Feeds:
Færslur
Athugasemdir

shame_79247a65-22c3-497f-b54f-63145f9f58bbNáð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Í dag fögnum við degi sem kallaður er boðunardagur Maríu. Í Lúkasarguðspjalli greinir nefnilega frá því að Guð hafi sent Gabríel erkiengil á fund Maríu til að tilkynna henni að hún væri barnshafandi. Hún svaraði að það gæti ekki verið þar sem hún hefði aldrei karlmanns kennt, en Gabríel svaraði að ekkert væri Guði um megn.

Í frásögninni er ekki tilgreint hvenær þetta gerðist, en þar sem við fögnum fæðingu Jesú í endaðan desember var í fyrndinni dregin sú ályktun að þetta hefði gerst níu mánuðum fyrr, þá hafi Jesúbarnið komið undir. Því þótt Guði sé ekkert um megn datt þeim frómu kirkjufeðrum … takið eftir því: feðrum … ekki í hug að Guð sæi ástæðu til að stytta meðgönguna hjá unglingsstúlku sem hann gerði barnshafandi að henni óforspurðri og án þess að hún hefði aðhafsts neitt af því tagi sem alla jafna leiðir til þungunar.

María tók fréttunum furðu vel og skömmu síðar fór hún með lofgjörðina sem er guðspjallstexti dagsins. Hann kallast á við lofgjörð Hönnu úr Fyrri Samúelsbók, sem við heyrðum lesna sem lexíu. Kringumstæður Hönnu voru ólíkar Maríu. Hanna hafði verið gift góðum manni alllengi, Elkana að nafni, en þeim hafði ekki orðið barna auðið, en Elkana átti syni með annarri eiginkonu. Áþján Hönnu var því nokkur og hún þráði ekkert heitar en að verða barnshafandi.

Valdefling smælingjanna

Báðar fara þessar konur með lofgjörð þegar þeim verður ljóst að þær bera barn undir belti. Og áhugavert er að skoða í hverju lofgjörð þeirra er fólgin. Þær minnast lítið, nánast ekkert, á barnið í móðurlífi þeirra en tilgreina báðar þess í stað félagslegt réttlæti og valdeflingu hinna smáu, sem dæmi um máttarverk Drottins. „Hann lyftir hinum auma úr duftinu og hefur hinn snauða úr skarninu,“ (1Sam 2.8a) segir Hanna og María segir: „Valdhöfum hefur hann steypt af stóli og upp hafið smælingja. (Lúk 1.52) Það er ljóst að báðar líta þær á þungunina sem valdeflingu fyrir sig, lífskjarabót. Það er auðvitað afar skiljanlegt í tilfelli Hönnu. Fyrir Maríu var þetta aftur á móti flóknara. Hún var í töluvert erfiðari stöðu því við vitum ósköp vel hvernig samfélagið sem hún lifði í tók á hórdómssök, sem þungun án hjónabands var auðvitað óyggjandi sönnun fyrir.

En ég held að við ættum í tilefni af boðunardegi Maríu að velta öðru fyrir okkur.

Af hverju þurfti þetta að vera svona?

Af hverju mátti Jesús ekki bara eiga jarðneskan föður og hafa verið getinn á eðlilegan, líkamlegan hátt utan hjónabands?

Félagsleg staða Jesú

Sú kenning hefur verið sett fram að sagan um meyfæðinguna hafi orðið til til að bregðast við orðrómi andstæðinga frumkristindómsins um að Jesús hafi verið afurð hneykslanlegs ástarsambands Maríu og sýrlensks hermanns úr liði Rómverja, Pantera að nafni. Það mátti auðvitað ekki.

Við göngumst við því að Jesús hafi ekki verið úr liði broddborgara. Hann var fátækur smiður, úr lágstétt samfélagsins. Við játum að hann hafi fæðst í fjárhúsi eins og hver annar búpeningur og verið lagður í jötu sem ætluð var undir skepnufóður. Við viðurkennum meira að segja að hann hafi verið flóttamaður í Egyptalandi, að foreldrar hans hafi flúið pólitískar ofsóknir í heimalandi sínu til að bjarga lífi snáðans. Við játum hiklaust að hann hafi á flestan hátt deilt hlutskipti með þeim valdlausu og óhreinu sem enn eru á meðal okkar og við viljum sem minnst vita af; börnunum í flóttamannabúðunum og bátskænunum á Miðjarðarhafinu.

En að hann hafi verið ástandsbarn … þar drögum við strikið.

Þess í stað var hann getinn flekklausum getnaði án aðkomu mennsks karlmanns. Kristindómnum hefur í gegnum tíðina þótt auðveldara að trúa því heldur en hinu, að hann hafi orðið til með sama hætti og þú og ég. Þetta hefur gengið svo langt að meira að segja þurfti á einhverjum tímapunkti að setja fram kenningu um flekklausan getnað Maríu líka, þannig að Jesús, sem var fullkominn maður, var samt kominn niður í 25% mennsku að ætterni og uppruna. Hann var sonur Guðs og mennskrar konu … sem var dóttir Guðs.

Allt annað en að frelsarinn hafi verið bastarður. Flóttamaður, já. Fátæklingur, já. Fæddur í heiminn undir sömu kringumstæðum og húsdýr, já. En óskilgetinn? Guðlast!

Af hverju þurfti þetta að vera svona?

Sjötta boðorðið

Ég held að það sé löngu tímabært að við göngumst við því og biðjumst á því afsökunar að kristinn trúararfur hefur í gegnum aldirnar verið gegndrepa af tepruskap og tvískinnungi þegar kemur að mannlegri kynhegðun. Tepruskap og tvískinnungi sem skaðað hefur fjölda manns og skert lífsgæði þeirra, einkum kvenna.

Sjötta boðorðið hefur verið túlkað skrifræðislega, ekki andlega. Þar segir einfaldlega: „Þú skalt ekki drýgja hór.“ Og hórdómur hefur verið skilgreindur út frá stimplum og vígslum, ritúölum og opinberri hjúskaparstöðu, en ekki út frá tilfinningum, trúnaði, heitorðum og því sem býr í hjarta manna og gerir samband tveggja einstaklinga, sem fella hugi saman, að einhverju því göfugasta og fegursta sem mannsævin býður upp á og við köllum ást. Það eina sem gæti mögulega jafnast á við þá sælu er þegar þessi ást ber ávöxt í lítilli manneskju þar sem elskendurnir eru orðnir eitt og sama holdið.

Af hverju gat Jesús ekki hafa orðið til með þeim yndislega, fallega og mennska hætti – og samt verið okkur sá sem hann er?

Sem betur fer eru þessi teprulegu, kynfælnu viðhorf á undanhaldi. Við göngumst núorðið – flest allavega – við kynverund mannsins sem óaðskiljanlegum hluta heilbrigðrar mennsku. Og við Íslendingar virðumst öðrum þjóðum fremur vera tiltölulega afslappaðir gagnvart sjötta boðorðinu eða að minnsta kosti ekki leggja í það hinn skrifræðislega skilning, ef marka má tölu óskilgetinna barna … það er barna foreldra sem ekki eru í viðurkenndu og fullgildu hjónabandi. Enda hefur að minnsta kosti einn bandarískur sjónvarpsprédikari, sem komst í þessa tölfræði, kallað okkur „þjóð bastarða“.  Í sömu prédikun kallaði hann Ísland reyndar „feminískt helvíti“ því hann hafði líka kynnt sér stöðu jafnréttismála hérlendis.

En við þurfum ekki að fara neinar aldir aftur í tímann til að það hefði þótt hneykslanlegt að íslenskur prestur byggi í óvígðri sambúð sem leitt hefði af sér tvö óskilgetin börn, eins og tilfellið er með þann sem hér stendur. Og sjálfsagt eru enn einstaklingar á meðal okkar sem finnst það ekki við hæfi, en ég held að þeir séu fáir og að þeim fækki ört.

Um tepruskapinn þarf ekki að þrátta.

Pappírarnir og hjartað

En hvar er tvískinnungurinn?

Hann er í því fólginn að hvað eftir annað snýr kristindómurinn bókstaf lögmálsins á hvolf. Jesús segir sjálfur að hvíldardagurinn hafi orðið til fyrir manninn en ekki maðurinn fyrir hvildardaginn, að mannssonurinn sé herra hvíldardagsins, ekki öfugt. Reglur eru til fyrir fólk, ekki fólk fyrir reglur. Og Páll postuli, sem kallaður hefur verið fyrsti guðfræðingurinn, þrástagast á því sem hann kallar „umskurn hjartans“ í trúardeilum fyrstu aldarinnar um það hvort kristnir menn eigi að vera bundnir umskurnarskyldu lögmáls gyðinga eða ekki. Hann hafnar því alfarið, segir að Guð horfi á hjarta mannsins, ekki … önnur líffæri.

Það er tvískinnungur að halda að Guð leiti að hórdómssök í hjúskaparvottorðum en ekki í hjörtum mannanna, en halda að hann leiti allra annarra synda þar. Að taka sjötta boðorðið út fyrir sviga og halda því fram að grundvallaratriði kristinnar guðfræði og siðfræði eigi við um allar syndir nema það … er tvískinnungur.

Nú kynnu einhverjir að súpa hveljur og halda að ég sé að hallmæla hjónabandi eða að boða að það sé tilgangslaust og merkingarlaust. Svo er alls ekki. Heilagt hjónaband er einmitt heilagt af því að ástin er heilög, af því að Guð elskar heiminn og við erum sköpuð í mynd Guðs og ástin í hjörtum okkar er neisti af kærleika Guðs til okkar. Og eins og sönn trú hjartans hlýtur að birtast í verkum getur sönn ást birst í því að ganga fram fyrir altari Guðs með sínum heittelskaða eða heittelskuðu og bindast þar ástarböndum frammi fyrir Guði og mönnum. Ég er bara að benda á að hjúskparstöðuvottorð segir ekki alla söguna um hjörtun í okkur.

Æðsta boðorðið

Við kristnir menn eigum eitt boðorð sem felur öll hin í sér: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum mætti þínum og öllum huga þínum og náunga þinn eins og sjálfan þig.“ (Lúk 10.27) Sá sem elskar náunga sinn rænir hann ekki, myrðir eða lýgur upp á hann. Og sá sem elskar náunga sinn eins og sjálfan sig kemur fram við hann og sjálfan sig af tilfinningalegri ábyrgð í kynhegðun sinni eins og allri annarri hegðun. Sá sem elskar náungann eins og sjálfan sig nýtir sér ekki valdastöðu eða valdaójafnvægi í kynferðislegum tilgangi. Sá sem elskar náungann og sjálfan sig niðurlægir hvorki sjálfan sig né hann í kynhegðun sinni frekar en nokkru öðru atferli.

Við kristnir menn eigum líka gullna reglu sem hljóðar svo: „Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður það skuluð þér og þeim gjöra.“ (Matt 7.12) Þetta dekkar allt. Þetta nær yfir að sýna heilindi og virða trúnað, að hafa sjálfsvirðingu og misbjóða henni ekki í skiptum fyrir viðurkenningu eða vinsældir. Þetta nær meira að segja yfir hefndarklám, druslusmánun og kynferðislega áreitni.

Kannski er tímabært að við endurskilgreinum hugtakið „hórdóm“, þá athöfn að „drýgja hór“ eins og sjötta boðorðið orðar það. Að við hættum að skilgreina það, eitt boðorða, út frá pappírum – hjúskaparstöðuvottorðum og kirkjubókum – og skilgreinum það í staðinn út frá frelsara okkar sjálfum, hinum óskilgetna Galíleumanni sem á allan hátt stakk sér á kaf í hið mannlega hlutskipti til að færa okkur ljós lífsins. Að við skilgreinum það út frá hinu æðsta boðorði: Elskaðu náunga þinn eins og sjálfan þig.

Ef María hefði lifað í þannig samfélagi hefði enginn engill þurft að birtast henni og segja henni að þetta yrði allt í lagi.

Hún hefði aldrei þurft að hafa áhyggjur af því að það yrði það ekki.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 7. 4. 2019

disco saves(Lehrer/D. Þ. J.)

 

Sanna auðmýkt sýndu hér

með sálmabók í hendi þér.

Bljúg í hjarta bæn þín sé

og beygðu hné, beygðu hné, beygðu hné.

 

Máttur Guðs er aldrei urinn

uppástendur prófasturinn.

Frá Líbýu til Laos

ljúfur, miskunna oss,

dansandi Þjóðkirkjudans.

 

Horfum stjörf á helgimyndirnar,

höfði lútum, játum syndirnar.

Fyrirgefning fín og þægileg

fæst ef iðrunin er nægileg.

Öllu slæmu er okkur henti

eyðir heilagt sakramenti.

Einn, tveir, þrír, fjór.

Messuvín er betra en bjór.

 

Sanna auðmýkt sýndu hér

með sálmabók í hendi þér.

Bljúg í hjarta bæn þín sé

og beygðu hné, beygðu hné, beygðu hné.

 

Trúar mikinn mögnum neista,

meyrari en biskupseista.

Ave Maria!

Opnar veröld nýja

fróm bæði og fróð kirkjan,

falleg og góð kirkjan.

Því stígur Þjóðkirkjan dans.

bendandi fingurNáð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Stundum kemur setning, sem að mínu mati er ein ósanngjarnasta setning Biblíunnar upp í huga minn. Þetta gerist einkum þegar ég ræði við fólk sem líður illa vegna brotinna samskipta sem oft orsakast af óboðlegum aðbúnaði í uppvextinum, svo sem drykkjuskap og óreglu foreldra með tilheyrandi andlegu og stundum líkamlegu ofbeldi. Foreldrarnir höfðu þá undantekningalítið sjálfir haldið laskaðir út í lífið frá heimili þar sem andlegum og tilfinningalegum þörfum þeirra var ekki sinnt af foreldrum sem maður ímyndar sér að hafi enn og aftur verið vannærðir tilfinningalega allan sinn þroskaferil og þannig koll af kolli. Stundum fæ ég það á tilfinninguna að þjáning af völdum getuleysis til að eiga eðlileg og nærandi samskipti gangi í gegn um ættir eins og illur arfur kynslóð fram af kynslóð.

Ég efast um að þetta sé eitthvað nýlegt fyrirbæri í samfélagi manna. Svona hefur þessu áreiðanlega verið farið frá alda öðli.

Hinir fornu Hebrear höfðu Guðsmynd allólíka þeirri sem við flest gerum okkur í dag. Í þeirra huga var Guð einfaldlega valdur að öllu, hann skrifaði framvindu sögunnar, bæði hið góða og slæma. Uppskerubrestur var refsing Guðs og góðæri var umbun Guðs. Ef herinn tapaði orrustu var Guð að hegna honum, ef hann vann var það Guð sem gaf sigurinn.

Hvernig upplifir fólk með slíka Guðsmynd þetta arfgengi þjáningarinnar sem ég var að lýsa? Er hugsanlegt að það myndi leggja Guði orð í munn á borð við: „Ég refsa niðjum í þriðja og fjórða lið fyrir sekt feðra þeirra sem hata mig.“ (2Mós 20.5)

Það er gömul staðreynd og ný að syndir feðranna koma niður á börnunum. Það er líka óskaplega ósanngjarnt.

Er Guð ósanngjarn?

Boð og bönn

Við heyrðum boðorðin tíu lesin áðan. Í fullri lengd. Myndbannið líka, boðorðið sem kristnir menn eru stundum, með nokkrum rétti, sakaðir um að hafa ritskoðað burt. Þetta er langur lestur og Guð kann að virðast kröfuharður og ósveigjanlegur húsbóndi.

Sjálfum þótti mér Guðsmyndin sem þarna kemur fram mjög fráhrindandi megnið af mínum andlega þroskaferli. Þessi Guð valdboðsins að ofan, Guð reglna sem skikka okkur til að bæla tilfinningar okkar og kenndir, Guð hins bendandi fingurs sem byrjar allar setningar á „Þú skalt ekki …“, Guð boða og banna – hann er ekkert mjög aðlaðandi.

Ég átti tal við einn kollega minn í vikunni og hann sagði frá upplifun sinni af því að horfa á son sinn spila fótbolta við jafnaldra sína á skólalóðinni. Hvað var það fyrsta sem þeir gerðu? Sem þurfti að gera áður en leikurinn gat hafist? Jú. Það þurfti að koma sér saman um reglur. Hvenær er boltinn kominn út af? Hvar eru mörkin? Hvað leyfist markmanninum? Má hann taka boltann með höndum?

Þetta var nauðsynlegt til að hægt væri að hafa gaman af leiknum. Það gengur ekki að sá sem á boltann setji bara reglurnar jafnóðum eftir því sem hentar honum. Að sá stærsti og sterkasti, feitasti og frekasti í hópnum fái að tuddast og brjóta á öðrum og við því sé ekkert hægt að gera.

Eðlileg og heilbrigð samskipti krefjast þess að um þær gildi reglur. Og þótt okkur geti fundist reglurnar sem Guð setur okkur með borðorðunum tíu ósanngjarnar gagnvart okkur þá held ég að við myndum nú flest vilja lifa í samfélagi þar sem aðrir fara eftir þeim.

Friðhelgi

Lykillinn að þessum reglum er að þær gilda um alla. Ekki bara um bændur og búalið, þurfalinga og þjónustufólk heldur líka um háu herrana. Líka um þann sem á boltann og þann sem gæti neytt aflsmuna til að hafa sitt fram á kostnað hinna.

Og um hvað eru þær?

Þær eru um friðhelgi.

Þú skalt ekki stela, þú skalt ekki girnast eigur náunga þíns. Eigur þínar eru friðhelgar.

Þú skalt ekki drýgja hór. Þetta hefur minnst með kynlíf  og kynhvöt að gera, stimpla, vígslur og skráningu hjúskaparstöðu í þjóðskrá. Þetta snýst um að virða trúnað, að standa við heitorð. Tilfinningalíf þitt, fjölskyldulíf þitt er friðhelgt.

Þú skalt ekki ljúga upp á aðra. Mannorð þitt er friðhelgt.

Þú skalt hvíla þig einn dag í viku. Og ekki bara þú. Þjónar þínir og jafnvel útlendingarnir, heiðingjarnir sem dvelja hjá þér, skulu fá að hvíla sig einn dag í viku. Þú átt ekki að þræla þér út. Mannleg reisn þín er friðhelg.

Og það eru ekki bara samskipti þín við aðra sem varin eru í þessum reglum. Samskipti þín við Guð eru það líka. Sálarheill þín er friðhelg.

Þú skalt ekki falla fram og tilbiðja dauða hluti, ekki telja þér trú um að Guð búi í gullstyttu eða steinlíkneski, að hamingjuna sé að finna í steinsteypu eða stáli. Þú skalt ekki aðra Guði hafa. Því hvernig ætti lifandi Guð að geta tekið sér bólfestu í dauðum hlut? Við erum sköpuð í mynd Guðs. Öll. Þess vegna eigum við ekki að búa okkur til dauðar myndir af honum heldur koma hvert fram við annað eins og Guðsmyndirnar sem við erum – líka útlendingana sem dvelja meðal okkar.

Lögmál hjartans

Þetta eru góðar reglur. En eru þær nauðsynlegar? Gerir gott fólk þetta ekki af sjálfu sér?

Páll postuli talar í Rómverjabréfinu um að heiðingjar sem aldrei hafi heyrt lögmálsins getið hafi það skráð í hjörtu sín ef þeir breyta samkvæmt því af eðlisávísun. Það verður enginn hólpinn af því að hafa þetta lögmál, menn verða hólpnir af því að breyta samkvæmt því, hvort sem þeir hafa það fyrir framan sig á prenti eða ekki, hvort sem þeir hafa svarið eið að því að fylgja því eða ekki.

Það verður enginn saddur af því að lesa uppskrift að brauði. Það þarf að gera það sem stendur í uppskriftinni. Það er brauðið sem gerir menn sadda, ekki uppskriftin.

Þetta er góð uppskrift. En það þarf að baka brauðið og þá gildir einu hvort eða hvernig uppskriftin er fengin.

Það er aðeins einn galli á þessum reglum. Þær klifa á syndinni.

Í Rómverjabréfinu fullyrðir Páll postuli beinlínis að lögmálið hafi vakið með honum synd með því að útskýra hvað í hugtakinu felst fyrir honum, að án lögmálsins hefði hann aldrei vitað hvað synd væri. „Ég hefði ekki vitað um girndina hefði lögmálið ekki sagt: „Þú skalt ekki girnast,“ segir hann. (Róm 7.7) Þessar reglur segja hvað ber að forðast, ekki að hverju ber að stefna.

Jesús stillir þessu öðruvísi upp. Hann er spurður að því hvert sé æðsta boðorðið og hann leitar ekki fanga í boðorðunum tíu heldur vitnar í 6. kafla 5. Mósebókar þar sem segir: „Þú skalt elska Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og af öllum mætti þínum.“ Svo bætir hann við setningu úr 19. kafla 3. Mósebókar: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ Þetta er kallað tvöfalda kærleiksboðorðið og er bein tilvitnun í lögmál gyðinga.

En þetta eina kærleiksboðorð er kannski í rauninni þrefalt þegar grannt er skoðað.

Eitt eða tíu?

Galdurinn við þetta æðsta boðorð okkar kristinna manna er að það felur öll hin tíu í sér – án þess að minnast einu orði á syndina. Lygar, hórdómur, morð, þjófnaður og skurðgoðadýrkun … ekki eitt orð um neitt af þessu. Elskaðu Guð og náungann eins og sjálfan þig. Einfalt. Ein regla, ekki tíu. Við þurfum bara eitt boðorð.

Því sá sem raunverulega elskar Guð … hann tilbiður ekki dauða hluti, hann telur sér ekki trú um að gull eða steypa  geti gert hann hamingjusaman. Sá sem raunverulega elskar náunga sinn … hann er ekki að ljúga upp á hann eða stela frá honum.

En stöldrum við niðurlagið. „Eins og sjálfan þig?“

Þýðir það að ef ég elska sjálfan mig ekki þá sé ég stikkfrí frá því að elska aðra? Nei. „Eins og“ þýðir ekki „jafnmikið og“ heldur „sem og“. Það að við eigum að elska náungann eins og okkur sjálf þýðir að við eigum að elska okkur sjálf eins og náungann.

Sjálfselska hefur í gegn um tíðina þótt löstur, flokkast undir synd en ekki dyggð. En í raun skikkar þetta boðorð okkur til að elska okkur sjálf … ekki á kostnað annarra, ekki með leti og sérhlífni. Heldur að sýna okkur sjálfum sömu virðingu og eðlilegt er að sýna öðrum.

Þetta er nefnilega snúið. Margoft hef ég orðið vitni að skyldurækni sem fer út í hreinar öfgar. Fólk sem leggur á sjálft sig hluti sem það myndi aldrei leggja á aðra, hvorki sína nánustu né undirmenn sína. Fólk sem gerir kröfur til sjálfs sín sem það myndi aldrei gera til annarra. Fólk sem á erfitt með að fyrirgefa sjálfu sér hluti sem það er meira en reiðubúið til að fyrirgefa öðrum.

En Jesús segir: „Berðu sömu virðingu fyrir þér og þú berð fyrir öðrum, sýndu sjálfum þér sömu tillitsemi.“

Sjálfsvirðing þín er friðhelg.

Einn Guð

Jesús Kristur er ekki að segja okkur frá einhverjum allt öðrum Guði en þeim sem talar við okkur í boðorðunum tíu. Hann er að tala um nákvæmlega sama Guð, sömu reglur. Virtu friðhelgi sambands þíns við Guð, virtu friðhelgi mannlegrar reisnar þinnar og annarra, virtu tilfinningalíf þitt og annarra, virtu heit þín og annarra. Virtu sjálfan þig … og aðra.

En Jesús segir okkur allt öðruvísi frá þessum Guði. Jesús sýnir okkur ekki Guð hins bendandi fingurs sem dæmir okkur fyrir að bregða út af boðum hans. Jesús sýnir okkur Guð hins opna faðms sem segir: „Komið til mín, þið sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita ykkur hvíld.“ (Matt 11.28)

Og hann kallar okkur ekki í þennan náðarfaðm með því að banna okkur neitt heldur með því að bjóða okkur eitt:

Elskaðu!

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 24. mars 2019

 

Guðspjall: Þeir komu til Jeríkó. Og þegar Jesús fór út úr borginni ásamt lærisveinum sínum og miklum mannfjölda sat þar við veginn Bartímeus, sonur Tímeusar, blindur beiningamaður. Þegar hann heyrði að þar færi Jesús frá Nasaret tók hann að hrópa: „Sonur Davíðs, Jesús, miskunna þú mér!“ Margir höstuðu á hann að hann þegði en hann hrópaði því meir: „Sonur Davíðs, miskunna þú mér!“ Jesús nam staðar og sagði: „Kallið á hann.“ Þeir kalla á blinda manninn og segja við hann: „Vertu hughraustur, statt upp, hann kallar á þig.“ Blindi maðurinn kastaði frá sér yfirhöfn sinni, spratt á fætur og kom til Jesú. Jesús spurði hann: „Hvað vilt þú að ég geri fyrir þig?“ Blindi maðurinn svaraði honum: „Rabbúní, að ég fái aftur sjón.“ Jesús sagði við hann: „Far þú, trú þín hefur bjargað þér.“ Jafnskjótt fékk hann sjónina og fylgdi honum á ferðinni. (Mrk 10.46-52)

úlfurNáð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Homo homini lupus, segir latneskt máltæki. Það má þýða bókstaflega sem „Maður er manni úlfur“.

Þarna er ansi ömurleg mannsmynd á ferðinni og sannast sagna, að því er ég best veit, býsna ósanngjörn úlfsmynd líka. Mér skilst að mönnum stafi alla jafna lítil ógn af úlfum í raunveruleikanum, að flest ef ekki öll illvirki þeirra séu unnin í ævintýrum.

Hvað um það. Merking máltækisins er ljós: „Hættulegustu skepnurnar sem herja á menn eru aðrir menn.“ Og víst er að þegar veröldin er skoðuð getur margt rennt stoðum undir þá mynd af heiminum. Ekki síst á dögum eins og þessum þegar við erum ekki búin að jafna okkur á fréttum af því að vitfirringur hafi gengið berserksgang hinum megin á hnettinum og myrt með köldu blóði tugi manna, meðal annars börn, fyrir þær sakir að honum fannst honum standa ógn af þeim vegna uppruna þeirra og trúarbragða. Ógn. Af fjögurra ára barni sem var skotið í bakið. Hvílík grimmd, hvílík illska. Manni fallast hendur. Maður er manni úlfur.

Og hér uppi á Íslandi er fólk sem lætur í ljós ánægju sína með athæfið, ekki bara í einkasamtölum sem það vill ekki að fari hátt, heldur undir fullu nafni og mynd í athugasemdakerfum netmiðla. Auðvitað spyr maður sig hvað vanti bæði í hjartað og hausinn á slíku fólki.

Það þarf ekki að leita logandi ljósi að ljótleikanum í heiminum. Hann blasir við okkur. Það þarf að grafa ansi djúpa holu og hafast við í henni alllengi til að hann fari fram hjá manni.

En er það þá maðurinn? Úlfur … eins og þessir í ævintýrunum, ekki þessir í raunveruleikanum? Erum við blóðþyrst skrímsli? Hvert annars verstu óvinir?

Ubuntu

Það er til önnur mannsmynd.

Ég rakst nýlega á hugtak sem hefur verið mér hugleikið æ síðan. Það er úr tungumáli hinna afrísku Bantú manna og lýsir mannskilningi þeirra. Orðið yfir hana er „ubuntu“. Suðurafríski mannvinurinn og kennimaðurinn séra Desmond Tutu hefur lagt út af henni með hætti sem ég treysti mér ekki til að endurtaka.

En þetta orð má útleggja: „Menn gera menn að mönnum.“

Samkvæmt þessari speki eru menn ekki úlfar öðrum mönnum heldur kennarar og fyrirmyndir. „Ubuntu“ hefur verið þýtt „Ég er af því að við erum.“ Og ég er maður af því að ég er hér með ykkur.

Við þekkjum sögur af börnum sem alist hafa upp meðal dýra. Ekki bara úr ævintýrum heldur í raunveruleikanum. Þau urðu aldrei að mönnum, þau gengu ekki upprétt, þau töluðu ekki. Börn hafa alist upp af úlfum og hegðað sér á allan hátt eins og úlfar. Mógli er lygi. Falleg og skemmtileg lygi, en lygi engu að síður. Tarzan apabróðir er líka lygi. Hann hefði aldrei orðið neitt annað en Tarzan api.

Það sem gerir okkur að mönnum er aðrir menn.

Við eigum val um hvaða afstöðu við tökum. Hvort við mætum hvert öðru með tortryggni og ótta, hvort við sjáum aðeins úlfinn í náunga okkar eða hvort við sjáum okkar minnstu bræður og systur í honum. Því staðreyndin er sú að í okkur flestum blundar bæði úlfur og maður. Hvorn sýnum við? Hvorn sjáum við í náunga okkar?

Hvorn kallar samfélag okkar á?

Homo homini lupus eða Homo homini Jesus? Menn frelsa menn.

Menn frelsa menn

Í guðspjalli dagsins sjáum við menn frelsa menn.

Takið eftir því að menn færa blinda manninn til Jesú. Þetta er gegnumgangandi stef í lækningafrásögnum Markúsarguðspjalls. Jesús á sjaldnast frumkvæðið. Þeir sem koma til hans gera það gjarnan fyrir hönd annarra. Fjórir menn koma með lamaðan vin sinn og þegar þeir komast ekki að Jesú láta þeir hann síga niður um þekjuna. (2.3-4) Jaírus samkundustjóri kemur fyrir hönd fársjúkrar og deyjandi dóttur sinnar. (5.22-23) Menn færa blinda menn til Jesú í tvígang. (8.22, 10.49) Örvæntingarfullur faðir færir honum son sem haldinn er illum anda. (9.17) Á einum stað segir:

„Hvar sem Jesús kom í þorp, borgir eða bæi lögðu menn sjúka á torgin og báðu hann að þeir fengju rétt að snerta fald klæða hans“ (6.56)

Menn lögðu þá á torgin.

Og það er trúin sem læknar. Jesús segir aldrei: „Ég er búinn að redda þessu.“ Hann segir ítrekað: „Trú þín hefur bjargað þér.“ Og í öllum tilfellum birtist þessi trú í gjörðum. Trúin er ekki bara einhver tilfinning í hjartanu sem fólk situr með eitt og sér og út af fyrir sig úti í horni án þess að aðhafast neitt. Sönn trú knýr fólk til gjörða.

En hvað er trú?

Í Hebreabréfinu er trú skilgreind sem „fullvissa um það sem menn vona, sannfæring um þá hluti sem eigi er auðið að sjá.“ (Heb 11.1)

Um trúarhugtakið hefur margt verið ritað og það mætti ræða endalaust. Fráleitt er að ætla að gera einhverja almennilega grein fyrir því í einni lítill prédikun.

En það má leggja orð í belg.

Og mig langar að velta tvennu upp í þessu samhengi.

Afstaða

Hið fyrra er að trú er afstaða. Skýr afstaða til lífsins, til heimsins og til mannsins. Sú afstaða að sjá náungann sem bróður eða systur. Að sjá hann sem úlf er skortur á trú. Og ef það er trúin sem frelsar þá er það skorturinn á henni sem hneppir í fjötra, dæmir okkur til að dvelja í myrkri ótta, tortryggni og haturs. Gerir okkur blind á kærleikann. Gerir okkur jafnvel svo ofsahrædd við fjögurra ára börn af framandi uppruna að við veigrum okkur ekki við að myrða þau … eða fagna því að einhver annar geri það. Nærir og eflir úlfinn í okkur en svæfir manninn.

En önnur afstaða getur bjargað okkur úr þessu myrkri, gefið okkur sýn á hið góða í heiminum … og í manninum. Kallað fram það góða í okkur. Svæft úlfinn og gert okkur að mönnum öðrum mönnum.

Afstaða okkar bjargar okkur og öðrum … eða tortímir.

Við eigum val.

Hið síðara sem mig langar benda á er að það að trúa er að treysta.

Þetta er ekki langsótt líking. Að trúa er ekki „eins og“ að treysta, ekki „líkt því“ að treysta.  Á frummáli Nýja testamentisins, grísku, er sama orð notað um hvort tvegga. Pistevo. Ekki vegna þess að menn hafi notað sama orðið um tvö ólík fyrirbæri og ráða verði í samhengið til að sjá hvað átt er við hverju sinni. Nei, fyrir forngrikkjum voru þetta einfaldlega ekki tvö ólík fyrirbæri. Á þessu var enginn merkingarmundur. Að trúa á Guð var að treysta á Guð. Að trúa á hið góða … í heiminum, í manninum … er að treysta á hið góða í heiminum og manninum. Að vænta ekki eilífilega úlfsins í náunga okkar.

Jesús segir þarafleiðandi ekki bara við blinda beiningamanninn að trú hans hafi bjargað honum. Hann segir ekki síður að traust hans hafi bjargað honum. Og það sama gildir um alla hina sem Jesús læknar. Það er ekki hann … það er traust þeirra á honum.

Að trúa er að treysta

Þetta traust knýr þau til að aðhafast. Til að brjóta reglur samfélagsins og ögra viðmiðum þess. Holdsveikur maður virðir að vettugi einangrunina sem sjúkdómur hans hafði dæmt hann í. Kona með blóðlát virðir að vettugi reglur um hvað konum leyfist og lög samfélagisins sem kveða á um einangrun vegna óhreinleikans sem fylgir bágindum hennar. Og Bartímeus heldur áfram að hrópa þótt honum sé sagt að þegja, rétt eins og hann eigi einhvern rétt á því að rödd hans, réttlauss ölmusumanns, heyrist. Þau treystu og höfðu erindi sem erfiði.

Að treysta á kærleikann lætur blinda sjá, lamaða standa í lappirnar, holdsveika vera menn með mönnum. Reisir upp frá dauðum.

Og ef traustið frelsar okkur þá er það andstæða þess sem hneppir í fjötra, sem blindar innri augu okkar og dæmir okkur til eilífðarvistar í myrkri tortryggninnar. Og við þurfum ekki annað en að lesa blöðin til þess að sjá dæmi um það hvernig menn sem dvelja í myrkri ótta og tortryggni geta orðið mönnum úlfar.

Skilaboð dagsins – eins og allra daga – eru því að óttast ekki. Heldur treysta. Treysta á hið góða, velja ljósið … því það er afstaða sem við eigum val um. Og að láta þá afstöðu knýja okkur til góðra verka. Reynast mönnum menn.

Menn gera menn að mönnum

Eftir hryðjuverkin í Christchurch, borgarheiti sem hljómar eins og argasta öfugmæli þegar það er tengt við myndir af hryllingnum, sögðu margir: „Þetta er ekki Nýja Sjáland.“ Og það þótt enginn vafi leiki á að myndirnar eru frá Nýja Sjálandi skiljum við hvað átt er við. Átt er við: „Þetta er ekki það Nýja Sjáland sem við viljum byggja. Þetta er afskræming þess. Þetta er árás á það.“

Og við … við getum ekki horft upp á þessi voðaverk, yppt öxlum vegna þess að þau voru framin hinum megin á hnettinum og sagt: „Svona er lífið.“ Ekki ef við höfum valið ljósið. Ekki ef við treystum á hið góða í heiminum og í manninum. Þá horfum við á voðaverkin og segjum: „Svona er lífið ekki. Svona er dauðinn.“ Og ef við höfum valið ljósið þá höfum við valið lífið, þá trúum við á lífið og það er köllun okkar að þjóna því, að reynast mönnum menn. Og þannig verðum við og aðrir menn en ekki úlfar.

Ubuntu. Ég er af því að við erum.

Menn gera menn að mönnum.

Úlfar gera menn að úlfum.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 17. 3. 2019

Guðspjall: Jesús sagði: „Við hvað eigum við að líkja Guðs ríki? Með hvaða dæmi eigum við að lýsa því? Líkt er það mustarðskorni. Þegar því er sáð í mold er það smærra hverju sáðkorni á jörðu. En eftir að því er sáð tekur það að spretta, það verður öllum jurtum meira og fær svo stórar greinar að fuglar himins geta hreiðrað sig í skugga þess.“ (Mrk 4.30-32)

túnfífillNáð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Ég er mjög þakklátur fyrir líkingamálið sem Jesús talar í Nýja testamentinu. Hann segir nefnilega aldrei: „Himnaríki er fyrir ofan skýin. Þar er hátt til lofts og vítt til veggja sem allir eru hvítmálaðir, útidyrnar eru gylltar og þar bíður hann Pétur vinur minn eftir hinum dánu, flettir þeim upp í lífsins bók og hleypir þeim inn ef þeir eiga það skilið. Þeir sem koma inn fá hvítan kufl, vængi á bakið og kennslu í hörpuleik. Síðan sitja þeir á skýi og spila á þessa hörpu til eilífðarnóns.“

Hann segir þetta aldrei. Af einhverjum ástæðum varð þessi hugmynd samt til, en það er annað mál.

Nei, Jesús segir aldrei að himnaríki sé svona eða hinsegin. Hann segir aftur á móti hvað eftir annað: „Líkt er um himnaríki og …“ eða „Svo er um himnaríki sem …“ og í dag segir hann: „Líkt er það …“

Eftir því sem ég kemst næst segir hann aldrei að Guð eða Guðs ríki sé „eins og“ eitthvað annað. Enda er ekkert „eins og“ Guð eða himnaríki. Ekkert.

Aftur á móti er eitt og annað ekki ólíkt því … að einhverju ákveðnu leyti. Það er nefnilega þannig með líkingarnar okkar um Guð að þær brotna alltaf fyrir rest.

Hin ranga líking

Í dag er það mustarðskornið sem er ekki ósvipað Guðs ríki upp að einhverju ákveðnu marki. Og það er hlutverk okkar að skilja upp að hvaða marki líkingin gengur upp og að hvaða leyti hún er röng.

Í fyrsta lagi er líkingin röng vegna þess að lýsingar Jesú á mustarðskorni og trénu sem upp af því vex fá ekki staðist. Staðreyndin mun vera sú að mustarðskorn er alls ekki „smærra hverju sáðkorni á jörðu“. Ekki svo að skilja að það sé eitthvað risavaxið, en að það sé alsmæsta fræ sem þekkt var í Palestínu á fyrstu öldinni er bara ekki rétt. Og hitt er líka fráleitt að þegar mustarðstré vaxi úr grasi fái það „svo stórar greinar að fuglar himins geti hreiðrað sig í skugga þess.“

Þetta er runni, getur orðið mannhæðarhár, kannski rúmlega það og er í raun hálfgert illgresi. Þetta dreifði úr sér í breiðum á stöðum þar sem annað óx ekki og fræin voru vissulega lostæti fyrir fugla þannig að á vissum árstímum mátti sjá stóra sveima af þeim yfir þessum breiðum.

Þetta vissu þeir sem Jesús var að tala við. Hvernig gat hann þá komist upp með að segja svona bull?

Byrjum á að átta okkur á því að orðið „mustarðskorn“ var í daglegu tali alþýðu manna notað í merkingunni „agnarögn“ eða „pínulítið smáræði“. „Eitt mustarðskorn“ af þessu eða hinu var bara eitthvað rosalega pínkulítið af því.

Og út frá þessu heldur hann áfram og lýsir tré sem hægt væri að líkja við himnaríki. Það er að segja, mustarðstréð sem líkist himnaríki er með svo stórar greinar að fuglar himins geta hreiðrað sig í skugga þess. Og áheyrendurnir sjá fyrir sér tré sem er mjög ólíkt þeim þyrrkingslegu runnum sem þeir þekktu. Og það fylgir sögunni að þetta kraftaverkatré spretti upp af einhverju ponsulitlu smáræði.

Viðkvæmt blóm eða harðgerð planta?

Þessi saga er í fjórða kafla Markúsarguðspjalls. Í honum eru þrjár dæmisögur dregnar af jarðyrkju. Við heyrðum þá síðustu hér áðan. Sú fyrsta er þó sennilega þekktust, en þar segir frá sáðmanni sem gekk út að sá. Sumt fræið féll í grýtta jörð og visnaði, annað átu fuglar, sumt kæfðu þyrnar og sumt féll í góðan jarðveg og skilaði margfaldri uppskeru. Sú næsta er um hveitikorn.

En síðan kýs hann að slá botninn í þessar líkingar Guðs ríkis við flóru landsins með því að segja það líkjast plöntu sem óx villt, jafnvel þar sem hennar var ekki óskað, breiddi úr sér og veitti fuglum himins … tja, alla jafna ekki hreiðurstað en yfirleitt  staðgóða næringu. Plöntu sem ekki var ræktuð sem nytjajurt, plöntu sem ekki óx í beinum, snyrtilegum röðum í frjóum jarðvegi, heldur hálfgerða lúpínu.

Nú ætla ég ekki að fullyrða að Guð ríki sé eins og lúpína, enda er sú ágæta jurt of umdeild og eldfimt umræðuefni til að það sé óhætt. Ég myndi aldrei bíta úr nálinni með að ganga svo langt. Sem er svolítið leiðinlegt því að mörgu leyti er himnaríki eins og lúpína – Það er að segja, sú lúpína sem unnendur þeirrar plöntu lýsa: Falleg og lífseig jurt sem breytir eyðisöndum í frjóan jarðveg. En Guðs ríki er ekki eins og aðflutt og ágeng jurt sem eyðileggur náttúrlegt gróðurfar og ryður burt viðkvæmum og upprunalegum gróðri – sem er sú lúpína sem lúpínuhatarar lýsa. Þar sem ég hef engar faglegar forsendur til að kveða upp úr um það hvorir hafi rétt fyrir sér ætla ég ekki að hætta mér lengra í þessa átt.

Í staðinn ætla ég að líkja Guðs ríki við hinn rammíslenska og ólseiga túnfífil, sem ég hef séð brjóta sér leið upp í gegn um malbikaða göngustíga á sama tíma og rósarunni neitar að blómstra ef sýrustigið í jarðveginum er ekki nákvæmlega rétt fyrir hann. Ég treysti mér alla vega til að fullyrða að Jesú þætti túnfífillinn mun nærtækari líking við Guðs ríki heldur en rósarunninn.

Guðsríki er nefnilega ekki rósarunni. Það er ekki viðkvæmt blóm heldur harðgerð planta sem ekki lýtur stjórn og skýtur rótum þar sem henni sýnist – án tillits til deiliskipulaga og draumsýna landslagsarkítekta og skrúðgarðyrkjufræðinga.

Það sem er ekki eins og Guðs ríki

Við getum verið þakklát fyrir þetta líkingamál, hve langsótt eða jurtafræðilega ónákvæmt sem það er, vegna þess að Jesús hefði getað líkt Guðs ríki við eitthvað allt annað.

Til dæmis pálmatré.

Og víst er að til eru þeir sem vilja sjá kristindóminn sem pálmatré. Eitthvað sem er fallegt og skrautlegt, augnayndi, en fyrst og fremst þó framandi og ókunnuglegt, og umfram allt eitthvað sem getur ekki alls dafnað meðal okkar nema verndað og innilokað í glerhólkum með sínu eigin tölvustýrða loftslagi. Til eru þeir sem vilja að kirkjan taki að sér hlutverk þessara glerhólka, verndi og vökvi kristindóminn, en passi þó aðallega fyrst og síðast að hann komist ábyggilega ekki í neina snertingu við raunveruleikann fyrir utan, því það myndir ríða honum að fullu. Og svo getum við staðið í okkar norræna og pálmatrjáalausa heimskautaloftslagi, virt fyrir okkur og dáðst að þessum pínkulitlu og vernduðu sýnishornum af hinu suðræna og seiðandi í smástund, látið okkur dreyma um hvað það væri nú yndislegt ef raunveruleiki okkar væri svona, og haldið svo áfram með okkar frosti nísta og pálmatrjáalausa líf.

En kristindómurinn er ekki pálmatré. Það þarf ekki að girða hann af, loka hann inni og vernda hann fyrir umhverfinu til að hann blómstri og dafni á einhverju afmörkuðu svæði sem tekið er frá fyrir hann og meðhöndlað sérstaklega með þarfir hans í huga. Laugarneskirkja er ekki glerhólkur með sínum eigin gerviraunveruleika utan um einhverja draumsýn sem ekki fær dafnað utan veggja hennar.

Nei, kristindómurinn er túnfífillinn sem brýtur sér leið upp úr malbikaða göngustígnum hvað sem þér kann að finnast um það. Og það er gott, því það þýðir að kristindómurinn verður á vegi þínum þarna úti. Og hann kann jafnvel að valda þér óþægindum.

Þegar kærleikurinn þvælist fyrir þér

Þegar flugvélin þín til sólarlanda getur ekki lagt af stað á réttum tíma af því að eitthvað fólk er að mótmæla því að um borð séu hælisleitendur sem verið sé að flytja úr landi í trássi við alþjóðalög til landa þar sem þeim er bráð hætta búin … þá er Guðs ríkið, þar sem náungakærleikur og samkennd ráða ríkjum, að brjóta sér leið upp úr hinu slétta malbiki hins beina og breiða vegar sem þig langaði svo mikið að renna áfallalaust eftir í sumarfríið þitt og hafa það gott. Undir þeim kringumstæðum myndirðu kannski frekar vilja að náungakærleikurinn væri pálmatré í glerhólki einhvers staðar allt annars staðar þar sem þú þarft ekki einu sinni að verða var við að hann sé til.

En hann er ekki pálmatré. Hann er túnfífill.

Þegar þig langaði að halda fína veislu með fínu fólki og fínum heiðursgesti af voðalega fínu tilefni og einhver gerist svo ófyrirleitinn að hafa orð á því að heiðursgesturinn sé í raun harðsvíraður kynþáttahatari og mannréttindabrjótur og því hvorki heiður né sómi af nærveru hans og kýs jafnvel að sniðganga partíið af þeim sökum … þá er Guðs ríkið, þar sem náungakærleikur og samkennd ráða ríkjum, að brjóta sér leið upp úr fína og snyrtilega blómabeðinu þínu þar sem skrúðgarðyrkjuskipulagið þitt gerði ráð fyrir pálmatré sem myndi sýna þér þá kurteisi að brjótast ekki út úr vernduðu gerviveröldinni í glerhólknum sínum og valda þér ónæði.

Guðs ríkið … kristindómurinn … náungakærleikurinn … vex ekki í beinum og snyrtilegum röðum þar sem þér hentar, þar sem lítið fer fyrir honum og hann setur ekkert strik í reikninginn. Hann er ekki pálmatré í glerhólki sem þú getur skoðað á sunnudögum og er ekki að þvælast fyrir þér þess á milli. Kærleikurinn lætur ekki að stjórn, hann lýtur ekki skipulagi. Hann þarf ekki verndað umhverfi.

Höfundarréttur kristindómsins

En er ég ekki að hræra öllu saman? Guðs ríki, kristindómnum og kærleikanum? Eru þetta ekki aðskilin hugtök, hvert sinnar merkingar? Tengjast þau kærleiksverk, sem ég hef nefnt hér, kirkjunni eða kristindómnum eitthvað sérstaklega?

Guð er kærleikur. Það stendur í Biblíunni. Það er því ekkert rugl að tala um Guð sem kærleika og kærleika sem Guð. Þar sem kærleikurinn er að störfum, þar er Guð að verki – óháð því hvort það sé gert í Jesú nafni eða ekki, óháð því hvort það sé gert á vegum kirkjunnar eða aðeins í nafni kærleikans. Hvar sem barist er í þágu kærleikans er fólk íklætt hertygjum ljóssins.

Því Guðs ríki er ekki bara ekki pálmatré í glerhólki.

Það er ekki heldur höfundarréttarvarið strá.

Það er túnfífill.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 24. febrúar 2019

Guðspjall: Svo er um himnaríki sem mann er ætlaði úr landi. Hann kallaði á þjóna sína og fól þeim eigur sínar. Einum fékk hann fimm talentur, öðrum tvær og þeim þriðja eina, hverjum eftir hæfni. Síðan fór hann úr landi. Sá sem fékk fimm talentur fór þegar, ávaxtaði þær og græddi aðrar fimm. Eins gerði sá er tvær fékk. Hann græddi aðrar tvær. En sá sem fékk eina fór og gróf fé húsbónda síns í jörð og faldi það. Löngu síðar kom húsbóndi þessara þjóna og lét þá gera skil. Sá með fimm talenturnar gekk þá fram, færði honum aðrar fimm og sagði: Herra, fimm talentur seldir þú mér í hendur, hér hef ég grætt aðrar fimm. Húsbóndi hans sagði við hann: Gott, þú góði og trúi þjónn. Yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig. Gakk inn í fögnuð herra þíns. Þá gekk fram sá með tvær talenturnar og mælti: Herra, tvær talentur seldir þú mér í hendur, hér hef ég grætt aðrar tvær. Og húsbóndi hans sagði við hann: Gott, þú góði og trúi þjónn, yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig. Gakk inn í fögnuð herra þíns. Loks kom sá er fékk eina talentu og sagði: Herra, ég vissi að þú ert maður harður sem uppsker þar sem þú sáðir ekki og safnar þar sem þú stráðir ekki. Ég var hræddur og fól talentu þína í jörð. Hér hefur þú þitt. Og húsbóndi hans sagði við hann: Illi og lati þjónn, þú vissir að ég uppsker þar sem ég sáði ekki og safna þar sem ég stráði ekki. Þú áttir því að leggja fé mitt í banka. Þá hefði ég fengið það með vöxtum þegar ég kom heim. Takið af honum talentuna og fáið þeim sem hefur tíu talenturnar. Því að hverjum sem hefur mun gefið verða og hann mun hafa gnægð en frá þeim sem eigi hefur mun tekið verða, jafnvel það sem hann hefur. Rekið þennan ónýta þjón út í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna. (Matt 25.14-30)

fjötrar óttansNáð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Guðspjall dagsins fjallar ekki um peninga. Bara svo það sé sagt hreint út alveg strax.

Jesús er reyndar voðalega lítið upptekinn af peningum. Við játum hann vissulega sem leiðtoga lífs okkar, heitum því þegar við fermumst að ætla að „leitast við“ að hafa hann í því hlutverki í lífinu. En fjármálaráðgjöf er ekki eitthvað sem hann lagði fyrir sig. Leiðbeiningar um sparnað og vexti, ávöxtun fjármuna og skuldaálag verðum við bara að finna annars staðar en í Nýja testamentinu. Við getum leitað í dæmisöguna um eyri ekkjunnar ef okkur vantar leiðbeiningar um kristileg viðhörf varðandi framlög hinna ýmsu tekjuhópa til samneyslunnar … en þar með eru snertifletir hagfræði og guðfræði eiginlega upp taldir … eða því sem næst.

Guðs gjafir

Guðspjall dagsins er um Guðs gjafir. Við getum kallað þær hæfileika, jafnvel náðargáfur. Á sumum erlendum tungum eru þessar Guðs gjafir eða náðargáfur enn þann dag í dag kallaðar nafni þessa forna gjaldmiðils: Talent. Og öllum er okkur úthlutað einhverju slíku, mismiklu … en allir fá eitthvað. Engum er alls varnað. Og guðspjallið segir okkur til hvers er ætlast af okkur varðandi það hvernig við förum með það.

Við eigum ekki að fela það, ekki að grafa það í jörð. Við eigum að láta það bera ávöxt, rækta það og efla. Ekki í eigingjörnum tilgangi, ekki okkur sjálfum til dýrðar, heldur af því að þegar upp er staðið þá er ekki það sem skiptir máli hve mikið af slíku okkur var fengið heldur hvað við gerðum við það. Það er ekki spurt úr hve miklu við höfðum að moða heldur hvernig við moðuðum úr því … ef svo má að orði komast.

Þetta er ekki falleg saga ef hún er lesin bókstaflega. Herrann fer í manngreinarálit, hann gerir upp á milli þjóna sinna. Og sá sem hann treysti minnst sýndi kannski af hverju hann naut minnsta traustsins. Hann lét óttann ráða ferð, tók enga áhættu og skilaði upp á punkt og prik nákvæmlega því sem hann byrjaði með. Húsbóndinn verðlaunar þannig áhættusækni – að því tilskyldu að áhættan gangi upp.

En þessi saga er ekki um peninga.

Hún er um ótta.

Myrkur óttans

„Ég var hræddur,“ sagði þjónninn. Óttinn réð ferðinni. Hann treysti ekki guðsgjöfunum sínum. Hann faldi þær. Hann treysti sér ekki til að rækta þær og láta þær bera ávöxt.

Óttinn er eitt öflugasta verkfæri myrkursins. Enda er fæðing Jesú tilkynnt með orðunum: „Verið óhræddir!“ á Betlehemsvöllum (Lúk 2.10). Og upprisan líka. „Skelfist eigi,“ segir engillinn við konurnar sem fyrstar koma að hinni tómu gröf (Mrk 16.9). Og hvað eftir annað segir Jesús lærisveinum sínum að óttast ekki. Hann kallar Símon Pétur til fylgdar við sig með orðunum: „Óttast þú ekki, héðan í frá skalt þú menn veiða“ (Lúk 5.10). „Það er ég, verið óhræddir!“ segir hann við lærisveinana þegar hann kemur gangandi til þeirra á vatninu og þeir halda að hann sé draugur (Matt 14.27). Ræðu sína yfir postulunum sem hann sendir út til að vinna máttarverk endar hann á orðunum: „Verið óhræddir, þér eruð meira verðir en margir spörvar.“ (Matt 10.31). Þannig mætti lengi telja.

Þessi saga er um ótta og það hvað verður um okkur þegar við látum hann ráða ferðinni.

Í sögulok er þjóninum nefnilega varpað út í ystu myrkur þar sem er grátur og gnístran tanna. Það er ekki fallegt. En í ljósi þess að sagan er öll á táknmáli – húsbóndinn táknar Guð, þjónarnir okkur mennina, talenturnar Guðs gjafir – þá ættum við að halda áfram og spyrja hvað myrkrið tákni. Og í framhaldi af því hvar þjónninn hafi verið staddur í upphafi sögunnar. Var hann ekki umvafinn myrkri óttans allan tímann og endar á sama stað og hann byrjaði? Óttinn varnaði honum leiðar til ljóssins. Útilokaði hann frá fögnuði Herrans.

Það eina í þessari sögu sem ekki táknar eitthvað annað er sennilega gráturinn og tannagnístranin sem líkast til standa aðeins fyrir grát og gnístran tanna … í myrkri óttans.

Við erum föst í þessu myrkri óttans þegar við þorum ekki að láta ljós okkar skína. Og okkur er engrar undankomu auðið úr myrkrinu fyrr en við segjum skilið við óttann.

Himnaríki

Þessi saga er í 25. kafla Matteusarguðspjalls. Sá kafli inniheldur þrjár dæmisögur um himnaríki. Sú fyrsta líkir himnaríki við brúðkaup þar sem tíu brúðarmeyjar fara til fundar við brúðguma sem enginn veit almennilega hvenær kemur, en sumar höfðu ekki rænu á að taka með sér olíu á lampana sína. Þær voru því orðnar ljóslausar þegar brúðguminn birtist og misstu því af partíinu. Þá kemur þessi saga um talenturnar og hvað þarf að gera til að geta orðið þátttakandi í fögnuði herrans. Strax á eftir henni kemur síðan þekktasta dæmisagan, saga sem ætti að standa feitletruð í öllu sem kalla mætti „Inngang að kristinni siðfræði fyrir algjöra byrjendur“. Sú saga inniheldur meðal annars kjörorð okkar hér í Laugarneskirkju sem standa með stóru letri á heimasíðunni okkar:

„Hungraður var ég og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég og þér hýstuð mig.“ (Matt 25.35)

Það merkilega við þessar þrjár dæmisögur er að engin þeirra gerist í veislunni sjálfri. Í þeirri fyrstu ganga hyggnu meyjarnar inn til brúðkaupsins og dyrunum er lokað. Ekki orð um það sem þar gerist. Í þeirri næstu, þeirri sem við heyrðum í dag, ganga góðu og trúu þjónarnir inn í fögnuð herrans … án þess að honum sé lýst á nokkurn hátt. Í þeirri þriðju birtist Mannssonurinn í dýrðarhásæti sínu og skilur hafrana frá sauðunum og þeim síðarnefndu er tilkynnt að þeir fái að erfð ríkið sem þeim var búið frá grundvöllun heimsins (Matt 25.34). En svo snýst sagan ekkert um þetta ríki, heldur um það hvað það er sem aðskilur hafra frá sauðum. Engin þessara dæmisagna greinir frá því í hverju þetta himnaríki – sem bíður – er fólgið og það þótt þær tvær fyrstu hefjist báðar beinlínis á orðunum: „Svo er um himnaríki sem …“ eða „Líkt er um himnaríki og …“

Eru þær þá ekkert um himnaríki?

Laug Jesús?

Hérna megin

Nei, það gerði hann ekki. Þær eru vissulega um himnaríki. En engin þeirra lýsir þó einhverri eilífðarsælu hinna útvöldu eftir að jarðvistinni lýkur. Allar þessar sögur fjalla um hegðun okkar hérna megin grafar.

Sú fyrsta fjallar um mikilvægi þess að sofna ekki á verðinum og láta ljósið sitt slokkna. Sú næsta fjallar um mikilvægi þess að óttast ekki að láta ljós sitt skína. Og sú þriðja fjallar um að gefa hungruðum að eta, þyrstum að drekka, að hýsa gesti, klæða nakta, vitja sjúkra og heimsækja þá sem eru í fangelsi. Með öðrum orðum – um náungakærleika. Um það hvernig gott fólk kemur fram við annað fólk. Hún er um það hvað í því felst að vera gott fólk.

Ef þessar sögur fjalla um himnaríki – eins og Jesús fullyrðir að þær geri – þá er himnaríki hegðun okkar hérna megin, ekki umbun okkar fyrir hana hinum megin.

Vegna þess að ef eina ástæðan fyrir því að við leitumst við að sýna náungakærleika er óttinn við afleiðingar þess að gera það ekki, þá er það ekki kærleikurinn sem við stjórnumst af heldur óttinn.

Ef eina ástæðan fyrir því að við reynum að vera gott fólk er ótti við afleiðingar þess að vera það ekki … þá erum við ekkert sérstaklega gott fólk.

Þá erum við bara hrætt fólk.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 17. febrúar 2019

Guðspjall: Eftir sex daga tekur Jesús með sér þá Pétur, Jakob og Jóhannes og fer með þá upp á hátt fjall að þeir væru einir saman. Þar ummyndaðist hann fyrir augum þeirra og klæði hans urðu fannhvít og skínandi og fær enginn bleikir á jörðu svo hvítt gert. Og Elía og Móse birtust þeim og voru þeir á tali við Jesú. Þá tekur Pétur til máls og segir við Jesú: „Meistari, gott er að við erum hér. Gerum þrjár tjaldbúðir, þér eina, Móse eina og Elía eina.“ Hann vissi ekki hvað hann átti að segja enda urðu þeir mjög skelfdir. Þá kom ský og skyggði yfir þá og rödd kom úr skýinu: „Þessi er minn elskaði sonur, hlýðið á hann!“ Og jafnskjótt litu lærisveinarnir í kringum sig og sáu engan framar hjá sér nema Jesú einan. Á leiðinni ofan fjallið bannaði Jesús þeim að segja nokkrum frá því er þeir höfðu séð fyrr en Mannssonurinn væri risinn upp frá dauðum. (Mrk 9.2-9)

krossgöturNáð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi.

„Þetta er gott. Svona skulum við hafa það. Varðveitum nákvæmlega þetta ástand, þessa stund. Dveljum hér. Höldum ekki áfram héðan.“

Okkur hefur eflaust öllum liðið þannig einhvern tímann á ævinni. Framtíðin var óráðin, stórar ákvarðanir, sem hafa myndu mikil áhrif á líf okkar til langs tíma, biðu handan við hornið. Þær fylltu okkur kvíða, við vissum ekki hvað við ætluðum að gera eða hvort það væri góð ákvörðun að velja þá leið sem við vorum einna helst á því að fara. Hvað ef hin ákvörðunin myndi nú reynast betur?

En þessi ákvörðun beið okkar og það var engin undankomuleið, krossgöturnar nálguðust og við myndum standa á þeim og verða að velja okkur leið. En akkúrat núna … á þessu augnabliki … var þetta fínt. Svona. Af hverju gátu hlutirnir ekki bara verið svona áram?

Guðspjall dagsins segir frá krossgötum … og mannlegum … alveg einstaklega mannlegum … viðbrögðum.

Konungurinn er kominn

Sagan er náttúrlega þrungin táknum. Jesús tekur þrjá lærisveina sína með sér upp á hátt fjall. Fjallið er gegnumgandi tákn í Markúsarguðspjalli fyrir öryggi og skjól. Það er griðastaður. Jesús segir að Júdamenn skuli flýja til fjalla þegar „viðurstyggð eyðileggingarinnar“ blasi við (Mrk 13.14). Fjallið táknar líka nálægð við Guð. Jesús fer ævinlega upp á fjall til að biðjast fyrir, eftir að hafa mettað mannfjöldann í eyðimörkinni (Mrk 6.46) og áður en hann er handtekinn í Getsemane (Mrk 14.26). Enda var fjallið staður opinberunarinnar í sögu, bókmenntum og menningararfi gyðinga. Móse fékk boðorðin afhent á fjallinu og Guð birtist Elía á fjallinu – og báðir birtast þeir Jesú og lærisveinunum á fjallinu í þessari frásögn.

Loks er fjallið staður konungsvígslunnar. Í einum Davíðssálma segir Guð: „Konung minn hef ég krýnt á Síon, mínu heilaga fjalli.“ (Slm 2.6) Í Babýlón stóð guðkonungurinn, sem rann saman við guðinn Mardúk, uppi á fjallslíkinu, Ziggúratinu sem gnæfði yfir borginni. Og sagnaritarinn Jósefus greinir frá því að í fönísku borginni Týrus hafi konungurinn klæðst silfurskrúða sem ljómaði í sólskininu og fyllti lýðinn ótta og lotningu. Hér ljómar Jesús, en takið eftir því að „enginn bleikir á jörðu fær svo hvítt gert“, enda er ríki Jesú ekki af þessari jörðu.

Þessi saga er eitt stórt tákn um krýningu guðkonungsins.

Elía og Móse, eru holdgervingar lögmálsins og spámannanna.

Og hvað eru lögmálið og spámennirnir?

Á krossgötum

Jesús svarar þeirri spurningu: „Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera. Því að þetta er lögmálið og spámennirnir“ segir í Matteusarguðspjalli. (Matt 7.12). Og síðar í sama guðspjalli segir hann: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum. Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð. Annað er hliðstætt þessu: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Á þessum tveimur boðorðum hvílir allt lögmálið og spámennirnir.“ (Matt 22.37-40)

Hér birtast lögmálið og spámennirnir til að afhenda Jesú kefli trúarinnar. Nýir tímar eru komnir. Lögmálið og spámennirnir, trúararfurinn, er allur saman komin í hinum nýja konungi lífsins og ljóssins: Jesú Kristi.

Við erum á krossgötum.

Og hvernig bregst Pétur við?

„Meistari, gott er að við erum hér. Gerum þrjár tjaldbúðir, þér eina, Móse eina og Elía eina,“ segir hann.

Hér er gott að vera. Þetta er gott. Verum áfram hér … svona … reisum þrjár tjaldbúðir … höldum ekki áfram.

En lífið hélt áfram. Þeir fóru niður af fjallinu og lærisveinarnir þurftu að velja sér leið; að fylgja Jesú eða lögmálinu og spámönnunum. Að fylgja hinum nýkrýnda konungi eða hinum sem voru búnir að afhenda honum konungdæmið.

„Gerum þrjár tjaldbúðir,“ segir hann. Veljum ekki leið, veljum þær allar.

En það er ekki hægt að fara allar leiðir. Einn maður getur ekki dvalið nema í einni tjaldbúð. Hann hefur enga þörf fyrir þrjár. Á þessum krossgötum er ekki í boði að setjast að og halda ekki áfram. Það þarf að velja sér leið, velja sér tjaldbúð.

En hvaða tjaldbúð á að velja?

Samfélag gallagripa

Lærisveinarnir og ég og þið sem eruð hér … við höfum valið leið kristindómsins, valið leið Jesú Krists. Öll höfum við einhvern tímann hvikað af þeirri leið, efast, jafnvel villst. Það hef ég svo sannarlega gert og það gerði Pétur postuli líka og ég leyfi mér að fullyrða að það gildi einnig um ykkur öll.

Pétur er hinn breyski maður. Pétur er sá sem afneitar Jesú þrisvar þegar lífi hans er ógnað. En um leið er Pétur sá sem gerir hið ómögulega … gengur á vatni … en fer að efast … og sökkva. Og það er hann, þessi breyski maður, þessi gallagripur, sem er kletturinn sem Jesús reisti kirkju sína á.

Kirkja Krists er nefnilega af holdi og blóði, hún er samfélag gallagripa. Eins og öll samfélög samanstendur hún af breyskum manneskjum en ekki óskeikulum dýrlingum og englum. Kirkja Krists er staður fyrir mig og þig, haldið uppi af fólki, viðhaldið af fölki eins og mér og þér í gegn um aldirnar. Hún er ekki staður ofurmenna sem aldrei bregðast, aldrei óttast, aldrei efast. Þess vegna er hún staður náungakærleika og umburðarlyndis – af því að við sjáum okkur sjálf hvert í öðru.

Þegar hún hættir að vera það er hún ekki lengur kirkja Krists. Þá hættir hún að vera staður þar sem við komum fram við aðra eins og við viljum að komið sé fram við okkur, þá hættir hún að vera staður þar sem við elskum Guð og þarafleiðandi náungann eins og okkur sjálf. Þá hættir hún að vera griðastaður hans sem allt lögmálið og spámennirnir hvíla á: Jesú frá Nasaret.

Mér finnst það gott. Ég segi eins og Pétur í þessari frásögn: „Það er gott að við erum hér.“ Af því að hér megum við halda áfram með þessa setningu og segja tóma vitleysu eins og Pétur. Það er samt pláss fyrir okkur hérna. Við erum samt velkomin, þótt við fáum galnar hugmyndir eins og að vilja gera öllum til geðs og reisa þrjár tjaldbúðir, fara allar leiðir frekar en að velja eina og halda sig við hana, baða út öngunum eins og risaeðlan í Toy Story og hrópa í örvæntingu: „Ég þoli ekki að taka afstöðu!“ Það er í lagi. Það má. Við höfum öll verið þar.

Lífið heldur áfram

En lífið heldur áfram. Leið okkar heldur áfram í gegn um allar krossgöturnar sem eru á henni. Á engum þeirra er það í boði að setjast niður og segja: „Verum bara hér. Þetta er ágætt. Höldum ekki áfram.“ Sama hve miklum kvíða það kann að fylla okkur að verða að velja okkur leið þá er ekki annað í boði.

Því jafnvel það að velja ekki leið … er leið. Afstöðuleysið er afstaða.

Okkur er hvað eftir annað stillt upp – ekki síst af fjölmiðlum – frammi fyrir álitamálum. Þessi segir eitt og annar annað og við vitum ekki hverjum við eigum að trúa. Hvoru megin línunnar sem er dregin í sandinn ætla ég að taka mér stöðu? Eða ætla ég að slá upp tjaldbúðum á línunni, hreiðra um mig þar og taka ekki afstöðu?

Þegar aldurhniginn stjórnmálaleiðtogi, svo dæmi sé tekið, sem er sakaður um ósiðlegt athæfi af fjölda kvenna, sver af sér allar sakir enda engar beinharðar sannanir til staðar, þá er auðvelt að yppa öxlum og hugsa sem svo að þetta komi manni ekki við. Til hvers að hafa skoðun á þessu? Af hverju að taka afstöðu? Hvað veit maður svosem? Hverju á maður að trúa?

Þegar útvarpsstöð leggur þá í einelti með ósannindum og lygum, sem eru í veikastri stöðu í samfélagi okkar og eru ekki í neinni aðstöðu til að bera hönd fyrir höfuð sér eða leita réttar síns … þá er auðvelt að horfa í hina áttina og láta það óátalið af því að það snertir mann ekki persónulega og maður hlustar hvort sem er aldrei á þessa útvarpsstöð. Af hverju að taka afstöðu?

Knúin svars

Málið er að við erum spurð: Með hverjum stendur þú? Og þegar þeirrar spurningar hefur verið spurt þá er ekki í boði að ýta á einhvern pásutakka á framrás tímans og slá upp andlegum tjaldbúðum í því augnbliki frystu í tíma til að hlífa sér við framhaldinu. Við getum ekki komið okkur undan því að svara spurningunni með því að öskra „Sto!“ á heiminn.

„Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra það hafið þér gert mér“ (Matt 25.40) segir Jesús Kristur. Með öðrum orðum: Í hvert skipti sem við tökum ekki afstöðu með okkar minnstu bræðrum og systrum erum við ekki að taka afstöðu með Jesú Kristi. Í raun má því segja að með því einu að vera hér, með þeirri ákvörðun okkar að vilja leitast við að vera kristnar manneskjur, þá séum við búin að taka afstöðu. Spurningin er hvort við séum reiðubúin að standa við hana eða hvort við ætlum að afneita henni um leið og það verður erfitt.

Ætlum við að reisa einar tjaldbúðir og bjóða okkar minnstu bræðrum og systrum að dvelja í þeim með okkur?

Eða ætlum við að reisa þrjár tjaldbúðir, eina fyrir þolendurna, eina fyrir gerendurna og þá þriðju fyrir okkur sjálf, svo við þurfum hvoruga að umgangast og getum verið út af fyrir okkur í friði í afstöðuleysi okkar?

Svar Jesú Krists er einfalt.

Það er ekki í boði.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 10. febrúar 2019