Feeds:
Færslur
Athugasemdir

Guðspjall: Þaðan hélt Jesús til byggða Týrusar og Sídonar. Þá kom kona nokkur kanversk úr þeim héruðum og kallaði: „Miskunna þú mér, Drottinn, sonur Davíðs! Dóttir mín er mjög kvalin af illum anda.“ En Jesús svaraði henni engu orði. Lærisveinar hans komu þá og báðu hann: „Láttu hana fara, hún eltir okkur með hrópum.“ Jesús mælti: „Ég er ekki sendur nema til týndra sauða af Ísraelsætt.“ Konan kom, laut honum og sagði: „Drottinn, hjálpa þú mér!“ Hann svaraði: „Ekki sæmir að taka brauð barnanna og kasta því fyrir hundana.“ Hún sagði: „Satt er það, Drottinn, þó eta hundarnir mola þá sem falla af borðum húsbænda þeirra.“ Þá mælti Jesús við hana: „Kona, mikil er trú þín. Verði þér sem þú vilt.“ Og dóttir hennar varð heil frá þeirri stundu. (Matt 15.21-28)

hundstíkNáð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Ef ég myndi gera lista yfir það sem ég vildi óska að Jesús hefði ekki sagt eða gert þá yrði hann ekki langur. En guðspjall dagsins yrði á honum.

Líkingamálið sem Jesús talar þarna særir mig. Til hans kemur kona og biður um hjálp fyrir dóttur sína og hann lætur fyrst sem hann heyri ekki í henni og þegar það virkar ekki þá kallar hann hana hund. Tík.

Orðið sem hann notar, kunarion, er að vísu fremur milt. Það merkir í raun smáhundur eða kjölturakki. Semsagt heimilishundur, sem fyrir hundavinum jafngildir því á vissan hátt að vera hluti af fjölskyldunni.

En það er ekki hægt að loka augunum fyrir afmennskuninni sem í líkingunni felst.

Þarna dregur Jesús upp myndina sem klassískur gyðingdómur hafði af hlutverki gyðinga í samfélagi þjóðanna. Við erum öll á einu heimili þar sem Guð er faðirinn. Og gyðingarnir eru, sem Guðs útvalda þjóð, börn hans. Hinir sem eru á heimilinu eru skör neðar. Gyðingar einir eru börnin, aðrir eru í besta falli gæludýr.

Jesús sér að sér

Af þessu er auðvitað ljóst að Jesús lítur í upphafi svo á að hann sé aðeins kallaður til að siðbæta gyðingdóminn. Erindi hans er, að hans mati, ekki við aðrar þjóðir. Hann er sendur af Guði til að tala við börn hans, beina þeim á réttar brautir.

En það sem gerir þessa sögu einmitt svo sérstaka er að Jesús sér að sér. Það gerist ekki oft í frásögnum guðspjallanna að Jesú sé beinlínis talið hughvarf. Það er yfirleitt hann sem opnar augu annarra. Þarna er hlutverkunum snúið við. Í þetta sinn opnast augu hans.

Í raun má segja að saga dagsins segi frá tímamótum í köllun Jesú og sjálfsskilningi hans. Og þau má þakka útlenskri konu. Konu sem Jesús taldi upphaflega að kæmi sér ekki við.

En hún lætur ekki bjóða sér það. Hún þagnar ekki og hættir ekki að hrópa.

Og Jesús sér hana.

Hann sér að hún er líka manneskja. Að dóttir hennar er líka manneskja með sama rétt og aðrar manneskjur til lífs og heilsu.

Jesús sér að neyð þessarar konu og angist er jafnraunveruleg og jafnsár og annarra. Hún elskar dóttur sína ekkert minna en gyðingakonur elska sínar dætur, henni líður jafnilla út af þjáningum hennar og gyðingakonum líður út af þjáningum sinna barna. Eins og öllum líður yfir þjáningum sinna barna. Eins og Guði líður yfir þjáningum sinna barna.

Hún kemur honum víst við.

Og slagorðið „Ísrael fyrst“ rýkur út um gluggann.

Þessi saga er í Matteusarguðspjalli sem endar á því að Jesús segir við lærisveina sína: „Farið og gerið allar þjóðir að lærisveinum.“ (Matt 28.19)

Andstyggileg viðhorf

Við getum hneykslast á þeim viðhorfum sem í þessu andsvari Jesú birtast og hin andstyggilega líking útlensku konunnar við hundstík felur í sér.

En við þurfum ekkert að fara tvöþúsund ár aftur í tímann til að sjá þessi viðhorf.

Og við skulum hneykslast á þeim þar sem þau birtast meðal okkar hér og nú. Það er mun líklegra til að skila einhverju heldur en að hneykslast á veröld sem var og er til allrar hamingju liðin undir lok.

Þessi viðhorf skjóta með reglulegu millibili upp kollinum enn þann dag í dag þegar aðstoð við útlendinga ber á góma. Hvað eigum við að vera að hjálpa annarra þjóða fólki þegar hér á meðal okkar er fólk með íslenskan ríkisborgararétt sem þarf á hjálp að halda? Hvað erum við að skjóta skjólshúsi yfir útlensk börn á flótta þegar í samfélagi okkar eru íslensk börn sem búa við fátækt? Eigum við ekki að hjálpa þeim fyrst?

Auðvitað eigum við að hjálpa þeim. Það er smánarblettur á samfélagi okkar hve margir eru algerlega skildir útundan þegar kemur að skiptingu auðævanna sem ofgnótt er af hér á landi. Við búum í landi þar sem allir eiga að geta haft það gott.

En öryrkinn sem er að reyna að draga fram lífið á bótunum sínum og þarf aðstoð frá kirkjunni til að leysa út lyfin sín þegar óvæntur tannlæknakostnaður setur allan hans knappa fjárhag úr skorðum … hvað gagnast það honum að senda börn á flótta úr landi? Það eru ekki þau sem eru að hafa af honum lyfin.

Það er nefnilega alls ekki þannig að hinn fullkomni mannúðarskortur sem við sýnum þeim verst stöddu hér á landi skili sér í aukinni mannúð til þeirra sem næstverst hafa það.

Stríð um ölmusu

Hvaðan kemur þessi árátta að raða þeim sem eru hjálpar þurfi upp í forgangslista á hinum og þessum forsendum, til að mynda ríkisfangi, og svo megi bara hjálpa þeim sem sigra keppnina um að vera bágstaddastur?

Er mannúð okkar svona takmörkuð auðlind? Er ekki nóg af henni til skiptanna? Er hjálpin sem við erum aflögufær um af svo skornum skammti að hún geti ekki staðið öllum til boða sem á henni þurfa að halda heldur aðeins þeim sem mest þurfa á henni að halda og hinir verði bara að sætta sig við að vera ekki númer eitt í röðinni?

Ef svo er … af hverju eru þá þeir sem mest þurfa á henni að halda ekki að fá hana?

Það er nefnilega mjög góð aðferð til að komast upp með að gera ekki neitt að eyða öllum tímanum í að rífast um það hvað eigi að gera.

Í rauninni er staðreyndin sú að það er hjálpin sem við tímum að veita sem er svona takmörkuð. Það er hjálpin sem við erum reiðubúin til að sjá af sem er svo nánasarleg að við verðum að takmarka hana við einhvern einn hóp sem flestir geta verið þokkalega sammála um að búi við óásættanleg kjör svo við getum gleymt öllum hinum – gert þá ósýnilega.

En þeir eru þarna líka. Þeir eru líka manneskjur. Neyð þeirra er jafnraunveruleg og hinna. Og okkur ber skylda til að sjá þá líka.

Jöfn neyð

Það gerir ekki lítið úr neyð Íslendinga að hjálpa útlendingum. Það er nefnilega – eins og dæmin sanna – alls ekki ávísun á betri kjör fyrir tekjulágar íslenskar barnafjölskyldur, aldraða eða öryrkja að vísa útlenskum barnafjölskyldum á vergang í löndum þar sem neyðarástand ríkir vegna flóttamannavanda.

Það eru ekki þeir sem verst hafa það sem bera ábyrgð á stöðu þeirra sem hafa það næstverst. Það gera þeir sem best hafa það og eru um þessar mundir að setja hvert Íslandsmetið af öðru í launahækkunum til sjálfra sín.

Við lifum í samfélagi sem vantar mannskap, þar sem skortur er á vinnuafli til að sinna verst launuðu og vanþakklátustu störfunum sem Íslendingar fást varla í. En fólkinu sem hingað kemur á eigin vegum og vill setjast hér að og verða nýtir borgarar, því vísum við umsvifalaust úr landi, jafnvel til ríkja sem Rauði krossinn varar við að fólk sé sent til vegna ástandsins þar.

Þessa vinnu viljum við frekar kaupa af útlendingum í gegn um starfsmannaleigur sem borga þeim smánarkaup og við þurfum enga ábyrgð að bera á þeim, ekki að gefa þeim kennitölu eða nein þeirra réttinda sem því fylgja að vera borgari hér á landi. Við viljum ekki að börnin þeirra njóti sama ungbarnaeftirlits og börnin okkar, við viljum ekki að þau gangi í skólana okkar, við viljum ekki þurfa að borga sjúkrakostnaðinn af þeim þegar þeir veikjast, alls ekki að greiða þeim örorkubætur ef þeir slasast alvarlega við vinnu sína hér á landi og síst af öllu að borga þeim eftirlaun eftir vel unnin störf í þágu samfélags okkar í áraraðir.

Allir græða

Það grátlegasta við þetta er að það kostar okkur ekki neitt að taka við þessu fólki. Hver króna sem varið er í að auðvelda fólki að koma sér hér fyrir og verða virkir þátttakendur í samfélagi okkar er fjárfesting í nýtum borgurum sem skilar sér margfalt til baka, ekki bara í mannauðnum sem í fólkinu býr, ekki bara í því mannúðlegra samfélagi sem hér væri ef við hefðum siðferði til að bregðast við af kærleika, heldur beinlínis í krónum og aurum í formi tekju- og neysluskatta sem hinir nýju borgarar greiða til samneyslunnar í landinu sem virkir þátttakendur í þjóðfélaginu.

Auðvitað getum við ekki bjargað öllum. En það eru ekki heldur allir að biðja okkur að bjarga sér. Ef rúta full af börnum færi sjóinn og ljóst væri að við gætum ekki bjargað þeim öllum, myndum við þá sitja aðgerðarlaus og bjarga engu þeirra? Eða myndum við bjarga eins mörgum og við getum? Það er nákvæmlega staðan sem við erum í núna.

Enginn getur bjargað öllum. En allir geta bjargað einhverjum. Og ef allir myndu bjarga eins mörgum og þeir geta yrði öllum bjargað.

Við getum hneykslast á Jesú að líkja Kanverjum við gæludýr á heimilinu þar sem gyðingarnir eru börnin. En það væri pínulítið réttlætanlegra að gera það ef við byggjum ekki sjálf í þjóðfélagi sem kemur fram við fólk eins og skepnur ef það er ekki með rétt ríkisfang.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 8. 3. 2020

Guðspjall: Jesús tók þá tólf til sín og sagði við þá: „Nú förum við upp til Jerúsalem og mun allt það koma fram sem spámennirnir hafa skrifað um Mannssoninn. Hann verður framseldur heiðingjum. Þeir munu hæða hann, misþyrma honum og hrækja á hann. Þeir munu húðstrýkja hann og lífláta en á þriðja degi mun hann upp rísa.“ En þeir skildu ekkert af þessu, orð þessi voru þeim hulin og þeir skynjuðu ekki það sem sagt var. (Lúk 18.31-34)

barn í fangelsiNáð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Í guðspjalli dagsins skilja lærisveinarnir ekki einfalt talað mál. Jesús útskýrir fyrir þeim í töluverðum smáatriðum hvað sé í vændum og hann talar ekki við þá í neinu líkingamáli. Ekkert af þessu segir hann undir rós. Hann nánast stafar þetta ofan í þá. En þeir skildu ekki hvað hann sagði … eða öllu heldur: Þeir „skynjuðu“ það ekki.

Hvernig mátti það vera? Hvernig var hægt að skilja ekki þessi einföldu orð? Sögð við þau á skýru mannamáli í tiltölulega einföldum og stuttum setningum?

Við getum ekki dregið þá ályktun að það hafi verið af því að orðanna hljóðan hafi verið eitthvað loðin eða torskiljanleg. Það var eitthvað annað.

Sennilega var merking orðanna of erfið fyrir þá, þeir réðu ekki við að meðtaka hana. Þeir skildu orðin sem við þá voru sögð en þeim var um megn að „skynja“ hinn óbærilega sannleika sem orðin miðluðu.

Óþægilegur sannleikur

Það er ekki erfitt að finna hliðstæðu við þetta hér meðal okkar nú tvöþúsund árum síðar.

Hvernig stendur til dæmis á því að nýleg könnun sýnir að fjórðungur Íslendinga efast um að loftslagbreytingar af manna völdum séu að eiga sér stað? Allir virtustu vísindamenn heims hafa stafað þetta ofan í fólk undanfarna áratugi. Allar mælingar og staðreyndir, sem maður hefði haldið að ekki væri hægt að loka augunum fyrir, styðja að örari lofstlagsbreytingar en áður hafa sést í jarðsögunni séu að eiga sér stað og að ástæðuna megi nánast einvörðungu rekja til brennslu manna á jarðefnaeldsneyti.

Hvernig komast stjórnmálamenn, sem enga þekkingu hafa á loftslagsvísindum, upp með að tala eins og þetta sé umdeilt og vitna í örfáa loddara á vegum jarðefnaeldsneytisiðnaðarins því til stuðnings, rétt eins og það gæti verið einhverjum hulið að gervallt vísindasamfélagið eins og það leggur sig er einhuga.

Af því að þeir vita sem er að ef staðreyndir eru nógu óþægilegar þá er það í mannlegu eðli að vilja ekki trúa þeim, hve skilmerkilega sem þær hafa verið stafaðar ofan í okkur. Af því að þeir vita að fjöldi manns er reiðubúinn til að trúa því sem er þægilegra, fylkja liði á bak fallegu lygina og skella skollaeyrum við óþægilegum staðreyndum.

Af hverju voru orð Jesú lærisveinunum hulin? Kannski af sömu ástæðu og margsannaðar vísindalegar staðreyndir eru fjórðungi Íslendinga huldar?

Hvað er það sem hylur staðreyndir fyrir okkur? Hvað er það sem dregur ábreiðu yfir þær?

Að mínu mati er það undantekningalítið ótti. Ótti við breytingar, ótti við að kjör okkar versni … ótti við að missa spón úr aski okkar.

Merking orða

Tökum annað dæmi um auðskiljanlega setningu sem sumum virðist erfitt að „skynja“, nánast eins og einhver ótti hafi dregið hulu yfir merkingu hennar fyrir þeim. Hún er svona: „Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna hefur verið lögfestur á Íslandi.“

Þetta er falleg setning. Hún ætti að þýða að Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna sé lög á Íslandi, hvað gæti orðið „lögfestur“ annars þýtt?

Í annarri grein þessa sáttmála er kveðið á um að hann gildi um öll börn innan lögsögu ríkja, án tillits til þess með hvaða hætti þau komu þangað eða hve lengi þau hafa dvalið þar.

Og næsta grein á eftir hefst á orðunum: „Það sem barni er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang þegar félagsmálastofnanir á vegum hins opinbera eða einkaaðila, dómstólar, stjórnvöld eða löggjafarstofnanir gera ráðstafanir sem varða börn.“

Hvers vegna er þetta hulið þeim armi stjórnvaldsins sem nefnist Útlendingastofnun? Hvað er það sem breiðir yfir merkingu þessara orða gagnvart henni? Þetta eru ekki torskilin orð. Nema orðið „lögfestur“ merki eitthvað allt annað en „fest í lög“.

Nú í vikunni fengum við fréttir af því að írönskum unglingi, sem hér hefur dvalið alllengi, eignast hér vini og lært tunguna, skuli vísað úr landi til ríkis þar sem hann hefur ekkert bakland og hætta er á að honum verði vísað aftur til Írans þar sem hann er í bráðri lífshættu vegna kynáttunar sinnar.

Hvernig dettur einhverjum í hug að það sé honum fyrir bestu?

Og framkoman er með þeim hætti að unglingurinn fyllist svo miklum kvíða að hann fær taugaáfall og þarf að leggjast inn á spítala og vera þar uns hann nær bata. Á meðan bíður útlendingastofnun á þröskuldinum eftir að hann útskrifist af geðsjúkrahúsi til að geta sparkað honum úr landi.

Lögfest grimmd

Hvert erum við komin sem samfélag ef þessi framkoma er látin viðgangast? Hvert erum við komin sem samfélag ef svona framganga opinberrar stofnunar hefur engar afleiðingar fyrir þá sem bera ábyrgð á henni?

Sem betur fer hafa þúsundir Íslendinga mótmælt þessari framkomu og við skulum vona að það beri árangur.

En á sama tíma fáum við fréttir af því að vísa eigi fjórum íröskum börnum undir níu ára aldri úr landi til Grikklands af því að þau hafa ekki verið hér nógu lengi og það þótt dómsmálaráðherra hafi nýverið lýst því yfir að einstaklingar séu ekki sendir til Grikklands vegna ástandsins þar. Dómsmálaráðherra virðist hafa gleymt að tilkynna Útlendingastofnun þetta.

Sem betur fer er þúsundum Íslendinga misboðið og við skulum vona að þessari ákvörðun verði líka snúið við.

En hvernig stendur á því að almenningur á Íslandi skuli ítrekað þurfa að rísa öndverður upp gegn stjórnvaldsákvörðunum sem misbjóða siðferðiskennd hans? Er verið að bíða eftir því að fólk venjist grimmdinni? Að skorturinn á mannúð verði normið? Að við sættum okkur við að búa í samfélagi þar sem svona er komið fram við börn?

Hver er skýringin?

Að mínum dómi koma aðeins þrjár til greina:

a) Útlendingastofnun gerist ítrekað brotleg við landslög án þess að það hafi neinar afleiðingar fyrir hana.

b) Landslög gilda ekki um Útlendingastofnun.

c) Sú fullyrðing að Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna hafi verið lögfestur á Íslandi er í besta falli haugalygi, í versta falli merkingarlaust orðagjálfur sem hefur ekkert í för með sér annað en að stjórnmálamenn geta skreytt sig með henni á hátíðarstundum til geta virst voða góðir og með hjartað á réttum stað á sama tíma og stofnanir sem heyra undir þá hrekja börn inn á geðsjúkrahús eða senda þau hreppaflutningum til landa þar sem þeim er hætta búin.

Hver þeirra skyldi vera rétt?

Hvernig sem ég reyni finn ég ekki fjórða möguleikann til að fá þetta til að ganga upp.

Ábreiða óttans

Við getum lesið guðspjall dagsins og hrist höfuðið yfir skiliningsleysi lærisveinanna að „skynja“ ekki merkingu orða sem ekki ætti að vera hægt að misskilja.

En við búum í samfélagi þar sem opinberar stofnanir skynja ekki merkingu sáraeinfaldra setninga eins og „Aðildarríki skulu virða og tryggja hverju barni innan lögsögu sinnar þau réttindi sem kveðið er á um í samningi þessum, án mismununar af nokkru tagi“ og „Það sem barni er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang þegar [gerðar eru] ráðstafanir sem varða börn.“

Hvað er það sem breiðir svona þykkt klæði yfir merkingu þessara orða?

Við búum í samfélagi þar sem auðkýfingurinn situr með hundrað kökur fyrir framan sig en verkamaðurinn með eina og auðkýfingurinn er búinn að telja verkamanninum trú um að útlendingurinn sem á enga köku ætli að taka kökuna hans af honum. Og verkamaðurinn verður hræddur við útlendinginn, en ekki þann sem raunverulega er að ræna hann … auðkýfinginn.

Við þurfum ekki að óttast útlendinginn sem hingað er kominn til að verða nýtur borgari. Óttinn við hann er miklu hættulegri en hann sjálfur. Reynslan á meginlandi Evrópu og í Bandaríkjunum sýnir að þjóðernissinnaðir öfgahægrimenn eru margfalt blóðþyrstari en nokkrir útlendingar. Þeir hafa miklu fleiri, ljótari og mannskæðari ódæði á samviskunni.

Ef það er þá hægt að tala um að hópur ungmenna sem safnar liði til að gagna í skrokk á fjórtán ára útlendingi og niðurlægja hann og tekur það upp á myndband sem hann dreifir á samfélagsmiðlum sér til skemmtunar og hótar meira ofbeldi ef sagt verði frá … hafi yfirhöfuð einhverja samvisku.

Varhugaverðir tímar

Við erum uppi á mjög varhugaverðum tímum. Við erum að mörgu leyti á mjög slæmum stað sem samfélag. Ótti og hatur sem nærast á lygum gegnsýra hluta þjóðarinnar. Útlendingahatur veður uppi fóðrað af áróðursvélum á internetinu og öldum ljósvakans. Stjórnvöld bregðast ítrekað siðferðislegum skyldum sínum við okkar minnstu bræður og systur – ef ekki beinlínis lögbundnum skyldum sínum. Vegið er að réttarríkinu, bæði að ofan og neðan og jafnvel að innan líka. Alltjent þótti við hæfi á aldarafmæli Hæstaréttar að flytja inn fyrirlesara sem einkum hefur unnið sér það til frægðar að grafa undan Mannréttindadómstóli Evrópu, sem við Íslendingar getum þakkað flestar ef ekki allar réttarbætur sem við höfum notið síðan við gerðumst aðilar að honum. Frjálsir fjölmiðlar eiga undir högg að sækja, þeir öflugustu eru lítið annað en málgögn auðkýfingsins með kökurnar hundrað og Ríkisútvarpið er leiksoppur stjórnmálaflokka þar sem mannaráðningar eru hluti af pólitískum hrossakaupum. Og fjórðungur þjóðarinnar hefur lýst því yfir í nýlegri skoðanakönnun að hann sé ólæs á staðreyndir ef þær eru óþægilegar.

Þeim mun mikilvægara er að hin 75% rísi upp öndverð og sýni að illskan og heimskan eru í minnihluta. Þeim mun mikilvægara er að hin 75% haldi árvekni sinni og mæðist ekki þótt rísa þurfi upp og snúa við nýju níðingsverki nánast vikulega. Því ef við gerum það ekki munu illskan og heimskan taka öll völd í samfélagi okkar. Það eina sem þær systur þurfa til að vinna sigur er að gott fólk geri ekki neitt.

Við verðum að skilja það sem stafað er ofan í okkur, jafnvel þótt okkur þætti betra að það væri ósatt og láta ekki óttann hylja sannleikann fyrir okkur.

Guð er kærleikur. Að snúa baki við kærleikanum, að snúa baki við mannúð og samhygð, er að snúa baki við Guði.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 23. 2. 2020

sæskjaldbakaNáð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni, Jesú Kristi. Amen.

Fyrir nokkrum árum, kannski um tuttugu eða svo, ákvað ég fyrir ein jólin að baka sörur. Það vita þeir sem reynt hafa að það er meira en að segja það, ekki síst fyrir skussa eins og mig sem er margt betur til lista lagt en vandasamur smákökubakstur. Niðurstaðan varð sú að sörurnar gengu undir nafninu „sæskjaldbökur“ á mínu heimili. Sumpart af því að þeim svipaði til þeirra þrautseigu skepna í útliti, en aðallega vegna þess að hlutfallið af kökunum sem fóru í ofninn sem náðu að verða að sörum var svipað og hlutfallið af sæskjaldbökuungum sem skríða úr eggi sem ná að verða að fullvöxnum sæskjaldbökum.

Þróun tegundanna

Dýr hafa þróað með sér ýmsar aðferðir til að viðhalda sér sem tegund. Það birtist ekki síst í afkvæmum þeirra og með hvaða hætti þau tryggja að næsta kynslóð komist á legg. Afkvæmi flestra grasbíta þurfa til dæmis að geta hlaupið um og fylgt hjörðinni fárra klukkustunda gömul. Við mennirnir gerum þetta öðruvísi. Afkvæmi okkar fara í fyrsta lagi að ganga 10 – 12 mánaða gömul og þá aðallega á mublur og veggi til að byrja með, alla vega samkvæmt minni reynslu. En það er yfirleitt í lagi því fyrstu árin … jafnvel áratugina … geta þau flest, sem betur fer, treyst því að fullorðið fólk annist þau.

Sæskjaldbökur aftur á móti – eins og fleiri dýr, t.d. flestir fiskar – fara aðra leið að þessu. Þar lýkur hlutverki móðurinnar strax eftir að hún hefur orpið eggjum og grafið þau í sandinn. Hlutverki föðurins lýkur strax eftir getnað, eins og reyndar hjá fleiri tegundum, jafnvel mannfólkinu í ákveðnum tilfellum.

En frá og með þeirri stundu þegar eggin eru grafin í sand verða afkvæmi sæskjaldbökunnar að spjara sig alfarið sjálf. Þau skríða úr eggjunum öll í einu og keppast við að komast til sjávar. Strax á fyrstu mínútunum er dágóður hluti þeirra étinn af mávum. Í sjónum eru þau líka fæða fyrir ýmis dýr. Um einn skjaldbökuungi af þúsund nær að verða stór. En það er nóg, sæskjaldabakan leysir þetta vandamál með því að verpa um þúsund eggjum í hvert sinn. Hún gerir ráð fyrir afföllunum.

Þetta er ágæt og algeng aðferð til að tryggja viðgang tegundar. Hversu mörg frjókorn, sem metta loftið á vorin og gera mörgum erfitt um andardrátt, ná að verða að trjám?

Sæskjaldbökuaðferðin

Með þessari aðferð er líka hægt að tryggja viðgang hugmynda, gilda og trúar. Að dreifa þeim og dreifa. Megnið af því lendir á lokuðum eyrum, lokuðum hugum og lokuðum hjörtum. Einhverjir kunna jafnvel að fyrtast við. En ef þau hitta einn einstakling í hjartastað var það fyrirhafnarinnar virði. Ef þau ná að skjóta rótum í einu hjarta breytir það öllu – fyrir þann einstakling.

Þannig starfar sáðmaðurinn í dæmisögu dagsins í dag. Hann gengur um og sáir. Hann gerir sér fulla grein fyrir því að aðeins brot af því sem hann sáir verður að korni sem ber ávöxt. Hann leysir það vandamál með því að sá þeim mun meira. Hann gerir ráð fyrir afföllunum. Hann veit að sumt lendir í grýttri jörð, sumt meðal þyrna, sumt verður étið af fuglum. En hann veit líka að sumt af því lendir í frjórri mold, skýtur rótum, vex og dafnar og veitir styrkjandi næringu þegar það er skorið upp.

Og þetta gildir ekki bara um Guðs orð. Síðasta sunnudag skoðuðum við hvað það þýðir að vera kölluð til starfa sem verkamenn í víngarði Drottins. Í dag höldum við áfram og nú erum við stödd úti á akrinum. Starf okkar í veröldinni á að vera fólgið í því að sá, sá því sem okkur er heilagt, því sem er gott og göfugt og fallegt og rétt. Alltaf. Alls staðar.

Flestir munu láta það sem vind um eyru þjóta. Einhverjir munu bregðast ókvæða við. En kannski, bara kannski, getum við breytt lífi þessa eina sem er með opinn huga, þessa eina sem var að efast og þurfti einmitt á þessari stundu að heyra að hann væri ekki einn um það.

Bergmálshellirinn

Þetta er sérstaklega mikilvægt að hafa í huga í samfélagi nútímans þar sem svo mikið af samskiptum og skoðanaskiptum fara fram inni í sápukúlu samfélagsmiðla. Við eigum vini á netinu sem við deilum með vinum og viðhorfum. Við erum sammála um flesta hluti. Ágreiningur okkar er ekki um siðferðileg grundvallaratriði. Við smíðum okkur bergmálshelli á netinu sem við erum föst inn í og heyrum ekkert annað en enduróm okkar eigin skoðana og viðhorfa. Við erum alltaf að prédika yfir kórnum.

Svo kemur skoðanakönnun og ég og vinir mínir erum steini lostin. Hvaða fólk er þetta sem ætlar að kjósa þessa flokka? Hvaða fólk hefur þessi viðhorf? Ekki þekki ég einn einasta mann úr þeim hópi, sem einhver skoðanakönnun sýnir að telur kannski tíu til tuttugu prósent þjóðarinnar. Ef ég og vinir mínir á facebook værum einu kjósendurnir á Íslandi byggjum við öll í sósíalískri paradís – að minnsta kosti erum við sjálf sannfærð um að svo væri. Það væri örlítil og auðviðráðanleg andstaða í þessum örfáu hægrimönnum sem eru í vinahópnum því að þrátt fyrir að maður sé ósammála þeim þá er því ekki að neita að þeir eru málefnalegir, fjölfróðir og skemmtilegir og ekki að lýsa yfir dálæti á Donald Trump. Þar er semsagt málefnalegur skoðanaágreiningur á ferðinni, en ekki grundvallar siðferðiságreiningur. Stærsti kosturinn við þá er þó auðvitað sá að þeir eru svo fáir að ég og skoðanasystkini mín erum í þægilegum meirihluta og finnum auk þess til vellíðunar yfir umburðarlyndi og víðsýni okkar sjálfra að hafa þá með.

Sáðmenn góðs og ills

En þannig er ekki heimurinn. Við erum ekki í meirihluta þótt okkur finnist að við ættum að vera það og við séum það í bergmálshellinum okkar. En við getum ekki vænst þess að vera það úti á akrinum ef við sáum ekki fræjum þess, sem við teljum vera sannleikann, annars staðar en í garðinum hvert hjá öðru.

Við verðum að tala máli þess sem satt er og rétt alltaf og alls staðar. Jafnvel þar sem ekki er líklegt að það afli okkur vinsælda. Jafnvel þar sem okkur býður svo hugur að það sé eins og að stökkva vatni á gæs. Af því að við vitum aldrei hvar þessi eini leynist sem er móttækilegur fyrir nýjum sannleika.

Því við erum ekki einu sáðmennirnir sem eru á ferð.

Meðal okkar er sáð illgresi og þyrnum. Útsæðinu er dælt miskunnarlaust til sáðmanna haturs og ofstækis, fordóma og þjóðrembu, bæði á internetinu og öldum ljósvakans. Við búum í samfélagi sem metur skoðana- og tjáningarfrelsi svo mikils að ekki virðist vera hægt að skrúfa fyrir þessar óhróðurs- og mannahatursveitur, jafnvel þótt þær verði hvað eftir annað uppvísar að því að dreifa rangfærslum, útúrsnúningum og jafnvel bláköldum lygum. Og ég ætla ekki að fullyrða að það væri æskilegt að gera það. Sannleikanum er kannski lítill greiði gerður með því að gefa lygurunum kost á að útmála sig sem fórnarlömb þöggunar.

Þessu verður sennilega best svarað með enn öflugri sáningu hins andstæða. Ef eitt af hverjum þúsund fræjum verður að dafnandi jurt þá fáum við þúsund dafnandi jurtir ef við sáum milljón fræjum. Til þess þarf dugnað og þrautseigju … og nóg af fræjum.

Óþrjótandi auðlind

En þar stöndum við vel að vígi. Við þurfum ekkert að spara sæðið. Öfugt við sörudeigið mitt hérna um árið þá er boðskapurinn um kærleikann til allra manna óþrjótandi auðlind.

Þegar gull er grafið úr fjalli minnkar það magn gulls sem hægt er að grafa úr fjallinu smám saman. Þegar olíu er dælt úr jörð minnkar olíuforðinn ofan í jörðinni jafnt og þétt. Þegar sannleika ljóssins og lífsins er dreift eyðist hann aftur á móti ekki heldur vex og magnast og smitar út frá sér ljósi og lífi sem aftur vex og magnast og fegrar og bætir heiminn.

Í Matteusar- og Markúsarguðspjöllum er stórkostleg saga af því þegar Jesús mettar þúsundir manna með örfáum brauðum og fiskum. Sagan er dæmisaga hlaðin táknum. Brauðið er gegnumgangandi tákn fyrir andlega næringu í heilagri ritningu. Jesús sjálfur segist vera hið lifandi brauð sem niður steig af himni og gefur heiminum líf.

Og því er einu sinni þannig háttað með andlega næringu að hún eyðist ekki þegar henni er deilt með öðrum, heldur þvert á móti þá verður til meira af henni. Það verður ekkert minna af sannleika eftir í hjartanu á mér þótt ég deili honum með þér. Öðru nær. Það gerir okkur bæði ríkari.

Við erum kölluð til starfa úti á akrinum. Sáum fræjum sannleikans hvar og hvenær sem er. Því einu getum við treyst: Við verðum aldrei uppiskroppa með útsæði.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 16. 2. 2020

 

Guðspjall: Jesús sagði þessa dæmisögu: „Líkt er um himnaríki og húsbónda einn sem gekk út árla morguns að ráða verkamenn í víngarð sinn. Hann samdi við verkamennina um denar í daglaun og sendi þá í víngarð sinn. Síðan gekk hann út um dagmál og sá aðra menn standa á torginu iðjulausa. Hann sagði við þá: Farið þið einnig í víngarðinn og ég mun greiða ykkur sanngjörn laun. Þeir fóru. Aftur gekk hann út um hádegi og nón og gerði sem fyrr. Og á elleftu stundu fór hann enn út og sá menn standa þar. Hann spyr þá: Hví hímið þið hér iðjulausir allan daginn? Þeir svara: Enginn hefur ráðið okkur. Hann segir við þá: Farið þið einnig í víngarðinn. Þegar kvöld var komið sagði eigandi víngarðsins við verkstjóra sinn: Kalla þú á verkamennina og greið þeim kaupið. Þú skalt byrja á þeim síðustu og enda á þeim fyrstu. Nú komu þeir sem ráðnir voru á elleftu stundu og fengu hver sinn denar. Þegar þeir fyrstu komu bjuggust þeir við að fá meira en fengu sinn denarinn hver. Þeir tóku við honum og fóru að mögla gegn húsbónda sínum. Þeir sögðu: Þessir síðustu hafa unnið aðeins eina stund og þú gerir þá jafna okkur er höfum borið hita og þunga dagsins.Hann sagði þá við einn þeirra: Vinur, ekki geri ég þér rangt til, sömdum við ekki um einn denar? Taktu þitt og farðu leiðar þinnar. Ég vil gjalda þessum síðasta eins og þér. Er ég ekki sjálfur fjár míns ráðandi? Eða sérðu ofsjónum yfir því að ég er góðgjarn? Þannig verða hinir síðustu fyrstir og hinir fyrstu síðastir.“ (Matt 20.1-16)

you-guys-are-getting-paidNáð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Tölvuöldin hefur alið af sér nýtt tjáningar- eða listform, svokallað „mím“. Það eru myndir eða myndskeið, vísanir í dægurmenningu, afþreyingu eða stjórnmál, sem hafa skírskotun útfyrir sig og tengjast eitthverju öðru í daglegu lífi, mannlegu hlutskipti eða samfélagsmálum. Eitt slíkt „mím“ kom upp í huga minn þegar ég skoðaði guðspjall dagsins, vegna þess að það dregur fram svo snaran þátt í eðli okkar.

Það er úr sjónvarpsþáttum sem nefnast We‘re the Millers þar sem Jennifer Aniston er í stóru hlutverki. Aðalpersónurnar eru eiturlyfjasmyglarar sem leika hamingjusama fjölskyldu til að hylja athæfi sitt. Í einu atriðinu kemst hin meinta eiginkona að því að ágóðanum er ójafnt skipt og hrópar á höfuðpaurinn, sem leikur eiginmanninn: „Græðirðu 500.000 dali á þessu og borgar mér bara 30.000?“ Sú sem leikur dótturina æpir þá: „Þrjátíu þúsund? Ég fæ þúsund!“ Þá segir sonurinn undrandi: „Ha? Fáið þið borgað?“

Í guðspjalli dagsins er ekki svindlað á neinum, ekki frekar en hjá Millers fjölskyldunefnunni. Staðið er við alla samninga og allir una glaðir við sitt … þangað til þeir fara að bera sig saman við manninn við hliðina á sér. Þá finnst þeim þeim gert rangt til.

Og við getum auðveldlega sett okkur í spor þeirra. Þarna hafa þeir þrælað allan daginn og fá sömu laun og hinir sem unnu bara í klukkutíma. Auðvitað er það ósanngjarnt. En við getum líka spurt: Hverju hefðu þeir verið bættari með því að hinir hefðu fengið minna?

Samanburðurinn

Samskiptamiðlarnir, með öllum þeim hægðarauka sem þeir hafa í för með sér, gera þennan samanburð okkar við náungann enn auðveldari og nánast ósjálfráðan. Þar sjáum við það sem vinir og kunningjar og jafnvel fólk sem við þekkjum ekki neitt kýs að deila með umheiminum af lífi sínu. Við sjáum veislumat og utanlandsferðir, útskriftar- og brúðkaupsveislur, uppgerð hús og nýjar eldhúsinnréttingar svo eitthvað sé nefnt. Og við drögum þá ályktun að svona sé daglegt líf fólks í kringum okkur og okkur fer að finnast líf okkar sjálfra ósköp ómerkilegt í samanburði. Við hugsum ekki út í að þetta fólk deilir kannski ekki ljósmyndum af sér nývöknuðu og grúttimbruðu, af útbrotunum sínum eða skallablettunum, óhreinatauskörfunni og mánudagssoðningunni. Við erum að bera okkar heildarmynd saman við mynd sem er samsett úr brotum af því besta hjá hundruðum annarra.

Ég er ansi ánægður með bílinn minn, en ég verð að viðurkenna að þegar ég settist upp í Audi jeppann með bakkmyndavélinni og aksturstölvunni, sem einn vina minna á, þá fannst mér ósköp lítið til suzuki jepplingsins míns koma. Ég var ansi ánægður með að hljómsveitin mín skyldi hálffylla Bæjarbíó í Hafnarfirði, en ég verð að viðurkenna að þegar Bubbi Morthens troðfyllti það skömmu síðar fannst mér munurinn óþægilegur. Þetta er í eðli okkar og er ekkert til að skammast sín fyrir.

En hverju væri ég bættari með að vinur minn væri aðeins verr bílandi eða að Bubbi Morthens væri ekki alveg svona vinsæll?

Sjálfsmatið

Við lítum í kringum okkur, leggjum mat á fólkið í umhverfi okkar, hag þess og stöðu til þess að geta betur staðsett okkur sjálf í félagslegu samhengi. Ég er tekjulægri en þessi ákveðni vinur minn, eins og reyndar allur meginþorri þjóðarinnar líka. Og ég á minni aðdáaendahóp en Bubbi Morthens, eins og reyndar hver einasti núlifandi Íslendingur, leyfi ég mér að fullyrða.

Hvað erum við eiginlega að bera okkur saman við? Hve óraunhæfar kröfur gerum við til okkar sjálfra með þessum samanburði? Og við dæmum okkur sjálf harðar en við myndum dæma nokkurn annan. Við lítum ekki niður á alla sem ekki aka um á glænýjum Audi-jeppum. Við lítum ekki niður á alla aðra en vinsælustu dægurlagasöngvara þjóðarinnar.

Af hverju ætti ljúffengi þorskhnakkinn minn að verða eitthvað ólystugri við það að maðurinn á næsta borði fær sér humar? Hefði hann orðið girnilegri ef hann hefði fengið sér pylsu? Af hverju ætti sumarfríið mitt austur á Fljótsdalshéraði að verða ómerkilegra af því að maðurinn í næsta húsi fer til Balí? Hefði ég orðið ánægðari fyrir austan ef hann hefði bara haldið sig heima hjá sér?

Af hverju er svona erfitt að una glaður við sitt og vera ekki alltaf að vega það og meta í sambanburði við aðra? Hvað fáum við út úr því?

Dæmisagan

Ekki svo að skilja að vinnuveitandinn í dæmisögunni sem við heyrum í dag komi ekki svívirðilega fram. Hann gerir það, við skulum alveg hafa það á hreinu. Að borga sömu laun fyrir langan vinnudag og fyrir einnar klukkustundar vinnuframlag er auðvitað með öllu óverjandi og skýlaust brot, ekki bara á allri vinnulöggjöf heldur allri sanngirni líka.

Þess vegna skulum við líka hafa það alveg á hreinu að þessi saga er ekki um vinnulöggjöf. Hún er ekki um mannaráðningar og launamál. Hún er ekki innlegg í kjaradeilur dagsins í dag.

Þetta dæmisaga um náð Guðs. Jesús sagði sjálfur hvað hún þýddi. Herra víngarðsins er Guð, víngarðurinn veröldin og við mannfólkið erum líkt og verkamennirnir kölluð til ólikra verka á ólíkum tímum. Náð Guðs er til allra manna jafnt. Henni er ekki úthlutað eftir vinnuframlagi. Við erum kölluð til mismunandi starfa á mismunandi tímum og við uppskerum náðina öll jafnt, hvert sem okkar framlag var. Guð setur líf okkar ekki upp í excel skjal sem reiknar út hvað hver og einn verðskuldar mikið af náð í skiptum fyrir hvað hann var góður. Gæska hans er óendanleg.

Víngarðurinn er veröldin og við erum öll verkamenn í honum. Við erum öll kölluð til starfa í honum. Gríska orðið sem notað er í þessari sögu um vinnu verkamannanna er „leitourgia“. Það er sama orð og „liturgía“ sem við notum um helgisiðina okkar. Merking þess er „þjónusta“. Þess vegna notum við orðið „guðsþjónusta“ um það þegar við komum saman og iðkum helgisiðina okkar. Við erum að þjóna Guði.

Guðsþjónustan

En þessi saga minnir okkur á það að þjónustan okkar við Guð, „litúrgían“ okkar, er ekki bundin við þessar samverustundir okkar innan kirkjuveggjanna. Starf okkar úti í veröldinni á að vera „litúrgía“… guðs-þjónusta, þjónusta við Guð og náungann, við það sem gott er og fallegt, helibrigt og heilagt. Þjónusta við kærleikann. Og það er aldrei of seint að elska.

Okkur kann að virðast það ósanngjarnt að við – og nú tala ég í kaldhæðni, athugið það – sem allt okkar líf leituðumst við að vera gott kristið fólk og gerðum aldrei nein mistök, skulum ekki fá eitthvað meira að launum en hinir sem vöknuðu ekki til vitundar um skyldur sínar við Guð og náungann fyrr en eftir dúk og disk. Aðeins meiri náð.

Aðeins eilífara líf.

En það er ekki hægt. Eilífðir geta ekki verið misstórar. Brotabrot af eilífðinni er heil eilífð. Því ef við myndum skilgreina eitthvað X hlutfall af eilífiðinni værum við með því búin að skilgreina eilífðina alla og þá væri hún ekki lengur eilíf.

Náð Guðs er eilíf. Af því leiðir að lítill hluti af henni er jafnstór og stór hluti hennar og jafnvel hún öll.

Guð spyr ekki hvenær við mættum heldur hvar við vorum þegar vinnudegi lauk.

Og það kann að virðast ósanngjarnt að ungur og hraustur maður, sem vinnur langan vinnudag og afkastar meira en sá gamli eða veikburða sem starfar við hlið hans hluta úr degi, beri ekki meira en hann úr býtum. En við erum ólík, hreysti okkar er misjöfn og hæfileikar okkar eru á ólíkum sviðum. Við erum ekki öll með sömu spil á hendi. Við förum út í lífið með ólíkt veganesti að heiman. Það geta verið óteljandi ástæður fyrir því að sumir mæta seinna en aðrir og afkasta minna.

En ef eini hvatinn fyrir því að sá ungi og hrausti mætti snemma var sá að bera meira úr býtum en hinir veikburða og hægfara, þá var hann ekki að þjóna kærleikanum heldur sjálfum sér.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 9. febrúar 2020

Guðspjall: Nú gekk Jesús niður af fjallinu og fylgdi honum mikill mannfjöldi. Þá kom til hans líkþrár maður, laut honum og sagði: „Drottinn, ef þú vilt getur þú hreinsað mig.“ Jesús rétti út höndina, snart hann og mælti: „Ég vil, verð þú hreinn!“ Jafnskjótt varð hann hreinn af líkþránni. Jesús sagði við hann: „Gæt þess að segja þetta engum en far þú, sýn þig prestinum og færðu þá fórn sem Móse bauð, þeim til vitnisburðar.“ (Matt 8.1-3)

snertingNáð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni, Jesú Kristi. Amen.

Kirkja er á vissan hátt afleitur staður til að kynnast Biblíunni og þeirri frásögn sem hún geymir af lífi og starfi Jesú frá Nasaret. Jújú, vissulega heyrum við glefsur af því sem hann tók sér fyrir hendur. Þennan sunnudag er sagt frá þessum atburði eins og þetta guðspjall segir frá honum og annan sunnudag er sagt frá einhverju öðru eins og eitthvað annað guðspjall greinir frá því. Og þannig tínast smám saman til upplýsingar um frelsarann, glefsu fyrir glefsu, sem hægt og rólega geta raðast upp eins og mósaíkverk og búið til einhvers konar mynd í huga okkar.

En einmitt í því liggur meinið líka. Við heyrum glefsur, teknar úr samhengi við flæði frásagnarinnar í ritinu þar sem þær standa. Og hætt er við því að það hafi enga merkingu fyrir okkur hvort guðspjallið skrifaði guðspjallamaðurinn Matteus, Markús, Lúkas eða Jóhannes, rétt eins og þeir hafi ekki hver fyrir sig sinn eigin stíl, einkenni og guðfræðilegar áherslur.

Þess vegna er ágætt þegar við heyrum sögu eins og þá sem guðspjall dagsins geymir að „súma“ aðeins út og setja hana í samhengi við þar hvar við erum stödd í atburðarásinni til að reyna að skilja hvaða tilgangi einmitt þessi saga þjónar á einmitt þessum stað í henni.

Hvað hefur gerst hér? Í hvaða samhengi erum við stödd? Er þessi saga kannski beint framhald af því sem á undan fór, jafnvel niðurlag þess eða klifun – stef til að hnykkja á því sem guðspjallamaðurinn var að enda við að segja?

Ofan af fjallinu

Upphafsorðin gefa okkur vísbendingu: „Nú gekk Jesús niður af fjallinu.“

Hvaða fjalli? Hvað hafði Jesús verið að gera á fjallinu?

Jú, Jesús hafði verið að halda fjallræðuna. Þetta er það fyrsta sem gerist eftir að hann hefur lokið máli sínu.

Fjallræðan er einn besti vitnisburðurinn um boðskap Jesú. Þar eru kjarnaatriði þess sem við getum kallað grunngildi kristindómsins dregin saman. Niðurlag hennar er sagan um mennina tvo sem byggðu sér hús, annar á bjargi en hinn á sandi.

Hver var munurinn á þeim annar en sá að annar var hygginn og hinn heimskur? Hann var sá að annar heyrði orð Jesú og breytti eftir þeim, hinn heyrði þau en lét þau sem vind um eyru þjóta. Munurinn var ekki sá að annar hefði heyrt en ekki hinn. Þeir heyrðu báðir.

Síðan segir: „Þegar Jesús hafði lokið þessari ræðu varð mannfjöldinn djúpt snortinn af orðum hans því að hann kenndi eins og sá er vald hefur og ekki eins og fræðimenn þeirra.“ Þessu næst labbar Jesús niður af fjallinu og saga dagsins í dag á sér stað.

Hann er nýbúinn að segja að sönn trú sé ekki spurning um orðavaðal heldur birtist hún í verkum okkar. Trúin verður að sjást í framgöngu okkar og framkomu hvert við annað. Og þetta segir hann eins og sá sem valdið hefur.

Því næst kemur hann fram eins og sá sem valdið hefur.

Hinn ósnertanlegi

Til hans kemur maður haldinn ólæknandi sjúkdómi. Hann var holdsveikur. Holdsveiki var hluti af umhverfi þeirra sem þessi saga er skrifuð fyrir. Áheyrendurnir vissu eitt og annað sem okkur er hulið – til allrar hamingju. Holdsveiki hafði verið landlæg í þessum heimshluta öldum saman eins og rit Gamla testamentisins bera vitni um. Þar er hvað eftir annað talað um holdsveiki sem bölvun.

Holdsveiki var það versta sem hægt var að hugsa sér. Hún var dauðadómur og hún var ljót og áberandi. Henni var ekki hægt að leyna.

Hinir holdsveiku voru á vissan hátt lifandi dauðir. Eftir að prestur hafði staðfest holdsveikitilfelli var hinum sjúka meinuð þátttaka í samfélaginu. Það mátti ekki snerta hann. Þegar einhver nálgaðist hann varð hann að hrópa að hann væri óhreinn. Hann mátti ekki dvelja innan borgarmúranna. Auðvitað var honum meinað aðgengi að musterinu þannig að hann var líka útilokaður frá Guði.

Og hvað gerir Jesús þegar einstaklingur af þessum jaðri samfélagsins mætir honum? Og við skulum hafa hugfast að hinn holdsveiki gerðist brotlegur við þær kvaðir sem sjúkdómur hans lagði á hann samkvæmt lögmálinu. Honum bar að halda sig fjarri. Það má ímynda sér hann smjúga í gegn um múginn sem fylgdi Jesú, fólk hefur forðað sér til að komast ekki í snertingu við hann. Það hefði jú ekki verið hægt að stöðva hann án þess að koma við hann.

En þessi óhreini maður krýpur frammi fyrir frelsaranum í fullvissu þess að hann geti gert hann hreinan. Hann trúir að Jesús hafi vald til þess. Og það hefur hefur hann. Spurningin er hvort hann vilji það.

Hvort hann vilji aflétta bölvuninni af honum. Og það vill Jesús.

Og Jesús brýtur lögin. Enn og aftur virðir hann fyrirmæli lögmálsins gersamlega að vettugi. Þessi síbrotamaður, því það er það sem hann var, réttir út höndina og snertir holdsveikan mann, sem var alveg stranglega bannað.

Kærleikurinn trompar lögmálið

Við skulum setja okkur í spor hins sjúka. Jesús snerti hann. Þessi maður hafði sennilega ekki upplifað mannlega snertingu árum saman.

Kærleikurinn trompar lögmálið.

Og presturinn sem var á bakvakt þennan dag hefur lent í fáheyrðri uppákomu. Hann hefur þurft að fletta upp í fjórtánda kafla Þriðju Mósebókar þar sem eru leiðbeiningar um helgihald í tilefni að hreinsun holdsveikra. Texti sem við getum ímyndað okkur að hafi ekki verið í mikilli notkun, ef þess voru þá einhver dæmi að reynt hefði á hann.

Þetta er sagan sem er sögð.

Jesús hreinsar mann sem samfélagið útilokaði. Hann snertir hinn ósnertanlega.

„Sælir eru hógværir, sælir eru miskunnsamir, sælir eru hjartarhreinir,“ segir hann. Þannig byrjar hann fjallræðuna. Hann minnist ekkert á undirgefni við lögmálið, við lög og reglur samfélagsins. Lög og reglur sem útiloka og útskúfa. Og hann minnist ekkert á trúarbrögð. „Sælir eru trúræknir og sælir eru löghlýðinir,“ eru setningar sem hvergi koma fyrir í Fjallræðunni.

Og inngangurinn að sögunni sem hann klykkir út með, þessari um mennina tvo, þann hyggna og þann heimska, er á þessa leið: „Ekki mun hver sá sem segir við mig: Drottinn, Drottinn, ganga inn í himnaríki heldur sá einn er gerir vilja föður míns sem er á himnum,“ segir hann.

Að elska er að gera.

Að elska er að snerta þá ósnertanlegu.

Jesús snertir

Og það gildir enn þann dag í dag. Um þig og mig.

Við erum sem betur fer uppi á dögum þar sem holdsveiki hefur verið útrýmt úr samfélagi okkar.

En hinir ósnertanlegu er enn á meðal okkar.

Og við eigum sjálf stundir þar sem okkur finnst við vera ósnertanleg, óhrein.

En Jesús snertir okkur samt. Hann vill það. Það eina sem við þurfum að gera er að ganga á fund hans og biðja hann um það í trausti þess að hann geti það.

Í einlægri trú á að máttur okkur æðri geti gert okkur heil, geti gert okkur hrein að nýju.

Og það er engin þjóðsaga. Það er lifandi raunveruleiki í lífi fjölmargra bræðra okkar og systra. Máttur trúarinnar er raunverulegur.

Við erum öll þessi holdsveiki maður. Við þráum það öll að vera samþykkt, að vera viðurkennd. Og Jesús samþykkir okkur. Hann snertir okkur. Snertir okkur með hætti sem við höfum aldrei verið snert á áður.

Og þegar við höfum verið snert af honum stendur musteri Guðs okkur opið. Okkar bíður líf í gnægðum, reist og frjáls.

Jesús var ekkert að bulla þarna á fjallinu. Þegar hann gengur niður af því er hans fyrsta verk að sýna það í verki.

Og það má ímynda sér að hinn holdsveiki hafi setið álengdar og heyrt hvert orð, að minnsta kosti ber framganga hans í kjölfarið vott um það að hann hafi heyrt og sé að breyta í samræmi við það sem hann heyrði. Hann sé að byggja hús sitt á bjargi.

Og við sitjum eftir með spurninguna: „Heyrðir þú?“ Og ef svarið er já er næsta spurning óhjákvæmileg: „Hvað ætlarðu að gera í því?“

Ætlarðu að ganga fram fyrir Jesú í trausti þess að hann geti og vilji gera þig heilan? Og vera snertur á hátt sem þú hefur aldrei verið snertur á áður?

Eða ætlarðu að fara með þessa flís heim og setja hana í flísasafnið þitt sem þú kannski einhvern tímann kemur því í verk að púsla saman í sundurlausa mósaíkmynd af því hvernig þér sjálfum finnst þægilegast að sjá Jesú Krist?

Dýrð sé Guði föður og syni og helögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 26. 1. 2020

rauðvínNáð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Guðspjall dagsins segir frá fyrsta kraftaverki Jesú og um leið sennilega því kraftaverki sem mest hefur verið haft í flimtingum í gegnum tíðina og auðveldast er að spauga með. Að breyta vatni í vín, það væri nú munur að geta það.

Mér er ævinlega minnisstætt atvik frá því ég var unglingur og var í byggingarvinnu ásamt einum vini mínum. Verkstjórinn kom þá til okkar og var eitthvað grínast, gott ef það var ekki föstudagur og kominn fiðringur í mannskapinn. Hann klykkti út með þessari fullyrðingu: „Það væri nú aldeilis munur að hafa mann í vinnu hjá sér sem gæti breytt vatni í vín.“ Þessi vinur minn er einhver mest praktískt þenkjandi maður sem ég hef kynnst. Hann svaraði að bragði: „Væri ekki betra að eiga vél sem gæti gert það? Þá væri hægt að nota manninn í annað.“

Því auðvitað er enginn vandi að breyta vatni í vín. Til þess þarf bara ger og sykur … og smátíma. Þá gerist það sjálfkrafa.

Vínguðinn Jesús

Við skulum hafa það hugfast að guðspjallamaðurinn Jóhannes talar aldrei um kraftaverk. Það orð fyrirfinnst ekki í orðaforða hans. Hann talar um „táknin“ sem Jesús gerir og í því er lykillinn að því að skilja hvað hann er að segja okkur. Við verðum að setja upp eyru þeirra sem Jóhannes er að ávarpa, alþýðu manna fyrir botni Miðjarðarhafsins á fyrstu öld okkar tímatals þar sem kristindómur var ekki ríkjandi trúarbrögð og í raun að berjast fyrir tilveru sinni. Hvernig skildi það fólk þessa sögu og táknin sem hún er hlaðin?

Jesús breytir vatni í vín. Í hinum helleníska menningarheimi fyrstu aldarinnar gerði annar áberandi guð einmitt það: Díónýsus. Vínguðinn sem Rómverjar kölluðu Bakkus. Hann var tilbeðinn í miklum blótum þar sem vín flaut og ýmislegt annað var iðkað til að koma fólki í annarlegt ástand og fjarlægja hömlur. Þeir sem jaðarsettir voru af samfélaginu – konur, þrælar og útlendingar – gátu fundið til frelsis og léttis á Díónýsusarblótum, fengið útrás fyrir þrár sínar og hvatir, án þess að eiga á hættu fordæmingu og útskúfun. Enda voru þau vinsæl.

Víngarðurinn – og afurð hans, vínið – eru klassísk tákn fyrir lýð Guðs í spámannsritum Gamla testamentisins. „Víngarður Drottins er Ísraels hús og Júdamenn ekran sem hann ann,“ (Jes 5.79) segir spámaðurinn Jesaja.

En kerin standa tóm. Andinn er urinn. Trúararfurinn er liðinn undir lok. Þá fyllir Jesús kerin af miklu betra víni. Hann veitir veislugestum nýjan anda.

Við getum horft með vanþóknun á svallveislur Díónýsusarblótanna, en þau voru tilraun til brjótast undan hömlum og höftum og slíta af sér hlekkina sem öftruðu fólki frá því að lifa lífi sínu til fullnustu. Hedónísk, holdleg tilraun til þess … en á bak við hana var heiðarleg og einlæg þrá eftir frelsi og sálarfró.

Jesús er ekki vínguð … nema í því samhengi þegar vínið er tákn fyrir líf í gnægðum og frelsi: Tákn um nýjan anda. Jesús er kominn til að veita fólki miklu betra vín en nokkur Díónýsusarblót buðu upp á. Hann er kominn til að brjóta af okkur hlekkina sem meina okkur að lifa lífi í gnægðum reist og frjáls, ekki bara í algleymi einnar kvöldstundar heldur ævina á enda og um alla eilífð.

Stormurinn í fangið

Eins og annar heilagur sannleikur á þessi saga sístætt og eilíft erindi við okkur. Hún varðar ekki bara þjóðfélagslegar kringumstæður í framandi menningarheimi fornaldar í fjarlægum heimshluta. Hún varðar okkur hér og nú. Og við skulum líta í kringum okkur og spyrja: „Hvar standa hin tómu steinker samtímans? Á hvaða sviðum er samfélag okkar gersamlega þurrbrjósta?“

Má benda á kirkjuna? Sitjum við hér í tómu steinkeri? Er heilagur andi upp urinn í samfélaginu sem kennir sig við hann?

Af stefnum og straumum í opinberri umræði mætti ætla að svo væri. Svo dæmi sé tekið þá birtist nýlega pistill í dagblaði með slíkum hrærigraut af rangfærslum og ómaklegum árásum á kirkjuna að hefði það ekki verið Þjóðkirkjan sem var til umfjöllunar heldur til dæmis samfélag múslima á Íslandi hefði greinin þegar í stað – með réttu – verið úthrópuð sem stæk og óverjandi íslamófóbía. En svona liggja línurnar í rétthugsun samtímans. Það er ekki í tísku að hafa samúð með kirkjunni. Hinn samfélagslegi þrýstingur er ekki inn í hana heldur frá henni.

Þeim mun hjákátlegra finnst mér það þegar ég heyri að það beri á einhvern hátt vott um skort á sjálfstæðri hugsun vilja tilheyra kirkjunni. Að það að játa Jesú sem frelsara sinn beri vott um einhvers konar hjarðhegðun nú á dögum. Að það að vera uppsigað við kirkju og trúarbrögð sýni að viðkomandi sé óhræddur við að storka ríkjandi og viðteknum skoðunum, rétt eins og það séu trúleysingjarnir og kirkjuhatararnir sem séu með storminn í fangið í opinberri umræðu í samfélagi okkar. Svo er ekki. Það er kirkjan sem er með storminn í fangið.

Tindur normalkúrfunnar

Sá sem hreykir sér af trúleysi sínu nú á dögum er að hreykja sér á tindi normalkúrfunnar. Ekki svo að skilja að þar sé ekki margt ágætt fólk. Fólk er upp til hópa vel innrætt og vill vel og tindur normalkúrfunnar væri ekki tindurinn ef þar væri ekki hlutfallslega mest af því indæla fólki sem við manneskjurnar erum upp til hópa í hjarta okkar, þótt við getum síðan bitist eins og hundar og kettir um ágreiningsefni okkar. Það er ekkert að því að vera trúlaus ef maður er góð manneskja.

En að það beri vott um ónæmi fyrir jafningjaþrýstingi er fráleitt.

Þess vegna dáist ég að ungmennunum sem eru virk í kristilegu starfi, taka lifandi þátt í æskulýsstarfi kirkjunnar. Árlega koma hundruð unglinga af öllu landinu saman á landsmóti Æskulýðssambands Þjóðkirkjunnar og er það aðeins lítill hluti þeirra sem sækja starfið af kappi. Af hverju gera þessir krakkar það? Af því að það er svo hipp og kúl? Af því að það þykir almennt svo töff að vera kristinn? Af því að það er svo líklegt til vinsælda í hópi jafnaldranna?

Spyrjum okkur sjálf: Hvort skyldi vera líklegra til að hafa neikvæð áhrif á félagslega stöðu ungmenna, að hafna trúnni, hæðast að trúarbrögðunum og gera lítið úr starfi kirkjunnar eða að koma út úr skápnum sem kristin manneskja sem játar Jesú Krist sem leiðtoga lífs síns? Í hvora áttina er jafningjaþrýsingurinn sem er svo sérstaklega áhrifamikill einmitt á þessu mikla mótunarskeiði unglingsáranna? Hvor er töffarinn og hvor á á hættu að vera álitinn eitthvað skrýtinn? „Jesúhoppari“ eða jafnvel „trúarnöttari“? Hvor er að taka félagslega áhættu? Hvor er að standa með sjálfum sér og hvor er að fylgja straumnum?

Andinn í kirkjunni

Það skortir ekki andann í kirkjunna. Ef svo væri hefði hún lagt upp laupana í því mótlæti sem mætir henni um þessar mundir. Á hverjum degi iða kirkjur landsins af lífi og starfi. Börn, unglingar og eldri borgarar sækja í uppbyggjandi og andlega nærandi samveru undir þaki hennar. Fólk á öllum aldri sækir huggun og sálgæslu til presta hennar sem flestir fara í hverri viku víða um sókn sína að vera með helgistundir hjá þeim sem eiga erfitt með að sækja helgihaldið í kirkjunni, á sjúkrastofnanir, hjúkrunarheimli eða ýmiss konar sambýli. Og fólk sem á undir högg að sækja í samfélagi okkar, fólk sem býr við skort og neyð hér í landi allsnægtanna, leitar til kirkjunnar eftir aðstoð og fær hana. Eitt lítið inneignarkort í Bónus frá Laugarneskirkju gerði það að verkum að sorglega margir hér í þessari sókn gátu haldið jól. Og samskot sóknarbarna í messum voru líka nýtt til að hjálpa þeim sem á því þurftu að halda að leysa út nauðsynleg lyf sem fólk hafði ekki efni á.

En stöldrum nú við.

Hið tóma steinker

Álpaðist ég ekki akkúrat í þessum töluðum orðum beint ofan í stærsta tóma steinkerið í samfélagi okkar?

Af hverju er kirkjan að leysa út geðlyf fyrir fólk sem er með greiningu og uppáskrift frá lækni upp á að það þurfi á þeim að halda til að geta liðið nokkurn veginn sæmilega vel? Hversu gríðarlega mikil ónauðsynleg þjáning á sér stað, bæði fyrir hina veiku og aðstandendur þeirra, hve mikil vanlíðan og sálarkvalir sem hægt væri að koma í veg fyrir, af því að hinir veiku eru ekki aflögufærir um þessa þúsundkalla sem það kostar að leysa lyfin út – á sama tíma og ráðamenn þjóðarinnar verða uppvísir að því að koma milljörðum af sínu eigin fé úr landi með vafasömum hætti, innherjaupplýsingum og jafnvel skjalafölsunum, án þess að það hafi neinar afleiðingar fyrir þá?

Hvenær verður samfélag okkar með þeim hætti að læknar þurfi á leið sinni í vinnuna að klofa yfir lík fólks sem látist hefur úr auðlæknanlegum sjúkdómum af því að það hafði ekki efni á aðhlynningunni? Kannski finnst einhverjum ég vera að draga upp langsótta hryllingsmynd, en að mínum dómi er það öðru nær. Þróunin er í þessa átt og ef henni verður ekki snúið við er það ekki spurning um hvort þetta verði veruleikinn heldur hvenær.

Hversu margir í samfélagi okkar ná ekki að lifa lífi sínu til fullnustu vegna þess að þegar kemur að þeim er samfélag okkar þurrbrjósta, andi mannúðar og náungakærleika er ekki til staðar?

Það er ekki í kirkjunni sem andinn er urinn.

Tómu steinkerin okkar eru annars staðar.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 19. 1. 2020

(lag: Sveinbjörn I. Baldvinsson/texti: D. Þ. J. upp úr 2Mós 20.1-17)

 

boðorðinEkki skaltu annan hafa Guð

og aldrei bendla nafnið hans við stuð.

Hvíldardaginn heilagan haltu, vinur góður.

Heiðra skaltu föður þinn og móður.

Morð að fremja synd er svaka stór

og sömuleiðis það að drýgja hór.

Ekki skaltu stela og ekki heldur ljúga

og ekki hafa girnd til giftra frúa.

 

Þessi boðorð þau eru svo ágæt.

Þeim er ætlað að passa mann

svo manni geri enginn neitt.

Þeim er ætlað að passa mann.