Feeds:
Færslur
Athugasemdir

Archive for the ‘Tungumálið’ Category

tungutalPistill: Þá er upp var runninn hvítasunnudagur voru allir saman komnir á einum stað. Varð þá skyndilega gnýr af himni, eins og óveður væri að skella á, og fyllti allt húsið þar sem þeir voru. Þeim birtust tungur, eins og af eldi væru, er kvísluðust og settust á hvert og eitt þeirra. Allir fylltust heilögum anda og tóku að tala öðrum tungum, eins og andinn gaf þeim að mæla. Í Jerúsalem dvöldust Gyðingar, guðræknir menn, frá öllum löndum undir himninum. Er þetta hljóð heyrðist kom allur hópurinn saman. Þeim brá mjög við því að hver og einn heyrði þá mæla á sína tungu. Menn voru frá sér af undrun og sögðu: „Eru þetta ekki allt Galíleumenn sem hér eru að tala? Hvernig má það vera að við, hvert og eitt, heyrum þá tala okkar eigið móðurmál? Við erum Partar, Medar og Elamítar, við erum frá Mesópótamíu, Júdeu, Kappadókíu, Pontus og Asíu, frá Frýgíu og Pamfýlíu, Egyptalandi og Líbýubyggðum við Kýrene og við sem hingað erum flutt frá Róm. Hér eru bæði Gyðingar og þeir sem tekið hafa trú Gyðinga, Kríteyingar og Arabar. Við heyrum þá tala á tungum okkar um stórmerki Guðs.“ (Post 2.1-11)

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Pistill dagsins í dag segir frá kraftaverki. Kraftaverki sem margir telja endurtaka sig aftur og aftur við kristnar trúarathafnir enn þann dag í dag: Tungutali.

Og nú er ég að tala um viðkvæmt mál sem skiptar skoðanir eru á.

Tungutal nú

Til eru söfnuðir sem líta á tungutal sem svo mikið grundvallaratriði að í raun sé ekki hægt að tala um að heilagur andi sé meðal annarra en þeirra sem fara í annarlegt ástand við tilbeiðsluna þannig að upp úr þeim velli merkingarlausar málhljóðarunur í belg og biðu. Menn í trúarmóki tala tungum. Svo einfalt er það.

Tungutal við trúarathafnir hefur verið rannsakað með vísindalegum hætti. Auðvitað ekki allt, fyrr mætti nú vera. En viðamiklar rannsóknir á upptökum af því sem fólk segir í þessu ástandi í hinum ýmsu söfnuðum hafa leitt í ljós að það er bull; merkingarlaust babl.

En þá er eðlilegt að spyrja: Til hvers?

Hvað er unnið með því? Hvaða gagn er Guðsríkinu gert með því? Hvernig miðar það að því að skila okkur til fyrirheitna landsins þar sem friður og jöfnuður ríkir?

Ég ætla ekki að fullyrða að við slíkar athafnir sé heilagur andi víðs fjarri. Um það get ég ekkert sagt. Ég leyfi mér hins vegar að halda því fram að slíkir atburðir út af fyrir sig flokkist ekki undir neins konar kraftaverk. Við vitum að sefjunarmáttur mannshugans er gríðarlegur og tungutal við trúarathafnir á sér sennilega frekar félagssálfræðilegar skýringar en guðdómlegar.

Að skilja söguna

Kraftaverk eru nefnilega alltaf kærleiksverk. Þau snúast aldrei um þann sem þau framkvæmir. Jesús mettar hungraða, læknar sjúka, líknar sorgmæddum. Babl í trúarmóki sem enginn skilur gerir ekkert af þessu.

Enda er sagan af undrinu á hvítasunnudag í öðrum kafla Postulasögunnar ekki af mönnum sem féllu í mók og böbluðu eitthvað bull. Hún er um menn sem raunverulega sögðu eitthvað á tungumálum sem þeir töluðu ekki sjálfir en þeir sem það gerðu skildu. Arameískumælandi Galíleumenn töluðu þannig að Partar, Medar, Elamítar, Mesapótamíumenn, Júdeumenn, Kappadókar, fólk frá Pontus-héraði við sunnanvert Svartahaf, fólk annars staðar frá þessu landsvæði sem í dag er kallað Litla-Asía en er bara kallað Asía í Nýja testamentinu, Frýgíumenn, Egyptar, Líbýumenn, Rómverjar, Kríteyingar og Arabar skildu það sem sagt var.

Um það er sagan. Um það að vera skilinn.

Tungutal þar sem enginn viðstaddra skilur orð af því sem sagt er á ekkert skylt við það sem þessi frásögn greinir frá.

Og kannski er það hið eilífa krafataverk: Að vera skilinn. Að ég skuli geta staðið hér og kreist loft upp úr mér og notað barkann, tunguna, varir og munn til að móta þannig bylgjur sem, þegar þær lenda á eyrum ykkar, geta teiknað myndir fyrir augum ykkar, plantað hugmyndum í hugskot ykkar, miðlað þekkingu, innsæi, lífsviðhorfum … vakið með ykkur sorg, gleði, fögnuð … eða reiði. Og ég get miðlað ykkur af líðan minni, reynslu minni, sögu minni, sorgum mínum og gleði … og reiði. Einhverju sem er mikilvægara fyrir persónulega sálarheill mína að aðrir skilji heldur en guðfræðilegar útleggingar mínar á orðum heilagrar ritningar, svo dæmi sé tekið.

Hvað er þetta annað en hugsanaflutningur sem jafnast á við trylltustu vísindaóra?

Enn stórkostlegra kraftaverk er kannski að fyrir tæpum tvöþúsundum árum skyldi óþekktur einstaklingur teikna nokkur strik með bleki unnu fyrst og fremst úr sóti og jurtaolíu á papýrusörk og skrásetja þannig frásögnina sem hér var lesin áðan … á öðru tungumáli í öðrum heimshluta á öðru tímaskeiði mannkynssögunnar … og við skildum hana.

Hún er ekki um að falla í trans og babla.

Hún er um það að skiljast.

Þrívíð frásögn

Kraftaverkafrásagnir hafa alltaf þrjár víddir. Sú bókstaflega er augljósust: Menn tala tungumál sem þeir kunna ekki en þeir sem það gera skilja þá. Það á ekki að vera hægt. Af því leiðir að þetta verður að kalla kraftaverk. Punktur.

Næsta vídd er hin táknræna. Þar skulum við staldra við og spyrja: Hvar er kærleiksverkið í þessu kraftaverki? Hér er ekki greint frá því að nokkur maður hafi mettast eða læknast eða huggast. Aðeins að þessi allra þjóða kvikindi sem þarna voru saman komin til að fagna Hvítasunnuni, gyðinglegri hveitiuppskeruhátíð, Shavóþ, sem á þessum tíma var orðin tileinkuð þeim atburði þegar Móses tók við lögmálinu á Sínaífjalli og markar þannig eiginlega upphaf gyðingdómsins … eins konar afmæli gyðingdómsins … hafi heyrt þessa Galíleumenn tala á sínum eigin tungum – um stórmerki Guðs.

Hvað þeir sögðu nákvæmlega fylgir ekki sögunni. Enda er hún ekki um það hvað þeir sögðu. Hún er um að það að fá að heyra um stórmerki Guðs á sínu eigin móðurmáli sé dýrmætt … lífsbætandi. Þannig er Guð kominn nær þér, hann er kominn til þín. Þú þarft ekki að hafa vald á einhverju helgimáli eða framandi tungu til að tala við Guð. Hann skilur tungumálið sem þú hugsar á. Tungumálið sem þú lærðir að tjá þig á.

Hann skilur þig.

Móðurmálið mitt

Þriðja víddin er síðan hin trúarlega. Þá spyrjum við: Hvað kemur þetta mér við? Hvaða erindi á þessi saga við mig í dag?

Biblían hefur verið til á móðurmáli mínu síðan á sextándu öld og verið þýdd og endurþýdd alloft síðan þá, nú síðast fyrir aðeins ellefu árum.

En skil ég hana?

Hvað er náð? Hvað er friður? Hvað er hjálpræði?

Hvað þýðir það vera í skugga einhvers? Þýðir það ekki að einhver er að stela ljósinu frá manni? Enginn vill vera í skugganum af einhverjum öðrum. Enginn vill láta aðra varpa skugga á sig. Í Biblíunni þýðir það aftur á móti að njóta verndar einhvers fyrir steikjandi sólarhitanum sem mun meiri ógn stafar af þar sem sögusvið hennar er heldur en frosti og kulda. Þar táknar skugginn líkn forsælunnar. „Í skugga vængja þinna fagna ég,“ (Slm 63.8) segir í Davíðssálmum.

Ég nefni þetta sem dæmi, annars vegar um orð sem við notum lítið í daglegu tali og hins vegar um framandi orðanotkun. Það er nefnilega ekki nóg að skilja tungumálið. Það verður að skilja tungutakið líka. Hver hefur ekki rekist á fullkomlega óskiljanlegar setningar á íslensku sem út af fyrir sig er rétt, orð fyrir orð? Þetta er einkum algengt í ritmáli frá hinu opinbera.

Fæðing kirkjunnar

Shavóþ var eins konar afmælisdagur gyðingdómsins og hvítasunnan er afmælisdagur kirkjunnar. Stofnun hennar er miðuð við atburðinn sem frá greinir í upphafi annars kafla Postulasögunnar. Stofnun hennar er beinlínis miðuð við þann atburð þegar fólk af fjöldamörgum þjóðernum heyrði talað um stórmerki Guðs þannig að allir skildu.

Og skilaboðin til okkar eru að tala þannig að það skiljist. Að grafa ekki erindi okkar í skrúðyrðaþvælu eða helgimáli sem er framandlegt langflestum þeirra sem tala og hugsa á tungumálinu. Og þegar mikið liggur við að tala enga tæpitungu. Eða svo vísað sé í Rómverjabréfið, að tala þannig að flærðarleysi elsku okkar sé augljóst og andstyggð okkar á því sem vont er fari ekki á milli mála. (Róm 12.9)

Það er ekkert kristilegt við það að tipla á tánum í kringum málefni, sem skiptar skoðanir eru á, til að gæta þess að styggja engan. Jesús frá Nasaret var ekki negldur á kross af því að hann styggði engan, heldur af því að orð hans ógnuðu stöðu þeirra sem miskunnarlaust misbeittu valdi sínu til að kúga lýðinn í þágu eigin hagsmuna.

Og af hverju gerðu þau það?

Af því að fólkið skildi hann.

Það sem Jesús sagði ekki

Jesús sagði ekki: „Verknaðarskylda einstaklinga gagnvart öðrum aðilum skal vera í gagnkvæmu og samhangandi umönnunarsambandi við væntingar þeirra til hliðstæðrar aðhlynningarþjónustu téðra aðila við öndverðar kringumstæður.“

Þá hefði engin hætta stafað af honum.

Hann sagði: „Allt sem þið viljið að aðrir menn geri ykkur skuluð þið gera þeim.“ (Matt 7.12)

Hann sagði ekki: „Forsvarsaðilar lífsskoðanastofnana hafa í síauknum mæli þróað verkferla með þeim hætti að hinn fjárhagslegi ávinningur starfseminnar verkar tekjuaukandi fyrir umsjáraðila tilbeiðsluathafna á ársgrundvelli.“

Hann sagði: „Þið hafið gert hús föður míns að ræningjabæli.“ (Lúk 19.46)

Hann sakaði valdhafa ekki um að áhyggjuefni væri að greina mætti vaxandi tilhneigingu til þess að þess væri ekki gætt með nægilega skilvirkum og gegnsæum hætti að viðunandi og ásættanlegt samræmi væri á milli opinberra reglugerða og tilskipana um hvað teldist til saknæms athæfis almennra borgara annars vegar og hins vegar þeirra verkferla sem yfirumsjónaraðilar samfélagslegarar allsherjarreglu og styrkingar innviðanna færu eftir við úrvinnslu þeirra athafna sem væru á ábyrgð og valdsviði þeirra.

Hann gerði það ekki.

Hann kallaði þá hræsnara.

Og kirkja hans á að gera það líka.

Á afmælinu sínu minnir hún sig á að það er ekki hlutverk hennar að babla einhverja hátimbraða merkingarleysu sem ekki nokkur maður skilur. Hún á að segja frá stórmerkjum Guðs, að segja frá náðinni, hjálpræðinu og kærleikanum, flærðarleysi elsku sinnar og andstyggð sinni á því sem vont er … þannig að það skiljist.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju á hvítasunnudag, 20. 5. 2018

Read Full Post »

Guðspjall: Jesús svaraði: „Ef Guð væri faðir yðar munduð þér elska mig því að frá Guði er ég út genginn og kominn. Ekki hef ég sent mig sjálfur. Það er hann sem sendi mig. Hví skiljið þér ekki mál mitt? Af því að þér getið ekki hlustað á orð mitt. Þér eigið djöfulinn að föður og viljið gera það sem faðir yðar girnist. Hann var manndrápari frá upphafi og hefur aldrei þekkt sannleikann því í honum finnst enginn sannleikur. Þegar hann lýgur fer hann að eðli sínu því hann er lygari og lyginnar faðir. En af því að ég segi sannleikann trúið þér mér ekki. Hver yðar getur sannað á mig synd? Ef ég segi sannleikann, hví trúið þér mér ekki? Sá sem er af Guði heyrir Guðs orð. Þér heyrið ekki vegna þess að þér eruð ekki af Guði.“ (Jóh 8.42-51)

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi.

chimeracityVið mennirnir viljum vita og skilja. Þess vegna fylgjumst við með, skráum niður, skilgreinum og flokkum. Best er ef við getum sett tilveruna eins og hún leggur sig ofan í aðskilin hólf með viðeigandi merkimiða á hverju þeirra. Því miður lætur það oft raunveruleikanum illa að vera hólfaður niður með svo einföldum hætti.

Póstmódernismi

Við skiptum sögunni niður í tímabil sem við kennum við þau verkfæri, tækni eða fyrirbæri í menningu og hugsun sem einkenndu þau. Steinöld, járnöld, bronsöld … og síðar endurreisnartímabilið, rómantíska tímabilið og svo framvegis.

Á steinöld gerði enginn sér grein fyrir því að hann væri uppi á steinöld. En  við … við erum okkur mjög meðvituð um að við erum uppi á póstmódernískum tímum.

Eitt megineinkenni póstmódernismans er að sannleikurinn er teygjanlegur, staðreyndir eru túlkunaratriði því merking verður til hjá viðtakandanum. Þekking og sannleikur eru ekki algjör, ekki endanleg, heldur verða þau til í ákveðnu sögulegu, félagslegu og pólitísku samhengi og eru þess vegna afstæð í eðli sínu.

En ekkert stöðvar tímans þunga nið og þessu tímabili mannkynssögunnar mun ljúka og annað taka við. Hvað tekur við af póstmódernismanum?

Ég las um daginn grein þar sem talað er um að eftirstaðreyndatímabilið sé gengið í garð – „post-fact era“ eins og það var kallað. Megineinkenni þess er að staðreyndir skipta ekki máli lengur, þær eru úrelt fyrirbæri sem einhver grunnur að afstöðu eða lífsskoðun. Fólk getur búið til sínar eigin staðreyndir og þær eru jafnréttháar raunverulegum staðreyndum því sannleikurinn er jú afstæður og við lifum öll hvort sem er á einhvern hátt í okkar eigin heimi, okkar eigin sápukúlu sem við höfum blásið utan um líf okkar og handvalið þangað inn það og þá sem við viljum hafa í kringum okkur. Og internetið hjálpar okkur við þetta með algóryþmum sem reikna okkur út og sýna okkur bara það sem þeir sjá fyrir að okkur muni líka – og gildir þá einu hvort það er satt eða logið.

Eftirstaðreyndatímabilið

Og víst er að við höfum séð merki þess í heimsfréttum að við séum uppi á einhverju annarlegu „eftirstaðreyndatímabili“. Ekki bara af því að forseta Bandaríkjanna virðist fyrirmunað að greina staðreyndir frá heilaspuna eða yfirhöfuð að segja satt orð um nokkurn skapaðan hlut. Það er eins og hann trúi því að um leið og hann segi eitthvað sé það orðið sannleikur, hve auðhrekjanlegt sem það er, og því sé nóg fyrir hann að opna munninn og segja hvernig hann vill að heimurinn sé og þá – hókus pókus – verði hann þannig. Og þegar reynt er að reka eitthvað af svæsnasta þvættingnum ofan í hann er svarið gjarnan að margir trúi því nú að svona sé þetta og þar með er bullið í hans huga orðið jafngilt sannleikanum – „hliðstæð staðreynd“ eins og talsmaður hans kallaði það; „alternative fact.“ Orð sem að mínum dómi var snilldarlega vel þýtt yfir á íslensku sem „sannlíki“.

Ástandið er ekki mikið skárra hinum megin Atlantshafsins. Forseti Rússlands þrætti fyrir að Rússar kæmu á nokkurn hátt nálægt kolólöglegri innlimun Krímskagans eða vopnaskakinu í austurhluta Úkraínu á sama tíma og úkraínski herinn var að handtaka rússneska hermenn í stórum stíl í bardögum innan landamæra Úkraínu. Það er semsagt beinlínis hægt að ráðast með her inn í nágrannaríki og þræta fyrir það.

Og í Tyrklandi er forseti sem kallar Hollendinga fasista fyrir að leyfa ekki að þangað sé farið til að reka áróður fyrir því meðal tyrkneskra kjósenda í Hollandi að stjórnarskrá Tyrklands verði breytt á þann veg að Tyrkland verði í allri praktískri merkingu þess orðs einræðisríki. Og ekki bara það. Hollendingar eru líka sekir um kynþáttahyggju að mati Tyrklandsforseta, væntanlega af því að Tyrkir í Hollandi njóta réttinda sem Tyrkjum dettur ekki í hug að leyfa tyrkneskum Kúrdum að njóta þótt þeir séu bornir og barnfæddir í Tyrklandi. Og í sömu viku og forseti Tyrklands, lands sem neitar að gangast við þjóðarmorðum sínum á Armenum fyrir um hundrað árum, kallar Hollendinga nasista höfnuðu Hollendingar flokki nýnasista í þingkosningum.

Lygi er sannleikur

Eftirstaðreyndatímabilið: Sannleikurinn er það sem hentar hverjum og einum. Og þó lygin sé himinhrópandi augljós þá er það skoðanakúgun að umgangast hana ekki eins og hún sé jafnrétthá sannleikanum og hlutdrægni að afhjúpa hana.

Lygin er sannleikur og sannleikurinn er lygi.

Það þarf engan að undra að skáldsaga Georges Orwells, 1984, komi upp í hugann: Stríð er friður. Þrældómur er frelsi. Fáfræði er styrkur.

Við sjáum meira að segja merki þess að „newspeak“ – tungumál fasistastjórnarinnar í þeirri skáldsögu – sé að ryðja sér til rúms í fjölmiðlum. Við heyrum kynþáttahatur og kvenfyrirlitningu kallaða „óhefðbundna orðræðu“. Við heyrum okkar eigin stjórnmálamenn jafnvel kalla grímulausa hatursorðræðu erlendra þjóðarleiðtoga „áhyggjuefni“ eins og ástæðulaust sé að taka dýpra í árinni. Fyrir stuttu var sagt um stjórnmálamann sem nýtur opinbers stuðnings Ku Klux Klan, hefur gert yfirlýstan nýnasista að sínum helsta ráðgjafa, hvatt til ofbeldis gegn minnihlutahópum og hæðst að fötluðum að hann sé „ekki óumdeildur“ í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins.

Normalísering hins óásættanlega er í fullum gangi allt í kringum okkur og hún gengur vel.

Afstæði sannleikans

Jesús Kristur talaði ekki „newspeak“. Og hann var ekki póstmódernisti. Hann talaði tæpitungulaust mannamál og fyrir honum var sannleikurinn klipptur og skorinn. Allir textar dagsins lúta að því. Boðorðin eru skýr. Þar segir ekki: „Þú ættir ekki nema undir kringumstæðum þar sem það er félagslega og menningarlega viðurkennt að …“ Nei, þar segir: „Þú skalt ekki …“ Þar er ekkert óljóst. Rétt er rétt og rangt er rangt. Gott og illt eru skýrar og raunverulegar andstæður, ekki afstæð hugtök í einhverju háloftablaðri. Enginn manipúlerar sannleikann til að vera það sem hentar honum. Hann er ekkert túlkunaratriði. Sannleikurinn er sannleikur og lygin er ekki sannlíki eða hliðstæð staðreynd … hún er lygi.

Jesús sýnir oft á sér geðþekkari og hlýlegri hliðar en hann gerir í guðspjalli dagsins. En hann var sannur maður; sannur Guð sem stakk sér á bólakaf í hið mannlega hlutskipti með öllu sem það inniber, þar með talið allri tilfinningaflóru mannlegrar tilvistar. Jesús grætur og Jesús reiðist. „Manni“ getur jú sárnað – segir máltækið. Öll höfum við átt stundir þar sem okkur hefur þótt meiri ástæða til að hvæsa en mala.

„Hví skiljið þér ekki mál mitt?“ spyr Jesús viðmælendur sína og svarar spurningunni sjáfur: „Af því að þér getið ekki hlustað á orð mitt.“ – Það rúmast ekki innan sápukúlunnar ykkar. Algóryþminn ykkar útilokar ykkur frá því.

Satan sjálfur

Ykkur kann að finnast ég fara eins og köttur í kringum heitan graut að hafa ekki minnst einu orði á fílinn í borðstofunni; orðið í textanum sem hoppar á okkur og kynni jafnvel að yfirskyggja merkingu textans vegna þess hvað það stuðar okkur, hvað það snertir okkur óþægilega. Orðið sem kemur bæði fyrir í pistlinum og guðspjallinu: Djöfullinn / Satan.

„Þeir eru samkunda Satans“ segir í pistlinum og í guðspjallinu hreytir Jesús í viðmælendur sína: „Þér eigið djöfulinn að föður.“

Við ykkur sem eruð að hugsa: „Ætlar maðurinn ekki að minnast einu orði á andskotann?“ vil ég segja: Ég hef ekki talað um annað alla þessa prédikun.

„Hann hefur aldrei þekkt sannleikann því í honum finnst enginn sannleikur. Þegar hann lýgur fer hann að eðli sínu því hann er lygari og lyginnar faðir.“ Allt sem ég hef verið að segja persónugerist í Kölska.

Við gætum umorðað þetta: „Hann hefur aldrei þekkt sannleikann því fyrir honum er sannleikurinn afstæður. Þegar hann býr til sínar eigin staðreyndir jafnóðum fer hann að eðli sínu því hann er ófær um að greina mun á réttu og röngu og segir því það sem hentar honum hverju sinni.“

Ef við viljum

Við getum – ef við viljum – talað „newspeak“ þar sem ekkert orð er fyrir Guð og þarafleiðandi er óþarfi að eiga orð yfir andstæðu hans, djöfulinn. Þar sem mannhatur og illska er ekki mannhatur og illska heldur „óhefðbundin orðræða“. Þar sem kvenfyrirlitning og kynþáttahatur gerir menn í versta falli „ekki óumdeilda“. Þar sem sannlíki og hliðstæðar staðreyndir hafa sama tilverurétt og sannleikur og raunverulegar staðreyndir. Og við getum kallað það tímabil mannkynssögunnar „eftirstaðreyndatímabilið“ ef við viljum.

En Jesús Kristur hefði ekki gert það. Hann hefði kallað það sínu rétta nafni: „Öld lyginnar.“

Við getum tekið þátt í þessu. Það væri á flestan hátt þægilegra fyrir okkur.

En við getum ekki bæði tekið þátt í því að innleiða öld lyginnar og talið okkur trú um að við séum kristnar manneskjur, að við séum að leitast við að hafa Jesú Krist að leiðtoga lífs okkar.

Það er nefnilega ekki Guð sem er faðir lyginnar.

Það er annar.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 19. mars 2017.

Read Full Post »

Guðspjall: Þeir komu til Jeríkó. Og þegar Jesús fór út úr borginni ásamt lærisveinum sínum og miklum mannfjölda sat þar við veginn Bartímeus, sonur Tímeusar, blindur beiningamaður. Þegar hann heyrði að þar færi Jesús frá Nasaret tók hann að hrópa: „Sonur Davíðs, Jesús, miskunna þú mér!“ Margir höstuðu á hann að hann þegði en hann hrópaði því meir: „Sonur Davíðs, miskunna þú mér!“ Jesús nam staðar og sagði: „Kallið á hann.“ Þeir kalla á blinda manninn og segja við hann: „Vertu hughraustur, statt upp, hann kallar á þig.“ Blindi maðurinn kastaði frá sér yfirhöfn sinni, spratt á fætur og kom til Jesú. Jesús spurði hann: „Hvað vilt þú að ég geri fyrir þig?“ Blindi maðurinn svaraði honum: „Rabbúní, að ég fái aftur sjón.“ Jesús sagði við hann: „Far þú, trú þín hefur bjargað þér.“ Jafnskjótt fékk hann sjónina og fylgdi honum á ferðinni. (Mrk 10.46-52)

bartímeus

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Múslimir líta svo á að þýðingar á Kóraninum séu ekki Guðs orð, heldur aðeins þýðing þess. Þannig er arabíska í þeirra huga móðurmál Guðs, ef svo má segja. Færa má góð rök fyrir því að þetta sé skynsamlegt. Öll þýðing er nefnilega túlkun. Þótt orð eigi sér kannski beinar og augljósar þýðingar er merking þeirra og notkun í málinu mjög oft alls ekki fyllilega hliðstæð.

Aðeins Íslendingar myndu, svo dæmi sé tekið, nota orðið „rassgat“ um krúttlega krakka. Bókstafleg þýðing á slíku tali yfir á erlend tungumál myndi undantekningalaust valda misskilningi og í raun alls ekki vera þýðing merkingarinnar heldur beinlínis afskræming hennar.

Þrengsta merkingin

Orðið „sonur“ í tungumálum ritningarinnar – „ben“ á hebresku, „huios“ á grísku og „bar“ á arameísku sem var móðurmál Jesú – hafði til dæmis mun víðari merkingu en orðið „sonur“ hefur í íslensku. Grikkir kölluðu þjóna „syni“ og þar sem það er augljóslega merkingin er „huios“ ekki þýtt „sonur“ heldur „þjónn“ í Nýja testamentinu. Í hebresku er merkingin jafnvel enn víðari. Orðið „auðmaður“ á hebresku væri bókstaflega þýtt „sonur auðsins“ og orðið „lygari“ „sonur lyginnar“. Við myndum nota orðin „auðmaður“ og „lygamörður“, ekki „auðssonur“ og „lygasonur“ eins og hebrear gerðu til forna. Þannig er „sonur“ í fornhebresku aðeins bundinn einhverri óljósri skuldbindingu eða þjónustu við orðið sem skeytt er við það.

Þetta kallar auðvitað á hugleiðingar um það hvað „sonur Guðs“ merkir í raun og veru og jafnvel „mannssonurinn“ ef út í það er farið… en þær eru ekki efni þessarar prédikunar.

Ég nefni þetta vegna þess að mig langar að velta vöngum yfir því hvað „sonur Tímeusar“ merkir raunverulega. Nafnið Bartímeus er nefnilega ákveðinn bastarður. Arameíska orðinu „bar“ sem merkir „sonur“ er skeytt framan við gríska karlmannsnafnið „Tímeus“. Ég held að þetta skipti máli til að skilja guðspjall dagsins, því það er óneitanlega athyglisvert að blindi beiningamaðurinn í sögunni skuli vera nafngreindur. Jesús læknar fjöldann allan af blindu, lömuðu, holdsveiku og öðru fötluðu og sjúku fólki og sjaldnast er ástæða til að nafngreina það eins og hér er gert. Það hlýtur að merkja eitthvað.

Var sá blindi kannski þjónn Tímeusar eða lærisveinn hans?

Guð Tímeusar

En hver var þá Tímeus?

Nú er ég ekki heimspekimenntaður og ekki til þess fallinn að skýra frá kenningum Platons og ritsmíðum hans á þann hátt að það standist akademískar kröfur. En Tímeus er persóna í samnefndri ritsmíð eftir Platon sem hafði gríðarmikil áhrif á guðs- og heimsmynd fornaldar. Sú mynd er ólík þeirri sem Jesús Kristur boðaði og varðar – án þess að ég geti farið út í það af einhverri djúpri þekkingu – háleitar hugmyndir um alheimssál og fjarlægan, ópersónulegan skapara. Einhvers konar deiskar eða panþeískar hugmyndir ef það útskýrir eitthvað.

Kannski sat Tímeusarsinninn í vegarkantinum, blindaður af kenningum meistara síns sem gera alls ekki ráð fyrir lífrænu sambandi, hvað þá samtali við persónulegan Guð sem kemur inn í líf mannsins.

Allir ritningartextar dagsins fjalla um samtal við Guð. Í lexíunni krefur Móse, hnarreistur og sperrtur, Guð um svör. „Skýrðu mér frá vegum þínum,“ hrópar hann. Í pistlinum sjáum við aðra mynd, Jesús biðst fyrir í auðmýkt „með sárum andvörpum og tárum“.

Og í guðspjallinu svarar Guð, sem gerst hafði maður, örvæntingarfullu kalli manns  sem ekki aðeins hafði lokað sig af frá því að eiga samband við Guð heldur var blindaður af þeirri kaldranalegu heimsmynd að það væri ekki hægt. „Miskunna þú mér,“ hrópar hann, sligaður af tilgangsleysinu í heiminum sem hann hafði smíðað í kringum sig með kenningum sínum. „Miskunna þú mér. Gefðu mér ástæðu til að fara fram úr á morgnana. Segðu mér að lífið sé meira og stærra en þetta.“

Og Jesús spyr hann: „Hvað viltu að ég geri fyrir þig?“

Spurningin kann að virðast heimskuleg. Eins og það liggi ekki í augum uppi. En Jesús varð að spyrja því Bartímeus varð að segja það. Hann varð að biðja um hjálp. Annað hefði verið óumbeðið inngrip í líf Bartímeusar. Jesús gerist nefnilega ekki boðflenna í lífi nokkurs manns. Það þarf að rétta út hönd og biðja um hjálp.

Þegar við tölum um Guð

Tungumálið er vandmeðfarið, ekki síst þegar við tölum um Guð. Ekkert er eins og Guð og því er allt sem við segjum um Guð líkingamál. Guð er auðvitað ekki konungur. Hann er kallaður konungur af því að við tengjum konung við vald og mátt. Til að undirbyggja myndina eru jafnvel himneskir herskarar hafðir í kringum hann eins og hirð. Guð er ekki heldur fjárhirðir eins og hann er kallaður í 23. Davíðssálmi, arnarmóðir sem sveimar yfir hreiðri sínu, ungamamma sem skýlir ungunum undir vængjum sínum eða fæðandi móðir … allt myndir sem við sjáum í Biblíunni.

Og Guð er ekki faðir okkar nema í óeiginlegri, andlegri merkingu. Við köllum hann föður og tengjum það við skilyrðislausan kærleika hans og umhyggju. En hann kennir okkur ekki að hjóla, lánar okkur bílinn eða gengst í ábyrgð fyrir láni fyrir okkur – svo ég nefni eitthvað sem ég tengi við föðurhlutverkið.

Allar líkingar okkar um Guð brotna nefnilega á endanum. Enga þeirra er hægt að halda áfram með endalaust, engin þeirra er fullkomin. Þeim er ætlað að hjálpa okkur til nálgast Guð, að öðlast einhvern skilning á hinu óskiljanlega, að henda reiður á því sem er of háleitt og mikilfenglegt til að við getum meðtekið það. Að nota orð sem við þekkjum og myndir sem við skiljum til að öðlast guðsmynd sem við getum lotið í trú.

En líkingarnar okkar geta líka þvælst fyrir okkur. Ef við nú erum svo ólánsöm að tengja ekki hugtakið „faðir“ við kærleika og vernd heldur við misnotkun og ofbeldi þá er föðurlíkingin ekki til gagns heldur ógagns. Þá greiðir hún ekki götu okkar að nánd við miskunnsaman og kærleiksríkan Guð heldur er hún farartálmi á þeirri leið.

Að játa dogmatík

Við fórum ekki með hina postullegu trúarjátningu okkar hér áðan eins og alla jafna er gert í messum, heldur játuðum trú okkar í sátt og friði í þögulli íhugun. Mig langaði nefnilega til að vekja ykkur til umhugsunar. Þið sem söknuðuð trúarjátningarinnar, hvers söknuðuð þið? Var það „getinn af heilögum anda“? Var það „steig niður til heljar“? Var það „mun þaðan koma að dæma lifendur og dauða“? Var það kannski þetta allt og meira til?

Trúarjátningin okkar er nefnilega í raun aðeins fjögur orð: „Ég trúi á Guð.“ Strax í fimmta orði byrjar dogmatíkin: „… föður“. Og síðan: „… almáttugan.“ Og svo framvegis.

Þetta er gallinn við dogmatíkina; trúarkenningarnar okkar og útlistanirnar. Hún er eðli sínu samkvæmt ekki opinn og útbreiddur faðmur heldur nálarauga. Hún greinir frá því í smáatriðum hverju við trúum og hverju á að trúa og ef eitthvað af því stendur í þér áttu ekki samleið með okkur hinum.

Þannig getur hún skilgreint okkur hvert frá öðru.

En Jesús sagði ekki við Bartímeus blinda: „Dogmatík þín hefur bjargað þér.“

Hann sagði ekki: „Snilldarlegt líkingamál þitt um almættið og eðli þess sem dregur upp skýra og skiljanlega og í meginatriðum rétta mynd af sambandi Guðs og manns hefur bjargað þér.“

Nei. Hann sagði: „Trú þín hefur bjargað þér.“

Miskunna þú oss

„Miskunna þú mér,“ hrópaði blindi beiningamaðurinn.

Og enn þann dag í dag tökum við undir með honum og hrópum þetta í kirkjunni í upphafi hverrar messu: „Drottinn, miskunna þú oss.“ Kyrie eleison.

Gefðu okkur sjónina aftur.

Taktu frá okkur myrkur heimsmyndar þar sem þú ert fjarlægur og afskiptalaus og gefðu okkur sýn á raunveruleika þar sem þú er nálægur og lifandi og við getum átt persónulegt vitundarsamband við þig.

Vertu í lífi okkar svo við getum talað við þig. Hvort sem það er til að krefja þig svara þegar við botnum ekkert í því hver er vilji þinn, eins og Móses gerði í eyðimörkinni forðum, eða með sárum andvörpum og tárum til að fá huggun þegar þjáningin er að yfirbuga okkur eins og frelsari okkar gerði.

Og enn þann dag í dag spyr Jesús á móti: „Hvað viltu að ég geri fyrir þig?“

Og við verðum að svara.

Vissulega er engin bæn einlægari en steyttur hnefi til himins. En steyttur hnefi er ekki útrétt hönd. Við verðum að rétta út hönd og biðja um hjálp.

Við erum öll Bartímeus. Að minnsta kosti sá Bartímeus sem við sjáum í upphafi frásagnarinnar. Ef við réttum út hönd og biðjum um hjálp fáum við sjónina aftur. Trúin getur bjargað okkar.

Guðspjallstexti dagsins endar á því að Bartímeus fylgir Jesú á ferðinni. Þessi ferð er líf og starf kristins manns.

Spurningin er hvort við séum reiðubúin til að vera líka sá Bartímeus sem við sjáum í sögulok.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er enn og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 12. mars 2017.

Read Full Post »

(Andersson/Ulvæus/Anderson – þýð.: D. Þ. J.)

.

Stanslaust hún stígur dans;

stundarhlé hversdagsleikans.

Naumast að sú nýtur sín

nú þegar dansinn hvín.

.

Föstudagskvöld og lítið ljós.

Lífið kanna vill hugljúf drós.

Þar sem danslögin duna

dvelur meyjan stillt,

fýsir að finna pilt.

.

Hver það verður ei veit hún enn.

Það vísast kemur á daginn senn.

Ómi taktfastir tónar

tilveran er góð.

Svífur hún sæl og rjóð

um salarins geislaflóð …

.

… ávallt er dansinn hvín,

seiðandi eins og suðrænt vín.

Dansinn hvín.

Sjáðu hvað hún er sæt og fín.

Stanslaust hún stígur dans;

stundarhlé hversdagsleikans.

Naumast að sú nýtur sín

nú þegar dansinn hvín.

.

Hún er gella sem gumar þrá.

Girnd hún vekur, en engir fá.

Tekur einn við af öðrum,

engin krafa gerð.

Stúlku á fullri ferð

fegurri vart þú sérð …

.

… ávallt er dansinn hvín,

vekur þrótt eins og vítamín.

Dansinn hvín.

Væla fegurstu fíólín.

Stanslaust hún stígur dans;

stundarhlé hversdagsleikans.

Naumast að sú nýtur sín

nú þegar dansinn hvín.

Dýrlegur dansinn hvín.

Read Full Post »

Ég les mjög mikið og hef yndi af lestri góðra bóka. Það heyrir til algerra undantekninga ef ekki er bók á náttborðinu mínu sem ég er að pæla mig í gegn um. Sumar bækur les ég aftur og aftur, s.s. bækur eftir Douglas Adams, Terry Pratchett og John Wyndham. Ég hef líka gaman af alþýðlegum fræðibókum um áhugasvið mín, s.s. bókum Karenar Armstrongs og Bills Brysons.

Ég gef mig þó alls ekki út fyrir að vera alæta á bókmenntir. Til dæmis er ég búinn að fá upp í kok af krimmum. Ég hef lesið þá marga og þetta er orðið gott. Einnig finnast mér ævisögur yfirleitt óáhugaverðar. Ævisögur Ingridar Bergmans og Charlies Chaplins þóttu mér þó skemmtilegar. Núorðið sneiði ég þó yfirleitt hjá ævisögum, nema þeim mun meira hafi verið mælt með þeim við mig af fólki sem ég tek mark á. Ég tek ekki mark á opinberum álitsgjöfum og menningarvitum af því að ég hef rekið mig á að þeir snobba fyrir því sem mér finnst bara vera ömurleg leiðindi.

Stundum gríp ég í nýjar fagurbókmenntir. Það gerist þó æ sjaldnar af því að mér finnst þær yfirleitt leiðinlegur og húmorslaus sósíalrealismi. Nú er ekkert að sósíalrealisma. Salka Valka er sósíalrealismi, en frásögnin er svo meinhæðin að unun er að. Sósíalrealismi þarf ekki að vera leiðinlegur og húmorslaus.

Ég tek svo sannarlega ekki mark á Bókmenntaverðlaunum Norðurlandaráðs.

Gyrði Elíasson hef ég nefnilega reynt að lesa. Hann hefur heillandi stíl og magnaða frásagnarhæfileika. En þegar ég les Gyrði fer mér eftir svona hálftíma að verða þungt um andardrátt, ég fyllist dofa og fæ einkenni þunglyndis. Þá rennur upp fyrir mér að það er út af bókinni sem ég er að lesa. Gyrðir segir svo vel frá að það tekur mig yfirleitt þennan tíma að gera mér grein fyrir því að það sem hann er að segja frá er drepleiðinlegt. Það gerist ekkert.

Nýlega lagði ég svo í annan verðlaunahafa Norðurlandaráðs, Sofie Oksanen. Bókin heitir Hreinsun og hefur verið hampað ógurlega: „Hreinsun er líklega merkilegasta skáldverkið sem kemur á markað í ár … hvalreki öllum sem vilja næra sig með mikilvægri og brýnni sögusmíð. Hreinsun verða allir að lesa sér til gagns.” (Páll Baldvin Baldvinsson / Fréttatíminn) „… gríðarlega merkileg bók og góð skáldsaga … Sálfræðitryllir.“ (Þorgerður E. Sigurðardóttir / Kiljan) og „Hún hefur slíkar víddir þessi skáldsaga að það er ekki hægt annað en vera gríðarlega hrifinn af henni. Þetta er alger snilldarbók … ofboðslega góð skáldsaga.“ (Egill Helgason / Kiljan).

Þeim mun meiri urðu vonbrigði mín þegar rann upp fyrir mér ljós við lesturinn að bókin er algjört drasl. Þetta er ekki bara vond og leiðinleg bók. Hún er beinlínis léleg. Þetta er illa skrifaður, húmorslaus sósíalrealismi, subbulegt eymdarklám í dulargervi fagurbókmennta, Lilya Forever á sterum.

Persónusköpun Sofie Oksanen er þannig að konurnar eru fórnarlömb og karlarnir eru vondir. Í bókinni er ekki einn einasti karlmaður með snefil af mannkostum. Þeir sem ekki eru ofbeldismenn og nauðgarar eru fyllibyttur og aumingjar. Ljótu karlarnir eru meira að segja með „brundkleprana í punghárunum“, afsakið orðbragðið. Já, persónusköpunin ristir nákvæmlega svona grunnt og er svona tvívíð, hún er nákvæmlega svona ítarleg og laus við listfengi. Sofie Oksanen hefur sem rithöfundur ekki getu til að átta sig á því að hægt er að vera miklu grófari með fáguðu orðbragði og valdi á blæbrigðum tungunnar heldur en með sorakjafti. Það vantar bara að illmenni bókarinnar séu með ör þvert yfir andlitið eins og hjá Enid Blyton. Reyndar gæti Sofie Oksanen lært sitthvað af þessari ensku kynsystur sinni um fjölbreytt og trúverðugt persónugallerí.

Í bókinni dúkkar ekki heldur upp eins einasta kona sem ekki er fórnarlamb vondra eða lélegra manna. Önnur aðalpersónan, gamla konan, á sér að vísu leyndarmál úr fortíðinni, en það er svo ófrumlegt og fyrirsjáanlegt að það kemur manni á óvart, þegar öll kurl eru komin til grafar, að ekkert skyldi koma manni þar á óvart. Sem sálfræðitryllir er þessi bók því á pari við Litla Kláus og Stóra Kláus.

Þegar upp er staðið eftir lestur bókarinnar er manni því efst í huga, fyrir utan léttinn að vera kominn í gegn um þennan skítahaug, hið gríðarlega oflof sem þessi ritsmíð hefur hlotið. Hvað veldur? Ef norrænum menningarvitum verður það á að kíma við lestur bókar, fyrirverða þeir sig þá og leggja bókina frá sér sem eitthvað léttmeti sem sé fyrir neðan virðingu þeirra að eyða tíma í? Eða eru þeir þjakaðir af bókmenntalegri sjálfspíslarhvöt? Eru þeir að refsa sér með lestri bóka? Er líf þeirra svo áreynslulaust og áferðarfallegt að í hvert skipti sem nógu mikið ógeð rekur á fjörur þeirra er eins og þeir hafi himin höndum tekið? Er lesturinn yfirbótaverk? Er Hollywood með einkarétt á fegurð og hamingju og því geti ekkert af því tagi mögulega skotið upp kollinum í „alvöru“ bókmenntum?

Já, heimurinn er ljótur og í honum gerist margt slæmt. Það má alveg skrifa um það. Ég er meira að segja til í að taka það með mér upp í rúm á kvöldin og lesa það. En þá leyfi ég mér líka að gera þá kröfu til rithöfundarins að hann matreiði það þannig að þar sé eitthvað nýtt, einhver óvænt flétta, frumlegur og óvenjulegur sögumaður eða frásagnarháttur og málfar sem bera þess merki að þar haldi á penna einstaklingur með fullkomið vald á stílvopninu. Undir þeirri kröfu rís Sofie Oksanen ekki.

Read Full Post »

Nýverið kallaði stjórnmálamaður annan stjórnmálamann fasistabelju. Ummælin vöktu af einhverjum ástæðum athygli. Ýmsum þótti sem þarna kvæði við nýjan tón í pólitískri umræðu rétt eins og góð og gegn níðyrði á borð við „gunga“, „drusla“ og „skítlegt eðli“ og ljót orðasull á borð við „afturhaldskommatittur“ hafi aldrei heyrst úr þessum ranni áður. Staðreyndin er auðvitað sú að fólk er löngu orðið vant því að íslenskir stjórnmálamenn tali eins og óvenju orðljót börn og er hætt að kippa sér upp við það. Verra er þó að fólk virðist vera orðið samdauna þessu og nánast farið að telja orðfæri af þessu tagi eðlilegt á vettvangi stjórnmálanna. Einkum er þetta slæmt vegna þess að það kemur í veg fyrir að sú áhugaverða mannfræðipæling sé tekin til umræðu hvort barnalegasta fólk á Íslandi veljist í pólitík eða hvort það sé pólitíkin sem geri heilbrigt fólk svona barnalegt.

Skv. Íslenskri orðabók er fasismi „þjóðernissinnuð stjórnmálastefna“ sem m.a. er „andstæð lýðræðisskipan“ og „með áherslu á forræði ríkisins og öflugs leiðtoga þess með miklu lögregluvaldi á öllum sviðum.“ Þetta er skemmtilegt vegna þess að þingmaðurinn, sem lét orðið falla, sagði einmitt á sínum tíma skilið við lýðræðislega grasrótarhreyfingu, sem hann var kjörinn á þing til að sitja fyrir, til að ganga til liðs við þá stjórnmálahreyfingu þar sem andstaðan er hve einörðust við að þjóðin fái sjálf að ráða fram úr helsta málefninu sem varðar framtíð hennar. Nýi flokkurinn er auk þess afar hlynntur forræði ríkisins á mörgum sviðum og auknu eftirliti, t.d. með fjölmiðlum og veraldarvefnum. Hér mætti því láta gamminn geysa um flísar og bjálka, grjót og glerhús, en ég ætla að láta það ógert.

Þess í stað langar mig að taka upp hanskann fyrir blessaðar kýrnar. Staðreyndin er nefnilega sú að erfitt er að benda á nokkra lífveru sem er lausari við fasískar tilhneigingar en blessuð kýrin. Göfugari og meinlausari rólyndisskepna er varla til. Kýr sletta úr klaufunum einu sinni á ári og þá af einskærum fögnuði yfir því að fá að njóta sólarblíðu og útiveru. Í minni sveit var tvennt sem stappaði nærri guðlasti að bölva; sólin og kýrnar.

Orðið lýsir því algerri vanþekkingu, bæði á fasisma og kúm. Þær eiga betra skilið, blessaðar skepnurnar, en að vera kenndar við fasisma, hvað þá að vera líkt við íslenskan stjórnmálamann.

Read Full Post »

Ömmur mínar voru afar ólíkar. Önnur var fín frú í Reykjavík sem átti það til að fornemast ógurlega, en sjálf gætti hún þess að sénera aldrei nokkurn mann. Amma í sveitinni fæddist aftur á móti á Fljótsdalshéraði aldamótaárið 1900 og átti það til að fussa og sveia yfir því sem henni fannst lítið vet. Afi í sveitinni, sem alist hafði upp á Barðaströndinni, habbði hins vegar litlar áhyggur og saggði mér oft sögur.
Um allt þetta fólk þótti mér og þykir enn óskaplega vænt þótt það sé nú farið yfir móðuna miklu. Óaðskiljanlegur hluti minningar þeirra og persónu var talsmáti þeirra, orðaforði og málsnið. Ég held að það hafi gert mér gott að alast upp við ólíkan framburð og málfar kynslóða sem nú hafa kvatt. Ég tel það hafa skerpt og eflt tilfinningu mína fyrir móðurmáli mínu. Það eitt að á Hringbrautinni var farið niður á milli hæða en á Stóru-Fellsöxl var farið ofan, varð mér ungum tilefni til heilabrota.
Í síðustu tveim pistlum mínum hef ég ráðist harkalega á norðlenskan framburð, kallað hann hljóðvillu og fært sýndarrök fyrir því að hann sé rangur. Viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa. Fullyrt var að norðlenskur framburður væri fallegur og festulegur, eins og fegurð og festuleiki geti ekki verið smekksatriði, og að hann sé réttur. Og af hverju er hann réttari en annar? Jú, af því að gömul kona úr Eyjafirði talaði þannig. Eru ömmur þá aðeins marktækur mælikvarði á fegurð og réttmæti íslenskuframburðar ef barnabörnin þeirra heita Valgerður, en ekki ef þau heita Davíð?
Sjálfur er ég af suðvesturhorninu og eðlilegur talandi minn ber þess vott. Gamlir karlar og kerlingar hafa hiklaust kallað hann rangan og ljótan í mín eyru, eins og það sé enginn dónaskapur. Það var því gaman að fylgjast með viðbrögðum þeirra þegar þau urðu sjálf fyrir barðinu á nákvæmlega sama hroka og yfirlæti og þau hafa alist upp við að eðlilegt sé að sýna því hvernig öðrum er eiginlegt að tala móðurmál sitt. Þeim sem hafa norðlenskan framburð virðist nefnilega hafa verið innrætt það frá frumbernsku að þeir tali fallegra og betra mál en aðrir. Fyrir því hafa þeir þó engin rök, aðeins einhverja hjartans sannfæringu.
Staðreyndin er sú að allar ömmur tala hljómfagra og litríka íslensku, ekki bara eyfirskar, heldur líka ömmur að austan og vestan. Já, og líka ömmur sem töluðu dönskuskotna reykvísku.

Bakþankar í Fréttablaðinu 21. 8.2010

Read Full Post »

Older Posts »