Feeds:
Færslur
Athugasemdir

Guðspjall: Maður sá var sjúkur er Lasarus hét, frá Betaníu, þorpi Maríu og Mörtu, systur hennar. Nú gerðu systurnar Jesú orðsending: „Drottinn, sá sem þú elskar er sjúkur.“ Þegar Jesús kom varð hann þess vís að Lasarus hafði verið fjóra daga í gröfinni. Betanía var nálægt Jerúsalem, hér um bil fimmtán skeiðrúm þaðan. Margir Gyðingar voru komnir til Mörtu og Maríu til að hugga þær eftir bróðurmissinn. Þegar Marta frétti að Jesús væri að koma fór hún á móti honum en María sat heima. Marta sagði við Jesú: „Drottinn, ef þú hefðir verið hér væri bróðir minn ekki dáinn. En einnig nú veit ég að Guð mun gefa þér hvað sem þú biður hann um.“ Jesús segir við hana: „Bróðir þinn mun upp rísa.“ Marta segir: „Ég veit að hann rís upp í upprisunni á efsta degi.“ Jesús mælti: „Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi. Og hver sem lifir og trúir á mig mun aldrei að eilífu deyja. Trúir þú þessu?“ Hún segir við hann: „Já, Drottinn. Ég trúi að þú sért Kristur, Guðs sonur, sem koma skal í heiminn.“ (Jóh 11.1,3,17-27)

zombiebannerNáð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Eins og aðrir internetnotendur hef ég í gegn um tíðina búið til einhvers konar algóriþma um mig á netinu með því hvað ég skoða þar og hvaða síður ég heimsæki. Þeir algóriþmar sem síðan stjórna því hvaða auglýsingar mér eru birtar á internetinu hafa greinilega aðgang að þessum upplýsingum eða að minnsta kosti einhverjum vísbendingum um það hvað útreikningar sýni að ég ætti að vera líklegur til að vilja kaupa.

Merkilegt nokk virðist það aftur á móti ekki vera tekið með í reikninginn að ég hef aldrei á minni lífsfæddri æfi keypt nokkurn skapaðan hlut á vefnum svo það hefur til þessa alls ekki verið til neins að reyna að falbjóða mér eitthvað á þeim vettvangi. En internetið gefst ekki upp og virðist vera sannfært um að fyrr eða síðar verði mér með þessu áframhaldi boðið eitthvað sem ég fæ ekki staðist og láti tilleiðast að draga upp veskið.

Þannig er facebook til dæmis löngu búin að átta sig á því að ég er áhugamaður um trúmál, á góðum dögum man hún jafnvel að ég er prestur. Eitthvað virðist tregða mín við að eyða peningum á netinu þó rugla algóriþmana hennar í ríminu og nú í vikunni var mér boðið að kaupa stuttermabol með áhugaverðri áletrun. Á honum stóð – í íslenskri þýðingu minni:

christianityKristindómur er sú trú að himneskur gyðinga-zombie frá bronsöld geti látið mann lifa að eilífu í galdralandi í skýjunum ef maður á táknrænan hátt étur hold hans og segir honum með hugsanaflutningi að maður sé þjónn hans svo hann geti fjarlægt illt afl úr sálinni í manni sem er þar af því að einu sinni plataði talandi snákur konu úr rifbeini til að borða ávöxt af galdratré. Fullkomlega rökrétt.

Órökréttar helgisögur

Af hverju algóriþmanum fannst það reynandi, eftir allt sem á undan er gengið, að gera mér þetta tilboð er mér hulin ráðgáta. Hugsanlega las hann bara fyrsta orðið, „kristindómur“, og tengdi það strax við sérann.

En þegar ég las þetta þyrmdi dálítið yfir mig. Í fyrsta lagi af því að ég gat ekki lokað augunum fyrir því að þessi texti væri dálítið skondinn og líklegur til að höfða til gárunga. En mig rak ekki minni til að hafa áður séð þvílíkan og annan eins samtvinnaðan útúrsnúning, rangtúlkanir og ósannindi um það sem mér er heilagt – trú mína. Og ég verð að viðurkenna að þessi texti særði mig svolítið. Svona eins og það særir mann að heyra logið upp á einhvern sem maður elskar eða að heyra staðreyndum hagrætt vísvitandi til að draga upp allt aðra mynd en þá sem sönn er af einhverju sem er manni kært.

En samt verðum við að horfast í augu við að með helgisögum okkar og því að játa Biblíuna sem heilaga ritningu þá köllum við þetta yfir okkur. Þennan höggstað gefum við á okkur því helgisögurnar okkar eru ekki rökréttar. Það er ekkert rökrétt við að rísa upp frá dauðum eða reisa aðra upp frá dauðum, eins og guðspjall dagsins boðar.

Í sjálfu sér er nefnilega ekkert rangt við þessa hæðnu lýsingu á kristindómnum … ef engin tilraun er gerð til að setja neitt í samhengi eða skilja með opnum huga hvað átt er við og til hvers er vísað í trúartáknum kristinna manna.

Nokkrar leiðréttingar

Hvar á að byrja á að leiðrétta þessa vitleysu?

Til að byrja með mætti benda á að Jesús var alls ekki uppi á bronsöld. Hún var liðin undir lok mörgum öldum áður en Jesús fæddist. En það er kannski saklausasta rangfærslan í þessu öllu.

Ég nenni varla að eyða orðum í talandi snákinn og konuna úr rifbeininu og hinn bókstaflega skilning sem þar er lagður í táknræna frásögn af þeim tímamótum í þróunarsögunni þegar maðurinn hætti að vera dýr og varð hugsandi vera, varð skyni gæddur – homo sapiens. Hann hætti að vera bara samansafn skilyrtra viðbragða við áreiti, heldur fékk frjálsan vilja og varð þarafleiðandi fær um að breyta gegn betri vitund, fá samviskubit og vita upp á sig skömmina. Ljónið er ófært um að syndga, eðli þess er að rífa í sig gaselluna. Það þekkir ekki blygðun. Við erum ekki þannig.

Í lýsingu þessa texta á altarissakramentinu blasir síðan við fullkominn viðsnúningur á grundvallaratriði trúar okkar. Við kaupum okkur ekki syndaaflausn eða eilíft líf með altarisgöngunni. Við mætum ekki í kirkju til að vinna okkur inn prik hjá Guði, til að ávinna okkur eilífa lífið. Við neytum holds og blóðs frelsara okkar til að tileinka okkur hann, gera hann að hluta af okkur sjálfum. Og við gerum það ekki til að frelsast. Við erum undir náð. Við förum í kirkju og þiggjum sakramentið af því að við erum þannig fólk að við getum ekki tekið við allri þessari náð án þess að segja takk. Við gerum það ekki til að verðskulda hana, því hana getur enginn breyskur maður verðskuldað. Við gerum það af því að fyrir kærleika Guðs er okkur veitt hún án verðskuldunar.

Galdralandið í skýjunum

En hvað er þá með þetta galdraland í skýjunum og endalausu dvölina þar?

Vissulega má túlka orðið „himnaríki“ þannig, þótt Biblían tali hvergi um skýjafarið á staðnum. En himininn er í gegn um allan okkar trúararf tákn fyrir hið guðdómlega og himnaríki er ekki veraldlegur staður uppi í lofthjúpnum einhvers staðar fyrir ofan skýin, heldur hin guðdómlega vídd tilverunnar sem er fyrir utan efnisheiminn. Og fyrir utan efnisheiminn er enginn tími. Tíminn varð til þegar efnisheimurinn myndaðist, fram að því var enginn tími. Að ímynda sér eilífa lífið í hinni guðdómlegu vídd tilverunnar utan við efnið og tímann sem endalaust langt er því þversögn. Í því sambandi er hugtakið „tími“ algerlega merkingarlaust. Tíminn er ekki til utan efnisheimsins. Auk þess merkir orðið „aionios“, sem þýtt er „eilífur“, alls ekki „endalaust“ heldur bara „mjög, mjög stórt“ … í raun „hið stærsta mögulega“. Eilífa lífið er því ekki endlaust langt heldur eins stórt og líf getur orðið. Jesús kallar það „líf í gnægðum“.

Guðsríkið hér og nú

Í guðspjalli dagsins er fyrirheitið um eilífa lífið dregið inn í líðandi stund ef við erum læs á það hvað þar er sagt. Hér er sagt frá aðdraganda þess þegar Jesús reisir Lasarus upp frá dauðum. En sagan er ekki um einhvern einn einangraðan atburð í fjarlægum heimshluta í fornöld. Hún er um máttleysi dauðans gagnvart eilífa lífinu – hinni guðdómlegu vídd tilverunnar – hér og nú.

Marta segist ekki efast um upprisu á efsta degi, en hvaða huggun er í henni núna? Bróðir hennar er farinn og kemur ekki aftur. Jesús svarar og segist vera upprisan og lífið, sá sem trúi á hann muni ekki deyja … ekki í raun og veru.

Í Jesú eigum við andlegt líf í gnægðum, ekki bara á efsta degi heldur hér og nú. Eilífa lífið er núna og alltaf af því að tíminn gildir ekki um það.

Það er út af þessu sem aðdragandinn fær miklu meira pláss í frásögninni en kraftaverkið sjálft. Til að útskýra hvað Jesús er að gera, hvað hann er að útskýra fyrir okkur.

En hvað gerist svo? Kemur Lazarus ekki út úr gröfinni eins og hver annar uppvakningur eða zombie?

Og rís Jesús ekki sjálfur upp frá dauðum fyrir rest – eins og hvert annað zombie?

Zombie Jesús

Þetta fyrirbæri – zombie – hefur verið vinsælt í dægurmenningu okkar á undanförnum árum. Fjöldi hryllingsmynda – og reyndar einhverra gamanmynda líka – segja frá zombie-faröldrum sem mannkynið þarf að kljást við. Zombíarnir eru heimskir og hægfara, í raun aðeins skugginn af manneskju, þeir hafa enga heilbrigða hugsun heldur stjórnast aðeins af hungri í hold og – í sumum útgáfum – heila þeirra sem ekki eru zombíar. Þeir eru ekki manneskjurnar, einstaklingarnir, sem létust, þeir eru aðeins andsetnir, rotnandi líkamar þeirra.

Það er ekkert zombie-legt við upprisu Jesú. Ekki frekar en að það sé eitthvað vampírulegt við altarissakramentið bara af því að þar er drukkið blóð.

Upprisa Jesú táknar máttleysi illskunnar gagnvart kærleikanum. Hann rís upp frá dauðum í mætti og dýrð og stígur loks upp til himna. Zombíar dægurmenningarinnar eru holdgervingar illskunnar. Þeir eru lifandi dauðir og ættu að fá að liggja. Jesús er lífið og kærleikurinn og lífið og kærleikurinn rísa alltaf upp aftur.

Zombíarnir eru tákn hjarðhegðunarinnar, heiladauðrar neysluhyggju. Þeir eru tákn alls þess sem fyllir frjálslynt og framsækið fólk óhug: Engin sjálfstæð hugsun, enginn persónuleiki, aðeins stjórnlaus neysla. Og þeir sem þeir ná að klófesta verða eins og þeir. Þeir eru tákn hinna lifandi dauðu meðal okkar.

Þeir eru táknmyndir alls þess sem Jesús var tekinn af lífi fyrir að ögra og ógna. Þegar múgurinn hrópaði „Krossfestið hann! Krossfestið hann!“ var gagnrýnislaus hjarðhegðunin allsráðandi.

Hinir lifandi dauðu

Jesús aftur á móti afhendir okkur sjálfum ábyrgðina á andlegu lífi okkar. Jesús reisir okkur upp frá andlegum dauða. Við erum ekki lifandi dauð, við eigum andlegt líf í gnægðum. Og upprisan er ekki í því fólgin að fylgja reglum heldur kærleikanum. Jesús var beinlínis krossfestur fyrir að brjóta lög og reglur samfélagsins – fyrir kærleikann.

Og nú þegar ég hef komið þessu frá mér veit ég að stuttermabolurinn sem varð kveikjan að þessari hugleiðingu mun ekki seljast í einu einasta eintaki. Ekki satt?

Auðvitað er það ekki satt. Textinn er skondinn og þeir sem hafa engan áhuga á að skilja kristindóminn en finnst rosalega smart að hæðast að honum munu flíka þessum útúr- og öfugsnúningi á bringunni og skilja ekkert í því að hann særi einhvern og finnast það óttaleg viðkvæmni að vera eitthvað heilagt.

Og við verðum að sætta okkur við það að með því að vera sagan af Jesú Kristi heilög köllum við yfir okkur háð og spott þeirra sem vilja ekki skilja – eða eru ófærir um að skilja – annað en það sem þeir eru mataðir á og er svo auðskilið og ristir svo grunnt að ekki er hægt að misskilja það.

Svolítið svona eins og zombíar.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 6. október 2019

Lexía: Það varð kvöld og það varð morgunn, hinn annar dagur. Þá sagði Guð: „Vötnin undir himninum safnist saman í einn stað og þurrlendið komi í ljós.“ Og það varð svo. Guð nefndi þurrlendið jörð og safn vatnanna nefndi hann haf. Og Guð sá að það var gott. Þá sagði Guð: „Jörðin láti gróður af sér spretta, sáðjurtir og aldintré af öllum tegundum jarðar sem bera ávöxt með sæði.“ Og það varð svo. Jörðin lét gróður af sér spretta, alls kyns sáðjurtir og aldintré af öllum tegundum sem bera ávöxt með fræi. Og Guð sá að það var gott. (1Mós 1.8a-12)

Guðspjall:  Þá sagði Jesús við Gyðingana, sem tekið höfðu trú á hann: „Ef þér farið eftir því sem ég segi eruð þér sannir lærisveinar mínir og munuð þekkja sannleikann, og sannleikurinn mun gera yður frjálsa. (Jóh 8.31-32)

greta thunbergNáð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi.

Bandarískt dagblað nefnist Epoch Times. Um er að ræða afar óvandaðan fjölmiðil sem ítrekað hefur orðið uppvís að því að dreifa samsæriskenningum sem enginn fótur er fyrir. Nýlega birtist þar grein þar sem snúið var út úr og beinlínis haft rangt eftir Finnanum Petteri Talas, sem er yfirmaður WMO, veðurfræðistofnunar Sameinuðu þjóðanna. Þar er hann sagður vara við því sem kallað var „ofstæki í loftslagsmálum“. Greinin er þvættingur frá rótum og full af rangfærslum um loftslagsmál. Það kom þó ekki í veg fyrir að íslenskur vefmiðill endursegði hana nánast orð fyrir orð og að íslenskur þingmaður læsi þá endursögn, tryði fullyrðingum hennar eins og nýju neti og bæri bullið á borð fyrir alþjóð úr ræðustóli Alþingis.

Hvernig stendur á því? Af hverju er þingmaður ekki vandari að virðingu sinni en svo að hann grennslist ekki aðeins fyrir um áreiðanleika og trúverðugleika þeirra heimilda sem hann byggir málflutning sinn á? Af hverju kokgleypir hann fullyrðingar úr vefmiðli af hægri útjaðri stjórnmálanna sem stangast á við allar marktækar vísindalegar niðurstöður sem kynntar hafa verið undanfarna þrjá áratugi?

Samsærið gegn sannleikanum

Svarið er einfalt. Af því að honum hugnast sá sannleikur betur. Það er betra fyrir hann að örfáir hægriöfgamenn hafi rétt fyrir sér heldur en gjörvallt alþjóðlega vísindasamfélagið samanlagt, þannig að hann ákvað að trúa því að þetta væri satt og að allir raunverulegir loftslagsvísindamenn veraldarinnar hefðu síðastliðin 30 ár verið í víðtæku, alþjóðlegu samsæri gegn sannleikanum til að fá athygli.

Staðreyndin er reyndar sú að við erum að upplifa um þessar mundir víðtækt alþjóðlegt samsæri gegn sannleikanum – en það eru ekki loftslagsvísindamenn sem þar eru að verki heldur hinir sem neita að viðurkenna loftslagsbreytingar af manna völdum. Þar er um að ræða net falsfréttamiðla sem rekið er og fjármagnað af auðkýfingum úr olíu- og kolaframleiðslu heimsins. Ákveðnir íslenskir fjölmiðlar og stjórnmálamenn af hægri vængnum eru þátttakendur í þessu samsæri, í besta falli sem nytsamir sakleysingjar, í versta falli af ráðnum hug fyrir veglega umbun.

Fyrir mig og eflaust fleiri, sem fylgdust með fréttum í vikunni sem var að líða, var engu líkara en að mannkynið væri að setja sér ný viðmið í auvirðuleika. Eða hvað er hægt að kalla það þegar UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, sér ástæðu til að senda frá sér yfirlýsingu þar sem skorað er á valdamikla, vestræna, vellauðuga menn að hætta að leggja barn í einelti?

Hinn sári sannleikur

Barátta sænsku unglingsstúlkunnar Gretu Thunberg virðist kalla fram það besta og versta í fólki. Milljónir manna um allan heim hafa farið í mótmælagöngur og krafist aðgerða í lofslagsmálum eigi síðar en þegar í stað. En aðrir hafa spýtt galli. Óþarfi er að hafa eftir allan óþverrann sem úr þeim hefur gosið, en illa uppdregnir götustrákar hafa verið þvegnir um munninn með sápu fyrir saklausari munnsöfnuð.

Og hvað kallar á þessi heiftarlegu viðbrögð?

Svarið er einfalt: Sannleikurinn.

Greta Thunberg segir nefnilega aldrei neitt annað en sannleikann. Hvert orð hennar um loftslagsmál er staðreynd studd vísindalegum rökum.

Þrennt hefur legið fyrir í þrjátíu ár:

  • að hlýnun jarðar er staðreynd
  • að hún er af manna völdum
  • að það er slæmt

Þrátt fyrir að þetta sé ekki hægt að vefengja, þetta hafi hver maður, sem nennt hefur að kynna sér málið, mátt vita í þrjá áratugi – þá hefur mannkynið samt dælt meira magni af gróðurhúsalofttegundum út í lofhjúp jarðar á þeim tíma heldur en í allri sögu sinni fram að því.

Þetta er staðreynd.

Það þarf engan að undra að Greta Thunberg sé reið. Reiði hennar er réttlát. Greta Thunberg er af þeirri kynslóð, sem mín kynslóð bjóst við að myndi uppgötva líf á öðrum hnöttum, en dæmdi síðan til að þurfa þess í stað að berjast fyrir lífinu á þessum. Við höfum engan rétt til að vera hissa á því að henni sé mikið niðri fyrir eða gera lítið úr bræði hennar. Hún er fyllilega réttmæt.

Hin ljúfa lygi

Af hverju er svona erfitt að horfast í augu við sannleikann? Af hverju trúum við augljósum lygum? Eins og því að alþjóðlega vísindasamfélagið viti ekki um hvað það er að tala, en að áhugamaður um loftslagsmál sé að kynna okkur fyrir sannleikanum í fimm mínútna youtube-myndbandi? Að lítill hópur góðhjartaðra olíubaróna sé að afhjúpa alþjóðlegt samsæri vinstrimanna og vísindamanna um að ljúga upp loftslagsvá fyrir völd og peninga? Vill svo heppilega til að á sama tíma verða öfgafull veðurfyrirbrigði sífellt algengari og hitamet um allan heim eru slegin örar en dæmi eru um og þarna á milli er ekkert samband? Eða eru það kannski falsanir líka? Hafa þeir áhyggjur af því að þetta sé allt saman plat og við gætum lent í því að búa til betri heim fyrir afkomendur okkar … til einskis?

Það er auðvitað af því að lygin er þægilegri en sannleikurinn. Sannleikurinn gerir kröfur til okkar. Hann krefst þess af okkur að við breytum um hátt, að við bætum umgengni okkar. Hann leggur ábyrgð og skyldur á herðar okkur, hann er íþyngjandi. Og hann kostar marga mjög, mjög ríka menn mjög, mjög mikla peninga.

Lygin er aftur á móti ljúf og góð. En lygin veitir okkur svikalogn. Fyrr eða síðar mun sannleikurinn dynja á okkur af ógnarþunga. Við sem hér erum þurfum fæst að kvíða því, hann mun ekki snerta okkur persónulega. Greta Thunberg og fermingarbörnin sem hér eru stödd eru ekki það lánsöm. Það verður þeirra hlutskipti að súpa seyðið af gjörðum okkar sem eldri erum.

Gott og illt

„Sannleikurinn mun gera yður frjálsa,“ segir frelsarinn. Og nú er svo komið að líf okkar liggur við, ef við viðurkennum ekki sannleikann. Ekki bara okkar persónulega, heldur líf okkar sem tegundar, lífið á jörðinni eins og við þekkjum það er í húfi.

En hvað er ég að þusa um þetta í prédikun? Er þetta ekki pólitík?

Ef við trúum á Guð þá trúum við því að lífið á jörðinni eins og við þekkjum það sé gott. Guð segir það. Og mér ber að tala um orð Guðs. „Guð sá að það var gott.“ Gott stendur ekki þarna sem andheiti við „lélegt“. Það stendur þarna sem andheiti við „illt“. Lífið á jörðinni er gott í siðfræðilegri merkingu þess orðs, ekki bara praktískri. Og það er siðferðisleg skylda okkar sem kristinna manna að standa vörð um hið góða og berjast gegn hinu illa. Og það er efni í prédikun – hvað sem líður því hvað einhverjir vilja kalla pólitík.

Aðgerðaáætlun

En hvað er til ráða?

Við verðum að byrja á að taka lofslagsafneitarana úr umferð í umræðunni.

Ímyndum okkur að við værum að vinna að jafnréttisáætlun og í ljós kæmi að einhverjir í hópnum væru eindregið þeirrar skoðunar að staður konunnar væri á bak við eldavélina. Hvaða erindi ættu þeir í þá vinnu? Ekkert. Það væri eðlilegasti hlutur í heimi að biðja þá að yfirgefa vinnuhópinn eða að minnsta kosti að stilla sig um að taka til máls.

Ímyndum okkur, í upphafi jafnréttisbaráttunnar, að í hvert skipti sem einhver vefengdi að konur væru jafnhæfar körlum til að hugsa rökrétt og því varla treystandi fyrir atkvæði í almennum kosningum, þá hefði verið staldrað við og það rökrætt í þaula þar til einróma niðurstaða fékkst um þann ágreining áður en hægt hefði verið að halda áfram. Konur væru ekki enn komnar með kosningarétt.

Hvað ef við værum að vinna að mannréttindalöggjöf og í hópnum væri fólk þeirrar skoðunar að svartir menn ættu að vera ánauðgir þrælar hvítra?

Við erum í nákvæmlega þeim sporum núna. Málið er útrætt. Staðreyndir liggja fyrir. Úr því sem komið er verður vitinu ekki komið fyrir þá sem enn efast. Það er fullreynt.

Ef við ætlum að halda áfram að humma víðtækar og róttækar aðgerðir í loftslagsmálum fram af okkur í þrjátíu ár í viðbót af því að enn á eftir að sannfæra nokkra þverhausa um að hið augljósa sé að eiga sér stað … þá er voðinn vís.

Við verðum að gangast við sannleikanum og axla þá ábyrgð sem hann leggur á okkur. Og við getum krafið aðra um að gera það líka.

Krafa um ábyrgð

Til dæmis fjölmiðla. Hvað með ábyrgð þeirra? Af hverju flokkast það undir ritskoðun en ekki ritstjórn að neita að birta lygar og staðleysur? Það er ekki þöggun eða kúgun að vilja ekki vera vettvangur fyrir hættulegt lygaflæði, það er sjálfsvirðing – sem marga íslenska fjölmiðla virðist illu heilli skorta með öllu.

Hvað með samfélagsmiðla? Af hverju fær þessi jarðarhatandi lygadæla að malla þar athugasemdalaust? Hvernig væri að tilkynna alla slíka hópa jafnhratt og örugglega og við myndum tilkynna áróðursvélar hryðjuverkasamtaka, síður þar sem ungir menn eru glaptir til að ganga til liðs við hættulegar öfgasveitir?

Lofslagsafneitarar eru ekki minni ógn við lífið á jörðinni.

Við skulum afvina loftslagsafneitarana hratt og örugglega, eins og við myndum hiklaust gera við kynþáttahatara, hommahatara, útlendingahatara og nýnasista. Og trúið mér, það þarf ekki að eyða miklum tíma á vefsíðum lofslagsafneitara til að sjá að þessar skoðanir eiga mikla samleið. Og þegar allt kemur til alls þá eru skoðanir þeirra á loftslagsmálum síst hættuminni en hinar.

Heimskunni úthýst

Það verður einfaldlega að taka loftslagsafneitarana út úr jöfnunni. Framtíðin er allt of mikilvæg til að pláss sé fyrir heimsku þeirra við borðið þar sem við búum okkur undir hana.

Eða hvað viljið þið kalla það að finnast samsæri vísindamanna, sem helgað hafa líf sitt, starf og heiður leitinni að sannleikanum, trúverðugra heldur en að milljarðamæringar úr kolefnaeldsneytisiðnaði veraldarinnar séu að nota hluta af sínum gríðarlegu auðæfum til að standa vörð um hagsmuni sína á kostnað sannleikans?

Ég kalla það heimsku. Kannski af því að mér finnst það þægilegri tilhugsun en að kalla það illsku.

Reyndar hallast ég að því í æ ríkari mæli með tímanum að þessi tvö orð séu samheiti.

Sannleikurinn mun gera okkur frjáls. Og ef við ekki þegar í stað göngumst við sannleikanum og gerum það sem hann krefst mun sagan ekki fara um okkur mjúkum höndum þegar hrakspárnar – sem hingað til hafa allar gengið eftir – skella á okkur af fullum þunga.

Við verðum að horfast í augu við sannleikann, sama hve ljótur hann er. Því hvernig sem á allt er litið þá er sannleikurinn aldrei svo ljótur að lygin sé ekki ljótari.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 29. 9. 2019

Guðspjall: Þessu næst var ein af hátíðum Gyðinga og Jesús fór upp til Jerúsalem. Við Sauðahliðið í Jerúsalem er laug sem kallast á hebresku Betesda. Þar eru fimm súlnagöng. Í þeim lá fjöldi sjúkra manna, blindra, haltra og lamaðra [sem biðu hræringar vatnsins. En engill Drottins fór öðru hverju niður í laugina og hrærði vatnið. Sá sem fyrstur fór ofan í eftir hræring vatnsins varð heill hvaða sjúkdómur sem þjáði hann.] Þarna var maður nokkur sem hafði verið sjúkur í þrjátíu og átta ár. Jesús sá hann þar sem hann lá og vissi að hann hafði lengi verið sjúkur. Hann segir við manninn: „Viltu verða heill?“ Hinn sjúki svaraði honum: „Herra, ég hef engan til að láta mig í laugina þegar vatnið hrærist og meðan ég er á leiðinni fer annar ofan í á undan mér.“ Jesús segir við hann: „Statt upp, tak rekkju þína og gakk!“ Jafnskjótt varð maðurinn heill, tók rekkju sína og gekk. (Jóh 5.1-9)

broken-pot-21Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Í dag heyrum við enn eina söguna af kraftaverkalækningu Jesú Krists. Þessi stingur svolítið í stúf við flestar hinna. Sá sem þiggur lækninguna er líklega vanþakklátasti sjúklingurinn í öllum guðspjöllunum. Og Jesús fer ekki með neinar þulur eða hrærir eitthvað úr mold og munnvatni, hann snertir manninn ekki einu sinni. Hann segir ekki einu sinni: „Trú þín hefur gert þig heilan.“ Bara: „Tak rekkju þína og gakk.!“

En …

Það er ekki það fyrsta sem Jesús segir við hann. Hann segir svolítið annað fyrst.

Stóra spurningin

Það fyrsta sem Jesús segir við manninn er þessi spurning, sem að mínum dómi er þungamiðja textans: „Viltu verða heill?“

Þessi spurning kann að virðast kjánaleg. Maðurinn hefur legið þarna farmlama á laugarbakkanum í 38 ár og Jesús vogar sér að spyrja: „Viltu verða heill?“

Manni dettur í hug að eina svarið sem sé passandi sé: „Dö!“

En málið er ekki það einfalt.

Og ef að er gáð liggur svarið nefnilega alls ekki í augum uppi.

Maðurinn svarar nefnilega alls ekki já. Í staðinn segir hann: „Þetta er ekki mér að kenna. Ég get ekkert að þessu gert. Í 38 ár hefur mér ekki hugkvæmst nein leið til að verða fyrstur ofan í laugina. Í 38 ár hef ég ekki getað komið mér upp vinskap við aðra manneskju sem myndi vilja hjálpa mér ofan í laugina. Í 38 ár hef ég verið saklaust fórnarlamb kringumstæðna, legið hér eins og slytti, ekki þurft að axla neina ábyrgð, ekki þurft að bera neinar byrðar, engar skyldur, engar kvaðir … Í 38 ár er ég búinn að vera algerlega stikkfrí með hina fullkomnu afsökun fyrir því að standa ekki í lappirnar og enginn getur áfellst mig fyrir það.“

Og Jesús eyðileggur þetta fyrir honum. Hann neyðir hann til að standa í lappirnar. Hann tekur af honum afsökunina.

Því sá sem ekki getur svarað spurningunni „Viltu verða heill?“ afdráttarlaust játandi hefur sennilega engan áhuga á því – þótt hann eigi erfitt með að viðurkenna það, jafnvel fyrir sjálfum sér.

T-in þrjú

Kraftaverk Jesú hafa alltaf þrívíða merkingu. Við erum með ákveðinn túlkunar- eða skilningslykil að þeim sem ég kýs að kalla T-in þrjú. Þessar þrjár víddir eru:

  • Hin trúarlega
  • Hin táknræna
  • Hin tiltölulega augljósa.

Það skal viðurkennt að ég kalla þá síðastnefndu þessu nafni aðallega til að fá þriðja T-ið. Það hljómar betur.

En hún ber þó nafn með rentu. Í tiltölulega augljósu víddinni lesum við aðeins það sem textinn segir. Jesús læknar mann með þeim hætti sem greint er frá samkvæmt orðanna hljóðan og ekki orð um það meir. Engin umframmerking er lögð í neitt. Ekkert er lesið á milli línanna. Sorglega margir komast aldrei framhjá þessari vídd.

Í táknrænu víddinni áttum við okkur síðan á táknunum og hinni undirliggjandi merkingu frásagnarinnar. Hvað táknar þessi spurning? Hvað tákna undanbrögðin við því að svara henni? Hvað táknar það að finna öryggi í því að standa ekki í lappirnar og halda sig bara á mottunni … að vísu í þessu tilfelli í bóskstaflegri merkingu. Hvað táknar tálvon þessarar laugar, Betseda, en nafnið merkir einmitt „hús náðar“. Það er dálítið skemmtileg tilviljun að í íslensku eru þessi tvö orð, „náð“ og „hús“ bundin saman í eitt orð sem hefur kannski furðu líka merkingu við það sem í raun mátti sækja í þessa meintu náðarlaug, þar sem náð Guðs var svo takmörkuð auðlind, af svo skornum skammti, að hana varð að afgreiða með einhverju fullkomlega miskunnarlausu „fyrstur kemur fyrstur fær“ fyrirkomulagi?

Síðast spyrjum við svo hinna trúarlegu spurninga. „Hvað kemur þetta mér við? Af hverju er verið að segja mér þessa sögu – hér í allt öðrum heimshluta á allt öðru tímabili mannkynssögunnar? Hvernig varðar þessi saga mig, líf mitt, umhverfi og samfélag hér og nú?“

Annað hvort eða

Hvað mig og líf mitt varðar get ég aðeins sagt að sjálfur hef ég verið spurður spurningarinnar: Viltu verða heill? Og árum saman svarað henni: „Þetta er ekki svona einfalt“ áður en ég komst á þann stað að svarið varð eitt hátt og skýrt „já!“

Þetta er nefnilega svona einfalt.

Annað hvort viltu verða heilbrigð manneskja á sál og líkama, eða að minnsta kosti eins heilbrigð og kostur er – því við fáum jú vissulega ólík spil á hendi þegar er gefið – eða þú nennir því ekki. Ómakið við það, böggið, álögurnar, skyldurnar og kvaðirnar sem því fylgja að taka ábyrgð á sjálfum sér og lífi sínu virðast ekki þess virði að ábyrgðarlausum þægindunum í biðröðinni eftir náðinni – þar sem við erum aldrei númer eitt í röðinni – sé fórnandi fyrir það. Ég get ryksugað seinna, ég get verið í þessari flík aðeins lengur, það er í sjálfu sér ekki dagaspursmál að taka til … í lífi mínu … akkúrat núna. Eða svo vitnað sé í dægurlagatexta: „Ég ætla að hætta að drekka á morgun.“

Annað hvort tekurðu ábyrgð á lífi þínu eða þú lætur það reka á reiðanum.

Og það er ekki nóg að borða hollan mat og skokka þrisvar í viku um Laugardalinn. Maðurinn lifir ekki á brauði einu saman. Við þurfum líka að taka ábyrgð á andlegu lífi okkar.

Viðbúin

Ég heyrði einu sinni mann sem orðið hafði fyrir þeirri ógæfu að fá heilablóðfall lýsa reynslu sinni af því og ferlinu við að komast á fætur aftur. Hann þakkaði það, hve vel honum gekk í endurhæfingunni og hve fljótur hann var að ná allnokkurri færni á ný – en hann þurfi í raun að læra að ganga upp á nýtt, því hvað hann hafði verið í góðu líkamlegu formi þegar áfallið skall á. Og ekki hvarflar að mér að gera lítið úr því. Líkamleg hreysti gerir okkur færari um að standa af okkur líkamleg áföll.

En við verðum ekki öll fyrir líkamlegum áföllum.

Við verðum öll fyrir andlegum áföllum. Við upplifum öll sorg og missi. Við þekkjum öll ótta og kvíða, veika bletti á sjálfsmynd okkar og sjálfstrausti, lægðir og dali í líðan okkar, efa og áhyggjur, óvissu og tortryggni. Hvernig stöndum við það af okkur?

Við vitum ósköp vel að það er ekki hægt að hanga uppi í sófa í 38 ár og horfa keðjureykjandi á sjónvarpið og ætla svo bara að drepa í sígarettunni, standa á fætur og hlaupa eins og eitt maraþon. Líkaminn virkar ekki þannig. Þrek og þol þarf að byggja upp. Það er hægt að fara af öðrum staðnum á hinn, en það kostar átak og þrotlausa ástundun og iðkan. Það krefst ákveðni og þrautseigju.

Andleg hreysti

En hvað með okkar andlegu hreysti? Erum við reiðubúin til að standa upp og hlaupa okkar andlega maraþon á morgun? Af hverju ekki? Hvað erum við að drolla? Erum við að telja okkur trú um að það sé í okkar valdi hvenær rásbyssan hljómar, að áföllin geri boð á undan sér og við getum farið að byggja upp okkar andlega styrk og sálarjafnvægi svona þegar nær dregur því að við þurfum á þeim að halda?

Rétt eins og líkamleg hreysti krefst iðkunar og æfinga þá getum við ekki vænst þess að búa við andlega hreysti ef við gerum ekkert til að koma okkur henni upp. Ef við eigum okkur ekkert andlegt líf, enga andlega iðkan, gerum ekkert til að taka ábyrgð á sálinni í okkur, að efla hana og styrkja, getum við ekki vænst þess að vera við góða sálarheilsu.

Og takið eftir að það að hafa heitar skoðanir á siðferðilegum álitamálum og diskútera þær hástöfum á barnum eða með hástöfum á spjallþráðum samskiptamiðla er ekki iðkun á andlegu lífi, ekki frekar en að það geri mann góðan í fótbolta að hafa heitar skoðanir á síðasta dómarahneykslinu í Pepsi Max deildinni.

Spurt er …

Vilt þú verða heill?

Hvað ertu reiðubúinn til að leggja á þig til þess?

Ertu reiðubúinn til að standa í lappirnar, rísa á fætur og rúlla upp mottunni sem þú hefur haldið þig á til þessa, pakka saman fortíð þinni og ganga … þinn bataveg?

Eða viltu frekar að það gerist þannig að loksins sé komið að þér að fá þann happdrættisvinning á einu bretti, að þú sért næstur í röðinni að fá úthlutað náðinni sem er af svo skornum skammti að það þarf að bítast um hana við hina sem vilja hana líka, að loksins, loksins sért þú númer eitt í röðinni … án þess að hafa innt nokkuð af hendi til að koma þér þangað, sáttur við það að það sé alla vega ekki hægt að áfellast þig fyrir að vilja ekki vera heill.

Og vera á meðan stikkfrí frá lífinu, með öllu sem það inniber, skyldum og kvöðum, ábyrgð og böggi … en líka því lífi í gnægðum sem Jesús lofar okkur. Lífi í andlegri auðlegð, lífi með fjársjóðum sem mölur og ryð fá ekki grandað, lífi í innra andlegu jafnvægi og sálarró. Lífi í vitundarsambandi og sátt við Guð og menn.

Viltu í raun verða heill?

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 22. september 2019

 

 

 

 

Guðspjall: Hver sem heyrir þessi orð mín og breytir eftir þeim, sá er líkur hyggnum manni er byggði hús sitt á bjargi. Nú skall á steypiregn, vatnið flæddi, stormar blésu og buldu á því húsi en það féll eigi því það var grundvallað á bjargi. En hver sem heyrir þessi orð mín og breytir ekki eftir þeim, sá er líkur heimskum manni er byggði hús sitt á sandi. Steypiregn skall á, vatnið flæddi, stormar blésu og buldu á því húsi. Það féll og fall þess var mikið.“ Þegar Jesús hafði lokið þessari ræðu varð mannfjöldinn djúpt snortinn af orðum hans því að hann kenndi eins og sá er vald hefur og ekki eins og fræðimenn þeirra. (Matt 7.24-29)

Flooded interiorNáð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Mig langar að byrja á yfirlýsingu sem ég veit að einhverjum á eftir að finnast yfirlætisleg og jafnvel hrokafull. Jafnvel kynnu einhverjir að segja að ég væri bara að fóðra tröllin með því að slá henni fram. Yfirlýsingin er svona: Ég held að það sé ekki hægt að vera með öllu trúlaus.

Það að trúa ekki á yfirnáttúrulegar verur, guði, kraftaverk, æðri máttarvöld eða yfirhöfuð neitt yfirskilvitlegt er aðeins trúleysi á yfirnáttúrulegar verur, guði, kraftaverk, æðri máttarvöld og hið yfirskilvitlega. Það er samkvæmt skilningi trúarinnar ekki trúleysi. Það er nefnilega ekki þar með sagt að viðkomandi trúi ekki á neitt.

Allir hafa eitthvað leiðarljós í lífinu, einhvern sannleika sem þeir aðhyllast og reyna að fylgja, hvort sem það er meðvitað ekki. Sá sem stoltur segist ekki trúa á neitt svona kjaftæði heldur lifir bara sínu lífi án tillits til nokkurs trúarboðskapar og reynir að gera gott úr því með brjóstvitið eitt að vopni, hann trúir.

Hann  trúir á sjálfan sig, brjóstvit sitt, skynsemi og eigið ágæti svona almennt.

Helgisögur mannkynsins hafa persónugert nánast hverja einustu trú sem menn aðhyllast í reynd og myndgert þær í merkingarþrungnu táknmáli. Narkissus varð svo hugfanginn af eigin mynd að það varð honum að bana og það er enginn skortur af samtímafólki sem fylgja fordæmi hans fremur en Jesú Krists, fólki sem myndi þó aldrei gangast við því meðvitað, aðspurt um trú sína, að vera narkissistar.

Samfélag okkar er fullt af mammonsdýrkendum, bakkusarsinnum, erosarfylgjendum og narkissistum.

Villutrú

Kristindómurinn á orð yfir þetta sem ekki er mikið í tísku núna. Orðið er „villutrú“. Orðið merkir ekki „önnur trúarbrögð en mín“. Það merkir trú sem fer villur vegar, trú sem leiðir okkur í villu. Trú sem villir okkur sýn á það sem raunverulega skiptir máli í lífinu.

Því staðreyndin er sú að það er afar fátítt, ef ekki beinlínis algerlega óþekkt, að fólk iðrist þess á dánarbeðinu að hafa ekki eytt meiri tíma í vinnunni, að hafa ekki sængað hjá fleirum eða að hafa ekki drukkið meira áfengi eða notað meira af eiturlyfjum. Nei, fólk iðrast þess yfirleitt að hafa ekki verið betri við fólkið sitt, að hafa ekki eytt meiri tíma með sínum nánustu. Að hafa tekið það sem mölur og ryð frá grandað fram yfir hin raunverulegu verðmæti lífsins. Að hafa ekki áttað sig á því hver þau voru fyrr en tíminn til að njóta þeirra var að þrjóta.

Það er ekki hægt að fara út í lífið án þess að hafa nokkra trú í brjóstinu, engin gildi, engin viðmið, engan sannleika. Og það sem meira er: Ef maður ímyndar sér að svo sé um mann sjálfan er ansi hætt við að ítarleg skoðun myndi leiða í ljós að það sem maður aðhyllist, það sem maður í raun telur satt og rétt, það sem maður trúir á, eigi ekkert skylt við mannúð og kærleika, samhygð eða hinar göfugri víddir mannsandans.

Dæmisagan sem Jesús segir okkur í dag er niðurlag mikillar ræðu, Fjallræðunnar, sem tíundar öll kjarnaatriðin í boðskap hans. Og lokaorðin … sem síðan er hnykkt á með dæmisögunni um mennina tvo, hinn hyggna og hinn heimska eru þessi: „Ekki mun hver sá sem segir við mig: Drottinn, Drottinn, ganga inn í himnaríki heldur sá einn er gerir vilja föður míns sem er á himnum.“ (Matt 7.21)

Með öðrum orðum: „Það sem þú gerir sýnir hverju þú trúir í raun, ekki það sem þú segir.“

Skuldbindingin

Þegar barn er borið til skírnar álíta sumir að með því sé ómálga hvítvoðungur að undirgangast skuldbindingu sem hann hefur engan þroska til að skilja í hverju felst. Enda tíðkast ungbarnaskírn ekki í sumum söfnuðum og er þá gjarnan vísað til þess að sjálfur hafi Jesús verið fullorðinn maður þegar hann tók skírn samkvæmt sinni eigin upplýstu ákvörðun.

En þá bendi ég á að í skírninni segir barnið ekki já eða amen við neinu sem fram fer. Barnið er aðeins að þiggja kærleika Guðs við lind hjálpræðisins. Skuldbindingin er foreldranna. Með því að bera barnið sitt til skírnar eru þeir að lýsa því yfir að þeir ætli að leitast við að ala barnið sitt upp í kristinni trú, að það fari út í lífið sem kristin manneskja þegar það kemst til vits og ára og verndarhendi foreldranna sleppir, að það byggi líf sitt á grundvallarsannindum kristinnar trúar.

Þetta er ákvörðun sem ekkert foreldri getur komist hjá því að taka. Hvernig ætla ég að ala barnið mitt upp? Hvaða gildi ætla ég að innræta því í uppvextinum?

Það að bera barn til skírnar er auðvitað engin trygging fyrir því að barnið verði kristin manneskja, þ.e.a.s. að það komi fram við aðra eins og það vill að komið sé fram við sig, að það líti svo á að því beri að elska Guð og náungann, að það líti svo á að það, hvernig það kemur fram við sína minnstu bræður og systur, sé eini marktæki vitnisburðurinn um það hvaða mann það hafi í raun að geyma. Ekki frekar en að það að hrópa „Drottinn, Drottinn!“ þýði að viðkomandi sé að gera vilja föður okkar á himnum.

Þar kemur annað til.

Veganestið

Barn sem er alið upp við að snjallsíminn njóti meiri athygli foreldranna en það, lærir að trúa því að ímynd þess á samfélagsmiðlum sé mikilvægari en samband þess við sína nánustu og að sálarheill þess sé í því fólgin að fá nógu mörg læk og hjörtu á facebook og instagram.

Barn sem er alið upp við vanrækslu vegna brauðstrits lærir að trúa að það skipti ekki máli. Því barni er hætt við, þegar það vex upp, að leita samþykkis og viðurkenningar annarra með hætti sem ekki er góður fyrir sjálfsvirðingu þess og sálarheill.

Barn sem er alið upp við vanrækslu vegna auðsöfnunar, að dýrar gjafir og utanlandsferðir komi í stað nærandi samvista og kærleika, lærir að trúa á mammon.

Barni, sem er alið upp við ofbeldi, andlegt, líkamlegt eða hvort tveggja, er hætt við að leita huggunar og skjóls í náðarfaðmi Bakkusar og bræðra hans um leið því er það kleyft.

Barn sem er alið upp við að foreldrarnir láti vaða með fúkyrðum og persónusvívirðingum í hvert skipti sem einhver tjáir skoðun opinberlega, sem foreldrarnir fallast ekki á, lærir aðeins fullkomið virðingarleysi fyrir náunganum.

Barn sem er alið upp við útlendingahatur og rasisma, hómófóbíu og aðra mannfyrirlitningu lærir ekki að elska náungann.

Skóli lífsins

Í uppvextinum er lagður grunnur að þeim gildum sem við förum með út í lífið … þeim gildum sem við í raun trúum á – alveg óháð því hvort okkur er kennt að hrópa líka „Drottinn! Drottinn!“ á sunnudögum og stórhátíðum.

Allt þetta er hægt að aflæra. Það er hægt að sjálfmennta sig og endurmennta í grunngildum. Það er hægt að yfirgefa söfnuði Bakkusar og Mammons. Það er hægt að vaxa og þroskast upp úr smásálarlegum viðhorfum til meðbræða og systra af öðrum hörundslit, trúarbrögðum, stjórnmálaskoðunum, kynhneigð eða hverju sem gerir þau ólík manni sjálfum að einhverju leyti.

Þetta er grunnurinn sem við byggjum líf okkar á.

Og það kemur steypiregn. Vatnið mun flæða. Stormar munu blása og bylja á húsi okkar … á lífi okkar. Það er nú bara einu sinni þannig sem lífið virkar.

Og þá kemur í ljós úr hverju grunnurinn var gerður. Var húsið byggt á bjargi eða sandi? Það verður ekki parkettið eða innréttingarnar, það hvort innbúið var keypt í Epal (með fullri virðingu fyrir vandaðri hönnun og handverki) eða Ikea, sem mun ráða úrslitum um það hvort húsið okkar stendur eða fellur. Það hve margir rekkjunautar hafa gist í þessu húsi eða hvað vínskápurinn er vel byrgur mun ekki hafa nein áhrif á það hvort húsið okkar stendur af sér storminn eða ekki.

Orð og gjörðir

Nei, það sem ræður því er það hvort við séum í grunninn almennilegar manneskjur eða ekki. Hvort við höfum helgað líf okkar og starf og lagt sálarheill okkar að veði fyrir fjársjóði sem mölur og ryð frá grandað, hégóma og eftirsókn eftir vindi, auð, völd, vinsældir og metorð eða hvort við eigum æðri og dýpri sannleika í hjartanu á okkur en þann sem mældur er í hjörtum og þumlum á samfélagsmiðlum, innistæðum á bankareikningum, verðmiðum á innanstokksmunum, útsendingarmínútunum eða dálksentímetrunum sem lögð eru undir okkur.

Hvort við eigum gefandi og nærandi samband við Guð og menn eða hvort þar á milli ríkir aðeins æpandi sambandsleysi.

Hvort við gerum vilja föður okkar á himnum eða hvort við látum okkur nægja að hrópa „Drottinn! Drottinn!“ þegar það passar inn í etíketturnar þar sem við erum stödd hverju sinni.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 15. September 2019

Guðspjall: Jesús var að kenna á hvíldardegi í samkundu einni. Þar var þá kona nokkur. Í átján ár hafði hún verið sjúk. Hún var kreppt og alls ófær að rétta sig upp. Jesús sá hana og kallaði hana til sín og sagði við hana: „Kona, þú ert laus við sjúkleik þinn!“ Þá lagði Jesús hendur yfir hana og jafnskjótt gat hún rétt úr sér og lofaði Guð. En samkundustjórinn reiddist því að Jesús læknaði á hvíldardegi og mælti til fólksins: „Sex daga skal vinna, komið þá og látið lækna ykkur og ekki á hvíldardegi.“ Drottinn svaraði honum: „Hræsnarar, leysir ekki hver ykkar á hvíldardegi naut sitt eða asna af stalli og leiðir til vatns? En þessi kona, sem er dóttir Abrahams og Satan hefur fjötrað full átján ár, mátti hún ekki leyst verða úr fjötrum þessum á hvíldardegi?“ Þegar Jesús sagði þetta urðu allir mótstöðumenn hans sneyptir en allt fólkið fagnaði yfir öllum þeim dýrðarverkum er hann gerði. (Lúk 13.10-17)

mannleg reisnNáð sé með ykkur öllum og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Nú í vikunni dró ég fána að húni hér við Laugarneskirkju. Það var ekki íslenski fáninn, eins og alla jafna, heldur hinn fáninn sem við eigum og drögum að húni við sérstök tilfelli. Sá er í öllum regnbogans litum og af þeim ástæðum kallaður regnbogafáni. Sá fáni er dreginn að húni til að fagna fjölbreytileika mannlífsflórunnar. Fáninn er upphaflega tákn hinsegin hreyfingarinnar, samkynhneigðra, tvíkynhneigðra, transfólks og allra sem í gegn um aldirnar hafa mátt sæta ofsóknum og misrétti vegna kynhneigðar sinnar eða kynvitundar.

Tilefnið var að sjálfsögðu heimsókn varaforseta Bandaríkjanna hingað til Reykjavíkur, en hann ræddi við helstu ráðamenn þjóðarinnar hér rétt hjá okkur, um það bil einn kílómetra í burtu, rétt utan við sóknarmörkin. Það var sérlega ánægjulegt hve margir sáu ástæðu til að draga þennan fána að húni við þetta tilefni.

Núverandi varaforseti Bandaríkjanna er nefnilega einn þeirra manna sem harðast hafa gengið fram gegn fólki sem lifir tilfinningalífi ólíku hans sjálfu, sem ógnar honum af einhverjum torskiljanlegum ástæðum. Þetta gerir hann ennfremur í nafni trúar sinnar, en honum er í mun að ljóst sé að hann sé kristinn maður. Þó er eins og hann telji Guð fara í manngreinarálit, að fyrir Guði skipti kynferði meira máli en kærleikurinn eða jafnvel bara yfir höfuð einhverju máli. „Hér er hvorki Gyðingur né annarrar þjóðar maður, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þið eruð öll eitt í Kristi Jesú.“ (Gal 3.28) segir þó Páll postuli í Galatabréfinu og í Fyrra Korintubréfi segir hann: „Nú varir trú, von og kærleikur, þetta þrennt, en þeirra er kærleikurinn mestur.“ (1Kor 13.13)

Guð elskar fjölbreytni

Þegar við virðum fyrir okkur Guðs góðu sköpun verður okkur ein staðreynd um Guð ljós og hún er sú að hann elskar fjölbreytileika. Hann skapaði ekki bara kónguló, hann skapaði 48.200 tegundir af kóngulóm. Hann skapaði ekki bara blóm og fugla og tré heldur fleiri tegundir af þessu öllu en við getum talið. Og hví skyldi hann ekki vilja hafa mannlífsflóruna fjölbreytta líka? Hvers vegna ætti hann að hafa skapað mannkynið þannig að stór hluti þess tengi tilfinningar sínar ekki kynferði eða tengi þær kynferði með öðrum hætti en flestir aðrir – ef hann síðan vill ekki hafa það þannig?

Samt hefur verið hamast gegn samkynhneigðum öldum saman. Gríski heimspekingurinn Platon fullyrti á fimmtu öld fyrir okkar tímatal að samkynhneigð væri ónáttúruleg og hana ætti að banna. Hvað segir það okkur? Jú, að samkynhneigð hafi verið svo þekkt fyrirbæri í grískum menningarheimi þegar á fimmtu öld fyrir Krist að Platon hafi séð sérstaka ástæðu til að gera hana að umfjöllunarefni. Hún hefur semsagt verið hluti af mannlegu samfélagi í a.m.k. 2500 ár og ekki horfið þrátt fyrir fordæmingu, ofsóknir, aftökur og limlestingar allan þann tíma. Ef það dugar ekki til, hvað þarf þá til að sýna fram á að samkynhneigð sé ákveðnum hluta mannkynsins náttúruleg? Ég bara spyr.

Á bak við þessi fáfengilegu rök sem engu vatni halda sé látið á þau reyna leynist auðvitað ekkert annað en ótti. Ótti við þá sem eru öðruvísi, ótti við þá sem hugsa öðruvísi en ég, líður öðruvísi en ég, sjá heiminn og annað fólk öðruvísi en ég. Ótti við þá sem ég get ekki speglað mig í að öllu leyti, ótti við þá sem ég get ekki að meira eða minna leyti litið á sem aðra útgáfu af mér sjálfum.

Og það er ótrúlega algengt að þessi ótti sé réttlættur með vísan í kristindóminn, jafnvel þótt í öllum guðspjöllunum hamri Kristur og klifi á boðunum: Verið óhrædd – óttist eigi.

Staðalmynd af manneskju

En við þurfum ekki að draga fram samkynhneigða til að finna dæmi um hóp sem sæta hefur mátt kúgun og undirokun, verið svínbeygður og bældur og haldið niðri fyrir þær sakir einar að samanstanda ekki af því sem í hugum marga er viðmiðið um „eðlilega“ manneskju: hvítur, kristinn, gagnkynhneigður, ófatlaður karlmaður. Og þetta hefur jafnvel verið gert í Jesú nafni, þótt Jesús fullyrði sjálfur að Guð fari ekki í manngreinarálit, þótt Páll postuli fullyrði að fyrir Guði séu kynferði og þjóðerni ekki til.

Konur hafa þurft að berjast fyrir því að fá að vera virkir þátttakendur í samfélaginu, ekki bara fyrir kosningarétti og eignarrétti heldur beinlínis fyrir yfirráðarétti yfir sínum eigin líkama eins og þrælar.

Og þegar gripið er til þeirrar líkingar blasa auðvitað við öll illvirki hvíta mannsins gegn fólki af öðrum kynþáttum. Árið sem ég fæddist var kynþáttaaðskilnaðarstefnan afnumin … ekki í Suður-Afríku heldur í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Ég var orðinn þriggja barna faðir þegar hún var afnumin í Suður-Afríku.

Guðspjall dagsins fjallar um mannlega reisn. Jesús mætir konu sem er kreppt og alls ófær um að rétta sig upp.

Táknið er augljóst og sterkt. Hún er beygð og bogin. Henni er meinað um að fá að bera höfuðið hátt, meinað um mannlega reisn. Og Jesús réttir úr henni. Og er átalinn fyrir það af sjálfskipuðum handhöfum hins eina rétta skilnings á góðu og illu: „Guð segir að þú megir þetta ekki. Að þetta eigi að vera svona.“

Ranglátar reglur og ólög

Þetta er saga sem endurtekur sig enn í dag. „Reglur eru reglur. Samkynhneigð er ónáttúruleg. Staður konunnar er heimilið.“ Kynþáttaaðskilnaðarstefnan var líka byggð á reglum. Reglum sem beygðu fólk og höfðu af því mannlega reisn. Jim Crow lögunum í Bandaríkjunum og Apartheid-löggjöf Suður-Afríku. Víða um heim, líka hér á Íslandi, höfðu konur ekki kosningarétt vegna þess að … jú, reglur kváðu á um það.

Okkur kristnum mönnum hættir stundum til að líta fram hjá því að frelsari okkar, sonur Guðs, leiðtogi lífs okkar sem við játum að sé vegurinn, sannleikurinn og lífið … var dæmdur glæpamaður. Hann braut reglurnar.

Hann var ekki tekinn af lífi fyrir að vera of leiðtamur og spakur, of hallur undir stjórnvöld, fyrir að fylgja reglum samfélagsins of vel. Fyrir slíkt er enginn maður tekinn af lífi – ef litið er fram hjá þeim andlega dauða sem það ber vott um að lifa þannig lífi. Nei, hann var tekinn af lífi fyrir að brjóta reglurnar.

Hann var saklaus af synd – en sekur eins og syndin um þann glæp sem hann var dæmdur og tekinn af lífi fyrir að hafa framið: Að ógna friðnum, að storka yfirvöldum, að rugga bátnum, að virða að vettugi þær reglur samfélagsins sem beygðu og undirokuðu, kúguðu og krepptu hans minnstu bræður og systur.

Að halda því fram að það eigi að vera einhver sérstök dyggð samkvæmt boðun kirkju hans að fylgja kúgandi og bælandi, beygjandi og kreppandi mannasetningum ber vott um alveg einstaklega útsmogið ólæsi á það hver boðskapur hans var í raun og veru, um hvað líf hans og starf snerist, um það hvað aftaka hans og upprisa tákna.

Glæpamaðurinn frá Nasaret

Í Guðspjalli dagsins brýtur Jesús lög Guðs – eins og þau voru túlkuð af þeim sem samfélagið hafði samþykkt að væru best til þess fallnir að gera það. Á því leikur enginn vafi. Brot hans er skýlaust og að yfirlögðu ráði. Hann getur ekki borið það við að hann hafi ekki þekkt reglurnar. Hann getur ekki borið við einhverjum neyðarrétti, að lífi hans eða öryggi hafi verið ógnað. Hann stígur fram og fremur glæp vísvitandi í vitna viðurvist. Og þeir benda honum á það.

Og hans svar er ekki: „Ó, afsakið. Ég skal aldrei gera þetta aftur.

Og hann svarar ekki heldur: „Eigum við aðeins að ræða það hvort ekki megi túlka þessa löggjöf með eilítið mannúðlegri hætti þannig að andi laganna sé látinn vega þyngra en bókstaflegur lestur þeirra?“

Nei, hans svar er í rauninni aðeins eitt orð: „Hræsnarar.“

Og svo rökstyður hann þá fullyrðingu.

Glæpur hans var nefnilega að rétta úr krepptum og bognum einstaklingi. Og það er hlutverk kirkju hans enn þann dag í dag. Guð fer ekki í manngreinarálit. Við eigum öll rétt á að ganga upprétt.

Og ef lög samfélagsins kveða á um að viðkomandi einstaklingur hafi engan rétt til að ganga uppréttur á meðal okkar vegna kynferðis eða kynhneigðar, uppruna eða trúarbragða, efnahags eða líkamlegs atgervis eða skorts á landvistar- og dvalarleyfum … þá eru það ólög sem okkur ber að hunsa og brjóta – eins og leiðtogi lífs okkar hunsaði og braut ólög síns samfélags sem krepptu og beygðu meðbræður hans.

Munurinn er sá að þegar við höfum hunsað og brotið þessi ólög þá eigum við að vera fær um að breyta þeim og afnema – ólikt Jesú frá Nasaret og allri alþýðu manna í samfélaginu sem hann lifði og starfaði í.

Og þess vegna drögum við regnbogafánann að húni hér í Laugarneskirkju upprétt og bein í baki hvenær sem okkur þykir ástæða til að minna okkur og þá sem leið eiga hjá á það að Guð elskar alla – að fyrir honum eru kynferði, kynhneigð, uppruni, ætterni, efnahagur og atgervi ekki til.

Við erum öll eitt í Jesú Kristi.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 8. 9. 2019

atómbombaÍ dag minnumst við þess að 74 ár eru liðin frá því að bandaríski herinn varpaði sprengju á japönsku borgina Nagasaki með þeim afleiðingum að tæplega 40.000 manns létu lífið samstundis og 25.000 til viðbótar slösuðust og særðust. Þrem dögum áður hafði sambærilegri sprengju verið varpað á borgina Hiroshima, en þar létust og særðust allt að tvöfalt fleiri. Samtals féllu því ríflega 100.000 manns í þessum tveimur sprengjuárásum og ekki mikið færri særðust, margir svo alvarlega að það fylgdi þeim það sem þeir áttu eftir ólifað. Þá er ótalinn sá fjöldi sem geislavirkni af völdum þessara tveggja kjarnorkusprengja lagði í valinn. Í lok árs 1945 er áætlað að þessar tvær kjarnorkuárásir hafi kostað ríflega 200.000 mannslíf.

Í góðum höndum?

Heimurinn stóð á öndinni. Nýtt gereyðingarvopn var fætt sem myndi gerbreyta hernaði um alla framtíð, vopn sem reyndar var svo ógnvænlegt að einhverjir gerðu því skóna að styrjaldir myndu heyra sögunni til, það myndi jafngilda sjálfsmorði að fara í stríð þegar styrjaldaraðilar hefðu slíkan ógnarmátt í vopnabúri sínu. Þess vegna var þess auðvitað gætt, eins vel og hægt var, að þessi gereyðingarvopn kæmust ekki í hendur hvers sem er. Þó gátu Bandaríkjamenn auðvitað ekki setið einir að því og ríki sem ráða yfir kjarnorkuvopnum eru í dag einhvers staðar á bilinu 5 – 9. Auk Bandaríkjanna eru það Rússland, Bretland, Frakkland og Kína … sem auðvitað myndi aldrei ganga í berhögg við alþjóðalög eða fella fjölda óbreyttra borgara til að vernda hagsmuni stjórnvalda og standa vörð um völd þeirra, eða hvað? Nema náttúrlega þarna á Torgi hins himneska friðar 4. júní 1989. Kínversk stjórnvöld segja um 300 manns hafa fallið, en ábyrgir aðilar sem ekki eiga hagsmuna að gæta, s.s. Amnesty International, áætla flestir að fjöldamorðin hafi kostað einhvers staðar á milli 1.000 og 3.000 mannslíf.

Það er gott að vita að kjarnorkuvopn eru í góðum höndum, er það ekki?

Þess má í framhjáhlaupi geta að á Torgi hins himneska friðar léku íþróttamenn hvaðanæva úr heiminum strandblak á Ólympíuleikum fáum árum eftir blóðbaðið eins og ekkert hefði ískorist, en það er önnur saga.

Til viðbótar við þessi ríki hafa Indland, Pakistan og Norður-Kórea lýst því yfir að þau ráði yfir kjarnavopnum auk þess sem rökstuddur grunur leikur á að svo sé einnig um Ísrael.

Um viðhorf stjórnvalda í sumum þessara ríkja til mannréttinda bera fæst orð minnsta ábyrgð, eins og lýðum má vera ljóst.

Aldrei aftur hvað?

Þegar almenningi á vesturlöndum varð smám saman ljóst hverjar afleiðingar kjarnorkuárásanna á Nagasaki og Hiroshima voru varð uppi fótur og fit. Fólk krafðist þess að þessi vopn yrðu bönnuð, að aldrei mætti nota þau aftur og ekki leið á löngu þar til að þau stjórnvöld voru vandfundin á vesturlöndum sem komist hefðu upp með það gagnvart þjóðum sínum að beita þeim.

Enda hefur það ekki verið gert síðan.

Krafan var: Aldrei aftur Hiroshima. Aldrei aftur Nagasaki. – Og krafan hefur fram til dagsins í dag náð fram að ganga.

En krafan er að dómi þess er hér talar ekki fullnægjandi.

Þrettánda febrúar var engum kertum fleytt á þessari tjörn. Þann dag voru þó 74 ár liðin frá því að bandaríski herinn hóf linnulausar loftárásir á þýsku borgina Dresden algerlega að nauðsynjalausu. Borgin hafði lítið sem ekkert hernaðarlegt vægi, Þjóðverjar voru á undanhaldi og það glitti í stríðslok. Í Dresden fórust 25.000 manns og það án þess að nokkrum kjarnorkuvopnum væri beitt.

Engum kertum var heldur fleytt 16. mars síðastliðinn til að minnast þess að þá var 51 ár liðið frá því að bandarísk herdeild réðst inn í víetnamska þorpið My Lai og myrti með hrottafengnum hætti um 500 óbreytta borgara, misþyrmdi og hópnauðgaði konum og börnum niður í tólf ára aldur.

Viðskiptatækifæri

Afstaða íslenskra stjórnvalda til morðárása Bandaríkjahers á óbreytta borgara víða um heim hefur undantekningarlaust verið sú að í þeim felist gríðarleg viðskiptatækifæri. Þannig þótti það afar mikilvægt efnahagslega og atvinnuskapandi að hafa hér bandarískan her til að gæta öryggis landsins samkvæmt varnarsamningi við Bandaríkin. Og þegar bandaríski herinn vildi fara þá sáu íslensk stjórnvöld enga ástæðu til að fagna því að svo friðsælt væri orðið í okkar heimshluta að verndarinn treysti sér til að tryggja öryggi þjóðarinnar án þess að hafa hér vopnað herlið að staðaldri. Nei. Þessi í stað var farið vestur um haf og verndarinn beðinn um það, með grátstafinn í kverkunum, að fara hvergi, með þeim jákvæðu efnahagslegu afleiðingum fyrir okkur að brottförinni seinkaði um nokkurn tíma.

Í afstöðu Íslendinga til Bandaríkjahers virðist manni stundum nánast eins og þess misskilnings gæti að Bandaríski herinn í Keflavík hafi verið einhver annar bandarískur her en bandaríski herinn sem varpaði kjarnorkusprengjum á Hiroshima og Nagasaki, einhver annar bandarískur her en sá sem jafnaði Dresden við jörðu í þeim tilgangi einum að vinna auðmýkjandi menningarhryðjuverk á óvini sem hann var þegar búinn að hafa undir, einhver annar bandarískur her en sá sem sendi þungvopnaðar hersveitir inn í víetnömsk þorp til að fremja viðurstyggileg ofbeldisverk og fjöldamorð á óbreyttum borgurum, konum og börnum.

Einhver annar bandarískur her en bandaríski herinn í Abu Grahib og Guantanamo.

Svo er ekki.

Hrópum áfram!

Er það þess vegna sem við látum staðar numið við að hrópa: „Aldrei aftur Hiroshima! Aldrei aftur Nagasaki!“ en skirrumst við að halda áfram og bæta við: „Aldrei aftur Dresden! Aldrei aftur My Lai! Aldrei aftur Abu Grahib! Aldrei aftur Guantanamo!“

Það er óhætt að hrópa „Aldrei aftur Hiroshima! Aldrei aftur Nagasaki!“ því bandarísk stjórnvöld hafa skuldbundið sig til og undirritað sáttmála um að beita ekki kjarnorkuvopnum. Með því að halda áfram erum við hins vegar komin í andstöðu við stefnu bandarískra stjórnvalda og það er ekki góður bisness.

Erum við reiðubúin til að halda áfram? Er það vogandi? Getum við þrýst á íslensk stjórnvöld að gera það?

Hvað verður þá um fyrirhugaðar atvinnu- og tekjuskapandi framkvæmdir fyrir Bandaríkjaher sem núverandi ríkisstjórn virðist ætla að leggja blessun sína yfir – í beinu trássi við stefnu a.m.k. eins ríkisstjórnarflokkanna?

Það er gott að horfa á bandaríska herinn í Keflavík sem vini okkar og bjargvætti sjómanna í nauðum. Það er ekki eins gott að horfa á hann sem pyntingameistarana frá Abu Grahib, kvalarana frá Guantanamo, barnanauðgarana frá My Lai.

Hvað kostar það okkur að halda áfram og hrópa ekki bara „Aldrei aftur Hiroshima! Aldrei aftur Nagasaki!“ heldur „Aldrei aftur morðárásir á óbreytta borgara, aldrei aftur misþyrmingar og pyntingar á saklausu fólki sem þráir aðeins frið og öryggi!“

Erum við reiðubúin til að hrópa það? Fram í rauðan dauðann? Erum við til í að hrópa það í kjörklefanum í næstu alþingiskosningum með því hvar við setjum X-ið okkar?

Því miður er ekki hægt að fara fram á það. Ekki af því að það sé til of mikils mælst heldur af því það lítur út fyrir að sá valkostur verði ekki í boði … að óbreyttu.

Spurningin er: Erum við til í að breyta því?

Mig langar að ljúka orðum mínum á tilvitnun í bók sem mér er dýrmæt þótt ég viti mætavel að hún sé ekki allra, en í henni segir á einum stað: „Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu með þeim mönnum sem hann hefur velþóknun á.“ (Lúk 2.14)

Ávarp flutt við kertafleytingarathöfn í Hljómskálagarðinum 9. ágúst 2019

Lexía: Orð Drottins kom til mín: Áður en ég mótaði þig í móðurlífi valdi ég þig. Áður en þú fæddist helgaði ég þig og ákvað að þú yrðir spámaður fyrir þjóðirnar. Ég svaraði: „Drottinn minn og Guð. Ég er ekki fær um að tala því að ég er enn svo ungur.“ Þá sagði Drottinn við mig: „Segðu ekki: Ég er enn svo ungur. Þú skalt fara hvert sem ég sendi þig og boða hvað eina sem ég fel þér. Þú skalt ekki óttast þá því að ég er með þér til að bjarga þér, segir Drottinn.“ Síðan rétti Drottinn út hönd sína, snerti munn minn og sagði við mig: „Hér með legg ég orð mín þér í munn. Ég veiti þér vald yfir þjóðum og ríkjum til að uppræta og rífa niður, til að eyða og umturna, til að byggja upp og gróðursetja.“ (Jer 1.4-10)

Pistill: Þá er upp var runninn hvítasunnudagur voru allir saman komnir á einum stað. Varð þá skyndilega gnýr af himni, eins og óveður væri að skella á, og fyllti allt húsið þar sem þeir voru. Þeim birtust tungur, eins og af eldi væru, er kvísluðust og settust á hvert og eitt þeirra. Allir fylltust heilögum anda og tóku að tala öðrum tungum, eins og andinn gaf þeim að mæla. Í Jerúsalem dvöldust Gyðingar, guðræknir menn, frá öllum löndum undir himninum. Er þetta hljóð heyrðist kom allur hópurinn saman. Þeim brá mjög við því að hver og einn heyrði þá mæla á sína tungu. Menn voru frá sér af undrun og sögðu: „Eru þetta ekki allt Galíleumenn sem hér eru að tala? Hvernig má það vera að við, hvert og eitt, heyrum þá tala okkar eigið móðurmál? Við erum Partar, Medar og Elamítar, við erum frá Mesópótamíu, Júdeu, Kappadókíu, Pontus og Asíu, frá Frýgíu og Pamfýlíu, Egyptalandi og Líbýubyggðum við Kýrene og við sem hingað erum flutt frá Róm. Hér eru bæði Gyðingar og þeir sem tekið hafa trú Gyðinga, Kríteyingar og Arabar. Við heyrum þá tala á tungum okkar um stórmerki Guðs.“ Allir voru furðu lostnir og ráðalausir og sögðu hver við annan: „Hvað getur þetta verið?“ (Post 2.1-12)

Guðspjall: Síðan hélt Jesús úr Týrusarbyggðum, um Sídon og yfir Dekapólisbyggðir miðjar til Galíleuvatns. Þá færa menn til hans daufan og málhaltan mann og biðja hann að leggja hönd sína yfir hann. Jesús leiddi hann afsíðis frá fólkinu, stakk fingrum sínum í eyru honum og vætti tungu hans með munnvatni sínu. Þá leit hann upp til himins, andvarpaði og sagði við hann: „Effaþa,“ það er: Opnist þú. Og eyru hans opnuðust og haft tungu hans losnaði og hann talaði skýrt. Jesús bannaði þeim að segja þetta neinum en svo mjög sem hann bannaði þeim því frekar sögðu þeir frá því. Menn undruðust mjög og sögðu: „Allt gerir hann vel, daufa lætur hann heyra og mállausa mæla.“ (Mark 7.31-37)

jörð málverkNáð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Ritningartextarnir sem við heyrðum lesna hér í kvöld eru ekki textarnir sem gert er ráð fyrir að lesnir séu á þessum sunnudegi í kirkjum landsins. Það eru innihaldsríkir og áhugaverðir textar, en ég valdi þessa fyrir þetta tilefni.

Allir eiga þeir það sameiginlegt að þeir fjalla um þá gjöf að mega mæla, að geta talað, að hafa eitthvað að segja. Og allir lýsa þeir því sem einhvers konar kraftaverki að geta haft áhrif með því að opna á sér munninn. Kraftaverki frá Guði föður, Jesú Kristi og heilögum anda.

Sjálfur Guð faðir almáttugur snertir munn spámannsins Jeremía og segir honum að fara og boða það sem honum er falið. Og Guð tíundar mátt orða hans. Með orðum sínum getur Jeremía beinlínis upprætt og rifið niður, eytt og umturnað … en líka byggt upp og gróðursett.

Heilagur andi kemur yfir lærisveinana og þeir fara að tala tungum. Fólk, sem þeir hefðu annars aldrei getað nálgast með orðum, aldrei getað snert með hugmyndum sínum eða hugsunum, skilur allt sem þeir segja. Komið er á sambandi. Og orðin hafa mátt.

Og Jesús Kristur, frelsari okkar, snertir tungu hins heyrnar- og mállausa og eyru hans opnast og hann talar skýrt. Hann er kominn í samband. Og Jesús frelsar manninn úr fangelsi og einangrun þagnarinnar og gerir honum kleyft að skiptast á hugsunum og hugmyndum við aðra með orðum sínum – með orði sínu. Orðið er „Effaþa“, „opnastu“. Máttur þessa orðs er slíkur að hinn heyrnarlausi heyrir það og verður frjáls.

Textarnir fjalla allir um mátt orðsins.

Og um yfirnáttúruleg kraftaverk.

Um kraftaverk

En hvað er kraftaverk?

Við höfum flest þann bókstaflega skilning á því orði að kraftaverk sé það þegar eitthvað gerist sem brýtur í bága við náttúrulögmálin, við grunnreglur eðlis- og efnafræðinnar og annarra raunvísinda. Þegar vatn breytist í vín, þegar menn ganga á vatni, þegar menn rísa upp frá dauðum – þá er það kraftaverk.

Og sá skilningur er í sjálfu sér ekki rangur. Hann snertir aftur á móti aðeins yfirborðið á því hvað kraftaverk í raun felur í sér.

Kraftaverk eru nefnilega alltaf kærleiksverk. Kraftaverk eru ekki bara eitthvað hókus pókus til að sýna mátt og megin. Kraftaverk Jesú eru aldrei í þágu hans sjálfs. Og þegar á hann er gengið að gera kraftaverk til þess eins að sýna að hann geti það … þá lætur hann það ógert.

Við skulum skoða kraftaverkin sem þessar þrjár sögur segja frá með þeim gleraugum. Þau eru kærleiksverk. Í öllum tilfellum er greinilega litið svo á að það sé á einhvern hátt frelsandi, lífgefandi og lífsfyllandi … að það sé þrungið heilagri merkingu og tilgangi að mega mæla. Og að sem slíkt sé það Guðs gjöf.

Þess vegna skulum við aldrei gleyma því að orðin okkar eru ekki bara eitthvað skraut. Þau eru ekki bara eitthvað hljóðrænt veggfóður til að gera umhverfi okkar notalegra og huggulegra. Og þau eru ekki einu sinni bara listaverk, ljóð og sögur, helgisögur – hvort sem þær standa í heilagri ritningu eða standa hjarta okkar nær á einhvern annan hátt og eru okkur þannig heilagar – ljóð og sögur sem miðla okkur dýpri og merkingarbærari sannleika um líf okkar og tilveru heldur en nokkur raunvísindi – með fullri virðingu fyrir þeim – fá nokkru sinni gert.

Þau eru verkfæri.

Um verkfæri

Þau eru verkfæri sem okkur eru gefin. Og með þeim getum við byggt upp og rutt brautir. Byggt upp kærleiksrík og manneskjuleg samfélög og greitt götu nýrra hugmynda, fegurðar og kærleika. Og við getum líknað og læknað og heilað með orðum okkar. En við getum líka, eins og spámaðurinn Jeremía, upprætt og rifið niður, eytt og umturnað. Meitt og skemmt.

Og við þurfum ekkert að lesa athugasemdakerfi fjölmiðla lengi til að sjá dæmi um orð sem ekki eru sett fram í neinum öðrum tilgangi en þeim einum að meiða og skemma. Og við þurfum ekki að fylgjast mjög ítarlega með fréttum til að verða vör við að þeir sem síst skyldi, þeir sem við treystum til að byggja upp samfélag okkar og stýra því á farsælan hátt, noti orð sín til að upphefja sjálfa sig á kostnað annarra, til að miðla … ekki nýjum og uppbyggilegum hugmyndum og leiðum að því að gera samfélag okkar farsælla og manneskjulegra … heldur aðeins eitri og hroða.

Orðum fylgir ábyrgð.

Við erum með máttugt eggvopn í höndunum … eða á tungunni … þegar við beitum orðum. Notum við það til að stinga og skera okkar minnstu bræður og systur, til að höggva mann og annan á leið okkar sjálfra til metorða eða að kjötkötlunum? Eða notum við það til að stinga á kýlum og skera burtu mein samfélagsins?

Við eigum val um það.

Skáldin okkar hafa valið að nota orðin sín til að snerta aðra með fegurð og sannleika. Sem í mínum huga fer alltaf saman. Því jafnvel þótt sannleikurinn geti verið ljótur er lygin alltaf ljótari. Og ekkert inniheldur dýpri og fegurri sannleika en góður skáldskapur.

Um ógnir

Hver eru brýnustu verkefni okkar? Hvar þarf allt gott fólk að taka til hendinni og beita þeim verkfærum sem því eru gefin til að byggja upp og gróðursetja, breyta og bæta?

Margt kemur upp í hugann.

Uppgangur þjóðernishyggju er vandmál og þetta orð, „þjóðernishyggja“, er gott dæmi um mátt orðanna. Það hljómar svo miklu betur að vera „þjóðernissinni“ heldur en að vera „útlendingahatari“ þótt á þessu tvennu sé enginn merkingarmunur, alltjent ekki ef litið er til orða og framgöngu þeirra sem mæla fyrir munn þessarar meintu „þjóðernishyggju“.

Hlýnun jarðar er sennilega langmesta ógnin sem steðjar að mannkyninu um þessar mundir. Allir marktækir vísindamenn hafa árum saman keppst við að vara okkur við því að fari sem horfir muni mannkynið standa frammi fyrir meiri náttúruhamförum og hörmungum en nokkru sinni fyrr í sögu sinni. Hörmungum sem leiða munu af sér flóttamannavanda án hliðstæðu í veraldarsögunni. Og það grátbroslega er að þeir sem vilja að sem minnst sé gert fyrir flóttafólk virðast vera þeir sömu og helst vilja skella skollaeyrum við þessum aðvörunum vísindamanna. Það er eins og þeir ímyndi sér að þegar búsvæði tugmilljóna manna verða orðin óbyggileg þá verði þrjúhundruðþúsund manna eyþjóð yfirhöfuð spurð að því hvort hún vilji hleypa fólki inn í sitt byggilega land.

En hvað er til ráða?

Um lausnir

Ég sá nýverið tilvitnun í virtan raunvísindamann sem benti á að til að bjarga reikistjörnunni okkar, að til að bregðast við þessari ógn, til að forða mannkyninu frá yfirvofandi hörmungum, þurfi engar frekari tækniframfarir. Það þarf ekki að uppgötva neitt sem ekki er búið að uppgötva til að snúa þróuninni við. Við vitum hvernig við getum skorið niður losun gróðurhúsalofttegunda. Við búum yfir tækni til að framleiða vistvæna orku. Við ráðum yfir aðferðum til að hreinsa höfin og bregðast við súrnun sjávar. Vísindin eru búin að vinna vinnuna sína.

Það sem vantar er hugarfarsbylting. Það þarf að breyta hugsunarhætti og gildismati manna til að bjarga þeim. Eða öllu heldur: Til að þeir bjargi sér. Og ekki bara breyta heldur bylta. Og það er ekki á sviði raunvísindanna að gera það.

Þar kemur til kasta þeirra sem snerta fólk andlega.

Það er á ábyrgð okkar sem höndlum með hinn djúpstæða sannleik trúarinnar í hjörtum manna að virkja hann upp í heila og fá þá, sem á annað borð játa trú, til að átta sig á því að það að gera það í raun krefst fórna.

Og það er á ábyrgð skálda og listamanna, þeirra sem miðla hugmyndum og hugsunum beint og milliliðalaust inn í vitund meðbræðra sinna, að beita náðargáfu sinni í þágu sköpunarverksins, náttúrunnar og mannsins. Í þágu sannleikans og fegurðarinnar

Með öðrum orðum, í þágu Guðs.

Raunvísindin eru búin að vinna vinnuna sína.

Við erum á þeim stað núna að það sem mun bjarga okkur, sé okkur yfirhöfuð viðbjargandi … er listin.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt við ljóðamessu í Laugarneskirkju 4. 8. 2019