Feeds:
Færslur
Athugasemdir

Archive for desember, 2017

Sad Young Blonde ChildNáð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi.

„Hvernig verður maður svona óeðlilegur?“ spurði konan mig sem setið hafði hjá mér í tæpa klukkustund og rakið raunir sínar. Spurningin var sett fram í háði, dæmi um það stórkostlega úrræði sem okkur mönnunum er gefið – að sjá spaugilegu hliðarnar á hinu óbærilega til að gera okkur kleift að bugast ekki undan því. En það var ekkert fyndið við ástand hennar.

„Hvernig verður maður svona óeðlilegur?“ spurði hún.

Líf hennar og líðan voru í molum eins og margra sem leita til prests eftir sálgæslu. Samskipti hennar við sína nánustu voru mölbrotin, það er þá þeirra sem einhver samskipti vildu eiga við hana yfirhöfuð. Og nú ætla ég – til að varðveita trúnað – að tala í mjög grófum dráttum um sögu hennar, breyta nokkrum atriðum og blanda inn í hana þáttum úr öðrum sögum fólks í svipuðum sporum sem til mín hefur leitað, til að fela slóðina í þágu trúnaðarins. Þannig að í raun er þessi kona ekki til. En hún gæti verið það. Hún er þversumma margra einstaklinga.

Ágrip að ævisögu

Þegar við ræddum æsku hennar og það sem hún fór með í farteskinu út í lífið kom eitt og annað upp úr dúrnum. Hún hafði alist upp við kröpp kjör og drykkjuskap. Hún var elst í systkinahópnum og var fyrir fermingu farin að bera ábyrgð á heimilinu. Hún minntist þess að um tólf ára aldurinn hélt hún dagbók þar sem hún skráði meðal annars samviskusamlega á hverjum degi hve drukkin mamma var þann daginn. Hún gætti þess að breiða yfir drykkju móður sinnar af ótta við afleiðingar þess að upp hana kæmist. Hún óx úr grasi og eignaðist ung mann sem hún bar ábyrgð á alla tíð, sá til þess að hann væri í hreinum fötum og fengi mat að  borða. Þau eignuðust börn þegar þau voru enn lítið annað en börn sjálf. Hún sá um uppeldið og stjórnaði heimilinu af ábyrgð og festu – að eigin mati. Þau hjón skildu og börnin uxu úr grasi og fluttu að heiman og hún var orðin ein eftir með engan að stjórna. Hún gerði sitt besta til að stjórna lífi uppkominna barna sinna sem brugðust vægast sagt misvel við. Þegar þau gerðu ekki eins og hún ætlaðist til reyndi hún að stjórna þeim með tárum og sektarkennd. Ekki af yfirveguðu ráði. Henni sárnaði raunverulega vanþakklætið; að ekki væri tekið mark á henni eftir allar fórnirnar sem hún hafði fært.

Eðlilegt óheilbrigði

En það er erfitt að vera ung manneskja að hefja sjálfstætt líf og að læra að standa á eigin fótum með mömmu á bakinu sem getur ekki sleppt; getur ekki hætt að ráðskast með mann og leikur píslarvott við hvert tækifæri til að fylla mann sektarkennd. Þá verður mjög freistandi að hætta að tala við hana. Stundum verður að klippa eitrað fólk út úr lífi sínu til að standa vörð um sína eigin andlegu velferð – jafnvel sína eigin móður.

Og þarna sat hún fyrir framan mig, komin á sextugsaldur, þurrkaði tár af hvarmi og spurði: „Hvernig verður maður svona óeðlilegur?“

Spurningin bergmálaði um stund í eyrum mér. Og ég áttaði mig á að fyrir framan mig sat ekki kona komin á sextugsaldur sem grét rústirnar af lífi sínu. Fyrir framan mig sat tólf ára stúlka, sem vissi sem var að heimurinn hvíldi á herðum hennar og að það væri undir því komið að hún stæði sig að hann hryndi ekki yfir hana og alla sem henni þótti vænt um og hafði lifað samkvæmt því í meira en fjörutíu ár.

Það eina sem ég gat sagt var: „Þú ert ekki óeðlileg. Þú ert fullkomlega eðlileg. Bjóstu við því að úr því atlæti og aðbúnaði sem þú fékkst, að með það veganesti sem þú fórst með út í lífið yrðir þú fullkomlega heilbrigður einstaklingur á sál, huga og anda, með sterka sjálfsmynd, í góðu jafnvægi og með öll samskipti á hreinu? Hvar áttirðu að læra það? Ef þér hefði tekist það … þá hefði það verið óeðlilegt. Ástand þitt er vissulega óheilbrigt, sem er mjög eðlilegt.“

Eðlilegar afleiðingar

Sá sem ræktar tré í næringarsnauðum jarðvegi og eys aldrei á það öðru en óþverra og eitri getur ekki búist við því að tréð verði hátt og beint og reisulegt. Það verður skakkt og skælt, kræklótt, visið og snúið … ef það verður yfirhöfuð að tré. Og hann hefur engan rétt til að fárast yfir því að tréð sé óeðilegt af því að það er óheilbrigt. Tré eru alltaf eðlileg afleiðing jarðvegarins, næringarinnar og aðhlynningarinnar sem þau spretta úr.

Það sama gildir um okkur mennina.

Og það sama gildir um samfélög manna.

Hvernig verður samfélag óeðlilegt?

Hvernig gerist það að misskipting gæða eykst jafnt og þétt? Hvernig gerist það að sumir eiga hvergi höfði að að halla á meðan öðrum finnst þér knúnir til þess að fela peningana sína í útlöndum til að enginn komist að því að þeir eigi þá? Hvernig gerist það að sumir eru bornir út af heimilum sínum fyrir skuldir sem eru brotabrot af þeim fjárhæðum sem aðrir fá afskrifaðar?

Er kannski ekkert óeðlilegt  við það?

Er samfélag kannski alltaf fullkomlega eðlileg afleiðing þess á hvaða grunngildum það er í raun byggt?

Við hverjum búumst við þar sem mest um vert er að vera með góð sambönd, í góðri stöðu, með góðar tekjur, góða menntun og helst af góðum ættum líka, en það er einskis virði að vera góð manneskja? Við hverju búumst við þar sem mannvirðing fer eftir efnahag? Þar sem manngildi og verðgildi eru lögð að jöfnu? Að af því spretti fullkomið samfélag jöfnuðar, réttlætis og sanngirni, bróðurþels og náungakærleika?

Væri ekki einmitt eitthvað mjög óeðlilegt við það?

Partíið okkar

rignir peningumKaupmenn gleðjast mjög um þessi jól og það er ástæða til að gleðjast með þeim. Í alvöru. Við skulum ekki leika siðapostula og benda vandlætingarfingri á þá sem vilja leyfa sér eitt og annað sem þeir loksins hafa efni á – reyna að stjórna með því að ala á samviskubiti. Frelsari okkar var veisluglaður maður sem kunni gott að meta, var meðal annars kallaður mathákur og vínsvelgur. Auðvitað er það gott að fleiri skuli geta leyft sér að gera vel við sig og sína yfir hátíðirnar en undanfarin ár. Það er gott fyrir kaupmenn, efnahagslífið og þá sem hlut eiga að máli.

Gleymum bara ekki að það eiga ekki allir hlut að máli. Það eru ekki allir þátttakendur í þessari veislu. Gleymum ekki að enn er hluti þjóðarinnar skilinn útundan. Og því háværari og trylltari sem veisluglaumurinn er, þeim mun sárara er að standa fyrir utan og vera ekki boðið af því að maður er of gamall og hrumur, of fatlaður, of veikur, of ættsmár … of tekjulágur og af þeim sökum ekki með réttu samböndin.

Eða til að orða þetta öðruvísi: Af því að maður er af nákvæmlega sama sauðahúsi og fólkið sem frelsarinn leitaðist við að umgangast þegar hann var á meðal okkar.

Partíið þeirra

Hverju erum við að fagna?

Við erum ekki að fagna kappa, kaupsýslumanni eða þjóðhöfðingja, afreksíþróttamanni eða sigursælum herforingja. Við erum að fagna blásnauðu, vegalausu, nýfæddu barni. Við erum að fagna einum mesta smælingja sem í heiminn hefur verið borinn.

Konungur lífsins og ljóssins var ekki heldur þátttakandi í neyslupartíinu í Betlehem. Hann fæddist í fjárhúsi eins og hver annar búpeningur og var ekki lagður í vöggu eða Silver Cross svalavagn. Hann var ekki settur í merínó ull eða tjull heldur vafinn reifum og lagður í jötu, sem ætluð var undir skepnufóður.

Og fólkið sem Guð kallaði til fjárhússins að fagna fæðingu hans voru ekki góðborgararnir, ekki liðið sem fékk kúlulánin sín afskrifuð og skuldirnar sínar millifærðar yfir á einkahlutafélag kortéri fyrir hrun svo setja mætti það í þrot án þess að króna fengist upp í skuldir til að komast hjá því að þurfa að borga þær og varpa þeim þess í stað yfir á samfélagið.

Nei, það voru fjárhirðar. Lægsta stétt samfélagsins, sem í augum góðborgaranna voru sori mannlífsins og hreinræktaður trantaralýður.

Jólaguðspjallið segir ekki sögu fólks sem var þátttakendur í partíinu, heldur hinna sem var ekki boðið.

Það segir sögu þeirra sem enn þann dag í dag er ekki boðið í neysluglamrið og forréttindaglauminn.

Enn þann dag í dag.

Tvöþúsund árum síðar byggjum við samfélag okkar í raun enn á gildunum sem Jesús Kristur kom í heiminn til að kollvarpa. Eftir tvöþúsund ára sögu af kristindómi hefur það ekki breyst.

Mælikvarði mannvirðinganna

Ekki misskilja mig. Ég ætla fráleitt að leggja samfélag nútímans að jöfnu við hina hernumdu Palestínu undir miskunnarlausri ógnarstjórn Rómverja, þar sem hungur, örbirgð, limlestingar og þrælkun voru daglegt hlutskipti alls þorra fólks og fámenn, forrík forréttindastétt mergsaug kúgaða alþýðuna ofan í gröfina. Öðru nær. Sem betur fer.

En í grunninn byggjum við mannvirðingar samfélagsins enn á því sem mölur og ryð fá grandað. Og enn sitjum við uppi með fámenna, forríka forréttindastétt í valdastöðum sem stendur ötulan vörð um forréttindi sín og völd.

Gleymum því ekki þegar næsta pólitíska hneyksli skekur okkur án þess að það hafi neinar afleiðingar fyrir þá sem eiga í hlut eða þegar næsta flóttabarn verður flutt út í óvissuna í trássi við barnaverndarlög og heldur sín jól umkringt múrveggjum og gaddavír í boði íslenskra stjórnvalda eða þegar fjölmiðlar greina næst frá öryrkja eða lífeyrisþega sem þarf að svelta hér í landi allsnægtanna vegna reglna kerfinsins um kostnaðarhlutdeild sjúklinga … að þetta er ekki óeðlilegt.

Óheilbrigt, vissulega.

En við getum ekki látið eins og neitt sé óeðlilegt við það.

Partíið hans

Ég veit ósköp vel að hið fullkomna samfélag er hvergi til, hefur aldrei verið til og verður aldrei til. En ef okkur er alvara með því að bæta það samfélag sem við höfum þá held ég að það sé ekki nóg að setja plástur á sárin og tjasla saman stærstu rifunum.

Við ættum ekki bara að spyrja hvað sé að heldur líka að spyrja hvers vegna það sé að. Og ráðast ekki bara á meinsemdirnar heldur ástæðurnar fyrir meinsemdunum, jarðveginn sem nærir þær og þær spretta úr.

Og stærsta meinsemdin held ég að kristallist í því að innst inni höfum við ekki enn gert okkur grein fyrir því að konungur ljóssins og lífsins er blásnautt, vegalaust barn, vafið reifum og lagt í jötu. Að þeir sem er boðið í partíið til hans eru þeir nákvæmlega sömu og er ekki boðið í hitt partíið – enn þann dag í dag.

Og þess vegna þurfum við að heyra jólaguðspjallið á hverju ári.

Gleðileg jól.

Read Full Post »

jólasnjór 2Er napur vindur nístir hold

og nóttin öllu ræður

og myrkri þrúgar þreytta fold

þungur bylur skæður

 

og landið kreppt í klakabönd

hinn kaldi vetur hefur,

í drunga gráan dal og strönd

hin daufa skíma grefur

 

og frostið teiknar föla rós

í fönn á eyðihjarni.

Þá mætir okkur lífsins ljós

í litlu, snauðu barni.

Read Full Post »

Eilítið meir

 (A Little Bit More)

(Lag og texti: Bobby Gosh/ísl. Texti: D. Þ. J.)

 

Þegar vetra fer og sólin sest

og sumarið þagnar og deyr

og þú heldur að ég sé uppgefinn

þá skal ég elska þig eilítið meir.

 

Sestu mér hjá og hlustaðu á

hve hjarta mitt ákaft slær,

eins og frjálst úr vetrarfjötrum

þegar fæ ég að vera þér nær.

Ég ligg þér við hlið og lifna allur við

sem leiki um mig gola hlý

og fuglar syngi söngva

og sjáist ekki á himni ský.

 

Og þegar vetra fer og sólin sest

og sumarið þagnar og deyr

og þú heldur að ég sé uppgefinn

þá skal ég elska þig eilítið meir.

 

Mynd þín svo hýr í huga mér býr

þótt húmi að og hverfi sýn.

Þá er brosið undurblíða

bjarta heillastjarnan mín.

Þegar strýkur mér blítt hauströkkur hlýtt

þú hjartað fyllir sætum yl

og laufin fölna og falla

og fegurðin er bara til.

 

Og þegar vetra fer og sólin sest

og sumarið þagnar og deyr

og þú heldur að ég sé uppgefinn

þá skal ég elska þig eilítið meir.

 

Þetta er nýjasta afurð þess sem ég í gamni galla „Þorsteins Eggertssonar heilkennið“ mitt, þ.e. áráttukenndrar þráhyggju að þýða dægurlagatexta á íslensku. Mér hefur alltaf þótt þetta lag fallegt og það var sungið á ensku við hjónavígsluathöfn sem ég stjórnaði nú í haust. Á leiðinni heim kom viðlagið til mín á íslensku og ég skrifaði það niður hjá mér. Um daginn var ég síðan að taka til í möppunni minni og fann þetta og langaði að klára það. Síðustu daga hafa erindin því verið að púsla sér saman í hausnum á mér á milli annarra verkefna og ég held að ég sé nokkuð sáttur við þetta svona. Þetta er auðvitað miklu væmnara og upphafnara en frumtextinn, sem er mun holdlegri. En svona verður maður nú væminn og upphafinn með aldrinum, andinn sigrar holdið.

Read Full Post »