Feeds:
Færslur
Athugasemdir

atómbombaÍ dag minnumst við þess að 74 ár eru liðin frá því að bandaríski herinn varpaði sprengju á japönsku borgina Nagasaki með þeim afleiðingum að tæplega 40.000 manns létu lífið samstundis og 25.000 til viðbótar slösuðust og særðust. Þrem dögum áður hafði sambærilegri sprengju verið varpað á borgina Hiroshima, en þar létust og særðust allt að tvöfalt fleiri. Samtals féllu því ríflega 100.000 manns í þessum tveimur sprengjuárásum og ekki mikið færri særðust, margir svo alvarlega að það fylgdi þeim það sem þeir áttu eftir ólifað. Þá er ótalinn sá fjöldi sem geislavirkni af völdum þessara tveggja kjarnorkusprengja lagði í valinn. Í lok árs 1945 er áætlað að þessar tvær kjarnorkuárásir hafi kostað ríflega 200.000 mannslíf.

Í góðum höndum?

Heimurinn stóð á öndinni. Nýtt gereyðingarvopn var fætt sem myndi gerbreyta hernaði um alla framtíð, vopn sem reyndar var svo ógnvænlegt að einhverjir gerðu því skóna að styrjaldir myndu heyra sögunni til, það myndi jafngilda sjálfsmorði að fara í stríð þegar styrjaldaraðilar hefðu slíkan ógnarmátt í vopnabúri sínu. Þess vegna var þess auðvitað gætt, eins vel og hægt var, að þessi gereyðingarvopn kæmust ekki í hendur hvers sem er. Þó gátu Bandaríkjamenn auðvitað ekki setið einir að því og ríki sem ráða yfir kjarnorkuvopnum eru í dag einhvers staðar á bilinu 5 – 9. Auk Bandaríkjanna eru það Rússland, Bretland, Frakkland og Kína … sem auðvitað myndi aldrei ganga í berhögg við alþjóðalög eða fella fjölda óbreyttra borgara til að vernda hagsmuni stjórnvalda og standa vörð um völd þeirra, eða hvað? Nema náttúrlega þarna á Torgi hins himneska friðar 4. júní 1989. Kínversk stjórnvöld segja um 300 manns hafa fallið, en ábyrgir aðilar sem ekki eiga hagsmuna að gæta, s.s. Amnesty International, áætla flestir að fjöldamorðin hafi kostað einhvers staðar á milli 1.000 og 3.000 mannslíf.

Það er gott að vita að kjarnorkuvopn eru í góðum höndum, er það ekki?

Þess má í framhjáhlaupi geta að á Torgi hins himneska friðar léku íþróttamenn hvaðanæva úr heiminum strandblak á Ólympíuleikum fáum árum eftir blóðbaðið eins og ekkert hefði ískorist, en það er önnur saga.

Til viðbótar við þessi ríki hafa Indland, Pakistan og Norður-Kórea lýst því yfir að þau ráði yfir kjarnavopnum auk þess sem rökstuddur grunur leikur á að svo sé einnig um Ísrael.

Um viðhorf stjórnvalda í sumum þessara ríkja til mannréttinda bera fæst orð minnsta ábyrgð, eins og lýðum má vera ljóst.

Aldrei aftur hvað?

Þegar almenningi á vesturlöndum varð smám saman ljóst hverjar afleiðingar kjarnorkuárásanna á Nagasaki og Hiroshima voru varð uppi fótur og fit. Fólk krafðist þess að þessi vopn yrðu bönnuð, að aldrei mætti nota þau aftur og ekki leið á löngu þar til að þau stjórnvöld voru vandfundin á vesturlöndum sem komist hefðu upp með það gagnvart þjóðum sínum að beita þeim.

Enda hefur það ekki verið gert síðan.

Krafan var: Aldrei aftur Hiroshima. Aldrei aftur Nagasaki. – Og krafan hefur fram til dagsins í dag náð fram að ganga.

En krafan er að dómi þess er hér talar ekki fullnægjandi.

Þrettánda febrúar var engum kertum fleytt á þessari tjörn. Þann dag voru þó 74 ár liðin frá því að bandaríski herinn hóf linnulausar loftárásir á þýsku borgina Dresden algerlega að nauðsynjalausu. Borgin hafði lítið sem ekkert hernaðarlegt vægi, Þjóðverjar voru á undanhaldi og það glitti í stríðslok. Í Dresden fórust 25.000 manns og það án þess að nokkrum kjarnorkuvopnum væri beitt.

Engum kertum var heldur fleytt 16. mars síðastliðinn til að minnast þess að þá var 51 ár liðið frá því að bandarísk herdeild réðst inn í víetnamska þorpið My Lai og myrti með hrottafengnum hætti um 500 óbreytta borgara, misþyrmdi og hópnauðgaði konum og börnum niður í tólf ára aldur.

Viðskiptatækifæri

Afstaða íslenskra stjórnvalda til morðárása Bandaríkjahers á óbreytta borgara víða um heim hefur undantekningarlaust verið sú að í þeim felist gríðarleg viðskiptatækifæri. Þannig þótti það afar mikilvægt efnahagslega og atvinnuskapandi að hafa hér bandarískan her til að gæta öryggis landsins samkvæmt varnarsamningi við Bandaríkin. Og þegar bandaríski herinn vildi fara þá sáu íslensk stjórnvöld enga ástæðu til að fagna því að svo friðsælt væri orðið í okkar heimshluta að verndarinn treysti sér til að tryggja öryggi þjóðarinnar án þess að hafa hér vopnað herlið að staðaldri. Nei. Þessi í stað var farið vestur um haf og verndarinn beðinn um það, með grátstafinn í kverkunum, að fara hvergi, með þeim jákvæðu efnahagslegu afleiðingum fyrir okkur að brottförinni seinkaði um nokkurn tíma.

Í afstöðu Íslendinga til Bandaríkjahers virðist manni stundum nánast eins og þess misskilnings gæti að Bandaríski herinn í Keflavík hafi verið einhver annar bandarískur her en bandaríski herinn sem varpaði kjarnorkusprengjum á Hiroshima og Nagasaki, einhver annar bandarískur her en sá sem jafnaði Dresden við jörðu í þeim tilgangi einum að vinna auðmýkjandi menningarhryðjuverk á óvini sem hann var þegar búinn að hafa undir, einhver annar bandarískur her en sá sem sendi þungvopnaðar hersveitir inn í víetnömsk þorp til að fremja viðurstyggileg ofbeldisverk og fjöldamorð á óbreyttum borgurum, konum og börnum.

Einhver annar bandarískur her en bandaríski herinn í Abu Grahib og Guantanamo.

Svo er ekki.

Hrópum áfram!

Er það þess vegna sem við látum staðar numið við að hrópa: „Aldrei aftur Hiroshima! Aldrei aftur Nagasaki!“ en skirrumst við að halda áfram og bæta við: „Aldrei aftur Dresden! Aldrei aftur My Lai! Aldrei aftur Abu Grahib! Aldrei aftur Guantanamo!“

Það er óhætt að hrópa „Aldrei aftur Hiroshima! Aldrei aftur Nagasaki!“ því bandarísk stjórnvöld hafa skuldbundið sig til og undirritað sáttmála um að beita ekki kjarnorkuvopnum. Með því að halda áfram erum við hins vegar komin í andstöðu við stefnu bandarískra stjórnvalda og það er ekki góður bisness.

Erum við reiðubúin til að halda áfram? Er það vogandi? Getum við þrýst á íslensk stjórnvöld að gera það?

Hvað verður þá um fyrirhugaðar atvinnu- og tekjuskapandi framkvæmdir fyrir Bandaríkjaher sem núverandi ríkisstjórn virðist ætla að leggja blessun sína yfir – í beinu trássi við stefnu a.m.k. eins ríkisstjórnarflokkanna?

Það er gott að horfa á bandaríska herinn í Keflavík sem vini okkar og bjargvætti sjómanna í nauðum. Það er ekki eins gott að horfa á hann sem pyntingameistarana frá Abu Grahib, kvalarana frá Guantanamo, barnanauðgarana frá My Lai.

Hvað kostar það okkur að halda áfram og hrópa ekki bara „Aldrei aftur Hiroshima! Aldrei aftur Nagasaki!“ heldur „Aldrei aftur morðárásir á óbreytta borgara, aldrei aftur misþyrmingar og pyntingar á saklausu fólki sem þráir aðeins frið og öryggi!“

Erum við reiðubúin til að hrópa það? Fram í rauðan dauðann? Erum við til í að hrópa það í kjörklefanum í næstu alþingiskosningum með því hvar við setjum X-ið okkar?

Því miður er ekki hægt að fara fram á það. Ekki af því að það sé til of mikils mælst heldur af því það lítur út fyrir að sá valkostur verði ekki í boði … að óbreyttu.

Spurningin er: Erum við til í að breyta því?

Mig langar að ljúka orðum mínum á tilvitnun í bók sem mér er dýrmæt þótt ég viti mætavel að hún sé ekki allra, en í henni segir á einum stað: „Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu með þeim mönnum sem hann hefur velþóknun á.“ (Lúk 2.14)

Ávarp flutt við kertafleytingarathöfn í Hljómskálagarðinum 9. ágúst 2019

Lexía: Orð Drottins kom til mín: Áður en ég mótaði þig í móðurlífi valdi ég þig. Áður en þú fæddist helgaði ég þig og ákvað að þú yrðir spámaður fyrir þjóðirnar. Ég svaraði: „Drottinn minn og Guð. Ég er ekki fær um að tala því að ég er enn svo ungur.“ Þá sagði Drottinn við mig: „Segðu ekki: Ég er enn svo ungur. Þú skalt fara hvert sem ég sendi þig og boða hvað eina sem ég fel þér. Þú skalt ekki óttast þá því að ég er með þér til að bjarga þér, segir Drottinn.“ Síðan rétti Drottinn út hönd sína, snerti munn minn og sagði við mig: „Hér með legg ég orð mín þér í munn. Ég veiti þér vald yfir þjóðum og ríkjum til að uppræta og rífa niður, til að eyða og umturna, til að byggja upp og gróðursetja.“ (Jer 1.4-10)

Pistill: Þá er upp var runninn hvítasunnudagur voru allir saman komnir á einum stað. Varð þá skyndilega gnýr af himni, eins og óveður væri að skella á, og fyllti allt húsið þar sem þeir voru. Þeim birtust tungur, eins og af eldi væru, er kvísluðust og settust á hvert og eitt þeirra. Allir fylltust heilögum anda og tóku að tala öðrum tungum, eins og andinn gaf þeim að mæla. Í Jerúsalem dvöldust Gyðingar, guðræknir menn, frá öllum löndum undir himninum. Er þetta hljóð heyrðist kom allur hópurinn saman. Þeim brá mjög við því að hver og einn heyrði þá mæla á sína tungu. Menn voru frá sér af undrun og sögðu: „Eru þetta ekki allt Galíleumenn sem hér eru að tala? Hvernig má það vera að við, hvert og eitt, heyrum þá tala okkar eigið móðurmál? Við erum Partar, Medar og Elamítar, við erum frá Mesópótamíu, Júdeu, Kappadókíu, Pontus og Asíu, frá Frýgíu og Pamfýlíu, Egyptalandi og Líbýubyggðum við Kýrene og við sem hingað erum flutt frá Róm. Hér eru bæði Gyðingar og þeir sem tekið hafa trú Gyðinga, Kríteyingar og Arabar. Við heyrum þá tala á tungum okkar um stórmerki Guðs.“ Allir voru furðu lostnir og ráðalausir og sögðu hver við annan: „Hvað getur þetta verið?“ (Post 2.1-12)

Guðspjall: Síðan hélt Jesús úr Týrusarbyggðum, um Sídon og yfir Dekapólisbyggðir miðjar til Galíleuvatns. Þá færa menn til hans daufan og málhaltan mann og biðja hann að leggja hönd sína yfir hann. Jesús leiddi hann afsíðis frá fólkinu, stakk fingrum sínum í eyru honum og vætti tungu hans með munnvatni sínu. Þá leit hann upp til himins, andvarpaði og sagði við hann: „Effaþa,“ það er: Opnist þú. Og eyru hans opnuðust og haft tungu hans losnaði og hann talaði skýrt. Jesús bannaði þeim að segja þetta neinum en svo mjög sem hann bannaði þeim því frekar sögðu þeir frá því. Menn undruðust mjög og sögðu: „Allt gerir hann vel, daufa lætur hann heyra og mállausa mæla.“ (Mark 7.31-37)

jörð málverkNáð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Ritningartextarnir sem við heyrðum lesna hér í kvöld eru ekki textarnir sem gert er ráð fyrir að lesnir séu á þessum sunnudegi í kirkjum landsins. Það eru innihaldsríkir og áhugaverðir textar, en ég valdi þessa fyrir þetta tilefni.

Allir eiga þeir það sameiginlegt að þeir fjalla um þá gjöf að mega mæla, að geta talað, að hafa eitthvað að segja. Og allir lýsa þeir því sem einhvers konar kraftaverki að geta haft áhrif með því að opna á sér munninn. Kraftaverki frá Guði föður, Jesú Kristi og heilögum anda.

Sjálfur Guð faðir almáttugur snertir munn spámannsins Jeremía og segir honum að fara og boða það sem honum er falið. Og Guð tíundar mátt orða hans. Með orðum sínum getur Jeremía beinlínis upprætt og rifið niður, eytt og umturnað … en líka byggt upp og gróðursett.

Heilagur andi kemur yfir lærisveinana og þeir fara að tala tungum. Fólk, sem þeir hefðu annars aldrei getað nálgast með orðum, aldrei getað snert með hugmyndum sínum eða hugsunum, skilur allt sem þeir segja. Komið er á sambandi. Og orðin hafa mátt.

Og Jesús Kristur, frelsari okkar, snertir tungu hins heyrnar- og mállausa og eyru hans opnast og hann talar skýrt. Hann er kominn í samband. Og Jesús frelsar manninn úr fangelsi og einangrun þagnarinnar og gerir honum kleyft að skiptast á hugsunum og hugmyndum við aðra með orðum sínum – með orði sínu. Orðið er „Effaþa“, „opnastu“. Máttur þessa orðs er slíkur að hinn heyrnarlausi heyrir það og verður frjáls.

Textarnir fjalla allir um mátt orðsins.

Og um yfirnáttúruleg kraftaverk.

Um kraftaverk

En hvað er kraftaverk?

Við höfum flest þann bókstaflega skilning á því orði að kraftaverk sé það þegar eitthvað gerist sem brýtur í bága við náttúrulögmálin, við grunnreglur eðlis- og efnafræðinnar og annarra raunvísinda. Þegar vatn breytist í vín, þegar menn ganga á vatni, þegar menn rísa upp frá dauðum – þá er það kraftaverk.

Og sá skilningur er í sjálfu sér ekki rangur. Hann snertir aftur á móti aðeins yfirborðið á því hvað kraftaverk í raun felur í sér.

Kraftaverk eru nefnilega alltaf kærleiksverk. Kraftaverk eru ekki bara eitthvað hókus pókus til að sýna mátt og megin. Kraftaverk Jesú eru aldrei í þágu hans sjálfs. Og þegar á hann er gengið að gera kraftaverk til þess eins að sýna að hann geti það … þá lætur hann það ógert.

Við skulum skoða kraftaverkin sem þessar þrjár sögur segja frá með þeim gleraugum. Þau eru kærleiksverk. Í öllum tilfellum er greinilega litið svo á að það sé á einhvern hátt frelsandi, lífgefandi og lífsfyllandi … að það sé þrungið heilagri merkingu og tilgangi að mega mæla. Og að sem slíkt sé það Guðs gjöf.

Þess vegna skulum við aldrei gleyma því að orðin okkar eru ekki bara eitthvað skraut. Þau eru ekki bara eitthvað hljóðrænt veggfóður til að gera umhverfi okkar notalegra og huggulegra. Og þau eru ekki einu sinni bara listaverk, ljóð og sögur, helgisögur – hvort sem þær standa í heilagri ritningu eða standa hjarta okkar nær á einhvern annan hátt og eru okkur þannig heilagar – ljóð og sögur sem miðla okkur dýpri og merkingarbærari sannleika um líf okkar og tilveru heldur en nokkur raunvísindi – með fullri virðingu fyrir þeim – fá nokkru sinni gert.

Þau eru verkfæri.

Um verkfæri

Þau eru verkfæri sem okkur eru gefin. Og með þeim getum við byggt upp og rutt brautir. Byggt upp kærleiksrík og manneskjuleg samfélög og greitt götu nýrra hugmynda, fegurðar og kærleika. Og við getum líknað og læknað og heilað með orðum okkar. En við getum líka, eins og spámaðurinn Jeremía, upprætt og rifið niður, eytt og umturnað. Meitt og skemmt.

Og við þurfum ekkert að lesa athugasemdakerfi fjölmiðla lengi til að sjá dæmi um orð sem ekki eru sett fram í neinum öðrum tilgangi en þeim einum að meiða og skemma. Og við þurfum ekki að fylgjast mjög ítarlega með fréttum til að verða vör við að þeir sem síst skyldi, þeir sem við treystum til að byggja upp samfélag okkar og stýra því á farsælan hátt, noti orð sín til að upphefja sjálfa sig á kostnað annarra, til að miðla … ekki nýjum og uppbyggilegum hugmyndum og leiðum að því að gera samfélag okkar farsælla og manneskjulegra … heldur aðeins eitri og hroða.

Orðum fylgir ábyrgð.

Við erum með máttugt eggvopn í höndunum … eða á tungunni … þegar við beitum orðum. Notum við það til að stinga og skera okkar minnstu bræður og systur, til að höggva mann og annan á leið okkar sjálfra til metorða eða að kjötkötlunum? Eða notum við það til að stinga á kýlum og skera burtu mein samfélagsins?

Við eigum val um það.

Skáldin okkar hafa valið að nota orðin sín til að snerta aðra með fegurð og sannleika. Sem í mínum huga fer alltaf saman. Því jafnvel þótt sannleikurinn geti verið ljótur er lygin alltaf ljótari. Og ekkert inniheldur dýpri og fegurri sannleika en góður skáldskapur.

Um ógnir

Hver eru brýnustu verkefni okkar? Hvar þarf allt gott fólk að taka til hendinni og beita þeim verkfærum sem því eru gefin til að byggja upp og gróðursetja, breyta og bæta?

Margt kemur upp í hugann.

Uppgangur þjóðernishyggju er vandmál og þetta orð, „þjóðernishyggja“, er gott dæmi um mátt orðanna. Það hljómar svo miklu betur að vera „þjóðernissinni“ heldur en að vera „útlendingahatari“ þótt á þessu tvennu sé enginn merkingarmunur, alltjent ekki ef litið er til orða og framgöngu þeirra sem mæla fyrir munn þessarar meintu „þjóðernishyggju“.

Hlýnun jarðar er sennilega langmesta ógnin sem steðjar að mannkyninu um þessar mundir. Allir marktækir vísindamenn hafa árum saman keppst við að vara okkur við því að fari sem horfir muni mannkynið standa frammi fyrir meiri náttúruhamförum og hörmungum en nokkru sinni fyrr í sögu sinni. Hörmungum sem leiða munu af sér flóttamannavanda án hliðstæðu í veraldarsögunni. Og það grátbroslega er að þeir sem vilja að sem minnst sé gert fyrir flóttafólk virðast vera þeir sömu og helst vilja skella skollaeyrum við þessum aðvörunum vísindamanna. Það er eins og þeir ímyndi sér að þegar búsvæði tugmilljóna manna verða orðin óbyggileg þá verði þrjúhundruðþúsund manna eyþjóð yfirhöfuð spurð að því hvort hún vilji hleypa fólki inn í sitt byggilega land.

En hvað er til ráða?

Um lausnir

Ég sá nýverið tilvitnun í virtan raunvísindamann sem benti á að til að bjarga reikistjörnunni okkar, að til að bregðast við þessari ógn, til að forða mannkyninu frá yfirvofandi hörmungum, þurfi engar frekari tækniframfarir. Það þarf ekki að uppgötva neitt sem ekki er búið að uppgötva til að snúa þróuninni við. Við vitum hvernig við getum skorið niður losun gróðurhúsalofttegunda. Við búum yfir tækni til að framleiða vistvæna orku. Við ráðum yfir aðferðum til að hreinsa höfin og bregðast við súrnun sjávar. Vísindin eru búin að vinna vinnuna sína.

Það sem vantar er hugarfarsbylting. Það þarf að breyta hugsunarhætti og gildismati manna til að bjarga þeim. Eða öllu heldur: Til að þeir bjargi sér. Og ekki bara breyta heldur bylta. Og það er ekki á sviði raunvísindanna að gera það.

Þar kemur til kasta þeirra sem snerta fólk andlega.

Það er á ábyrgð okkar sem höndlum með hinn djúpstæða sannleik trúarinnar í hjörtum manna að virkja hann upp í heila og fá þá, sem á annað borð játa trú, til að átta sig á því að það að gera það í raun krefst fórna.

Og það er á ábyrgð skálda og listamanna, þeirra sem miðla hugmyndum og hugsunum beint og milliliðalaust inn í vitund meðbræðra sinna, að beita náðargáfu sinni í þágu sköpunarverksins, náttúrunnar og mannsins. Í þágu sannleikans og fegurðarinnar

Með öðrum orðum, í þágu Guðs.

Raunvísindin eru búin að vinna vinnuna sína.

Við erum á þeim stað núna að það sem mun bjarga okkur, sé okkur yfirhöfuð viðbjargandi … er listin.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt við ljóðamessu í Laugarneskirkju 4. 8. 2019

Guðspjall: Á þeim tíma tók Jesús svo til orða: „Ég vegsama þig, faðir, Drottinn himins og jarðar, að þú hefur hulið þetta spekingum og hyggindamönnum en opinberað það smælingjum. Já, faðir. Svo var þér þóknanlegt. … Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld.“ (Matt.11.25-26, 28)

kona græturNáð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Í dag talar Jesús við okkur um hyggindamenn og smælingja, um það hvernig sannleikurinn er þeim fyrrnefndu lokuð bók þrátt fyrir öll hyggindi þeirra og visku á meðan aðgangur smælingjanna að honum er óheftur.

Og ég fór að hugsa um smælingjana mitt á meðal okkar. Hverjir eru þeir? Hvar eru þeir? Hvaða þunga eru þeir hlaðnir? Berum við kennsl á þá? Eða finnst okkur betra að teikna þá upp sem eitthvað annað en smælingja … af því að það leggur skyldur á herðar okkar gagnvart þeim. Og skyldur eru bögg. Það er miklu þægilegra að líta á smælingjann sem geranda í sinni eigin neyð og góð tilfinning að finna hvað maður sjálfur er miklu betri og merkilegri manneskja en hann að hafa ekki með stjórnleysi og vondum ákvörðunum kallað yfir sig sams konar neyð.

Mér varð nefnilega hugsað til umræðu sem geysaði í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum nú síðla veturs og snerist um frumvarp til laga um þungunarrof. Mánuður er síðan frumvarpið var samþykkt og allt virðist vera dottið í dúnalogn um þetta viðkvæma málefni, sem varla nokkur maður virtist vera svo laus við hyggindi að hann vissi ekki allt um fyrir aðeins mánuði síðan.

Kannski er því fullseint að leggja orð í belg núna. Enginn hefur áhuga á þessu lengur, málið er afgreitt og ný dægurþrös hafa skotið upp kollinum sem miklu meira sport er í að bítast um.

En kannski er þetta einmitt fyrir vikið rétti tíminn til að tala um þetta. Rykið er sest. Hægt er að leggja mat á hvað stendur upp úr þegar litið er um öxl og hverju gnýrinn af því sem upp úr stendur drekkti.

Þegar umræðan stóð sem hæst ákvað ég með sjálfum mér að það færi betur á því að ég opnaði eyrun og hjartað heldur en munninn. En nú þegar málið er í höfn og riddarar réttlætisins hafa fundið sér ný hneykslunarefni langar mig að greina frá því sem eyru mín og hjarta námu. Ekki síst af því að það varðar smælingjana meðal okkar.

Staðreyndir málsins

Frumvarpið var samþykkt með 40 atkvæðum gegn 18 og þrír sátu hjá.

Einhvern veginn fannst mér samt eins og þessi átján og jásystkin þeirra einokuðu nánast alla umræðuna. Miklu meira heyrðist í þeim en rúmlega tvöfalt stærri þingmeirihluta og þeim sem voru á hans bandi.

En hvað fól svo þetta frumvarp í sér?

Jú, yfirráðarétt kvenna yfir sínum eigin líkama og örlögum. Ekkert annað.

Í eldri lögunum var kveðið á um að þungunarrof skyldi helst ekki framkvæma eftir lok tólftu viku meðgöngutímans og aldrei síðar en eftir þá sextándu nema fyrir hendi væru „ótvíræðar læknisfræðilegar ástæður og lífi og heilsu konunnar stefnt í meiri hættu með lengri meðgöngu og/eða fæðingu eða að miklar líkur séu á vansköpun, erfðagöllum eða sköddun fósturs,“ eins og segir í þeim. Samkvæmt gömlu lögunum var heimilt að binda enda á meðgöngu fram í 22. viku ef ljóst þótti að þetta ætti við.

Það var því ekki, öfugt við það sem ætla mætti af þeim sem hæst höfðu, verið að framlengja þennan tíma. Aðeins var verið að gefa konunni fullt leyfi til að kjósa sjálf að fara í slíka aðgerð án þess að hún þyrfti til þess að hafa leyfi frá nefnd hyggindimanna sem féllst á að ástæður hennar væru lögmætar. Áfram verður miðað við að þungunarrof skuli helst framkvæma fyrir tólftu viku.

Það hefði mátt halda, hefði aðeins verið hlustað á þá sem tóku umræðuna herskildi, að frumvarpið gerði ráð fyrir því að framvegis yrði beðið með allar slíkar aðgerðir fram í 22. viku. Eða að barnshafandi konur konur myndu upp til hópa taka þá ákvörðun í bríaríi í 21. viku meðgöngu að streyma í þungunarrofsaðgerðir bara af því að þær mega það eða eru upp til hópa svo eigingjarnar og vondar að nenna ekki að eiga börn og verður það ekki ljóst fyrr en svona seint.

Reynslan í öðrum löndum, sem stigið hafa þetta sama skref á undan okkur, sýnir að þungunarrof er að jafnaði ekki framkvæmt síðar en áður, þótt lögum hafi verið breytt á þá lund sem hér um ræðir.

Hvaða konur eru þetta?

Ég saknaði þess að staldrað væri við og spurt: „Hvaða konur eru þetta? Hverjar eru ástæður þeirra fyrir að fara svo seint í þungunarrof?“

Veltum því aðeins fyrir okkur.

Hvaða konur eru þetta?

Þetta er konan sem í 20 vikna sónar fær þær hræðilegu fréttir að eitthvað svo alvarlegt sé að fóstrinu að lifi það af meðgönguna og fæðinguna bíði þess aðeins þjáning og sársauki og kvalafullur dauðdagi eftir fáa daga eða vikur utan móðurkviðar.

Þetta er konan í ofbeldissambandinu sem er að berjast fyrir frelsi frá kvalara sínum, fyrir lífi sínu og mannlegri reisn.

Þetta er fársjúkur fíkill sem farið hefur svo illa með líkama sinn og heila að hún gerir sér ekki grein fyrir því hvernig ástatt er fyrir henni fyrr en seint og um síðir, er þá sennilega búin að stórskaða fóstrið með líferni sínu og er þjökuð af sektarkennd.

Þetta er misnotaða unglingsstúlkan sem þorði ekki að segja frá og sannleikurinn komst ekki upp fyrir en hún gat ekki leynt því lengur hvernig ástatt var fyrir henni.

Þetta er unglingsstúlkan sem hljóp á sig og þorði ekki að segja frá af ótta við viðbrögðin og gat ekki horfst í augu við sannleikann fyrr en hann varð ekki umflúinn lengur.

Þetta eru með öðrum orðum okkar minnstu systur.

Ef Jesús kæmi til okkar núna er þetta nokkurn veginn gestalistinn yfir þá sem kallaðir yrðu að jötunni.

Kona sem fer í þungunarrof eftir að meðgangan er hálfnuð er syrgjandi. Hún er að glíma við sáran harm. Kona sem fer í þungunarrof eftir að meðgangan er hálfnuð er kona í mikilli neyð. Kona sem þarf hjálp.

Hvernig eiga kristnar manneskjur að koma fram við syrgjendur? Hvernig eiga kristnar manneskjur að bregðast við þegar náunginn er í neyð?

Þeirri spurningu er svo auðsvarað að óþarfi er að eyða í það orðum.

Yfirvarp kristilegs kærleika

Samt var það nú svo þegar þetta mál bar á góma að margir sáu ástæðu til að tala fjálglega um virðingu sína fyrir lífinu og hinum ófæddu undir yfirvarpi einhvers sem að þeirra eigin mati var kristilegur kærleikur, en tókst samt í öllu því geipi að vera gjörsamlega staurblindir á hinn harmi lostna syrgjanda og neyð hins þjáða sem málið þó beinlínis snerist um. Og það grátlega er að upp til hópa var þetta sama fólk og vill að sem minnst sé gert til að sporna gegn því að okkar minnstu systur lendi í þessum harmi og neyð til að byrja með. Fólk sem þykist vera á bandi lífsins en er í raun aðeins á bandi fæðingarinnar og gæti ekki staðið meira á sama um líf hins fædda barns, allra síst ef það lendir nú í því að verða landflótta vegna styrjaldarástands heima fyrir eða lendir á refilstigum vegna bágra heimilisaðstæðna.

Þau sjónarmið sem ég er hér að viðra heyrðust vissulega í umræðunni, ég er fráleitt að segja eitthvað sem enginn hefur bent á. En þessi viðhorf drukknuðu að mínu mati – illu heilli – í tilfinningaþrungnum orðaflaumi sem allt of oft var gersneyddur allri aðgát í nærveru sálar.

Auðvitað er enginn hlynntur þungunarrofi í sjálfu sér og sá sem hér stendur ekki heldur. Það er aldrei ánægjulegur eða gleðilegur atburður.

En við berjumst ekki gegn því með boðum og bönnum sem eru til þess fallin að beina konum í neyð í hendurnar á fúskurum með vírherðartré að verkfærum í illa þrifnum bakherbergjum. Við berjumst gegn því með því að berjast fyrir samfélagi þar sem engin kona þarf að örvænta um framtíð sína eða barnsins síns þótt hún verði barnshafandi án þess að hafa ráðgert það. Með því að berjast fyrir samfélagi þar sem engri konu líður eins og hún þurfi að kaupa sér virðingu eða samþykki, hvorki annarra né sjálfrar sín, með hætti sem leitt getur til óvelkominnar þungunar. Með því að berjast fyrir samfélagi þar sem kynfræðsla er sjálfsagður hlutur og fjallar ekki bara um kynsjúkdóma og æxlunarlíffræði heldur um félagslega og sálfræðilega þætti líka, sjálfsvirðingu, virðingu fyrir náunganum og ábyrgð á eigin hegðun. Með því að berjast fyrir samfélagi þar sem ofbeldi er svo fyrirlitið og langt frá því að vera liðið að engin kona verður þunguð í kjölfar ofbeldisverknaðar. Með því að berjast fyrir samfélagi þar sem allar leiðir eru galopnar til að stöðva misnotkun samstundis.

Við berjumst gegn þungunarrofi með því að berjast gegn þörfinni fyrir það, gegn samfélagi þar sem það er nauðsyn – eins og raunin er meðal okkar.

Við gerum það ekki með því að berjast gegn yfirráðarétti kvenna í neyð yfir líkama sínum. Við gerum það ekki með því að berjast gegn því að okkar minnstu systur geti tekið veigamiklar ákvarðanir um örlög sín án þess að hafa til þess leyfi frá sérfræðingum eða öðrum lögformlega tilskipuðum hyggindamönnum.

Kirkjan sem athvarf

Kirkja á að vera athvarf fyrir syrgjendur. Þar eiga þeir að geta treyst því að þeir séu ekki ósýnilegir og mæti aðeins opnum faðmi fullum af kærleika og hlýju, ekki dómhörku og skilningsleysi.

Það nísti því hjarta mitt að heyra hvernig sumir töluðu undir formerkjum kristindómsins í aðdraganda þess að frumvarpið, sem um ræðir, var samþykkt. Ég efast ekki um að þau orð hafi öll verið vel meint og mælt af hjartans einlægri trú. En þeirri trú varð það því miður á, að mínum dómi, að láta samúð með ófullburða fóstri má tilvist syrgjandans burt úr dæmi þar sem neyð hans og harmur hefði alltaf átt að vera í brennidepli. Um slíkt má kirkja aldrei gerast sek. Að minnsta kosti kæri ég mig ekki um að þjóna þannig kirkju.

Ég vil þjóna kirkju sem þeir, sem erfiða og þunga eru hlaðnir, þeir sem glíma við sáran harm og bera þungar sorgir, geta leitað til og treyst því að þar verði leitast við af hjartans einlægri trú að veita þeim hvíld.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 23. júní 2019

tómhenturUm daginn varð ég fyrir einni af þessum litlu opinberunum sem öðru hverju verða í lífi mínu. Engu sem gjörbreytir þankagangi mínum og hugmyndum um lífið og tilveruna þannig að ekkert verður eins á eftir heldur meira svona … „aha!“

Það var fermingaræfing hér í kirkjunni. Fermingarbörnin voru saman komin ásamt foreldrum og við vorum að ganga í gegn um fermingarathöfnina svo að allir vissu hvar þeir ættu að standa og sitja og hvenær þeir ættu að gera hvort. Fermingarbörnin voru með sálmabækurnar sínar og við þurftum mjög oft að minna þau á að skilja þær eftir í sætinu þegar þau komu upp að altarinu til að fermast, svara þeirri spurningu játandi að þau ætluðu að leitast við að hafa Jesú Krist að leiðtoga lífs síns.

Skömmu síðar var ég með brúðkaupsæfingu. Hún þjónaði sama tilgangi. Að brúðhjón, svaramenn og hringberar vissu nokkurn veginn hvar og hvenær þau ættu að standa og sitja. Þá varð ég að minna brúðina á að skilja brúðarvöndinn eftir í sætinu sínu þegar hún kæmi upp að altarinu til að játast eiginmannsefni sínu. Fyrir því eru aðallega praktískar ástæður. Hún þarf að nota báðar hendur í annað, einkum til að draga hring á fingur eiginmanni sínum og það væri kauðskt ef hún þyrfti að leggja vöndinn frá sér á gólfið eða stinga honum undir handarkrikann á meðan.

En þá laust því niður í mig.

Maður kemur alltaf tómhentur að altari Guðs.

Allt skilið eftir

Maður skilur allt eftir í sætinu sínu. Ekki bara handfarangur eins og bækur og blóm … heldur allt hitt líka. Allt sem maður kemur með, allt sem maður burðast með í gegn um lífið. Fram fyrir Guð komum við öll, rík sem fátæk, sem allslausar beiningamanneskjur og biðjum. Þangað komum við aðeins til að þiggja. Þiggja skilyrðislausan kærleika Guðs.

Eða eins og segir í Passísálmum Hallgríams Péturssonar: „Þurfamaður ert þú mín sál.“

Þetta leiðir hugann að öðrum ummælum Jesú frá Nasaret þegar hann segir: „Hver sem tekur ekki við Guðs ríki eins og barn mun aldrei inn í það koma.“ (Mark 10.15)

Hvernig tekur barn við Guðs ríki?

Hvernig tekur barn við nokkru?

Ég myndi segja: Í fullkomnu trausti, í fullkominni auðmýkt. Hvítvoðungurinn spyr engra spurninga, gerir enga fyrirvara. Barnið kann aðeins eitt. Það kann ekki að efast, það kann ekki að vantreysta, kann ekki að vera stolt og hnarreist og yfir það hafið að þurfa á nokkru að halda frá nokkrum manni.

Barnið kann aðeins að þiggja. Og það er býsna flinkt í því. Líf þess beinlínis byggir á því að það sé fært um að þiggja. Þiggja ást, þiggja umhyggju, þiggja móðurmjólk. Barn sem skortir þennan hæfileika visnar upp og deyr.

Eini hæfileikinn sem við fæðumst með er hæfileikinn til að þiggja. Allt hitt lærum við seinna á lífsleiðinni.

Að viðhalda hæfileikum

En þessi hæfileiki … að kunna að þiggja … það er hægt að glata honum. Og það er miður þegar það gerist.

Það er algengara en tárum taki að fólk sem hefur allt sitt líf lagt upp úr því að vera sjálfstætt, standa á eigin fótum og vera engum háð, en lendir í því að þurfa að lokum á umhyggju og aðhlynningu annarra að halda, gangi í gegn um miklar andlegar raunir vegna þess. Andlegar raunir sem bætast ofan á bága líkamlega heilsu og gera illt ástand verra. Andlegar raunir sem stafa einvörðungu af því að þeim er um megn að sleppa tökum á stoltinu og reisninni og þiggja. Að þurfa á öðrum að halda.

Þessi hæfileiki, að kunna að þiggja, hann er mikilvægur og við ættum að standa vörð um hann og leitast við að halda honum við … að glutra honum ekki niður.

Og hvernig gerum við það?

Eins og við gerum allt annað sem við viljum vera fær í.

Við æfum okkur.

Og bænin er mjög góð æfing í því að þiggja.

Í bæninni göngum við til fundar við Guð og felum okkur honum á vald. Bænin er ekki, eins og margir virðast halda, aðferð til að sveigja vilja Guðs að sínum vilja, aðferð til að ná stjórn á Guði og fá hann til að gera það sem við viljum að hann geri. Þvert á móti. Bænin er aðferð við að gefa sig Guði á vald. Að leggja frá sér sálmabókina, blómvöndinn, stoltið, reisnina, kenningarnar, dogmatíkina, okkar inngrónu skoðanir á því hvernig heimurinn ætti að vera … og lúta höfði og beygja kné í fullkominni auðmýkt.

Bænin felur nefnilega laun sín í sér sjálf. Til að biðja í sannri einlægni þarf auðmýkt. Og auðmýktin er dýrmæt gjöf.

Fullkomið traust

Sá sem haldið hefur á sofandi ungabarni í örmum sér veit hvað það er að hvíla í fullkomnu trausti í fangi einhvers og gera ekkert annað en að þiggja umhyggju og vernd. Hvílík sæla. Hvílíkt áhyggjuleysi.

Hvílík náð að geta lagt frá sér allt sem við burðumst með, við sem komum hingað með heiminn á herðunum, stoltið okkar og sjálfstæðið, reisnina, mannvirðingarnar, okkar virðulega stöðu í samfélaginu sem við höfum lagt svo mikið á okkur dag og nótt til að komast í og gætt þess vandlega að sýna aldrei veikleika, sofna aldrei á verðinum, gefa aldrei á okkur höggstað, vera með allt á hreinu … að skilja þetta allt eftir og verða eins og barn … og þiggja í fullkomnu trausti.

Gefandi samskipti í mannlegu samfélagi ganga út á þetta. Að gefa og þiggja … á víxl. Auðvitað er sælla að gefa en þiggja … það sjá allir í hendi sér. Auðvitað er betra að vera í stöðu þess sem til er leitað en hins sem þarf að leita ásjár. En að þiggja er að gefa … að gefa öðrum kost á að sýna hjartahlýju, að iðka kærleika, að rækta mikilvægasta og dýrmætasta grunngildi mennlegrar tilveru. Það er stórkostleg gjöf sem við gefum öðrum þegar við þiggjum kærleika þeirra.

Þannig má færa rök fyrir því að það sé argasta eigingirni að kunna ekki að þiggja, að vilja sitja einn að þeirri sælu að vera sá sem gefur og kunna ekki að veita öðrum hana.

Á sama hátt þiggjum við dálítið mjög dýrmætt þegar við gefum. Við þiggjum það að fá að ganga í ljósi Guðs. Við þiggjum það að fá að vera farvegur fyrir kærleika hans til allra manna.

Í guðspjalli dagsins lofar Jesús okkur því að Guð gefi þeim heilagan anda sem biðja til hans. Hann lofar ekki að Guð gefi okkur hvað sem við biðjum um. Hann gefur okkur ekki peninga eða lausn frá fjárhagsáhyggjum, hann gefur okkur ekki góða heilsu eða liðinu sem við höldum með sigur í næsta fótboltaleik. Hann gefur okkur heilagan anda.

Lykill bænarinnar

Þannig verður bænin lykill að samfélagi heilags anda. Kærleikssamfélaginu þar sem samskipti eru nærandi og gefandi, þar sem við gefum og þiggjum á víxl og mörkin þar á milli mást út þannig að engin leið er að henda reiður á því hver er að gefa og hver að þiggja. Þar sem það að þiggja er að gefa og að gefa er þiggja og það er okkur svo eiginlegt að hlutirnir séu þannig að við veltum því ekki fyrir okkur hvort við séum að gera hverju sinni. Þar sem það að gefa og þiggja er ekki bara tvennt sem erfitt er að greina á milli heldur beinlínis eitt og hið sama.

Sá sem haldið hefur á sofandi ungabarni í örmum sér og upplifað hið fullkomna traust, hið fullkomna áhyggjuleysi veit ósköp vel að barnið er ekki bara að þiggja vernd og umhyggju. Að halda á litlu lífi í höndum sér og vera í vanmætti falið að vernda það og hlú að því … það er líka einhver dýrmætasta gjöf sem einni manneskju getur verið gefin.

„Sannlega segi ég yður,“ segir Jesús Kristur, „sá sem ekki tekur á móti Guðs ríki eins og barn mun aldrei inn í það koma.“

Biðjið og yður mun gefast.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Náð og friður Guðs föður almáttugs, kærleiki Krists og samfélag heilags anda sé með okkur öllum.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 26. maí 2019, hinn almenna bænadag

tóm gröfNáð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni, Jesú Kristi. Amen.

Það er einkennilegt til þess að hugsa hve þankagangur okkar er lærður. Maður hefði viljað halda að maður fæddist með eitthvað brjóstvit, einhvern grundvallarskilning á því hvernig á að hugsa, skynja raunveruleikann og leggja saman tvo og tvo. En svo er ekki.

Ef okkur hefði ekki verið kennd gagnrýnin hugsun myndum við ekki búa yfir henni. Ef samfélag okkar, uppeldi og skólaganga hefði ekki innrætt okkur rökhyggju sem hinn endanlega mælikvarða á rétt og rangt myndi það ekki endilega hvarfla að okkur að hún væri mælistikan sem leggja ætti á öll svið tilverunnar til að fá hana til að ganga upp.

Jafnvel enn einkennilegra er til þess að hugsa að þetta viðhorf til lífsins og heimsins er alveg nýtilkomið í sögu okkar sem tegundar. Það má segja að það sé um það bil 400 ára. Það er ekki hátt hlutfall af sögu sem spannar 350.000 ár. Það er rétt rúmlega 0,1% ef reikningslistin bregst mér ekki. Og jafnvel þótt við miðum upphaf sögu okkar við fyrstu mannvirkin sem vitað er til að við höfum smíðað fyrir tólfþúsund árum, er það samt ekki nema 3% af sögu okkar sem vísindahyggjan hefur verið með í för. Hin 97% af tímanum hugsuðu menn öðruvísi.

Logos og mythos

Á sextándu og sautjándu öld varð hin svokallaða vísindabylting á Vesturlöndum sem gjörbreytti samfélögunum þar. Bylting varð í öllum greinum vísinda og nýjar vísindagreinar komu til sögunnar. Af því leiddi að heimsmynd manna tók umskiptum. Nýjar kenningar komu fram sem kollvörpuðu eldri hugmyndum og í kjölfarið fylgdi síðan það tímabil mannkynssögunnar sem kallað hefur verið „upplýsingin“ eða „upplýsingaöldin“ þar sem hin vísindalega aðferð tók á sig mynd og var beitt á bókstaflega allt sem varðaði mannlega tilveru.

Fram að þeim tíma höfðu menn vissulega þekkt rökhyggju, það er hugtakið „logos“. Logos þurfti til að reisa mannvirki, skipuleggja samfélög, hanna vopn. En logos svaraði fráleitt öllum spurningum og spannaði ekki öll svið lífsins. Við hlið þess var annað hugtak: mythos. Mythos náði yfir það svið tilverunnar sem var handan seilingar logos. Hlutverk mythos var að hjálpa okkur að henda reiður á þeim sviðum tilverunnar sem ekki lúta lögmálum rökhyggjunnar; sorgina, vonina, ástina, skuggahliðar sálarlífsins og þær andlegu klemmur sem við flest lendum í einhvern tímann á lífsleiðinni.

Hugtökin logos og mythos héldust í hendur og vógu hvort annað upp. Hvorugt var yfir hitt sett. Bæði voru jafnnauðsynleg fyrir heildstæða tilveru. Án mythos erum við sálarlaus, án logos vitlaus.

Sigur vísindahyggjunnar

Af orðinu mythos er orðið „mýta“ dregið, orð sem í dag er einkum notað af fjölmiðlum í merkingunni „ranghugmynd“. Endalaust birtast þar greinar um hinar og þessar „mýtur“ sem við verðum að hætta að trúa og fjalla þær yfirleitt um mataræði, svefn og heilsufar. Þversögnin í þessari orðanotkun er auðvitað í því fólgin að bók með sannleikann um þessi sömu viðfangsefni myndu þessir blaðamenn áreiðanlega ekki hika við að kalla „Matarbiblíuna“ eða „Svefnbiblíuna“.

Samt er það nú svo að Biblían inniheldur aðeins mýtur. Helgisögur. Og það gerir ekki lítið úr henni að fullyrða það. Þvert á móti. Helgisagan fæst við þau svið lífsins sem ekki er hægt að setja upp í excel skjal, ekki er hægt að færa sönnur á með efnagreiningu, ekki er hægt að fá svörin við með því að grafa upp steingervinga eða reikna sporbaug himinhnatta.

En hvernig les maður svoleiðis bók þegar hugtakið yfir innhald hennar glatast og fær á sig merkinguna „lygi“ við það að logos fékk að útrýma mythos – við það að vísindahyggjunni var leyft að drepa skilning okkar á því hvað helgisaga er og skyn okkar á mikilvægi hennar fyrir mannlegt líf?

Nú er ég alls ekki að gagnrýna vísindahyggju, öðru nær. Hún hefur gert líf okkar betra og þægilegra og svarað fjölda spurninga sem menn stóðu ráðþrota frammi fyrir öldum og árþúsundum saman. En sumum spurningum getur hún ekki svarað. Og þegar farið var að beita helgisögur okkar rökhyggju, farið var að umgangast mythos eins og það væri logos … þá misstum við að mínum dómi dálítið mjög dýrmætt. Við misstum trúna, traustið, á mýtunum okkar. Helgisögunum. Við misstum okkar nána vitundarsamband við þær.

Því helgisögurnar okkar eru ekki rökréttar.

Rökhyggjan mætir helgisögunni

Þegar farið var að beita helgisögurnar okkar rökhyggju fæddist tvennt sem sett hefur mark sitt á vestræn samfélög æ síðan, annað skaðlaust – í langflestum tilfellum – hitt í besta falli hvimleitt, en þegar verst lætur beinlínis stórhættulegt. Hið skaðlausa er trúleysi. Hitt er bókstafstrú.

Því þegar Biblían er lesin sem vísindi þá gerist annað af tvennu: Annað hvort hafnar maður henni alfarið sem vísindum sem fá ekki staðist – því sem vísindi fær hún vissulega alls ekki staðist. Eða maður trúir henni sem vísindum og véfengir þarafleiðandi öll þau vísindi sem ganga í berhögg við það sem hún hefur að geyma. Þannig er enn þann dag í dag verið að berjast gegn þróunarkenningunni vegna þess að hún brýtur í bága við sköpunarsögu Fyrstu Mósebókar þegar hún er lesin sem sagnfræði – sem hún er ekki – en ekki sem helgiljóð – sem er það sem hún er.

Þessi tveir hópar eiga það sameiginlegt að ímynda sér að helgirit kristinna manna hafi verið skrifað sem einhvers konar akademísk sagnfræði fimmtánhundruð til tvöþúsund árum áður en hugmyndin um akademíska sagnfræði varð til. Í öll þessi ár og árþúsund fram að því höfðu menn vit á að lesa helgirit sín sem það sem þau eru … mýtur. Helgisögur.

Helgisagan segir nefnilega ekki bara frá einangruðum atburðum sem áttu sér stað á einhverjum ákveðnum tímapunkti í fyrndinni í einhverri fastri, sögulegri umgjörð. Helgisagan greinir frá sístæðum sannindum í lífi hvers manns, þá og enn og um alla framtíð.

Sístæður sannleikur

Þannig segir sagan af föstudeginum langa ekki bara söguna af aftöku hins sögulega Jesú frá Nasaret í Jerúsalem á föstudegi fyrir páskahátíð gyðinga einhvern tímann á milli áranna 30 til 36 eftir upphaf okkar tímatals. Hún segir söguna af krossfestingu ljóssins og vonarinnar, alltaf, alls staðar. Þannig er hver einasti dagur föstudagurinn langi í lífi einhvers einhvers staðar á reikistjörnunni okkar. Hvar sem einhver sér lífið murkað úr því sem honum var kærast, það sem hann hafði bundið vonir sínar við og sett traust sitt á, hvenær sem einhver sér ekkert framundan nema myrkur og vonleysi, hvenær sem afhroð kærleikans virðist vera algjört … þar er föstudagurinn langi.

En föstudagurinn langi er ekki einangraður og án samhengis. Hann er undanfari páskadags þegar lífið kviknar aftur. Þegar vonin skýtur aftur upp kollinum. Þegar við sjáum að öll heimsins grimmd fær ekki drepið kærleikann, að allt hið þrúgandi veraldarmyrkur fær ekki slökkt ljósið í brjóstum okkar. Þegar frelsari mannanna rís upp frá dauðum. Kvalakrossinn, það grimmúðlega pyntinga- og aftökutæki, er auður.

Gröfin er tóm.

Það tákn eitt og sér er svo þrungið merkingu að ef við opnum hjörtu okkar fyrir henni, ef við hleypum því inn í sál okkar hvað það þýðir, ef við erum læs á það sem helgisagan heitir okkur, þá hljótum við að fyllast gleði sem engin orð eru þess megnug að gera sanngjörn skil.

Gröfin er tóm.

Mýtan er nefnilega ekki lygi, ekki ranghugmynd eða ósannindi. Hún er lifandi sannleikur í lífi fjölmargra bræðra okkar og systra, jafnvel okkar sjálfra – hvort sem við höfum einhvern tímann hugsað um hann í því samhengi eða ekki.

Það er nefnilega hægt að vera lifandi dauður.

Upprisa hinna lifandi dauðu

Því líf er ekki bara í því fólgið að hafa nægilega líkamsstarfsemi til að læknavísindin mæli skrokkinn með lífsmarki. Að lifa er að finna til … bæði gleði og sorgar, að eiga samfélag við aðra, að tilheyra, að vera samþykktur. Að lifa er að njóta, að upplifa, að gefa og þiggja.

Okkur er lofað lífi í gnægðum. Og líf í gnægðum inniheldur ekki bara gnægð af sólskini og sleikipinnum. Líf í gnægðum inniheldur bæði föstudaginn langa og sólarupprás páskadagsmorgunsins.

Og það er hægt að fara á mis við þetta allt, en samt að vera með hjartslátt og heilastarfsemi. Dauði er ekki bara líkamsdauði.

Við getum freistast til að dæma okkur sjálf til dauða. Að loka okkur inni í gröfinni þar sem enginn getur skaðað okkur. Óttinn getur hrakið okkur inn í hana og velt steininum fyrir opið. Ótti við aðra, ótti við breytingar, ótti við höfnun, ótti við sorg og missi. Ótti við lífið.

Við getum deyft okkur fyrir sársaukanum sem óhjákvæmilega fylgir mannlegri tilveru. Afneitað föstudeginum langa. Brynjað okkur fyrir kærleikanum, því sá sem ekkert elskar þarf aldrei að syrgja neitt. Sá sem ekki þykir vænt um neitt glatar aldrei neinu sem honum er kært.

En það er ekkert líf.

Og það er hægt að rísa upp frá slíkri tilveru.

Og það gera bræður okkar og systur um allan heim … alla daga ársins.

Hvar og hvenær sem kærleikurinn sigrar myrkrið. Hvar og hvenær sem Guð veltir steininum frá hinni köldu og dimmu gröf sem við vorum lokuð inni í, ein, einangruð og óhult fyrir því að þurfa að finna til, og við göngum út í sólarupprásina, út í samfélag manna, út í lífið … þar er páskadagsmorgunn.

Megi allir dagar ævinlega vera eilífur páskadagsmorgunn í lífi okkar allra.

Mýtan er sönn.

Kristur er upprisinn.

Kristur er sannarlega upprisinn.

Gleðilega páska!

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er enn og verður umn aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju á páskadag, 21. apríl 2019

Guðspjall: Hann stóð upp frá máltíðinni, lagði af sér yfirhöfnina, tók líndúk og batt um sig. Síðan hellti hann vatni í mundlaug og tók að þvo fætur lærisveinanna og þerra með líndúknum sem hann hafði um sig. Hann kemur þá að Símoni Pétri sem segir við hann: „Drottinn, ætlar þú að þvo mér um fæturna?“ Jesús svaraði: „Nú skilur þú ekki hvað ég er að gera en seinna muntu skilja það.“ Pétur segir við hann: „Aldrei að eilífu skaltu þvo fætur mína.“ Jesús svaraði: „Ef ég þvæ þér ekki áttu enga samleið með mér.“ (Jóh 13.4-8)

jesús sögulegurNáð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi.

Nákvæmasta Jesúmynd sem ég hef séð, eftir því sem ég kemst næst – alltjent frá vísindalegu sjónarhorni – er tölvuteiknuð. Hún sýnir þrekvaxinn, hraustlegan karlmann, suðrænan í útliti, nokkuð breiðleitan, með mikið nef, dökkeygan, augnbrúnamikinn, skeggjaðan og með stutt, hrokkið hár. Hann er með öðrum orðum allólíkur þessum dæmigerða Jesú sem við þekkjum af Biblíumyndum sunnudagaskólanna og flestum altaristöflum líka, þessum grannvaxna, síðhærða … oftast ljóshærða og bláeyga. Þessi Jesús er svolítið eins og Miðausturlanda útgáfan af Kolbeini kafteini.

Myndin er frá árinu 2002 og sýnir niðurstöður úr samstarfi breskra og ísraelskra fornleifafræðinga og réttarmeinafræðinga sem vildu fá vísindalega niðurstöðu í það hvernig Jesús leit raunverulega og endurgerðu í því augnamiði andlit dæmigerðs Palestínumanns við upphaf okkar tímatals. Í því skyni rannsökuðu þeir og mældu bein og höfuðkúpur Palestínumanna frá þeim tíma.

Ef við trúum frásögn guðspjallanna þá skar Jesús sig nefnilega ekki úr fjöldanum að ytra útliti. Þannig þekktu Rómverjar hann ekki í sjón, Júdas varð að benda þeim á hann með því að smella á hann kossi. Ef Biblíumyndirnar okkar væru réttar hefði Júdas ekki þurft að gera það. Hann hefði bara getað sagt: „Jesús er þessi ljóshærði, bláeygi sem er höfðinu hærri en allir hinir.“

Ekki neitt

En hvað segir þessi Jesúmynd okkur … um Jesú?

Mitt svar er … ekki neitt.

Hún segir okkur eitt og annað um okkur fylgjendur hans. Að til að við getum upplifað Jesú sem bróður okkar höfum við freistast til að breyta ytra útliti hans til að svipa til okkar, jafnvel þótt við vitum mætavel að Jesús var ekki Evrópumaður. Þetta er alþekkt. Víða í Afríku og í kirkjum svartra í Bandaríkjunum má til dæmis sjá myndir af Jesú sem greinilega er af afrísku bergi brotinn.

En um Jesú sjálfan segir þetta okkur ekki neitt sem skiptir máli… Þetta breytir engu um orð hans og gjörðir, á ekki að hafa nein áhrif á það sem hann er okkur. Þessi mynd hjálpar mér ekki að skilja Jesú eða dýpka vitundarsamband mitt við hann sem frelsara minn.

Hin myndin

jesús vatnaskógurEn ég á mér aðra Jesúmynd sem er í miklu meira uppáhaldi hjá mér. Mynd sem hjálpaði mér að skilja … eitthvað sem mér fannst þá mikilvægt og finnst enn … og ég veit ekki alveg hvernig ég á að koma orðum að.

Sú mynd sýnir hinn dæmigerða, síðhærða, grannvaxna Evrópumann sem við þekkjum og er því án efa kolvitlaus út frá sjónarhóli vísinda og sagnfræðilegrar nákvæmni. Myndin er afsteypa af styttu eftir Bertel Thorvaldsen og hana er að finna á altari pínulítillar kapellu í Vatnaskógi. Kannski ræður staðsetningin einhverju um áhrif hennar á mig.

Þar stendur Jesús með útbreiddan faðminn og horfir niður. Ástæða þess er sennilega sú að frummyndin er ríflega þrír metrar á hæð og stendur í Vorrarfrúarkirkju í Kaupmannahöfn. Til er arfsögn um þessa styttu, sem afhjúpuð var árið 1838. Hún er á þá leið að upphaflega hafi Bertel Thorvaldsen gert litla útgáfu úr leir þar sem Jesús horfði til himins og hóf hendurnar til Guðs. Svo á Bertel Thorvaldsen að hafa tekið sér kaffipásu og þegar hann kom til baka höfðu hendurnar sigið og styttan lotið höfði og listamanninum fannst sú staða miklu betur heppnuð. Þetta er áreiðnalega hreinn skáldskapur.

En þessi stelling er dálítið ankanaleg á lítilli styttu sem stendur á altari fyrir framan mann því þegar maður stendur við altarið og horfir á hana er eins og Jesús líti undan, hann sé undirleitur og forðist augnsamband. Maður horfir eiginlega ofan í hvirfilinn á honum.

Ég starfaði um stund við fræðslu í Vatnaskógi og á mér hjartfólgnar minningar frá þeim tíma. Eftir erilsaman dag með misháværum og fjölmennum fermingarbarnahópum fór ég stundum út í kapelluna til að stilla hugann, fá ró í sinnið og eiga stund í næði. Stundum kom það fyrir að ég kraup við altarið og baðst fyrir.

Þegar ég kraup við altarið og leit upp … þá horfði Jesús beint á mig. Þessi Jesús er þannig gerður að til að ná augnsambandi við hann þarf að beygja hnén.

Og sú staðreynd segir mér miklu meira um Krist og samband mitt við hann heldur en vísindaleg úttekt á því hvernig hinn sögulegi Jesús gæti raunverulega hafa litið út á passamynd getur nokkurn tímann gert.

Að beygja hnén

Fyrir ofan dyrnar hér inn í þessa kirkju er letraður sálmur eftir Hallgrím Pétursson. Þennan sálm er víða að finna yfir kirkjudyrum. Hann er á þessa leið:

Þá þú gengur í Guðs hús inn,
gæt þess vel, sál mín fróma,
hæð þú þar ekki Herrann þinn
með hegðun líkamans tóma.
Beygðu holdsins og hjartans kné,
heit bæn þín ástarkveðja sé,
hræsnin mun síst þér sóma.

Í guðspjalli dagsins krýpur Jesús frammi fyrir lærisveinum sínum og þvær fætur þeirra. Við áttum okkur ekki á því hve mjög hann lítillækkaði sjálfan sig í augum samtímamanna sinna með því að vinna þetta verk. Enda sýpur Pétur hveljur, blessaður, og neitar að taka þátt í þessari sjálfsauðmýkingu meistarans.

En svar Jesú er skýrt: „Ef ég þvæ þér ekki áttu enga samleið með mér.“

Að fylgja Jesú

Jesús vill þjóna okkur en við eigum stundum erfitt með að þiggja það … því Pétur er við … blessaður karlinn sem svo oft misskildi og fattaði ekki alveg hvað var í gangi. Maðurinn sem vildi ekki að Jesús færi til Jerúsalem og fékk í staðinn kveðjuna „Vík frá mér, Satan.“ Maðurinn sem vildi gera þrjár tjaldbúðir á fjallinu til að gera öllum til hæfis. Maðurinn sem gekk á vatninu en trúði ekki sínum eigin augum og fór að sökkva. Maðurinn sem vildi verja meistara sinn og hjó eyrað af þjóni æðsta prestsins. Þetta er maðurinn sem Jesús grundvallaði kirkju sína á, gallagripurinn Pétur. Þú og ég og Pétur … við erum kirkjan.

Og öll viljum við væntanlega fylkja liði á bak við Jesú. Við viljum að hann eigi okkur að. Við viljum klæðast hertygjum ljóssins og berjast trúarinnar góðu baráttu. Við viljum að Jesús viti að við stöndum með honum, að hann geti stólað á okkur, að við erum hundrað prósent á bak við hann. Og jafnvel þótt við förum stundum fram úr okkur og föttum ekki allataf alveg hvað er í gangi frekar en Pétur … þá gerir það okkur ekki viðskila við veginn, sannleikan og lífið … frekar en Pétur.

Það er mikilvægt að við berjumst trúarinnar góðu baráttu. Að við brýnum raust okkar í þjóðfélagsumræðunni og gerum heyrinkunnugt hver grundvallaratriði kristilegs hugarfars og breytni eru og hvernig þau heimfærast upp á samtíma okkar hverju sinni. Að við tökum okkur stöðu með Jesú í baráttunni fyrir valdeflingu okkar minnstu bræðra og systra. Að við aðstoðum hann við að velta um borðum víxlaranna sem maka krókinn á óréttlætinu enn þann dag í dag og jafnvel ekki síður en þeir gerðu í Palestínu á fyrstu öldinni. Það er mikilvægt að við þegjum ekki um það að til eru skoðanir – jafnvel stjórnmálaskoðanir – sem eru ósamræmanlegar því að vera kristin manneskja. Ekki síst nú á dögum þegar slíkum skoðunum virðist illu heilli vaxa ört fiskur um hrygg, bæði hér á Íslandi og annars staðar. Þetta er mikilvægt og þetta er kristilegt.

Að þiggja Jesú

En við erum ekki stjórnmálaflokkur. Við getum tilheyrt þeim ýmsum, en við erum ekki hér vegna þeirra. Við erum samfélag. Kærleikssamfélag þar sem við samþykkjum hvert annað og umberum ágreining okkar um það sem ekki gengur beinlínis í berhögg við grundvallaratriði trúar okkar, umberum það að við föttum ekki alltaf öll nákvæmlega hvað er í gangi, ekki frekar en faðir kirkjunnar okkar gerði.

Við erum vissulega liðsmenn Krists og jafnvel á stundum talsmenn þeirra viðhorfa sem við samkvæmt okkar bestu vitund álítum að sé kristileg afstaða til helstu ágreiningsefna samtíma okkar.

En við getum verið svo miklu meira en það.

Ekki getum við bara verið í liði með Jesú, verið þátttakendur og fylgismenn og þjónað honum. Okkur ber líka að þiggja þjónustu hans. Annars eigum við enga samleið með honum. Ekki getum við bara verið lifandi limir á líkama Krists. Við getum gert Krist að lifandi sannleika í lífi okkar. Við getum innbyrt hann hér við altari Guðs og gert hann þannig að hluta af okkur sjálfum. Við getum þegið Jesú og þegið af Jesú … ekki bara gefið.

Og það ber okkur að gera.

Við getum öðlast andlegt vitundarsamband við okkar æðri mátt. Við getum kosið að trúa því að hann geri okkur andlega heil. Við getum ræktað og viðhaldið þessu sambandi, varðveitt andlega heilun og andleg heilindi okkar sjálfra.

Við getum beygt holdsins og hjartans kné frammi fyrir altari Guðs og horft beint í augun á Jesú Kristi.

Og hann horfir á móti með opinn faðminn.

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju á skírdag, 18. apríl 2019

shame_79247a65-22c3-497f-b54f-63145f9f58bbNáð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Í dag fögnum við degi sem kallaður er boðunardagur Maríu. Í Lúkasarguðspjalli greinir nefnilega frá því að Guð hafi sent Gabríel erkiengil á fund Maríu til að tilkynna henni að hún væri barnshafandi. Hún svaraði að það gæti ekki verið þar sem hún hefði aldrei karlmanns kennt, en Gabríel svaraði að ekkert væri Guði um megn.

Í frásögninni er ekki tilgreint hvenær þetta gerðist, en þar sem við fögnum fæðingu Jesú í endaðan desember var í fyrndinni dregin sú ályktun að þetta hefði gerst níu mánuðum fyrr, þá hafi Jesúbarnið komið undir. Því þótt Guði sé ekkert um megn datt þeim frómu kirkjufeðrum … takið eftir því: feðrum … ekki í hug að Guð sæi ástæðu til að stytta meðgönguna hjá unglingsstúlku sem hann gerði barnshafandi að henni óforspurðri og án þess að hún hefði aðhafsts neitt af því tagi sem alla jafna leiðir til þungunar.

María tók fréttunum furðu vel og skömmu síðar fór hún með lofgjörðina sem er guðspjallstexti dagsins. Hann kallast á við lofgjörð Hönnu úr Fyrri Samúelsbók, sem við heyrðum lesna sem lexíu. Kringumstæður Hönnu voru ólíkar Maríu. Hanna hafði verið gift góðum manni alllengi, Elkana að nafni, en þeim hafði ekki orðið barna auðið, en Elkana átti syni með annarri eiginkonu. Áþján Hönnu var því nokkur og hún þráði ekkert heitar en að verða barnshafandi.

Valdefling smælingjanna

Báðar fara þessar konur með lofgjörð þegar þeim verður ljóst að þær bera barn undir belti. Og áhugavert er að skoða í hverju lofgjörð þeirra er fólgin. Þær minnast lítið, nánast ekkert, á barnið í móðurlífi þeirra en tilgreina báðar þess í stað félagslegt réttlæti og valdeflingu hinna smáu, sem dæmi um máttarverk Drottins. „Hann lyftir hinum auma úr duftinu og hefur hinn snauða úr skarninu,“ (1Sam 2.8a) segir Hanna og María segir: „Valdhöfum hefur hann steypt af stóli og upp hafið smælingja. (Lúk 1.52) Það er ljóst að báðar líta þær á þungunina sem valdeflingu fyrir sig, lífskjarabót. Það er auðvitað afar skiljanlegt í tilfelli Hönnu. Fyrir Maríu var þetta aftur á móti flóknara. Hún var í töluvert erfiðari stöðu því við vitum ósköp vel hvernig samfélagið sem hún lifði í tók á hórdómssök, sem þungun án hjónabands var auðvitað óyggjandi sönnun fyrir.

En ég held að við ættum í tilefni af boðunardegi Maríu að velta öðru fyrir okkur.

Af hverju þurfti þetta að vera svona?

Af hverju mátti Jesús ekki bara eiga jarðneskan föður og hafa verið getinn á eðlilegan, líkamlegan hátt utan hjónabands?

Félagsleg staða Jesú

Sú kenning hefur verið sett fram að sagan um meyfæðinguna hafi orðið til til að bregðast við orðrómi andstæðinga frumkristindómsins um að Jesús hafi verið afurð hneykslanlegs ástarsambands Maríu og sýrlensks hermanns úr liði Rómverja, Pantera að nafni. Það mátti auðvitað ekki.

Við göngumst við því að Jesús hafi ekki verið úr liði broddborgara. Hann var fátækur smiður, úr lágstétt samfélagsins. Við játum að hann hafi fæðst í fjárhúsi eins og hver annar búpeningur og verið lagður í jötu sem ætluð var undir skepnufóður. Við viðurkennum meira að segja að hann hafi verið flóttamaður í Egyptalandi, að foreldrar hans hafi flúið pólitískar ofsóknir í heimalandi sínu til að bjarga lífi snáðans. Við játum hiklaust að hann hafi á flestan hátt deilt hlutskipti með þeim valdlausu og óhreinu sem enn eru á meðal okkar og við viljum sem minnst vita af; börnunum í flóttamannabúðunum og bátskænunum á Miðjarðarhafinu.

En að hann hafi verið ástandsbarn … þar drögum við strikið.

Þess í stað var hann getinn flekklausum getnaði án aðkomu mennsks karlmanns. Kristindómnum hefur í gegnum tíðina þótt auðveldara að trúa því heldur en hinu, að hann hafi orðið til með sama hætti og þú og ég. Þetta hefur gengið svo langt að meira að segja þurfti á einhverjum tímapunkti að setja fram kenningu um flekklausan getnað Maríu líka, þannig að Jesús, sem var fullkominn maður, var samt kominn niður í 25% mennsku að ætterni og uppruna. Hann var sonur Guðs og mennskrar konu … sem var dóttir Guðs.

Allt annað en að frelsarinn hafi verið bastarður. Flóttamaður, já. Fátæklingur, já. Fæddur í heiminn undir sömu kringumstæðum og húsdýr, já. En óskilgetinn? Guðlast!

Af hverju þurfti þetta að vera svona?

Sjötta boðorðið

Ég held að það sé löngu tímabært að við göngumst við því og biðjumst á því afsökunar að kristinn trúararfur hefur í gegnum aldirnar verið gegndrepa af tepruskap og tvískinnungi þegar kemur að mannlegri kynhegðun. Tepruskap og tvískinnungi sem skaðað hefur fjölda manns og skert lífsgæði þeirra, einkum kvenna.

Sjötta boðorðið hefur verið túlkað skrifræðislega, ekki andlega. Þar segir einfaldlega: „Þú skalt ekki drýgja hór.“ Og hórdómur hefur verið skilgreindur út frá stimplum og vígslum, ritúölum og opinberri hjúskaparstöðu, en ekki út frá tilfinningum, trúnaði, heitorðum og því sem býr í hjarta manna og gerir samband tveggja einstaklinga, sem fella hugi saman, að einhverju því göfugasta og fegursta sem mannsævin býður upp á og við köllum ást. Það eina sem gæti mögulega jafnast á við þá sælu er þegar þessi ást ber ávöxt í lítilli manneskju þar sem elskendurnir eru orðnir eitt og sama holdið.

Af hverju gat Jesús ekki hafa orðið til með þeim yndislega, fallega og mennska hætti – og samt verið okkur sá sem hann er?

Sem betur fer eru þessi teprulegu, kynfælnu viðhorf á undanhaldi. Við göngumst núorðið – flest allavega – við kynverund mannsins sem óaðskiljanlegum hluta heilbrigðrar mennsku. Og við Íslendingar virðumst öðrum þjóðum fremur vera tiltölulega afslappaðir gagnvart sjötta boðorðinu eða að minnsta kosti ekki leggja í það hinn skrifræðislega skilning, ef marka má tölu óskilgetinna barna … það er barna foreldra sem ekki eru í viðurkenndu og fullgildu hjónabandi. Enda hefur að minnsta kosti einn bandarískur sjónvarpsprédikari, sem komst í þessa tölfræði, kallað okkur „þjóð bastarða“.  Í sömu prédikun kallaði hann Ísland reyndar „feminískt helvíti“ því hann hafði líka kynnt sér stöðu jafnréttismála hérlendis.

En við þurfum ekki að fara neinar aldir aftur í tímann til að það hefði þótt hneykslanlegt að íslenskur prestur byggi í óvígðri sambúð sem leitt hefði af sér tvö óskilgetin börn, eins og tilfellið er með þann sem hér stendur. Og sjálfsagt eru enn einstaklingar á meðal okkar sem finnst það ekki við hæfi, en ég held að þeir séu fáir og að þeim fækki ört.

Um tepruskapinn þarf ekki að þrátta.

Pappírarnir og hjartað

En hvar er tvískinnungurinn?

Hann er í því fólginn að hvað eftir annað snýr kristindómurinn bókstaf lögmálsins á hvolf. Jesús segir sjálfur að hvíldardagurinn hafi orðið til fyrir manninn en ekki maðurinn fyrir hvildardaginn, að mannssonurinn sé herra hvíldardagsins, ekki öfugt. Reglur eru til fyrir fólk, ekki fólk fyrir reglur. Og Páll postuli, sem kallaður hefur verið fyrsti guðfræðingurinn, þrástagast á því sem hann kallar „umskurn hjartans“ í trúardeilum fyrstu aldarinnar um það hvort kristnir menn eigi að vera bundnir umskurnarskyldu lögmáls gyðinga eða ekki. Hann hafnar því alfarið, segir að Guð horfi á hjarta mannsins, ekki … önnur líffæri.

Það er tvískinnungur að halda að Guð leiti að hórdómssök í hjúskaparvottorðum en ekki í hjörtum mannanna, en halda að hann leiti allra annarra synda þar. Að taka sjötta boðorðið út fyrir sviga og halda því fram að grundvallaratriði kristinnar guðfræði og siðfræði eigi við um allar syndir nema það … er tvískinnungur.

Nú kynnu einhverjir að súpa hveljur og halda að ég sé að hallmæla hjónabandi eða að boða að það sé tilgangslaust og merkingarlaust. Svo er alls ekki. Heilagt hjónaband er einmitt heilagt af því að ástin er heilög, af því að Guð elskar heiminn og við erum sköpuð í mynd Guðs og ástin í hjörtum okkar er neisti af kærleika Guðs til okkar. Og eins og sönn trú hjartans hlýtur að birtast í verkum getur sönn ást birst í því að ganga fram fyrir altari Guðs með sínum heittelskaða eða heittelskuðu og bindast þar ástarböndum frammi fyrir Guði og mönnum. Ég er bara að benda á að hjúskparstöðuvottorð segir ekki alla söguna um hjörtun í okkur.

Æðsta boðorðið

Við kristnir menn eigum eitt boðorð sem felur öll hin í sér: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum mætti þínum og öllum huga þínum og náunga þinn eins og sjálfan þig.“ (Lúk 10.27) Sá sem elskar náunga sinn rænir hann ekki, myrðir eða lýgur upp á hann. Og sá sem elskar náunga sinn eins og sjálfan sig kemur fram við hann og sjálfan sig af tilfinningalegri ábyrgð í kynhegðun sinni eins og allri annarri hegðun. Sá sem elskar náungann eins og sjálfan sig nýtir sér ekki valdastöðu eða valdaójafnvægi í kynferðislegum tilgangi. Sá sem elskar náungann og sjálfan sig niðurlægir hvorki sjálfan sig né hann í kynhegðun sinni frekar en nokkru öðru atferli.

Við kristnir menn eigum líka gullna reglu sem hljóðar svo: „Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður það skuluð þér og þeim gjöra.“ (Matt 7.12) Þetta dekkar allt. Þetta nær yfir að sýna heilindi og virða trúnað, að hafa sjálfsvirðingu og misbjóða henni ekki í skiptum fyrir viðurkenningu eða vinsældir. Þetta nær meira að segja yfir hefndarklám, druslusmánun og kynferðislega áreitni.

Kannski er tímabært að við endurskilgreinum hugtakið „hórdóm“, þá athöfn að „drýgja hór“ eins og sjötta boðorðið orðar það. Að við hættum að skilgreina það, eitt boðorða, út frá pappírum – hjúskaparstöðuvottorðum og kirkjubókum – og skilgreinum það í staðinn út frá frelsara okkar sjálfum, hinum óskilgetna Galíleumanni sem á allan hátt stakk sér á kaf í hið mannlega hlutskipti til að færa okkur ljós lífsins. Að við skilgreinum það út frá hinu æðsta boðorði: Elskaðu náunga þinn eins og sjálfan þig.

Ef María hefði lifað í þannig samfélagi hefði enginn engill þurft að birtast henni og segja henni að þetta yrði allt í lagi.

Hún hefði aldrei þurft að hafa áhyggjur af því að það yrði það ekki.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 7. 4. 2019