Feeds:
Færslur
Athugasemdir

Archive for febrúar, 2013

Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins var samþykkt að kristin gildi skuli ráða við alla lagasetningu. Í þessum anda var einnig samþykkt að Sjálfstæðisflokkurinn vilji „standa vörð um Þjóðkirkju Íslands samkvæmt stjórnarskrá”. Þessu hljóta allir kristnir menn að fagna – eða er það ekki annars? Er ekki afskaplega kristilegt að aðhyllast mismunum trúfélaga, þ.e.a.s. svo framarlega sem það er ekki manns eigið trúfélag sem mismunað er gegn? Það er ekki eins og Kristur hafi einhvern tímann sagt: „Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður það skuluð þér og þeim gera” Eða hvað?

Jú, hann sagði það reyndar (Matt 7.12 // Lúk 6:31). Þetta er meira að segja kallað „gullna reglan”. Eitthvað þessu líkt hafði auðvitað verið sagt áður. Gullna reglan þekkist einnig í búddisma, en þar sem taumhaldsskylda: „Það sem þér viljið ekki að aðrir menn geri ykkur skuluð þið ekki gera þeim.” Kristur breytir þessu í verknaðarskyldu. Það er ekki efni þessarar hugleiðingar hve frumlegt þetta var hjá honum eða að hve miklu leyti hægt sé að eigna honum allan höfundarrétt á þessum orðum. Þau eru aftur á mótu grundvöllur allra raunverulega „kristinna gilda”.

Það merkilega er að þarna stendur ekki „aðrir kristnir menn”, „aðrir hægrimenn” eða “aðrir velunnarar vorrar evangelísk-lúthersku þjóðkirkju”. Nei, það stendur „aðrir menn”. Punktur. Án mismununar eða aðgreiningar. Án þess að trúar- eða stjórnmálaskoðanir, uppruni, efnahagur eða kynhneigð séu tiltekin.

Í þessu ljósi er gaman að bera önnur stefnumál Sjálfstæðisflokksins saman við það sem í raun og veru væri hægt að kalla „kristin gildi”. Tökum skattastefnuna sem dæmi.

Nú er ekki eins og Jesús hafi verið stjórnmálamaður og jafnvel þótt svo hefði verið væri varhugavert að heimfæra 2000 ára gamla pólitík upp á nútímann. Flestir gætu þá sjálfsagt eignað sér Jesú, ef þeir kærðu sig um. Alltjent hefur bæði fylgjendum og andstæðingum Evrópusambandsaðildar tekist að gera Jón Sigurðsson að sínum manni og þó er ekki nema hálf önnur öld síðan hann var og hét, ekki tvær þúsaldir.

Ég ætla samt að leyfa mér að gera það, en með þeim fyrirvara að strangt til tekið eru þetta ekki vísindalegar niðurstöður heldur fyrst og fremst persónulegar hugleiðingar mínar.

Jesús fjallaði ekki mikið um skatta- eða gjaldeyrismál í ræðum sínum. Þekkt eru orðin: „Gjaldið keisaranum það sem keisarans er og Guði það sem Guðs er.” Þau eru höfð eftir honum í öllum samstofnaguðspjöllunum (Matt 22.21 // Mark 12.17 // Lúk 20.25). Jesús vildi m.ö.o. að fólk borgaði skatt. En líklega var hann einmitt að benda á að boðskapur hans væri ekki um efnahags- og fjármál heldur andlegs eðlis, Guðs ríki og ríki keisarans í Róm væru sitt hvort ríkið og hægt væri að vera borgari í þeim báðum samtímis.

Jesús notar peninga alloft í dæmisögum, en þá sem tákn um Guðs gjafir, ekki sem tákn um peninga. Í Matt 25.14-30 segir t.a.m. frá húsbónda sem lætur þjónum sínum mismargar talentur í hendur. Enn þann dag í dag nota enskumælandi menn orðið „talent” um Guðs gjafir. Sagan segir okkur hvernig er kristilegt að fara með þær.

Ein saga sker sig þó úr, því þar er hann beinlínis að fjalla um peninga og framlög einstaklinga. Það er sagan um eyri ekkjunnar:

Jesús settist gegnt fjárhirslunni og horfði á fólkið leggja peninga í hana. Margir auðmenn lögðu þar mikið. Þá kom ekkja ein fátæk og lét þar tvo smápeninga, eins eyris virði. Og Jesús kallaði til sín lærisveina sína og sagði við þá: „Sannlega segi ég ykkur, þessi fátæka ekkja gaf meira en allir hinir er lögðu í fjárhirsluna. Allir gáfu þeir af allsnægtum sínum en hún gaf af skorti sínum allt sem hún átti, alla björg sína.“ (Mark 12.41-44 // Lúk 21.1-4)

Hvað er að gerast? Auðmenn leggja gjafir í fjárhirsluna, háar fjárhæðir. Það sem ekkjan lætur af hendi rakna er eins eyris virði. Og þessi eini eyrir er öll björg hennar. Samt gaf hún meira en þeir. Auðmennirnir hefðu þurft að gefa aleigu sína til að gefa jafnmikið og hún.

Auðvitað gagnrýnir Jesús hér skattpíningu láglaunafólks. Hvaða réttlæti er í því að ekkjan hafi neyðst til að gefa alla björg sína, jafnvel þótt hún væri aðeins einseyrings virði? Hvaða réttlæti er í því að á sama tíma borgi auðmenn aðeins brotabrot af auðlegð sinni, skákandi í skjóli þess að fjárhæðirnar séu þó hærri en þær sem fátæklingarnir reiða af hendi? Auðvitað ættu auðmenn ekki bara að láta hærri fjárhæðir af hendi rakna heldur en fátæklingar, heldur einnig hærra hlutfall af því sem þeir hafa umleikis.

Með öðrum orðum: Jesús var hlynntur hátekjuskatti.

Það er nefnilega ekkert kristilegt við orðasambandið „kristin gildi” eitt og sér án nokkurra greinanlegra hugmyndafræðilegra tengsla við samhengið sem það er notað í.

Kristin gildi” láta óskaplega vel í eyrum íhaldssamra kjósenda – svo vel að líklegt er að allt sem sagt er í kjölfarið falli í kramið hjá þeim án þess að þeir velti fyrir sér hvort eitthvað sérlega kristilegt sé við það, án þess þeir nenni að grennslast fyrir um hvort færa megi einhver guðfræðileg eða biblíuleg rök fyrir því að þar sé raunverulega um kristin gildi að ræða.

Þeir flokkar sem hafa frelsi, jöfnuð og bræðralag á stefnuskrá sinni eru flokkarnir sem í raun aðhyllast kristin gildi, jafnvel þótt orðasambandið sjálft sjáist hvergi í kosningaáróðri þeirra, jafnvel þótt þeir kunni að hafa aðskilnað ríkis og kirkju og jafna stöðu trúar- og lífsskoðunarfélaga á stefnuskránni, jafnvel þótt þeir aðhyllist gegnsæi í samningum ríkis og kirkju eins og allri annarri opinberri stjórnsýslu. Þeir flokkar, sem vilja stemma stigu við því hve mikið er hægt að auðgast á kostnað annarra með græðginni einni saman, aðhyllast kristin gildi, ekki þeir sem gaspra hæst um þau einn daginn og standa síðan vörð um hagsmuni þeirra best stæðu hinn daginn.

Hvernig væri nú að Sjálfstæðismenn tækju mið af sínu eigin geipi og innleiddu kristin gildi í stefnumál sín og byrjuðu á skattastefnunni?

Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér.” (Matt 25.40)

Náðu þið þessu? „Minnstu”, ekki „ríkustu”.

Read Full Post »

„Þið eruð ekki þjóðin,” sagt var forðum,

þegar við sáum landið okkar hrynja.

Við sátum hissa undir þessum orðum

sem ráðamenn á lýðnum létu dynja.

Við fengum vondar fréttir oft á dag

sem létu okkur staldra við og stynja.

Fjárhættuspil með þjóðar heill og hag

fór svona leiðinlega illa’úr böndum.

Allt sem við byggðum orðið var eitt flag

því ríkidæmið reyndist byggt á söndum.

Okkur var talin trú um rakið bull:

Best væri geymd í glæpamanna höndum

framtíðin okkar, fasteignir og gull.

Allt er það nú í leyndum skattaskjólum.

Leiðtogar okkar lugu okkur full.

Hröktust þeir enda hratt úr valdastólum,

en grófu rammgerð byrgi bak við tjöldin,

þaðan sem veitast þeir með kjaftatólum

að þeim, sem bogin burðast nú með völdin

og skítinn reyna’að þrífa eftir þá,

eins og þeir sjálfir hreinan hafi skjöldinn.

Breytingar vilja síst af öllu sjá,

því kerfið tryggir auðlegð þeirra’um aldur.

Ekki má nefna nýja stjórnarskrá.

Stöðvað ei fékk þó stanslaust þeirra skvaldur

breytingaþrána alla’á einu bretti.

En spilling hún er gamalkunnur galdur,

því dyggur meirihluti’í Hæstarétti

af sönnum einkavinum valdaklíku,

sem hvern og einn í innidjobbið setti

með fyrirmælin líkt að gjalda líku

jafnvel þótt hunsa þyrfti þjóðar vilja,

nú mælti komið meir en nóg af slíku

og reyndi’að láta lýðinn heimska skilja

af hverju þetta allt var misheppnað

og betur geymt og grafið milli þilja

og betra væri’að standa bara’í stað

og gera engan háan herra graman:

Sko, þó að hérna væri brotið blað

það brjóta átti öðruvísi saman

og svo var blaðið auk þess allt of þunnt.

Umbótasinnum ekki þótti gaman.

Réttlætiskenndin rista þótti grunnt.

Stjórnlagaþingið strax var gert að „ráði”,

neitaði’að vera aðeins upp á punt

og splunkunýja skipan niður skráði

sem þjóðin las og sagði síðan já.

Af gamla flokknum fráleitt við það bráði

og þjálfuð kjaftakvörnin fór á stjá.

Úr reiði sinnar silfurskálum jusu

í klukkutíma tvo og jafnvel þrjá

fulltrúar þeirra allra’er ekki kusu

og huga þeirra þekktu upp á hár

svo áttatíuþúsund þannig frusu

atkvæði fólks sem fannst að mætti skár

landinu stjórna svo það síður hryndi.

Vonbrigðin miklu eftir þessi ár

eru’að sú von að vitkast kannski myndi

valdastétt forn og gráðug er nú dáin,

horfin á braut sem vasaló í vindi,

fokin í burtu eitthvað út í bláinn.

Auðmýktin þeirra’er tjóðruð tunguhafti.

Okkar á milli stöðugt stækkar gjáin.

Þeir vilja ræna okkur kjarki’og krafti;

ei sé til neins á útifundi’að híma,

okkur sé best að hlýða’og halda kjafti.

En ekki’er töpuð ennþá þessi glíma.

Þótt kerfið félli flatt á þessu prófi,

ótímabær er vonds manns sigurvíma

sem beita reynir þreyttu mælsku þófi

að ræna von um breytta’og betri tíma

og gerir sjálfan sig að versta þjófi.

Bófarnir mega ekki vísa veginn.

Boðskapur þeirra’er svona saman dreginn:

„Þið eruð ekki þjóðin, rumpulýður!

Þjóðin er hlýðið fólk á okkar bandi,

þýlyndur, spakur þrælaflokkur blíður

þeirra sem eiga’að ráða hér á landi.

Getin til valda valdastéttin bíður

viljug að reisa nýja höll á sandi.

Mundu að íslensk þjóð er ekki þú.

Þjóðin er forsetinn og L.Í.Ú.”

Read Full Post »