyrir því.

Þörfin fyrir Guð

Það er kannski engin tilviljun að í velferðar- og velmegunarsamfélögum virðist almenn trúariðkun einna helst eiga undir högg að sækja. Kirkjum á slíkum stöðum hættir til að verða latar og værukærar. Eldmóðurinn sem þarf til að halda lífi í voninni um bætt og betra hlutskipti – um Guðs ríki mitt á meðal okkar – nærist á þörfinni fyrir bætt og betra hlutskipti. Þar sem sú þörf er ekki mikil, þar sem allur þorri almennings býr ekki við fátækt og kúgun, virðist vera minni þörf fyrir Guð. Þar sem vonin er alltaf handan við hornið, þar sem bágt ástand er tímabundið og hægt að vinna sig út úr því, þar sem stjórnvöld leggja ekki allt kapp á að viðhalda vonleysi og draga kjark úr fólki til að verja völd sín, þar sem þú getur brett upp ermar og reddað þér eða í versta falli fengið þá félagslegu aðstoð sem þú átt rétt á til að bjarga þér … til hvers að biðja Guð um hjálp? Þar sem þú ert sjálfur við stjórnvölinn á lífi þínu og allt gengur bærilega … til hvers að lúta handleiðslu æðri máttar?

En jafnvel þar … stendur manneskjan með reglulegu millibili frammi fyrir vanmætti sínum.

Í slíkum samfélögum missir fólk líka tökin á lífi sínu, hvort sem það er í víti fíknar eða annarra sjúkdóma eða bara í sjálfselsku, eigingirni og tillitsleysi sem smám saman rústar ekki bara virðingu annarra fyrir þeim heldur þeirra eigin sjálfsvirðingu. Í slíkum samfélögum eru einstaklingar sem horfa í spegilinn á laugardags- eða sunnudagsmorgni og sjá manneskju sem þeir fyrirlíta, manneskju sem er einmitt ekki persónan sem þeir ætluðu að verða.

Í slíkum samfélögum er kannski minni þörf til að biðja: „Til komi þitt ríki – þar sem réttlæti og jöfnuður ríkir.“ En þar er alveg jafnmikil þörf til að biðja: „Verði þinn vilji – ekki minn sem leitt hefur mig á algjörar villigötur í lífi mínu.“

Ranglæti heimsins

En svo er til ranglæti sem ekki er af manna völdum og það fer ekki í manngreinarálit. Því er sama hvort þú býrð í Svíþjóð eða Sómalíu, í Súdan eða Grímsnesinu.

stephen fryUm þessar mundir gengur mikill reiðilestur breska leikarans og sjónvarpsmannsins Stephens Frys ljósum logum á samfélagsmiðlum. Aðspurður um hvað hann myndi segja við Guð ef hann hitti hann svarar Fry:

„Beinkrabbamein í börnum, hvernig stendur á því? Hvernig vogarðu þér? Hvernig vogarðu þér að skapa heim þar sem svona mikið er um eymd sem er ekki okkar sök? Það er ranglátt og illgjarnt. Hvernig get ég borið virðingu fyrir kenjóttum, meinfýsnum og heimskum Guði sem skapar veröld sem er full af ranglæti og þjáningu?“

Þessi orð féllu í sjónvarpsviðtali fyrir tveim árum og vöktu athygli. Athyglin sem þau vöktu komu Fry á óvart að hans eigin sögn. Hann sagðist aðeins hafa verið að enduróma orð heimspekingsins Bertrands Russells og annarra sem sagt hafa hið sama allt aftur til daga Forngrikkja.

Það er rétt hjá Stephen Fry að hann var aðeins að bergmála hugsanir þessara manna. Reyndar má bæta því við að hann var líka að bergmála hugsanir höfunda Jobsbókar og allmargra Davíðssálma. Hann var að færa í orð hugsanir flestra sæmilegra skynsamra, hugsandi manna, trúaðra sem trúlausra, frá upphafi tíma.

Það þarf ekki að breyta inntakinu í orðum Stephens Frys til að fullyrða að hann hafi verið að vitna í heilaga ritningu:

„Saklausum og óguðlegum tortímir hann. Þegar svipan deyðir óvænt hæðir hann angist hinna saklausu. Falli land guðlausum í greipar byrgir hann augu dómaranna. Ef ekki hann, hver þá?“ (Job 9.22b-24)

segir Job um Guð. Við Guð segir hann:

„Er það þér ávinningur að beita ofbeldi, að hafna verki handa þinna og láta ljós skína yfir ráðabrugg guðlausra?“ (Job 10.3)

Það er nefnilega furðu lífsseigur misskilningur, ekki síst meðal harðkjarna trúleysingja, að efinn og trúin eigi enga samleið, að trúað fólk þekki ekki efann, að til að trúa verði að fórna gagnrýnni, sjálfstæðri hugsun og elta bókstafinn í blindni. En það er ekki þannig.

Glíman við efann er hluti af trúarþroska og trúarreynslu hvers manns – eins og fjölmargir textar Biblíunnar eru svo glöggt dæmi um.

Fáar bænir eru eins einlægar og steyttur hnefi til himins.

Viðbragðið

En hvernig eigum við að bregðast við þessu? Hvernig getum við trúað á Guð sem lætur börn fá krabbamein? Hvernig getum við trúað á Guð sem ryður snjóflóðum yfir þorp? Guð sem veldur hungursneyðum með þurrkum eða flóðum?

Við getum sagt sem svo – og það hefur verið sagt – að vegir Guðs séu órannsakanlegir, ranglætið sé hluti af ráðsályktun Guðs, þetta sé allt partur af stóra planinu sem okkur er ekki ætlað að skilja, það sé tilgangur með þjáningunni sem okkur er hulinn. Auk þess þá sé þjáningin afstæð sem hluti af hinni veraldlegu vídd tilverunnar en ekki þeirrar andlegu.

Þetta eru að mínum dómi ódýr og ófullnægjandi svör. Fyrir hinum þjáða er ekkert afstætt við þjáninguna. Og leiðtogi lífsins, Jesús Kristur, mætti þjáningunni aldrei með útskýringum eða réttlætingum – hvað þá aðdáun – heldur ávallt með huggun og líkn.

„Guð er kærleikur,“ segir í pistli dagsins. Og ekki bara það. Það er gengið lengra og fullyrt: „Ef við elskum hvert annað þá er Guð í okkur og kærleikur hans er fullkomnaður í okkur. … við erum í honum og hann í okkur.“

Heimurinn er óréttlátur. Það fer ekki á milli mála. Snjóflóð falla á þorp. Börn deyja úr sjúkdómum. Hungursneyðir geysa. Hvernig eigum við að bregðast við því?

Ég sé aðeins tvennt í stöðunni.

Annað er að setja undir sig hausinn og böðlast í gegn um þetta líf á hörkunni. Vona það besta, gefa ekki óþarfa höggstað á sér og passa sjálfan sig númer eitt, tvö og þrjú. En það er engin trygging fyrir því að maður verði ekki fyrir barðinu á ranglæti heimsins. Það minnkar kannski líkurnar á því eitthvað smávegis, en það auðveldar manni ekki að takast á við það þegar á reynir … reyndar er sennilegra að það geri manni það erfiðara.

Hitt viðbragðið er kærleikurinn. Guð. Að leitast við að fylgja Jesú Kristi og lifa samkvæmt orðum hans í guðspjalli dagsins: „Þetta býð ég yður, að þér elskið hvert annað.“ (Jóh 15.17) Að vera í Guði og hafa Guð í sér. Að muna að við erum öll í þessu saman, að passa hvert annað, bera hvert annars byrðar.

Það er jafnsennilegt að sorg og neyð vitji manns, en þegar það gerist er maður ekki einn. Maður hefur öxl að gráta á, faðm að falla í. Stuðning við að rísa á fætur á nýjan leik og halda áfram. Leiðsögn í gegn um þjáninguna.

Í ranglátum heimi er kærleikurinn nauðsynlegur. Segja má að það sé beinlínis þjáningin sem gerir Guð ómissandi.

Rétta spurningin

Jesús segir okkur aldrei af hverju heimurinn er ranglátur. Og þegar hann er spurður að því svarar hann ekki. Í níunda kafla Jóhannesarguðspjalls mætir Jesús manni sem hafði verið blindur frá fæðingu. Þar segir:

„Lærisveinar hans spurðu hann: „Rabbí, hvort hefur þessi maður syndgað eða foreldrar hans fyrst hann fæddist blindur?“ Jesús svaraði: „Hvorki er það af því að hann hafi syndgað eða foreldrar hans heldur til þess að verk Guðs verði opinber á honum.“ (Jóh 9.2-3)

Með öðrum orðum: Spurningin er röng. Ekki spyrja af hverju heimurinn er ranglátur. Við því getum við ekkert gert. Spurðu frekar: Hvers krefst sú staðreynd, að heimurinn er ranglátur, af mér sem manneskju?

Og þeirri spurningu svarar hann fyrir okkur:

Það krefst kærleika.

Það krefst Guðs í þér.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 14. maí 2017

Read Full Post »


Guðspjall:
Að liðnum hvíldardegi, þegar lýsti af fyrsta degi vikunnar, komu þær María Magdalena og María hin til að líta á gröfina. Þá varð landskjálfti mikill því engill Drottins sté niður af himni, kom og velti steininum og settist á hann. Hann var sem elding ásýndum og klæðin hvít sem snjór. Varðmennirnir skulfu af hræðslu við hann og urðu sem örendir. En engillinn mælti við konurnar: „Þið skuluð eigi óttast. Ég veit að þið leitið að Jesú hinum krossfesta. Hann er ekki hér. Hann er upp risinn, eins og hann sagði. Komið og sjáið staðinn þar sem hann lá. Farið í skyndi og segið lærisveinum hans: Hann er upp risinn frá dauðum, hann fer á undan ykkur til Galíleu. Þar munuð þið sjá hann. Þetta hef ég sagt ykkur.“ Og þær fóru í skyndi frá gröfinni, með ótta og mikilli gleði, og hlupu að flytja lærisveinum hans boðin. (Matt 28.1-8)
 

messa 2. okt 2016 þrengriNáð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Hér fyrir aftan mig hangir stór kross. Hann er tákn kristninnar, tákn kristinna manna. Við merkjum kirkjurnar okkar með krossum, við signum okkur og hvert annað með krossi, við göngum jafnvel með kross í keðju um hálsinn og að leiðarlokum setjum við kross á leiði okkar.

Hvað táknar þetta?

Morðtólið

Krossinn var skelfilegt aftökutæki til forna og ég hef verið spurður: „Ef hann hefði verið hengdur, væruð þið þá með gálga?“ Spurningin er ófyrirleitin, jafnvel meiðandi, en hún er ekki út í hött. Það er eðlilegt að velta því fyrir sér hvað það eigi að þýða að söfnuður miskunnsams Guðs og kærleiksríks frelsara – söfnuður sem í orði kveðnu að minnsta kosti hefur náungakærleik að leiðarljósi; gullnu regluna að koma fram við aðra eins og maður vill að komið sé fram við sig – söfnuður sem trúir því að það sem við gerum einum okkar minnstu bræðra gerum við frelsara okkar, skuli gera morðtólið sem notað var til að svipta hann lífi á þann kvalfyllsta og mest niðurlægjandi hátt, sem rómverska heimsveldið gat látið sér til hugar koma, að tákni sínu.

Hvað táknar krossinn fyrir þér?

Fyrir fólkið sem var á Golgatahæðinni á föstudaginn langa, fylgjendur Krists sem sáu lífið murkað úr leiðtoga sínum, táknaði hann algjört afhroð. Allt sem þau höfðu barist fyrir, allt sem þau höfðu unnið að var glatað. Guðsríkið var fyrir bí. Draumar þeirra um betra samfélag og mannlega reisn höfðu verið barðir niður af miskunnarlausri ógnarstjórn. Það var ekki bara leiðtogi þeirra sem hafði verið drepinn. Vonin í hjörtum þeirra var drepin.

Róðukrossinn

róðukrossVið minnum okkur sjálf á þennan atburð, ekki bara með helgihaldi og ýmiss konar samkomum á föstudaginn langa. Við minnum okkur á hann með krossi; róðukrossi – krossi með mynd hins myrta og svívirta frelsara okkar á.

Sá kross minnir okkur líka á kærleika Krists og á hina algjöru fórn hans. „Enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína,“ (Jóh 15.13) segir í Jóhannesarguðspjalli. Jesús hefði getað flúið af hólmi og farið huldu höfði þegar honum var ljóst hvað beið hans og þar með ónýtt allt sem hann hafði unnið að, gert alla boðun sína og starf að engu. En hann gerði það ekki. Hann gekk í dauðann fyrir sannleikann, fyrir okkur – þig og mig.

En krossinn hér á bak við mig er ekki sá kross.

Pyntaður og limlestur líkami Krists hangir ekki á þessum krossi. Hann er auður.

Af hverju?

Af því að hann er þar ekki lengur. Hann er upp risinn.

Hinn krossinn

Þetta er ekki kross föstudagsins langa. Þetta er kross páskadagsmorgunsins.

Við horfum ekki á þennan kross í skugga örvæntingar og vonleysis föstudagsins langa. Við horfum á þennan kross út um munnann á hinni tómu gröf í hinni rísandi sól páskadagsmorgunsins.

Hann er upp risinn.

Og þá táknar krossinn ekki lengur vonleysi baráttunnar fyrir betri heimi. Hann er ekki lengur tákn um grimmd og miskunnarleysi valda- og vænisjúks heimsveldis sem engu eirir til að viðhalda sjálfu sér og veldi sínu, fyrirlítur og forsmáir mannslíf í þágu auðs og valda. Hann táknar ekki lengur afhroð sannleikans fyrir lyginni og kærleikans fyrir illskunni.

Þvert á móti.

Hinn auði kross páskadagsmorgunsins sýnir okkur máttleysi hins illa. Magnleysi myrkursins gagnvart ljósinu. Hann táknar sigur kærleikans – ekki afhroð hans.

Þeir héldu að þeir gætu krossfest frelsara okkar, myrt kærleikann, drepið vonina í hjörtum okkar. En þeir höfðu rangt fyrir sér. Kærleikurinn lætur ekki drepa sig. Hann rís alltaf upp aftur. Og fyrir vikið er vonin í hjörtum okkar ódrepandi. Öll þeirra grimmúðlegu morðtól og pyntingatæki mega sín einskis gagnvart trúnni, voninni og kærleikanum í brjóstum okkar.

Kross fagnaðarerindisins

Guðspjall dagsins segir frá tveimur konum sem daginn eftir hina miklu páskahátíð gyðinga, snemma að morgni fyrsta dags vikunnar, fara að líta á gröf Jesú. Matteus segir ekki að erindi þeirra þangað hafi verið annað en að líta á gröfina, en bæði Markús og Lúkas segja að þær hafi ætlað að smyrja líkið. Veita frelsaranum síðustu þjónustuna sem hann þyrfti í þessari jarðvist. „Þá varð landskjálfti mikill því engill Drottins sté niður af himni, kom og velti steininum og settist á hann. Hann var sem elding ásýndum og klæðin hvít sem snjór.“ Matteus heldur áfram: „Varðmennirnir skulfu af hræðslu við hann og urðu sem örendir.“ Skyldi engan undra. En engillinn tekur til máls og ávarpar konurnar. Og hvað segir hann við þær?

„Þið skuluð eigi óttast,“ segir hann.

Á þessum orðum hefst boðskapur Guðs til manna á páskadagsmorgni. „Þið skuluð eigi óttast.“

Þessi orð hafði Guð áður sent mönnum með munni engla sinna. „Verið óhræddir.“ Þá fylgdi þeim orðum ekki sú yfirlýsing að frelsarinn væri upp risinn heldur að hann væri fæddur. Og í bæði skiptin voru það hinir lægst settu í samfélaginu, fjárhirðar og konur, sem fengu skilaboðin.

Inn í þessi skilaboð Guðs til manna er jarðneskt líf Jesú Krists rammað. „Verið óhræddir. Ykkur er frelsari fæddur.“ „Þið skuluð eigi óttast. Hann er upp risinn.“

Þetta er sannkallað fagnaðar-erindi.

Kross kærleikans

empty crossÞað er nóg að óttast. Heimurinn býr yfir mörgu slæmu og hættulegu sem fyllt getur hvern mann skelfingu. Og leiðtogar okkar og fyrirmenni sjá sér mörg hag í því að ala á þessum ótta. „Óttist, óttist!“ segja þeir. „Óttist útlendinga! Óttist hryðjuverk! Óttist þá sem eru ólíkir ykkur og framandi! Óttist náungann!“

En Guð segir annað.

„Þið skuluð elska aðkomumanninn því að þið voruð sjálfir aðkomumenn í Egyptalandi,“ (5Mós 10.19) segir hann. Og í fjallræðunni segir Jesús: „Slái einhver þig á hægri kinn þá bjóð honum einnig hina,“ (Matt 5.39) Á öðrum stað segir hann síðan: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“

Í Guðsríkinu er ekkert pláss fyrir ótta – aðeins kærleika.

Það er erfitt að vera óttalaus. Það er til mikils mælst. Þetta eru engin smávegis fyrirmæli. „Óttist ekki!“ Hvernig á nokkur maður að geta orðið við þessu?

Ég held að Guð fyrirgefi okkur óttann. Og við getum leyft okkur að vera óttalaus því Guð hefur gefið okkur það sem við þurfum til að sigrast á óttanum, til að láta hann ekki ráða ferðinni heldur andstæðu hans: Kærleikann.

Og það sem við þurfum til þess er hinn auði kross páskadagsmorgunsins.

Krossinn sem sýnir okkur afhroð myrkursins fyrir ljósinu. Krossinn sem glæðir vonina í hjörtum okkar lífi, krossinn sem segir okkur að kærleikurinn er ódrepandi.

Misþyrmt og limlest lík frelsara okkar hangir ekki lengur á þeim krossi.

Hann er þar ekki lengur.

Hann er upp risinn.

Kristur er sannarlega upp risinn.

Gleðilega páska!

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er enn og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt við hátíðarmessu í Laugarneskirkju á páskadagsmorgni 16. apríl 2017

Read Full Post »

fótþvotturGuðspjall: Kvöldmáltíð stóð yfir. Djöfullinn hafði þegar blásið því í brjóst Júdasi, syni Símonar Ískaríots, að svíkja Jesú. Jesús vissi að faðirinn hafði lagt allt í hendur honum, að hann var frá Guði kominn og var að fara aftur til Guðs. Hann stóð upp frá máltíðinni, lagði af sér yfirhöfnina, tók líndúk og batt um sig. Síðan hellti hann vatni í mundlaug og tók að þvo fætur lærisveinanna og þerra með líndúknum sem hann hafði um sig. Hann kemur þá að Símoni Pétri sem segir við hann: „Drottinn, ætlar þú að þvo mér um fæturna?“ Jesús svaraði: „Nú skilur þú ekki hvað ég er að gera en seinna muntu skilja það.“Pétur segir við hann: „Aldrei að eilífu skaltu þvo fætur mína.“ Jesús svaraði: „Ef ég þvæ þér ekki áttu enga samleið með mér.“ (Jóh 13.2-8)

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Í dag er skírdagur. Þetta er skrýtið orð: Skír-dagur. Það þýðir ekki að þessi dagur sé skýrari en aðrir dagar, enda ekki með ufsiloni. Það þýðir ekki heldur að hann sé betur til þess fallinn að skíra börn en aðrir dagar – þótt auðvitað sé það ekki verra. Heiti dagsins er reyndar dregið af sögninni „að skíra“ sem merkir „að hreinsa“ og við notum enn um það að taka börn inn í samfélag heilagra. Á skírdag þvoði Jesús fætur lærisveina sína eftir síðustu kvöldmáltíðina. Þessa atburðar minnumst við í dag. Þess táknræna, óeigingjarna kærleiksverks.

Ekkert já eða amen

Þegar ég skíri börn nefni ég það gjarnan að ungbarnaskírnir hafa sætt gagnrýni og til eru söfnuðir sem ekki skíra hvítvoðunga heldur aðeins einstaklinga sem hafa þroska til að taka þá ákvörðun sjálfir og að eigin ósk að láta skírast. Enda var Jesús sjálfur um þrítugt þegar Jóhannes skírari skírði hann í ánni Jórdan.

Þennan sið að skíra ung börn má rekja til þeirrar trúar að í skírninni öðlumst við vernd hins heilaga samfélags sem við erum tekin inn í; að við skírnina taki Guð okkur inn í ríki síns elskaða sonar þar sem er fyrirgefning syndanna, líf og sáluhjálp – svo vitnað sé í handbók Þjóðkirkjunnar. Það er hlutskipti sem allir kristnir foreldrar óska barninu sínu strax í frumbernsku þess.

Ef grannt er skoðað er ljóst að við skírnina segja hvítvoðungarnir hvorki „já“ eða „amen“ við neinu sem fram fer. Þeir eru aðeins komnir til að þiggja. Þiggja skilyrðislausan kærleika Guðs, borin að skírnarfontinum í kærleiksörmum foreldra eða nákomins ættingja sem sjálfur var á sínum tima borinn að honum í kærleiksörmum ástvinar og þannig koll af kolli aftur í aldir. Og allt í kærleiksfaðmi föðurins á himnum.

Skuldbindingin er foreldranna, ekki barnsins. Það eru þau sem í skírninni skuldbinda sig til að ala barnið sitt upp sem kristna manneskju. Og sú ákvörðun er mikilvæg. Og foreldrar hafa rétt til að taka hana. Þeir taka hana ekki fyrir hönd barnsins síns, þau taka hana fyrir sig sjálf – hún varðar þau sem foreldra. Ekkert foreldri kemst hjá því að taka afstöðu til þess hvernig það ætlar að ala barnið sitt upp, hvernig það ætlar að tala við það, hvaða lífsgildi það ætlar innræta því.

Barnið er bara að þiggja.

Þiggjendurnir

Og það er það sem við gerum á skírdag. Við þiggjum.

Allir ritningarlestrar dagsins fjalla um okkur sem þiggjendur. „Hvað á ég að gjalda Drottni fyrir allar velgjörðir hans við mig?“ (Slm 116.12) spyr sálmaskáldið í lexíunni. Og í pistlinum fjallar postulinn Páll um mikilvægi þess að við áttum okkur á því hvað við erum að þiggja þegar við neytum altarissakramentisins. Og guðspjallið útskýrir það fyrir okkur.

„Ef ég þvæ þér ekki áttu enga samleið með mér,“ segir Jesús við Pétur. Ef þú ert ekki reiðubúinn til að þiggja kærleiksþjónstu mína ertu ekki reiðubúinn til að fylgja mér.

Við kristnar manneskjur eigum ekki bara að auðsýna kærleika. Við eigum líka að þiggja hann.

Það er auðvelt að týna sér í að gefa og gefa. Að láta miskunnarlausa skyldurækni éta sig lifandi. Við þekkjum sennilega flest dæmi af einstaklingum sem allt sitt líf hugsðuðu um aðra, önnuðust fólkið sitt, héldu heimilinu gangandi og aldrei þurfti að gera neitt fyrir. En svo færðist aldurinn yfir og þau urðu upp á aðra komin, þurftu á aðstoð og umönnun annarra að halda og þá kom í ljós að þau höfðu glatað hæfileikanum til að þiggja. Þau urðu eirðarlaus og fylltust vanlíðan. Þau kunnu þetta ekki. Þau réðu ekki við að vera í þeirri aðstöðu að vera sá sem þiggur.

Þetta er í raun eigingjörn afstaða. Með því að þiggja ekki þjónustu, kærleika annarra erum við í raun að halda þeim frá okkur; að  taka ekki við þeim. Við erum að einangra okkur. Það er ákveðið öryggi í því að þurfa ekki á öðrum að halda heldur vera sá sem hinir þurfa á að halda. En kærleikssamfélag er ekki í því fólgið að einangra sig frá öðrum, heldur í því að gefa og þiggja. Í kærleikssamffélaginu þjónum við hvert öðru í kærleika. Það er ekki kærleikssamfélag þar sem sumir eru sífellt að þjóna hinum.

Það er auðvelt að detta í þá gryfju að halda að það sé eitthvað göfugt að ofurselja sig þjónustu við aðra og þiggja aldrei neitt sjálfur. Það er jafnvel freistandi að fyllast siðferðilegu yfirlæti yfir slíku og fá fró út úr því hvað maður er mikill píslarvottur og fórnarlamb: „Alltaf geri ég allt fyrir aðra og aldrei gerir neinn neitt fyrir mig.“ En kannski er ástæðan sú að viðkomandi leyfir aldrei neinum að gera neitt fyrir sig. Það þarf að hleypa fólki að sér til að geta þegið það sem það hefur að bjóða.  Fólk nálgast ekki þann sem lemur alla frá sér sem reyna það.

Að hleypa öðrum að sér

Fólk getur verið stórvarsamt. Það verður að segjast eins og er. Það þarf hugrekki til að treysta því, að fela sig öðru fólki. Fólk er breyskt og brigðult. Það á það til að valda vonbrigðum. Það er mjög góð aðferð til að tryggja sig gegn því að aðrir særi mann að gefa þeim aldrei færi á því. Hún virkar. En hún er einmanaleg. Hún útilokar mann frá samfélagi við aðra. Hún tryggir öryggi manns. En það er öryggi einsemdarinnar, ekki samfélagsins.

Það er fallegt að þjóna öðrum. Við eigum að auðsýna kærleika. En erum við að auðsýna kærleika ef við þjónum öðrum til að upphefja okkur sjálf? Til að sannfæra okkur sjálf og helst aðra í leiðinni um hvað við erum góð? Erum við að auðsýna kærleika ef erum með því að flýja áhættuna sem fylgir jafningjasambandi við náungann, þar sem gefið er og þegið á jafnréttisgrundvelli og fólk fær tækifæri til að særa mann og bregðast manni? Erum við að auðsýna kærleika ef fórn okkar þjónar þeim tilgangi að einangra okkur sjálf til að vernda okkur fyrir þeirri áhættu sem fylgir nánd við annað fólk, sem fylgir því að tilheyra samfélagi? Sem fylgir því að hleypa öðrum nálægt sér.

Er það kannski þannig að til að geta auðsýnt öðrum raunverulegan kærleika þarf maður að vera fær um að þiggja hann? Er maður ekki annars bara að auðsýna ótta og þrælslund– sem maður getur haldið að sé kærleikur, en er það ekki?

Eins og börn

Það þarf að hleypa fólki að sér til að eiga samleið með Jesú. „Ef ég þvæ þér ekki áttu enga samleið með mér,“ sagði hann við Pétur forðum daga.

Og hann segir það sama við þig í dag.

Þegar barn er borið til skírnar á það ekkert val. Því stendur ekki til boða að afþakka neitt. Það er ekki fært um neitt annað en að þiggja.

Og einmitt þannig eigum við að taka við Guðs ríki.

Eins og börn.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju á skírdag 13. apríl 2017

Read Full Post »

sacrifice-of-isaacLexía: Eftir þessa atburði reyndi Guð Abraham. Hann mælti til hans: „Abraham.“ Og hann svaraði: „Hér er ég.“ Hann sagði: „Tak þú son þinn, einkason þinn sem þú elskar, hann Ísak, og far þú til Móríalands og fórna honum sem brennifórn á því fjalli sem ég mun vísa þér á.“ Árla morguns söðlaði Abraham asna sinn, tók með sér tvo af sveinum sínum og Ísak son sinn, klauf við til brennifórnar, lagði síðan af stað og hélt til þess staðar sem Guð hafði sagt honum. Á þriðja degi hóf Abraham upp augu sín og sá staðinn álengdar. Hann sagði við sveina sína: „Bíðið hérna hjá asnanum en við drengurinn munum ganga þangað upp eftir til að biðjast fyrir og komum svo til ykkar aftur.“ Abraham tók nú brennifórnarviðinn og lagði Ísak syni sínum á herðar en eldinn og hnífinn tók hann sér í hönd. Og þeir gengu báðir saman. Þá sagði Ísak við Abraham föður sinn: „Faðir minn.“ Og hann svaraði: „Hér er ég, sonur minn.“ Ísak mælti: „Hér er eldurinn og viðurinn. En hvar er sauðurinn til brennifórnarinnar?“ Abraham svaraði: „Guð mun sjá sér fyrir sauð til brennifórnar, sonur minn.“ Og þeir gengu báðir saman. Nú komu þeir á staðinn sem Guð hafði talað um. Þar reisti Abraham altari, lagði viðinn á, batt Ísak son sinn og lagði hann á altarið ofan á viðinn. Þá tók Abraham hnífinn í hönd sér til þess að slátra syni sínum. En engill Drottins kallaði til hans af himni og mælti: „Abraham! Abraham!“ Og hann svaraði: „Hér er ég.“ Engillinn sagði: „Leggðu ekki hönd á sveininn og gerðu honum ekkert því að nú veit ég að þú óttast Guð. Þú hefur jafnvel ekki synjað mér um son þinn, einkason þinn.“ Þá hóf Abraham upp augu sín og sá hvar hrútur var fastur á hornunum í greinaþykkni. Fór hann þangað, tók hrútinn og fórnaði honum sem brennifórn í stað sonar síns. (1Mós 22.1-13)

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

„Fórn“ er hugtak sem við veltum ekki oft fyrir okkur. En vitum hvað það þýðir.

Við fórnum einu og öðru … en alltaf fyrir eitthvað. Við þekkjum hugtakið úr skák. Ef maður fórnar manni þá fær maður eitthvað í staðinn sem gerir það þess virði. Annars er það ekki fórn heldur bara afleikur. Þannig er fórn í sjálfu sér kaup kaups sem maður græðir alltaf á.

Kannski er það þegar við fórnum tíma okkar einna merkilegast í þessu samhengi. Hvenær fórnum við tíma okkar og hvenær erum við bara að eyða honum? Finnst okkur ekki jafnvel æskilegra að eyða tíma okkar? Við eyðum honum í eitthvað sem okkur finnst gaman en þegar við fórnum honum þá erum við að gera eitthvað annað, eitthvað sem okkur langar ekki til að gera – en í þeim tilgangi að maður sjálfur eða einhver annar fái eitthvað í staðinn. Fórn felur nefnilega alltaf í sér tilgang. Maður er í raun alltaf að kaupa eitthvað með því sem maður fórnar.

Fórnarkúltúr

Við búum ekki við ríkan fórnarkúltur, öfugt við forfeður okkar sem voru uppi í fornöld. Þar var fórnin grundvallaratriði í allri trúariðkun og þar með gangi samfélagsins. Eðlilegur gangur náttúrunnar, framvinda lífsins og jafnvel tilvist veraldarinnar – allt öryggi tilverunnar – var keypt af guðunum með fórnum.

Abraham, fyrsti forfaðir gyðinga – eða það tímabil í forsögu gyðinga sem er persónugert í honum, tímabilið þegar segja má að saga gyðinga sem þjóðar byrji – er talinn hafa verið uppi á 18. öld fyrir Krist eða þar um bil, rúmum 2.500 árum áður en Íslandssagan hefst eða fyrir 3800 árum.

Þannig má segja að á vissan hátt sé vafasamt að tala um Abraham sem gyðing, í merkingunni „gyðingtrúar“. Hvernig iðkar maður trú sem enginn hefur iðkað áður? Ég tala nú ekki um í fornöld, þúsöldum áður en hugmyndin um trú sem eitthvað persónulegt en ekki samfélags- eða menningarlegt fyrirbæri leit dagsins ljós.

Enda eru flestir fræðimenn á því máli að trú Abrahams megi frekar lýsa sem „eins Guðs tilbeiðslu“ en eiginlegri eingyðistrú eins og hún er skilgreind í dag, „mónólatríu“ fremur en „mónóþeisma“ ef það útskýrir eitthvað. Í því felst að tilvist annarra guða er ekki beinlínis hafnað en átrúnaðurinn og tilbeiðslan er öll bundin einum ákveðnum Guði. Í tilfelli Abrahams var það sennilega kanverski háguðinn El.

Og hér kemur það sem vantar til að við skiljum söguna um sonarfórn Abrahams: Kanverski háguðinn El var tilbeðinn með frumburðarfórnum.

Barnafórnir

Barnafórnir tíðkuðust víða á þessu menningarsvæði í fornöld, voru nánast viðtekin venja, til dæmis í Fönikíu og víðar. Við fornleifauppgröft í fönísku borginni Karþagó í Norður-Afríku hafa til að mynda fundist leifar mörghundruð barna, sem tekin voru af lífi við fórnarathafnir til dýrðar gyðjunni Tanít og guðinum Baal-Hammon.

Það er auðvelt að lesa lexíu dagsins og fyllast viðbjóði og hryllingi og réttlátri andúð á Guði. Ef maður hefur enga þekkingu á menningarlegum bakgrunni og sögulegu samhengi textans birtist í honum andstyggilegur Guð sem pínir fólk og platar það til að halda að hann vilji að maður myrði börnin sín til að þóknast honum.

En fyrir Abraham var Guð ekki að biðja um neitt óvenjulegt. Hann var aðeins að biðja hann að fylgja reglunum, gera eins og alltaf var gert, alltaf hafði verið gert, gera eins og hinir. Tryggja öryggi sitt. Og Abraham sagði já.

En það er þá sem undrið gerist. Hið óvenjulega. Hið glænýja.

Guð afþakkar fórnina.

Og tilbeiðslan varð ekki söm upp frá því.

Sagan er á vissan hátt fæðingarfrásögn hins miskunnsama Guðs; Guðs sem hefur þóknun á miskunnsemi en ekki sláturfórnum og á guðsþekkingu fremur en brennifórnum, svo vitnað sé í spámanninn Hósea (Hós 6.6), Guðs sem setur siðferðið ofar ritúalinu, hve erfitt sem menn hafa síðan átt með að skilja það sl. 4000 ár.

Tímamót

Sagan er þannig allegoría sögð skv. bókmenntalegum frásagnarreglum ritunartíma síns. Hún segir söguna af þeim merku tímamótum í þróun trúarbragða gyðinga þegar frumburðafórnirnar voru aflagðar, skref sem flestar grannþjóðir Ísraelsmanna stigu ekki fyrr en mörgum öldum síðar, sumar ekki fyrr en árþúsundum síðar.

Enda sjást þess merki. Gamla testamentið segir fráleitt sögu þjóðar sem aldrei villist af leið. Hvað eftir annað þarf Guð, með munni spámanna sinna, að halda reiðilestra yfir þjóðinni og konungum hennar og hóta öllu illu ef ekki sé látið af tilbeiðslu annarra Guða.

Í þessum frásögnum birtist hefnigjarn og hörundsár Guð, öfundsjúkur og eigingjarn; hégómlegur Guð sem verður sármóðgaður og reiður ef fólk vogar sér að tilbiðja aðra guði en hann – ef maður gerir enga tilraun til að skilja sögulegan bakgrunn og menningarlegt samhengi textans. Það sem Guð er að gagnrýna er nefnilega sannarlega viðurstyggilegt.

Spámaðurinn Jeremía segir til dæmis á einum stað: „Júdamenn hafa gert það sem illt er í augum mínum, segir Drottinn. Þeir hafa reist viðurstyggilegar guðamyndir sínar í húsinu, sem kennt er við nafn mitt, til þess að saurga það.“

Og við getum sagt: „Vá, einn viðkvæmur. Hvernig væri að slaka aðeins á?“

En hvernig heldur Jeremía áfram? Hann bætir við: „Þeir hafa reist Tófet-fórnarhæðir í Hinnomssonardal til þess að brenna syni sína og dætur í eldi.“ (Jer 7.30-31).

Helvíti fórnanna

Orðið „tófet“ er haft um fórnarstað þar sem börnum var fórnað í eldi. „Hinnómssonardalur“ sem spámaðurinn Jeremía nefnir hét á hebresku „Gehenna“; orð sem Jesús Kristur notar ítrekað í Nýja testamentinu í merkingunni „helvíti“. Sú líking er ekki úr lausu lofti dregin.

Í fornöld var algengt að ríki tryggðu sér friðsamleg samskipti við voldugri grannríki með því að tileinka sér trúariðkun þeirra og þrátt fyrir gorgeirinn um Ísrael, sem víða má finna í Gamla testamentinu enda hlutar þess skrifaðir gagngert í pólitískum tilgangi, verður að segjast eins og er að Ísrael var aldrei voldugt ríki. Sagan sem Gamla testamentið segir er enda saga af ríki sem fyrst var að hluta til sigrað af Assýringum, síðan af Babýlóníumönnum uns það var undir hælnum á Persum allt þangað til Grikkir lögðu það undir sig og loks – þegar komið er að tíma Nýja testamentisins – Rómverjar. Gamla testamentið geymir vitnisburð um það að átrúnaðurinn villist af leið, hugsanlega til að ögra ekki voldugum grannþjóðum eins og Föníkumönnum. Til að tryggja öryggi sitt.

Við höfum haldið áfram að villast af leið. Kirkjan hefur sett ritúöl sín og siði ofar mannúð og kærleika. Um það eru of mörg alþekkt dæmi til að ástæða sé til að tilgreina einhver sérstök. Og íslenska þjóðkirkjan hefur líka dregið á eftir sér lappirnar þegar kemur að sjálfsögðum réttlætismálum.

En við skulum hafa í huga þegar hjáguðadýrkunin er fordæmd í Gamla testamentinu að þar er ekki einhver ofurviðkvæmni í Guði á ferð. Hann er að argast út í að það sé verið að slátra börnum.

Það skiptir nefnilega máli hverju maður trúir.

Mannfórnir samtímans

En hvað kemur þetta okkur við? Það er ekki eins og við séum að stunda mannfórnir í þágu trúarinnar.

Það er vissulega rétt. Við fórnum ekki fólki fyrir það sem við trúum á. En það er ekki þar með sagt að við fórnum ekki fólki. Því það gerum við.

Kannski mætti snúa þessu við og segja: „Það sem við erum reiðubúin til að fórna fólki fyrir er það sem við trúum á – í raun.“

Fyrir hvað fórnum við fólki?

Við vitum að fjársvelt heilbrigðiskerfi kostar mannslíf. Það er engin leið að líta fram hjá því. Við vitum að umferðarslys kosta mannslíf og að í fjársveltu vegakerfi er meiri hætta á umferðarslysum. Við vitum að við stórframkvæmdir verða banaslys, það er beinlínis tekið með í reikninginn. Þar erum við bókstaflega að tala um kalkúleraðar mannfórnir. En við teljum það þess virði í þágu efnahagslegs öryggis okkar; hagvaxtar og ríkisfjármála.

Eigum við að nefna flóttamannavandann? Eigum við að láta eins og við vitum ekki að stefna vesturlanda í þeim efnum kostar mannslíf? Að fólk hættir lífi sínu í að komast yfir Miðjarðarhafið á hriplekum manndrápsfleyjum og borgar fyrir það margfalt það verð sem flugmiði á milli landanna myndi kosta – ef flugfélögum væri leyft að selja því þá?

Í þágu hvers er þeim mannslífum fórnað? Vestrænna hagkerfa? Menningarlegrar einsleitni? Í þágu ótta okkar við breytta heimsmynd og þá sem eru framandi og öðruvísi en við? Í þágu öryggis okkar?

Og enn þann dag í dag etja þjóðir börnum sínum í stríð. Í þágu … þjóðarhagsmuna; öryggishagsmuna.

Við þurfum ekkert að láta eins og massífar mannfórnir séu ekki iðkaðar skipulega og yfirvegað í samtíma okkar. En því fólki er ekki fórnað á altari Guðs. Ekki lengur.

Rétt eins og áður er því er fórnað til að tryggja öryggi okkar. Því er fórnað í þágu óttans um öryggi okkar, fjárhagslegt, félagslegt og menningarlegt.

Og enn segir Guð, rétt eins og fyrir 3800 árum: „Nei! Ekki!“

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er enn og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 2. apríl 2017

Read Full Post »

Guðspjall: Jesús svaraði: „Ef Guð væri faðir yðar munduð þér elska mig því að frá Guði er ég út genginn og kominn. Ekki hef ég sent mig sjálfur. Það er hann sem sendi mig. Hví skiljið þér ekki mál mitt? Af því að þér getið ekki hlustað á orð mitt. Þér eigið djöfulinn að föður og viljið gera það sem faðir yðar girnist. Hann var manndrápari frá upphafi og hefur aldrei þekkt sannleikann því í honum finnst enginn sannleikur. Þegar hann lýgur fer hann að eðli sínu því hann er lygari og lyginnar faðir. En af því að ég segi sannleikann trúið þér mér ekki. Hver yðar getur sannað á mig synd? Ef ég segi sannleikann, hví trúið þér mér ekki? Sá sem er af Guði heyrir Guðs orð. Þér heyrið ekki vegna þess að þér eruð ekki af Guði.“ (Jóh 8.42-51)

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi.

chimeracityVið mennirnir viljum vita og skilja. Þess vegna fylgjumst við með, skráum niður, skilgreinum og flokkum. Best er ef við getum sett tilveruna eins og hún leggur sig ofan í aðskilin hólf með viðeigandi merkimiða á hverju þeirra. Því miður lætur það oft raunveruleikanum illa að vera hólfaður niður með svo einföldum hætti.

Póstmódernismi

Við skiptum sögunni niður í tímabil sem við kennum við þau verkfæri, tækni eða fyrirbæri í menningu og hugsun sem einkenndu þau. Steinöld, járnöld, bronsöld … og síðar endurreisnartímabilið, rómantíska tímabilið og svo framvegis.

Á steinöld gerði enginn sér grein fyrir því að hann væri uppi á steinöld. En  við … við erum okkur mjög meðvituð um að við erum uppi á póstmódernískum tímum.

Eitt megineinkenni póstmódernismans er að sannleikurinn er teygjanlegur, staðreyndir eru túlkunaratriði því merking verður til hjá viðtakandanum. Þekking og sannleikur eru ekki algjör, ekki endanleg, heldur verða þau til í ákveðnu sögulegu, félagslegu og pólitísku samhengi og eru þess vegna afstæð í eðli sínu.

En ekkert stöðvar tímans þunga nið og þessu tímabili mannkynssögunnar mun ljúka og annað taka við. Hvað tekur við af póstmódernismanum?

Ég las um daginn grein þar sem talað er um að eftirstaðreyndatímabilið sé gengið í garð – „post-fact era“ eins og það var kallað. Megineinkenni þess er að staðreyndir skipta ekki máli lengur, þær eru úrelt fyrirbæri sem einhver grunnur að afstöðu eða lífsskoðun. Fólk getur búið til sínar eigin staðreyndir og þær eru jafnréttháar raunverulegum staðreyndum því sannleikurinn er jú afstæður og við lifum öll hvort sem er á einhvern hátt í okkar eigin heimi, okkar eigin sápukúlu sem við höfum blásið utan um líf okkar og handvalið þangað inn það og þá sem við viljum hafa í kringum okkur. Og internetið hjálpar okkur við þetta með algóryþmum sem reikna okkur út og sýna okkur bara það sem þeir sjá fyrir að okkur muni líka – og gildir þá einu hvort það er satt eða logið.

Eftirstaðreyndatímabilið

Og víst er að við höfum séð merki þess í heimsfréttum að við séum uppi á einhverju annarlegu „eftirstaðreyndatímabili“. Ekki bara af því að forseta Bandaríkjanna virðist fyrirmunað að greina staðreyndir frá heilaspuna eða yfirhöfuð að segja satt orð um nokkurn skapaðan hlut. Það er eins og hann trúi því að um leið og hann segi eitthvað sé það orðið sannleikur, hve auðhrekjanlegt sem það er, og því sé nóg fyrir hann að opna munninn og segja hvernig hann vill að heimurinn sé og þá – hókus pókus – verði hann þannig. Og þegar reynt er að reka eitthvað af svæsnasta þvættingnum ofan í hann er svarið gjarnan að margir trúi því nú að svona sé þetta og þar með er bullið í hans huga orðið jafngilt sannleikanum – „hliðstæð staðreynd“ eins og talsmaður hans kallaði það; „alternative fact.“ Orð sem að mínum dómi var snilldarlega vel þýtt yfir á íslensku sem „sannlíki“.

Ástandið er ekki mikið skárra hinum megin Atlantshafsins. Forseti Rússlands þrætti fyrir að Rússar kæmu á nokkurn hátt nálægt kolólöglegri innlimun Krímskagans eða vopnaskakinu í austurhluta Úkraínu á sama tíma og úkraínski herinn var að handtaka rússneska hermenn í stórum stíl í bardögum innan landamæra Úkraínu. Það er semsagt beinlínis hægt að ráðast með her inn í nágrannaríki og þræta fyrir það.

Og í Tyrklandi er forseti sem kallar Hollendinga fasista fyrir að leyfa ekki að þangað sé farið til að reka áróður fyrir því meðal tyrkneskra kjósenda í Hollandi að stjórnarskrá Tyrklands verði breytt á þann veg að Tyrkland verði í allri praktískri merkingu þess orðs einræðisríki. Og ekki bara það. Hollendingar eru líka sekir um kynþáttahyggju að mati Tyrklandsforseta, væntanlega af því að Tyrkir í Hollandi njóta réttinda sem Tyrkjum dettur ekki í hug að leyfa tyrkneskum Kúrdum að njóta þótt þeir séu bornir og barnfæddir í Tyrklandi. Og í sömu viku og forseti Tyrklands, lands sem neitar að gangast við þjóðarmorðum sínum á Armenum fyrir um hundrað árum, kallar Hollendinga nasista höfnuðu Hollendingar flokki nýnasista í þingkosningum.

Lygi er sannleikur

Eftirstaðreyndatímabilið: Sannleikurinn er það sem hentar hverjum og einum. Og þó lygin sé himinhrópandi augljós þá er það skoðanakúgun að umgangast hana ekki eins og hún sé jafnrétthá sannleikanum og hlutdrægni að afhjúpa hana.

Lygin er sannleikur og sannleikurinn er lygi.

Það þarf engan að undra að skáldsaga Georges Orwells, 1984, komi upp í hugann: Stríð er friður. Þrældómur er frelsi. Fáfræði er styrkur.

Við sjáum meira að segja merki þess að „newspeak“ – tungumál fasistastjórnarinnar í þeirri skáldsögu – sé að ryðja sér til rúms í fjölmiðlum. Við heyrum kynþáttahatur og kvenfyrirlitningu kallaða „óhefðbundna orðræðu“. Við heyrum okkar eigin stjórnmálamenn jafnvel kalla grímulausa hatursorðræðu erlendra þjóðarleiðtoga „áhyggjuefni“ eins og ástæðulaust sé að taka dýpra í árinni. Fyrir stuttu var sagt um stjórnmálamann sem nýtur opinbers stuðnings Ku Klux Klan, hefur gert yfirlýstan nýnasista að sínum helsta ráðgjafa, hvatt til ofbeldis gegn minnihlutahópum og hæðst að fötluðum að hann sé „ekki óumdeildur“ í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins.

Normalísering hins óásættanlega er í fullum gangi allt í kringum okkur og hún gengur vel.

Afstæði sannleikans

Jesús Kristur talaði ekki „newspeak“. Og hann var ekki póstmódernisti. Hann talaði tæpitungulaust mannamál og fyrir honum var sannleikurinn klipptur og skorinn. Allir textar dagsins lúta að því. Boðorðin eru skýr. Þar segir ekki: „Þú ættir ekki nema undir kringumstæðum þar sem það er félagslega og menningarlega viðurkennt að …“ Nei, þar segir: „Þú skalt ekki …“ Þar er ekkert óljóst. Rétt er rétt og rangt er rangt. Gott og illt eru skýrar og raunverulegar andstæður, ekki afstæð hugtök í einhverju háloftablaðri. Enginn manipúlerar sannleikann til að vera það sem hentar honum. Hann er ekkert túlkunaratriði. Sannleikurinn er sannleikur og lygin er ekki sannlíki eða hliðstæð staðreynd … hún er lygi.

Jesús sýnir oft á sér geðþekkari og hlýlegri hliðar en hann gerir í guðspjalli dagsins. En hann var sannur maður; sannur Guð sem stakk sér á bólakaf í hið mannlega hlutskipti með öllu sem það inniber, þar með talið allri tilfinningaflóru mannlegrar tilvistar. Jesús grætur og Jesús reiðist. „Manni“ getur jú sárnað – segir máltækið. Öll höfum við átt stundir þar sem okkur hefur þótt meiri ástæða til að hvæsa en mala.

„Hví skiljið þér ekki mál mitt?“ spyr Jesús viðmælendur sína og svarar spurningunni sjáfur: „Af því að þér getið ekki hlustað á orð mitt.“ – Það rúmast ekki innan sápukúlunnar ykkar. Algóryþminn ykkar útilokar ykkur frá því.

Satan sjálfur

Ykkur kann að finnast ég fara eins og köttur í kringum heitan graut að hafa ekki minnst einu orði á fílinn í borðstofunni; orðið í textanum sem hoppar á okkur og kynni jafnvel að yfirskyggja merkingu textans vegna þess hvað það stuðar okkur, hvað það snertir okkur óþægilega. Orðið sem kemur bæði fyrir í pistlinum og guðspjallinu: Djöfullinn / Satan.

„Þeir eru samkunda Satans“ segir í pistlinum og í guðspjallinu hreytir Jesús í viðmælendur sína: „Þér eigið djöfulinn að föður.“

Við ykkur sem eruð að hugsa: „Ætlar maðurinn ekki að minnast einu orði á andskotann?“ vil ég segja: Ég hef ekki talað um annað alla þessa prédikun.

„Hann hefur aldrei þekkt sannleikann því í honum finnst enginn sannleikur. Þegar hann lýgur fer hann að eðli sínu því hann er lygari og lyginnar faðir.“ Allt sem ég hef verið að segja persónugerist í Kölska.

Við gætum umorðað þetta: „Hann hefur aldrei þekkt sannleikann því fyrir honum er sannleikurinn afstæður. Þegar hann býr til sínar eigin staðreyndir jafnóðum fer hann að eðli sínu því hann er ófær um að greina mun á réttu og röngu og segir því það sem hentar honum hverju sinni.“

Ef við viljum

Við getum – ef við viljum – talað „newspeak“ þar sem ekkert orð er fyrir Guð og þarafleiðandi er óþarfi að eiga orð yfir andstæðu hans, djöfulinn. Þar sem mannhatur og illska er ekki mannhatur og illska heldur „óhefðbundin orðræða“. Þar sem kvenfyrirlitning og kynþáttahatur gerir menn í versta falli „ekki óumdeilda“. Þar sem sannlíki og hliðstæðar staðreyndir hafa sama tilverurétt og sannleikur og raunverulegar staðreyndir. Og við getum kallað það tímabil mannkynssögunnar „eftirstaðreyndatímabilið“ ef við viljum.

En Jesús Kristur hefði ekki gert það. Hann hefði kallað það sínu rétta nafni: „Öld lyginnar.“

Við getum tekið þátt í þessu. Það væri á flestan hátt þægilegra fyrir okkur.

En við getum ekki bæði tekið þátt í því að innleiða öld lyginnar og talið okkur trú um að við séum kristnar manneskjur, að við séum að leitast við að hafa Jesú Krist að leiðtoga lífs okkar.

Það er nefnilega ekki Guð sem er faðir lyginnar.

Það er annar.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 19. mars 2017.

Read Full Post »

Guðspjall: Þeir komu til Jeríkó. Og þegar Jesús fór út úr borginni ásamt lærisveinum sínum og miklum mannfjölda sat þar við veginn Bartímeus, sonur Tímeusar, blindur beiningamaður. Þegar hann heyrði að þar færi Jesús frá Nasaret tók hann að hrópa: „Sonur Davíðs, Jesús, miskunna þú mér!“ Margir höstuðu á hann að hann þegði en hann hrópaði því meir: „Sonur Davíðs, miskunna þú mér!“ Jesús nam staðar og sagði: „Kallið á hann.“ Þeir kalla á blinda manninn og segja við hann: „Vertu hughraustur, statt upp, hann kallar á þig.“ Blindi maðurinn kastaði frá sér yfirhöfn sinni, spratt á fætur og kom til Jesú. Jesús spurði hann: „Hvað vilt þú að ég geri fyrir þig?“ Blindi maðurinn svaraði honum: „Rabbúní, að ég fái aftur sjón.“ Jesús sagði við hann: „Far þú, trú þín hefur bjargað þér.“ Jafnskjótt fékk hann sjónina og fylgdi honum á ferðinni. (Mrk 10.46-52)

bartímeus

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Múslimir líta svo á að þýðingar á Kóraninum séu ekki Guðs orð, heldur aðeins þýðing þess. Þannig er arabíska í þeirra huga móðurmál Guðs, ef svo má segja. Færa má góð rök fyrir því að þetta sé skynsamlegt. Öll þýðing er nefnilega túlkun. Þótt orð eigi sér kannski beinar og augljósar þýðingar er merking þeirra og notkun í málinu mjög oft alls ekki fyllilega hliðstæð.

Aðeins Íslendingar myndu, svo dæmi sé tekið, nota orðið „rassgat“ um krúttlega krakka. Bókstafleg þýðing á slíku tali yfir á erlend tungumál myndi undantekningalaust valda misskilningi og í raun alls ekki vera þýðing merkingarinnar heldur beinlínis afskræming hennar.

Þrengsta merkingin

Orðið „sonur“ í tungumálum ritningarinnar – „ben“ á hebresku, „huios“ á grísku og „bar“ á arameísku sem var móðurmál Jesú – hafði til dæmis mun víðari merkingu en orðið „sonur“ hefur í íslensku. Grikkir kölluðu þjóna „syni“ og þar sem það er augljóslega merkingin er „huios“ ekki þýtt „sonur“ heldur „þjónn“ í Nýja testamentinu. Í hebresku er merkingin jafnvel enn víðari. Orðið „auðmaður“ á hebresku væri bókstaflega þýtt „sonur auðsins“ og orðið „lygari“ „sonur lyginnar“. Við myndum nota orðin „auðmaður“ og „lygamörður“, ekki „auðssonur“ og „lygasonur“ eins og hebrear gerðu til forna. Þannig er „sonur“ í fornhebresku aðeins bundinn einhverri óljósri skuldbindingu eða þjónustu við orðið sem skeytt er við það.

Þetta kallar auðvitað á hugleiðingar um það hvað „sonur Guðs“ merkir í raun og veru og jafnvel „mannssonurinn“ ef út í það er farið… en þær eru ekki efni þessarar prédikunar.

Ég nefni þetta vegna þess að mig langar að velta vöngum yfir því hvað „sonur Tímeusar“ merkir raunverulega. Nafnið Bartímeus er nefnilega ákveðinn bastarður. Arameíska orðinu „bar“ sem merkir „sonur“ er skeytt framan við gríska karlmannsnafnið „Tímeus“. Ég held að þetta skipti máli til að skilja guðspjall dagsins, því það er óneitanlega athyglisvert að blindi beiningamaðurinn í sögunni skuli vera nafngreindur. Jesús læknar fjöldann allan af blindu, lömuðu, holdsveiku og öðru fötluðu og sjúku fólki og sjaldnast er ástæða til að nafngreina það eins og hér er gert. Það hlýtur að merkja eitthvað.

Var sá blindi kannski þjónn Tímeusar eða lærisveinn hans?

Guð Tímeusar

En hver var þá Tímeus?

Nú er ég ekki heimspekimenntaður og ekki til þess fallinn að skýra frá kenningum Platons og ritsmíðum hans á þann hátt að það standist akademískar kröfur. En Tímeus er persóna í samnefndri ritsmíð eftir Platon sem hafði gríðarmikil áhrif á guðs- og heimsmynd fornaldar. Sú mynd er ólík þeirri sem Jesús Kristur boðaði og varðar – án þess að ég geti farið út í það af einhverri djúpri þekkingu – háleitar hugmyndir um alheimssál og fjarlægan, ópersónulegan skapara. Einhvers konar deiskar eða panþeískar hugmyndir ef það útskýrir eitthvað.

Kannski sat Tímeusarsinninn í vegarkantinum, blindaður af kenningum meistara síns sem gera alls ekki ráð fyrir lífrænu sambandi, hvað þá samtali við persónulegan Guð sem kemur inn í líf mannsins.

Allir ritningartextar dagsins fjalla um samtal við Guð. Í lexíunni krefur Móse, hnarreistur og sperrtur, Guð um svör. „Skýrðu mér frá vegum þínum,“ hrópar hann. Í pistlinum sjáum við aðra mynd, Jesús biðst fyrir í auðmýkt „með sárum andvörpum og tárum“.

Og í guðspjallinu svarar Guð, sem gerst hafði maður, örvæntingarfullu kalli manns  sem ekki aðeins hafði lokað sig af frá því að eiga samband við Guð heldur var blindaður af þeirri kaldranalegu heimsmynd að það væri ekki hægt. „Miskunna þú mér,“ hrópar hann, sligaður af tilgangsleysinu í heiminum sem hann hafði smíðað í kringum sig með kenningum sínum. „Miskunna þú mér. Gefðu mér ástæðu til að fara fram úr á morgnana. Segðu mér að lífið sé meira og stærra en þetta.“

Og Jesús spyr hann: „Hvað viltu að ég geri fyrir þig?“

Spurningin kann að virðast heimskuleg. Eins og það liggi ekki í augum uppi. En Jesús varð að spyrja því Bartímeus varð að segja það. Hann varð að biðja um hjálp. Annað hefði verið óumbeðið inngrip í líf Bartímeusar. Jesús gerist nefnilega ekki boðflenna í lífi nokkurs manns. Það þarf að rétta út hönd og biðja um hjálp.

Þegar við tölum um Guð

Tungumálið er vandmeðfarið, ekki síst þegar við tölum um Guð. Ekkert er eins og Guð og því er allt sem við segjum um Guð líkingamál. Guð er auðvitað ekki konungur. Hann er kallaður konungur af því að við tengjum konung við vald og mátt. Til að undirbyggja myndina eru jafnvel himneskir herskarar hafðir í kringum hann eins og hirð. Guð er ekki heldur fjárhirðir eins og hann er kallaður í 23. Davíðssálmi, arnarmóðir sem sveimar yfir hreiðri sínu, ungamamma sem skýlir ungunum undir vængjum sínum eða fæðandi móðir … allt myndir sem við sjáum í Biblíunni.

Og Guð er ekki faðir okkar nema í óeiginlegri, andlegri merkingu. Við köllum hann föður og tengjum það við skilyrðislausan kærleika hans og umhyggju. En hann kennir okkur ekki að hjóla, lánar okkur bílinn eða gengst í ábyrgð fyrir láni fyrir okkur – svo ég nefni eitthvað sem ég tengi við föðurhlutverkið.

Allar líkingar okkar um Guð brotna nefnilega á endanum. Enga þeirra er hægt að halda áfram með endalaust, engin þeirra er fullkomin. Þeim er ætlað að hjálpa okkur til nálgast Guð, að öðlast einhvern skilning á hinu óskiljanlega, að henda reiður á því sem er of háleitt og mikilfenglegt til að við getum meðtekið það. Að nota orð sem við þekkjum og myndir sem við skiljum til að öðlast guðsmynd sem við getum lotið í trú.

En líkingarnar okkar geta líka þvælst fyrir okkur. Ef við nú erum svo ólánsöm að tengja ekki hugtakið „faðir“ við kærleika og vernd heldur við misnotkun og ofbeldi þá er föðurlíkingin ekki til gagns heldur ógagns. Þá greiðir hún ekki götu okkar að nánd við miskunnsaman og kærleiksríkan Guð heldur er hún farartálmi á þeirri leið.

Að játa dogmatík

Við fórum ekki með hina postullegu trúarjátningu okkar hér áðan eins og alla jafna er gert í messum, heldur játuðum trú okkar í sátt og friði í þögulli íhugun. Mig langaði nefnilega til að vekja ykkur til umhugsunar. Þið sem söknuðuð trúarjátningarinnar, hvers söknuðuð þið? Var það „getinn af heilögum anda“? Var það „steig niður til heljar“? Var það „mun þaðan koma að dæma lifendur og dauða“? Var það kannski þetta allt og meira til?

Trúarjátningin okkar er nefnilega í raun aðeins fjögur orð: „Ég trúi á Guð.“ Strax í fimmta orði byrjar dogmatíkin: „… föður“. Og síðan: „… almáttugan.“ Og svo framvegis.

Þetta er gallinn við dogmatíkina; trúarkenningarnar okkar og útlistanirnar. Hún er eðli sínu samkvæmt ekki opinn og útbreiddur faðmur heldur nálarauga. Hún greinir frá því í smáatriðum hverju við trúum og hverju á að trúa og ef eitthvað af því stendur í þér áttu ekki samleið með okkur hinum.

Þannig getur hún skilgreint okkur hvert frá öðru.

En Jesús sagði ekki við Bartímeus blinda: „Dogmatík þín hefur bjargað þér.“

Hann sagði ekki: „Snilldarlegt líkingamál þitt um almættið og eðli þess sem dregur upp skýra og skiljanlega og í meginatriðum rétta mynd af sambandi Guðs og manns hefur bjargað þér.“

Nei. Hann sagði: „Trú þín hefur bjargað þér.“

Miskunna þú oss

„Miskunna þú mér,“ hrópaði blindi beiningamaðurinn.

Og enn þann dag í dag tökum við undir með honum og hrópum þetta í kirkjunni í upphafi hverrar messu: „Drottinn, miskunna þú oss.“ Kyrie eleison.

Gefðu okkur sjónina aftur.

Taktu frá okkur myrkur heimsmyndar þar sem þú ert fjarlægur og afskiptalaus og gefðu okkur sýn á raunveruleika þar sem þú er nálægur og lifandi og við getum átt persónulegt vitundarsamband við þig.

Vertu í lífi okkar svo við getum talað við þig. Hvort sem það er til að krefja þig svara þegar við botnum ekkert í því hver er vilji þinn, eins og Móses gerði í eyðimörkinni forðum, eða með sárum andvörpum og tárum til að fá huggun þegar þjáningin er að yfirbuga okkur eins og frelsari okkar gerði.

Og enn þann dag í dag spyr Jesús á móti: „Hvað viltu að ég geri fyrir þig?“

Og við verðum að svara.

Vissulega er engin bæn einlægari en steyttur hnefi til himins. En steyttur hnefi er ekki útrétt hönd. Við verðum að rétta út hönd og biðja um hjálp.

Við erum öll Bartímeus. Að minnsta kosti sá Bartímeus sem við sjáum í upphafi frásagnarinnar. Ef við réttum út hönd og biðjum um hjálp fáum við sjónina aftur. Trúin getur bjargað okkar.

Guðspjallstexti dagsins endar á því að Bartímeus fylgir Jesú á ferðinni. Þessi ferð er líf og starf kristins manns.

Spurningin er hvort við séum reiðubúin til að vera líka sá Bartímeus sem við sjáum í sögulok.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er enn og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 12. mars 2017.

Read Full Post »

Older Posts »