Feeds:
Færslur
Athugasemdir

Archive for desember, 2016

Guðspjall: En það bar til um þessar mundir að boð kom frá Ágústusi keisara, að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina. Þetta var fyrsta skrásetningin og var gerð þá er Kýreníus var landstjóri á Sýrlandi. Fóru þá allir til að láta skrásetja sig, hver til sinnar borgar. Þá fór og Jósef úr Galíleu frá borginni Nasaret upp til Júdeu, til borgar Davíðs, sem heitir Betlehem, en hann var af ætt og kyni Davíðs, að láta skrásetja sig ásamt Maríu heitkonu sinni sem var þunguð. En meðan þau voru þar kom sá tími er hún skyldi verða léttari. Fæddi hún þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu af því að eigi var rúm fyrir þau í gistihúsi. En í sömu byggð voru hirðar úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar. Og engill Drottins stóð hjá þeim og dýrð Drottins ljómaði kringum þá. Þeir urðu mjög hræddir en engillinn sagði við þá: „Verið óhræddir, því, sjá, ég boða yður mikinn fögnuð sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs. Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og liggjandi í jötu.“ Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita sem lofuðu Guð og sögðu: Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu og velþóknun Guðs yfir mönnum. (Lúk 2.1-14)

baby-jesus-in-mangerNáð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Við þekkjum öll jólaguðspjallið. Fáar sögur hafa verið sagðar jafn oft og sagan af fæðingu Jesú. Í raun er hægt að skilja foreldrana sem spyrja reglulega í sambandi við kirkjuheimsóknir skólabarna: „Þarf virkilega að segja börnunum þessa sögu á hverju ári?“

Þetta er réttmæt spurning. Maður hefði haldið að eftir alla þessa kynningu, alla þessa klifun á atburðum fyrstu jólanna, að þetta væri farið að síast inn.

En ég held að það sé ástæða til að segja þessa sögu á hverju ári.

Hvers vegna?

Ég tel okkur þurfa á kjarna hennar að halda. Þessi frásögn er nefnilega á vissan hátt löngu farin út úr sjálfri sér og horfin inn í einhvers konar menningarlegt samhengi sitt. Við heyrum upphafsorðin: „En það bar til um þessar mundir að boð kom frá Ágústusi keisara, að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina.“ Og hugurinn dregur ekki upp mynd af því sem textinn segir, heldur mynd af jólum; helgileik, jólagjöfum, jólamat, jólasnjó og jólatrjám. Það er sú tenging sem skilyrðing áranna hefur búið til í huga okkar.

En jólaguðspjallið er alls ekki um það.

Jólaguðspjallið er saga um mann sem neyðist til að ferðast landshluta á milli með barnshafandi unnustu sína þegar verst stendur á af því að keisarinn ákvað að akkúrat á þessum tíma ætti að gera manntal til að hann gæti betur skipulagt skattheimtu – alveg án tillits til þess hvort það hentaði þessu fólki eða ekki.

Þetta er saga um fullkomlega valdlaust fólk sem neyðist til að standa og sitja eins og yfirvöldum hentar. Hún er um fólk sem ekki er pláss fyrir meðal manna. Um konu sem neyðist til að fæða barn sitt í gripahúsi. Sagan er um fólk sem er sett á stall með dýrum, sem komið er fram við eins og búfé. Jesús fær ekki að fæðast eins og manneskja, meðal manna, hann fæðist í gripahúsi eins og lamb eða kálfur. Afmennskunin er alger.

Við sjáum sambærilegar myndir af aðbúnaði fólks enn þann dag í dag og það er ekkert rómantískt við þær. Þær fylla okkur sorg og hryllingi yfir því að svona skuli búið að lifandi manneskjum í samtíma okkar.

Tölur á blaði

Jósef fékk enga undanþágu. Hann gat ekki sótt um leyfi til að koma síðar að skrásetja sig – einhvern tímann þegar hann hefði ekki verið að stefna lífi og heilsu heitkonu sinnar og frumburðarins í hættu með háskalegu ferðalagi undir lok meðgöngunnar. Jósef var ekki manneskja fyrir valdinu, hann var bara tala á blaði. Skattgreiðandi sem þurfti að telja.

Ef þetta væri ekki Biblían heldur Ástríksbók hefði Jósef þurft að finna eyðublað átta-þrjátíuogátta á staðnum þar sem menn missa vitið – svo vitnað sé í eina slíka. Ef þetta væri ekki í Biblílunni heldur á Íslandi í dag hefði Jósef fengið svarið: „Tölvan segir nei.“

Valdið er nefnilega enn samt við sig. Það hefur tilhneigingu til að afmennska fólk í tölur á blaði.

Ef þú hefur ekki fyllt út eyðublað átta-þrjátíuogátta eftir landvistarleyfi á staðnum þar sem menn missa vitið skaltu sendur út landi, hvað sem líður andlegri heilsu þinni eða velferð barna þinna. Ef tölfræðin sýnir að fólk hafi það gott þá lýgur tölfræðin ekki, hvað sem líður biðröðum eftir matarúthlutun og þúsundum beiðna um fjárhagsaðstoð fyrir hátíðirnar. Ef Ágústus keisari vill gera manntal verður gert manntal, alveg óháð aðstæðum einhvers smiðsræfils í Nasaret eða lífsvon barna hans.

Þar sem Guð birtist

Og það er þarna, hjá hinum vanmáttugu leiksoppum valdsins … meðal hinna kúguðu og útskúfuðu, hinna lægst settu og varla mennsku í augum yfirvaldsins … meðal fólks sem fæðir börn sín í fjárhúsi eins og hver annar búpeningur … sem Guð birtist, sem Guð gerist maður. Guð er vafinn reifum og ekki lagður í vöggu heldur í jötu sem ætluð er undir skepnufóður.

Það er þannig sem Guð kýs að birtast í mannlegu samfélagi. Það er þarna sem hann kemur til okkar, í líki allslauss, umkomulauss barns sem er öðrum háð með alla sína lífsbjörg og samfélagið kemur fram við eins og skepnu.

Og fæðingin er ekki tilkynnt Ágústusi keisara eða Kýreníusi landstjóra. Hún er tilkynnt fjárhirðum sem gættu hjarða sinna.

Við höfum stundum þá mynd í huganum af fjárhirðum að þeir hafi verið einhverjir sællegir og rjóðir smaladrengir en ekkert er fjær sanni. Fjárhirðar voru lægsta stétt samfélagsins. Víða var þeim meinað að koma inn í borgir og vitnisburður þeirra var ekki tekinn gildur fyrir dómstólum.

Og fæðingin er tilkynnt með orðunum: „Verið óhræddir!“

Þeir sem Guð birtist

Annar hópur fólks bjó við svipaða kúgun og undirokun og fjárhirðar. Vitnisburður hans var ekki heldur tekinn gildur fyrir dómstólum. Það voru konur.

Það voru konur, sem komu til að smyrja lík Jesú eftir að hann hafði veirð krossfestur, sem fengu tilkynningu frá engli um að hann væri upp risinn. Og sú tilkynning hefst á orðunum: „Þið skuluð eigi óttast.“ (Matt 28.5)

Það er inn í þessi skilaboð frá Guði til hinna lægst settu og valdlausu sem jarðnest líf Jesú Krists er rammað: „Verið óhræddir, fjárhirðar. Ykkur er frelsari fæddur.“ / „Þið skuluð eigi óttast, konur. Hann er upp risinn.“

Hvílíkt fagnaðarerindi: Óttist eigi. Guð er með ykkur.

En ekki bara fagnaðarerindi til hinna þjáðu og kúguðu heldur líka blaut tuska í andlit valdsins sem smættar manneskjur niður í tölur á blaði og kemur fram við fólk eins og skepnur: „Guð er kominn og ykkur er ekki boðið.“

Keisarinn og landstjórinn, kóngurinn og æðstuprestarnir voru ekki kallaðir að vöggu konungs lífsins og ljóssins heldur hinir sem þeir fyrirlitu og tröðkuðu á.

Og það voru ekki keisarinn og kóngurinn og landstjórinn og æðstuprestarnir sem fengu tilkynningu um upprisu Krists. Þá tilkynningu fengu valdlausar konur sem komu til að veita honum síðustu þjónustu jarðvistar sinnar – ekki morðingjar hans.

Þess vegna

Jólin eru ánægjulegur tími. Við gleðjumst yfir fæðingu frelsara okkar og leitumst við að gleðja hvert annað. Og við gleðjum okkur sjálf með því að gera vel við við okkur í mat og drykk, með því að skreyta híbýli okkar og tendra litfögur ljós í svartasta skammdeginu. Og við umkringjum okkur þeim sem okkur standa næst og umvefjum þau kærleika og gefum þeim gjafir. Jólin eru tími gleði og fögnuðar. Og það er gott og yndislegt.

En við verðum samt að gæta þess að hinn nístandi alvarleiki þeirra skilaboða sem jólin færa okkur drukkni ekki í jólaprjáli og glysi.

Og þess vegna þurfum við að heyra jólaguðspjallið á hverju ári.

Guð gefi okkur öllum gleðileg jól.

Amen.

Prédikun flutt við aftansöng á aðfangadagskvöld 2016 í Laugarneskirkju.

Read Full Post »

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 18. 12. 2016 

Lexía:

Sjá, Guð er hjálp mín,
ég er öruggur og óttast ekki.
Því að Drottinn er vörn mín og lofsöngur,
hann kom mér til hjálpar.
Þér munuð með fögnuði vatni ausa
úr lindum hjálpræðisins.
Á þeim degi munuð þér segja:
Lofið Drottin, ákallið nafn hans.
Gerið máttarverk hans kunn meðal þjóðanna.
Hafið í minnum að háleitt er nafn hans.
Lofsyngið Drottni því að dásemdarverk hefur hann gert,
þau verða þekkt um alla jörð. (Jes 12.2-5)
fist_cross

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Mér þykir vænt um lexíu dagsins í dag. Sérstaklega þetta orðasamband, „lindir hjálpræðisins“. „Þér munuð með fögnuði vatni ausa úr lindum hjálpræðisins,“ segir spámaðurinn Jesaja. Þetta talar til mín.

Persónulegt samband

Einu sinni var ég í atvinnuviðtali og var spurður: „Hvað merkir skírnarfonturinn fyrir þér?“ Ekki: „Útskýrðu fyrir okkur táknfræði skírnarinnar og merkingu skírnarsakramentisins.“ Heldur „Hvað merkir skírnarfonturinn – fyrir þér?“ Algerlega óundirbúið. Það fyrsta sem kom upp í huga minn var „lind hjálpræðisins“. Og mér finnst það fallegt. Að því að ganga Jesú Kristi á hönd fylgi léttir eins og sár þorsti sé slökktur og að hið tæra, vígða vatn skírnarlaugarinnar tákni þá svölun.

Reyndar fékk ég ekki embættið, en ég held að það hafi ekki verið út af þessu svari.

Ég er alls ekki einn um að vera í sérstöku vinfengi við þennan texta og ég skal viðurkenna að ég kynntist honum ekki í guðfræðinámi mínu heldur uppi í Vatnaskógi þar sem ég starfaði sem biblíufræðari eitt haustið. Í Vatnaskógi hefur þessi texti verið klappaður í stein. Í bókstaflegri merkingu. Þetta var einn eftirlætisritningarstaða séra Friðriks Friðrikssonar og í Vatnaskógi er uppspretta í rjóðri skammt frá kapellunni þar sem er brjóstmynd af séra Friðrik og þessi ritningarstaður er grafinn í stein þar við lindina: „Þér munuðu með fögnuði vatni ausa úr lindum hjálpræðisins.“ Það var gott eftir að erli dagsins var lokið að rölta út í þennan lund, setjast við lindina í bjartri sumarnóttinni og eiga hljóða stund með almættinu. Ég á í ákveðnu persónulegu ástarsambandi við þennan texta. Mér finnst þetta dýrðlegur vonarboðskapur.

Voveiflegur atburður

Í síðustu viku varð sá sorglegi atburður að hælisleitandi, sem gripið hafði til þess örþrifaráðs að hella yfir sig bensíni og kveikja í sér lést af sárum sínum. Hann var á þrítugsaldri og frá Makedóníu. Það er alvarlegt mál að saka einhvern um að hafa mannslíf á samviskunni og það vil ég forðast. Sá sem tekur líf sitt ber einn ábyrgð á þeim verknaði. En aðstæður þessa ógæfusama ungmennis voru á ábyrgð íslensks samfélags. Þeim sem til þekkja ber saman um að hann hafi sýnt af sér einkenni alvarlegs þunglyndis, örvæntingar og vonleysis um alllanga hríð þannig að í raun hafi verið fyrirsjáanlegt að þetta gæti ekki endað öðruvísi en voðalega ef ekki væri gripið í taumana. Enda fór það þannig. Ekki var gripið í taumana, jafnvel þótt vinir hans hafi farið þess á leit við yfirvöld að það yrði gert. Á endanum varð örvænting hans algjör og hann stytti sér aldur með þessum hroðalega hætti í kjölfar þess að honum var synjað um landvistarleyfi.

Ég ætla ekki að fullyrða hér að hann hefði átt að fá landvistarleyfi. Ég veit ekkert um það. En ég ætla að fullyrða að hann hefði átt að fá þá aðstoð sem hann þurfti til að ráða fram úr sálarangist sinni. Við berum ábyrgð á því að svo var ekki.

Einni viku eftir að þetta átti sér stað er það embættisskylda mín að tala við ykkur hér um lindir hjálpræðisins. Ef ég stæði ekki hér og talaði heldur sæti á kirkjubekknum og hlustaði myndi ég vilja fá að vita hvar þessar lindir hjálpræðisins voru fyrir þennan unga mann. Hverjir jusu með fögnuði úr þeim fyrir hann? Hvernig get ég staðið hér og sagt „þið munuð með fögnuði vatni ausa úr lindum hjálpræðisins“ í samfélagi þar sem aðgangssstýringin að þessum lindum er með þeim hætti að sumir fuðra upp af hreinni örvæntingu án þess að nokkur ausi svo miklu sem einum dropa úr þessum lindum þeim til hjálpræðis?

Ég get það ekki.

Og mér sárnar það.

Hvellandi bjalla

Mér sárnar að þessi fallegi texti sem stendur hjarta mínu svo nærri láti í eyrum eins og hljómandi málmur eða hvellandi bjalla þegar hann er settur í samhengi við líðandi stund.

Lexía dagsins í dag er hvorki hljómandi málmur né hvellandi bjalla. Hún er full af kærleika.

Ég hef séð sáran þorsta slökktan í lindum hjálpræðisins.

Ég sjálfur tel mig hafa fundið svölun í þeim.

En manni getur sárnað.

Mér sárnar að heyra stjórnmálamenn tala um að Íslendingar hafi aldrei haft það betra á sama tíma og á þriðja þúsund manns þurfa aðstoð yfir jólin og 860 fjölskyldur hafa sótt um mataraðstoð hjá Fjölskylduhjálp Íslands. Í þessum fjölskyldum eru mörghundruð börn.

Ef ég væri fjármálaráðherra með bókhald ríkisins fyrir framan mig myndi þetta eflaust horfa svona við mér, ég efa það ekki. En ég er ekki fjármálaráðherra. Ég er sóknarprestur og fyrir framan mig er ekki ríkisbókhald í blússandi plúsi heldur lifandi fólk sem er að biðja um hjálp til að geta haldið jól.

Það hryggir mig að hér á landi skuli fólk búa við þannig aðstæður að því vöknar um augu af þakklæti við að þiggja hamborgarhrygg og gosdrykki að gjöf því það þýðir að þau geta gert sér dagamun í mat og drykk á fæðingarhátíð frelsarans. Mér sárnar að þannig sé búið að öryrkjum í þessu landi, þar sem stjórnmálamenn tilkynna okkur að það sé „fullt af peningum þarna úti“, að það að fá Bónuskort með nokkur þúsund króna innistæðu að gjöf frá kirkjunni – frá ykkur og samskotum ykkar hér í kirkjunni – skuli gera gæfumuninn fyrir hátíðirnar hjá þeim á sama tíma og ekki er hægt að veita meira fjármagni í málaflokkinn af því að skattar eru ofbeldi, en ekki það hvernig búið er að þeim verst settu hér í landi allsnægtanna.

Það að stór hópur Íslendinga skuli vera háður matargjöfum er ofbeldi. Það hvernig við tökum á móti fólki, sem hingað kemur um langan veg í þeim tilgangi einum að skapa sér og fjölskyldum sínum betra líf og verða nýtir borgarar, er ofbeldi. Að standa aðgerðarlaus álengdar og horfa á einstakling fyllast hægt og hægt af svo mikilli örvæntingu að öllum má vera ljóst að það getur ekki endað öðruvísi en með ósköpum, er ofbeldi. Skeytingarleysið og sinnuleysið er hreint og klárt ofbeldi.

Sælla er að gefa en þiggja

Svo sanngirni sé gætt þá kemur fólk ekki bara hingað í kirkjuna á aðventunni til að biðja um hjálp. Hingað kemur líka fólk til að bjóða hjálp og biður kirkjuna um að hafa milligöngu um að koma henni þangað sem hennar er þörf. Og það gerum við með fögnuði. Það er með fögnuði sem við hjálpum hinum hjálpar þurfi, við afhendum Bónuskort og hamborgarhryggi með fögnuði. Við tökum við þakklæti þeirra sem þiggja með fögnuði og skilum því þangað sem það á heima með fögnuði.

En svo ég sé fullkomlega hreinskilinn og tali bara hreint út fyrir sjálfan mig: Ég geri það líka með sorg í hjarta.

Í huga mér hljóma nefnilega orð brasílíska erkibiskupsins Helders Camara sem sagði:

„Þegar ég gef hinum fátæku brauð er ég kallaður dýrlingur. Þegar ég spyr af hverju þeir fátæku eigi ekki fyrir brauði er ég kallaður kommúnisti.“

Auðvitað er gefandi að þjóna kirkju sem er í hlutverki dýrlingsins. En ég veit ósköp vel að sjálfur er ég enginn dýrlingur. Það þarf ekkert að minna mig á það.

Þess vegna langar mig miklu frekar að tilheyra kirkju sem er – svo ég haldi mig við skilgreiningar föður Helders Camara – í hlutverki kommúnistans og spyr: „Af hverju er þetta svona?“

Hlutverk kommúnistans

Af hverju er fólk á meðal okkar sem er ekki sinnt betur en svo að það styttir sér aldur með hroðalegum hætti án þess að fá nokkurn tímann þá aðstoð sem er himinhrópandi augljóst að það er í sárri þörf fyrir? Af hverju er það hlutverk kirkjunnar að skipuleggja sætaferðir fyrir öryrkja að þiggja ölmusu? Af hverju þarf fullfrískt fólk sem er í fullri vinnu að leita til kirkjunnar eftir fjárhagsaðstoð af því að það á ekkert afgangs til að geta haldið jól?

Og síðast en kannski ekki síst: Hvernig voga ráðamenn sér að halda því fram að þjóð hafi aldrei haft það betra þar sem þetta er daglegur raunveruleiki þúsunda og fráleitt sé rétta hag þeirra með hærri sköttum á tekjur sem eru hærri tvær og hálf milljón á mánuði eða leggja frekari gjöld á fyrirtæki sem ár hvert skila eigendum sínum milljarða arðgreiðslum?

Við erum kirkjan, við öll – allir sem henni tilheyra. Hvernig væri að við spyrðum þessara spurninga? Hvernig væri að við hættum að klappa okkur sjálfum á bakið fyrir það hvað við erum góð hver jól að setja plástur á þetta opna samfélagssár og brettum í staðinn upp ermar og saumuðum það saman – lokuðum því?

Þá værum við í raun og sann að ausa vatni úr lindum hjálpræðsins. Og það myndi ég að minnsta kosti gera með sönnum fögnuði og enga sorg í hjarta.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Read Full Post »

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 4. 12. 2016


Himinn og jörð munu líða undir lok en orð mín munu aldrei undir lok líða.
En þann dag eða stund veit enginn, hvorki englar á himni né sonurinn, enginn nema faðirinn. Gætið yðar, vakið! Þér vitið ekki nær tíminn er kominn. Svo er þetta sem maður fari úr landi, skilji við hús sitt og feli þjónum sínum umráðin, hverjum sitt verk. Dyraverðinum býður hann að vaka. Vakið því, þér vitið ekki nær húsbóndinn kemur, að kveldi, á miðnætti, í óttu eða dögun. Látið hann ekki finna yður sofandi þegar hann kemur allt í einu. Það sem ég segi yður, það segi ég öllum: Vakið!“ (Mrk 13.31-37)

egg-a-hausNáð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Af umræðunni á samfélagsmiðlum að dæma nú í þessari viku, að minnsta kosti af stöðuuppfærslum þeirra sem ég hef valið að að vera umkringdur af á þeim vettvangi, mætti ætla að þjóðin lifði nánast einvörðungu á hænsnaeggjum og að öllum þessum gríðarlegu viðskiptum verði í framtíðinni svo sannarlega beint annað en þeim hefur verið beint til þessa í ljósi nýrra afhjúpana um blekkingar og dýraníð hjá íslensku hænsnabúi.

Auðvitað er gott eitt um það að segja.

Þetta er mikið til sama fólkið og sór þess dýran eið á þessum sama vettvangi ekki alls fyrir löngu að versla aldrei framar við Ölgerðina eftir að í ljós kom að þar hafði iðnaðarsalt verið selt til matvælaframleiðslu í rúman áratug án þess að það væri gert heyrinkunnugt. Auðvitað hvarflar ekki að mér að þetta fólk kynni nú samt að drekka malt og appelsín um jólin þrátt fyrir eldheitar yfirlýsingar um annað.

Þetta sama fólk er auðvitað löngu hætt að kaupa nokkurn skapaðan hlut sem Mjólkursamsalan framleiðir í mótmælaskyni við ólögmæt bolabrögð fyrirtækisins við að hrekja smærri samkeppnisaðila af markaði þar sem það hefur frá upphafi vega haft ráðandi stöðu. Eftir yfirlýsingarnar í kjölfar þeirra afhjúpana grunar mig ekki einu sinni að þessir vinir mínir kynnu nú samt að freistast til að kaupa rjóma í möndlugrautinn sinn frá MS ef sama vara frá samkeppnisaðila er ekki í boði heldur neiti sér frekar um möndlugraut á jólunum.

Eða hvað?

Svik og prettir

Það er ekki ætlun mín að gera lítið úr þeim brotum sem eggjabúið Brúnegg hefur orðið uppvíst að. Þaðan af síður langar mig að láta eins og þær óafsakanlegu brotalamir, bæði á dýravernd og neytendavernd á Íslandi sem sú hryllingssaga öll sýnir, skipti engu máli. Og síst af öllu vil ég hæða viðleitni fólks til að vera meðvitaðir neytendur og sjálfur geri ég mitt besta til þess.

En mig langar að beina sjónum okkar að bræðinni sem umfjöllun Kastljóssins kallaði fram og hvaða brotalamir í okkur sjálfum hún afhjúpar.

Af hverju urðum við svona reið? Nú er ekki eins og við höfum upp til hópa staðið í þeirri trú að hvergi væri farið illa með hænur á Íslandi eða að íslenskir bisnesmenn væru upp til hópa flekklausir kórdrengir þegar kemur að viðskiptasiðferði.

Nei, við vorum svikin. Við settum traust okkar á eitthvað sem ekki var treystandi. Og þeir sem áttu að vera á vaktinni … að vaka yfir velferð okkar … brugðust skyldum sínum – sváfu á verðinum. Hvort það var vegna mannlegra mistaka, hreinræktaðrar spillingar eða ónýtra reglugerða um starfshætti þeirra er aukaatriði – í þessu samhengi.

Kjarni málsins er að um árabil voru okkur seld egg, sem framleidd voru með einbeittum og ítrekuðum brotum á dýraverndarlögum, á uppsprengdu verði vegna einhvers sem við héldum að væri opinber vottun um vistvæna framleiðsluhætti en var í raun aðeins merkingarlaust lógó sem rafgeymasýruframleiðendum hefði þess vegna verið heimilt að setja á sína vöru hefðu þeir haft hugmyndaflug til þess.

Það er sárt að vera svikinn svona. Enda láta viðbrögðin ekki á sér standa.

Sem betur fer virðist sem þessi ákveðni framleiðandi muni ekki komast upp með að treysta á gullfiskaminni Íslendinga, einfaldlega vegna þess að ólíklegt er við sjáum Brúnegg í mörgum verslunum í náinni framtíð. Siðleysið var slíkt að flestir smásalar hafa lýst því yfir að þeir hafi ekki geð í sér til að bjóða upp á þau í bráð.

En Mjólkursamsalan dælir enn út sinni framleiðslu og Egils malt og appelsín er enn blandan mín og blandan þín, hvað sem líður þrettán ára samfelldri sölu á iðnaðarsalti til matvælaframleiðslu.

Sofnuðum við kannski sjálf á verðinum?

Að halda vöku sinni

Skilaboð Jesú til okkar í dag eru þessi: „Vakið! Gætið yðar, vakið! Það segi ég öllum: Vakið!“

Það verður að segjast eins og er að þessi skilaboð eiga brýnt erindi til okkar í dag.

Það er erfitt að halda vöku sinni. Við erum verur vanans. Smám saman fer nýjabrumið af öllu. Það er auðvelt að svíða óréttlæti og fólska en svo verðum við ónæm fyrir því og hrökkvum í sama farið, gerum hlutina eins og við erum vön, hreiðrum um okkur í þægindarammanum okkar.

„Vakið!“ segir Jesús Kristur.

Við erum nefnilega ekki í mikilli hættu þegar við erum allsgáð og vakandi og með hugann við það sem við erum að gera. Það er þegar við erum hálfsofandi og með hugann annars staðar, að gera hlutina af gömlum vana – nánast á sjálfstýringu – sem slysin verða. Við vitum nefnilega aldrei fyrirfram hvenær við þurfum á árvekni okkar að halda. Ögurstundina sér enginn fyrir. Eða eins og Jesús orðar það í guðspjalli dagsins: „Þér vitið ekki nær tíminn er kominn.“

Vökum.

Að verða leiður á þessu

Um daginn átti ég spjall við mann sem deilir þeirri lífsreynslu með mér að hafa misst stjórn á lífi sínu og þurft að endurskoða viðhorf sín og gildismat til að öðlast frelsi frá áþján áfengisfíknar. Hann var með nokkurra mánaða reynslu af bataferlinu og leitaði því til mín sem manns með ellefu og hálfs árs reynslu af því í von um að ég gæti miðlað honum einhverju hjálplegu. Honum gekk allt í haginn, hann var heill og sannur í allri sinni viðleitni til að ná bata, var iðinn og duglegur og gerði allt rétt.

„Hvert er þá vandamálið?“ spurði ég.

„Ég kvíði því svo hvað gerist þegar ég verð leiður á þessu,“ var svarið.

Ég er þessum unga manni svo innilega þakklátur, því þótt svarið kæmi mér í svip á óvart þá rifjaði það skyndilega upp fyrir mér kvíða sem ég sjálfur var gagntekinn af fyrir ellefu og hálfu ári þegar mér gekk í fyrsta skipti í langan tíma allt í haginn: „Hvað gerist þegar ég verð leiður á þessu?“

Ef það er eitthvað sem alkóhólistinn þekkir þá er það nefnilega að halda ekki dampi. Nógu oft hefur hann svarið og sárt við lagt að snúa við blaðinu, að hafa stjórn á lífi sínu, að bæta sig … til þess eins að sjá allt fara í sama farið aftur – reyndar yfirleitt í aðeins verra far – eftir nokkra daga, vikur eða í besta falli mánuði. Alkóhólistinn er svo heima í vanlíðaninni og aumkvunarverðu niðurlægingunum sem fylgja neyslunni að þægindaramminn hans nær utan um það. Að allt gangi honum í hag, að vera edrú og með hlutina á hreinu, að vera að vinna ötult uppbyggingarstarf á lífi sínu og andlegri heilsu … er framandi fyrir honum og fyllir hann óöryggi og kvíða. Hann kann það ekki, hann þekkir ekki þessa líðan, hún er utan við þægindarammann hans. Eiginlega líður honum ekki vel nema honum líði illa því það er hans eðlilega ástand.

Að halda ekki dampi

Ég held að það að halda ekki dampi sé ekki sérstakur alkóhólískur eiginleiki heldur sammannlegur veikleiki. Munurinn er kannski fyrst og fremst í því fólginn hvað þægindarammi alkóhólistans er orðinn sjúkur. Þannig verða það ekki upp til hópa alkóhólistar sem kaupa sér árskort á líkamsræktarstöð í byrjun janúar næstkomandi og hætta að nota þau um mánaðamótin janúar febrúar. Það er allt heilbrigða fólkið sem gerir það.

En  hvernig fer maður að því að halda dampi? Hvernig fer maður að því að verða ekki „leiður á þessu“? Að halda vöku sinni.

Ég get aðeins svarað því fyrir sjálfan mig að mín leið var í gegnum trúna. Að játa Jesú Krist sem leiðtoga lífs míns og taka þá ákvörðun að leitast við að láta líf mitt og vilja lúta handleiðslu Guðs eins og ég er fær um að skilja hann. Takið eftir því að ég segi ekki „að láta“ heldur „að leitast við að láta“. Í mínu tilviki nægði einlæg viðleitni, sem oft var bágborin, ásamt því að leitast við að viðurkenna það sem út af bar undanbragðalaust.

Kannski dugar einhver önnur trú, til dæmis trúin á málstaðinn, á markmiðið eða á árangurinn.

Súrsaðir hrútspungar eða brún egg?

Í Ofvitanum segir Þórbergur Þórðarson eitthvað á þá leið að hugsanir séu „súrsaðir hrútspungar sálarinnar“. Af líkingunni má ráða að Þórbergi hafi þótt súrsaðir hrútspungar mikill herramannsmatur því hugsanir hans voru háleitar og snerust um menningu, skáldskap og listir, eilífðarmálin og æðstu rök tilverunnar.

Þessi prédikun er ekki um súrsaða hrútspunga sálarinnar. Og hún er ekki heldur um Brúnegg. En kannski er hún um eitthvað sem við getum kallað „brúnegg sálarinnar“.

Hvenær eru hugsanir okkar og gjörðir því marki brenndar að það sem stendur á umbúðunum er ekki í nokkru samræmi við innihaldið? Hvenær gerist það að við leggjum af stað full fagurra fyrirheita um góðan aðbúnað og vistvæna hætti en missum einbeitinguna á leiðinni – eða trúna – og látum sinnuleysið og letina; þægindin – ef ekki beinlínis gróðafíkninina – blása öllum fögru fyrirætlununum út úr hausnum á okkur með þeim afleiðingum að ekkert er eftir nema merkingarlaust lógó, klisjur án innihalds og slagorð sem ekkert er á bakvið? Hvenær erum við sjálf að reiða fram brúnegg sálarinnar?

„Vakið!“ segir Jesús Kristur við okkur í dag. Og við skulum hlýða því kalli.

Annars er hætt við að innihaldslýsing okkar sjálfra verði ekkert annað en svikið loforð.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er enn og verður um aldir alda. Amen.

Read Full Post »