Feeds:
Færslur
Athugasemdir

Archive for janúar, 2016

Sáum!

Prédikun flutt í Fáskrúðsfjarðarkirkju 31. janúar 2016 

búnaðarbankinn (1)Guðspjall: Nú var mikill fjöldi saman kominn og menn komu til Jesú úr hverri borg af annarri. Þá sagði hann þessa dæmisögu: „Sáðmaður gekk út að sá sæði sínu. Og þá er hann sáði féll sumt hjá götunni og varð fótum troðið og fuglar himins átu það upp. Sumt féll á klöpp. Það spratt en skrælnaði af því að það hafði ekki raka. Og sumt féll meðal þyrna og þyrnarnir spruttu einnig og kæfðu það. En sumt féll í góða jörð, óx upp og bar hundraðfaldan ávöxt.“ Að svo mæltu hrópaði Jesús: „Hver sem eyru hefur að heyra hann heyri.“  En lærisveinar hans spurðu Jesú hvað þessi dæmisaga þýddi. Hann sagði: „Ykkur er gefið að þekkja leynda dóma Guðs ríkis, hinir fá þá í dæmisögum að sjáandi sjái þeir ekki og heyrandi skilji þeir ekki.  En dæmisagan þýðir þetta: Sæðið er Guðs orð. Það er féll hjá götunni merkir þá sem heyra orðið en síðan kemur djöfullinn og tekur það burt úr hjarta þeirra til þess að þeir trúi ekki og verði hólpnir. Það er féll á klöppina merkir þá sem taka orðinu með fögnuði er þeir heyra það en hafa enga rótfestu. Þeir trúa um stund en falla frá á reynslutíma. Það er féll meðal þyrna merkir þá er heyra en kafna síðan undir áhyggjum, auðæfum og nautnum lífsins og bera ekki þroskaðan ávöxt En það er féll í góða jörð merkir þá sem heyra orðið og geyma það í göfugu, góðu hjarta og bera ávöxt með stöðuglyndi. (Lúk 8.4-15)

 

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Takið nú vel eftir:

Framsóknarflokkurinn veldur heilaskaða í ungum börnum. Margt bendir til þess að það að sitja undir málflutningi framsóknarmanna geti haft skaðleg áhrif á heila hlustenda sem í mörgum tilfellum getur verið erfitt að snúa við. Flestir leiðtoga Framsóknarflokksins vita auk þess sjálfir mætavel að áróðurinn er bara hættulegar lygar og blekking, en samt halda þeir uppteknum hætti í trássi við betri vitund bara af því að þeir kunna ekki að hætta þessu.

Vonandi blöskrar ykkur málflutningur af þessu tagi. Þau ykkar sem hlóu gerðu það vonandi út af því hvað hann var fáránlega öfgakenndur. Ég held að það skipti engu máli hvar maður er í pólitík, þegar svona er talað segir það meira um mælandann en umræðuefnið. Ég held að jafnvel einörðustu andstæðingum Framsóknarflokksins þætti málstað sínum lítill greiði gerður með svona glórulausri rætni og ofstæki.

Við getum skipt Framsóknarflokknum út fyrir hvaða stjórnmálaflokk sem er í þessum inngangi; vonandi erum við öll sammála um að svona málflutning eigi ekki að viðurkenna sem boðlegan. Við viljum að opinber umræða sé á hærra plani en þetta. Jafnvel hörðustu íhaldsmenn tala ekki svona um Vinstri græn vilji þeir að mark sé á þeim tekið og sannfærðir sósíalistar með vit í kollinum tala ekki heldur svona um Sjálfstæðisflokkinn.

Og bara svo það sé á hreinu: Þótt sjálfur hafi ég aldrei kosið Framsóknarflokkinn er fráleitt að ég telji hann valda heilaskaða og síst vil ég vefengja einlægni flokksmanna hans eða trú þeirra á að stefna flokksins sé raunverulega til hagsbóta fyrir land og þjóð.

Fóbíur

En þetta gildir ekki bara um pólítíska orðræðu. Svona tölum við ekki um neinn annan hóp eða félag fólks. Og það er gott. Við viljum nefnilega vonandi flest búa í samfélagi þar sem opinber umræða er ekki á stigi lágkúrulegs skætings, uppnefna, ásakana um illt innræti og vísvindandi lygar eða beinlínis greindarskort. Við eigum að vera þakklát fyrir að búa í slíku samfélagi og vinna að því að halda því þannig að hér á landi sé svona tal einfaldlega ekki liðið um neinn hóp fólks sem kemur saman til vinna að því að breyta samfélaginu á einhvern þann hátt sem félagsskapurinn telur – með réttu eða röngu – horfa til bóta og framfara, hvort sem það er Náttúruverndarsamtök Íslands, Amnesty International, Samtökin 78, Kvenréttindafélag Íslands, Leikfélag Fljótsdalshéraðs ef út í það er farið … nú eða Framsóknarflokkurinn.

Eða hvað?

Staðreyndin er sú að þetta er ekki alveg svona klippt og skorið.

Þessi inngangur minn er nefnilega ekki alveg úr lausu lofti gripinn. Orð mín um Framsóknarflokkinn hér í upphafi eru höfð nánast orðrétt eftir háskólaprófessor nokkrum í nýlegu útvarpsviðtali þar sem hann var að tjá sig á hátt, sem látið var í veðri vaka að væri yfirvegaður og vísindalegur, um … jú, getiði þrisvar … Þjóðkirkjuna.

Um Þjóðkirkjuna má segja hvað sem er. Prestastéttina má afgreiða alla á einu bretti sem skinhelga skíthæla og stofnunina sjálfa sem gíruga og fégráðuga peningahít sem hugsi um það eitt að sanka að sér sem mestum auð, helst á kostnað munaðarleysingja og ekkna.

Ef einhver segði að Islam snerist aðeins um græðgi og lygar yrði viðkomandi væntanlega með réttu strax úthrópaður sem rasisti og íslamófób. Ef einhver segði að Samtökin 78 yllu heilaskaða væri viðkomandi aðeins að afhjúpa sjálfan sig sem kjána og hómófób. En þegar sagt er að Þjóðkirkjan valdi heilaskaða er það kynnt sem snörp og réttmæt ádeila á staðnaða ríkisstofnun en ekki það sem það augljóslega er; heimskuleg fóbía. Kirkjan þarf að una því að ummælum um hana – sem brytu í bága við löggjöf landsins um hatursorðræðu ef þau væru um einhverja aðra – sé hampað sem róttækni og réttsýni.

Ekkert  væl

Ekki svo að skilja að þessi prédikun eigi að vera væl um stöðu kirkjunnar og ómaklegar árásir á hana. Ég hef engan áhuga á því.

Í fyrsta lagi af því að kirkjan er alls ekki yfir málefnalega gagnrýni hafin frekar en aðrar stofnanir og ég trúi því að skætingur af þessu tagi smáni aðeins þann sem lætur hann út úr sér.

Í öðru lagi leiðist mér væl.

Síðast en ekki síst tel ég þó að slíkt tal hafi ekki bara engin áhrif heldur beinlíns slæm.

Mín reynsla af kirkjunni er nefnilega sú að þegar hún starfar að boðun sinni og markmiðum af auðmýkt og heilindum – eins og hún gerir að jafnaði – þá eigi hún sannarlega samleið með íslensku þjóðinni. Þegar hún byrjar að væla um stöðu sína og kveinka sér undan gagnrýni fær hún hins vegar samstundis meginþorra þjóðarinnar upp á móti sér.

Og það er eðlilegt.

Í fyrra tilfellinu kemur hún nefnilega fram sem biðjandi, boðandi og þjónandi í kærleika. Sem er það sem hún er. Og allir sem láta sér annt um samfélagið og samborgara sína bera virðingu fyrir því. Í seinna tilfellinu kemur hún fram sem kvartandi og kveinandi, hnignandi valdastofnun. Sem er fyrirbæri sem enginn hefur samúð með. Sem er fyrirbæri sem kirkjan á ekki að vera.

Við þjónum Guði í gleði.

Það er engin gleði í væli.

Hér kemur heilaskaðinn

Því er ég að tala um þetta að guðspjall dagsins fjallar einmitt um þennan raunveruleika sem kirkjan hefur á öllum tímum þurft að starfa í: Sumt fræ fellur einfaldlega í grýttan jarðveg.

Og nú er líklega rétt að ég vari ykkur við: Það er komið að þeim hluta prédikunarinnar sem að mati háskólaprófessorsins gæti valdið ykkur heilaskaða; útleggingu á Guðs orði.

Kirkjan er sáðmaðurinn. Sæðið er boðskapur hennar um kærleika og frið. Þessum boðskap er ekki alltaf tekið vel. Sumt sæðið nær ekki að skjóta rótum og bera ávöxt. Sumt er étið af vörgum, sumt skrælnar í steikjandi sólarhitanum, sumt fellur meðal þyrna þar sem ekkert fær vaxið sem ekki rífur, stingur og slítur.

Hvernig bregst sáðmaðurinn við því?

Reynir sáðmaðurinn að þræta við sæðið? Reynir hann að telja því trú um að það væri nú skynsamlegt af því að skjóta rótum í klöppina því þá liði öllum betur? Tekur hann því persónulega og vælir yfir því hvað sæðið sé ósanngjarnt og leiðinlegt við sig að neita að verða að jurt og bera ávöxt? Reynir hann að hoppa á sæðinu og traðka það lengra ofan í hina grýttu jörð í von um að ofbeldið verði til þess að fræ kærleiks og friðar fái blómstrað akkúrat á þeim stað þar sem sáðmaðurinn vill að það blómstri?

Nei. Hann heldur áfram að sinna verki sínu. Hann gengur um og dreifir sæðinu. Hann veit að nógu margt af því fellur í frjóan jarðveg til að það sé fyrirhafnarinnar virði. Þannig verður jörðin smám saman grænni og fegurri þar sem hann fer um. Og því duglegri sem hann er við þetta, þeim mun líklegra er að hinn grýtti jarðvegur og hin bera klöpp verði um síðir hulinn frjórri gróðurmold, þeim mun líklegra er að kristilegu kærleiksblómin þrengi hægt og hægt að þyrnunum og illgresinu og nái að lokum að kæfa það.

Sæði sem fellur í grýtta jörð skýtur ekki rótum. Það er það einfalt. Þetta veit sáðmaðurinn og hann vinnur samkvæmt því. Hann sáir í kring um klöppina, ekki beint á hana bera. Hann starfar áfram af auðmýkt, þolgæði og þolinmæði í hljóðri vissu þess að hann sé að vinna ljóssins verk.

Þannig er sáðmaðurinn fyrirmynd okkar allra í andstreymi og mótlæti daglegra starfa okkar og lífs. Ekki síst mætti hann að mínu mati vera ríkari fyrirmynd kirkjunnar í því andstreymi sem hún sætir í opinberri orðræðu um þessar mundir.

Hinn vanginn

Hvað þá? Á kirkjan að láta allt yfir sig ganga? Bjóða bara hinn vangann?

Ö … já!

Það er nákvæmlega það sem Jesús sjálfur segir að maður eigi að gera þegar maður er sleginn á kinnina.

Kirkjan á að mínu mati ekki að láta draga sig niður á það plan að svara líku líkt, virða skæting og óhróður svars og standa í orðasennum við lokaða hugi sem það eitt vakir fyrir að sverta kirkjuna með öllum ráðum. Ef kirkjan ætlar að fara að standa í því að munnhöggvast við tröll eyðir hún tíma og orku, sem betur væri varið í annað, í stríð sem hún getur ekki unnið og skaðar hana sjálfa.

Ef einhver segir við þig „Þú ert fífl!“ þá gerirðu þig að fífli með því að svara „Nei, það ert þú sem ert fífl!“ og sannar þar með réttmæti ásökunarinnar til að byrja með. Ef þú á hinn bóginn sýnir það í verki að þú ert ekkert fífl er það sá sem þannig kemur fram við þig sem gerir sig að fífli sem ekki er svara vert.

Kirkjan á að vinna sín verk í hljóði af því að starf hennar er mun betra svar við því þegar ómaklega er veist að henni en nokkuð sem hún getur látið út úr sér með orðum. Þá dæma slíkar árásir sig sjálfar. En þegar kirkjan tjáir sig þá veit fólk líka að það er af því að verið er að svara málefnalegalegri gagnrýni á málaefnalegum grundvelli.

Kirkjan á nefnilega að taka þátt í rökræðu, samtali – en hún á að láta alla kappræðu eiga sig.

Þar sem aðeins kappræða er í boði á kirkjan að láta verkin tala.

Við erum umkringd grýttri jörð, klöppum og þyrnum sem rífa og stinga í steikjandi svækju og svellandi hita. Hvernig bregðumst við við því? Hvernig störfum við í þessu umhverfi?

Við sáum! Og höldum áfram að sá!

Óþrjótandi auðlind

Við þurfum ekkert að spara sæðið. Boðskapurinn um kærleika Guðs til allra manna, Guðs orð, er óþrjótandi auðlind.

Þegar gull er grafið úr fjalli minnkar það magn gulls sem hægt er að grafa úr fjallinu smám saman. Þegar olíu er dælt úr jörð minnkar olíuforðinn ofan í jörðinni jafnt og þétt. Þegar sannleika ljóssins og lífsins er dreift eyðist hann aftur á móti ekki heldur vex og magnast og smitar út frá sér ljósi og lífi sem aftur vex og magnast og fegrar og bætir heiminn.

Sáum! Og höldum áfram að sá!

Vælum ekki yfir sæðinu sem fellur í grýtta jörð heldur gleðjumst yfir því sem blómstrar og ber ávöxt.

Þjónum Guði í gleði.

Það er það sem við eigum að gera.

Og þegar ég segi „við“ þá meina ég ekki „við prestarnir“ eða „við starfsfólk kirkjunnar“.

Ég meina „við kirkjan“.

Sönn kirkja er nefnilega ekki stöðnuð og steinrunninn stofnun, hún er lifandi samfélag. Hún er samfélag um Guðs orð: boðskap friðar og kærleika, ljóss og lífs sem varð hold í Jesú Kristi. Og allir sem vilja mega tilheyra þessu samfélagi. Allir sem vilja þjóna ljósinu og lífinu, mannúðinni og kærleikanum í Jesú nafni eru velkomnir að borði hans.

En þátttaka í þessu samfélagi er ekki ókeypis – og nú er ég ekki að tala um sóknargjöld eða kirkjujarðasamkomulag – sem hvorugt er yfir gagnrýni hafið og rökræða má málefnalega.

Nei, þátttakan gerir aðrar kröfur: Þú átt að sá!

Hvaða sæði dreifir þú í kring um þig þar sem þú ferð um, hvort heldur sem er í þinni heimabyggð eða í netheimum? Sáirðu þyrnum og illgresi eða kristilegum kærleiksblómum? Eða liggurðu kannski bara uppi í sófa og lætur nakta klöppina og þyrniflækjuna ekki koma þér við? Finnst þér þér ekki bera nein skylda til að leggja eitthvað af mörkum til að gera heiminn grænni og fegurri?

Skylda okkar sem kristinna manna er augljós.

Við eigum að sá!

Og halda áfram að sá.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er enn og verður um aldir alda. Amen.

Read Full Post »

Prédikun flutt í Egilsstaðakirkju 17. janúar 2016.

giovanni-battista-moroni-xx-the-transfiguration-1Guðspjall: Eftir sex daga tekur Jesús með sér þá Pétur, Jakob og Jóhannes, bróður hans, og fer með þá upp á hátt fjall að þeir væru einir saman. Þar ummyndaðist hann fyrir augum þeirra, ásjóna hans skein sem sól og klæði hans urðu björt eins og ljós. Og Móse og Elía birtust þeim og voru þeir á tali við Jesú. Pétur tók til máls og sagði við Jesú: „Drottinn, gott er að við erum hér. Ef þú vilt skal ég gera hér þrjár tjaldbúðir, þér eina, Móse eina og Elía eina.“ Meðan Pétur var enn að tala skyggði yfir þá bjart ský og rödd úr skýinu sagði: „Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á. Hlýðið á hann!“ Þegar lærisveinarnir heyrðu þetta féllu þeir fram á ásjónur sínar og hræddust mjög. Jesús gekk til þeirra, snart þá og mælti: „Rísið upp og óttist ekki.“ En er þeir hófu upp augu sín sáu þeir engan nema Jesú einan. Á leiðinni ofan fjallið bauð Jesús þeim: „Segið engum frá sýninni fyrr en Mannssonurinn er risinn upp frá dauðum.“ (Matt 17.1-9)

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Í árdaga geimferða stóðu menn frammi fyrir mörgum erfiðum tæknilegum úrlausnarefnum. Menn höfðu aldrei farið út í geim áður, allt þurfti að hugsa upp á nýtt. Hanna þurfti geimbúninga sem haldið gætu lífinu í ferðalöngunum í tómi geimsins. Hanna þurfti farartæki sem komið gætu mönnum út úr gufuhvolfi jarðarinnar og heilum á húfi heim aftur. Hanna þurfti eldflaugar, hreyfla, stjórntæki og allt hvað eina frá grunni. Hvert smáatriði þurfti að hugsa út og reikna og um útreikningana og hönnunina sáu heimsins færustu geimvísindamenn.

Eitt vandamálið sem Bandaríkjamenn stóðu frammi fyrir þegar fyrstu mennirnir voru sendir til tunglsins kann að virðast lítilvægt í samanburði við stóru viðfangsefnin, en skipti þó engu að síður máli. Hjá Geimferðastofnun Bandaríkjanna áttuðu menn sig semsagt á því að venjulegir pennar myndu ekki virka í þyngdarleysi geimsins. Pennar virka nefnilega þannig að þeir nýta sér aðdráttarafl jarðar við að láta blekið renna út um oddinn niður á blaðið. Það þarf ekki annað en að reyna að skrifa á hvolfi með penna, þ.e. þannig að oddurinn snúi upp, til að sjá að þetta er alveg hárrétt. Blekið rennur upp í pennann. Geimfararnir þurftu að geta skrifað hjá sér mælingar og niðurstöður og því var vísindamönnum fengið það verkefni að leysa þetta vandamál.

Og þeim tókst það. Þeir hönnuðu sérstaka geimpenna sem voru með innbyggðu þrýstilofti sem ýtti blekinu út um pennann þegar oddurinn þrýstist inn og gat því virkað hvernig sem honum var snúið og þyngdarafl jarðar þurfti ekki til að gera hann nothæfan. Þetta kostaði auðvitað tugþúsundir Bandaríkjadala, en uppfinningin virkaði og vandamálið var leyst.

Rússar stóðu auðvitað frammi fyrir þessu sama vandamáli. En þeir leystu það öðruvísi. Þeir létu geimfarana fá blýanta.

Snjallari en okkur er hollt

Ekki veit ég hvort þessi saga er sönn. En hún er skemmtileg. Og hún inniheldur djúpan sannleika – alveg óháð sagnfræðilegum áreiðanleika hennar. Hún segir okkur hvað okkur mönnunum hættir til að fara miklar krókaleiðir að niðurstöðu þegar við stöndum frammi fyrir verkefnum sem eru engin geimvísindi.

Stundum hættir okkur nefnilega til að vera snjallari en okkur er hollt.

Guðspjall dagsins segir slíka sögu. Sögu sem sennilega er jafnmikil dæmisaga og sagan af geimpennunum. Þessi saga er hlaðin táknum sem fyrstu viðtakendur hennar voru fluglæsir á, táknum sem voru hluti af sögu þeirra og menningu.

Þrír lærisveinanna, Pétur, Jakob og Jóhannes, fara með Jesú upp á hátt fjall, tákn opinberunar guðdómsins. Á fjallinu er maður næst himninum. Móse fékk boðorðin tíu afhent á fjallinu. Leikmyndin kallar á ákveðna atburði. Og þeir verða.

Jesús ummyndast fyrir augum þeirra, ásjóna hans skein sem sól og klæði hans urðu björt eins og ljós. Í frásögn Markúsarguðspjalls af þessum atburði segir meira að segja – til að leggja áherslu á hve hve björt klæðin urðu: „… og fær enginn bleikir á jörðu svo hvítt gjört.“ (Mark 9.3) Jesús verður með öðrum orðum að ójarðneskri birtu fyrir augunum á þeim.

Þessu til  viðbótar má líka benda á að skínandi klæði voru konungsskrúði í menningarheimi fornaldar fyrir botni Miðjarðarhafsins eins og samtímaheimildir utan Nýja testamentisins gefa til kynna. Sagan sýnir því Jesú sem konung. Það er í stíl við annað enda eru allir titlar hans konungstitlar; sonur Davíðs, mannssonurinn, Kristur, þ.e. „hinn smurði“ enda voru konungar ekki krýndir heldur smurðir, orðið er þýðing hebreska orðsins „Messías“. Jafnvel „sonur Guðs“ er konungstitill eins og mýmörg dæmi eru um, bæði í heilagri ritningu og annars staðar.

Munurinn er sá að Jesús er hinn sanni konugur lífsins. Birta hans er ójarðnesk, klæði hans svo hvít að ekkert bleikiefni á jörðinni fær svo hvítt gjört. Enda segir hann sjálfur á öðrum stað að ríki hans sé ekki af þessum heimi.

Og eins og þetta sé ekki nógu undursamlegt þá birtast Móse og Elía líka.

Það er áhugavert að þremenningarnir Pétur, Jakob og Jóhannes þekkja Móse og Elía undir eins. Hvernig fóru þeir að því? Í samfélagi þar sem var stranglega bannað að gera mannamyndir dúkka upp tveir karlar sem höfðu verið uppi 900 og 1200 árum fyrr og þeir þekkja þá strax án þess að þeir hafi þurft að kynna sig? Auðvitað eru Móse og Elía hér í þessari sögu tákngervingar annars vegar lögmálsins sem Móse færði og hins vegar spámannana en Elía var mestur þeirra. Þeir eru trúararfurinn holdi klæddur, kominn í guðdómlegri opinberun að afhenda Jesú Kristi kyndilinn.

Lögmálið og spámennirnir.

Hvað er það?

Hvað er lögmálið og spámennirnir?

Lögmálið og spámennirnir hafa komið við sögu fyrr í þessu sama guðspjalli. Þar segir Jesús:

„Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera. Því að þetta er lögmálið og spámennirnir.“ (Matt 7.12)

Og síðar í sama guðspjalli segir hann:

„Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum. Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð. Annað er hliðstætt þessu: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Á þessum tveimur boðorðum hvílir allt lögmálið og spámennirnir.“  (Matt 22.37-40)

Þetta eru engin geimvísindi.

Komið fram við aðra eins og þið viljið að komið sé fram við ykkur. Elskið Guð og náungann.

Enski rithöfundurinn Douglas Adams orðar þetta listavel í innganginum að fimmbókariti sínu The Hitch Hikers Guide to the Galaxy. Þar segir hann að atburðir sögunnar gerist … eins og hann orðar það …

„um það bil 2000 árum eftir að maður nokkur hafði verið negldur á tré fyrir að segja hvað það yrði frábært ef fólk væri nú almennilegt hvert við annað svona til tilbreytingar.“

Í rauninni er þetta ekki flóknara.

Of einfalt til að skilja það

En það er þá sem mannseðlið kemur til sögunnar. Pétur horfir agndofa á Jesú, Móse og Elía og hann byrjar að leggja saman tvo og tvo. En þetta er svo stórkostlegur atburður að honum finnst barnaskólareikningur ekki gera honum nógu hátt undir höfði svo í stað þess að leggja saman tvo og tvo setur hann dæmið upp í jöfnu sem hann síðan diffrar og tegrar og reiknar bæði sínus og kósínus af og margfaldar síðan með pí, þá finnur hann X, týnir því aftur og reiknar loks kvaðratrótina af öllu saman og þá fyrst er hann kominn með niðurstöðu sem honum finnst hæfa tilefninu: Hann á að gera hér á þessum stað þrjár tjaldbúðir … eina fyrir Jesú, aðra fyrir Móse og þá þriðju fyrir Elía.

En þetta er ekki svona flókið.

Þetta eru engin geimvísindi.

Komið fram við aðra eins og þið viljið að komið sé fram við ykkur. Elskið Guð og náungann.

Þetta er lögmálið og spámennirnir. Þetta er keflið sem Jesús Kristur tekur við.

Eflaust hefði verið hægt að smíða fallega og heilsteypta guðfræði utan um tjaldbúðirnar þrjár. Kirkja hinna þriggja tjaldbúða hefði síðan með tímanum getað klofnað í smátt út af ágreiningi um það hvaða tjaldbúðir ættu vera stærstar og síðan úr hvaða efni þær ættu að vera og svo hvernig þær ættu að snúa og loksins hvernig hver tjaldbúð ætti að vera á litinn þegar menn hefðu haldið áfram að leggja saman tvo og tvo en þurft að nota allar reikningskúnstir sem þeir kunnu til að sýna hvað þeir væru klárir og fengið þannig stjarnfræðilega vitlausar niðurstöður hvað eftir annað.

En þetta er ekki svona flókið.

Tjaldbúðin er bara ein og hún er Jesús Kristur. Jesús Kristur er uppfylling lögmálsins, ekki enn einn viðaukinn við það. Og lögmálið er þetta: Komið fram við aðra eins og þið viljið að komið sé fram við ykkur. Elskið Guð og náungann.

Þetta eru engin geimvísindi.

Flottu reikningsaðferðirnar

En það er voðalega freistandi, sérstaklega þegar maður kann flóknar og flottar reikningsaðferðir, að nota þær frekar en að leggja saman tvo og tvo því þannig fær maður miklu flottari niðurstöðu. Og þannig getur maður líka reiknað sig að þeirri niðurstöðu sem manni hugnast best.

„Elska náungann? Æ, veistu, mér finnst náungi minn hálfgerður drullusokkur. Má ég ekki bara frekar reisa tjaldbúðir hérna?“

Svarið er nei.

Ef okkur er einhver alvara með því að vera kristið fólk þá leitumst við við … takið eftir því, við „leitumst við“ … enginn fer fram á neitt sem okkur er um megn … við leitumst af einlægni við að koma fram við aðra eins og við viljum að komið sé fram við okkur og að elska Guð og náungann.

Það er svona einfalt.

Ef við erum ein á berangri, varnar- og vegalaus, af því að við höfum neyðst til að yfirgefa heimili okkar og fjölskyldur, líf okkar og aleigu, til að flýja styrjaldarátök, ofsóknir eða hungur þá viljum við að einhver skjóti yfir okkur skjólshúsi. Það þýðir að sem kristnum manneskjum ber okkur að koma þannig fram við aðra, óháð því hvort viðkomandi er Íslendingur eða útlendingur, karl eða kona, kristinn eða múslimi og umfram allt: Óháð öllum tjaldbúðum, útlendingastofnunum og Dyflinnarreglugerðum Heródesar, Pílatusar og annarra höfðingja þessa heims.

Okkur finnst auðvitað miklu flottara að reisa þrjár tjaldbúðir en að vera almennileg hvert við annað svona til tilbreytingar … svo aftur sé vitnað í Douglas Adams. En það er ekki það sem ætlast er til af okkur. Það sem ætlast er til er sáraeinfalt.

Jesús Kristur, eins og lögmálið og spámennirnir, er þetta: „Komið fram við aðra eins og þið viljið að komið sé fram við ykkur. Elskið Guð og náungann.“

Þetta eru engin geimvísindi.

Þetta er ekki flóknara reikningsdæmi en svo að barn getur leyst það … með blýanti.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er enn og verður um aldir alda. Amen.

 

Read Full Post »

Prédikun flutt í Hofskirkju í Vopnafirði 1. janúar 2016.


creation of manLexía:
Þá sagði Guð: „Vér viljum gera manninn eftir vorri mynd, líkan oss. Hann skal drottna yfir fiskum sjávarins, fuglum loftsins, búfénu, villidýrunum og allri jörðinni og öllum skriðdýrum sem skríða á jörðinni.“ Og Guð skapaði manninn eftir sinni mynd. Hann skapaði hann eftir Guðs mynd. Hann skapaði þau karl og konu. Guð blessaði þau. Og Guð sagði við þau: „Verið frjósöm, fjölgið ykkur og fyllið jörðina, gerið ykkur hana undirgefna og ríkið yfir fiskum sjávarins og fuglum himinsins og öllum dýrum sem hrærast á jörðinni.“ (Mós 1.26-28)

 

Pistill: Með því að trúa á Krist Jesú eruð þið öll Guðs börn. Þið öll, sem eruð skírð til samfélags við Krist, hafið íklæðst Kristi. Hér er hvorki Gyðingur né annarrar þjóðar maður, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þið eruð öll eitt í Kristi Jesú. Ef þið eruð í samfélagi við Krist þá eruð þið niðjar Abrahams og erfið það sem honum var heitið. (Gal 3.26-29)

Guðspjall: Þá sagði Jesús þeim þessa dæmisögu: „Maður nokkur átti fíkjutré gróðursett í víngarði sínum. Hann kom og leitaði ávaxtar á því og fann ekki. Hann sagði þá við víngarðsmanninn: Í þrjú ár hef ég nú komið og leitað ávaxtar á fíkjutré þessu og ekki fundið. Högg það upp. Hví á það að vera engum til gagns? En hann svaraði honum: Herra, lát það standa enn þetta ár þar til ég hef grafið um það og borið að áburð. Má vera að það beri ávöxt síðan. Annars skaltu höggva það upp.“ (Lúk 13.6-9)

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Sögur eru mikilvægar. Frá upphafi mannkyns höfum við notað sögur til að miðla þekkingu og fróðleik, skemmtun og djúpristandi sannindum. Við viljum … nei, þráum sannar sögur. En hvað er sönn saga? Og af hverju er mikilvægt að sagan sé sönn?

Að mínum dómi er saga sönn ef það sem hún miðlar er satt. Þá gildir einu hvort umgjörð hennar, þ.e.a.s. sá skilningur sem hægt er að sleikja af yfirborði frásagnarinnar án þess að gera hina minnstu tilraun til að gægjast undir yfirborð hennar eða skilja boðskap hennar, segi frá einhverju sem raunverulega átti sér stað eða jafnvel einhverju sem fræðilega er mögulegt að hafi átt sér stað.

Setningin: „Nú held ég þrem fingrum á loft,“ er sönn. Núna. Þið sjáið það með augunum. Ég þarf ekki að sanna það. Ég efast hins vegar um að fyrir ykkur innihaldi hún mikinn sannleika.

Tökum aðra setningu: „Nú varir þetta þrennt, trú, von og kærleikur, en þeirra er kærleikurinn mestur.“ Er þessi setning sönn? Ég get engan veginn sannað það frekar en nokkur annar maður. En ef við kjósum að trúa henni inniheldur hún mun stærri og merkilegri sannleik en einhver fullyrðing sem ekki þarf annað en að opna augun til að sjá að er sönn.

Jesús sagði sögur. Sögurnar hans gerðust ekki í alvörunni. Samt innihalda engar sögur meiri sannleika.

Jesús var spurður: „Hvað á ég að gera til að öðlast eilíft líf?“ Hann svaraði með sögunni um miskunnsama Samverjann, sennilega þekktustu og áhrifamestu dæmisögu allra tíma. Saga sem endar á orðunum: „Far þú og ger slíkt hið sama.“ Hann sagði sögur af kóngum og þrælum, þjónum og húsbændum þeirra, af brúðkaupsveislum, lánardrottnum og földum fjársjóðum, fíkjutrjám og garðyrkjumönnum og allir skildu hvað hann átti við.

Enginn spurði: „Nákvæmlega hvar átti þessi lánardrottinn heima?“ „Hvaða fólk var þetta sem var að gifta sig? Þekki ég það?“ „Nákvæmlega hvar gróf þjónninn þessar talentur í jörðu? Hér einhvers staðar í nágrenninu?“ Og umfram allt var hann aldrei spurður: „Gerðist þetta í raun og veru? Ertu alveg viss um að það hafi verið nákvæmlega svona sem það gerðist?“

Læsi á sögur

Fólkið skildi söguna, skildi að hún hafði dýpri merkingu en þá sem flaut ofan á yfirborði hennar. Fólk vissi alveg að kóngurinn í sögunni var Guð og þjónninn var maðurinn, að veislan var Guðsríkið. Fólk vissi alveg að talenturnar voru ekki peningar heldur táknuðu þær Guðs gjafir, táknmynd sem er svo sterk að enn þann dag í dag eru Guðs gjafir á sumum tungumálum nefndar eftir þessum forna gjaldmiðli og kallaðar „talent“, hæfileikar.

Jesús sagði dæmisögur. Og margar af sögunum um Jesú eru dæmisögur. Þær eru fullar af táknum. Fyrstu viðtakendur ritningarinnar, þeir sem hún var skrifuð með í huga, voru læsir á þessi tákn. Þau voru lifandi hluti af lífi þeirra, sögu og menningu. Sagan sem guðspjall dagsins segir er af þeim toga.

Fíkjutréð og víngarðurinn eru klassísk tákn fyrir lýð Guðs í spámannsritum Gamla testamentisins. Fyrstu áheyrendur þessarar dæmisögu hafa þekkt vel þessi orð Jesaja spámanns:

„Því að víngarður Drottins er Ísraels hús og Júdamenn ekran sem hann ann. Hann vænti réttlætis en sá blóði úthellt, vænti réttvísi en neyðaróp kváðu við.“ (Jes 5.7).

Þau, sem Jesús sagði þessa sögu, hafa ekki farið í neinar grafgötur með það að þau sjálf voru fíkjutréð. Þeim var ekki heldur hulið hver ávöxturinn var sem vænst var af þeim; réttlæti og réttvísi.

En hér kemur fram munurinn á spámanni og frelsara.

Jesaja hótaði öllu illu:

„Þess vegna verður þjóð mín hrakin í útlegð að hún skilur ekki, tignarmenn kveljast af hungri og múgurinn er þjakaður af þorsta. Þess vegna þenur helja upp gap sitt, glennir upp ginið sem mest hún má svo að spjátrungarnir í Jerúsalem steypast þar niður  og múgurinn með, hávaðamenn og svallarar. Mannkynið skal beygt, maðurinn auðmýktur, augu drambsamra verða niðurlút.“ (Jes 5.13-15).

Jesús er miskunnsamur. Hann gefur fíkjutrénu tækifæri. Eitt ár enn.

Eins og fíkjutréð höfum við brugðist. Heimurinn einkennist ekki af réttlæti og réttvísi.

Mismunun og misskipting gæða gegnsýra samfélög okkar. Laun þeirra hæst launuðu hækka, jafnvel afturvirkt, á sama tíma og biðröðum eftir mataraðstoð er ekki eytt og sjúklingar njóta ekki aðhlynningar. Þeir sem ræna „óverulegum fjárhæðum“, eins og það er orðað, úr banka með trefla fyrir andlitinu eru eltir uppi af þyrlum Landhelgisgæslunnar, á meðan þeir sem ræna banka inn að skinni og rúmlega það innan frá kaupa sér fjölmiðlaveldi fyrir ágóðann til að reka áróður fyrir hagsmunum sínum. Hræsni og skinhelgi vaða uppi. Varað er við hryðjuverkum á meðan við stöndum aðgerðarlaus álengdar og horfum upp á menn, konur og börn, sem eru að flýja þessa nákvæmlega sömu hryðjuverkamenn, fólk frá löndum þar sem þeir eru raunverulega að ganga berserksgang, drukkna í brimróti við Grikklandsstrendur. Jafnvel heyrist fullyrt að við eigum ekki að veita sveltandi og frjósandi fólki mat og húsaskjól af því að við getum ekki líka veitt því fyrsta flokks sálfræðiþjónustu.

Ég er ekki að gera lítið úr mikilvægi sálfræðiaðstoðar – allra síst fyrir fólk sem glímir við þá áfallastreituröskun sem hlýtur að fylgja því að þurfa að yfirgefa heimili sín og aleigu, líf sitt, fjölskyldu og vini upp á von og óvon til að bjarga lífi sínu frá styrjaldarátökum. Ég er aðeins að reyna að setja hlutina í óbrjálað samhengi.

Við höfum brugðist.

Að syndga upp á náðina

En frelsari okkar gefur okkur tækifæri til að bæta ráð okkar. Eitt ár enn. Og þegar við lesum þennan texta að ári mun hann ekki hafa breyst. Á nýársdag 2017 mun ekki standa: „Tréð fékk nýtt tækifæri á nýársdag 2016 en klúðraði því. Nú hegg ég það.“ Nei, þar mun áfram standa: Eitt ár enn. Okkur er gefið annað tækifæri.

En hvers vegna ættum við að bæta ráð okkar fyrst okkur er endalaust gefið annað tækifæri?

Þetta er góð spurning. Og erfið. Þessi hugsunarháttur er gjarnan kallaður „að syndga upp á náðina“ á góðri íslensku.

Og við þekkjum flest fólk sem er mjög fært í því að syndga upp á náðina. Fólk sem er reiðubúið til að nýta sér og misnota góðmennsku okkar þangað til við fáum endanlega nóg eða – það sem verra er – erum svo meðvirk að við höldum áfram að gefa og gefa þangað til við klárum okkur sjálf.

Besta svarið sem ég hef við spurningunni „af hverju ekki að syndga upp á náðina?“ er: „Af því að þú vilt ekki vera þannig manneskja.“ Mér finnst það vera betra svar en: „Af því að ef þú stendur aðgerðarlaus álengdar og horfir upp á misrétti og svívirðu viðgangast er það ekki spurning hvort heldur hvenær þú sjálfur verður fyrir barðinu á því.“ Það er nefnilega eigingjarnt svar – en sennilega jafnrétt.

Guðs mynd

Við erum sköpuð í Guðs mynd segir í upphafi Gamla testamentisins í sögu sem er hlaðin sannleik þótt það sé tiltölulega nýskeð í mannkynssögunni að hún og sannleikurinn sem hún geymir séu vefengd vegna þess að við nú vitum við að þetta gerðist ekki svona í alvörunni. Táknin hafa glatað merkingu sinni, fólk er í síauknum mæli ólæst á dýpt frásagnarinnar og sér bara yfirborðið.

Guðs mynd. Mikið hefur verið hugsað, rætt og ritað um hvað átt sé við með þessum orðum og ekki allir á eitt sáttir. Jú, verkið lofar meistarann er oft sagt og er þá átt við að eiginleikar meistarans einkenni á einhvern hátt sköpunarverk hans. Að vissu leyti gildir það í þessu sambandi. Að vissu leyti berum við mynd skapara okkar.

Við þurfum að tjá okkur, eiga í vitundarsambandi við aðra eins og Guð tjáir sig við okkur og þráir samband við okkur. Við þurfum að skapa – ekki bara listaverk, ljóð og sögur, heldur helst líka litlar manneskjur í okkar mynd. Og við þurfum að elska eins og Guð verður að elska okkur til að vera sá Guð sem í Nýja testamentinu er sagður vera kærleikur.

Þetta er það sem gerir okkur að mönnum. Þetta er það sem gerir lífið þess virði að því sé lifað.

En þetta ristir dýpra. Við erum líka ákveðin Drottinsmynd gagnvart sköpunarverkinu, gagnvart heiminum sem við búum í. Þegar ritningartexti er torskiljanlegur er nefnilega oft ágætt ráð að lesa áfram. Býsna oft er merking hans útskýrð beint í framhaldinu og svo gæti einnig verið hér þar sem Guð heldur áfram og segir: „Hann skal drottna yfir fiskum sjávarins, fuglum loftsins, búfénu, villidýrunum og allri jörðinni og öllum skriðdýrum sem skríða á jörðinni.“

Okkur er falin jörðin til ráðsmennsku fyrir Guðs hönd. Við erum drottnarar yfir jörðinni. Við erum ekki kölluð til ábyrgðar. Við erum sköpuð til ábyrgðar.

Og við erum að tortíma ríkinu sem okkur er falin ábyrgð á.

Við höfum brugðist.

Öll eitt

Í pistli dagsins segir postulinn Páll: „Hér er hvorki Íslendingur né annarrar þjóðar maður, hátekjumaður né fátæklingur, karl né kona. Þið eruð öll eitt.“ Hann orðar það að vísu ekki svona, en þegar skyggnst er undir yfirborðið er þetta boðskapurinn, inntakið.

Lítum í kringum okkur. Skoðum heiminn sem okkur er falinn til ráðsmennsku, ríkið sem við ráðum yfir. Getum við tekið undir þessi orð? Sjáum við heiminn þannig að við séum öll eitt? Sjáum við heiminn þannig að það gildi okkur einu hvort Íslendingur eða Sýrlendingur drukkni við að bjarga lífi sínu frá sprengjuregni – það sé jafnslæmt? Sjáum við heiminn þannig að það sé ekki meiri upphefð að því að vera í vinfengi við auðkýfinga og þotulið heldur en við bændur og búalið?

Ég ætla ekki að standa hér og hræsna með því að halda fram að svo sé um mig. Ég er jafnmikil afurð umhverfis míns og innrætingar og hver annar. Það fær meira á mig að heyra að hryðjuverkamenn hafi myrt 130 manns í París heldur en þegar ég frétti að þeir hafi myrt 600 manns á ýmsum stöum  í Afríku eða 900 manns bara í Pakistan á síðasta ári. Ég hef komið til Parísar. Ég á vini sem hafa búið í París. Afríka og Pakistan eru fjarlæg og það er auðveldara fyrir mig að yppta öxlum þegar ég heyri hörmungarfréttir þaðan en frá stöðum sem standa mér nær. Og ég reikna með að það gildi um okkur flest.

En það gerir það ekki rétt.

Við höfum brugðist.

En við skulum ekki örvænta. Við höfum tækifæri til að bæta ráð okkar. Við fáum eitt ár enn til að bera ávöxt, til að vinna að réttlæti og réttvísi, til að binda enda á blóðsúthellingarnar og neyðarópin. Eitt ár enn.

Ég óska ykkur öllum gleðilegs árs.

Nýtum það vel.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er enn og verður um aldir alda. Amen.

Read Full Post »