Feeds:
Færslur
Athugasemdir

Archive for júní, 2011

Á ferðum mínum um heiminn hef ég stundum rekið augun í skilti þar sem varað er við vasaþjófum. Þegar ég sé þau fyllist ég samstundis tortryggni og aðgæti hvort ég sé ekki örugglega enn með veskið í vasanum. Þetta endurtek ég í hvert sinn sem mér verður það á að rekast utan í aðra manneskju. Ef ég væri vasaþjófur myndi ég því stunda iðju mína alls staðar annars staðar en einmitt þar sem svona skilti eru. Ályktunargáfa mín segir mér nefnilega að óvíða sé minni hætta á að hitta fyrir vasaþjófa en í námunda við skilti þar sem varað er við þeim. En kannski eru vasaþjófarnir skrefi á undan, vita að svona hugsar fólk og sækja því í staði með skiltum af þessu tagi. Þannig að þau eiga fullan rétt á sér. Eða hvað?

Ég hef einu sinni orðið fyrir barðinu á vasaþjófi. Það var í Barcelona fyrir allmörgum árum. Ég var á gangi eftir Römblunni og einstaklega vel lá á mér. Óþarfi er að draga fjöður yfir að það stafaði ekki síst af því að ég var góðglaður af völdum víns, þótt það sé í sjálfu sér aukaatriði. En þar sem ástand mitt mátti vera hverjum manni augljóst lá ég kannski sérlega vel við höggi. Á miðri Römblunni mætti ég ungum pilti sem svipað virtist vera ástatt um. Hann var reikull í spori og söng gleðisöngva út í bláinn drafandi röddu. Þegar við mættumst fagnaði hann mér hjartanlega, faðmaði mig og kyssti og steig meira að segja við mig nokkur dansspor, geislandi af kátínu og áhyggjuleysi æskumannsins sem er að sletta úr klaufunum. Við kvöddumst með virktum og hann skildi við mig uppveðraðan af þeim hlýhug og tæru lífsgleði sem mér hafði verið sýnd. En sælan stóð stutt. Eftir u.þ.b. tíu skref áttaði ég mig á því að rassvasi minn var tómur, veskið mitt var horfið. Og ekki bara veskið. Pilturinn, sem ekki hefði átt að vera í mikið meira tíu skrefa fjarlægð, var líka horfinn veg allrar veraldar.

Fyrst varð ég gramur út í strákinn og síðan út í sjálfan mig. Loks fylltist ég þó aðallega samviskubiti. Ég gat nefnilega ekki varist aðdáun á þjófnum. Hann plataði mig fullkomlega upp úr skónum. Leikræn tilþrif hans voru slík að ekki hvarflaði að mér að efast um einlægni hans. Mér fannst hann eiga meira skilið fyrir þessa snilldarframmistöðu en snjáðan seðlaveskisbleðil með engu í nema innistæðulausu debetkorti. Satt best að segja leið mér eins og það hefði verið ég sem snuðaði hann.

Bakþankar í Fréttablaðinu 25. 6. 2011

Read Full Post »

Athugasemdir

Mig langar að biðja þá, sem sett hafa athugasemdir hingað inn undanfarnar vikur, afsökunar á því að þær hafa ekki birst. Ég er nýbúinn að færa bloggið mitt yfir í þetta kerfi og kunni ekki betur á það en svo að ég var bara að átta mig á því núna af hverju enginn gerir athugasemdir við það sem ég skrifa. Ég þarf víst að samþykkja athugasemdir til birtingar. Ég hef nú samþykkt allar þær sem mér hafa borist (nema eina sem var ekki athugasemd heldur skætingur). Ég ætla þó að halda þessari stillingu óbreyttri, enda finnst mér ágætt að sjá nýjar athugasemdir sjálfur áður en þær birtast á síðunni. Með þessu móti get ég líka í stað þess að þurfa að þrífa kúk úr garðinum mínum einfaldlega komið í veg fyrir að kúkað sé í hann, svo ég grípi til líkingar sem ég heyrði fyrir nokkru.

Read Full Post »

Nýlega léku Íslendingar landsleik við Dani í fótbolta. Fyrir leikinn var talað um það í fjölmiðlum að nú væri tími til kominn að vinna Danina, það hefði enn ekki tekist. Svo fór að Danir unnu 2:0. Í kjölfarið spratt upp gagnrýnin umræða um gengi íslenska landsliðsins í undankeppninni sem nú fer fram, en liðið er aðeins með eitt stig eftir að hafa leikið við Portúgali, Norðmenn, Dani og Kýpurbúa. Jafnvel var rætt um það hvort þessi ósigur væri ekki kornið sem fyllti mælinn og nú væri ekki sænna vænna að láta þjálfarann fjúka.

Mér datt í hug að skoða þessa gagnrýni og reyna að meta það hve raunhæf krafan um árangur er í ljósi styrkleika þessara liða. Besta myndin sem hægt er að gera sér af honum er styrleikalisti FIFA, Alþjóða knattspyrnusambandsins. Þar eru Portugalir í 8. sæti, Norðmenn í 11. sæti, Danir í 27. sæti, Kýpurbúar í 89. sæti og Íslendingar í 116. sæti.

Það er erfitt að setja þetta í samhengi. Til dæmis er, vegna smæðar þjóðarinnar, ekki hægt að setja þetta í íslenskt samhengi. Ef ég myndi á morgun stofna Knattspyrnufélagið Hrum, þar sem liðsmenn væru allir farlama gamalmenni, myndi Hrumur nefnilega vera betra lið á íslenskan mælikvarða en íslenska landsliðið er á heimsmælikvarða, einfaldlega vegna þess að á Íslandi eru ekki 115 lið til að vera betri en Hrumur væri. Ef landslið heims væru félagslið sem kepptu í 12 liða deildum, eins og hér tíðkast, þá væru Portúgalir og Norðmenn í efstu deild, Danir í þriðju, Kýpurbúar í sjöundu og Íslendingar í tíundu. Krafan um sigur á Dönum er því jafnraunhæf og ef Katarbúar krefðust sigurs á Brasilíu, en Brasilíska landsliðið er einmitt jafnlagt fyrir ofan það katarska á styrkleikalista FIFA og það danska er fyrir ofan það íslenska.

Með þessu er ég ekki að segja að það eigi ekki að púkka upp á landsliðið eða að hætta eigi að leggja metnað í að hér sé leikinn almennilegur fótbolti. Allir ættu aftur á móti að geta gert sér það í hugarlund hve óbærilegt það er að vera undir svona ósanngjarnri pressu, að væntingarnar, sem til manns eru gerðar, einkennist af svona fullkomnum skorti á lágmarks raunveruleikaskynjun. Hvað fótbolta varðar er Ísland í flokki með Norður-Kóreu, Miðafríkulýðveldinu, Tansaníu og Sierra Leone, ekki Portúgal eða Noregi. Ef við myndum miða væntingar okkar við það liði okkur öllum  sjálfsagt betur.

Bakþankar í Fréttablaðinu 11. 6. 2011

Read Full Post »