Feeds:
Færslur
Athugasemdir

asmundurÉg fékk mér bíl og fór að bíla

og braska og díla.

Sú vegalengd var milljón og ein míla

sem eins og píla

án þess að hvíla

ég sagðist þurfa sjálfan flytja mig.

 

En einhver skratti fór að skvíla

og skítafýla

gaus upp og góða fólkið tók að íla

og vola og víla.

Mér vildi skýla

enginn, því við allt ég fór á svig.

 

Og þannig var ég gerður Grýla

af gremju kríla,

sem bara var í pólitík að príla

og kviðinn kýla,

en kaus að stíla

reikninginn á ríkissjóð og þig.

 

Guðspjall: Þá leiddi andinn Jesú út í óbyggðina til þess að djöfullinn gæti freistað hans. Þar fastaði Jesús fjörutíu daga og fjörutíu nætur og var þá orðinn hungraður. Þá kom djöfullinn og sagði við hann: „Ef þú ert sonur Guðs þá bjóð þú að steinar þessir verði að brauðum.“ Jesús svaraði: „Ritað er: Eigi lifir maðurinn á einu saman brauði heldur á hverju því orði sem fram gengur af Guðs munni.“ Þá tekur djöfullinn Jesú með sér í borgina helgu, setur hann á brún musterisins og segir við hann: „Ef þú ert sonur Guðs þá kasta þér ofan því að ritað er: Hann mun fela þig englum sínum og þeir munu bera þig á höndum sér að þú steytir ekki fót þinn við steini.“ Jesús svaraði honum: „Aftur er ritað: Þú skalt ekki freista Drottins, Guðs þíns.“ Enn tekur djöfullinn hann með sér upp á ofurhátt fjall, sýnir honum öll ríki heims og dýrð þeirra og segir: „Allt þetta mun ég gefa þér ef þú fellur fram og tilbiður mig.“ En Jesús sagði við hann: „Vík brott, Satan! Ritað er: Drottin, Guð þinn, skalt þú tilbiðja og þjóna honum einum.“ Þá fór djöfullinn frá Jesú. Og englar komu og þjónuðu honum. (Matt 4.1-11)

satanNáð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Hver er Satan?

Þessi undarlega og hvimleiða persóna sem öðru hverju dúkkar upp á síðum hinnar helgu bókar og gengur undir ýmsum nöfnum? Í Biblíunni er hann oftast kallaður Satan eða djöfullinn. Stundum er talað um Belsebúb og ljóst að þar er átt við sama karakter. Á einum stað er hann kallaður freistarinn. Enda hefur höggormurinn í paradis, snákurinn, verið sameinaður þessari persónu, sennilega einkum vegna hlutverksins sem hann gegnir í frásögninni af aldingarðinum Eden, þar sem hann er vissulega í hlutverki freistarans.

Nafn djöfulsins

En hvað þýðir þetta allt saman?

Nafnið Satan – ef það er yfirhöfuð nafn – er hebreskt að uppruna og merkir andstæðingur eða mótstöðumaður og í Gamla testamentinu er það hvað eftir annað notað í þeirri merkingu, merkingu þar sem út í hött væri að þýða það Satan – eða öllu heldur láta það standa óþýtt sem „satan“. Höfðingjar Filista óttast að Davíð konungur snúist gegn þeim og það er orðað þannig að hann skuli ekki komast upp með að gerast „satan“ þeirra. Í Fyrri Konungabók segir að Drottinn hafi vakið Salómon upp „satan“ og að Resón Eljadason hafi verið „satan“ Ísraels á meðan Salómon lifði. Hvernig varð venjulegt nafnorð sem aðeins merkir „andstæðingur“ að sérnafni persónu sem er höfuðandstæðingur Guðs? Hvernig skapaðist sú hefð að þýða ekki þetta orð heldur láta það standa óþýtt eins og sérnafn á handvöldum stöðum í Biblíunni?

Og hvernig fékk þessi persóna nöfnin djöfullinn, andskotinn og jafnvel kölski?

Orðið djöfull er íslenskun gríska orðsins „diabolos“, myndað af forsetningunni „dia“ sem merkir „gegn“ eða „á móti“ og sögninni „boleo“ sem merkir að kasta. Diabolos er þannig þýðing hebreska orðsins satan, sá sem kastar einhverju gegn þér, og bókstafleg íslensk þýðing þess er „and-skoti“. Orðið diabolos hafði í grísku þessa tíma aftur á móti merkinguna „spottari“, „lygari“ eða „rógtunga“ í daglegu tali og er til dæmis notað í þeirri merkingu í Síðara Tímóteusarbréfi. Í forníslensku var til lýsingarorðið „kölsugur“ sem merkti „spottgjarn“, en það er álitið liggja að baki orðinu „kölski“.

Hlutverk djöfulsins

En það er alveg ljóst að Satan er ekki bara einhver óvinur úti í bæ. Hann er sjálfstæð vera, fallinn engill með horn og hala, erkióvinur Guðs og alls sem gott er og höfðingi helvítis. Er það ekki annars?

Nei, reyndar ekki. Hvergi í Biblíunni er dregin upp sú mynd af honum. Hann hefur enga tengingu við dauðraríkið eða hlutskipti vondra manna eftir likamsdauðann. Það er síðari tíma uppfinning. Og ytra útlit hans, sem gerir hann að grískum satýr á sterum, með horn og hala og klaufir eins og blending af manni og geit … á sér enga stoð í heilgari ritningu, en er sennilega tilraun til að túlka hlutverk hans sem freistara myndrænt, enda var það hlutverk satýra að táldraga mennskar konur – ekki ólíkt því sem höggormurinn gerði við Evu.

Og ekki heldur svo ólíkt því sem hann reynir að gera við Jesú í guðspjalli dagsins, tæla hann til falls. Því það er það sem hann gerir. Hann er freistari, tælari og lygari. Í Jóhannesarguðspjalli segir um hann: „Hann … hefur aldrei þekkt sannleikann því í honum finnst enginn sannleikur. Þegar hann lýgur fer hann að eðli sínu því hann er lygari og lyginnar faðir.“

Freistingar Satans

Freistingarfrásagnirnar er að finna í öllum samstofna guðspjöllunum, hjá Matteusi, Markúsi og Lúkasi, nánast samhljóða hjá Matteusi og Lúkasi en Markús afgreiðir hana í einni setningu: „Þá knúði andinn hann út í óbyggðina og var hann í óbyggðinni fjörutíu daga og Satan freistaði hans.“ En jafnvel þar er það ljóst að einhver sem kallaður er Satan er að verki.

Freistingarnar eru þrjár. Að steinar verði að brauði, að misnota stöðu sína til sjálsfupphafningar og að tilbiðja djöfulinn: Auður, völd og að snúa baki við sannleikanum.

En í þessu ljósi er áhugavert að bera saman freistingarfrásagnir Jóhannesarguðspjalls við hinar.

Í Jóhannesarguðspjalli er Jesú nefnilega sannarlega freistað, meira að segja með nákvæmlega nákvæmlega sömu freistingum. Munurinn er sá að hjá Jóhannesi er djöfullinn ekki að verki, heldur taka menn að sér hlutverk freistarans. Matteus og Lúkas sýna Satan bjóða Jesú völd, en í Jóhannesarguðspjalli stendur Jesús frammi fyrir sömu freistingu þegar á að „taka hann með valdi til að gera hann að konungi.“ Matteus og Lúkas sýna Satan mana Jesú til að gera eigingjarnt kraftaverk og sýna mátt sinn með því að breyta steinum í brauð. Í Jóhannesarguðspjalli manar fólkið Jesú til að gera kraftaverk til að það trúi. Hjá Lúkasi og Matteusi svarar Jesús með þekktum ummælum um andlega næringu: „Eigi lifir maðurinn á einu saman brauði.“ Matteus lætur hann bæta við: „…heldur á hverju því orði sem fram gengur af Guðs munni.“ Í Jóhannesarguðspjalli svarar Jesús með ummælum um „hið sanna brauð“ sem „niður stígur af himni og gefur heiminum líf.“ Loks sýna Matteus og Lúkas Satan fara með Jesú til Jerúsalem, setja hann á brún musterisins og skora á hann að sýna yfirnáttúrulega hæfileika sína opinberlega. Í Jóhannesarguðspjalli eru það bræður Jesú, sem bregða sér í hlutverk freistarans, þegar þeir mana hann til að fara til Jerúsalem og verða alkunnur af kraftaverkum sínum.

Þannig birtist Satan ekki sem freistarinn í Jóhannesarguðspjalli heldur eru það vinir og jafnvel bræður Jesú sem taka að sér hlutverk hans.

Jesús og Satan

Jesús stendur nefnilega oft frammi fyrir freistaranum þótt hann birtist ekki alltaf í líki Satans. Hann segir meira að segja við besta vin sinn: „Vík frá mér, Satan.“

Já, hann kallar Pétur postula „Satan“ fimm versum eftir að hann hefur kallað hann klettinn sem hann muni reisa kirkju sína á. Er kletturinn sem kirkjan er reist á þá djöfullinn?

Tvítekning merkingar, svokallað hliðstæðurímer algengt stílbragð í Biblíunni. Þá er átt við að í fyrri hluta vers er fullyrðing sett fram sem síðan er hnykkt á eða endurtekin með öðru orðalagi í síðari hlutanum. Þetta stílbragð tekur gjarnan á sig þá mynd að torskiljanleg setning er útskýrð eða útfærð nánar í seinni hluta versins. Um það mætti nefna fjölda dæma.

Sömu aðferðafræði má beita á þetta ávarp Jesú. Í raun má segja að það sé útskýrt til fullnustu í næstu setningu á eftir: „Þú vilt bregða fæti fyrir mig. Eigi hugsar þú um það, sem Guðs er, heldur það, sem manna er.“

Pétur hafði beðið hann að fara ekki til Jerúsalem, að hlýða ekki vilja Guðs. Þess vegna kallar hann Pétur Satan. Ekki af því að Pétur hafi gerst myrkrahöfðingi í helvíti og yfirnáttúrulegur erkióvinur Guðs á himnum, heldur af því að hann setti sinn vilja ofar Guðs vilja.

En erum við þá ekki öll Satan?

Og svarið er: Jú.

Við erum Satan

Öll eigum við þær stundir þegar við breytum gegn betri vitund. Við værum ekki mannleg annars. Þegar eigingjarnri hvöt fylgir hugsunin: „Það þarf enginn að komast að þessu.“

Við erum ekki öll sek um stórtæka sviksemi, grófa misnotkun á fjármunum sem okkur er treyst fyrir svo stappar nærri fjárdrætti, pólitíska spillingu; að nota aðstöðu okkar til að skara eld að eigin köku á kostnað annarra eða annars konar trúnaðarsvik eða alvarleg tryggðarof. Sum okkar eru það. Það þarf ekki annað en að lesa blöðin eða horfa á sjónvarpsfréttir til að sjá það. En við erum öll fær um það. Og við þekkjum öll þessa rödd sem segir: „Láttu það eftir þér, gerðu það bara, það þarf enginn að komast að því, þú veist að þig langar til þess.“

Og sum okkar eiga það meira að segja til að vera þessi rödd í lífi annarra.

Við erum öll með rödd freistarans hljómandi í höfðinu á okkur … freistarans sem í Biblíunni er kallaður andstæðingurinn, yfirleitt með hebreska orðinu þeirrar merkingar, „Satan“ eða því gríska, „djöfull“, því þetta er rödd alls sem vinnur gegn framgangi sannleikans og náungakærleikans, grunnstoðum kristindómsins. Þetta eru farartálmarnir á veginum til guðsríkisins: Eigingirnin.

Gjafir Satans

Í Jóhannesarguðspjalli er djöfullinn í þrígang kallaður „höfðingi þessa heims“. Í freistingafrásögnum Matteusar og Lúkasar kemur fram sama mynd. Þar er gengið út frá því að hann geti boðið auð og völd. Slíkt sé hans að gefa. Enginn getur gefið það sem hann á ekki.

Og enn er það hans að gefa. Á öllum stundum segir hann við okkur, ýmist með okkar eigin munni eða fólksins í kringum okkur: „Öll þau veraldlegu gæði sem hugur þinn girnist gætu orðið þín ef þú bara lætur náungakærleikann og samhygðina lönd og leið og felur í staðinn allan þinn trúnað þeim öflum sem geta veitt þér þau.“ Ef þú fellur fram og tilbiður andstæðu … andstæðing Guðs.

Og svar Jesú er: „Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn en glata sálu sinni?“

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 18. 2. 2018

thornsGuðspjall: Nú var mikill fjöldi saman kominn og menn komu til Jesú úr hverri borg af annarri. Þá sagði hann þessa dæmisögu: „Sáðmaður gekk út að sá sæði sínu. Og þá er hann sáði féll sumt hjá götunni og varð fótum troðið og fuglar himins átu það upp. Sumt féll á klöpp. Það spratt en skrælnaði af því að það hafði ekki raka. Og sumt féll meðal þyrna og þyrnarnir spruttu einnig og kæfðu það. En sumt féll í góða jörð, óx upp og bar hundraðfaldan ávöxt.“ Að svo mæltu hrópaði Jesús: „Hver sem eyru hefur að heyra hann heyri.“ En lærisveinar hans spurðu Jesú hvað þessi dæmisaga þýddi. Hann sagði: „Ykkur er gefið að þekkja leynda dóma Guðs ríkis, hinir fá þá í dæmisögum að sjáandi sjái þeir ekki og heyrandi skilji þeir ekki. En dæmisagan þýðir þetta: Sæðið er Guðs orð. Það er féll hjá götunni merkir þá sem heyra orðið en síðan kemur djöfullinn og tekur það burt úr hjarta þeirra til þess að þeir trúi ekki og verði hólpnir. Það er féll á klöppina merkir þá sem taka orðinu með fögnuði er þeir heyra það en hafa enga rótfestu. Þeir trúa um stund en falla frá á reynslutíma. Það er féll meðal þyrna merkir þá er heyra en kafna síðan undir áhyggjum, auðæfum og nautnum lífsins og bera ekki þroskaðan ávöxt. En það er féll í góða jörð merkir þá sem heyra orðið og geyma það í göfugu, góðu hjarta og bera ávöxt með stöðuglyndi. (Lúk 8.4-15)

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Við höfum voðalega litla afsökun.

Hér áður fyrr var auðveldara að vera illa upplýstur, að vita lítið um umheiminn, gang veraldarinnar og framvindu sögunnar. Aðgangur að upplýsingum var tiltölulega lítill og fréttir stopular. Fjarlæg heimshorn og það sem þar átti sér stað var fullkomlega utan seilingar.

Þetta horfir öðruvísi við í dag. Við höfum aðgang að næstum því hverjum þeim upplýsingum sem við höfum áhuga á. Ekki öllum. Stundum eru þjóðarhagsmunir í húfi. Stundum eru mikilvæg mál, sem varða okkur, á því sem kallað er „viðkvæmt stig“ og því ótímabært að upplýsa nánar um þau að svo stöddu. Jafnvel getur borið svo við að viðskiptahagsmunir manna með mikil ítök séu í húfi og því sé jafnvel sett lögbann á upplýsingar þar að lútandi.

Óheftur aðgangur

En svona alla jafna er tvennu ólíku saman að jafna ef við berum okkur saman við ömmur okkar og afa, að ég tali nú ekki um langömmur okkar og langafa. Ef okkur vantar dægurlagatexta gúglum við hann bara. Við þurfum ekki að skrifa skáldinu sendibréf. Og ef við viljum vita hvað er að gerast í löndunum við Miðjarðarhafið núna þurfum við ekki annað en að kveikja á útvarpinu eða fara inn á fréttasíður á netinu.

Við höfum enga afsökun fyrir því að hafa asklok fyrir himin – eins og það er orðað – og ekki einu sinni þá að sum okkar þurfa sennilega að gúgla það hvað askur er til að byrja með, að ekki sé minnst á asklok. Lýsingarorðið „heimskur“ er að mínu mati afskaplega vel til fundið til að lýsa því hvað átt er við. Fyrri hlutinn er beinlínis orðið „heim“ og sá síðari er, skilst mér, dreginn af orðinu „elskur“. Sá sem elskar svo mikið að vera heima að hugur hans hvarflar varla út fyrir túngarðinn hjá honum er svo heimelskur að hann er beinlínis heimskur.

Við höfum frjálsan aðgang að slíku ógrynni upplýsinga, frétta og fróðleiks að við liggur að ef maður veit ekki eitthvað þá geti það ekki stafað af öðru en því að maður hefur engan áhuga á að vita það. Ef við erum ekki að glíma við vitsmunalegar eða andlegar hamlanir höfum við enga afsökun fyrir því að vera illa upplýst. Að vera heimskur eða ekki er í dag undantekningalítið frjálst val hvers og eins.

Engin afsökun fyrir heimsku

Við höfum til að mynda enga afsökun fyrir því að vita ekki að í fyrradag drukknuðu að minnsta kosti 90 manns þegar báti með flóttamönnum hvolfdi skammt undan ströndum Lýbíu. Við höfum ekki heldur neina afsökun fyrir því að vita ekki að í janúarmánuði drukknuðu að minnsta kosti 246 manns í Miðjarðarhafinu á flótta undan ömurlegum kringumstæðum í von um nýtt og betra líf í nýju landi. Við getum hneykslast á því að fólk stefni lífi sínu í tvísýnu með því að stíga upp í hin ýmsu manndrápsfley upp á von og óvon og borgi fyrir farið miklu meira en flugmiði myndi kosta. En við getum ekki látið eins og við vitum ekki að þessu fólki stendur ekki til boða öruggari ferðamáti og að örvænting þess er slík að hún knýr það til að taka þessa áhættu. Við getum ekki látið eins og víðtæk og skipulögð mannréttindabrot, ofbeldi og misnotkun flóttafólks í Lýbíu sé eitthvað leyndarmál.

Meirihluti þeirra sem reyna að komast yfir Miðjarðarhafið lifir tilraunina af. Af þeim 4300 sem reyndu í janúar drukknuðu aðeins um 17%. Hvað gerir manneskja sem er í helvíti, hefur engu að tapa og allt að vinna, frammi fyrir þeim líkum? Þau ríflega 4000 sem drukkna í Miðjarðarhafinu á flótta ár hvert að jafnaði nú um stundir eru ekki heimsk heldur örvæntingarfull. Og við höfum enga afsökun fyrir að gera okkur ekki grein fyrir því.

Við höfum enga afsökun fyrir því að vita ekki að um 60% íbúa Jemens, þess fjarlæga ríkis, um 17 milljónir manna, þjást af hungri vegna borgarastyrjaldar sem þar hefur geisað í á þriðja ár og kostað hefur um 10.000 manns lífið, meirhlutann börn.

Við höfum enga afsökun fyrir því að vita ekki Bandaríkjaher áformar um þessar mundir að framleiða smærri kjarnavopn en nú eru til staðar í vopnabúri hans. Þær sprengjur sem hann hefur nú til umráða eru víst svo stórar og klunnalegar að það er ekki hægt að nota þær nema í allsherjar kjarnorkustyrjöld. Herinn vantar handhægari og meðfærilegri kjarnorkusprengjur sem auðveldara er að komast upp með að beita. Þessar verða pínulitlar eða á stærð við þá sem varpað var á Nagasaki og drap aðeins 70.000 manns á einu augabragði.

Þetta er allt í fréttum. Við höfum enga afsökun fyrir að vera heimsk.

Sannleikurinn í skáldskapnum

Rithöfundar hafa oft og tíðum reynt að rýna í framtíðina og draga upp myndir af því sem þeir sjá fyrir sér. Vísindaskáldskapur fortíðarinnar hefur býsna oft reynst vera nýjasta tækni og vísindi samtímans. Og framtíðarhrollvekjur fortíðarinnar komast oft ansi nálægt því að lýsa samtímanum. Má þar nefna hryllilegar framtíðarsýnir skáldsagna á borð við 1984 eftir George Orwell og A Brave New World eftir Aldous Huxley sem nefnist Veröld ný og góð í íslenskri þýðingu Kristjáns Oddssonar.

Martraðarþjóðfélögin sem þeir sjá fyrir sér eru ólík. Orwell sér fyrir sér nokkuð dæmigert einræðis-fasistaríki þar sem upplýsingar eru ritskoðaðar og takmarkaðar, sögunni er ritstýrt og aðeins er pláss fyrir einn sannleik. Hættulegar bækur eru bannaðar.

Huxley sér fyrir sér skeytingarleysissamfélag. Samfélag þar sem ástæðulaust er að banna bækur því enginn nennir að lesa þær hvort sem er, samfélag sligað af ofgnótt afþreyingar og upplýsinga, þar sem sannleikurinn á sér ekki viðreisnar von í samkeppni við skrum og léttmeti.

Það er erfitt að gera það upp við sig hvor martröðin er skelfilegri. Það er hins vegar lítill vandi að mínum dómi að átta sig á því hvor þeirra er nær vestrænu nútímasamfélagi.

Guðs orð

Í dag segir Jesús okkur dæmisögu og hann útskýrir hana fyrir okkur á eftir: Sæðið er Guðs orð.

Guðs orð eru mörg.

Þau fylla þykka bók sem við köllum Biblíuna. Þar kennir margra grasa og ekki allt jafngáfulegt eða kærleiksríkt sem þar stendur, enda hlutar hennar lögbækur hirðingjaþjóðar frá bronsöld og aðrir sögulegt efni skrifað í pólitískum tilgangi – ritstjórn sögunnar.

Fáir hafa lesið þessa bók spjaldanna á milli. Enda er það í sjálfu sér óþarfi. Marteinn Lúther las eitt vers, Jóhannes 3.16, og kallaði það „Litlu Biblíuna“ af því að hann taldi það geyma efni bókarinnar í eins fáum orðum og knöppu formi og komist yrði. Litla Biblían hljóðar svo: „Því að svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.“

Að trúa á hann er að leitast við að hafa hann að leiðtoga lífs síns í verki. Ekki að játa hana á sunnudögum og láta þar við sitja. Að leitast við að hafa hann leiðtoga lífs síns er að gefa gaum að orðum hans og reyna að lifa samkvæmt þeim, sem í raun er aðeins þetta tvennt: Að elska Guð og náungann og koma fram við aðra eins og maður vill að komið sé fram við sig.

Þetta eru engin geimvísindi.

En af hverju er heimurinn þá eins og hann er? Af hverju yppa nafnkristnar þjóðir öxlum yfir eymd og neyð náungans og hafa miklu heitari skoðanir á því hvar megi selja áfengi og hverjir eigi að vera fulltrúar þjóðarinnar í söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva heldur en því hvernig ráða megi bót á þjáningum milljóna?

Ég er ekki að fordæma Eurovision. Ég hef sjálfur gaman af því. Ég er ekki heldur að gera lítið úr þeim lýðheilsu- og viðskiptafræðilegu sjónarmiðum sem takast á í umræðunni um áfengissölu. Ég er bara að reyna að setja hlutina í óbrjálað samhengi. Hver er ekki spenntari fyrir HM í Rússlandi heldur en þeim margvíslegu mannréttindabrotum og sýndarlýðræði sem þar tíðkast? Það er í mannlegu eðli.

Við erum nefnilega meðal þyrna.

Samtíðarhrollvekjan

Við heyrum en köfnum síðan undir áhyggjum, auðæfum og nautnum lífsins og berum ekki þroskaðan ávöxt. Kannski er þetta vers, Lúkas 8.14, Litla And-Biblían; nákvæmari framtíðarhrollvekja en þeir Orwell og Huxley sáu fyrir sér. Eða kannski er það nákvæmlega framtíðarhrollvekjan sem sá síðarnefndi dró upp í sinni mögnuðu skáldsögu.

Áhyggjur, auðævi og nautnir lífsins.

Óttinn er magnað stjórntæki. Enda er frelsisboðskapur kristindómsins þessi: Verið óhræddir. Á þessum boðskap er klifað. Fæðing frelsarans er boðuð með þessum orðum. Upprisa hans er tilkynnt með þessum orðum. „Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist,“ segir hann sjálfur.

En við erum ekki bara vöruð við óttanum.

Við erum líka vöruð við því að safna okkur veraldlegum fjársjóðum, við því að þjóna tveimur herrum. „Annað hvort hatar hann annan og elskar hinn eða þýðist annan og afrækir hinn.“ (Mt 6.24) „Hvar sem fjársjóður þinn er þar mun og hjarta þitt vera.“ (Mt. 6.21)

Kannski stafar okkur ekki mest ógn af því sem við óttumst.

Kannski stafar okkur ekki minni ógn af því sem við elskum.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er enn og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 4. 2. 2018

ummynduninGuðspjall: Eftir sex daga tekur Jesús með sér þá Pétur, Jakob og Jóhannes, bróður hans, og fer með þá upp á hátt fjall að þeir væru einir saman. Þar ummyndaðist hann fyrir augum þeirra, ásjóna hans skein sem sól og klæði hans urðu björt eins og ljós. Og Móse og Elía birtust þeim og voru þeir á tali við Jesú. Pétur tók til máls og sagði við Jesú: „Drottinn, gott er að við erum hér. Ef þú vilt skal ég gera hér þrjár tjaldbúðir, þér eina, Móse eina og Elía eina.“ Meðan Pétur var enn að tala skyggði yfir þá bjart ský og rödd úr skýinu sagði: „Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á. Hlýðið á hann!“ Þegar lærisveinarnir heyrðu þetta féllu þeir fram á ásjónur sínar og hræddust mjög. Jesús gekk til þeirra, snart þá og mælti: „Rísið upp og óttist ekki.“ En er þeir hófu upp augu sín sáu þeir engan nema Jesú einan. Á leiðinni ofan fjallið bauð Jesús þeim: „Segið engum frá sýninni fyrr en Mannssonurinn er risinn upp frá dauðum.“ (Matt 17.1-9)

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Í upphafi nýs árs glímum við texta úr Biblíunni sem varða tímamót. Þær stundir þegar okkur verður ljóst að hið liðna er að baki … það er búið … og að nýtt skeið er hafið, nýr raunveruleiki er kominn í stað þess gamla.

Síðasta sunnudag var það brúðkaupið í Kana, fyrsta táknið sem Jesús gerði samkvæmt frásögn guðspjallamannsins Jóhannesar og í dag er það sjálf ummyndunin á fjallinu. Hvort tveggja sögur sem eru hlaðnar táknum sem ætla má að enginn frumviðtakenda textans hafi verið ólæs á, hvað sem segja má um okkur – tvöþúsund árum síðar í allt öðrum heimshluta með allt annan menningararf og tilvísunarramma.

Vínguðinn Jesús

Jesús breytir vatni í vín. Hvað þýðir það? Hver gerir svoleiðis? Við þekkjum aðeins Jesú Krist. En í hinum helleníska menningarheimi fyrstu aldarinnar lá annað svar í augum uppi: Díónýsus. Vínguðinn sem Rómverjar kölluðu Bakkus.

Hann var tilbeðinn í miklum blótum þar sem vín flaut og ýmislegt annað var iðkað til að koma fólki í annarlegt ástand til að fjarlægja hömlur. Þeir sem jaðarsettir voru af samfélaginu – konur, þrælar og útlendingar – gátu fundið til frelsis og léttis á Díónýsusarblótum, fengið útrás fyrir þrár sínar og hvatir, án þess að eiga á hættu fordæmingu og útskúfun. Enda voru þau vinsæl.

En er Jesús þá vínguð? Já … í táknrænni merkingu. Við verðum að spyrja okkur hvað vínið tákni. Vínandinn kemur í veg fyrir að saftin skemmist. Lífrænt efni rotnar og eyðist, en áfengi varðveitir það. Þar sem lífrænn vefur er varðveittur og hafður til sýnir í krukkum flýtur hann jafnan í alkóhóli. Vínberjasafi hefur síðasta söludag, en vín verður bara betra með aldrinum.

Víngarðurinn – og afurð þess, vínið – eru klassísk tákn fyrir lýð Guðs í spámannsritum Gamla testamentisins. „Víngarður Drottins er Ísraels hús og Júdamenn ekran sem hann ann,“ (Jes 5.79) segir spámaðurinn Jesaja.

Hin tómu keröld

En kerin standa tóm. Andinn er urinn. Trúararfurinn er liðinn undir lok. Hann er fyrir bí. En þá kemur Jesús til skjalanna og fyllir kerin af miklu betra víni. Hann veitir veislugestum nýjan anda.

Við getum horft með vanþóknun á svallveislur Díónýsusarblótanna, en þau voru tilraun til brjótast undan hömlunum og höftunum og slíta af sér hlekkina sem öftruðu fólki frá því að lifa lífi sínu til fullnustu. Hedónísk, holdleg tilraun til þess … en á bak við hana er þráin eftir frelsi og sálarfró.

Í nýlegri kvikmynd frá Marvel samsteypunni um ævintýri ofurhetjunnar Þórs, sem fenginn er að láni úr norrænni goðafræði, er lítið samtal með mikið innihald. Þór hefur glatað hamrinum Mjölni og með honum mætti sínum. Hann gengur á fund Óðins alföður og ber sig aumlega og Óðinn spyr á móti: „Hver ert þú? Hamraguð?“ Og það rennur upp fyrir Þór að hann er ekki hamraguð heldur þrumuguð og að hamarinn var aldrei neitt annað en tákn afls og máttar.

Jesús er ekki vínguð … nema í þeim tilfellum þegar vínið er tákn fyrir líf í gnægðum og frelsi undan hinu þrúgandi oki dómsins: Tákn um nýjan anda.

Konungurinn Kristur

Og í dag er Jesús krýndur konungur á fjallinu og lögmálið og spámennirnir birtast holdgerðir í Móse og Elía sem afhenda honum trúararfinn. Aftur sömu skilaboðin: Arfurinn er upp urinn. Nýtt skeið er hafið.

Sagan er um konungskrýningu. Fjallið var helgur staður. Guð var á himnum og á fjallinu var maður næst honum. Það lá því beint við að þar væri guðkonungurinn krýndur. Í Davíðssálmum segir Guð: „Konung minn hef ég krýnt á Síon, mínu heilaga fjalli.“ (Slm 2.6) Í Babýlón stóð guðkonungurinn, sem rann saman við guðinn Mardúk, uppi á Ziggúratinu sem gnæfði yfir borginni. Og sagnaritarinn Jósefus greinir frá því að í fönísku borginni Týrus hafi konungurinn klæðst silfurskrúða sem ljómaði í sólskininu og fyllti lýðinn ótta og lotningu.

Hér er táknmálið auðskilið þeim sem talað er til þótt það kunni að fara framhjá okkur. Klæði Jesú verða björt sem ljós. Í frásögn Markúsarguðspjalls af þessum atburði segir meira að segja – til að leggja áherslu á hve hve björt klæðin urðu: „… og fær enginn bleikir á jörðu svo hvítt gjört.“ (Mark 9.3) Jesús verður með öðrum orðum að ójarðneskri birtu fyrir augunum á þeim – enda ríki hans ekki af þessum heimi.

Tjaldbúðirnar

En þótt boðskapurinn hafi ekki farið framhjá lesendum ritunartíma guðspjallsins fór hann auðvitað framhjá Pétri. Það er náttúrlega ekki einleikið hve Pétri, klettinum sem kirkjan er byggð á, er í lófa lagið að misskilja og bregðast. Kannski leggur það áherslu á það hve kirkjan er breysk sem mannlegt fyrirbæri þótt þjónusta hennar sé við hinn æðsta lífsins sannleika. Pétur vill auðvitað reisa þrjár tjaldbúðir á staðnum. Eina fyrir Jesú, aðra fyrir lögmálið og þá þriðju fyrir spámennina.

Lögmálið og spámennirnir hafa komið áður við sögu í þessu sama guðspjalli: „Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera. Því að þetta er lögmálið og spámennirnir,“ (Matt 7.12) segir Jesús. Og síðar segir hann: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum. Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð. Annað er hliðstætt þessu: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Á þessum tveimur boðorðum hvílir allt lögmálið og spámennirnir.“  (Matt 22.37-40) Lögmálið og spámennirnir: Komdu fram við aðra eins og þú vilt að komið sé fram við þig og elskaðu Guð og náungann. Þetta er kristindómurinn. Og þetta er lögmálið og spámennirnir. Þetta eru ekki þrjár tjaldbúðir heldur ein.

Og Jesús er tekinn við sem tjaldbúðastjóri.

Skírskotunin

Hin samfélagslega skírskotun til samtíma guðspjallamannsins er mikilvæg, þessi skilaboð um að hið trúarlega umboð hefðarinnar og trúarstofnananna sé úr sér gengið og það sé kominn nýr konungur, nýtt skeið sé hafið. Það er kominn nýr tjaldbúðastjóri og við eigum að hlýða á hann. Reglurnar hafa breyst.

Og sjálfsagt mætti heimfæra þann boðskap upp á samtíma okkar í hinum vestræna heimi á tuttugustuogfyrstu öldinni sem upp rennur frá fæðingu aðalsöguhetju þessarar frásagnar. Það er að morkna undan valdastoðum stofnana og gilda. Trúarstofnanir hafa æ minna vægi í trúarlífi einstaklinga. Traust almennings á stofnunum samfélagsins rénar jafnt og þétt. Ríkir, hvítir karlar standa hver af öðrum berstrípaðir og afhjúpaðir sem þeir siðblindu nautnafíklar sem þeir eru og hafa sennilega alltaf verið og vald þeirra og vægi er að renna þeim úr greipum eins og sandur á milli fingra þeirra.

Reglurnar hafa breyst.

Boðskapurinn

En boðskapurinn er líka persónulegur beint til þín og mín.

Þegar þitt sálarkerald stendur tómt og andinn er urinn, hver gefur þér þá nýjan anda? Þegar þú hefur brennt allar brýr að baki þér, kannski í taumlausum nautnadýrkandi Díonýsusardansi þar sem vínið stóð bara fyrir vín og víman var flótti frá ábyrgð og skyldum við Guð og náungann, kannski af öðrum orsökum sem ekki voru á þínu valdi. Þegar þú ert búinn á því. Hefst þá nýtt skeið eða ertu endanlega búinn að vera?

Ef þú hafðir vit á að bjóða Jesú þá breytir hann blávatninu í þínu sálarkeraldi í guðaveig sem aldrei forgengur heldur verður aðeins ljúffengari og betri með tímanum.

Tjaldbúðin er líf þitt. Hvaða ljós lýsir þar? Hvaða reglur gilda? „Hver er sjálfum sér næstur“ eða „Elskaðu Guð og náungann“? „Ég á þetta, ég má þetta“ eða „Komdu fram við aðra eins og þú vilt að komið sé fram við þig“?

Þegar við þurfum nýtt upphaf, nýjan anda, nýtt leiðarljós … þegar við verðum að horfast í augu við að vínið er búið, andinn er urinn, djammið er innantómt hark og sálarkeraldið eitt gapandi tóm … þá getum við leitað til Jesú, hlýtt á hann, gert hann að leiðtoga lífsins. Þá lýsir hann eins og sól inn í hjarta okkar, endurnýjar anda okkar og gefur okkur líf í gnægðum.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 21. janúar 2018

Guðspjall: Þá sagði Jesús þeim þessa dæmisögu: „Maður nokkur átti fíkjutré gróðursett í víngarði sínum. Hann kom og leitaði ávaxtar á því og fann ekki. Hann sagði þá við víngarðsmanninn: Í þrjú ár hef ég nú komið og leitað ávaxtar á fíkjutré þessu og ekki fundið. Högg það upp. Hví á það að vera engum til gagns? En hann svaraði honum: Herra, lát það standa enn þetta ár þar til ég hef grafið um það og borið að áburð. Má vera að það beri ávöxt síðan. Annars skaltu höggva það upp.“ (Lúk 8.6-9)

new-year-s-eve-in-reykjavikNáð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Gleðilegt nýtt ár.

Við áramót er vaninn að staldra við, líta yfir farinn veg og gera upp árið sem var að líða. Um leið er horft fram á veginn, jafnvel í spámannlegum stellingum og reynt að sjá fyrir hvað árið sem gengið er í garð muni fela í skauti sér.

Fjölmiðlar eru undirlagðir þessu, áramótauppgjör og annálar eru fastur liður sem og heimsóknir til völva og spáfólks sem sér fyrir náttúruhamfarir, framhjáhöld framáfólks og hvaðeina annað. Við allt þetta tal er litlu að bæta. Vissulega var árið 2017 óvenjulegt fyrir ýmissa hluta sakir, afdrifaríkir og óvenjulegir atburðir áttu sér stað og ekki sér enn fyrir endann á afleiðingum sumra þeirra. Árið átti sínar hetjur og skúrka … eins og öll önnur ár til þessa.

En við stöldrum líka við sjálf og horfum á ævi okkar, á árið sem leið sem kafla í ævisögunni og búum til útdrátt úr honum í huganum. Kannski teiknum við jafnvel upp drög að framvindunni í næsta kafla og strengjum hugsanlega einhver heit um eitt og annað til að hjálpa okkur að stýra lífi okkar eftir æviveginum þangað sem hugur okkar leitar.

Lánsemi

Sjálfur get ég horft yfir árið 2017 með lítið annað en þakklæti í huga. Þakklæti fyrir það traust sem mér hefur verið sýnt, þá velvild sem ég hef mætt, þann stuðning sem ég hef notið. Fyrir mitt hamingjuríka einkalíf.

Ég er lánsamur maður.

Mér finnst það betra orð en „heppinn“. Við segjum að mínu mati allt of oft að við séum „heppin“ með þetta eða hitt. Þegar ég segi frá lífi mínu og starfi heyri ég iðulega að ég sé „heppinn“ … með samstarfsfólk, vinnustað og starfsumhverfi. Ég tek ekki undir það. Mér finnst það fela í sér að það góða starf sem hér er unnið, það kærleiksríka andrúmsloft sem hér ríkir, sá uppbyggilegi og nærandi starfsandi sem hér svífur yfir vötnunum … sé bara einhver hundaheppni. Eitthvað óverðskuldað sem við höfum dottið í lukkupottinn með.

Svo er ekki. Þetta allt saman er eðlileg afleiðing af því hugarfari sem hér ríkir, þeirri stefnu sem hér hefur verið tekin og hefur verið fylgt. Ég er ekki „heppinn“ með samstarfsfólk. Ég er mjög lánsamur með samstarfsfólk – og það er ekki heppni. Það er ekki fyrir eitthvað glópalán að hingað hefur valist gott fólk til starfa, fólk sem ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst og fá að vinna með.

Lán Laugarneskirkju er ekki heppni heldur ávöxtur af starfi, stefnu og hugarfari.

En við sem vinnum hér, hvort sem það eu launaðir starfsmenn eða sjálfboðaliðar í hinum ýmsu störfum; æskulýðsleiðtogar, sóknarnefndarfólk, kórfólk, messuþjónar. Við erum ekki Laugarneskirkja. Kirkja er samfélag þeirra sem kjósa að tilheyra henni. Þið eruð kirkjan. Ekki ég.

Ávextir

Guðspjallstexti dagsins fjallar einmitt um ávexti. Jesús grípur þar til líkinga sem áheyrendur hans skildu til hlítar. Fíkjutréð og víngarðurinn eru klassísk tákn fyrir lýð Guðs í spámannsritum Gamla testamentisins. Þau sem Jesús sagði þessa dæmisögu hafa þekkt vel þessi orð Jesaja spámanns:

„Því að víngarður Drottins er Ísraels hús og Júdamenn ekran sem hann ann. Hann vænti réttlætis en sá blóði úthellt, vænti réttvísi en neyðaróp kváðu við.“ (Jes 5.79)

Áheyrendurnir hafa ekki farið í neinar grafgötur með það að þau sjálf voru fíkjutréð. Þeim var ekki heldur hulið hver ávöxturinn var sem vænst var af þeim; réttlæti og réttvísi.

Þetta er hið stóra verkefni kirkjunnar … okkar. Ekki bara mitt heldur okkar sem kjósum að tilheyra þessu samfélagi … að bera ávöxt réttlætis og réttvísi. Að vera málsvarar kærleikans, að tala röddu hins kristilega hugarfars inn í samtímann, að varpa ljósi lífsins á þau úrlausnarefni sem við stöndum frammi fyrir sem samfélag … sem þjóðfélag.

Og hjá því verður að mínum dómi ekki litið að þar höfum við sem kirkja ekki borið þann ávöxt á nýliðnu ári sem af okkur er vænst. Og ég held að það sé okkur hollt að gangast við því og viðurkenna það. Og strengja þess heit að gera betur á næsta ári.

Ljósið í kastljósinu

Kirkjan hefur nefnilega verið iðnari við það að komast í kastljósið en að varpa því sjálf á siðferðileg úrlausnarefni samfélagsins. Vissulega er það svo að ákveðin öfl í þessu þjóðfélagi sjá rautt hvenær sem kirkjuna ber á góma og gildir þá einu í hvaða samhengi. Árvisst karp um kirkjuheimsóknir skólabarna og jafnvel fermingar er auðvelt að standa af sér. En þegar vígðir kirkjunnar þjónar leyfa sér að láta út úr sér skoðanir sem ekki falla í kramið alls staðar verður aftur á móti meiri handagangur í öskjunni. Það hvarflar stundum að mér … og nú tala ég í hálfkæringi – bara svo það sé á hreinu … að best væri að biskupinn segði aldrei neitt því ef hún segir A segja allir sig úr Þjóðkirkjunni sem hefðu viljað heyra B, en ef hún segir B þá pakkar A-fólkið saman og fer í fússi.

Þannig er til dæmis sérkennilegt að mínu mati að þrjúhundruð manns hafi svo sterkar skoðanir á gagnaleynd – eftir allt sem á undan er gengið innanhúss í kirkjunni – að ef persónulegar skoðanir biskupsins á henni fara ekki saman við þeirra … að þá loksins og ekki fyrr finni þeir sig knúna til að yfirgefa Þjóðkirkjuna. Og það jafnvel þótt aðrir kirkjunnar þjóna, meðal annarra sá sem hér stendur, tjái sig opinberlega um að þeir deili ekki skoðunum með biskupi.

Glatað tækifæri

En hér stendur kannski hnífurinn í kúnni. Ég geri þetta atvik frá liðnu ári að umtalsefni vegna þess að það er í mínum huga skólabókardæmi um svo mörg önnur tækifæri sem kirkjan hefur látið sér úr greipum ganga að vekja máls á álitamálum og ræða þau opinberlega á forsendum guðfræði sinnar með siðferðilegum og biblíulegum rökum.

Á þjófnaðarhugtak Gamla testamentisins við um gagnastuld? Hann er ekki eiginlegur þjófnaður því sá sem gögnin eru afrituð frá hefur þau enn undir höndum. Að stelast í upplýsingar er því ekki eins og að stela hjóli eða peningum. Sá sem stolið er frá glatar þá hjólinu sínu eða peningunum. Hinar afrituðu upplýsingar eru enn á sínum stað þótt þær séu líka komnar á staði sem þeim var ekki ætlað að vera á. Á þjófnaðarhugtakið í sínum gamlatestamentislega skilningi kannski frekar við um það sem gagnaleyndinni er einmitt ætlað að vernda?

Í hvernig þjóðfélagi búum við þegar það er glæpur að afhjúpa glæp, kannski ekki glæp gegn lögum manna en hugsanlega gegn heilbrigðu siðferði? Hve viðamikið og innilegt má samband þeirra sem ábyrgðarstöðum gegna í almannaþágu við Mammon vera til að það hætti að vera þeirra einkamál og verði þjóðfélagsmál?

Þessum spurningum ætla ég ekki að svara hér, en spyrja þess í stað: Af hverju fóru þær ekki út í umræðuna? Af hverju urðu bara sumir fúlir, fóru í fússi og skelltu á eftir sér og málið var dautt og enginn ræddi það meir?

Sekt okkar

Hér brugðumst við. Kannski brugðust fjölmiðlar líka. En við berum ekki ábyrgð á þeim. Við berum aftur á móti ábyrgð á okkur. Af hverju tókum við ekki þennan pakka sem okkur var réttur upp í hendurnar og opnuðum hann og krufum hið safaríka innihald hans, þau siðferðilegu álitamál sem hann geymdi? Gullið tækifæri til að láta að sér kveða í umræðunni og varpa ljósi kristinnar siðfræði á þjóðfélagsleg úrlausnarefni samtímans gekk okkur úr greipum.

Og ég er sekur.

Ég gengst við því. Þegar þetta mál kom upp var ég störfum hlaðinn og nennti ekki að sökkva mér í það. Kannski var ég líka bara andlega latur. En ég nagaði mig í handarbökin á eftir þegar mér varð ljóst að bólan var hjöðnuð og horfin án þess að hún yrði að neinu öðru en frétt um úrsagnir úr Þjóðkirkjunni. Og engu siðfræðilegu ljósi var varpað á deiluefnið.

Og ég hef heitið mér því og opinbera hér með það heiti mitt að taka mig á hvað þetta varðar.

En … svo ég endurtaki mig nú … ég er ekki kirkjan.

Við erum kirkjan. Við öll sem tilheyrum henni. Þetta er ekki mitt partí. Þetta er okkar partí. Ef partíið er leiðinlegt … hvort er þá vænlegra til árangurs að gera sjálfur eitthvað til að lyfta því upp eða skella skuldinni á húsvörðinn og fara burt í fússi?

Samfélag eða stofnun?

Í þessu kristallast í mínum huga að verulegu leyti vandinn sem kirkjan stendur frammi fyrir. Hún er í hugum allt of margra stofnun en ekki samfélag.

Við getum ekki sagt okkur úr íslensku lagaumhverfi þegar dómaframkvæmd gengur fram af okkur. Við getum ekki sagt okkur undan sýslumannsembættinu. En við getum sagt okkur undan biskupsembættinu. Og það er auðvelt. Það er hægt að gera það á netinu. Það er ekki mikið meira mál en að afvina einhvern leiðinlegan á facebook. Og á eftir getur okkur meira að segja liðið eins og við höfum lagt eitthvað af mörkum – annað en það sem við raunverulega lögðum af mörkum sem var að rýra rekstrarfé sóknarkirkjunnar okkar um nokkra þúsundakalla á ári sem þess í stað renna þá í ríkissjóð.

En ef við öll, allir sem kjósa að tilheyra þessu samfélagi, tækjum ábyrgð á því … að sú stemning myndi skapast að þegar út af ber þá sé það hlutverk allra … ekki bara presta og biskupa … heldur samfélagsins, að leiðrétta stefnuna – þá myndi kirkjan virka eins og samfélag á að gera. Og þá sæist hún vera samfélag en ekki stofnun sem auðvelt er að kúpla sig út úr með því einu að smella á réttu hlekkina. Og til þess höfum við gnótt tækifæra.

Og ég bið þess að Guð gefi okkur náð til að nýta okkur þau tækifæri betur á nýju ári en við gerðum á því liðna.

Við erum fíkjutréð. Og Jesús gaf fíkjutrénu tækifæri til að bera ávöxt. Eitt ár enn. Saga dagsins í dag er um náð.

Og ég bið þess að Guð gefi kirkju sinni náð á nýju ári til að vera öflug rödd í samfélagslegri umræðu um siðferðileg álitamál – ekki meginviðfangsefni hennar.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju á nýársdag 2018

Sad Young Blonde ChildNáð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi.

„Hvernig verður maður svona óeðlilegur?“ spurði konan mig sem setið hafði hjá mér í tæpa klukkustund og rakið raunir sínar. Spurningin var sett fram í háði, dæmi um það stórkostlega úrræði sem okkur mönnunum er gefið – að sjá spaugilegu hliðarnar á hinu óbærilega til að gera okkur kleift að bugast ekki undan því. En það var ekkert fyndið við ástand hennar.

„Hvernig verður maður svona óeðlilegur?“ spurði hún.

Líf hennar og líðan voru í molum eins og margra sem leita til prests eftir sálgæslu. Samskipti hennar við sína nánustu voru mölbrotin, það er þá þeirra sem einhver samskipti vildu eiga við hana yfirhöfuð. Og nú ætla ég – til að varðveita trúnað – að tala í mjög grófum dráttum um sögu hennar, breyta nokkrum atriðum og blanda inn í hana þáttum úr öðrum sögum fólks í svipuðum sporum sem til mín hefur leitað, til að fela slóðina í þágu trúnaðarins. Þannig að í raun er þessi kona ekki til. En hún gæti verið það. Hún er þversumma margra einstaklinga.

Ágrip að ævisögu

Þegar við ræddum æsku hennar og það sem hún fór með í farteskinu út í lífið kom eitt og annað upp úr dúrnum. Hún hafði alist upp við kröpp kjör og drykkjuskap. Hún var elst í systkinahópnum og var fyrir fermingu farin að bera ábyrgð á heimilinu. Hún minntist þess að um tólf ára aldurinn hélt hún dagbók þar sem hún skráði meðal annars samviskusamlega á hverjum degi hve drukkin mamma var þann daginn. Hún gætti þess að breiða yfir drykkju móður sinnar af ótta við afleiðingar þess að upp hana kæmist. Hún óx úr grasi og eignaðist ung mann sem hún bar ábyrgð á alla tíð, sá til þess að hann væri í hreinum fötum og fengi mat að  borða. Þau eignuðust börn þegar þau voru enn lítið annað en börn sjálf. Hún sá um uppeldið og stjórnaði heimilinu af ábyrgð og festu – að eigin mati. Þau hjón skildu og börnin uxu úr grasi og fluttu að heiman og hún var orðin ein eftir með engan að stjórna. Hún gerði sitt besta til að stjórna lífi uppkominna barna sinna sem brugðust vægast sagt misvel við. Þegar þau gerðu ekki eins og hún ætlaðist til reyndi hún að stjórna þeim með tárum og sektarkennd. Ekki af yfirveguðu ráði. Henni sárnaði raunverulega vanþakklætið; að ekki væri tekið mark á henni eftir allar fórnirnar sem hún hafði fært.

Eðlilegt óheilbrigði

En það er erfitt að vera ung manneskja að hefja sjálfstætt líf og að læra að standa á eigin fótum með mömmu á bakinu sem getur ekki sleppt; getur ekki hætt að ráðskast með mann og leikur píslarvott við hvert tækifæri til að fylla mann sektarkennd. Þá verður mjög freistandi að hætta að tala við hana. Stundum verður að klippa eitrað fólk út úr lífi sínu til að standa vörð um sína eigin andlegu velferð – jafnvel sína eigin móður.

Og þarna sat hún fyrir framan mig, komin á sextugsaldur, þurrkaði tár af hvarmi og spurði: „Hvernig verður maður svona óeðlilegur?“

Spurningin bergmálaði um stund í eyrum mér. Og ég áttaði mig á að fyrir framan mig sat ekki kona komin á sextugsaldur sem grét rústirnar af lífi sínu. Fyrir framan mig sat tólf ára stúlka, sem vissi sem var að heimurinn hvíldi á herðum hennar og að það væri undir því komið að hún stæði sig að hann hryndi ekki yfir hana og alla sem henni þótti vænt um og hafði lifað samkvæmt því í meira en fjörutíu ár.

Það eina sem ég gat sagt var: „Þú ert ekki óeðlileg. Þú ert fullkomlega eðlileg. Bjóstu við því að úr því atlæti og aðbúnaði sem þú fékkst, að með það veganesti sem þú fórst með út í lífið yrðir þú fullkomlega heilbrigður einstaklingur á sál, huga og anda, með sterka sjálfsmynd, í góðu jafnvægi og með öll samskipti á hreinu? Hvar áttirðu að læra það? Ef þér hefði tekist það … þá hefði það verið óeðlilegt. Ástand þitt er vissulega óheilbrigt, sem er mjög eðlilegt.“

Eðlilegar afleiðingar

Sá sem ræktar tré í næringarsnauðum jarðvegi og eys aldrei á það öðru en óþverra og eitri getur ekki búist við því að tréð verði hátt og beint og reisulegt. Það verður skakkt og skælt, kræklótt, visið og snúið … ef það verður yfirhöfuð að tré. Og hann hefur engan rétt til að fárast yfir því að tréð sé óeðilegt af því að það er óheilbrigt. Tré eru alltaf eðlileg afleiðing jarðvegarins, næringarinnar og aðhlynningarinnar sem þau spretta úr.

Það sama gildir um okkur mennina.

Og það sama gildir um samfélög manna.

Hvernig verður samfélag óeðlilegt?

Hvernig gerist það að misskipting gæða eykst jafnt og þétt? Hvernig gerist það að sumir eiga hvergi höfði að að halla á meðan öðrum finnst þér knúnir til þess að fela peningana sína í útlöndum til að enginn komist að því að þeir eigi þá? Hvernig gerist það að sumir eru bornir út af heimilum sínum fyrir skuldir sem eru brotabrot af þeim fjárhæðum sem aðrir fá afskrifaðar?

Er kannski ekkert óeðlilegt  við það?

Er samfélag kannski alltaf fullkomlega eðlileg afleiðing þess á hvaða grunngildum það er í raun byggt?

Við hverjum búumst við þar sem mest um vert er að vera með góð sambönd, í góðri stöðu, með góðar tekjur, góða menntun og helst af góðum ættum líka, en það er einskis virði að vera góð manneskja? Við hverju búumst við þar sem mannvirðing fer eftir efnahag? Þar sem manngildi og verðgildi eru lögð að jöfnu? Að af því spretti fullkomið samfélag jöfnuðar, réttlætis og sanngirni, bróðurþels og náungakærleika?

Væri ekki einmitt eitthvað mjög óeðlilegt við það?

Partíið okkar

rignir peningumKaupmenn gleðjast mjög um þessi jól og það er ástæða til að gleðjast með þeim. Í alvöru. Við skulum ekki leika siðapostula og benda vandlætingarfingri á þá sem vilja leyfa sér eitt og annað sem þeir loksins hafa efni á – reyna að stjórna með því að ala á samviskubiti. Frelsari okkar var veisluglaður maður sem kunni gott að meta, var meðal annars kallaður mathákur og vínsvelgur. Auðvitað er það gott að fleiri skuli geta leyft sér að gera vel við sig og sína yfir hátíðirnar en undanfarin ár. Það er gott fyrir kaupmenn, efnahagslífið og þá sem hlut eiga að máli.

Gleymum bara ekki að það eiga ekki allir hlut að máli. Það eru ekki allir þátttakendur í þessari veislu. Gleymum ekki að enn er hluti þjóðarinnar skilinn útundan. Og því háværari og trylltari sem veisluglaumurinn er, þeim mun sárara er að standa fyrir utan og vera ekki boðið af því að maður er of gamall og hrumur, of fatlaður, of veikur, of ættsmár … of tekjulágur og af þeim sökum ekki með réttu samböndin.

Eða til að orða þetta öðruvísi: Af því að maður er af nákvæmlega sama sauðahúsi og fólkið sem frelsarinn leitaðist við að umgangast þegar hann var á meðal okkar.

Partíið þeirra

Hverju erum við að fagna?

Við erum ekki að fagna kappa, kaupsýslumanni eða þjóðhöfðingja, afreksíþróttamanni eða sigursælum herforingja. Við erum að fagna blásnauðu, vegalausu, nýfæddu barni. Við erum að fagna einum mesta smælingja sem í heiminn hefur verið borinn.

Konungur lífsins og ljóssins var ekki heldur þátttakandi í neyslupartíinu í Betlehem. Hann fæddist í fjárhúsi eins og hver annar búpeningur og var ekki lagður í vöggu eða Silver Cross svalavagn. Hann var ekki settur í merínó ull eða tjull heldur vafinn reifum og lagður í jötu, sem ætluð var undir skepnufóður.

Og fólkið sem Guð kallaði til fjárhússins að fagna fæðingu hans voru ekki góðborgararnir, ekki liðið sem fékk kúlulánin sín afskrifuð og skuldirnar sínar millifærðar yfir á einkahlutafélag kortéri fyrir hrun svo setja mætti það í þrot án þess að króna fengist upp í skuldir til að komast hjá því að þurfa að borga þær og varpa þeim þess í stað yfir á samfélagið.

Nei, það voru fjárhirðar. Lægsta stétt samfélagsins, sem í augum góðborgaranna voru sori mannlífsins og hreinræktaður trantaralýður.

Jólaguðspjallið segir ekki sögu fólks sem var þátttakendur í partíinu, heldur hinna sem var ekki boðið.

Það segir sögu þeirra sem enn þann dag í dag er ekki boðið í neysluglamrið og forréttindaglauminn.

Enn þann dag í dag.

Tvöþúsund árum síðar byggjum við samfélag okkar í raun enn á gildunum sem Jesús Kristur kom í heiminn til að kollvarpa. Eftir tvöþúsund ára sögu af kristindómi hefur það ekki breyst.

Mælikvarði mannvirðinganna

Ekki misskilja mig. Ég ætla fráleitt að leggja samfélag nútímans að jöfnu við hina hernumdu Palestínu undir miskunnarlausri ógnarstjórn Rómverja, þar sem hungur, örbirgð, limlestingar og þrælkun voru daglegt hlutskipti alls þorra fólks og fámenn, forrík forréttindastétt mergsaug kúgaða alþýðuna ofan í gröfina. Öðru nær. Sem betur fer.

En í grunninn byggjum við mannvirðingar samfélagsins enn á því sem mölur og ryð fá grandað. Og enn sitjum við uppi með fámenna, forríka forréttindastétt í valdastöðum sem stendur ötulan vörð um forréttindi sín og völd.

Gleymum því ekki þegar næsta pólitíska hneyksli skekur okkur án þess að það hafi neinar afleiðingar fyrir þá sem eiga í hlut eða þegar næsta flóttabarn verður flutt út í óvissuna í trássi við barnaverndarlög og heldur sín jól umkringt múrveggjum og gaddavír í boði íslenskra stjórnvalda eða þegar fjölmiðlar greina næst frá öryrkja eða lífeyrisþega sem þarf að svelta hér í landi allsnægtanna vegna reglna kerfinsins um kostnaðarhlutdeild sjúklinga … að þetta er ekki óeðlilegt.

Óheilbrigt, vissulega.

En við getum ekki látið eins og neitt sé óeðlilegt við það.

Partíið hans

Ég veit ósköp vel að hið fullkomna samfélag er hvergi til, hefur aldrei verið til og verður aldrei til. En ef okkur er alvara með því að bæta það samfélag sem við höfum þá held ég að það sé ekki nóg að setja plástur á sárin og tjasla saman stærstu rifunum.

Við ættum ekki bara að spyrja hvað sé að heldur líka að spyrja hvers vegna það sé að. Og ráðast ekki bara á meinsemdirnar heldur ástæðurnar fyrir meinsemdunum, jarðveginn sem nærir þær og þær spretta úr.

Og stærsta meinsemdin held ég að kristallist í því að innst inni höfum við ekki enn gert okkur grein fyrir því að konungur ljóssins og lífsins er blásnautt, vegalaust barn, vafið reifum og lagt í jötu. Að þeir sem er boðið í partíið til hans eru þeir nákvæmlega sömu og er ekki boðið í hitt partíið – enn þann dag í dag.

Og þess vegna þurfum við að heyra jólaguðspjallið á hverju ári.

Gleðileg jól.

jólasnjór 2Er napur vindur nístir hold

og nóttin öllu ræður

og myrkri þrúgar þreytta fold

þungur bylur skæður

 

og landið kreppt í klakabönd

hinn kaldi vetur hefur,

í drunga gráan dal og strönd

hin daufa skíma grefur

 

og frostið teiknar föla rós

í fönn á eyðihjarni.

Þá mætir okkur lífsins ljós

í litlu, snauðu barni.