Feeds:
Færslur
Athugasemdir

Archive for apríl, 2013

Ég er alinn upp í vinstripólitík og hef alltaf litið á mig sem vinstrimann.

Einn frasinn sem við, ungir vinstri menn (sem því miður erum núna orðnir miðaldra vinstrimenn), höfðum gaman af að beita var „Skrímsladeild Sjálfstæðisflokksins”. Þetta orðasamband var notað um það þegar okkur var farið að þykja það ganga úr hófi fram hve fáránlegar og langsóttar samsæriskenningar hægrimanna um stefnu og skoðanir okkar voru orðnar. Þegar því voru engin takmörk sett hve stór úlfaldi var gerður úr mýflugu, hve gersamlega úr samhengi orð og athugasemdir voru rifnar og á hve ófyrirleitinn hátt var snúið út úr stefnu okkar og hún rangtúlkuð til að teikna upp sem ljótasta mynd af kommagrýlunni – þá var „Skrímsladeild Sjálfstæðisflokksins” komin á kreik.

Ég lít enn á mig sem vinstrimann, þótt ég telji mig ekki lengur eiga samleið með flokknum sem ég hef oftast kosið til þessa. Vinstri-hægri átakalínan í stjórnmálum er nefnilega, að mínu mati, að verulegu leyti orðin úrelt. Horfumst í augu við staðreyndir. Það er enginn stjórnmálaflokkur í alvöru að berjast fyrir hamslausri villta-vesturs frjálshyggju án nokkurra reglugerða eða aðhalds. Það er ekki heldur neinn stjórnmálaflokkur lengur að berjast fyrir miskunnarlausu Sovét-Íslandi samyrkjubúa og ríkisreksturs í einu og öllu. Í hinu víða samhengi hins pólitíska litrófs er í raun sáralítill munur á íslenskum vinstri- og hægriflokkum hvað þetta varðar, þar er áherslumunur en ekki eðlismunur. Í raun snýst ágreiningur þeirra núorðið aðeins um það hvar á miðakrein hins gullna meðalvegar blandaðs hagkerfis sé heppilegast að halda sig.

Aftur á móti er önnur átakalína komin fram, lína sem að mínu mati er mikilvægari, meðal annars vegna þess að fáir virðast gera sér grein fyrir tilvist hennar og mikilvægi. Einkum þó vegna þess að þar virðist það, sem að mínu mati er hreinræktuð öfgastefna, vera álitin normið. Þetta er línan á milli forræðishyggju og einstaklingsfrelsins, á milli eftirlitssamfélags og borgararalegra réttinda. Og þar hef ég tekið mér stöðu eins fjarri mínum gamla flokki og komist verður.

Bara svo það sé á hreinu: Það var ekki félagshyggjan sem hrakti mig frá VG, það var forræðishyggjan.

Í kjölfar þessarar ákvörðunar minnar, nú þegar ég stend opinberlega utan hefðbundinnar vinstrihreyfingar og hef gengið til liðs við annars konar stjórnmálasamtök, meira að segja þegið sæti neðarlega á einum framboðslista hennar, hef ég aftur á móti rekið mig á það að vinstrihreyfingin á svo sannarlega sína eigin “Skrímsladeild” sem er síst siðavandari eða sanngjarnari en sú sem íhaldið hefur á sínum snærum. Ég hef tjáð mig um þetta á samfélagsmiðlinum Facebook og fengið þau viðbrögð frá mínum gömlu skoðanasystkinum á vinstri vængnum að ég sé “að væla undan eðlilegri gagnrýni”.

Þess vegna langaði mig að bara að segja að gagnrýni er af hinu góða. En …

Mig langar að nefna þrjú dæmi.

a) Að grafa upp sjö ára gamla grein eftir einn forystumanna Pírata, líta fram hjá því að í henni segir: „Konur eiga rétt á að velja sér þau störf sem þau vilja og fá fyrir vinnuna sömu laun og karlmenn”, highlighta síðan allt það í greininni sem ekki samræmist pólitískri rétthugsun, jafnvel þótt þar sé að eins verið að vísa í niðurstöður vísindarannsókna, og kynna highlightuðu bútana, rifna úr samhengi, sem „jafnréttisstefnu Pírata” (eins og ein fésbókarvinkona mín gerði) en ekki persónulegar skoðanir eins manns settar fram sjö árum áður en samtökin voru stofnuð … það er ekki heilbrigð gagnrýni – það er hreinræktuð skrímslavæðing. Það eru vinnubrögð sem „Skrímsladeild Sjálfstæðisflokksins” hefði verið fullsæmd af ef fórnarlambið hefði verið vinstrimaður.

Ef auglýst er eftir jafnréttisstefnu Pírata þá lýsir hún sér kannski best í því að þar er um að ræða hreyfingu sem í opnu frambjóðendavali stillti upp sex óaðfinnanlegum „fléttulistum” án þess að setja þyrfti neinar reglur þaraðlútandi. Það er afrek sem flokkum með yfirlýstan feminisma á stefnuskrá sinni hefur ekki tekist til þessa.

b) Að segjast verða „illt í hjartanu” vegna skoðana Pírata á rekstrarfyrirkomulagi Landhelgisgæslunnar, tengja hana við stríðsæsingar (hjá flokki sem er beinlínis stofnaður til að standa vörð um mannréttindi) og fullyrða að vegna hennar muni Birgitta Jónsdóttir – af öllum mönnum – snúast gegn sannfæringu sinni og berjast gegn málum sem hún barðist fyrir á síðasta þingi af gagnrýnislausri fylgispekt við einhverja meinta flokkslínu Pírata, eins og Stefán Pálsson gerði á fésbókarsíðu sinni, er ekki heilbrigð gagnrýni – það er hreinræktuð skrímslavæðing.

c) Að fullyrða vegna þess að einn frambjóðandi Pírata viðurkenndi heiðarlega að hann hefði ekki kynnt sér hugmyndir um virkjun Bjarnarflags nógu vel til að tjá sig um þær fyrir hönd flokksins hafi Píratar enga stefnu varðandi neitt nema internetið, eins og önnur fésbókarvinkona mín gerði, það er fráleitt eðlileg gagnrýni. Stefna Pírata í atvinnumálum liggur alveg fyrir. Píratar eru ekki stóriðju- og virkjanaflokkur. Píratar hafa skýra stefnu í umhverfismálum, heilbrigðismálum, menntamálum og þar fram eftir götunum.

Meðan Píratar mældust með innan við 5% í skoðanakönnunum voru þeir látnir í friði. Þeir þóttu krúttlegir sérvitringar. En nú steðjar eignarrétti flokkakerfisins á þingsætum ógn af þeim.

Það er augljóslega alveg rétt sem Aðalheiður Ámundadóttir, stundakennari í mannréttindum, stjórnskipunarrétti, félagarétti og fleiru við lagadeild Háskólans á Akureyri og oddviti Pírata í Norðausturkjördæmi sagði á umræðuþræði á fésbókinni: „Það er ekkert krúttlegt lengur við 7.8% fylgi. Við erum hætt að vera lítil krútt og viðbúið að árásum fari að rigna yfir.”

Árásum.

Ekki gagnrýni.

Read Full Post »