Feeds:
Færslur
Athugasemdir

hann hefur veitt honum vald til að halda dóm því að hann er Mannssonur. (Jóh 5.27)

dómariNáð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni, Jesú Kristi. Amen.

Dómsdagur er ekki smart. Hann er ekki vinsæll, enda ekkert fallegt við hugmyndir okkar um hann.

Það er því auðvelt að finnast algjör óþarfi að vera eitthvað að tala um þessa forneskju og vilja skauta framhjá henni þegar hún kemur fyrir augu okkar í ritningunni. Það er freistandi að tala um eitthvað annað, um að allir eigi að vera góðir og elska náungann og fyrirgefa öðrum. Eitthvað sem lætur okkur líða vel með okkur sjálf í stað þess að minna okkur á gallana í fari okkar. Eitthvað sem ekki lætur í eyrum eins og hótun og hefur yfir sér þennan blæ úreltrar miðaldaguðfræði og dómhörku. Eitthvað sem er ekki alveg svona gamaldags og vandræðalegt og auðveldara að laga að pólitískri rétthugsun samtíma okkar.

En dómsdagur er þarna. Við getum lokað augunum fyrir honum, við getum skipt um umræðuefni … en hann hverfur ekki úr heilagri ritningu. Jesús segir að faðirinn hafi veitt honum vald til að halda dóm. Punktur. Hann segir margt annað sem líklegra er til vinsælda. En hann segir þetta líka.

Dómarinn

Halda dóm.

Upp í hugann koma myndir af ströngum sakadómara, sem slær hamri í borð, bendir ásakandi fingri og kveður úr um hvaða refsing bíði hins brotlega. Okkur finnst eðlilega óþægilegt að vera sett í þessa stöðu – algerlega að ósekju, finnst okkur flestum væntanlega. Eini glæpur okkar flestra er að vera mennsk með öllum þeim breyskleika og veikleika sem því fylgir. Hver hefur aldrei verið svolítið eigingjarn eða latur eða hagrætt sannleikanum örlítið til að koma betur út? Höfum við ekki öll einhvern tímann veigrað okkur við að gera eitthvað erfitt sem við vissum þó innst inni að rangt væri að láta ógert? Við erum góðar manneskjur fyrir því. Það að við höfum átt stundir þar sem holdið var veikt gerir okkur varla svo brotleg að við verðskuldum að vera dregin fyrir dóm vegna þess, að hvert skipti þegar við lutum í lægra haldi fyrir veikleikum okkar og breyskleika sé tínt til, dregið fram í dagsljósið og við látin gjalda þess dýru verði.

Er Guð ekki líka kærleiksríkur og fyrirgefur okkur syndir okkar? Er ekki þversögn í því fólgin að setja á hann dómaraskikkju og jafnvel hárkollu, rétta honum hamar og setja hann í hlutverk þess sem hegnir okkur fyrir það hvernig við erum sköpuð … sem er jú í hans mynd, ekki satt? Enginn er fullkominn. Verðskuldar það refsingu?

Þetta eru fullkomlega réttmætar spurningar og ég verð að vera hreinskilinn og gangast við því að ég hef ekki svörin við þeim.

Löghlýðnir borgarar

En ég veit tvennt sem kannski er þess virði að hugleiða í þessu samhengi.

Annað er að fæst okkar þyrftu að hafa áhyggjur af því að standa frammi fyrir dómara, jafnvel þótt hann vissi allt um hegðun okkar og framkomu, ef hann þyrfti aðeins að renna atferli okkar í gegnum íslenska hegningalöggjöf eins og hún lítur út árið 2019. Afar fá okkar fengju þunga dóma, við erum alla jafna nokkuð löghlýðnir borgarar. Ástæðan fyrir því að okkur þykir tilhugsunin um dóminn óþægileg er sú að þar eru kannski ekki hegningalög manna lögð til grundvallar heldur lög Guðs. Og þau gera býsna miklar kröfur: Elska skaltu Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum og náunga þinn eins og sjálfan þig. Og við vitum innst inni að við þau höfum við öll – án undantekninga – gerst brotleg í hugsunum, orðum og gjörðum. Við værum ekki mannleg ef svo væri ekki. Og ég ætla ekki að kveða upp dóm yfir okkur öllum fyrir þær sakir, enda er það ekki hlutverk mitt.

Hitt er að við verðum dæmd, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Sjálf dæmum við aðra endalaust og hví skyldum við telja okkur trú um að það gildi ekki um okkur líka? Ein af grunnstoðum kristinnar kenningar er: „Dæmið ekki svo að þér verðið ekki dæmd. Því að með þeim dómi, sem þér dæmið, munuð þér dæmd verða.“ (Matt 6.1-2a)

Og nú er ég ekki að tala um að við dæmum aðra fyrir að vera púkó, fyrir að kunna sig ekki, fyrir að gefa ekki stefnuljós (sem er náttúrlega alveg óþoloandi og við sjálf gleymum aldrei að gera, nema í þessi örfáu skipti þegar við gleymum því, ekki satt?), fyrir að vera í vitlausum stjórnmálaflokki, fyrir að vera menningarsnauðir plebbar sem fatta ekki okkar hámenntuðu og bráðsnjöllu vísanir í heimsbókmenntir og menningararf sem við beitum fyrir okkur í ræðu og riti, nú eða fyrir menntahroka og menningarsnobb þegar við föttum ekki tilgerðarlegar vísanir þeirra í heimsbókmenntir og menningararf – svo eitthvað sé nefnt sem ég að minnsta kosti tengi við.

Við dæmum heilu kynslóðirnar. Kynslóðir sem ekki gerðu neitt af sér sem varðaði við hegningalöggjöf síns tíma, en við lítum upp til þeirra sem brutu þau.

Hver er svo sekur?

Við skulum ekki gleyma því að þrælahald var löglegt. Það var hins vegar refsivert og alvarlegur glæpur að frelsa þræla eða greiða götu flóttaþræla á leið til frelsis. Fyrstu forsetar Bandaríkjanna voru hátt skrifaðir og mikils metnir menn í samfélagi sínu og þrælahaldarar. Thomas Jefferson, þriðji forseti Bandaríkjanna, er meira að segja talinn hafa átt ein sex börn með einni ambátt sinni, sem öll voru ófrjáls enda ekki talin hvít og urðu því þrælar föður síns sem afkvæmi ambáttar hans. Nú á dögum þykir þetta varpa rýrð á arfleifð þessara manna, en á sínum tíma þótti ástæðulaust að hafa orð á þessu, hvað þá fetta fingur út í það. En við hyllum þá sem hetjur sem börðust gegn því.

Við skulum ekki gleyma því að fyrir 75 árum var það refsivert í Þýskalandi að skjóta skjólshúsi yfir gyðinga og margir fengu að kenna á þýskum hegningarlögum sem það gerðu og guldu fyrir það með lífi sínu, en fullkomlega löglegt var að smala gyðingum inn í gasklefa og myrða þá í milljónatali. Hinir löghlýðnu starfsmenn útrýmingarbúðanna eru ekki hátt skrifaðir hjá okkur en Oskar Schindler og Irena Sendler og fleiri, sem björguðu þúsundum gyðinga, eru hyllt sem hetjur.

Við skulum ekki gleyma því að fyrir 64 árum gerðist kona nokkur brotleg við lög í borginni Montgomery í Alabamaríki í Bandaríkjunum og var handtekin í kjölfarið. Hún hét Rosa Parks og vogaði sér að hlýða ekki fyrirmælum um að setjast aftast í strætisvagninn þar sem þeldökkir áttu að halda sig lögum samkvæmt. Hinn samviskusami lögregluþjónn sem handtók hana – hvers nafn er engum kunnugt – grunaði sennilega ekki þá að þessi lögbrjótur sem hann handtók yrði síðar sæmd hinum ýmsu heiðursorðum og viðurkenningum af bandarískum stjórnvöldum fyrir lögbrot sitt og að eftir dauða hennar yrði staðinn heiðursvörður við kistu hennar í bandaríska þinghúsinu.

Samtíminn er aldrei dómbær á sjálfan sig.

Vitnisburðurinn gegn okkur

Og í dag horfum við á fólk handtekið fyrir þann glæp gegn stjórnvöldum að afhjúpa glæpi þeirra gegn mannkyninu, fyrir að leka upplýsingum um stríðsglæpi.

Og hér heima horfum við upp á lögreglurannsókn á því hvernig gögn láku til fjölmiðla á sama tíma og meintir glæpir þeirra sem gögnin varða eru réttlættir og gerendurnir varðir af framámönnum í samfélagi okkar af því að hinir meintu glæpamenn eiga börn og af því að spilling og mútuþægni er landlæg í þessum vanþróuðu ríkjum og því sjálfsagt að leika þann leik til að hámarka gróðann.

Eða er hin raunverulega ástæða kannski sú að dæmi eru um að hinir meintu glæpamenn hafi afskrifað lán upp á ríflega 200 milljónir til einstakra íslenskra stjórnmálamanna og að aðrir íslenskir stjórnmálamenn eru einkavinir og samstarfsmenn þeirra til margra áratuga?

Við skulum ekki ímynda okkur að þessar staðreyndir muni fara framhjá komandi kynslóðum þegar þær gera upp hug sinn gagnvart okkur eins og við höfum gert við gengnar kynslóðir.

Namibía er víða.

Gjörðir og afleiðingar

Við horfðum tiltölulega nýlega upp á þingmann fá tugi milljóna af almannafé greiddar út á akstursskýrslur sem hljóða upp á vegalengd sem jafngildir því að hann hafi ekið hringveginn allan 36 sinnum á einu ári vegna vinnu sinnar og siðanefnd þingsins komast að þeirri niðustöðu í kjölfarið að það hafi brotið siðareglur að segja það vekja grun um að hann hafi dregið sér fé.

Við horfðum fyrir stuttu upp á stjórnmálamenn sitja að sumbli í vinnutíma og hjóla með skipulögðum hætti með svívirðilegum munnsöfnuði í hvern þjóðfélagshópinn af öðrum, koll af kolli, sem þurft hefur að heyja réttindabaráttu til að standa jafnfætis ríkum, hvítum körlum í samfélagi okkar og dómstóla komast að þeirri niðurstöðu í kjölfarið að það hafi varðað við lög að taka samtalið upp og koma því fyrir almenningssjónir. Nýjustu fréttir eru þær að sóðakjaftarnir raka til sín fylgi í skoðanakönnunum.

Við skulum ekki heldur ímynda okkur að þær staðreyndir muni fara framhjá komandi kynslóðum í uppgjöri þeirra við okkur þegar þar að kemur.

Forsendur dómsins

Við horfum upp á lögvarin umhverfishryðjuverk framin í þágu hins heilaga hagvaxtar, fyrirskipuð af leiðtogum þjóðarinnar með löggjöf frá Alþingi, á tímum hnattræns neyðarástands í loftslagsmálum og þorra manna fylgjast með því án þess að aðhafast.

Það er sennilega það sem síst mun fara framhjá komandi kynslóðum.

Við verðum dæmd, hvað sem líður viðhorfum okkar til trúarlegra hugmynda um dómsdag.

Og sá dómur mun ekki byggja á íslenskum hegningarlögum ársins 2019. Hann mun byggja á æðri gildum en þeim, hugsanlega jafnvel Guðs lögum; því hvort við í raun elskuðum Guð og náungann eða hvort við sátum aðgerðarlaus með hendur í skauti og fylgdumst með lögvernduðu óréttlæti ná fram að ganga.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 24. 11. 2019

Guðspjall: Ég sendi ykkur að skera upp það sem þið hafið ekki unnið við. Aðrir hafa erfiðað en þið njótið erfiðis þeirra. (Jóh 4.38)

háhesturNáð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Framlag mitt til tannlæknisfræðinnar er ekki neitt. Hvorki ég né foreldrar mínir né afar og ömmur … eða yfirhöfuð nokkur forfeðra minna eða formæðra … hafa eftir því sem ég best veit lagt hönd á plóg við framþróun tannlækninga. Ekkert okkar hefur uppgötvað eða þróað nýjar aðferðir við tannholdsdeyfingar, tannsteinshreinsanir, tannfyllingar, rótfyllingar eða tannkrónusmíði. Samt er það nú svo að vegna galla í glerungi á ég tannlækningum það að þakka að ég get tuggið mat – án þess að hafa lagt neitt af mörkum til að eiga það skilið.

Um húsagerðarlist gildir það sama. Engar nýjungar á því sviði má rekja til mín eða ættmenna minna eftir því sem ég kemst næst. Það er með öðrum orðum ekki mér að þakka að ég skuli búa í húsi sem heldur vatni og vindum í íslenskri vetrarveðráttu. Hefði mér verið fengið í hendur sement, sandur og steypustyrktarjárn hefði útkoman orðið allólík húsinu sem ég bý í … og sennilega ekki íbúðarhæf.

Keflið gengur

Við stöndum öll á herðum risa. Ekkert okkar hefur í raun lagt neitt að ráði af mörkum til þeirra lífsgæða sem við njótum. Kynslóðin á undan okkur tók við keflinu af kynslóðinni sem fór á undan henni og þannig koll af kolli. Hver kynslóð skilar sínu framlagi til þeirrar næstu sem síðan byggir ofan á það. Við erum ekki alltaf á byrjunarreit þegar við tökum okkur eitthvað fyrir hendur.

Þetta gildir um andlega sviðið líka.

Þegar ég fór að læra guðfræði var það vegna þess að ákveðnar spurningar voru orðnar of áleitnar og flóknar til að ég gæti fengið mér sæti úti í horni og ráðið fram úr þeim aleinn með sjálfum mér upp á eigin spýtur. Ég vildi vita hvað hafði verið hugsað um þessi efni fyrir minn dag af mér gáfaðara fólki svo ég gæti haldið áfram þar sem þeirra niðurstöðum sleppti, tekið við keflinu af þeim í stað þess að hlaupa þennan spöl sjálfur óafvitandi um að aðrir höfðu gert það á undan mér og fundið betri leiðir en líklegt er að ég hefði nokkurn tímann rambað á.

Þannig virkar einfaldlega framþróun samfélagsins. Bill Gates uppgötvaði ekki rafmagnið. Henry Ford fann ekki upp bensínvélina. Þeirra framlag var að bæta sínum hugsmíðum við það sem aðrir höfðu fundið upp á undan þeim. Og þess vegna ökum við um á fjöldaframleiddum bílum – sem gerir það að verkum að þeir eru á viðráðanlegu verði fyrir allan þorra almennings – og brimum netið á notendavænum tölvum sem létta okkur lífið. Aðrir hafa erfiðað og við njótum erfiðis þeirra.

Þakkarskuld kynslóðanna

Þannig hefur hver kynslóð einbeitt sér að því að leggja sitt af mörkum til framtíðar sem hún vissi að hún yrði ekki þátttakandi í sjálf. Thomas Edison fann upp ljósaperuna við kertaljós. Rudolf Diesel ferðaðist um á hestvagni.

Ímyndum okkur til gamans að forfeður okkar sem lögðu grunninn að þeim lífsgæðum sem við njótum í dag hefðu staldrað við, litið upp úr verkum sínum og hugsað með sér: „Hei! Hvað hafa komandi kynslóðir gert fyrir mig? Ekkert! Hví skyldi ég eyða tíma og orku í að gera henni lífið léttara?“

Við getum þakkað Guði fyrir að þeir gerðu það ekki.

Það er vissulega rétt að við skuldum komandi kynslóðum ekki neitt, þær eru ófæddar og því ófærar um allt sem við gætum staðið í þakkarskuld við þær fyrir.

En það er ekki þar með sagt að engin þakkarskuld sé til staðar.

Það er ekki mér að þakka að ég get skotist austur á Egilsstaði á einum degi á bílnum mínum eða til útlanda á einum eftirmiðdegi og keypt flugmiðann á netinu. Það er ekki mér að þakka að ég get kveikt ljósin, að húsið mitt heldur veðri og vindum. Það er ekki einu sinni mér að þakka að ég get tuggið mat.

Að greiða þakkarskuld

Þakkarskuld okkar er ekki við komandi kynslóðir. Þær hafa – eðli málsins samkvæmt – ekki gert neitt fyrir okkur. Hún er við hinar gengnu.

Vandinn er bara sá að við getum – eðli málsins samkvæmt – ekki gert upp þakkarskuld okkar við gengnar kynslóðir einmitt vegna þess að þær eru … gengnar. Þær eru ekki meðal okkar lengur.

Okkar eini kostur er að greiða komandi kynslóðum þakkarskuld okkar við kynslóðirnar sem fóru á undan, alveg eins og þær greiddu okkur sína þakkarskuld við forfeður sína.

Í raun ætti að vera óþarfi að hafa svona mörg orð um þetta. Það er alveg nýskeð í mannkynssögunni að mannleg hugsun sé orðin svo brengluð að vitaskuldir sem þessar vefjist fyrir henni. Hvers vegna svo er komið veit ég ekki fyrir víst, en stundum virðist mér að þeir sem gert hafa það að sinni einu köllun í lífinu að græða á daginn og grilla kvöldin – og fara mikinn í samfélagi okkar nú á dögum – fái hland fyrir hjartað við tilhugsunina um allt sem kalla mætti „siðferðilegar skyldur“.

Ég um mig frá mér til mín

Það er eins og í sálu þeirra rúmist aðeins fyrsta persóna eintölu: Ég um mig frá mér til mín! Skítt með aðra. Skítt með útlenska konu á níunda mánuði meðgöngu sem hefur ekki landvistarleyfi. Skítt með ófædda barnið í móðurlífi hennar og tveggja ára son hennar og áfallastreituröskunina sem ég veld honum og hann mun þurfa að vaxa úr grasi með ómeðhöndlaða. Hvað kemur þetta fólk mér við? Skítt með einstæðingana og öryrkjana sem eru háðir fjölskylduhjálp kirkjunnar og mæðrastyrksnefnd til að líða ekki hungur. Skítt með gamla fólkið sem rannsóknir hafa sýnt fram á að er vannært vegna fátæktar. Skítt með ungmenninn með geðrænu vandamálin sem engin úrræði eru fyrir. Skítt með börnin með sérþarfirnar sem þurfa að bíða vikum og mánuðum saman eftir viðtali hjá sérfræðingi, hvað þá einhverjum aðgerðum í málum sínum. Hvað hefur þetta fólk gert fyrir mig?

Þessi siðfirring gengur jafnvel svo langt að við þessa upptalningu má bæta: Skítt með reikistjörnuna undir fótunum á mér. Skítt með lofthjúp hennar. Skítt með lífríkið, líffræðilega fjölbreytni, súrnun sjávar, hrun vistkerfa. Ég verð löngu dauður þegar þetta verður vandamál. Það verður barnanna minna og barnabarnanna að ráða fram úr þessu.

Já, í raun má segja að meðal okkar sé starfandi hávær hreyfing fólks sem í ræðu og riti trommar fram með boðskapinn: Skítt með börnin mín og barnabörnin, ekki ætla ég að leggja neitt af mörkum til að líf þeirra verði þægilegra.

Um þakklæti

Við getum verið þakklát sem hér erum. Sennilega mun engin kynslóð næstu aldirnar njóta þeirra lífsgæða sem við njótum og lítum á sem sjálfsögð. Við erum sennilega síðasta kynslóðin sem býr við meiri allsnægtir en kynslóðin á undan. Næsta kynslóð mun þurfa að súpa seyðið af gjörðum okkar. Næsta kynslóð mun ekki geta leyft sér það sem við lítum á sem sjálfsagt; flugferðir að vild, hömlulausa matar- og fatasóun, rautt kjöt í hvert mál og þar fram eftir götunum.

Staðreyndin er sú að það er með þessum hætti sem við erum að greiða þakkarskuld okkar við kynslóðirnar sem á undan fóru … eða öllu heldur … ekki greiða hana.

Og við skulum vera þakklát kynslóðunum sem á undan fóru. Ég held að við hugsum fæst út í það hugvit sem aðrir en við lögðu í það, mann fram af manni, fyrir okkar dag, að gera okkur kleyft að laga okkur kaffibolla á morgnana svo dæmi sé tekið. Það þurfti að finna út úr því hvernig gera mætti þessa bragðvondu baun að hnossgæti, hvernig best færi á því að brenna hana og mala. Svo þurfti að hanna könnu sem þrýsti sjóðandi vatni í gegn um malaðar baunirnar án þess að springa í loft upp. Það eina sem við þurfum að gera er að fara út í búð og kaupa könnuna og kaffið og fara eftir leiðbeiningunum. Ekkert okkar lagði meira af mörkum til þessara lífsgæða sem við mörg hver hryllum okkur við tilhugsunina um að vera án.

Aðrir hafa erfiðað. Við njótum erfiðis þeirra.

Risarnir

Hugsum með hlýju til Louis Pasteurs þegar við förum með börnin okkar í bólusetningu. Það er miklu frekar honum að þakka en okkur að þau skuli ekki eiga það á hættu að deyja úr mænusótt eða mislingum í bernsku.

Hugsum með hlýju til Wright bræðra næst þegar við fljúgum til útlanda frekar en að bölva öryggiseftirlitinu og þjónustunni um borð.

Þakklæti er göfgandi tilfinning og mun hollari fyrir sálina og magasýrurnar heldur en gremja þess sem lítur á forréttindi sín og lífsgæði, sem eru meiri en nokkurrar kynslóðar á undan, sem sjálfsögð réttindi, eitthvað sem hann eigi heimtingu á fyrir það eitt að vera til.

Við skulum vera þakklát. Hugsum með hlýju til allra þeirra nafnlausu snillinga sem gerðu kaffibollann okkar mögulegan þegar hann yljar okkur um hjartaræturnar í morgunsárið.

Og veltum því síðan fyrir okkur hvernig komandi kynslóðir munu hugsa til okkar.

Við getum vissulega verið þakklát.

Stolt?

Ekki svo mjög.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 10. 11. 2019

dagur hinna dauðuNáð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Það var virkilega gaman hér í hverfinu síðastliðið fimmtudagskvöld. Börn klædd upp eins og alls konar óhugnanlegar furðuverur gengu á milli húsa, bönkuðu upp á, sögðu „grikk eða gott“ og voru einatt auðvitað leyst út með lítilræði af sælgæti. Fjölmörg heimili tóku þátt í þessu, auðkenndu sig með útskornu graskeri eða hrekkjavökuskreytingum. Og börnin áttu skemmtilega stund … og fengu auðvitað sælgæti sem er líka alltaf skemmtilegt. Aðdáunarvert var hve mikinn metnað og alúð sum barnanna höfðu lagt í búningana sína.

Allra heilagra messa

Þetta er amerískur siður. Halloween. Og einhverjir geta fussað og sveiað yfir þessum erlendu menningaráhrifum. „Eigum við ekki okkar öskudag, af hverju þarf að flytja inn einhverja ómenningu frá Bandaríkjunum?“ heyrði ég meðal annars sagt af fólki sem virtist hafa alveg sérstaka ánægju af því að vera í nöp við að fólk gerði sér dagamun á öðrum forsendum en þeirra eigin menningarlega einangrunarsinnuðu þjóðernishyggju.

En málið er að hrekkjavakan er ekki öskudagurinn. Öskudagurinn er kjötkveðjuhátíð. Það er hrekkjavakan ekki. Hrekkjavakan er hátíð hinna dauðu. Dagurinn sem helgaður er minningu látinna. Hún er allraheilagramessa. Orðið Halloween er afbökun á All Hallow‘s Even … „Kvöld allra heilagra“.

Allra heilagra messa er reyndar daginn eftir, 1. nóvember, en hátíðahöldin byrja kl. 6 að kvöldi daginn áður, sem er arfleifð frá þeim tíma þegar dagurinn var ekki álitinn byrja á miðnætti heldur kl. 6 á kvöldin. Önnur arfleifð frá þeim tíma er aðfangadagskvöldið okkar, sem byrjar jú kl. 6 að kvöldi daginn fyrir jóladag.

Búningarnir eru líka af þessum toga. Þeir tengjast gjarnan óhugnaði, beinagrindur og draugar eru áberandi. Allt tákn dauðans … en beinagrindur og vofur eru þegar betur er að gáð, tákn upprisu og eilífs lífs.

Leikur að ótta

Við þekkjum öll hauskúpu og krossbein sem merki sjóræningja. En hvaðan kemur það? Það kemur beint úr 37. kafla Spádómsbókar Esekíels, úr sýn spámannsins. Esekíel sér dal fullan af mannabeinum og Guð tekur sig til og tengir þau saman og klæðir þau holdi og hinir látnu rísa upp sem lifendur. Þannig kynnir Esekíel gyðingaþjóðina fyrir hugmyndinni um upprisuna. Fyrir daga Esekíels var engin upprisa í klassískum gyðingdómi.

Trú manna var sú að úr þessum tveim beinum sem eyðast síðast, lærleggnum og hauskúpunni, gæti Guð reist einstaklinginn upp frá dauðum. Hauskúpa og lærleggir í kross, en krossin er jú tákn kristninnar, segja því: „Við trúum á upprisuna.“ Og þeirri fullyrðingu fylgir sjálfkrafa sú næsta: „Þess vegna óttumst við ekki dauðann.“ Og það skaut óvininum skelk í bringu. Það er ógnvænleg tilhugsun að mæta andstæðingi sem óttast ekki dauðann. Hann mun berjast til síðasta manns.

Vofan er síðan andi mannsins laus við við líkamann. Það er að segja: Andinn lifir eftir líkamsdauðann.

Þessir siður, hrekkjavakan í þeirri mynd sem við þekkjum hana núna, byggir með öðrum orðum beinlínis á þeim grunni að hafna óttanum við dauðann. Við beinagrindur og vofur bætist síðan ýmiss annar óhugnaður; Frankenstein-skrímsli, nornir, vampírur og þar fram eftir götunum, sem allt má líka tengja dauðanum á einn eða annan hátt.

En í bakgrunni alls sem varðar þessa hátíð er yfirlýsingin sem Hallgrímur Pétursson orðaði svona: „Dauði, ég óttast eigi / afl þitt né valdið gilt.“

Við erum að bregða á leik með dauðann – á okkar forsendum, ekki hans. Við erum að taka dauðann fyrir af léttuð og gáska … og þá ógnar hann okkur ekki á meðan. Þennan dag gerum við dauðann að viðfangsefni okkar – og þá erum við ekki viðfangsefni hans. Einn dag á ári tökum við völdin af honum.

Óumflýjanleiki dauðans

Dauðinn er óhjákvæmlegur hluti lífsins. Allt sem byrjar endar. Jafnvel heimurinn sem við lifum í, sjálf reikistjarnan undir fótum okkar, mun líða undir lok. Eftir um það bil fjóra milljarða ára verður sólin okkar að rauðum risa sem mun gleypa hana. Þegar maður opnar ólesna bók veit maður aðeins eitt sem er í vændum: Að hún endar.

Að lifa í stöðugum ótta við dauðann er því óbærilegt. Það er eins og geta ekki notið þess að lesa bók af því að hún endar eftir visst margar blaðsíður, að geta ekki notið náttúrufegurðar af því að jörðin mun brenna upp eftir visst mörg ár.

Dauðinn er alltaf sorglegur. Harmur og missir nístir sálir syrgjenda. Dauðinn er allt of oft ótímabær, sviplegur og ranglátur. En við höfum, sem kristnar manneskjur, mjög skýr fyrirmæli um það hvernig okkur ber að bregðast við ranglæti: Með kærleika.

Og það er nú einu sinni svo að þegar harmurinn er sárastur og sorgin er dýpst, að þá höfum við tilhneigingu til að sýna okkar bestu hliðar. Þá umvefjum við hvert annað umhyggju og kærleika. Þá berum við og styðjum hvert annað. Frammi fyrir ljótleikanum verðum við fallegust.

Ég held að færa megi rök fyrir því að stóran hluta þess hve við óttumst dauðann megi rekja til þess hve vernduð við erum alla jafna fyrir honum. Og ég er ekki viss um það sé gott. Ég er ekki frá því að það hafi orðið til þess að þetta eðlilegasta af öllu – að líf endi – sem bíður okkar allra – verði í huga okkar að einhverju óeðlilegu og afbrigðilegu.

Hve mikið eigum við að vernda okkur, hvert annað … börnin okkar … fyrir dauðanum?

Að hlífa við dauðanum

Ég er stundum spurður að því í aðdraganda útfarar hve ung börn sé óhætt að taka með í kistulagningu. Ég svara þeirri spurningu oft með sögu sem mér var sögð í námi mínu í guðfræði, ég man ekki hvort það var í embættisgjörð eða sálgæslu enda gildir það einu – en  hún varðar bæði svið.

Hún er um ungan mann sem var ásamt fjölskyldu sinni að skoða myndaalbúm fjölskyldunnar. Þar voru meðal annars ljósmyndir teknar í útför og erfidrykkju afa hans sem hafði látist þegar hann var hvítvoðungur. Hann mundi því ekkert eftir afa sínum, en hann þekkti þarna foreldra sína og ömmu sem yngra fólk og eldri systkin sín sem krakka. Þarna voru frændur og frænkur, sumir látnir aðrir ekki. En hvergi sá hann sjálfan sig. „Hvar er ég?“ spurði hann þá og svarið var: „Þú varst svo lítill að þú varst settur í pössun á meðan.“

Þetta svar fékk mjög á hann. Hann upplifði sára höfnun, hann hafði verið útilokaður frá stórri stund í lífi fjölskyldu sinnar. Jafnvel þótt hann hefði verið í vöggu og ófær um að muna neitt frá þessum atburði var vitneskjan um það að hafa ekki fengið að vera með honum afar þungbær.

Ég legg því á það áherslu – eins og ég held reyndar að flestir prestar geri nú á dögum – að allir séu hafðir með. Mjög ung börn skilja auðvitað ekki hvað er á seyði og því er óþarfi að hafa áhyggjur af þeim og um leið er þeim forðað frá þeirri upplifun síðar að uppgötva að þeim hafi verið úthýst úr stund í lífi fjölskyldunnar. Stálpaðari krakka þarf að undirbúa – ekki útiloka.

Óhugnaður eða fegurð

Því krakkar eru engir vitleysingar og þeir hafa frjótt ímyndunarafl. Með því að segja þeim að þau séu of ung til að taka þátt í að kveðja látinn ástvin eru þeim send skilaboð um að þetta sé allt saman of hræðilegt og óhugnanlegt til að þau ráði við það. Og þá er hætt við að þau fari að ímynda sér einhvern óhugnað sem á ekkert skylt við raunveruleikann og er mun líklegri til að valda þeim martröðum og vanlíðan heldur en að fá að vera með – í hughreystandi faðmi móður eða föður.

Því staðreyndin er sú að það er ekkert óhugnanlegt eða hræðilegt við að kveðja látinn ástvin. Þetta eru fallegar stundir sem snúast um ást og kærleika og ljúfar minningar.

Og sorg.

En sorgin er falleg þótt hún sé erfið og sár.

Því sorg er kærleikur. Sorg getur aldrei fæðst af öðru en kærleika. Við syrgjum aðeins það sem við elskum. Sorg er alltaf skilgetið afkvæmi kærleikans.

Ýmsar aðrar tilfinningar geta hrærst saman við sorgina og gruggað hana, þvælst fyrir okkur og gert úrvinnslu hennar erfiðari. En það eru ekki óeðlilegar eða óheilbrigðar tilfinningar. Þvert á móti. Undir vissum kringumstæðum, til dæmis í kjölfarið á andláti ástvinar, er einmitt mjög eðlilegt og heilbrigt að líða illa. Ef þær tilfinningar gerðu ekki vart við sig væri ástæða til að hafa áhyggjur af andlegu heilbrigði sínu.

Upp á líf og dauða

Við þurfum ekki að hafa áhyggjur af hinum látnu. Þeim líður ekki illa. Þau munu aldrei þjást framar.

Það eru hinir lifandi sem við þurfum að annast.

Og hinum lifandi er að mínum dómi lítill greiði gerður með heimsmynd sápukúlu þar sem dauðinn er eitthvað sem gerist í bíó eða þá í lífi hinna sérlega ólánsömu, hann sé ekki hluti af raunveruleika venjulegs fólks. Slík viðhorf auðvelda okkur ekki að bregðast við sorginni þegar hún knýr dyra – sem hún gerir óhjákvæmilega fyrr eða síðar í lífi okkar langflestra.

Af því að öll elskum við. Og fæst okkar munu aldrei þurfa að kveðja neinn sem við elskuðum.

Kærleikanum fylgir sorg. Eina aðferðin sem við höfum til að brynja okkur fyrir sorginni er að brynja okkur fyrir kærleikanum og líf sem þannig er lifað er ekkert líf. Okkur er heitið lífi í fullri gnægð, og sú gnægð spannar allt litróf hins mannlega hlutskiptis. Þar eru sorgin og dauðinn ekki undanskilin. Lífinu fylgir dauði.

Það er ekki hlutverk okkar að lifa lífi þar sem ekki er rúm fyrir sorg og dauða. Það er hlutverk okkar að elska þannig að það sé sorgarinnar virði.

Að lifa lífi sem er þess virði að deyja fyrir það.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 3. 11. 2019

Guðspjall: Á leið sinni sá Jesús mann sem var blindur frá fæðingu. Lærisveinar hans spurðu hann: „Rabbí, hvort hefur þessi maður syndgað eða foreldrar hans fyrst hann fæddist blindur?“ Jesús svaraði: „Hvorki er það af því að hann hafi syndgað eða foreldrar hans heldur til þess að verk Guðs verði opinber á honum. Okkur ber að vinna verk þess er sendi mig meðan dagur er. Það kemur nótt þegar enginn getur unnið. Meðan ég er í heiminum er ég ljós heimsins.“ Að svo mæltu skyrpti hann á jörðina, gerði leðju úr munnvatninu, strauk leðju á augu hans og sagði við hann: „Farðu og þvoðu þér í lauginni Sílóam.“ (Sílóam þýðir sendur.) Hann fór og þvoði sér og kom aftur sjáandi. Nágrannar hans og þeir sem höfðu áður séð hann ölmusumann sögðu þá: „Er þetta ekki sá er setið hefur og beðið sér ölmusu?“ Sumir sögðu: „Sá er maðurinn,“ en aðrir sögðu: „Nei, en líkur er hann honum.“ (Jóh 9.1-9a)

leðjaNáð sé með ykkur öllum og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Eitt af því síðasta sem sagt er við okkur, flest hver alla vega, hérna megin grafar eru þessi orð: „Af jörðu ertu kominn. Að jörðu skaltu aftur verða. Af jörðu skaltu aftur upp rísa.“ Í þessum helgisið, molduninni, birtist skýrt þessi hugmynd, sem í raun er undirliggjandi í vestrænum mannskilningi, að við séum jarðnesk – það er að segja beinlínis komin af jörðinni.

Í sálmunum segir á einum stað: „Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins.“ (Slm 90.3) Ekki „til duftsins“ heldur „aftur til duftsins“ – væntanlega er átt við þaðan sem hann kom til að byrja með. Annars staðar segir: „Bein mín voru þér eigi hulin þegar ég var gerður í leyndum, myndaður í djúpum jarðar.“ Þannig birtist okkur nánast sá mannskilningur að við höfum skriðið upp úr moldinni til tilvistar okkar, eins og hver önnur kvikindi úr frumlífssúpunni.

Þetta sýnir sig til dæmis í því að hebreska orðið fyrir manneskju, „adam“, er myndað orðinu fyrir jörð, „adama“. Og þessi tenging er ekki einskorðuð við hebresku. Enska orðið – og þarafleiðandi hið alþjóðlega nú á dögum – um okkur sem tegund, „human“, er komið frá latínu, „humanus“, en það orð er aftur myndað af orðinu „humus“ sem merkir mold eða jarðvegur. Enda orti Hallgrímur Pétursson: „Hold er mold / hverju sem það klæðist“.

Í raun má því segja að samkvæmt skilningi okkar sjálfra séum við ekki bara manneskjur, við séum ekki síður „jarðneskjur“, hve langt frá þessari hugsun sem upphafning mannsandans kann síðan að hafa leitt okkur.

Ný sköpun

Elsta og þekktasta myndin af þessari hugmynd, hugsanlega jafnvel sjálfur uppruni hennar, er væntanlega úr síðari sköpunarsögunni í Fyrstu Mósebók þar sem segir þannig frá sköpun mannsins: „Þá mótaði Drottinn Guð manninn af moldu jarðar og blés lífsanda í nasir hans.“ (1Mós 2.7a) Þeir sem Jóhannesarguðspjall er stílað á, voru gerkunnugir þessu táknmáli þótt það sé orðið flestu nútímafólki fjarlægt og framandlegt.

Það er ágætt að hafa þetta í huga þegar við rýnum í táknið sem guðspjall dagsins greinir okkur frá, en í Jóhannesarguðspjalli er aldrei talað um kraftaverk, aðeins „táknin“ sem Jesús gerir.

Jesús læknar blindan mann. Þetta er ekki eina sagan af því tagi í Nýja testamentinu, en þessi er sérstök að því leyti að í kringum kærleiksverk Krists er einkennileg seremónía sem okkur kann að virðast merkingarlaus eða vera aðeins einhverjar tiktúrur eða stælar í frelsaranum. Hann skyrpir á jörðina, gerir leðju úr munnvatni sínu og mold og smyr á augu hins blinda. Hann segir engin arameísk galdraorð. Hann segir ekki einu sinni: „Trú þín hefur gert þig heilan.“ Hann segir bara: „Farðu og þvoðu leðjuna af þér.“

Í samanburði við aðrar frásagnir af kraftaverkalækningum kann þetta drullumall Jesú að virðast hrein tilgerð sem þjónar aðeins dramatískum tilgangi.

En þessi frásögn kallast hástöfum á við sköpunarsöguna. Þetta er ekki bara kærleiksverk, þetta er sköpunarverk. Þarna er verið að segja nýja sköpunarsögu. Eftir að hafa verið í myrkrinu frá upphafi er ekki hægt að líkja lífinu í ljósi Krists við neitt annað en nýja sköpun. Enda er maðurinn óþekkjanlegur á eftir. „Er þetta ekki blindi ölmusumaðurinn?“ spyrja menn og aðrir gleggri svara: „Nei, en hann er óneitanlega dálítið líkur honum.“

Augu hjartans

Endurfæðing. Endursköpun.

Þetta eru táknin sem við höfum um það sem gerist þegar við hleypum Jesú inn í líf okkar. Við getum kallað það algjört uppgjör við verðmæta- og gildismat okkar. Við getum kallað það algjört endurmat á því hvað skiptir máli í lífinu, glænýja forgangsröðun. En Jóhannes guðspjallamaður gerir það ekki. Hann kallar það nýja sköpun. Og hann gerir það með því að segja okkur sögu af manni sem loksins sá ljósið eftir að frelsarinn mótaði handa honum ný augu úr munnvatni sínu og leir jarðar og var óþekkjanlegur á eftir.

Þessi saga er ekki um augnlækningar í neinum nútímaskilningi þess orðs nema rétt á yfirborðinu. Sannleikur hennar ristir mun dýpra en svo. Hún er um það sem Davíð Stefánsson kallar okkar „innri augu“ þegar hann yrkir: „Með innri augum mínum ég undur mikil sé.“ Hún er um það sem Páll postuli talar um í fyrsta kafla Efesusbréfsins þegar hann segir: „Ég bið [Guð] að upplýsa sjón hjartans svo að þið sjáið hver sú von er sem hann hefur kallað okkur til.“ (Ef 1.18) Það er nefnilega hægt að vera alsjáandi en samt í myrkrinu varðandi allt sem raunverulega skiptir máli.

Leitin að réttlætinu

En það er annað atriði varðandi þessa sögu sem mér finnst ástæða til að minnast á. Það er í aðdragandanum, þegar lærisveinarnir sjá manninn sem þeir vita að hefur verið blindur frá fæðingu. Þá vilja þeir fá skýringar á því. Þeir trúa því að Guð sé góður og heimurinn þarafleiðandi réttlátur og krefja því Jesú svars um það hvar réttlætið í þessu sé að finna: „Hvort hefur þessi maður syndgað eða foreldrar hans fyrst hann fæddist blindur?“ Annað hvort hlýtur það að vera.

Þarna takast á tvö sjónarmið eða kenningakerfi sem eru í innbyrðist mótsögn hvort við annað og Jesús er beðinn um að taka afstöðu til þeirra; karmalögmálið og endurlausnarkenningin.

Samkvæmt karmalögmálinu fæðumst við aftur og aftur og tökum í hverri jarðvist út refsingu fyrir syndir okkar í fyrra lífi. Það er indverskt að uppruna og ekki er ólíklegt að það hafi verið þekkt fyrir botni Miðjarðarhafsins á fyrstu öld okkar tímatals. Alltjent er varla hægt að skilja spurninguna öðruvísi. Ef maðurinn fæddist blindur af því að hann syndgaði, hvenær hefði hann þá átt að hafa gert það? Í móðurkviði? Það hlýtur að hafa átt sér stað í fyrri jarðvist. Það er eina mögulega skýringin á spurningunni.

Landssvæðið hafði verið hluti gríska heimsveldisins sem náði allt austur til Indlands og suður um Egyptaland. Það má rétt ímynda sér hvort Grikkir, með sín í raun frumstæðu trúarbrögð, hafi ekki orðið fyrir áhrifum frá allt annarri nálgun og hugsun um andleg og trúarleg málefni sem þeir kynntust hjá hinum undirokuðu þjóðum; í persneskum sóróastríanisma, gyðingdómi, egypskum trúarbrögðum og búddisma. Palestína var í þjóðbraut stefna og strauma í andlegri og trúarlegri hugsun á þeim tíma.

Endurlausnarkenningin heyrði aftur á móti undir klassískan gyðingdóm, en samkvæmt henni umbunaði og refsaði Guð mönnum fyrir gjörðir sínar hérna megin grafar. Ríkidæmi og velgengni var merki um velþóknun Guðs, hörmungar og neyð refsing hans – eins og margoft kemur fram þegar sagt er frá raunum gyðingaþjóðarinnar í gegnum allt Gamla testamentið.

Synir voru í raun ellilífeyrir foreldranna, eina trygging þeirra fyrir framfærslu í ellinni. Að eignast blindan dreng sem aðeins gat orðið ölmusumaður kippti því fótunum undan efnahagslegu öryggi þeirra. Þeir hlutu að hafa gert eitthvað voðalegt af sér fyrst Guð refsaði þeim svona svakalega.

Dogmatík gegn kærleika

Hvor kenningin er rétt?

Jesús segir „hvorug“.

Að öðru leyti svarar hann ekki spurningunni. Hann kemur ekki með þriðju kenninguna, einhverja dogmatík til að réttlæta neyðina.

Því hvorug kenningin greiðir götu kærleikans. Ef blindan er réttlát refsing, annað hvort hins blinda sjálfs eða foreldra hans, er verið að vinna gegn ráðsályktun Guðs með því að skipta sér af þessu. Ef hann fær ekki að taka út sína refsingu núna bíður það karma hans bara í næstu jarðvist í staðinn. Ef foreldrarnir syndguðu svona rosalega verða þeir að fá að taka út sína réttlátu refsingu. Hvorug kenningin býður hinum þjáða neina líkn eða huggun.

Eða haldið þið að það hefði látið honum líða betur að vita að hann væri blindur af því að hann hefði syndgað í fyrra lífi eða af því að foreldrar hans höfðu syndgað áður en hann fæddist? Hverju hefði hann verið bættari með þær upplýsingar?

Kærleikur gegn dogmatík

Þess í stað gengur Jesús á hólm við neyðina sjálfa.

Því kærleikurinn situr ekki aðgerðarlaus álengdar með hendur í skauti og mætir neyðinni með hugsmíðum sem réttlæta hana. „Kærleikurinn gleðst ekki yfir óréttvísinni,“ (1Kor 13.6) segir Páll postuli. Kærleikurinn mætir neyðinni alltaf með líkn.

Jesús segir: „Þú kemst ekkert upp með að skjóta þér undan ábyrgð. Þú getur ekki kallað þig kristna manneskju og um leið búið til einhvern háloftavaðal sem gerir þig stikkfrían frá því að elska náunga þinn. Ekki spyrja „af hverju er hann blindur?“ Spurðu „hvaða kröfur gerir það til mín að hann skuli vera blindur?“

Við getum ekki alltaf vitað af hverju þjáningin er í heiminum. En við þurfum ekki að fara í neinar grafgötur með það hvaða kröfur það gerir til okkar sem kristinna manna að hún skuli vera í heiminum.

Við höfum hleypt Jesú Kristi inn í líf okkar og það breytir öllu. Hann segir okkur kannski ekki af hverju neyðin er til. En hann segir okkur hátt og skýrt hvernig við eigum að bregðast við henni.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 27. 10. 2019

Guðspjall: Þegar Jesús var að leggja af stað kom maður hlaupandi, féll á kné fyrir honum og spurði hann: „Góði meistari, hvað á ég að gera til þess að öðlast eilíft líf?“ Jesús sagði við hann: „Hví kallar þú mig góðan? Enginn er góður nema Guð einn. Þú kannt boðorðin: Þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki bera ljúgvitni, þú skalt ekki pretta, heiðra föður þinn og móður.“ Hinn svaraði honum: „Meistari, alls þessa hef ég gætt frá æsku.“ Jesús horfði á hann með ástúð og sagði við hann: „Eins er þér vant. Far þú, sel allt sem þú átt og gef fátækum og munt þú fjársjóð eiga á himni. Kom síðan og fylg mér.“ En hann varð dapur í bragði við þessi orð og fór burt hryggur enda átti hann miklar eignir. Þá leit Jesús í kring og sagði við lærisveina sína: „Hve torvelt verður þeim sem auðinn hafa að ganga inn í Guðs ríki.“ Lærisveinunum brá mjög við orð Jesú en hann sagði aftur við þá: „Börn, hve torvelt er að komast inn í Guðs ríki. Auðveldara er úlfalda að fara gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki.“ En þeir urðu steini lostnir og sögðu sín á milli: „Hver getur þá orðið hólpinn?“ Jesús horfði á þá og sagði: „Menn hafa engin ráð til þessa en Guði er ekkert um megn. Þá sagði Pétur: „Við yfirgáfum allt og fylgdum þér.“ (Mrk 10.17-28)

úlfaldar í nálaraugaNáð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Í guðspjalli dagsins grípur Jesús til myndlíkingar sem er býsna langsótt, nánast súrrealísk. „Auðveldara er úlfalda að fara inn um nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki,“ segir hann.

Hvaðan kemur þetta? Af hverju úlfalda og nálarauga – af öllum þeim líkingum sem hann hefði getað gripið til? Hvað hefur þetta hvort með annað að gera?

Sennilegasta skýringin, að mínu mati, er sú að hér hafi eitthvað skolast til. Það er varla tilviljun að gríska orðið „kamilos“ merkir úlfaldi en orðið „kamelos“ – með e-i – merkir reipi. Enda stendur þarna „reipi“ en ekki „úlfaldi“ í mörgum yngri handritum. Eldri rithátturinn er þó hafður til grundvallar í vönduðum Biblíuþýðingum, enda líklegra að hann sé upprunalegur. Gildir þá einu hvort eftir á geti læðst sá grunur að einhverjum að um stafsetningarvillu í frumhandritinu hafi verið að ræða, eins og virðist hafa átt sér stað við einhverjar afritanir. Það styður við þessa kenningu að á móðurmáli Jesú, aremeísku, merkir orðið „gamla“ bæði „reipi“ og „úlfaldi“, sennilega vegna þess að reipi voru alla jafna úr úfaldahári. Það er því ekki ósennilegt að upphaflega hafi Jesús frá Nasaret verið að tala um að þræða nál með kaðli – sem er ekki alveg eins langsótt myndmál.

En það breytir þó ekki því að við verðum að halda okkur við úlfaldann, einfaldlega vegna þess að í ritningunni stendur „úlfaldi“. Aukinheldur má það kannski einu gilda hvort Jesús vara að tala um skepnuna sjálfa eða kaðal úr hárum hennar – hvorugu kemur maður í gegn um nálarauga.

Leiðirnar framhjá boðskapnum

Þessi texti er svo óbilgjarn, krafan svo miskunnarlaus, að í gegn um söguna hefur verið gripið til ýmissa ráða til að milda boðskap hans. Í einu fornu handriti segir til dæmis ekki „auðmaður“ heldur „þeim sem treysta á auðinn“. Það er þannig ekki auðurinn sem slíkur heldur afstaðan til hans sem torveldar hinum auðuga að verða hólpinn. En þetta er ekki áreiðanlegur ritháttur.

Auðmönnum er tvímælalaust líkt við úlfalda og í samanburði við úlfaldann er sáluhjálpin nálarauga. Hvergi er minnst á að það sé auðveldara fyrir góðhjartaða og trúrækna auðmenn að fá hlutdeild í Guðs ríki en samansaumaða nirfla. Textinn setur alla auðmenn undir sama hatt.

Á níundu öld greip einn ritskýrandi meira að segja til þess ráðs að skálda upp skemmtilega skýringu sem er í því fólgin að á borgarmúrum Jerúsalem hafi verið hlið sem kallað var „Nálaraugað“ og um það hlið  hefði ekki verið hægt að koma úlfalda nema taka af honum allar klyfjarnar. Úlfalda mátti troða þar í gegn, en hann gat ekki haft neitt með sér.  Margir – ekki síst þeir sem eitthvað áttu undir sér – hafa eflaust varpað öndinni léttar við þessa útlistun og sjálfsagt hljómar hún líka vel í eyrum okkar hér uppi á Íslandi á  21. öldinni sem erum upp til hópa – á mælikvarða sögutíma Nýja testamentisins að minnsta kosti – auðkýfingar.

En þessi skýring er bull. Engar áreiðanlegar heimildir eru til um slíkt hlið. Jesús var ekki að tala um borgarhlið, hann var að tala um nálarauga og Kristur ritningarinnar um spendýrið úlfalda, camelus dromedarius. Pælingar um hvort það sé síðan rétt haft eftir hinni sögulegu persónu eru vissulega skemmtileg dægradvöl, en þær breyta engu um þá staðreynd.

Jafningjasamfélagið

Hvað gerum við þá við þennan texta? Förum við og seljum allar eigur okkar í trausti þess að kvittunin fyrir þeim gildi sem aðgöngumiði að himnaríki? Og bendum svo fordæmandi fingri á alla sem ekki gera það sæl í þeirri sannfæringu okkar að við séum á siðferðilega æðra plani en annað fólk?

Jesús gerði það ekki.

Ríki maðurinn átti samúð hans alla. Jesús horfði á hann með ástúð, enda sá hann að manninum var einlæg alvara með spurningu sinni. Jesús efaðist ekki um að hann segði satt, að hann væri góðhjartaður og guðrækinn maður sem leitaðist við að lifa lífi sínu í samræmi við boðorð Guðs.

En hann var í þeirri stöðu að hann gat aldrei orðið einn af lærisveinum Jesú. Kærleikssamfélagið er jafningjasamfélag og maður sem átti miklar eignir var ekki jafningi alþýðufólksins sem fylgdi Jesú.

Lærisveinar Jesú höfðu yfirgefið allt, skilið allt eftir til að fylgja honum. Og það varð ríki maðurinn líka að gera ef hann ætlaði að verða hluti af þessu samfélagi á jafningjagrundvelli. En það var erfiðara fyrir hann að segja skilið við auðævi sín en það var fyrir Símon Pétur, svo dæmi sé tekið, að yfirgefa eitt hásetapláss – sem var allt og sumt sem hann hafði haft að að hverfa.

Verðmiði á himnaríki

En það er nauðsynlegt að við lesum áfram. Sagan er ekki búin þegar ríki maðurinn hverfur á braut dapur í bragði yfir því að vera ekki fær um að verða við kröfu Jesú, að geta ekki orðið einn af fylgjendum hans – af því að það kostaði of mikið. Samtal Jesú og lærisveinanna skýrir hvað átt er við.

Þessi spurning: „Hver getur þá orðið hólpinn?“ lýsir því viðhorfi klassísks gyðingdóms, sem reyndar var á undanhaldi á tímum Jesú, að auðlegð væri merki um velþóknun Guðs. Ef þeir, sem Guð blessaði með ríkidæmi, gátu ekki gengið að himnaríki sem vísu … hvaða möguleika áttu þá guðsvolaðir fátæklingar?

Jesús segir að enginn maður geti áunnið sér himnaríki. Hvorki ríkir né fátækir. Það gildir einu hvort þú yfirgefur eitt aumt hásetapláss á skipskænu á Genesaretvatni eða blómstrandi gróðafyrirtæki – hvorugt er aðgangsmiði að himnaríki.

Af því að ef svo væri ekki þá væri kominn verðmiði á Himnaríki. Og þá má einu gildi hvort á verðmiðanum stendur „allt sem þú átt“ eða „megnið af því“, „fimmtíu prósent“ eða jafnvel bara „tíund“. Það væri samt verðmiði. Það væri samt yfirlýsing um að hin æðstu andlegu verðmæti fáist keypt fyrir það sem sem mölur og ryð frá grandað.

Svo er ekki.

Jesús bætir því við að Guði sé ekkert um megn. Ekkert. Það þýðir að Guð getur komið úlfalda í gegnum nálarauga … að ekki sé nú minnst á kaðal.

Það þýðir að ef það er verðmiði á himnaríki þá stendur á honum „náð“.

Það er aðeins fyrir náð Guðs að við verðum hólpin.

Af hverju að vera góð?

Við kaupum okkur ekki sáluhjálp með þúsundköllunum eða tíuþúsundköllunum sem við látum renna til góðgerðarmála; barnahjálpar, mannréttindabaráttu, landgræðslu eða hvaða göfuga málstaðar sem það er sem stendur hjarta okkar næst.

Ekki misskilja mig. Það er góðra gjalda vert að láta gott af sér leiða og í raun aðeins sjálfsagt að við verjum hluta af auðæfum okkar til að bæta og göfga samfélag manna og reikistjörnuna sem okkur er falið að annast. En við gerum það ekki til að vinna okkur inn prik hjá Guði.

Því ef við gerum það erum við búin að setja verðmiða á Guðs ríki.

Við gerum það af kærleika.

Ef við gerum það til að fá eitthvað í staðinn er það ekki kærleikur. Þá búa eigingjarnar hvatir þar að baki og kærleikurinn er ekki eigingjarn. Hann leitar ekki síns eigin, segir Páll postuli. Kærleikurinn er góðviljaður. Það er er ekki flóknara.

Ef við reynum að vera gott fólk bara af því að við væntum einhvers í staðinn þá erum við ekkert sérstaklega gott fólk. Ef við reynum að láta gott af okkur leiða af ótta við afleiðingar þess að gera það ekki, erum við ekki góð heldur hrædd.

Við leitumst við að gera veröldina að kærleiksríkari og betri stað af því að það er það minnsta sem við getum gert í þakklætisskyni fyrir náð Guðs sem hann í kærleika sínum úthellir yfir okkur án verðskuldunar. Eða svo vitnað sé í þá góðu bók, Góða dátann Svejk, þar sem segir: „Það er ekki til mikils mælst ef manni er gefin hæna að hann gefi af henni hælbeinið.“

Uppgjörið

Jesús kallar okkur til fylgdar við sig. Hann kallar okkur ekki til efnalegrar örbirgðar. En hann kallar okkur til uppgjörs við gildismat okkar. Og hann varar okkur við því sem villir okkur sýn. Í dæmisögunni um sáðmanninn bendir hann á að „áhyggjur heimsins, tál auðævanna og aðrar girndir“ (Mark 4.19) kæfi orð Guðs í hjörtum okkar. Og ungi maðurinn er þar. Hann er í raun ekki sjálfs sín herra, heldur þræll eigna sinna. Eigur hans eiga hann.

Það er tál auðævanna.

Og það er úr þessum þrældómi sem Jesús vill frelsa hann.

„Losaðu þig við það sem þú hefur dæmt þig til að þjóna og gakktu til liðs við okkur sem fullkominn jafningi – sem frjáls maður,“ segir hann.

Og þótt Jesús kalli okkur ekki til örbirgðar þá kallar hann okkur til þessa sama uppgjörs enn þann dag í dag.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 20. 10. 2019

Guðspjall: Maður sá var sjúkur er Lasarus hét, frá Betaníu, þorpi Maríu og Mörtu, systur hennar. Nú gerðu systurnar Jesú orðsending: „Drottinn, sá sem þú elskar er sjúkur.“ Þegar Jesús kom varð hann þess vís að Lasarus hafði verið fjóra daga í gröfinni. Betanía var nálægt Jerúsalem, hér um bil fimmtán skeiðrúm þaðan. Margir Gyðingar voru komnir til Mörtu og Maríu til að hugga þær eftir bróðurmissinn. Þegar Marta frétti að Jesús væri að koma fór hún á móti honum en María sat heima. Marta sagði við Jesú: „Drottinn, ef þú hefðir verið hér væri bróðir minn ekki dáinn. En einnig nú veit ég að Guð mun gefa þér hvað sem þú biður hann um.“ Jesús segir við hana: „Bróðir þinn mun upp rísa.“ Marta segir: „Ég veit að hann rís upp í upprisunni á efsta degi.“ Jesús mælti: „Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi. Og hver sem lifir og trúir á mig mun aldrei að eilífu deyja. Trúir þú þessu?“ Hún segir við hann: „Já, Drottinn. Ég trúi að þú sért Kristur, Guðs sonur, sem koma skal í heiminn.“ (Jóh 11.1,3,17-27)

zombiebannerNáð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Eins og aðrir internetnotendur hef ég í gegn um tíðina búið til einhvers konar algóriþma um mig á netinu með því hvað ég skoða þar og hvaða síður ég heimsæki. Þeir algóriþmar sem síðan stjórna því hvaða auglýsingar mér eru birtar á internetinu hafa greinilega aðgang að þessum upplýsingum eða að minnsta kosti einhverjum vísbendingum um það hvað útreikningar sýni að ég ætti að vera líklegur til að vilja kaupa.

Merkilegt nokk virðist það aftur á móti ekki vera tekið með í reikninginn að ég hef aldrei á minni lífsfæddri æfi keypt nokkurn skapaðan hlut á vefnum svo það hefur til þessa alls ekki verið til neins að reyna að falbjóða mér eitthvað á þeim vettvangi. En internetið gefst ekki upp og virðist vera sannfært um að fyrr eða síðar verði mér með þessu áframhaldi boðið eitthvað sem ég fæ ekki staðist og láti tilleiðast að draga upp veskið.

Þannig er facebook til dæmis löngu búin að átta sig á því að ég er áhugamaður um trúmál, á góðum dögum man hún jafnvel að ég er prestur. Eitthvað virðist tregða mín við að eyða peningum á netinu þó rugla algóriþmana hennar í ríminu og nú í vikunni var mér boðið að kaupa stuttermabol með áhugaverðri áletrun. Á honum stóð – í íslenskri þýðingu minni:

christianityKristindómur er sú trú að himneskur gyðinga-zombie frá bronsöld geti látið mann lifa að eilífu í galdralandi í skýjunum ef maður á táknrænan hátt étur hold hans og segir honum með hugsanaflutningi að maður sé þjónn hans svo hann geti fjarlægt illt afl úr sálinni í manni sem er þar af því að einu sinni plataði talandi snákur konu úr rifbeini til að borða ávöxt af galdratré. Fullkomlega rökrétt.

Órökréttar helgisögur

Af hverju algóriþmanum fannst það reynandi, eftir allt sem á undan er gengið, að gera mér þetta tilboð er mér hulin ráðgáta. Hugsanlega las hann bara fyrsta orðið, „kristindómur“, og tengdi það strax við sérann.

En þegar ég las þetta þyrmdi dálítið yfir mig. Í fyrsta lagi af því að ég gat ekki lokað augunum fyrir því að þessi texti væri dálítið skondinn og líklegur til að höfða til gárunga. En mig rak ekki minni til að hafa áður séð þvílíkan og annan eins samtvinnaðan útúrsnúning, rangtúlkanir og ósannindi um það sem mér er heilagt – trú mína. Og ég verð að viðurkenna að þessi texti særði mig svolítið. Svona eins og það særir mann að heyra logið upp á einhvern sem maður elskar eða að heyra staðreyndum hagrætt vísvitandi til að draga upp allt aðra mynd en þá sem sönn er af einhverju sem er manni kært.

En samt verðum við að horfast í augu við að með helgisögum okkar og því að játa Biblíuna sem heilaga ritningu þá köllum við þetta yfir okkur. Þennan höggstað gefum við á okkur því helgisögurnar okkar eru ekki rökréttar. Það er ekkert rökrétt við að rísa upp frá dauðum eða reisa aðra upp frá dauðum, eins og guðspjall dagsins boðar.

Í sjálfu sér er nefnilega ekkert rangt við þessa hæðnu lýsingu á kristindómnum … ef engin tilraun er gerð til að setja neitt í samhengi eða skilja með opnum huga hvað átt er við og til hvers er vísað í trúartáknum kristinna manna.

Nokkrar leiðréttingar

Hvar á að byrja á að leiðrétta þessa vitleysu?

Til að byrja með mætti benda á að Jesús var alls ekki uppi á bronsöld. Hún var liðin undir lok mörgum öldum áður en Jesús fæddist. En það er kannski saklausasta rangfærslan í þessu öllu.

Ég nenni varla að eyða orðum í talandi snákinn og konuna úr rifbeininu og hinn bókstaflega skilning sem þar er lagður í táknræna frásögn af þeim tímamótum í þróunarsögunni þegar maðurinn hætti að vera dýr og varð hugsandi vera, varð skyni gæddur – homo sapiens. Hann hætti að vera bara samansafn skilyrtra viðbragða við áreiti, heldur fékk frjálsan vilja og varð þarafleiðandi fær um að breyta gegn betri vitund, fá samviskubit og vita upp á sig skömmina. Ljónið er ófært um að syndga, eðli þess er að rífa í sig gaselluna. Það þekkir ekki blygðun. Við erum ekki þannig.

Í lýsingu þessa texta á altarissakramentinu blasir síðan við fullkominn viðsnúningur á grundvallaratriði trúar okkar. Við kaupum okkur ekki syndaaflausn eða eilíft líf með altarisgöngunni. Við mætum ekki í kirkju til að vinna okkur inn prik hjá Guði, til að ávinna okkur eilífa lífið. Við neytum holds og blóðs frelsara okkar til að tileinka okkur hann, gera hann að hluta af okkur sjálfum. Og við gerum það ekki til að frelsast. Við erum undir náð. Við förum í kirkju og þiggjum sakramentið af því að við erum þannig fólk að við getum ekki tekið við allri þessari náð án þess að segja takk. Við gerum það ekki til að verðskulda hana, því hana getur enginn breyskur maður verðskuldað. Við gerum það af því að fyrir kærleika Guðs er okkur veitt hún án verðskuldunar.

Galdralandið í skýjunum

En hvað er þá með þetta galdraland í skýjunum og endalausu dvölina þar?

Vissulega má túlka orðið „himnaríki“ þannig, þótt Biblían tali hvergi um skýjafarið á staðnum. En himininn er í gegn um allan okkar trúararf tákn fyrir hið guðdómlega og himnaríki er ekki veraldlegur staður uppi í lofthjúpnum einhvers staðar fyrir ofan skýin, heldur hin guðdómlega vídd tilverunnar sem er fyrir utan efnisheiminn. Og fyrir utan efnisheiminn er enginn tími. Tíminn varð til þegar efnisheimurinn myndaðist, fram að því var enginn tími. Að ímynda sér eilífa lífið í hinni guðdómlegu vídd tilverunnar utan við efnið og tímann sem endalaust langt er því þversögn. Í því sambandi er hugtakið „tími“ algerlega merkingarlaust. Tíminn er ekki til utan efnisheimsins. Auk þess merkir orðið „aionios“, sem þýtt er „eilífur“, alls ekki „endalaust“ heldur bara „mjög, mjög stórt“ … í raun „hið stærsta mögulega“. Eilífa lífið er því ekki endlaust langt heldur eins stórt og líf getur orðið. Jesús kallar það „líf í gnægðum“.

Guðsríkið hér og nú

Í guðspjalli dagsins er fyrirheitið um eilífa lífið dregið inn í líðandi stund ef við erum læs á það hvað þar er sagt. Hér er sagt frá aðdraganda þess þegar Jesús reisir Lasarus upp frá dauðum. En sagan er ekki um einhvern einn einangraðan atburð í fjarlægum heimshluta í fornöld. Hún er um máttleysi dauðans gagnvart eilífa lífinu – hinni guðdómlegu vídd tilverunnar – hér og nú.

Marta segist ekki efast um upprisu á efsta degi, en hvaða huggun er í henni núna? Bróðir hennar er farinn og kemur ekki aftur. Jesús svarar og segist vera upprisan og lífið, sá sem trúi á hann muni ekki deyja … ekki í raun og veru.

Í Jesú eigum við andlegt líf í gnægðum, ekki bara á efsta degi heldur hér og nú. Eilífa lífið er núna og alltaf af því að tíminn gildir ekki um það.

Það er út af þessu sem aðdragandinn fær miklu meira pláss í frásögninni en kraftaverkið sjálft. Til að útskýra hvað Jesús er að gera, hvað hann er að útskýra fyrir okkur.

En hvað gerist svo? Kemur Lazarus ekki út úr gröfinni eins og hver annar uppvakningur eða zombie?

Og rís Jesús ekki sjálfur upp frá dauðum fyrir rest – eins og hvert annað zombie?

Zombie Jesús

Þetta fyrirbæri – zombie – hefur verið vinsælt í dægurmenningu okkar á undanförnum árum. Fjöldi hryllingsmynda – og reyndar einhverra gamanmynda líka – segja frá zombie-faröldrum sem mannkynið þarf að kljást við. Zombíarnir eru heimskir og hægfara, í raun aðeins skugginn af manneskju, þeir hafa enga heilbrigða hugsun heldur stjórnast aðeins af hungri í hold og – í sumum útgáfum – heila þeirra sem ekki eru zombíar. Þeir eru ekki manneskjurnar, einstaklingarnir, sem létust, þeir eru aðeins andsetnir, rotnandi líkamar þeirra.

Það er ekkert zombie-legt við upprisu Jesú. Ekki frekar en að það sé eitthvað vampírulegt við altarissakramentið bara af því að þar er drukkið blóð.

Upprisa Jesú táknar máttleysi illskunnar gagnvart kærleikanum. Hann rís upp frá dauðum í mætti og dýrð og stígur loks upp til himna. Zombíar dægurmenningarinnar eru holdgervingar illskunnar. Þeir eru lifandi dauðir og ættu að fá að liggja. Jesús er lífið og kærleikurinn og lífið og kærleikurinn rísa alltaf upp aftur.

Zombíarnir eru tákn hjarðhegðunarinnar, heiladauðrar neysluhyggju. Þeir eru tákn alls þess sem fyllir frjálslynt og framsækið fólk óhug: Engin sjálfstæð hugsun, enginn persónuleiki, aðeins stjórnlaus neysla. Og þeir sem þeir ná að klófesta verða eins og þeir. Þeir eru tákn hinna lifandi dauðu meðal okkar.

Þeir eru táknmyndir alls þess sem Jesús var tekinn af lífi fyrir að ögra og ógna. Þegar múgurinn hrópaði „Krossfestið hann! Krossfestið hann!“ var gagnrýnislaus hjarðhegðunin allsráðandi.

Hinir lifandi dauðu

Jesús aftur á móti afhendir okkur sjálfum ábyrgðina á andlegu lífi okkar. Jesús reisir okkur upp frá andlegum dauða. Við erum ekki lifandi dauð, við eigum andlegt líf í gnægðum. Og upprisan er ekki í því fólgin að fylgja reglum heldur kærleikanum. Jesús var beinlínis krossfestur fyrir að brjóta lög og reglur samfélagsins – fyrir kærleikann.

Og nú þegar ég hef komið þessu frá mér veit ég að stuttermabolurinn sem varð kveikjan að þessari hugleiðingu mun ekki seljast í einu einasta eintaki. Ekki satt?

Auðvitað er það ekki satt. Textinn er skondinn og þeir sem hafa engan áhuga á að skilja kristindóminn en finnst rosalega smart að hæðast að honum munu flíka þessum útúr- og öfugsnúningi á bringunni og skilja ekkert í því að hann særi einhvern og finnast það óttaleg viðkvæmni að vera eitthvað heilagt.

Og við verðum að sætta okkur við það að með því að vera sagan af Jesú Kristi heilög köllum við yfir okkur háð og spott þeirra sem vilja ekki skilja – eða eru ófærir um að skilja – annað en það sem þeir eru mataðir á og er svo auðskilið og ristir svo grunnt að ekki er hægt að misskilja það.

Svolítið svona eins og zombíar.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 6. október 2019

Lexía: Það varð kvöld og það varð morgunn, hinn annar dagur. Þá sagði Guð: „Vötnin undir himninum safnist saman í einn stað og þurrlendið komi í ljós.“ Og það varð svo. Guð nefndi þurrlendið jörð og safn vatnanna nefndi hann haf. Og Guð sá að það var gott. Þá sagði Guð: „Jörðin láti gróður af sér spretta, sáðjurtir og aldintré af öllum tegundum jarðar sem bera ávöxt með sæði.“ Og það varð svo. Jörðin lét gróður af sér spretta, alls kyns sáðjurtir og aldintré af öllum tegundum sem bera ávöxt með fræi. Og Guð sá að það var gott. (1Mós 1.8a-12)

Guðspjall:  Þá sagði Jesús við Gyðingana, sem tekið höfðu trú á hann: „Ef þér farið eftir því sem ég segi eruð þér sannir lærisveinar mínir og munuð þekkja sannleikann, og sannleikurinn mun gera yður frjálsa. (Jóh 8.31-32)

greta thunbergNáð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi.

Bandarískt dagblað nefnist Epoch Times. Um er að ræða afar óvandaðan fjölmiðil sem ítrekað hefur orðið uppvís að því að dreifa samsæriskenningum sem enginn fótur er fyrir. Nýlega birtist þar grein þar sem snúið var út úr og beinlínis haft rangt eftir Finnanum Petteri Talas, sem er yfirmaður WMO, veðurfræðistofnunar Sameinuðu þjóðanna. Þar er hann sagður vara við því sem kallað var „ofstæki í loftslagsmálum“. Greinin er þvættingur frá rótum og full af rangfærslum um loftslagsmál. Það kom þó ekki í veg fyrir að íslenskur vefmiðill endursegði hana nánast orð fyrir orð og að íslenskur þingmaður læsi þá endursögn, tryði fullyrðingum hennar eins og nýju neti og bæri bullið á borð fyrir alþjóð úr ræðustóli Alþingis.

Hvernig stendur á því? Af hverju er þingmaður ekki vandari að virðingu sinni en svo að hann grennslist ekki aðeins fyrir um áreiðanleika og trúverðugleika þeirra heimilda sem hann byggir málflutning sinn á? Af hverju kokgleypir hann fullyrðingar úr vefmiðli af hægri útjaðri stjórnmálanna sem stangast á við allar marktækar vísindalegar niðurstöður sem kynntar hafa verið undanfarna þrjá áratugi?

Samsærið gegn sannleikanum

Svarið er einfalt. Af því að honum hugnast sá sannleikur betur. Það er betra fyrir hann að örfáir hægriöfgamenn hafi rétt fyrir sér heldur en gjörvallt alþjóðlega vísindasamfélagið samanlagt, þannig að hann ákvað að trúa því að þetta væri satt og að allir raunverulegir loftslagsvísindamenn veraldarinnar hefðu síðastliðin 30 ár verið í víðtæku, alþjóðlegu samsæri gegn sannleikanum til að fá athygli.

Staðreyndin er reyndar sú að við erum að upplifa um þessar mundir víðtækt alþjóðlegt samsæri gegn sannleikanum – en það eru ekki loftslagsvísindamenn sem þar eru að verki heldur hinir sem neita að viðurkenna loftslagsbreytingar af manna völdum. Þar er um að ræða net falsfréttamiðla sem rekið er og fjármagnað af auðkýfingum úr olíu- og kolaframleiðslu heimsins. Ákveðnir íslenskir fjölmiðlar og stjórnmálamenn af hægri vængnum eru þátttakendur í þessu samsæri, í besta falli sem nytsamir sakleysingjar, í versta falli af ráðnum hug fyrir veglega umbun.

Fyrir mig og eflaust fleiri, sem fylgdust með fréttum í vikunni sem var að líða, var engu líkara en að mannkynið væri að setja sér ný viðmið í auvirðuleika. Eða hvað er hægt að kalla það þegar UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, sér ástæðu til að senda frá sér yfirlýsingu þar sem skorað er á valdamikla, vestræna, vellauðuga menn að hætta að leggja barn í einelti?

Hinn sári sannleikur

Barátta sænsku unglingsstúlkunnar Gretu Thunberg virðist kalla fram það besta og versta í fólki. Milljónir manna um allan heim hafa farið í mótmælagöngur og krafist aðgerða í lofslagsmálum eigi síðar en þegar í stað. En aðrir hafa spýtt galli. Óþarfi er að hafa eftir allan óþverrann sem úr þeim hefur gosið, en illa uppdregnir götustrákar hafa verið þvegnir um munninn með sápu fyrir saklausari munnsöfnuð.

Og hvað kallar á þessi heiftarlegu viðbrögð?

Svarið er einfalt: Sannleikurinn.

Greta Thunberg segir nefnilega aldrei neitt annað en sannleikann. Hvert orð hennar um loftslagsmál er staðreynd studd vísindalegum rökum.

Þrennt hefur legið fyrir í þrjátíu ár:

  • að hlýnun jarðar er staðreynd
  • að hún er af manna völdum
  • að það er slæmt

Þrátt fyrir að þetta sé ekki hægt að vefengja, þetta hafi hver maður, sem nennt hefur að kynna sér málið, mátt vita í þrjá áratugi – þá hefur mannkynið samt dælt meira magni af gróðurhúsalofttegundum út í lofhjúp jarðar á þeim tíma heldur en í allri sögu sinni fram að því.

Þetta er staðreynd.

Það þarf engan að undra að Greta Thunberg sé reið. Reiði hennar er réttlát. Greta Thunberg er af þeirri kynslóð, sem mín kynslóð bjóst við að myndi uppgötva líf á öðrum hnöttum, en dæmdi síðan til að þurfa þess í stað að berjast fyrir lífinu á þessum. Við höfum engan rétt til að vera hissa á því að henni sé mikið niðri fyrir eða gera lítið úr bræði hennar. Hún er fyllilega réttmæt.

Hin ljúfa lygi

Af hverju er svona erfitt að horfast í augu við sannleikann? Af hverju trúum við augljósum lygum? Eins og því að alþjóðlega vísindasamfélagið viti ekki um hvað það er að tala, en að áhugamaður um loftslagsmál sé að kynna okkur fyrir sannleikanum í fimm mínútna youtube-myndbandi? Að lítill hópur góðhjartaðra olíubaróna sé að afhjúpa alþjóðlegt samsæri vinstrimanna og vísindamanna um að ljúga upp loftslagsvá fyrir völd og peninga? Vill svo heppilega til að á sama tíma verða öfgafull veðurfyrirbrigði sífellt algengari og hitamet um allan heim eru slegin örar en dæmi eru um og þarna á milli er ekkert samband? Eða eru það kannski falsanir líka? Hafa þeir áhyggjur af því að þetta sé allt saman plat og við gætum lent í því að búa til betri heim fyrir afkomendur okkar … til einskis?

Það er auðvitað af því að lygin er þægilegri en sannleikurinn. Sannleikurinn gerir kröfur til okkar. Hann krefst þess af okkur að við breytum um hátt, að við bætum umgengni okkar. Hann leggur ábyrgð og skyldur á herðar okkur, hann er íþyngjandi. Og hann kostar marga mjög, mjög ríka menn mjög, mjög mikla peninga.

Lygin er aftur á móti ljúf og góð. En lygin veitir okkur svikalogn. Fyrr eða síðar mun sannleikurinn dynja á okkur af ógnarþunga. Við sem hér erum þurfum fæst að kvíða því, hann mun ekki snerta okkur persónulega. Greta Thunberg og fermingarbörnin sem hér eru stödd eru ekki það lánsöm. Það verður þeirra hlutskipti að súpa seyðið af gjörðum okkar sem eldri erum.

Gott og illt

„Sannleikurinn mun gera yður frjálsa,“ segir frelsarinn. Og nú er svo komið að líf okkar liggur við, ef við viðurkennum ekki sannleikann. Ekki bara okkar persónulega, heldur líf okkar sem tegundar, lífið á jörðinni eins og við þekkjum það er í húfi.

En hvað er ég að þusa um þetta í prédikun? Er þetta ekki pólitík?

Ef við trúum á Guð þá trúum við því að lífið á jörðinni eins og við þekkjum það sé gott. Guð segir það. Og mér ber að tala um orð Guðs. „Guð sá að það var gott.“ Gott stendur ekki þarna sem andheiti við „lélegt“. Það stendur þarna sem andheiti við „illt“. Lífið á jörðinni er gott í siðfræðilegri merkingu þess orðs, ekki bara praktískri. Og það er siðferðisleg skylda okkar sem kristinna manna að standa vörð um hið góða og berjast gegn hinu illa. Og það er efni í prédikun – hvað sem líður því hvað einhverjir vilja kalla pólitík.

Aðgerðaáætlun

En hvað er til ráða?

Við verðum að byrja á að taka lofslagsafneitarana úr umferð í umræðunni.

Ímyndum okkur að við værum að vinna að jafnréttisáætlun og í ljós kæmi að einhverjir í hópnum væru eindregið þeirrar skoðunar að staður konunnar væri á bak við eldavélina. Hvaða erindi ættu þeir í þá vinnu? Ekkert. Það væri eðlilegasti hlutur í heimi að biðja þá að yfirgefa vinnuhópinn eða að minnsta kosti að stilla sig um að taka til máls.

Ímyndum okkur, í upphafi jafnréttisbaráttunnar, að í hvert skipti sem einhver vefengdi að konur væru jafnhæfar körlum til að hugsa rökrétt og því varla treystandi fyrir atkvæði í almennum kosningum, þá hefði verið staldrað við og það rökrætt í þaula þar til einróma niðurstaða fékkst um þann ágreining áður en hægt hefði verið að halda áfram. Konur væru ekki enn komnar með kosningarétt.

Hvað ef við værum að vinna að mannréttindalöggjöf og í hópnum væri fólk þeirrar skoðunar að svartir menn ættu að vera ánauðgir þrælar hvítra?

Við erum í nákvæmlega þeim sporum núna. Málið er útrætt. Staðreyndir liggja fyrir. Úr því sem komið er verður vitinu ekki komið fyrir þá sem enn efast. Það er fullreynt.

Ef við ætlum að halda áfram að humma víðtækar og róttækar aðgerðir í loftslagsmálum fram af okkur í þrjátíu ár í viðbót af því að enn á eftir að sannfæra nokkra þverhausa um að hið augljósa sé að eiga sér stað … þá er voðinn vís.

Við verðum að gangast við sannleikanum og axla þá ábyrgð sem hann leggur á okkur. Og við getum krafið aðra um að gera það líka.

Krafa um ábyrgð

Til dæmis fjölmiðla. Hvað með ábyrgð þeirra? Af hverju flokkast það undir ritskoðun en ekki ritstjórn að neita að birta lygar og staðleysur? Það er ekki þöggun eða kúgun að vilja ekki vera vettvangur fyrir hættulegt lygaflæði, það er sjálfsvirðing – sem marga íslenska fjölmiðla virðist illu heilli skorta með öllu.

Hvað með samfélagsmiðla? Af hverju fær þessi jarðarhatandi lygadæla að malla þar athugasemdalaust? Hvernig væri að tilkynna alla slíka hópa jafnhratt og örugglega og við myndum tilkynna áróðursvélar hryðjuverkasamtaka, síður þar sem ungir menn eru glaptir til að ganga til liðs við hættulegar öfgasveitir?

Lofslagsafneitarar eru ekki minni ógn við lífið á jörðinni.

Við skulum afvina loftslagsafneitarana hratt og örugglega, eins og við myndum hiklaust gera við kynþáttahatara, hommahatara, útlendingahatara og nýnasista. Og trúið mér, það þarf ekki að eyða miklum tíma á vefsíðum lofslagsafneitara til að sjá að þessar skoðanir eiga mikla samleið. Og þegar allt kemur til alls þá eru skoðanir þeirra á loftslagsmálum síst hættuminni en hinar.

Heimskunni úthýst

Það verður einfaldlega að taka loftslagsafneitarana út úr jöfnunni. Framtíðin er allt of mikilvæg til að pláss sé fyrir heimsku þeirra við borðið þar sem við búum okkur undir hana.

Eða hvað viljið þið kalla það að finnast samsæri vísindamanna, sem helgað hafa líf sitt, starf og heiður leitinni að sannleikanum, trúverðugra heldur en að milljarðamæringar úr kolefnaeldsneytisiðnaði veraldarinnar séu að nota hluta af sínum gríðarlegu auðæfum til að standa vörð um hagsmuni sína á kostnað sannleikans?

Ég kalla það heimsku. Kannski af því að mér finnst það þægilegri tilhugsun en að kalla það illsku.

Reyndar hallast ég að því í æ ríkari mæli með tímanum að þessi tvö orð séu samheiti.

Sannleikurinn mun gera okkur frjáls. Og ef við ekki þegar í stað göngumst við sannleikanum og gerum það sem hann krefst mun sagan ekki fara um okkur mjúkum höndum þegar hrakspárnar – sem hingað til hafa allar gengið eftir – skella á okkur af fullum þunga.

Við verðum að horfast í augu við sannleikann, sama hve ljótur hann er. Því hvernig sem á allt er litið þá er sannleikurinn aldrei svo ljótur að lygin sé ekki ljótari.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 29. 9. 2019