Feeds:
Færslur
Athugasemdir

Guðspjall: Jesús svaraði: „Ef Guð væri faðir yðar munduð þér elska mig því að frá Guði er ég út genginn og kominn. Ekki hef ég sent mig sjálfur. Það er hann sem sendi mig. Hví skiljið þér ekki mál mitt? Af því að þér getið ekki hlustað á orð mitt. Þér eigið djöfulinn að föður og viljið gera það sem faðir yðar girnist. Hann var manndrápari frá upphafi og hefur aldrei þekkt sannleikann því í honum finnst enginn sannleikur. Þegar hann lýgur fer hann að eðli sínu því hann er lygari og lyginnar faðir. En af því að ég segi sannleikann trúið þér mér ekki. Hver yðar getur sannað á mig synd? Ef ég segi sannleikann, hví trúið þér mér ekki? Sá sem er af Guði heyrir Guðs orð. Þér heyrið ekki vegna þess að þér eruð ekki af Guði.“ (Jóh 8.42-51)

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi.

chimeracityVið mennirnir viljum vita og skilja. Þess vegna fylgjumst við með, skráum niður, skilgreinum og flokkum. Best er ef við getum sett tilveruna eins og hún leggur sig ofan í aðskilin hólf með viðeigandi merkimiða á hverju þeirra. Því miður lætur það oft raunveruleikanum illa að vera hólfaður niður með svo einföldum hætti.

Póstmódernismi

Við skiptum sögunni niður í tímabil sem við kennum við þau verkfæri, tækni eða fyrirbæri í menningu og hugsun sem einkenndu þau. Steinöld, járnöld, bronsöld … og síðar endurreisnartímabilið, rómantíska tímabilið og svo framvegis.

Á steinöld gerði enginn sér grein fyrir því að hann væri uppi á steinöld. En  við … við erum okkur mjög meðvituð um að við erum uppi á póstmódernískum tímum.

Eitt megineinkenni póstmódernismans er að sannleikurinn er teygjanlegur, staðreyndir eru túlkunaratriði því merking verður til hjá viðtakandanum. Þekking og sannleikur eru ekki algjör, ekki endanleg, heldur verða þau til í ákveðnu sögulegu, félagslegu og pólitísku samhengi og eru þess vegna afstæð í eðli sínu.

En ekkert stöðvar tímans þunga nið og þessu tímabili mannkynssögunnar mun ljúka og annað taka við. Hvað tekur við af póstmódernismanum?

Ég las um daginn grein þar sem talað er um að eftirstaðreyndatímabilið sé gengið í garð – „post-fact era“ eins og það var kallað. Megineinkenni þess er að staðreyndir skipta ekki máli lengur, þær eru úrelt fyrirbæri sem einhver grunnur að afstöðu eða lífsskoðun. Fólk getur búið til sínar eigin staðreyndir og þær eru jafnréttháar raunverulegum staðreyndum því sannleikurinn er jú afstæður og við lifum öll hvort sem er á einhvern hátt í okkar eigin heimi, okkar eigin sápukúlu sem við höfum blásið utan um líf okkar og handvalið þangað inn það og þá sem við viljum hafa í kringum okkur. Og internetið hjálpar okkur við þetta með algóryþmum sem reikna okkur út og sýna okkur bara það sem þeir sjá fyrir að okkur muni líka – og gildir þá einu hvort það er satt eða logið.

Eftirstaðreyndatímabilið

Og víst er að við höfum séð merki þess í heimsfréttum að við séum uppi á einhverju annarlegu „eftirstaðreyndatímabili“. Ekki bara af því að forseta Bandaríkjanna virðist fyrirmunað að greina staðreyndir frá heilaspuna eða yfirhöfuð að segja satt orð um nokkurn skapaðan hlut. Það er eins og hann trúi því að um leið og hann segi eitthvað sé það orðið sannleikur, hve auðhrekjanlegt sem það er, og því sé nóg fyrir hann að opna munninn og segja hvernig hann vill að heimurinn sé og þá – hókus pókus – verði hann þannig. Og þegar reynt er að reka eitthvað af svæsnasta þvættingnum ofan í hann er svarið gjarnan að margir trúi því nú að svona sé þetta og þar með er bullið í hans huga orðið jafngilt sannleikanum – „hliðstæð staðreynd“ eins og talsmaður hans kallaði það; „alternative fact.“ Orð sem að mínum dómi var snilldarlega vel þýtt yfir á íslensku sem „sannlíki“.

Ástandið er ekki mikið skárra hinum megin Atlantshafsins. Forseti Rússlands þrætti fyrir að Rússar kæmu á nokkurn hátt nálægt kolólöglegri innlimun Krímskagans eða vopnaskakinu í austurhluta Úkraínu á sama tíma og úkraínski herinn var að handtaka rússneska hermenn í stórum stíl í bardögum innan landamæra Úkraínu. Það er semsagt beinlínis hægt að ráðast með her inn í nágrannaríki og þræta fyrir það.

Og í Tyrklandi er forseti sem kallar Hollendinga fasista fyrir að leyfa ekki að þangað sé farið til að reka áróður fyrir því meðal tyrkneskra kjósenda í Hollandi að stjórnarskrá Tyrklands verði breytt á þann veg að Tyrkland verði í allri praktískri merkingu þess orðs einræðisríki. Og ekki bara það. Hollendingar eru líka sekir um kynþáttahyggju að mati Tyrklandsforseta, væntanlega af því að Tyrkir í Hollandi njóta réttinda sem Tyrkjum dettur ekki í hug að leyfa tyrkneskum Kúrdum að njóta þótt þeir séu bornir og barnfæddir í Tyrklandi. Og í sömu viku og forseti Tyrklands, lands sem neitar að gangast við þjóðarmorðum sínum á Armenum fyrir um hundrað árum, kallar Hollendinga nasista höfnuðu Hollendingar flokki nýnasista í þingkosningum.

Lygi er sannleikur

Eftirstaðreyndatímabilið: Sannleikurinn er það sem hentar hverjum og einum. Og þó lygin sé himinhrópandi augljós þá er það skoðanakúgun að umgangast hana ekki eins og hún sé jafnrétthá sannleikanum og hlutdrægni að afhjúpa hana.

Lygin er sannleikur og sannleikurinn er lygi.

Það þarf engan að undra að skáldsaga Georges Orwells, 1984, komi upp í hugann: Stríð er friður. Þrældómur er frelsi. Fáfræði er styrkur.

Við sjáum meira að segja merki þess að „newspeak“ – tungumál fasistastjórnarinnar í þeirri skáldsögu – sé að ryðja sér til rúms í fjölmiðlum. Við heyrum kynþáttahatur og kvenfyrirlitningu kallaða „óhefðbundna orðræðu“. Við heyrum okkar eigin stjórnmálamenn jafnvel kalla grímulausa hatursorðræðu erlendra þjóðarleiðtoga „áhyggjuefni“ eins og ástæðulaust sé að taka dýpra í árinni. Fyrir stuttu var sagt um stjórnmálamann sem nýtur opinbers stuðnings Ku Klux Klan, hefur gert yfirlýstan nýnasista að sínum helsta ráðgjafa, hvatt til ofbeldis gegn minnihlutahópum og hæðst að fötluðum að hann sé „ekki óumdeildur“ í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins.

Normalísering hins óásættanlega er í fullum gangi allt í kringum okkur og hún gengur vel.

Afstæði sannleikans

Jesús Kristur talaði ekki „newspeak“. Og hann var ekki póstmódernisti. Hann talaði tæpitungulaust mannamál og fyrir honum var sannleikurinn klipptur og skorinn. Allir textar dagsins lúta að því. Boðorðin eru skýr. Þar segir ekki: „Þú ættir ekki nema undir kringumstæðum þar sem það er félagslega og menningarlega viðurkennt að …“ Nei, þar segir: „Þú skalt ekki …“ Þar er ekkert óljóst. Rétt er rétt og rangt er rangt. Gott og illt eru skýrar og raunverulegar andstæður, ekki afstæð hugtök í einhverju háloftablaðri. Enginn manipúlerar sannleikann til að vera það sem hentar honum. Hann er ekkert túlkunaratriði. Sannleikurinn er sannleikur og lygin er ekki sannlíki eða hliðstæð staðreynd … hún er lygi.

Jesús sýnir oft á sér geðþekkari og hlýlegri hliðar en hann gerir í guðspjalli dagsins. En hann var sannur maður; sannur Guð sem stakk sér á bólakaf í hið mannlega hlutskipti með öllu sem það inniber, þar með talið allri tilfinningaflóru mannlegrar tilvistar. Jesús grætur og Jesús reiðist. „Manni“ getur jú sárnað – segir máltækið. Öll höfum við átt stundir þar sem okkur hefur þótt meiri ástæða til að hvæsa en mala.

„Hví skiljið þér ekki mál mitt?“ spyr Jesús viðmælendur sína og svarar spurningunni sjáfur: „Af því að þér getið ekki hlustað á orð mitt.“ – Það rúmast ekki innan sápukúlunnar ykkar. Algóryþminn ykkar útilokar ykkur frá því.

Satan sjálfur

Ykkur kann að finnast ég fara eins og köttur í kringum heitan graut að hafa ekki minnst einu orði á fílinn í borðstofunni; orðið í textanum sem hoppar á okkur og kynni jafnvel að yfirskyggja merkingu textans vegna þess hvað það stuðar okkur, hvað það snertir okkur óþægilega. Orðið sem kemur bæði fyrir í pistlinum og guðspjallinu: Djöfullinn / Satan.

„Þeir eru samkunda Satans“ segir í pistlinum og í guðspjallinu hreytir Jesús í viðmælendur sína: „Þér eigið djöfulinn að föður.“

Við ykkur sem eruð að hugsa: „Ætlar maðurinn ekki að minnast einu orði á andskotann?“ vil ég segja: Ég hef ekki talað um annað alla þessa prédikun.

„Hann hefur aldrei þekkt sannleikann því í honum finnst enginn sannleikur. Þegar hann lýgur fer hann að eðli sínu því hann er lygari og lyginnar faðir.“ Allt sem ég hef verið að segja persónugerist í Kölska.

Við gætum umorðað þetta: „Hann hefur aldrei þekkt sannleikann því fyrir honum er sannleikurinn afstæður. Þegar hann býr til sínar eigin staðreyndir jafnóðum fer hann að eðli sínu því hann er ófær um að greina mun á réttu og röngu og segir því það sem hentar honum hverju sinni.“

Ef við viljum

Við getum – ef við viljum – talað „newspeak“ þar sem ekkert orð er fyrir Guð og þarafleiðandi er óþarfi að eiga orð yfir andstæðu hans, djöfulinn. Þar sem mannhatur og illska er ekki mannhatur og illska heldur „óhefðbundin orðræða“. Þar sem kvenfyrirlitning og kynþáttahatur gerir menn í versta falli „ekki óumdeilda“. Þar sem sannlíki og hliðstæðar staðreyndir hafa sama tilverurétt og sannleikur og raunverulegar staðreyndir. Og við getum kallað það tímabil mannkynssögunnar „eftirstaðreyndatímabilið“ ef við viljum.

En Jesús Kristur hefði ekki gert það. Hann hefði kallað það sínu rétta nafni: „Öld lyginnar.“

Við getum tekið þátt í þessu. Það væri á flestan hátt þægilegra fyrir okkur.

En við getum ekki bæði tekið þátt í því að innleiða öld lyginnar og talið okkur trú um að við séum kristnar manneskjur, að við séum að leitast við að hafa Jesú Krist að leiðtoga lífs okkar.

Það er nefnilega ekki Guð sem er faðir lyginnar.

Það er annar.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 19. mars 2017.

Guðspjall: Þeir komu til Jeríkó. Og þegar Jesús fór út úr borginni ásamt lærisveinum sínum og miklum mannfjölda sat þar við veginn Bartímeus, sonur Tímeusar, blindur beiningamaður. Þegar hann heyrði að þar færi Jesús frá Nasaret tók hann að hrópa: „Sonur Davíðs, Jesús, miskunna þú mér!“ Margir höstuðu á hann að hann þegði en hann hrópaði því meir: „Sonur Davíðs, miskunna þú mér!“ Jesús nam staðar og sagði: „Kallið á hann.“ Þeir kalla á blinda manninn og segja við hann: „Vertu hughraustur, statt upp, hann kallar á þig.“ Blindi maðurinn kastaði frá sér yfirhöfn sinni, spratt á fætur og kom til Jesú. Jesús spurði hann: „Hvað vilt þú að ég geri fyrir þig?“ Blindi maðurinn svaraði honum: „Rabbúní, að ég fái aftur sjón.“ Jesús sagði við hann: „Far þú, trú þín hefur bjargað þér.“ Jafnskjótt fékk hann sjónina og fylgdi honum á ferðinni. (Mrk 10.46-52)

bartímeus

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Múslimir líta svo á að þýðingar á Kóraninum séu ekki Guðs orð, heldur aðeins þýðing þess. Þannig er arabíska í þeirra huga móðurmál Guðs, ef svo má segja. Færa má góð rök fyrir því að þetta sé skynsamlegt. Öll þýðing er nefnilega túlkun. Þótt orð eigi sér kannski beinar og augljósar þýðingar er merking þeirra og notkun í málinu mjög oft alls ekki fyllilega hliðstæð.

Aðeins Íslendingar myndu, svo dæmi sé tekið, nota orðið „rassgat“ um krúttlega krakka. Bókstafleg þýðing á slíku tali yfir á erlend tungumál myndi undantekningalaust valda misskilningi og í raun alls ekki vera þýðing merkingarinnar heldur beinlínis afskræming hennar.

Þrengsta merkingin

Orðið „sonur“ í tungumálum ritningarinnar – „ben“ á hebresku, „huios“ á grísku og „bar“ á arameísku sem var móðurmál Jesú – hafði til dæmis mun víðari merkingu en orðið „sonur“ hefur í íslensku. Grikkir kölluðu þjóna „syni“ og þar sem það er augljóslega merkingin er „huios“ ekki þýtt „sonur“ heldur „þjónn“ í Nýja testamentinu. Í hebresku er merkingin jafnvel enn víðari. Orðið „auðmaður“ á hebresku væri bókstaflega þýtt „sonur auðsins“ og orðið „lygari“ „sonur lyginnar“. Við myndum nota orðin „auðmaður“ og „lygamörður“, ekki „auðssonur“ og „lygasonur“ eins og hebrear gerðu til forna. Þannig er „sonur“ í fornhebresku aðeins bundinn einhverri óljósri skuldbindingu eða þjónustu við orðið sem skeytt er við það.

Þetta kallar auðvitað á hugleiðingar um það hvað „sonur Guðs“ merkir í raun og veru og jafnvel „mannssonurinn“ ef út í það er farið… en þær eru ekki efni þessarar prédikunar.

Ég nefni þetta vegna þess að mig langar að velta vöngum yfir því hvað „sonur Tímeusar“ merkir raunverulega. Nafnið Bartímeus er nefnilega ákveðinn bastarður. Arameíska orðinu „bar“ sem merkir „sonur“ er skeytt framan við gríska karlmannsnafnið „Tímeus“. Ég held að þetta skipti máli til að skilja guðspjall dagsins, því það er óneitanlega athyglisvert að blindi beiningamaðurinn í sögunni skuli vera nafngreindur. Jesús læknar fjöldann allan af blindu, lömuðu, holdsveiku og öðru fötluðu og sjúku fólki og sjaldnast er ástæða til að nafngreina það eins og hér er gert. Það hlýtur að merkja eitthvað.

Var sá blindi kannski þjónn Tímeusar eða lærisveinn hans?

Guð Tímeusar

En hver var þá Tímeus?

Nú er ég ekki heimspekimenntaður og ekki til þess fallinn að skýra frá kenningum Platons og ritsmíðum hans á þann hátt að það standist akademískar kröfur. En Tímeus er persóna í samnefndri ritsmíð eftir Platon sem hafði gríðarmikil áhrif á guðs- og heimsmynd fornaldar. Sú mynd er ólík þeirri sem Jesús Kristur boðaði og varðar – án þess að ég geti farið út í það af einhverri djúpri þekkingu – háleitar hugmyndir um alheimssál og fjarlægan, ópersónulegan skapara. Einhvers konar deiskar eða panþeískar hugmyndir ef það útskýrir eitthvað.

Kannski sat Tímeusarsinninn í vegarkantinum, blindaður af kenningum meistara síns sem gera alls ekki ráð fyrir lífrænu sambandi, hvað þá samtali við persónulegan Guð sem kemur inn í líf mannsins.

Allir ritningartextar dagsins fjalla um samtal við Guð. Í lexíunni krefur Móse, hnarreistur og sperrtur, Guð um svör. „Skýrðu mér frá vegum þínum,“ hrópar hann. Í pistlinum sjáum við aðra mynd, Jesús biðst fyrir í auðmýkt „með sárum andvörpum og tárum“.

Og í guðspjallinu svarar Guð, sem gerst hafði maður, örvæntingarfullu kalli manns  sem ekki aðeins hafði lokað sig af frá því að eiga samband við Guð heldur var blindaður af þeirri kaldranalegu heimsmynd að það væri ekki hægt. „Miskunna þú mér,“ hrópar hann, sligaður af tilgangsleysinu í heiminum sem hann hafði smíðað í kringum sig með kenningum sínum. „Miskunna þú mér. Gefðu mér ástæðu til að fara fram úr á morgnana. Segðu mér að lífið sé meira og stærra en þetta.“

Og Jesús spyr hann: „Hvað viltu að ég geri fyrir þig?“

Spurningin kann að virðast heimskuleg. Eins og það liggi ekki í augum uppi. En Jesús varð að spyrja því Bartímeus varð að segja það. Hann varð að biðja um hjálp. Annað hefði verið óumbeðið inngrip í líf Bartímeusar. Jesús gerist nefnilega ekki boðflenna í lífi nokkurs manns. Það þarf að rétta út hönd og biðja um hjálp.

Þegar við tölum um Guð

Tungumálið er vandmeðfarið, ekki síst þegar við tölum um Guð. Ekkert er eins og Guð og því er allt sem við segjum um Guð líkingamál. Guð er auðvitað ekki konungur. Hann er kallaður konungur af því að við tengjum konung við vald og mátt. Til að undirbyggja myndina eru jafnvel himneskir herskarar hafðir í kringum hann eins og hirð. Guð er ekki heldur fjárhirðir eins og hann er kallaður í 23. Davíðssálmi, arnarmóðir sem sveimar yfir hreiðri sínu, ungamamma sem skýlir ungunum undir vængjum sínum eða fæðandi móðir … allt myndir sem við sjáum í Biblíunni.

Og Guð er ekki faðir okkar nema í óeiginlegri, andlegri merkingu. Við köllum hann föður og tengjum það við skilyrðislausan kærleika hans og umhyggju. En hann kennir okkur ekki að hjóla, lánar okkur bílinn eða gengst í ábyrgð fyrir láni fyrir okkur – svo ég nefni eitthvað sem ég tengi við föðurhlutverkið.

Allar líkingar okkar um Guð brotna nefnilega á endanum. Enga þeirra er hægt að halda áfram með endalaust, engin þeirra er fullkomin. Þeim er ætlað að hjálpa okkur til nálgast Guð, að öðlast einhvern skilning á hinu óskiljanlega, að henda reiður á því sem er of háleitt og mikilfenglegt til að við getum meðtekið það. Að nota orð sem við þekkjum og myndir sem við skiljum til að öðlast guðsmynd sem við getum lotið í trú.

En líkingarnar okkar geta líka þvælst fyrir okkur. Ef við nú erum svo ólánsöm að tengja ekki hugtakið „faðir“ við kærleika og vernd heldur við misnotkun og ofbeldi þá er föðurlíkingin ekki til gagns heldur ógagns. Þá greiðir hún ekki götu okkar að nánd við miskunnsaman og kærleiksríkan Guð heldur er hún farartálmi á þeirri leið.

Að játa dogmatík

Við fórum ekki með hina postullegu trúarjátningu okkar hér áðan eins og alla jafna er gert í messum, heldur játuðum trú okkar í sátt og friði í þögulli íhugun. Mig langaði nefnilega til að vekja ykkur til umhugsunar. Þið sem söknuðuð trúarjátningarinnar, hvers söknuðuð þið? Var það „getinn af heilögum anda“? Var það „steig niður til heljar“? Var það „mun þaðan koma að dæma lifendur og dauða“? Var það kannski þetta allt og meira til?

Trúarjátningin okkar er nefnilega í raun aðeins fjögur orð: „Ég trúi á Guð.“ Strax í fimmta orði byrjar dogmatíkin: „… föður“. Og síðan: „… almáttugan.“ Og svo framvegis.

Þetta er gallinn við dogmatíkina; trúarkenningarnar okkar og útlistanirnar. Hún er eðli sínu samkvæmt ekki opinn og útbreiddur faðmur heldur nálarauga. Hún greinir frá því í smáatriðum hverju við trúum og hverju á að trúa og ef eitthvað af því stendur í þér áttu ekki samleið með okkur hinum.

Þannig getur hún skilgreint okkur hvert frá öðru.

En Jesús sagði ekki við Bartímeus blinda: „Dogmatík þín hefur bjargað þér.“

Hann sagði ekki: „Snilldarlegt líkingamál þitt um almættið og eðli þess sem dregur upp skýra og skiljanlega og í meginatriðum rétta mynd af sambandi Guðs og manns hefur bjargað þér.“

Nei. Hann sagði: „Trú þín hefur bjargað þér.“

Miskunna þú oss

„Miskunna þú mér,“ hrópaði blindi beiningamaðurinn.

Og enn þann dag í dag tökum við undir með honum og hrópum þetta í kirkjunni í upphafi hverrar messu: „Drottinn, miskunna þú oss.“ Kyrie eleison.

Gefðu okkur sjónina aftur.

Taktu frá okkur myrkur heimsmyndar þar sem þú ert fjarlægur og afskiptalaus og gefðu okkur sýn á raunveruleika þar sem þú er nálægur og lifandi og við getum átt persónulegt vitundarsamband við þig.

Vertu í lífi okkar svo við getum talað við þig. Hvort sem það er til að krefja þig svara þegar við botnum ekkert í því hver er vilji þinn, eins og Móses gerði í eyðimörkinni forðum, eða með sárum andvörpum og tárum til að fá huggun þegar þjáningin er að yfirbuga okkur eins og frelsari okkar gerði.

Og enn þann dag í dag spyr Jesús á móti: „Hvað viltu að ég geri fyrir þig?“

Og við verðum að svara.

Vissulega er engin bæn einlægari en steyttur hnefi til himins. En steyttur hnefi er ekki útrétt hönd. Við verðum að rétta út hönd og biðja um hjálp.

Við erum öll Bartímeus. Að minnsta kosti sá Bartímeus sem við sjáum í upphafi frásagnarinnar. Ef við réttum út hönd og biðjum um hjálp fáum við sjónina aftur. Trúin getur bjargað okkar.

Guðspjallstexti dagsins endar á því að Bartímeus fylgir Jesú á ferðinni. Þessi ferð er líf og starf kristins manns.

Spurningin er hvort við séum reiðubúin til að vera líka sá Bartímeus sem við sjáum í sögulok.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er enn og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 12. mars 2017.


Guðspjall:
Svo er um himnaríki sem mann er ætlaði úr landi. Hann kallaði á þjóna sína og fól þeim eigur sínar. Einum fékk hann fimm talentur, öðrum tvær og þeim þriðja eina, hverjum eftir hæfni. Síðan fór hann úr landi. Sá sem fékk fimm talentur fór þegar, ávaxtaði þær og græddi aðrar fimm. Eins gerði sá er tvær fékk. Hann græddi aðrar tvær. En sá sem fékk eina fór og gróf fé húsbónda síns í jörð og faldi það. talentsLöngu síðar kom húsbóndi þessara þjóna og lét þá gera skil. Sá með fimm talenturnar gekk þá fram, færði honum aðrar fimm og sagði: Herra, fimm talentur seldir þú mér í hendur, hér hef ég grætt aðrar fimm. Húsbóndi hans sagði við hann: Gott, þú góði og trúi þjónn. Yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig. Gakk inn í fögnuð herra þíns. Þá gekk fram sá með tvær talenturnar og mælti: Herra, tvær talentur seldir þú mér í hendur, hér hef ég grætt aðrar tvær. Og húsbóndi hans sagði við hann: Gott, þú góði og trúi þjónn, yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig. Gakk inn í fögnuð herra þíns. Loks kom sá er fékk eina talentu og sagði: Herra, ég vissi að þú ert maður harður sem uppsker þar sem þú sáðir ekki og safnar þar sem þú stráðir ekki. Ég var hræddur og fól talentu þína í jörð. Hér hefur þú þitt. Og húsbóndi hans sagði við hann: Illi og lati þjónn, þú vissir að ég uppsker þar sem ég sáði ekki og safna þar sem ég stráði ekki. Þú áttir því að leggja fé mitt í banka. Þá hefði ég fengið það með vöxtum þegar ég kom heim. Takið af honum talentuna og fáið þeim sem hefur tíu talenturnar. Því að hverjum sem hefur mun gefið verða og hann mun hafa gnægð en frá þeim sem eigi hefur mun tekið verða, jafnvel það sem hann hefur. Rekið þennan ónýta þjón út í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna. (Matt 25.14-30)

 
Náð sé með ykkur öllum og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Saga ein af Helga Helgasyni hefur verið mér hugleikin síðan konan mín sagði mér hana. Hún heyrði hana í tónlistarnámi sínu sem hluta af íslenskri tónlistarsögu. Ástæða þess að þessi saga leitar alltaf til mín aftur og aftur er sú að í henni kristallast, að mínu mati, hugarfar og lífsviðhorf sem segja svo margt um þjóðina sem ég tilheyri. Hún er kannski rétt og satt dæmi um íslenska þjóðmenningu, ekki einstakt og sérstakt dæmi til að flíka á tyllidögum þegar við viljum lofsyngja hana og mæra.

helgi_helgason1848-1922-litilHelgi Helgason fæddist í Reykjavík árið 1848. Sem barn varð Helgi fyrir sterkri upplifun þegar hann heyrði í fyrsta sinn leikið á fiðlu. Á þessum árum var ekki daglegt brauð að heyra tónlist á Íslandi, tónlistarmenntun lítil sem engin og nánast ekkert tónlistarlíf.

En þessir tónar, þessi seiðandi fiðlunnar, vék ekki úr huga Helga, fátæks, reykvísks alþýðupilts sem átti þess engan kost að afla sér æðri menntunar og hann kom sér upp þeim draumi að geta leikið á fiðlu. Vandamálið var auðvitað að það var hægara sagt en gert að koma höndum yfir fiðlu í Reykjavik á miðri nítjándu öldinni.

En Helgi dó ekki ráðalaus. Hann var hagleikspiltur og þegar hann var á fermingaraldri tókst honum með elju og útsjónarsemi að smíða sér fiðlu sjálfur, af vanefnum og vanþekkingu – en á þessa fiðlu lék hann og var alsæll. Og þegar faðir hans varð þessa var, þegar hann sá ástríðu drengsins síns, dugnað hans og hæfileika – að hann hafði án þess að nokkur kenndi honum eða leiðbeindi smíðað sér fiðlu sjálfur til að geta leikið á – þá ákvað hann að kosta drenginn sinn til náms …

… í trésmíði.

Góðir trésmiðir eru hverri þjóð nauðsynlegir og Helgi var góður smiður sem smíðaði mörg merkileg hús.

En hans er minnst sem frumkvöðuls í íslensku tónlistarlífi, einkum sem brautryðjanda í starfi lúðrasveita á Íslandi. Fyrst og fremst er hans þó líklega minnst sem tónskálds, en þekktasta tónsmíð hans er ábyggilega lagið sem allir þekkja við ljóð Steingríms Thorsteinssonar, Öxar við ána.

Höfum það hugfast næst þegar við syngjum Öxar við ána að þegar höfundur lagsins var á fermingaraldri smíðaði hann sér fiðlu til að geta leikið tónlist og var í kjölfarið kostaður til náms í trésmíði. Sá undirtexti við það ættjarðarljóð gerir ekki annað en að dýpka merkingu þess.

Ísland á talentur

Þessi saga rifjaðist upp fyrir mér þegar ég fór að velta fyrir mér guðspjallstexta dagsins, en hann fjallar um þær væntingar Guðs til okkar að við ávöxtum hæfileika okkar. Guðspjallið er ekki um peninga. Talenturnar eru tákn fyrir gjafir Guðs og hvernig hann vill að við förum með þær. Enn þann dag í dag nota enskumælandi þjóðir heiti þessa forna gjaldmiðils um Guðs gjafir. Talent. Og ekki bara enskumælandi þjóðir. Vinsæll íslenskur sjónvarpsþáttur hét einmitt Ísland á talentur … eða einhverri hálfþýðingu þeirrar setningar.

island-got-talent-logoEin markverðasta og ánægjulegasta breytingin á íslenskri þjóðmenningu sem mér finnst ég hafa orðið var við á minni ævi endurspeglast einmitt í þessum sjónvarpsþætti og öðrum slíkum, hvort sem þeir heita X-Factor, The Voice eða hvað annað. Ensk heiti þáttanna benda til þess að engilsaxnesk menningaráhrif séu kannski ekki alltaf til vansa.

En breytingin er í því fólgin hvernig hin ströngu Jante-lög, sem ég ólst upp við, hafa jafnt og þétt fallið úr gildi. Jante-lögin eru auðvitað skáldskapur, en fátt er einmitt eins satt og góður skáldskapur. Þau eru hugarsmíð dansk-norska rithöfundarins Aksel Sandemose og eru í tíu liðum:

1. Ekki halda að þú sért eitthvað sérstakur.

2. Ekki halda að þú sért eins merkilegur og við.

3. Ekki halda að þú sért klárari en við.

4. Ekki telja þér trú um að þú sért betri en við.

5. Ekki halda að þú vitir meira en við.

6. Ekki halda að þú sért mikilvægari en við.

7. Ekki halda að þú sért flinkur í einhverju.

8. Ekki hlæja að okkur.

9.Ekki halda að öllum sé ekki sama um þig.

10. Ekki halda að þú getir kennt okkur eitthvað.

Ellefta greinin er refsiákvæðið: „Heldurðu kannski við vitum ekki eitt og annað um þig?“

Á íslensku birtast Jante-lögin kannski einna skýrast í setningunni „ef mig skyldi kalla“ sem konugreyið varð að láta út úr sér eftir að henni varð það á að brjóta sjöundu grein Jante-laganna, „ekki halda að þú sért flinkur í einhverju“ með því að gefa í skyn að eitthvað sem hún hafði gert væri ágætt.

Og hver kannast ekki við gömlu frænkuna sem byrjar á að biðja mann að afsaka þetta lítilræði þegar hún leiðir mann að sneisafullu veisluborði sem svignar undan ljúffengum kræsingum.

Íslensk þjóðmenning

Þegar ég var unglingur dvaldi ég eitt ár sem skiptinemi í Bandaríkjunum og það kom mér verulega á óvart þegar mér varð ljóst að þar giltu Jante-lögin alls ekki. Þau áttu sér engan stað í hugarfari eða viðhorfum fólks. Ég hafði búið í hálft ár í Bandaríkjunum þegar það bar á góma í spjalli við vini mína að söngtexti eftir mig hafði verið sunginn inn á plötu. Þetta þótti þeim merkilegt. Auðvitað hafði ég ekkert verið að segja þeim frá því bara svona upp úr þurru svo þau héldu ekki að ég væri að monta mig, ég vildi ekki að þau héldu að ég væri að þykjast vera eitthvað.

En vinum mínum sárnaði að ég skyldi ekki hafa sagt þeim frá þessu fyrr. Þeim fannst ég hafa farið á bak við þá, villt á mér heimildir.

Á áttunda áratug síðustu aldar giltu mjög ströng Jante-lög í Hafnarfirði. Hver sá sem hélt að hann væri eitthvað var samstundis leiðréttur. Og væri einhver svo óheppinn að birtast í sjónvarpinu og syngja lag … jafnvel þótt það væri gert óaðfinnanlega … var æska viðkomandi í Hafnarfirði samstundis eyðilögð með einelti og uppnefnum sem gátu elt viðkomandi alla ævi og valdið andlegum sárum sem greru seint. Jante-lögunum var framfylgt af fullkomnu miskunnarleysi og harðýðgi. Fólk var eyðilagt öðrum við viðvörunar.

Verstu spurningar sem hægt var að fá voru þessar: „Hvað þykistu vera?“ og „Hvað heldurðu að þú sért?“

Í þeim báðum felst að sá sem spyr viti nákvæmlega hvernig þú ert og ef þú gefur þig út fyrir að vera betri en hann eða merkilegri eða hæfari á einhverju sviði, ertu annað hvort að þykjast eða svo skyni skroppinn að þú haldir að þú sért eitthvað annað en þú ert.

En Guð veit hver þú ert, hver hæfni þín er, hve margar talentur hann lét þig fá. Hann vill að þú ávaxtir þær. Það geta ekki allir orðið konstertmeistarar, stórsöngvarar eða – ef út í það er farið – trésmiðir. En allir geta eitthvað og allir geta þroskað það og bætt sem þeir geta og þar með auðgað og göfgað líf annarra og fegrað umhverfi sitt.

Og Guð vill að þú gerir það.

Guð vill ekki að þú hugsir: „Þessi eina talenta mín – ef mig skyldi kalla – er ekki neins virði. Ég vil ekki að fólk haldi að ég haldi að ég sé eitthvað.“ Þá ertu í myrkri ótta og sjálfsfyrirlitningar. Þar er engin gleði, aðeins grátur og gnístran tanna.

Guð vill ekki að þú haldir að þú sért eitthvað.

Hann vill að þú vitir að þú ert eitthvað.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Guðspjall: Eftir sex daga tekur Jesús með sér þá Pétur, Jakob og Jóhannes og fer með þá upp á hátt fjall að þeir væru einir saman. Þar ummyndaðist hann fyrir augum þeirra og klæði hans urðu fannhvít og skínandi og fær enginn bleikir á jörðu svo hvítt gert. Og Elía og Móse birtust þeim og voru þeir á tali við Jesú. Þá tekur Pétur til máls og segir við Jesú: „Meistari, gott er að við erum hér. Gerum þrjár tjaldbúðir, þér eina, Móse eina og Elía eina.“ Hann vissi ekki hvað hann átti að segja enda urðu þeir mjög skelfdir. Þá kom ský og skyggði yfir þá og rödd kom úr skýinu: „Þessi er minn elskaði sonur, hlýðið á hann!“ Og jafnskjótt litu lærisveinarnir í kringum sig og sáu engan framar hjá sér nema Jesú einan. Á leiðinni ofan fjallið bannaði Jesús þeim að segja nokkrum frá því er þeir höfðu séð fyrr en Mannssonurinn væri risinn upp frá dauðum. (Mrk 9.2-9)

3_devils_dancing_by_oldjoeblind-da61zzrNáð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi.

Samtími okkar er ekki líkur neinu sem við höfum staðið frammi fyrir áður og sem slíkur lýtur hann á ýmsan hátt öðrum lögmálum en við eigum að venjast, lögmálum sem við verðum eiginlega að læra á  til að geta fótað okkur almennilega í honum.

Eitt slíkt er hið svokallaða „lögmál Poes“.

Of heimskulegt til að hæðast að

Það er kennt við Bandaríkjamanninn Nathan Poe sem setti það fram í grein þar sem hann fjallaði um deilur sköpunarsinna og þróunarsinna í Bandaríkjunum, hatrammar deilur sem ætti að vera ofvaxið skilningi hvers skynsams manns að skuli enn geisa á 21. öldinni. Lögmálið gengur út á að ekki sé hægt að skopast að eða skrumskæla málflutning sköpunarsinna án þess að háðið fari fram hjá einhverjum sem er fullkomlega sammála því sem sagt er og tekur undir það. Þetta gildir ekki bara um sköpunarsinna, þá sem lesa hið undursamlega sköpunarljóð í upphafi Fyrstu Mósebókar og guðfræði þess sem vísindaritgerð og hafna alfarið vísindalegum kenningum um náttúruval. Allar heimskulegar og öfgakenndar skoðanir eru þess eðlis að það er ekki hægt að draga dár að þeim þannig að einhver einhvers staðar fatti ekki að maður er að djóka og taki undir hvert orð.

Tökum dæmi um heimskulega skoðun: „Þar sem hundruð þúsunda Bandaríkjamanna hafa verið myrtar með skotvopnum af öðrum Bandaríkjamönnum síðastliðinn áratug er nauðsynlegt að skerða alls ekki aðgengi Bandaríkjamanna að skotvopnum.“ Hér er önnur: „Þar sem tugir Bandaríkjamanna hafa verið myrtir af hryðjuverkamönnum síðastliðinn áratug er nauðsynlegt að skerða aðgengi múslima frá öðrum löndum en þeim sem hryðjuverkemennirnir komu frá að Bandaríkjunum.“ Við getum hrist höfuðið og brosað því auðvitað er enginn svo vitlaus að sjá heila brú í svona málflutningi.

En það er ekki rétt. Milljónir kjósenda í voldugasta lýðræðisríki veraldar sjá ekkert athugavert við þessa röksemdafærslu. Og það er ekkert fyndið við það.

Það er ógnvekjandi.

Og ekki bara kjósendur … heldur sjálfur forsetinn. Forsetinn, sem sjálfur segir – samkvæmt ákveðnum heimildum – að hann vilji vera forsetinn sem fólk man eftir sem konungi.

Konungsvígslan

Það er því ágætt tilefni núna til að bera saman konunga. Því guðspjallstexti dagsins í dag er konungsvígsla. Táknmálið allt talar til samtíma síns með þeim hætti að þarna er Jesús Kristur krýndur sem konungur ljóssins og lífsins. Samtími okkar hefur að miklu leyti glatað þessu táknmáli og við sjáum aðeins mann sem lyftist frá jörðinni eins og indverskur jógi í ævintýri og ljómar eins og ljósapera.

En það er ekki það sem sagan um ummyndunina á fjallinu er um. Hún lýsir konungsvígslu.

Jesús fer upp á fjallið með félögum sínum. Fjallið er helgur staður, það er þar sem Guð talar við menn í menningarheimi frjósama hálfmánans í fornöld. Guð afhenti Móse lögmálið á fjallinu. Guð talaði við Elía á fjallinu. Eftir vígsluna steig konungur Babýlons upp á fjallið helga í borginni miðri, ziggúratið, og tók við ríki sínu. Og í öðrum Davíðssálmi segir: „Konung hef ég krýnt á Síon, mínu helga fjalli“ (Slm 2.6)

Og klæði Jesú ljóma svo skært að „enginn bleikir á jörðu [fær] svo hvítt gert“. Þetta endurspeglar líka konungsvígslu. Sagnaritarinn Jósefus, sem uppi var á fyrstu öld okkar tímatals, lýsir konungsvígslu í borgríkinu Týrus þannig að konungurinn hafi verið klæddur konungsskrúða úr silfri sem ljómaði í fyrstu sólargeislunum og fyllti lýðinn ótta og lotningu. Á milli Týrusar og Jerúsalem var gott samband og í Fyrri konungabók Gamla testamentisins er því lýst að Híram Týrusarkonungur hafi sent Salómon konungi eirsmiði og útvegað vinnuafl, verkþekkingu og hráefni til að smíða innviði musterisins í Jerúsalem.

Þótt táknheimurinn hafi tekið á sig ólík blæbrigði meðal þjóða menningarsvæðisins má ímynda sér að þær hafi átt meira sameiginlegt en sagnaritarar Gamla testamentisins hafi af pólitískum ástæðum látið í veðri vaka til að undirstrika sérstöðu Ísraelsmanna sem Guðs útvöldu þjóðar.

Það er á fjallinu sem konungurinn fæðist, í óeiginlegri merkingu, verður konungur.

Konungstitlar Jesú

Allir titlar Jesú eru konungstitlar.

„Sonur Davíðs“ er eðlilega erfingi að konungdæmi Davíðs.

„Sonur Guðs“ er konungstitill sem flestir konungar þessa menningarheims báru. Þegar Alexander mikli hafði lagt undir sig Egyptaland var honum fagnað sem syni Amons Ra. Þar sem hann var orðinn lögmætur faraó hafði hann áunnið sér sonarstöðuna – og titillinn. Í Mesópótamíu gátu konungar verið synir hinna ýmsu guða samtímis. Í öðrum Davíðssálmi, sem áður var vitnað í og margir guðfræðingar telja hafa verið litúrgískan konungsvígslusálm, segir Guð við konunginn: „Þú ert sonur minn, í dag hef ég fætt þig.“ (Slm 2.7)

„Mannssonurinn“ er óræðastur titlanna og langt mál að færa fyrir því rök að þar sé um litúrgískan konungstitil að ræða, það er að segja titil sem lýsir geistlegu hlutverki konungsins í guðveldinu frekar en því veraldlega.

Jafnvel orðið „kristur“, sem er þýðing hebreska orðsins „mashiah“ eða „messías“ í grískri umritun – er konungstitill. Í spádómsbók Jesaja er Kýrus Persakonungur, sá sem frelsaði gyðinga frá herleiðingunni til Babýlonar, kallaður „messías“, „hinn smurði Drottins“. (Jes 45.1)

Ummyndunin á fjallinu bergmálar þetta allt.

Og til að leggja áherslu á lögmæti konungsvígslunnar eru Móse og Elía viðstaddir, lögmálið og spámennirnir.

Og út á hvað ganga lögmálið og spámennirnir?

Jesús svarar því í 22. kafla Matteusarguðspjalls. Þar er Jesús spurður hvert sé hið æðsta boðorð og hann svarar:

„Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum. Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð. Annað er hliðstætt þessu: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Á þessum tveimur boðorðum hvílir allt lögmálið og spámennirnir.“ (Matt 22.37-40)

Angar illskunnar og heimskunnar

Skyldu okkar jarðnesku konungar eða forsetar sem vilja vera minnst sem konunga svara þessari spurningu á sama hátt? Eða myndu þeir segja: „Elska skaltu þjóðernið og fánann og rétt þinn til að eiga skotvopn og byggja múr á milli þín og náunga þíns og skerða frelsi hans sem mest þú mátt með hvaða hætti sem er“?

spiegel-donald-trumpSegja þeir: „Verið óhræddir“ eða segja þeir: „Verið lafhræddir og vígbúist því mesta ógnin sem að okkur steðjar eru íslamskir hryðjuverkamenn“ jafnvel þótt borðleggjandi tölfræði sýni að byssuóðir samlandar séu tugþúsundfalt líklegri til að verða einhverjum að fjörtjóni?
En við þurfum ekki að fara til hinna súrrealísku hamfara gagnvart heilbrigðri skynsemi og kristilegu siðferði, sem nýr forseti Bandaríkjanna er um þessar mundir að leiða yfir þjóð sína og heiminn, til að finna stjórnmálaleiðtoga sem finnst réttara að sýna náunganum „stálhnefa“ heldur en kærleika, finnst ekkert sjálfsagðara en að ríkisvaldið setji það á oddinn að pönkast í fólki sem er ekki fyrir neinum, er í óða önn að skapa sér örugga og friðsæla tilveru eftir hrakninga og ofbeldi sem við fæst getum ímyndað okkur og á sér þá einu ósk að vera látið í friði.

Við verðum að gæta þess að láta þann Hrunadans heimsku og illsku sem nú dunar í Bandarísku stjórnmálalífi ekki blinda okkur fyrir þeirri staðreynd að angar heimskunnar og illskunnar teygja sig víðar og að þeirra verður vart nær okkur en okkur finnst þægilegt að horfast í augu við.

Tveir ólíkir Íranar

Við getum fárast yfir þeirri staðreynd að íslenskum landsliðsmanni í taekwondo hafi verið meinað fara til Bandaríkjanna og keppa þar fyrir Íslands hönd fyrir þá sök eina að hafa fæðst í Íran. Það er full ástæða til að misbjóða það.

En látum hneykslun okkar á því ekki yfirskyggja að nú í þessari viku var karlmaður numinn á brott frá heimili sínu hér í þessari sókn, skilinn að frá sambýlismanni sínum og ástmanni og sendur með valdi til erlends ríkis – þar sem hann hafði verið beittur ólýsanlegu ofbeldi – fyrir þá sök eina að hafa fæðst í þessu sama Íran og vera ekki afreksíþróttamaður. Hann er samkynhneigður og fari svo að hann verði fluttur hreppaflutningum aftur til Íran, þar sem engum vafa er undirorpið að samkynhneigðir hafa ástæðu til að óttast um líf sitt, þarf varla að spyrja að leikslokum. Og fari svo mun engin Pílatusarþvottur geta þvegið blóð hans af höndum íslenskra stjórnvalda.

Ekki bandarískra.

Íslenskra.

Heimskan og illskan stíga nefnilega dans nær okkur en okkur finnst þægilegt að kannast við og það er ekki bara hinn þröngsýni og fáfróði hluti almennings sem klappar með. Meðal þeirra sem slá taktinn er fólk sem gegnir ábyrgðarstöðum í þágu lands og þjóðar.

Ekki Bandaríkjanna og Bandaríkjamanna heldur Íslands og Íslendinga.

Annar konungur

En texti dagsins minnir okkur á að við eigum okkur annan konung, konung ljóss og lífs. Ekki hraðlyginn, hrokafullan og hörundsáran narkissista heldur bróður sem bjó með okkur fullur náðar og sannleika og gekk út í opinn dauðann fyrir okkur.

Sá konungur situr ekki á þingi eða í stjórnarráðinu. Þaðan af síður í dómsmálaráðuneytinu eða útlendingastofnun.

Hann situr við hægri hönd Guðs föður almáttugs.

Og mun þaðan koma að dæma lifendur og dauða.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 5. febrúar 2017


Guðspjall:
Jesús kom til Jeríkó og gekk gegnum borgina. En þar var maður er Sakkeus hét. Hann var yfirtollheimtumaður og auðugur. Langaði hann að sjá hver Jesús væri en tókst það ekki fyrir mannfjöldanum því að hann var lítill vexti. Hann hljóp þá á undan og klifraði upp í mórberjatré til að sjá Jesú, en leið hans lá þar hjá. Og er Jesús kom þar að leit hann upp og sagði við hann: „Sakkeus, flýt þér ofan, í dag ber mér að vera í húsi þínu.“ Hann flýtti sér ofan og tók á móti honum glaður. Þeir er sáu þetta létu allir illa við og sögðu: „Hann þiggur boð hjá bersyndugum manni.“ En Sakkeus sneri sér til Drottins og sagði við hann: „Drottinn, helming eigna minna gef ég fátækum og hafi ég haft nokkuð af nokkrum gef ég honum ferfalt aftur.“ Jesús sagði þá við hann: „Í dag hefur hjálpræði hlotnast húsi þessu enda ert þú líka niðji Abrahams. Því að Mannssonurinn er kominn að leita að hinu týnda og frelsa það.“ (Lúk 19.1-10)
sakkeus

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Sagan um Sakkeus er skemmtileg. Hún er myndræn, hefur skýra framvindu og endar á óvæntum snúningi – í bókstaflegri merkingu.

Það er einkum við tvenns konar tilefni sem sagan af Sakkeusi er lesin og stuðst við hana í helgihaldi.

Annað tilefnið er barnastarf. Börn eiga auðvelt með að setja sig í spor Sakkeusar. Þau tengja við þetta vandamál, að vera of lítill og þurfa príla upp á eitthvað til að sjá. Til er vinsælt barnalag um Sakkeus, „Hann Sakkeus var að vexti smár“, og gaman er að leika þessa sögu. Sá sem leikur Sakkeus fær að príla.

Hitt tilefnið er við húsblessun. Þegar húsnæði er blessað er sagan af Sakkeusi einn þeirra ritningartexta sem handbókin leggur til að sé lesinn. Og hvers vegna skyldi það vera?

Það er til að minna okkur á að það er ekki endilega virðulegasta húsið í bænum þar sem Jesú er að finna. Það er ekki endilega þar sem talað er hæst og oftast um Guð sem hans verður mest vart.

Avery Jackson

Fyrir skömmu las ég grein um bandaríska fjölskyldu. Hjónin eiga dreng sem virðist vera stúlka í líkama pilts. Foreldrar þessarar transstúlku ákváðu að leyfa barninu sínu að ákveða kynferði sitt sjálft, eftir miklar sálarkvalir yfir andlegri vanlíðan þess og hvað væri til ráða. Nú ala þau drenginn sinn upp sem stúlku, hann eða hún klæðir sig eins og stúlka og er á allan hátt stúlka – nema auðvitað líffræðilega. En barnið er níu ára, það hefur nægan tíma til að skipta um skoðun áður en kynleiðréttingarferli hefst með hormónagjöf og seinkun kynþroska og – ef vill – kynleiðréttingaraðgerð. Nú líður barninu vel og allir eru hamingjusamir – eða hvað?

Ekki alveg.

Hið virta tímarit National Geographic ákvað að birta mynd af Avery Jackson, en svo nefnist stúlkan, á forsíðu tölublaðs þar sem fjallað er um nýjustu rannsóknir á kynáttun og kyngervi fólks. Það hafði þær afleiðingar að nú berast fjölskyldu hennar með reglulegu millibili bréf með svívirðingmu og jafnvel morðhótunum – frá fólki sem segist vera kristið og að Jackson fjölskyldan sé viðbjóðsleg í augum Guðs og því réttdræp.

Morðhótanir í Jesú nafni

Það hvarflar ekki að mér að efast um að þeir sem senda þessi bréf séu sannfærðir um að þeir séu að gera rétt. Auðvitað eru þeir vissir um að þeir séu að vinna verk Guðs, að þeir hafi sannleikann sín megin. Það er nefnilega hægt að gapa um Guð og kærleika í þeirri sannfæringu að maður sé í alveg sérstöku uppáhaldi hjá himnaföðurnum á meðan heimsmynd manns er svo brothætt að maður finnur sig knúinn til að skrifa morðhótun til þeirra sem ögra henni.

Nú ætla ég ekki að fullyrða hér og nú að ekkert sé við það að athuga hvernig brugðist hefur verið við kynáttunarvanda Avery litlu. National Geographic hefur sætt gagnrýni fyrir  umfjöllun sína. En það er ekki mitt að dæma. Ég er ekki sálfræðingur, geðlæknir eða kynfræðingur, hvað þá þvagfæraskurðlæknir. Ég hef ekkert vit á þessu.

En ég er guðfræðingur og kristinn maður og ég tel mig hafa vit á öðru, til dæmis því að kristið fólk sendir ekki morðhótanir. Ég veit að Kristur sagði: „Dæmið ekki og þér munuð eigi verða dæmd.“ (Lúk 6.37), „Á því munu allir sjá að þér eruð lærisveinar mínir að þér berið elsku hver til annars.“ (Jóh 13.35), „Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra það hafið þér gert mér.“ (Matt 25.40) og „Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður það skuluð þér og þeim gera.“ (Matt 7.12) og þannig mætti lengi telja. Auðvitað er það ofvaxið mínum skilningi að manneskja skuli telja sig geta hótað meðbræðrum sínum ofbeldi og líkamsmeiðingum í Jesú nafni.

Orðin tóm

Nei, Guð er ekki alltaf að finna þar sem nafn hans er hrópað hæst. Enda segir Jesús á öðrum stað: „Ekki mun hver sá sem segir við mig: Drottinn, Drottinn, ganga inn í himnaríki heldur sá einn er gerir vilja föður míns sem er á himnum.“ (Matt 7.21)

Sakkeus kom ekki á móti Jesú berjandi sér á brjóst, hrópandi „Drottinn, Drottinn!“

Hann þyrsti í að fá að sjá frelsarann og þar sem hann var svo smár vexti að það kom í veg fyrir að hann gæti það með sama hætti og aðrir greip hann til þess ráðs að klifra upp í tré. Og Jesús sá hann. Jesús sá löngun hans til að sjá sig. Og Jesús gaf sig að honum og sagði: „Í dag ber mér að vera í húsi þínu.“

Og þannig er það enn þann dag í dag. Ef þú berð þig eftir því að sjá Jesú, ef þú ert reiðubúinn til að leggja eitthvað meira á þig til þess en það eitt að standa álengdar og góna í skjóli hinna, þá sér Jesús þig og hann gefur sig að þér og hann mun verða í húsi þínu.

Jesús og bókhaldið

Samborgarar Sakkeusar fyrirlitu hann. Þeir fyrirlitu það með hvaða hætti hann hafði komist í álnir. Hann var tollheimtumaður. Tollheimtumenn innheimtu skatta fyrir rómverska heimsveldið og smurðu ofan á þá. Það var þóknun þeirra. Sakkeus var auðugur segir í textanum svo ímynda má sér að hann hafi verið duglegur við að bæta hvers konar umsýslukostnaði, stimpilgjöldum, þjónustugjöldum og öðru slíku við það sem hann innheimti.

En Jesús spurði ekki um það. Jesús bað ekkert um að fá að sjá bókhaldið hjá Sakkeusi. Það að Jesús gaf sig að Sakkeusi olli aftur á móti stakkaskiptum í lífi hans og þankagangi. Þar kemur snúningurinn. Sakkeus sýnir iðrun og gerir yfirbót. „Helming eigna minna gef ég fátækum og hafi ég haft nokkuð af nokkrum gef ég honum ferfalt aftur,“ segir hann. Jesús bað hann ekkert um það. Hann sagðist aðeins myndu dvelja í húsi hans. Dvöl hans var ekki háð því skilyrði að Sakkeus gerði upp bókhaldið sitt.

En þetta er það sem gerist þegar Jesús dvelur hjá þér. Þú ferð yfir bókhaldið þitt sjálfur. Og hér er ég ekki að tala um peninga. Ég er að tala um lífsins bók.

Og þess vegna á þessi saga erindi við okkur nú tvöþúsund árum síðar. Þetta er ekki einangraður atburður sem átti sér stað í fjarlægum heimshluta fyrir löngu síðan. Þetta er eilífur sannleikur sem á sér stað enn þann dag í dag.

Ef þú berð þig eftir því að sjá Jesú þá sér hann það og hann kemur til þín.

Og því fylgir uppgjör.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögu anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 15. 1. 2017

angry-old-manÉg ætti að vera latur og værukær. Ég er kominn á sextugsaldur, er í góðri stöðu og á fallegt heimili. Ég á meira að segja barnabörn. Ég ætti að vera vaxinn upp úr hlutverki reiða, unga mannsins. Eftir öll þessi ár finnst mér ég eiga það inni að fá að slaka á og láta yngri kynslóðum eftir eldmóðinn og hugsjónirnar til að breyta heiminum.

Vandamálið er að ég er eldri en margir ráðamanna þjóðarinnar og þeir virðast flestir hverjir neita eindregið að leika það hlutverk sem yngri kynslóðum er ætlað í mínum huga.

Þannig tilkynnir ráðherra mér að ég sé einfaldlega geðveikur af því að ég verð var við það í vinnunni að það hafa það ekki allir gott á Íslandi. Það að mér gremjist að fólk með rétt sambönd fái tugmilljóna lán afskrifuð á sama tíma og aðrir eru bornir með valdi út úr húsum sínum og heimilum fyrir mun minni sakir er skilgreint sem úrkynjun – öfundargen sem hrjáir þá sem ekki njóta góðs af forréttinda- og afætugenum.

Og ég finn reiðina blossa upp í mér.

Þetta átti ekki að vera svona.

Mín kynslóð átti ekki að ganga berserksgang spillingar og hroka þegar hún væri komin á þann virðulega aldur að vera falin stjórnun landsins.

Reiði mín ristir dýpra en svo að það sé bara réttlætiskennd mín eða siðferðiskennd sem er misboðið. Það er bara toppurinn á ísjakanum.

Það er trú mín á mannkynið sem er í húfi.

Ef þetta er það sem mín kynslóð og sú næsta á eftir lögðu af mörkum, hvaða von er þá til þess að nokkur kynslóð – barna minna eða barnabarna – fuðri ekki líka upp á báli siðblindrar sérhygli?

Kannski er ég bara eigingjarn. Kannski gremst mér bara að stjórn landsins skuli vera í þannig höndum að ég þurfi að vera reiður, gamall maður í stað þess að geta verið latur og værukær eins og var planið.

Bakþankar í Austurlandi 12. 1. 2017

 

st-_thomas_giving_alms_by_murillo_norton_simon_museumGuðspjall: Meðan hann var í Jerúsalem á páskahátíðinni fóru margir að trúa á hann því þeir sáu þau tákn sem hann gerði. En Jesús gaf þeim ekki trúnað sinn því hann þekkti alla. Hann þurfti þess ekki að neinn bæri öðrum manni vitni. Hann vissi sjálfur hvað í manni býr. (Jóh 2.23-25)

 
Náð sé með ykkur og friður frá Guði Föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Gleðilegt nýtt ár.

Að þessu sinni byrjum við í kirkjunni nýtt ár á að minna okkur á einlægnina. Jesús þekkir alla, hann veit hvað í hverjum manni býr. Það þýðir ekkert að þykjast frammi fyrir Guði. Enginn blöffar Guð.

Þetta þema heldur áfram í næstu köflum guðspjallsins. Jesús ræðir við hina og þessa og heyrir ekki bara spurningarnar sem hann er spurður heldur sér hann spurningarnar í hjörtum viðmælenda sinna og svarar þeim líka.

Að þeyta lúðra

Það er gott að vera minntur á þetta í samfélagi þar sem það er í tísku að iðka réttlæti sitt fyrir mönnum, eins og segir í hinni helgu bók. Jesús varar okkur við að vera eins og hræsnararnir sem vilja biðjast fyrir í samkundum og á gatnamótum til að menn sjái þá, menn sem láta þeyta lúðra fyrir sér þegar þeir gefa ölmusu.

Auðvitað er gott að láta gott af sér leiða, en þegar góð málefni eru styrkt með fermetra stórum ávísunum að viðstöddum blaðaljósmyndurum er ekki laust við að sá grunur læðist að manni að eitthvað meira hafi vakað fyrir gefandanum en það eitt að láta gott af sér leiða – að góðmennskan sé liður í ímyndarsköpun og sem slík eigingjörn í eðli sínu.

Þess vegna langar mig í tilefni áramótanna að taka upp sið sem mjög tíðkaðist hér á Íslandi á árunum fyrir hrun og einhverjir kynnu jafnvel að sakna og tilnefna auðmann ársins. Mig langar aftur á móti til að gera það á öðrum forsendum en tíðkaðist hér áður fyrr – leyfist mér að segja „kristilegum“ forsendum?

Auðmenn ársins

Í þriðja sæti er maðurinn sem kom hingað í kirkjuna hálfum mánuði fyrir jól og bar inn kassa af jólamat, malti og appelsíni og öðru góðgæti og fól okkur – fyrir hönd hópsins sem hann var í forsvari fyrir – að hafa milligöngu um að koma þessu í hendurnar á fjölskyldum sem ættu erfitt með að veita sér slíkan viðgjörning yfir hátíðirnar fyrir þá peninga sem þær hefðu umleikis. Skilyrðið var að nöfn gefenda yrðu algert leyndarmál sem og nöfn þiggjendanna. Við þessu var orðið. Jólamaturinn komst í góðar hendur og þakklæti þeirra sem tóku við þessum höfðinglegu gjöfum er hér með komið til skila þangað sem það á heima. Þeir vita hverjir þeir eru – og Guð veit það líka.

Í öðru sæti er fjölskyldan sem kom hingað í kirkjuna nokkrum dögum fyrir jól með tvo konfektkassa og tvö umslög með dálítilli fjárhæð í – engu ógurlegu en nógu hárri til að breyta töluverðu fyrir efnalitlar fjölskyldur. Skilyrðið fyrir gjöfinni var það sama: Fullkomin leynd um gefendur og þiggjendur. Við í kirkjunni gátum orðið við þessu og er þakklæti þeirra sem þáðu þessar gjafir hér með komið til skila.

En í fyrsta sæti sem auðmaður ársins í mínum huga er konan sem kom til mín á samkomu hér í sókninni og bað mig að koma með sér afsíðis, því enginn mátti verða vitni að erindi hennar. Þegar hún var viss um að enginn sæi rétti hún mér fimmþúsundkrónaseðil og bað mig að setja hann í einn söfnunarbaukanna niðri í kirkjunni sem hún á svo erfitt með að sækja vegna fötlunar sinnar, en hún er bundin í hjólastól. Ég varð við því og hennar framlag var ekki eyrnamerkt einu né neinu sérstöku heldur rann það saman við þær fjárhæðir sem sóknarbörn létu af hendi rakna í samskotum hér í kirkjunni á aðventunni.

Ég treysti því að með því að greina frá þessu sé ég ekki kominn í þversögn og farinn að þeyta lúðra fyrir fólki sem einmitt vildi láta gott af sér leiða fyrir Guð og náungann en ekki fyrir ímynd sína. En ég tel gagnlegt, jafnvel nauðsynlegt, að greina frá þessu – og tel það hægt án þess að brjóta þau loforð um leynd sem gefin voru.

Heimsósóminn freistar

Það er nefnilega auðvelt að gleyma sér í heimsósómanum. Það er svo gaman að benda fingri á aðra og hrópa: „Vei!  Vei yður, þér hræsnarar og farísear!“ Það lætur manni líða vel, eins og maður sé siðferðilega á hærra plani en annað fólk og á alveg sérstökum „buddy basis“ við Jesú Krist, prókúruhafi Guðs á jörð.

Með því er ég ekki að segja að ástæðulaust sé að gagnrýna það að þurfa að lifa lífi sínu fyrir galopnum tjöldum; að allt það góða sem maður gerir, hvort sem það er fyrir sjálfan sig eða náungann, sé lítils virði sé því ekki deilt á facebook eða fjallað um það í fjölmiðlum.

En við skulum þá líka muna að fullt af fólki er einlægt og heiðarlegt í þeirri viðleitni sinni að láta gott af sér leiða og gera heiminn örlítið betri. Fullt af fólki leggur raunverulega meira upp úr því að safna sér auði sem mölur og ryð fá ekki grandað heldur en gulli og stöðutáknum. Fullt af fólki leggur meira upp úr því að vera sátt við manneskjuna sem það sér í speglinum heldur en þá sem það sér á facebook eða í fjölmiðlum.

Auðlegð hjartans

Hinir raunverulegu auðmenn allra ára eru nefnilega þeir sem gefa af auðlegð hjarta síns. Og þeir eru hér meðal okkar. Við megum ekki einblína svo á þá sem vilja að allir viti hvað þeir eru góðir og líka eru á meðal okkar – þá sem leggja svo mikið upp úr þeirri ímynd að vera mannvinir og hluti af lausninni en ekki vandamálinu að allt sem þeir segja eða gera snýst á einn eða annan hátt um þá sjálfa og framlag þeirra til kærleika og mannúðar í heiminum – að við sjáum ekki hina.

Ég er kannski heppinn. Þeir sem vilja láta þeyta fyrir sér lúðra hafa nefnilega ekki mikið verið að leggja leið sína hingað í kirkjuna á aðventunni til að láta gott af sér leiða. Þannig hef ég verið heppinn með félagsskap. En það hefur líka sannfært mig um að heimurinn er ekki á leiðinni til andskotans.

„Það eina sem hið illa þarf til að hafa sigur er að gott fólk geri ekki neitt,“ er haft eftir heimspekingnum Edmund Burke. Og ég held að það séu orð að sönnu.

Og ég er svo ótrúlega lánsamur að atvinnu minnar vegna hef ég fengið að verða vitni að mörgu góðu fólki sem einmitt er að gera eitthvað.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda.

Svo sem var í upphafi er enn og verður um aldir alda.

Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju á nýársdag 2017