Feeds:
Færslur
Athugasemdir

 (Love You a Little Bit More)

(Lag og texti: Bobby Gosh/ísl. Texti: D. Þ. J.)

 

Þegar vetra fer og sólin sest

og sumarið þagnar og deyr

og þú heldur að ég sé uppgefinn

þá skal ég elska þig eilítið meir.

 

Sestu mér hjá og hlustaðu á

hve hjarta mitt ákaft slær,

eins og frjálst úr vetrarfjötrum

þegar fæ ég að vera þér nær.

Ég ligg þér við hlið og lifna allur við

sem leiki um mig gola hlý

og fuglar syngi söngva

og sjáist ekki á himni ský.

 

Og þegar vetra fer og sólin sest

og sumarið þagnar og deyr

og þú heldur að ég sé uppgefinn

þá skal ég elska þig eilítið meir.

 

Mynd þín svo hýr í huga mér býr

þótt húmi að og hverfi sýn.

Þá er brosið undurblíða

bjarta heillastjarnan mín.

Þegar strýkur mér blítt hauströkkur hlýtt

þú hjartað fyllir sætum yl

og laufin fölna og falla

og fegurðin er bara til.

 

Og þegar vetra fer og sólin sest

og sumarið þagnar og deyr

og þú heldur að ég sé uppgefinn

þá skal ég elska þig eilítið meir.

 

Þetta er nýjasta afurð þess sem ég í gamni galla „Þorsteins Eggertssonar heilkennið“ mitt, þ.e. áráttukenndrar þráhyggju að þýða dægurlagatexta á íslensku. Mér hefur alltaf þótt þetta lag fallegt og það var sungið á ensku við hjónavígsluathöfn sem ég stjórnaði nú í haust. Á leiðinni heim kom viðlagið til mín á íslensku og ég skrifaði það niður hjá mér. Um daginn var ég síðan að taka til í möppunni minni og fann þetta og langaði að klára það. Síðustu daga hafa erindin því verið að púsla sér saman í hausnum á mér á milli annarra verkefna og ég held að ég sé nokkuð sáttur við þetta svona. Þetta er auðvitað miklu væmnara og upphafnara en frumtextinn, sem er mun holdlegri. En svona verður maður nú væminn og upphafinn með aldrinum, andinn sigrar holdið.

rauðhettaRauðhetta vildi ráða í skóginum

af réttsýni, sanngirni og mildi.

Að aðrir vildu öðruvísi stjórnarfar

alls ekki Rauðhetta skildi.

 

En fleiri vildu þó fara með völdin

til framfara í öllum geirum.

Þeir lofuðu hinu og líka þessu.

Allt lét það vel í eyrum.

 

Úlfurinn vildi ábyrgð og festu

og áfram stöguleika

þar sem ríkir af fátækum stela og stela

og sterkir éta veika.

 

Og Drakúla greifi var dugnaðarforkur

sem daglega blóð vildi kneyfa

og beita sér hugðist af hörku fyrir

hagsmunum Drakúla greifa.

 

Þarna var líka hópur af hundum

um hitt og þetta að gelta:

Að allir þyrftu að eiga sér greni

og enginn mætti svelta.

 

Þetta var vitaskuld ófremdarástand

sem afdráttarlaust varð að svara.

Nú þurfti skilning – að miðla málum

og milliveginn að fara.

 

Svo skógurinn yrði fagur og fríður

var farið í vetrarleyfi.

Þar réðu þau sínum ráðum í næði,

Rauðhetta, úlfur og greifi.

 

Rauðhetta lagði áherslu á það

við úlfinn og Drakúla báða

að hún myndi fara í fýlu og hætta

ef fengi hún ekki að ráða.

 

Úlfurinn vildi aðeins stela

og auðvitað greifinn dreyra.

Um allt þetta náðu þau samstundis sáttum

og sjálfsagt eitthvað fleira.

 

Þau gerðu málamiðlunarsamning

með mörgum og fallegum orðum

svo skógurinn yrði aftur friðsæll

og allt í föstum skorðum.

 

Rauðhetta stjórnar rjóðrinu sínu,

rösk og með skynsemi kalda.

Og úlfurinn stelur, en ekki svo miklu

að uppnámi þurfi að valda.

 

Og Drakúla blóðið sitt drekkur í friði,

en drepur bara fáa.

Þetta er til hagsbóta og heilla fyrir

háa jafnt sem lága.

 

Og Rauðhetta er ekkert örg þótt sumir

atyrði á flesta lund hana,

því það væri skelfilegt skaðræðisástand

ef skógurinn færi í hundana.

Pistill: En þetta eitt má ykkur ekki gleymast, þið elskuðu, að einn dagur er hjá Drottni sem þúsund ár og þúsund ár sem einn dagur. Ekki er Drottinn seinn á sér með fyrirheitið þótt sumir álíti það seinlæti, heldur er hann langlyndur við ykkur þar eð hann vill ekki að neinn glatist heldur að allir komist til iðrunar. En dagur Drottins mun koma sem þjófur og þá munu himnarnir líða undir lok með miklum gný, frumefnin sundurleysast í brennandi hita og jörðin og þau verk, sem á henni eru, upp brenna. Þar eð allt þetta ferst, þannig ber ykkur að lifa heilögu og guðrækilegu lífi og bíða eftir degi Guðs og flýta fyrir að hann komi. Þá munu himnarnir leysast sundur í eldi og frumefnin bráðna af brennandi hita. En eftir fyrirheiti hans væntum við nýs himins og nýrrar jarðar þar sem réttlæti býr. (2Pét 3.8-13)

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Í dag er síðasti sunnudagur kirkjuársins. Framundan eru enn ein tímamótin, ný aðventa byrjar næsta sunnudag með nýju kirkjuári. Í raun er þetta lítið annað en mælistika í eilífri hringrás. En um leið minnir það okkur á að hið liðna er að baki og lífið heldur áfram.

Erfiðir textar

heimsendirÍ lok kirkjuársins lesum við erfiða texta úr Biblíunni. Texta sem varða heimsslit; hina hinstu daga. Í guðfræði er þetta kallað eskatólógía. Orðið er myndað af orðinu „eskatos“ sem merkir síðastur og „logía“, fræði eða þekking. Eskatólógía er fræðin um hina síðustu tíma. Eskatólógía er gjarnan sett fram í ritum sem kölluð eru apókalyptísk – orð sem  bókstaflega mætti þýða sem „afhjúpun“, en við kjósum að kalla þessi rit „opinberunarbækur“. Þetta eru yfirleitt ekki sérlega geðslegar bókmenntir, fullar af grafískum lýsingum á grimmd og ofbeldi. Í helgiritasafni kristinna manna er aðeins ein opinberunarbók og þótt sumum finnist hún svæsin þá sker hún sig að miklu leyti úr öðrum slíkum bókmenntum frá sama tíma varðandi það hve mild og miskunnsöm hún er í samanburði.

Þetta heimsslitatal og heimsendaspádómar er óþægilegt. Við höfum varann á okkur gagnvart heimsendaspámönnum sem með reglulegu millibili skjóta upp kollinum og þykjast sjá fyrir að himinn og jörð muni farast á næstunni og það er eðlilegt. Þeir hafa undantekningalaust reynst hafa rangt fyrir sér – við erum jú hér ennþá. Og það sem verra er, þess eru dæmi að það hafi haft skelfilegar afleiðingar að taka mark á þeim og leggja líf sitt í hendur þeirra. Þess vegna finnst flestum kristnum mönnum myndin af Jesú sem heimsendaspámanni óviðkunnanleg og finnst freistandi að skauta framhjá henni, láta eins og hún sé ekki þarna.

En hún er þarna.

Hinn raunverulegi heimsendir

Við vitum reyndar núna að þetta er rétt. Himinn og jörð munu líða undir lok þótt ekkert bendi til þess að það verði á næstunni. Sólstjörnur eins og sólin okkar hafa takmarkaðan líftíma og eftir fjóra milljarða ára eða þar um bil verður sólin okkar að rauðum risa sem gleypa mun jörðina og allt sem á henni er. Lýsingar Biblíunnar á heimsendi fara nokkuð nálægt því sem þá mun gerast:

„Þá munu himnarnir leysast sundur í eldi og frumefnin bráðna af brennandi hita.“ (2Pét 3.12)

En þetta mun ekki gerast fyrr en eftir fjóra milljarða ára og því veldur það fáum áhyggjum núna. Fáir skipuleggja sig svona langt fram í tímann. En þeir sem það gera gera sér fyllilega grein fyrir því að á næstu fjórum milljörðum ára þarf mannkynið annars vegar að passa sig að deyja ekki út og hins vegar að finna nýja reikistjörnu til að búa á.

En þetta er útúrdúr.

Ekki heimsendaspámaður

Við vitum að ýmsir heimsendaspámenn óðu uppi fyrir botni Miðjarðarhafsins í kringum upphaf okkar tímatals og áttu þeir allir eitt og annað sameiginlegt. Eitt og annað sem Jesús deildi ekki með þeim.

Í fyrsta lagi er það nefnilega þannig að þeir sem fletta Nýja testamentinu til að leita þar að heilsteyptri og ítarlegri eskatólógíu fara í geitarhús að leita ullar. Hana er ekki að finna þar. Eitt helsta einkenni heimsendaspámannanna og opinberunarbókmenntanna er einmitt að þar er farið nákvæmlega í saumana á því lið fyrir lið hvernig heimsendi mun bera að, hverjir muni hafa hvaða hlutverk í því ferli og því ítarlega lýst hvaða örlög bíði þessara og hinna. Jafnvel er tíundað í viðbjóðslegum smáatriðum hvaða pyntingar og misþyrmingar munu bíða syndaranna. Ekkert slíkt er að finna í boðskap Jesú frá Nasaret.

Í öðru lagi er eskatólógían ákaflega víkjandi þáttur í því ummælasafni sem haft er eftir Jesú. Þar eru setningar og setningar á stangli sem flokka má þannig, en þær eru mjög almennt orðaðar og óljósar. Þetta er þveröfugt við það sem einkenndi apókalyptíkina á þeim dögum þegar hann var uppi. Vissulega er afar sennilegt að frumkirkjan hafi haft ákveðnar eskatólógískar áherslur, en enginn fótur er fyrir því að þær hafi verið miðpunktur og þungamiðja hugmyndafræðinnar.

Í þriðja lagi var apókalyptíkin viðfangsefni fræðimanna og spekinga, ekki ólæsrar alþýðu manna, en við vitum að fyrstu Jesúhóparnir og frumkirkjan var fyrst og fremst alþýðuhreyfing þræla og fátæklinga sem höfðu engar forsendur til að sökkva sér ofan í og tileinka sér apókalyptísk fræði.

Lesum áfram

En hvað eigum við að gera við þetta tal sem þó er til staðar og blasir við okkur?

Ég segi: Stöldrum við og lesum áfram. Hvernig hljóðar næsta setning á eftir lýsingunni á tortímingunni sem ég las áðan? Hún er svona:

„Eftir fyrirheiti hans væntum við nýs himins og nýrrar jarðar þar sem réttlæti býr.“ (2Pét 3.13)

Heimsendirinn er með öðrum orðum enginn heimsendir heldur tímamót þar sem hið gamla líður undir lok og nýtt tekur við; ný jörð þar sem réttlæti býr. Er það kannski einmitt það sem er nýtt – það sem gerir þessa jörð nýja – að þá verður réttlæti á henni?

Í Opinberunarbókinni er þessi stórkostlega framtíðarsýn þegar spámaðurinn sér „nýjan himinn og nýja jörð“ (Op 21.1) og Guð verður hjá mönnunum. Þar segir:

„Og hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“ (Op 21.4)

Heimsendir markar nýtt upphaf.

Heimar farast

stúka hitlersÉg sá í vetur afar áhrifaríkt listaverk. Það var reyndar bara spýtnabrak í hrúgu. Ekkert merkilegt. Ef þessi haugur hefði ekki verið á listasafni heldur einhvers staðar á byggingarsvæði hefði hann verið hvert annað rusl og farið hefði verið með hann í förgun. Við hliðina á spýtnabrakinu var ein setning meitluð í stein – stein sem var mun vandaðra listaverk en haugurinn. Þar stóð: „Ég hringdi í Helga Björns og hann útvegaði mér stúku Hitlers.“ Verkið er eftir Ragnar Kjartansson, myndlistarmann, sem einnig er þekktur undir því óvirðulega nafni Rassi Prump.

Þetta var semsagt ekkert venjulegt spýtnabrak. Þetta voru rústirnar af stúku Adolfs Hitlers í einu fínasta leikhúsi Berlínarborgar. Og ef einhver hefði nú sagt foringjanum það þegar hann sat í þessari fínu stúku sinni í leikhúsinu glæsilega að eftir ekkert marga áratugi myndi ísfirskur poppari gefa vini sínum Rassa Prump þessa stúku og brakið af henni yrði sýningargripur á reykvísku listasafni hefði honum sennilega liðið eins og verið væri að segja honum að heimurinn myndi farast. Og það væri alveg rétt.

Hans heimur fórst.

Hann er liðinn undir lok og kemur aldrei aftur og enginn saknar hans nema örfáar lafhræddar lyddur sem eru að reyna að endurvekja hann, en munu ekki hafa erindi sem erfiði.

Heimur hinna stóru og miklu, heimsmyndir þeirra og hugmyndaheimar, eru alltaf að farast og alltaf kemur eitthvað nýtt og betra í staðinn. Þeir falla og fall þeirra er mikið, en hinir, sem ekki voru fangar hugmyndaheimsins heldur frjálsir undan honum, halda áfram að byggja og bæta heiminn.

Okkar heimur

Í hvernig hugmyndaheimi – menningarheimi – búum við?

Við stöndum frammi fyrir því að hugmyndaheimar og heimsmyndir eru að líða undir lok.

Helmingur íslenskra kvenna segir frá því að þær hafi verið beittar kynferðislegri áreitni ef ekki beinlínis ofbeldi í vinnunni og almenn stemning er fyrir því í samfélaginu að líða það ekki stundinni lengur. Leikkonur og stjórnmálakonur segja ófagrar sögur af framkomu hinna og þessara gamalla karla við sig. Ungur fornleifafræðingur er klipin í rassinn þegar hún veit betur en gamlir karlar.

Við búum í heimi þar sem gamlir karlar, sumir þekktir af óviðurkvæmilegri og niðurlægjandi framkomu við ungar stjórnmála- og leikkonur, bregðast  við þessu með því að gapa á móti í fjölmiðlum að þetta sé „teprugangur“ og „óþarfa viðkvæmni“. Áhrifamaður í stjórnmálaflokki skrifar grein um að vandamálið sé að körlum finnist konur svo aðlaðandi, en ekki að sumum körlum skuli ekki geta fundist kona aðlaðandi án þess að finna hjá sér hvöt til að sýna henni lítilsvirðingu. Og virðulegur eldri herramaður skrifar að ung stjórnmálakona sé að bjóða upp á að vera beitt ofbeldi af því að hún birtir af sér mynd þar sem hún horfir í myndavélina með ógreitt hár.

Myndum við sakna þessa hugmyndaheims ef hann bara hyrfi?

Litlir og hræddir

Það er eðlilegt að þessir karlar séu felmtri slegnir. Heimur þeirra er að hrynja yfir þá. Hefðu viðbrögð Hitlers ekki verið svipuð ef farið hefði verið að rífa stúkuna undan honum á meðan hann sat í henni?

Það er verið að brjóta stúkuna undan þeim sem héldu að þeir væru stórir og sterkir og ættu rétt á stúkusætum í samfélaginu og sá óþægilegi sannleikur er að renna upp fyrir þeim að þeir eru á vonarvöl og heimsmynd þeirra líka. Þeir voru bara stórir og sterkir af því að það var samkomulag um að leyfa þeim að vera það. Þegar það samkomulag er brostið eru þeir bara litlir og hræddir.

Og er það ekki bara allt í lagi?

Má heimur þessara karla ekki bara líða undir lok í eitt skipti fyrir öll?

Væri það ekki bara til stórbóta að hann leystist upp í frumeindir sínar? Og að hinir háu herrar hans féllu með honum svo að hinir geti tekið við og byggt hér nýtt samfélag þar sem réttlæti býr. Þar sem helmingur borgaranna þarf ekki að alast upp við að það sé eðlilegur hluti af reynsluheimi þeirra að kollegum þeirra finnist sjálfsagt mál að grípa í brjóstin á þeim eða klofið hvenær sem þeim býður svo við að horfa?

Má sá reynsluheimur ekki líka heyra sögunni til?

Er það ekki bara allt í lagi?

Eiga stúkusæti gömlu karlanna í samfélaginu ekki bara heima á safni við hliðina á stúku Hitlers? Hjá þeim mætti koma fyrir skilti eða vönduðum steini þar sem gæti staðið eitthvað á borð við: Tuttugastaogfyrsta öldin gaf okkur rústirnar af feðraveldinu?

Væri það ekki ómaksins virði?

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 26. 11. 2017

Lexía: Gleðjist með Jerúsalem og fagnið í henni,  allir þér sem elskið hana, fagnið með henni og kætist,  allir þér sem eruð hryggir hennar vegna svo að þér getið sogið og saðst af huggunarbrjósti hennar, svo að þér getið teygað og gætt yður á nægtabarmi hennar. [ … ] Brjóstmylkingar hennar verða bornir á mjöðminni og þeim hossað á hnjánum. Eins og móðir huggar barn sitt, eins mun ég hugga yður … (Jes 66.10-13)

Guðspjall: Á þeim tíma tók Jesús svo til orða: „Ég vegsama þig, faðir, Drottinn himins og jarðar, að þú hefur hulið þetta spekingum og hyggindamönnum en opinberað það smælingjum. Já, faðir, svo var þér þóknanlegt. […] Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld. Takið á yður mitt ok og lærið af mér því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar. Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.“ (Matt 11.25-30)

p_2684_dNáð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

„Mitt ok er ljúft og byrði mín létt,“ segir Jesús við okkur í dag. Þetta er býsna merkilegur ritningarstaður. Eftir því sem ég best veit er þetta annar tveggja ritningarstaða sem útskýrir skrúða minn þar sem ég stend hér fyrir framan ykkur. Hinn er Lúkas 12.35: „Verið girtir um lendar ykkur“, sem af einhverjum ástæðum er þýtt „Verið vel tygjaðir“ í nýjustu þýðingu Biblíunnar. Þess vegna er ég með þessa snúru um mittið – ég er girtur um lendar mér samkvæmt fyrirmælum frelsarans.

Okið

Í dag segir Jesús okkur aftur á móti að taka á okkur sitt ok. Og stólan sem ég er með … sem lítur kannski út eins og gagnslaus trefill … er tákn um þetta ok. Ég ber hana á herðunum. En okið er ljúft og byrðin létt, enda úr einhvers konar silkiefni. Og til að sannreyna það þá skellti ég þessari stólu á eldhúsviktina mína nú í vikunni og hún reyndist vega 250 grömm. Það er ekki þungt ok.

Og þetta ok set ég á mig sem prestur og guðfræðingur samkvæmt fyrirmælum sem fylgja í kjölfar yfirlýsingar um að sannleikurinn sé hulinn „spekingum og hyggindamönnum“. Á öðrum stað segir Jesús: „Varist fræðimennina sem fýsir að ganga í síðskikkjum …“ (Mrk 12.38)

Ég verð að viðurkenna að það koma stundum vöflur á mig þegar ég, sem fræðingur – og vonandi einhvers konar spekingur eða hyggindamaður – fæ það verkefni að fara í skósíðan kyrtil og útleggja boðskap um að vara berist fræðinga í síðskikkjum og að sannleikurinn sé hulinn spekingum og hyggindamönnum. Mér finnst óneitanlega í því ákveðin þversögn.

En þá minni ég mig á það að það var alls ekki sem fræðingur sem ég fann Guð. Hann kom ekki til mín í guðfræðideild háskóla Íslands. Hann kom ekki til mín sem dúfa af himni þegar ég tók við útskriftarskírteininu mínu. Hann kom til mín þegar ég var sem smæstur og mest hjálparvana og þurfti mest á honum að halda. Þegar líf mitt var erfiðast og mestum þunga hlaðið veitti hann mér hvíld.

Vetrardagur

Magnað ljóð eftir Stefán Hörð Grímsson heitir Vetrardagur og er svona:

Í grænan febrúarhimin
stara brostin augu vatnanna
frá kaldri ásjónu landsins.

Af ferðum vindanna eirðarlausu
um víðáttu hvolfsins
hafa engar spurnir borizt.

Litlausri hrímþoku blandið
hefur lognið stirðnað
við brjóst hvítra eyðimarka.

Undir hola þagnarskelina
leita stakir bassatónar
þegar íshjartað slær.

Á mjóum fótleggjum sínum
koma mennirnir eftir hjarninu
með fjöll á herðum sér.

Með fjöll á herðum sér. Við erum stundum á þessum stað. Þegar okkur finnst við vera ein á ísi lögðu hjarni með heiminn á herðunum á mjóum fótleggjum okkar. Það er erfitt að bera mikið þyngra ok en heilt fjall.

Það er dálítið þyngra en 250 grömm.

Stefán og Jesaja

Það er áhugavert að bera saman lýsingu Jesaja spámanns á hinni nýju Jerúsalem og lýsingu Stefáns Harðar á hinu frostdauða landi mannanna með fjöllin á herðunum þar sem vötnin eru brostin augu í kaldri ásjónu og íshjarta slær.

Í miðju feðraveldi fornaldar dúkkar nefnilega upp hjá Jesaja Guðsmynd sem sýnir okkur ekki Guð föður heldur Guð móður. Og ekki bara móður heldur brjóstmóður. Við erum ekki bara börn Guðs heldur brjóstmylkingar hans. Þar eru ekki „brjóst hvítra eyðimarka“ eins og hjá Stefáni Herði heldur seðjumst við af huggunarbrjóstum, teygum og gæðum okkur á nægtarbarmi.

Þar erum við ekki menn með fjöll á herðunum á mjóum fótleggjum á ísi lögðu hjarni heldur hvítvoðungar í náðarfaðmi Guðs sem ber okkur á mjöðminni og hossar okkur á hnjánum.

Hvítvoðungar. Það er erfitt að vera meiri smælingi en það.

Enda er það þannig sem við tökum við Guðsríkinu.

Eins og börn.

Menntahatur?

En hver er þá niðurstaðan? Burt með fræði og spekinga? Bækurnar á bálið? Er boðskapurinn þá harður anti-intellektúalismi?

Anti-intellektúalismi lýsir sér í tortryggni gagnvart menntun og menntafólki ásamt andúð á heimspeki, menningu og listum. Þetta er teiknað upp sem heimskuleg og jafnvel fyrirlitleg iðja. Anti-itellektúalar stilla sjálfum sér upp sem fulltrúum alþýðunnar, mannsins á götunni og kynda undir hatri og óbeit á mennta- og listafólki með því að lýsa því sem afætum á samfélaginu sem almenningur ber á herðunum eins og framlag þeirra sé ekki bara ónauðsynlegt fyrir siðað samfélag heldur beinlínis til óþurftar.

Ég held ekki.

Ég hef stundum verið spurður að því hvort það þurfi að vera trúaður til að læra guðfræði. Þá verður mér stundum hugsað til plakats sem hékk uppi á vinnustað þar sem ég starfaði fyrir margt löngu. Á því stóð á ensku: „You don‘t have to be crazy to work here – but it helps.“ (Þú þarft ekki að vera klikkaður til að vinna hérna – en það er betra.)

Staðreyndin er nefnilega sú að það er alls ekki nauðsynlegt, en ég held samt – án þess að ég hafi sambanburð – að það sé betra.

Það er betra

Þessu má að mínum dómi líkja við að spyrja hvort maður þurfi að vera bifvélavirki til að vera bílstjóri. Fullt af fólki keyrir bílinn sinn um allar trissur og hefur gagn og gaman af því án þess að hafa hundsvit á bifvélavirkjun. Það þarf ekkert að vera bifvélavirki til þess.

En þegar bíllinn bilar er aftur á móti gott að hafa aðgang að bifvélavirkja. Og eins … ef maður er bifvélavirki er kannski líklegra að maður kunni að fara þannig með sinn eigin bíl að það sé ólíklegra að hann bili.

Ég held að gagnrýni Jesú beinist ekki að menntun og fræðimennsku sem slíkri heldur að þeim villigötum sem fræðimennirnir voru á á dögum Jesú. Þar sem fræðimennirnir litu á sig sem prókúruhafa Guðs og sem slíka skör ofar, ekki bara í virðingarstiga samfélagsins heldur ekki síður í náðinni hjá Guði.

Þegar út af ber

Hlutverk bifvélavirkjans er nefnilega ekki að segja bílstjóranum hvert hann á að fara, hvenær, hvers vegna og hverjir eigi að vera farþegar hans. Hlutverk hans er að hjálpa bílstjóranum að hafa bílinn í lagi svo hann komist leiðar sinnar – þegar hann kýs, þeirra erindagjörða sem hann velur sér, með þá farþega innanborðs sem hann vill hafa.

Þegar bíllinn bilar, þegar trúin bregst okkur, Guð virðist fjarlægur og heyrir ekki bænir okkar heldur hendir lífið hinu og þessu í fang okkar í fullkomnu trássi við óskir okkar og vilja og við  byrjum hvern dag á að halda út í heiminn gnístandi tönnum með hnúana hvíta á krepptum hnefum okkar því við ætlum sko aldeilis að tækla þetta líf í dag og hafa stjórn á hlutunum, þegar orð Guðs er okkur  óskiljanlegt af því að það var skrifað fyrir samfélag sem er liðið undir lok og var svo gjörólíkt okkar að myndmál þess og líkingar missa fullkomlega marks í menningarlegum tilvísunarramma okkar … þá er gott að geta leitað til sérfræðings. Einhvers sem getur útskýrt orðalagið fyrir okkur. Einhvers sem getur bent okkur á að bænin er ekki aðferð til að hafa stjórn á Guði heldur einmitt aðferð til að fela sig honum á vald. Einhvers sem getur útskýrt fyrir okkur að bænin „verði þinn vilji“ felur í sér niðurlagið: „En ekki minn.“

Það eina sem brjóstmylkingurinn getur gert er að þiggja. Þiggja kærleika og umhyggju og næringu úr nægtabrjósti og huggunarbarmi móður sinnar, hvílandi í fullkomnu trúnaðartrausti í kærleiksfaðmi hennar. Og það er þar sem við finnum Guð. Við finnum hann ekki berandi heiminn á herðum okkar yfir ísi lagt hjarn á mjóum fótleggjum okkar. Þar finnum við aðeins kalt íshjarta undir brjósti hvítra eyðimarka.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er enn og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 19. nóvember 2017

Guðspjall: Jesús settist gegnt fjárhirslunni og horfði á fólkið leggja peninga í hana. Margir auðmenn lögðu þar mikið. Þá kom ekkja ein fátæk og lét þar tvo smápeninga, eins eyris virði. Og Jesús kallaði til sín lærisveina sína og sagði við þá: „Sannlega segi ég ykkur, þessi fátæka ekkja gaf meira en allir hinir er lögðu í fjárhirsluna. Allir gáfu þeir af allsnægtum sínum en hún gaf af skorti sínum allt sem hún átti, alla björg sína.“ (Mrk 12.41-44)

beggingNáð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi.

Nú í vikunni rifjaðist upp fyrir mér atvik frá aðventunni í fyrra. Við höfðum farið af stað með samskot hér í Laugarneskirkju til að geta komið til hjálpar bágstöddum sem ekki gátu gert sér neinn dagamun um jólin án aðstoðar. Þetta rataði í fjölmiðla og vakti nokkra athygli. Við söfnuðum aðeins hér í kirkjunni í venjulegum messum með sama hætti og gert er enn; í lok messu er vakin athygli á baukum við kirkjudyrnar. Það er nú allt og sumt.

Reyndar ber þess að geta að allnokkrir einstaklingar komu hingað í kirkjuna færandi hendi í kjölfar umfjöllunarinnar og nutu margir góðs af gjafmildi þeirra.

En ég minnist þess að eftir samkomu annars staðar hér í sókninni á aðventunni dró kona nokkur mig afsíðis, hún þurfti að eiga orð við mig í einrúmi. Hún lét mig fá 5000 krónu seðil og bað mig að koma honum í baukinn. Sjálf er hún bundin í hjólastól og á því erfitt með að sækja kirkjuna til að gefa þar. En hún vildi láta gott af sér leiða undir nafnleynd.

Þessi kona gat ekki gefið milljónir og kannski eru það bara mínir fordómar að álykta að hún hefði frekar átt að heima í hópi þiggjendanna en gefendanna, en hún var á öðru máli. Um þetta var hún aflögufær og vildi fá að láta það af hendi rakna.

Legg í lófa

Þetta rifjaðist upp fyrir mér af því að fyrr í þessari viku spurði okkar ágæti kirkjuvörður hér í Laugarneskirkju mig hvort ég kannaðist við mann nokkurn. Nafn hans kom fram sem greiðandi á innleggi á söfnunarreikning sem Laugarneskirkja er með. Rétt er að fram komi að þeir sem það gera njóta fullkomins trúnaðar og nafnleyndar. En svo sannarlega kannaðist ég við manninn. Hann er vinur minn, sækir Laugarneskirkju nokkuð reglulega og er reyndar öryrki.

Þetta minnti mig á magnað ljóð eftir þjóðskáld okkar Hafnfirðinga, Örn Arnarson, úr einni af mínum eftirlætis ljóðabókum, Illgresi. Ljóðið heitir Legg í lófa og lokaerindið er svona:

Legg í lófa karls, karls,

karl skal ekki sjá,

að þeir gefa manna minnst

sem mikið berast á.

Fátækur af fátækt sinni

fórnar því sem má.

Legg í lófa karls, karls,

karl skal ekki sjá.

Illgresi kom fyrst út árið 1924, fyrir níutíuogþremur árum. Og ef við erum hissa á að mannseðlið hafi ekki breyst á þessari tæpu öld sem liðin er síðan þá skulum við hafa í huga að Markúsarguðspjall var fært í letur einhvern tímann á fyrstu öld okkar tímatals og segir nákvæmlega sömu sögu: Fátækur af fátækt sinni fórnar því sem má.

Því sem má

Hvað er það við auð sem gerir það að verkum að eftir því sem menn eiga meira af honum verða þeir tregari til láta það af hendi rakna sem þeir eru aflögufærir um og leggja sig jafnvel í framkróka við að komast hjá því að greiða það sem skyldan ber til samneyslunnar?

Þeir sem munar meira um það, vita hvernig það er að ná ekki endum saman, hafa reynt það á eigin skinni hvernig það er að berjast í bökkum og þurfa jafnvel raunverulega að örvænta um lífsbjörg sína, virðast mun reiðubúnari til þess að leggja sitt af mörkum þegar þeir eru aflögufærir.

Það er eins og auðmenn þjáist af rörsýni þar sem ekkert ber fyrir augu nema innistæðuna á bankareikningnum þeirra. Auðsöfnunin verður markmið í sjálfu sér, en ekki aðferð til að ná markmiðum sem kostar peninga að sjá raungerast. Nei, það er eins og lífið fari að verða leikur þar sem sá vinnur sem er með hæstu töluna inni á bankareikningnum sínum þegar hann deyr. Fyrir vikið verður kærleikssamfélagið, þar sem maður elskar náunga sinn eins og sjálfan sig, svo fjarlægt að það að komast þangað er eins og fyrir úlfalda að fara í gegn um nálarauga.

Ef einhver myndi sanka að sér svo miklu húsnæði í borginni, sem hann léti síðan standa autt og ónotað, að fjöldi manna væri á götunni og þyrfti að hírast í bílakjöllurum og hitaveitukompum, myndi sá hinn sami varla uppskera annað en hatur og fyrirlitningu. Ég held að fáir myndu dást að honum. Ef einhver myndi þræða matvöruverslanir borgarinnar og tæma þar allar hillur og láta matinn svo standa óétinn í geymslum og kæliskemmum þannig að reykvísk börn stæðu frammi fyrir vannæringu og hungri í stórum stíl, hugsa ég að það sama yrði uppi á tengingnum. Viðkomandi ætti sér ekki marga aðdáendur. En þegar það eru ekki nauðsynjar á borð við húsaskjól eða næringu sem græðgi eins neitar fjölda annarra um, heldur peningar … þegar einhver sankar að sér gríðarmagni auðs í samfélagi þar sem aðrir líða skort og lætur hann standa ónotaðan á aflandsreikningum engum til góðs … þá er eins og málið horfi öðruvísi við. Viðkomandi prýðir sennilega forsíður viðskiptatímarita, ber titilinn „viðskiptamaður ársins“ og uppsker lítið annað en lof og prís fyrir dugnað og elju.

Auðlegð og virðing

Ég er ekki frá því að það sé þarna sem hnífurinn stendur í kúnni. Ég held nefnilega að þetta snúist um virðingu og þjóðfélagsstöðu miklu fremur en um munaðinn og hægindin sem hægt er að kaupa fyrir auðinn. Hinir ofsaríku geta veitt sér allt sem hugur þeirra girnist fyrir brot af því sem þeir hafa umleikis. Það sem er umfram er ekki fyrir samfélagið, ekki fyrir náungann, ekki til að láta gott af sér leiða. Það er fyrir virðinguna og völdin sem fylgja auðnum, völd sem síðan er miskunnarlaust beitt til að greiða götuna að enn frekari auðsöfnun sem enn eflir valdastöðu þeirra sem gerir þá enn ríkari og þannig koll af kolli.

Peningakerfi okkar virkar nefnilega þannig að peningar elska peninga. Þeir sogast þangað sem mest er af þeim fyrir.

Hvað ef þessu væri öðruvísi farið? Hvað ef litið yrði á stjórnlausa gróðafíkn eins og hverja aðra fíkn og samfélagsmeinsemd? Hvað ef þeir sem fórnað hafa sómakennd sinni, samfélagslegri ábyrgðartilfinningu og samkennd með náunganum á altari auðhyggjunnar nytu sömu virðingar og aðrir fíklar sem ekki er sjálfrátt, eru byrði á samfélaginu og sprauta sig með eiturlyfjum í bílakjöllurum? Hvað ef þessu væri snúið á hvolf?

Á hvolf

Ykkur kann að finnast ég fara offari og taka allt of djúpt í árinni – og kannski er það rétt. En ég held að við ættum að skoða söguna um eyri ekkjunnar í víðara samhengi textans. Jesús lýsir Guðsríkinu sem stað þar sem hinir fyrstu verða síðastir og hinir síðustu fyrstir (Mrk 10.31), þ.e.a.s. þar sem virðingarstiga þjóðfélagsins er snúið á hvolf, þar sem metorðastigaklifur er látið lönd og leið. Við tökum við því eins og börn (Mrk 10.13-16) og þjónum þar hvert öðru í kærleika (Mrk 10.41-45). Og síðan lýsir hann samfélaginu sem hann sér, til að við getum betur gert okkur grein fyrir þeirri spegilmynd þess sem hann boðar.

Og síðustu ummælin á undan sögunni um eyri ekkjunnar – það sem leiðir okkur að henni – eru þessi aðvörunarorð:

„Varist fræðimennina sem fýsir að ganga í síðskikkjum og láta heilsa sér á torgum, vilja skipa æðsta bekk í samkundum og hefðarsæti í veislum. Þeir mergsjúga heimili ekkna en flytja langar bænir að yfirskini.“ (Mrk 12.38-40)

Þetta snýst ekki um fjármögnun ríksins … eða kirkjunnar … sem á þeim tíma voru ekki bara óaðskiljanleg heldur eitt og hið sama. Til að útskýra aðskilnað ríkis og kirkju fyrir samtímamönnum Jesú Krists hefði þurft að byrja á að útskýra muninn á þessu tvennu: Keisarinn var jú guð.

Þetta snýst um að mergsjúga fátæklinga fyrir upphefð og virðingu og hafa langar bænir að yfirskini. Með afhelgun stjórnmálanna er orðagjálfur á borð við „frjálst flæði fjármagns“, „markaðslausnir“ og hin margafsannaða „brauðmolakenning“ komin í stað innihaldslausra bænaromsa sem sem yfirvarp til að fegra og réttlæta þjófnaðinn.

Í kærleikssamfélaginu eru hinir síðustu fyrstir, upphefðin er að þjóna öðrum – deyja egói sínu og lifa Kristi. Eða eins og Jesús orðar það sjálfur:

 „… sá sem mikill vill verða meðal ykkar [sé] þjónn ykkar. Og sá er vill fremstur vera meðal ykkar sé allra þræll.“ (Mrk. 10.43)

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 12. 11. 2017

bartímeusGuðspjall: Á leið sinni sá Jesús mann sem var blindur frá fæðingu. Lærisveinar hans spurðu hann: „Rabbí, hvort hefur þessi maður syndgað eða foreldrar hans fyrst hann fæddist blindur?“ Jesús svaraði: „Hvorki er það af því að hann hafi syndgað eða foreldrar hans heldur til þess að verk Guðs verði opinber á honum. Okkur ber að vinna verk þess er sendi mig meðan dagur er. Það kemur nótt þegar enginn getur unnið. Meðan ég er í heiminum er ég ljós heimsins.“ Að svo mæltu skyrpti hann á jörðina, gerði leðju úr munnvatninu, strauk leðju á augu hans og sagði við hann: „Farðu og þvoðu þér í lauginni Sílóam.“ (Sílóam þýðir sendur.) Hann fór og þvoði sér og kom aftur sjáandi. (Jóh 9.1-7)

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi.

Hvernig stendur á óréttlætinu í heiminum?

Þessarar spurningar hafa menn spurt sig frá örófi alda.

Það gengur ekki upp að til sé algóður og almáttugur Guð í heimi sem er fullur af þjáningu. Guð getur ekki verið hvort tveggja. Ef hann er almáttugur getur hann ekki verið góður fyrst hann leyfir þjáningu og óréttlæti að viðgangast án þess að skipta sér af. Ef hann er algóður getur hann ekki verið almáttugur fyrst óréttlætið og þjáningin fá að vaða uppi óáreitt?

Þessi augljósa rökvilla er ekkert ný í umræðunni um eilífðarmálin. Kynslóðir kynslóða hafa leitað svara við þessum spurningum og gengið misvel … eða misilla … að finna þau.

Og ég ætla ekki að svara þeim hér í þessari prédikun.

Enda svarar Jesús þeim ekki.

En svör hafa vissulega verið kokkuð upp.

Kenningarnar

Í klassískum gyðingdómi var svarið svokölluð endurlausnarkenning. Hún gengur út á að heimurinn sé víst réttlátur. Guð umbuni rétta hegðun og refsi fyrir ranga hérna megin grafar. Ef eitthvað slæmt hendir einhvern á hann það skilið þótt ástæðan geti verið okkur hinum hulin. Þannig varð veraldleg velgengni mælikvarði á velþóknun Guðs og áföll merki um að Guð hefði ástæðu til að vera í nöp við mann.

Þessi trú var á útleið á dögum Jesú og þess í stað var komin fram kenningin um umbunina handan grafarinnar. Að við uppskerum í handantilverunni eins og við sáum til í jarðvist okkar. Það var eina leiðin til að fá þetta til að ganga upp. Heimurinn varð að vera réttlátur til að Guð gæti raunverulega verið góður og fyrst réttlætið var augljóslega ekki til staðar í jarðlífinu hlaut það að bíða að því loknu.

Austar í heiminum hafði þessu vandamáli verið mætt með öðru lögmáli, karmalögmálinu. Samkvæmt því uppskerum við í næstu jarðvist eins og við sáum til í þessari. Og hlutskipti okkar í þessari er umbun eða refsing fyrir það hvernig við höguðum okkur í síðustu jarðvist. Þannig var heimurinn líka réttlátur. Það sem okkur virðist vera ranglæti er í raun og veru makleg málagjöld fyrir syndir sem við vitum ekkert um.

Þessar kenningar voru greinilega í umræðunni fyrir botni Miðjarðarhafsins á dögum Jesú. Landsvæðið hafði verið hluti af gríska heimsveldinu sem náði allt austur til Indlands og ekki ósennilegt að indverskar trúarhugmyndir hafi borist með Grikkjum til baka. Að minnsta kosti er reynt að fá Jesú til að taka afstöðu með annarri hvorri í guðspjalli dagsins.

Makleg málagjöld

„Hvort hefur þessi maður syndgað eða foreldrar hans fyrst hann fæddist blindur?“ spyrja lærisveinarnir. Takið eftir því að þeir gefa sér þá forsendu að ástæða hljóti að vera fyrir því að einmitt þetta barn fæddist blint. Það geti ekki verið tilviljun eða duttlungar örlaganna. Einhver syndgaði, skýringin getur ekki verið önnur í þeirra huga.

Var blinda drengsins refsing foreldranna fyrir slæma hegðun þeirra? Drengir voru framfærsla foreldra sinna í ellinni, en með blindunni var sú trygging tekin af þeim. Hann var ölmusumaður. Þau hlutu að hafa gert eitthvað af sér … samkvæmt endurlausnarkenningunni.

Eða fæddist hann blindur vegna synda sem hann sjálfur hafði drýgt? Hvenær hefði hann átt að drýgja þær? Í móðurkviði? Augljóslega er hér átti við fyrri jarðvist, annað kemur ekki til greina. Þá er blindan orðin réttlát refsing fyrir eitthvað hræðilegt sem hann gerði áður en hann fæddist í þetta sinn og heimurinn er réttlátur.

En Jesús lætur ekki leiða sig niður þessa götu.

Því báðar kenningarnar fría okkur ábyrgð. Báðum kenningum fylgir að kærleikur og líkn séu í andstöðu við fyrirætlan almættisins. Ástæða þjáningarinnar eru syndir einhverra; þær eru greiðsla á skuld við æðri máttarvöld og með því að lina þjáningar erum við því að gera hinum þjáða óleik með að þvælast fyrir uppgjöri hans við almættið fyrir syndir sínar.

Ekki stikkfrí

En Jesús segir: „Ó, nei, karlinn minn. Þú getur ekkert gert þig stikkfrí með einhverjum kenningum sem dubba þjáningar náunga þíns upp í eitthvað guðlegt réttlæti. Hvorki er það af því að hann hafi syndgað eða foreldrar hans heldur til þess að verk Guðs verði opinber á honum.“

Og svo gerir hann verk Guðs. Hinn blindi fær sýn.

Því hvaða gagn hefði hinum blinda verið í því að Jesús hefði gefið skýringar á blindunni og haldið svo leiðar sinnar? Hann hefði verið jafnblindur á eftir. Hefði honum verið einhver huggun í því að fá það á hreint að blinda hans væri refsing foreldra hans fyrir að vera vont fólk eða refsing hans sjálfs fyrir að hafa ekki hagað sér skikkanlega í fyrra lífi?

Jesús mætir þjáningunni aldrei með því að réttlæta hana eða samþykkja. Hann mætir henni alltaf með kærleika og líkn.

Og það ber okkur líka að gera sem leitumst við að hafa hann leiðtoga lífs okkar.

En hvernig veitum við blindum sýn?

Þrívíðar frásagnir

Kraftaverkafrásagnir Biblíunnar eru vandmeðfarnar. Það er ábyrgðarlaust að sleikja bara merkinguna af yfirborði þeirra eins og sumir gera, illu heilli. Það er verulega ámælisvert að lesa sögu um það þegar Jesús læknar lamaða fyrir fólk í hjólastól og telja því trú um að ef það aðeins tryði nógu heitt myndi mænan í þeim lækna sig sjálf og það risi á fætur. Það er beinlínis ljótt. Það er ekki það sem sagan er um. Það er algerlega einvíður skilningur á þrívíðri frásögn.

Önnur víddin er nefnilega hin táknræna.

Þýski heimspekingurin Ludwig Wittgenstein sagði einhvern tímann eitthvað á þá leið að besta myndin sem við getum gert okkur af mannssálinni sé mannslíkaminn. Mannssálin hefur nefnilega enga mynd, ekkert form. Hún er ósýnileg. Ef setja á mynd á heilbrigða sál er það mynd af hraustum líkama. Á sama hátt er mynd afskræmdrar sálar líkami sem er afskræmdur á einhvern hátt. Þannig túlkum við það.

Það sem við verðum að spyrja okkur að er: „Hvað táknar það þegar sálin er blind? Hvað táknar heyrnarlaus sál? Mállaus? Lömuð?“

Jesús lætur fólk sjá, hann lætur það heyra og tala … og aðhafast. Það er ekki líkamleg fötlun sem aftrar okkur frá því. Það er andleg fötlun.

Þriðja víddin

 Hvenær erum við blind? Hvenær erum við í myrkri vonleysis og tilgangsleysis? Eða haturs og ofstækis? Hvenær megnum við ekki að tala … máli réttlætisins og kærleikans? Hvenær heyrum við ekki … það sem hentar okkur ekki, það sem ögrar heimsmynd okkar og fellur ekki að fordómum okkar? Hvenær megnum við ekki að aðhafast? Hvenær sýnum við ekki þjáðum náunga okkar kærleika og líkn … vegna þess að hann á það ábyggilega skilið hvernig komið er fyrir honum?

Þriðja víddin er nefnilega hin trúarlega.

Þá spyrjum við okkur: Hvað kemur þetta mér við? Af hverju er verið að segja mér þessa sögu núna? Hvaða erindi á þetta við mig?

Við vitum ekki af hverju þjáningin er í heiminum. Jesús segir okkur það ekki. Hann svarar ekki spurningunni. En hann segir okkur nákvæmlega hvaða kröfur það gerir til okkar að þjáningin er í heiminum. Þeirri spurningu svarar hann skýrt og skilmerkilega.

Okkar er að sjá og heyra, tala og aðhafast.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 22. október 2017

Guðspjall: Þegar Jesús var að leggja af stað kom maður hlaupandi, féll á kné fyrir honum og spurði hann: „Góði meistari, hvað á ég að gera til þess að öðlast eilíft líf?“ Jesús sagði við hann: „Hví kallar þú mig góðan? Enginn er góður nema Guð einn. Þú kannt boðorðin: Þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki bera ljúgvitni, þú skalt ekki pretta, heiðra föður þinn og móður.“ Hinn svaraði honum: „Meistari, alls þessa hef ég gætt frá æsku.“ Jesús horfði á hann með ástúð og sagði við hann: „Eins er þér vant. Far þú, sel allt sem þú átt og gef fátækum og munt þú fjársjóð eiga á himni. Kom síðan og fylg mér.“ En hann varð dapur í bragði við þessi orð og fór burt hryggur enda átti hann miklar eignir. Þá leit Jesús í kring og sagði við lærisveina sína: „Hve torvelt verður þeim sem auðinn hafa að ganga inn í Guðs ríki.“ Lærisveinunum brá mjög við orð Jesú en hann sagði aftur við þá: „Börn, hve torvelt er að komast inn í Guðs ríki. Auðveldara er úlfalda að fara gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki.“ En þeir urðu steini lostnir og sögðu sín á milli: „Hver getur þá orðið hólpinn?“ Jesús horfði á þá og sagði: „Menn hafa engin ráð til þessa en Guði er ekkert um megn.“ (Mrk 10.17-27)

Greed_0Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Í viðtalsbók Matthíasar Johannessen við Þórberg Þórðarson, Í kompaníi við allífið, segir meistari Þórbergur þessi merkilegu orð:

„Ég hef aldrei skilið hvað menn geta lagt mikið á sig af heimskulegu erfiði til þess að ávinna sér veraldarupphefðir sem þeim virðist ekki vera nein lífsnauðsyn að ná. […] (Þá fer) að langa eftir að safna auðæfum. Og þeir halda áfram að safna og safna og aldrei hafa þeir safnað svo miklu að þeim finnist þeir hafa efni á að segja: Nú er ég búinn að fá nóg. Þetta er eins og helgar bækur lýsa þorstanum í Helvíti.“

Þetta eru ansi mögnuð orð. Sérstaklega í ljósi þess að það er ekki ýkja langt síðan íslenskur athafnamaður, sem auðgast hafði mjög, var spurður í viðtali hvað væri nóg – og hann skildi ekki spurninguna. Orðið „nóg“ var ekki til fyrir honum. Það var ekkert til sem hét „nóg“. Og á honum mátti skilja að það væri lykillinn að velgengninni – að geta ekki fengið nóg.

Gróðafíkn

Það er til orð sem lýsir þeim ágalla … því andlega meini … að geta ekki fengið nóg af því sem veitir manni vellíðan, hvort sem það er venjulegt fíkniefni eða annað sem veitir sæluvímu, svo sem matur, fjárhættuspil eða upphefðin, virðingin og samfélagsstaðan sem því fylgir að vera vellauðugur.

Orðið er „fíkn“.

Þetta orð er allt of oft notað af ábyrgðarleysi og léttuð. Fólk segist jafnvel í gamni vera haldið fíkn í eitt og annað sem því finnst gott og gengisfellir þannig hugtakið – sjúkdóm sem eyðileggur líf og heilsu milljóna manna um heim allan. Fíkn er alltaf eyðileggjandi afl. Fíknin heltekur fíkilinn svo allt annað situr á hakanum. Hún leggur líf hans og ástvina hans undir sig og er svakalegt samfélagsmein.

Það gerir engan að súrefnisfíkli að geta ekki án súrefnis verið. Það gerir engan að súkkulaðifíkli að finnast gott að fá sér konfektmola. Þegar önnur næring er sniðgengin og fíkillinn á birgðir af súkkulaði á leyndum stöðum, þá er ástandið orðið sjúkt.

Þórbergur segir þetta vera eins og helgar bækur lýsi þorstanum í Helvíti. Ég vil leyfa mér að taka dýpra í árinni: Þetta er helvíti.

Eilífðin er núna

Guðs ríki er nefnilega ekki einhver verðlaun sem bíða okkar á himnum að jarðlífinu loknu ef við erum nógu þæg og hlýðin hérna megin grafarinnar og því ömurlegri sem jarðnesk tilvera okkar er, þeim mun meiri verði lúxusinn í himnaríki að henni yfirstaðinni. Guðs ríki er vissulega í eilífðinni. En okkur má ekki yfirsjást að eilífðin er hér og nú. Ef eilífiðin er allur tími er núið hluti hennar, annars væri gloppa í eilífðinni og hún ekki eilíf. Þegar við segjum „þitt er ríkið, mátturinn og dýrðin að eilífu“ í Faðirvorinu erum við því að segja „þitt er ríkið mátturinn og dýrðin hér og nú.“

En hvernig er þetta Guðs ríki?

Jesú er tíðrætt um Guðsríkið. Það er mun vinsælla umræðuefni hjá honum en andstæða þess: Helvíti.

„Guðs ríki er hið innra með yður,“ segir Jesús (Lúk 17.21). Þessa setningu er snúið að þýða á íslensku, enda væri jafn rétt að þýða hana „Guðs ríki er mitt á meðal ykkar,“ eins og stundum er gert. Hvort er rétt? Af hverju er þetta orðað svona óljóst; þannig að bæði megi skilja setninguna þannig að Guðs ríki sé eitthvað ástand í hjartanu á okkur og þannig að það sé eitthvað ástand í samfélagi okkar?

Sennilega af því að hann átti við hvort tveggja. Sennilega af því að annað getur ekki án hins verið, annað leiðir óhjákvæmilega af hinu og um leið til hins.

Ætli þekktustu orð Jesú um Guðs ríkið séu þó ekki í Faðirvorinu, svo aftur sé vitnað í það: „Til komi þitt ríki.“ Hvað á hann við? Þegar Jesús segir eitthvað sem erfitt er að skilja er ágætt ráð að lesa áfram. Oftar en ekki útskýrir hann það í næstu setningu á eftir. Og næsta setning á eftir er: „Verði þinn vilji.“ Guðs ríki er þannig Guðs vilji og Guðs vilji er að við elskum náunga okkar eins og okkur sjálf. Ekkert annað boðorð er því æðra. (Lúk 10.27 // Matt 22.37-39, Mark 12.30-31) Guðsríkið er kærleikssamfélagið mitt á meðal okkar hér og nú … ef við viljum.

Og inn í þetta Guðs ríki komast auðmenn ekki frekar en úlfaldi í gegnum nálarauga, segir Jesús við okkur í guðspjalli dagsins.

Súrrealískt myndmál

Ýmsar kenningar hafa verið settar fram um þetta furðulega, nánast súrrealíska myndmál. Bent hefur verið á að í nýrri handritum stendur ekki gríska orðið „kamilos“ sem merkir úlfaldi heldur „kamelos“ sem merkir reipi. Og á aremeísku, móðurmáli Jesú, merkir orðið „gamla“ bæði „reipi“ og „úlfaldi“, sennilega vegna þess að reipi voru alla jafna úr úfaldahári. Jesús gæti því hafa verið að tala um að þræða nál með kaðli – sem er ekki alveg eins langsótt.

En hvort það var reipi eða úlfaldi skiptir ekki öllu máli. Hvort tveggja er jafnómögulegt. Hvorugu kemur maður í gegnum nálarauga.

Hvað þýðir þetta? Er Guðs ríki þá alræði öreiganna þar sem allar veraldlegar eignir kalla yfir mann útskúfun? Þar sem hverjum þeim, sem leyfir sér að hafa eitthvað meira umleikis en brýnustu lífsnauðsyn ber til, er samstundis varpað út í ystu myrkur þar sem er grátur og gnístran tanna?

Það er að mínum dómi fullharkaleg túlkun þessara orða. Takið eftir því að lesturinn endar á orðunum „Guði er ekkert um megn.“ Hann getur því þrætt nál með kaðli … eða úlfalda ef því er að skipta.

Maður og Mammon

Jesús talar ekki mikið um peninga. „Gjaldið keisaranum það sem keisarans er“ (Mark 12.17 // Matt 22.21, Lúk 20.25) segir hann og þekkt er einnig sagan um eyri ekkjunnar þar sem framlag fátækrar ekkju er sögð stærri gjöf en fjáraustur auðmannanna því eyririnn var öll lífsbjörg hennar en hinir gáfu lítinn hluta allsnægta sinna (Mark 12.41-44 // Lúk 21.1-4), saga sem auðvitað er lítið annað en bíblíuleg röksemdafærsla fyrir hátekjuskatti.

En Jesús segir sögu um mann nokkurn sem fer úr landi og felur þjónum sínum eigur sínar, einum fimm talentur, öðrum tvær og þeim þriðja eina, „hverjum eftir hæfni“ segir þar (Matt 25.15). Sagan er ekki um peninga heldur um Guðs gjafir, sem enn í dag eru kenndar við þennan forna gjaldmiðil á mörgum þjóðtungum og kallaðar „talent“. En til að dæmisagan gangi upp þurfum við samt að sætta okkur við að eðilegt sé að fólki sé skammtað „eftir hæfni“ – upp að því marki að ójöfnuðurinn verði ekki slíkur að einn líði skort á meðan annar lendir í helgreipum Mammons.

Þetta snýst nefnilega miklu frekar um samband okkar við Mammon. Þeir sem gert hafa Mammon að húsbónda sínum og hlýða aðeins boðum hans, þeir eru ekki í Guðsríkinu og eiga enga leið þangað inn. Enginn getur þjónað tveimur herrum, Guði og Mammon. Hví skyldi einhver sem tilheyrir vellauðugasta hundraðshluta þjóðarinnar vilja samfélag jöfnuðar og samhjálpar? Hvað er í því fyrir hann? Það er hreint guðlast fyrir þeim sem aðeins hlýða æðsta boðorði Mammons: „Græðgi er góð.“

Hlutverk Mammons

Til hvers eru peningar? Eru þeir hreyfiafl til góðs? Eru þeir til að tryggja velferð samfélagsins, byggja upp grunnstoðir þess, efla heilbrigðiskerfi, menntun, mannúð? Eru þeir til að við getum tekið á móti fólki sem hættir lífi sínu til að flýja ómennskar kringumstæður í von um að búa börnum sínum betra líf eða sjáum við ofsjónum yfir að nota þá í slíkt? Eru þeir til að hjálpa þeim meðal okkar sem örlögin hafa leikið þannig að þeir þurfa framfærslu samfélagsins til að líða ekki neyð eða erum við, sem verðum þess vör að slíkt er rauveruleiki í samfélagi okkar, bara geðveik eins og áhrifamenn hafa fullyrt? Eiga peningar að auka á  jöfnuð og samkennd í samfélaginu eða eiga þeir að skapa hér tvær þjóðir sem búa við sitt hvorn raunveruleikann? Einn fyrir almenning og annan þar sem tíföld árslaun meðalíslendingsins eru fjárhæð sem „engu máli skiptir“?

Við ættum að velta þessu alvarlega fyrir okkur, því senn tökum við afdrifaríka ákvörðun um það hvernig samfélag við viljum byggja hér á þessari eyju, hvaða gildi við viljum að ráði ferðinni. Þá ákvörðun tökum við þegar við veljum fólk til að stýra þessari uppbyggingu.

Þeir Mammon og Bakkus eiga það nefnilega sameiginlegt að vera góðir þjónar en afleitir húsbændur. Þeir sem fela sjóði á aflandseyjum og í skattaskjólum – eins og alkóhólisti vodkaflösku í sokkaskúffunni eða vatnskassanum á salerninu – eru á vondum stað, þaðan sem leiðin til kærleikssamfélagsins liggur í gegnum nálarauga.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 15. október 2017