Feeds:
Færslur
Athugasemdir

Guðspjall: Á ferð þeirra kom Jesús í þorp nokkurt og kona að nafni Marta bauð honum heim. Hún átti systur er María hét og settist hún við fætur Drottins og hlýddi á orð hans. En Marta lagði allan hug á að veita sem mesta þjónustu. Og hún gekk til hans og mælti: „Drottinn, hirðir þú eigi um það að systir mín lætur mig eina um að þjóna gestum? Seg þú henni að hjálpa mér.“ En Drottinn svaraði henni: „Marta, Marta, þú ert áhyggjufull og mæðist í mörgu en eitt er nauðsynlegt. María valdi góða hlutskiptið. Það verður ekki frá henni tekið.“ (Lúk 10.38-42)

torfbærNáð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Amma mín borðaði ekki mat.

Hún var húsmóðir á sveitaheimili, fædd árið 1900 á sveitabæ austur í Hjaltastaðaþinghá og alin upp í sveit. Lærði ung að vera til gagns og þegar hún varð húsmóðir á sínu eigin heimili sinnti hún því hlutverki vel og samviskusamlega. Ég var í sveit hjá henni á hverju sumri fram undir fermingu, uns hún var komin hátt á áttræðisaldur. Ég verð ævinlega þakklátur fyrir að hafa fengið að alast upp að hluta til af kynslóð – og á vissan hátt í menningarheimi – sem nú eru horfin.

Eitt af því sem einkenndi ömmu mína var að hún settist aldrei til borðs með öðru heimilisfólki á matmálstímum. Hún annaðist matseldina, bar mat á borð, sá til þess að allir fengu sitt. Hún stýrði borðhaldinu en tók ekki þátt í því sjálf.  Þetta var alsiða hjá hennar kynslóð.

Alla vega man ég að ég skildi vel sögu sem ég heyrði einhvern tímann af sveitadreng sem hafði verið í heimsókn hjá vini sínum á næsta bæ og tekið þátt í borðhaldi þar og séð undur og stórmerki sem hann gat ekki beðið eftir að segja frá heima. Fréttin var þessi: „Mamma, Mamma! Amma hans Palla borðar mat!“

Auðvitað borðaði amma mín mat. Þegar aðrir höfðu lokið við að matast og voru gengnir til verka sinna tíndi hún mat á disk handa sér og borðaði. Fyrr mætti nú vera. Og hún lét okkur frændurna, sem vorum hjá henni á sumrin, á svipuðu reki, sjá um uppvaskið á meðan – án undantekninga. Að mig minnir. En þessi drengur hafði greinilega aldrei séð ömmur borða og þótti það tíðindum sæta að amma leyfði sér að setjast til borðs með öðru heimilisfólki og snæða.

Uppreisnin

Guðspjall dagsins segir af jafnvel enn meiri undrum og stórmerkjum en þeim að ömmur borði mat. Þetta er saga af konu sem leyfir sér þá ósvinnu að hlamma sér niður og hlusta á gestinn frekar en að ganga um beina eins og ætlast var til af henni. Eins og hefðin kvað á um um, eins og kynslóðir kvenna höfðu gert á undan henni. Hvað hélt hún eiginlega að hún væri?

Þetta er í raun stórmerkilegur byltingarboðskapur þegar til þess er litið að textinn er skrifaður öðru hvoru megin við fyrstu aldamót okkar tímatals, hugsanlega svo snemma sem árið 80. Þessi texti verður til í samfélagi þar sem fáheyrt er að kona hagi sér svona. Þar sem mjög strangar reglur giltu um hátterni kvenna, verkefni þeirra og skyldur og einkum og sér í lagi umgengni þeirra við karla. Og þarna er kona sem lætur það allt lönd og leið. Athæfi hennar er skýlaust brot á öllum venjum og reglum. Kona sem fær sér sæti með hinum og tekur þátt í samkomunni eins og hún sé maður með mönnum. Hvað þykist hún vera?

Og ekki nóg með það. Jesús blessar uppátækið. „Gott hjá henni,“ segir hann. Ógnin við feðraveldið sem felst í sjálfsákvörðunarrétti kvenna – fyrirbæri sem ekki var farið að velta fyrir sér að neinu marki fyrr en mörgum öldum síðar – fór ekkert fyrir brjóstið á honum. Jafnvel Marteinn Lúther, okkar mikli trúarleiðtogi, skrifaði að konum bæri að vera hlýðnar og undirgefnar, að eðli karla gerði þá hæfa til að ræða alvörumál af skynsemi en ekki „ruglingslega og afkáralega“ eins og konur geri. Það gerir hann fimmtán öldum síðar.

Byltingarboðskapur

Færa má rök fyrir því að þarna komi Jesús út úr skápnum sem gallharður feministi. Það má líka færa rök fyrir því að Jesús hafi í raun verið kommúnisti. En ég ætla ekki að gera það. Hvorug hugmyndafræðin varð til fyrr en löngu löngu síðar. En líf og starf Jesú, boðskapur hans, fól í sér – eins og þessi hugmyndakerfi í sinni tærustu og einföldustu mynd gera – valdeflingu hinna undirokuðu, þeirra sem einskis máttu sín. Jesús sker upp herör gegn venjum og siðum, reglum og viðhorfum sem skerða aðgengi fólks að andlegum verðmætum og blinda sýn þess á hjálpræðið.

Jesús bendir á siðferðilega yfirburði tollheimtumannsins yfir faríseanum. Hann bendir á að eyrir ekkjunnar er stærri gjöf en fjáraustur auðmannanna. Hann segir dæmisögur úr daglegu lífi hinna lægst settu og forsmáðu. Sagan af týnda sauðnum er beint úr reynsluheimi fjárhirða, lægstu stéttar samfélagsins. Hann fullyrðir að fyrir ríkan mann að vera hluti af guðsríkinu sé eins og fyrir úlfalda að komast í gegn um nálarauga. Við getum rétt ímyndað okkur hvernig það hljómaði í eyrum æðstu prestanna sem orðið höfðu vellauðugir á einkaleyfi á sölu fórnardýra í musterinu á uppsprengdu verði.

Og konur eru síðan kapítuli út af fyrir sig. Sagan af týndu drökmunni. Samversku konunni. Og nú … Mörtu og Maríu.

Jesús er byltingarmaður.

Enda voru meintir villutrúarmenn ekki krossfestir í Rómaveldi. Sú dauðarefsing var frátekin fyrir eina tegund glæpamanna: Uppreisnarmenn.

Hinn innri kúgari

En Jesús bendir líka á að inn á milli er það sem hamlar okkur hlutverk sem enginn hefur skikkað okkur í nema við sjálf. Takið eftir því að Jesús bað Mörtu ekkert um að ganga um beina. Hann bað hana ekkert um að elda mat fyrir sig. Það var Marta sem hafði boðið Jesú heim til sín. Það hafði enginn lagt þessar byrðar á Mörtu nema Marta sjálf.

Í Kristnihaldi undir Jökli býr Halldór Laxness til kostulega kvenpersónu, Hnallþóru nokkra, en hlutverk hennar er að sjá til þess að Umbi nærist. Henni finnst Umbi svo merkileg persóna – reyndar kallar hún hann biskupinn – að það hvarflar ekki að henni að bjóða honum upp á fisk eða flot, ekkert er nógu fínt fyrir hann nema sykursætar stríðstertur sem Umbi auðvitað fær ógeð á eftir stutta stund. Fyrir vikið eru íburðarmiklar tertur jafnan kallaðar hnallþórur á íslensku.

Jesús kom ekki til Mörtu til að vera bornar hnallþórur. Hann kom til að spjalla við fólkið. Og Marta var of upptekin af öðru til að veita honum það sem hann vildi – félagsskap hennar.

Og Marta spyr Jesú, þegar hún verður pirruð á því að þurfa að standa í þessu öllu ein: „Drottinn, hirðir þú eigi um það að systir mín lætur mig eina um að þjóna gestum?“

Við lendum oft í þessari stöðu. Þegar okkur langar til að hreyta í Guð setningum sem byrja á: „Hirðir þú eigi um …?“ „Er þér sama?“ Þegar þyrmir yfir okkur vegna þess sem á okkur er lagt á meðan aðrir hafa það náðugt og sigla vesenislaust í gegnum lífið. Og Jesús svarar okkur ekki með því að skamma okkur, ekki frekar en að hann hafi skammað Mörtu og sakað hana um ranga breytni. Gestrisni er og verður dyggð.

Hann spyr bara: „Hver lagði þetta á þig? Af hverju valdirðu þér ekki betra hlustskipti sjálf? Þú getur nefnilega valið.“

Að grípa daginn

Við skulum líka hafa hugfast að María sat ekki ævilangt við fætur Jesú og hlustaði á hann. Daginn eftir hefur hún vaknað og gengið til verka sinna, útbúið morgunmat handa fólkinu sínu og sinnt öðrum skyldum sínum. En hún hafði orð Jesú í hjarta sér því hún hafði ekki neitað sér um þau andlegu verðmæti þegar þau voru innan seilingar. Því tækifæri hafði hún ekki fórnað fyrir misskilda skyldurækni. Þessi dagur var ekki eins og flestir dagar. Og það varð aldrei frá henni tekið í dagsins önnum upp frá því að hafa gripið þennan dag.

Amma mín borðaði mat. Og þegar gesti bar að garði settist hún hjá þeim, bar í þá kaffi og fékk sér sjálf. Skipst var á sögum og gjarnan farið með vísur. Og sennilega var þetta frekar nútímalegt sveitaheimili á sinna tíma mælikvarða því móðir mín hefur sagt mér að ein af hennar bernskuminningum sé að heyra föður sinn, afa minn, ausa sér yfir gest sem hafði sagt hann vera að vinna kvenmannsverk þegar hann kom í heimsókn og afi var að stússa í matseld. En flesta daga stýrði amma mín borðhaldinu á heimilinu og fékk sér sjálf þegar hún gat snætt í næði. Ég fékk aldrei þá grillu í höfuðið að amma mín borðaði ekki mat.

Við skulum passa okkur. Skyldurækni er vissulega dyggð. En við skulum ekki gleyma okkur svo í skyldurækninni – og hlaða svoleiðis á okkur skyldum í þeirri trú að því fleiri skyldur sem við höfum þeim mun dyggðugri séum við – að það þyki tíðindum sæta að við þurfum að næra okkur eins og annað fólk.

Og þá á ég ekki bara við líkamlega næringu.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 24. september 2017

Guðspjall: Þessu næst var ein af hátíðum Gyðinga og Jesús fór upp til Jerúsalem. Við Sauðahliðið í Jerúsalem er laug sem kallast á hebresku Betesda. Þar eru fimm súlnagöng. Í þeim lá fjöldi sjúkra manna, blindra, haltra og lamaðra [sem biðu hræringar vatnsins. En engill Drottins fór öðru hverju niður í laugina og hrærði vatnið. Sá sem fyrstur fór ofan í eftir hræring vatnsins varð heill hvaða sjúkdómur sem þjáði hann.] Þarna var maður nokkur sem hafði verið sjúkur í þrjátíu og átta ár. Jesús sá hann þar sem hann lá og vissi að hann hafði lengi verið sjúkur. Hann segir við manninn: „Viltu verða heill?“ Hinn sjúki svaraði honum: „Herra, ég hef engan til að láta mig í laugina þegar vatnið hrærist og meðan ég er á leiðinni fer annar ofan í á undan mér.“ Jesús segir við hann: „Statt upp, tak rekkju þína og gakk!“ Jafnskjótt varð maðurinn heill, tók rekkju sína og gekk. En þessi dagur var hvíldardagur og menn sögðu við hinn læknaða: „Í dag er hvíldardagur. Þú mátt ekki bera rekkjuna.“ Hann svaraði þeim: „Sá sem læknaði mig sagði við mig: Tak rekkju þína og gakk!“ Þeir spurðu hann: „Hver er sá maður sem sagði þér: Tak hana og gakk?“ En læknaði maðurinn vissi ekki hver hann var því að Jesús hafði leynst brott enda var þröng á staðnum. Nokkru síðar hitti Jesús hann í helgidóminum og sagði við hann: „Nú ert þú orðinn heill. Syndga ekki framar svo að eigi hendi þig annað verra.“ Maðurinn fór og sagði ráðamönnum Gyðinga að Jesús væri sá sem læknaði hann. (Jóh 5.1-15)

ex-leper

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Kvikmyndin Life of Brian með Monty Python gamanleikhópnum olli nokkru fjaðrafoki þegar hún var frumsýnd árið 1979, þótt nú til dags þætti trúarskens á borð við það sem ber myndina uppi býsna meinlaust. En fólk var ekki vant því þá að gantast væri með þá atburði sem lýst er í heilagri ritningu og sumir tóku því vægast sagt illa að í bakgrunni sögunnar af Jesú frá Nasaret væri sýnd farsakennd ævi hins seinheppna Brians.

Eitt atriði myndarinnar sýnir mann nokkurn, leikinn af Michael Palin, sem kallar sig „fyrrverandi holdsveikisjúkling“, bölva Jesú í sand og ösku fyrir að hafa læknað sig og þar með haft af sér lífsviðurværið. Einn daginn er hann heiðarlegur, holdsveikur betlari og svo allt í einu eins og hendi sé veifað er hann gerður stálheilbrigður og hann skilinn eftir með engin úrræði til að framfleyta sér með þeim eina hætti sem hann kunni. „Bloody do-gooder“ er hann kallaður, sem þýða mætti „bévítans góðgjörðarmaður“.

Þetta er auðvitað bráðfyndið, en eins og svo margt sem er fyndið, þá er þetta meðal annars fyndið af því að í því er sannleiksbroddur. Eilífur sannleiksbroddur. Enn í dag heyrast viðhorf eins og þessi viðruð. „Góðgjörðarmönnum“ er kannski ekki bölvað í sand og ösku sem slíkum, en í fjölmiðlum veður samt uppi hópur sjálfskipaðra álitsgjafa sem ekki geta hugsað sér neitt ljótara að segja um fólk en að kalla það „góða fólkið“.

Gott fólk er vont fólk

Það er kannski ekkert skrýtið að nú þegar það, sem George Orwell kallaði „newspeak“ í skáldsögu sinni 1984, dafnar sem aldrei fyrr – stríð er friður, frelsi er helsi, fáfræði er styrkur … en við þessa upptalningu hefur samtími okkar einmitt bætt fullyrðingum á borð við „lygi er hliðstæð staðreynd“ og „mannhatur er óhefðbundin orðræða“ – að fram komi tilhneiging til að kalla andfasisma fasisma og jafnvel – sem hlýtur að vera hámark alls sem er ófyrirleitið – góða fólkið vont fólk.

Það væri þá kannski ekki nema að kalla siðferðiskennd ábyrgðarleysi. En það myndi náttúrlega enginn gera.

Eða hvað?

Kannski er ekki seinna vænna að kynna þjóðina fyrir þessu verki Orwells eins og gert verður í Borgarleikhúsinu í vetur og við hæfi að leikstjórinn sé í fararbroddi þeirra, sem með því að krefjast þess með óbilandi þrautseigju að sannleikurinn væri dreginn fram í dagsljósið, urðu þess valdandi að þeir atburðir, sem hæst hafa farið í fréttum undanfarna viku, áttu sér stað.

Við náðarlaugina

Guðspjallstexti dagsins segir sögu af því þegar Jesús gerðist svo óforskammaður – að mati sumra – að vera gott fólk. Hann kemur að lauginni Betseda við Sauðahliðið, en sauðir sem komið var með til Jerúsasalem til að fórna í musterinu voru þvegnir í þessari laug strax við hliðið svo þeir væru hreinir í helgidómnum.

Orðið „Betseda“ merkir „hús náðar“ … en við Íslendingar skeytum þessum tveimur orðum saman í öðru og gjörsamlega óskyldu samhengi.

Við Betseda laugina var aftur á móti lítið um náð. Þar lá helsjúkt fólk og beið þess að vatnið gáraðist í þeirri trú að sá fyrsti sem færi ofan í hana eftir það hlyti bót meina sinna. Þetta var svona „fyrstur-kemur-fyrstur-fær“ náð.

Og þessi maður er búinn að vera veikur í 38 ár. Og Jesús spyr hann: „Viltu verða heill?“ Spurningin kann að virðast kjánaleg. En ef maðurinn hafði legið þarna árum saman, eins og gefið er í skyn í textanum, er hún eðlileg.

Af hverju er maðurinn ekki löngu búinn að gera eitthvað í þessu? Hafði honum virkilega ekki gefist tækifæri í 38 ár til að koma sér ofan í laugina? „Meðan ég er á leiðinni er einhver annar á undan mér,“ segir hann. „Þetta er ekki mér að kenna. Þetta er öðrum að kenna.“

Maðurinn gat greinilega hreyft sig eitthvað, hugsanlega bylt sér ofan í laugina hefði hann legið á brún hennar.

Er von að Jesús spyrji: „Hvernig er það … viltu verða heill? … Eða ertu kannski búinn að sætta þig við hlutskipti þitt? Er þetta sjálfsmyndin; lamaði maðurinn við laugina. Grey fórnarlamb kringumstæðna sinna. Það er ekki honum að kenna að ekkert varð úr honum. Fékkstu með sjúkdómi þínum hina fullkomnu afsökun upp í hendurnar?“

Engar afsakanir

Jesús spyr: „Viltu verða heill?“ Og maðurinn segir ekki já. Þess í stað kemur hann með afsökun.

Og Jesús læknar hann.

Það er fátítt að Jesús lækni fólk óumbeðinn. Fólk kemur til hans og biður um lækningu eða biður um miskunn og Jesús spyr: „Hvað viltu að ég geri fyrir þig?“ Það er óvenjulegt að hann geri þetta svona. „Ég ætla að taka af þér afsökunina,“ segir hann. „Stattu upp, taktu fletið þitt og farðu.“

Jesús fer ekki með neina arameíska galdraþulu. Hann hrærir ekkert smyrsl úr mold og munnvatni. Hann fer ekki með bæn yfir manninum. Hann segir bara: „Á fætur og burt með þig.“ Og hann segir ekki „Trú þín hefur bjargað þér“ eins og hann gerir yfirleittt og alls ekki „Ég bjargaði þér“. Næst þegar hann hittir manninn segir hann einfaldlega við hann: „Og reyndu svo að haga þér almennilega héðan í frá.“

Í millitíðinni var maðurinn spurður hvað það ætti að þýða að bera fletið á hvíldardegi og hann svaraði ekki: „Ég ber það af því að ég get það. Ég er búinn að vera lamaður í 38 ár.“ Hann kom með aðra afsökun: „Maðurinn sagði mér að gera það.“

En Jesús réttir manninum líf sitt upp í hendurnar og segir honum að bera ábyrgð á því héðan í frá. Hann hefur enga afsökun lengur.

Þessi maður var kannski í svipaðri stöðu og fyrrum holdsveikisjúklingurinn í Life of Brian eftir fund sinn við Jesú. Nú varð hann að fara að gera eitthvað við líf sitt. Hann gat ekki bara legið við laugina, vorkennt sjálfum sér og lifað á ölmusu.

Okkar eigin Betseda

Við erum flest á einhverjum tímapunkti í lífi okkar við okkar persónulegu Betseda laug. Hangandi við einhverja tálvon með líf okkar á bið. Lömuð. Og afsakanirnar okkar geta verið góðar, jafnvel pottþéttar.

En Jesús sér hvað í okkur býr. Og enn í dag spyr hann okkur: „Virtu verða heill?“

Hvernig getum við orðið það?

Með því að rísa á fætur. Gera eitthvað. Sleppa afsökununum. Það er enginn að fara að gera þetta fyrir okkur. Það er enginn að fara að henda okkur út í einhverja náðarlaug sem leysir öll okkar vandamál.

Jesús segir: „Stattu upp og láttu ekki hvað sem er yfir þig ganga af því að þú ert svo mikið fórnarlamb. Engar afsakanir. Þú getur það.“

Það var ekki mikil náð við náðarlaugina í Jerúsalem. Guðs ríki var ekki mitt á meðal sjúklinganna sem þar lágu og slógust um að verða fyrstir ofan í laugina til að fá náðina sem var af svo skornum skammti að bara sá sneggsti, útsjónarsamasti og ófyrirleitnasti gat orðið sér úti um hana.

Náðarlaugin er hugarburður. Blekking.

Nóg er nóg

Náð Guðs er óþrjótandi og um hana þarf ekki að slást við náungann. Guðs ríki er mitt á meðal okkar þegar við þjónum hvert öðru í kærleika. Guðs ríki er þar sem smælingjarnir eru efldir til að rísa á fætur, taka rekkjurnar sem þeir hafa legið á og látið traðka á sér og ganga … til verka. Við að gera líf sitt innihaldsríkara. Fegra umhverfi sitt. Bæta samfélag sitt.

Og þegar einhver spyr: „Hvað ert þú að rífa kjaft? Hvað ert þú að krefjast umbóta? Hvað ert þú að rukka ráðamenn um sannleikann? Af hverju heldurðu þig ekki á mottunni?“ Þá svörum við ekki: „Maðurinn sagði mér að gera það.“

Við svörum: „Ég geri það af því að ég get það. Af því að ég á rétt á því. Ég er búinn að liggja nógu lengi á þessari mottu.“

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 17. september 2017

Guðspjall: Þess vegna segi ég yður: Hver synd og guðlöstun verður mönnum fyrirgefin en guðlast gegn andanum verður ekki fyrirgefið. Hverjum sem mælir gegn Mannssyninum verður það fyrirgefið en þeim sem mælir gegn heilögum anda verður ekki fyrirgefið, hvorki í þessum heimi né í hinum komanda. Annaðhvort er tréð gott og ávöxturinn góður eða tréð vont og ávöxturinn vondur. Því af ávextinum þekkist tréð. Þér nöðrukyn, hvernig getið þér, sem eruð vond, talað gott? Af gnægð hjartans mælir munnurinn. Góður maður ber gott fram úr góðum sjóði en vondur maður ber vont fram úr vondum sjóði. En ég segi yður: Á dómsdegi munu menn verða að svara fyrir hvert ónytjuorð sem þeir mæla. Því af orðum þínum muntu sýknaður og af orðum þínum muntu sakfelldur verða.“ (Matt 12.31-37)

krútt jesúsNáð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Við erum bombarderuð með erfiðum og óþægilegum ritningartextum nú í haustbyrjun. Hinn sæti og góði Krútt-Jesús, sem er vinur allra og börn og dýr laðast að eins og Disney-prinsessu, er víðs fjarri, en þess í stað birtist okkur tannhvass og óbilgjarn Jesús sem veigrar sér ekki við því að formæla heilu borgunum og – eins og tilfellið er í dag – einfaldlega lýsa því yfir að sumir eigi enga fyrirgefningu í vændum, hvorki í þessum heimi né þeim næsta. Texti Matteusar, sem við heyrðum áðan, á sér hliðstæðu í Markúsarguðspjalli þar sem Jesús segir:

„Sá sem lastmælir gegn heilögum anda fær eigi fyrirgefningu um aldur, hann er sekur um eilífa synd.“ (Mark 3.29)

Þetta er ansi harkalegt. Engin fyrirgefning. Eilíf synd sem aldrei að eilífu fyrnist.

Og hvað er svona harkalegt við að lastmæla gegn heilögum anda? Það má bölva Guði og Jesú fram og til baka, en þegar kemur að heilögum anda er eins gott að gæta tungu sinnar. Af hverju er Guð svona miklu viðkvæmari fyrir þessum þriðjungi sjálfs sín en hinum pörtunum; föðurnum og syninum?

Hvað er svona sérstakt við heilagan anda?

Heilagur andi

Það er kannski vafasamt að skilja orð Jesú í ljósi þrenningarkenninga kirkjunnar, sem hafði ekki verið stofnuð þegar þau voru sögð og tók reyndar ekki að móta skilning sinn á hinum þríeina Guði – föður, syni og heilögum anda – fyrr en þremur til fjórum öldum síðar, en mig langar samt að reyna það, upp að því marki sem ég skil hann. Samkvæmt kenningum kirkjunnar er þrenningarlærdómurinn reyndar óskiljanlegur í eðli sínu, þannig að ef ég þættist skilja hann til fullnustu og reyndi að útskýra hann fyrir ykkur væri ég samkvæmt kenningunni sjálfri sjálfkrafa farinn að boða villutrú, hvað sem ég segði.

krossmarkEn þegar ég útskýri fyrir börnum að krossinn okkar teikni upp þrenninguna eins og ég skil hana, að ég bendi upp til himins þegar ég segi að við trúum á Guð á himni, að ég dreg línu niður til jarðarinnar þegar ég segi að við trúum á Guð á jörðu og að ég dreg lárétta línu frá manni til manns þegar ég segi að við trúum á Guð í hjörtum allra manna – og að við köllum Guð á himni „Guð föður“, Guð sem kom til jarðarinnar, Jesú Krist, „son“ og Guð í hjörtum allra manna „heilagan anda“ og að það sé allt einn og sami guðinn sem er kærleikur – þá finnst þeim það ekkert mjög ruglingslegt. Það síðar á lífsleiðinni sem þetta fer að standa í okkur.

Guð í hjörtum allra manna. Heilagur andi. Eða eins og skáldið Steingrímur Thorsteinsson orðaði það: „Guð í sjálfum þér.“

Guð að verki

Enda er talað um heilagan anda í sérstöku samhengi. Heilagur andi kom yfir lærisveinana og þeir fóru að flytja fagnaðarerindið á tungum sem þeir kunnu ekki og allir skildu þá. (Post 2.4) Matteus segir frá því að áður en Jósef og María náðu saman hafi hún orðið þunguð af heilögum anda. (Matt 1.18) Jóhannes skírari segir að Jesús muni skíra með heilögum anda. (Matt 3.11/Mark 1.8) Og þegar barn er skírt þá biðjum við Guð að gefa því heilagan anda til að vekja og glæða allt gott sem hann hefur fólgið í sálu þess. Þannig er eins og Guð sái kærleikanum í hjörtu okkar en það sé heilagur andi sem láti hann blómstra og dafna. Enda er það svo að þegar Jesús kenndi okkur Faðirvorið og hvatti okkur til að biðja til Guðs lofaði hann okkur aldrei að allar okkar bænir myndu rætast, hann lofaði því að Guð myndi senda okkur heilagan anda. (Lúk 11.13)

Í klassískri upphafsbæn er Guð ávarpaður: „Þú, Guð faðir, skapari minn. Þú, Drottinn Jesús, frelsari minn. Þú, heilagi andi, huggari minn.“

Heilagur andi semsagt vekur og glæðir hið góða í sálum okkar, hann huggar okkur, hann gefur okkur vit og kjark og styrk til að tala máli ljóssins og lífsins og er almennt eins og drifkraftur okkar við að koma góðu til leiðar. Þar sem Guð er að verki, þar sem kærleikurinn er að störfum, þar sem það besta sem Guð hefur fólgið í hjörtum okkar og sálum blómstrar og dafnar, þar er heilagur andi á ferðinni.

Guð er sólin. Heilagur andi er sólskinið.

Samfélagslega víddin

Heilagur andi er þannig á vissan hátt hin samfélagslega vídd guðdómsins. Prestum er uppálagt að enda prédikanir sínar á postullegri blessun sem lýkur með orðunum: „Samfélag heilags anda sé með ykkur öllum.“

Samfélag heilags anda. Kærleikssamfélagið. Samfélagið þar sem við gætum hvert annars, höldum hvert utan um annað og komum fram við okkar minnstu bræður og systur eins og þar sé frelsari okkar á ferðinni – sem hann er … það er samfélag heilags anda.

Hitt sem við verðum að skilja er hvað í því felst að lastmæla. Íslenska orðið hefur töluvert veikari merkingu en frummálið ef maður skilur það bókstaflega, aðeins að mæla last. Gríska sögnin sem þarna er á bak við er blasfemeo[1]. Feme merkir að tala, en fyrri hlutinn sem myndaður er af sögninni blapto, merkir ekki að lasta heldur meiða, særa, skaða. Að láta út úr sér eitthvað niðrandi muldur sem engin áhrif hefur er þannig ekki að lastmæla. Bölv og ragn sem hefur sömu áhrif og að skvetta vatni á gæs er ekki að lastmæla. Það er ekki fyrr en þú ert farinn að meiða og skaða kærleikssamfélagið með því sem þú hefur til málanna að leggja – eða með því sem þú lætur það ógert að leggja til málanna – sem þú ert orðinn sekur um lastmæli gegn heilögum anda.

Og það verður þér aldrei fyrirgefið. Það er eilífur glæpur gegn öllu sem gott er og fallegt. Jesús segir það.

Jesús er nefnilega ekki þetta krútt sem sumir vilja hafa hann. Hann er alveg með það á hreinu að það er hægt að fyrirgera sáluhjálp sinni. Að það er of seint að iðrast eftir dauðann.

Uppskriftin að kærleikssamfélaginu

Í 25. kafla Matteusarguðspjalls er þessi gullna setning höfð eftir honum:

„Sannlega segi ég yður: Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér.“ (Matt 25.40)

Það er freistandi að hætta að lesa þar, en næsta setning er:

„Síðan mun hann segja við þá til vinstri handar: Farið frá mér, bölvaðir, í þann eilífa eld sem búinn er djöflinum og árum hans.“ (Matt 25.41)

Og af hverju fá þeir til vinstri handarinnar svona kaldar kveðjur … eða heitar, eftir því hvernig á það er litið? Jú, af því að niðurlagið er:

„Allt sem þér gerðuð ekki einum minna minnstu bræðra, það hafið þér ekki heldur gert mér.“ (Matt 25.45)

En hvað var það sem hinir réttlátu, hinir sáluhólpnu, gerðu en hinir létu ógert? Jesús segir það:

„… hungraður var ég og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég og þér hýstuð mig, nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég og þér komuð til mín.“ (Matt 25.35-36)

Með öðrum orðum: Hann gaf okkur uppskriftina að kærleikssamfélaginu, samfélagi heilags anda.

Mig langar að staldra við eitt orð í þessari uppskrift: „Gestur“. Aftur er þýðingin nefnilega að þvælast fyrir okkur. Gríska orðið sem þarna er á bak við er „xenos“. Það getur vissulega þýtt gestur … en það þýðir í raun aðkomumaður, einhver sem tilheyrir ekki samfélaginu heldur er utanaðkomandi, það merkir gjarnan útlendingur. Það er ekki notað um vini og kunningja sem kíkja í kaffi. Orðið xenos þekkjum við kannski helst sem hluta alþjóðlega orðsins xenophobia: Útlendingahatur.

Kristin trú og gildi

Kærleikssamfélagið tekur aðkomufólki opnum örmum og hýsir það. Og það er því miður eitur í beinum sorglega margra. Sorglegast er þó auðvitað þegar höfuðið er bitið af skömminni með því að lastmæla gegn heilögum anda í Jesú nafni.

Nú í vikunni birtist til að mynda viðtal við unga konu sem hefur í hyggju að gefa kost á sér í borgarstjórn Reykjavíkur fyrir flokk sem hefur einna helst markað sér sérstöðu fyrir að leggjast hart gegn innflytjendum og múslimum. Spurð út í þau mál svarar hún einfaldlega: „Flokkurinn styður kristna trú og gildi.“

Sá sem stendur í þeirri meiningu að við verndum kristindóminn með því að hýsa ekki aðkomufólk hefur sennilega ekki lesið 25. kafla Matteusarguðspjalls þar sem Jesús segir berum orðum við hina glötuðu til að útskýra fyrir þeim með hvaða hætti þeir fyrirgerðu sáluhjálp sinni: „… gestur var ég …“ semsagt aðkomumaður eða útlendingur „… en þér hýstuð mig ekki“ (Matt 25.43).

Þetta er sáraeinfalt: Við styðjum ekki kristna trú og gildi – samfélag heilags anda – með því að snúa baki við grunngildum kristindómsins. Nákvæmlega þannig drepum við það.

Og það er ófyrirgefanlegt.

En örvæntum ekki. Það er í okkar valdi að koma í veg fyrir að þetta tal og þessi viðhorf eyðileggi og skaði kærleikssamfélagið sem kristið fólk leitast við í vanmætti sínum að viðhalda. Látum óttann og heimskuna ekki spilla okkur. Verum óhrædd. Klæðumst hertygjum ljóssins. Biðjum Guð að gefa okkur heilagan anda að vekja og glæða hið góða sem hann hefur fólgið í sálum okkar, heilagan anda að gefa okkur vit og kjark til að tala máli sannleikans og náungakærleikans.

Það er nefnilega í okkar valdi hvort ótti og heimska sem gera vart við sig í samfélagi okkar séu bara það, ótti og heimska, eða hvort við leyfum óttanum og heimskunni að skaða samfélagið og verða þannig að eilífri, ófyrirgefanlegri synd.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 3. september 2017

[1] Notað af Markúsi.

mary-of-bethany

Guðspjall: Farísei nokkur bauð Jesú til máltíðar og hann fór inn í hús faríseans og settist til borðs. En kona ein í bænum, sem var bersyndug, varð þess vís að hann sat að borði í húsi faríseans. Kom hún þá með alabastursbuðk með smyrslum, nam staðar að baki Jesú til fóta hans grátandi, tók að væta fætur hans með tárum sínum, þerraði þá með höfuðhári sínu, kyssti þá og smurði með smyrslunum. Þegar faríseinn, sem hafði boðið honum, sá þetta sagði hann með sjálfum sér: „Væri þetta spámaður mundi hann vita hver og hvílík sú kona er sem snertir hann, að hún er bersyndug.“ Jesús sagði þá við hann: „Símon, ég hef nokkuð að segja þér.“ Hann svaraði: „Seg þú það, meistari.“ „Tveir menn voru skuldugir lánveitanda nokkrum. Annar skuldaði honum fimm hundruð denara en hinn fimmtíu. Nú gátu þeir ekkert borgað og þá gaf hann báðum upp skuldina. Hvor þeirra skyldi nú elska hann meira?“ Símon svaraði: „Sá hygg ég sem hann gaf meira upp.“ Jesús sagði við hann: „Þú ályktaðir rétt.“ Síðan sneri hann sér að konunni og sagði við Símon: „Sér þú konu þessa? Ég kom í hús þitt og þú gafst mér ekki vatn á fætur mína en hún vætti fætur mína tárum sínum og þerraði með hári sínu. Ekki gafst þú mér koss en hún hefur ekki látið af að kyssa fætur mína allt frá því ég kom. Ekki smurðir þú höfuð mitt olíu en hún hefur smurt fætur mína með smyrslum. Þess vegna segi ég þér: Hinar mörgu syndir hennar eru fyrirgefnar enda elskar hún mikið en sá elskar lítið sem lítið er fyrirgefið.“ Síðan sagði hann við hana: „Syndir þínar eru fyrirgefnar.“ Þá tóku þeir sem til borðs voru með honum að segja með sjálfum sér: „Hver er sá er fyrirgefur syndir?“ En Jesús sagði við konuna: „Trú þín hefur frelsað þig, far þú í friði.“ (Lúk 7.36-50)

 

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Það segir að mínu mati sína sögu um eilíft erindi kristindómsins að við skulum koma saman í kirkju árið 2017 og heyra þar næstum því 2000 hugsanlega allt að 3000 ára gamla texta um siðferðileg álitamál sem við stöndum frammi fyrir enn í dag. Að umræðuefni sem hefur verið í deiglunni nú síðsumars hér uppi á Íslandi skuli vera tekið föstum tökum í heilagri ritningu og afgreitt án vífilengja eða yfirdrepsskapar.

Í dag  fjalla textarnir um það hvað þarf að gera til að hrista af sér syndaok fortíðarinnar, til að geta sagt skilið við fortíðardraugana sem þjaka samvisku okkar og halda okkur niðri svo við getum hafið nýtt líf, laus við gamlar misgjörðir og gengið til móts við framtíðina uppreist … æru.

Margt hefur verið sagt og skrifað um þetta umfjöllunarefni hér uppi á Íslandi undanfarnar vikur í kjölfar uppljóstrana um það hvernig staðið er að því að veita Íslendingum lögformlega uppreist æru eftir að þeir hafa setið af sér dóma, jafnvel fyrir þau afbrot sem allur þorri almennings telur einna svívirðilegust og auvirðulegust, og fæst af því jafn viskulegt og það sem höfundur Lúkasarguðspjalls skrifaði öðru hvoru megin við fyrstu aldamót okkar tímatals í sögunni af samskiptum Jesú og bersyndugu konunnar. Þar hefur mér sýnst að menn skipi sér einkum í tvo hópa; annars vegar er einfeldningshátturinn, hins vegar er heiftin.

Hvorugt er líklegt til að lækna eða græða sár.

Einfeldningslega nálgunin

Einfeldningslega nálgunin er sú að fyrirgefningin sé svo heilög skylda okkar að það að neita að fyrirgefa og erfa misgjörðir endalaust við menn sé slíkur glæpur að glæpurinn sem við eigum að fyrirgefa beinlínis blikni í samanburði. Að finnast það óeðlilegt og andmæla því að kynferðisafbrotamenn, sem hvorki hafa sýnt iðrun né gert neina yfirbót – hafa jafnvel ekki einu sinni játað glæpina sem þeir þó hafa setið af sér þunga dóma fyrir að hafa framið, fái uppreist æru eins og hendi sé veifað og vilja að farið sé í saumana á stjórnsýslunni sem þar er að baki og leyndinni verði svipt af ferlinu, er jafnvel lagt að jöfnu við að vilja grýta og berja mennina að afplánun lokinni. Eða að það að vera að staldra við gamlar misgjörðir festi okkur bara í viðjum gamalla synda og ljótleika og við verðum bara að rísa yfir það og vera stærri og meiri manneskjur en svo að vera með þetta gamla mál endalaust á heilanum, eins og afleiðingar nauðgunar, svo dæmi sé tekið, sé bara hægt að strjúka burt eins og hverja aðra hafragrautsklessu sem maður fær á sig við að mata óvita.

Einfeldningslega nálgunin hefur miskunnarlaust verið notuð sem kúgunartæki í gegn um tíðina, til að varpa sektinni af gerendum yfir á fórnarlömb þeirra: „Þið eigið að fyrirgefa. Jesús segir það. Enginn er fullkominn, allir hafa eitthvað á samviskunni. Hvaða illmenni eruð þið eiginlega að geta ekki fyrirgefið þetta?“ Og þannig getur gerandinn haldið uppteknum hætti og syndgað endalaust upp á náðina, verndaður af fyrirgefningarskyldu þolendanna.

Heiftúðuga nálgunin

Heiftúðuga nálgunin er síðan í því fólgin að harðneita að fyrirgefa undir neinum kringumstæðum. Að með því að fremja ákveðna glæpi hafi menn sagt sig úr mannlegu samfélagi um alla eilífð, óháð því hvort menn sjái að sér og sýni iðrun og betrun. Að lífstiðarfangelsi án nokkurs möguleika á reynslulausn sé eina sanngjarna andsvarið við ákveðnum misgjörðum; að loka þá inni og henda lyklinum. Að sumir eigi einfaldlega ekki undir neinum kringumstæðum að eiga möguleika á að fá annað tækifæri.

Heiftúðuga nálgunin er líka magnað kúgunartæki. Henni er ætlað að hræða fólk til að haga sér skikkanlega vegna þess að refsingin verði eilíf og óáfrýjanleg.

En hún reyndar virkar ekki. Hvergi í heiminum, eftir því sem ég best veit, er fylgni á milli glæpatíðni og refsigleði. Í Bandaríkjunum hækkaði morðtíðnin skömmu eftir að dauðarefsingar voru teknar upp að nýju. Þó var því einmitt ætlað að hafa fælingarmátt. Refsigleði samfélagsins hefur nefnilega ekki áhrif á glæpatíðni, þar eru aðrir samfélagsþættir og sveiflur að baki. Það eina sem heiftin skapar, ef hún fær að ráða, er ómannúðlegra samfélag, ekki öruggara samfélag.

Fyrigefning án iðrunar

En hvaða pól eigum við þá að taka í hæðina? Við eigum að fyrirgefa, það er óumdeilanlegt. En við eigum líka að taka afleiðingum gjörða okkar.

Jesús talar mikið um fyrirgefninguna og fyrirgefur mikið. En fyrirgefningin er aldrei skilyrðislaus. Jesús fyrirgefur aldrei þeim sem koma fram fyrir hann og þykjast vera syndlausir, enda væri það út í hött. Jesús fyrirgefur iðrandi syndurum.

Við eigum nefnilega líka að iðrast synda okkar.

Jesús segir margar dæmisögur um fyrirgefninguna. Um þjóninn sem fékk háar skuldir afskrifaðar en fór svo og hótaði þeim sem skulduðu honum brot af því, sem hann hafði fengið afskrifað, ofbeldi og líkamsmeiðingum ef þeir borguðu ekki. Fyrir vikið var fyrirgefning hans afturkölluð í skyndi. (Matt 18.21-34)

Glataði sonurinn snýr aftur til föður síns, ekki til að taka við fyrri stöðu sinni, ekki til að krefjast þess að strik sé dregið yfir misgjörðir hans og fá uppreist æru eins og það sé eitthvað sem hann eigi rétt á, heldur til að sýna iðrun og gera yfirbót; til að fá að vera einn af verkamönnum föður síns. Taka afleiðingum gjörða sinna. (Lúk 15.11-32)

Þannig er fyrirgefningin aldrei skilyrðislaus. Engin iðrun, engin yfirbót … engin fyrirgefning.

Og það sem meira er: Engin syndajátning þýðir augljóslega að engin ástæða er til að biðja um fyrirgefningu til að byrja með. Og þar af leiðandi engin ástæða til að gefa hana.

Límd við fortíð sína

Guðspjall dagsins segir sögu af samskiptum Jesú og bersyndugrar konu. Við vitum ekki nafn konunnar, við vitum ekki nákvæmlega hver synd hennar var. Við getum ályktað að hún hafi á einhvern hátt brotið gegn miskunnarlausri og heiftúðugri siðferðislöggjöf síns tíma – okkur finnst það líklega sennilegast. Því við vitum að það er gömul saga og ný að kúgaðar og örvæntingarfullur konur eiga eitt örþrifaráð til að afla sér fjár og við vitum hvert það er. Við vitum ekkert hvað þessi kona hafði sér til málsbóta … ef eitthvað. En við vitum að hún var stimpluð fyrir lífstíð. Fortíðin var límd við hana. Hún skyldi ekki fá hið minnsta tækifæri til að losa sig við misgjörð sína, synd hennar skyldi ekki gleymast, ekki fyrirgefast. Hún skyldi aftra henni frá því að eignast nokkuð það sem kalla mætti eðlilegt líf. Hún skyldi ekki fá annað tækifæri.

En Jesús fyrirgaf henni. Hún elskaði mikið. Hún lét ekki af að kyssa fætur hans og þvo þá með tárum sínum og höfuðhári. Hún gerði enga tilraun til að spila sig syndlausa. Hún kom ekki til hans með kröfur um fyrirgefningu og uppreist æru … hún kom til að gera yfirbót.

Enginn valinkunnur einstaklingur talaði máli hennar.

Og ef þessi valinkunni farísei sem Jesús var staddur hjá hefði nú verið beðinn að gangast í ábyrgð fyrir einhvern einstakling sem Jesús ætlaði að þvo hreinan af allri synd hefði þessi nafnlausa kona ábyggilega ekki orðið fyrir valinu, jafnvel ekki þótt honum hefði verið boðið að gera það undir nafnleynd. Fyrir honum var hún ekki manneskja, hún var bara syndin sem hún hafði drýgt. Hann sá hana ekki eins og hún var, hann sá aðeins fortíð hennar.

En hún skildi við fortíð sína hjá Jesú. Hún fór af fundi hans uppreist æru … þar sem það skiptir máli. Hún hafði sjálf þvegið æru sína hreina … með tárum sínum.

Það er hin eina sanna uppreist æru.

Uppreistir einstaklingar

Fjöldi einstaklinga með eitt og annað á samviskunni ganga meðal okkar með uppreista æru án þess að hafa upp á það neina pappíra með eiginhandaráritun forseta Íslands fengna út á vinskap við valinkunna nafnleysingja. Fólk sem hefur snúið við blaðinu og helgað líf sitt því að hjálpa öðrum til þess sama – sem síðan munu sjálfir taka til við að hjálpa öðrum. Hin ýmsu 12 spora samtök, svo dæmi sé tekið, eru full af svoleiðis fólki. Og starf þeirra mun halda áfram að bera ávöxt og græða sár og byggja upp einstaklinga löngu eftir að þeirra sjálfra nýtur ekki lengur við því gjöf þeirra heldur áfram að gefa og gefa og gefa.

Þetta fólk þarf engan pappír upp á að það varði við lög að nefna fortíð þess. Fólk með hreina æru þarf ekki að óttast að fortíð þess sé dregin fram í dagsljósið; fortíð þess er einmitt dýrmætasta lexía lífs þeirra. Enda eru slíkir pappírar einskis virði. Enginn þvær æru sína hreina með undirskrift forseta Íslands, þú þværð hana aðeins hreina með þínum eigin tárum.

Fyrir okkur sjálf

Auðvitað eigum við að fyrirgefa. En við skuldum engum fyrirgefningu sem við erum ekki reiðubúin til að gefa af einlægu hjarta. Enginn getur krafið okkur um það sem við eigum enga innistæðu fyrir.

En sá tími kemur að við verðum að sleppa tökunum. Alls ekki að afsaka eða réttlæta það sem okkur var gert heldur að sleppa tökunum á því. Skilja fortíðina eftir og ganga til móts við framtíðina frjáls undan henni, hnarreist og uppreist. Sá tími kemur að við finnum sjálf að fortíðin er að sliga okkur, að við verðum að varpa henni af okkur eins og ham sem háir vexti okkar og  þroska.

En hvenær sá tími kemur að við erum reiðubúin til þess að gefa okkur sjálfum þá dýrmætu gjöf að fyrirgefa það sem okkur var gert … að sleppa tökunum á því … enginn getur sagt okkur hvenær sá tími kemur. Forseti Íslands getur ekki skikkað okkur til þess með undirskrift sinni.

En ef við göngum á fund Jesú þá getum við skilið fortíðina eftir hjá honum.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

My loved one had a vineyard on a fertile hillside. He dug it up and cleared it of stones and planted it with the choicest vines. He built a watchtower in it and cut out a winepress as well. Then he looked for a crop of good grapes, but it yielded only bad fruit. “Now you dwellers in Jerusalem and people of Judah, judge between me and my vineyard. What more could have been done for my vineyard than I have done for it? When I looked for good grapes, why did it yield only bad? Now I will tell you what I am going to do to my vineyard: I will take away its hedge, and it will be destroyed; I will break down its wall, and it will be trampled. I will make and briers and thorns will grow there. I will command the clouds not to rain on it.” The vineyard of the Lord Almighty is the nation of Israel, and the people of Judah are the vines he delighted in. And he looked for justice, but saw bloodshed; for righteousness, but heard cries of distress. (Isaiah 5.1-7)

“To what can I compare this generation? They are like children sitting in the marketplaces and calling out to others: “We played the pipe for you, and you did not dance; we sang a dirge, and you did not mourn.“ For John came neither eating nor drinking, and they say, ‘He has a demon.’ The Son of Man came eating and drinking, and they say, ‘Here is a glutton and a drunkard, a friend of tax collectors and sinners.’ But wisdom is proved right by her deeds.” Then Jesus began to denounce the towns in which most of his miracles had been performed, because they did not repent. “Woe to you, Chorazin! Woe to you, Bethsaida! For if the miracles that were performed in you had been performed in Tyre and Sidon, they would have repented long ago in sackcloth and ashes. But I tell you, it will be more bearable for Tyre and Sidon on the day of judgment than for you. And you, Capernaum, will you be lifted to the heavens? No, you will go down to Hades. For if the miracles that were performed in you had been performed in Sodom, it would have remained to this day. But I tell you that it will be more bearable for Sodom on the day of judgment than for you.” (Matthew 11.16-24)

Grace be with you and peace from God the father and the Lord Jesus Christ. Amen.

One of the funniest comedy sketches I have ever seen has British comedians David Mitchell and Robert Webb playing two German soldiers on the eastern front close to the end of WWII. To be exact, they‘re SS troopers, dressed in black and carrying the SS skull symbol on their caps.

8ubGFLtOne of them asks the other: „Hans. Do you think perhaps we may be the baddies?“

Hans doubts that. „How can you think such nonsense,“ he asks. „Have you  been listening to the enemy‘s propaganda again? Of course they say we are the baddies.“

The first one answers: „The allies did not design our uniforms, Hans. Why do we have skulls as our symbol? What do you connect with skulls? When have the good guys ever adorned themselves with skulls?“

Then they discuss this back and forth until the horrible realization dawns upon them: They‘re not the good guys – they are in fact the baddies.

Besides how far-fetched and absurd it is that characters like these would have this conversation at this time and place this is also funny because it is true. Everybody thinks they‘re the good guys.

The higher purpose of evil

Very few people follow a cause they believe to be wrong and bad. All the greatest villains of history were convinced they were doing the right thing, doing their country and people good. That the genocides, mass murders, executions and persecutions were an evil necessity for their glorious vision to be realized. That in the end what would be gained would be worth more than what was sacrificed to obtain it. That they would be remembered for the great result, not the horrors that paved the way.

Hitler, Stalin, Mao Tse Tung, Pol Pot … this is by no means a complete list, just the first four names that sprung to my mind … none of them made the decision to bring their country to its knees, but all of them did – some to a greater extent than others. Nobody intends to be bad.

I was once on a radio interview where I called the present president of the United States a fascist. In return I was asked how I could call him a fascist. Wasn‘t he just a man who wished the best for his people? … as if what defines a fascist was wanting bad things for his or her own nation. What makes someone a fascist is not whether or not he or she defines himself or herself as a good guy or a baddie, but the method with which he or she proposes to do good according to his or her own definition of what that entails. The problem is that no one has ever succeeded. All attempts to create a fascist utopia have only resulted in hell on earth. This is because the end never justifies the means. The conclusion is always the legitimate offspring of the methods with which it was reached.

Maybe it is therefore that Láki the goblin (a character in a classic, Icelandic children‘s book) is in my opinion one of the most horrible villains in literature. Simply because his wickedness has no higher purpose, he only does evil for his own entertainment. „Being bad is fun,“ is his motto. Not even Hitler and Stalin commited their atrocities because they thought being bad was fun.

They thought they were the good guys.

But they were wrong.

Justifying one self

Today‘s readings from the Bible are not pretty. They are curses upon those who thought they were the good guys but were wrong. Isaiah speaks on the behalf of a God that is going to tear down the vineyard he loves, which is the people who say they believe in him and probably believe themselves to truthfully and faithfully obey his will in everything. But God is going to destroy this vineyard because he „looked for justice, but saw bloodshed; for righteousness, but heard cries of distress.“

And Jesus tells the people of Capernaum that they will literally go to hell, down to Hades. That it  will be more bearable for Sodom on the day of judgment than for them. This is not a cozy message.

Jesus had worked in Capernaum, resided there and healed the sick (Matthew 4.12; Mark 2.1, Luke 4.23; 4.31-44; 7.1-10). This curse is usually not considered to stem from the townspeople‘s lack of will to accept faith but from their arrogance. The reason Jesus mentions that the city will not be lifted into heaven is thought to have been that the townspeople believed it would be. There would be no reason to state this if nobody had claimed the opposite. Jesus sees no reason to mention that other cities won‘t either be lifted into heaven. Probably there was no such misunderstanding that needed to be corrected.

The imagery here is based on the book of the prophet Isaiah (14.13-15). The fate of Capernaum will be the same as the emperor‘s of Babylon. In the fourteenth chapter the emperor says to himself: „I will ascend to the heavens“ (14.13). But what happens? Two verses later he is „brought down to the realm of the dead, to the depths of the pit“ (14.15). The gospel‘s text is a very typical prophetic curse in the style of the Old Testament. The messasege is that „pride goes before destruction, and a haughty spirit before a fall“ (Proverbs 16.18).

As a sidenote it may be added that Capernaum was a harbor town on the northern shore of Lake Geneserath. It went into ruins in the 11th century. If Jesus‘ words are to be understood as a prophecy then it took a thousand years for it to come true.

The waring signals

But now we have a problem. We, who wish to be the good guys, how can we be sure we are if we would also believe we were even if we in fact were the baddies? Aren‘t there some warning signals, some red lights to which we could be alert?

Of course there are. And it is very important that we keep our ears and eyes open for them. Here, for instance, is one warning signal for which we should constantly be on the lookout:

If you are somewhere with a group of your peers and suddenly they start waving flags that can only be linked with mass murders, genocides, torture and the dehumanization of entire races of people for the financial benefit of rich, white males – i.e. swastikas and confederate flags – and they start chanting slogans about white supremacy and against Jews and muslims … and you don‘t leave the party but still feel you‘re surrounded by peers and you start participating in these activities with them … then you are not a good guy – no matter how convinced you may be otherwise.

charlottesvilleThis of course is so obvious that everybody understands it exept for the president of the United States. But exactly because the most powerful man in the world appears to be less sensible than comic characters in an absurd comedy sketch about nazis it is so important that the rest of us aren‘t. That we keep our heads clear. That we accept facts and don‘t make up our own.

Simple truths

Vaccines save lifes. The moon landing was not a hoax. The holocaust happened. The earth is not flat. Nazis are not the good guys.

It is of course horrible that in the year 2017 there is reason to reitirate such simple truths. But since there is reason to it is vital that we do.

Because God still asks us the same questions he asked the people of Judah in the days of the prophet Isaiah: „Do I see justice or do I see bloodshed? Do I hear righteousness or do I hear cries of distress?“ The answers to these questions determine wheter we shall be in heaven or in hell.

Or rather: The answers define whether we are in heaven or hell.

Because it is within our power to live in heaven on earth – as it is within our power to make this earth a living hell.

Glory to the father and the son and the holy spirit. As it was in the beginning, so it shall be for ages and ages. Amen.

A sermon given in Laugarnes church in Reykjavík august 20th 2017.

Lexía: Jes 5.1-7
Ástvinur minn átti víngarð á frjósamri hæð. Hann stakk upp garðinn, tíndi úr honum grjótið, gróðursetti gæðavínvið. Hann reisti turn í honum miðjum og hjó þar þró til víngerðar. Hann vonaði að garðurinn bæri vínber en hann bar muðlinga. Dæmið nú, Jerúsalembúar og Júdamenn, milli mín og víngarðs míns. Hvað varð meira að gert við víngarð minn en ég hafði gert við hann? Hví bar hann muðlinga þegar ég vonaði að hann bæri vínber? En nú vil ég kunngjöra yður hvað ég ætla að gera við víngarð minn: Ég ríf niður limgerðið svo að hann verði nagaður í rót, brýt niður múrvegginn svo að hann verði troðinn niður. Ég vil gera hann að auðn, hann skal ekki verða sniðlaður og ekki stunginn upp, þar skulu vaxa þistlar og þyrnar og skýjunum vil ég banna að vökva hann regni. Því að víngarður Drottins er Ísraels hús og Júdamenn ekran sem hann ann. Hann vænti réttlætis en sá blóði úthellt, vænti réttvísi en neyðaróp kváðu við.

Guðspjall: Matt 11.16-24
Við hvað á ég að líkja þessari kynslóð? Lík er hún börnum sem á torgum sitja og kallast á: Vér lékum fyrir yður á flautu og ekki vilduð þér dansa. Vér sungum yður sorgarljóð og ekki vilduð þér syrgja. Jóhannes kom, át hvorki né drakk, og menn segja: Hann hefur illan anda. Mannssonurinn kom, át og drakk, og menn segja: Hann er mathákur og vínsvelgur, vinur tollheimtumanna og bersyndugra! En spekin sannast af verkum sínum.“ Þá tók Jesús að ávíta borgirnar, þar sem hann hafði gert flest kraftaverk sín, fyrir að hafa ekki tekið sinnaskiptum. „Vei þér, Korasín! Vei þér, Betsaída! Ef gerst hefðu í Týrus og Sídon kraftaverkin, sem gerðust í ykkur, hefðu þær löngu iðrast í sekk og ösku. En ég segi ykkur: Týrus og Sídon mun bærilegra á dómsdegi en ykkur. Og þú, Kapernaúm. Verður þú hafin til himins? Nei, til heljar mun þér steypt verða. Ef gerst hefðu í Sódómu kraftaverkin, sem gerðust í þér, þá stæði hún enn í dag. En ég segi yður: Landi Sódómu mun bærilegra á dómsdegi en þér.“

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Einn skemmtilegasti gamanleikþáttur sem ég hef séð er með bresku grínistunum David Mitchell og Robert Webb. Þar leika þeir tvo þýska hermenn á austurvígstöðvunum undir lok seinni heimsstyrjaldarinnar. Nánar tiltekið þá eru þeir SS-menn, svartklæddir og með einkennismerki SS-sveitanna, hauskúpu, á kaskeitunum sínum og í boðungunum á frökkunum.

8ubGFLt

Annar þeirra spyr hinn: „Heyrðu, Hans? Heldurðu að það gæti verið að við séum vondu gæjarnir?“

Hans tekur dræmt í það. „Hvernig dettur þér svoleiðis vitleysa í hug?“ spyr hann. „Hefurðu verið að hlusta á áróður bandamanna? Auðvitað segja þeir að við séum vondu gæjarnir.“

Hinn svarar: „Bandamenn hönnuðu ekki búningana okkar. Hauskúpur? Af hverju erum við með hauskúpur sem merkið okkar? Hvað tengir maður við hauskúpur? Hvenær hafa góðu gæjarnir skreytt sig með hauskúpum?“

Þetta ræða þeir fram og til baka uns hinn hræðilegi sannleikur rennur upp fyrir þeim: Þeir eru ekki góðu gæjarnir, þeir eru vondu karlarnir.

Fyrir utan hvað þetta er langsótt og absúrd – að þessir menn eigi þetta samtal undir þessum kringumstæðum – þá er þetta fyndið vegna þess að það er satt. Allir halda að þeir séu góðu gæjarnir.

Æðri tilgangur illskunnar

Mjög fáir fylkja liði á bak við málstað sem þeir eru sannfærðir um að sé rangur og vondur. Öll mestu illmenni sögunnar hafa verið sannfærð um að þau væru að gera rétt, að vinna landi sínu og þjóð gagn. Að þjóðernishreinsanirnar, fjöldamorðin, aftökurnar og ofsóknirnar væru ill nauðsyn til að hin stórkostlega draumsýn þeirra gæti orðið raunveruleg. Að þegar upp væri staðið yrði það sem ynnist meira virði en það sem fórnað var til að öðlast það. Að þeirra yrði minnst fyrir hinn stórkostlega árangur, ekki viðbjóðinn sem þurfti að framkvæma til að ná honum.

Hitler, Stalín, Maó, Pol Pot – listinn er langt í frá tæmandi, þetta voru bara fyrstu nöfnin sem komu upp í hugann … enginn þessarra manna tók þá ákvörðun að koma þjóð sinni á vonarvöl en allir fóru þeir þó langt með það, sumir lengra en aðrir. Það ætlar enginn að vera vondur.

Einu sinni var ég í útvarpsviðtali þar sem ég kallaði núverandi forseta Bandaríkjanna fasista. Ég var spurður hvernig ég gæti kallað hann fasista, hvort hann vildi ekki bara þjóð sinni vel … eins og það sé eitthvað einkenni á fastistum að vilja þjóð sinni illt eitt. Það sem gerir einhvern að fasista er ekki hvort hann skilgreini sig sjálfur sem góðan gæja eða vondan heldur aðferðirnar sem hann vill beita til að reynast þjóð sinni vel samkvæmt sinni eigin skilgreiningu á því hvað í því felst. Málið er að það hefur aldrei tekist. Allar tilraunir til að koma á fót dýrðarríki fasisma hafa aðeins skapað helvíti á jörð. Tilgangurinn helgar nefnilega aldrei meðalið. Niðurstaðan er alltaf skilgetið afkvæmi aðferðanna sem beitt var til að fá hana.

Það er kannski þess vegna sem Láki jarðálfur er að mínu mati eitt svakalegast illmenni bókmenntasögunnar. Einmitt vegna þess að fyrir honum vakir ekkert æðra markmið, illska hans hefur engan tilgang annan en að skemmta honum sjálfum. „Það er gaman að vera vondur!“ er slagorð hans. Jafnvel Hitler og Stalín frömdu ekki voðaverk sín af því að þeim fannst gaman að vera vondir.

Þeir héldu að þeir væru góðu gæjarnir.

En þeir höfðu rangt fyrir sér.

Sannfæring um eigið réttlæti

Ritningartextar dagsins eru ekki fallegir. Þeir eru fordæming á þeim héldu að þeir væru góðu gæjarnir en höfðu rangt fyrir sér. Jesaja mælir fyrir munn Guðs sem ætlar að rífa niður víngarðinn sem hann ann, sem er lýðurinn sem í orði kveðnu segist trúa á hann og er eflaust sjálfur sannfærður um að hann fylgi vilja Guðs í einu og öllu. En Guð ætlar að gera þennan víngarð að auðn vegna þess að „hann vænti réttlætis en sá blóði úthellt, vænti réttvísi en neyðaróp kváðu við.“

Og Jesús boðar borgarbúum í Kapernaúm að þeim verði beinlínis steypt til heljar, að bærilegra hafi verið í Sódómu á dómsdegi en verði í Kapernaúm. Þetta eru ekki notaleg skilaboð.

Jesús hafði starfað í Kapernaúm, haft þar bækistöð og læknað sjúka. (Matt 4.12; Mark 2.1; Lúk 4.23; 4.31-44; 7.1-10) Formælingin er yfirleitt ekki rakin til þess að borgarbúar hafi verið tregir til að taka trú, heldur til hroka borgarbúa. Ástæða þess að Jesús tekur fram að borgin verði ekki hafin til himins er talin hafa verið sú að borgarbúar hafi gert sér það í hugarlund. Ástæðulaust væri að hafa orð á því nema einhver hefði haldið því fram. Jesús sér enga ástæðu til að minnast sérstaklega á það að aðrar borgir verði ekki heldur hafnar til himins. Sennilega var enginn misskilningur í þá átt á ferðinni sem þurfti að leiðrétta.

Myndmálið hér byggir á Spádómsbók Jesaja (14.13-15). Örlögin, sem bíða Kapernaúm, verða þau sömu og Babýlóníukeisara. En í fjórtánda kafla Spádómsbókar Jesaja segir keisarinn við sjálfan sig: „Ég skal stíga upp til himins.“ (14.13) En hvað gerist? Tveimur versum seinna er honum varpað niður til heljar. (14.15) Texti guðspjallsins er mjög dæmigerð formæling í spámannlegum gamlatestamentisanda. Boðskapurinn er að hroki sé falli næst.

Þess má í framhjáhlaupi geta að Kapernaúm var hafnarborg við norðurbakka Genesaretvatns sem fór í eyði á 11. öld. Ef skilja á formælingu Jesú sem spádóm var því þúsund ára bið á að hann rættist.

Aðvörunarmerkin

En nú er úr vöndu að ráða. Við sem viljum vera góðu gæjarnir, hvernig getum við verið viss um að við séum það í raun og veru, fyrst við myndum halda það jafnvel þótt við værum í raun vondu kallarnir? Eru ekki einhver aðvörunarljós sem við getum haft augun opin fyrir, einhverjar viðvörunarbjöllur sem hringja?

Jú, auðvitað. Og það er mjög mikilvægt að hafa augun og eyrun opin fyrir þeim. Hér er til dæmis eitt aðvörunarljós sem mikilvægt er að vera vakandi fyrir:

Ef þú ert staddur einhvers staðar meðal skoðanasystkina þinna og þau byrja að veifa fánum sem aðeins tengjast fjöldamorðum, þjóðernishreinsunum, misþyrmingum og afmennskun heilu kynþáttanna í hagnaðarskyni fyrir ríka, hvíta karla – hakakross- og suðurríkjafánum – og hrópa slagorð um yfirburði hvíta kynstofnsins og gegn gyðingum og múslimum … og þú yfirgefur ekki samkvæmið heldur finnst þú enn vera í hópi skoðanasystkina þinna og tekur þátt í þessu með þeim … þá ertu ekki góði gæinn – sama hve sannfærður þú ert um að svo sé.

charlottesvilleÞetta er náttúrulega svo augljóst að þetta vefst ekki fyrir neinum nema forseta Bandaríkjanna. En einmitt vegna þess að valdamesti maður heims virðist vera skyni skroppnari en grínfígúrur í súrrealískum gamanleikþætti um nasista, er svo mikilvægt að við hin séum það ekki. Að við séum með hausinn í lagi. Að við viðurkennum staðreyndir og búum ekki til þær sem henta okkur.

Einfaldur sannleikur

Bólusetningar bjarga mannslífum. Tungllendingin var ekki lygi. Helförin átti sér stað. Jörðin er ekki flöt. Nasistar eru ekki góðu gæjarnir.

Í sjálfu sér er hryllilegt að árið 2017 skuli vera ástæða til að hamra á augljósum sannindum eins og þessum. En einmitt vegna þess að ástæða er til þess er nauðsynlegt að það sé gert.

Enn í dag spyr Guð okkur nefnilega sömu spurninga og Júdamenn á dögum Jesaja spámanns: „Sé ég réttlæti eða sé ég blóði úthellt? Heyri ég réttvísi eða heyri ég neyðaróp?“ Svarið við þessum spurningum ræður úrslitum um það hvort við verðum í himnaríki eða helvíti.

Eða öllu heldur: Svarið við þeirri spurningu skilgreinir það hvort við erum í himnaríki eða helvíti.

Það er nefnilega á okkar valdi hvort við lifum í himnaríki á jörð eða hvort við gerum jörðina að helvíti.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 20. ágúst 2017

rainbow_window_cross01 - 600 pxNáð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Hvað er kirkjan að skipta sér af stjórnmálum? Af hverju ætti kirkjan að taka afstöðu til deilumála samtímans? Er það ekki hlutverk kirkjunnar að sameina frekar en sundra? Vinnur hún ekki gegn meginmarkmiði sínu með því að taka sér stöðu með annarri fylkingunni þar sem tvær deila? Af hverju er hún ekki þæg og góð og heldur sig við það sem til hennar friðar heyrir; að prédika líf eftir dauðann og að við eigum að vera góð hvert við annað og lætur stjórnmálamönnunum það eftir að deila um skattkerfið, auðlindanýtingu, loftslagsmál og annað dægurþras?

Að skipta máli

Svarið er einfalt: Af því að kirkjan lætur sig líf fólks varða. Kirkjan lítur ekki á það sem hlutverk sitt að klappa hinum kúguðu og þjáðu á kollinn og segja: „Svona, svona. Þetta verður miklu betra eftir að þið eruð dauð, því þá verðið þið hjá Guði og hann er svo góður, sérstaklega við aumingja eins og ykkur. Kúgararnir og arðræningjarnir fá makleg málagjöld í helvíti eftir  dauðann. Þess vegna skuluð þið láta ykkur lynda að þeir geri líf ykkar að helvíti á jörð.“

Með því að tala þannig væri hún ekki að halda uppi merki og boðskap Jesú Krists, heldur þveröfugt. Jesús Kristur mætti þjáningunni hvorki með aðdáun né skeytingarleysi heldur alltaf með líkn. Og hann kallaði arðræningjana og kúgarana sínum réttu nöfnum, jafnvel „nöðrukyn“ þegar hann var í stuði. Jesús líknaði hinum þjáðu, hann huggaði þá aldrei með því að með þjáningunni væru þeir að leggja inn fyrir sérstökum lúxus á himnum.

Ef kirkjan vill skipta máli í lífi fólks í samtíma sínum þá tekur hún afstöðu til þeirra mála sem varða lífsgæði mannkynsins. Og eitt brýnasta málefnið um þessar mundir er lofstlagsbreytingar af manna völdum. Þetta er ekki rómantískt hjal sem snýst um blóm eða fiðrildi sem kynnu að deyja út og ekki heldur um bengaltígrisdýrið eða hvítabjörninn – þótt auðvitað sé missir að hverri tegund sem verður aldauða. Dýrategundin sem við ættum að láta okkur mestu varða og vinna hörðum höndum að því að koma í veg fyrir að við útrýmum er við sjálf; homo sapiens – hinn viti borni maður.

Eða er hann það?

Lífið á jörðinni

Lífið á jörðinni mun halda áfram þrátt fyrir loftslagsbreytingar. En það kynni að vera gerólíkt nokkru sem við þekkjum. Bessadýr og moskítóflugur þurfa víst ekki að hafa miklar áhyggjur, skilst mér. En loftslagsbreytingar kynnu á endanum að gera jörðina óbyggilega fyrir okkur sjálf. En áður en að því kemur munu milljónir þjást og líða skort. Akurlönd munu sökkva í sæ með tilheyrandi hungursneyð og flóttamannavanda. Orðið „loftslagsflóttamaður“ er þegar til í málinu og ekkert bendir til þess að það sé á útleið.

Lofstlagsbreytingar af manna völdum eru vísindalega margsönnuð staðreynd. Vissulega eru þeir til sem þræta fyrir að þær séu að eiga sér stað. Og kannski er fullmikil einföldun að afgreiða þá sem það gera sem illmenni og vitleysinga.

Það er erfitt að byggja lífsafkomu sína, ég tala nú ekki um auðsöfnun hafi maður gert hana að tilgangi lífs síns, beint eða óbeint á brennslu jarðefnaeldsneytis og þurfa svo að horfast í augu við það að allir marktækir vísindamenn á jörðinni séu á einu máli um að hún sé á góðri leið með að valda mestu náttúruhamförum mannkynssögunnar. Þá er auðveldara að ráðast á vísindamennina, skera niður fjármagn til rannsókna þeirra til að reyna að þagga niður í þeim og kenna pólitískum andstæðingum sínum um að hafa skáldað þennan þvætting til að klekkja á manni. Maður gæti jafnvel freistast til að trúa því sjálfur að það sé raunin. Jesús segir að auðveldara sé fyrir úlfalda að komast í gegn um nálarauga en auðmann að komast inn í Guðs ríki. Kannski erum við einmitt að verða vitni að því núna.

Svo eru það hinir sem áratugalangur áróður gegn vísindalegum vinnubrögðum og vísindakenningum – til dæmis gegn einhverju jafnsjálfsögðu grundvallaratriði og þróun tegundanna – hefur gert ólæsa á vísindalegar niðurstöður og tortryggna í garð þeirra.

Semsagt … já … kannski er það eftir allt saman ekkert sérstaklega mikil einföldun að kalla þá sem véfengja loftslagsbreytingar af manna völdum illmenni og vitleysinga

Hlutverk okkar hinna

En þá hlýtur það líka að vera heilög skylda okkar, sem teljum okkur ekki tilheyra þeim hópi, að gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma í veg fyrir að þeir fái nokkru ráðið um neitt sem varðar lífið á jörðinni.

Við höfum ekki staðið okkur sem skyldi í þeim efnum. Valdamestu menn heims leyfa sér að afneita hinu augljósa upp í opið geðið á allri heilbrigði skynsemi.

mengunVið kristnir menn trúum því að við höfum sérstakar skyldur við sköpunarverkið. Við erum sett hingað til að hugsa um það. Við erum eini hluti sköpunarverksins sem Guð gerir kröfur til. „Hann skal drottna yfir fiskum sjávarins, fuglum loftsins, búfénu, villidýrunum og allri jörðinni og öllum skriðdýrum sem skríða á jörðinni,“ segir hann. Og þetta höfum við svo sannarlega gert. En hvernig höfum við gert það? Hvers konar drottnari er það sem tortímir ríki sínu og þegnum og á endanum sjálfum sér?

Við trúum því líka að Guð elski sköpunarverk sitt. Við trúum því að Guð hafi skapað himinn og jörð af því að hann varð. Af því að Guð er kærleikur. Og kærleikur getur ekki verið til í tómi og snúist um sjálfan sig. Það er ekki hægt að elska nema elska eitthvað. Kærleikurinn krefst andlags. Þar sem ekkert er til nema Guð hefur Guð ekkert nema sjálfan sig til að elska og getur því ekki verið kærleikur og þarafleiðandi ekki heldur Guð. Allt sem er til er beinlínis til orðið til þess að vera andlag við kærleika Guðs.

Við getum komið saman í kirkju eða hvar sem er annars staðar og tjáð Guði ást okkar á honum með löngum ræðum og bænamáli fullu af fallegum orðum og skrúðmælgi. En ef við gerum það og förum svo út og misþyrmum því sem hann elskar og svívirðum það erum við með verkum okkar að tjá honum allt annað en ást okkar á honum. Kristinn maður umgengst sköpunarverkið af virðingu fyrir skaparanum.

Um þetta ættu kristnir menn að geta verið sammála.

Það sem við erum sammála um

Þrír síðustu páfar hafa tjáð sig undanbragðalaust um hnattræna hlýnun og þegar núverandi Bandaríkjaforseti heimsótti Frans páfa fyrir skemmstu afhenti sá síðarnefndi honum 192 blaðsíðna páfabréf þar sem fólk er hvatt til dáða að bregðast við – sem eins og alþjóð er kunnugt er eitur í beinum Bandaríkjaforseta.

Ágreiningur er á milli íslensku þjóðkirkjunnar og þeirrar kaþólsku um mörg málefni; svo sem um sakramentis- og embættisskilning, prestvígslu kvenna, hjónaband samkynhneigðra, getnaðarvarnir og fóstureyðingar svo fátt eitt sé nefnt. Nýlega sendi Frans páfi frá sér yfirlýsingu sem vakti athygli fyrir það hve frjálslynd og róttæk hún þótti. Hann lagði til að fráskildu fólki yrði heimilt að þiggja altarissakramentið.

Ágreiningurinn er raunverulegur og ekkert samkirkjulegt starf getur breytt yfir hann eða afmáð hann. En þegar að loftslagsmálum og virðingu fyrir sköpunarverkinu kemur gengur ekki hnífurinn á milli okkar og kaþólskra bræðra okkar og systra.

Við hljótum að spyrja okkur: Í hvernig heimi búum við þegar páfinn í Róm er orðinn hættulega frjálslyndur og róttækur í augum þeirra sem mestu ráða? Þegar kristindómur valdamesta fólks í heimi – sem svo sannarlega gerir í því að flagga kristindómi sínum við hvert tækifæri – er með þeim hætti að kaþólska kirkjan virðist beinlínis líbó og afslöppuð í samanburði?

En önnur spurning er mikilvægari: Hvaða kröfur gerir það til okkar, sem kristinna manna, að við skulum búa í slíkum heimi?

Um það mætti flytja langt mál og það ætla ég ekki að gera hér … kannski síðar.

En við skulum aldrei, aldrei gleyma þessari spurningu. Við skulum hafa hana syngjandi í kollinum á okkur hverja stund, láta hverja okkar athöfn, allt okkar mál, vera innlegg í það hvernig við svörum henni.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 25. júní 2017

dangerous pope